Veðrasveiflur síðustu áratuga (2)

Við lítum á hitafar síðustu 16 ára á mynd. Eins og síðast er um 12-mánaða keðjumeðaltöl að ræða, en tímabilið sem við lítum á er mun styttra. Tekur aðeins til hlýindaskeiðsins sem hófst, ja, hvenær?

w-blogg271011a

Blái ferillinn sýnir hita í Reykjavík (eins og síðast) en hér má einnig sjá hitafarið á Akureyri á sama tímabili (rauður ferill). Reiknuð leitni er sett inn sem punktalínur. Í Reykjavík hefur samkvæmt henni hlýnað um 1,3 stig (eða svo), en um tæpt eitt stig á Akureyri. Rosalegur hitatoppur á árunum 2002 til 2004 einkennir báða ferlana. Í Reykjavík er greinilega hlýrra eftir toppinn heldur en áður og að honum slepptum virðist hlýnun hafa haldið áfram.

Á Akureyri er toppurinn ámóta afbrigðilegur og í Reykjavík, en ekkert hefur þar hlýnað síðan. En við tökum samt eftir því að tímabilið 2005 til 2010 er samt hlýrra heldur en var að meðaltali 1995 til 2000. Samanburður tímabilana sýnir þó ólíka hegðan þeirra. Fyrir aldamót eru tvær djúpar dýfur, en eftir 2004 er ferillinn frekar flatur. Af þessari mynd er ómögulegt að sjá hvort köldu dýfurnar 1997 og 1999 eru kaldar í langtímasamhengi. Óhætt mun að upplýsa að það eru þær ekki, kalda árið 1979 er talsvert niður úr ramma myndarinnar á Akureyri.

Af þessum myndum er mjög erfitt að dagsetja upphaf þess hlýskeiðs sem við nú upplifum. (Ártölin eru sett við það 12-mánaða tímabil sem nær nákvæmlega yfir árið). Er eðlilegt að telja það hefjast við rætur toppsins? En við skulum reyna að grafast fyrir í hvers konar umhverfi þessi toppur er. Það sýnir næsta mynd. Hún er aðeins erfiðari en hin fyrri.

w-blogg271011b

Blái ferillinn er nákvæmlega sá sami og áður - 12-mánaða keðjumeðaltal hita í Reykjavík. Rauði ferillinn er styrkur sunnanáttarinnar á svæðinu við Ísland í metrum á sekúndu. Styrktölur sunnanáttarinnar eru mjög lágar - en þessi litla spönn frá -1 og upp í 6 gerir allan mun. Rétt er að ítreka að hér er um vigurmeðalstyrk að ræða. Þar er norðanátt negatív (mínustölur). Ef vindurinn er af norðri í dag og nákvæmlega af sama styrk af suðri í gær er vigurmeðaltalið núll. Vigurmeðaltal segir þannig lítið sem ekkert um vindstyrkinn.

Meginatriðið hér er að hitatoppnum 2002 til 2004 fylgir mikil sunnanáttargusa og sú hefur verið hlý. Að öðru leyti má sjá samhengi milli hita og sunnanáttar - en ekkert hrópandi gott. Sunnanáttin hefur þó verið ívið sterkari eftir 2004 heldur en hún var að jafnaði fyrir 2002.

En í lok ferlanna gerist nokkuð skrítið. Sunnanáttin dettur alveg niður og við síðustu áramót var staðan þannig að norðanátt hafði verið ríkjandi að meðaltali árið 2010. Samt helst hitinn mjög hár. Það hafði ekki gerst frá því 1952 að sunnanáttin dytti alveg niður í núll. Hugsanlega þurfum við að leita allt aftur til 1878 til að finna dæmi um ríkjandi norðanátt í háloftunum yfir almanaksár. En við leitum að því síðar.

Til þess að skýra málin betur þurfum við að kynnast hluta af einföldu huglíkani. Fastir lesendur hungurdiska ættu að vera farnir að kannast við háloftabylgjurnar sem stöðugt ganga yfir okkur. Bylgjutoppum fylgir hlýtt loft en kalt bylgjudölum. Flestar lægðir tengjast tiltölulega stuttum bylgjum sem eru innlegg i þeim stærri. Þær stærstu eru kallaðar fastar bylgjur - en eru það ekki alveg. Form þeirra, lengd og staða breytist lítillega frá ári til árs. Föstu bylgjurnar komu við sögu á hungurdiskum í pistli þann 27. janúar  síðastliðinn (það man sjálfsagt enginn). Þar voru Baffinslægðardragið og Golfstraumshryggurinn kynnt til sögunnar - þessi fyrirbrigði ráða sjálfsagt mestu um veðurfar á Íslandi (ásamt Grænlandi) þótt þeirra sé hvergi getið.

Næsta mynd sýnir einfaldað huglíkan af háloftabylgju.

w-blogg271011c

Svarta línan gæti verið jafnhæðarlína í 500 hPa-fletinum eða þá meginás heimskautarastarinnar í sömu hæð. Þar er vindur mestur. Norður er upp á myndinni og austur er til hægri. Vindur er því mestur á svörtu línunni en úr honum dregur til beggja átta. Vonandi að lesendur sjái það fyrir sér. Jafnþykktarlínur eru merktar með rauðum strikum (eins og á fjölmörgum kortum sem birst hafa hér á hungurdiskum). Í því samhengi sem við nú erum að kanna skiptir mestu máli að hlýindin eru ekki mest þar sem sunnanáttin er mest heldur austan við meginröstina, brúna örin markar hámarkshita hvers breiddarstigs.

Við getum nú ímyndað okkur Ísland sett hvar sem er á myndinni. Í hlýindatoppnum mikla 2002 til 2004 var það í sterkri sunnanátt rétt þar ofan við þar sem orðið „hlýjast“ stendur. Í hlýindunum (og norðanáttinni) 2010 var það rétt þar hjá sem brúna örin endar og jafnhæðarlínur (og röstin) fara að sveigja til suðurs. Þar er nefnilega líka hlýtt.

Það skiptir öllu máli hvar Ísland lendir í síbreytilegu bylgjumynstri vestanvindabeltisins. Hámarkshlýindi nást með því að lenda sem innst í háloftabylgju en jafnframt sem næst þeim stað þar sem aðfærsla lofts að sunnan er hvað mest. Undir kjarna rastarinnar er nefnilega kaldara heldur en austan við - kalt loft úr vestri fleygast þar undir röstina. Kalt getur því verið í mikilli sunnanátt - en þá erum við vestan rastarkjarnans eða undir honum. Við sjáum vonandi dæmi um það í síðari pistli.

Við látum þess getið í framhjáhlaupi að Ísland var ekki á bestu hugsanlegu stöðum í bylgjunni hlýju árin tvö 2003 og 2010 - við eigum fyrir nærri 0,5 stigum í viðbót - án þess að hægt verði að segja með vissu að varanlegum veðurfarsbreytingum sé um að kenna. En það flækir málið að sé 60 ára reynsla af háloftaathugunum tekin til viðmiðunar eru síðustu átta ár (frá og með 2003) öll um 0,5 til 1 stigi hlýrri heldur en þau „ættu“ að vera miðað við bylgjumynstrið. Það er stórmerkilegt, er það „varanleg“ hlýnun? En þetta eru nú ekki mjög nákvæm vísindi.

Hvar skyldi okkur bera niður næst? Við verðum sennilega að líta betur á bylgjuna áður en við förum í önnur tímabil.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er víst best að steinhalda kjafti bara!

Sigurður Þór Guðjónsson, 27.10.2011 kl. 01:37

2 identicon

Takk fyrir fróðleikinn!

Ari (IP-tala skráð) 27.10.2011 kl. 02:28

3 identicon

Ekki er ég viss um að Gunnar Th. taki þig sér til fyrirmyndar, Sigurður!

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 27.10.2011 kl. 05:11

4 identicon

Þessir ferlar afsanna fyrir fullt og allt áhrif gróðurhúsa á veðurfar. Takk fyrir góðan pistil.

Vindbelgur (IP-tala skráð) 27.10.2011 kl. 08:30

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.10.2011 kl. 09:58

6 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Vindbelgur - þú ert nokkuð fyndinn með gróðurhúsin ;)

Annars fróðlegur pistill um veðurfar og hitastig á Íslandi - takk fyrir fróðleikinn Trausti.

Sveinn Atli Gunnarsson, 27.10.2011 kl. 13:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 111
  • Sl. viku: 1496
  • Frá upphafi: 2348741

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 1302
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband