Heldur kólnandi

Lægðardragið sem hefur verið yfir landinu undanfarna daga þokast nú austur af. Norðanáttin sem ætti að vera rétt vestan við það er þó ekki alveg tilbúin að taka við af alvöru. Fyrst þarf hún að bíða eftir því að háloftalægð úr vestri fari yfir landið.

w-blogg031013a

Kortið (evrópureiknimiðstöðin) gildir kl. 18 á fimmtudag (3. október) Jafnþrýstilínur eru heildregnar. Úrkoma er sýnd með grænum lit og einnig má sjá vindörvar og strikalínur segja frá hita í 850 hPa fletinum. Rauð ör sýnir hlýja sunnanáttina fyrir austan þrýstiflatneskjuna yfir Íslandi. Það er einna helst við Suðausturland að má finna lægðarmiðju - þær eru trúlega fleiri.

En úti af Vestfjörðum liggur norðaustanstrengur, nægilega kaldur til þess að líkanið telur úrkomuna vera snjó (krossar í litaflötum). Í strengnum er vindur á bilinu 15 til 20 m/s. Aðalveðurkerfi svæðisins sést þó ekki á þessu korti. Þetta er myndarleg háloftalægð og ræður öllu kortinu hér að neðan. En það gildir á sama tíma og kortið að ofan.

w-blogg031013b

Hér eru jafnhæðarlínur 500 hPa flatarins heildregnar en hiti sýndur með lit. Stækka má þetta kort sem hið fyrra og það verður mun skýrara. Háloftalægðarinnar gætir lítt sem ekki við jörð vegna þess að kalda loftið fyllir nokkurn veginn nákvæmlega upp í hana. Lægðin blæs sunnanvindi á móti norðaustanáttinni neðan við og tefur framrás kuldans. Það breytist um leið og lægðin fer yfir landið.

Þá gerist líka það að nýju lífi slær í lægðaraumingjann við Suðausturströndina, sú lægð fer þá til norðurs og á að dýpka töluvert fyrir norðaustan land. Stormur af norðri og norðvestri verður þá úti fyrir Norður- og Norðausturlandi - en vonandi nær hann ekki svo mjög inn á landi.

Áhöld eru um það hvort snjóa muni á láglendi í norðanáttinni, það fer m.a. eftir úrkomumagninu. Við látum Veðurstofuna og aðra til þess bæra aðila fylgjast með því - lesendum til einhvers bjargræðis. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í gær lagði ég nokkrar spurningar fyrir Trausta í framhaldi af upplýsingum um misræmi í mæliniðurstöðum sjálfvirkra og mannaðra stöðva Veðurstofunnar:

1. Hvaða tegundir mælitækja er stuðst við í sjálfvirku stöðvunum?

2. Hver er uppgefin nákvæmnir tækjanna?

3. Hvar eru sjálfvirkar stöðvar staðsettar?

4. Hvers vegna er ekki lengur hægt að styðjast við mannaðar stöðvar?

5. Hvaða mark er hægt að taka á hitamælingum Veðurstofu Íslands?

Trausti kýs að láta spurningunum ósvarað - reyndar ekki í fyrsta skiptið sem það er heldur kólnandi á þeim vígstöðvum.

Ég vil þó árétta þessar spurningar, svo og þá tilgátu mína að spámönnum Veðurstofunnar hugnist betur að hafa alræði með sjálfvirku stöðvunum en að þurfa að deila mæliniðurstöðum með þeim sem sjá um mönnuðu stöðvarnar.

Þessu til staðfestingar leyfi ég mér að vitna í athyglisvert blogg fyrrverandi starfsmanns Veðurstofunnar:

"Veðrið í Vestmannaeyjum í september 2013:

Þar sem mér var sagt upp án nokkurs haldbarar ástæðna 1. maí 2013, þá er Vestmannaeyjaryfirlitið mitt búið að vera í skötulíki síðan. Enn ætla reyna koma með einhvað bitastætt hér næstu daga. Enn þónokkuð vinna liggur í því að finna hæstu og lægstu veðurgildi þegar mönnuð stöðvarveðurbók er ekki við hendina lengur. Og svo er Veðurstofan mest megnis hætt að reikna eða birta útreikninga á vef sínum." (http://dj-storhofdi.blog.is/blog/dj-storhofdi/entry/1317731/)

Hér hnýt ég um tvennt:

1. "Enn þónokkuð vinna liggur í því að finna hæstu og lægstu veðurgildi þegar mönnuð stöðvarveðurbók er ekki við hendina lengur."

2. "Og svo er Veðurstofan mest megnis hætt að reikna eða birta útreikninga á vef sínum."

Er það ekki nokkuð ljóst að þegar mönnuðu stöðvarveðurbækurnar eru ekki lengur til staðar er það einfalt mál fyrir "sérfræðinga" Veðurstofunnar að fixa mæliraðirnar?

Ég hef ítrekað gengið á Trausta með kröfu um að Veðurstofan birti opinberlega útreiknaðan ársmeðalhita, svo og gögnin að baki slíkum útreikningi. Einu svörin sem ég hef fengið (fyrir utan þögn og útúrsnúninga) er að það bjóði þeirri "hættu" heim að Íslendingar fari að efast um útreikningana!

Það er ljóst að viðbrögð "sérfræðinga" Veðurstofunnar er að skipta út útreikningum á veðurgildum og leggjast þess í stað í þýðingu og útbreiðslu á Evangelíum IPCC.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 3.10.2013 kl. 13:25

2 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Hilmar, þú ert nú ansi duglegur að oftúlka/útúrsnúa alla hluti þér til hag sjálfur. Hvernig á fólk eiginlega að nenna svara þér?

Enn þar sem þú vitnar í Moggabloggið mitt (með útúrsnúningi) þá ætla ég segja þér að Veðurstofan reiknar enn og birtir meðaltalshita veðurstöðvana þriggja í Vestmannaeyjum, Stórhöfða, Surtsey og Vestmannaeyjabæ. Hinsvegar hætti Veðurstofan  1. maí 2013 að birta ýmisleg veðurgildi fyrir Stórhöfða, t.d. loftþrýsting og vindhraða. 

Og því skil ég ekki hversvegna þú ert að vitna í mig.

Pálmi Freyr Óskarsson, 3.10.2013 kl. 16:30

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Hilmar. Fyrri spurningaröðinni hef ég þegar svarað. Athugaðu að athugasemdir eru leyfðar í hálfan mánuð. Svör (ef spurningar eru svaraverðar) geta því dregist þann tíma. Síðari spurningunum beinir þú til Pálma og koma þær hungurdiskum ekki við. Veðurstofan telst hins vegar mjög alkirkjuleg (ecumenical) innan mjög fjölbreyttrar hreyfingar kolefniskirkjunnar.

Trausti Jónsson, 4.10.2013 kl. 01:19

4 identicon

Þakkir fyrir svörin Trausti:

"Hilmar. (1) Flestar stöðvarnar eru af Campell-gerð. (2) Næmi hitamælanna er innan við 0,1°C en nákvæmni talin um 0,1 stig. Staðsetning og hylki/skýli veldur meiri skekkju - en það er mjög misjafnt hver hún er. Hún er hins vegar tilviljanakennd en ekki kerfisbundinn á annan veginn. (3) Listi um sjálfvirkar stöðvar er á vef Veðurstofunnar. (4) Ástæður eru aðallega fjárhagslegar, sjá pistil 4. október. (5) Mælingarnar eru áreiðanlegar."

Nokkrar viðbótarspurningar:

1. Hvaða Campell-gerð er um að ræða? Campbell Scientific AWSs eða fleiri gerðir? Hvaða typunúmer koma við sögu?

2. Er ásættanlegt að nákvæmni sé 0,1°C + skekkja v/staðsetningar og hylkis (0,2°C - 0,3°C?)?

3. Er hægt að fullyrða að mælingar séu áreiðanlegar þegar uppgefið flökt er a.m.k. 0,3°C?

4. Hver er kostnaður við kaup og uppsetningu á einni sjálfvirkri stöð?

5. Hver er meðalkostnaður við rekstur einnar sjálfvirkrar stöðvar á ársgrundvelli?

Vænti þess að þessar spurningar teljist "svaraverðar".

ps. Efast ekki um greiningu þína á stöðu Veðurstofu Íslands innan kolefniskirkjunnar. Hef a.m.k. ekki orðið var við snefil af gagnrýni hjá ykkur á pólitísk gervivísindi IPCC.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 4.10.2013 kl. 14:47

5 Smámynd: Trausti Jónsson

Hilmar. Enn verður að taka fram að hungurdiskar eru ekki blogg Veðurstofunnar og engin ástæða er fyrir ritstjórann að svara spurningum sem beina ætti til tækni- og athugunarsviðs stofnunarinnar - enda hefur hann ekki græna glóru um kostnaðinn. Í þann flokk falla spurningar númer 1, 4 og 5. Þær eru svaraverðar en vettvangurinn rangur, beindu þeim til réttra aðila. Svarið við spurningum 2 og 3 eins og þær eru fram bornar er já - svo lengi sem flöktið er tilviljanakennt. En staðsetning skiptir máli - en hér verður ekki farið út í smáatriði hvað það varðar enda ótalmargt sem kemur þar við sögu. Engin sérstök ástæða er hins vegar til að ætla að dulinn, kerfisbundinn bjagi sé til staðar þegar margar stöðvar eru undir.

Trausti Jónsson, 5.10.2013 kl. 02:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 79
  • Sl. viku: 1601
  • Frá upphafi: 2350878

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 1400
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband