Norðvestanátt í háloftunum

Nú er slétt og falleg norðvestanátt í háloftunum en meinlítið kusk við jörð. Við lítum fyrst á spá um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina. Hún gildir kl. 18 á sunnudag (1. apríl). Textinn hér að neðan flokkast ekki undir léttmeti og höfðar til fárra.

w-blogg010412a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar og svartar, dregnar með 6 dekametra bili (1 dam=10 metrar). Jafnþykktarlínur eru rauðar og strikaðar einnig dregnar með 6 dekametra bili. Iða í 500 hPa er sýnd sem grábleikur litur - en kemur ekki við sögu í textanum að neðan.

Við sjáum þéttar jafnhæðarlínur liggja yfir Ísland og hafsvæðin austan við land. Yfir landinu er vindstyrkur um 20 m/s en yfir 40 m/s austur af. Við sjáum af legu jafnhæðarlínanna að vindstefna er úr norðvestri. Þessi mikli vindur nær ekki til jarðar. Vanir kortalesarar sjá hvers vegna - en við skulum ekki velta okkur upp úr því hér.

Þykktar- og hæðarlínurnar í norðvestanáttinni eru ekki alveg samsíða. Inn á kortið hefur verið bætt nokkrum bláum og rauðum örvum til að hlýtt og kalt aðstreymi sjáist betur. Kalda loftið sækir hægt að á mestum hluta svæðisins.

Við skulum líta á þykktargildin. Það er 5340 metra línan sem liggur beint yfir Reykjavík. Þegar hitametið var sett á fimmtudaginn var þykktin uppi í um 5500 metrum, hún hefur fallið um 160 metra. Gróflega jafngildir það um 8 stiga kólnun. Línan sem liggur um Melrakkasléttu sýnir 5220 metra - þar er því um 6 stigum kaldara í neðri hluta veðrahvolfs heldur en yfir Reykjavík.

Vegna truflandi áhrifa Grænlands er oft lítið samband á milli lofts í 5 km hæð og þess sem lægst liggur þegar vindur blæs úr norðvestri. Þá fær mjög þunnt lag af köldu lofti úr norðri oft tækifæri til þess að fleygast undir það hlýrra. Þá vill verða talsvert kaldara í neðstu lögum heldur en þykktin segir til um. Og þannig er það nú.

Við lítum á spá um vind og hita í um 500 metra hæð á sama tíma og kortið að ofan.

w-blogg010412b

Kortið sýnir hefðbundnar vindörvar og auk þess jafnhitalínur. Tveggja stiga jafnhitalínan er rauð, frostmarkslínan græn og bláar strikalínur sýna hita neðan frostmarks, 2 stig eru á milli línanna. Mínus 10 stiga jafnhitalínan er skammt undan Norðausturlandi og virðist heldur þokast nær.

Hér sést aðsókn kalda fleygsins nokkuð vel. Kalda loftið er svo grunnt að það flæðir sitt hvoru megin við landið án þess að komast yfir. Það kemur úr austri meðfram suðausturströndinni, en úr norðvestri eða norðri um landið vestanvert. Spár eru ekki alveg sammála um úrkomumagn eða úrkomutegund samfara syðri fleygnum og skilasinnar varla sammála um hvers konar veðraskil séu hér á ferðinni. Ég bið bara að oss verði vægt við samskilabút.

Ef til vill er þessi staða dæmi um það sem amerískir skilaspekúlantar kalla bakdyrakuldaskil (back door cold front). Slík skilakerfi koma þar úr norðaustri inn yfir Nýja-England þegar kalt loft fleygast undir hlýtt svipað og við sáum að ofan. Ritstjóri hungurdiska er andsnúinn þessari hráu þýðingu hér að ofan. Hvað sem við svo köllum þetta á íslensku er það ekkert líkt hefðbundnum kuldaskilum - en á e.t.v. skilið að heita eitthvað því staða sem þessi er ekki svo óalgeng.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 34
  • Sl. sólarhring: 70
  • Sl. viku: 432
  • Frá upphafi: 2343345

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 388
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband