Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012

Spákort sem sýna þykktarbreytingar

Það er  hálf klúðurslegt að nota fjögur orð þar sem komast má af með eitt. Hér er vísað í fyrirsögn pistilsins - hún kemst þó nærri því að vera skiljanleg. Orðið eina er hins vegar þetta: Þykktarhneigðarkort. Hefði einhver skilið þá fyrirsögn? Við lítum á eitt kort af þessu tagi.

w-blogg091212

Reyndar er margt sýnt á kortinu, en það gildir um hádegi á mánudag, 10. desember. Svörtu heildregnu línurnar eru jafnþrýstilínur við sjávarmál og eru algengastar allra lína á veðurkortum. Þykktin er sýnd með daufum rauðleitum strikalínum. Sé kortið stækkað má sjá að 5340 metra jafnþykktarlínan þverar Ísland. Hefðbundnar vindörvar sýna vindstefnu og hraða í 700 hPa-fletinum. Við sjáum að í öllum aðalatriðum fylgja þær jafnþrýstilínunum - þó bregður út af vegna þess að 700 hPa-flöturinn er í um 3 km hæð frá jörðu.

En þykktarbreytingar eru aðalatriði kortsins og eru sýndar með breytilegum litaflötum. Hér er miðað við síðustu 6 klukkustundir. Bláu litirnir sýna þau svæði þar sem þykktin hefur minnkað mest - þar hefur loftið kólnað umtalsvert, en þau gulu og brúnu sýna vaxandi þykkt - þar hefur hlýnað.

Mest áberandi er gusa af köldu lofti sem streymir til austurs út á Atlantshaf frá Kanada. Sé kortið stækkað má sjá töluna 23,1 í miðju bláa svæðinu. Þetta er ansi há tala - þykktin hefur fallið um 231 metra á 6 klst - jafngildir nærri 12 stiga kólnun að meðaltali í neðri hluta veðrahvolfs. Á næstu dögum mun sjórinn hita þetta loft þar til jafnvægi næst milli sjávar- og lofthita. Það tekur nokkra daga - sérstaklega vegna þess að gusan fer smám saman yfir hlýrri og hlýrri sjó.

Talsvert hefur hlýnað yfir Grænlandi síðustu 6 klukkustundir spárinnar en hér við land er þykktarhneigðin minni en 30 metrar (ekki litarhæfar á litamáli kortsins). Sé farið í saumana á afstöðu vindörva og jafnþykktarlína má þó sjá að vindurinn er að bera meiri þykkt inn yfir landið úr suðvestri, en hún hefur ekki aukist nægilega til þess að fá á sig lit. Tuttugu metrar samsvara um einu stigi.

Það er ekkert úrslitaatriði að miðað sé við 6 klst þykktarhneigð á kortinu - það gæti rétt eins verið sólarhringur eða eitthvað annað.

En á mánudaginn er sum sé spáð heldur hlýnandi veðri. Aðstreymið á þó í mikilli samkeppni við miskunnarlausa útgeislun í björtu veðri. Staðan á að haldast svipuð næstu daga en lægðasvæðið á þó að styrkjast eftir því sem á líður.


Langar, fastar bylgjur

Leggjumst nú andartak í fræðsluham. Þeir sem ekkert vilja vita um efni fyrirsagnarinnar geta eins hætt strax og snúið sér að áhugaverðara efni. Þrautseigustu lesendur hungurdiska munu kannast við eitthvað af efninu úr eldri pistlum.

Fyrir nokkrum dögum var lítillega fjallað um stuttar bylgjur í vestanvindakerfinu - en hér er litið á þær lengstu. Þótt bylgjurnar ólmist stöðugt frá degi til dags og breyti sífellt um lengd og lögun kemur samt í ljós að þrjár til fjórar liggja nær stöðugt í bakgrunni og sjást alltaf á meðaltalskortum sem ná til lengri tíma. Við lítum á eitt slíkt meðaltalskort og sýnir það hæð 500 hPa-flatarins í janúar á tímabilinu 1981 til 2010. Það er fengið úr smiðju bandarísku veðurstofunnar.

w-blogg081212a

Kortið sýnir norðurhvel jarðar suður að 35. breiddarstigi. Landaskipan sést að baki litanna, norðurskaut á miðri mynd. Mjúkar, heildregnar, svartar línur sýna meðalhæð flatarins og eru merktar í metrum. Það er 5220 metra línan sem sker Ísland norðvestanvert.

Litirnir eru viljandi aðeins tveir þannig að sem best sjáist hvernig 5400 metra línan hringar sig um hvelið. Greinilega sést að mismikið fer fyrir gula svæðinu utan við hana og að bláa svæðið teygir sig mislangt til suðurs. Ísland er í suðvestanátt  - en þó ekki eins sterkri og finna má sunnar þar sem jafnhæðarlínurnar eru þéttari.

Við sjáum að 5400 metra jafnhæðarlínan nær sinni nyrstu stöðu rétt við Skotland og er þar áberandi norðar heldur en yfir austurströnd Norður-Ameríku þar sem hún teygir sig alveg suður á Nýja-England. Á Kyrrahafi við og austan við Japan fer hún enn sunnar. Þar sem línan er í syðri stöðu heldur en vestan og austan við eru lægðardrög. Þau eru þrjú á myndinni. Það sem skiptir okkur mestu máli er Baffinsdragið, kuldasvæði sem teygir sig til suðurs úr mikilli lægðarmiðju rétt vestan Norður-Grænlands.

Næsta lægðardrag fyrir austan er kennt við Austur-Evrópu og er mun veikara en Baffinsdragið. Síðan eru eitt mjög stórt lægðardrag yfir Kyrrahafi. Hæðarhryggir eru þrír. Austan við okkur er Golfstraumshryggurinn þar sem hlýja loftið nær sinni nyrstu stöðu. Klettafjallahryggurinn yfir Norður-Ameríku vestanverðri skiptir okkur líka miklu máli. Veikur hryggur er yfir Mið-Asíu og kenndur við það svæði.

Það er fyrst og fremst landaskipan sem ræður því hvernig bylgjurnar raðast upp. Klettafjöll og hálendi Mið-Asíu ráða mestu - en síðan eru það meginlönd og höf. Klettafjöllin styrkja háloftavestanáttina austan við verulega - það þýðir að loft sem kólnar yfir Norður-Kanada á oftast greiða leið langt til suðurs og þar er enginn fjallgarður fyrir. Kalt loft er fyrirferðarlítið og styrkir því lægðardragið, sem er þannig talsvert öflugra að vetrarlagi heldur en fjöllin ein stjórna.

En á móti norðanátt verður sunnanátt að vera annars staðar. Lægðardragið nær svo langt til suðurs að það nær á austurhlið sinni í mjög hlýtt loft sem berst til norðurs og býr að lokum til Golfstraumshrygginn. Reyndar er það svo að sunnanáttin austan lægðardragsins ber mun meiri varma til norðurs að vetrarlagi heldur en hafstraumarnir. Ástand lægðardragsins skiptir höfuðmáli fyrir veðurfar á Íslandi. Fjarlægist það um of eða veikist verða norðanáttir yfirgnæfandi hér á landi - nálgist það um of verður landið undirlagt vestankulda á vetrum með snjó og illviðrum.

Það er algjörlega opið hvort og hvernig hlýnandi veðurfar af völdum aukinna gróðurhúsaáhrifa breytir þessari stöðu. Verður kortið alveg eins? Hlýni aðeins um 1 stig og jafnt um allt hvelið birtist kort sem er nærri því nákvæmlega eins - það þarf þjálfað auga til að sjá muninn. Línan sem á kortinu liggur um Breiðafjörð myndi færast norður í Grænlandssund - upplausn kortsins myndi vart sýna þann mun.

Hlýnun um þrjú stig flytur allar jafnhæðarlínur um eitt línubil til norðurs. Við ættum að sjá það. En það versnar (eða batnar) í því ef dregur úr vestanáttinni þvert á Klettafjöllin. Þá veikist lægðardragið - og sennilega meir en sem nemur beinum áhrifum fjallgarðsins vegna minnkandi norðanáttar austan fjalla. Ekki er létt að sjá hvaða áhrif þetta hefði á Golfstraumshrygginn.

Við lítum á aðra mynd sem líka sýnir bylgjuskipanina - en á allt annan hátt.

w-blogg081212b

Hér er lega 5400 metra jafnhæðarlínunnar einnig sýnd - en teiknuð á móti lengd og breidd. Lárétti ásinn sýnir lengdarstig, núll er sett við hádegisbaug Greenwich og síðan til beggja handa á venjulegan hátt. Lóðrétti kvarðinn sýnir breiddarstig - frá 33 gráðum og norður á 60°N. Myndunum ber ekki alveg saman - línuritið er gróflegar teiknað heldur en kortið og tekur ekki til nákvæmlega sama tímabils. En bylgjurnar koma vel fram.

Veðurfarsbreytingar koma fram sem tveir þættir: Annars vegar hliðrast línan öll til norðurs (í hlýnandi loftslagi) eða til suðurs (í kólnandi), hins vegar breytast bylgjulengd og spönn einstakra bylgja.

Á suðurhveli jarðar eru fastar bylgjur mun ógreinilegri heldur en á norðurhveli. Breytingar á samsvarandi mynd þar eru því líklegar til að koma frekar fram í hliðrun heldur en í mynsturbreytingu. Þó er þar ekki allt sem sýnist.

Auðvitað má fjalla um bylgjurnar föstu og stöðu þeirra í miklu lengra máli en við látum málið niður falla að sinni.


Eftir helgina?

Eftir að stutt háloftabylgja (lægð föstudags og laugardags) hefur gengið yfir tekur mikill hæðarhryggur völdin. Honum fylgja mikil háloftahlýindi sem við fáum e.t.v. að njóta góðs af. Meta er þó vart að vænta - fyrir utan dægurmetahrinu á nýlegum veðurstöðvum. Lítum á 500 hPa-kort sem gildir um hádegi á sunnudag (9. desember).

w-blogg071212

Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar, lituð svæði sýna hita í 500 hPa-fletinum (kvarðinn til hægri skýrist mjög við stækkun). Vindur er sýndur með hefðbundnum vindörvum. Meðalhiti í 500 hPa-fletinum yfir Keflavíkurflugvelli fyrsta þriðjung desembermánaðar er um -29°C. Á myndinni eru mörkin á milli grænleita svæðisins og þeirra bláu sett við -28°C. Evrópureiknimiðstöðin spáir því að hiti fari upp í um -22°C á þriðjudag - miðvikudag, sjö stig ofan við meðallag. Hæsti hiti sem mælst hefur yfir Keflavíkurflugvelli í desember er -15 stig, talsvert hærri heldur en nú er spáð.

Nú er spurningin hvort hæðarhryggurinn og hlýja aðstreymið verða nægilega öflug til að fyrirstöðuhæð myndist í námunda við landið. Slíkt ætti að tryggja hæglætisveður í nokkra daga hér á landi.

Fyrirstaða við Ísland er ekki vinsamleg meginlandi Evrópu - þar liggur þá venjulega pollur af köldu eða mjög köldu lofti þar sem skiptast á kuldaköst norðan úr höfum og önnur jafnvel verri ættuð frá Síberíu. Kalt er þá í illa upphituðum húsum, færð slæm á vegum í slyddu, snjókomu eða frostrigningu - og tafir á flugi í snjókomunni.

Annars getur frostrigning verið til leiðinda hér á landi í hlýjum fyrirstöðum að vetrarlagi, sérstaklega ef skiptast á heiðir og skýjaðir dagar. Yfirborð landsins kólnar óðfluga í heiðríkju og ef vindur er lítill blandast loft illa. Þegar ský dregur að í hægri hafátt getur verið frostlaust í nokkur hundruð metra hæð og súldað niður í grunna landátt með frosti. 

En spenna heldur áfram.  


Mikið um að vera á norðurhveli - eins og vera ber nærri sólstöðum

Enn lítum við á hefðbundið norðurhvelskort - það breytir stórlega um útlit frá degi til dags og sýður á flestum bylgjum. Kortið gildir um hádegi á laugardag 8. desember.

w-blogg061212

Ísland er rétt neðan við miðja mynd, nærri því ofan í einni stuttbylgjumiðjunni (laugardagslægðin). Sú situr óþægilega ofan á stórum hrygg og fellur hratt til suðausturs og suðurs á jaðri hryggjarins og styrkir kuldasvæðið á meginlandinu. Afleit og kröpp lægð er að komast suður á Miðjarðarhaf. Sú fór tíðindalítið hjá hér í dag (miðvikudag) - en er orðin illvíg þar suður frá. Þykkt er spáð niður undir 5200 metra á Ítalíu á sunnudaginn - það er efni í mikla snjókomu í inn- og uppsveitum.

Hér hvessir eitthvað í svip meðan laugardagslægðin skýst hjá en léttir fljótt til aftur þegar hæðarhryggur fylgir á eftir. Gríðarlegar sveiflur eru síðan í spám sem ná lengra fram í tímann og virðist lægðin sem á kortinu er langt suðvestur í hafi sé erfið viðureignar.

Heimskautakuldinn (fjólublár litur) sem var mestur yfir Síberíu fyrir nokkrum dögum hefur á kortinu fært sig yfir á vesturhvel og svæðið kringum norðurskautið. Hann heldur áfram að sullast um. Þótt hann sé ekkert á suðurleið að sinni hefur hann samt mikil áhrif á bylgjumynstrið með umbrotum sínum.


Stuttar bylgjur

Háloftabylgjur eru misstórar, þær eiga sér meira að segja stærðarnúmerakerfi rétt eins og skór eða skyrtur. Stærsta bylgjan er númer núll síðan koma þær í minnkandi röð - lítið er minnst á hærri tölur en 15 eða svo.

Tölurnar ráðast af því hversu margar bylgjur væru í hringnum kringum jörðina gætu þær legið hlið við hlið. Breiddarhringurinn 65°N er um það bil 17 þúsund kílómetrar að lengd. Bylgja sem er 1700 km frá einum bylgjufaldi (hæðarhryggur) til þess næsta hefur því bylgjutöluna 10. Suður við miðbaug er hringurinn hins vegar um 40 þúsund kílómetrar - þar er bylgja af stærðinni 10 fjögur þúsund km frá hrygg til hryggjar.

Í raunveruleikanum er allt í einni súpu - stuttar bylgjur liggja ofan í löngum og taka lítið tillit til því hvar ein endar og önnur byrjar.

Bylgjan sem á að fara framhjá landinu á morgun (miðvikudaginn 5. desember) er til þess að gera hrein og klár - og við skulum líta á hana á 500 hPa-korti sem gildir kl. 18 á miðvikudag.

w-blogg051212a

Hér er táknmálið það sama og venjulega. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en jafnþykktarlínur eru rauðar og strikaðar. Iðan er bleikgrá. Við sjáum lægðarbylgju og er hún um 1700 km að lengd - engu skiptir í þeim bylgjuheimi sem við erum að heimsækja hvort bylgjan myndar lokaða lægð eða ekki. Bylgjutalan er tíu (eða þar um bil).

Við sjáum hins vegar að bylgjurnar (lægðardrögin) vestan og austan við eru hvort um sig eitthvað lengri en þetta - e.t.v númer sjö. Við sjáum líka að þetta er allt hluti af enn lengri bylgju sem við sjáum aðeins að hluta  - mikinn og breiðan hrygg sem nær yfir Atlantshafið allt og reyndar lengra í báðar áttir. Hann virðist eiga heima á 45 gráðum norður (alls ekki nákvæmt) og spanna um 100 lengdarstig - af 360. Hér er því um bylgjutölu 4 að ræða (enn má ekki taka þá ágiskun alvarlega).

Almenna reglan er sú að stuttar bylgjur hreyfast hratt til austurs en þær stærri mun hægar og þær stærstu jafnvel vestur á bóginn. En víxlverkun af ýmsu tagi villir stundum sýn og í raun og veru er mjög erfitt fyrir augað að sjá hvert stefnir hverju sinni nema svo sem eins og einn dag fram í tímann (ritstjórinn talar af reynslu þess sem bjó við mun verri tölvuspár en þær sem nú tíðkast).

Og á kortinu sést vel að þessi ákveðna bylgja af stærð 10 hreyfist hratt til austsuðausturs og síðan suðausturs - utan í stóra hryggnum með bylgjutöluna fjóra. Þeir sem sjá vel - eða stækka kortið mega taka eftir því að lægðin stutta inniheldur tvo jafnþykktarhringi - bæði 5220 metra og 5160 metra. Það þýðir að lægðarmiðjan við jörð er ansi flöt og fóðurlítil sem stendur.

En þessi bylgja fer hratt hjá - og síðan kemur sú næsta en hún er ámóta stutt og verður við landið á laugardaginn - eins og kortið að neðan sýnir.

w-blogg051212b

Tölvuspám hefur gengið illa að ná slóð laugardagsbylgjunnar og sent hana til austurs ýmist fyrir sunnan eða norðan land. Það skiptir auðvitað miklu máli fyrir okkur. Sjónskarpir sjá að þótt fyrirferð lægðanna tveggja sé svipuð hefur sú síðari ekki nema eina hringaða jafnþykktarlínu innanborðs. Það út af fyrir sig þýðir þéttari þrýstilínur niður undir jörð - og þá e.t.v. meiri vind en fylgir fyrri lægðinni. En spár um það eru vafasamar marga daga fram í tímann - og hungurdiskar eru spálausir að vanda.


Alhvítur nóvembermánuður á Akureyri

Þegar upp var staðið var alhvítt á Akureyri allan nóvember. Frá því að byrjað var að athuga snjóhulu á Akureyri hefur það aðeins gerst einu sinni áður að hún hafi verið 100 prósent í þessum almanaksmánuði. Það var 1969. Hér má rifja upp að í fyrra var desember alhvítur á Akureyri - en vitað er um allnokkra alhvíta jólamánuði á Akureyri. En við lítum á nóvembersnjóhuluna á Akureyri á línuriti.

w-blogg041212

Lárétti ásinn markar árin, en sá lóðrétti sýnir fjölda daga. Línuritið sýnir fjölda alhvítra daga í hinum aðskiljanlegu nóvembermánuðum frá 1924 að telja. Þarna má sjá að tvisvar hefur ekki fest snjó í nóvember á Akureyri, það var 1949 og 1987. Fyrra árið voru snjóhuluathuganir á Akureyri í einhverju klandri fram eftir ári en vonandi var allt orðið sæmilega rétt í nóvember. 

Rauða línan sýnir 7-ára keðjumeðaltöl alhvítra nóvemberdaga. Það er athyglisvert hvað tímabilið 1962 til 1986 sker sig úr sem áberandi snjóþyngra heldur en tíminn áður og eftir. Við sjáum líka að nóvember 2010 var býsna drjúgur, með 29 alhvíta daga - nærri því fullt hús.

Annars hefur árið 2012 verið snjólétt á Akureyri - og það svo að ef alhvítt verður alla daga desembermánaðar yrði fjöldi alhvítra daga á árinu samt 20 undir meðallagi. Snjóhula er ekki alveg tilviljanakennd frá degi til dags - snjói mikið vaxa líkur á því mjög að einnig verði alhvítt á morgun og hinn. Þrátt fyrir þetta er varla hægt að sjá fylgni á milli snjóhulu nóvember og desember - varla - en þó þannig að séu alhvítir dagar í nóvember fleiri en 25 er líklegt að alhvítir desemberdagar verði að minnsta kosti 14. - Við bíðum spennt eftir niðurstöðu.


Veik fyrirstaða - en heldur þó

Nú fer enn ein háloftalægðin til austurs fyrir sunnan land - skilakerfi hennar strandaði á veikri fyrirstöðu norður undan. Fyrirstaðan á uppruna sinn í tveimur hæðarhryggjum sem slitnuðu í sundur í vikunni sem leið. Lítum á norðurhvelskort sem gildir um hádegi á mánudag, 3.12.

w-blogg031212

Eins og venjulega eru jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins svartar og heildregnar, en þykktin er sýnd með litakvarða. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Upplausn kortsins batnar mjög við stækkun. Ísland er rétt neðan við miðja mynd en hún sýnir megnið af norðurhveli jarðar norðan hvarfbaugs.

Heimskautaröstin hringar sig um mestallt norðurhvelið með bylgjum sínum (þéttar jafnhæðarlínur). Kuldinn er mestur yfir Síberíu og litlu minni kuldapollur yfir Kanadísku heimskautaeyjunum. Síberíupollurinn á síðar í vikunni að verpa eggi - sérstök lægð skilur sig út úr honum og gengur þvert yfir norðurskautið til liðs við Kanadakuldann og styrkir hann.

Fyrir sunnan Ísland er veik háloftalægð - hún fer til austurs fyrir sunnan land og eyðist, styrkir reyndar kuldann við Noreg í leiðinni og dregur hann til suðurs. Slóði af hlýju lofti er ennþá yfir Íslandi (grænt aflangt svæði). Þetta hlýja loft lyftist trúlega og hverfur þar með úr sögunni en ívið kaldara loft streymir að úr báðum áttum.

Lægðin djúpt suðaustur af Nýfundnalandi er býsna öflug, það sjáum við af því að tunga af hlýju lofti stingur sér inn í háloftalægðina. Sameiginlega hafa þessi lægð og fyrirstaðan fyrir norðan Ísland stíflað greiðan gang lægðakerfa úr vestri.

Þetta ástand mun eiga að halda áfram - kuldapollurinn vestan Grænlands nær ekki taki - en sendir stuttar bylgjur austur fyrir sunnan Ísland - bæði á miðvikudag og föstudag - en hvorug nær að hnika við fyrirstöðunni. Mörkin milli stuttra og langra bylgja eru ekki endilega skýr en ef miðvikudagsbylgjan hegðar sér eins og nú er spáð má sýna hvað átt er við með stuttri bylgju á heimskautaröstinni.

Ef og þegar Síberíukuldapollurinn lánar Kanadapollinum meira fóður gætu breytingar farið að eiga sér stað. 


Munur á hæsta hámarkshita og lægsta lágmarkshita dagsins - taka tvö

Enn ein nördafærslan. Fyrir nokkrum dögum fjölluðu hungurdiskar um mun á (spönn) hæsta hámarkshita og lægsta lágmarkshita allra veðurstöðva á landinu. Seint á kvöldin geta menn séð á vef Veðurstofunnar hver hann var þann sama dag. Að vísu þarf að bera saman tvær tölur og reikna muninn.

Þegar tala er fengin er hún auðvitað merkingarlítil fyrr en hún er sett í samhengi við spönnina aðra daga - er hún óvenjuleg - eða bara eitthvað sem oftast er? Þá er þörf á að stika eða norma væntingarnar (?). Gerum það fyrir desembermánuð með því að líta á mynd. Hún sýnir talningu á spönninni - miðað er við allar hefðbundnar sjálfvirkar veðurathugunarstöðvar landsins (hálendi jafnt sem láglendi) og tímabilið 1998 til 2011.

w-blogg021212

Lárétti ásinn sýnir spönnina í gráðum, en sá lóðrétti sýnir fjölda daga. Línuritið þá. hversu margir dagar 14 desembermánaða hafa fallið á hvert hitabil. Við tökum strax eftir því að meðalspönnin er 20 stig, sú mesta 33 stig en sú minnsta 11 stig. Tveggja fimmtungamarka er einnig getið.

Fimmtungamörk - hvað er það? Þau eru reiknuð þannig að safninu er skipt í fimm hluta eftir stærð spannar. Sá fimmtungur sem inniheldur lægstu 20% af safninu er eðlilega kallaður lægsti fimmtungur þess. Efsti fimmtungurinn inniheldur hæstu 20% safnsins. Fimmti hver dagur í desember er því undir 16,7 stigum í landsspönn hita og fimmti hver yfir 24 stigum.

Nú vitum við hvað er venjulegt og hvað er óvenjulegt í desember. Það hlýtur að teljast óvenjulegt ef spönnin er ekki nema 11 eða 12 stig og sömuleiðis ef hún er 32 stig eða meira. Nú er það svo að ekki er alveg víst að þessi tölfræði sé skotheld - ýmsar ástæður má nefna - en við látum það eiga sig - heilsunnar vegna.

En samt vakna nokkrar spurningar. Hvers vegna fer talan ekki niður fyrir 11? Í hvers konar veðurlagi væri það hugsanlegt? Hvað gerist við aukin gróðurhúsaáhrif?


Suðaustanstormur - en lægðin víðs fjarri

Landsuður er annað nafn á suðaustri. Þegar hvasst er af suðaustri með rigningu (eða slyddu) á Vesturlandi er talað um landsynningsveður. Hægt er að flokka þessi illviðri í nokkrar undirtegundir. Én við lítum á veðurkort dagsins, það gildir á miðnætti á laugardagskvöldi 1. desember.

w-blogg011212

Þetta er svokallað grunnkort (þarf að taka það fram?). Á því eru jafnþrýstilínur við sjávarmál heildregnar á 4 hPa-bili. Úrkomusvæði eru græn - misgræn eftir úrkomumagni síðustu 6 klukkustundir. Á kortinu eru einnig jafnhitalínur í 850 hPa-fletinum - en veðurfræðingar notast gjarnan við mínus 5 stiga línuna sem greini á milli rigningar og snjókomu. Sjá má að einmitt sú lína liggur í einhverju kruðeríi við Vesturland á þessu korti - enda veðurfræðingar nokkuð óvissir um hvar og hvenær snjókomunni eða slyddunni fremst í úrkomusvæðinu lýkur og rigningin byrjar.

Lægðin sem stýrir þessu er að grynnast skammt suður af Hvarfi á Grænlandi, 973 hPa eru við lægðarmiðju. Hún var miklu dýpri í dag (föstudag) og fór niður undir 950 hPa. Skil lægðarinnar halda þó áfram - en hægja á sér. Áður en tölvuspár urðu jafngóðar og nú er var venja að reikna framrásarhraða skilanna með því að áætla vindhraða hornrétt aftan á þau. Þegar lægðir grynnast fækkar þeim þrýstilínum bak við skilin ört og hornrétti vindhraðinn minnkar.

Á þessu korti er smáafbrigði. Annað úrkomusvæði er um það bil miðja vegu milli Íslands og Hvarfs. Það hefur meiri vind í bakið (fleiri hornréttar þrýstilínur) og dregur því fyrra úrkomusvæðið uppi. Þetta tefur framrás þess fyrra og framlengir landsynninginn. Þegar hvorki voru gervihnattamyndir eða tölvuspár var nánast ómögulegt að sjá tvö úrkomusvæði í stöðu sem þessari. Biðin eftir því að landsynningurinn gengi niður gat því orðið ansi trekkjandi í heljarstormi og rigningu.

Vilji menn setja niður skilatákn á kortið er úr vöndu að ráða (auðvitað). - Of seint virðist að senda hreinsideild Björgvinjarskólans á vettvang.

Eiginlega var ætlunin að fjalla hér um tvær tegundir landsynningsveðra (af fleirum). Við nefnum þær en látum skýringar koma síðar - það verða víst næg tækifæri til þess því seint verður lát á veðrum af þessu tagi.

Í annarri tegundinni hagar þannig til að vindátt í neðsta hluta veðrahvolfs en önnur heldur en í því miðju og þar ofan við. Vindáttarsnúningurinn er þá sólarsinnis eftir því sem ofar dregur og það þýðir að aðstreymi af hlýju lofti er í fullum gangi. Algengast er í þessari stöðu að hámarksvindhraði í lóðréttu sniði sé mestur niðri í jaðarlaginu, 500 til 1500 metra yfir sjávarmáli en nokkru minni - eða jafnvel mun minni ofar. Hámarkið er þá óformlega kallað lágröst. Orðið hljómar ekki vel en verður að notast þar til eitthvað skárra birtist.

Hin tegundin er þannig að vindátt er samsíða í mestöllu veðrahvolfinu (aðeins trufluð af fjöllum og núningi) - landsynningur uppi og niðri. Oftast er vindhraði þá mestur ofarlega - en annað hámark niðri í fjallahæð þar sem landslag þvingar vindinn. Fyrra úrkomusvæðið í þessari lægð er klárlega af fyrri gerðinni - en meira vafamál með það síðara.


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 111
  • Sl. viku: 1496
  • Frá upphafi: 2348741

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 1302
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband