Bloggfærslur mánaðarins, september 2011
30.9.2011 | 00:36
Hlýtt loft strýkur landið
Nú strýkst mjög hlýtt loft við landið.
Við þykktarmenn höfum ætíð gaman af því að sjá hlýindin. Varla er þess þó að vænta að þau nýtist í eitt eða neitt. Mikill hraði er á þessum hlýja geira og hann er líka þröngur, sjálfsagt undirstunginn af kaldara lofti á báða vegu. En tölurnar eru góðar, þarna er spáð 5580 til 5590 metrum um hádegi á föstudag - það hefur varla orðið mikið hærra í sumar. Og hitinn í 850 hPa (lituðu fletirnir) er heldur ekkert slor, 8 til 10 stig austast á landinu.
Enda voru hitatölurnar harla góðar nú á miðnætti, 12 stundum áður en kortið gildir hafði hámarkshiti klukkustundarinnar farið í 13,5 stig á Hvanneyri - undir 5520 metra þykkt og fór í 17,4 stig fyrr í kvöld á stöð Vegagerðarinnar við Sandfell í Öræfum. Þar blés vindur væntanlega úr upphæðum. Við skulum vona að við fáum að sjá hærri tölur um það leyti sem kortið gildir - en það er þó alls ekki víst. Þykktinni fylgja engar tryggingar.
Af stafrófsstormaslóðum er það að frétta að Ófelía hefur risið upp aftur - eftir að fellibyljamiðstöðin hafði gefið út dánarvottorð fyrir nokkrum dögum. Stormurinn (jafnvel fellibylur) fer svipaða slóð og fyrri fellibyljir þessa árs - og á víst að komast til Bretlands í næstu viku. Stormurinn Philippe er að vestlast upp skammt frá riðafeninu sem hefur reynst stormunum svo erfitt í haust. Leið hans er þó eitthvað norðar en fyrri storma. Fellibyljamiðstöðin afskrifar hann ekki alveg.
29.9.2011 | 20:59
Blaut klukkustund
Hér kemur loksins hratið af pistlinum sem átti að birtast í gærkvöldi (miðvikudagskvöld 28. sept). Hungurdiskar hafa sem sagt náð tölvusambandi að nýju (hvað sem það svo endist).
Mikil rigningarhryðja gekk yfir höfuðborgina að kvöldi miðvikudagsins 28. september. Úrkoman var langstríðust milli kl. 19 og 20 en þá mældist hún 6,2 mm í Veðurstofureit. Þann 10. maí í vor birtist á hungurdiskum pistill um úrkomuákefð. Þar var áhrifum úrkomuákefðar lýst og var þetta sagt um 4 til 10 mm á klukkustund:
4 mm/klst: Hellirigning, regn slettist af gangstígum þannig að þeir sem ekki eru í stígvélum blotna, frakkaklæddir leita skjóls, stórir pollar myndast. Rúðuþurrkur á fullu, ökumenn hægja á sér (vonandi).
Þeir sem voru útivið í rigningunni í gær ættu að kannast við þetta.
En er óvenjulegt að ákefð sé svo mikil í Reykjavík? Ekki er það met - svo mikið er víst - en verður samt að teljast óvenjulegt. Þetta slagar upp í met septembermánaðar sjálfvirku stöðvarinnar í Reykjavík en það er 7,3 mm. Mælingar hófust 1997. Októbermetið er 8,0 mm.
Þegar mikil úrkomusvæði koma upp að landinu er algengast að Bláfjöll eða Hengill taki mestan hluta þess vatns sem er í framboði áður en það kemur til Reykjavíkur. Að þessu sinni hagaði þannig til að úrkomusvæðið gat stolist yfir fjöllin því undir því var vindur hægur. Þá var ákefðin í Bláfjöllum og í Hellisskarði svipuð og í Reykjavík. Septembermet Bláfjalla er hins vegar 23,1 mm - miklu meira heldur en í Reykjavík. Óvíst er hvernig frárennsliskerfi borgarinnar gengi að innbyrða það.
28.9.2011 | 22:20
Ótryggt tölvusamband plagar hungurdiska
28.9.2011 | 01:15
Af hnúkaþey
Sumir skrifa hnjúkaþeyr - alveg jafn rétt. Við lá að pistill dagsins yrði löng útlistun á fjölda afbrigða fyrirbærisins- en hér er flest í hófi. Fjalla má nánar um málið síðar. Hvað eru hungurdiskar oft búnir að lofa framhaldi sem ekki kemur?
En um hnúkaþey. Það er hlýr vindur sem stendur af fjöllum. Lítum á einfalda mynd. Hún er reyndar svo einföld að hún á það varla skilið að kallast skýringarmynd. Frekar er um minnisriss að ræða.
Myndin á að sýna þversnið af fjalli eða öllu heldur fjallgarði. Rauðu örvarnar sýna vindstefnu. Í efra tilvikinu fer loftið fyrst upp fjallið til vinstri og síðan niður það hinu megin. Í neðra tilvikinu kemur loftið að fjallinu frá vinstri og fer síðan niður það hægra megin.
Sé einhver munur að ráði á hita sitt hvoru megin við fjall eða fjallgarð grípa menn ósjálfrátt til hugtaksins og segja hnúkaþey valda hitamuninum. Þetta er strangt tekið nokkuð subbulegt, því hér er í raun um fleiri en eitt fyrirbrigði að ræða.
Hinn sígildi hnúkaþeyr sem kynntur er í flestum kennslubókum er í raun og veru sjaldgæfur í hreinni mynd (efri hluti myndarinnar). Hann hefst með því að rakamettað loft er þvingað upp fjallshlíð, yfir fjallið og niður hinu megin. Rakamettaða loftið kólnar votinnrænt upp fjallið (hér á landi nokkurn veginn 0,6°/100m) og rakinn fellur út sem regn.
Ef fjallið er 1000 m hátt og loftið var upphaflega 10°C er það því 4°C uppi á fjallsbrún. Þegar það berst niður aftur hitnar það þurrinnrænt (um 1°C/100m). Hitinn við rætur fjallsins hlémegin er þá 14°C. Hitamunur áveðurs og hlémegin við fjallið er því 4°C. Ef fjallið er 1500 m verður munur í sama dæmi 6°C. Takið eftir því að gert var ráð fyrir því að loft væri rakamettað að sjávarmáli áveðurs við fjallið. Það er frekar sjaldgæft, þannig að oftast getur sá litli hitamunur sem þessi sígildi kennslubókahnjúkaþeyr orsakar ekki einu sinni orðið þetta mikill.
Miklu algengara er að kalda loftið áveðurs við fjallið sé ekki sama loft og það sem streymir niður fjallshlíðina hinu megin. Áveðursloftið stígur þá ekki upp heldur stíflar fjallið framrás þess, við köllum þetta framrásarstíflu. Hitahvörf mynda eins konar lok yfir kalda loftinu og úrkoma þar er þá oft lítil sem engin, e.t.v. aðeins dálítil súld. Í þessari stöðu getur jafnvel verið mikill hitamunur á láglendinu sitt hvoru megin fjallsins þó vindur sé enginn á báðum stöðum. Samt heyrist orðið hnjúkaþeyr notað í tilvikum sem þessum, en sú notkun er tæknilega röng. Þessi staða er mjög algeng hérlendis.
Sé niðurstreymi á hlýju hliðinni (vindur af fjallinu) sem veldur því að loftið getur hitnað þurrinnrænt er hins vegar um raunverulegan hnjúkaþey að ræða þó ekki sé hann að kennslubókarhætti. Neðri hluti myndarinnar á að sýna þetta. Í þessu stífludæmi fer kalda loftið aldrei yfir fjallskambinn, en hlýja loftið sem streymir niður úr 1000 m hæð hlýnar jafn mikið og í fyrsta dæminu (10°C). Þá getur hitamunur milli láglendis áveðurs og hlémegin verið mun meiri en í sígilda hnjúkaþeynum.
Nú má flækja málið frekar - en lesendum látið það eftir. Til hugarhægðar má nefna að það tók mig talsverðan tíma á unglingsárum að átta mig á hnúkaþey að kennslubókarhætti og síðan aftur enn meiri tíma að átta mig á því að kennslubækurnar segðu ekki nema lítinn hluta sannleikans. Enn meiri tími fór síðan í afganginn (sem ekki er nefndur hér).
Hvað sem öðru líður: Við megum alls ekki gerast svo kröfuhörð að hugtakið detti úr notkun vegna þess að því fylgi svo mikill fræðilegur línudans að enginn þori að nota það af ótta við að verða sér til skammar. Nei, smáatriðin eru aðeins fyrir nördin. Hinir geta haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist.
Ég held þrátt fyrir allt að rétt sé að skrifa orðið með j-i.
27.9.2011 | 01:05
Lægðakerfi í endurskipulagningu
Kortið sem var sýnt hér á hungurdiskum í gær sýnir ástandið í 500 hPa fletinum á norðurhveli. Það er spá sem gildir á morgun (þriðjudaginn 27) kl. 12. Þar má m.a. sjá gríðarlegt lægðardrag yfir Norður-Atlantshafi. Við lítum nú aftur á þetta sama lægðardrag og á spá sem gildir aðeins sex klukkustundum síðar, þriðjudaginn 27. kl. 18. Á korti dagsins sjáum við lítið annað en lægðardragið enda er minna svæði undir.
Svörtu heildregnu línurnar á kortinu sýna hæð 500 hPa flatarins í dekametrum , en rauðu strikalínurnar tákna þykktina, hún er einnig mæld í dekametrum (dam = 10 metrar). Því meiri sem þykktin er - því hlýrra er loftið. Því þéttari sem svörtu hæðarlínurnar eru því hvassara er í 500 hPa-fletinum en hann er, eins og kortið sýnir í 5 til 6 kílómetra hæð.
Smjöttum nú aðeins á kortinu. Heldur flöt lægð er á því miðju en kringum hana liggur þó vindstrengur og afmarkar hann lægðardragið í stórum dráttum. Ég hef merkt inn á kortið fjögur lægðardrög með gulbrúnum línum. Dragið sem er við Nýfundnaland hefur kalt loft í bakið en erfiðara er að sjá hvaða tak hin drögin hafa á jafnþykktarlínunum. Austan við kerfið er þó mjög ákveðið aðstreymi af hlýju lofti (rauð stór ör). Þar er 5460 metra þykktarlínan ákveðinni í framrás.
Þetta hlýja loft lendir yfir Vestur-Evrópu og veldur miklum hlýindum, jafnvel yfir 25 stigum þar sem best lætur. Mjög greinilega sést á myndinni að jafnþykktarlínurnar á þessum slóðum hafa ekki tekið á sig lögun jafnhæðarlínanna í kringum hæðina, enda er hún að byggjast upp og á (í 500 hPa) að ná upp undir 5900 metra síðar í vikunni - það er óvenjulegt.
Lægðardrögin þrjú, austan lægðarinnar eru í óþægilegri stöðu, vindur blæs að nokkru samsíða þeim og það er ekki hollustumerki. Skilafúsir teiknarar geta ef þeir vilja dregið margföld kulda- eða hitaskil eða eitthvað þarna undir. Tölvuspárnar eru meira að segja ekki mjög samstíga í því hve veigamiklar þær lægðabylgjur verða sem skjótast norður þetta flókna súpusvæði. En blaut er súpan á Suðurlandi næstu daga.
Það tekur sjálfsagt tvo til þrjá daga fyrir kerfið að endurskipuleggja sig þannig að einhverjar hreinar línur náist. Fyrir tíma tölvuspáa var nánast útilokað að segja til um þróun kerfis af þessu tagi meir en sólarhring fram í tímann. Tölvuspárnar næstu daga eru heldur ekki alveg vissar um hvernig fer með lægðardragið við Nýfundnaland. Nær það hingað til lands? Rignir mikið ef svo verður?
Mér þótti orðalag á veðurfréttavef BBC heldur óvenjulegt í gær. Spáð var miklum hlýindum á Bretlandseyjum - þó ekki methlýindum - en hiti yrði þó 10 stigum ofan við meðallag. Það þætti nú harla gott í Reykjavík að fá dag með 10 aukastigum upp á við, 16 stiga meðalhita og hámarki yfir 19 stigum.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2011 | 01:00
Litið á norðurhvel - hvar er veturinn nú?
Hér lítum við rétt einu sinni á ástandið í 500 hPa-fletinum á norðurhveli og másum aðeins um stöðuna. Kortið er spá evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir um hádegi á þriðjudag.
Við verðum eins og venjulega aðeins að fara í gegnum táknfræði kortsins sem nær yfir norðurhvel jarðar suður fyrir 30. breiddargráðu. Höfin eru blá og löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en sú mjóa sýnir hæðina 5820 metra.
Nú má eins og síðast (hungurdiskar 17. september) aðeins sjá í 5100 metra línuna - mjóa rauða í kringum tvo litla kjarna í kuldapollinum ekki fjarri norðurpólnum. Þessi lína hefur ekkert breitt úr sér síðustu vikuna rúma. Svæðið innan 5460 metra línunnar (þeirrar þykku rauðu) hefur enn aukið umfang sitt, 5820 metra jafnhæðarlínan nær nú norður fyrir Frakkland og 5880 metra línan á að birtast þarna líka. Það er óvenjulegt.
Mjög hlýtt verður næstu daga allt norður til Danmerkur og Suður-Svíþjóðar. Nái sól að skína þar gæti hiti farið í hátt í 25 stig - en danska veðurstofan lofar engu (eins og skynsamlegt er).
Við sjáum að brattinn (þéttar jafnhæðarlínur) er langmestur sunnan við 5460 metra línuna. Norðan hennar er aðallega mikil flatneskja, nema norður undir heimskauti þar sem veturinn bíður síns tíma í líki tveggja lítilla kuldapolla sem þar hreyfast í hringi.
Kuldinn er einnig að ná undirtökum í austanverðri Síberíu og er að byrja vestanvert í Alaska. Í dag voru hins vegar ótrúleg hlýindi langt norður eftir Kanada. Heimskautaeyjarnar eru þó að komast í klær vetrarins. Mikill kuldapollur er yfir miðvesturríkjum Bandaríkjanna. Þykktin í miðju hans er svipuð og er í dag hér á landi, rúmlega 5400 metrar. Haustrigningar virðast byrjaðar í Bresku Kólumbíu og þar um kring (vindstrengurinn stendur beint á land). Að öðru leyti eru gríðarleg hlýindi vestra, það sýnir lega 5820 metra línunnar.
Séu spár réttar verðum við í lágþrýstingi næstu daga - meðalþrýstingur í núlíðandi september stefnir í það að verða í lægra lagi. Á kortinu erum við í lægðardragi sem breiðir sig yfir mestallt Atlantshafið og það tekur ábyggilega nokkra daga að leggja upp breytingar á því. Inni í megindraginu liggja nokkrar stuttar bylgjur sem hreyfast í kringum miðju þess.
Fjalla má frekar um þetta ástand síðar - við sjáum til með það.
Tveir stafrófsstormar eru á sveimi - hafa verið á sveimi er réttara að segja því fellibyljamiðstöðin í Miami var að gefa út dánartilkynningu á Ófelíu. Hún drukknaði í riðafeninu norðaustur af Antilleyjum sem hefur reynst hitabeltisstormum erfitt í sumar. Kannski rís hún upp aftur síðar handan fensins. Stafrófsstormurinn Philippe er milli Afríku og Antilleyja og er vaxandi sem stendur.
25.9.2011 | 01:08
Blöndunartími í lofthjúpnum - hver er hann?
Hér er sagt frá en ekki skýrt út. Sagt er frá blöndunartíma - en ekki er skýrt út hvers vegna hann er sá sem hann er. Sem sagt - ekki mjög erfitt. Myndirnar eru fengnar úr kennslubók (sjá neðst á þessari síðu). Kortagrunnur fyrri myndarinnar er eftir Þórð Arason. Blöndunartími er leiðinlegt orð. Um að gera að stinga upp á einhverju skárra.
Myndin (Jacob 4.12) sýnir dæmigerð tímaskeið (timescale) loftskipta (blöndunartíma) í veðrahvolfinu. Þar kemur í ljós að það tekur stuttan tíma (jafnvel aðeins vikur fyrir loft (eða mengunarefni) að berast í kringum jörðina í vestanvindabeltinu (breiddarbundið). Meðalvigurvindur vestanvindanna er af stærðarþrepinu 10 m/s.
Lengdarbundið er blöndun talsvert hægari, dæmigerður meðalvigur sunnan- og norðanátta er aðeins um 1 m/s og það getur tekið loft suður í hlýtempraða beltinu marga mánuði að berast til norðurslóða. Skiptin milli suður- og norðurhvels eru enn hægari eða kringum 1 ár að meðaltali. Þetta sést best af því hvernig mengunarefni dreifast. Aðalstefna iðnaðarmengunar í vestanvindabeltinu er til austurs, smátt og smátt berast þau inn á heimskautasvæðin og til hitabeltisins, en það tekur áberandi lengri tíma og er mengunin jafnvel búin að fara nokkra hringi áður en það gerist að ráði.
Mengun af norðurhveli berst seint til suðurhvels en fer þangað samt að lokum.
Sinni myndin (Jacob 4.24) sýnir dæmigerð tímaskeið lóðréttra loftskipta (blöndunartíma), athuga ber þó að hér er um meðaltöl að ræða, einstakir loftbögglar geta borist um miklu hraðar (eða hægar) en myndin sýnir. Jaðarlagið er vel blandað, blöndunartíminn er 1 til 2 dagar og reyndar minna sé loft mjög óstöðugt. Veðrahvolfið blandast að meðaltali lóðrétt á mánuði, þannig að snefilefni sem hafa lengri líftíma en það eru yfirleitt nokkuð jafndreifð um það.
Hér sést vel hversu öflugt lok veðrahvörfin eru, efni eru 5 til 10 ár að jafndreifast úr veðrahvolfi upp í heiðhvolf, en 1 til 2 ár öfuga leið. Efni berast einkum upp í heiðhvolfið í uppstreymiseiningum hitabeltisins en frá heiðhvolfi til veðrahvolfs í bylgjugangi vestanvindabeltisins þar sem veðrahvörfin geta aflagast verulega.
Var þetta of erfitt? Hungurdiskar hafa nokkrum sinnum minnst á jaðarlagið, en það er nafn yfir neðsta hluta veðrahvolfsins, þann hluta sem vel er blandaður af núningi og kviku. Jaðarlagið er mjög misþykkt.
Jacob, Daniel J., Introduction to Atmospheric Chemistry, Princeton University Press, 1999, 266 s
24.9.2011 | 02:05
Hiti í mismunandi vindáttum í september
Við lítum á meðalhita septemberdaga í Reykjavík og á Akureyri þegar dagar hafa verið flokkaðir eftir meðalvindátt á landinu. Takið eftir því: Meðalvindátt á landinu.
Lóðrétti ásinn sýnir hitann í °C en sá lárétti 8 höfuðvindáttir. Miðað er við tímabilið 1949 til 2007 en aðeins í septembermánuði. Bláu súlurnar tákna meðalhita í Reykjavík, en þær rauðu meðalhita á Akureyri. Við sjáum strax að norðlægu áttirnar eru kaldari en þær suðlægu - hvað annað?
Hánorðanáttin er köldust á báðum stöðvum. Suðaustanáttin er hlýjust í Reykjavík, en suðvestanáttin á Akureyri. Sáralítill munur er á hita í sunnanáttinni - Akureyri er þó sjónarmun hlýrri. Suðvestanáttin er greinilega hlýrri á Akureyri heldur en í Reykjavík.
Mestu munar á hita stöðvanna í austanáttinni, en austanáttardagar í september eru nærri þremur stigum hlýrri í Reykjavík heldur en á Akureyri. Í austanátt er loftþrýstingur meiri fyrir norðan land heldur en syðra. Kalt loft norðurundan getur þá hæglega stungið sér undir austanáttina yfir Norðurlandi. Vindur stendur þá inn Eyjafjörð. Það kemur dálítið á óvart að litlu minni munur er í suðaustanáttinni. Hún ræður ekki heldur við stunguloftið.
Hitanum á Akureyri virðist sama um það hvort norðaustan- eða austanátt er ríkjandi á landinu enda er stunguloftið það sama. Norðan- og norðvestanáttin eru hins vegar eindregið kaldari.
Sunnanáttin ræður hins vegar við stunguna. Meir en tveimur stigum munar á hita sunnan- og suðaustanáttar á Akureyri. Myndin segir ekkert um hita þegar suðaustanátt er á Akureyri. Hér er miðað við meðalvindátt landsins alls.
Landslag ræður mjög miklu um vind. Þó er það þannig að vindur blæs trauðla gegn þrýstibratta og vindur blæs því inn Eyjafjörð svo lengi sem þrýstingur við mynni hans er hærri heldur en þrýstingur inni í Eyjafjarðarsveit. Það getur hann verið í suðaustanátt - en síður í sunnanáttinni.
Þetta veldur því að hitaspár fyrir Akureyri geta verið mjög snúnar, alla vega var það þannig þegar ég byrjaði að fást við veðurspár fyrir meir en þrjátíu árum. Var reynsluleysið þá erfitt ungum veðurfræðingnum. Ég geri mér hins vegar ekki grein fyrir því hvort tölvuspárnar hafa nú leyst þennan vanda eða ekki.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 02:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.9.2011 | 00:57
Sveiflur í snjóhulu í byggð
Hungurdiskar hafa áður fjallað um snjóhulumat. Veðurathugunarmenn meta hana kl. 9 á hverjum morgni og gefa henni einkunn, alautt, flekkótt eða alhvítt. Þessu mati er síðan breytt í prósentur þannig að snjóhula er talin 100 prósent í mánuði þegar alhvítt er alla daga og 0% ef alautt er allan mánuðinn. Sé snjóhulan talin 50% að meðaltali í mánuði vitum við ekki (af tölunni einni) hvort alhvítt var hálfan mánuðinn og autt afganginn eða flekkótt alla daga mánaðarins. Eins og allir vita eru vetur missnjóþungir.
Þar sem sér til fjalla (en það er víðast hvar á landinu) meta veðurathugunarmenn einnig snjóhulu í 600 til 700 metra hæð á fjöllum í nágrenninu. Snjóhulan er mest á tímabilinu desember til mars. Nú má reikna snjóhulu ársins á ýmsa vegu. Hér er það gert þannig að snjóhula mánaðanna er einfaldlega lögð saman. Talan 300 jafngildir þá þremur alhvítum mánuðum. Líklegast er samt að snjóhula það árið hafi dreifst á fleiri mánuði þótt þeim sé hér þjappað saman i eina samfellu.
Ársmeðaltöl (eða summur) eru langoftast miðuð við almanaksárið. Við gerum hér þá undantekningu að miða við mánaðamótin ágúst/september. Við samanburð kemur reyndar í ljós að ekki munar mjög miklu á snjóhulu þessa árs og almanaksársins. Munurinn er mestur þegar miklar sveiflur eru í snjóhulu síðustu mánaða ársins. En lítum á myndina, hún sýnir meðalsnjóhulu landsins alls.
Snjóhuluathuganir byrjuðu hér á landi 1921 en fyrstu þrjú árin voru stöðvarnar svo fáar að ekki er vitlegt að reikna meðaltal. Myndin byrjar því á september 1924 til ágúst 1925, en nær til hausts 2010. Ekki er búið að binda fyrir árið 2011. Rauða línan sýnir 7-ára keðjumeðaltöl (ekki 5 ára eins og misritast hefur á myndinni).
Snjóhulan sveiflast frá því að vera innan við 2 jafngildismánuðir veturinn 2002 til 2003 og upp í að vera meiri en fimm mánuðir 1948 til 1949 og 1950 til 1951. Við sjáum að fyrstu ár 21. aldarinnar voru mjög snjólétt, en jafnframt kemur í ljós að því er skákað af tímabilinu 1959 til 1965. Mér er það tímabil sérstaklega ríkt í minni. Auðvitað komu þá hríðargusur á stangli en sá litli snjór sem kom vestanlands bráðnaði umsvifalaust aftur.
Þá er það og í minni hvað næstu vetur á eftir komu á óvart. Mikill snjór var norðaustanlands 1965 til 1966 en alveg sáralítill suðvestanlands. En frá og með 1966 til 1967 fór aftur að snjóa um land allt - eins og verið hafði áður en snjóleysið skall á. Voru það mikil viðbrigði.
Við sjáum væga leitni niður á við á myndinni. Sé hún tekin bókstaflega hefur snjóatíminn styst um tæpan hálfan mánuð á síðastliðnum 90 árum tæpum. Ólíklegt er þó annað en að miklir snjóavetur birtist hér aftur á næstu árum. Það fer þó eftir því hvernig hitafar þróast.
Mikil tengsl eru á milli meðalhita og snjóhulu ársins. Fyrir hvert stig í hita breytist snjóhula um nærri þrjár vikur að meðaltali. Við sjáum á myndinni að meðalsnjóhula er um það bil 3,5 mánuðir - eða um 15 vikur, meðalhiti í byggðum landsins á því tímabili sem hér er undir er tæp 4 stig. Reikni nú hver sem vill. En trúlega kemur hér meira um þetta merkilega mál síðar.
22.9.2011 | 01:24
Eðlilegt litarhaft á jöklum landsins
Í dag (miðvikudag 21. september) var bjart veður víða um land. Jöklar sáust vel á gervitunglamyndum. Loksins hafa þeir fengið aftur eðlilegt litarhaft. Það er vonandi að það endist veturinn þótt ekki sé það alveg víst. Næsta sumar bráðnar svo aftur ofan af öskunni á leysingasvæðum, en á ákomusvæðum hverfur hún undir þykkt snjó- og hjarnlag.
En lítum á hluta úr mynd. Upplausnin er léleg á þessu afriti en miklu betri upplausn má finna á vefsetri modis - og sjálfsagt víðar. Myndin verður einnig í nokkra daga á vef Veðurstofunnar í aðeins skárri upplausn heldur en hér.
Hér má sjá Vatnajökul í öllu sínu veldi, laus við svörtu og brúnu litina sem verið hafa á honum frá því í vor. Skriðjöklarnir eru enn gráir en það eru þeir oftast á þessum tíma árs. Athyglisverður er skýjagarðurinn á Skeiðarársandi - garðar sem þessir eru algengir á landinu. Oftast bera þeir vitni um samstreymi lofts úr tveimur áttum.
Hér kemur trúlega gola ofan af jöklinum sem mætir lofti úr suðri. Þótt sól sé farin að lækka á lofti er hún nægilega öflug til að kynda undir og auðveldar þar með uppstreymið. Sé myndin skoðuð betur má sjá að allur vesturhluti Vatnajökuls er girtur skýjabandi. Nánast samfellt niðurstreymi er yfir jöklum sé þrýstivindur lítill. Þá streymir loft til allra átta, en niðurstreymi er yfir. Við niðurstreymi hlýnar loft um 1°C á hverja 100 metra lækkun. Því er hlýrra yfir jöklinum heldur en í sömu hæð yfir umhverfi hans. Ekki veit ég hversu miklu munar, en ský haldast ekki við í niðurstreymi. Þetta bætir jöklasýn landsmanna svo um munar - ekki síst að sumarlagi.
Ef þið sjáið til jökulhvels ættuð þið að fylgjast vel með skýjafarinu yfir því. Hægt er að búa til dæmi þar sem ský á jökli haldast við þrátt fyrir niðurstreymi jöklagolunnar. Hvernig er með það?
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 12
- Sl. sólarhring: 183
- Sl. viku: 2459
- Frá upphafi: 2434569
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 2184
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010