Heiðasti ágústdagurinn

Þann 23. júlí síðastliðinn var heiðasti júlídagurinn nefndur hér á hungurdiskum. Reiknað er frá og með 1949 til og með 2010. Þetta reyndist vera 13. júlí 1992. Meðalskýjahula allra athugana sólarhringsins var innan við einn áttundahluta.

Heiðasti ágústdagurinn telst vera sá 12. árið 1997. Meðalskýjahula var 1,3 áttunduhlutar. Mikla hitabylgju gerði dagana þar um kring. Mest varð hún að tiltölu á efstu bæjum á Norðausturlandi en svalara var við sjóinn. Hitinn varð hvað mestur þann 13., daginn eftir heiðríkjudaginn mikla. w-blogg170811a

Myndin er úr safni móttökustöðvarinnar í Dundee í Skotlandi. Lítilsháttar þokuslæðingur er við annes á sunnanverðum Austfjörðum og ef vel er gáð má sjá ský yfir afréttum austan Mýrdalsjökuls.  

Þessi heiði dagur, 12. ágúst 1997, kom við sögu á lista yfir hæsta meðalhámarkshita  ágústmánaðar sem birtist birtist hér fyrir nokkrum dögum. Dagurinn var þar í 10. sæti., næsti dagur, 13., var í 8. sæti á sama lista. Daginn áður, þann 11., mældist hiti 30,0 stig á sjálfvirkan mæli á Hvanneyri í Borgarfirði - því er ekki alveg trúað. Kannski er hægt að stofna einhvern sértrúarveðursöfnuð í kringum þetta met?

En næstheiðasti dagurinn, hver er það? Hann er ekki síður merkilegur því þetta er dagurinn á eftir þeim illræmda 27. ágúst 1956 - sem við vorum fyrir nokkrum dögum að dæma kaldasta ágústdag síðustu 60 ára. Umhugsunarvert að heiðustu ágústdagarnir séu ofarlega á bæði hlýinda- og kuldalistum. Fylgja öfgar heiðríkjunni?

Við verðum einnig að nefna skýjaðasta daginn. Hann er 16. ágúst 2005 og virðist hafa verið alskýjað á öllum stöðvum allan sólarhringinn að því slepptu að einhver ein stöð gaf einu sinni sjö áttunduhluta í skýjahulu. Kveikir þessi dagur á einhverju? Þá lokaðist hringvegurinn vegna skriðufalla í Hvalsnes- og Þvottárskriðum.

Dagar versta og besta skyggnis eru löngu liðnir. Verst varð ágústskyggnið að meðaltali á landinu 21. ágúst 1952 og best þann 8. ágúst 1951. Síðarnefndi dagurinn er í 7. sæti á lista heiðríkustu daga. Ekki er líklegt að einhverjir lesendur muni veður þessa daga - helst þeir sem hafa haldið dagbók. Íþróttanörd gæti rámað í daga þetta sumar, þó varla þann 8. En daginn áður, 7. júlí 1951, slasaðist maður í grjóthruni í Óshlíð, bíll eyðilagðist og aðrir nærstaddir áttu fótum fjör að launa (dagblaðið Tíminn)  Þjóðviljinn segir í fyrirsögn þann 8.: „Svérnik svarar Truman“, en Morgunblaðið: „Tillögu Sjerniks um friðarráðstefnu fálega tekið“ (heimild: timarit.is). Þann 9. segir Tíminn frá næturfrosti og föllnum kartöflugrösum í Mosfellsdal aðfaranótt skyggnisbesta dags síðustu 60 ára.

Athugið að skyggnismeðaltöl eru merkingarlítil og dagarnir nefndir hér aðeins til gamans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Athyglisvert sjónarhorn Trausti ! 

Hvernig væri annars að fá tunglmynd úr safninu af skýjaðasta deginum þar sem landið er finna einvers staðar undir skýjasúpunni !

Í eitt sinn komst heiðríkjumynd af landinu framan á símaskránna.  Mig minnir í sviphendingu að það hafi verið 17. júní 1991 frekar 1992.  Kannski kandidat í heiðríkasta júnídaginn ?

ESv

Einar Sveinbjörnsson, 17.8.2011 kl. 09:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5
  • Slide4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 73
  • Sl. sólarhring: 113
  • Sl. viku: 1697
  • Frá upphafi: 2349657

Annað

  • Innlit í dag: 67
  • Innlit sl. viku: 1538
  • Gestir í dag: 64
  • IP-tölur í dag: 61

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband