Meira af afbrigðilegum ágústmánuðum

Hverjir eru svo mestu sunnan- og norðanáttaágústmánuðirnir? Þetta er leikur sem við höfum farið í áður bæði í júní og júlí. Ekki er ætlast til þess að lesendur muni þá mælikvarða sem notaðir eru þannig að rétt er að rifja þá upp jafnóðum. Skýringarnar eru því endurtekning en ártölin auðvitað önnur.

1. Mismunur á loftþrýstingi austanlands og vestan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1881. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri vestanlands heldur en eystra séu norðlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er, því þrálátari hafi norðanáttin verið. Ákveðin atriði flækja þó málið - en við tökum ekki eftir þeim hér. Samkvæmt þessum mælikvarða er ágúst 1903 með þrálátustu norðanáttina. Var á sinni tíð frægur fyrir kulda norðanlands, meðalhiti á Akureyri aðeins 6,1 stig - kaldari heldur en meðalseptember. Næstir í röðinni eru ágúst 1958 og 1964. Sum eldri veðurnörd muna þessa mánuði. Sunnanáttin var samkvæmt þessum mælikvarða mest í ágúst 1947. Þá var meðalhitinn á Akureyri 13,2 stig og er það hlýjasti ágúst sem vitað er um á þeim bæ, ágúst 1991 er í öðru sunnanáttarsætinu.

2. Styrkur norðanáttarinnar eins og hann kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær aðeins aftur til 1949. Eftir þessum mælikvarða er 1958 í efsta sæti og 1964 í því öðru. En 1976 er mesti sunnanáttarmánuðurinn, afspyrnuhlýr norðaustanlands. Hér tók 1947 ekki þátt í keppninni.

3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindathugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðvestan, norðan, norðaustan og austanáttar lögð saman. Þá fæst heildartala norðlægra átta. Þessi röð nær aftur til 1874. Hér er 1912 mesti norðanáttarmánuðurinn en hann er frægastur fyrir eitt versta sumarhret sem mælt hefur verið. Hretið varð verst síðustu dagana í júlí og fyrstu dagana í ágúst. Ágúst 1903 kemur í öðru sæti og 1958 er í því þriðja. Mest varð sunnanáttin 1976 og koma ágúst 1880 og 1947 næstir á eftir. Ágúst 1880 var hlýjasti ágústmánuður á síðari hluta 19. aldar á landinu sem heild og sat lengi í efsta sæti ágústhlýinda - var svo hlýr að menn trúðu tölunum varla.

4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð. Þarna er 1958 í fyrsta sæti en 1903 í öðru. Síðan er ágúst 1943 í þriðja sæti - enn einn hörmungarmánuðurinn norðaustanlands. Sunnanátt endurgreiningarinnar er langmest í ágúst 1947, síðan kemur 1976.

5. Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum. Hér eiga tveir aðrir ágústmánuðir óvænta innkomu. Mest var norðanáttin í 5 km hæð í ágúst 1960. Þetta er þurrasti ágúst sem vitað er um á landinu (eftir 1923). Meðalhæð 500 hPa-flatarins var mjög mikil (563 dam). Hlýtt hefur þá verið í háloftunum og landið notið þess. En kunninginn 1903 er í öðru sæti. Engin vernd það árið. Mestur sunnanáttarágústmánaða í 500 hPa er 1947, 1976 er í öðru sæti.

Við sjáum að mælikvarðarnir fimm eru nokkuð sammála. Ætli 1903 fái ekki toppsæti norðanátta og 1947 sunnanátta.

Notum breytileika loftþrýstings frá degi til dags til að meta lægðagang og óróa. Sá mælikvarði nær aftur til 1823. Rólegustu ágústmánuðirnir eru 1839, 1910 og 1960. Árið 1839 er þurrasta ár sem vitað er um í Reykjavík ef trúa má mælingum Jóns Þorsteinssonar landlæknis. Ískyggilega þurrt.

Órólegastur ágústmánaða var 1955 - rigninga- og illviðrasumarið mikla á Suðurlandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11
 • w-1945v
 • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (24.5.): 32
 • Sl. sólarhring: 83
 • Sl. viku: 1500
 • Frá upphafi: 2356105

Annað

 • Innlit í dag: 32
 • Innlit sl. viku: 1405
 • Gestir í dag: 32
 • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband