Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011

Kuldapollurinn kveður - gervihnattarmynd í dag

Ég get ekki stillt mig um að fjalla í fáum orðum um flókna gervihnattarmynd sem tekin var um kl. 15 í dag, fimmtudag (10. mars 2011). - Algjört örvafyllerí. Ekki ábyrgist ég að rétt sé túlkað (ábyggilega ekki) - en reyni samt. Myndin er hluti af stærri mynd sem nú er á brunni Veðurstofunnar  og verður þar í nokkra daga. Myndin sýnir suðvesturjaðarinn á þeim deyjandi kuldapolli sem hefur verið á leiðinni hjá landinu í nokkra daga.

w-noaa-100311-1500

Hér má vonandi greina útlínur Grænlands til vinstri á myndinni og útlínur Íslands aðeins til hægri og ofan við miðju. Ísland er að mestu hulið skýjum, þó er bjart syðst á landinu og austur með Suðausturlandi. Ég hef sett bæði örvar og númer inn á myndina. Lítum á það safn.

Talan 1 er sett a milli tveggja örva sem sýna norðvestanátt frá Suður-Grænlandi og síðan til austurs fyrir sunnan land. Mjög vel sést hvernig éljaklakkarnir vaxa smám saman til austurs eftir því sem loftið verður óstöðugra og rakara.

Talan 2 er sett þar sem sjá má mjóslegna éljagarða sem myndast í norðaustanátt frá Íslandi. Þar sem þessar tvær ólíku vindáttir mætast er mikill éljagarður. Hann nær alveg frá bókstafnum „a“, suður og austur um að hægri brún myndarinnar þar sem vonandi má greina bókstafinn „b“. Þetta er kannski dæmigerður samstreymisgarður á mótum tveggja vindstefna. Ef við gætum dregið mjög nákvæm kort af svæðinu mætti e.t.v. greina einhverjar pólarlægðir í garðinum.  

Ofan í garðinn er teiknuð stutt fjólublá ör. Hún á að gefa til kynna þá vestanátt sem toppar klakkanna lenda upp í þegar þeir koma upp í efri hluta veðrahvolfsins.

Staðan yfir Íslandi er mjög flókin og ekki auðvelt að sjá hvað er á ferðinni. Þarna eru smáatriði sem ég átta mig ekki alveg á. Ég hef sett þrjár bogadregnar rauðar örvar (punktalínur) í skýjaþykknið. Þær eiga að sýna norðvestanátt sem var í 5 km hæð yfir landinu og má í þykkninu sjá ámóta bogalínur í skýjunum. Skýjakerfið í heild barst í dag hins vegar til suðvesturs eins og gulu örvarnar sýna.

Háloftaathugun á hádegi á Egilsstöðum sýndi gríðarleg hitahvörf í 5 km hæð yfir staðnum, þar hlýnaði um 7 stig á örstuttu hæðarbili. Skýjaþykkninu fylgdi því greinilega mjög hlýtt loft sem er búið að fara hringinn í kringum miðju kuldapollsins sem nú er langt norðaustan við landið. Á hádegi mátti með góðum vilja sjá votta fyrir þessu hlýja lofti yfir Keflavík.

Segja má að hlýju framrásarinnar gæti allt suður að éljagarðinum mikla því hann hörfar til suðurs og suðvesturs eins og litlu gulu örvarnar sýna.

Mikið hríðarveður geisaði norðanlands - með 5 til 8 stiga frosti í hafáttinni. Það er meira heldur en algengast hefur verið í vetur - enda þykktin í dag aðeins um 5060 metrar. Ekki veit ég hvort eitthvað af úrkomunni hefur verið ættað úr efra skýjakerfinu - það gæti verið - eða hvort hún er ættuð úr éljasambreiskju í óstöðugu lofti yfir tiltölulega hlýjum sjónum norðan við land. En loftið í neðstu 5 km lofthjúpsins var mjög óstöðugt í dag.

Þegar mjög óstöðugt loft rekst á fjöll myndast þar háreist éljaský og mikil úrkoma, en að öðru leyti sér óstöðugt loft landslag frekar illa. Loftið heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist hinu megin fjallsins og er litlu stöðugra en áður (aðeins þó). Við slíkar aðstæður berast él oft suður fyrir heiðar eins og gerðist hér suðvestanlands í dag. Ratsjármyndir sýndu furðustöðugan örmjóan éljagarð frá Holtavörðuheiði, suður um Borgarfjörð og til höfuðborgarsvæðisins. Veðursjáin sér ekki lengra í norður en éljaskýin hér syðra virtust í ratsjánni vera öll undir 3 km hæð.

Sé rýnt í myndina má sjá einkennilegar skýjamyndanir yfir landinu, skarpar hvítar brúnir og hvíta bletti. Ég vægi lesendum við ágiskunum um uppruna þeirra - en þær eru til.

Er þessi kuldapollur þá úr sögunni (að vísu á eftir að fylgjast með örlögum vestasta enda éljagarðsins á vestanverðu Grænlandshafi). Sá næsti hefur þegar myndast yfir heimskautaeyjum Kanada og sýnir okkur klærnar við helgarlok - ekki þó á sama hátt og sá sem nú fór hjá. Hvernig er með þessa kuldapolla - hvernig myndast þeir eiginlega? Hvers vegna er þeirra lítið getið nema á hungurdiskum?

 


Hann flýtur í sjálfum sér

Hver er það sem flýtur í sjálfum sér? Það gæti verið margt, en alla vega bæði sjór og lofthjúpur. Við látum sjóinn liggja milli hluta en hugum að lofthjúpnum. Lofthjúpurinn er oftast í flotjafnvægi, loftbögglar - (getum við ekki séð þá fyrir okkur þótt við sjáum þá ekki?) - eru hver um sig þyngdarlausir á sama hátt og fiskur í vatni. Ekki er þarmeð sagt að þeir séu massalausir frekar en fiskurinn.

Þegar málið er skoðað nánar kemur í ljós að lóðréttur hraði lofts á hreyfingu er minni en hundraðasti hluti af láréttum hraða þess, ég ætti jafnvel að segja þúsundastihluti. Dæmigerður vindhraði (láréttur) er um 10 m/s, en lóðréttur vindhraði er oftast ekki nema einhverjir sentímetrar á sekúndu.

Hins vegar leitar loft stundum upp og stundum niður. Þá er það (staðbundið) ekki í flotjafnvægi. Það er ekki mjög margt sem getur raskað jafnvæginu. Þegar jafnvægið er rannsakað sést að það sem skiptir mestu máli er hver hiti böggulsins er - miðað við aðra böggla í sömu hæð (flothæð). Hitni hann umfram nágrennið missir hann hald og lyftist, flotið eykst. Lyftingin heldur áfram þar til hann er ekki lengur hlýrri en nágrannabögglarnir. Hærra fer hann ekki. Kólni böggullinn umfram nágrennið rýrnar flotið og hann sígur niður. Í versta tilviki getur hann misst flot og hrapað stjórnlaust til jarðar - þá er illt í efni.

Kemur þá að einu af þessum þvælnu atriðum í veðurfræði, stöðugleikanum  svokallaða. Ég get ekki farið að skrifa langloku um hann hér og nú, en ef ég held áfram á hungurdiskum  lekur hann vonandi inn í texta smátt og smátt. Orðið sjálft, stöðugleiki, er leiðinlegt - en hefur unnið sér svo fastan sess að erfitt er úr þessu að breyta til. Hin ágætu og þjálu orð stöðugur  og óstöðugur  valda því að leiðinlega orðið fær af þeim óverðskuldaðan stuðning. Ekki vil ég fórna þeim í pirringi mínum á stöðugleika - sem orði. Hugtakið á bakvið orðið er hins vegar tært og fagurt.

Ýmis erfið hugtök eru nátengd stöðugleika og floti. Hér nefni ég bræðurna hita  og varma  sem sífellt er verið að rugla saman á opinberum vettvangi. Þessi ruglingur ætti að vera óþarfur í íslensku - en hann stafar mest af innflutningi enskra óeirða á milli orðanna temperature  annars vegar og heat  hins vegar. Er svo komið á þeim erlenda vettvangi að orðið heat er víða illa séð og stuðningsmenn þess ofsóttir - snyrtimönnum í varmaveðurfræði er uppálagt að nota þess í stað orðið enthalpy  - mátulega ógagnsætt og framandi til að fjölmiðlamenn forðist að nota það. Það getum við ekki tekið upp í íslensku.

Þessi útlenska deila virðist hafa valdið því að menn nota nú gjarnan orðið hitastig  þegar átt er við hita  (temperature á ensku) og hita þegar átt er við varma. Mín vegna má svosem einu gilda hvort hiti eða hitastig er notað - en fyrir alla muni notið ekki hita þegar átt er við varma. Þá endar þetta með því að við neyðumst til að búa til nýyrði fyrir varma, bein þýðing á enthalpy mun vera ívarmi - er það ekki heldur klúðurslegur kostur?

 


Kuldapollurinn kominn hjá - kalt næstu daga

Þá er kuldapollurinn sem hér hefur verið fjallað um undanfarna daga kominn framhjá Íslandi. Hann náði að skila talsverðum snjó víða um landið suðvestanvert og snjókomu er ekki lokið um landið norðanvert. Trúlega verður talsvert eða mikið frost næstu daga, sérstaklega inn til landsins (þetta síðasta þarf varla að taka fram). Ég held að hungurdiskabloggið fylgi honum ekki mikið lengur en lítum samt á stöðuna nærri veðrahvörfum á morgun. Kortið er af  brunni Veðurstofunnar.

w-blogg-090311

Þetta er spá um hæð og vind í 300 hPa-fletinum snemma fyrramálið (kl. 6 miðvikudaginn 9. mars 2011). Svörtu línurnar eru jafnhæðarlínur flatarins í dekametrum (dam) með 4 dam bilum eða 40 metrum. Lægstu tölurnar eru í námunda við kuldapollinn okkar, um 8200 metrar - merkt K á myndinni. Hæstur er flöturinn vestur af Asóreyjum í tæplega 9400 metra hæð, rautt H á myndinni. Mikil brekka er á milli og þar rennur heimskautaröstin allt frá vinstri brún myndarinnar (suður af Hudsonflóa) og allt til Norður-Noregs. Litskyggðu svæðin sýna skotvinda rastarinnar, ystu mörk þeirra eru við 80 hnúta vind, um 40 m/s. Sjá annars kvarðann hægra megin á myndinni.

Ég hef merkt þrjú lægðardrög með þykkum strikalínum (við tölurnar 1, 3 og 4 á myndinni) og einn hæðarhrygg (rauðstrik og talan 2). Sömuleiðis má sjá pínulítið L skammt vestan hæðarhryggjarins. Þar er lægð við yfirborð.

Þegar ég leit fyrst á myndina hélt ég að lægðardrögin við 3 og 4 væru sama dragið, 3 aðeins framhald á 4. Þegar ég hins vegar leit á spár lengra fram í tímann sá ég að drögin eru tvö og það sem merkt er númer 3 hreyfist hraðar en hitt. Það straujar yfir hæðarhygginn sem bælist þegar það nálgast. Í kerfinu eins og það stendur á myndinni á yfirborðslægðin „L“ mjög litla möguleika á vexti, hún er svo nærri hæðarhryggnum. Hún rennir til austurs nærri 59. breiddarstigi. og dýpkar lítið í fyrstu.  

Þegar lægðardragið (3) verður búið að bæla hrygginn alveg hleypur hins vegar vöxtur í lægðina. Hirlam-spálíkanið gerir ráð fyrir um 25 m/s af vestri á Suðureyjum og Norður-Skotlandi aðfaranótt fimmtudags. Síðan er spurning hversu hvasst verður í Danmörku og Suður-Svíþjóð. Danska veðurstofan sýnist mér ekki gera ráð fyrir skaðavindi - líklega hafa þeir rétt fyrir sér.

En hvað með okkur hér? Við sitjum eftir í kuldanum í nokkra daga. Svo virðist sem éljaloftið hafi að mestu verið hreinsað frá á Suðvesturlandi, smáéljabakki er þó eftir sem ég veit ekki hvað gerir. Á kortinu að ofan er vestnorðvestanátt við veðrahvörfin - vindur ekki mjög truflaður af Grænlandi 5 kílómetrum neðar. En í neðstu lögum, neðan við 5 km. hefur Grænland mikil áhrif og truflar strauminn. Loft er enn óstöðugt yfir Grænlandshafi, samspil þess við Grænland er flókið og satt best að segja ráða spár ekki alltaf við smálægðir og éljagarða sem myndast við þessi skilyrði. En ég þreyti lesendur ekki á frekari vangaveltum að sinni.


Kuldapollurinn kominn á Grænlandshaf

Kuldapollur sá sem hefur verið umfjöllunarefni í tveimur fyrri bloggpistlum er nú kominn inn á Grænlandshaf og hreyfist austur. Sum élin hér á suðvestanverðu landinu hafa verið mjög dimm í dag og í kvöld og verða það líklega áfram fram eftir degi á morgun. Þá á vindur í háloftunum að snúast til hægrar norðlægrar áttar og í neðstu lögum er líka spáð norðanátt. Þá ætti að hreinsa frá. En jafnframt því hættir vindur að blása beint af hlýjum sjó og þá kólnar nokkuð ört. Þykktinni í kuldapollinum miðjum er spáð í kringum 5000 metrana. Við „hagstæð“ skilyrði dugar það vel í 20 stiga frost inn til landsins. Sjálfvirkar spár gera líka ráð fyrir 10 stiga frosti við Veðurstofuna, en ég tek enga afstöðu til þeirra - þær eru stundum réttar.

Myndin sem hér er að neðan er afskaplega óskýr og biðst ég velvirðingar á því en ekki var kostur á skárri mynd á þeirri stundu sem pistillinn var skrifaður. Betri mynd ætti að sýna sig á brunni Veðurstofunnar  þegar kemur fram á nóttina.

w-seviri-070311-2300

Þetta er hitamynd tekin úr gervihnetti á jarðstöðubraut yfir miðbaug kl. 23 að kvöldi 7. mars 2011. Hún er því óskýrari eftir því sem norðar dregur.

Við rennum í gegnum þau atriði sem ég hef merkt á myndina. Tölurnar 1 og 2 eru settar við hlý færibönd á myndinni. Það sem er merkt númer 2 er sjónarmun hærra (hvítara) heldur en hitt. Færiböndin fylgja vindröstum en þær eru hvað snarpastar við skarpar norðurbrúnir skýjakerfanna. Við litlu rauðgulu örina má sjá hlýtt undanskot undan færibandi 1. Sennilega er það skammlíft.

Ef við eltum bláu strikaörina frá tölunni þremur (3) til suðvesturs fylgjum við jafnframt veiku köldu færibandi. Afstæð hreyfing þess miðað við lægðina sem merkt er „aL“ er til suðvesturs, en í raun og veru er þetta skýjaband á hraðri hreyfingu norðaustur, en á minni hraða heldur en hlýja færibandið. Þarna er því í gangi lægðarhringrás sem ekki sést á hefðbundnu þrýstikorti þótt hennar sjái stað ef fylgst er með hegðan loftþrýstingsins á kortinu. Lægðin er inni í strikaða hringnum á myndinni. Þetta er „afstæð lægð“ rétt eins og sú sem fjallað var um í pistlinum í gær. Spár gera hins vegar ráð fyrir því að hún sé að „holdgerast“ og á að verða ansi djúp langt fyrir austan land eftir hádegi á morgun (8. mars) eða um 950 hPa í lægðarmiðju.

Talan 4 er sett í mitt éljaþykkni sem snýst í kringum sjálfan meginkuldapollinn (stórt blátt K). Élin virðast býsna efnismikil - en þessi mynd er hins vegar svo óskýr að ekki er auðvelt að greina það með vissu. Á myndinni er líka pínulítið L vestan við Ísland. Þarna segir HIRLAM spálíkanið að sé smálægð í éljaþykkninu, það má vera, en ætti að koma í ljós fljótlega.

Talan 5 er sett við ör sem bendir á gríðarlega langt og mjótt háskýjabelti. Þetta belti sást betur á myndum fyrr í dag. Þarna er líka mikill háloftastrengur. Háskýjabelti sem þetta er á ensku kallað „rope-cloud“. Við neyðumst víst til að kalla þetta reipi, reipisský eða kannski klósigareipi, kaðalklósigi gæti e.t.v. gengið. Klósigakaðlar myndast þar sem skotvindur skransar utan í veðrahvarfabrekkunni, rétt eins og Formúlueittbílar utan í varnarveggjum kappakstursbrautarinnar. Hér er hlýtt loft norðan við kaðalinn - ofan veðrahvarfa - en kalt sunnan við - neðan veðrahvarfanna. Flugvélar eiga að forðast ský af þessu tagi - þeim fylgir ókyrrðardans. Það er illt að lenda veggjarmegin við formúlubíl.

Talan 6 er sett ofan í hlýtt færiband næstu lægðarbylgju. Henni er spáð talsvert fyrir sunnan land seint aðra nótt (aðfaranótt miðvikudags). Hún gæti valdið miklu illviðri á Skotlandi - en það er þó auðvitað ekki víst. Kannski verður meira um þetta á morgun hér á hungurdiskum.


Áframhald um kuldakast

Spár haldast svipaðar varðandi kuldakastið í vikunni. Það verður varla umflúið. Annars eru spár yfirleitt ekkert sérstaklega nákvæmar varðandi kuldaköst hér úti í hafi í skjóli Grænlands. Sjórinn virðist almennt vera duglegri við að hita loftið heldur en spár gera ráð fyrir og sömuleiðis gengur þeim illa að ráða við þau litlu veðurkerfi sem gjarnan myndast inni í kuldapollunum. Varlegt er að treysta smáatriðum í spánum og alls ekki meira en 2 til 3 daga fram í tímann.

Engu að síður er hreyfingum og umfangi sjálfra kuldapollanna oft vel spáð nokkra daga fram í tímann og er mikill munur á því nú og sem áður var. En lítum á svipaða mynd og í gær. Hitamynd sem gervihnöttur stikaði út nú í kvöld. Þetta eintak var búið til í móttökustöðinni í Dundee í Skotlandi.

w-ch5-dundee-060311-21

Miðja kuldapollsins er enn vestan Grænlands en mjög kalt loft úr honum er farið að falla niður austurhlíðar Grænlandsjökuls, u.þ.b. þar sem stutta bláa örin liggur. Þetta loft er svo kalt að él fara að myndast í því ekki langt frá ströndinni. Trúlega fárviðri í sumum dölunum á þessum slóðum, hættulegur piteraqsem Grænlendingar nefna svo. Vestan Grænlands er mikið en smáriðið éljaþykkni, snjókoma var í Nuuk kl. 21, vindur 10 m/s og 15 stiga frost í hafáttinni.

Rauðu strikalínurnar eru settar í kringum hlý færibönd í tveimur lægðakerfum sem eru á mikilli ferð til austnorðausturs með heimskautaröstinni og skotvindum hennar (skörpu skýjakantarnir norðan í færiböndunum). Þessi kerfi eru ágæt dæmi um lægðasveipi sem ekki sjást sem lægðir á venjulegum veðurkortum. En fyrra kerfinu hefur þó tekist að mynda haus í köldu færibandi þó vindátt sé vestsuðvestlæg í öllum þrýstiflötum. Það virðist því engin „hringrás“ vera í kringum þessa „lægð“.

Það er samt hringrás en hún er einungis afstæð. Það er erfitt að átta sig á þessu, en ímyndum okkur hringdans um borð í júmbóþotu. Flestir eiga auðvelt með að sjá slíkt fyrir sér og jafnframt sjá að um raunverulega hringhreyfingu sé þar að ræða. En utanfrá séð - þotan er fer á 900 km hraða á klst - frá þeim sjónarhóli straujast danshringurinn algjörlega út og litur út eins og strik, við sjáum dansinn ekki nema að við drögum meðalhraða dansaranna í stefnu flugsins frá. Svipað er með þessa „lægð“ sem er að fara hjá.

Þessi „afstæða lægð“ (þess vegna stafirnir AL) á reyndar að birtast á grunnkortum alllangt norðaustur af landinu upp úr hádegi á morgun (séu spár réttar). Önnur afstæð lægð er tengd hinu hlýja færibandinu á myndinni, því sem merkt er 2. Það er svipað með hana, hennar sér vart stað á venjulegum veðurkortum fyrr en síðdegis á morgun, þá yfir Suðurlandi. Hvort hún birtist þar eða síðar verður bara að sýna sig. En HIRLAM-spáin danska kemur henni í mikinn ham þegar hún er komin framhjá okkur og keyrir hana niður í 944 hPa. Sú tala er þó mjög ótrúleg og rétt að hafa í huga það sem sagði hér að ofan um smáatriði í spám þegar kuldapollar eru annars vegar.

Kuldapollurinn mikli á að vera kominn á Grænlandshaf í fyrramálið (7. mars 2011). Suðvestanátt er í háloftunum á undan honum´með sínum útsynningséljum og það er ekki fyrr en lægðin sem holdgerist á morgun er komin hjá sem það nær að kólna að ráði.

Afstæðar lægðir hljóta að vekja áhuga hjá veðurnördum, en öðrum er sjálfsagt sama.


Kuldakast næstu viku?

Í dag gekk snarpt suðaustanveður yfir landið úr vestri. Þegar þetta er skrifað er það ekki komið alveg austur af en hér á Vesturlandi er bærilegt veður í bili á eftir kuldaskilunum, áður en útsynningurinn fer að byggjast upp - en það gerir hann væntanlega í nótt eða í fyrramálið. Við lítum nú á gervihnattarhitamynd (hér af vef Dundee-móttökustöðvarinnar í Skotlandi).

w-dundeech5050311-21

Ísland er í hægri jaðri myndarinnar - Grænland fyrir miðju. Myndin sýnir haf, land og skýjakerfi, því hvítari eftir því sem kaldara er. Hvíta röndin yfir Íslandi er skýjakerfi illviðrisins í dag. Lægðin sem tengist því er merkt sem rautt L yfir Grænlandshafi, hluti hennar fer hratt til norðausturs en eftir situr hægfara lægð eða lægðardrag til morguns.

Bókstafurinn Þ stendur þar sem er mjög stórt heiðríkt svæði í skjóli Grænlands. Tölustafurinn 1 er settur við éljagarð sem er að sækja í sig veðrið og berst hratt til Íslands, spár segja hann fara yfir milli kl. 2 og 4 í nótt (aðfaranótt sunnudags 6. mars).

Nýtt lægðakerfi er vestan Grænlands, við litla rauða L-ið er lítil lægð en hún hefur um sig furðumikið skýjabelti. Strikaði hringurinn sýnir hefðbundinn blikuhaus lægðarinnar. Sunnan lægðarmiðjunnar er mjög skörp norðurbrún á miklu skýjakerfi. Þegar við sjáum svona langa, snjóhvíta og skarpa brún getum við nærri því örugglega gengið að því vísu að þarna er að finna mikinn skotvind, hluta af heimskautarastarkerfi norðurhvels. Þetta er hlýja færiband lægðarinnar. Norðan hennar hef ég sett stórt rautt K. Þar er miðja mikils kuldapolls. Hann er ekki alveg jafn öflugur og þeir sem hungurdiskar fjölluðu um fyrir nokkrum vikum, en mikill samt. Þykktin í honum miðjum er undir 4800 metrum.

Nú vill svo til að hann er á hreyfingu austur eins og blástrikaða örin sýnir, en svo vill einnig til að vindröstin sunnan við hann sem ber með sér litlu lægðina hreyfist mun hraðar til austurs en hann sjálfur. Þegar svona stendur á er gjarnan sagt að bylgjurnar séu ekki í fasa. Lægðir eins og sú litla þurfa að fá kalda bylgju í bakið til að geta vaxið að ráði. Þessi flýtir sér svo að hún missir af fóðri kuldapollsins. En samt verður gaman að fylgjast með skýjakerfinu. Séu spár réttar á það að fara yfir Ísland annað kvöld. Kannski sjáum við blikubakkann síðdegis á morgun og kannski snjóar úr honum þegar lægðin misheppnaða fer hjá sem útflatt lægðardrag.

Líta má svo á að veðrakerfið á okkar slóðum felist í stefnumótum háloftalægðardraga og hryggja sem stundum ná saman og stundum ekki. Þegar stórir kuldapollar taka á skrið er eins gott að hafa varann á. Þeir gætu mætt einhverju hlýju færibandi og orðið að verstu veðrum.

Grænland er oftast nær góður varnarveggur gegn vondum sendingum úr vestri, en sá veggur vinnur síður á hringrás stórra kuldapolla heldur en öllu öðru, jú, við sleppum við kaldasta loftið undir pollinum, þetta með þykktina 4800 metra, en við sleppum ekki við veðrahvarfalægðina sem er meginstoð pollanna. Kostur er þó að sunnanátt er á undan pollunum og hún er sjaldnast köld - en norðanáttin sem fylgir á eftir er sérlega köld. Svo virðist að við þurfum aftur að taka fram kuldaúlpurnar í vikunni. Við vonum bara að það taki fljótt af. En hungurdiskar fylgjast með, eftir því sem tilefni gefst til.


Dægurhámarkshiti í mars (nördapistill)

Á leið okkar um dægurhámörk er röðin komin að mars. Hann er síðastur vetrarmánaðanna og megnið af mánuðinum sér þess ekki stað að vorið sé í nánd.

w-mars-dhamork

En þrír dagar síðast í mánuðinum skera sig nokkuð úr. Núverandi hitamet allra stöðva var sett á Eskifirði þann 28. árið 2000 (18,8 stig), sjálfvirka stöðin á Dalatanga á næsthæstu töluna þann 31. árið 2008 (18.4 stig). Þriðja háa talan er gömul, frá Sandi í Aðaldal 1948, þann 27 (18,3 stig). Fjölmörk hitamet einstakra stöðva frá þessum degi eða deginum eftir standa enn þrátt fyrir háan aldur, m.a. bæði í Reykjavík og á Akureyri. Tími fer að vera kominn á þau met.

En svona er tilviljunin. Hún ræður t.d. lágu gildunum þann 5. og 6., þau bíða eftir því að vera straujuð út. Það er meira að segja mögulegt það að gerist nú um helgina. Verði hámarkið á morgun  (5. mars 2011) jafnt hámarkinu í gær (3. mars) félli met þess 5. Ef og ef. En annað kvöld eða aðra nótt er hámarksþykkt spáð um 5420 metra yfir Austurlandi. Það er á mörkunum að það teljist metavænt en þar sem metið þann 5. er aðeins 12,3 stig og 13,0 stig þann 6. er rétt að gefa möguleikanum gætur.

Listi yfir stöðvar og daga er í viðhenginu. Þar má sjá að metin eiga aðallega stöðvar sem hafa fylgt okkur í vetur, þær sem eru nærri fjöllum um norðan- og austanvert landið. Seyðisfjörður á þó aðeins eitt met í mars. Svo eiga Hvanneyri í Borgarfirði og Sámsstaðir á Rangárvöllum einn dag hvor í hlýrri austanáttinni. Hér eru vegagerðarstöðvarnar ekki með. Hæsta marshámark á vegagerðarstöð er 16,9 stig. Svo hátt fór hitinn í Hvammi undir Eyjafjöllum 20. mars 2005 sama dag og dægurmetið var sett á Sámsstöðum. Hvanneyrarmetið er í sömu syrpu en daginn eftir (21.).

Svo bíðum við eftir 20 stigum í mars - hvenær sem það nú verður. Varla næstu vikuna því í helgarlok og í byrjun næstu viku á stór kuldapollur að koma í einu stökki yfir Grænland - nærri því eins og það sé ekki til - og fara síðan norðaustur yfir landið á nokkrum dögum. Þetta er hálfgert skrímsli. Hugsanlega meira um það síðar - en ekki er að marka allar spár.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Marshiti í Stykkishólmi í rúm 200 ár

Við lítum enn á hitafar í Stykkishólmi síðustu tvær aldir, nú í mars.

w-marshiti-sth

Ýmislegt vekur athygli á þessari teiknimynd. Kuldinn í mars 1881 æpir á okkur, hann á aðeins einn keppinaut, marsmánuð 1859. Sá vetur var kallaður álftabani og flaggar langkaldasta apríl allra tíma.

Með núverandi reikniaðferðum reiknast meðalhitinn á Siglufirði -19,8 stig í mars 1881, nærri þremur stigum undir meðaltalinu í Möðrudal í janúar 1918 og i Grímsey í mars 1881 en það eru næstlægstu gildi mánaðarmeðaltala á landinu. Siglufjarðartöluna má auðvitað draga í efa, mig minnir að skipt hafi verið um mæli í mánuðinum auk þess sem ég hef grun um að aðstæður hafi ekki verið eftir ítrustu stöðlum þess tíma.

En Siglufjörður á líka lægsta hita sem mælst hefur hér á landi í mars, -36,2 stig úr því fullkomna kuldakasti sem náði lágmarki sínu 21. dag mánaðarins 1881. Í athugasemd veðurathugunarmanns  stendur að meir en 40 stiga frost hafi mælst inni í sveitum - en þar voru engar opinberar mælingar. Bræðurnir (?) Snorri og Erlendur Pálssynir athuguðu. Ekki kann ég frekari skil á þeim.

En aftur að teiknimyndinni. Marsröðin er dálítið klippt og skorin. Hiti hrökk í 3 stig í mars 1841 og telja má að árin 16 til 17 næstu þar á eftir séu mikið hlýindaskeið marsmánaða - mun meira áberandi heldur en í febrúar á sama árabili. Mars 1856 marði það að vera sá næsthlýjasti, jafnhlýr og 1964 en heldur kaldari en sá makalausi mars 1929 þegar hafísjaka rak að ströndum Finnmerkur.

Í bréfi til Veðurstofunnar 1929 segist Benedikt Jónsson frá Auðnum, þá veðurathugunarmaður á Húsavík, minnast vetrarins 1855 til 1856. Hann fullyrðir að alla sína tíð (þar til 1929) hafi enginn vetur ámóta góður komið í Þingeyjarsýslu. Haustið áður gekk mikil hundapest um Norðurland og strádrap þar hundastofninn og fóru menn suður um hálendið um miðjan vetur til að endurnýja. Komu þeir heim með 50 hunda hóp í Þingeyjarsýslur - og var minnisstætt fyrir snáða á 10. ári sem Benedikt var þá. Hvernig er með þessar hundapestir? - ég vona að við eigum ekki von á slíku.

En enn aftur að teiknimyndinni. Nokkrir sæmilega hlýir marsmánuðir komu á árabilinu 1873 til 1884, auk hins ofurkalda 1881 en síðan var hlé á mjög hlýjum marsmánuðum þar til 1923. Þótt sá mánuður hafi skömmu síðar fallið í skugga 1929 virðist hann hafa komið mönnum mjög á óvart - svona lagað hafði bara ekki verið í tísku í minni flestra þeirra sem þá voru uppi.

Tímabilið 1923 til 1964 voru hlýir marsmánuðir margir og sá sem þetta skrifar man sérstaklega eftir þessum mánuðum 1963 og 1964. Ég vona að ég fái að lifa slík hlýindi aftur á þessum árstíma, en frábið mér kuldana vorið 1963. Ekki það að marsmánuðir áranna 2003, 2004 og 2005 komust nokkuð nærri og reglulega kaldan mars höfum við ekki séð síðan 1979.

Af samantektum meðaltala styttri og lengri tímabila svipuðum þeim og voru í pistlinum í gær má sjá að mars er hættir til að vera úr hófi kaldur þegar mikið er um hafís við landið. Það virðist muna meira um ísinn eftir því sem lengra kemur fram á veturinn. Tiltölulega lítill ís var við landið á árunum 1840 til 1856 heldur en áður og síðar á 19. öld. Sumarið á þetta sameiginlegt með mars, hlýskeið 19. aldar er þá mun sýnilegra heldur en það er háveturinn. Kannski að mars sé vormánuður eftir allt saman?

Beina línan á myndinni sýnir leitnina yfir allt tímabilið. Hún reiknast nálægt einu stigi á öld en höfum í huga að reiknuð leitni spáir engu.


Mars er vetrarmánuður á Íslandi

Þrátt fyrir að sól sé farin að hækka mikið á lofti í mars er samt glórulaust að telja þann mánuð til vorsins hér á landi. En alþjóðlegur þrýstingur er samt mikill, reglumenn vilja hafa þá reglu á hlutunum að árstíðirnar séu jafnlangar og að veturinn nái þá til mánaðanna desember, janúar og febrúar. Þá taki vorið við.

Ef útlendingur spyr mig um meðalhita vorsins hér á landi reiknar hann með því að mars sé þar með - nema að ég hafi fyrir því að taka sérstaklega fram að svo sé ekki. Ég get svosem líka bugtað mig og beygt fyrir alþjóðlegum hefðum - er maður ekki að því alla daga?. En reyndar er það svo að víða í útlöndum taldist veturinn áður fyrr ná frá vetrarsólstöðum til vorjafndægra. Það er skynsamlegt og gengi e.t.v. hér á landi. Það er skömmu fyrir vetrarsólstöður sem hiti hér á landi fer niður í þann flata botn sem síðan ríkir fram til 1. apríl. Þetta eru um það bil mörsugur, þorri og góa.

Eins og ég minntist á í pistli fyrir um það bil mánuði (1. febrúar) er mars að meðaltali kaldasti mánuður ársins sjötta hvert ár í Reykjavík, desember fimmta hvert ár, febrúar fjórða hvert og janúar þriðja hvert - nóvember og apríl sárasjaldan.

Lítum nú á töflu sem sýnir meðalhita í Stykkishólmi vetrarmánuðina á ýmsum tímabilum. Ég vona að hún sé ekki ólæsileg.

w-t178vetur

Hér má sjá mánuðina í dálkum hvern fyrir sig, veturinn í heild í aftasta heila dálkinum. Í fyrsta dálki er getið um ýmis 30-ára tímabil, aldirnar tvær i heild auk síðustu 10 ára (neðst). Þeir sem eru smámunasamastir munu taka eftir því að meðaltal mánaðadálkanna fjögurra ber ekki alveg saman við vetrarmeðaltalið sem tilfært er í síðasta dálkinum. Menn geta giskað á hvers vegna (en það er viljandi).

Í efstu tveimur línunum má sjá hæsta og lægsta mánaðarmeðalhita í mánuðunum fjórum. Við sjáum að spönnin er mest í mars, 18,7 stig. Aftasti dálkurinn er meðaltal hlýjustu og köldustu línunnar hvorrar um sig. Ef methiti yrði í öllum vetrarmánuðum kæmu þessar tölur upp. Veturinn 1880 til 1881 er sá kaldasti á öllu tímabilinu og við sjáum að hann hefur farið býsna nærri því að vera hið fullkomna lágmark. En hann á ekki janúarmetið (1918) og blæðir fyrir það. Hlýjasti veturinn í Stykkishólmi á þessum lista var 1964, þar vantaði tæp 1,7 stig upp á að hann væri í hæstu hæðum.

Rétt er að taka fram að fyrsta tímabilið, 1811 til 1840 er óttalegur skáldskapur og ætti e.t.v. ekki að vera þarna með - en allt fyrir skemmtanagildið. Tölurnar hækka aðallega þegar á líður - en þó er hlýskeiðið 1931 til 1960 hlýjast - nema í febrúar þar sem 1961 til 1990 er hæst. Febrúar er að jafnaði kaldastur fram til 1960 og mars er kaldari en janúar 1871 til 1900. Desember er alltaf hlýjastur nema 1961 til 1990 - þá er það febrúar. Miklu munar á hita á 19. öld og þeirri 20. Desember hlýnar minnst en febrúar mest.

Það er svo sérlega áberandi hvað síðustu 10 ár eru miklu hlýrri en öll önnur tímabil (síðustu 20 ár eru það líka). Þó verður að hafa í huga að árin eru aðeins tíu og áframhald þessa mikla hita yrði með miklum ólíkindum - þrátt fyrir vaxandi hita í heiminum. Líta má þannig á að við séum nú þegar búin að taka hitaaukninguna út með líkur á kólnandi veðri næstu 20 árin yfir höfðum okkar. Á hinn bóginn ætti að hafa í huga að ef hitinn hér á landi heldur áfram að stíga jafnhratt næstu 15 árin og hann hefur gert þau síðustu 15 - þá er eitthvað mikið að.


Lægðir vikunnar - 3. hluti

Við höldum enn áfram að horfa á lægðir vikunnar. Sú í dag er númer 2 af 4 eða 5. Hún náði upp snúningi í dag og sést vel á gervihnattamyndum. Þar sýnist hún vera nokkurn veginn fullmótuð. Lítum á lágupplausnarmynd af vef Veðurstofunnar. Hún er frá því kl. 23 þriðjudaginn 1. mars.

w-blogg020311-sevirit

Ég hef sett nokkrar tölur inn á myndina til frekari umfjöllunar. Læðgarmiðjan er nokkurn veginn við enda örvarinnar nærri tölunni 1. Svo virðist sem þurrt loft hafi náð að hringa sig um miðju lægðarinnar, alla vega er þar lítið um ský. Örin sýnir það sem virðist vera leið þessa lofts, en það er þó alls ekki víst að svo sé. Þurrasta loftið gæti t.d. verið komið úr suðvestri frekar en vestri eða norðvestri og þornað í niðurstreymi þurru rifunnar. Ekki treysti ég mér til að gefa út endanlegan úrkskurð um það.

Talan 2 er yfir mikilli flákaskýjabreiðu sem er þar sem útsynningur lægðarinnar ætti að vera. Þetta bendir til þess að hlýtt loft sé efra sem klakkar ná ekki að komast upp úr. Þó vottar fyrir klökkum sunnan við breiðuna og sömuleiðis vestur af Íslandi. Það er e.t.v tvennt sem veldur því að klakkarnir ná sér illa á strik. Annars vegar er næsta lægðakerfi komið óþægilega nálægt og farið að breiða sinn hlýja faðm yfir hluta svæðisins. En líklegri ástæðu er e.t.v. að finna við Grænland.

Talan 3 er sett þar sem er mjög stórt heiðskírt svæði austan við háfjöll Grænlands. Þar er væntanlega loft í niðurstreymi eftir að hafa lyfst yfir jökulinn. Niðurstreymið nær þó ekki til jarðar en verður til þess að tiltölulega hlýtt loft liggur eins og teppi langt á haf út og bælir mestallt uppstreymi, teppið hækkar þó smám saman eftir því sem austar dregur. Grænlandsteppið er algengt veðurfyrirbrigði sem nördin gætu gefið meiri gaum.

Talan 4 er sett í risastóran skýjahaus næsta lægðakerfis, kerfið er miklu stærra en lægðin í dag, næsta lægð verður stærri en sú sem nú er við landið, en ekki endilega öflugri. Hún kemur sína leið en enn er óvísst um heilsu hennar. Amerískum og evrópskum spám ber ekki alveg saman um smáatriði.

Talan 5 merkir hluta af miklu hlýju færibandi lægðarinnar nýju.

Talan 6 er við ör sem bendir á skarpa brún blikubreiðu lægðarinnar sem nú er í námunda við landið. Skarpar vellagaðar brúnir sem eru hundruðir kílómetra á lengd benda oft til návistar skotvinda sem í þessu tilviki eru tengdir heimskautaröstinni en hún sér um hraðakstur lægðanna þessa dagana. Merkið einkennilega sem ég hef sett þarna táknar (hóflega) ókyrrð sem farþegaflugvélar gætu orðið varar við. Merki sem þessi eru vel kunnug flugmönnum, veðurnörd ættu leggja þau á minnið.

Breiða, grænleita örin sýnir væntanlega leið lægðarinnar. Síðdegis og í kvöld hefur hraði hennar verið u.þ.b. 60 til 70 km á klst, jafnvel aðeins meiri. Ef hvessir hér á landi verður það í norðvestanátt aftan við lægðarmiðjuna. Spár segja það geta orðið seint í nótt eða með morgninum um landið austanvert. Fjallvegir víða um land gætu einnig orðið fyrir vindi í nótt og framan af degi á morgun. 

Næstu lægðir eru væntanlegar aðfaranótt fimmtudags og síðan um helgina. Smálægð gæti reyndar skotist hratt til austnorðausturs suður af landinu á milli þessara tveggja stærri kerfa.

Ég læt nú sennilega af skrifum um þessa lægðafjölskyldu alla nema eitthvað kennslubókardæmigert atriði birtist á kortum eða myndum - eða þá ef eitthvað óvænt gerist. En munið eftir því að hungurdiskar eru ekki spáblogg - þar er hins vegar fjallað um veður, veðurfar og veðurspár. Veðurstofan og aðrir til þess bærir aðilar sjá um spárnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 347
  • Sl. sólarhring: 480
  • Sl. viku: 1663
  • Frá upphafi: 2350132

Annað

  • Innlit í dag: 310
  • Innlit sl. viku: 1513
  • Gestir í dag: 301
  • IP-tölur í dag: 290

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband