Áframhald um kuldakast

Spár haldast svipaðar varðandi kuldakastið í vikunni. Það verður varla umflúið. Annars eru spár yfirleitt ekkert sérstaklega nákvæmar varðandi kuldaköst hér úti í hafi í skjóli Grænlands. Sjórinn virðist almennt vera duglegri við að hita loftið heldur en spár gera ráð fyrir og sömuleiðis gengur þeim illa að ráða við þau litlu veðurkerfi sem gjarnan myndast inni í kuldapollunum. Varlegt er að treysta smáatriðum í spánum og alls ekki meira en 2 til 3 daga fram í tímann.

Engu að síður er hreyfingum og umfangi sjálfra kuldapollanna oft vel spáð nokkra daga fram í tímann og er mikill munur á því nú og sem áður var. En lítum á svipaða mynd og í gær. Hitamynd sem gervihnöttur stikaði út nú í kvöld. Þetta eintak var búið til í móttökustöðinni í Dundee í Skotlandi.

w-ch5-dundee-060311-21

Miðja kuldapollsins er enn vestan Grænlands en mjög kalt loft úr honum er farið að falla niður austurhlíðar Grænlandsjökuls, u.þ.b. þar sem stutta bláa örin liggur. Þetta loft er svo kalt að él fara að myndast í því ekki langt frá ströndinni. Trúlega fárviðri í sumum dölunum á þessum slóðum, hættulegur piteraqsem Grænlendingar nefna svo. Vestan Grænlands er mikið en smáriðið éljaþykkni, snjókoma var í Nuuk kl. 21, vindur 10 m/s og 15 stiga frost í hafáttinni.

Rauðu strikalínurnar eru settar í kringum hlý færibönd í tveimur lægðakerfum sem eru á mikilli ferð til austnorðausturs með heimskautaröstinni og skotvindum hennar (skörpu skýjakantarnir norðan í færiböndunum). Þessi kerfi eru ágæt dæmi um lægðasveipi sem ekki sjást sem lægðir á venjulegum veðurkortum. En fyrra kerfinu hefur þó tekist að mynda haus í köldu færibandi þó vindátt sé vestsuðvestlæg í öllum þrýstiflötum. Það virðist því engin „hringrás“ vera í kringum þessa „lægð“.

Það er samt hringrás en hún er einungis afstæð. Það er erfitt að átta sig á þessu, en ímyndum okkur hringdans um borð í júmbóþotu. Flestir eiga auðvelt með að sjá slíkt fyrir sér og jafnframt sjá að um raunverulega hringhreyfingu sé þar að ræða. En utanfrá séð - þotan er fer á 900 km hraða á klst - frá þeim sjónarhóli straujast danshringurinn algjörlega út og litur út eins og strik, við sjáum dansinn ekki nema að við drögum meðalhraða dansaranna í stefnu flugsins frá. Svipað er með þessa „lægð“ sem er að fara hjá.

Þessi „afstæða lægð“ (þess vegna stafirnir AL) á reyndar að birtast á grunnkortum alllangt norðaustur af landinu upp úr hádegi á morgun (séu spár réttar). Önnur afstæð lægð er tengd hinu hlýja færibandinu á myndinni, því sem merkt er 2. Það er svipað með hana, hennar sér vart stað á venjulegum veðurkortum fyrr en síðdegis á morgun, þá yfir Suðurlandi. Hvort hún birtist þar eða síðar verður bara að sýna sig. En HIRLAM-spáin danska kemur henni í mikinn ham þegar hún er komin framhjá okkur og keyrir hana niður í 944 hPa. Sú tala er þó mjög ótrúleg og rétt að hafa í huga það sem sagði hér að ofan um smáatriði í spám þegar kuldapollar eru annars vegar.

Kuldapollurinn mikli á að vera kominn á Grænlandshaf í fyrramálið (7. mars 2011). Suðvestanátt er í háloftunum á undan honum´með sínum útsynningséljum og það er ekki fyrr en lægðin sem holdgerist á morgun er komin hjá sem það nær að kólna að ráði.

Afstæðar lægðir hljóta að vekja áhuga hjá veðurnördum, en öðrum er sjálfsagt sama.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Þurr skyldi Þorri/þeysöm (þeysin) Góa/votur Einmánuður/þá mun vel vora". Það er skemmtilegt að skoða þessi gömlu "veðurvísindi" og bera saman við reynsluna. "Ef í heiði sólin sést/á sjálfa Pálusmessu/snjóa vænta máttu mest/maður uppfrá þessu". Á Pálsmessu að vetri var núna nær heiðskírt veður hér, en snjórinn hefur látið á sér standa. Ekki er þessi spásögn því áreiðanleg. Einn "spádagur" er nú framundan, því "öskudagur á sér átján bræður" var sagt hér áður fyrr. Fróðlegt verður að sjá hvort norðanáttin, sem spáð er þann dag, verður viðvarandi. Hvað sem þessu öllu líður, þá er fróðlegt að lesa greinarnar hans Trausta og öðlast um leið ofurlitla sýn inn í þann mikla mekanisma, sem veðurkerfi jarðarinnar mynda. Takk kærlega fyrir.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 7.3.2011 kl. 07:16

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þessar gömlu merkidagaspár eru skemmtilegar en því miður virðist oftast lítið vit í þeim. Maður ímyndar sér þó stundum að uppruninn sé í einhverju sem einhver reynslubolti hefur tekið eftir en síðan hafi það riðlast illilega í meðförum þeirra sem ekki skildu það sem á bakvið er. Svo gildir gömul og góð regla um veðurfar sem og margt annað: Þegar regla hefur fundist bregst hún.

Trausti Jónsson, 8.3.2011 kl. 01:05

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Fátt finnst mér leiðinlegra í sambandi við veður og það sem því tengist en þessar gömlu kerlingarbækur. Það er alveg eins hægt að reiða sig á verðurklúbbinn á Dalvík.

Sigurður Þór Guðjónsson, 8.3.2011 kl. 11:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 22
  • Sl. sólarhring: 254
  • Sl. viku: 1308
  • Frá upphafi: 2352371

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 1180
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband