Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010
4.12.2010 | 01:37
Hæstu árshámörk að vetri?
Ég þakka Hjalta Þórðarsyni fyrir að rifja málið upp fyrir mér. Hann benti réttilega á það að desembermetið á Sauðanesvita hefði jafnframt verið hæsti hiti ársins á staðnum - en það er mjög óvenjulegt svo ekki sé meira sagt að árshámark stöðvar sé um hávetur. Fyrir allmörgum árum athugaði ég þetta lauslega en lokaði ekki málinu að neinu leyti. Nú er gott að gera það - að minnsta kosti nokkurn veginn.
Svarið við spurningu Hjalta um hvort þetta hefði nokkurn tímann gerst svo nærri vetrarsólstöðum er neitandi. Sauðanesvitatilvikið er reyndar eina árshámarkið á stöð sem lendir á desember og þar með aðeins um viku frá sólstöðunum. Síðan eru tvö stök tilvik, annað í janúar og hitt í febrúar þar sem hámarkshiti á stöð lendir í þessum mánuðum. Bæði tilvikin eru jafnframt landshámarksmet mánaðanna tveggja.
Janúartilvikið er frá þeim 15. árið 2000 þegar 19,6 stiga hiti mældist á sjálfvirku stöðinni á Dalatanga og 18,4 stig á mönnuðu stöðinni, hámarkshiti ársins á báðum stöðvunum. Sama dag var hámarkshiti í Seley (14,9°C) og Kambanesi (16,3°C) einnig árshámark á stöðvunum.
Febrúartilvikið er einnig frá Dalatanga, en þar fór hámarkshiti í 18,1 stig þann 17. árið 1998. Ekkert sambærilegt gerðist þá á sjálfvirku stöðvunum. Þess má geta að hámarkshiti í júní var aðeins 9,1 stig á Dalatanga.
Ekkert hámark í mars er hámarkshiti ársins á veðurstöð. Fjögur tilvik fann ég á mönnuðum stöðvum í nóvember og 10 í október. Í apríl eru tilvikin sjö. Hér er fjöldi stöðva talinn. Fjögur af apríltilvikunum fjórum voru úr sömu hitabylgjunni í lok mánaðarins. Dalatangi kemur oftast við sögu í þessum tilvikum.
Af þessu má vera ljóst að þessi náttúra hitafarsins sýnir sig einungis þar sem sumur geta verið mjög köld. Á sumrin er stundum mjög kalt á annesjum austanlands þótt hlýtt sé á sama tíma inni á fjörðum. Svipað getur gerst á útnesjum nyrðra - en sjaldnar. Fjöll þurfa einnig að vera nærri. Hér má rifja upp að október var hlýjasti mánuður ársins í Grímsey 1882, þá var hafís við eyna allt sumarið.
Rétt er að taka fram að til að stöð teljist gild í leitinni verður hámarkshiti að hafa verið athugaður allt árið. Sé slakað á þeim kröfum er hugsanlegt að skrapa megi upp fleiri líkleg tilvik með ítarlegri leit. En slík tilvik eru eðli málsins samkvæmt ekki eins falleg og þau sem nefnd hafa verið. Einnig hefur ekki enn verið farið í saumana á athugunum fyrir 1920. Finni ég svo gömul gegnheil tilvik læt ég það fréttast.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2010 | 01:00
Dagamet í desember
Eins og venjulega þegar óvenju kalt eða hlýtt er einvers staðar í þéttbýlum löndum eiga fréttir um met greiðan aðgang að fyrirsögnum heimsfjölmiðlana. En sjaldnast er getið um hvers konar met er að ræða. Þar er gott að hafa í huga að hitamet einstakra daga eru slegin oft á ári í venjulegu árferði. Líkurnar á því fara eftir því hversu lengi stöðin hefur athugað.
Fyrir nokkrum dögum var talað um kuldamet í Moskvu, þar hefur trúlega verið um dægurmet að ræða. Í Moskvu hafa hitamælingar verið nokkuð áreiðanlegar um langt skeið - sennilega aftur til 1870 þannig að fyllilega sé sambærilegt. Það eru 140 ár. Séu engar loftslagsbreytingar að eiga sér stað (jafnstöðuloftslag) ættu 2-3 dægurkuldamet að falla þar árlega, því dagar ársins eru 365. Sama á við um hitamet. Algengast er að engin met falli yfir árið, en stundum kemur slatti sama árið, í Moskvu munu mörg slík hitamet hafa fallið síðastliðið sumar.
Mánaðametin eru erfiðari. Hafi verið athugað í 140 ár ættu mánaðarmet ekki að birtast nema á 10 til 15 ára fresti að meðaltali. Algengur ævitími veðurstöðva er 20 til 50 ár. Fyrsta árið verður mánaðarmet til í hverjum mánuði, síðan fækkar þeim smátt og smátt eftir því sem lengur er athugað.
Erfiðara er að meta tíðni landsmeta. Veðurstöðvakerfið breytist sífellt, á síðari árum hefur sjálfvirkum hitamælistöðvum fjölgað mjög, aukinn þéttleiki eykur líkur á landsmetum. Séu landsmet skoðuð kemur hins vegar í ljós að þau eru mun líklegri á ákveðnum stöðum frekar en öðrum. Lítum á tvö línurit.
Hér sjáum við, að því er virðist, gríðarlega hlýnun. Leitnin er 0,5°C á áratug (5 stig á öld). Við athugun kemur í ljós að hæsti hita í desember er helst að vænta við sjávarsíðuna á Norður- og Austurlandi þar sem há fjöll eru í nánd. Þar voru engar stöðvar fyrr en snemma á 20. öld. Byrjað var að athuga á Seyðisfirði 1906. Á þriðja áratugnum bættust Hraun í Fljótum og Fagridalur við utanverðan Vopnafjörð við. Þá komu hærri tölur en sést höfðu áður. En þá hlýnaði líka í veðri. Metið sem sett var á Hraunum í Fljótum 3. desember 1933 (16,6 stig) stóð mjög lengi, það var jafnað 1970 og 1981. Árið 1988 kom svo nýtt met, það var á Seyðisfirði. Ný met komu síðan á Skjaldþingsstöðum (1997) og 2001 kom núverandi desembermet, 18,4 stig á Sauðanesvita vestan Siglufjarðar, ekki fjarri gamla metstaðnum á Hraunum.
Síðan höfum við beðið eftir nýju meti. Þeir sem eru kunnugir veðurstöðvakerfinu sjá að þeir staðir sem nefndir hafa verið eru mannaðir. Sjálfvirku stöðvarnar hafa enn ekki skilað mánaðarmeti í desember. Við sjáum einnig að hlýi áratugurinn 1930 til 1940 skilaði góðum hámarkshita og hámarkshitinn hefur einnig verið frekar hár á síðustu árum. Eitthvað hefur það með almenn hlýindi að gera.
En kíkjum á dagamet desember í leiðinni.
Dagarnir 14. og 15. eru hæstir og gamlársdagur áberandi lægstur. Bláa, útjafnaða línan sýnir að eitthvað breytist um sólstöðurnar. Ef til vill er það þannig að líkur á hitabylgju detti niður um það leyti, ef til vill er um tilviljun að ræða. Líklegast er að næst falli met t.d. þann 7., 12. eða 17.
Listinn er í skrá í viðhengi. Þar kemur í ljós að elstu metin eru frá Seyðisfirði 22. og 23. desember 1962. Trúlega er hér um svokallað tvöfalt hámark að ræða - mætti athugast betur. Allar ábendingar um villur eru vel þegnar. Það kom mér frekar á óvart að stöðvarnar tvær í Hjaltadal, Hólar og Dalsmynni eiga met fyrir tvo daga. En þær eru reyndar ekki svo langt frá Sauðanesvita og Hraunum.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.12.2010 | 00:42
Giskað á árshita í Stykkishólmi
Nú eru 11-mánuðir liðnir af árinu og einn eftir. Nóvember var heldur rýr hvað hita snerti, en menn segja hann samt vera viðunandi. Það er nefnilega enn möguleiki á árshitameti. Ég læt aðra bloggara alveg um að velta vöngum yfir Reykjavíkurhitanum að þessu sinni og vona að þeir haldi því áfram sem lengst. En hér er ætlunin að líta á möguleikana í Stykkishólmi.
Meðalhiti fyrstu 11 mánaða ársins þar er 5,76 stig. Við notum tvo aukastafi til gamans rétt eins og menn gera mun á þúsundustuhlutum úr sekúndu í Formúlunni. Þetta er það næsthæsta sem vitað er um í Hólminum, við þykjumst í þessu tilviki hafa gögn aftur til 1823. Ellefu fyrstu mánuðir ársins 2003 voru lítillega hlýrri, með 5,90°C. Fylgnin milli 11-mánaða hitans og árshitans er hvorki meira eða minna en 0,9833 - en það er svo gott að Alþjóðaveðurfræðistofnunin og fleiri aðilar hafa tekið upp þann ósið að gefa út fréttatilkynningar um ársmeðalhitann strax í byrjun desember. (Svo heyrir maður ekki nærri eins mikið um endanlegar tölur).
En lítum á línurit:
Myndin er í betri upplausn í meðfylgjandi pdf-skjali, sjá viðhengið.
Hér má sjá umrætt samband og jöfnu bestu línu í gegnum punktaþyrpinguna. Ef við setjum töluna 5,76 inn í jöfnuna fæst út ágiskunin 5,33°C fyrir árshitann. Metárið 2003 var hann 5,41°C. Munurinn er aðeins 0,08 stig. Við getum líka giskað öðru vísi, t.d. með því að reikna út hver meðalmunur er á 11-mánaða hitanum og árshitanum. Þá fáum við út töluna 0,37°C. Sú ágiskun yrði 5,39°C eða 0,02 stig undir metinu. Það ár sem stóð sig best á endasprettinum var 2002, enda var desember það ár fádæma hlýr. Slíkur endasprettur myndi skila árinu 2010 upp í nýtt met.
Á myndinni sjáum við eitt ár skera sig úr - langt neðan við línuna. Þetta er hið fræga ár 1880, sem virtist fram á haust ætla að setja met fyrir 19. öldina. Slíkur endasprettur myndi skila okkur niður í 4,62 stig - sem er reyndar býsna hlýtt, 1,1 stigi ofan meðallagsins 1961-1990.
1.12.2010 | 00:39
Desemberhiti í Stykkishólmi í 200 ár
Nú er desember að hefjast. Við byrjum á því að líta á hitahegðun hans í rúm 200 ár. Fyrst var mælt í Stykkishólmi í desember 1845 og eldri tölur því ágiskaðar eftir mælingum annars staðar. Rétt er að taka þær ekki allt of hátíðlega, sérstaklega fyrir 1830. Fáeina mánuði vantar alveg.
Hér sést mikill breytileiki. Hlýjasti desembermánuðurinn var 1933, með 4,0 stig, en sá kaldasti var 1880, -7,9 stig. Kaldasti desember á síðari áratugum var 1973 - eftirminnilegur mánuður. Þá hélt maður að nú væri veðurfarið endanlega gengið aftur til 19. aldar. En afturhvarfið var fremur til tímabilsins 1893 til 1920. Sú tilfinning að öllum hlýindaskeiðum væri lokið stóð nokkuð lengi, eiginlega til aldamótanna síðustu, þó mikil hlýnun ætti sér stað víðast hvar annars staðar í heiminum.
Leitni alls tímabilsins sýnist vera 0,9 stig á öld, en varlegt er að taka slíkar tölur bókstaflega og ekki má nota það til spádóma um framtíðina. Bláa línan sýnir aðalatriði breytinganna. Allhlýtt var milli 1840 og 1850, sérstaklega 1849, 1850 og 1851. Síðan aftur um 1930 og áfram, lítið er um snögg stökk.
Hlýjustu 10 árin í desember eru þau frá 1937 til 1946 og 2000 til 2009, þessi tvö tímabil eru jafnhlý. Nú er spurning hvað desember 2010 gerir. Hann byrjar í afskaplega óþægilegri stöðu, fyrirstöðuhæð nálægt Suður-Grænlandi. Þá ganga lítil háloftalægðadrög hvert á fætur öðru til suðausturs um Ísland. Í augnablikinu er gert ráð fyrir 4 slíkum á næstu 7 dögum, það síðasta á að vera veigamest. Ómögulegt er að segja til um hvort eitthvert þeirra nær að grípa kalda loftið í íshafinu með sér suður um Ísland í leiðinni eða hvort öll verði yfirleitt til. Við bíðum spennt næstu daga.
Fádæma hlýtt hefur verið á Vestur-Grænlandi, hiti mun hafa komist í yfir 15 stig í Nuuk fyrir nokkrum dögum. Nóvember var 5 stigum yfir meðallagi í Nuuk og meir en 7 stigum yfir meðallagi í Syðri-Straumfirði, þar sem hiti komst einnig yfir 15 stig, en meðaltal nóvember er -12 stig. Nóvember var sá kaldasti í Noregi síðan 1919. Yfirlit Veðurstofunnar um nóvember kemur vonandi 1. desember.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (29.4.): 78
- Sl. sólarhring: 95
- Sl. viku: 1288
- Frá upphafi: 2463030
Annað
- Innlit í dag: 65
- Innlit sl. viku: 1134
- Gestir í dag: 59
- IP-tölur í dag: 55
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010