Hugsað til ársins 1942

Árið 1942 var hlýtt, en samt talið fremur óhagstætt og umhleypingasamt lengst af. Janúar var hlýr, en með afbrigðum óstöðugur og illviðrasamur sunnanlands og vestan, en tíð var talin góð og lítill snjór og góðir hagar voru á Norður og Austurlandi. Febrúar var hagstæður og hæglátur um land allt. Fremur þurrt var í veðri. Mars var mjög hagstæður um landið vestanvert og gæftir þar góðar, en óstöðug tíð var eystra. Umhleypingasamt var í apríl, kalt framan af en síðan betra, einkum norðaustanlands. Maí var mildur og hagstæður í fyrstu, en síðan kaldur með köflum. Spretta þótti léleg og gæftir misjafnar. Júní var þurr og kaldur með köflum, spretta óvenju rýr. Í júlí gekk heyskapur vel á Suður- og Vesturlandi, en á Norður- og Norðausturlandi var hins vegar kalt og vætusamt og erfitt með heyskap. Ágúst var kyrr lengst af, en þó var óþerrasamt, heyskapur gekk þó allvel fyrir norðan. September var fremur kaldur og óstöðugur. Heyfengur rýr, en verkun sæmileg. Garðuppskera einnig rýr, gæftir fáar. Október var kaldur og umhleypingasamur, sérstaklega á Norður- og Austurlandi. Gæftir voru stirðar. Í nóvember var illviðra- og úrkomusamt, sérstaklega á Suður- og Vesturlandi, gæftir stopular. Desember þótti mildur en umhleypingasamur. Hagar voru góðir. 

Við rifjum nú upp fréttir ársins tengdar veðri. Ekki er sá listi tæmandi. Blaðatextar eru langflestir fengnir af vefnum timarit.is, oft styttir hér og stafsetning oftast færð til nútímahorfs (vonandi sætta höfundar sig við þá meðferð). Heimildir eru að auki úr Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands, og töluleg gögn úr gagnagrunni Veðurstofunnar. Sömuleiðis notum við okkur fáeinar tíðarfarslýsingar veðurathugunarmanna. Talnasúpu má finna í viðhenginu. Heimsstyrjöldin setti mjög svip á mannlíf, allmörg skipsströnd og óhöpp tengdust henni beint eða óbeint. Veður - eða ókunnugleiki - kom þar stundum við sögu. Við rekjum ekki nema fá slík slys. Hér er ekki um slysaannál að ræða. Stríðið hafði einnig mikil áhrif á fréttaflutning af veðri, veðurfréttir ekki leyfðar. Margskonar upplýsingar um tjón hafa því örugglega glatast. Þrennar kosningar fóru fram á árinu, sveitarstjórnarkosningar og tvennar kosningar til Alþingis. Mikið fór fyrir þeim í fjölmiðlum. 

Slide1

Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), meðalþykkt (daufar strikalínur) og þykktarvik (litir) í janúar 1942. Eindregin suðvestanátt var ríkjandi með hlýju veðri lengst af. Gríðarlegir kuldar voru í Evrópu. Um þá kulda hefur verið fjallað lítillega áður, [pistill 18.mars 2018] og [pistill 18.janúar 2011

Janúar byrjaði vel, en síðan skipti yfir í mjög ruddalegt veðurlag. Gríðarlega djúp lægð fór yfir landið þann 12. Loftþrýstingur mældist lægstur í Stykkishólmi, 936,7 hPa og mældist ekki svo lágur aftur hér á landi fyrr en rúmum 40 árum síðar, árið 1983. Talsvert tjón varð í veðrinu sem fylgdi. Tjón varð þó mun meira samfara næstu lægð sem kom að landinu og fór til norðvesturs rétt fyrir vestan það þann 15. Mældist þá meiri vindhraði heldur en fyrr og síðar í Reykjavík. Lægðin virðist hafa verið mjög djúp, en sigldi hjá landinu. Hungurdiskar hafa áður fjallað allítarlega um þetta veður og sömuleiðis má um það lesa í greinargerð eftir Flosa Hrafn Sigurðsson sem Veðurstofan gaf út árið 2002. Hér verður því ekki fjallað um lægðina sjálfa en vísað í þessi fyrri skrif. Við birtum þó frásagnir Alþýðublaðsins (það eina sem út kom í prentaraverkfallinu). Þann 18. kom síðan ein lægð til viðbótar og sömuleiðis varð hvasst þann 20. Tjóns er ekki getið í þessum síðari veðrum, hlýtur þó að hafa orðið eitthvað. Grunur er um að í frásögnum, einkum síðari tíma, slái þessum þremur veðrum eitthvað saman. Mikið tjón varð t.d. hjá setuliðinu í Hvalfirði, eitthvað af því varð í raun þann 12.

w-sponn-1942-jan

Línuritið sýnir lægsta loftþrýsting á landinu á hverjum athugunartíma í janúar 1942 (rauð lína). Bláu súlurnar þrýstispönn (mun á hæsta og lægsta þrýstingi). Gefur þrýstispönnin nokkuð til kynna hver vindhraði hafi verið. Margs er þó að gæta. Munum að stöðvar voru ekki margar og athuguðu þar að auki ekki að næturlagi. Mælitölur sem ná til landsins í heild geta að auki misst algjörlega af staðbundnum vindstrengjum. Helstu veðrin koma samt vel fram og eru merkt á myndinni. 

Við notum okkur nokkrar veðurlýsingar veðurathugunarmanna - fleiri en oft áður í þessum pistlum vegna fréttaleysis stríðsins. Hér að neðan er þó ekki lýsing Guðmundar Baldvinssonar á Hamraendum í Miðdölum á veðrinu mikla 15. janúar (sjá skýrslu Flosa Hrafns - og bókina Saga Veðurstofu Íslands). Veðurrathugunartæki á Hamraendum fuku og mælingar féllu niður um hríð eftir veðrið.

Síðumúli (Ingibjörg Guðmundsdóttir): Janúarmánuður var mjög mildur, en úrkomu- og stormasamur. Jörð er enn snjólaus að kalla og klakalaus, en ekki alveg þíð. Þann 15. geisaði fárviðri svo mikið, að elstu menn hér muna ekki slíkt veður, svo lengi sem það stóð, 6 stundir, látlaus stormur frá kl. 13-19 hér. Gerði þetta veður mikið tjón hér í sveit og víða í héraðinu. Þök fuku af íbúðarhúsum, hlöðum, fjárhúsum og fjósum og heyfúlgur og fl. lauslegt úti við. Símabilanir urðu víða miklar í héraðinu.

Lambavatn (Ólafur Sveinsson): Það hafa verið mjög stórgerðir umhleypingar nær óslitið allan mánuðinn. Þó jörð hafi oftast verið auð hefir skepnum ekki verið beitt neitt til gagns.

Kvígindisdalur (Snæbjörn Thoroddsen): (Líklega er átt við þann 13.janúar) Milli athugana kl. 8 og 12 var veðurhæð full 10 vindstig. Kl.12:15 laust eldingu niður svo að skemmdir urðu að á nokkrum bæjum hér í hreppnum. Hér í Kvígindisdal skemmdist viðtæki mjög mikið. Á Hnjóti brunnu sundur símaleiðslur í húsinu þar. Vartappar þar frá rafstöð eyðilögðust og rafmagnseldavél skemmdist mikið. Á símstöðinni Breiðavík brast eldingavari. Á Hvallátrum ónýttist talsímatæki. Á símalínunni til Hænuvíkur brunnu yfir spennirar og varð því sambandslaust við þessar símstöðvar af völdum eldingarinnar. Á fjallinu milli Hnjóts og Breiðavíkur er talið að eldingin hafi eyðilagt tvo símastaura. Yfirleitt hefir tíðarfarið í mánuðinum verið stórviðrasamt og úrfellasamt, en hlýtt.

Suðureyri (Kristján A. Kristjánsson): Alveg frábært að breytileik - bæði um hitastig - vindátt - styrk og úrkomu. Man varla annan eins mánuð. Þó mikil og snjólaust. Gæftir fáar. Loftvog 12.1. 707 [942,6 hPa], mun ekki svo lág síðan 1921.

Núpsdalstunga (Jón Ólafsson): [15.] Um klukkan 2 á hádegi hvessti svo að fjárhús og hlöður fuku og töluvert af heyjum, einnig fuku refabúr víð og varð mikið tjón að. Þök af nokkrum íbúðarhúsum fuku, en ekkert manntjón varð.

Sandur í Aðaldal (Friðjón Guðmundsson): Ágætis tíðarfar, einmuna milt og framúrskarandi snjólaust. Fölgnaði naumast og var jörð marauð tímum saman svo hvergi sást snjór í byggð. Mjög snjólétt upp til fjalla. Vötn ísilögð að mestu og örlítið frost í jörð.

Reykjahlíð (Pétur Jónsson): Að morgni 27. varð vart við öskufall í suðurhluta Mývatnssveitar. Ég sá mökkinn tíðan, en hér féll ekkert.

Raufarhöfn (Rannveig Lund): Tíðarfar var hið besta, stöðug þíðviðri og alauð jörð að heita mátti. Muna elstu menn jafnvel ekki betra að jafngott tíðarfar á sama tíma árs.

Nefbjarnarstaðir (Jón Jónsson): Tíðarfar gott. Úrkomur litlar og stillingar. Frost sem oftast lítið og þíðviðri oft. Alautt til 27., þá kom lítils háttar áfelli.

Papey (Gísli Þorvarðsson). Þ.3. snjóaði nokkuð en tók fljótt upp aftur. Þ.12. var hér rok 11 og 12 með stórsjó sem bar grjót og torf langt á land upp, áttin var sunnan og suðvestan. Þ.15. var hér stormur á sunnan og suðsuðaustan. Þ.21. rok um nóttina 10-11 með regni og hafróti.

Sámsstaðir (Árni Jónsson). Mánuðurinn byrjaði með allmiklu frosti, snjó og norðanátt, en síðan skiptust þíðviðri og frost á. Mánuðurinn var mjög umhleypingasamur og veðurbreytingar miklar. Snjó festi alltaf annars slagið, hagl- og krapaél voru algeng, þrumur og eldingar fylgdu þeim. Ofsarok gerði 15. af suðaustri. Tjón varð þó ekki hér svo teljandi sé.

Slide4

Kortið sýnir lægðina miklu 12.janúar. Endurgreiningin er ekki fjarri lagi, 938 hPa í lægðarmiðju. Þetta veður varð verst vestanlands aðfaranótt 12., en strengurinn fór heldur síðar yfir landið norðaustanvert.  

Alþýðublaðið segir frá 12.janúar:

Veður var afarvont í nótt. Engar fréttir hafa þó borist af af skemmdum, enda eru símalínur slitnar mjög víða. Norðurlandslínan er slitin, einnig línur kringum Borgarnes og suðurlínan til Keflavíkur. Hér í Reykjavík urðu ekki miklar skemmdir, en erlent skip, sem lá hér við bryggju slitnaði frá henni og rak upp.

Dagur segir 15.janúar frá illviðrinu þann 12.:

Slys. Í ofviðrinu, sem gekk s.l. mánudagsmorgun, vildi það hörmulega slys til á Skútustöðum í Mývatnssveit, að Geirfinnur Þorláksson féll ofan af fjárhúsþaki og beið bana. Geirfinnur heitinn var hinn mesti efnismaður, og er mikil eftirsjá að honum. Hann var aðeins 26 ára að aldri.

Ofsarok af suðaustri gekk hér yfir s.l. mánudagsmorgun. Munu hafa orðið nokkrar skemmdir á útvarpsloftnetum hér í bænum. Breskan togara rak á land í Bótinni norðan Torfunefsbryggju,

Svo kemur að versta veðrinu. Eins og áður sagði hafa hungurdiskar fjallað um það áður, með kortum og skýringum. Alþýðublaðið segir frá 15.janúar:

Allri lögreglunni boðið út vegna fárviðris í bænum. Skip losna af ytri höfninni og braggar fjúka. Ofviðri hefur geisað hér í nótt og í morgun og hefir í tilefni af því verið boðið út öllu lögregluliði bæ)arins. Þegar blaðið fór í pressuna höfðu engin slys orðið svo vitað væri, en þök voru að fjúka af húsum, skúrar fuku hjá setuliðinu og skip losnuðu á ytri höfninni. Mikið fauk úr girðingunum kringum Elliheimilið og íþróttavöllinn. Þök fuku af húsunum 88 og 98 við Laugaveg og 61 og 63 við Barónsstíg. Ýmsar fleiri skemmdir urðu.

Loftnet útvarpsstöðvarinnar bilaði um hádegi í dag vegna ofveðursins. Engu mun verða hægt að útvarpa að minnsta kosti í tvo daga, eftir því sem Alþýðublaðinu var skýrt frá um hádegið frá útvarpsstöðinni, Er loftnetið algerlega eyðilagt og verður að gera við það til fullnustu. Engar útvarpsumræður fara því fram í kvöld og annað kvöld.

Það slys vildi til á Skútustöðum í Mývatnssveit á mánudaginn [12.], að maður féll í
ofsaroki ofan af húsþaki og beið bana. Var það Geirfinnur Þorláksson, glímukappi Þingeyinga. Slysið vildi til með þeim hætti að Geirfinnur var, ásamt öðrum manni, að bjarga þakinu af húsinu, en það var að fjúka. Voru þeir komnir upp á þakið og ætlaði Geirfinnur að halda niðri plötum meðan hinn maðurinn hlypi niður og sækti nagla. En þegar maðurinn var rétt kominn niður svipti ofveðrið Geirfinni niður af þakinu. Lenti hann með höfuðið á steini og brotnaði höfuðkúpan. Dó hann nærri strax. Geirfinnur var kunnur glímukappi.

Alþýðublaðið segir ítarlegri fréttir 16.janúar (daginn eftir veðrið):

Veðrið í gær var eitt hið mesta, sem komið hefir hér í Reykjavík. Er það talið öllu meira en veðrið mikla 28. febrúar til 1. mars í fyrra. Líklegt er að veðrið hafi verið verst hér við Faxaflóa, en þó mun það og hafa gengið yfir víðar um landið. Veðurhæðin var svo mikil, að önnur eins hefir ekki verið mæld hér í Reykjavík.

En sem betur fer virðast skemmdir ekki hafa orðið eins miklar og menn óttuðust, að minnsta kosti ekki að því, sem spurst hefir til þessa. Símabilanir eru mjög miklar og er því erfitt að ná fréttum utan af landi. Hér í Reykjavík fuku járnplötur, og hellur af þökum mjög viða og var stórhætta af þessu foki sumstaðar á götum bæjarins. Meðal annars fuku hellur af þaki Landspítalans. Grindur umhverfis hús brotnuðu mjög viða og köstuðust langar leiðir, tré rifnuðu upp úr görðum með rótum, meðal annars stór tré úr garðinum við Aðalstræti, svalir brotnuðu niður og járnplötur og annað rusl fauk um göturnar. Þá munu hafa orðið skemmdir á útihúsum í nágrenni bæjarins. Þá brotnuðu rúður allvíða. Plötur fuku úr girðingu sundlauganna og lentu á húsum og brutu rúður. Svo að segja öll girðing umhverfis íþróttavöllinn brotnaði í spón og fauk — liggur þar allt í bendu, brakið úr girðingunni og járnplötur og drasl frá byggð setuliðsins, sem er þarna skammt frá. Kennslu var hætt í barnaskólunum eftir hádegi í gær, en strætisvagnar fluttu börn heim til sín um hádegið, að minnsta kosti í sum hverfin. Nokkur börn stóðu hjálparvana undir húsum og biðu eftir hjálp. Fjögur erlend skip, sem lágu á ytri höfninni ráku á land. Tvö skip strönduðu á Akureyjarrifi og önnur tvö strönduðu á austanverðri Engey. Talið er að skipin náist öll út, en eitt þeirra, sem er allstórt og liggur á Akureyjarrifi, er allmikið brotið. Vax sjór kominn í það í gærkvöldi og voru menn teknir úr því seint i gærkvöld. Á innri höfninni urðu ekki miklar skemmdir. Nokkrir bátar slitnuðu þó upp. Við og við í gær voru menn að koma í Landsspítalann, sem höfðu meiðst af völdum veðursins, og komu 13 þangað af þeim ástæðum, en enginn þeirra var hættulega særður. Heyrst hefir, að bandarískur hermaður hafi slasast töluvert við íþróttavöllinn. Svo mikið var veðrið um tíma að það fleygði mönnum um koll og gátu þeir með naumindum komist í hús.

Í Hafnarfirði var veðurhæðin ekki minni en hér í Reykjavík, og var boðið út liði til aðstoðar lögreglunni. Þök fuku allvíða, og járnplötur sviptust af turni Þjóðkirkjunnar. Skemmdir urðu þó ekki verulegar. Þrjú skip voru á höfninni, og munu tvö þeirra hafa farið út. Í Keflavik urðu nokkrar skemmdir. Meðal annars sukku tveir vélbátar: „Erlingur“, eign Stefáns Bergmanns, 10 smálestir, og „Hafaldan", 9 smálestir.

Eyrarbakki. Þar urðu engar verulegar skemmdir, en svo mikill var sjógangurinn að sjóinn braut á sjógarðinum án þess þó að valda skemmdum á görðum eða mannvirkjum. 

Þegar Alþýðublaðið talaði við Selfoss í morgun, höfðu ekki borist neinar fréttir af skemmdum í uppsveitum Árnessýslu, enda mun veðurofsinn ekki hafa veríð jafnmikill á þeim slóðum og hér.

Í Sandgerði urðu litlar skemmdir, en sambandslaust er við Grindavík og fleiri staði á Suðurnesjum. Á Akranesi var veður einnig ákaflega mikið. Þar brotnuðu rúður og þök fuku. Nokkrir bílar fuku um koll, en tjón á skipum varð ekki. Slys á mönnum urðu ekki svo vitað sé á Akranesi eða í nærsveitum. 

Litlar fréttir hafa borist utan af landi, og stafar það af símabilunum. Þó hefir frést ógreinilega af skemmdum. Meðal annars mun kirkja hafa fokið í Miðfirði og brotnað í spón [á Melstað]. Sambandslaust er við Seyðisfjörð og Akureyri bæði á talsíma og ritsíma og slæmt samband við Ísafjörð. Á Suðurlandslínunni er samband við Reyðarfjörð, erfitt talsímasamband við Borðeyri, sambandslaust við Stykkishólm, slæmt samband við Borgarnes, sambandslaust við Þorlákshöfn, Hafnir, Grindavik og Gerði, en samband við Keflavík, Sandgerði og Leiru. Milli Efra-Hvols og Garðsauka brotnuðu fimm staurar, einn milli Selfoss og Eyrarbakka og tveir fyrir sunnan Hafnarfjörð. Fyrir norðan Borgarnes er eitthvað brotið af staurum. Í dag var sent út til viðgerða á öllum þeim stöðum, sem til náðist. Þá slitnaði sæsíminn í veðrinu. Ekki hafa borist neinar fréttir af skipatjóni á hafi úti.

Um hádegið í dag var unnið kappsamlega að því að gera við loftnet útvarpsstöðvarinnar. Taldi verkfræðingur útvarpsins, þegar Alþýðublaðið hafði tal af honum, að líkur væru til að hægt yrði að útvarpa í kvöld, en útvarpsumræðurnar munu þó ekki eiga að fara fram í kvöld, þar sem ekki hefir verið hægt í gær eða í dag að tilkynna þær sérstaklega. Virðist það þó engin ástæða til þess að fresta þeim.

Slökkviliðið var kvatt í gær klukkan tæplega ellefu inn að Njálsgötu 52. Hafði loftnet fallið niður á rafmagnslínu af völdum ofveðursins. Leiddi straum inn í húsið og neistaði á þekjunni. Var óðara tekið úr tengslum, þegar slökkviliðið kom á vettvang, og varð ekkert tjón.

Alþýðublaðið segir enn frá veðrinu 17.janúar - ekki komnar fréttir sem síðar bárust:

Slysavarnarfélaginu höfðu ekki borist neinar tilkynningar um hádegi í dag um manntjón á sjó af völdum ofveðursins í fyrradag. Í nótt var einu af hinum fjórum skipum, sem strönduðu hér við Reykjavík, náð út, en talið er að öll skipin muni nást út. Sambandslaust er enn við Norður- og Norðausturland — og hafa því engar fréttir borist þaðan. Veðrið hefir, eins og áður hefir verið sagt, verið verst hér í Reykjavík, í Borgarfjarðar-, Mýra- og Húnavatnssýslum — og austur að minnsta kosti í Suður-Múlasýslu. Veðrið var ekki mikið á vesturkjálkanum. Samband náðist við Ísafjörð síðdegis í gær, og höfðu engar skemmdir orðið þar og ekki borist fréttir um skemmdir af Vestfjörðum. Bátar frá Ísafirði voru á sjó í fyrradag, og þó að rok væri allmikið, Hlekktist þeim ekki á. Á Þingeyri urðu litlar skemmdir; þó slitnaði einn vélbátur af legu og rak, og mun hann hafa brotnað lítils háttar. Veðrið var mjög mikið í Borgarfjarðar- og Húnavatnssýslum. Fauk allmikið af heyjum og gripahús allvíða. Í Hjarðarholti fuku þök af öflum útihúsum. Á Hvammstanga fauk sláturhúsið og olli nokkrum skemmdum. Miklar skemmdir urðu á húsum og heyjum í Hrútafirði og Miðfirði, en austan Miðfjarðar mun veðrið hafa verið minna. Á Melum fauk hlaða og hey og „var loftið þrungið ilmandi töðulykt á Borðeyri þegar taðan fauk þar yfir frá Melum“, sagði fréttaritari Alþýðublaðsins á Borðeyri í morgun. Undir Eyjafjöllum var veðrið miklu meira en í Árnessýslu. Fuku þar útihús og hey á tveimur bæjum, á Moldargnúpi og í Mörk. En engar skemmdir urðu í Vík í Mýrdal. Vélbátarnir Minnie og Hvanney rákust á á höfninni á  Fáskrúðsfirði, og urðu miklar skemmdir í Hvanney. Brotnaði stýri, byrðingur og skjólborð. Kolaskip, sem lá við Stangelandsbryggju, braut bryggjuna. Margir menn, sem vora við kolauppskipun, björguðust nauðulega. 40—50 smálestir af kolum skoluðust út af bryggjunni, enn fremur uppskipunaráhöld og kolavogir. Mikið tjón varð. Stangelandsbryggjan er eign Marteins Þorsteinssonar & Co.

Alþýðublaðið segir nú af hörmulegum skipsskaða við Mýrar í frétt 18.janúar:

Pólskt skip með 27 manna áhöfn fórst framundan Mýrum í ofviðrinu mikla síðastliðinn fimmtudag. Aðeins tveir menn komust lífs af og var annar þeirra íslendingur. Tveir íslendingar fórust. Vegna þess, að símasambandslaust er vestur á Mýrar, eru fregnir af slysi þessu ógreinilegar og af skornum skammti. Frá Mýrum hafði sést til tveggja skipa þar fram undan. Annað skipið fór nokkru síðar til hafs, en ekki sáist hvað varð af hinu skipinu. Skipið mun hafa farist um kl.9 á fimmtudagsmorgunn, en ekki er vitað með vissu, hvenær þeir, sem af komust, náðu landi. En þeir hafa skýrt svo frá, að allir skipverjar, nema skipstjórinn hafi komist i björgunarbátinn, en honum hvolfdi, og drukknuðu allir þeir sem í honum voru, nema þrír. Héngu þeir á bátnum, sem barst að landi; en þegar kom i lendingu, drukknaði einn þeirra, og komust því aðeins tveir af. Menn frá Syðra-Skóganesi tóku við skipbrotsmönnunum, og var þeim strax vel hjúkrað. Í gærkveldi voru þessir tveir menn fluttir til Borgarness.

Skip eru nú farin að koma hingað eftir ofviðrið. Eru þetta aðallega erlend skip, og hafa flest þeirra laskast meira og minna.

Alþýðublaðið segir enn skaðafréttir 20.janúar:

Frá fréttaritara Alþýðublaðsins í Vestmannaeyjum í gær. Í ofviðrinu, sem geisaði um allt land, varð hér nokkurt tjón á bátum, en þó minna en efni stóðu til. Muna menn hér ekki eftir öðru eins brimi, og sogin voru meiri en dæmi eru til. Sérstakt lán var, að út úr höfninni fór stórt flutningaskip á flóðinu á undan, því áreiðanlega hefði ekki verið hægt að halda því við bryggjuna, og mundi það hafa sópað fjölda báta með sér á höfninni og brotið þá. Talsambandslaust hefir verið við Vestmannaeyjar undanfarna daga. [Í sömu frétt er sagt frá hrakningum vélbátsins Helga þessa daga].

Dagur segir af veðratjóni 20.janúar:

Tjón af völdum ofviðris. Á aðfaranótt fyrra mánudags [12.] fauk hlaða og fjárhús að Efri-Dálksstöðum á Svalbarðsströnd. Munaði minnstu að slys hlytist af. Bóndinn á Efri-Dálksstöðum, Benedikt Baldvinsson, hefir orðið fyrir mjög tilfinnanlegu tjóni. Eitthvað mun hafa fokið af heyjum á Svalbarðsströnd í sama ofviðrinu. Frá Ólafsfirði er blaðinu símað: í ofviðrinu s.l. fimmtudag [15.] urðu hér nokkrar skemmdir. Á Kleifum fuku þök af þremur húsum; á Garði í Ólafsfirði fauk töluvert af heyjum og skammt frá kauptúninu fauk hlaða. Engar skemmdir urðu á bátum né bryggjum í kauptúninu. Tjón í Höfðahverfi. Í ofviðrinu í s.l. viku fauk þak of hlöðu í Fagrabæ í Grýtubakkahreppi og nokkuð af heyjum. Bóndinn á Fagrabæ er Sæmundur Guðmundsson frá Lómatjörn. Annars staðar í Höfðahverfi mun hafa fokið eitthvað af heyjum.

Í Alþýðublaðinu 24. janúar er skýr frásögn Braga Kristjánssonar sem komst af úr strandinu við Mýrar í illviðrinu mikla. 

Vísir segir fréttir af tjóni í veðrinu mikla 26.janúar:

Að því er Vísi var skrifað úr Borgarfirði nýlega olli fárviðrið á dögunum miklu tjóni víðsvegar um héraðið. Í sumum hreppum varð meira eða minna tjón svo að segja á hverjum einasta bæ, hlöður fuku og þök af húsum, en hey skemmdist, þar sem gróðurhúsbyggingar eru einna mestar urðu einnig verulegar skemmdir á þeim, og brotnaði mikið af gleri.

Morgunblaðið segir af miklum hrakningum hersveitar eystra í pistli 17.febrúar. Þetta mun hafa gerst í einhverju janúarveðranna. Ritstjóra hungurdiska minnir að fyrir ekki svo löngu hafi birst ítarleg frásögn af þessu mikla slysi - væri gott að fá dagsetningu þaðan hafi einhver lesandi hana:

Í miðjum janúar vildi það til austur á Fjörðum að um 70 manna sveit breskra hermanna
lenti í hrakningum á fjallgöngu og urðu 8 þeirra úti, en aðrir komust til bæja við illan leik, þjakaðir mjög, svo þeir voru sumir lengi að fá fulla heilsu aftur. Hermannasveit þessi lagði af stað gangandi að morgni dags frá Reyðarfjarðarkaupstað, áleiðis til Eskifjarðar. Fóru þeir ekki venjulega leið út með firðinum, heldur lögðu á fjallið milli fjarðanna. Veður var hið besta um morguninn, kyrrt og bjart. En er kom fram á daginn, skali á hið versta veður, með ofsaroki og úrfelli, einhverju því mesta, sem sögur fara af, að því er heimildarmaður blaðsins skýrði frá í gær. Áður en hermennirnir voru komnir af fjallinu, villtust þeir og tvístraðist hópurinn nokkuð. En er leið á kvöldið, náðu margir þeirra Veturhúsum í Eskifirði. Þar var þessum hröktu mönnum hjúkrað með afbrigðum vel og sögðu þeir svo sjálfir frá, að margir þeirra ættu fólkinu sem veitti þeim þær viðtökur, líf sitt. að launa. Nokkrir komu ekki fram fyrri en leit var hafin að þeim í birtingu daginn eftir. Meðal þeirra voru tveir hermenn, sem verið höfðu yfirforingjar sveitarinnar. Annar þeirra var mjög þjakaður, var reynt að líkna honum. En hann var einn þeirra, sem ekki komust lífs af.

Veðráttan segir í janúar frá því að þ.26. hafi eldingu slegið niður í radíóvitann og ljósvitann á Reykjanesi, og skemmdust báðir nokkuð. Einnig urðu skemmdir á jarðstreng og símatæki.

Síðustu daga janúar bárust fregnir af öskufalli - spurning um hvað hefur verið að ræða. Dagur segir frá 12.febrúar:

Fréttaritari blaðsins í Bárðardal skrifar: Aðfaranótt 27.janúar varð öskufall hér í sveitinni, svo að gránaði snjór. Sést hafa leiftur í suðri og suðaustri, af og til í vetur. — Að öðru leyti hefir ekki orðið elds vart og ekki annað um hann kunnugt. Ekki er talið ólíklegt, að upptök eldsins séu í Dyngjufjöllum.

Slide2

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), meðalþykkt (daufar strikalínur) og þykktarvik (litir) í febrúar 1942. Gríðarleg hlýindi voru við Grænland, en enn mjög kalt í Evrópu. Ísland í hæðarhrygg og hiti vel ofan meðallags. 

Í febrúar var tíð aðallega hagstæð. Við lítum á frásagnir veðurathugunarmanna:

Lambavatn: Það hefir verið blíðviðri yfir mánuðinn, nema síðustu vikuna hefir verið kuldanæðingur og mesta frost sem komið hefir á vetrinum. Það er fyrst nú sem jörð frýs á vetrinum, því það hefir aldrei frosið í mýrum. Og nú fyrir frostin var hvergi klakavottur í jörð eða svell á polli.

Suðureyri. Mjög hlýtt til 21. Gerði þá frostskorpu. Auð jörð. Úrkomulítið nema einn dag, þ.14, en var þá með því mesta sem orðið hefur einn dag áður (53 mm).

Núpsdalstunga. Tíðarfarið hefur verið fremur gott, nokkuð mikil frost. Hross hafa gengið út það sem af er.

Sandur. Tíðarfar ágætt, einmunagott með marauðri jörð og auðum vatnsföllum að miklu leyti. Síðustu dagana kólnar og snjóar nokkuð, í fyrsta sinn að ráði á vetrinum. Þá rekur og í öll vatnsföll.

Reykjahlíð. Talin góð veðurátta hér allan mánuðinn.

Nefbjarnarstaðir. Ágæt tíð til 22. Eftir það norðaustan kaldar með dálítilli snjókomu.

Teigarhorn (Jón Kr. Lúðvíksson). Þessi mánuður óstilltur, þó voru ær ekki teknar inn fyrr en 10. Þann 11. gerði afar hvassviðri að norðvestri kl. 9-11. Var afar mikið slagviðri, engar stærri skemmdir urðu (skaraveður).

Sámsstaðir. Mánuðurinn afar hlýr og mildur. Veður hafa svo að segja engin verið og því gott til beitar.

Dagur segir af góðri færð 19.febrúar:

Bílferð til Reykjavíkur. Á þriðjudaginn lögðu tveir bílar frá BSA upp héðan áleiðis til Reykjavíkur. Var allmargt farþega með bifreiðunum, m.a. alþingismennirnir Sig. E. Hlíðar og Bernharð Stefánsson, auk þeirra Jakob Frímannsson framkvæmdastjóri Jónas Kristjánsson samlagsstjóri, Jóhann Þorkelsson héraðslæknir o.fl. Mun ferðin hafa gengið greiðlega. — Þetta er í fyrsta skipti, sem bifreið fer yfir Öxnadalsheiði á þessum tíma árs.

Tíminn segir 19.febrúar fréttir úr Norður-Þingeyjarsýslu, m.a. af miklu veðri í desember. Tjón varð víðar, en um það var fjallað í pistli hungurdiska um árið 1941:

Úr Norður-Þingeyjarsýslu er blaðinu skrifað: Vindrafstöðvar, til ljósa, hafa verið settar upp á 11 bæjum í héraðinu í haust og vetur og þykja mjög góðar. Þótt lítið sé vitað um hvernig endingin verður. Aðfaranótt sunnudags 14. des. gerði hér ofsaveður af austri. Veður þetta feykti svo miklum sandi á túnið í Keldunesi í Keldahverfi [svo], að 25 af 37 dagsláttum eru alþaktir sandi, og að öllum.

Morgunblaðið segir 25.febrúar af skipsskaða - þeir voru nánast daglegt brauð á þessari vertíð, bæði vegna veðurs, bilana og stríðsátaka eða tundurdufla:

Aðfaranótt þriðjudags strönduðu tveir vélbátar á skeri við Hafnarberg; voru það Gyllir frá Norðfirði og Vilfi frá Siglufirði. Var kafaldsbylur er bátarnir strönduðu. Báðir losnuðu þeir sjálfkrafa af skerinu. en Gyllir laskaðist eitthvað og dró Sæbjörg hann til Sandgerðis. Þá strandaði einnig v.b. Katla frá Fáskrúðsfirði við Hvanney í Hornafirði. Brotnaði báturinn í spón, en menn björguðust. Báturinn var 12 tonn, eign Kristins Bjarnasonar, Búðum.

Morgunblaðið segir 26. febrúar frá frétt um illviðrið 15.janúar og birtist í bresku blaði. 

Lundúnablaðið Times segir nýlega frá óveðri því sem gekk hér í vetur. Er þar sagt frá því að „hermannaskálar hafi flogið langar leiðir í loftinu, bárujárnsplöturnar voru eins og fjaðrafok, enda var veðurhæðin meira en 200 kílómetrar á klukkustund. Þungar Whitley og Hudson sprengjuflugvélar lyftust upp, þrátt fyrir að þær voru bundnar við festar og bönd voru höfð á flugvélunum sem flugvallarliðið hékk í. Sex Whitley sprengjuflugvélar sem bundnar voru fastar við 300 punda steypusteina, runnu til og drógu akkeri sín með sér. Síðan voru stóreflis bensínílátum rennt undir vængi vélanna og voru vængirnir síðan festir niður með köðlum við enn fleiri steypusteina, eða stór ílát sem fyllt voru með grjóti. Með hjálp flugvallarstarfsmanna tókst að verja allar flugvélar skemmdum. Fimm flugmenn sem voru áhöfn léttiskútu sem RAF hefir á firði þarna skammt frá, voru allan tímann um borð í bátnum. Sjór var svo slæmur að þeir komust ekki í land í 24 stundir. Þrátt fyrir að léttiskútan stæði stundum upp á enda og áhöfnin veltist eins og baunir í boxi um borð héldu þeir vélinni í gangi og komu í veg fyrir að skútuna ræki“.

Morgunblaðið kvartar 28.febrúar undan skorti á skíðafæri:

Það að er ekkert skíðafæri í Hengilfjöllum, sagði Kristján Skagfjörð formaður Skíðafélagsins við mig í gær. „Ég fór uppeftir í fyrradag og varð alveg forviða, að það skyldi ekki vera mikill snjór. Snjórinn hefir fokið i skafla og autt er á milli, en hvergi samanhangandi snjór.

Morgunblaðið veltir vöngum yfir fiskleysi 1.mars - enn eru svipuð mál í umræðu:

Menn áttu von á því, að eins myndi fara nú, eins og í fyrri styrjöldinni, að fiskisæld yrði meiri hér við land, þegar útlendu skipin hverfa af miðunum. En þessar vonir hafa ekki ræst. Nú er engan veginn víst, að góður afli 1918 og þar um bil hafi stafað af friðun miðanna. Þar hafi verið um að ræða aukna fiskgnægð frá náttúrunnar hendi, ef svo má að orði komast. Væri það vissulega okkur hagstæðara, fyrir framtíðina, ef það kæmi í ljós, að fiskimiðin væru ekki á friðartímum svo „áskipuð“, að það fyndist strax á aflasældinni, þegar skipunum fækkaði. Fiskirannsóknir framtíðarinnar leiða það í ljós, með fullu öryggi, hvernig þessu er varið.

Alþýðublaðið segir af slysi eystra í pistli 1.mars:

Frá fréttaritara Alþýðublaðsins Seyðisfirði í gær. Leitað er nú, bæði frá Seyðisfirði og Mjóafirði að Guðmundi Sigurðssyni pósti, en hann á heima á Eskifirði. Guðmundur Sigurðsson fór frá Seyðisfirði á fimmtudag árla og ætlaði yfir Skógarskarð til Mjóafjarðar, en póstleið hans er um Norðfjörð, Mjóafjörð og til Seyðisfjarðar og sömu leið aftur. Guðmundur kom ekki fram á tilsettum tíma og var strax í fyrradag hafin leit úr tveim áttum. Spor hans voru rakin upp á Skógarskarð, en þar töpuðust þau, enda var veður afar slæmt. Talið er mjög líklegt, að hann hafi hrapað, því að þarna er snarbratt og hengiflug. Guðmundur var maður við aldur.

Mars fékk almennt góða dóma, sérstaklega um landið vestanvert.

Síðumúli: Marsmánuður svo góður, að fáir menn muna slíka blíðutíð. Jörðin er nú auð og þíð og sést ekki svellglotti í laut á láglendi.

Stykkishólmur (Magnús Jónsson). Ágætis tíðarfar hér um slóðir. Elstu menn muna ekki öðrum eins vetri hvað snjókomu og frost snerta. Hér má svo heita að aldrei hafi fest snjó. Að sönnu hefur gripið til frosta, en það hefur ekkert verið sem sagt. Klakalaus jörð.

Lambavatn: Það hefur mátt heita stöðugir austan- og austnorðan næðingar. En alltaf snjólítið og snjólaust. Skepnur hafa hér að mestu staðið inni.

Suðureyri: Hlýtt og stillt lengst af. Sumarveður fyrri hluta mánaðar. Kuldakast og snjór síðustu vikuna. Úrkomulítið. Margar gæftir.

Núpsdalstunga: Tíðarfarið hefur verið frámunalega gott, afar lítið um snjóa og alls engar hríðar. Nokkuð hefur verið mikið um frost.

Sandur: Sérlega mild veðrátta og snjólaus með afbrigðum. Nokkuð óstill og rysjótt undir mánaðarlokin. Ofsaleg hláka 22. svo vatnsföll gjörruddu sig hér nærlendis, en í norðan ágosi þ.24. til 25. reku í þau þegar.

Reykjahlíð: Þótti allgóð veðurátta allan mánuðinn. Óvenju snjólítið. Í hvassviðrinu 22. braut ís á allmiklum hluta af Mývatni. Undir mánaðamótin kólnaði að mun og stendur svo enn.

Nefbjarnarstaðir: Yfirleitt má telja tíðarfarið mjög gott, nema fyrstu og síðustu daga mánaðarins. Mjög snjólétt og hagar nægir. Tíðin mild sem oftast.

Papey: Aðfaranótt 28. setti hér niður stórsnjó, sama þ.29. Síðan kraparegn. Það er nú fyrsti snjórinn sem teljandi er hér í vetur, enda voru fannir hér 3-4 m. [Snjódýpt talin 76 cm þ.29.]

Sámsstaðir: Mars var sem fyrri mánuður hagstæður á marga lund. Veðrasamt var einkum fyrstu 5 dagana og þá úrkoma nokkur. Frá 5. til 20. var veðurlag mjög milt og stillt, oft sól og blíðuveður. Jörð að kalla þíð. Eftir 20. féll mestur hluti af úrkomu þeirri sem varð í mánuðinum, en veður nokkuð tíð, það mesta varð 29. á austan. Gerði þó engin spjöll svo teljandi væri.

Alþýðublaðið segir af sjóslysum 3.mars (nokkuð stytt hér):

Frá fréttaritara Alþýðublaðsins Vestmannaeyjum seint í gærkveldi. Hér er óttast um þrjá vélbáta með um 14 manna áhöfn, sem fóru í róður í fyrrinótt klukkan 2 í sæmilegu veðri. Eftir því sem best verður vitað leita 7 togarar að bátunum og auk þeirra varðbáturinn „Ægir“. Í fyrrinótt klukkan 2 réru nær allir bátar héðan eða um 80. En í gærmorgun rauk hann skyndilega upp og gerði ofsaveður og fóru bátarnir þá að flýta sér heim. Voru fáir bátar komnir í gærkveldi kl.6, en þeir voru að smátínast inn í gærkveldi og í nótt. Snemma í morgun vantaði fimm báta, en tveir þeirra, „Frigg“ og „Freyja“ komu rétt fyrir hádegið. Bátarnir sem ekki komu upp úr miðjum degi í gær, voru langan tíma að hrekja vestan við Eyjar. Í þessum hrakningum sökk einn báturinn, „Bliki“, en öðrum vélbáti, „Gissuri hvíta“, tókst að bjarga skipshöfninni, ... Þegar vélbáturinn „Freyja” komst til hafnar í dag skýrðu skipverjar svo frá, að „Aldan“ hefði verið með bilaða vél í gær og hafði „Freyja“ tekið hana í slef og verið með hana „í slefi“ í 4 tíma, en klukkan 10 í gærkveldi slitnaði tógin og týndist „Aldan“ út í náttmyrkrið og ofviðrið. Bátar af Suðurnesjum lentu og í hrakningum — og vantar einn þeirra enn, „Ægi“, sem gengur frá Keflavík. — Hefir ekkert spurst til hans, þrátt fyrir leit. „Sæbjörg“ fór út til aðstoðar bátum og kom hún að vélbátnum „Aldan“ frá Neskaupstað, sem gengur frá Keflavík, þar sem hann var í nauðum staddur. Var hún með hann í eftirdragi þegar síðast fréttist.

Alþýðublaðið heldur áfram 4.mars:

Tveir vélbátar úr Vestmannaeyjum, og skipverjar þeirra, eru nú taldir af. Á þeim voru 9 menn. Þá er enn leitað að vélbátnum „Ægi“ úr Keflavík. Auk þessara báta fórust tveir, en mannbjörg varð á þeim, [Ægir kom svo fram - frásögn af hrakningum hans birtist í blaðinu 5.mars].

Alþýðublaðið segir 6.mars af skemmdum í höfninni í Keflavík:

Á miðvikudagskvöldið [4.] gerði skyndilega vont veður á Suðurnesjum, og skemmdist hafskipabryggjan hér í Keflavík stórkostlega. Línuveiðarinn „Eldoy“, sem var í flutningum fyrir ameríska setuliðið, var hér við hafskipabryggjuna, er veðrið skall á. Lá hún við bryggjuna næstum því yst. Eftir að veðrið skall á, lamdist skipið við bryggjuna og brotnaði hún mikið. Stærsti hlutinn af fremri kantinum er orðinn ónýtur, en rétt framan við miðju er komið allmikið skarð í bryggjuna. Þar eru niðurstöðubjálkar brotnir, og brúnin beygð inn. Þá hefir bryggjan brotnað töluvert á tveimur öðrum stöðum. Um klukkan 7 1/2 í morgun kom upp eldur í „Eldoy“ og logar hann enn, þegar þetta skeyti er sent. Afturhluti skipsins sokk mjög fljótt, en eldurinn hefir logað frammi í því síðan í morgun. Nú er eldurinn þó farinn að minnka. Talið er líklegt, að sprenging hafi orðið í vélinni. Óveðrið skall á laust eftir miðnætti í fyrrakvöld. Þegar skipstjórinn á Eldoy sá að hverju fór, lét hann undirbúa vélarnar og ætlaði að fara frá bryggjunni. En þegar vélarnar voru tilbúnar hafði veðrið versnað svo, að skipstjórinn treysti sér ekki til þess að sigla skipinu frá bryggjunni án þess að lenda á grynningum. Tók hann þá það ráð að reyna að binda skipið sem best við bryggjuna í þeim tilgangi að halda skipinu þar uns veðrið batnaði. Klukkan að ganga 4 í fyrrinótt tóku landfestarnar að slitna og kl. um 5 í morgun voru þær allar slitnar og höfðu skipverjar þá ekki önnur ráð en knýja skipið fram og aftur með bryggjunni andstætt því, sem sjórinn kastaði skipinu. Allan þennan tíma barðist skipið við bryggjuna og þegar það loks sökk í morgun kl. um 8, hafði það brotið og beygt járnstoðir bryggjunnar inn í hana miðja og auk þess lyft upp bryggjupallinum á stóru  svæði. Skipið liggur nú við bryggjuna með skutinn í kafi, en stefnið er upp úr og hafði eldurinn kviknað í því um leið og skipið sökk að aftan. Eins og stendur er bryggjan gersamlega ónothæf og mun viðgerð á henni taka langan tíma. Tjón Keflvíkinga og Suðurnesjamanna yfirleitt er gífurlegt vegna þeirra flutninga, sem farið hafa fram um bryggjuna og ekki síst vegna þess, að útvegsmenn á Suðurnesjum hafa notað bryggjuna við að ferma flutningaskipin, sem flutt hafa fisk til Englands undanfarið.

Morgunblaðið gerir upp skipskaðana við Vestmannaeyjar 28.febrúar í pistli 14.mars:

Bátaábyrgðarfjelag Vestmannaeyja varð fyrir mesta tjóni sunnudaginn 28. febrúar, sem félagið hefir nokkru sinni orðið fyrir á einni vertíð, hvað þá einum degi, síðan það var stofnað árið 1862, eða í 80 ár. Þenna dag fórust 3 Vestmannaeyjabátar og einn laskaðist stórkostlega.

Vestmannaeyjum í gær. Vélbáturinn Aldan, sem rak upp á land nálægt Grindavík í aftakaveðrinu 28. febrúar s.l., er nú kominn hingað til Eyja. Tókst að ná bátnum út núna í vikunni. Báturinn er stórskemmdur og verður alls ekki fær til róðra á þessari vertíð.

Nokkuð var um jarðskjálfta norðanlands um þessar mundir. Morgunblaðið 19.mars:

Fréttaritari Morgunblaðsins á Húsavík símar í gær að undanfarna sólarhringa hafi alltaf öðru hvoru orðið vart við jarðskjálftakippi í Húsavík. Kippirnir hafa flestir verið litlir, þó stöku sinnum allsnarpir í nágrenni Húsavíkur. Fréttaritarinn segir: „Menn hér hafa verið að geta sér til, að þessar hræringar standi í sambandi við heita vatnsæð, sem er undir Húsavík, en sem ekki hefir enn fengist athuguð eða í hana borað. En það er nú von allra Húsvíkinga, að í vor, eða eins fljótt og við verður komið, verði jarðhor sendur hingað. Næsti staðurinn, sem borað verði á, eigi að vera Húsavík og enginn staður frekar eða fyrr“.

Tíminn segir af góðri tíð í pistli 21.mars:

Úr Dalasýslu er blaðinu skrifað 23.fyrra mánaðar [febrúar]: Tíð hefir verið einmuna góð og hagstæð það sem af er þessum vetri. Snjór hefir ekki komið á láglendi nema nokkra daga í einu. Í góðviðriskaflanum, nú seinni hluta þorra, mátti orðið sjá grænan lit í túnum og jafnvel útsprungin grös á stöku stað. Klaki hefir svo að segja ekki komið í jörð hér um slóðir í vestur.

Björn Halldórsson í Austurgörðum (Kelduhverfi) skrifar Tímanum. Muna elstu menn ekki jafn snjólausan vetur. Hefir Reykjaheiði verið bílfær allan veturinn nálega óslitið. Aftur á móti hefir verið nokkuð veðrasamt á köflum, einkum í janúar. Seint í þeim mánuði gerði aftaka austanveður á nálega auða jörð. Var þá sandfok af leirum og söndum Jökulsár og svo dimmt sem stórhríð væri. Tún eyðilögðust að verulegu leyti á tveimur jörðum og stórskemmdum á öðrum tveim. Komu sandskaflar á túnin á annan metra þar sem þykkast var, aðeins hólar og hávaðar standa upp úr sandinum. [Spurning hvort þetta er sama veður og minnst var á hér að ofan og átti að hafa gert fyrir áramót].

Tíminn heldur enn áfram að greina frá góðri tíð í pistli 24. mars, en greinir einnig frá flóði í Skjálfandafljóti í febrúar:

Tíðarfar hefir verið með afbrigðum hagstætt í Suður-Þingeyjarsýslu í vetur. Lengst af snjólaust upp til háfjalla og fágætar veðurblíður. Á Brettingsstöðum á Flateyjardal var ekki búið að taka fé á gjöf 21. febrúar. Aðfaranótt 17. febrúar sprengdi Skjálfandafljót af sér ísinn frá Þingey að ósi. Klakahrönnin hlóð stíflur í Fljótið hér og þar og varð nokkurt tjón um undirlendið. Nokkrar skemmdir urðu á akveginum frá Skjálfandafljótsbrú að Húsabakka. Hinn 25. febrúar gekk norðan stórhríð allsnörp hér yfir Þingeyjarsýslu, en stóð þó ekki nema hálfan sólarhring. Setti þá niður nokkurn snjó, en bílfært er þó eftir öllum aðalvegum.

Morgunblaðið segir enn af sjóslysi og hrakningum 24.mars:

Það hörmulega slys vildi til í Sandgerði á sunnudag [22.], að þrjá menn tók út af vélbátnum „Brynjari“ frá Ólafsfirði. Voru þeir allir ofanþilja. Tveir menn sem voru undir þiljum, björguðust nauðulega yfir í annan bát. Var kastað til þeirra línu og voru mennirnir síðan dregnir milli bátanna. Slysið varð klukkan 3:45 á sunnudag, rétt við sundið við innsiglinguna í Sandgerði. — Stormur var og ósjór eftir því. Kom tvisvar sinnum ólag á „Brynjar“. Fyrra ólagið reið aftan á bátinn. en hitt á ská á stjórnborða. Stýrishús bátsins brotnaði og aftur mastur og fleiri skemmdir urðu á bátnum.

Um 14 smábátar — flestir trillubátar — frá Siglufirði, lentu í vestanstormi, er þeir voru í róðri á sunnudag [22.]. Voru sendir þrír stærri bátar til að aðstoða þá ef með þyrfti. Eru allir bátarnir komnir til hafnar heilu og höldnu. 

Dagur segir af jarðskjálftunum á Húsavík í pistli 26.mars:

Jarðskjálfta hefir orðið vart í Húsavik og grennd í þessum mánuði. Hefur þeirra orðið vart sólarhring eftir sólarhring. Engar skemmdir hafa orðið af völdum þeirra. En einhver röskun hefir orðið í gömlum eldsumbrotasprungum í Húsavíkurhöfða, sem er norðan við kauptúnið. Kemur 20 til 30 gráða heit gufa upp úr þeim sprungum, en heitt vatn hefir í ómunatíð komið þar fram í flæðarmáli. Afspyrnurok af suðri gekk hér yfir s.l. sunnudag [22]. Ekki er kunnugt um að tjón hafi orðið af völdum þess hér í bænum eða næsta nágrenni.

Enn af skipsstrandi, Alþýðublaðið 31.mars:

Frá fréttaritara Alþýðublaðsins, Höfn í Hornafirði í gærkveldi. Í fyrrinótt strandaði
danskt skip skammt frá Hvalsnesi. Breskir varðmenn á Seyðisfirði, sem munu fyrstir hafa fengið að vita um strandið, símuðu til Slysavarnafélagsins og tilkynntu því um það. Klukkan 7 á laugardagsmorgun, 28. mars, komu heim að Hvalnesi í Lóni 5 menn nokkuð sjóblautir, en ekki mikið hraktir. Sögðust þeir vera Danir, sem strokið hefðu frá Danmörku, er landið var hernumið, og hefðu síðan fiskað fyrir Englendinga á mótorskipi, en hefðu nú strandað þarna skammt frá kl.4 um morguninn í hríðarveðri og náttmyrkri. Reyndist skipið að hafa strandað í svonefndum Hvaldalsárós, um hálftíma gang frá bænum.

Í Morgunblaðinu 31.mars er fróðlegt viðtal við dr. Helga Pjeturs. Hér er brot úr því:

Fáið þið jarðfræðingar ekki innsýn í mikil sannindi allt í einu og þá máske fyrir tilviljun? Jú, einmitt. Jarðfræðingar hugsa um lífið á jörðinni, hvert það stefnir, hvort nokkur sé tilgangur þess. Jarðfræðin er góður undirbúningur undir heimspeki. Ein merkasta uppgötvun mín var í sambandi við „brecciuna“ eða móbergið, sem það er kallað. Ég þekkti það frá ferðalaginu með Thoroddsen. Hann og aðrir litu á það sem eldfjallamyndun. Svo var það einn dag austur í Ytrihrepp, í ásnum fyrir ofan Hellisholt, að ég horfði þar á móberg. Allt í einu rann það upp fyrir mér, að þetta væri skrambi líkt jökulurð þó það væri hart, samfellt berg. Steinar í berginu voru eins og skornir sundur eins og þeir hefðu verið smér. Þetta var ansi fróðlegt. Ég leitaði hvort ekki fyndist ísaldarruðningur neðar í í ásnum og sá að svo var. Þá kom eins og jarðskjálfti í huga minn, þegar umturnuðust kenningar um eina ísöld sem yfir landið hefir komið, og jarðsaga landsins var allt önnur en menn höfðu álitið. Móbergið, sem var jafnvel talið elsta berg landsins, var allt í einu fyrir augum mínum orðið yngra en ísöld. Næst að segja er ég ekki viss um að þetta hefði uppgötvast enn, ef ég hefði ekki fundið það. Þetta leiddi í ljós, að margar ísaldir hafa gengið yfir Ísland, og það var kannske ekki nema 1/10 af ísaldarmyndunum landsins, sem menn hefðu þekkt, áður en þetta kom til sögunnar. Þetta var ansi nýstárlegt. Ég lái Þorvaldi það ekki þó hann yrði dálítið hræddur við þetta. Mér dettur ekki í hug að bera brigður á hann sem lærdómsmann, rithöfund og fræðimann. En þegar ég leiddi þessa ný|ung í ljós, var hann að hugsa um að koma sér þannig fyrir, að hann gæti gefið sig eingöngu við fræðastörfin í Höfn. Hann hélt að þetta myndi spilla fyrir sér. Þetta spillti ekkert fyrir honum. Því menn eru almennt svo afskaplega sljóir fyrir því sem er nýstárlegt. Hann minntist heldur ekki á nein hraun fyrir austan Skagafjörð. En Þórðarhöfði er eldfjall frá tímabili milli ísalda og hraunin frá honum, bæði sunnan og norðan við hann, þó mest sé sokkið af þeim í fjörðinn.

Tíminn segir af ótíð nyrðra 31.mars:

Mikil ótíð hefir verið á Norðurlandi síðastliðna viku. Á Akureyri varð að fresta sumum greinum skíðamótsins, sem þar var háð, vegna óveðurs. Mjólkurbáturinn, sem flytur mjólk frá Sauðárkróki til Siglufjarðar, varð að hella allri mjólkinni í sjóinn í einni ferðinni um síðustu helgi vegna óveðurs. Mikill snjór er norðanlands og kuldar allmiklir.

Vorið lét bíða eftir sér, en apríl þótti þó hagstæður norðaustanlands. Veðurathugunarmenn lýsa apríltíðinni:

Lambavatn: Það hefir verið óstöðugt og stórgert veðurlag yfir mánuðinn. Skepnur hér staðið inni. Það er fyrst nú síðustu dagana að farið er að litka í kringum hús.

Suðureyri: All-breytilegt og (með) köflum stórgert. Hart kuldakast fyrri hlutann. 7. og 8. þótti sjávarhiti [-1,7°C] tortryggilegur og benda á ill tíðindi=ís. En var raunar aðallega í firðinum um fjörurnar.

Sandur: Tíðarfar ágætt, hlýtt og hagstætt. Fyrstu tíu dagarnir þó fremur kaldir og úrfellasamir, en úr því hlýnar og leysir snjóa og ísa. Jörð orðin klakalaus að mestu, tún taka að litkast og úthagi að byrja að lifna með gróður.

Reykjahlíð: Góð veðrátta. Þó var allmikill kuldakafli 3.-10. og þá dálítill snjór. Stórfelld hláka 12. svo vötn fóru í vexti. Seinasti ís fór af Mývatni 26. Um allt er þessi vetur sá mildasti og besti sem eldri menn hér muna.

Grímsstaðir á Fjöllum: Veturinn einmuna góður svo elstu menn hér mun ekki jafngóðan vetur nema ef kynni 1879-80. Því þann vetur var öllu fé sleppt á góu, jörð þá alauð og gróður kom snemma og byrjað að rýja sauði á sumardaginn fyrsta.

Nefbjarnarstaðir: Tíðarfar var fremur hagstætt. Dálítið kalt með köflum en úrkomur litlar og sem oftast hægviðri.

Sámsstaðir (Klemenz Kr. Kristjánsson): Mánuðurinn mun kaldari en í fyrra. Fyrstu 10 dagana heiðskírt og kalt veður. Frá 10.-20. hlýnaði nokkuð í veðri. Um sumarmál gerði kuldakast (20.-23.). Fyrst var byggi sáð 24. Klaki var ekki annar í jörð en sá sem kom í mánuðinum. Tún voru nokkuð farin að grænka síðustu daga mánaðarins, en úthagi varla teljandi.

Talsverður hugur var í útvistarfólki á þessum árum. Alþýðublaðið segir frá slíku 4.apríl:

Fjöldi ungra Reykvíkinga fara á fjöll og jökla. En allir hrepptu mikla storma og hörku frost. Mikill fjöldi ungra Reykvíkinga notaði bænadagana [2. og 3. apríl] og páskana til þess að ganga á fjöll og jökla. Var og gengið á flesta jökla sem hægt er að komast á á tiltölulega skömmum tíma: Langjökul, Snæfellnesjökul, Mýrdalsjökul, Eyjafjallajökul o.s.frv. Þá tóku og margir þátt í skíðaförum hér í nágrenninu. Öll íþrótta- og ferðafélög bæjarins, svo og sumir skólanna efndu til þessara ferðalaga. [Frásögn fylgir - allt fór vel þrátt fyrir mikið  frost]

Enn voru jarðhræringar fyrir norðan, í þetta sinn á Siglufirði og nágrenni. Alþýðublaðið  segir frá 26.apríl:

Siglufirði í gærkveldi Snarpur jarðskjálftakippur kom hér kl. 8:25 í kvöld, og stóð um 10 sekúndur. Hús léku á reiðiskjálfi og féllu innanstokksmunir og jafnvel börn um koll. Ekki er þó vitað, að neinar skemmdir hafi orðið. Snjóskriða féll úr Staðarhólsfjalli, en ekkert tjón hlaust af henni. Viss.

Tíminn segir af kuldakafla í pistli 11.apríl:

Mikil ótíð hefir verið á Norðurlandi síðastliðna viku. Á Akureyri varð að fresta sumum greinum skíðamótsins, sem þar var háð, vegna óveðurs. — Mjólkurbáturinn, sem flytur mjólk frá Sauðárkróki til Siglufjarðar, varð að hella allri mjólkinni í sjóinn í einni ferðinni um síðustu helgi vegna óveðurs. Mikill snjór er norðanlands og kuldar allmiklir.

Frá Blönduósi er skrifað í lok marsmánaðar: Tíðarfar hefir verið svo fádæma gott í vetur hér um slóðir, að elstu menn muna engan vetur slíkan. Mikinn hluta vetrarins hefir verið stöðugt þíðviðri, aðeins komið vægir frostkaflar við og við, og aldrei haldist nema fáa daga í einu. Jörð er klakalaus að kalla. Á milli jóla og nýárs var rist torf í mýrum hér fram í dölum. Varla er hægt að segja, að fallið hafi snjór í lágsveitum, aðeins fölvað stöku sinnum. Tvisvar hefir nokkur snjór fallið til fjalla, en hann hefir þiðnað fljótlega aftur.

Tíminn segir almennar tíðarfréttir úr Lóni 12.apríl:

Sigurður Jónsson, bóndi að Stafafelli í Lóni hefir sagt Tímanum þessar fregnir úr héraðinu sínu: Í Austur-Skaftafellssýslu hefir veturinn verið umhleypingasamur og gjaffelldur. Í skammdeginu náðu rigningar og hafstormar hámarki, snjó leysti úr hæstu fjöllum, vötn ultu fram í stórvexti, og jörð varð alþíð um þorrakomu.

Tíminn segir tíðarfréttir úr Loðmundarfirði 14.apríl - þar á meðal miklu illviðri sem gerði þar í september haustið áður:

Fréttaritari Tímans í Loðmundarfirði skrifar blaðinu um miðjan fyrra mánaðar [mars]. Hausttíðin var æði umhleypingasöm. Seint í september geisaði rok af suðaustri og olli það mjög miklu tjóni á flestum bæjum. Fuku á sumum bæjum því nær öll gripahús, en á öðrum hlöður og önnur hús. Var þetta mjög tilfinnanlegt þar sem miklum örðugleikum var háð að fá efni til endurbóta og ekki síður mannhjálp, því allir vilja í Bretavinnu vera, en ekki við sveitavinnu. Annars má í stuttu máli segja, að í haust og vetur hafi skipst einmuna stillur og veðurblíður eða þá fárviðri, stórfelldar rigningar eða krapahríðar, en snjór hefir aldrei orðið mikill, það sem af er vetri og aldrei legið lengi, og hefir varla nokkru sinni orðið haglaust með öllu. Geta má þess sem dæmi um veðurblíðuna, að langt var liðið á þorra, þegar að þrjár kindur komu úr klettum í fjallinu milli Seyðisfjarðar og Loðmundarfjarðar, en þær vöntuðu frá því desember.

Morgunblaðið fjallar enn um hlýindin í sjónum og áhrif þeirra á fiskgöngur 28.apríl. Er nokkur botn kominn í það mál?:

Hlýindin í sjónum breyta fiskigöngum, draga úr afla. [stytt] Í gær átti blaðið tal við Árna Friðriksson magister um það hvaða aldursflokka gætti mest í aflanum í ár. Hann skýrði svo frá: Það er mjög eftirtektavert og kalla má ískyggilegt, hve lítið gætir aldursflokks þorsks í þessa árs afla, sem nú er 8 ára. Það er vitað með fullri vissu, að árið 1934 var ágætt klakár. Ungþorskur í kaldari sjónum við Norður- og Austurland hefir verið mjög mikill frá því ári. Ef þorskgöngur hefðu verið með sama hætti og áður, hefði átt að vera mikið af þessum aldursflokki í vertíðaraflanum. Hér hefði átt að koma aflahrota eins og árið 1930, er aldursflokkurinn frá 1922 kom til sögunnar. Sá aldursflokkur nam t.d. 1930 2/3 eða alt að 4/5 aflans. En á þessari vertíð eða nú í mars hefir aldursflokkurinn frá 1934 ekki verið nema 14% af aflanum í Vestmannaeyjum og í Keflavík 16%. Á báðum þessum stöðum hefir 10 ára aldursflokkur verið meiri eða 26% í Vestmannaeyjum, en 19% í Keflavík, og var árið 1932 ekkert sérlega gott klakár. Það sem hér hefir gerst er þetta. Þegar þorskurinn frá 1934 hefir í fyrsta sinn leitað til hrygningarstöðva, þá hefir hann að litlu leyti komið á venjulegar stöðvar hér við Suðvesturland. Ástæðan fyrir fjarveru hans héðan hlýtur að vera sú, að hann hefir annarsstaðar fundið sjó með réttu hitastigi fyrir hrygningu. Spurningin er, hvar þær fiskislóðir eru. Það rannsóknarefni verður ekki leyst nema með mikilli fyrirhöfn. Gera má ráð fyrir, að eitthvað af þorskinum, sem hefir alist upp við Norður- og Austurland og kynþroska varð á þessu ári, hafi hrygnt á þeim slóðum fyrir norðan og austan. — En að talsvert mikið af vertíðarfiskinum hér sunnanlands hafi alist upp við Grænland og komi þaðan hingað. En sem sagt, óvenjulegur sjávarhiti hefir truflað og breytt göngum þorsksins, og má búast við að erfitt verði að grafast fyrir hverjar þær breytingar eru. Það kann að taka mörg ár, ef þá ekki að veðráttan kólnar í millitíð og sjór verður kaldari og þorskurinn tekur upp sínar fyrri lífsvenjur.

Síðastliðið laugardagskvöld [25.] kom allsnarpur jarðskjálftakippur Norðanlands, er náði allt frá Siglufirði og Fljótum og inn í Eyjafjörð framan Akureyrar, Var kippurinn einna snarpastur á Siglufirði. Þar hristust hús svo, að t.d. myndir hrukku af veggjum og smáhlutir hreyfðust úr stað. Inni á Dalvík var kippurinn mun minni, og eins á Akureyri, virtist heldur snarpari fram í firðinum. Annar kippur kom um miðnætti á Siglufirði á sunnudagsnótt, er aðeins fannst á Dalvík en ekki á Akureyri, og sá þriðji fannst á Siglufirði á sunnudagsmorgun.

Tíminn segir af tíð í Dýrafirði 3.maí:

Fréttaritari Tímans í Dýrafirði skrifar: Veturinn hefir verið snjólaus oftast, en mjög úrfella og umhleypingasamur. Vegna hins góða sumars, heyjuðu bændur með langbesta móti, og þó að þeir eigi nær allir hlöður yfir hey þau, er peningur þeirra þarf, voru hey uppborin á flestum eða öllum bæjum í haust, þar sem fyrningar voru víða með mesta móti sl. vor. Hey þessi eru ýmist þakin með hessianstriga eða torfi sem yfirleitt gefst vel, en vegna hinna miklu rigninga fram yfir hátíðar, munu hey hafi drepið til skemmda víðast.

Byggi var sáð á tveim bæjum í Mýrahreppi og gaf ágæta uppskeru. Sáð var frá 1940, er þó var mjög lélegt kornræktarár. Hefir verið ræktað korn á annarri jörðinni Læk, í samfleytt 10 eða 11 sumur, og var þar fyrst sáð og uppskorið korn á Vestfjörðum á síðari öldum, og vann piltur, um fermingaraldur, að því, en er nú í bændaskólanum á Hólum.

Maí var nokkuð hagstæður framan af, en síðan kom þyrrkingstíð. Veðurathugunarmenn segja frá:

Lambavatn: Það hefir verið stillt og bjart veður af og til yfir mánuðinn. Um hvítasunnu [24.] gerði hér rok sem skemmdi garða. Það fer að verða vandræði vegna gróðurleysis ef þurrkarnir halda áfram því allt er að skrælna og þar sem er harðvelli grær ekkert því frost og við frost er á hverri nóttu.

Núpsdalstunga: Tíðarfar í þessum mánuði hefur verið gott, nokkur næturfrost, ekki sprottið vel.

Sandur: Tíð fremur mild, en úrkomusöm seinni hluta mánaðarins, í hagstæðara lagi fyrir gróður og vorvinnu. Síðustu dagarnir eru þó kaldir, snjóar þá öðru hvoru og frýs um nætur.

Reykjahlíð: Fyrri hluta mánaðarins þótti góður gróður eftir ástæðum. EN seinni hlutinn afar kaldur og stirð tíð. Mjög gróðurlítið um mánaðamót, jörð illa útlítandi.

Nefbjarnarstaðir: Tíðin fremur köld og votviðrasöm er á leið mánuðinn. Gróður mjög hægfara. Sérstaklega óhagstæð tíð um sauðburð.

Papey: Þ.13 varð alhvítt hér um tíma. Ógæftir til sjós. Lítil grasspretta.

Sámsstaðir: Jörð var klakalaus í byrjun mánaðar, en á stundum hefir verið frost á nóttum og það hamlað því að gróðri fór fram. Útjörð var lítið sprottin og hún óvenjusnögg í mánaðarlokin. Veður hafa fá orðið; oftast stillt veður.

Vísir segir 9.maí af tíð í Vestur-Skaftafellssýslu:

Fréttaritari Vísis á Núpsstað í Vestur-Skaptafellssýslu skrifar Vísi eftirfarandi: Veturinn var ómuna snjólitill og mildur, en úrfellasöm tíð og stórrigningar með köflum svo gjaffellt hefir verið, en heybirgðir nægar og fénaðarhöld góð, og er nú verið að sleppa sauðfé og sumir búnir að því. Skriðuhlaup komu hjá Núpsstað, bæði á tún og engjar, aðallega útengjar og bithaga og gerðu talsvert tjón. Mest kvað að þeim skemmdum í rigningunum í janúar og aftur nokkuð í febrúar síðastliðnum.

Eins og fram kom í veðurlýsingu úr Papey hér að ofan varð þar alhvítt að morgni 13.maí. Þann 14. [uppstigningardag] varð einnig alvítt m.a. á Kirkjubæjarklaustri og í Vík í Mýrdal. Á Fagurhólsmýri varð hvítt um stund, en ekki á athugunartíma.

Árið varð mikið til íslaust, en þó varð íss vart. Dagur segir frá 1.júní:

Fregn frá Grímsey í gærkvöldi hermdi, að hafísspöng væri komin fast að eynni og ræki í suðurátt.

Tíð var heldur þurr og köld í júní, en ekki illviðrasöm. Veðurathugunarmenn segja frá:

Lambavatn: Það hefir verið þurrt og stillt veður yfir mánuðinn. Grasvöxtur víðast lítill og sumstaðar eru tún stórskemmd af þurrki allt brunnið. Er mjög slæmt útlit með sprettu yfirleitt.

Skriðuland (Kolbeinn Kristinsson): Mánuðurinn sem heild kaldur og þurr. Þótt úrkomumagn mánaðarins væri meir en í meðallagi féll það nær allt á 2 dögum. Miðaði því gróðri mjög hægt.

Sandur: Köld tíð og óhagstæð fyrri hluta mánaðarins, en sæmilega hlý og hagstæð þann síðari. Gróðurfar hægfara og sprettuhorfur miður góðar.

Reykjahlíð: Júnímánuður þótti kaldur. Kýr fóru allstaðar óvenjuseint út. Sjö frostnætur í júní þykir mikið. Samt er orðin nokkur spretta á túnum um mánaðamótin því vel spratt seinustu viku júní. Ekki í manna minnum verið jafnlítið í stöðuvötnum sem nú og ár og lækir afarlítil.

Fagridalur (Oddný S. Wiium): Austlæg og norðlæg átt. Köld og óstöðug tíð, oftast þungviðri, sólarlitlir dagar og gróðri fór seint fram.

Papey: Það hefir verið óhagstæð tíð til sjós og lands. Þó komið margir góðir dagar, en frekar þokusamt frá 20.þ.m. og lítil hlýindi.

Sámsstaðir: Hér í meðallagi hlýr, þurrkasamur mjög og sólfar mikið. Frá 4. til 24. voru þurrkar miklir og sólfar mikið. Þennan tíma fór gróðri lítið fram og því slæmt útlit með sprettu.

Morgunblaðið segir af gróðureldum 18.júní:

Undanfarna tvo daga hafa verið eldar í mosaþembunum í hrauninu fyrir norðan Vífilsfell, beggja megin við Suðurlandsveg, á svonefndum Bolaöldum. Sögðu vegfarendur blaðinu, er fóru þar um á miðvikudag, að eldsvæðin væru þrjú, en daginn áður voru þau tvö. Svo engu er líklegra, en menn hafi orðið til þess að fjölga þeim, eftir að þeir voru komnir af stað. Þar sem eldur kemst í mosa á svo lítt grónu landi, sem þarna er, verður jörðin alsviðin, og blæs þá upp hinn beri jarðvegur sem eftir er. Þó þarna sé ekki um verðmætt land að ræða, er leiðinlegt að vita til þess, að land sem af náttúrunnar hendi er að gróa upp á löngum tíma, skuli þannig gereyðast að nýju.

Dagur kvartar 25.júní um ryk á götum Akureyrar:

Hvar er vatnsbíllinn? Meira kveður nú að göturykinu en nokkru sinni fyrr, en minna að vatnsbílnum. Má segja, að ekki sé farandi t.d. um Kaupvangsstræti og Eyrarlandsveg fyrir rykmekki. Vatnsbíllinn þyrfti að vera á ferðinni allan daginn, þegar svo viðrar sem nú. [Aftur var kvartað stórlega 4.júlí].

Júlí var hagstæður, nema helst á Norðausturlandi. Nokkuð kuldakast gerði snemma í mánuðinum. Veðurathugunarmenn segja frá:

Síðumúli: Júlímánuður hefir verið dásamlega góður. Heyskapurinn hefir því gengið mjög vel. Túnin voru vel sprottin og útengjar eru að verða góðar hér.

Lambavatn: Veður hefir verið fremur hagstætt fyrir heyskap yfir mánuðinn.

Suðureyri: Breytilegt hitastig og oft svalt, enda ís nærri landi. Hæglát veður. Vætusöm tíð og of lítið um þurrk, svo töðu lá við skemmdum. Góðar gæftir.

Núpsdalstunga: Sláttur hefur gengið vel. Taða ekkert hrakist.

Sandur: Tíð fremur köld og óþurrkasöm, óhagstæð fyrir heyskap og sprettu. Grasvöxtur með afbrigðum lélegur á engjum, en allt upp í meðallag á túnum.

Nefbjarnarstaðir: Tíðin fremur köld um þetta leyti árs og þurrkalítið. Grasvöxtur sæmilegur á túnum en lakari á útengjum. Hirðingu má telja góða það sem af er.

Teigarhorn: Þessi mánuður hagstæður bæði til lands og sjávarins. Fyrstu daga í mánuðinum var fremur kalt, snjóaði í fjöll.

Sámsstaðir: Mánuðurinn sólríkur og venjulega stillt veður. Þurrkar miklir. Mánuðurinn mjög hagstæður heyskap.

Morgunblaðið segir af tíð austanlands í pistli 12.júlí - og hreti þar um slóðir.

Árni Jónsson frá Múla kom hingað til bæjarins í gær. Sagði hann að tíð hefði verið köld á Austurlandi í vor og allt fram á síðustu daga. Aðfaranótt fimmtudags í síðustu viku [9.] gerði hret þar eystra og snjóaði í fjöll. Bílar sem fóru um Möðrudalsöræfi snemma á fimmtudag lentu í sköflum á veginum, svo moka þurfti á nokkrum stöðum. En snjóinn leysti er fram á daginn kom. Árni segir, að þó kalt hafi verið lengst af, gerði góðviðriskafla um sólstöður, og spruttu tún þá sæmilega. En útjörð er enn illa sprottin.

9.júlí fóru fyrstu bílarnir yfir Fjarðarheiði. — Allmargir menn höfðu unnið að því í nokkra daga að moka snjó af veginum. Færð var sæmileg eftir atvikum.

Tíminn segir af heyskaparhorfum 14.júlí. Kvartanir um fólkseklu eru áberandi:

Víðast er sláttur í þann veginn að hefjast. Heyskaparhorfur eru nær alls staðar með versta móti og veldur því hvort tveggja, að grasspretta er í lakara lagi og hörgull á fólki til heyvinnu. Kuldar hafa gengið í liðlangt vor um allt land, og í mörgum héröðum hafa langvarandi þurrkar stórhamlað eðlilegri grassprettu. Þó að túnspretta sé sáraléleg, er þó útjörð tiltölulega verr sprottin, einkum votlendi. Munu áveitulönd vera einu engjalöndin, sem útlit er fyrir að gefi af sér sæmilegan heyfeng í sumar. Sagan er nokkuð svipuð hvar á landinu, sem er. Á Suðurlandi var spretta nauða léleg fram eftir öllu. Ollu því þurrkar. Um mánaðamótin síðustu komu nokkrir vætudagar og tók þá jörðin mjög miklum framförum, enda var þá líka hlýtt í veðri.Enn er grasspretta þó neðan við meðallag. Valllendi er mun skár sprottið en mýrar. Sláttur hefst þar ekki almennt fyrr en um næstu helgi. Fólksekla er mörgum bændum til stórbaga um öflun nægilegs heyfengs. — Á Norðausturlandi og Austurlandi er spretta léleg vegna kuldatíðár í liðlangt vor. Túnasláttur er þó víða í þann veginn að hefjast. Útjörð er víða nauða illa sprottin. Yfirleitt mun sprettan þó lakari niðri á fjörðunum, en t.d. á Fljótsdalshéraði. Fólkseklan er víða ískyggileg. Norðanlands eru tún sæmilega sprottin að kalla í hinum hlýrri sveitum, t.d. innsveitum Eyjafjarðar, en í hásveitum og á útnesjum er hún mjög léleg vegna kulda og næturfrosta. Engjar eru yfirleitt illa sprottnar. Sláttur er að byrja, þar sem best er ástatt um grasvöxtinn, en það mun annars staðar dragast fram í mánaðarlok, jafnvel. Liðfátt er á bæjum og horfir því þunglega um öflum nauðsynlegra heyja, ekki síst hjá þeim, er nýta verða slægjur utan túns að verulegu leyti og eiga máske langt að sækja. Á Vesturlandi er mjög svipaða sögu að segja, þar sem Tíminn hefir haft fréttir, og er óhætt að fullyrða að nú velti mjög mikið á því, og meira en oft áður, að heyskapartíð verði hagstæð, svo að heyin nýtist vel. Leggist rosasöm tíð á eitt með grasbresti og fólkseklu mun horfa til stórfelldra vandræða í haust hjá miklum fjölda bænda um land allt.

Vísir segir af óþurrkum nyrðra 15.júlí:

Töður hrekjast nú mjög á Norðurlandi vegna sífelldra óþurrka. Liggja þær undir stórskemmdum, að því er fréttaritari Vísis á Akureyri hefir símað. 

Dagur segir fréttir úr Bárðardal 30.júlí:

Úr Bárðardal. Fréttaritari skrifar: Upp úr mánaðamótum júní—júlí var almennt byrjað að slá í Bárðardal. Jafnframt því voru ærnar rúnar. Var það nokkuð með seinna móti. Orsakaðist það af kuldum í vor, sem urðu til þess, að ær tóku ekki snemma bata, og eins er alveg óvenju mikið um vegagerð og girðingalagnir vegna sauðfjármæðinnar og gleypir þetta tvennt vinnukraftinn frá venjulegum heimilisverkum. — Síðan slátturinn hófst hefir þurrkatíðin verið óhagstæð, svo að ekkert hefir enn náðst inn af töðu. — Hins vegar er sprettutíðin góð mest af, hlýindi og skúrir, enda orðin góð spretta á túnum og horfur á, að útengi geti orðið sæmileg til slægju, einkum þó harðvelli.

Ágúst var heldur óþurrkasamur, en skárri fyrir norðan. Hret gerði undir lok mánaðar. Veðurathugunarmenn segja frá:

Lambavatn: Það hefir verið fremur stillt en þurrklaust nema fáa daga kringum þann 20. Náðu þá allir öllum gömlum heyjum. Voru þau óskemmd.

Núpsdalstunga: Tíðarfar hefur verið gott, heyskapur gengið með besta móti. Votviðrasamt nokkuð um miðjan mánuðinn.

Sandur: Tíðarfar fremur milt og miðlungi þurrviðrasamt. Grasspretta í meðallagi á túnum, en léleg á útengjum, einkum mýrum og flæðiengjum. Heyfengur rýr að vöxtum, en nýting mjög góð.

Reykjahlíð: Mjög sæmileg veðurátt í ágúst, þó alllangur kafli þurrklaus um miðjan mánuðinn. Kartöflugras skemmdist allmikið aðfaranótt 29.

Grímsstaðir á Fjöllum (Sigurður Kristjánsson): Alhvítt af snjó að morgni 28.þ.m. [10 cm].

Nefbjarnarstaðir: Fremur óþurrkasamt um miðbik mánaðarins. Austlæg átt sem oftast. Úrkoma ekki stórfelld. Hægviðri og fremur hlýtt. Hey hafa hrakist nokkuð. Aðfaranótt 29. gerði frost nokkurt og fölnaði kartöflugras nokkuð.

Sámsstaðir: Hægviðrasamur og með töluverðu sólfari. Heyskapartíð hagstæð svo hvorki töður né úthey hröktust. Úrkoma oftast lítil, en jókst nokkuð eftir miðjan mánuð.

Víðistaðir (Bjarni Erlendsson): [28. Snjóaði á Skarðsheiði, Esju og Hengil - fyrsta sinn á hausti].

Tíminn segir frá 29.ágúst:

Fyrsti boðberi haustsins og vetrarins, sem í hönd fer, birtist Reykvíkingum í gærmorgun. Á koll Esjunnar og Skarðsheiðarinnar hafði fallið mjöll um nóttina — hinn fyrsti snjór. Sjaldan eru íslensku fjöllin eins mikilúðug og fögur eins og í fyrstu snjóum seinni part sumars og á haustin. Hið efra bera þau tárhreinan fald haustmjallarinnar, en niður í hlíðunum skartar hinn deyjandi gróður í sínum fegurstu litum, meðan hann heygir vonlausa baráttu við ofurefli vetrargaddsins.

Alþýðublaðið talar við Steindór Steindórsson um gróðurfar 27.ágúst:

Steindór Steindórsson, kennari í náttúrufræði við Menntaskólann á Akureyri, er staddur hér í hænum. Hefir hann nýlokið rúmlega mánaðar rannsóknarferðalagi um öræfi á Norðausturlandi og um Þjórsárdal. ... Segirðu nokkur tíðindi af öræfunum? „Þar gerist að vísu fátt. En ég býst við að mönnum þyki það ill tíðindi, að svo virðist sem uppblástur fari í vöxt á afréttum. Ég skal til dæmis geta þess, að á afréttum Mývetninga liggja stór svæði undir eyðileggingu.“ — Og hvað heldur þú að valdi þessu? „Svo virðist að hinir snjólausu vetrar valdi hér mestu um. Fannirnar hafa verndað landið áður fyrir uppblæstri.“

Í Morgunblaðinu 6.september er einnig talað við Steindór. Þar segir: Sérlega góð skilyrði hafa borist Steindóri í hendur til þess að athuga áhrif friðunar á gróður norður á Vatnsskarði. Þar er mæðiveikigirðing tvöföld, með 2 til 3 metra millibili eftir endilöngu skarðinu, og alfriðuð rönd milli girðinganna Þar gefur að líta ákaflega mikinn mismun á gróðrinum, sem friðaður er og sem verður fyrir beitinni.

Heldur óstöðug tíð í september og ekki hlý. Veðurathugunarmenn segja frá:

Lambavatn: Það hefir verið óstöðugt og votviðrasamt og oft fremur kalt. Eins og sumarið hefir verið. Heyskapur er ekki í meðallagi og sumstaðar slæmur. Sama er að segja um sprettu í matjurtagörðum.

Suðureyri: Óstöðugt, stórgert með köflum. Fremur hlýtt. Gæftir í færra lagi.

Sandur: Tíðarfar fremur kalt og íhlaupasamt, óhagstætt haustönnum. Hey náðust þó síðast inn með sæmilegri verkun, en heyfengur varð allstaðar rýr. Uppskera úr matjurtagörðum léleg.

Nefbjarnarstaðir: Tíðin köld og fremur óhagstæð. Heyfengur með minna móti. Uppskera úr görðum fremur rýr.

Papey: [15. Hárok 10 og 11 [vindstig], heyskaðar víða].

Sámsstaðir: Mánuðurinn fremur svalur. Úrkoma alltíð, en minni en í meðallagi. Oftast skýjað loft en oftast hægviðri flesta daga mánaðarins.

Alþýðublaðið segir 24.september af skriðuföllum vestra. Líklega var þetta 21. til 22. dag mánaðarins:

Skriðufall varð nýlega við Ísafjörð og urðu af því töluverðar skemmdir. Meðal annars varð vegurinn milli Ísafjarðar og Hnífdals ófær.

Morgunblaðið segir 27.september af rýru laxveiðisumri:

Í sumar hefir lítið veiðst af laxi, bæði á stengur og net, sagði Runólfur Kjartansson kaupmaður tíðindamanni blaðsins í gær. Mjög lítið hefir veiðst í ánum fyrir austan fjall. Í net hafa veiðst ca. 2000 laxar, en stangaveiði hefir verið fram úr öllu hófi rýr. Aftur á móti hefir stangaveiði í Elliðaánum verið óvenju góð. Einnig hefir lítið veiðst á stöng í Borgarfjarðaránum. Grímsá hefir þó veríð allsæmileg, en Norðurá og Þverá heldur lélegar. Sæmilega hefir veiðst í Langá. Stangaveiði í ánum í Dölunum hefir verið mjög léleg. Lítið veiddist í Haukadalsá og neðst í Laxá, en heldur glæddist þó veiðin eftir því, sem ofar dró. Árnar á Norðurlandi vorn einnig lélegar. Miðfjarðará var þó sæmileg, þegar tillit er tekið til þess, að þetta er fyrsta sumarið, sem áin er notuð til stangaveiða, en áður var hún sópuð með netum. Mikill lax var í Laxá í Þingeyjarsýslu, en margir, sem þar veiddu, kvörtuðu undan því, að ekki væri gott að veiða þar, því að laxinn tók illa og svo var mikið slý í ánni. Stangaveiðatímabilinu lauk 15. september, en netaveiðatímabilinu um síðastliðin mánaðamót.

Vísir segir 29.september af ís á Tjörninni í Reykjavík:

Tjörnin var í morgun ísi lögð að mestu. Er það óvenjulegt, að Tjörnina skuli leggja í septembermánuði.

Morgunblaðið segir enn af skipsskaða 1.október:

Frá fréttaritara vorum á Bíldudal í gærkvöldi [30.september]. Það slys varð s.l. nótt að opinn vélbátur með tveim mönnum héðan fórst fiskiróðri. Báturinn fór héðan kl.5 í gærdag og ætluðu þeir Bjarni og Matthías að leggja lóðir í miðjum Arnarfirði. Gerði afspyrnurok af suðaustri, er leið á kvöldið og var þá sendur vélbátur til að leita þeirra, en leitin bar engan árangur, því að niðdimmt var og afspyrnurok. Leitinni var haldið áfram i morgun, er birti, og fannst þá báturinn utarlega í firðinum fullur af sjó og mannlaus.

Dagur segir af heyskap í Húnaþingi 2.október:

Úr Húnaþingi. Að sláttarlokum. Tún spruttu hér vel í sumar, svo að töðufall var mikið yfir meðallag og nýttist ágætlega, því að tíð var mjög hagstæð fram um miðjan ágústmánuð. Á flæðiengjum og mýrlendi var spretta léleg, en á harðvelli allgóð. Er útheysfengurinn af þeim sökum mjög misjafn í héraðinu. Eftir miðjan ágúst brá til mikillar úrkomu og hefir óstöðugt veðurfar haldist síðan. Þó hafa hey náðst lítið hrakin víðast, því að þurrkdagar hafa komið við og við, en hin óstöðuga veðrátta hefir mjög tafið alla heyvinnu. Víðast er enn úti nokkurt hey, en mest komið í sæti, svo allt mun nást inn. Almennt er útheysfengur með minna móti, og veldur því fyrst og fremst léleg grasspretta og frátafir vegna óþurrka, eins og fyrr segir, en einnig fólksekla. Kartöfluuppskera er í betra lagi. Hefir kartöflurækt stóraukist hér í sýslu undanfarin ár, svo að Húnvetningar geta nú orðið selt út úr héraðinu árlega allmikið af uppskerunni.

Tíminn segir af heyskaparlokum 3.október:

Heyskap er nú lokið allsstaðar á landinu. Þó eiga bændur í sumum sveitum eftir að hirða nokkuð af útheyi sínu, en veðrátta tekur óðum að spillast og vafasamt er, hvort unnt er að hirða það hey hér eftir, sem ekki hefir náðst undir þak fyrir þennan tíma. Steingrímur Steinþórsson, búnaðarmálastjóri, hefir skýrt Tímanum svo frá um heyskapinn í sumar og kartöfluuppskeruna í haust: — Yfirleitt mun töðufengur vera í meðallagi að vöxtum og gæðum víðast hvar á landinu. Sláttur byrjaði með seinna móti allsstaðar á landinu. Útheysskapur er með rýrasta móti, að minnsta kosti á Norður- og Austurlandi, bæði vegna vinnufólksskorts og slæmrar veðráttu. Sunnanlands hafa öll hey náðst undir þak, en í Skagafirði og ef til vill víðar á Norðurlandi, eiga bændur eftir að ná inn nokkru af útheyi. Veðrátta virðist nú vera að spillast og má gera ráð fyrir að vetur leggist snemma að. 

Slide3

Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), meðalþykkt (daufar strikalínur) og þykktarvik (litir) í október 1942. Kalt er við Ísland, þykkt vel undir meðallagi. Haustið virtist ætla að sækja snemma að og var tíð almennt talin óhagstæð. Mikið fjárskaðaveður gerði á Vestfjörðum snemma í mánuðinum. Veðurathugunarmenn segja frá:

Stykkishólmur: Þurrviðrasamt í byggð, aldrei fallið snjór í byggð hér. Töluverð fönn í fjöllum og til dala. 7.þ.m. sátu bílar fastir á fjallinu og voru 17 menn að moka í tvo daga. Síðan hefur verið bílfært.

Lambavatn: Framan af mánuði var tíð óstöðug og stórgerð. 7. og 8. kom hér aftaka stórviðri og snjókoma. [7. Stórviðri sjálfsagt um 11 vindstig um nóttina. Ekki komið hér jafnmikið sterkviðri fleiri ár, reif hús og hey].

Suðureyri: Óstöðug og stórgert með köflum. 7.-8. gerði stórhríð af norðri. Fannkoma varð geysileg. Talið er að á sama árstíma hefi eigi komið slíkur hríðarbylur síðan 1909.

Sandur: Tíðarfar kalt og illviðrasamt, óhagstætt haustönnum. Snjór lá hér á jörð frá þeim 8. og verða víða jarðbönn úr veturnóttum. Víða náðist ekki upp úr kartöflugörðum vegna ótíðar.

Nefbjarnarstaðir: Tíð óstöðug og köld, einkum síðari hluta mánaðar.

Sámsstaðir: Mánuðurinn kaldur og þurrviðrasamur.

Aðalillviðri mánaðarins gekk yfir landið 6. til 8. Djúp lægð kom að landinu og olli fyrst austanhvassviðri um mestallt land. Lægðarmiðjan fór síðan austur um Suðurland og skall þá á norðaustanaftakaveður á Vestfjörðum. 

w-sponn-1962-okt

Línuritið sýnir lægsta loftþrýsting landsins á hverjum athugunartíma dagana 1. til 19. október 1942 (rauð lína). Bláu súlurnar sýna þrýstispönnina (mun á hæsta og lægsta þrýstingi). Þrýstingurinn varð lægstur á Stórhöfða um hádegi þann 7., 959,5 hPa.

Slide5

Um sólarhring síðar var lægðin komin austur fyrir land, farin að grynnast lítillega. Vindur er enn langmestur um landið vestanvert og einkum á Vestfjörðum, Sömuleiðis varð mjög hvasst um tíma fyrir norðan, en ekki eins hvasst eystra. Síðan fór að draga úr (eins og línuritið gefur til kynna). 

Dagur segir af illviðri á Norðurlandi í pistli 9.október:

Ofviðri af norðri gekk hér yfir aðfaranótt s.l. fimmtudags og fimmtudaginn [8.]. Var Akureyrarbær rafmagnslaus þann dag, vegna þess að háspennulínan á Fljótsheiði hafði rofnað. Í verstöðvunum hér út með firðinum var veðrið mjög mikið og foráttubrim af völdum þess. Í Dalvík urðu verulegar skemmdir á hafnarmannvirkjum af völdum sjógangs. Í sumar var gerð 60 metra löng framlenging á hafnargarðinum þar. Var búið að hlaða og steypa 40 m., en 20 fremstu metrarnir voru aðeins hlaðnir, en ekki hafði gefist tóm til að festa grjótið með steypu. Brimið sópaði þessum.grjótgarði í burtu niður að sjávarmáli og vann auk þess töluverðar skemmdir á 40 metra garðinum, braut skörð í hann og tók stykki úr. Hafa Dalvíkingar orðið fyrir mjög tilfinnanlegu tjóni af völdum veðurs þessa, en þeir segja að annað eins brim hafi ekki sést þar, síðan „stóra brimið“ gerði þar 1934 og vann mikið tjón. Á fimmtudagsnóttina slitnaði m/b Frosti, eign Sigurðar Jónssonar útvegsmanns í Dalvík upp af bátalegunni þar og rak upp í sandinn f víkinni. Er báturinn talinn stórskemmdur. Þetta var dekkbátur, 6 smálestir að stærð. 

Vísir segir nánar af símabilunum 10.október - eins og fram kemur datt samband við Vestfirði alveg út um tíma og voru fréttir um tjón alllengi að berast til blaðanna:

Símabilanir urðu á mörgum stöðum nú i vikunni, aðallega á Norður- og Vesturlandi.  Eftirfarandi upplýsingar um bilanirnar fékk Vísir frá Landssímanum: Bilanir á Norðurlandi voru hvergi miklar og er viðgerðum lokið þar allsstaðar. Á Vestfjarðakjálkanum voru aðalbilanirnar beggja megin Ögurs í Ísafjarðardjúpi, og stendur þar viðgerð enn yfir. Er búist við að talsambandið komist í lag í dag. Beggja megin Króksfjarðarness slitnuðu vírar einnig niður af fjölda staura, en viðgerð er þar lokið. Loks urðu bilanir í Snæfellsness-, Dala- og Strandasýslum, en hvergi miklar og er búið að ljúka viðgerðum þar.

Morgunblaðið segir líka frá sama veðri 11.október:

Frá fréttaritara vorum á Akureyri. Í ofviðri, sem geisaði hér s.l. fimmtudagsnótt og daginn eftir, varð Akureyrarbær rafmagnslaus þann dag, sökum stórbilunar á háspennunni á Fljótsheiði. Tjón varð einnig á Dalvík, einkum á hafnarmannvirkjum, vegna brims. Viðauki á hafnargarðinum skemmdist allmikið. — Viðauki þessi var byggður í sumar. Viðaukinn er 60 metra langur, en búið var áð steypa og hlaða 40 metra af honum. Fremsti hluti garðsins, 20 m, sem búíð var að hlaða, en eftir var að steypa, sópaðist burt vegna brimsins. Dekkbát, sem Sigurður Jónsson útgerðarmaður á Dalvík átti, rak upp í fjöru og stórskemmdist.

Smám saman fréttist af fjársköðum, er það heldur endurtekningasamt, en við sleppum samt ekki mörgu. Fróðlegt að sjá hvernig bætist við eftir því sem á líður. Vísir segir frá 12.október:

Í ofviðrinu fyrir skemmstu fennti eða fór í sjóinn 150 fjár frá Unaðsdal á Snæfjallaströnd. Ofviðri þetta skall á skyndilega og er eitt hið mesta í manna minnum og líkt við „Halaveðrið“ mikla 1925. — Mikið tjón varð á símalínum, eins og áður hefir verið getið hér í blaðinu, og hefir ekki enn tekist að anna viðgerðum, svo að ókunnugt er um tjón af völdum veðursins fyrir norðan Ísafjarðardjúp, en menn óttast að tjón hafi orðið víða og mikið. Eftir ofviðri þetta. óttuðust menn um eitt skip íslenska fiskiflotans. Varð mönnum mikill léttir að því, er það fréttist, að orsök þess, að ekki spurðist til skipsins, var aðeins sú, að talstöð þess hafði bilað. Eftir því sem austar kom dró úr ofviðrinu, og austan Húnaflóa mun veðurhæðin hafa verið mun minni, Þó varð tjón af völdum ofviðrisins á Dalvík og víðar. Þar varð tjón á hafnarmannvirkjum vegna brims. Alþýðublaðið segir af sömu fjársköðum 13.október:

Síðastliðinn miðvikudag og aðfaranótt fimmtudags gekk hið mesta fárviðri yfir Vestur- og Suðvesturland. Var veðrið meira en elstu menn muna. Stórkostlegir fjárskaðar urðu mjög víða, en mestir á Snæfjallaströnd í Norður-Ísafjarðarsýslu. Enn hafa ekki borist nákvæmar fréttir úr sýslunni vegna mjög víðtækra símabilana, en frést hefir þó, að veðrið hrakti 150 fjár frá bóndanum í Unaðsdal í sjó niður og fórst það allt. Samkvæmt fréttum, sem borist hafa frá öðrum bæjum hafa fjárskaðar orðið allt frá 50 kindum og upp í 80 á hverjum bæ. Þá hefir líka frést um mikla fjárskaða á öðrum stöðum á Vesturlandi og einnig í Snæfellsnessýslu, en fregnir eru enn því miður óljósar af tjóninu. Símalínur eru bilaðar mjög víða og fundir, sem halda átti á ýmsum stöðum hafa farist fyrir.

[Í sama blaði er grein um siglingaleiðina norðan við Asíu, segir þar m.a.]: Ekki skyldu menn ætlast til of mikils af Norðurleiðinni, því að möguleikarnir þar eru mjög takmarkaðir. Í síðustu fimm ára áætlun [sovétstjórnarinnar] var gert ráð fyrir því að þar væri komin auðveld leið árið 1932. Leiðin er opin, aðeins frá júlímánuði til októberloka. Ef tíðarfar er gott og önnur skilyrði fyrir hendi geta herskip farið þessa leið og þar er hægt að fara með stóra farma og létta þannig af Síberíujárnbrautinni.

Vísir segir af ófærð eftir óveðrið mikla í pistli 15.október:

Jón Bergsveinsson fulltrúi Slysavarnafélagsins er nýkominn til bæjarins. Segir hann, að ófærð hafi verið mikil eftir ofviðrið, og sé enn. Á Ísafirði voru mannhæðar háir skaflar og bílar komust ekki ferða sinna fyrr en búið var að moka. — Fjárskaðar urðu og menn óttast, að fé hafi fennt á fjöllum. — Í Bolungarvík brotnaði stór vélbátur við brimbrjótinn. Jón var 3 daga veðurtepptur í Súðavik og varð að lokum að hætta við leiðangur sinn vegna ófærðar. Erfitt er um alla fundasókn og frambjóðendurnir verða að fara staða á milli á tveimur jafnfljótum að þessu sinni. [Alþingiskosningar voru framundan].

Nánari fregnir af fjársköðunum. Alþýðublaðið 17.október:

Nú hafa borist nákvæmari fréttir um fjárskaðana, sem urðu í Norður-Ísafjarðarsýslu í síðustu viku og hafa þeir jafnvel orðið enn meiri en menn bjuggust þó við. Nákvæm skýrsla um fjölda hins tapaða fjár liggur þó enn ekki fyrir. Fjárskaðarnir í ofviðrinu urðu langmestir á 6 bæjum: Unaðsdal, þar fórust 150 fjár en í Skjaldfannardal 200 fjár, Melgraseyri 50 fjár, Hafnardal 30 fjár, Nauteyri 20 fjár og Skjaldönn 20 fjár. Á þessum 6 bæjum hafa því tapast hvorki meira né minna en 480 fjár. Allir þessir bæir eru á Snæfjallaströnd og Langadalsströnd og því norðan við Djúpið. En auk þessa hafa tapast kindur á mjög mörgum öðrum bæjum. Er þetta eins og gefur að skilja stórkostlegt tjón fyrir bændurna.

Morgunblaðið segir 17.október illviðrafregnir af Ströndum:

Frá fréttaritara vorum í Djúpuvík. Í síðastliðinni viku gerði hér afspyrnurok af norðaustan og snjókomu, og stóð það veður látlaust í tvo daga. Mikið tjón varð af völdum óveðursins. Fé fennti víða. Þak fauk af hlöðu í Naustavík. Á Kúvíkum brotnaði bryggja hjá Carl Jensen kaupmanni. Vélbátinn Þórólf rak upp á svonefndum Hekluklettum og brotnaði hann þar í spón. Eigandi bátsins var Sigurður Pjetursson. Á Kaldrananesi rak vélbátinn Sægamm upp, og brotnaði hann mikið.

Vísir segir 29.október af erfiðri tíð:

Tíðarfarið í sumar og haust var fremur kalt og umhleypingasamt, eins og áður hefir verið frá sagt hér í blaðinu, og ekki hefir úr ræst með komu vetrar. Eru nú harðindi mestu norðanlands viða og hörkuveður hafa komið vestan lands og austan, og hafa bændur neyðst til þess að taka fé á gjöf, nema sunnanlands, þar sem enn er auð jörð þar til hefir frést. Síðari hluti hausts var og kaldur og hretasamur norðanlands og vestan. Þar sem heyfengur var yfirleitt fremur lélegur víða, er hætt við að margur tefli á tæpt vað með ásetning, og hefir Búnaðarfélagið fyrir nokkru hvatt menn til þess að gæta allrar varúðar í þessum efnum.

Dagur ræðir samgöngur 29.október:

Síðasta hraðferðin til Reykjavíkur á þessu ári fór héðan á laugardagsmorguninn var, að því er Kristján Kristjánsson, forstjóri Bifreiðastöðvar Akureyrar tjáði blaðinu. Gekk sú ferð sæmilega vel, en eftir það mátti telja ófært yfir Öxnadalsheiði. Þá sendi BSA 2 bíla héðan á sunnudaginn klukkan 2 e.h. Var ætlunin að þessir bílar yrðu vestan heiðarinnar í vetur og héldu uppi ferðum úr Skagafirði suður. Þeir komust vestur yfir og að Varmahlíð laust eftir miðnætti samdægurs. Síðan hafa bílar ekki lagt upp héðan, enda nú komin ófærð hin mesta. BSA mun halda uppi föstum ferðum úr Skagafirði til Reykjavíkur í vetur, sagði Kristján ennfremur, tvisvar í viku og oftar ef þörf krefur. Snjólaust er ennþá með öllu í Skagafirði og á Vestur- og Suðurlandi. Í fyrra áraði svo vel, að bílar óku yfir Öxnadalsheiði allt fram i desemberbyrjun.

Hlýtt var í nóvember og rigningasamt syðra. Veðurathugunarmenn lýsa tíð:

Lambavatn: Það hefir verið hlýindi en óstöðugt veðurlag yfir mánuðinn. Skepnur gengu allstaðar úti. Nú eru fjöll hér alauð og hvergi klaki í jörð nema það sem nú er að frjósa.

Suðureyri: Óstöðugt!. Svo breytilegt að ég man ekki slíkt. Hitasveiflur snarpar. En snjólétt og góður hagi.

Sandur: Tíðarfar mjög milt og úrfellalítið, en óstöðugt og stormasamt. Hagbönn víða öndverðan mánuðinn sakir áfrera, en gjörleysir úr sveitum um miðjan mánuð snjóa og ísa. Eftir það öndvegistíð til loka.

Reykjahlíð: Aldrei mælanleg úrkoma allan nóvembermánuð. Góð veðurátta allan þennan mánuð og má heita sumarautt um mánaðarlokin. Farið á bíl suður í Grafarlönd 22.þ.m. 27. var mestallur ís farinn af Mývatni, aðeins lausir jakar eftir. Næsta dag lagði svo vatnið aftur.

Nefbjarnarstaðir: Mjög úrkomulítið, en fremur umhleypingasöm tíð.

Sámsstaðir: Mánuðurinn fremur úrkomusamur og þungskýjað flesta daga, sól sást varla.

Um grýlukerti í Vísi 4.nóvember. Enn verður að huga að þessari hættu:

Blaðið „Íslendingur“ á Akureyri skýrir frá því fyrir skemmstu, að lögreglan á Akureyri hafi orðið að ganga fram í því að brjóta niður stórgerðra klakadröngla, sem hangið hafa að undanförnu niður úr þakbrúnum húsa í bænum. Hefir stafað allmikil slysahætta af ísdrönglum þessum, því þeir hanga beint fyrir ofan höfuðin á vegfarendunum, þegar þeir ganga á gangstéttunum.

Tíminn segir 10.nóvember enn af fjársköðunum við Djúp í október:

Fjárskaðarnir miklu við Djúp. Í öndverðum októbermánuði, dagana 6. og 7. þess mánaðar, var einhver sú mesta stórhríð, er menn muna, á Vestfjörðum norðanverðum. Olli hún stórmiklum fjársköðum norðan Ísafjarðardjúps, á Snæfjallaströnd og Langadalsströnd. Helgi bóndi Guðmundsson í Unaðsdal á Snæfjallaströnd missti þá rúmlega 120 fjár. Var fé hans flest á túninu eða rétt við það, og hrakti margt af því í sjóinn undan ofviðrinu. Hagar þarna svo til, að örskammt er til sjávar og aflíðandi halli niður í fjöruna. Rak margt af fé því, er þarna fórst, í Strandseljavík, vestan Djúps. Í Bæjum fórust um eða yfir 20 kindur, og frá Lyngholti, grasbýli þar í grennd, fórust 10 kindur af 40. Mest mun þó fjártjónið hafa orðið hjá Þórði oddvita Halldórssyni á Laugalandi. Fórust þaðan af heimilinu um 150 fjár. Hrakti margt af því í Selá, vatnsfall mikið, er fellur eftir dalnum, er Laugaland stendur í, milli Skjaldfannarfjalls og Hraundalsháls, og kvíslar úr henni. Einnig fennti margt fé, en sumt af því náðist lifandi úr fönninni. Þórður hafði eigi rekið fé sitt til slátrunar. Jón bóndi Fjalldal á Melgraseyri á Langadalsströnd, missti 40—50 fjár; hrakti flest í sjóinn. Pétur Pálsson í Hafnardal missti um 50 fjár. Sigurður Pálsson á Nauteyri missti um 30. Á ýmsum öðrum bæjum fórust innan við 20 kindur í hríðinni, svo sem að Hamri, Tungu og víðar. Munu þessir fjárskaðar vera einhverjir þeir mestu, sem orðið hafa af völdum hríðarveðurs nú um skeið, og mjög tilfinnanlegir þeim, er fyrir hafa orðið.

Veruleg illviðri gerði þann 11. og 14. nóvember þegar djúpar lægðir fóru yfir landið eða rétt norðan við það. Bæði ollu tjóni, einkum það síðara, en ekki er samt alltaf fullljóst hvað er hvors. Í fyrra veðrinu varð merkileg þurrð í Hvítá í Árnessýslu. 

w-sponn-1942-nov

Rauða línan á myndinni sýnir lægsta loftþrýsting á landinu á hverjum athugunartíma 4. til 17. nóvember 1942. Bláu súlurnar þrýstispönnina (mun á hæsta og lægsta þrýstingi). Lægðin sem kom að landinu þann 11. fór norður með vesturströndinni, olli miklu suðaustanveðri aðfaranótt þess dags, en síðan snerist vindur til suðvesturs. Lægðin fór síðan hratt til norðausturs og var fljótt úr sögunni. Síðari lægðin virðist hafa valdið meira tjóni, einkum var það suðvestan- og vestanáttin í kjölfar lægðarinnar sem var skæð. 

Slide6

Endurgreiningar ná fyrri lægðinni ekki alveg. Kortið sýnir v2-gerð bandarísku greiningarinnar, en hún er í þessu tilviki betri en v3-gerðin (þótt sú sé nýrri). Að morgni þess 11. er lægðin sett á nokkurn veginn réttan stað, en hún var þá þegar orðin mun dýpri en greiningin sýnir og fór um hádegi niður fyrir 960 hPa. Dýpkunin kemur fram í þessari greiningu, en of seint.  

Þann 11. nóvember þvarr vatn í Ölfusá og Hvítá. Vísir segir frá 13.nóvember:

Í fyrradag þvarr vatn skyndilega í Ölfusi, svo að mjög lítið varð í ánni. Nálægt Selfossi eru klettar í miðri ánni og vanalega álar báðum megin við þá, en nú var hægt að ganga þurrum fótum yfir í klettana frá austurbakkanum. Áll var vestan megin klettanna sem áður. Þá bárust fregnir um, að Hvítá hefði einnig verið mjög vatnslítil. Það hefir komið fyrir áður, að vatn þvarr skyndilega í þessum ám, seinast árið 1923. Þetta mun koma fyrir endrum og eins og hafa myndast um þetta fyrirbrigði þjóðsögur. Ekkert verður með vissu sagt um hvernig á þessu stendur og eitt af því furðulega við þetta fyrirbrigði er, að vanalega minnkar ekki í Hvítá fyrr en kemur niður undir Hestfjall. [Alþýðublaðið bætir við sama dag að þetta hafi gerst áður, síðast 1911, ekki ljóst hvort ártalið er rétt].

w-1942v-ia

Þann 31. desember (sjá hér að neðan) segir Morgunblaðið frá skýringu Guðmundar Kjartanssonar á þurrðinni (sjá neðst í þessum pistli). Heldur hann því fram að skafið hafi í ána í Hreppunum eða þar fyrir ofan. Kortið sýnir lægðina við Reykjanes, í miðju hennar var vindur þá hægur, en suðvestanfárviðri á Stórhöfða og sjálfsagt á hálendinu líka með tilheyrandi skafbyl þar. 

Ekki var langt í næstu illviðrislægð. Hún fór þó heldur vestar, en olli skaðræðisvestanveðri.  

Slide7

Kortið sýnir endurgreininguna eins og hún giskar á stöðuna síðdegis laugardaginn 14.nóvember - nokkuð nærri réttu lagi að því er sýnist. Vísir segir frá tjóni í Hafnarfirði í pistli 16.nóvember:

Í Hafnarfirði urðu alvarlegar skemmdir á hafnarmannvirkjum í óveðrinu fyrir skemmstu [í Veðráttunni sagt þann 14.]. Auk þess rak þar pramma á land frá hafnargarðinum og eyðilagðist hann með öllu. Verulegar skemmdir urðu á hafnargarðinum nýja fremst, eða þar sem hann var óhlaðinn. Brotnuðu í hann skörð á nokkrum stöðum. Þá urðu þó nokkrar skemmdir á gömlu hafskipabryggjunni, og urðu öll skip, sem fest voru við hana, að fara frá henni og út á höfnina. Á nýju skipabryggjunni urðu líka skemmdir, en þær eru óverulegar.

Morgunblaðið segir fréttir að norðan í pistli 17.nóvember:

Frá fréttaritara vorum á Akureyri. Töluverðar skemmdir urðu á húsum og öðrum mannvirkjum hér um slóðir í ofviðri, sem geisaði hér á dögunum [líklega er átt við veðrið þann 14.]. Háspennulínan frá Laxárvirkjuninni bilaði svo að Akureyrarbær var rafmagnslaus frá miðnætti til kl.3 e.h. næsta dag. Ekki er getið um miklar skemmdir á húsum né heyjum í nálægum sveitum, en hér í bænum röskuðust þök á húsum. Eitt hús, sem er í smíðum skemmdist mikið. Þak af fjárhúsi og hlöðu ásamt nokkru af heyi, fauk. Girðingar brotnuðu og sumstaðar. 

Alþýðublaðið segir frá skaða í Jósefsdal í pistli 17.nóvember:

Skíðaskáli Ármanns i Jósefsdal hrynur i ofviðri. Næstum því frá því að skíðaskáli Ármanns í Jósefsdal brann í fyrra hafa sjálfboðaliðar úr Ármanni unnið að því að undirbúa nýja skálabyggingu og síðar að byggingunni. En auk þeirra hafa fastráðnir menn að sjálfsögðu í sumar unnið að skálabyggingunni. Nú var hinn nýi skáli kominn undir þak fyrir nokkru og var unnið af mjög miklu kappi að því að ljúka við bygginguna, sem allra fyrst, og svo fljótt, að hægt væri að taka hann til afnota einhvertíma í vetur. Og núna fyrir nokkru eitt [14.] kvöldið fóru þrír sjálfboðaliðar upp í Jósefsdal til að hjálpa til. Veður var vont, er þeir fóru af stað, en versnaði stöðugt meðan þeir voru á leiðinni. Og þegar þeir vorn komnir svo langt, að þeir sáu til skálans kom brak, timbur og fleira á móti þeim, Veðrið hafði svipt þakinu af skálanum og brotið niður suðurgaflinn og fleira af honum og það var þetta sem sjálfboðaliðarnir þrír fengu í fangið. Sjálfboðaliðarnir tóku það ráð að kasta sér flötum niður til að forðast slys, en brakið skændi niður allt í kring um þá. Var það hreinasta mildi að þeir skyldu ekki stórslasast. Nokkrir menn voru í fastavinnu við skálabygginguna og urðu þeir að forða sér undan veðrinu í jarðhús, sem er þarna í hæðunum og hafast þar við um kvöldið og þar til veðrinu slotaði. Hafði jarðhús þetta verið áður notað fyrir kolageymslu. Einn sjálfboðaliðanna varð eftir hjá þeim ,en tveir sneru aftur til bæjarins og var þar safnað liði. Fóru um 30 piltar úr Ármanni uppeftir strax og var unnið eins og hægt var að að bjarga því sem bjargað yrði. Lágu sperrur, timbur og annað efni úr skálanum víðsvegar á stóru svæði. Af 30 sperrum í skálanum voru að eins 6 heilar. Þetta var stór og veglegur skáli. Aðalbyggingin var 8 sinnum 12 m,72 (fer-)metrar, en auk þess var viðbygging 4 sinnum 7 metrar að stærð. Útveggir skálans voru byggðir út vikri. Þetta hefir orðið eins og reiðarslag fyrir alla þá mörgu Ármenninga, sem hafa unnið af lífi og sál að því að koma þessu skíðahúsi sínu upp þarna uppi í fjöllunum, og má segja, að ekki sé ein báran stök fyrir þá.

Dagur bætir aðeins við fréttirnar að norðan í pistli 19.nóvember:

Ofsarok af vestri gekk hér yfir s.l. laugardagskvöld [14.]. Var veðrið svo mikið um tíma, að tæpast var stætt, en slotaði fljótlega. Hér í bænum urðu skemmdir á rafmagnslínum og háspennulínunni á Vaðlaheiði. Var bærinn rafmagnslaus frá því á laugardagskvöld, þar til um nón á sunnudag. Nokkrar skemmdir urðu hér á girðingum kringum hús manna, loftnetum o.þ.h. og á einstaka húsi losnuðu bárujárnsplötur af þökum og gluggar brotnuðu. Þá mun hafa fokið nokkuð a£ heyjum af túnum í nágrenni bæjarins. Af fregnum, sem blaðið hefir frá ýmsum stöðum hér í nágrenninu, má ráða, að veðrið hafi verið mun meira hér en þar, t.d. Hrísey, Dalvík og Ólafsfirði. Þar var allhvasst, en ekki til rauna. Má því vona, að bændur hér í sýslunni hafi ekki misst hey, svo að miklu nemi, í ofsaveðri þessu. Ekkert tjón mun hafa orðið á bátum og bryggjumannvirkjum í verstöðvum hér út með firðinum.

Íslendingur segir frá sama veðri 20.nóvember:

Nýlega [14.] gerði hér um slóðir ofviðri svo mikið, að ekki hefir annað slíkt þekkst árum saman. Stóð það stutta stund, en olli þó miklu tjóni. Rafmagnslaust varð á Oddeyri kl. 9 að kvöldi en um allan bæinn á miðnætti, Tókst ekki að gera við bilunina fyrri en daginn eftir. Veðrið braut niður hús, er Þorsteinn Sigvaldason Hafnarstræti 35 á í smíðum fyrir ofan bæinn, Þá tók þak þak af nýbyggðri hlöðu og stórskemmdi nýbyggt fjárhús, er Gunnar Hafdal á. Eru hús þessi hlaðin úr steyptum steini, Hafa báðir þessir menn orðið fyrir mjög tilfinnanlegu tjóni. Nýsteyptur veggur í húsi Jónasar Kristjánssonar samlagsstjóra brotnaði, skúrar fuku á Sunnuhvoli og þakplötur af nokkrum íbúðarhúsum og heyhlóðum. Í húsi einu, þar sem kona var að ala barn um nóttina, fauk þakplata í gluggann á herbergi hennar og mölbraut hann. Varð að flytja konuna í annað herbergi. Þá brotnuðu reykháfar á húsum,  girðingar kringum hús brotnuðu og skemmdust, hey fuku hjá mörgum, loftnet slitnuðu og tré brotnuðu í görðum, Úr nálægum héruðum hafa ekki borist fregnir um tjón af ofviðrinu, og mun það hafa orðið einna mest hér á Akureyri. Þó mun það hafa gengið yfir mikinn hluta landsins, m.a. Suðvesturland. Hefir blaðið sannfrétt, að skíðaskáli hafi fokið í nágrenni Reykjavíkur. 

Desember var umhleypingasamur, en furðutíðindalítill. Nánast engar fréttir af veðri. Veðursathugunarmenn segja frá:

Lambavatn: Það hefir verið vindasamt en snjó- og kuldalaust fram til nú síðustu viku mánaðarins. Nú er storka yfir allt og slæmt á jörð þó snjór sé ekki djúpur.

Suðureyri: Fremur hlýtt og snjólétt fram að jólum, en gerði jarðbönn um áramótin. Úrkoma með minna móti. Engin ofviðri.

Núpsdalstunga: Tíðarfarið hefir verið gott, engar hríðar, raunar gerði þó nokkurn snjó snemma í mánuðinum sem helst að mestu allan mánuðinn. Beit var þó að jafnaði góð.

Blönduós (Þuríður Sæmundsen): Hér í grennd við Blönduós hefir verið góður hagi allan mánuðinn, en eftir þann 22. var jarðlaust upp í dölum og slæm jörð á upp-Ásum. Mikill snjór í Langadal en hér var þá slyddurigning.

Sandur: Tíðarfar milt og hagstætt fyrir landbúnað, en nokkuð óstöðugt og úrfellamikið. Hagar góðir um gervallar sveitir.

Nefbjarnarstaðir: Köld tíð fyrri hluta mánaðarins. Síðan mild og góð tíð allt þar til 28. Þá gekk aftur til kulda.

Sámsstaðir: Mánuðurinn má teljast fremur hagstæður fénaðarhöldum og útiverkum.

Tíminn segir af tíð á Þórshöfn 8.desember:

Frá Þórshöfn. Hér hefir tíðarfar verið mjög óhagstætt síðasta misseri. Vorið var kalt. Yfirleitt voru fjárhöld þó góð hjá bændum. Spretta á túnum var í betra lagi, en þurrkalítið. Þó hröktust töður ekki víða til skaða. Útengi var mjög lélegt og því var heyfengur yfirleitt í rýrasta lagi. Garðávextir spruttu mjög lítið og uppskera þeirra miklu minni en síðastliðið ár, þótt garðar stækkuðu mikið.

Alþýðublaðið segir furðufregnir af veðurspám 11.desember. Taka má fram að í raun og veru var verið að gera tilraunir með langtímaveðurspár í stríðinu. Þær gengu ekki vel, en voru samt nauðsynlegar:

Í eftirfarandi grein, sem er eftir W. Childs og þýdd úr tímaritinu Readers Digest, er skýrt frá því, hvernig Hitler notar veðurspár í sambandi við áætlanir sínar. Nú orðið eru bandamenn farnir að nota samskonar aðferðir við áætlanir sínar. Ég þarf skýjað loft, dimmviðri og slæmt skyggni, sem stendur vissan tíma, og ennfremur ísingu á flugvélar óvinanna. Ennfremur verður þetta veðurlag að færast í sömu átt og skipin, meðan þau eru að fara gegnum sundið. Látið mig vita, þegar þetta veður er fyrir hendi. Gera má ráð fyrir, með nokkurn veginn fullri vissu, að samkvæmt þessari skipun, hafi veðurfræðingarnir hagað sér, haft vakandi auga á því um það veður, sem hann vildi fá. Hann sagði: lengri tíma, hvenær þetta veður gæfist. Forstjóri veðurstofunnar og aðstoðarmenn hans hafa rannsakað veðurskýrslur fimm ár aftur í tímann, að minnsta kosti. Þeir komust að raun um, að slíkt veður sem þetta, gafst einungis við vissa lægð, sem sennilegast var að yrði yfir þessu svæði í febrúarmánuði, og að á hverju ári um miðjan þennan mánuð fór hinn umbeðni stormur yfir Ermarsund. Það mátti því vænta þess, að svo yrði enn. En hér kom líka annað til greina. Með því að nota síðustu veðurfregnir komust þýsku veðurfræðingarnir að raun um þ. 9. febrúar, að hálfum þriðja degi seinna myndi stormur, — sem var á leið yfir Atlantshaf, verða kominn að Ermarsundi. Aðfaranótt hins 11. febrúar létu skipin úr höfn í Brest. Daginn eftir fóru þau gegnum sundið. Fréttaskeyti herma, að þennan dag hafi loft verið svo þungbúið og ísing svo mikil, að bresku tundurskeytaflugvélarnar og sprengjuflugvélarnar komust ekki að takmarkinu. Veðurstofur Bandamanna þekkja nú þær aðferðir, sem notaðar eru til þess að spá veðri langt fram í tímann. En þar til fyrir fáum árum síðan, voru veðurspádómar aðeins samdir eftir síðustu veðurfréttum, og þá var ekki hægt að spá lengra en 24 og í hæsta lagi 36 klst fram í tímann. Nú orðið er hægt að spá langt fram í tímann, — með aðferð, sem byggð er á hreyfingum loftstraumanna milli póla og miðbaugs, og með tilliti til efri loftlaga, sem hreyfast nokkurn veginn reglulega frá ári til árs. Hægt er að reikna út afbrigði frá þessu með mikilli nákvæmni. Þessi tækni er komin á svo hátt stig, að hernaðarsérfræðingar geta notað hana bæði sem sóknar og varnarvopn. Frá upphafi þessarar styrjaldar hafa þýskir hernaðarsérfræðingar notað þessa tækni. Heimurinn undraðist „heppni“ þeirra í Póllandi, þegar heiðskírt var-og þurrviðri þá daga, sem búist var við regni og ófærum vegum. En veðurfræðingar nasista höfðu reiknað út, að hægt yrði að framkvæma árásina í september 1399, án þess nokkurt regn yrði til farartálma eða trafala. Árás Þjóðverja á Noreg var framkvæmd í dimmviðri snemma aprílmánaðar. Árás Þjóðverja á Grikkland og Krít var hagað þannig, að heiðskírt væri lendingardagana. Í árásum sínum á Breta í Libyu hefir Rommel hershöfðingi valið þá daga, þegar sandfok var, til þess að hylja aðgerðir sínar og fela sig í, meðan hann var að koma sér fyrir. En hvað á þá að segja um sóknina til Rússlands, sem hófst þann 22.júní 1941, og á eftir fylgdi sá harðasti vetur, sem þar hefir komið í hundrað ár? Hitler vildi koma sökinni á þessari kórvillu yfir á veðurfræðingana. En veðurfræðingarnir segja, að  hernaðarsérfræðingarnir hafi gert sig seka um villuna. Þeir hafi vanmetið viðnámsþrótt Rússa og ekki hafi verið hægt að brjóta þá gersamlega. á bak aftur á hinum heiðskíru dögum, sem stóðu fram á haust og veðurfræðingarnir höfðu spáð að stæðu fram á haust. Álitið er, að Japanir noti veðurfregnir langt fram í tímann, og að þær geti bakað þeim vandræði, sem eiga að verja Kyrrahafsströndina á komandi vetri. Vera má, að þeir geti notað hagstæð veðurskilyrði til óvæntra árása. Hins vegar gætu Bandamenn líka notað slík veðurskilyrði sér til hernaðarlegs framdráttar með því að koma sér upp bækistöðvum í þeim hluta Síberíu, sem teygir sig út að Japanshafi. Á slíkum viðfangsefnum eru veðurfræðingar Bandamanna nú að spreyta sig. 

Morgunblaðið segir af skýringu á vatnsþurriðinni í Ölfusá 31.desember. Guðmundur Kjartansson ritaði síðan nokkuð ítarlega og skýra grein um fyrirbrigðið í Náttúrufræðinginn. Áhugamenn um náttúrufar ættu endilega að lesa hana:

Skýring er nú fengin á hinu dularfulla fyrirbrigði í Ölfusá hinn 11. nóv. s.l., er áin þvarr skyndilega mjög mikið, og er um leið fengin skýring á samskonar fyrirbrigðum fyrr á tímum í þessari sömu á. Skýringin er ofur einföld og er ekkert dularfullt við hana. Orsök  vatnsþurrðarinnar var sú, að mikið krap hálfstíflaði Hvítá á löngu svæði fyrir ofan Árhraun. Það var Guðmundur Kjartansson magister, sem uppgötvaði þenna leyndardóm. Þegar Guðmundur Kjartansson heyrði getið í útvarpinu (12. nóv.) vatnsþurrðar þeirrar, er varð í Ölfusá 11. s.m., ákvað hann strax að bregða sér austur til þess að athuga verksummerki á staðnum, ef ske kynni að með því fengist skýring á þessu fyrirbrigði. Guðmundur fór austur 13. nóvember, eða tveim dögum eftir að vatnsþurrðin varð í Ölfusá. Var nú vatnsrennsli aftur orðið eðlilegt, enda stóð vatnsþurrðin ekki nema part úr degi, eða svo. En þótt Guðmundur kæmi ekki á vettvang fyrr en tveim dögum eftir að vatnsþurrðarinnar varð vart, komst hann fljótt á snoðir um, hver orsökin var. Hún var sem sé sú, að mikið krap hafði hálfstíflað Hvítá á mjög löngu svæði, fyrir ofan Árhraun. Var mikil hrönn beggja megin á bökkum árinnar og sýndi hún, að vatnsborðið hafði hækkað stórlega á þessu svæði, vegna krapstíflunnar. Guðmundur Kjartansson er ekki í vafa um að hér sé fengin skýringin á þessu fyrirbrigði sem alls konar þjóðtrú hefir verið tengd við. Orsök vatnsþurrðar í Ölfusá hefi alltaf verið hin sama, sem sé stíflun í Hvítá, vegna kraps. Hefir þessa fyrirbrigðis og jafnan orðið vart undir sömu kringumstæðum, þ.e. í snjógangi eða frostum á vetrum.

Á árinu 1943 birti Guðmundur Kjartansson langa grein um þurrðina í Náttúrufræðingnum (13. árgangur, s.4-23: „Þurrðin í Hvítá 11. nóv. 1942“. 

Lýkur hér samantekt hungurdiska um veður og veðurfar á árinu 1942. Í viðhenginu er mikil talnasúpa, hitameðaltöl, hámarks- og lágmarkshiti, mánaðarúrkoma og aftök alls konar í tölum.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 19
  • Sl. sólarhring: 360
  • Sl. viku: 1577
  • Frá upphafi: 2352714

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 1419
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband