Hugsað til ársins 1946

Tíðarfar á árinu 1946 var lengst af hagstætt og hlýtt. Úrkoma var í rúmu meðallagi. Þó allmikið tjón yrði í fáeinum veðuratburðum, voru slíkir atburðir færri þetta ár heldur en gengur og gerist - nærri helmingi færri á skrá ritstjóra hungurdiska heldur en árin á undan og eftir. Nokkuð var um skriðuföll, tvisvar urðu þau sérlega skæð, í ágúst á Austurlandi og í september fyrir norðan. Um báða þessa atburði hefur verið fjallað á hungurdiskum áður og verður ekki endurtekið hér (opnið tenglana í textanum hér að neðan). Í febrúar urðu mikil sjóslys í óvæntu illviðri, um það verður nokkuð fjallað hér að neðan.

Janúar var mjög hlýr, votviðrasamt var á Suður- og Vesturlandi og tíð hagstæð um land allt. Febrúar var illviðrasamari, en yfirleitt var snjólétt. Nokkuð kalt síðari hlutann. Mars og apríl voru umhleypingasamir og snjóléttir. Í maí var tíð hagstæð, en þurrkar stóðu gróðri sums staðar fyrir gróðri. Gróðri fór einnig hægt fram í júní, í fremur köldu veðri. Júlí var hagstæður og heyskapur gekk vel. Sama má segja um ágúst. Framan af september var tíð áfram hagstæð, en síðri hlutinn var erfiðari á Norður- og Austurlandi. Mjög hlýtt var í október, suðlægar áttir ríkjandi með mikilli úrkoma á Suður- og Vesturlandi, en þurrviðri norðaustanlands. Nóvember þótti hagstæður framan af, en síðan kaldrananlegur, einkum norðaustanlands. Desember var aftur á móti hlýr og snjóléttur, en úrkomusamur.

Eins og venjulega notum við okkur blaðafregnir (timarit.is), gagnagrunn Veðurstofunnar og tímarit hennar Veðráttuna. Sömuleiðis grípum við niður í veðurlýsingar athugunarmanna. Textar eru alloft nokkuð styttir (vonandi sætta rétthafar sig við slíkt). Stefsetning er oftast færð til nútímahorfs og augljósar prentvillur lagfærðar (og nýjum e.t.v. bætt við). 

Veðurathugunarmenn fóru fögrum orðum um janúar: 

Lambavatn (Ólafur Sveinsson): Það hefir verið eins og oftast í vetur, vinda- og úrkomusamt en kuldalaust þar til nú síðustu dagana hefur verið kulda næðingur og dálítið frost. Annars hefir jörð verið klakalaus og hvergi svell á polli og nær snjólaust í fjöllum nema einstaka stað smáskaflar. Þ.19. Mikið brim, stórflæði um morguninn.

Sandur (Friðjón Guðmundsson): Tíðarfar einmuna gott allan mánuðinn, hlýtt og hlákusamt. Auð jörð að kalla um allar sveitir.

Fagridalur (Oddný S. Wiium): Ágætt tíðarfar svo fátítt er. Lítið frost í jörðu og lítil úrkoma yfirleitt.

Þann 13. urðu mikil skriðuföll í Hvalfirði og vegurinn tepptist í nokkra daga. Mjög mikil úrkoma var um landið sunnan- og vestanvert þessa daga. Sólarhringsúrkoma mældist 68 mm í Stykkishólmi þann 14.janúar, og hefur aðeins tvisvar mælst ámóta (1. nóvember 1946 og 17. september 2007). Þann 26. gerði skammvinnt norðanskot, tvær heyhlöður fuku þá á Snæfellsnesi. 

Friðjón á Sandi lýsir hagstæðu veðri febrúarmánaðar - sammála flestum öðrum athugunarmönnum:

Tíðafar milt og gott lítill snjór á jörðu og vatnsföll hálfauð fram yfir miðjan mánuð. 

Laugardaginn 9. febrúar gerði snarpt og óvænt illviðri um landið vestanvert, ekki af verstu gerð, en olli þó miklum mannskaða á sjó. Morgunblaðið segir frá þann 12. febrúar:

Þeir sorglegu atburðir gerðust í óveðrinu mikla, sem skall á allt í einu, aðfaranótt laugardagsins s.l. [9.febrúar] að 20 sjómenn drukknuðu. Fjórir bátar fórust í óveðrinu og með þeim 18 manns, en tvo menn tók út af vélbáti,sem gerður er út frá Sandgerði. Þrír bátanna fórust hér í Faxaflóa, en einn fyrir Vestfjörðum. — Eins og skýrt var frá í sunnudagsblaðinu, komust margir bátar við illan leik til lands úr veðrinu á laugardag, sumir brotnir og veiðarfæratjón var mikið hjá fiskiflotanum.

Veðurstofan var gagnrýnd mjög fyrir slaka frammistöðu. Svo segir í leiðara Morgunblaðsins 15.febrúar:

Hér verður vitanlega ekki dregið í efa, að veðurspáin hafi verið rétt, miðað við þau gögn, sem Veðurstofan hafði í höndum, er spáin var send út. En hitt dylst engum, að Veðurstofan hefir haft mjög ófullnægjandi gögn við að styðjast, þegar hún sendi þessa veðurspá. Veðurstofan hlýtur að hafa komist að þeirri raun síðar, að gögnin voru of ófullnægjandi, til þess að senda út svona ákveðna veðurspá. En þar sem enginn fyrirvari var um veðurspána, treystu sjómenn henni og fóru því allir til róðurs um nóttina. Fullyrt er, að veðurfræðingar ameríska hersins, sem hér eru, hafi sent út til sinna manna allt aðra veðurspá, en Veðurstofan. Þeir hafi sagt fyrir um stórviðrið, sem var í nánd. Þetta hafi m.a. verið orsök þess, að einhverjir bátar hér suður með sjó hafi snúið aftur og hætt við róður, er þeir fengu vitneskju um veðurspá hersins. Morgunblaðið veit ekki um sönnur á þessu. En sé hér rétt hermt, er þetta svo alvarlegt mál fyrir Veðurstofuna, að ekki verður við unað. Verður að krefjast þess, að þetta verði tafarlaust rannsakað. Það verður að upplýsa, hvaða gögn Veðurstofan studdist við, er hún sendi út veðurspána aðfaranótt laugardags. Einnig verður að upplýsa, hvort veðurspá Veðurstofunnar hafi verið í ósamræmi við veðurspá hersins, og ef svo er, hver orsökin er. Þessi rannsókn verður að fara fram strax og öll gögn lögð á borðið.

Veðurfræðingar á vakt þurftu að svara fyrir sig - og gerðu í bréfi sem birtist í blöðunum, þann 16. febrúar í Þjóðviljanum og þann 20. í Morgunblaðinu. Það er athyglisverður lestur þar sem vel kemur fram hversu erfitt var að stunda veðurspár á þessum tíma, án öruggra athugana og tölvuspáa:

Út af veðurspám Veðurstofunnar dagana 8. og 9. febrúar og mannskaðaveðrinu þann 9. febrúar hafa veðurfræðingarnir Jón Eyþórsson, Björn L. Jónsson og Jónas Jakobsson, sem önnuðust spárnar þessa daga, samið eftirfarandi greinargerð, samkvœmt tilmælum atvinnumálaráðuneytisins:

Við undirritaðir höfum borið saman veðurspár og veðurkort dagana 7.— 9. þ.m., og sérstaklega reynt að meta aðstæður til að segja fyrir mannskaðaveðrið, er skall á hér vestan lands undir hádegið á laugardaginn 9. febrúar. Fimmtudaginn 8.[svo] febrúar voru slæm móttökuskilyrði og fregnir af mjög skornum skammti. Vantaði þá allar fregnir frá Grænlandi allan daginn og sömuleiðis að heita mátti öll skip, sem verulega þýðingu gátu haft, á norðanverðu Atlantshafi. Var því erfitt að fylgjast með veðurbreytingum vestur undan, og samhengi rofnaði við kortin frá dögunum á undan.

Kl.5 á föstudagsmorgun [8.] vantar enn öll skeyti frá Norður-Ameríku, Grænlandsskeyti nema frá 2 stöðum kl.2 um nóttina — og öll skip frá Atlantshafinu, sem þýðingu gátu haft — nema eitt á 51°5 N og 51°V [austur af Nýfundnalandi]. Kl.11 á föstudag vantar allar Grænlandsstöðvar, N-Ameríku og öll skip norðan við 52°N. Allan þennan tíma var vindur norðaustanstæður og veðurlag þannig, að unnt var að gera allöruggar veðurspár eftir veðurfregnum frá Bretlandseyjum, Færeyjum og skipum um eða sunnan við 50°N, Þess var oft getið í veðurlýsingu, að erlendar veðurfregnir vantaði alveg eða að miklu leyti, vegna slæmra hlustunarskilyrða.

Kl.17 á föstudag telur veðurfræðingur (Jónas Jakobsson), sem annaðist veðurspána, að hann hafi fengið skeyti frá 4 stöðum á V-Grænlandi á síðustu stundu, áður en spáin skyldi afgreidd. Virðast þær,ekki benda á snöggar veðurbreytingar. Hins vegar vantaði þá fregnir frá veðurathugunarskipinu „Baker" (62°N og 33°V) [það sem síðar var kallað Alfa] sem síðan hefur verið sett inn á kortið frá þessum tíma. Hann spáði því: SV og S golu og sums staðar smáéljum fyrir svæðið frá Suðvesturlandi til Vestfjarða, eða nákvæmlega sömu spá og Björn Jónsson hafði sent út kl.15:30. Kveðst Jónas hafa ráðfært sig um þetta við Björn Jónsson, áður en hann fór af Veðurstofunni þá um kvöldið. Kl.23. um kvöldið koma skeyti frá fjórum stöðvum á Suður-Grœnlandi. Er þar hægviðri. Enn fremur er þá komið skeyti frá skipinu „Baker“ kl.17, og er vindur þar suðvestan 6 vindstig og hægt fallandi loftvog. Hér á landi er hægviðri. Bendir þetta á grunna lægð yfir Grænlandshafi norðanverðu. Gerir hann þá ráð fyrir að vindur muni fara hægt vaxandi af suðvestri og spáir fyrir vesturströndina kl.1 eftir miðnætti: S og SV gola fyrst, síðan kaldi. Dálítil rigning eða slydda á morgun.

Um þessar mundir segir breska veðurstofan í London í veðurlýsingu sinni frá lægð vestur af Íslandi og bætir við: „This system uncertain due lack of observation."

Laugardagsmorgun kl.5 vantar gersamlega fregnir frá Grænlandi og Ameríku. Hins vegar eru þá fyrir hendi tvær fregnir frá veðurathuganaskipinu „Baker". Önnur, kl. 23 kvöldið áður, segir VSV átt, 7 vindstig og hægt fallandi loftvog, og hin kl.02, segir einnig VSV, 5 vindstig og loftvog stígandi. Hér vestanlands var S og SV kaldi og rigning. Til viðbótar við þetta komu svo innlendar veðurfregnir kl. 8. Er þá SV-átt, 4—6 vindstig vestan lands og loftvog fallandi en alls ekki óvenjulega ört. Á þessum grundvelli telur veðurfræðingur (Jón Eyþórsson), er þá annast veðurspána ekki fært að gefa út venjulega ákveðna veðurspá að svo stöddu, og tekur fram í veðurlýsingu, að „engar fréttir (séu) frá Grænlandi eða Atlantshafi og segir í veðurspánni fyrir allt Vesturland: „Vaxandi SV-átt. Rigning“. Þess má aðeins  geta, að skeytin frá skipinu „Baker“ kl. 23 og kl.02 virtust mæla gegn því, að um skaðaveður væri að ræða. Að öðru leyti var rennt blint í sjóinn með, hvar lægðarmiðjan væri í raun og veru eða hve djúp hún væri. Kl.11 er vestan veðrið skollið á með 9 vindstigum á Horni og Kvígindisdal, en 6—7 vindstig annars staðar. Fregnir berast þá ekki frá S-Grænlandi fyrr en að veðurspá hafði verið gerð kl.12 og frá NA-Grænlandi, sem skiptir höfuðmáli í svona veðurlagi, koma alls engar fregnir. Skeyti koma síðar frá tveimur skipum á sunnanverðu Grænlandshafi, og er veðurhæð þar ekki nema 6—8 vindstig.

Veðurspá kl. 12 er á þessa leið fyrir Vestur- og Norðurland: Hvass, V og síðan NV. Skúra- og éljaveður. Kl. 15:30 er þessi veðurspá endurtekin, því nær alveg óbreytt (Björn Jónsson). Kl.17 laugardag vantar enn allar fregnir frá Grænlandi. Vindur er þá V eða NV-stæður um allt land, veðurhœð mest 10 vindstig í Vestmannaeyjum og Kvígindisdal og 9 vindstig í Grímsey, Horni og Reykjanesi. Lægðin er nú sjáanleg á milli Íslands og Jan Mayen á hraðri ferð austur eftir. Á þessum fregnum er byggð veðurspá kl. 20 (Jónas Jakobsson), því nær alveg samhljóða hádegis og miðdegisspánum, en bætt við, að veður muni skána næsta dag — og reyndist það rétt.

Það er áberandi, þegar litið er yfir veðurkort þessara daga — og raunar flesta daga vikunnar, sem leið, hve oft vantar allar fregnir frá stórum svæðum, og stafaði þetta fyrst og fremst af alveg óvenjulega slæmum heyrnarskilyrðum. Hefur því hvað eftir annað verið tekinn fyrirvari í veðurlýsingum um þetta, enda er það eini möguleikinn til að gefa til kynna — eins og sakir standa — að veðursjáin sé ekki byggð á traustum grundvelli. Reykjavík 15. febrúar 1946 Jón Eyþórsson, Björn L. Jónsson, Jónas Jakobsson.

Með hjálp endurgreininga má nú í stórum dráttum sjá hvað gerðist. Hafa ber þó í huga að þessar greiningar ná ekki styrk lægðakerfisins að fullu. Munar 5 til 10 hPa á dýpt lægðarinnar - og þar með vindhraða. 

Slide1

Kortið sýnir hæð 1000-hPa-flatarins kl.18 síðdegis föstudaginn 8. febrúar. Af bréfi veðurfræðinganna er ljóst að vestari hluti kortsins var nánast auður hjá þeim. Atburðir yfir Grænlandi og suðvestan við það voru óþekktir. Nú er ritstjóri hungurdiska nokkuð vanur að ráða í veðurkort og satt best að segja er ekki margt á þessu korti sem bendir til þess að mikið illviðri skelli á Vesturlandi aðeins 12-15 tímum síðar. Ekki er að sjá stórar þrýstibreytingar samfara grunnri lægð ((1002 hPa) við Grænlandsströnd. Til þess að sjá að eitthvað sé að gerast þarf að líta á stöðuna í háloftunum.

Slide2

Ekki er hún heldur mjög eindregin, en samt er ljóst að lægðardragið við Vestur-Grænland er hættulegt. Því fylgir mikill vindstrengur sem er á austurleið, í stefnu á Ísland. Í hinu ágæta riti „Saga Veðurstofu Íslands“ (s.119-120) er greint frá þeirri rannsókn sem fram fór á spá Veðurstofunnar og spám herveðurstofunnar á Keflavíkurflugvelli. Spárnar reyndust svipaðar, þótt almannarómur segði annað. Aftur á móti var í rannsóknarskýrslunni bent á að veðurfræðingar hersins hefðu haft heldur betri upplýsingar, móttökutæki þeirra væru betri en tæki Veðurstofunnar auk þess höfðu þeir aðgang að háloftaathugunum sem rétt var byrjað að gera á flugvellinum. Alþjóðasamvinna um dreifingu flugveðurskeyta var þar að auki ekki komin á fullt skrið eftir styrjöldina - en aðeins voru fáir mánuðir frá lokum hennar. 

Slide4

Klukkan 6 að morgni laugardags 9.febrúar, rétt áður en veðrið skall á var háloftalægðardragið skæða komið á Grænlandshaf - og við sjáum greinilega hvað var á seyði. Endurgreiningin nær trúlega ekki snerpu veðursins til fulls. 

Slide3

Kl.9 er veðrið skollið á. Lægðin var í raun og veru dýpri en hér er sýnt, þrýstingur á Vestfjörðum var um 980 hPa, en ekki 988 eins og kortið sýnir. Nánari greiningu þarf til að segja til um það hvort kalt loft hefur sloppið yfir Grænlandsjökul og borist til Íslands, en slík veður eru smáum skipum alveg sérlega varasöm vegna þess hve snögglega þau skella á. 

w-1946-02-p-sponn-a

Línuritið sýnir þrýstispönn (mismun á hæsta og lægsta þrýstingi á hverjum tíma) og lægsta þrýstingi fyrri hluta febrúar 1946. Enn hafa ekki allar þrýstiathuganir þessara ára verið skráðar í gagnagrunn og líklegt að þrýstispönnin sé heldur vanmetin á myndinni. Hún rýkur upp síðla nætur og nær hámarki um kl.9 að morgni þess 9. Loftvog hríðféll um svipað leyti - en enginn veðurfræðingur á vakt yfir blánóttina - vegna mannfæðar. 

Líklegt er að tölvuspár nútímans hefðu náð þessu veðri vel. Hugsanlega líka þær ófullkomnu spár sem veðurfræðingar bjuggu við á fyrstu árum ritstjóra hungurdiska á Veðurstofunni í kringum 1980, (en það er samt vafamál) en árið 1946 hefði þurft nánast kraftaverk til að sjá þetta veður fyrir. 

Þann 6. febrúar féll snjóflóð á Norðureyri við Súgandafjörð. Það olli flóðbylgju á Suðureyri sem braut bryggjur og skemmdi báta. Mikil snjókoma var víða um norðvestanvert landið dagana áður, ekki mjög hvasst þó. Snjódýpt á Hamraendum í Miðdölum mældist 49 cm þann 6., sem er óvenjulegt. Snjóflóðið væntanlega afleiðing veðurs í nokkra daga. Þann 19. febrúar urðu skemmdir á bátum og bryggju á Húsavík í snörpu norðvestanveðri. 

Tíminn segir þann 20. frá óvenjugóðri vetrarfærð, þar er líka fróðleikur um nýlegar vegaframkvæmdir: 

Í allan vetur, hafa verið óvenju greiðar samgöngur á vegum landsins vegna þess, hve snjólétt hefir verið. Bílfært hefir verið um alla helstu fjallvegina, að heita má í allan vetur. Fram til þessa tíma hefir verið tiltölulega auðvelt að halda vegunum opnum. Tíðindamaður blaðsins sneri sér í gær til Ásgeirs Ásgeirssonar skrifstofustjóra á Vegamálaskrifstofunni og fékk hjá honum upplýsingar um færðina á helstu bilvegum landsins. Milli Suður- og Norðurlands hefir, að heita má, alltaf verið fært bifreiðum í vetur um Holtavörðuheiði og Stóravatnsskarð, allt norður á Sauðárkrók. Hins vegar hefir Öxnadalsheiði verið ófær bifreiðum nú um nokkurt skeið, vegna snjóa. Um Vesturland hefir verið fært allt vestur í dali, um Bröttubrekku. Yfir Bröttubrekku hefir bæst við nýr fjallvegur, sem lokið er við að fullgera á síðastliðið haust, og var það fyrir þær aðgerðir, sem nú í fyrsta sinn, hefir tekist að halda leiðinni vestur yfir Bröttubrekku opinni yfir vetrartímann. Hinar bættu vetrarsamgöngur hafa orðið Dalabúum til mikils hagræðis, og hafa verið fastar bílferðir yfir fjallaveginn í allan vetur með mjólk og farþega. Einnig hefir verið bílfært til Stykkishólms um Kerlingarskarð. Yfir Fróðárheiði til Ólafsvikur var fært bifreiðum með lengsta móti, en sú leið hefir nú verið teppt um skeið vegna snjóa. Vegurinn austur yfir fjall um Hellisheiði og Þingvelli, hefir verið fær bifreiðum að heita má í allan vetur allt austur til Víkur í Mýrdal. Frá Akureyri hefir að mestu verið bílfært í allan vetur til Húsavíkur, þó fyrir allmiklar aðgerðir vegamálastjórnarinnar. Þess má einnig geta, að Fjarðarheiði var óvenjulega lengi fær bifreiðum í vetur. En hún lokast venjulega í fyrstu snjóum á haustin. Leiðin frá Reykjavík til Borgarfjarðar um Hvalfjörð hefir einnig að mestu leyti verið bílfær í allan vetur. Sú leið er nú öruggari en nokkru sinni fyrr, vegna hins nýja vegar um Hafnarskóg, sem að mestu leyti var lokið við síðastliðið haust.

Í Tímanum 28. febrúar er frétt um skíða- og skautaiðkun á Akureyri:

Í gær var nokkur snjókoma á Akureyri, en undanfarið hefir gott skíðafæri verið þar og skautafæri á Pollinum, sem nú hefir lagt í stillunum undanfarna daga, en annars er það sjaldgæft nú seinni árin, að pollinn leggi. Fjöldi fólks hefir verið á skíðum og skautum á Akureyri síðustu daga, og hafa skólarnir gefið skauta - og skíðaleyfi.

Marmánuður hlaut góða dóma, sérstaklega austanlands:

Lambavatn (Halldóra S. Ólafsdóttir): Framan af mánuðinum var hæg suðaustanátt og blíðviðri. Síðan skiptust á norðaustan- og sunnanátt, en seinni hluta mánaðarins var tíðin umhleypingasöm, skiptust á krapahryðjur og rigning. Frostlítið var yfir mánuðinn og úrkoma ekki mjög mikil nema seinustu dagana.

Hallormsstaður (Páll Guttormsson): Einhver mildasti marsmánuður sem að hefur komið hér. Lítið um vinda og litlar úrkomur. En oft logn eða þá landátt.

Apríl fékk kannski ekki alveg jafn góða dóma og mánuðirnir á undan:

Lambavatn (Ólafur Sveinsson): Það hefir verið umhleypingasamt og af og til snjóhreytingur og hafa skepnur verið heldur þungar á fóðrum.

Reykjahlíð (Pétur Jónsson): Óvenjulegt snjófall hér 23. náði aðeins yfir lítið svæði ca. 6 ferkílómetra (snjódýptin mældist 30 cm - en alautt var áður). [Sama dag snjóaði reyndar líka mikið á Grímsstöðum á Fjöllum - og víða snjóaði á landinu.]

Bátar á Vestfjörðum urðu fyrir veiðarfæratjóni í vestanillviðri þann 1. apríl. 

Maí var stilltur og blíður, nema rétt síðustu dagana, smávegis af ís var að þvælast fyrir Vestfjörðum og laskaðist lítið olíuflutningaskip í ís um 25 sjómílur austur af Horni þann 29. maí:

Lambavatn: Það hefir verið óslitin stilla og blíðviðri yfir mánuðinn. Gras þýtur upp eins og í gróðurhúsi því smáskúrir eru með hitanum. Nú, síðustu tvo daga mánaðarins, hefir verið norðaustanrok og kuldar.

Sandur: Tíðarfar einmunagott allan mánuðinn, hlýtt og óvenjulega sólríkt. Þurrkar voru miklir og stöðugir, en þó greri ágætlega vegna hlýindanna. Var gróður mun meiri í mánaðarlok en verið hefur um mörg ár.

Reykjahlíð: Elstu menn muna ekki betri maímánuð hér í sveit.

Fagridalur: Afbragðsgóð tíð allan mánuðinn. Stillur og mikill hiti frá miðjum mánuði til 28. Þá kólnaði og gekk til norðaustanáttar. Tún voru þá töluvert farin að spretta og úthagi mikið farinn að grænka.

Morgunblaðið segir af ís 26.maí:

Eimskipafélagi Íslands barst í morgun svohljóðandi skeyti frá skipstjóranum á Fjallfossi: „Samfelld ísbreiða sjáanleg til austurs frá Horni, samhliða siglingaleið, 10 - 15 sjómílur. Einnig sjáanleg austureftir eins langt og sést. Skyggni ágætt. Staður skipsins 24 sjómílur suðaustur af Horni“.

Talsvert hret gerði snemma í júní, en svo batnaði tíðin. 

Flateyri (Hólmgeir Jensson): Um útlíðandi fardagana (8.) snjóaði hér í byggð af norðaustanátt [alhvítt var í byggð þann dag].

Slide5

Kortið sýnir veðurlag að morgni 6. júní. Hríðarhraglandi er um landið norðanvert og urðu sums staðar fjárskaðar. Snjódýpt mældist 15 cm á Nautabúi í Skagafirði þann 9. júní og 14 cm á Horni þann 10., þar var alhvítt 5 morgna í mánuðinum, og 4 í Reykjahlíð og á Grímsstöðum.  

Við getum þess í framhjáhlaupi - þótt það komi veðri ekki við - að þann 3. júní varð stórbruni á Ísafirði. Þrjú stór hús brunnu og fimm manns fórust. Um 70 manns urðu húsnæðislausir. 

Júlí var hagstæður. Um miðjan mánuð komu nokkrir mjög hlýir dagar. Þá fór hiti í Hallormsstað í 30 stig. Það er hæsti hiti sem mælst hefur í júlímánuði. Lítillega er fjallað um þessa mælingu í gömlum hungurdiskapistli. Páll Guttormsson veðurathugunarmaður segir um mánuðinn:

Hallormsstaður: Hitinn fór hærra en hann hefur farið hér síðan að veðurathuganir byrjuðu (1937). Vöxtur var ekki í hlutfalli við hitann vegna ónógra rigninga en breyttist þó seint í mánuðinum. 

Þessarar hitabylgju varð vart viða um land, þó ekki væri hún langvinn. Hiti fór í 23. stig í Síðumúla í Borgarfirði og 22 stig á Hlaðhamri í Hrútafirði þann 16., hvort tveggja óvenjulegt, í 23 stig á Nautabúi, 24,7 í Reykjahlíð, 24,9 á Grímsstöðum og 25,5 stig á Kirkjubæjarklaustri, svo einhverjar tölur séu nefndar. Alvöruhitabylgja, þótt ákveðinn efi fylgi 30 stigunum á Hallormsstað. 

Ágúst fékk einnig góða dóma, en þó gerði stórrigningu austanlands sem olli þar miklum skriðuföllum. Í eldri pistli hungurdiska var fjallað um skriðuföllin eystra. Við endurtökum það ekki hér. 

Í Tímanum 20. ágúst er sagt af hingaðkomu Hans Ahlman en hann var um þær mundir frægur fyrir rannsóknir sínar á jöklum og veðurfari:

Hans Ahlman, prófessor í Stokkhólmi, er nýlega kominn hingað til lands. Hann er íslendingum nokkuð kunnur og einkum af rannsóknarferðinni á Vatnajökul 1936. Annars er Ahlman prófessor í fremstu röð vísindamanna, sem nú eru uppi í jarðfræði og skyldum greinum og hefir einkum lagt sig eftir rannsóknum í norðurvegum. Hann hefir farið rannsóknarferðir um Spitsbergen, Grænland, Ísland, Finnmörk og ýmsar nálægar eyjar. Prófessorinn gerði grein fyrir ferð sinni hingað með því að gefa yfirlit um rannsóknir síðustu ára, sem leiddu það í ljós, að skriðjöklar fara nú hvarvetna minnkandi í norðlægum löndum. Jafnframt er minni hafís í norðurhöfum en áður hefir verið. Nefndi hann það til dæmis m.a. að síðastliðið haust var auður sjór fram í nóvember við Spitsbergen, þar sem hafís lá allan ágústmánuð 1910, og að sjóleiðin norðan Asíulanda væri nú einatt farin á einu sumri milli meginhafanna og þess væri jafnvel dæmi að siglt væri frá Arkangelsk til Vladivostok án þess að lenda í hafís. Um raunverulegar ástæður fyrir þessum breytingum vita fræðimenn ekki. En þessar rannsóknir eru hið mesta áhugamál fræðimanna viða um lönd. T.d. telur landfræðingafélagið í London þær einna merkastar allra jarðfræðilegra rannsókna, sem nú er unnið að. Og Ahlman prófessor væntir þess að ferð sín hingað geti verið þáttur í undirbúningi þess að þær óskir rætist, að menn skilji hvað hér er að gerast.

Prófessor Ahlman víkur aftur að sérgrein sinni í vísindunum. Hér ætti að vera miðstöð, sem stjórnaði rannsóknum í veðurfræði, jarðeðlisfræði, jarðmyndunarfræði og skyldum greinum. Það eru hvergi í heimi jafngóð skilyrði til þess að stunda þær rannsóknir og hér á landi, og því væri óskandi, að ástæður íslensku þjóðarinnar leyfðu það, að hún yrði forystuþjóð á sviði þeirra rannsókna. Tækist henni það, hefði hún unnið sér virðulegan sess í samfélagi þjóðanna. Íslendingar munu yfirleitt fylgjast af vakandi áhuga með rannsóknum prófessors Ahlmans og samherja hans, því að hér er verið að leita skýringa á þeim náttúrulögmálum, sem allt atvinnulíf íslendinga er háð. Það er staðreynd, að loftslag er að verða mildara hér á landi, og sjávarhiti við strendurnar eykst þessa áratugi. Enginn veit, hvað lengi sú þróun heldur áfram, svo örlagarík sem sú spurning er þó fyrir afkomu íslendinga. — Meðan þessi þróun heldur áfram fara jarðyrkjuskilyrði batnandi og fiskigöngur breytast. Það stendur t.d. í beinu sambandi við þessar breytingar á loftslagi og sjávarhita, að helstu síldarmiðin færast norður og austur með landi, þorskgengd minnkar á Selvogsbanka, en vex á Grænlandsmiðum.

En hvað er framundan? Hvers er að vænta? Þannig spyrja allir. Prófessor Ahlman er í fremstu röð þeirra manna, sem leita svarsins. Því er honum og störfum hans veitt alþjóðar athygli, þegar hann kemur til Íslands.

Enn var september hagstæður, að undanskildum fádæma rigningum norðanlands upp úr þeim 20. Mikil skriðuföll urðu, einkum í Eyjafirði. Við höfum í eldri pistli hungurdiska fjallað alltíarlega um rigninguna og skriðuföllin og endurtökum það ekki hér. 

Reykjahlíð: Mánuðurinn yfirleitt góður nema nokkrir dagar frá 22. Þann dag stórfelldari vatnsveður hér en nokkur dæmi hafa þekkst áður í okkar athugun.

Tíminn segir frá heyskap í pistlum þann 7. og 14. september:

[7.] Viðtal við Jón H. Fjalldal, bónda á Melgraseyri. - Þetta hefir verið yndislegt sumar, sagði Jón, glaður í bragði — besta sumar, sem komið hefir síðan 1939. Þá var tíð ákaflega hagstæð hjá okkur við Djúpið og mun hlýrra en i sumar. Í sumar hefir hitinn aldrei farið yfir sextán stig — 1939 varð hitinn mestur 28 stig í skugganum.

[14.] Frásögn Steingríms Steinþórssonar búnaðarmálastjóra. Heyskapartíð hefir yfirleitt verið mjög góð í sumar — upp á það besta í raun og veru um allt land. Sérstaklega hefir þó tíðin verið góð á Suðurlandi og betri síðari hluta sumars en fyrri hluta þess. Aldrað fólk segir, að slíkt sumar hafi ekki komið síðan 1896, jarðskjálftasumarið. — Aftur á móti hefir tíðin verið heldur erfiðari norðaustan lands, en heyskap þar er nú samt að verða lokið. Nokkrir bændur eiga þó hey úti ennþá, en hvorki er það í stórum stíl né almennt.

Athugasemd ritstjóra hungurdiska. Sumarið 1896 var mikið óþurrkasumar á Suður- og Vesturlandi (öfugt við það sem haldið er fram í pistlinum hér að ofan). Um það er fjallað í pistli hungurdiska um árið 1896

Þann 15. september skemmdist brimbrjótur í Bolungarvík í norðaustanillviðri. Ítarlega lýsingu má finna í Tímanum 26. september.

Október var mjög úrkomusamur um landið sunnan- og vestanvert. En samt var tíð talin hagstæð. Þetta er með allrahlýjustu októbermánuðum ásamt 1915 og 2016. 

Slide6

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins, þykktina og þykktarvik í október 1946 (ágiskun era-20c endurgreiningarinnar). 

Lambavatn: Það hefur mátt heita óslitið rigning yfir mánuðinn. En óvenju hlýtt.

Sandur: Tíðarfar í mánuðinum sérlega hagstætt. Þurr, hæg og hlý sunnanátt ríkjandi. Frost eða úrkoma óvenjulítil miðað við árstíma. Jörð ófrosin allan mánuðinn.

Fagridalur: Einstaklega góð tíð, stillt og hlýtt svo menn muna ekki annað eins.

Sámsstaðir: Tún voru víða beitt fram undir mánaðamót og aldrei svona lengi enda jörð óvenjulega græn.

Þann 2. október fórst vélbátur frá Ísafirði í róðri og með honum þrír menn.

Síðari hluta nóvember snjóaði nokkuð norðaustanlands, en tíð annars talin hagstæð í þeim mánuði. 

Lambavatn: Það hefir verið stillt veður, en frost og bjartviðri oftast seinni hluta mánaðarins.

Grímsstaðir á Fjöllum (Sigurður Kristjánsson): Ágæt tíð fram eftir mánuðinum, en úr því slæm og kom allmikill snjór.

Tíminn 26.nóvember:

Um og fyrir seinustu helgi hefir mikið kuldakast gengið yfir landið og talsverð fannkoma verið, einkum austan lands og norðan.

Desember var heldur órólegur og hvassviðrasamur, en stórfelldra skaða er ekki getið. Norðanlands var almennt góð tíð og úrkoma ekki mikil. Þar var snjór hins vegar furðumikill eftir hríð í lok nóvember og um mánaðamótin. Talsverð úrhellisillviðri gerði sunnan- og vestanlands í mánuðinum. Vísir segir frá þann 5. desember:

Töluverð veðurhæð var í Reykjavík síðari hluta dags í gær og komst hún upp í 9 vindstig. Ekki er vitað um neitt tjón eða slysfarir, sem veður þetta hafi valdið, nema loftnet útvarpsstöðvarinnar bilaði og var því ekkert útvarp í gærkveldi. Vélbáturinn Fram frá Hafnarfirði var með bilaða vél út af Akranesi og var honum bjargað af v.b. Hermóði. Hvítá, sem nú fer milli Akraness og Reykjavíkur sneri við á siglingunni til Akraness i gær sökum óveðurs og komst skipið heilu og höldnu til Reykjavíkur. Veður þetta mun hafa verið stórfelldast i Reykjavík og grennd.

Tíminn segir frá sama veðri 6.desember:

Síðdegis í fyrradag [4.] gerði mikið hvassviðri með úrkomu suðvestanlands. Verst mun veðrið hafa verið í Reykjavík og í kringum Faxaflóa, og mátti heita, að óstætt væri um tíma. Um miðnætti í fyrrinótt tók veðrið að lægja. Kl.5 í gærmorgunn hafði rignt 20 mm. seinustu 12 klst. í Reykjavík. Skemmdir munu hafa orðið víða af völdum þessa veðurs á Suðvesturlandi. Einkum hafa skemmdir orðið á símalínum, sem slitnað hafa niður, og er nú símasambandslaust með öllu við Búðardal og vestur um fjörðu til Patreksfjarðar og Bíldudals, en línur þangað liggja um Búðardal. Þá hafa einnig orðið aðrar minniháttar skemmdir á öðrum símalínum. Vegna úrkomunnar rann víða mikið af ofaníburði úr vegum, og gerir það umferð erfiðari. Dæmi eru til þess að bílar hafi fokið út af veginum í veðrinu, þannig lágu tveir bílar foknir út af veginum milli Akraness og Reykjavíkur, en þá sem í þeim voru, mun ekki hafa sakað. — Loftnet útvarpsstöðvarinnar slitnaði niður í veðrinu og féll sending niður af þeim orsökum, um tíma i gær og fyrradag. Lægðin, sem olli óveðri þessu, er nú komin vestur fyrir land, útlit er fyrir áframhaldandi sunnanátt í dag, með skúra eða éljaveðri.

Afgang mánaðarins var umhleypingatíð og oft rigndi mikið um landið sunnanvert. Veðurathugunarmenn segja frá:

Lambavatn: Það hefir verið mjög óstöðugt. Krapahræringur og rigningar, snjóað töluvert á milli.

Sandur: Tíðarfar mjög gott, utan tvo fyrstu daga mánaðarins. Hlákur ekki stórvirkar og hvassviðri sjaldgæf. Óveðrið þ.2. desember náði sér ekki hér sem annars staðar vegna þess hve vindstaða var austlæg. Því hér er hlé í þeirri átt. Svellalög voru mikil, einkum síðari hluta mánaðarins.

Fagridalur (Oddný S. Wiium): Tíðin hefir verið ákaflega óstöðug og víðast jarðbönn framan af fyrir bleytusnjó sem hlóð niður 2. desember. En síðari hluti mánaðarins hefir verið góður og má nú heita alautt.

Þann 18. gerði allmikið sunnanveður. Tjón varð þó lítið. Um það er fjallað í sérstökum pistli hungurdiska fyrir nokkrum árum. 

Lýkur hér þessari lauslegu upprifjun á veðri og tíð á árinu 1946. Talnaflóð má finna í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 125
  • Sl. sólarhring: 255
  • Sl. viku: 1090
  • Frá upphafi: 2420974

Annað

  • Innlit í dag: 115
  • Innlit sl. viku: 964
  • Gestir í dag: 112
  • IP-tölur í dag: 111

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband