Hvasst í háloftunum

Nú er hvasst í háloftunum yfir landinu - miðað við árstíma. Tveir litlir, en snarpir kuldapollar eru að fara til austurs fyrir norðan land, sá fyrri í dag (föstudag 3.júní), en sá síðari á sunnudaginn. Öflugur hæðarhryggur er hins vegar fyrir sunnan land og virðist hann ætla að halda meginkuldanum frá landinu - að mestu. Hryggurinn kemur svo yfir landið á mánudaginn - en slaknar jafnframt. 

Á hádegi í dag mældist vindur í 500 hPa yfir Keflavíkurflugvelli 37 m/s - og verður e.t.v. heldur meiri þegar mælt verður í kvöld. Spá evrópureiknimiðstöðvarinnar gerir ráð fyrir að vindur í 500 hPa fari í um 50 m/s yfir Snæfellsnesi og Breiðafirði í kvöld. Þetta gefur tilefni til að gramsa í gögnum og spyrja hver sé mesti vindur sem mælst hefur yfir Keflavík í júní - og hvort vindur dagsins sé óvenjulegur. 

Í ljós kemur að við eigum tvö dæmi þess að vindur í 500 hPa hafi náð 60 m/s yfir Keflavík í júní. Langt er orðið síðan. Fyrra skiptið var 23. júní 1953, en þá var vindur af suðsuðaustri. Ekki fréttist af neinu tjóni á landinu, en gríðarmikið rigndi á Suðausturlandi. Síðara tilvikið var 13. júní 1959. Þá var vindur af vestsuðvestri, svipað og nú (og í öllum öðrum tilvikum sem hér er minnst á). Í því tilviki fylgdu veruleg leiðindi veðrinu - eins og bestupplýstu veðurnörd muna (auðvitað) - og stóðu í marga daga. 

Hæsta talan frá síðari árum er 49,9 m/s sem mældust í 500 hPa yfir Keflavík þann 8. júní árið 2015. Óttalega leiðinlegt veður (og minnst á það í stuttum pistli hungurdiska). Svipaður vindhraði (47,7 m/s) mældist yfir Keflavík 25.júní 2018 og veðrið þá daga fékk líka smáumfjöllun á vettvangi hungurdiska (bæði fyrir, og eftir). Næst á eftir, neðar á metalistanum eru svo tilvik frá 1992, 1962 og 1988, öll með vindhraða yfir 45 m/s í 500 hPa og öll tengd leiðindum af ýmsu tagi. - En við getum huggað okkur við að tilvikið nú er heldur vægara - og kuldapollarnir tveir ekki eins afgerandi kerfi og þau sem talin hafa verið upp. 

w-blogg030622a

Hér má sjá sunnudagskuldapollinn, kort evrópureiknimiðstöðvarinnar gildir kl.15 síðdegis á sunnudag fyrir 500 hPa-flötinn.. Hringur er utan um blett þar sem vindur er 50 m/s. Vindur yfir Keflavík er talsvert minni. Þó ekki sé gert ráð fyrir sérlega miklum vindi í mannheimum er samt fulla ástæða fyrir ferðalanga á landi og á sjó að gefa veðri og spám gaum um helgina. 

Viðbót: Að kvöldi 3. júní mældist vindhraði í 500 hPa 47,9 m/s yfir Keflavík. Það er það þriðjamesta sem vitað er um í júnímánuði yfir stöðinni (athuganir að mestu samfelldar frá 1952). 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 4
  • Sl. sólarhring: 266
  • Sl. viku: 2383
  • Frá upphafi: 2434825

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 2114
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband