Enn af hlýindum - en mest vangaveltur

Ágústmánuður er ekki liðinn þannig að tölulegt uppgjör hans (og alþjóðasumarsins) liggur auðvitað ekki fyrir. Nú þegar er þó ljóst að hann verður einn þeirra hlýjustu hér á landi. Þegar þetta er skrifað (að kvöldi þess 26.) stendur landsmeðalhiti í byggð í 12,1 stigi - lækkar trúlega eitthvað næstu daga, en gæti hæglega lent í einu af fimm hlýjustu sætunum. Í Reykjavík er meðalhiti til þessa í mánuðinum 12,8 stig. Hefur aðeins þrisvar verið hærri og kólni ekki því meira síðustu dagana gæti mánuðurinn endað enn ofar á listanum. Í Stykkishólmi hefur aldrei verið hlýrra þessa sömu ágústdaga og nú - og góður möguleiki á meti. Sama má segja um Akureyri, meðalhiti þar stendur nú í 13,8 stigum - þar er keppt við 13,2 stig í ágúst 1947 (allur mánuðurinn, eftir 25 daga stóð 1947 í 13,3 stigum). Ágústmet er því nærri því í hendi. Met er heldur ólíklegra á Egilsstöðum - en ekki alveg útilokað samt, verði síðustu 5 dagar mánaðarins mjög hlýir. 

Þá er það alþjóðasumarið. Akureyri og nágrenni virðist í fljótu bragði standa best að vígi varðandi met. Mánuðirnir þrír, júní til ágúst voru hlýjastir þar árið 1933 - meðalhiti þá 12,2 stig. Meðalhiti til þessa er nú nærri 12,7 stigum - en met eru ekki met fyrr en þau eru komin í hús. Júní var svalur sunnan heiða og þó ágúst hafi verið óvenjuhlýr nægir það ekki til að búa til methlýindi fyrir mánuðina þrjá. Ljóst er þó að þetta telst hlýtt sumar það sem af er - líklega um 11 stig, meðal 25 hlýjustu (af 150) í Reykjavík. 

Hungurdiskar munu vonandi reikna út sumarvísitölu Reykjavíkur og Akureyrar - og telja „sumardaga“ fyrir lok næstu viku. 

Eins og fram kom á þessum vettvangi í fyrri pistli var lágmarkshiti (sólarhringsins) víða í hæstu hæðum. Hæstur var hann á Brúsastöðum í Vatnsdal, 17,1 stig - og 17,0 stig á Nautabúi í Skagafirði. Þetta nær þó ekki Íslandsmeti - um það má lesa í fornum hungurdiskapistli.

Í gær (þ. 25.ágúst) fór hiti á Grímsstöðum á fjöllum upp í 27,4 stig (en 27,2) á sjálfvirku stöðinni. Í júlíhitabylgjunni 1991 fór hiti þar í 27,2 stig. Í júlíhitabylgjunni miklu 1911 mældist hámarkshiti þar 28,1 stig. Við trúum því (svona nokkurn veginn). Um þessa merku hitabylgju geta fróðleiksfúsir lesið í gömlum bloggpistli hungurdiska.

Í óvenjulegum ágústhlýindum verður veðurnördum alltaf hugsað til þess mánaðar 1880 - og umskiptana sem fylgdu í kjölfarið. Ágúst var síðast sérlega hlýr árið 2012 - þá kólnaði reyndar verulega upp úr þeim 20. Hretin í september og síðar um haustið voru eftirminnileg. Eftir hinn ofurhlýja ágúst 2003 héldu hlýindi áfram eins og ekkert hefði í skorist - og svipað var 2004. Hvað gerist nú? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þetta Trausti og fróðleikinn. Smá vangaveltur varðandi hitametið sem skráð er 30,5 stig. Vekur það ekki upp spurningar að það met sé ekki löngu fallið miðað við stóraukinn fjölda mælistöðva sl áratugi. Eða var bara einfaldlega nánast óeðlilega hlýtt loft yfir landinu daginn þann sem hitti svona vel á mælistaðinn. Þú hefur svosem skýrt það vel út með gamlar mælingar sem orka tvímælis en þó hefur þetta met verið látið halda sér. 

Hjalti Þórðarson (IP-tala skráð) 28.8.2021 kl. 20:55

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Það var nánast óeðlilega hlýtt loft yfir landinu þennan dag 1939 - hiti fór í 30 stig á tveimur stöðvum og víða annars staðar var sérlega hlýtt - en nákvæmni mælanna var ekki mikil. 

Trausti Jónsson, 2.9.2021 kl. 01:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Feb. 2024
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29    

Nýjustu myndir

 • w-1949-iskort
 • Slide19
 • Slide18
 • Slide17
 • Slide16

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (28.2.): 1
 • Sl. sólarhring: 87
 • Sl. viku: 1183
 • Frá upphafi: 2336692

Annað

 • Innlit í dag: 1
 • Innlit sl. viku: 1060
 • Gestir í dag: 1
 • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband