23.1.2021 | 22:38
Hríðarveðrið í febrúar 1940
Seint á þorranum veturinn 1940 gerði óvenjulegt hríðarveður. Náði það til margra landshluta en varð sérstaklega illvígt á Suðurlandi þar sem tveir menn urðu úti, annar í Biskupstungum, en hinn á Landi. Snjódýpt hefur aldrei mælst meiri á Hæli í Gnúpverjahreppi heldur en þessa daga. Hér verður þetta veður rifjað upp og rýnt lítillega í bakgrunn þess.
Tíð hafði verið góð veturinn 1939 til 1940. Janúarmánuður var alauður í Reykjavík, slíkt hefur aðeins gerst þrisvar á 101 ári [1929, 1940 og 2010]. Hagstæð veðrátta hélt áfram fram í miðjan febrúar en þá urðu umskipti. Tímaritið Veðráttan segir svo frá í almennri lýsingu daganna 16. til 28. febrúar:
Hæð yfir Grænlandi, en lægðir fyrir sunnan land og austan. Austan og norðaustanátt með frostum og fannkomum. Dagana 20. til 23. var austan og norðaustan stormur um land allt, stórhríð um allt Norður- og Austurland og sunnan lands einnig 2 fyrstu dagana, en síðan gerði þar þíðviðri á lágendi.
Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), meðalþykkt (daufar strikalínur) og þykktarvik (litir) í febrúar 1940 (tillaga era20c-greiningar evrópureiknimiðstöðvarinnar). Vikin í janúar voru ekki ósvipuð, mjög hlýtt vestan Grænlands en kalt austur í Skandinavíu. Þetta er reyndar svipað mynstur og við höfum búið við að undanförnu (janúar 2021).
Norðan- og norðaustanátt er að jafnaði þurr á Suðurlandi, en stöku sinnum bregður mjög út af. Ritstjóri hungurdiska ætlar að þessu sinni að vægja lesendum við fræðilegu þusi um það sem veðurglöggir menn fyrri tíðar nefndu margir hverjir hornriða - Sveinn Pálson náttúrufræðingur og læknir skilgreindi hann svo: Það er, að skýin dregur upp frá vestri, og þó blæs á austan eða norðaustan. Hornriði hefur á sér illt orð um landið sunnan- og vestanvert. Það að ský dragi upp frá vestri þýðir auðvitað að þar uppi blæs vestanátt - andstætt því sem er niðri við jörð. Úrkoma sem úr skýjunum fellur kemur því í raun úr suðvestri, úrkomuskýin hafa alls ekki séð hálendið - þau eru ekki komin að því.
Þetta er ekki beinlínis óalgengt veðurlag - það hefur nokkrum sinnum komið við sögu í pistlum hungurdiska og nefnist á erlendum tungum reverse shear - hrá þýðing er öfugsniði. Meira að segja er talað um öfugsniðalægðir, reverse shear low. Þær eru oftast líkar venjulegum lægðum að því leyti að í þeim eru gjarnan bæði hlý og köld skil - eða samskil - en hreyfing þeirra er með öðrum hætti heldur en venjulegra lægða.
Í allmörgum tilvikum hafa lægðakerfi sem þessi valdið miklum hríðarbyljum af norðaustri eða austri á Suður- og Vesturlandi, t.d. bylnum mikla í fyrstu viku marsmánaðar 2013 og skírdagsbylnum 1996 sem sumir muna e.t.v. eftir.
Það veður sem við rifjum upp hér fellur í þennan flokk. Ritstjórinn hefur tínt saman nokkrar blaðafréttir og komið fyrir í viðhenginu (pdf-skrá). Hér að neðan er mikið stytt útgáfa. Fréttunum ber ekki alltaf saman í smáatriðum.
Mánudagur 19.febrúar 1940:
Alþýðublaðið: Snjórinn kominn Eftir hinar miklu stillur og góðviðri undanfarandi vikur, fór að snjóa á laugardagskvöldið [17.febrúar] og er nú snjódýpt hér um 10 cm. Veðrið er þannig úti um landið: Norðvestanátt á Vestur- og Norðurlandi með 46 stiga frosti. Sums staðar hefir snjóað töluvert, en sums staðar ekkert. Á suður- og austurströndinni er sunnanátt, 35 stiga hiti og rigning. Lína þíðviðristakmarkanna er frá Eyrarbakka til Vopnafjarðar. Viða hefir snjóað töluvert, og er snjódýpt allvíða yfir 15 cm. Sunnanlands er snjódýptin 1020 cm. Útlit er á, að norðanátt haldist vestan- og norðanlands. Loks er þá kominn snjórinn, sem skíðamenn hafa beðið eftir í allan vetur.
Þriðjudagur 20.febrúar:
Morgunblaðið: Geysimikinn snjó hefir.hlaðið niður hjer í bænum og nágrenni undanfarna daga og Veðurstofan spáir áframhaldandi snjókomu í dag og kaldara veðri. Umferð hefir teppst vegna snjóa á Hellisheiði, en fært var í gær suður með sjó og í Mosfellssveit og Kjalarness.
Snjóþyngsli á Akureyri: Frjettaritari vor á Akureyri símar, að óvenjumiklum snjó hafi kyngt niður þar um helgina og í gær. Mikil ófærð er orðin á götum á Akureyri. Rafstraumur féll niður frá Laxárstöðinni nýju til Akureyrar á sunnudagskvöld vegna krapastíflu og var settur straumur á bæjarkerfið til ljósa frá gömlu rafstöðinni í Glerárgili. Frá Ísafirði barst einnig frjett um mikla snjókomu, en þar hefir verið blíðuveður síðan um nýár.
Miðvikudagur 21.febrúar:
Alþýðublaðið: Fárviðri með geysilegri snjókomu um vestanvert Suðurland. Snjókoman sumstaðar meiri en í marga undanfarna áratugi. Ekki fært milli húsa i Vestmannaeyjum, Sandgerði og á Eyrarbakka: Fárviðri hefir gengið yfir Reykjanesskagann, Vestmannaeyjar og Árnessýslu undanfarna þrjá sólarhringa. Í Vestmannaeyjum var í nótt fárviðri eða um 12 vindstig og snjókoma afarmikil. Á Eyrarbakka og Stokkseyri og upp um Árnessýslu hefir verið aftakaveður og snjókoma svo mikil, að menn muna ekki annað eins á síðustu áratugum. Hefir snjókoman verið svo mikil, að skaflar eru mannháir á götum og nema víða við húsaþök. Ófært var milli húsa á Eyrarbakka í morgun. Sama veður hefir verið í Sandgerði. Þar nema skaflar einnig við húsaþök og í morgun var engum manni fært húsa í milli. Sá landssímastöðin í Sandgerði sér til dæmi alls ekki fært að senda eftir manni, sem átti heima skammt frá. Líkt veður var í Grindavík og Keflavík. Enn hefir ekki frést um að ofviðrið hafi valdið verulegu tjóni á húsum og mannvirkjum. Frost er hins vegar ekki mikið, 15 stig á Reykjanesskaganum og í Árnessýslu. Um Norðurland er skafhríð og 67 stiga frost.
Fimmtudagur 22.febrúar:
Morgunblaðið: Allir vegir ófærir úr bænum í gærmorgun: Allar bílferðir úr bænum stöðvuðust í gærmorgun vegna þess að snjórinn hafði fokið svo í skafla á vegum, að ófært var bilum.
Þjóðviljinn: Ofviðri með feikna snjókomu hefur gengið um allt Suðvesturland undanfarna sólarhringa. Hefur hlaðið niður feikna miklum snjó og var svo komið í gær, að hvergi varð komist út úr bænum á bíl nema inn að Elliðaám, og ófært var milli verstöðvanna á Suðurnesjum. Mestur varð veðurofsinn í Vestmannaeyjum. Þar varð í fyrri nótt og gær fárviðri (um 12 vindstig). Síðdegis í gær, var veðrinu farið að slota, var þó hvasst um allt land 810 vindstig. Var þá komin þíða sumstaðar á Suðvesturlandi , rigning í Vestmannaeyjum, á Reykjanesi og uppi í Borgarfirði Slysavarnafélagið hefur látið út varpa tilkynningum til báta og skipa, og beðið þau um að líta eftir mb. Kristjáni frá Reykjavík, sem gerður er út frá Sandgerði, og ennfremur mb. Sæfara frá Stykkishólmi. Kristján er 15 smálestir að stærð. Hann fór í róður aðfaranótt mánudags, en kom ekki að landi á venjulegum tíma. Slysavarnafélagið hófst þegar handa um leit að bátnum. Sæbjörg" hóf leit á mánudagskvöld, og hefur leitað síðan. Skyggni var afarslæmt á miðunum á þriðjudaginn og í gær vegna dimmviðris. Sæfari" fór einnig í róður á aðfaranótt mánudags. Var óttast um hann er veður spilltist og hófu bátar frá Stykkishólmi leit að honum á þriðjudag, og fann annar þeirra hann við Bjarneyjar. Báturinn hafði leitað þar skjóls. Forstjóri mjólkursamsölunnar skýrði Þjóðviljanum svo frá í gær að nokkur skortur hefði verið á mjólk undanfarna daga, en mjólkursending væri að koma frá Borgarnesi, og í nótt mundi nást í mjólk úr Kjós og Mosfellssveit. Þyrfti því varla að kvíða mjólkurleysi úr þessu. Unnið var að því í allan gærdag að moka Hafnarfjarðarveginn og aðra vegi út frá bænum, og var Hafnarfjarðarvegurinn orðinn slarkfær í gærkvöldi.
Föstudagur 23. febrúar:
Morgunblaðið: Samgöngur eru að komast i eðlilegt horf.
Laugardagur 24.febrúar:
Tíminn: Tveir menn urðu úti á Suðurlandi í hríð þeirri, er geisaði víða um land í fyrri hluta vikunnar. Norðmaðurinn Olaf Sanden, sem að undanförnu hefir verið garðyrkjumaður að Syðri-Reykjum í Biskupstungum, varð úti á mánudag [19.] á leið milli Efstadals í Laugardal og Syðri-Reykja. Sú vegalengd er þó aðeins um 3 kílómetrar, en yfir Brúará að fara. Veður var vont og færð þung. Mannsins hefir mikið verið leitað, en sú leit hefir enn eigi borið árangur. Olav Sanden var tvítugur að aldri, mágur Stefáns Þorsteinssonar kennara við garðyrkjuskólann á Reykjum. Á Landi í Rangárvallasýslu varð fjármaður, Stefán Jónsson frá Galtalæk, úti. Fór hann að heiman til gegninga og ætlaði í beitarhús, er standa alllangt frá bænum. Er leiðin á beitarhúsin nær 3 kílómetrar. Lík Stefáns er fundið. Hann var maður á sextugsaldri. Veður var mjög vont, er þessi atburður gerðist, hríðarbylur og sandrok. Hefir svo verið á þessum slóðum lengst af þessa viku. Á sumum bæjum hafa gegningamenn ekki hætt sér til fjárhúsa, þá daga, er veður var harðast, en beitarhús standa víða í uppsveitum austan fjalls alllangt frá bæjum. Á einum stað lét ungur maður fyrirberast í fjárhúsi í tvo sólarhringa, þar eð hann treystist eigi að ná heim sökum veðurofsans. Sums staðar mun hafa skeflt yfir fé, en austan fjalls er víða tíðkanlegt, að beitarfé liggi við opið.
Svo illa vill til að við hernám Veðurstofunnar í maí sama ár glötuðust veðurkort fyrstu mánaða þess. Erlend útgefin veðurkort eru sömuleiðis nokkuð ófullkomin vegna stríðsins. Veðrið hefur verið endurgreint á síðustu árum, en nokkuð vantar upp á að greiningarnar nái snerpu þess. Af þeim má þó vel sjá eðlið. Kortið hér að neðan er fengið úr evrópsku endurgreiningunni (sem er reyndar oftast síðri á þessum árum heldur en sú bandaríska) og myndin sótt á vef wetterzentrale.de.
Hér sýna hvítu heildregnu línurnar sjávarmálsþrýsting, en litir hæð 500 hPa-flatarins (ekki þykktina). Kortið gildir kl.6 að morgni 20.febrúar 1940. Þá og kvöldið áður var ákafi snjókomunnar sunnanlands hvað mestur. Vindur var af norðaustri eða austnorðaustri á landinu, en eins og sjá má af legu 500 hPa-flatarins var vindur þar uppi af suðvestri og vestri - alveg andstæður því sem var neðar. Hæð er við Austur-Grænland (eða yfir Grænlandi), en lægð suður í hafi. Ef við hefðum gervihnattamynd mætti vafalítið sjá sérstaka lægðamyndun skammt suðvestan við land - en endurgreiningin er svo gróf að hún nær henni ekki. Við skulum líka - til gamans taka eftir kuldapollinum Síberíu-Blesa við norðausturjaðar kortsins. Nánari greining á aðstæðum sýnir að dagana á undan hafði mjög kalt loft borist úr Íshafinu, suður með austurströnd Grænlands í átt til Íslands. Þykktin (sem mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs féll úr 5310 metrum þann 15. niður í 5070 metra þann 17. - eða um 240 metra, það kólnaði um 12 stig. Þetta gerðist átakalítið, hríðarkast gerði þó nyrðra. Þessi kuldaframsókn dró veðrahvörfin niður og bjó til ákafa vestanátt yfir Íslandi, en jafnframt leitaði hlýtt loft til norðurs fyrir sunnan land og vindur jókst hér á landi.
Mikill munur var á hita milli suðaustanáttarinnar undan Suðurlandi og norðaustanáttarinnar. Um tíma lágu skilin um Rangárvelli - og virðist hlýja loftið hafa ýmist sótt á eða hörfað.Síðdegis daginn áður, þann 19. var hitafar eins og gróflega má sjá á myndinni hér að neðan.
Eins og sjá má var 3 stiga hiti á Sámsstöðum, en fimm stiga frost uppi í Hreppum. Það snjóaði nánast um land allt síðdegis þann 19. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum voru suðaustan fjögur vindstig og mikil rigning. Morguninn eftir hafði kalda loftið sótt heldur á og lægðardragið suðvestan við land var orðið skarpara - þá hafði vindur á Stórhöfða snúist í austur og aukist í 10 vindstig, sömuleiðis snjóaði á Suðausturlandi - en ekki mjög mikið. Snjókoma hafði þá mjög aukist á Austfjörðum, en við Breiðafjörð og á Vestfjörðum var að stytta upp að mestu.
Eftir því sem lægðin fyrir sunnan gróf betur um sig hvessti enn. Fór vindur í 12 vindstig á Stórhöfða að morgni þess 21. Úrkomubakkinn fór hins vegar að slitna meira í sundur og smám saman fór að hlýna sunnanlands og 22. var hiti kominn upp fyrir frostmark alls staðar á láglendi um landið sunnanvert. Vindur í háloftum hafði snúist í suðaustur - og öfugsniðinn hafði runnið sitt skeið.
Hér má sjá mun á hæsta og lægsta þrýstingi hvers athugunartíma á landinu dagana 14. til 25.febrúar 1940. Reyndar eru ekki allar þrýstiathuganir inni í reikningunum þannig að spönnin gæti raunverulega hafa verið lítillega meiri. Náið samband er á milli þrýstispannar og vindhraða. Við sjáum að ekki fylgdi mjög mikill vindur yfirtöku kalda loftsins þann 15. til 17. Spönnin varð þó um 10 hPa þegar mest var. Að kvöldi 18.lægði, en síðan fór hlýja loftið að sækja að úr suðri - en mætti umtalsverðri mótstöðu. Vindur fór vaxandi allan þann 19. hélt áfram að aukast allan daginn þann 20. og náði loks hámarki að morgni 21., þegar fárviðri var á Stórhöfða. Þann 22. var þykktin aftur komin upp í 5300 metra og kalda loftinu hefði verið bægt frá að mestu - en þó var vindbelgingur áfram.
Ekki var auðvelt að mæla snjódýpt, lausasnjó dró í mikla skafla sem síðan börðust saman. Ekki ósvipað ástand og í bylnum 2013 þegar bíll ritstjóra hungurdiska var nánast á kafi á bílastæði hans, en bílar í fárra metra fjarlægð stóðu á auðu. Mesta snjódýptin mældist á Hæl í Hreppum þann 20., 90 cm, það mesta sem vitað er um þar. Daginn eftir, þann 21. var snjódýptin þar 50 cm, þó snjóað hefði í einn sólarhring til viðbótar - lausasnjór hafði lamist í skafla og fokið í lautir. Þess má geta að Gísli Sigurðsson sem lengi var ritstjóri Lesbókar Morgunblaðsins benti mér á þetta merkilega veður sem mikið var rætt á hans heimaslóð í Biskupstungum.
Eins og fram kom í blaðafréttunum snjóaði mikið víða um land. Helst að innsveitir á vestanverðu Norðurlandi slyppu sem og flestar sveitir kringum Breiðafjörð og á sunnanverðum Vestfjörðum. Nær ekkert snjóaði t.d. á Lambavatni á Rauðasandi og sömuleiðis var nær alauð jörð í Stykkishólmi. Minna snjóaði í Borgarfirði heldur en fyrir austan fjall og í Reykjavík. Austanlands var aðalsnjókoman ívið síðar en á Suðvesturlandi. Mikið snjóaði á Héraði þann 21. til 23. og úrkoma á Seyðisfirði mældist hátt í 200 mm á 3 dögum (21. til 23.), ekki vitum við um snjódýpt þar. Í Vík í Mýrdal féll mikill hluti úrkomunnar sem rigning - þar sveiflaðist milli rigningar og snjókomu eftir því hvort hafði betur kalda eða hlýja loftið. Svipað var á Sámsstöðum - meirihluti úrkomunnar þar var þó snjór.
Í veðrum af þessu tagi sleppur Suðurland stundum við hríð, en Borgarfjörður og Breiðafjörður eru undirlagðir - þó þar sé mikil úrkoma sjaldséð í norðaustanátt. Svipað má segja um vestanvert Norðurland. Á norðanverðum Vestfjörðum snjóar hins vegar líka í norðaustanátt - en sum hríðarveður þar eru þó öfugsniðaættar.
Um vægari öfugsniðaveður má t,d, lesa í pistlum hungurdiska 4.desember 2017, 3. nóvember 2018, 22.janúar 2018, 12. febrúar 2015 og fleiri pistlum. Sömuleiðis í pistlasyrpu í byrjun mars 2013 - þar sem fjallað er um bylinn mikla þá dagana.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 34
- Sl. sólarhring: 150
- Sl. viku: 1955
- Frá upphafi: 2412619
Annað
- Innlit í dag: 34
- Innlit sl. viku: 1708
- Gestir í dag: 33
- IP-tölur í dag: 32
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.