28.10.2020 | 21:03
Af árinu 1853
Árið 1853 hlaut nokkuð misjöfn eftirmæli, flestum þótti tíð þó hagstæð þegar á heildina er litið, oft hafi litið illa út en ræst úr áður en illa fór. Meðalhiti í Stykkishólmi var 3,1 stig, -0,4 stigum neðan meðallags næstu tíu ára á undan. Í Reykjavík var meðalhiti 3,9 stig, -0,5 stigum neðan meðalhita næstu tíu ára á undan. Á Akureyri var meðalhiti 2,8 stig. Allir mánuðirnir júní til september teljast hlýir, ekki þó sérlega. Þeim hlýindum virðist þó hafa verið nokkuð misskipt, hlýrra var að tiltölu fyrir norðan heldur en syðra, sumarið var fremur kalt í Reykjavík (um hita á Austurlandi vitum við ekki að svo stöddu). Desember var einnig hlýr. Október var sérlega kaldur og sömuleiðis var einnig kalt í janúar og febrúar.
Einn dagur var sérlega kaldur í Reykjavík, 29.júní, en enginn dagur sérlega hlýr. Í Stykkishólmi voru köldu dagarnir fimm, allir í röð, 17. til 21.janúar. Þrír dagar voru sérlega hlýir í Stykkishólmi, 13.júní og 6. og 7.september. Síðastnefnda daginn mældist 19,8 stiga hiti á Akureyri (engin hámarksmæling þó).
Úrkoma í Reykjavík mældist 956 mm. Hún var óvenjumikil í janúar, september, nóvember og desember, en fremur þurrt var í febrúar og október.
Loftþrýstingur var að meðaltali sérlega hár í febrúar og desember og einnig hár í ágúst. Aftur á móti var hann sérlega lágur í nóvember og janúar. Ágúst var rólegur mánuður. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi 956,7 hPa þann 21.október en sá hæsti á Akureyri 10.febrúar, 1043,9 hPa.
Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hver þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar.
Gestur vestfirðingur segir frá tíðarfari ársins 1853 í pistli sem birtist í blaðinu 1855:
Árið 1853 var enn góð árferð, eins og að undanförnu. Árið gekk að sönnu nokkuð harðindalega í garð með frosti og fannkomu. Fyrir haga tók fyrir þorra og sumstaðar fyrri, og hélst jarðbann það víða fram undir góulok; breytti þá til þíðviðra, svo að hagar komu upp; kólnaði þó aftur með einmánuði, og héldust kuldar þeir fram yfir hvítasunnu. Eftir það voru þurrkar tíðir, en sjaldan vætur. Eftir Jónsmessu gjörði norðanhret mikið með snjó, sem olli því, að búsmali nytkaðist mjög illa, og allvíða týndust unglömb að mun, því hretið dundi á um fráfærutímann. Eftir þingmaríumessu [2.júlí] komu hlý staðviðri og hélst þaðan af jafnan góð veðrátta fram yfir höfuðdag. Sökum vorkuldanna og Jónsmessuhretsins spruttu tún ei betur en í meðallagi; aftur urðu úthagar betri. Það bætti og líka mikið um, að tún tóku þá hvað best að spretta er búið var að slá þau, svo nokkuð þeirra var allvíða tvíslegið, og sumstaðar þríslegið. Þó óþerrar væru nokkrir framanaf slættinum, urðu þeir óvíða vestra að miklum baga, svo heyafli bænda varð í góðu lagi, og urðu þó heyannirnar fremur afsleppar, því þau hey, er seinast voru slegin, hröktust mjög, og fóru sumstaðar undir snjóa, sem ei leystu upp af þeim aftur. Haustið var fremur harðviðrasamt og ógæftir miklar til sjóar. Fjárskurður varð nú laklegur mjög, einkum á mör, svo menn mundu ei jafnrýran. Þegar um veturnætur komu fannalög mikil, og var veðrátta ill framyfir miðja jólaföstu, svo allvíða lagðist vetur á þegar eftir allraheilagramessu með köfuldum og hagaskorti; en frost voru varla teljandi. Hálfum mánuði fyrir árslokin kom bati góður, svo víða komu upp hagar aftur.
Afli varð víða allgóður; en í Dritvík hálfu minni en best hafði verið hin árin. Steinbítsafli vestur um fjörð varð og mjög rýr; aftur á móti fiskaðist vel bæði þorskur og hákarl. Þá aflaðist og vel í Strandasýslu allt sumarið, haustið og frameftir vetrinum, einkum í Steingrímsfirði. Undir Jökli urðu bestu hlutir ...
[Þann 15.janúar] fórst bátur á leið úr Fagurey undir Jökul með 4 mönnum, sem týndust allir; formaðurinn hét Jón Jóhannsson. ... [Þann 24.júlí] týndust 4 menn af báti á heimleið úr Svefneyjum til Bjarneyja. Maður, er Gunnar hét, týndist af báti í Jökulfjörðum. Það var og í Skálavík, að börn léku sér í fjöru niðri, brotnaði þar þá hafísjaki, og varð eitt barnanna undir honum og beið bana af. Í ofsaveðri því, er gjörði 22. september, rak kaupskip 50 lesta á land á Reykjarfirði, og brotnaði svo, að við uppboð var selt skipið og farmurinn, sem á því var. Miklu af farminum varð bjargað, en ýmsar fóru sögur af uppboðsþingi þessu, að eigi hefði því sem skipulegast hagað verið; er svo sagt, að skiphróið með öllu, nema seglunum, en með miklu í af trjáviði, 50 tunnum brennivíns, sykri og öðru, sem dulið var fyrir þingheyendum, hefði verið selt fyrir 270 rdl., en þótti þó, þá er aðgætt var, allt að 4000 rdl. virði. Í ofviðri því, er hér var getið, týndust og 2 fiskiskútur Ísfirðinga; var önnur þeirra nýlega keypt frá Hafnarfirði, og áttu þeir hana saman Paulsen kaupmaður í Hafnarfirði, Ásgeir, borgari á Ísafirði, Ásgeirsson prófasts Jónssonar í Holti, og formaðurinn Bjarni Össurarson, er drukknaði á henni. Hin skútan var þilbátur, er Jóhannes" hét; áttu þeir hann Dýrfirðingarnir, formaðurinn hét Guðmundur Guðmundsson úr Dýrafirði. Á skútum þessum drukknuðu alls 12 menn.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Til þorra stillt frostveður, fannkomulítið og jarðbann fyrir fé. Með þorra gerði 4 smáblota. Komu þá hross á gjöf hér um sveitir, en jörð hélst í lágsveitum norðan Skarð. Fyrri part vetrar kom einn bloti um 13 vikur, 30. nóv. Jarðleysi hélst enn lengi; oftar stillt veður og gaddlítið. Í þriðju viku góu sólhlýindi, tók vel í mót sólu. Aftur 16.-25. mars frostamikið; þá á föstudag langa [25.mars] lognsnjór.
Þann 21.febrúar segir athugunarmaður á Hvanneyri í Siglufirði frá hafís útifyrir.
Norðri segir í ódagsettu febrúarblaði:
Veðurátta hafði verið allgóð um Suðurland, nema nokkuð frostasöm. ... Í Skaftafellssýslu varð sumstaðar haglaust með jólaföstu og á Síðunni með nýári, og víða fyrir austan fjall á jólum. Blota hafði gjört í miðjum næstliðnum mánuði (janúar), og hafði þá komið upp jörð undir Eyjafjöllum og Mýrdal. En aftur á móti hafði hann hleypt öllu í gadd um Mýrar og Borgarfjörð og í Kjósar- og Gullbringusýslu. Fannfergja er sögð og jarðbönn á Vesturlandi. Í miðjum janúar, hafði komið nokkur afli suður í Höfnum og Vogum.
Ingólfur segir frá þann 12.febrúar - og lýsir fyrst janúarmánuði:
[Janúar] Þennan mánuð hefur hér á vesturkjálka Sunnlendingafjórðungs verið vetrarfar meira, en menn hafa átt að venjast um mörg undanfarin ár; hefur snjókoma verið töluverð, og þess á milli frosthörkur og spilliblotar. Líkt þessu er að heyra um vetrarfar úr öðrum fjórðungum, nema hvað harðindin hafa byrjað þar miklu fyrr á vetrinum, en hér sunnanlands, því þar komu þau ekki að kalla má fyrr enn með nýári. Það mun þó mega fullyrða, að eigi hefur vetrarfarið gengið jafnt yfir allar sveitir, því þær eru sumar, sem til þessa tíma hafa fyrir litlum, eða engum harðindum orðið, að minnsta kosti hafa þær fréttir borist úr vesturhluta Borgarfjarðar. Vér höfum fengið fréttir nýlega bæði að norðan og úr austursveitum, og tala þær helst um harðindi þessi.
Enn má heita að vetrarfar sé allt hið sama og verið hefur að undanförnu. Hér eru nú helst á orði hafðar slysfarir þær, sem orðið hafa austan fjalls: hefur einn maður orðið úti á Rangárvöllum, 2 menn i Flóanum, og maður í Ölvesi dó í höndum samferðamanna sinna, áður þeir gátu komið honum til byggða. Þar að auki hefur nokkra skammkalið svo, að sumir hafa þegar dáið, en sumum er varla talið lífvænt.
Ingólfur lýsir þann 26.febrúar tíðarfari í mánuðinum til þessa:
Þessi mánuður fer yfir höfuð að tala líkan vitnisburð hjá oss, og fyrirrennari hans; því þó veðrátta hafi verið miklu mildari seinni hluta hans, þá hefur hún samt eigi getað unnið neina bót á jarðbönnunum, sem víðast voru komin um allt land og haldast við enn í dag. Nú eru póstarnir komnir að norðan og vestan, og menn og bréf koma að úr öllum áttum. Harðindin eru hin helstu tíðindi; byrjuðu þau sumstaðar þegar með vetri, víðast hvar bæði nyrðra og vestra þegar hálfur mánuður var af vetri. Slysfarir heyrast og nokkrar auk þeirra, sem áður er getið. Skip fórst með 4 mönnum undir Jökli í þessum mánuði. Kvenmaður varð úti í Skagafirði; hún var á ferð með manni; þau villtust bæði, fór hann þá að leita fyrir sér og bjó áður um stúlkuna, en gat eigi fundið hana aftur. Unglingspiltur varð og úti milli bæja í Vatnsdal i Húnavatnssýslu. ... Fiskiafli er í veiðistöðunum hér fyrir sunnan, og sækja Nesjamenn þangað fisk enn að nýju.
Þjóðólfur segir almennar tíðarfréttir í pistli 2.mars:
Þegar seinast spurðist (um 20. febrúar) voru svo að segja allstaðar jarðbönn eystra, austur að Skeiðarársandi. Eins er að frétta vestan- og norðanlands. Úr Mýra- Og Borgarfjarðarsýslum er sagt að alltaf hafi haldist hagar að nokkru, einkum fyrir hross. En nú virðist æskilegur bati að vera kominn.
Ingólfur segir 18.mars:
Þá er komið í seinustu viku góu, og verður ekki annað um veðráttufar hennar sagt, enn að það hafi verið að minnsta kosti hér á Suðurlandi allmjúkt og blítt. Þó eru varla líkur til, að harðindunum sé farið að létta af í þeim héruðum landsins, þar er jarðbönnin hafa verið mest og staðið lengst; en vér fögnum nú bót á þeim úr þessu, því veðurbatinn sýnist verða æ eðlilegri. Frá sjónum getur nú Ingólfur borið góðar fréttir upp í sveitirnar, og glatt konur og kærustur útróðrarmannanna, því út lítur fyrir góðan afla á Suðurlandi.
Í marsblaði Norðra (ódagsett) eru fréttir af tíð, aflabrögðum og slysförum (við styttum þær nokkuð hér):
Veðráttufarið hafði, frá því er seinast fréttist af Suðurlandi, ... undan, verið allgott, einkum síðan á leið og linnti hvass- og harðviðrum, og víða verið þar jörð fyrir útigangspening, einkum í Mýra- og Borgarfjarðar sýslum. Þegar seinast fréttist að austan, hafði víða verið jarðbönn, og þá sjaldan gaf að róa, hafði varla orðið fiskvart um Innnes; þar á móti hafði ætíð fiskast nokkuð, þá róið varð frá Suðurnesjum, ... Af öllum útkjálkum landsins vestra, nyrðra og eystra, er að frétta fannfergju og jarðbannir; aftur víða til sveita komin upp nokkur jörð, einkum í Fljótsdal, á Jökuldal, í Uppsveit, í Kelduhverfi, við Mývatn, vestanvert í Eyjafirði, og í Hörgárdal, þó best í Skagafirði, og nokkur jörð hér og hvar um Húnavatnssýslu. Margir eru sagðir komnir að þrotum með heyföng sín, og skepnur orðnar dregnar og farnar að megrast. Sumir hafa og gefið peningi sínum korn og önnur matvæli. Það vofir því yfir, batni ekki því betur og fyrr, minni og meiri fellir á peningi. Hreindýr hafa sótt venju framar í vetur til byggða, helst út á Sléttu og að Mývatni; það hafa því á Sléttunni verið unnin 100 hreindýr, og við Mývatn 50; og þar að auki er mælt, að þau hafi fyrir hungurs sakir fækkað mjög. Hafís rak hér að Norðurlandi, seinast í næstliðnum mánuði (febrúar), einkum fyrir Sléttu, og með landi fram til Sigluness, allt vestur um Skaga, svo að víða varð ekki eygt yfir hann af fjöllum. Engin höpp fluttust með honum, hvorki hvalur né viður. Nokkru síðar hvarf ís þessi allur úr augsýn.
Mann hafði kalið í vetur á Mýrdalssandi, svo að af varð að taka fyrir víst aðra höndina. Í Flóanum er sagt, að hafi farist 2 menn, og 2 úr Ölvesi, og aðra kalið til stórskemmda. Í Haga á Barðaströnd, er sagt, að bændurnir þar misst hafi allt fé sitt í sjóinn, en hvernig, hefur enn ekki frést, og höfðu nokkrir þar í sýslunni bætt þeim skaðann. ... Skiptapi hafði orðið með 6 mönnum á Barðaströnd um miðsvetrarleytið. Unglingsmaður hafði orðið úti á Fjarðarheiði, hér á deginum; hann hafði verið í mjög skjóllitlum klæðum. Annar handleggsbrotnaði í sama mund og á sömu heiði; en honum varð bjargað. Í haust sem leið, fóru 2 menn yfir svonefnt Hestskarð, sem er millum Siglufjarðar og Héðinsfjarðar, með kindur; vildi þá svo til, þegar upp á skarðið komu, að 1 eða fleiri af kindunum hlupu út úr rekstrinum; það hljóp því annar maðurinn fyrir þær; en í sama bili verður honum litið við, hvar hann sér dauðan mann liggja; hann kallar til samferðamanns síns; þeir fara svo að hreyfa við líkinu; var það þá sem fölskvi eða hismi, þá á því var tekið; en þó voru ýmsir partar úr fötunum lítt fúnir. Þegar menn þessir komu til bæja, sögðu þeir hvað til tíðinda hafði orðið í ferð þeirra; uppgötvaðist þá, að unglingsmaður hefði í október 1833 orðið úti á leið þessari, en aldrei fundist.
Þjóðólfur segir þann 16.apríl:
Með mönnum, sem nýkomnir eru að vestan og norðan úr Húnavatnssýslu hafa litlar fréttir borist. Hagasnöp nokkur eru nú komin víðast fyrir vestan, og hefir þar verið mjög misskipt vetrarfari, svo að allt að 20 vikna gjöf á fé hefir verið sumstaðar, en aftur á öðrum stöðum aldrei gefið fullorðnu fé, t.d. í kringum Patreksfjörð. Á 3. í páskum [29.mars] var engi hláka né verulegur bati kominn í Húnavatnssýslu, og þá því síður lengra norður, eftir því sem að líkindum ræður. Er í munnmælum, að margir búendur í Þingeyjar- og Eyjafjarðarsýslu hafi verið teknir að skera niður nautpening sinn og fénað, sakir heyjaþrota. Fyrir austan fjall eru alstaðar komnir upp góðir hagar, allt austur að Mýrdalssandi.
Ingólfur segir af árferði í pistli þann 12.apríl:
Það er nú næstum mánuður síðan vér drápum á þetta atriði í Ingólfi, þá er 3 vikur voru af góu. Veðurreyndin hefur haldist lík því, sem þá var sagt, allgóð hér á Suðurlandi; hafa oftast verið kælur, þó hægar, með töluverðu næturfrosti; hefur nú viðrað svo fram í miðjan einmánuð. þess vegna er hætt við, að seint hafi orðið um bata í þeim sveitum, þar sem jökullinn var mestur; en vér höfum engar vissar fregnir þaðan fengið, og getum því ekki að svo komnu sagt, hversu úr hefur ráðist. Af Vesturlandi höfum vér fregnað svo mikið, að flestir hafa staðist harðindin, og eigi mun vetrarríkið hafa unnið þar neitt verulegt tjón velmegun manna. Bestu aflabrögð hafa verið undir Jökli, eru þar taldir hlutir almennt 500 til 800 frá nýári til páska. Á Suðurlandi má árferði heita yfir höfuð að tala æskilegt bæði til sjós og sveita. Harðindin voru þar aldrei nema svo sem 6 vikna skorpa, þar sem þau voru ríkust; og svo munu víðast hvar nægar jarðir hafa verið upp komnar þegar á páskum [27.mars]. Þegar litið er hér á aflabrögð um þessa vertíð, mega þan víða heita góð, sumstaðar í betra lagi, en sumstaðar líka sáralítil, svo næst gengur fiskileysi, eins og verið hefur til þessa í Njarðvíkum og Vogum. ... Frá Norðurlandi getum vér ekkert sagt með vissu; en ískyggilegar fregnir berast þaðan um harðindi og felli í sumum sveitum.
Norðri segir í ódagsettu aprílblaði:
Veðráttufarið hefur um næstliðna 3 mánuði, fremur mátt heita kyrrt og úrkomulítið, en aftur mjög frostasamt og kalt; enda er enn víðast mikill jökull á jörðu, og í sumum byggðum baldjökull yfir allt. Margir höfðu á útsveitunum í Norðurmúlasýslu verið búnir öndverðlega í þessum mánuði, að reka af sér sauðfé sitt og hross, bæði frammi í Fljótsdal og eins í Jökuldal, svo að þúsundum skipti af sauðfé og tugum af hrossum. Einnig hefur verið sagt, að nokkrir útsveitamenn í Skagafjarðarsýslu hafi rekið fram í miðsveitirnar þar sauði sína og hross. Í almælum er nú að fleiri en færri muni þegar komnir á nástrá með pening sinn, og hjá einstökum farið að hrökkva af. Á Vesturlandi kvað jörð vera að nokkru uppkomin hér og hvar; ... Á Barðaströnd aflaðist næstliðið haust 280 tunnur af jarðeplum; og í Skriðuhrepp í Eyjafjarðarsýslu 150 tunnur. Víðar höfum vér enn ekki fengið að vita um jarðeplatekju hið næstliðna sumar ...
Í sama tölublaði Norðra er alllöng grein eftir Jón Hjaltalín: Fáeinar nýtar athugasemdir um barómetrið (loftþyngdarmælirinn) sem veðurspá. Þar eru raktar reglur kenndar við Fitzroy aðmírál sem síðar varð fyrsti forstjóri bresku veðurstofunnar. Minnst er á þessar reglur í pistli hungurdiska: Spár með hjálp loftvogar og hitamælis.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Eftir páska tók upp. 8.-16. apríl altók upp í sveitum, án þess hláku gerði. Eftir sumarmál mikil næturfrost. 4. maí sást litka tún. 13. maí kom fyrst fjallbyggða- og heiðarleysing og varð langur og þungur gjafatími. Vorið var þurrt, hretalaust, oftar næturfrost.
Þann 2.maí greinir Þorleifur í Hvammi frá jarðskjálfta kl. 3 1/2. Aðfaranótt 11.apríl er getið um jarðskjálfta á Hvanneyri í Siglufirði.
Ingólfur segir þann 10.maí:
Til þessa hefur hér á Suðurlandi haldist hin sama kuldaveðrátta, sem verið hefur, og út lítur fyrir að eftir sumarmálin hafi gjört illt kast fyrir norðan, sem enn eigi er til spurt hvern enda haft hefur.
Norðri segir í ódagsettu maítölublaði:
Framan af mánuði þessum gengu hér nyrðra, og hvað til fréttist, hörkur og hríðar, og voru þá flestir komnir að þrotum með heyföng sín, og ekki annað sýnna, en skepnur mundu horfalla hrönnum saman. Fannfergjan var enn víða hvar dæmafá, og margir höfðu rekið sauðfé sitt og hross þangað, er jörð var helst upp komin. Allri venju framar var og bjargarskortur meðal fólks, og einkum smjörekla, svo að fáir muna slíka, og mun því ekki aðeins valda gagnsemisbrestur af kúm næstliðinn vetur, heldur og það ekki minna, hvað eyðist af rjóma til kaffidrykkjunnar. Flestir verslunarstaðir hér nyrðra, munu og hafa verið matvörulitlir og lausir, og olli því nokkuð það, að sumstaðar hafði kornið verið tekið til að gefa það skepnunum, auk hins sem margír, er fiskráð höfðu, gáfu hann peningi sínum. Og hefði ekki forsjóninni þóknast að veita oss hina blíðustu og hagstæðustu veðuráttu, gróður og grasvöxt síðan fyrir næstliðna hvítasunnu [15.maí] og allt fram á þenna dag, mundi skepnudauði og hallæri, flestra von fyrri, geisað hafa víða yfir landið. ... Það er mjög kvörtun um það, einkum í Eyjafirði, að grasmaðkur (tólffótungur) sé kominn svo mikill hér og hvar í tún og úthaga þar sem vatn ekki kemst að, að gróður allur og enda grasvöxtur sé í burtu numinn, og peningur flýi pláss þessi.
Norðri segir í ódagsettu nóvemberblaði:
Þess hefur og gleymst að geta, að hinn 21. dag maímánaðar seinast féllu skriður úr fjallinu ofan Garðsvík og Sveinbjarnargerði á Svalbarðsströnd, sem liggur austanvert við innri hluta Eyjafjarðar, og vita menn ekki til, að þar hafi nokkru sinni áður fallið skriður; þær tóku töluvert af bithaga; ein þeirra var og nær 50 föðmum á breidd, og spilltu mjög engi á Sveinbjarnargerði; aðeins eitt trippi fórst undir skriðuföllum þessum.
Ingólfur segir fréttir af árferði þann 16.júní:
Vér drápum seinast á árferði hér sunnanlands rétt fyrir [vertíðar]lokin, og gátum vér þess þá, að til þess tíma hefði haldist hin sama kuldaveðrátta, sem verið hafði að undanförnu, með sífelldri norðanátt og næturfrosti. En strax eftir lokin sneri veðrátta sér til gagnstæðrar áttar, svo viðrað hefur nú kalsa af suðri og krapaskúrum síðan á hvítasunnu [15.maí] og allt fram á þennan dag. Aflabrögð hafa hér á Innnesjum verið með minnsta móti þessa vorvertíð; en vel hefur fiskast á lóðir í veiðistöðunum undir Vogastapa, og má það verða nokkur bót fyrir fiskileysið, sem þar var í vetur. Bréf úr Snæfellsnessýslu frá 12. maí segir: Vorið frá sumarmálum og hingað að hefur verið kalt, skakviðrasamt og gróðurlaust, skepnuhöld slæm og pest í fénu, aflalaust að kalla við Hellna, á Stapa og fyrir allri Staðarsveit". Bréf úr Múlasýslu syðri frá 21.apríl segir: Tíðarfar hefur verið svo, að einstök harðindi hafa verið síðan fyrir jólaföstu og það til páska [27.mars]; þá fór að batna hér í sumum sveitum, en sumstaðar er lítil eða engin jörð enn þá upp komin, því það setti hér niður svo mikið snjókyngi, að menn muna eigi slíkt, og lítur nú helst út fyrir fénaðarfellir nokkurn, einkum ef illa vorar, því almennt heyleysi er hér um sýslu, svo enginn má heita hjálplegur, en einstaka menn sér bjargandi; litt er að frétta yfir höfuð úr Norðurlandi".
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Í miðjum júní voru fjöll fær. Eftir Jónsmessu norðanstormur og kuldi. Með júlí þurrkar, en 8.-14. gott grasveður og varð snemmgróið, en þó í minna lagi. Sláttur byrjaði í miðjum júlí. Gafst þá hagstætt veður, þó þótti þoku og óþerrasamt til fjallbyggða. Frá 9. ágúst til 13. sept. sífelldir þurrkar og gekk seint sláttur á þurrlendi, með því graslítið var, en vel heyjaðist á flóum og votengi, sem nú var allt að kalla þurrt. Í september, einkum 3., 4., 6., 8., og 9., mjög hvasst af suðri, þar eftir rekjur. Útsynningur 17. sept., mátti ná heyi inn, en ekki að skaðlitlu síðar. Á mánudag 19. sept. í göngum rak niður lognfönn mikla á útheiðum og fimmtudag [22.september] eitthvert mesta norðan-ofsaveður með stórrigning. Nóttina og daginn eftir sama ofviðri með slettingshríð, svo fannir lagði miklar. Lögðu Svínvetningar þá með Vatnsdalssafn út fyrir og náðu með miklum mannafla og besta fylgi daglangt á vatnsbakkann hjá Mosfelli, sem þá var auður. Heiðar og fjöll urðu ófær. Nokkrar kindur fórust af norðansöfnum frá Stafnsrétt, sem yfirgefin voru á fjallinu. Enginn mundi slíkt illviðri og ófærð á fjallbyggðum á þeim tíma, ásamt hungur og hrakning á réttafé. Sauðfjárrekstrar tepptust að öllu frá Stafns- og Kúluréttum, en kaupafólk var komið suður áður. Úr vestursýslu komst sumt af því í mesta fár, en fjárrekstrar komu seinna. Hey, er úti var, fórst að mestu og ást upp yfir allar sveitir, því aldrei tók snjóinn upp, en aðeins kom snöp til fjallbyggða, Sæmundarhlíð og Efribyggð. Í lágsveitum var hey nokkuð upp kraflað 5.-8. okt. Á Vatnsnesi og fram Miðfjörð, á Ströndinni, kring Skaga, Reykjaströnd og Hegranesi kom lítil fönn, en veðurofsinn sami. Engum torfverkum varð við komið.
Norðri segir í ódagsettu júníblaði:
Veðráttufarið hefur dag eftir dag, þenna mánuð til hins 25. verið hverjum degi blíðara og betra, og úrkomur endrum og sinnum, svo að grasvöxtur mun víðast hvar vera orðinn um þenna tíma með besta móti; en nú seinustu dagana af mánuði þessum, gekk veðráttufarið til landnorðurs, með hvassviðrum, kulda, éljagangi og hríð til fjalla, svo þar gjörði nokkurn snjó. Yfir mánuð þenna hefur mjög lítið fiskast, nema á Húnaflóa var sagður fyrir skemmstu mikill afli. ... Fuglatekja er sögð mikil við Drangey, einkum hjá nokkrum þar.
Ingólfur segir 2.júlí:
Kalsa- og vætuveðrátta sú, sem vér síðast gátum um að verið hefði hér á Suðurlandi fram yfir miðjan júnímánuð, hélst til sólstaða. Með þeim komu eðlileg hlýindi og þurrviðri. Vér höfum nú úr flestum héruðum landsins fengið þær fregnir, sem segja léttari og betri afleiðingar vetrarins, enn í raun og veru leit út fyrir. Eftir því sem menn segja, þá hefir veðrátta á Norðurlandi verið betri síðan á hvítasunnu en hér á Suðurlandi; kalsi og vætur hafa þar verið minni, enda er gróður sagður þaðan betri en hér.
Norðri segir frá í júlí:
[16.] Sunnanlands hafði veðráttufarið í vor og allt fram í júnímánuð verið rosa- og óþerrasamt, sem tálmaði góðri verkun á fiski og ull, og eins því, að eldiviður hirtist vel. Fiskiafli varð víða hvar allgóður; og nokkrir höfðu fengið full 12 hundruð, en yfir höfuð var meiri hluti fiskjarins smár og ýsa. Skepnuhöldin urðu þar allvíðast góð og heilbrigði var manna á meðal. Á Vesturlandi voru harðindin víta hvar hin sömu og hér nyrðra og eystra, en heybirgðir og skepnuhöld betri; fiskiafli hinn besti í vetur og allt til páska, ... Á Austurlandi hafði harðindunum algjörlega linnt um hvítasunnu, og hefðu þau staðið þar viku lengur, er mælt að þar hefðu víða orðið skepnur aldauða, og búið var að reka af útsveitum nær því 4000 fjár, og hátt á annað hundrað hross fram í Fljótsdal, Fellin og upp á Jökuldal, sem flest, ef ekki allt, var hýst og gefið hey. Það var og í ráði að reka millum 30 og 40 kýr upp í Fljótsdal utan úr Hjaltastaðaþinghá, og ætlaði stúdent og alþingismaður G. Vigfússon að taka 12, en vegna snjókyngjunnar varð þeim ekki komið, því ekki varð farið bæja á millum nema á skíðum. Frá Reyðarfirði með sjó fram og allt suður í Hornafjörð, er sagt að hafi orðið ærinn fellir af sauðfé, bæði af því, hvað féð var orðið magurt og langdregið, en þó einkum vegna fjársýkinnar er þar eins og víðar, nemur ár hvert meira og minna burtu af fjárstofni manna. Horfur á grasvexti í besta lagi, einkum á deiglendri jörðu; en í móum og harðvelli grasmaðkur, ýmist meiri eða minni, og víða hvar mjög mikið mein að honum, eins og hér á Norðurlandi, hvar hann ollað hefur stórskemmdum í gróðri og grasvexti, og sumstaðar málnytubresti.
[31.] Veðráttufarið hefir seinni hluta mánaðar þessa verið gott, en fremur óþerrasamt, og nokkra daga landnyrðingur með ákafri rigningu.
Ingólfur segir 5.ágúst:
Til júlímánaðarloka hefur hér á Suðurlandi haldist sú hin góða og hagstæða veðurátta, sem vér áður gátum um að byrjað hefði með sólstöðum. Viða heyrast kvartanir um það, að grasvöxtur sé með minna, og sumstaðar jafnvel með minnsta móti; og er það eðlileg afleiðing kalsa þess, sem hélst fram eftir öllu vori, og svo þurrviðranna og sólarbakstursins, sem þá tók við. Aftur hefur nýting verið hin æskilegasta það sem af er.
Þjóðólfur segir 20.ágúst:
Úr héruðunum fjær og nær er sagður grasvöxtur í lakara lagi, helst til allra uppsveita og á valllendi. Þerrilint hefir og verið allstaðar hér sunnanlands, einkum í Skaftafellssýslu, það sem af er slættinum, og eru því víða sagðar hirðingar ekki sem bestar, og að hitna taki í görðum.
Norðri lýsir tíð í ágúst þann 31.:
Aðeins fyrstu dagana af mánuði þessum rigndi nokkuð; voru þá töður orðnar sumstaðar til muna hraktar; en hinn 4. þ.m. hófst sunnanátt með sólskini og þerri allt til hins 12.; nýttust þá töður vel og flestir hirtu tún sín. Síðan, og allt til þessa, hefur jafnast verið hæg norðanátt og stundum kyrrur, og yfir höfuð hagstæðasta heyskapartíð, að svo miklu vér til vitum, yfir allt á Norðurlandi. Grasvöxtur í betra lagi, einkum á deiglendri jörðu. Heyföng munu og víðast hvar um þetta leyti vera orðin meiri en oftar að undanförnu. Þar á móti er sagt að sunnan, að grasvöxtur sé þar í rýrara lagi, og enda sumstaðar með minnsta móti og þá áleið, nýtingin heldur ekki góð. Annars hafði þó veðráttan þar verið hagstæð frá sólstöðum og til júlímánaðarloka.
Ingólfur segir af veðri í septembertölublöðum:
[7.] Allan ágústmánuð hélst hér á Suðurlandi besta og hagstæðasta veðurátta. Það var að sönnu nokkuð vætusamt framan af honum, svo heldur leit út fyrir, að nýting og heyföng manna yfir höfuð mundi verða með lakara móti. En þegar leið á mánuðinn rættist blessunarlega úr þessu, með því að þá kom þurrviðri og stöðugir þerrisdagar. Þannig geta menn vænt þess, ef tíðin breytist ekki því meir, að heygarðar bænda verði í haust þrátt fyrir grasbrestinn allt eins búlegir og í fyrra, að minnsta kosti hér á Suðurlandi, þar sem fyrningarnar voru víðast hvar svo miklar.
[23.] Þegar með byrjun þessa mánaðar breyttist veðrátta hér á Suðurlandi til hins lakara, því til þessa hafa oftast verið þennan mánuð rigningar og rosar með krapaskúrum, svo að snjóað hefur undir húsum. Þó höfum vér heyrt að minna hafi orðið af rigningum víða til sveita, en hér á kjálkanum við sjóinn. Eftir því sem oss berast nú fréttir úr sveitunum bæði fjær og nær, þá láta þær allar vel af árferðinu í sumar yfir höfuð að tala.
Ingólfur birti þann 28.október bréf ísfirðings ritað 15. og 16.september:
Annars hefur hér verið góð tíð og mikið ár í sumar, svo menn muna varla annað eins. Að vísu hefir verið umhleypingasamt síðan um höfuðdag, en varla má heita, að skúr hafi komið úr lofti fyrr enn í gær og í dag það er 16. núna það gjörir hafísinn, sem hér hefir verið við vesturlandið, eða skammt frá því síðan með slætti. Er hér þá oft þokufýla úr hafi og sjaldan skarpur þerrir, en aldrei heldur regn. Hér hefur því heyjast í besta lagi og nýst vel. Hákarlaafli er og í mesta lagi, 300 tunnur mest.
Þjóðólfur segir af tíð þann 24.september:
Að norðan hvívetna er sögð og skrifuð góð sumarveðrátta, allgóður heyafli og besta nýting. En hér sunnanlands hafa þessar, nær því 3 vikna, rigningar og stormar gjört heyskapinn næsta endaslepptan, jafnvel ollað heyskemmdum í görðum sumstaðar, og meinað sjóarbændum alla róðra, enda var mjög fiskilítið áður, hér um öll nes.
Norðri segir í ódagsettu septembertölublaði:
Fyrri hluta mánaðar þessa mátti kalla, að enn héldist hin sama blíða og hagstæða veðurátta; en úr því hófust hvassviður á sunnan, einkum hinn 15. og 16. svo að hér um sveitir gjörði óttalegt útsunnan veður. Hinn 19. var hér mesta stórrigning, og síðan bleytuhríð, meiri og minni, allt til hins 24., svo talsverðan snjó gjörði, einkum til fjalla, hvar menn enda halda að fé hafi ekki óvíða fennt. Aðfaranóttina hins 22. kom svo mikið landnorðanveður, að fáir þóttust muna þvílíkt hér innfjarðar. Heyföng eru víðast hvar orðin mikil, og nýting á þeim hin besta, þó mun hey allvíða enn úti. 6. [september] logaði upp í töðuheyi Hrólfs bónda á Öngulsstöðum í Eyjafirði; sagt var, að þar hefðu brunnið 30 hestar, sem súldað var saman í óþerrunum í sumar, og hefði ekki vindstaðan á sömu stundu breytt sér, þá mundu fleiri hey og bærinn hafa verið í voða.
Þann 31.mars birti Norðri pistil um skipskaða sem líklega varð í september:
Þilskipaskaðar: Þess var getið í janúar [tölublaði Norðra bls.7] að 2 jagtir [úr Hafnarfirði og frá Ísafirði] hafi brotnað við Vesturland [í októberveðrunum], en síðan hefur verið ritað, að þetta hafi ekki verið þann veg, heldur svo, að jagtirnar hafi lagt út fyrir hin miklu veður í september og ekkert til þeirra spurst. Það er því meining manna, að þær muni með öl!u týndar. Þilskip þessi höfðu verið góð og skipverjar ungir og duglegir.
Þann 22.september segir Jón Austmann í Ofanleiti: Ofsaveður, fjúkkrapi og þann 29. segir Þorleifur í Hvammi frá ökklasnjó sem féll um nóttina í sjó niður.
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
Stillt og frost var lengst um haustið, að mestu autt í lágsveitum eftir 6. okt. Urðu þá seinni göngur en miðréttir gjörðar í septemberlok. Eldiviður skemmdist og aldrei tók klakann norðan úr hlöðunum. Eftir áfellið var stillt frostveður, þíðulaust og fjúkalítið til 18. og 20. okt., fimmtudaginn síðasta í sumri, að mikla hríð og fönn gjörði. Föstudag mesta harka og strax á eftir norðanrigning, er skeljaði fönn, svo jarðlaust varð á Skagafirði. Var þá lítt fært yfir jörð utan á skíðum, er nú fjölgaði óðum hjá heiðargöngumönnum. Með nóvember skipti um til óstöðvunar með blotum, snjókomum og oft bleytifjúki. Var oftar snöp og hér vestra nóg jörð til 22. nóv., þá svellgaddur byrgði þá. Voru þá hross og fé orðið magurt og illa undirbúið að taka á móti hörðum vetri. Blotar og köföld gengu á víxl til 12. des., Tók allvel upp til lágsveita fyrir jólin. Var þá mikill hrossafjöldi kominn þar á hagagöngu. Gömul hross og folöld voru nú mörg drepin, því mörgum þótti hross of mörg.
Norðri segir fréttir í ódagsettu októberblaði:
Veðráttan yfir þenna mánuð hefur oftar verið hæg, og logn hér innfjarðar, en norðlæg og sjaldan frostlaust. Snjófallið er því enn víða hvar, að kalla, hið sama og það varð á dögunum, og meiri og minni jarðbannir á sumum útsveitum, síðan i næstliðnum mánuði, svo peningar lenti hér og hvar, að nokkru og sumstaðar að öllu, á gjöf. Heyskapur manna varð því víðast mjög endasleppur. Hey urðu allvíða meira og minna úti, og eldiviður margra var ekki kominn í hús fyrir ótíð þessa. Skepnur gátu því ekki, sem venjulegt er, tekið neinum haustbata. Skurðarfé reyndist í rýrara lagi, einkum á mör. Fjárheimtur urðu og víða ekki góðar, auk hins, sem menn vissu til, að ekki allfátt hafði fennt, sem sumt fannst dautt eða lifandi. Í hinum miklu veðrum, hinn 16. og 21.22. [september], urðu ýmsir fyrir tjóni á heyjum sínum og skepnum, og enda hér og hvar á húsum, því t.d. er sagt, að 2 timburkirkjur nýbyggðar fokið hafi um koll á Vesturlandi, að Gufudal 16.[september], og aftur að Reykhólum á Reykjanesi 21. s.m. Um sama leyti fuku og brotnuðu 7 skip í Fljótum, Siglufirði og Héðinsfirði og sum þeirra í spón. Þá var og sagt, að fokið hefðu 40 hestar af töðu í Höfn í Siglufirði, og á Hvanneyri tekið 1 eða jafnvel 2 hey ofan að fyrirhlöðuveggjum, og 1 á Myrká í Hörgárdal. Veðrið hafði og á nokkrum stöðum slengt kindum svo hart til jarðar, að fundust dauðar. Það er og sagt, að heyskaðar hafi orðið bæði vestra og syðra, t.a.m. í Kjalarnesi, um Borgarfjörð og fyrir austan Hellisheiði. Þá hafði og flætt 60 fjár í Hvanneyrarsókn í Borgarfirði, og er mælt að Teitur nokkur bóndi á Hvanneyrarskála hafi átt af því fé helminginn. Í téðu landnorðanveðri [16.september] var kaupskip eitt, er fara átti til Skagastrandar og Grafaróss verslunarstaða, fermt korni og annarri vöru, komið inn á Húnaflóa þá veðrið brast á, jafnframt og þar var kominn að skipinu verslunarfulltrúi J. Holm, til þess sjálfur að geta náð til þess, og fylgt því inn á höfn; en nú hlaut skipið að láta berast undan veðrinu og stórsjónum, inn á Reykjafjörð eða Kúvíkur, hvar það lagðist við akkeri, en sleit upp, og bar þar að landi, og brotnaði mjög, samt varð mönnum og hinu mesta af farminum bjargað, er síðan var selt við opinbert uppboð, og er sagt að þar hafi, sem venja er til við slík tækifæri, fengist góð kaup. Skipverjum er sagt að hafi verið fylgt til Reykjavíkur.
Ingólfur segir af árferði í pistli þann 28.október:
Ingólfur gat þess seinast, að veðráttufarið hefði verið fremur stirt í september, og hélst það við fram yfir réttir, svo að heita mátti rétt fullkomið vetrarfar um tíma. En þegar leið undir enda mánaðarins batnaði aftur veðráttan, svo að hver dagurinn hefur mátt heita öðrum betri sumarið út.
Norðri segir frá sköðum í októberveðrum þann 31.desember:
Hinn 21. október létti briggskipið Þingeyri, eign Örum og Wúlffs, akkerum sínum af Vopnafjarbarhöfn, og var komin skammt á leið út eftir firðinum, þá landnorðanveður brast á, svo hún hlaut að láta berast til baka undan veðrinu inn að hólmum þar utan við höfnina, hvar hún varpað 3 akkerum, og lá við þau um nóttina í ofviðrinu, í sjó og brimi; en morgninum eftir hafði veðrinu nokkuð slotað, svo skipverjar freistuðu þá að komast inn á höfnina; en vegna hvassviðris, er allt í einu rauk á, straums og brimólgu, fleygði skipinu þar að skerjum og grynningum við hinn svonefnda Varphólma, hvar það festist og þegar kom gat á það, og sjór þar inn í sömu svipan; en fyrir stakan dugnað skipverja og annarra, varð farminum að mestu bjargað óskemmdum.
Aðfaranótt hins ofannefnda 22. október brotnuðu 2 bátar eða för í veðri og brimi á Látraströnd. Það er og sagt, að hákarlaskip og 3 bátar hafi brotnað í Ólafsfirði, og nokkur róðrarskip á Skagaströnd.
Ingólfur segir af árferði þann 30.nóvember:
Síðan veturinn byrjaði hefur veðrátta hér á Suðurlandi mátt heita mjög stirð; veður hefur verið næsta umhleypingasamt, ýmist með snjógangi af útsuðri, eða blotum af landsuðri og frosti þess á milli. Eftir veðráttufarinu hafa gæftirnar verið stirðar; en þá sjaldan sem gefið hefur á sjó, hefur þó aflast til matar hér á innnesjum; aftur hefur til þessa verið fiskilaust í veiðistöðunum syðra, ...
Norðri segir frá sköðum í nóvemberveðri þann 31.desember:
Nóttina hinn 17. nóvember hafði gjört fjarska veður á útsunnan á Suðurlandi, sér í lagi í Innnesjum, svo að 2 kaupskip sem lágu á Reykjavíkurhöfn, og sagt er að tilheyrt hafi kaupmanni Siemsen, krakaði út fyrir rif nokkurt, er liggur utan við höfnina, svo að undan öðru gekk strákjölurinn, en af hinu brotnaði bugspjótið. ... Um þær mundir að Norðanpósturinn fór úr Reykjavík, (17. nóvember) hafði gjört mikla fönn, allt upp í Borgarfjörð og um Mýrar, sem líklegast hefur bráðum tekið upp aftur.
Norðri segir í ódagsettu nóvemberblaði:
Fyrir tæpum 3 vikum síðan fréttist að sunnan, að þá hefði þar verið góð tíð og snjólaust að mestu, allt norður undir Holtavörðuheiði, en aflalaust að kalla á Innnesjum; matvælabrestur í kaupstöðum, og horfur á að hart mundi manna á millum. Í framsveitum og helst til dala í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum var sögð allt að þessu nokkur jörð, og ekki farið að gefa fullorðnu fé til muna; þar á móti harðindi á öllum útsveitum. 4. og 11.[nóvember] gjörði hér blota, svo að nokkur jörð kom upp, þar áður hafði verið snjólítið, en að líkindum hleypt í meiri gadd þar snjóþyngsli eru. Fyrir skömmu síðan er sagt, að millum 30 og 40 sauða hafi orðið í snjóflóði á Lundi í Fnjóskadal í Suður-Þingeyjarsýslu. Á Bæjarklettum fyrir utan Hofsóskauptún er sagt, að þar hafi brotið tvö skip í spón.
Þjóðólfur segir lítillega af tíð þann 17.desember:
Vér höfum fengið fréttir að vestan og norðan og austan yfir fjall. Eftir þeim hefir vetrarfarið verið hvað þyngst hér sunnanfjalls og orðið hvað mest úr blotum og jarðbanni; því víða var hér orðið hagskart; en úr því bætti hlákan í byrjun þ. mán., svo nú eru hér víðast syðra allgóðir hagar. Vestra hafði víðast orðið mesta snjókyngi, og eins upp til dala í Húnavatnssýslu, en hagar voru þar víðast miðsveita um mánaðamótin.
Norðri segir tíð í tveimur pistlum í desember:
[16.] Hið helsta, er vér frétt höfum, með austan- og norðanpóstunum sem komu hingað á Akureyri 2. og 6. [desember] er þetta: Að í Múlasýslum hefði næstliðið sumar viðrað svipað því og hér nyrðra; eins verið með grasvöxt, heyafla og nýtingu, og áfellið, sem kom í september, orðið þar víða stórkostlegt, og fé fennt; sumstaðar orðið hagskart fyrir áfreða í byggð, en á fjöllum uppi vegna snjóþyngsla. Aftur hafði hlánað þar í næstliðnum mánuði [nóvember], svo að víða varð örís, og hvervetna við sjávarsíðuna, norðan með, allt inn fyrir Húsavík, gott til haga. Þar á móti á Jökuldal og Hólsfjöllum snjómeira, og hart í Mývatnssveit, svo og víðar til framsveita og dala í Þingeyjarsýslu. Hér um sveitir er víða nokkur jörð, óvíða góð, og á útsveitum sumum jarðbannir. Í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum er sögð víða hvar góð jörð, en þá aftur harðara í sumum sveitum. Af Vesturlandi höfum vér ekki nýskeð greinilega frétt; en syðra tjáist hafa við sjávarsíðuna verið góð tíð með snjóleysur; í seinustu sumarvikunni lagði þar svo mikinn snjó til fjalla, að stóðhross fenntu og nokkur þeirra til dauðs; og svo lagði mikla fönn um allar uppsveitir í Árnessýslu, að fá dæmi þóttu svo snemma í tíma; aftur fölvaði varla í sveitum þar er liggja með sjó fram. Það hafa menn fyrir satt, að fé hafi víða fennt, enda eru heimtur hér og hvar ekki góðar. Yfir höfuð hefur skurðarfé reynst í lakara lagi, einkum á mör.
[31.] Seinni hluti mánabar þessa hefur hér og þar, sem til frést, verið miklu veðurstilltari en lengi að undanförnu, og besta hláka um sólstöðurnar, svo nú er víða komin upp næg jörð fyrir útigangspening, enda mun það allstaðar hafa komið sér vel í þarfir, og ekki síst þar, sem mjög hafði sorfið að með jarðbannir síðan í haust, er áfellið dundi yfir. Hey og eldiviður varð víða úti, auk heyskaðanna í hinum mikla veðrum 16. og 21. september. Fiskiaflinn er hér enn innfjarðar hinn sami og áður, og eins fyrir Tjörnesi þá róið hefur verið og beita góð.
Ingólfur ræðir árferði 6.janúar 1854:
Vér gátum þess í seinasta blaði voru, að vetur hefði allt að nóvembermánaðarlokum mátt heita næsta umhleypingasamur hér á Suðurlandi, og verulega harður til allra sveita, þó að frost væri alltaf væg. Sama veðurreyndin hélst og til miðju desembermánaðar; en þá skipti um með sæluvikunni til mesta bata; snjó og klaka hefur leyst upp hér syðra, því þíðviðri hefur oftast verið með hægri rigningu, eða þá einstöku kæludagar með litlu frosti; og þannig skilur nú árið við oss blítt og blessað. Síðan batnaði hefur verið róið hér á Seltjarnarnesi og alfast allvel; minna er oss kunnugt um aflabrögð í öðrum veiðistöðum; en þó höfum vér heyrt, að nokkur afli væri farinn að gefast i veiðistöðunum syðra og fer það að vonum, að enn sannist sem fyrr, að þá er hjálpin næst, þegar neyðin er stærst. Þegar þá á allt er litið, má með sanni telja þetta hið liðna ár 1853 meðal hinna mörgu góðu áranna, sem nítjánda öldin hefur leitt yfir land vort, og vér getum ekki annað sagt enn að það sé áframhald undanfarinnar árgæsku. Raunar hefur á ári þessu brytt á ýmsum annmörkum og erfiðleikum venju framar nú um langan tíma; teljum vér til þess vetrarríki í sumum sveitum, fiskileysi í sumum veiðistöðum, matarskort í sumum kaupstöðum og sóttferli, sem hefur stungið sér niður í sumum héruðum, þó ekki hafi mikil brögð að því orðið. En af því að þetta hefur ekki gengið almennt yfir, og öllum nauðum hefur til þessa af létt áður vandræði yrðu úr, þá getum vér ekki talið þetta annað en eins og smákálfa, sem eiga að minna oss á magrar kýr, svo að vér ekki innan um glaðværðir góðu áranna gleymum forsjálni og fyrirhyggju Jósefs hins egypska.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1853. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 28
- Sl. sólarhring: 131
- Sl. viku: 2475
- Frá upphafi: 2434585
Annað
- Innlit í dag: 25
- Innlit sl. viku: 2199
- Gestir í dag: 25
- IP-tölur í dag: 25
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.