Illviðrametingur (enn)

Á dögunum kom sú spurning fram hver væri mestur þekktra illviðramánaða - (og hvort sá núlíðandi væri með í keppninni). Við vitum kannski ekki alveg hvernig best er að svara spurningum sem þessum. Stundum gerir t.d. býsna útbreidd illviðri - en samt verða sárafáir varir við þau - nú eða þá að furðumikil vandræði verða af veðri sem er í raun mjög staðbundið, en hittir illa á af einhverjum ástæðum. Svo er það sem kallað hefur verið tjónnæmi síbreytilegt í tímans rás eins og oft hefur verið rætt um hér á hungurdiskum áður. 

Sumt af því sem hér fer á eftir fékk nákvæmari umfjöllun í pistli þann 21.janúar 2018 - og geta áhugasamir rifjað hann upp.

En það er samt hægt að leggja út einhverjar mælistikur. Sú sem ritstjóri hungurdiska hefur notað lengst telur það sem hann kallar ofviðradaga - og miðar eingöngu við vind. Þar hefur hann einkum notað tvær mismunandi skilgreiningar. Sú sem lengur hefur verið í notkun [köllum hana I) telur á hversu stóru hlutfalli veðurstöðva vindur nær 20 m/s (10-mínútna meðalvindhraði) einhvern tíma sólarhrings. Dagur telst með hafi mörkunum verið náð á fjórðungi allra veðurstöðva í byggð á hverjum tíma. Hin reiknar hins vegar meðalvindhraða á landinu öllu (eða einstökum spásvæðum) [köllum hana II], sé meðalvindhraði sólarhrings meiri en 10,5 m/s telst dagurinn með. Ekki skila aðferðir þessar sömu dögunum. Það má líka blanda skilgreiningunum saman - annað hvort í lina kröfu (dagur fullnægi annarri hvorri skilgreiningunni eða báðum) - eða harða (dagur teljist ekki með nema hann fullnægi báðum skilgreiningum). Við skulum ekki velta okkur frekar upp úr slíku hér.

Á undanförnum 20 árum hafa miklar breytingar orðið á veðurathuganakerfi landsins. Sjálfvirkar stöðvar hafa tekið við af mönnuðum. Framtíðin er í sjálfvirku mælingunum. Samanburður á mælikerfunum tveimur sýnir þó að þau eru í aðalatriðum sammála um það hvaða dagar skuli teljast ofviðrisdagar - fjölda á ári skeikar að jafnaði ekki nema 1 til 2 dögum og stundum engum. 

Í því sem hér fer á eftir horfum við aðallega á mönnuðu stöðvarnar. Byrjum á því að líta á fjölda ofviðrisdaga á ári aftur til 1949.

w-blogg220120a

Á þessu tímabili voru dagarnir flestir á árinu 1975, 26 talsins, en fæstir 1960, aðeins tveir. Á síðari árum voru þeir flestir árið 2015, 19 (18 í sjálfvirka kerfinu), en fæstir 2009, aðeins 4 (líka 4 í sjálfvirka kerfinu). Fyrstu 3 vikur janúar í ár eru þeir orðnir 7 í sjálfvirka kerfinu - heldur ótrúlegt er að þeir verði ekki fleiri á árinu (en rétt að muna að um það vitum við að sjálfsögðu ekki neitt á þessu stigi).

Ritstjórinn hefur einnig útbúið lista yfir ofviðrisdaga allt aftur til 1912 - ekki er sá listi alveg sambærilegur - nema að á honum eru ábyggilega flest eða allflest mestu illviðri þess tímabils. Illviðradagar á því tímabili voru flestir 1913, en fæstir 1915 og 1939.

Eins og við sjáum á myndinni að ofan virðist ekki vera um neina langtímaleitni að ræða, en hins vegar töluverðan áratugabreytileika. Svo vill til að töluverð fylgni er á milli illviðratíðni og þrýstibreytileika frá degi til dags (þrýstióróa). Hann hefur verið mældur hér á landi í rétt tæp 200 ár - og sýnir töluverðan breytileika á áratugakvarða - þá í takt við ofviðratíðnina síðustu 70 árin. Freistandi er að draga þá ályktun að það eigi líka við hin 130 árin. Í pistli sem birtist á hungurdiskum 25.janúar 2016 má lesa um langtímabreytileika óróavísisins. 

Illviðri, eins og þau eru skilgreind hér að ofan eru fullfá til þess að samanburður verði gerður á einstökum mánuðum. Með því að slá af kröfum og reikna stormhlutfall allra daga mánaðar og leggja saman fæst heldur vitrænni samanburður (eða þannig). 

Þá má svara spurningunni: Hver er illviðrasamasti mánuður síðustu 70 ára? Það reynist vera janúar 1975, í öðru sæti er febrúar 1989 og febrúar 1973 í þriðja sæti. Lítum við eingöngu á tíma sjálfvirku stöðvanna - frá 1997 að telja lendir febrúar 2018 í fyrsta sæti, og febrúar 2003 í öðru. Það er reyndar svo að janúar 2020 á enn góða möguleika í fyrsta sætið - þrátt fyrir að meir en vika lifi mánaðar. Reiknum við meðalvindhraða mánaðarins er það desember 1992 sem er á toppnum og janúar 1994 sem er í 2.sæti. Á sjálfvirku stöðvunum er það febrúar 2015 sem er efstur (en janúar 2020 á möguleika).

Förum við í þrýstióróaskrána - alla - er það janúar 1923 sem er efstur og órólegastur mánaða, síðan koma desember 1894 og janúar 1949, janúar 2015 er mjög ofarlega, í 5.sæti (af nærri 2400 mánuðum). 

Við getum líka svarað því hvaða veður eru „verst“ - eiga hæst stormhlutfall. Á toppnum er veðrið mikla 3.febrúar 1991, síðan koma í röð: 14.mars 2015, 5.janúar 1952, 14.janúar 1975, 18.febrúar 1959 og 17.febrúar 1981 (Engihjallaveðrið). Á sjálfvirku stöðvunum er það 10.nóvember 2001 sem er í efsta sæti. Í skránni sem nær til áranna 1912 til 1948 er veðrið 16.september 1936 í fyrsta sæti (Pourqoui Pas? - veðrið) og veðrið 15.janúar 1942 í 2.sæti. 

Við getum líka spurt um verstu veður hverrar (ríkjandi) vindáttar 1949 til 2019 - í sviga eru veður á tímabilinu 1912 til 1948: Versta norðanveðrið: 16.janúar 1999 (12.desember 1935), norðaustan: 14.janúar 1975 (28.febrúar 1941), austan: 15.desember 1986 (2.desember 1929), suðaustan: 15.nóvember 1985 (15.janúar 1942), sunnan: 3.febrúar 1991 (16.september 1936), suðvestan: 5.janúar 1952 (12.febrúar 1913), vestan: 28.desember 1980 (5.mars 1938), norðvestan: 16.janúar 1995 (4.nóvember 1933). 

Látum gott heita.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í öllu þessu illviðri - og illviðrametingi - virðist sem þú hafi gleymt að gefa okkur hinum veðurnördunum upplýsingar um veðurfar fyrstu 20 daga mánaðarins, eins þú gerir nú yfirleitt Trausti.

Er nokkur sjens að fá að sjá þær hjá þér núna áður en mánuðurinn er liðinn?

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 23.1.2020 kl. 10:17

2 Smámynd: Trausti Jónsson

20-daga pistillinn er - eins og venjulega - á fjasbókarsíðu hungurdiska - ertu búinn að segja þig úr hópnum?

Trausti Jónsson, 23.1.2020 kl. 10:52

3 identicon

Já fyrir löngu. Kvarúlanti eins og mér var ekki vært þarna meðal þvílíkra göfugmanna sem þar eru samankomnir.

Reyndar er hægt að stelast þar inn og sjá dýrðina frá þér, en mér hefur eftir þessum upplýsingum frá þér yfirsést hana í þetta sinn.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 23.1.2020 kl. 20:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 971
  • Frá upphafi: 2341345

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 889
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband