11.12.2019 | 21:49
Illviðrametingur (rétt einu sinni)
Fyrst má endurtaka það sem ritstjóri hungurdiska sagði undir lok pistils sem hann ritaði um halaveðrið svonefnda nú fyrir nokkrum dögum: Hríðarveður geta nú á dögum valdið margs konar töfum og raski sem er kostnaðarsamara en margur hyggur. Ætti nú fleirum að vera þetta ljóst. Mat á því hvort eitt veður er verra en annað grundvallast á tveimur meginþáttum, annars vegar er spurt um hvort veðrið sem slíkt (vindur, hiti, úrkomumagn, úrkomutegund) sé meira eða minna, snarpara eða langvinnara (svokallað tjónmætti), en hins vegar er einnig tekið tillit til þess hvað það er sem fyrir því verður. Einhverjar (minniháttar) breytingar verða sjálfsagt í tímans rás á samspili veðurþáttanna sjálfra, en mun meiri breytingar hafa orðið og munu áfram verða á viðfanginu, því sem stundum er kallað tjónnæmi. Tjónnæmi er reyndar orð úr smiðju ritstjóra hungurdiska, orðið til úr algjörri neyð á sínum tíma. Síðar rakst hann á betra orð yfir fyrirbrigðið, húf, en hvort einhver fæst til að taka það upp er annað mál. Húf (nú - eða tjónnæmi) er aftur samsett úr nokkrum þáttum - um það má lesa í allítarlegum pistli hungurdiska (skyldulesning raunar - fyrir alla sem láta sig náttúruhamfarir einhverju varða.
Ritstjórinn hefur löngum stundum setið yfir frásögnum af tjóni af völdum veðurs. Við slíkar setur kemur fljótt í ljós hvað tjón í samskonar veðrum hefur verið misjafnt frá einum tíma til annars. Fyrir 100 árum (1919) lágu fáeinar símalínur um landið - þær voru sífellt að slitna, ljósaþræðir (raflínur) voru aðeins innanbæjarfyrirbrigði (á örfáum stöðum) og þráðlaust samband nærri því ekki fyrir hendi (loftskeyti voru þó komin til sögunnar - en alls ekki í almenningseign) útvarp eða sjónvarp ekkert. Veður eins og það sem þessa dagana er að ganga yfir landið gat því ekki fyrir 100 árum valdið verulegu tjóni á þessum innviðum - og gerðist það skipti það engum sköpum. Aftur á móti voru flestar hafnir landsins fullkomlega óvarðar, varla mátti hvessa til þess að ekki yrði stórtjón á bátum og bryggjum, bátar fórust við strendur landsins og á rúmsjó, sauðfé drukknaði í fjörum og menn sem stóðu yfir fé urðu úti. Samgöngur milli byggðarlaga á vetrum voru svo stopular að eitt hríðarveður - þó mikið væri - skipti engu um þær.
Það er því ekki auðvelt að bera áhrif illviðra saman. Veigalítið veður fyrir 100 árum kann að vera mjög veigamikið í dag - og öfugt.
Við getum þó borið saman veðurþættina - eða getum við það? Um þessar mundir eru að verða miklar breytingar á veðurathugunarkerfinu, sjálfvirkar athuganir koma í stað mannaðra. Eins og gengur fylgja bæði kostir og gallar þessum breytingum. Einn gallinn er sá að þessi tvö ólíku kerfi eru ekki alveg samanburðarhæf á öllum sviðum - ekki síst þegar kemur að veðrametingi - hvaða veður er verra en hitt. Um síðir mun verða lagt í þá samanburðarvinnu sem nauðsynleg er en því er langt í frá lokið. Ritstjóri hungurdiska hefur að vísu unnið mikið í þeim málum, en ekki er það allt skothelt (hann veit það best sjálfur) og mjög margt ógert.
En í dag (miðvikudag 11.desember) var mikið spurt um hvort illviðrið sem gengur yfir sé að einhverju leyti óvenjulegt. Stutta svarið er það venjulega: Það fer eftir því hvað menn telja óvenjulegt. Auðvelt er líka að svara á ská: Jú, þetta var alvöruveður, veigamikið veður. Það hitti hins vegar fremur illa í sólarhringinn. Fyrri daginn náði það alls ekki nema til helmings landsins (sem þýðir að meðalvindhraði á landinu í heild var ekki sérlega mikill) og síðari daginn var það farið að ganga niður síðdegis - líka til baga í toppsætakeppni. Við vitum hins vegar af miklum illviðrum fortíðar - með ámóta vindhraða sem stóðu í tvo eða fleiri sólarhringa.
Ljóst er að úrkoma var mjög mikil, en snjór mælist illa í hvassviðri - og snjódýptarmælingar eru mjög erfiðar dragi mikið í skafla. Við vitum að ísingar gætti mjög víða. Margt er um ísingu vitað og tjón af völdum hennar er mjög vel þekkt áratugi aftur í tímann. Til þess að gera ætti að vera auðvelt að uppfæra viðgerðakostnað tölulega, en meira mál er að norma tjónið miðað við breytingar á húfi (tjónnæmi) línukerfisins síðustu áratugi (og ekki endilega áhugi á slíkri vinnu). Ljóst má þó vera að afleiðingar samskonar línubilunar geta verið meiri nú en var - að rafmagn færi af 5 sveitabæjum í sömu sveit í viku árið 1965 var óþægilegt, en e.t.v. ekki svo óskaplega kostnaðarsamt. Nú eru möguleikar á verulegu tjóni miklu meiri, mun fleira er háð rafmagni og fjarskiptum en áður var. Við höfum þegar frétt af tjóni af völdum brims og meira að segja af sömu slóðum og í líkum veðrum fyrri ára - en tjónnæmi er líka mjög breytt frá því sem var.
Þó skipting veðursins á tvo sólarhringa hafi spillt fyrir röðun þess á landslistum urðu ákveðin svæði illa úti og met voru sett. Það á einkum við um Strandir og trúlega austanverða Barðastrandasýslu, mikinn hluta Húnavatnssýslu, á stöku stað á utanverðum Tröllaskaga og á annesjum austur að Rauðanúpi. Annað svæði sem varð illa úti liggur til suðurs úr Húnavatnsýslum, met virðist hafa verið sett á Þingvöllum og óvenjuhvasst var sums staðar í uppsveitum Árnessýslu. Sama á við um Vestmannaeyjar, algengustu veður þar eru af austri, en norðanveður af þessum styrk sem eru ekki mjög algeng þar í kaupstaðnum - mælirinn þar fór þó ekki sérlega hátt. Það gerði hins vegar hafnarmælirinn við Básasker. Vindur var furðuhægur á sunnanverðum Vestfjörðum og þó veður væri slæmt á Snæfellsnesi var það alls ekki óvenjulegt - mörg svona veður gerir þar á hverju ári - sömuleiðis á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli.
Lengjum við svarið aðeins verður það svona: Veðrið var nokkuð óvenjulegt hvað ísingu varðar og óvenjuleg veðurharka varð um hluta landsins - á því svæði þar sem rauð veðurviðvörun hafði verið sett á. Við höfum þó varla frétt enn af öllu tjóni - snjóflóð gætu t.d. hafa fallið fleiri en við höfum af frétt og fleira fokið. Afleiðingarnar eru hins vegar allmiklar - en það er einkum vegna samfélagshúfs - röskunar af ýmsu tagi.
Við skulum samt líta á nokkrar tölur. Ritstjóri hungurdiska hefur tekið saman lista yfir meðalvindhraða bæði sólarhrings og klukkustunda á spásvæðum Veðurstofunnar. Listinn nær til allra daga allra ára frá og með 1.janúar 1998 til og með 11.desember 2019 (síðasta degi reyndar ekki alveg lokið - og lækkar hann e.t.v. á listunum), 7650 dagar alls, 183600 klukkustundir. Mesti meðalvindhraði alls tímabilsins á hverju spásvæði fyrir sig lendir í fyrsta sæti.
Myndin skýrist sé hún stækkuð - hana má einnig finna í viðhengi - mun skýrari (pdf-skrá). Taflan hér að ofan er dregin úr stóru töflunni - 10. og 11.desember 2019 valdir úr. Við sjáum að dagurinn í dag, 11.desember var sá hvassari við Faxaflóa, sólarhringsmeðalvindhraði á öllum stöðvum á spásvæðinu var 13,6 m/s, en hefur 138 sinnum orðið meiri. Dags sem þessa er því að vænta að meðaltali um 6 sinnum á ári. Svipað er við Breiðafjörð. Mestu tíðindin eru brúnmerkt. Dagurinn í dag er í öðru sæti á listanum bæði á Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra - og gærdagurinn ekki langt undan. Þetta þýðir (ef við tökum þessar tölur bókstaflega) að jafnhvasst verður á þessum slóðum aðeins einu sinni á áratug - eða svo. Við megum þó ekki taka þetta allt of hátíðlega - margt gagnrýnivert í listaverkinu. Sýnir þó að veðrið var næsta óvenjulegt í þessum landshlutum - og kannski enn óvenjulegra þegar úrkoma og hitafar er komið inn í dæmið líka.
Veðrið er líka mjög ofarlega á klukkustundalistanum og nær 7 af efstu tíu sætunum á Ströndum og Norðurlandi vestra (ekki þó tveimur efstu). Á Norðurlandi eystra ná tvær klukkustundir þessa veðurs inn á topp-tíu (6. og 10.sæti). Á Austurlandi að Glettingi er efsta klukkustundin í 16.sæti. Á öðrum spásvæðum telst veðrið vart til tíðinda.
Á þessum listum er norðanveðrið mikla í byrjun nóvember 2012 (sem kennt hefur verið við Höfðatorg) mjög ofarlega. Það muna margir enda stóð það hátt á þriðja sólarhring. Sömuleiðis er veður snemma í febrúar 2002 (náði hámarki þann 2.) ofarlega. Við skulum rifja upp færslu í veðuratburðaskrá ritstjóra hungurdiska:
Fyrstu helgi mánaðarins gerði mikið norðanveður sem olli tjóni allvíða um vestan- og norðvestanvert landið og samgöngutruflunum víða um land. Talsvert tjón varð á nokkrum bæjum í Staðarsveit. Margar rúður brotnuðu í Lýsuhólsskóla og fólk varð þar veðurteppt, þar skemmdist einnig bíll, hesthús skemmdist á Lýsuhóli, hluti af fjárhúsþaki fauk á Bláfeldi og þar urðu fleiri skemmdir, gömul fjárhús og hlaða fuku í Hlíðarholti og refahús skemmdist í Hraunsmúla. Gamall fjárhúsbraggi eyðilagðist á Framnesi í Bjarnarfirði. Bílar fuku af vegum á Kjalarnesi, undir Ingólfsfjalli og tveir í nágrenni við Blönduós. Á Blönduósi varð mikið foktjón í iðnaðarhúsnæðinu Votmúla, rúður brotnuðu þar í fleiri húsum og bifreiðastjórar í nágrenninu óku út af vegum. Skaðar urðu á Hvammstanga. Nokkuð foktjón varð í Reykjavík og loka þurfti Sæbrautinni vegna sjógangs. Víða urðu miklar rafmagnstruflanir. Bifreiðir fuku út af vegi undir Ingólfsfjalli og í Kollafirði, báðir bílstjórar slösuðust. Bíll sem kviknaði í við Haukaberg á Barðaströnd fauk síðan út af veginum. Brim olli talsverðu tjóni á Drangsnesi. Prestsetrið í Reykholti skemmdist lítillega þegar byggingarefni fauk á það. Mikill sjógangur var á Suðurnesjum og flæddi sjór í nokkra kjallara í Keflavík og þar skaddaðist sjóvarnargarður og hluti Ægisgötu fór í sjóinn. Flutningaskip lentu í vandræðum í höfninni á Sauðárkróki.
Sömuleiðis er ofarlega mikið veður sem gerði um miðjan janúar 1999. Segir í sömu skrá:
Allmiklir fokskaðar víða um land, mest þó sunnan- og suðaustanlands. Útihús fuku á nokkrum bæjum, járnplötur fuku og rúður brotnuðu, bílar stórskemmdust af grjótflugi og mótauppsláttur fauk. Maður slasaðist er hann fauk af skemmuþaki á Höfn í Hornafirði og barst 30 metra, skemmdir urðu einnig á þakinu. Minniháttar foktjón varð á höfuðborgarsvæðinu, rúður brotnuðu í nokkrum húsum og lausamunir fuku um. Brim bar grjót á Sæbraut. Jeppi fauk af vegi við Klifanda í Mýrdal og annar bíll skemmdist þar af grjótflugi. Rúður brotnuðu í húsum í Vík og nokkrir bílar skemmdust. Fjóshlaða eyðilagðist og efri hæð íbúðarhúss í Berjanesi undir Eyjafjöllum. Fjóshlaða eyðilagðist að Steinum, þar skemmdust einnig flestar vélar og bílar. Þak fauk af hlöðu í Vallatúni, þar brotnuðu rúður í húsum og farartækjum, tjón varð á fleiri bæjum. Ferðafólk lenti í hrakningum í Öræfum og Skeiðarársandur lokaðist vegna sandfoks. Gámur fauk í Vestmanneyjum og skemmdi trillu, nokkuð tjón varð á húsum. Jeppi fauk í Hólmanesi skammt frá Eskifirði. Hluti þaks fauk af samkomuhúsinu Höfða í Svarfaðardal, helmingur fauk af gömlu fjósi á Hæringsstöðum, skemmdir urðu þar einnig á vélum. Mikið snjóflóð féll á bænum Birkihlíð í Ljósavatnsskarði og eyðilagði skemmu og dráttarvélar. Mikil snjóflóð féllu þá í Dalsmynni.
Vindasamanburður þessi nær aðeins aftur til 1998. Allmörg eldri veður koma upp í hugann - snjóflóðaveðrin miklu 1995 auðvitað, en hvað ísingu varðar má rifja upp fyrstu daga janúarmánaðar 1991:
Stórkostlegt tjón varð á raflínum í miklu ísingarveðri norðanlands, um 500 staurar brotnuðu. Rafmagns- og símasambandslaust var dögum saman og hitaveitur stöðvuðust í rafmagnsleysinu. Miklar samgöngutruflanir urðu í nokkra daga. Bílar fuku af vegum og tjón varð á húsum á Snæfellsnesi, Siglufirði, í Eyjafirði og í Þingeyjarsýslum. Það brotnaði úr sjóvarnargarðinum Ólafsvík og sjór gekk inn í frystihús í Innri-Njarðvík. Sjór bar grjót upp á bryggjur á Ólafsfirði, þar fuku tveir gámar. Allmiklar skemmdir urðu á íbúðarhúsi á Siglufirði og plötur fuku af mörgum húsum, bílar skemmdust. Þak fauk af hlöðu á Glæsibæ í Sléttuhlíð í Skagafirði. Þak fauk af íbúðarhúsi á Akureyri, rúða brotnaði og tveir skárust á Húsavík, hluti af þaki íþróttahúss á Blönduósi féll saman í hvassviðri, hesthús skemmdist í Arnargerði, plötur fuku af fjölda húsa á Skagaströnd, plötur fuku í Stykkishólmi, m.a. af þaki sýsluskrifstofunnar og af nokkrum húsum í Reykjavík, klæðning fauk í Keflavík. Rúta fauk útaf vegi í Langadal, þakplötur fuku af íbúðarhúsi á Hvammstanga og af fjárhúsi á Valdarási í Víðidal. Þak fauk af fjárhúsum í Hrísdal á Snæfellsnesi og á Rauðkollsstöðum, minna tjón varð á fleiri bæjum í Miklaholts- og Eyjahreppum. Mikið tjón varð á Hraunsmúla í Kolbeinsstaðahreppi, þar eyðilagðist gömul hlaða að mestu og dráttarvél stórskemmdist. Bíll fauk og fór nokkrar veltur í Breiðuvík, þar fór þak af öllum fjárhúsunum í Gröf, í Ytri-Tungu fauk hálft þak af gamalli hlöðu og tjón varð á fleiri bæjum. Hluti af svokallaðri Borgarbryggju á Seyðisfirði fauk þ.2., þá var átt enn suðaustlæg í upphafi illviðrisins.
Listi yfir ámóta veður og það sem við nú reynum er mjög langur - en samfélagið breytt. Við látum þennan flaum duga að sinni.
Í öðru viðhengi er listi yfir nokkur ný vindhraðamet sett í veðrinu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 12.12.2019 kl. 02:05 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.11.): 232
- Sl. sólarhring: 438
- Sl. viku: 2386
- Frá upphafi: 2410030
Annað
- Innlit í dag: 200
- Innlit sl. viku: 2136
- Gestir í dag: 194
- IP-tölur í dag: 189
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.