Halaveðrið

Þegar ritstjóri hungurdiska var ungur heyrði hann oft rætt um „halaveðrið“ svonefnda, mikið mannskaðaveður sem gerði í febrúar 1925. Frægast er það fyrir sjóslys, en einnig urðu hörmulegir mannskaðar á landi. Hér verður ekki fjallað að ráði um tjón og reynslusögur ekki endursagðar - það hefur verið gert í löngu máli í bókum, þar á meðal einni sem út kom á dögunum. Slík útgáfa er ætíð þakkarverð. 

Lægðin sem veðrinu olli var óvenjudjúp, þrýstingur í lægðarmiðju fór niður fyrir 935 hPa, þriðjilægsti febrúarþrýstingur á landinu frá upphafi mælinga. Hún dýpkaði snögglega og ófyrirsjáanlega - miðað við þær veðurathuganir sem aðgengilegar voru veðurspámönnum. Mikill snjór var á landinu og á þeim slóðum þar sem ekki eða lítt bleytti í varð gríðarleg skafhríð og skall hún mjög skyndilega á. Ákaflega illt var í sjó og gerði óvenjumikið brim um landið norðanvert - og jafnvel á annesjum vestanlands. Hinn lági lofþrýstingur hefur eflaust átt sinn þátt í því ásamt veðurhörkunni og því að tungl var í fyllingu. Landið sunnan- og austanvert slapp mun betur frá veðrinu heldur en Vestur- og Norðurland. Þó foktjón yrði landi í veðrinu var það samt ekki tiltakanlega mikið. 

Það eru fyrst og fremst mannskaðarnir sem gera veðrið minnisstætt. Veðráttan (febrúar 1925) rekur þessa skaða:

Í þessu veðri urðu mjög miklir skaðar bæði á sjó og landi. Laugardagskvöldið þ.7. fórst mótorskipið Sólveig úr Sandgerði með 6 manns. Af togurunum, sem úti voru, hefir ekki spurst til tveggja, Leifs heppna og Robertsons, voru þeir norðvestur á Hala er veðrið skall á. Á þeim voru samtals 68 menn. Aðrir togarar, sem úti voru i óveðrinu, komust í höfn, en flestir meira og minna laskaðir. Allmiklar skemmdir urðu og á skipum, sem lágu á Reykjavíkurhöfn. Úti urðu 5 manns, maður á Dalvík, gamall maður og kona í Húnavatnssýslu og 2 börn á Snæfellsnesi. Fjárskaðar urðu einnig allmiklir í Húnavatnssýslu. Í Reykjavík fauk þak af einu húsi, og símalínur slitnuðu víða um land alt. Í þessu veðri var veðurhæðin ákaflega mikil sumstaðar á Vesturlandi. Í Reykjavík varð þó ekki alveg eins hvasst og í sunnanveðrinu þ. 21. janúar. [Um þetta veður var fjallað í pistli hungurdiska 1.desember 2016].

Missir togaranna var mikið áfall, ekki aðeins vegna hins gríðarmikla manntjóns heldur líka vegna þeirrar útbreiddu trúar að togarar væru svo örugg sjóskip að þau færust ekki í rúmsjó - voru hins vegar stöðugt að stranda og farast þannig (en það var annað mál). Halldór Jónsson lýsir þessu hugarfari vel í grein í Sjómannablaðinu Víkingi [1944-3, s.54]:

„Fyrir 1925 datt engum í hug, að togarar gætu farizt í rúmsjó, jafnvel sjálfir mennirnir á skipunum töldu þessum fleytum aldrei ofboðið. Það kom því eins og reiðarslag yfir alla þjóðina, er skipin, sem lentu í „Halaveðrinu mikla" komust nauðuglega til lands meira og minna brotin og útlítandi eins og dauðadæmdar fleytur, sem ekki vantaði nema herzlumuninn til þess að farast. Og tvö komu aldrei fram, Leifur heppni og Robertsson“.

Ásgeir Jakobsson rifjar veðrið upp á „sjómannasíðu“ Morgunblaðsins 15.febrúar 1975:

„Þann 7. febrúar s.l. voru liðin fimmtíu ár síðan Halaveðrið skall á. Rangt er að kenna þetta veður við 8. febr. því að það skal á um fjögurleytið laugardaginn 7.febrúar og var komið i fullan ofsa um kvöldið, og fengu sum skipanna sín fyrstu áföll fyrir miðnætti. Það er venja að miða veður við þann dag, sem það skellur á, en ekki einhvern þeirra daga sem það stendur yfir. Hann hvessti upp af suðaustri á laugardagsmorguninn, og flest skipanna á Halanum fóru að keifa upp um hádegisleytið. Um nónbilið eða á fjórða tímanum, snerist hann í norðaustur og varð strax fárvirði. Veðurofsinn hélzt allt laugardagskvöldið og sunnudagsnóttina og allan sunnudaginn. Eitthvað fór að draga úr veðurhæðinni á djúpmiðunum uppúr hádegi á sunnudag, en þá jókst sjór þeim mun meir og aðstæður bötnuðu lítið fyrr en kom fram á mánudag. Veðrið gekk seinna inn yfir landið, til dæmis skall hann ekki á með norðaustanveðrið fyrr en um hádegi á sunnudag í Reykjavik. Það, að veðrið gekk ekki inn yfir landið fyrr en þann 8. febr. eða á aðfararnótt og morgni sunnudagsins, kann að valda þvi, að menn kenna veðrið oft til þess dags“. 

Við byrjum á því að líta á brot af veðurathugunum sem gerðar voru í Reykjavík dagana 1. til 11. febrúar 1925.

Slide1

Athuganir voru á þessum tíma gerðar í Reykjavík kl.8, 12, 17 og 21 (9, 13, 18 og 22 miðað við núverandi klukku) - og oft líka klukkan 6 að morgni. Hér sjáum við dálka sem eiga við kl. 12 og 17. Loftvog er í mm kvikasilfurs (-700), vindhraði í vindstigum. Ef við fylgjum vindáttum, loftvog og hita sést að veður var mjög umhleypingasamt, vindur af ýmsum áttum og ýmist var frost eða hiti lítillega ofan frostmarks. Í aftasta dálki eru ýmsar aukaupplýsingar, norðurljós þann 3 og rosabaugur um tungl þann 6. Efri örin bendir á suðvestanstorm sem gerði milli kl.19 og 20 að kvöldi þess 7. Daginn eftir segir: Norðnorðaustan 11 til 12 (vindstig) um kl.15.  

Slide2

Þrýstiritar voru á allmörgum veðurstöðvum, gallinn bara sá að víðast hvar fór penninn niður fyrir blaðið vegna þess hve lægðin var djúp. Á Rafstöðinni við Elliðaár hafði ritinn verið stilltur of hátt (og reyndar líka á Veðurstofunni), svo munaði 8 mm [10,7 hPa], tölurnar sem nefndar eru eru óleiðréttar. Atburðarásin kemur mjög vel fram. Ritinn stóð í 765 mm um kl.16 þann 6., fer þá að falla og féll alls um 48 mm [64 hPa] á einum sólarhring. Meðan á því stóð óx vindur af austri og austsuðaustri en varð ekki mjög hvass í Reykjavík. Nokkuð snjóaði, en rigndi loks. Þetta er eitt hið mesta sólarhringsþrýstifall sem við vitum um hér á landi.

Um kl.16 birti nokkuð upp, hálfskýjað var kl.17 og vindur snerist til suðvesturs. Mjög dró úr þrýstifallinu, loftvogin komin niður í um 944 hPa. Aftur bætti í vind, í þetta sinn af útsuðri og fór í storm (9 vindstig) milli kl.19 og 20 eins og áður sagði. Gekk þá á með éljum. Þegar kom fram á kvöldið fór að lægja og um nóttina var vindur hægur í Reykjavík. Loftvogin tók síðan aftur að falla - lægsta tala sem var lesin af loftvoginni í Reykjavík var 936,5 hPa kl.8 að morgni þess 8., en síritinn bendir til þess að þrýstingur hafi þegar lægst var farið lítillega neðar, kannski niður í um 935 hPa. Lægðarmiðjan hefur þá farið yfir. 

Skammt vestan hennar ólmaðist norðanveðrið og virðist víðast hvar hafa komið inn eins og veggur úr vestri eða norðvestri. Loftvogin reis nú ört. Við sjáum óróa í risinu á fleiri en einum stað - órói sem þessi er algengur í mikilli norðanátt í Reykjavík og stafar líklegast af flotbylgjubroti í „skjóli“ Esjunnar eða einhverju ámóta fyrirbrigði og má oft „sjá“ norðanstorma á svæðinu af þrýstiritum einum saman. 

Slide3

Hér sjáum við vinnukort af Veðurstofunni, gert síðdegis laugardaginn 7.febrúar 1925. Þá er lægðin djúpa rétt vestur af Faxaflóa, um eða innan við 940 hPa í miðju. Suðvestanátt er í Reykjavík, en norðaustan bæði í Stykkishólmi og á Ísafirði.  

halavedrid_pp

Myndin hér að ofan sýnir þrýstifar á nokkrum veðurstöðvum dagana 5. til 10. febrúar. Blái ferillinn er úr Reykjavík - nánast sá sami og sá sem við sáum á þeim frá Elliðaárstöðinni hér að ofan. Ritinn í Hólum í Hornafirði fór ekki heldur niður fyrir blaðið, hann er grænn á myndinni. Lægðin er þar lítillega síðar á ferð - og þrýstingur fer ekki alveg jafnneðarlega og í Reykjavík. Gráir þríhyrningar sýna loftþrýsting á Seyðisfirði - hann fylgir Hólaferlinum að mestu, en rauðu kassarnir sýna þrýsting á Ísafirði - þar fylgist fallið að mestu því í Reykjavík, en risið byrjaði 6 til 9 tímum fyrr. Þrýstimunur á Reykjavík og Ísafirði var um 20 hPa þegar mest er - og litlu minni milli Ísafjarðar og Stykkishólms. Trúlega mætti með nokkurri yfirlegu slá á vindhraða í lofti þennan sunnudagsmorgunn.

Slide4

Við lítum nú á bakgrunn veðursins. Endurgreining bandarísku veðurstofunnar er gagnleg að vanda - en vankantar þó ýmsir. Kortið hér að ofan sýnir stöðuna um hádegi föstudaginn 6.febrúar. Þá er norðanátt að ganga niður. Við megum þó gjarnan taka eftir því að hún er mjög hvöss í Noregshafi og langt norður fyrir Jan Mayen - hefur einhvern þátt átt í ástandi sjávar í halaveðrinu. Vaxandi lægð er við Nýfundnaland á leið norðaustur - þetta er halaveðurslægðin. Hún er hér talin um 996 hPa í miðju, en hefur væntanlega í raun verið nokkuð dýpri. Það sem endurgreiningin sýnir er meðaltal margra „spáa“ - hliðranir í staðsetningu lægðarmiðjunnar jafna hana nokkuð út.  

Slide5

Endurgreiningin nær staðsetningu lægðarmiðjunnar allvel daginn eftir, en hún er hér sýnd um 20 hPa of grunn. Eins og þeir sem hafa fylgst með pistlum þeim sem ritstjóri hungurdiska hefur skrifað um illviðri og endurgreiningar komið við sögu er þetta nærri því fastur liður - lægðirnar eru of grunnar. Ætli það eigi ekki við þær flestar - ekki aðeins þær sem yfir Ísland fara. En endurgreiningin hér að ofan gildir á sama tíma og kort Veðurstofunnar. En - það er mikið illviðri á Halanum í báðum tilvikum. Kannski hefur einhver stök greiniruna hitt betur í - og mætti þá nota hana til að herma veðrið betur.   

Slide6

Hádegiskortið sunnudaginn 8.febrúar er á allgóðu róli. Lægðin er um 940 hPa í miðju og gríðarlegur norðanstrengur yfir Vesturlandi - eins og var í raun og veru - en munur á þrýstingi í Reykjavík og á Ísafirði samt innan við 15 hPa (nóg samt).  

Slide7

Við notum endurgreininguna til að sýna okkur stöðuna í háloftunum. Kortið hér að ofan nær til 500 hPa-flatarins og gildir kl.6 að morgni föstudags 7.febrúar. Þá er lægðin (við sjávarmál] að komast inn á Grænlandshaf. Hún hefur gripið með sér hlýtt loft langt úr suðri - en mætir miklum kuldapolli úr vestri. Sá kuldapollur sést ekki vel á þessu korti - trúlega er hann ekki á sama stað í grunnspánum öllum og jafnast út í meðaltalinu sem okkur er sýnt.

Slide8

Síðdegis sama dag hefur hann hins vegar komið fram í öllu sínu veldi. Á þeim tíma sem farið var að gera háloftaathuganir - en tölvuspár ekki komnar til sögunnar hefði þessi staða kveikt á öllum perum - aðvaranir hefðu verið sendar í loftið. En árið 1925 var ekkert slíkt að hafa. Veðurstofan varla byrjuð að gera spár - aðeins send út ein lína eða tvær fyrir allt landið um útlit næsta sólarhrings. Halaveðrinu var því ekki spáð. 

Það má geta þess í framhjáhlaupi að veðrið sést ekki í evrópsku endurgreiningunni. 

En við skulum líta á nokkrar lýsingar veðurathugunarmanna og annarra til þess að við fáum enn betri tilfinningu fyrir atburðarásinni: 

Freysteinn Á Jónsson frá Ytra-Mallandi á Skaga ritar grein í Skagfirðingabók 1977 er nefnist „Halaveðrið á Malllöndunum“. Aðalefni greinarinnar eru erfiðleikar við að ná saman fé þennan dag. Þar segir í upphafi:

„Í birtingu að morgni sunnudagsins 8. febrúar 1925 ráku bændur á Ytra- og Syðra-Mallandi fé sitt til beitar. Þennan morgun var stafalogn og frostlítið. Um nóttina hafði kyngt niður fönn, brim var firna mikið og loft þungbúið. Ekki var hægt að hleypa fénu í fjöruna, eins og venjulega, vegna brimsins, heldur varð að reka það strax á haga. Loftvog stóð lágt og var fallandi“. Og síðar í greininni: „Ég gat þess áður, að loftvog hefði staðið illa og verið fallandi, en rétt áður en hríðin skall á, hrapaði hún svo niður, að vísirinn var tekinn að fara upp á við öfugu megin. Það hef ég aldrei séð síðan“.

Ægir segir í marsblaðinu (3) 1925:

Sunnudagsmorguninn 8. febrúar var hér i bæ [Reykjavík] blíðskaparveður. Kveldinu áður var vestan stórviðri, sem lygndi, er leið á nótt. Sunnudagsmorguninn var útlit fremur gott, en loftvogin sagði annað. Kl. rúmlega 10 lagði Suðurlandið [flóabáturinn] út úr höfninni og um kl.11 lagði gufuskipið „Jomsborg“ frá Kaupmanahöfn einnig út, áleiðis til útlanda. Kl. ll 1/2 kom hann rokinn á norðan fyrirvaralaust, á hádegi skóf sjóinn og kl.2 var ofviðri komið eitt hið mesta, er menn hér hafa sögur af. Kl.5 e.h. var hér háflóð og lágu gufuskipið „Ísland“ og „Björkhaug“ við hafnaruppfyllinguna og létu illa og skemmdust eitthvað, bátar sukku og ýmsar smáskemmdir urðu. Á húsinu 83 á Laugavegi tók þak af og féll i heilu lagi niður á götuna, en ekkert tjón hlaust þó af því. Símaslit urðu víðsvegar um land, svo lítið fréttist um slys annarsstaðar á landinu fyrr en eftir 2—3 daga. Togararnir voru flestir vestur á „Hala“ þá um helgina og skall norðanveðrið á þá laugardaginn 7.febrúar en þá var vestanveður hér um kveldið. Þriðjudaginn 10.febrúar fóru togarar að koma inn, meira og minna brotnir.

Morgunblaðið 3.mars:
Úr Eyjafirði. Skemmdir á bryggjum. Í norðangarðinum síðasta gerði aftakabrim á Eyjafirði, og olli það ýmsum skemmdum. Til dæmis tók það allar bryggjur á Dalvík, meðal annars bryggju Kaupfélagsins og Höpfnersverslunar, og voru þó báðar þessar bryggjur traustar, einkum sú síðarnefnda, og hafði aldrei haggað henni brim, en þau eru tíð við Eyjafjörð utanverðan. Þá urðu og allmiklar skemmdir á bryggjum í Ólafsfirði. Tjón á bátum varð ekki neitt, eftir því sem heyrst hefir, því þeir munu flestir eða allir hafa verið uppi á landi.

Lýsingar af veðri á nokkrum veðurstöðvum - stundum með orðum veðurathugunarmanna:

Hvanneyri: Þann 7. Snjóaði um nóttina og fram til kl.4 e.h. Rigndi frá 4-7 e.h, en byrjaði þá að snjóa aftur. Þann 8. Skafbylur mest allan daginn. [Þorgils Guðmundsson] Ekki varð tiltakanlega hvasst á Hvanneyri - mest sagt frá suðvestan 7 vindstigum að kvöldi þess 7.

Suðvestanáttin náði til Stykkishólms að kvöldi þess 7. (SV 4 kl.21), allan þann 8. voru þar N 9 til 10 vindsti.

Á Lambavatni er ekki getið um suðvestanátt, að kvöldi þess 7. voru þar N 8 vindstig. Í athugasemdum segir þann 8.: Mikil fannkoma og sumstaðar aftakaveður.

Á Núpi í Dýrafirði var ekki hvasst að kvöldi þ.7, en vindur úr N. Þann 9. segir athugunarmaður að snjódýpt sé 1 metir.

Á Suðureyri var austanhvassviðri að morgni þ.7, en norðvestan um miðjan dag, norðaustanstormur um kvöldið og allan þann 8. var stormur og stórhríð. Snjódýpt óx úr 80 cm þann 6. í 120 cm þann 8. og 150 cm þann 9. Mest fór snjódýptin í 180 cm þann 12.

Níels á Grænhóli (á Ströndum) segir þann 7.: Hægði kl.2 í nótt þá [ekki lesanlegt] og hjaldur [lítilsháttar renningur] til kl.6 og þá logn. Kaldi kl.11 suðaustan. Snjókoma eftir 12:40 til um kl.20:10, síðast illviðri suðsuðaustan, [skýja-]far hægt hátt og vestlægra. Þann 8: Bylja veður byrjaði kl.5 og sorta hríð frá kl.6 til 13:30. Jelja veður síðdegis, sorta hríð til fjalla og flóans.

Á Kollsá í Hrútafirði var suðsuðvestanátt, 5 vindstig að kvöldi þ.7, austnorðaustan 3 að morgni þess 8., en kl. 14 voru 10 vindstig af norðaustri.

Á Lækjamóti í Víðidal skall hríðin á kl.11 þann 8. Hægur sunnan fyrr um morguninn.

Á Hraunum í Fljótum telur athugunarmaður [Guðmundur Davíðsson] logn allan þann 7. og að morgni 8, NA 6 kl.14. þann dag og NA 9 kl.21. Kl.8 að morgni þess 8. segir hann þurrt og bjart, en stórhríð kl.14. Þann 7. er öldulaust til kvölds, en þann 8. segir hann: „Mesta brim sem ég man eftir“.

Svipað var á Möðruvöllum í Hörgárdal, logn að morgni þess 8, 3 vindstig kl.14, en stormur um kvöldið og í Grímsey virðist veðrið hafa skollið á um hádegisbil þann 8.

Á Húsavík hvessti mjög af austri síðdegis þann 7. Benedikt Jónsson segir: „Ofsabylur eftir kl.3 e.h. Daginn eftir [8.] var logn að morgni, austan 3 kl.14, en austan 9 kl. 21. Þá segir Benedikt: Óvenjulegt stórbrim og flóð.

Á Grænavatni í Mývatnssveit var líka suðaustanbylur um tíma síðdegis þann 7, en hægur sunnan um kvöldið og hægur suðvestan að morgni þess 8. Logn var þar kl.14, en svo „brast á með stórhríð“ að sögn Páls Jónssonar. Svipað var á Grímsstöðum - en athugasemdir engar.

Veðrið skall á á Raufarhöfn um kl.6 síðdegis þann 8. Árni Árnason segir: Eftir kl.6 gjörði mestu hríð sem komið hefur á vetrinum.

Á Þorvaldsstöðum í Bakkafirði virðist ekki hafa orðið mjög hvasst, en þar gerði hríð að kvöldi þess 8. Benedikt Jóhannsson athugunarmaður segir svo þann 9.: Stórbrim, svo að annað eins hefur ekki komið hér að sögn kunnugra manna síðan 8.janúar 1905 enda urðu víða skemmdir hér af sjávargangi, bæði á ýmsum mannvirkjum og túnum er við sjó lágu. Lesa má um illviðrið mikla 7. til 8. janúar 1905 í pistli hungurdiska um það ár.

Ekki er talað sérstaklega um veðrið í athugunarbókum af austan- og sunnanverðu landinu nema hvað Gísli í Papey segir þar gott veður þann 8.

Þann 6.febrúar 1993 birtist ljóð eftir Heiðrek Guðmundsson á Sandi í Lesbók Morgunblaðsins (sjá timarit.is). Það heitir „Halaveðrið“ og fjallar um minningar höfundar frá 8.febrúar 1925 - lesið það. 

Fljótlega var farið að nota halaveðrið sem eins konar viðmið - 

Morgunblaðið 31,maí 1925: Ísafirði (eftir símtali í gær). Norðangarður hefir verið hér undanfarið og er vonskuveður enn, með snjókomu. Flestallir togarar og önnur fiskiskip, sem verið hafa á veiðum hér um slóðir, liggja inni á höfninni. Fjöldi þeirra t.d. á Aðalvík. Segja fiskimenn er voru vestur á Hala i febrúarveðrinu mikla, að óveður þetta minni á það.

Þó þetta maíveður hafi vissulega verið slæmt er samanburðurinn afskaplega óviðeigandi. En seint í janúar 1955 fórust tveir breskir togarar úti af Vestfjörðum í miklu norðaustanillviðri. Um það ritar Borgþór H. Jónsson veðurfræðingur grein í tímaritið Veðrið 1. árgang, 1.hefti 1956. Þar er rætt um ísingu sem mögulegan orsakavald slysanna. Í umfjöllun um Halaveðrið er ekki mikið rætt um ísingu - því meira um illt sjólag og aftakasærok. Veðrið 1955 var nokkuð annarrar gerðar en halaveðrið. Meiri líkindi eru með því síðarnefnda og veðrinu mikla í febrúar 1968 og fjallað var um hér á hungurdiskum (og víðar) fyrir tæpum 2 árum. Einnig eru ákveðin líkindi með halaveðrinu og því veðri sem rústaði Ammassalik þann 6.febrúar 1970 - nema að norðanáttin sú náði aldrei til Íslands - þó henni væri spáð (en það er önnur saga). 

Febrúar 1925 var snjóþungur á landinu, snjóþyngstur febrúarmánaða í Reykjavík frá upphafi mælinga - þó ekki hafi verið alhvítt allan mánuðinn. Talsvert hlýtur að hafa verið um snjóflóð í veðrinu og í kjölfar þess, en ekki er getið um nema eitt sem olli tjóni (sjá rit Ólafs Jónssonar, Skriðuföll og snjóflóð). Það féll um miðjan mánuðinn á fjárhús á Botni í Súgandafirði og banaði 14 kindum. Flóðið laskaði einnig bæjarhúsin, en enginn meiddist. 

Velta má vöngum yfir því hverskonar vanda veður sem þetta myndi valda nú á dögum. Trúlega yrði því spáð með einhverjum fyrirvara. Skip eru því færri á ferð í veðrum sem slíkum heldur en áður var - og betur búin. Ámóta brim og sjógangur gæti valdið tjóni víða um landið norðanvert, þeir sem væru á ferð um landið myndu finna fyrir því - vonandi þó ekki verða úti - en slíkt er ætíð nokkuð tilviljanakennt. Hríðarveður geta nú á dögum valdið margs konar töfum og raski sem er kostnaðarsamara en margur hyggur. Foktjón er sömuleiðis tilviljanakennt - en erfitt að koma algjörlega í veg fyrir það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ætli það sé ímyndun hjá mér að ofsaveður séu orðin sjaldgjæfari hér á suðurlandsundirlendinu síðustu 25 árin eða svo?

Mögulega dregur aukin trjárækt úr tilfiningunni fyrir rokinu en ef þetta er nú rétt getur þá verið að auknum hlýindum sé um að þakka?

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 9.12.2019 kl. 11:16

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Má kannski alveg eins spyrja, hvort ofsaveðrin í febrúar 1925, 16. september 1936?  þegar Pourquis pas? fórst, og í janúar 1941 þegar flugbátar sukku í Skerjafirði og braggar skemmdust, hafi einmitt orðið vegna hlýnandi loftslags á árunum 1920-1965 ? 

Ómar Ragnarsson, 9.12.2019 kl. 20:06

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Aukin trjárækt hefur meira að segja held ég heldur en hlýindin. Ekki er hægt að segja með vissu að almenn hlýindi fækki illviðrum - en þau raska að einhverju leyti hlutfallslegri tíðni hinna mismunandi gerða þeirra. Allt er það þó heldur loðið. Skerjafjarðarveðrið sem Ómar minnist á var í janúar 1942 [ekki 1941]. Nóg var af slæmum illviðrum fyrir 1920. Illviðratjón er hins vegar gríðarlega háð samfélagsþáttum ýmsum, byggingatækni og atvinnuháttum. Mjög misjafnt er hvað það er sem fyrir tjóni verður - mismunandi gerðir illviðra eru því misskaðavaldandi. Illviðri sem við varla tökum eftir hefði getað valdið stórtjóni fyrir 100 árum, og svo öfugt (sem sumum kann að koma á óvart). 

Trausti Jónsson, 9.12.2019 kl. 20:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg121124a
  • w-blogg101124c
  • w-blogg101124b
  • w-blogg101124a
  • w-blogg081124d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.11.): 55
  • Sl. sólarhring: 404
  • Sl. viku: 2209
  • Frá upphafi: 2409853

Annað

  • Innlit í dag: 49
  • Innlit sl. viku: 1985
  • Gestir í dag: 48
  • IP-tölur í dag: 47

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband