Enn eitt gagnafylleríið

Eftir því sem ritstjóri hungurdiska best veit hefur veðurgagnafíkn ekki hlotið viðurkenningu sem sjúkdómur. En fíknin sú er erfið rétt eins og aðrar slíkar og túrarnir erfiðir ekki síst þegar aldurinn færist yfir. Eins og í öðrum fíknisjúkdómum er allt notað til að fullnægja þörfinni - nánast sama hvað sem er. Enginn skilur hvers vegna í ósköpunum er hægt að leggja sumt sér til munns - en svona er það. 

Hringrásarvangaveltur ýmsar hafa reynst ritstjóranum drjúg efnislind á túrunum. En hann má vart á þeim snerta án þess að dagar og vikur hverfi í óminnið. Lítið hefur verið hugað að þessum gömlu vangaveltum lengi - svo lengi að hreinsa þurfti til - og endurnýja. En leiðir auðvitað til gengdarlausrar neyslu. Fyrir rúmu ári síðan var hér á hungurdiskum fjallað um veðurflokkunarkerfi sem kennt er við danska veðurfræðinginn snjalla Ernest Hovmöller. Kerfi þetta er sérlega einfalt - lítið mál er að skipa hverjum degi í einn af 27 mismunandi flokkum. Þrátt fyrir allan einfaldleikann er það samt svo að varla fæst nokkur maður (hvorki veðurfræðingar né aðrir) til þess að taka fyrsta sopann - svo bragðvont virðist efnið. 

Í fyrri pistli var kerfið skýrt út. Við endurtökum það ekki hér - reynum það síðar. Upphafleg vinna Hovmöllers (1979) var umfangsmikil og þar varð ýmislegt nánast alveg útundan - þó inni í hugmyndakerfinu væri. Eitt af því var dagleg sveigja háloftahæðarsviðsins í kringum Ísland (já, ekki hljómar það vel). Í þessu síðasta fylleríi ritstjórans reiknaði hann út daglega sveigju í endurgreiningum síðan 1871 - (rúma 54 þúsund daga). Ekki verða lesendur þreyttir með þeim uppgangi öllum hér - en þegar búið var að þessu var auðvelt að slá á meðalsveigju ársins. Hér var ákveðið að lægðasveigja skyldi teljast neikvæð (öfugt við það sem venjulegast er). Ástæðan er sú að mikil lægðasveigja fylgir lágum þrýstiflötum og því einhvern veginn auðveldara að tengja jákvæða sveigju jákvæðum hæðarvikum. En formerki skipta svo sem engu máli. 

Einingin og stærð hennar skiptir svosem ekki máli heldur en talan þannig fengin að meðalhæð þrýstiflatarins umhverfis Ísland er dregin frá hæð flatarins yfir landinu sjálfu. Sé sú tala jákvæð má gera ráð fyrir því að hæðarsveigja sé á jafnhæðarflötunum. Þetta var gert fyrir hvern dag og ársmeðaltal reiknað (í metrum).

Útkomuna má sjá á meðfylgjandi mynd.

w-blogg220819

Lárétti ásinn sýnir tímann frá 1871 til 2018. Súlurnar sýna sveigjutölu hvers árs, en rauða línan er 10-ára keðjumeðaltal. Meðalsveigja er neikvæð (Íslandslægðin og Baffinlægðardragið). Sveigjan er þó býsna breytileg frá ári til árs og stöku sinnum bregður svo við að hún er jákvæð. Í örfáum árum meira að segja mjög jákvæð. Einnig skera nokkur ár sig úr með mjög neikvæða sveigju (mikla lægðasveigju). Allgott samband er á milli sveigunnar og meðalloftþrýstings (fylgnin ársmeðaltalanna er um 0,65). 

Beina, blástrikaða línan sýnir reiknaða leitni. Hún er þó ekki marktæk í reynd. Ástæðan er einkum sú að fyrstu árum (eða áratugum) endurgreiningarinnar er ekki alveg að treysta (hinn litli breytileiki frá ári til árs er t.d. ótrúverðugur). En loftþrýstingur hefur líka fallið lítillega (ekki marktækt) á tímabilinu. Ef við tækjum leitnina bókstaflega gæti hún sagt okkur að loftið sem leikur um landið í háloftunum sé nú af heldur norrænni uppruna en áður (en aðrar skýringar koma einnig til greina). 

Það er athyglisvert að áratugasveiflur eru nokkrar, það dregur úr lægðasveigjunni um tíma um miðbik aldarinnar - mest reyndar á sjöunda áratugnum en veðurlag hans var sem kunnugt er á margan hátt sérkennilegt. 

Hér sjást árin afbrigðilegu, 2010 og 2015 mjög vel. Hið fyrra með afbrigðilega hæðarsveigju - þá mestu á öllu tímabilinu, en það síðara með mjög mikla lægðarsveigju, í flokki allra mestu lægðasveigjuára. Almennt má segja að mikil lægðasveigjuár teljist lök - sumir segja e.t.v. skítleg. 

Árið í ár (2019) hefur hingað til einkennst af hæðarsveigju - en langt er enn til áramóta og endanlegar tölu. 

Marktæk fylgni er á milli sveigjunnar og úrkomu hér á landi og sömuleiðis þrýstióróa (og þar með vindhraða). Auðvitað er líka mikil fylgni milli sveigjunnar og NAO-vísisins - og þar með hitafars í norðanverðri Evrópu. 

Ritstjóri hungurdiska mun reyna að troða einhverju fleiru úr Hovmöllerkerfinu upp á lesendur á næstunni - en gerir sér þó grein fyrir því að fyrir flesta er þetta heldur beiskur drykkur og ólystugur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.12.): 47
  • Sl. sólarhring: 240
  • Sl. viku: 1009
  • Frá upphafi: 2421109

Annað

  • Innlit í dag: 43
  • Innlit sl. viku: 883
  • Gestir í dag: 41
  • IP-tölur í dag: 41

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband