Fellibyljatími

Nú er fellibyljatíminn í hámarki á Atlantshafi. Fellibyljamiðstöðin í Miami hefur nú þrjá hitabeltisstorma/fellibylji í meðferð og þarf að auki að fylgjast með minniháttar hroðasvæðum þar sem eitthvað gæti stokkið af stað. Við skulum líta á innrauða mynd frá því í kvöld (sunnudag) sem sýnir þau kerfi sem nú eru virk.

w-blogg100918a

Fellibylurinn Florence mun næstu daga nálgast austurströnd Bandaríkjanna og mun óhjákvæmilega verða mikið í fréttum. Enn er fullsnemmt að segja hversu mikið verður úr og hvar. Ísak er vaxandi kerfi - við að ná styrk fellibyls. Að meðaltali liggur fellibyljafjandsamlegt háloftavindabelti til austnorðausturs og norðausturs frá Antilleyjahorninu. Þegar Florence fór í gegnum það tættist kerfið að nokkru í sundur og missti verulega styrk um stund - en er nú að ná sér á strik aftur eftir að vera komið í gegn um vindinn. Ísak mun líka lenda í erfiðleikum - deyr jafnvel alveg lendi hann inni í því - hann er minni um sig heldur en Florence var. Kannski fer hann sunnan við þetta svæði - vestur um Antilleyjar hinar minni og inn á Karíbahaf. Þar eru líka erfiðleikar, en ljóst er þó að mjög verður fylgst með þróun hans. Þetta er ekki ósvipuð leið og hinn illvígi Harvey fór í fyrra - strögglandi mestallan tímann nafnlaus milli lífs og dauða allt inn á Mexíkóflóa þar sem hann loksins náði sér á strik svo um munaði. 

Svo er það fellibylurinn Helene sem á myndinni er suður af Grænhöfðaheyjum - nokkuð stórt kerfi. Spár um hreyfingar þess eru nokkuð út og suður, en þó aðallega þannig að braut þess liggi austar en hinna tveggja og lendi um síðir vestan Asóreyja og rekist þar á heimskautaröstina - en hún er mjög fjandsamleg fellibyljum - en getur notað þá sem orkuríkt viðbit á brauðið. Helene þarf þó líka að fara í gegn um háloftavindabeltið fjandsamlega.

Síðan fylgist fellibyljamiðstöðin með hroðasvæði undan ströndum Mið-Ameríku. Ekki er á þessari stundu reiknað með því að það breytist í fellibyl - en allur er samt varinn góður - að sögn miðstöðvarinnar. 

Þó fellibyljir sem slíkir komist aldrei til Íslands gera leifar þeirra það stundum - og alloft fáum við rakasendingar tengdar hitabeltiskerfum eða hroða alla leið til okkar - stundum verulega rigningu. Sömuleiðis á hið mikla rakauppstreymi hvarfbaugskerfanna það til að breyta bylgjumynstri heimskautarastarinnar. Það er þess vegna alltaf rétt að gefa þessum kerfum auga - jafnvel héðan af norðurslóðum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 12
  • Sl. sólarhring: 364
  • Sl. viku: 1837
  • Frá upphafi: 2350573

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 1640
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband