Af árinu 1899

Árið 1899 telst fremur kalt og umhleypingasamt. Mikil snjóþyngsli virðast hafa verið sums staðar norðanlands og austan, og syðra var mikið rigningasumar. Samt lagði árið í heild sig ekki mjög illa og ekki virðist hafa verið mikið um illviðri sem náðu til landsins alls. Meðalhiti í Reykjavík var 3,5 stig, miklu lægri en við höfum átt að venjast á þessari öld, en ekki ósvipað og 1981 og 1983. Ársmeðalhiti á Akureyri reiknast 2,1 stig. Hitatöflur fleiri stöðva má finna í viðhenginu.

Aprílmánuður var mjög kaldur á landsvísu, sá kaldasti frá 1882, janúar, mars, september, október og nóvember voru einnig kaldir. Júní og ágúst teljast hins vegar hlýir, sá síðarnefndi sá hlýjasti frá 1880 og jafnhlýr ágúst kom ekki aftur fyrr en 1931 - en hlýindunum fylgdi mikil bleyta syðra - og voru júní og júlí einnig í blautasta lagi suðvestanlands. 

Hæsti hiti ársins mældist í Möðrudal 7.águst, 24,8 stig. Trúlega er þessi tala ívið of há, en næsthæsti hitinn mældist á Akureyri þann 12.júní 23,6 stig. Frost mældist mest í Möðrudal 22.janúar, -30,2 stig. 

arid_1899t

Myndin sýnir hæsta hita og lágmarkshita hvers daga í Reykjavík á árinu 1899. Eins og sjá má er sumarið nokkuð klippt og skorið. Frost var nánast á hverri nóttu út apríl og snögglega kólnaði upp úr miðjum september - enda varð alhvít jörð að morgni þess 22. Mikill kuldi var um stund fyrri hluta nóvember - en mildara eftir það. 

Ritstjóri hungurdiska leitaði að sérlega köldum dögum í Reykjavík og fann fimm - talsvert færri en algengast var á níunda áratugi 19.aldar. Þetta eru 19. og 21.janúar, 29.mars, 29.september og 5.nóvember. Þann 29.september mældist frostið í Reykjavík -4,8 stig það mesta sem vitað er um í þeim mánuði. Engir óvenjuhlýir dagar fundust. 

Úrkoma mældist 1058 mm á árinu í Reykjavík og 832 mm í Stykkishólmi. Á síðarnefnda staðnum varð ársúrkoman ekki aftur svo mikil fyrr en 22 árum síðar, 1921. Þann 11.ágúst mældist óvenjumikil úrkoma í Reykjavík, 46,5 mm. 

Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi þann 11.desember, 946,4 hPa en sá hæsti 1044,8 hPa á Akureyri 17.mars. Norðanáttir voru óvenjuþrálátar í apríl, en suðlægar áttir mestallt sumarið. 

Hér að neðan verður farið yfir tíðarfar og veður ársins með aðstoð blaðafregna og veðurathugana. Ekki eru allar slysfarir tíundaðar - einhverjar sem ekki eru nefndar kunna að vera tengdar veðri. Mikið var um strönd erlendra skipa, óljóst hvort veður olli - hafa verður í huga að náttmyrkur voru mikil, vitar fáir og ljóslítið í landi.  

Bjarni Jónsson (frá Vogi) renndi yfir tíðarfarið í Skírni 1899:

Eftir nýárið var fannkoma mikil og hagleysur og fór þá þegar að bera á heyskorti. Skáru menn af heyjum í febrúar á einstaka stað. Því næst gerði stillur um tíma og vægt frost, en seint í febrúar hlánaði og kom upp jörð nokkuð svo. En brátt gerði aftur snjóa og hagleysur. Þó lagðist veturinn eigi jafnþungt á allstaðar. En i sumum sveitum tóku menn að kvíða heyskorti þegar i miðgóu. Þó fór nú heldur versnandi, því að um nokkurn tíma voru nú næðingar og kuldar og víða jarðbann. Hélst svo fram til sumarmála. Voru menn nú mjög svo að þrotum komnir með hey víðast hvar í norðvesturhéruðum landsins. Hafði þá verið innistaða í fullar 22 vikur. Einna harðast urðu Hrútfirðingar og Strandamenn úti. Ráku þeir fénað á beit suður í Borgarfjörð.

Litlu eftir sumarmál kom algerður bati og héldu menn fénaði sínum. Vorið var gott meðalvor og greri jörð vel. Grasvöxtur var því góður, en er fram að slætti dró, gerði vætur miklar og hélst svo lengi sumars. Varð nýting heyja því ekki góð, og brunnu töður manna á nokkrum bæjum á Suðurlandi og Vesturlandi. En veturinn næsti var mjög mildur fram til nýársins.

Janúar. Vond tíð og snjóþung framan af, en síðan skárri. Fremur kalt.

Ísafold segir frá snjóþyngslum í pistli þann 7.janúar:

Snjóasamt í meira lagi um þessar mundir. Illt að komast um jörðina og innistöður miklar. Austanpóstur, er lagði á stað 3.þ. mánaðar að morgni, eins og til stóð, sneri aftur við Elliðaárnar fyrir ófærð með hestana og fékk sér sleða og annan útbúnað til þess að komast þann veg yfir fjallið. Hinir póstarnir lögðu á stað daginn eftir og hefir ekki frést, hvernig þeim hefir reitt af. - Talað er, að bændur séu teknir til að skera af heyjum austanfjalls, og er það auðvitað betra nú en síðar.

Á Seyðisfirði var líka kvartað - Austri segir þann 10. og 23.:

[10.] Tíðarfarið er alltaf fremur óstillt og engar þíður til nokkurra bóta ennþá sem komið er og gengur því mikið upp af heyi fyrir búendum.

[23.] Veðráttan er nú á degi hverjum fremur hörð, frost töluverð og jarðbann yfir allt, svo langt sem til hefur spurst.

Líkt hljóð var í Þjóðviljanum unga á Ísafirði 16.janúar:

Síðan nýja árið hófst hafa gengið sífelldir stormar, og aftakaveður, útsynningsrosar fyrstu dagana, en síðan grenjandi norðan garður nú í fulla viku óslitið, enda þykjast elstu menn eigi muna jafn langvinna stormatíð, eins og verið hefir, síðan í síðastliðnum októbermánuði.

En sama blað segir þann 25. og 31. frá skárri tíð:

[25.] Alla næstliðna viku héldust hér vestra stillviðri og frost nokkur, suma dagana allt að 10 stig á R.

[31.] Þíðviðri og hlákur hafa haldist hér vestra, síðan síðasta nr. blaðsins kom út.

Þann 16.febrúar segir Fjallkonan frá skiptapa á Skagafirði, bátur úr Fljótum fórst þar í erfiðu veðri og með honum 8 menn. 

Febrúar. Víða nokkuð snjóþungt, en annars ekki óhagstæð tíð. Umhleypingar. Hiti í meðallagi.

Jónas Jónassen segir þann 4. (Ísafold]: „Undanfarna viku sólskin dag hvern“.

Austri lýsir tíð í þremur stuttum pistlum:

[10.] Tíðarfarið er nú allhart á degi hverjum og jarðlaust hér i firðinum.

[18.] Tíðarfarið hefir verið mjög umhleypingasamt nú undanfarandi, oftast stormur með krapaslettingi en hefir nú breyst til batnaðar.

[28.] Tíðarfarið er nú hið blíðasta á hverjum degi, sólskin og því nær vorveður, og því góð jörð komin upp allstaðar.

Þann 10.apríl segir Þjóðviljinn ungi frá slysförum um miðjan febrúar:

[Þrettánda] febrúar síðastliðinn varð úti vinnustúlka frá Héðinshöfða, er var á heimleið úr Húsavíkurkaupstað. — Hennar var leita farið 14.febrúar, og urðu þá tveir leitarmanna fyrir snjóflóði í gljúfragili einu við Köldukvísl, og beið annar þeirra, Bjarni bóndi Jónsson i Tröllakoti, bana af, en hinn meiddist að mun.

Bréf úr Öræfum, dagsett 13., birtist í Austra þann 28.:

Tíðarfar hefir verið óstöðugt og veturinn gjaffeldur. Góð hláka kom 25.janúar, svo að jörð varð alauð, en í dag er blotabylur, með ofsastormi og ef að frystir í þennan snjó, verður alveg haglaust.

Að vestan fréttist af norðanhrinum - og jarðskjálfta. Þjóðviljinn ungi segir frá.:

[6.] Veður var gott og stillt síðustu viku, uns norðanhrinu gerði aðfaranóttina 4.þ.m. Jarðskjálftakipp urðu ýmsir hér í kaupstaðnum varir við kl. 9-1/2 f.h. 31. f.m. — Jarðskjálfta þessa varð og vart á Langadalsströndinni, og víðar. [„Fjallkonan“ getur 2. og 8.mars um jarðskjálfta í Skagafirði og á Skaga 29.janúar og nokkra daga þar á eftir].

[16.] Tíðarfar. 8.—9. þ m. gerði hér norðanhrinu með talsverðu frosti; síðan haldist besta tíð, nema suðaustan ofsaveður og rigning í dag.

Tíðarfar hefur á Suðurlandi verið fremur stirt; snjókoma afar-mikil, og því illt að komast um jörðina. Bændur austanfjalls, að sögn, teknir að skera af heyjum. Það er auðvitað allrar virðingar vert, að fækka heldur fyrr en seinna peningi sínum, til að forða því er eftir lifir við hungri og hordauða; en frámuna ráðleysis heyásetning er það, að vera í sýn um voða staddur fyrir skepnur sínar þegar í desembermánuði, þótt vetur leggist nokkuð þungt að.

[25.] Síðan síðasta blað vort kom út, hefur verið fremur umhleypingasöm tíð. 20. og 21. þ.m. hélst suðvestan rokviðri og hláka, svo snjólaust varð að mestu hér í bænum. 22.sneri svo meira til norðanáttar með fannkomu nokkurri, og 23. hleypti á norðan dimmviðri.Í dag gott veður.

Þjóðólfur birti 10.mars bréf úr Árnessýslu, dagsett 21.febrúar:

Tíðin er nú ágæt og allstaðar komnir bestu hagar. Með þorrakomu var heyhræðsla orðin almenn og einstöku maður minn að skera lítið eitt af heyjum, en nú er vonandi, að hey verði yfirfljótanleg og fénaður vel fram genginn.

Dagskrá birtir þann 4.mars bréf úr Árnessýslu dagsett þann 28.febrúar:

Framan af vetrinum voru óvanalega miklir stormar og úrferð sitt á hvort, stundum ösku útsynningsbyljir; en annað veifið úrfellis-rigning og þessi hroða-veðrátta gekk allt fram yfir jól og var því allur fénaður kominn á gjöf hér i Árnessýslu víðast hvar um miðja jólaföstu. Um nýárið kyngdi niður snjó töluverðum, svo færð var hin versta um tíma, en með þorrabyrjun gerði þíðu góða, svo hagar komu nægir fyrir fénað manna, og er snjór því núna hér um bil allstaðar upptekinn, því tíðin er svo inndæl, sem orðið getur, einlæg hægð og blíða, aldrei neinn krassi, frost eða stórkostleg úrferð; af neinni átt. 

Fréttir voru einnig góðar úr Strandasýslu (sunnanveðri). Ísafold birti þann 11.mars bréf þaðan dagsett 28.febrúar:

Tíðarfar hefir verið mjög gott á þorranum; staðvíðri og bjartviðri oftast, en stundum mikil frost, allt að 15 stig á R. Hagar alltaf nógir og munu því heybirgðir vera nægar hjá öllum almenningi.

Þann 27.febrúar urðu töluverðir jarðskjálftar á Reykjanesi. Þjóðólfur lýsir þann 10.mars:

Jarðskjálftarnir 27. f.m. virðast hafa orðið einna snarpastir á Reykjanesskaganum. Í húsi vitavarðarins á Reykjanesi, Jóns Gunnlaugssonar, féll reykháfurinn og hrundi niður stigann, o.fl. upp á loftinu féll um koll, grjótgarður umhverfis túnið hrundi, og fleiri skemmdir urðu bæði á búshlutum og matvælum. Eigi skemmdist þó vitinn sjálfur til muna, nema tröppurnar við dyrnar sprungu frá, lampi brotnaði m. fl. Við Gunnuhver nálægt vitavarðarhúsinu kom sprunga í jörðina 200 faðma löng og rauk mikið úr. Fólkið þorði ekki að haldast við í húsinu og lá 2 sólarhringa í geymsluhúsi niður við sjó. — Bær einn í Kirkjuvogi í Höfnum, fremur hrörlegur, hrundi gersamlega, en fólk flúið úr honum áður. Jarðskjálfta þessara hefur orðið vart norður í Húnavatnssýslu og úr Miðdölum vestra er skrifað 27. f.m., að þar hafi komið allharðir kippir þann dag og daginn áður.

Þjóðviljinn ungi segir frá því þann 11. að jarðskjálftanna hafi orðið vart vestra og þann 25.mars getur hann þess að þeir hafi einnig fundist viða á Norðurlandi.

Þjóðólfur hrósar tíðinni í pistli 3.mars:

Veðurátta hefur verið ómunalega góð allan febrúarmánuð og síðari hluta janúarmánaðar, fyrst stillur og hægt frost, síðar þeyr með allmikilli úrkomu. Nú er veðuráttan aftur að spillast.

Mars. Óhagstæð og köld tíð með talsverðum snjóþyngslum, einkum fyrir norðan.

Þjóðólfur birti þann 7.apríl bréf úr Strandasýslu dagsett 6.mars:

Veturinn lagðist hér mjög misjafnt á. Víða til innfjarða með stórfenni og jarðleysum, en til útnesja mun því nær aldrei hafa tekið fyrir haga fyrri en nú fyrir þessi mánaðarmót. Hefur hann jafnað yfir allt með stórfenni; öðru hverju er að verða vart hér við töluverða jarðskjálftakippi þó mest bæri á þeim frá 26. til 28. febr. en þó hafa engir skaðar orðið hér að þeim það ég veit til.

Þjóðviljinn ungi segir frá tíð þann 11.mars:

Sífelld norðanátt með fannkomu mikilli hefur haldist hér vestra síðastliðinn hálfan mánuð, en þó alltaf fremur frostvægt. Í gær frostlaust og milt veður.

Í Þjóðólfi 7.apríl er bréf úr Suður-Þingeyjarsýslu dagsett 12.mars:

Veturinn hefir allur verið veðurmildur til þessa; engin stórhríð hefir komið, sem heitið geti því nafni og örsjaldan teljandi frost. Þó gerði hart frost snemma í febrúar nokkra daga, undir 20 gráður í hásveitum og einn frostdag norðan seint í janúar — yfir 20.; þó hefur verið oft illt til jarðar, ekki sökum snjóþyngsla, því að snjór hefur lítill fallið hér í vetur, heldur vegna áfrera.

Þann 17.mars segir Þjóðólfur:

Veðurátta hefur verið afarstirð undanfarna daga: útsynningshríðar með hafróti allmiklu. Þilskipin, sem lögð voru út héðan fyrir næstliðna helgi, leituðu hafnar aftur og höfðu lítið eða alls ekkert aflað sakir illviðurs, og sum höfðu einnig bilast að mun. Nú er aftur komið frost, og hreinviðri og nálega öll fiskiskipin lögð út aftur.

Þjóviljinn ungi segir frá því að skiptapi hafi orðið frá Gerðum í Garði þann 28.mars. Fimm hafi farist. - Veðurs ekki getið. 

Þann 29.mars segir Austri að tíð hafi verið hörð síðustu dagana og all ísleg. 

Þjóðviljinn ungi segir sama dag frá því að að morgni þess 23.hafi skollið á ofsanorðanfrostgarður sem enn standi og bætir svo við: „Jarðbönnin hafa nú haldist hér vestra, síðan með góubyrjun, svo að skepnur fá hvergi snöp; kvarta þegar margir um heyleysi, einkum i útsveitunum hér við Djúpið, og eru sumir þegar farnir að afla korns handa fénaði sínum“.

Apríl. Óhagstæð tíð, en batnaði undir lok mánaðar. Talsverð snjóþyngsli. Mjög kalt.

Þjóðviljinn ungi segir frá því þann 25.maí að maður hafi farist í snjóflóði í Reykjafjarðarhlíð í Strandasýslu þann 1.apríl - flóðið bar hann á sjó út. 

Bréf úr Dýrafirði dagsett 5.apríl birtist í Þjóðviljanum unga 14.apríl:

Febrúarmánuð allan var oftast væg veðrátta, en jörðin þó viðast klædd sínum kalda vetrarstakki, þó að snöp væru fyrir skepnur á stöku stöðum. En frá marsbyrjun tók steininn úr, því að þrátt fyrir alla þá ótíð, sem gengið hafði, fannir og jarðleysur, frá því í nóvember, og allt til Pálsmessu, var marsmánuður langversti kaflinn á vetrinum, og æ því verri, sem lengra leið á: og um skírdag [30.mars] og langafrjádag var veðrið og fannkoman svo, að ekki varð skepnum gegnt, húsa, og víða varð engu vatnað. Á annan og þriðja dag páska var veður milt, og mjög frostlítið; en sú mikla fönn, sem á jörðunni er, sést ekki minnka, þó að eitthvað brái af, enda er loftið enn í dag þrungið af þoku og snævi.

Austri segir þann 8.: 

Tíðarfar er nú mjög snjóasamt á degi hverjum, og mesta ófærð komin í byggð og ennþá meiri á heiðum, svo nærri er ófært yfir að fara.

Þann 18.bætir Austri við:

Tíðarfarið er litlu betra en áður. Kyrrt veður síðustu daga og frost lítið. Snjóflóð hljóp fyrir skömmu á gufubræðsluhús Imslands kaupmanns á Fjarðarströnd og braut þau gjörsamlega niður. Þar eð allt er þar undir snjó ennþá, vita menn eigi hvort gufuketillinn er mikið skemmdur og geta þess vegna eigi metið skaðann.

Þann 10. segir Þjóðviljinn ungi:

Norðangarðinum, sem getið var i síðasta nr. blaðsins, slotaði í svip 30. f.m., en reif sig upp aftur daginn eftir, og hafa síðan haldist stöðug norðanveður og kafaldshríðir. Hafísinn telja menn nú að eins ókominn, og þykjast hafa séð hann 1—2 mílur hér út undan núpunum; nokkra hafísjaka rak og inn á Bolungarvík skömmu fyrir páskana, og er við búið, að fleiri komi á eftir, ef norðvestan veðrátta helst.

Þann 19. segir Þjóðviljinn ungi:

Stillviðri og frost allhörð öðru hvoru hafa haldist hér að undanförnu. ... Snjóþyngslin söm enn á jörðu, og heyvandræðin þar af leiðandi einatt að verða almennari hér við Djúp. — Fyrir sunnan heiðar, sérstaklega i Reykhóla- og Geiradalshreppum, eru og sögð mikil heyvandræði. — Horfir víða til stórra vandræða, ef ekki kemur bati úr sumarmálunum.

Mannskaði. 13. þ.m. fórst sexæringur úr Bolungarvík í fiskiróðri, og létust 3 menn. Veður var all-gott aðfaranóttina þess dags, og mátti heita. að almenningur reri þar úr Víkinni. Hélst og veður allgott, uns hvessa tók af norðvestri með full-birtunni. og sneri síðan til norðausturs, en varð þó eigi hvassara, en svo, að all-flestir drógu lóðir sínar.

Þjóðólfur birti 19.maí bréf af Fljótsdalshéraði dagsett 23.apríl: 

Aldrei sést neinn maður, því enginn hættir sér bæja milli fyrir ófærðinni, hvergi sést á dökkan díl, nema einstaka standklett, sem gnæfir upp úr gaddinum eins og draugur; allstaðar er jarðlaust svo að segja á öllu Héraði, nema ef vera skyldi eitthvert bragð inn í dölum. Og nú er komið sumar, hamingjan hjálpi öllum oss, maður þarf að líta i almanakið til þess að geta trúað því. Heyleysi er hér, því miður orðið mjög almennt, og þeir eru ekki fáir, sem eru alveg að þrotum komnir með hey, og útlitið er voðalegt, ef ekki gerir bráðan bata, sem þó ekki er mikið útlit fyrir enn. Heyleysið er svo almennt, að ekki getur verið um neina verulega hjálp að ræða, nema þá rétt fyrir einstaka mann. Þeir eru fljótt teljandi, sem eru aflögufærir. Veturinn hefir líka verið ákaflega gjafafrekur, því almenningur mun hafa átt óvenjulega mikil hey og þar eftir góð, eftir blessað góða sumarið í fyrra, en það þarf mikil hey til að geta þolað svo að segja sífeldar innistöður fyrir allar sínar skepnur frá jólaföstubyrjun og allt fram á þennan dag, eins og víða hefur átt sér stað, því óvíðast hefur verið hægt að nota jörðina neitt til muna, þó hún hafi verið til, sökum storma og illviðra. Nú er frost og bylur með degi hverjum; alltaf bætist við snjóinn og þarna ætlar maður lifandi að klárast úr kulda, því svo er orðið eldiviðarlaust manna á milli, að til mestu vandræða horfir.

Þjóðviljinn ungi segir enn frá hörkum þann 25.apríl:

Enn haldast sömu frosthörkurnar, og snjódyngjurnar einn samfastur skafl frá fjalli til fjöru, svo að hvergi sér auðan blett. Sumarið heilsaði oss 20. þ.m. með grimmdarfrosti (11 stigum á Reaumur), og síðan hafa frosthörkurnar haldist meiri og minni. — Þó hafa sjófrostin tekið út yfir, og æfi sjómanna vorra verið í kaldara lagi.

Hafísinn. Skipin, sem inn eru að koma, segja hafís hér með öllum norðvesturkjálkanum, og landfastan við Horn. — Bót er það samt í máli, að ísinn kvað vera mjög gisinn, mestmegnis hroðaís, svo að talið er víst, að strandbáturinn „Skálholt" muni hafa getað smogið norður fyrir.

Þreytuhljóð er í Ísafold þann 26.:

Sífeldar kuldanepjur á norðan undanfarnar vikur, hverja eftir aðra, með talsverðu frosti hér við sjóinn, hvað þá heldur til sveita, en snjókoma lítil. Enda hjarn yfir allt til fjalla og um uppsveitir. T.d. segir maður hér á ferð ofan úr Norðurárdal, að hvergi sjáist þar á dökkvan díl. Jörð mjög hæst og rykborin, þar sem hún er auð, og því gagnslítil til beitar. Hefir veturinn verið yfirleitt býsna-gjaffeldur, einkum síðan er á leið, og heyþrot fyrir dyrum ekki óvíða. Ekki sagðar þó enn neinar hafísfréttir. Nú í nótt hefir loks brugðið til hláku og dálítilla hlýinda.

Frekari ísfréttir eru í Þjóðviljanum unga þann 29.:

Þrjá fyrstu dagana af þessari viku var hér norðangarður, en síðan stillt veðrátta, og jafnan frost nokkur. Hafísinn, sem liggur hér úti fyrir, spillti veiðarfærum nokkurra formanna í Bolungarvík, er lóðir áttu í sjó í norðanveðrinu síðasta. — Fjórir formenn, sem yst áttu, misstu gjörsamlega veiðarfæri sín, er þeir höfðu orðið að hleypa frá í byrjun garðsins; og auk þess sópaði ísinn burtu nokkurum duflum. — 22. þ.m. í byrjun garðsins var ísinn kominn inn á djúpmið Bolvíkinga, inn á svo nefnda „Hnúa", og sá þá hvergi út yfir ísbreiðuna; en síðan kvað ísinn hafa lónað eitthvað frá.

Fjallkonan segir frá því 10.maí að allmikill hroði af hafís hafi verið við Hornstrandir um mánaðamótin og við hafi legið að „Skálholt“ hafi ekki komist í gegn. Í sama blaði er sagt frá því að flöskuskeyti frá pólfaranum Andrée hafi fundist á hafísjaka á Melrakkasléttu. Þann 1.júní er sagt að flaskan með skeytinu hafi fundist í Kollafirði á Ströndum. 

Maí. Hagstæð tíð. Hiti í meðallagi.

Ísafold segir frá tíð þann 3.maí:

Loks brá til bata á helginni sem leið, leysinga og sæmilegra hlýinda. Nær batinn vonandi yfir land allt. En vont að vita að svo stöddu, hvað mikið og fljótt hann vinnur á norðanlands og vestan, þar sem alt mun hafa verið undir hjarni mjög víða. Og annað hitt, hvort eigi hefir verið þegar búið áður að farga töluverðum fénaði sumstaðar, þar sem hann var í bláberum voða.

Austri segir líka frá bata í pistli þann 10.maí:

Tíðarfarið er nú hið inndælasta allt frá byrjun þ.m., og sól og sumar á degi hverjum, og ágæt jörð upp komin.

Þjóðólfur segir frá batanum í pistli þann 12.:

Það sem af er þessum mánuði hefur verið mesta blíðviðristíð og mjög hlýtt í veðri, eins og þá er best er um hásumar. 7. þ.m. var t.d. 15 stiga hiti (Celsius) í skugganum. Er snjór nú leystur mjög úr fjöllum hér syðra. Þessi veðurátta hefur náð um allt land, að því er frést hefur, enda var þess víða full þörf, að um skipti, því að annars hefði fénaður manna verið í voða staddur. 

Í sama tölublaði Þjóðólfs er bréf úr Árneshreppi - ódagsett, en ritað einhvern fyrstu dagana í maí:

Síðan um góukomu hefur hver snjódyngjan hlaðist á aðra, svo að öll sveitin má heita undir einum jökli, og segjast elstu menn ekki muna aðra eins fannkomu. Allstaðar má heita sama sem heylaust, svo að skepnur eru víða í voða; hefur þó nokkuð hjálpað, að vörur komu hér á Reykjarfjörð með „Thyru“ til J. Thorarensen kaupmanns, en mikið eru þær nú samt farnar að minnka, því að kaupmaður hefur lánað mestallt út handa mönnum og fénaði. Sumarið heilsaði okkur hér með 12 stiga frosti, og blindsnjóhríð á norðan. Fyrsti dagur í dag frostlaust, 3 stiga hiti um hádegi. — Tvisvar hafa 3 áttæringar róið til hákarls og munu hafa fengið 20-26 tunnur lifrar hvor. — Hafís hefur ekki verið hér fyrir landi að neinu ráði.

En það kólnaði aftur, Ísafold segir þann 13. að veðrátta sé að stirðna aftur. Hvasst sé á norðan með uppgangi og næturfrosti.

Austri segir þann 20.:

Tíðarfarið hefir oftar þessa viku verið mjög kalt og jafnvel snjóað töluvert, og er þetta mikið bagalegt fyrir sauðburðinn, sem nú er að byrja, og hætt við töluverðum lambadauða, ef þessu heldur áfram.

Ísafold segir frá tíð þann 27. og 31. Minnst er á Andrée sem nú er frægur fyrir óheillaferð á loftbelg í íshafinu.

[27.] Veðrátta fremur köld og hráslagaleg. Þó farinn að koma nokkur gróður. Sauðburður gengið allvel, vegna þurrviðra þá framan af. Norðanlands, þar sem útlit var næsta ískyggilegt mjög víða um sumarmálin, hefir ræst úr vonum framar, með því batinn var gagngjör, þegar hann kom loksins. Bændur hafs lógað þar nokkurum stórgripum á stöku stað, til þess að geta eitthvað líknað sauðskepnunum. Frekari skepnumissi von um að hjá verði komist þar yfirleitt.

[31.] Hlýindi lítil enn, nema þó helst í gær og dag. Gróður fer mjög hægt. Maðurinn, sem að norðan kom nú á helginni með skeytið frá Andrée, segir býsna-kalt þar, í Strandasýslu og Húnavatns vestanverðri, og lambadauða talsverðan; ær fæða illa, vegna megurðar, og ekkert strá til að hára þeim.

Júní. Hagstæð tíð, en nokkuð úrkomusöm á Suður- og Vesturlandi. Fremur hlýtt.

Austri segir þann 9.júní að tíðarfar hafi síðustu daga verið mjög milt og mikið hafi tekið upp af snjó og jörð grænkað. Þann 15. segir blaðið að hiti og sólskin sé á degi hverjum. Ísafold segir þann 14. að stórrigningar séu syðra, en hlýindi heldur lítil. Þó spretti sæmilega. 

Heldur óhagstæðari tíð var vestra. Þjóðviljinn ungi segir frá:

[7.] Norðanhrinu gerði hér 3. til 5. þ.m., og snjóaði þá ofan í mið fjöll, og hefur síðan haldist norðan kalsa-veðrátta.

[15.] [Þ.] 9.-10. þ.m. voru hér vestra ofsarosar og rigningar, og síðan tíðast vestanstormar. Aurskriða féll hér úr Eyrarhlíðinni aðfaranóttina 11. þ.m., braut túngarða, og spillti stórum lóðarblettum þeirra Guðbjartar Jónssonar beykis og Erlendar snikkara Kristjánssonar í svonefndum Sauðakrók hér i kaupstaðnum. Sýnist því óhjákvæmilegt, að bæjarfélagið hlaupi undir bagga, og reyni á einhvern hátt að tryggja eignir manna í Sauðakróknum gegn slíku ofanfalli.

[24.] Vestanrosarnir héldust til 19. þ.m., en þá sneri til þurrviðra og hægrar norðanáttar, sem haldist hefur síðan.

[30.] Tíðarfar jafnan milt. og gróðrarveðrátta ágæt að undanförnu, svo að útlit er fyrir, að grasár verði í betra lagi.

Þann 10.júní birtist fréttapistill um Golfstrauminn í Fjallkonunni:

Stríðið milli Bandaríkjanna og Spánar hefir stórum æst metnaðargirnd Ameríkumanna. Ameríka er orðin að hernaðarríki engu betra enn gömlu konungsríkin í Evrópu. Bandamenn eru að reyna að vinna Filippseyjar, sem fara þó ekki fram öðru enn því, sem þeim er heimilt, samkvæmt sjálfstæðisuppkvæði Bandaríkjanna frá, 1776. Enn Bandamenn láta sér ekki nægja með Kúbu og og Filippseyjar. Síðasta ráðabrugg þeirra er ekki minna enn það, að veita Golfstrauminum gegn um Floridaskaga og fá strauminn þannig til að renna meðfram austurströnd Ameríku. Afleiðingin af þessu fyrirtæki mundi verða sú, að veðrátta kólnaði stórkostlega í Norður-Evrópu, mest þó í Englandi, Noregi og á Íslandi. Það er sagt, að nægilegt fé sé fengið til fyrirtækisins, og að byrjað verði á því svo fljótt sem unnt er.  En það er bót í máli, að talið er víst, að ef Ameríkumenn byrja á þessu verki, taki Evrópumenn í taumana og boði þeim óðara stríð á hendur, en þó Ameríkumenn séu miklir fyrir sér, mega þeir ekki við stórveldunum í Evrópu, ef þau eru samtaka.

Júlí. Votviðri í flestum landshlutum, en þó góður þurrkur á Austfjörðum síðari hlutann. Fremur hlýtt.

Þann 15.júlí birti Ísafold bréf úr Strandasýslu (miðri) dagsett 7.júlí. Segir þar af vortíðinni þar um slóðir:

Það var víst um aðra sumarhelgina, er snjóbreiðan mikla tók til að þiðna, sem ég skrifaði siðast. Batinn var góður og hagstæður á aðra viku, en ekki var það fyrr en að hlákan hafði staðið í fulla viku, sem hnottar fóru að koma upp hér, svo að þegar kuldarnir fóru að koma aftur í miðjum maí, var hér sem kallað er aðeins rimasnöp. Féð varð að vaða á kviði yfir krap og skafla til þess að komast á milli hólmanna, sem upp úr stóðu, og þá var byrjaður sauðburður. Ekki minnsta gróðrarnál, og grænu stráin, sem komu undan gaddinum, dóu út jafnóðum. Þessu lík var tíðin fram um fardaga, norðan froststormar og vestan krapaillviður.

Ísafold segir frá óhagstæðri tíð þann 8.:

Veðrátt mjög óhagstæð, - sífeldir óþurrkar og óhlýindi. Mestu vandræði með þurrk á eldsneyti og fiski. Sláttur vart byrjaður víðast, svo að þar gætir eigi óþurrkanna að svo stöddu.

Svipaður tónn er enn í blaðinu þann 22.:

Stakasta ótíð enn. Sífeldir óþurrkar, því nær óminnilegir. Eldiviður óhirtur enn mjög víða, hvað þá annað.

Jónas segir:

[22.] Stöðug óþurrkatíð. Það sem af er þessum mánuði hefir rignt annaðhvort mestallan daginn eða part úr degi 12 daga.

[29.] Óvenjuleg óþurrkatíð; hinn 26. var hér sólskinsdagur, en síðan aftur óhemjurigning h.27.; hægur í dag 28., en rigning af suðri. 

Austri segir þann 31. frá góðri tíð eystra:

Tíðarfar hefir nú verið um tíma hið besta, hitar og þurrkar nálega á hverjum degi.

Ágúst. Votviðrasamt um mikinn hluta landsins, einkum þó síðari hlutann. Hlýtt.

Ísafold birti þann 30.ágúst bréf úr Húnavatnssýslu dagsett þann 14:

Tíð hefir verið hér yfirleitt heldur góð, grasvöxtur í betra lagi, nokkuð rakasamt. Þó hafa menn almennt náð töðum sínum óskemmdum allstaðar, það ég veit. Þrjá fyrstu dagana af ágúst var hér besti þurrkur og þá hirtu menn að orfum. Sunnudaginn og mánudaginn seinasta júlí rigndi hér óttalega og kom vöxtur í Miðfjarðará næstum eins og á vordag í leysingu.

Austri segir þann 9. að tíðarfar sé gott, en nokkrar þokur séu úti fyrir. Þann 21. segir enn af hagstæðri tíð eystra og að hitar séu oft miklir (því miður eigum við ekki hitamælingar frá Seyðisfirði frá þessum tíma). En þann 31. segir blaðið frá því að tíð sé orðin óstillt og votviðrasöm. 

Þann 5. segir Þjóðviljinn ungi:

Sífelldar rigningar og dimmviðri héldust hér til loka júlímánaðar, og skipti fyrst um tíð 1. þ.m.; hafa síðan haldist góðviðri og þurrkar, uns í dag er dimmviðris þoka.

Að morgni þess 11.ágúst mældi Björn Jensson veðurathugunarmaður 46,5 mm sólarhringsúrkomu í Reykjavík. Um það skrifar Ísafold þ.12.:

Mesta rigning sem hér munu vera dæmi til, var í fyrrinótt. Rigndi þar næstan sólarhring, fimmtudaginn og nóttina eftir, 46,5 mm eða hátt upp í 2 þumlunga. Hefir aldrei rignt neitt nálægt því öll þau 12 ár, er adjunkt Björn Jensson hefir haft hér veðurathuganir fyrir veðurfræðistofnunina í Kaupmannahöfn. Kvað þykja tíðindum sæta, ef annað eins rignir nokkurstaðar á jarðarhnettinum, þótt við beri stöku sinnum, að jafnvel meiri ósköp dynji úr loftinu í heitu löndunum.

Fyrir rúmum hálfum mánuði mældi adjunkt B.J. vatnsmegnið [svo] hér í læknum í bænum og taldist hann bera þá fram 7000 tunnur af vatni á klukkustund. Þá rigndi þó ekki nema til hálfs á við það, sem gerðist í fyrrinótt eða sólarhringinn þann, sem sé 24 mm.

Svo vill reyndar til að þrjár hærri sólarhringsúrkomutölur eru á skrá úr Reykjavík á mælitíma Björns. Skýringin er trúlega sú að þá hafi úrkoman annað hvort verið snjór að hluta - eða þá í raun heildarúrkoma tveggja eða fleiri daga. Öll tilvikin þrjú urðu að vetrarlagi og snjór þess vegna hugsanlegur og í öllum tilvikum var engin úrkoma skráð daginn áður. Snjór var oftast áður fyrr mældur í sérstakan mæli. Nokkuð mál er að skera úr um hvor skýringin á við - og lætur ritstjóri hungurdiska þá vinnu bíða betri tíma.

En Þorsteini Jónssyni athugunarmanni í Vestmannaeyjum þótti ekki sérlega mikið til þessarar úrkomu koma - segir þetta í bréfi í Ísafold þann 30.ágúst:

Í Ísafold 12. þ. mán. er getið um hina afarmiklu rigningu 10. og aðfaranótt 11., og er að maklegleikum talin með mesta úrfelli á einum sólarhring. Ég hef athugað hér úrkomu í 19 ár, og hefir hún á því tímabili 7 sinnum verið enn meiri en hún var þennan sólarhring í Reykjavik. Hér á eftir set eg ár og daga á téðu tímabili, þá er úrkoman hefir farið fram úr 35 mm á sólarhring. [Við sleppum þeirri töflu, en látum þess getið að hæsta tala hennar er frá 14.mars 1886, 62,6 mm (snjór) og sú næsthæsta 59,4 mm sem mældist 11.október 1888]. 

Að morgni þess 11. mældist úrkoma í Vestmanneyjum 40,0 mm og 52,3 mm á Eyrarbakka. Þann 20. mældist úrkoman á Eyrarbakka 65,2 mm. 

Þjóðólfur segir þann 25. frá rigningatíð:

Óþurrkatíð afarmikil hér á Suðurlandi: sífelldar stórrigningar og rosaveðurátta, sem á haustdegi; stytti dálítið upp í næstliðinni viku og gerði þurrk 3-4 daga, er kom víða að góðum notum, en hvergi nærri til hlítar, því að vatnið var orðið svo mikið á útengjum. Á Norður- og Austurlandi hefur veðurátta verið miklu hagstæðari, og eins á Vesturlandi mun betri en hér. Horfir til stórmikilla vandræða, ef ótíð þessi helst lengi úr þessu.

September. Óstöðug tíð framan af, en síðan stilltari og bjartari syðra. Kalt.

Blöðin eru ekki margorð um tíðina í september en Austri segir þó í pistlum:

[11.] Tíðarfarið alltaf mjög óstillt og votviðrasamt og liggur bæði fiskur og hey nú undir stórskemmdum.

[21.] Tíðarfar fremur kalt og óstöðugt, en rigningar nokkru minni, svo bændur munu þó nú víðast hafa náð heyi sínu í garð, en sumstaðar nokkuð skemmdu.

[30.] Tíðarfar mjög kalt og rosasamt og snjór fallinn nokkur alveg ofaní byggðir.

Þjóðviljinn ungi telur tíð þar vestra þrátt fyrir allt skárri en sunnanlands í pistli sem birtist þann 18.september:

Í þ.m. hefur tíð alloftast verið fremur kalsasöm, og sólskins- og þerrirdagar fáir. Grasspretta var hvívetna ágæt hér vestra í sumar, svo að almenningur mun sjaldan hafa búið betur að heyjum en nú. - Þrátt fyrir óþerrana munu og hey óvíða hafa orðið  fyrir skemmdum, enda kvað mun minna að óþerrunum hér vestra, þótt slæmir væru, en i sumum sveitum á Suðurlandi.

Jónas segir þann 23.: „Undanfarna viku oftast verið við vesturútnorður, við og við með regnskúrum, oft hvass og bjart sólskin. Í dag (22.) snjóhríð hér í morgun, svo jörð hvítnaði, og er það mjög óvanalegt hér um þetta leyti“. Úrkoma - sem talin var snjór mældist 8,4 mm að morgni 23. - Síðan kom vika án þess að úrkoma mældist. 

Ísafold birti þann 7.október bréf úr Skaftártungu, dagsett 23.september:

Þetta sumar hefir verið gott. Því hefir tekist að gera flestum til hæfis, sem er þó sjaldgæft hér, eins og víðar í veröldinni. Veðrátta hin besta. Vætusamt fremur fram að slætti; síðan hagstæðir og nægilegir þerrar. Grasspretta varð í besta lagi; þó sérstaklega á túnum og harðvellisjörð. Heyfengur almennt með mesta móti og allt hey grænt og gott. Jarðarávöxtur mun víðast vera í meira lagi. Garðarækt — einkum jarðepla — annars minna stunduð en mætti vera og æskilegt væri. Sagt, að hún geti ekki vel gefist, vegna vorharðinda. Virðist það þó við rýra reynslu styðjast og sannanir ónógar — þess fremur, sem sumum mönnum misheppnast sjaldan með sína garða. Jarðabætur eru i smáum stíl. Óviða þarf að slétta tún hér; þau eru svo að kalla allstaðar eggslétt frá náttúrunnar hendi. Lítið er gert að túngarðahleðslu; má þó sumstaðar sjá merki þess, frá eldri tíð, að forfeðrunum hefir þótt það til vinnandi. Því miður er útlit fyrir, að þau merki ætli að verða endurminningar einar.

Þjóðólfur birti þann 20.október bréf úr Rangárþingi, dagsett 24.september:

Héðan úr sýslunni er fátt að frétta; tíðarfar fremur stirt og heyskapur þar af leiðandi fremur slæmur hjá mörgum. Þeir einir hafa heyjað vel, sem haft hafa þurrlendar slægur, sumir jafnvel aldrei annað eins.

Október. Óstöðug tíð, einkum eftir miðjan mánuð. Fremur kalt.

Þjóðviljinn ungi segir frá tíð þann 6.:

Eftir september miðjan tók tíðin að gjörast all-kuldaleg, og fjöllin að klæðast í vetrarskrúðann. - Í byggð fennti þó eigi að mun, fyrr en 22. september, er jörð gerði alhvíta. Frost hafa og vorið hér nokkur öðru hvoru, og norðan hvassviðri, en síðustu dagana sól og sumar.

Austri segir þann 9. frá óstilltri tíð og vindasamri, en ekki hafi verið kalt að jafnaði og snjór tekinn upp að mestu. Þann 19. segir blaðið frá mildari tíð og landáttum og snjór sé að mestu horfinn. En jafnframt þó að fyrsti hauststormurinn hafi gengið yfir aðfaranótt 18. og hafi verið snarpur á Vestdalseyri og úti í firðinum, en ekki sé vitað af tjóni. 

Þann 20.október birtir Þjóðólfur bréf úr Dalasýslu dagsett þann 11.október:

Tíðin er fremur köld og frostasöm, svo að erfitt er að stunda útivinnu, hvort heldur eru húsabyggingar eða jarðabætur, en samt hefir nú í hálfan mánuð mátt oftast heita gott veður.

Þjóðviljinn ungi segir þann 14. frá haustlegri veðráttu, stinnum norðangarði 9. til 12. en síðan snjóum og kaldri veðráttu, „uns hlánaði í dag“. Þann 25. segir blaðið enn frá óstöðugri tíð, ýmist frosti og snjó eða vestan rosum. 

Það var 13. til 14. október sem gríðarlegur mannskaði varð í Vestur-Noregi. Þá fórust 60 til 80 bátar og um 300 manns í miklu illviðri. (Ísafold 3.janúar 1900). 

Nóvember. Rysjótt og köld tíð með talsverðum snjó með köflum.

Austri segir þann 11. frá stirðri og snjóasamri tíð að undanförnu, en bætir við „í dag er frostlaust og rigning töluverð“. Þann 21. hefur brugðið til betra, „Tíðarfar hefir nú í meira en viku verið mjög blítt og snjó tekið mikið upp, bæði hér í Fjörðum og í Héraði, og víðast komin upp góð jörð“.

Ísafold segir frá því 11.nóvember að tíð hafi verið óstöðug og köld á Melrakkasléttu í haust og frosthríðar í miðjum október. Síðan segir af heyskap syðra:

Heyskapur varð með meira eða mesta móti hér sunnanlands í sumar, áður lauk, ... en nýting slæm og heyin því rýr og skemmd. En því austar sem dregur, því betri hefir nýtingin orðið, og góð í Skaftafellssýslum.

Stefnir segir frá foktjóni í frétt þann 8.desember. Danska veðurstofan stóð þennan vetur fyrir norðurljósaathugunum við Eyjafjörð:

Í ofsaveðrinu 15. og 16. [nóvember] fauk hús það, sem norðurljósamennirnir létu reisa yfir á Vaðlaheiði, og fundust flekarnir úr því til og frá um heiðina. Mælt er að þeir félagar hafi helst við orð, að halda til upp á Súlutindi einhvern tíma seinna í vetur.

Þjóðólfur hrósar tíð þann 24.:

Veðurátta er nú hin hagstæðasta, hæg úrkoma og hlýindi í veðri, jörð alauð og marþíð. ... Á Patreksfirði rak 2 fiskiskútur á land 16. þ.m. í ofviðri.

Heldur síðra hljóð er í pistlum Þjóðviljans unga á Ísafirði:

[10.] Frá byrjun þ.m. hefur viðrað mjög stirt, all-oftast norðangarðar, frost og snjóhret.

[18.] Um síðustu helgi breyttist veðráttan til suðvestanáttar, og 14. til 17. þ.m. var aftaka suðvestan rok, og þá ýmist hellirigning eða haglél og kafaldsbleyta.

[29.] Síðan síðasta nr. blaðsins kom út hafa all-oftast verið frost nokkur og norðan hvassviðri og fannkomur öðru hvoru. Hafísinn mun nú vera örskammt hér útundan vesturkjálka landsins, því stöku jakar hafa komið inn i Djúpið.

Ísafold birtir ódagsett nóvemberbréf úr Árnessýslu þann 13.desember, þar er lýst heyskaparlokum þar um slóðir:

Sumarið, sem leið, var að sumu leyti eitt hið langerfiðasta, sem menn muna, einkum i neðra hluta sýslunnar. Á votengisjörðum var slátturinn mjög erfiður; í sumum sveitum
urðu stöku menn algjörlega að hætta slætti um lengri eða skemmri tíma; stafaði það af vatnsfyllingum, sem allt færðu i kaf. Á endanum rættist samt furðanlega úr heyskapnum að vöxtum til; um og eftir réttir kom þerrir og náðu þá allir heyjum sinum. En misjafnlega munu þau verkuð, ýmist mygluð, hálfbrunnin eða drepin og fúin; mun varlegra að setja á þau með gætni.

Þann 30. desember segir Þjóðviljinn ungi frá nokkrum skipströndum í nóvember:

Aðfaranótina 15. nóv. síðastliðinn strandaði suður í Grindavík gufuskipið „Rapíd", fermt salti og olíu til verslana Geirs Zoéga og Th. Thorsteinsen í Reykjavík. — Sömu nótt strandaði skonnertan „Málfríður" við Vatnsleysuströnd, fermd vörum til Duusverzlunar í Keflavík. Í ofsa norðanroki 7. nóvember síðastliðinn strandaði ennfremur gufuskipið „Tejo" á Siglufirði; rak skipið þar á grynningar, svo að steinar gengu upp um botninn, og hálf-fyllti skipið af sjó, en Ryder skipstjóri, og menn hans, björguðust á bátum að Haganesvík í Fljótum. — Gufuskipið „Tejo" var eign „Sameinaða gufuskipafélagsins", og var um 500  nettósmálestir að stærð. smíðað á byggingaverkstæði Burmeister og Wain's í Kaupmannahöfn 1891, og hafði kostað 320 þús. króna. — Skipið átti, sem kunnugt er, að flytja fisk til Liverpool, Spánar og Ítalíu, og munu alls hafa verið komin í það nál. 5 þúsund skipspund, svo að skaðinn er eigi all-lítill.

Desember. Nokkuð rysjótt syðra, en betra norðaustanlands framan af, en erfið tíð þar síðustu vikuna, en þá góð syðra. Hiti í meðallagi.

Austri segir þann 9. frá blíðri tíð á degi hverjum og þann 21. að tíðarfar hafi nú um langan tíma verið hið indælasta, stilling og blíða sé á hverjum degi. Síðan segir frá ofsaveðri sem gerði þann 12.:

Ofsaveður varð hér á Austfjörðum mánudaginn þ. 12. þ.m. er gjörði víða töluvert tjón. Þá fauk þak ofan af einu hólfinu í íshúsbákni Garðarsfélagsins, þá, fuku og þök af fiskiskúr og bátaskjóli á Dvergasteini, og járnþak af heyhlöðu í Stakkahlíð.- Og nokkrar skemmdir urðu líka Mjóafirði.

Jónas segir frá í Ísafold þann 16.:

Hefir verið við útsuður, oftast nær með snjókomu; h.11. var hér ofsaveður, af suðri-útsuðri með svörtum éljum, síðan hægur; í dag (15.) logndrífa og kyngdi niður snjó í morgun, komið regn um hádegið, hægur á austan.

Og þann 23.segir hann:

Hefir verið við útsuður, en við og við gengið til landsuðurs með mikilli rigningu og svo hlaupið aftur í útsuður með éljum, en þó hægur. Hér nú aðeins lítið föl; við það frostlaus jörð.

Þjóðviljinn ungi segir þann 6.desember: 

Tíðarfar hefur verið all-gott síðasta vikutíma, hæglætis veðrátta all-oftast og fannkoma nokkur öðru hvoru.

En þann 30.segir blaðið:

Síðan um miðjan þ.m. hafa gengið sífelldir suðvestan rosar og skipst á rigningar og kafaldshríðir. - Hafa veðrin oft verið aftakahörð, sérstaklega síðara hluta dags 21. þ.m., og nóttina næstu, enda fauk þá um koll hjallur einn hér i kaupstaðnum, og fjögramannafar brotnaði. — Á aðfangadaginn sneri þó til frosta og norðanáttar.

Austri segir sama dag:

Tíðarfarið hefir nú þessa síðustu daga verið mjög stirt, krapahríð á annan í jólum, en froststormur og snjókoma mikil síðan.

Ísafold segir þann 3.janúar 1900:

Norðanveður mikið var hér jólavikuna alla og rúmlega það, frá því á þorláksmessu og fram á nýársdag, bálviðri dag eftir dag, en frost lítið að jafnaði og snjókoma engin.

Þjóðviljinn ungi birti þann 6.febrúar 1900 bréf úr Inn-Djúpi. Þar segir frá hausttíðinni:

Í októbermánuði var ágæt veðrátta fyrir fénað, smáfelldir norðan vindar, frost væg, fannkoma lítil, og stórrigningar engar, svo að búpeningur tók almennt góðum haustbata, og lömb voru eigi komin á gjöf í mánaðarlokin, og bráðadauða varð eigi vart. Eftir nóvemberbyrjun gjörði stórfelldar fannkomur, svo að víðast komu hestar, jafnt sauðfénaði, á gjöf, enda varð skepnum þá eigi komið frá húsum, vegna fanndýpi; og í desember komu smáblotar, og var þá víðast hvar haglaust, svo að á nýári mátti heita, að komin væri tveggja mánaða innistöðugjöf í miklum hluta innsveitanna hér við Djúp, einkum að vestanverðu.

Þann 24.febrúar 1900 birti Ísafold bréf af Snæfellsnesi sem gerir upp árið þar um slóðir:

Árið sem leið byrjaði með hreinviðrum, og var hér snjólitið fram á þorra. Þá hófust fannkomur miklar, sem héldust fram yfir sumarmál. Flestir urðu heylausir hér um pláss, og margir skáru skepnur sinar af heyleysi, mest í Eyrarsveit; fáir voru, sem gátu hjálpað öðrum um hey, en kaupmenn í Stykkishólmi lánuðu bændum mikið korn til fóðurs fyrir skepnur. Í veiðistöðunum undir Snæfellsjökli varð ágætur fiskafli bæði um vetrar- og vorvertíðina, frá páskum til hvítasunnu, 700 til hlutar mest. Eftir sumarmálin varð bátstapi í Ólafsvik, sem áður hefir verið getið í Ísafold. Maímánuður byrjaði með fremur hagstæðum bata, en þó féllu viða skepnur af hor og öðrum vanköldum. Unglambadauði mikill. Af þessum framantöldu ástæðum er landbúnaður hér í mikilli afturför; menn eru hér sokknir i miklar skuldir í kaupstöðum, sem að miklu leyti koma af lágu verði á öllum afurðum landbúnaðarins, og líka af því, að vinnufólk fæst ekki, nema fyrir langt um hærra kaup en var fyrir nokkrum árum, og margt fólk vill fá kaupið í innskrift hjá kaupmönnum. Allt vorið og sumarið var  mjög votviðrasamt fram til rétta; hröktust því víða hey, en grasvöxtur í mesta lagi, einkum á túnum og eyjum. Á réttum byrjuðu þurrviðri oftast við austanátt, fram til 10. nóv.; þann dag og næsta dag féll hér mikill snjór. Um það leyti lá úti tvær nætur kvenmaður frá Leikskálum í Haukadal, Guðný að nafni, fannst með litlu lífi, en hresstist þó. Í desember var óstöðug veðrátta, oftast frostvægt, en norðangarður um hátíðarnar. Góður afli undir Snæfellsjökli.

Lýkur hér að sinni samantekt hungurdiska um tíðarfar og veður ársins 1899. Finna má ýmsar tölulegar upplýsingar í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 53
  • Sl. sólarhring: 225
  • Sl. viku: 1018
  • Frá upphafi: 2420902

Annað

  • Innlit í dag: 46
  • Innlit sl. viku: 895
  • Gestir í dag: 46
  • IP-tölur í dag: 46

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband