7.8.2018 | 23:57
Af árinu 1898
Árið 1898 var mjög umhleypingasamt og illviðri voru tíð, en samt fór ekki mjög illa með veður þegar á heildina er litið. Svalt þætti okkur nútímamönnum, en höfum þó nokkrum sinnum upplifað ámóta hitafar, síðast 1995.
Einn mánuður ársins, október, telst hafa verið hlýr, febrúar, mars, maí, júlí, ágúst og nóvember hins vegar kaldir. Febrúar kaldastur að tiltölu. Hiti annarra mánaða var nærri meðallagi.
Myndin sýnir daglegan hámarks- og lágmarkshita í Reykjavík. Taka má eftir alllöngum jafnköldum kafla í febrúar og framan af mars. Þá var mjög snjóþungt víða um land. Mikið kuldakast gerði í dymbilvikunni, en síðan var góð tíð síðari hluta aprílmánaðar. Kuldaköst spilltu maímánuði nokkuð. Eins og sjá má vantaði mjög upp á sumarhlýindi í Reykjavík, varla að hitinn næði 15 stigum. Slæm kuldaköst gerði í ágúst - en hlýtt var í október.
Mesta frost á árinu mældist í Möðrudal 6.apríl, -28,2 stig, en hæsti hiti mældist á Teigarhorni þann 21.ágúst, 23,1 stig. Ritstjóri hungurdiska telur 9 mjög kalda daga í Reykjavík, þar af voru þrír í dymbilvikuhretinu, tveir í hretinu um miðjan maí og fjórir í hinum hretasama ágústmánuði. Í Stykkishólmi telur hann fjóra mjög kalda daga, tvo í apríl, einn í maí og einn í ágúst (5.). Í Stykkishólmi telst einn dagur mjög hlýr. Það var 7. október.
Árið á fáein dægurlágmörk sem enn standa. Á landsvísu er það lágmarkið í Möðrudal 6.apríl. Sá dagur á einnig dægurlágmarkshita í Reykjavík og á Akureyri. Tvö landsdægurhámörk standa enn, áðurnefndur hiti á Teigarhorni 21. ágúst og síðan 19,3 stig sem mældust á Akureyri 26.september.
Meðalloftþrýstingur var með lægsta móti í apríl. Lægsti þrýstingur ársins mældist á Teigarhorni 15.febrúar, 942,1 hPa. Seyðfirðingar sögðust hafa séð loftvogina fara niður í 933 hPa í þessu sama veðri. Vel er það hugsanlegt, aðeins var lesið þrisvar á dag af á Teigarhorni - og enginn síriti til staðar.
Hæst fór loftþrýstingur á árinu í 1039,4 hPa. Það var í Stykkishólmi 25. og 26.mars.
Hér á eftir er stiklað á veðurtíðindum ársins eins og fjallað var um þau í blöðunum. Að vanda er stafsetning færð til nútímahorfs (að mestu). Ekki er nema hluti sjóslysa tíundaður. Í viðhenginu má finna meðalhita einstakra mánaða á veðurstöðvunum, upplýsingar um úrkomu og sitthvað fleira.
Skírnir (1898) segir almennt frá tíð:
Frá nýári og allt til marsmánaðarloka voru miklar fannkomur og umhleypingar. Var þá haglaust milli fjalls og fjöru um allt Suðurland og Vesturland og Norðurland vestanvert, en í Eyjafirði og Þingeyjarþingi og Múlaþingum var góð veðurátta, því að illviðra af suðri gætir þar minna. Svo mikil var fannkoman um Suðurland, að elstu menn muna ekki aðra meiri. Þegar komið var fram í lok marsmánaðar, gerði hlákur, en úr pálmadegi gerði aftur norðanveður með frosti. Gjafatími var víða feikilega langur og lá við heyþroti og felli, en varð þó eigi úr svo teljandi sé. Í maímánuði viðraði allvel og nál kom í jörð. En öndverðan júní var þurrkur og norðanveður, en brá síðan til rigninga, og hélst fram yfir 20. júlí. Grasvöxtur varð í meðallagi, en töður manna skemmdust víða. Fyrstu dagana í ágúst var þurrt, en síðan vætur og óþurrkar til sláttuloka. Sunnanlands og vestan hröktust mjög hey fyrir bændum, en minna norðanlands; og í Þingeyjarþingi og Múlasýslum varð nýtingin góð, því að þar voru meiri þurrviðri um sumarið. Yfir höfuð að tala varð heyskapur í meðallagi, þótt víðast hvar viðraði illa um sláttinn. Nokkru eftir réttirnar kom góðviðrakafli, en ekki var hann langur. Eftir það tóku við umhleypingar og fannfergi og stóð svo til nýárs. Þó var góð tíð austanlands. Í desembermánuði [hér mun sennilega átt við nóvembermánuð - þó illviðrasamt hafi líka verið í desember] gerði afspyrnurok vestanlands og urðu nokkrar skemmdir af.
Janúar: Umhleypingasamt og snjóþungt um vestanvert landið, en betri tíð eystra. Hiti í meðallagi.
Dagskrá birtir þann 16.febrúar bréf úr Skagafirði, dagsett 20.janúar. Þar segir m.a.:
Þriðja þ.m. fauk i ofsaveðri á austan timburhús, er var í smíðum í Bakkakoti i Vesturdal.
Austri segir frá góðri tíð eystra bæði 10. og 20.:
[10.] Tíðarfarið hefir mátt heita hið besta það sem af er þessu ári, en þó nokkuð breytilegt, ýmist frost og hreinveður eða þíður og rigning á nóttum, og er svo að segja marautt upp í mið fjöll. Í dag er bjart veður, frostlítið.
[20.] Veðráttan er alltaf mjög blíð, en í fyrradag gjörði krapasletting og frysti á eftir, svo nú mun jarðlítið sem stendur, að minnsta kosti hér niðrí Fjörðunum. Í dag er veður bjart og frostlítið.
Syðra var tíð verri, Þjóðólfur segir frá þann 21. og 28.:
[21.] Mikil snjókoma hefur verið hér undanfarna daga, og hljóta að vera komin óvenjulega mikil snjóþyngsli til sveita.
[28.] Veðurátta hefur verið hin versta nú alllanga hríð: snjókoma mikil og kafaldsbyljir með köflum.
Febrúar: Umhleypingasamt og snjóþungt um vestanvert landið, en betri tíð norðaustanlands. Kalt.
Þann 18.febrúar segir Þjóðólfur frá því að flutningabátur með fjórum mönnum hafi farist í snörpu sunnanveðri undan Melasveit þann 8.febrúar.
Stefnir (á Akureyri) segir þann 11.febrúar:
Sama góðviðrið það af er þorra, að vísu umhleypingasamt og óstöðug veður, en frostlítið lengst af og snjólítið. Sauðfé því víðast beitt í Þingeyjarsýslu og landbetri sveitum Eyjafjarðar. og ekki gefin nema hálf gjöf af heyi.
Bréf úr Grímsey, dagsett 14.febrúar birtist í Þjóðólfi 1.apríl:
Nú bíða menn alltaf landleiðis síðan eftir jól og óvíst hvenær það fæst; hér eru sífelldir umhleypingar og úfinn sjór; tíðin hefur mátt heita framúrskarandi óstillt síðan i haust, sjaldan haldist sama áttin daginn út, en frost hafa verið væg og snjókoma lítil; mest frost á vetrinum hefur orðið 26. janúar -11° C: í desembermánuði var að jafnaði + 1° og er það víst óvanalegt. Á sjó hefur ekki gefið síðan á aðfangadag jóla; var þá vel fiskvart; annars hefur verið fremur aflalítið árið sem leið. Enginn hefur sést hér ís og eru lítil líkindi til, að hann sé nálægur; það sem menn hafa til marks um það er: tíðar landáttir, sjóar miklir og sjóhiti ( +1,5 °C til 2,5°) en þegar ís er í nánd er ævinlega dauður sjór og sjókuldi (undir 0° C).
Þjóðólfur birti þann 18. febrúar bréf úr Austur-Landeyjum, dagsett þann 6.:
Tíðarfar mjög óstöðugt, sífelld sunnanátt með snjókomu við og við og þess í millum landsynningar með stórrigningum og er því fjarska hrakasamt á skepnum og lítur þess vegna út fyrir, að fénaður verði rýr undan vetrinum, einkum þegar heybirgðir manna eru fremur litlar eftir sumarið, sem var fremur vætusamt.
Þann 18. febrúar greinir Þjóðólfur frá tíð - og einnig sköðum í illviðri þann 15.:
Veðurátta hefur það sem af er þessum mánuði verið hér mjög stirð, fannfergja afarmikil og kafaldshríðar. Jarðlaust nú fyrir allar skepnur hér sunnanlands. Þykjast gamlir menn naumast muna jafnmikla snjókyngju. - Síðustu 2 daga hefur verið hreinviðri og frostlitið.
Í ofsaroki 15. þ.m. sleit upp fiskiskútu af skipalegunni á Eiðisvík hér inn í sundunum og brotnaði hún í spón. Hafði hún verið keypt frá útlöndum í sumar sem leið fyrir 7000 kr., og var því eigi farin að ganga til fiskjar og eigi vátryggð. Eigendur hennar: Runólfur bóndi Ólafsson í Mýrarhúsum og Jón skipstjóri Arnason hafa því orðið fyrir mjög tilfinnanlegu tjóni.
Austri greinir þann 18. frá ofsaveðri sem gerði eystra að morgni þess 15.:
Ofsaveður gjörði hér að morgni þ.15. þ.m. af norðvestri, er stóð heilan sólarhring, með fjarska knöppum byljum, svo hús léku á reiðiskjálfi, og allt fauk er ekki var því betur njörvað niður; enda var ekki við góðu að búast, því loftvogin var að morgni þ.15. hlaupin niður úr öllu valdi, niður á 700 [933 hPa], sem mun mjög sjaldgæft, og hefir þetta ofsaveður víst náð viða yfir, og líklega gjört töluverðan skaða, víðar en hér. Þessir urðu helstir skaðar hér í firðinum, sem enn er til spurt: Gufubátinn Elín" sleit upp. Kjötskúr kaupmanns Sig. Johansens fauk alveg og heyhlaða á Búðareyri. Síldarhúsið Þórshamar skemmdist til muna og síldarfélagshúsið á Ströndinni skekktist. Af nýja húsinu í Steinholti fauk nokkuð af járnþakinu og nokkrar plötur af Dvergasteinshúsinu, og einir 4 bátar fuku, þar á meðal uppskipunarbátur við V.T. Thostrupsverslun. Á Vestdalseyri skemmdust bryggjur og fauk skekta", eign Sveins bónda Jónssonar á Eiríksstöðum.
Frekari fréttir af tjóni í þessu veðri má finna í Austra þann 10.mars - sömuleiðis fréttir af flóði í Fáskrúðsfirði - ekki alveg ljóst hvers eðlis það flóð var:
Fjárskaða voðalegan sagði síðasti Vopnafjarðarpóstur hafa orðið í ofviðrinu mikla þ. 15. febr. á Hámundarstöðum i Nípsfirði, þar sem þeir, atorku- og dugnaðarmennirnir, Björn Jónasson og Sveinbjörn Sveinsson, misstu um þrjú hundruð fjár í sjóinn í ofveðrinu, svo þeir eiga nú aðeins örfáar kindur eftir, og hafa þannig misst nær aleigu sína, og er vonandi, að góðgjarnir menn rétti þessum ungu dugnaðarmönnum hjálparhönd. Töluverðir fjárskaðar urðu einnig í sama veðri, á Skeggjastöðum og Miðfjarðarnesi á Langanesströndum og Litlabakka í Tungu.
Frá Reyðarfirði. Tíðarfar hefir verið að undanförnu allgott. 15. febr. kom ákaflegt norðvestan hvassviðri, en skaða hafði það eigi gjört að mun, sem til hefir spurst. Aðfaranótt 24. febr. kom vatnsflóð á Sævarenda í Fáskrúðsfirði, og gjörði þann skaða, að hjallur og fiskiskúr, ásamt fiski, er var í skúrnum, fór út á sjó, og hafði engu verið náð.
Fjallkonan segir þann 22.mars frá tjóni í sama veðri austur á Síðu:
Ofsaveður gerði 15. febr. á Siðu og víðar austur um, og gerði talsvert tjón. Á Hörgslandi fauk þak af hlöðu, sem Sigurður póstur átti, með báðum stöfnum í einum svip og fuku úr henni um 70 hestar af heyi. Veðrið braut flestar rúður i gluggum á Hörgslandi og viðar.
Ísafold birtir þann 12.mars bréf úr Strandasýslu og Barðastrandarsýslu, dagsett í febrúar:
Strandasýslu sunnanverðri 25.febrúar: Tíðarfar gott fram yfir nýár, en síðan úrfellasamt mjög, oftast snjógangur af útsuðri. Nú er snjór mikill og haglaust að kalla allstaðar hér um slóðir. Barðastrandarsýslu í febrúarmánuði: Tíðin hefir verið óvenjulega stirð í vetur, einlæg útsunnanveður og hættutíð til sjóarins. Stundum hafa veðrin verið svo ofsaleg, að menn muna naumast önnur eins.
Ísafold birti 30.mars frétt úr Skagafirði þar sem segir: Hinn 15.[febrúar] var versta hríð og í rauninni sú fyrsta á vetrinum. Þá kom hinn mesti snjór, og varð víða jarðlaust og annars staðar mjög jarðlítið. Þessi mikli snjór og jarðbönn hafa haldist síðan og minnka nú heyin óðum.
Þjóðviljinn ungi segir þann 9.mars frá mannsköðum í illviðri þann 28.febrúar:
Það er nú sannspurt orðið, að i áhlaupsveðrinu 28. hafa orðið tveir skipstapar, annar úr Bolungarvík, en hinn úr Súgandafirði, og hafa þar farið 12 menn í sjóinn.
Mars: Snjóþungt, en lengst af ekki illviðrasamt. Fremur kalt.
Ísafold greinir frá snjóþyngslum þann 5.mars:
Landið sem jökull, ein jökulbreiða frá fjallatindum til fjörumáls. Meira fannkyngi muna naumast elstu menn. Gersamlegt jarðbann frá því með þorrabyrjun, en er jarðlítið síðan á Þrettánda. En frost væg. Horfur mjög slæmar með heybirgðir víða.
Bréf úr Mýrdal, dagsett 12.mars, birtist í Þjóðólfi þann 9.apríl, í sama blaði voru líka bréf dagsett í Önundarfirði 12.mars og í Húnavatnssýslu þann 14.mars:
[Mýrdal] Frá því með byrjun jólaföstu, hefur hér, að heita má, verið einlæg gjafatíð; hagagöngujarðir hafa stórkostlega brugðist, svo hver skepna hefur nú lengi verið á fullri gjöf. Sífelldir, beljandi útsynningar hafa lamið utan hús og mengi, ýmist með frosti og hagli, krapaslyddu eða ofsaroki frá því snemma í desember. Einungis voru blessuð jólin þíð og góð fram til þrettánda. Svona hefur hann nú liðið, og liðið áfram,þessi vetur og alltaf hafa menn verið að vonast eftir bata, tautandi og jarmandi yfir tíðinni.
[Önundarfirði] Veturinn hefur hefur verið mjög rosasamur, einlægir umhleypingar frá því í haust og það fram á þorra. Kafaldshríðar og rigningar hafa skipst á, mest af suðri og útsuðri; en síðan á þorra hefur verið harðindatíð, snjóalag mikið og töluvert frost með köflum mest af norðri, en útsynningséljagangi á hinn bóginn. Hey hafa reynst víða fremur létt og mikilgæf og er farið að brydda á heyskorti hjá einstöku manni, en ekki er það almennt, en fremur hætt við, að margir verði knappir, ef harðindi þessi haldast, nema vorið bæti því betur úr.
[Húnavatnssýslu - miðri] Eins og sjá má af fregnbréfum héðan og víðar var hin æskilegasta tíð í haust og yfirleitt í vetur fram í miðjan febrúar en þá kom annað hljóð í strokkinn. Hinn 15. febrúar gerði voðalega norðvestan hríð með ákafri snjókomu og síðan hefur hvert hríðarkastið rekið annað. Jörð er því nú orðin undirlögð af gaddi og nálega haglaust fyrir allar skepnur, þar sem til spyrst um þessa sýslu og Skagafjarðarsýslu. Heybirgðir þverra óðum, síðan hross komu á gjöf, en þau eru of mörg víða til að verða aðnjótandi mannlegrar hjúkrunar yfir veturinn.
Og bréf úr Þingeyjarsýslu sem birtist í Þjóðólfi 23.apríl, dagsett 13.mars:
Haustið var hér eitt hið versta, og horfði þá þunglega fyrir mörgum með heybirgðirnar; lá við borð, að margir förguðu stórkostlega af fóðrum. En í lok nóvember skipti algerlega um veðuráttuna, og hefur síðan verið besta veðurátta og nægar jarðir í flestum sveitum Þingeyjarsýslu, svo nú eru menn almennt úr allri hættu, og það þó vorið verði nokkuð hart. Samt hefur alltaf verið jarðskart í sumum efstu sveitum, t.d. ofarlega í Bárðardal, því þar tók aldrei upp hinn fyrsta snjó, og var að kalla jarðlaust til jóla. Hey og beit hafa reynst í betra lagi, og fénaður því að vonum í góðu standi.
Bréf, dagsett í Vestmannaeyjum 15.mars birtist í Ísafold þann 23.:
Síðan með þorra hafa gengið allmikil harðindi með talsverðri snjókomu og nær sífelldum suðvestanstormum; bjargarbann fyrir fénað hefir þó hér eigi orðið, nema á Heimaey um tíma. Hlákan 5.-7. þ.m. bræddi megnið af snjónum, og síðan hefir mikill snjór eigi fallið.
Og þann 26. birti Ísafold bréf úr Rangárvallasýslu, dagsett 14.mars:
Síðan um þrettándann hafa verið sífelldar innistöður alls fénaðar á fyllstu gjöf. Níuviknafastan byrjaði og stóð öll með afarmikilli snjókomu og hríðum af útsuðri og töluverðum frostum, 1213°C og segjast gamlir menn eigi muna aðra eins útsynninga. Má síðan segja, að eigi hafi séð dökkvan díl né stingandi strá, hvert sem litið og hvar sem farið var. Síðan með sjöviknaföstu hafa aftur verið stillur og oft indælt veður, bjart og hlýtt, en allt af öðru hvoru mikil snjókoma, og enn, i dag, er töluverð snjókoma og ekki afléttilegt. Allan þenna tíma hefir Rangárvalla- og Árnessýsla verið ein snjóeyðimörk, og færðin svo, að engri skepnu hefir verið fært frá koti; allar bjargir bannaðar víðast. Snjókyngið hefir að vísu sigið og þést við 2 eða 3 stutta blota og harðnað af frosti, svo að mannfæri er nú nokkurn veginn, en ófært má heita hér enn að komast með skepnur um jörðina. Síðastliðið sumar var hér um sýslur víðast erfitt og rýrt til heyskapar. Óþurrkar um túnaslátt allan og útengi snögg, svo að töður flestra hröktust og hey urðu almennt með minna móti, en engar heyfyrningar undir eftir landskjálftasumarið. Það er því engin furða, þótt almenningur hafi verið miður vel við búinn jafnlöngu og algerðu jarðbanni og hagleysu, sem nú er orðið, enda er almenningur mjög orðinn tæpur, og sumir i voða, en fáir meir en sjálfbjarga.
Og bréf úr Árnessýslu og Vestur-Skaftafellssýslu birtust í Ísafold þann 30., bæði dagsett þann 21.:
[Árnessýsla] Tíðin mjög stirð bæði til lands og sjávar; þó má ekki heita tilfinnanlegur heyskortur hér í hreppi, enda litið um vetrarbeit venjulega, nema fjörubeit, sem ekki hefir brugðist í vetur. Sjóveður mjög stirð, og valda því brim og rok, en nægur fiskur fyrir, þegar út á sjó verður komist.
[Vestur-Skaftafellssýsla] Tíðin hefir þótt skara fram úr venju að óblíðu og snjóasafni, síðan nýár. Almennt heyleysi ytra og eystra i vændum, ef ekkert batnar úr þessu. Margir búnir að lóga kúm af heyjum, og nokkrir sauðfénaði (lömbum).
Heldur betra hljóð er í Ísafold þann 23.mars:
Nú er loks komin álitleg og eindregin hláka að sjá, stillt og stórrigningalaus. Það munu líka vera síðustu forvöð ef ekki á að verða nær kolfellir á fjölda bæja i mörgum sveitum hér sunnanlands.
Ekki var mjög slæmt hljóð veðurpistlum Þjóðviljans unga á Ísafirði í mars:
[9.] Tíðarfar hefir verið milt og stillt undanfarna daga. [12.] Tíðafar milt á landi, en fönn mikil á jörðu og rosar til hafsins öðru hvoru. [23.] Sífelld stillviðri hafa nú haldist hér vestra um hríð, og oftast frostlítil veðrátta. [31.] Öndvegistíð hefir um langa hríð verið hér vestra og mun svo vera um land allt.
Apríl: Talsverð frost og enn snjóþyngsli fyrstu vikuna, en síðan mun betri tíð. Hiti í meðallagi.
Ísafold birtir 6.apríl bréf úr Árnessýslu dagsett þann 2.:
Það, sem öllum verðar tíðræddast um hvar sem menn hittast, er heyleysið hjá almenningi. Einkum er um það talað í efra hluta sýslunnar. Flóinn og Ölfusið munu best á vegi í þeim efnum; í þeim héruðum mun allt vandræðalitið, ef veðráttan batnar fyrir alvöru fram úr páskum og með sumarmálum. Sumir í þeim sveitum náðu sér i korn til drýginda, en engin leið var að því fyrir uppsveitamenn vegna snjóþyngsla. Fyrr á tímum myndu menn nú hafa heitið á Strandakirkju, Þorlák helga eða Guðmund góða, því horfur eru ekki góðar, ef ekki skiptir um veðráttu um sumarmál. Jörð er farin að koma upp um neðra hluta sýslunnar, en lítið kvað um haga hið efra; samt, sagt að stöku menn séu búnir að sleppa fé sínu út á jörðina upp á líf og dauða. Helst vil ég halda að horfur séu nú mun bágari i þessari sýslu, að minnsta kosti sumstaðar, en i þenna mund fellisárið sæla 1882. Væri óskandi samt, að betur réðist.
Bréf úr Skagafirði dagsett 4.apríl birtist í Ísafold þann 27.:
Síðasta vikan af mars var góðviðravika með hlýju, kyrru veðri, og tók mikið upp; en þótt næg jörð kæmi upp i aðalfirðinum þá er þó enn jarðlítið viða i sýslunni, þar eð snjórinn var orðinn fjarskalega mikill. Með apríl hefir aftur snúist til kulda; í morgun -7 - 12°R. fyrir sólaruppkomu. Sumstaðar er kvartað um heyleysi, t. d. á Höfðaströndinni, og nokkrir þar búnir að koma niður fyrir nokkru. Í gær hríðarveður á austan, í dag bjart, kalt og logn.
Austri minnist á hafís þann 9.apríl:
Tíðarfar hefir verið óstillt og kalt að undanförnu allt fram að skírdegi [7.apríl], en blíðasta sólskinsveður langt fram á dag í gær, en um kvöldið dimmaði yfir með þoku og rigningar-súld, og í nótt hefir rignt mikið með mesta hægviðri, og helst það enn í dag. Í dag hefir töluverðan hafíshroða rekið hér inní fjörðinn.
Bréf úr Skaftafellssýslu (Síðunni), dagsett 9.apríl birtist í Ísafold þann 27.:
Tíðarfar hér í sýslunni, það sem af er vetri, hefir verið svipað því sem annars staðar heyrist að af Suðurlandi: Góð tíð fram yfir nýár, en fremur stirð frá nýári til þorrakomu; síðan hefir tíð verið svo, að elstu menn muna eigi aðra slíka. Að vísu hafa hér eigi komið neinar verulegar stórhríðar og frost hafa verið fremur væg, sjaldan yfir 10-12°C, en allan þenna tíma hefir víðast mátt heita algjört bjargarbann fyrir sauðfé, og það skiptir miklu hér, þar sem hér eru svo margar útbeitarjarðir, og sumar svo, að þær bregðast aldrei, að heita má, og menn ætla því fullorðnu fé lítið sem ekkert af heyi. Það er, held ég, varla nokkur sú jörð hér, þar sem ekki hefir orðið haglaust að minnsta kosti um tíma.
Í sama blaði birtist bréf af Akranesi dagsett á sumardaginn fyrsta, 20.apríl:
Veturinn liðinn slysalaust; veðrátta á honum skakviðrasöm, frostalítið, en fannkoma í meira lagi á þorra og góu, svo að haglitið var um tíma; heykvartanir heyrðust - en þá kom vorið, einsog vant er, i góulokin, og hinn mildasti bati, og síðan hefir mátt segja hvern daginn öðrum blíðari.
Austri 19.apríl: Veðrátta var mjög mild undanfarandi viku, hitar miklir um daga, undir 20°R. í sólu, en dálítill froststirningur á nóttum, og hægir suðaustanvindar flesta daga.
Þann 29. segir Þjóðviljinn ungi:
Hinn 17. þ.m. hleypti hér á austnorðangarði með mikilli snjókomu, en stóð að eins þann dag, siðar hefir verið hið mesta blíðviðri og oftast töluverð leysing. Hafís rak inn á Bolungarvíkurmið skömmu eftir páskana, en hvarf aftur von bráðar, en haft er eftir hvalveiðamönnum að hann sé allskammt undan landi.
Í norðanveðrinu þ.17. strönduðu tvær eyfirskar fiskiskútur í Smiðjuvík á Ströndum. Höfðu þær lent í hafís og brotnuðu í spón, en skipverjar björguðust nauðuglega til lands á hafísjökum, fregnir annars enn ógreinilegar þar að norðan. Um sama leyti rakst eitt af fiskiskipum Ásgeirsverzlunar, Lilja", á hafísjaka, og laskaðist svo, að það sökk eftir lítinn tíma, annað fiskiskip er var þar í nánd bjargaði skipshöfninni.
Maí: Lengst af fremur hagstæð tíð, en þó kuldahret í annarri viku. Fremur kalt.
Bréf úr Barðastrandarsýslu dagsett 3.maí, í Ísafold þann 11.:
Síðan á páskum og út allan aprílmánuð hefir hér verið hagfelldasta tíð, síðustu dagana sumarhiti, þangað til i gær, að hann kólnaði aftur. Þessi góða tíð hefur komið sér vel fyrir alla. Hefði orðið mjög kalt, mundu margir hafa orðið illa staddir með skepnur.
Ísafold segir þann 11.maí:
Vel vorar, segja flestir, nær og fjær. Hér hafa lengi gengið blíðviðri, að undantekinni 2 daga norðanhrinu í upphafi vikunnar sem leið; en hlýindi þó heldur lítil og gróður því seinfara. En ekki mátti batinn síðar koma en hann gerði.
Undir miðjan mánuð gerði skammvinnt hret, Ísafold segir frá þann 14.:
Kólguveður af norðri í gær og í dag. Snjóað ofan í sjó í nótt með býsnafrosti. Heldur hafíslegt. Miður efnilegt fyrir sauðburð, sem nú er um það leyti að byrja.
Þjóðviljinn ungi segir þann 17.frá köstum þar vestra:
Tíðarfar kalt og vetrarlegt í þ.m., stundum 56 stiga frost á nóttu, og margsinnis snjóað í byggð, svo að jörð hefir orðið alþakin snævi.
Frekari fréttir af fyrra kastinu birtust í Þjóðólfi þann 21. - en líka fréttir af jarðskjálfta:
Jarðskjálfta varð vart 1. þ.m. í austurhluta Húnavatnssýslu og viku áður fundust og kippir þar sumstaðar, eftir því sem skrifað er þaðan að norðan 6. þ.m. Norðan-íhlaupið fyrstu vikuna af þessum mánuði hefur orðið allhart viðast um land, þaðan sem frést hefur, og sumstaðar orðið fjárskaðar nokkrir. Víðast hvar er kvartað um mikinn heyskort, og borinn kvíðbogi fyrir fjárfelli.
Þann 27.maí segir Þjóðólfur frá byl sem gerði á Suðurlandi - en aðallega góðri tíð.:
Árnessýslu 22. maí. Nú er tíðin orðin svo æskileg sem orðið getur, stillur og blíða á degi hverjum, áfall á nóttunni, en aldrei rigningar nema eitthvað 2 daga, hinn 17. og 18. þ.m. og þá var mikil úrkoma. Jörð því að kalla orðin góð, fénaður hefur ekki annað en grænt, og margir farnir að beita út kúm, þó slíkt sé ekki beysið sumstaðar. Norðanbyl gerði hér hinn 13. þ.m. svo fé fennti í Grímsnesinu, en fannst víst flest aftur. Einnig hrakti nokkrar kindur í Laxá í Ytrihrepp, frá Hrafnkelsstöðum. Fénaðarhöld í furðanlega góðu lagi eftir því sem áhorfðist, og mun því verða, eftir því sem maður hugsar, stórvandræðalítið, ef tíðin helst áfram svona góð, og ekki heldur hefur maður heyrt, að neinstaðar hafi drepist úr hor enn sem komið er.
Þann 31. greinir Þjóðviljinn ungi frá kalsamri tíð þar vestra:
Einatt er sami kalsinn í tíðinni, og hlýindi engin, nema rétt um hádaginn, er sól er á lofti.
Ísafold segir þann 1.júní:
Heldur snarpt hvítasunnukast hófst aðfaranótt laugardagsins fyrir hvítasunnu [laugardagur 28.maí], með stórviðri á norðan, frosti á nóttum og snjó á fjöll, festi jafnvel í byggð laugardaginn. Er nú að ganga garðinn niður. ... Kuldinn hér stafar af mjög miklum hafís í Grænlandshafi.
Júní: Fremur kalt framan af, en síðan úrkomusamt á Suður- og Vesturlandi. Hiti í meðallagi mánuðinn í heild.
Ísafold þann 4.júní:
Gekk upp aftur norðanveðrið í fyrradag; bálviðri þá og í gær, með miklum kulda, talsverðu næturfrosti til sveita; í dag aftur hægur. Gróður á útjörð enn lítill sem enginn, og tún ekki full-litkuð nema sumstaðar, hvað þá heldur meira; og komnir þó fardagar. Sauðburður gengið vonum framar, það er til spyrst, og er það þurrviðrunum að þakka; lambadauði mikið lítill. Skepnur verið heldur vel framgengnar.
Ísafold 25.júní:
Veðrátta hér söm og áður, dável gróðursæl, en lakara að frétta að norðan: kuldar og þurrkar til skamms tíma þar og nauðalítið um gróður.
Þjóðólfur segir sama dag (25.júní):
Veðurátta hefur verið mjög köld og stormasöm næstliðinn hálfan mánuð, og hefur því orðið mikill hnekkir á grassprettu. Ýmsar fréttir hafa borist hingað um hafís fyrir Norður- og Vesturlandi, en jafnharðan verið bornar til baka.
Þjóðviljinn ungi á Ísafirði lýsir júnítíðinni í fáeinum pistlum - ekki svo neikvæður:
[15.] Frá 5. þ.m. hafa verið meiri hlýindi í tíðinni, en að undanförnu í vor, og alloftast góður þerrir, uns 13. þ.m. sneri til rigninga. [18.] Síðustu dagana hefir haldist hér mild veðrátta, og rigningar nokkrar öðru hvoru, svo að gras hefur lifnað vel þessa dagana. [24.] Tíðarfarið hefir undanfarna daga oftast haldist við norðanátt, og hlýindi verið fremur lítil, nema síðustu dagana. [28.] Síðustu dagana hafa verið hér suðvestan rosar og rigningar.
Júlí: Fremur votviðrasamt vestanlands, en þó nokkurra daga þurrkar á milli. Mun þurrara eystra. Hiti undir meðallagi.
Austri var ánægður með tíðina framan af og segir í pistli þann 7.:
Tíðarfar er nú hið indælasta, og grasspretta orðin góð víðast á túnum en úthagi enn miður sprottinn.
En undir lok mánaðar er heldur síðra hljóð eystra (Austri 27.):
Veðrátta hefir verið að undanförnu fremur köld og votviðrasöm, þó er taða hirt af flest öllum túnum hér í firðinum.
En syðra batnaði síðari hluta mánaðarins. Ísafold segir frá þann 23.:
Tíðarfar virðist nú loks vera að breytast til batnaðar, með hundadögunum. Eindreginn þerrir í gær (frá dagmálum) og í dag, og útlitið mjög gott. Þess þurfti með; töður annars undir skemmdum. En tún vel sprottin yfirleitt, og úthagi allgóður líka, þótt heldur hafi verið kalt í veðri lengstum og það dregið úr gróðri.
Þjóðólfur birti 5.ágúst bréf úr Skagafirði dagsett 17.júlí:
Grasvöxtur hér í héraðinu er orðinn í góðu meðallagi og tíðin hefur verið góð, það sem af er slættinum.
Þann 27.ágúst segir Þjóðólfur frá tíð í Vestmannaeyjum í júní og júlí:
Frá því fyrir miðjan júní og fram yfir miðjan júlí var veðrátta oftast fremur kalsaleg, votviðra- og stormasöm, sjógæftir sjaldgæfar og afli af sjó því nær enginn.
Ágúst: Illviðrasamur mánuður. Úrkomulítið syðra framan af, en annars óþurrkar, einkum fyrir norðan. Fremur kalt.
Austri er ánægður þann 10.:
Tíðin er nú hin æskilegasta, sólskin og hiti á hverjum degi.
Þjóðviljinn ungi segir frá tíð í ágúst í nokkrum pistlum:
[6.] Tíð hefir nú um hríð verið mjög rigninga- og kalsasöm, svo að jafnvel snjóaði á fjöll aðfaranóttina 4. þ.m. Líkist veðrið miklu fremur kalsasömum haustdegi, en sumardegi. Í dag er þó aftur blítt veður. [15.] Tíð var hér fögur og þurrviðrasöm næstliðna viku, nema norðaustan kalsastormur 12. þ.m.; var þá ýmist hellirigning eða hagl úr lofti. [27.] Tíðarfar hefir um undanfarinn hálfsmánaðartíma verið mjög storma- og votviðrasamt. Ofsa-norðan snjóhret gerði hér 22.23. þ.m., svo að fjöllin urðu fannahvít, og víða hvítnaði jörð í byggð. Færi betur, að hvergi hefðu slys hlotist af því aftakaveðri. [31.] Tíðin oftast mjög köld, norðan sveljandar, sólar- og þurrkalitlir dagar, nema logn og heiðskírt veður í gær.
Veðrið þann 12. var óvenjustrítt miðað við árstíma. Ísafold segir frá tjóni í því þann 27. eftir stutta almenna tíðarlýsingu:
Óþurrkar hafa nú staðið samfleytt í hálfan mánuð, og eiga menn því mjög mikið hey úti, allt undir skemmdum, ef eigi kemur bráður bati. Þar á undan hafði heyskapur gengið vel um land alt, það er til hefir spurst; nýting sérlega góð.
Hlöðufok er getið um að hafi orðið hingað og þangað í stórviðrinu aðfaranótt hins 12. þ.m. eða þá um morguninn, t.d. vestur í Saurbæ og svo í Kaldaðarnesi í Flóa, sýslumannssetri Árnesinga. Þá fauk ný hlaða, einhver hin stærsta á landinu, 23 álnir á hvorn veg og 10 álnir undir þak, (x álna moldarveggir að neðan og járn úr því. Þakið með járnveggjunum tók upp, ásamt grindinni, sem fór í mola, og sendist spildan yfir fjós, smiðju og hið þriðja hús inn í sund milli íbúðarhússins og geymsluhúss fyrir norðan það, og síðan lengra áleiðis. Var mikil mildi, að hún lenti ekki á íbúðarhúsinu sjálfu. Hafði verið opinn einn veggurinn, norðan á móti, með því þar átti að koma peningshús. Hey var mikið í hlöðunni og lá undir skemmdum. Hún tekur að sögn á þriðja þúsund hesta. Giskað á að skaðinn muni nema sjálfsagt 1000 krónum.
Austri segir þann 31. frá tveimur illviðrum:
Ofsastorm gjörði hér að kvöldi hins 23. og aðfaranótt 28. þ.m., og misstu margir útvegsbændur þá síldarnet sín og nokkrir bátar brotnuðu til skemmda.
Þjóðviljinn ungi segir frá sjóslysi sem varð 23.ágúst í pistli þann 13.september:
Fiskiskipið Geir", eign Geirs kaupmanns Zoega i Reykjavík, hreppti 23. [ágúst] ofsarok undir Snæfellsjökli, er reif seglið, braut og skolaði burtu öllu lauslegu á þilfari, hálf-fyllti káetuna og lestina, og tók út 3 skipverja. Varð einum þeirra bjargað, en tveir drukknuðu.
Ísafold fjallar um ágústtíð og heyskap þann 3.september:
Vonin um breyting til batnaðar með höfuðdegi rættist eigi til fulls. Að vísu gerði góðan þerri þá 2 daga, 29. og 30. f.m., auk sunnudagsins 28.; en síðan hefir stórrignt hverja nótt hér um bil, þótt þurrt hafi verið að mestu um daga. Annars höfðu norðanlands þurrkar staðið fram að síðustu viku ágústmánaðar. Þá snjóaði þar ofan í byggð, 23. [ágúst], er rokið mikla var hér. Eystra (á Austfjörðum) stóðu þurrkar fram um miðjan ágústmánuð, og þeir óvanalega miklir, svo að sumstaðar varð tilfinnanlegur vatnsskortur. Heyskaparhorfur yfirleitt góðar, ef tíð verður bærileg það sem eftir er sláttarins. Grasvöxtur verið víðast góður eða þó sæmilegur, þrátt fyrir hlýindaleysið.
September: Góð tíð nyrðra, en óþurrkar eystra og syðra. Hiti í meðallagi.
Fjallkonan segir fréttir úr Mýrasýslu 7.september: Laxveiði hefir næstum algerlega brugðist, svo að fá eða engin dæmi munu til slíka í manna minnum, t.d. hvað Hvítá snertir.
Ísafold kvartar þann 17.september:
Tíðarfar mjög stirt undanfarnar 45 vikur, megnir óþurrkar og kuldar, nema lítils háttar þerriflæsur fáeina daga um og eftir höfuðdaginn, svo að þá hirtu menn sumstaðar meira og minna af því, sem þeir áttu þá úti af heyi, en víðast lítið eða ekkert, og eiga því mjög margir úti meira en mánaðar heyskap. Sumstaðar hætt fyrir nokkru við slátt vegna vatnagangs. Nú loks þerrir í gær og í dag.
Enn segir Ísafold frá þann 21. og 24.:
[21.] Sæmilegur þurrkur frá því fyrir helgi, en rigndi þó mikið í fyrrinótt og nokkuð í gærkveldi. Fara bændur vonandi að geta náð inn heyjum sínum úr þessu, ef viðlíkt stendur nokkra daga enn. En óþurrkað er enn mjög mikið af fiski af hinum mikla þilskipaafla frá því í sumar, 5-600 skipspund hjá sumum útgerðarmönnunum. [24.] Nú er úti þerririnn. Komið sunnanslagviðri; byrjaði í gær ; fór raunar að væta dálítið í fyrradag að áliðnu. Mikið höfðu samt flæsurnar framan af vikunni hjálpað til að hey bjargaðist. Ekki mjög mikið eftir úti; sumstaðar ekkert. Lakara austanfjalls en hér syðra.
Þjóðviljinn ungi á Ísafirði kvartar líka undan septembertíðinni:
[18.] Tíðarfar hefur i þ. m. alloftast verið mjög votviðrasamt, varla komið einn þerriragur. Kalsanæðingar og stormar hafa og gengið öðru hvoru. [30.] Tíðarfarið hefir í þ.m. verið afar-óstöðugt og rosasamt hér vestra, nema lítið eitt stöðugra, og all-mild veðrátta síðasta vikutíma.
Október: Góð tíð lengst af og fremur hlýtt. Nokkuð úrkomusamt eystra, en annars fremur þurrt.
Þjóðólfur birti 21.október heldur dapurlegt bréf ritað á Rangárvöllum (ódagsett):
Þegar litið er yfir sláttinn, sem nú er lokið hér í sýslu, getur engum dulist, að hann bætir ekki úr þeim illu horfum, sem nú eru á sveitabúskapnum, þar sem þetta sumar má teljast með þeim allra lökustu í mörgum greinum hér í sýslu. Að vísu var grassprettan í allgóðu lagi einkum á útengi, en nýtingin hrapalega vond frá því 16 vikur af sumri, og hefur enginn baggi náðst síðan öðruvísi en meira og minna hrakinn og blautur og þar að auki hafa orðið óvanalegir heyskaðar af ofviðrum; til dæmis missti Þorvaldur á Þorvaldseyri á 4. hundrað eða allt að 4 hundruð af grænu, nýslegnu heyi, sem allt lá í einum teig, og var svo gersamlega burtu fokið, að ekki hafði sést, að þar hefði nokkurt hey verið eftir veðrið. Fleiri misstu mjög mikið af heyi, enda hefur veðurátta verið hér í sumar sú allra lakasta, sem menn muna um þennan tíma: óvanaleg ofviðri, framúrskarandi stórrigningar og frost, þá sjaldan að loft hefur verið létt. Af þessu leiðir, að heyskapur er mjög rýr víða, eða í sumum sveitum vandræðalegur; þó hefur verið skárra að ofanverðunni, til dæmis i Landmannahreppi allgott. Töður náðust þó óhraktar, en sökum þeirra hræðilegu rigninga er mjög vist, að hey eru skemmd í görðum.
Ísafold segir þann 19.:
Tíðarfar er og hefir verið einstaklega gott í haust, nú síðustu dagana beinlínis blítt og fagurt, fegurra mikið en gerðist hér.
Líka var blítt vestra um tíma að sögn Þjóðviljans unga 20.október:
Tíðarfarið hefir í þ.m. verið einkar blítt og milt, rétt eins og sumarið væri nú fyrst fyrir alvöru að ganga í garð, þegar það er þó nær því á enda.
En ekki stóð sú blíða út mánuðinn - pistill Þjóviljans 31.október:
Á síðasta sumardag [21. október] gerði hér aftaka norðangarð, með brimróti miklu, og fannkomu allmikilli, og hélst hret það til 25. þ.m. að morgni, en reif sig svo upp aftur 26. þ.m., og hefir tíð síðan verið rosaleg.
Nóvember: Umhleypinga- og illviðrasamt. Fremur kalt.
Austri greinir þann 10.nóvember frá manntjóni á Eyjafirði þann 4.:
Voðalegt manntjón varð þann 4. þ.m. á Eyjafirði, þar sem 17 manns fórust á sjó í ofsanorðanveðri, er skall á allt í einu um morguninn, er bátar voru nýrónir til fiskjar og á síldarnet, einmitt sama daginn og loftþyngdarmælirinn hrapaði hér á Seyðisfirði svo ákaflega mikið, og höfum við hér verið yst í stormröndinni, en Eyjafjörður í miðjunni, þar sem afl stormsins varð svo voðalegt. Tveir menn höfðu drukknað frá Krossanesi, skammt útaf Oddeyri. Voru þeir 3 á bátnum, en einum varð bjargað. Þar fórst sonur ekkju, er hafði áður misst 2 eiginmenn sína í sjóinn. Við sjálfa Oddeyrina hafði bát hvolft með Norðmönnum á, en þeim orðið öllum bjargað. Mestur hafði mannskaðinn orðið fram af Svalbarðsströndinni, þar sem hinir 15 menn fórust. Má vera að enn sé eigi allur mannskaðinn tilspurður, því Egill" fór sama kvöldið og mannskaðann hafði aðborið um daginn og því varla getað verið komnar fregnir úr Svarfaðardal og Höfðahverfi, og alls eigi úr Ólafsfirði og af Látraströnd, er allt eru útróðrapláss.
Í síðari fregnum (sjá Ísafold 26.nóvember og 21.desember og Þjóðólfi 23.desember) kemur fram að þetta hafi verið þann 3.nóvember og alls hafi 12 menn drukknað.
Jónas Jónassen segir í pistli 19.nóvember frá veðri undangenginnar viku og þar með ofsaveðrinu aðfaranótt þess 14.:
Hinn 12. var hér hægur útsynningur með éljum; 13. austan-landnorðan að morgni, hvass með blindbyl, fór að rigna síðari part dags og kominn í útsuðrið og orðin nokkuð hvass og aftakarok aðfaranótt h.14. Hvass á útsunnan 15. og 16., lygnari h.17. og komið logn síðari part dags; 18. landnorðan, hvass að morgni og með regni og loftvog óðum að falla; eftir miðjan dag orðinn hvass af útsunnan með rigningu.
Það kemur varla nokkurt ár, að hér komi ekki einhverntíma ársins ofsarok líkt og nú átti sér stað aðfaranótt h.14. Að morgni h.13. var hér austanbylur, og eftir vanda mátti búast við þvi, að hann gengi til landsuðurs (SA) og svo til útsuðurs (SV), og svo varð og nú. Eftir því er á leið daginn, lækkaði meira og meira í loftvoginni og kl.11 um kveldið var hún komin óvenjulangt ofan á við (711,2 mm) [948,2 hPa], en veður þó hægt, og um miðnætti var hér rétt logn, en er leið á nóttina tók fljótt til að hvessa af útsuðri og varð úr ofsaveður, svo hús skulfu og skemmdust, og var veðrið ákafast kl.4-5 um morguninn; gekk sjór þá hátt með miklu hafróti. Þessi voðaveður eru hér lang-oftast af útsuðri. Fyrir nokkrum árum kom hér líkt veður og nú, og var það 26.des. 1888 (útsynningur) og komst þá loftvogin talsvert lægra en nú nefnil. 693,4 mm [924,5 hPa]. Þá kom einnig þetta voðaveður upp úr austanátt, og það allt í einu. Sama átti sér stað 1892, 20.jan. (loftvog 711.3); 1894, 13. nóv. (loftvog 711.2) og 1896, 19. febr. (loftvog 711.2).
Þjóðólfur lýsir skemmdum í pistli þann 18.nóvember:
Ofviðri mikið af suðvestri var hér dagana 13. og 14. þ.m., og urðu nokkrar skemmdir af því. Samkomuhús Oddfélaganna reykvísku sunnan við Tjörnina tók upp, og fuku flökin úr því langar leiðir. Eitt þeirra rakst á steinhús Einars bónda Ingimundssonar í Skálholtskoti, braut þar glugga, og fór nokkuð af því gegnum hann inn í herbergið og mölvaði þar ofnpípu og eitthvað fleira. Fólk svaf í herberginu og var mesta furða, að það sakaði ekki. Munu Oddfélagar bæta eigandanum þann skaða, er af þessu hlaust. Annað flakið mölvaði einnig glugga á öðru húsi þar í Skálholtskoti. Voru menn um morguninn 14. þ.m. að tína saman sprekin úr húsinu hingað og þangað upp um Þingholt. Húsbúnaður, bækur og skjöl Oddfélaganna, er geymt var í húsinu, þyrlaðist og burtu að sögn, en mun flest hafa fundist aftur, meira og minna skemmt. Sumir segja og, að sjóður reglunnar hafi fokið, en það er eina bótin, að þeir félagar (12 að tölu) eru nógu vel efnum búnir til að bæta tjónið, sem eigi hefur verið alllítið. Hús þetta var byggt eftir spánnýrri tísku, kenndri við Döcker nokkurn og er hún aðallega fólgin í því, að húsinu er krækt saman af mörgum hlutum, er svo má taka sundur, þá er vill, og flytja úr stað, en þessi byggingaraðferð, svo praktisk, sem hún kann að vera, virðist eigi vera heppileg hér á landi. Það er betra, að það sé ekki neitt hrófatildur, sem á að standast ofsaveðrin hér.
Önnur bygging Oddfélagareglunnar (dönsku) Laugarnesspítalinn,varð og fyrir nokkrum skemmdum í ofviðri þessu. Fuku þar meðal annars plötur af reykháfum og lamdist ein þeirra ofan í þakið, svo að hún stóð þar föst. Heyhúsið þar við spítalann fauk nær um koll, svo að það dinglaði á grunninum, en ekkert hey var í því. Annars er nú þegar miður vel látið af allri þessari umfangsmiklu og marglofuðu spítalabyggingu. Það kvað meðal annars rigna (og fenna) inn um gluggana, og ofnarnir reykja svo, að besti hangikjötsreykur kvað vera inni í herbergjunum, en verst er þó, að veggjapappinn virðist vera öldungis ótækur, og rifnar hann og gliðnar í sundur að sögn. Pappi þessi, sem mun hafa kostað um 10.000 kr. í allan spítalann, er ólíkur öðrum veggjapappa, er hér hefur sést, miklu þykkri og litur dável út, en mun lítt eða ekki reyndur áður. Samskonar pappi er í Stýrimannaskólanum nýja, og er nú þegar látið mjög illa af honum. Virðist engin vanþörf á, að landstjórnin, sem á að hafa veg og vanda af byggingum þessum, athugaði þetta, enda mun því siðar hreyft rækilegar, þá er frekari reynsla er fengin. Gæti svo farið, að hinn veglegi spítali yrði landinu þung og ískyggileg hefndargjöf, en eigi dásamleg náðar- og líknargjöf, eins og hann hefði átt að vera samkvæmt tilgangi sínum.
Aðrar skemmdir, en þegar hafa verið nefndar urðu hér nokkrar í ofviðri þessu. Timburhús stórt, er W.O. Breiðfjörð kaupmaður var að reisa suður i Kaplaskjóli ýttist af grunninum og skemmdist svo stórum, að líklega verður að rífa það, er uppi stendur. Þiljubátur lítill, er Tryggvi bankastjóri hafði nýlega keypt brotnaði að mestu hér í fjörunni, og nokkrar skemmdir urðu á öðrum bátum, en eigi stórvægilegar. Að líkindum hefur ofviðri þetta valdið skemmdum víðar hér sunnanlands á skipum og ef til vill heyjum, þótt enn hafi ekki spurst.
Í Austra 31.desember er bréf úr Reykjavík þar sem finna má smávegis til viðbótar um tjón í veðrinu 14.nóvember:
Einnig gekk sjórinn svo hátt, að hann braust inn í kolakjallara Brydesverzlunar, svo hann fylltist næstum af sjó, og ruddi grjóti og þara alla leið upp á Aðalstræti.
Í Þjóðviljanum unga segir þann 3.desember í fréttum um veðrið 14.nóvember:
Á Eyrarbakka hafði brim gengið svo langt á land upp, að elstu menn muna slíks engin dæmi; braut brimið þar sjógarð, og gerði nokkur spell fleiri.
Austri segir frá veðrinu þann 14. þar eystra:
Ofveður mikið gjörði hér á suðvestan á mánudagsmorguninn 14. þ.m. og hélst hérumbil óslitið í meira en þrjá sólarhringa með ákaflegu afli, einkum hér á Vestdalseyri og útí í firðinum, þar sem að urðu töluverðar skemmdir að þessu langvarandi ólátaveðri, á húsum, bátum og heyjum. En sjógangurinn, var þau fádæmi, að sjórinn rauk yfir alla Vestdalseyri og upp undir fjallsrætur, langt upp fyrir alla byggð.
Þessir skaðar urðu helstir, er vér höfum ennþá spurt til: Hið stóra fiskigeymsluhús Gránufélagsins skekktist nokkuð en raskaðist þó ekki af grunninum. Fiskiskúr tók upp og brotnaði fyrir þeim bræðrum, Sigurði og Eiríki Einarssonum. Einnig skemmdust til muna 2 bátar, er þeir áttu. Ennfremur brotnaði bátur, er Jónas Stephensen átti. 2 báta með seglum og árum tók ofviðrið upp á Dvergasteini, svo ekkert sást eftir af þeim. Þar reif og þak af hlöðu og nokkuð af heyjum. A Brimnesi bilaði járnþakið á húsi óðalsbónda Sigurðar Jónssonar. Á Bæjarstæði fauk mikið af útheyi frá Hallgrími bónda Egilssyni og töluvert af töðu og hið nýbyggða hús hans hafði töluvert skaddast. Nýibær við Þórarinsstaði hafði og mikið skemmst. Bátar fórust engir í þessu ólátaveðri, því barómetrið varaði menn við storminum. Þó reri einn bátur snemma á mánudagsnóttina hér innantil úr firðinum. En til allrar hamingju var hann eigi langt kominn til hafs, er það fór að hvessa, og náði því Skálaneslendingunni með öllu heilu og höldnu. Formaðurinn á þessum bát hefir sjálfsagt ekki gætt að barometrinu áður enn hann réri, því það var hverjum manni auðsætt á því, hvað það féll um nóttina, að það mundi koma ofviður með morgni. Það verður aldrei of oft brýnt fyrir sjómönnum, að gæta á barómetrið áður en þeir róa, eigi síst nú um háveturinn.
Þjóðviljinn ungi lýsir veðri vestra í nóvember í nokkrum pistlum:
[5.] Fyrstu tvo daga þessa mánaðar voru stillur og heiðríkjur, en 3. þ.m. gerði norðanstorm og kafaldsbleytu, sem haldist hefir síðan. [11.] Eftir að norðanhretinu linnti 5. þ.m. var veður stillt í 3-4 daga, en að aflíðanda hádegi 8. þ.m. gerði ofsa-suðvestanrok, með rigningu og bleytu, og hefir veðrátta síðan lengstum veríð mjög óstöðug. [16.] Tíðarfar einkar stirt, svo að segja sífelldir rosar, og stundum ofsarok. 14. þ.m., laust fyrir hádegi, skellti á útsynnings dimmviðriskafaldsbyl, með brimróti miklu, og sást þá vart milli húsa hér í kaupstaðnum. [24.] Útsynningskafaldsbylnum, er getið var í síðasta nr. blaðsins; slotaði nokkra klukkutíma aðfaranóttina 18. þ.m., en að morgni sama dags var skollið á norðan hvassviðri, með kafaldshríðum, og hélst svo til 21. þ.m., er loks gerði þolanlegt veður.
Þjóðviljinn ungi birtir þann 16.janúar 1899 bréf dagsett á Hornströndum 17.nóvember:
Mjög hefir verið rosasamt þetta útlíðandi haust; 22. október. var hér hríðarbylur norðaustan, með stórkostlegri sjávarólgu, og 3. [nóvember] aftaka-norðanveður, með fjarska miklum sjógangi, og gekk þá sjór um 150 faðma á land upp á Hafnarsandi, þar sem hann er lægstur. Næstliðna nótt kom og í þriðja skipti líkur brimgangur, og er það hrikaleg sjón, að horfa á hinar stóru haföldur, þegar þær rísa og brotna við landið, og róta um öllu, sem hræranlegt er. Skemmdir hafa þó engar orðið hér nyrðra, að heyrst hafi.
Í bréfi úr Strandasýslu norðanverðri dagsett 6.mars sem birtist í Þjóðólfi 7.apríl 1899 kemur fram að ofsaveður hafi um haustið tekið frambæinn í Byrgisvík allan ásamt heyhlöðu og heyi ofan í miðja veggi. Ekki er ólíklegt að þetta hafi verið í nóvemberveðrinu mikla.
Fjallkonan getur 8.desember um tjón við Borgarfjörð í nóvemberveðrinu:
Ofsaveðrið 13. og 14. nóvember gerði skaða á ýmsum stöðum í Borgarfirði. Þá fauk vöruhús á Seleyri, sem Thor kaupmaður Jensen á Akranesi átti. Í því voru 60 hestar af heyi, er Torfi bóndi Sivertsen í Höfn átti og undir húsinu hvolfdi skip frá Árdal og skekta", og er sagt að þetta alt hafi sópast á sjó út. Eiríkur Guðmundsson á Ölvaldsstöðum missti skip í sama veðri. Á Álftanesi á Mýrum fauk stór skúr frá bænum. Þökum svipti af húsum og heyjum.
Desember: Umhleypinga- og snjóatíð. Hiti í meðallagi.
Þjóðviljinn ungi segir frá því 16.febrúar 1899 að bátur hafi farist í lendingu á Barðsnesi í Norðfirði snemma í desember og 3 menn drukknað. Í desember hafi einnig orðið úti maður á Skeiðarársandi og annar um jólaleytið frá Vík í Mýrdal.
Þjóðólfur birtir 6.janúar 1899 bréf dagsett í Mýrdal 6.desember:
Tíðarfar hefur verið mjög óstöðugt seinni hluta haustsins og ákaflega storma- og úrkomusamt; um miðjan fyrra mánuð [nóvember] gerði hér ákaflegt hafveður með svo miklum sjávargang, að elstu menn muna ekki eftir öðrum eins, tók þá út 4 róðrarbáta í Vík (úr svo nefndum Bás) og ráku á land aftur nokkru austar og brotnuðu í spón; nokkra daga var viðvarandi ofsastormur á hafútsunnan, þar á eftir gerði snjó og bleytu, gaddaði svo allt og hefir hér verið síðan víðast haglaust og er það of snemmt að þurfa að taka allan fénað strax á fasta gjöf.
Ísafold birtir 21.desember bréf úr Strandasýslu sunnanverðri, dagsett 9.desember:
Síðastliðið sumar var að veðráttu til miklu fremur hagstætt, þó oft væri kalt. Skepnuhöld allgóð i vor og grasvöxtur i sumar í góðu lagi. Þurrkar voru allgóðir fyrri hluta sláttarins, þar til seint í ágústmánuði að brá til votviðra, er héldust kringum 3 vikur. Eftir miðjan september brá aftur til þurrviðra, svo hey náðust, litt skemmd, og varð heyfengur yfirleitt i betra lagi bæði að vöxtum og gæðum. Haustið allt fram í nóvember var afbragðsgott, oftast logn og þurrviðri og mjög frostlítið lengi fram eftir. Nú í nærfellt mánuð hafa verið hvassviðri mikil ýmist af norðvestri eða útsuðri, og oft snjógangur; enda er nú fé allstaðar komið á gjöf og hross víða líka.
Þjóðviljinn ungi lýsir hríðum og óstöðugri tíð í desemberpistlum:
[12.] Norðangarðurinn, sem hófst 30. f.m., stóð í samfleytta viku, og stillti fyrst aðfaranóttina 7. þ.m., en reif sig upp aftur aðfaranóttina 8., svo að blindbylur var hér þann dag. 9. var gott veður að morgni, en barómeterstaðan afar-lág. enda skall þá á útsynningsstormur um hádegisbílíð og er tíð rosasöm.
[31.] Tíðarfar hefir í þ.m. verið afar-óstöðugt og stormasamt, svo að vart hafa menn getað hætt sér á sjó, nema stund í bili. Himininn alloftast dimmviðris-skýjum hulinn, og hríðarbyljir einatt annað slagið. Þak rauf af fiskhúsi í Hnífsdal aðfaranóttina 22. þ.m. í ofsaveðrinu, er þá var. Skemmdir urðu og nokkrar á bátum, o.fl.
Þjóðólfur segir frá stirðri tíð í pistli þann 23.desember:
Veðurátta hefur verið afarstirð nú um hríð og mestu harðindi til sveita, svo að allar skepnur eru víðast hvar komnar ágjöf fyrir nokkru.
Ísland (Reykjavík) segir 30.desember:
Veður hefur verið dágott undanfarandi, en þó óstöðugt; snjór er töluverður og hvítt að sjá yfir allar sveitir og nes. Það segja líka veðurfróðir menn, að svo skuli helst vera um jólaleytið og vænta, að vorið komi þá fyrr; hvít jól, rauðir páskar" segir gamalt máltæki.
Lýkur hér að sinni samantekt hungurdiska um árið 1898.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 111
- Sl. sólarhring: 190
- Sl. viku: 2433
- Frá upphafi: 2413867
Annað
- Innlit í dag: 107
- Innlit sl. viku: 2248
- Gestir í dag: 101
- IP-tölur í dag: 100
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Athugasemdir
Takk fyrir þessa frábæru upprifjun Trausti. Þörf áminning fyrr þetta lið okkar sem er síkvartandi yfir öllu og hávæarastir þeir sem minnst leggja á sig.
Halldór Jónsson, 9.8.2018 kl. 14:31
Bestu þakkir Halldór -
Trausti Jónsson, 9.8.2018 kl. 18:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.