2.6.2018 | 01:56
Af árinu 1921
Árið 1921 var kalt á okkar tíma mælikvarða og því varla hægt að segja að það hafi markað einhver þáttaskil á leið til hlýnandi veðurlags. Meðalhiti í Reykjavík var ekki nema 3,7 stig, það sama og árið áður. Landsmeðalhitinn reiknast 2,8 stig, og það liðu 45 ár þar til að jafnlág tala sýndi sig aftur (1966).
Árið var gríðarlega úrkomusamt, úrkoma í Reykjavík mældist meiri en 1200 mm, og hefur aldrei mælst svo mikil síðan. Í Stykkishólmi mældist ársúrkoman í fyrsta sinn meiri en 1000 mm, þar hafði verið mælt í meir en 60 ár þegar hér var komið sögu. Síðan hefur úrkoman í Hólminum fjórum sinnum náð þúsundinu, en aðeins einu sinni verið marktækt meiri en 1921, það var 1933. Þáverandi ársúrkomumet var líka slegið í Vestmannaeyjum - en ekki austur á Teigarhorni.
Veturinn þótti hlýr, en aðeins einn mánuður ársins telst hlýr á landsvísu, það var febrúar, þá hlýjasti febrúarmánuður frá upphafi mælinga - en fjórtán hlýrri hafa sýnt sig síðan. Sjö mánuðir lenda í kalda flokknum. Kaldastir að tiltölu voru maí og ágúst, en einnig var kalt í janúar, mars, júní, júlí, september og október.
Sumarhlýir dagar létu vart sjá sig syðra - og nyrðra voru þeir fáir líka. Hiti komst hæst í 25,0 stig í Möðrudal 30.júní og 13.júlí, og 24,1 á Grímsstöðum á Fjöllum þann 15. (sennilega hámark dagsins á undan). Hæsti hiti á landinu í apríl mældist á Grímsstöðum 19,1 stig, en hæsti hiti í maí var aðeins 13,3 stig (á Möðruvöllum). Lægstur mældist hitinn á Grímsstöðum á Fjöllum þann 12.janúar, -22,5 stig. Hiti fór niður fyrir frostmark í júlílok á Grímsstöðum og Nefbjarnarstöðum á Úthéraði.
Fjórtán dagar teljast mjög kaldir í Reykjavík, einn í apríl (4.), þrír í maí (22., 25. og 26.), þrír í júlí (22, 25. og 26.) og fimm í ágúst (6. til 10.), einn í október (21.) og einn í nóvember (6.). Í Stykkishólmi teljast 19 dagar mjög kaldir, þar af 11 á tímabilinu frá 22.júlí til 9.ágúst. Sjö dægurlágmörk lifa enn í Reykjavík frá árinu 1921. Nánari upplýsingar um dagsetningar eru í viðhenginu.
Sólskinsmælingar á Vífilsstöðum eru ekki alveg samfelldar, en ljóst er þó að febrúar og apríl voru sólskinsrýrir mánuðir, febrúar sá næstsólskinsrýrasti í mæliröðinni (sé Reykjavík talin með).
Háloftavestanáttir virðast hafa verið óvenjuöflugar í júní og sunnanátt í febrúar og apríl (eins og sólarleysið reyndar styður).
Þrír dagar ársins skila sér á stormdagalista hungurdiska: 2.febrúar (af suðri), 3.mars (af austri) og 30.mars (af norðvestri).
Við lítum á hvað blöð og veðurskýrslur hafa að segja - eins og venjulega má finna talsvert af tölulegum upplýsingum í viðhengi.
Janúar: Miklir umhleypingar og talsverður snjór suðvestanlands, en annars þurrviðrasamt og betri tíð. Kalt norðaustanlands. Útsynningsstorma með éljum gerði suðvestanlands bæði þann 15. og 20.
Vísir segir frá áramótaveðrinu í Reykjavík þann 3.janúar - og birtir síðan frétt frá Siglufirði um berjatínslu:
Blíðuveður voru hér um áramótin. Á gamlárskvöld lék Gígja nokkur lög við Menntaskólann og varð mjög fjölmennt á Lækjargötu. Á miðnætti hófu skipin mikinn samblástur, flugeldum var skotið og Geir sendi kastljós inn yfir bæinn. Voru menn þúsundum saman á Hafnarbakkanum meðan þessu fór fram. ... Á nýársdag voru tínd krækiber og bláber á leið úr Fljótum til Siglufjarðar.
Dagur á Akureyri lýsir góðri tíð í upphafi árs þann 8.janúar:
Tíðarfarið má heita einmunagott. Fyrir og um jólaleytið gerði nokkuð skörp frost nokkra daga. En milli jóla og nýárs brá til blíðviðris. Síðan hafa verið frostleysur, úr hvaða átt sem blásið hefir. Er það nýlunda mikil hér norðan lands, að fá hæga norðaustan rigningu um áramótin, eins og var hér eitt kvöldið.
Fram á Siglufirði segir frá tíð í pistli þann 15.:
Síðastliðinn laugardag [8.] gerði hér norðaustan bleytuhríð með ofsaroki og var versta veður fram á mánudag síðan gott veður en frost hart nokkuð um miðja vikuna, varð hér mest 9 stig, samtímis var frost á Akureyri 14 stig.
Dagur segir frá tíð 22.janúar og athyglisverðu ísreki á Akureyrarpolli:
Mánudag [17.]) brast á norðan ofstopaveður, þó ekki með miklum fannburði. Uppbirta á þriðjudag. Síðan bjart og mugguveður til skiptis. Fimmtudaginn [20.] var útsynningur með renningsrokum. Frost hafa verið lítil þessa viku. Ísrek varð hér á Pollinum á laugardaginn. [15.] Stór ísspöng losnaði og dreif undan hvössu sunnanveðri. Ruddist ísinn upp á Oddeyrartangann og bylti um tveimur fiskiskipum, sem stóðu þar upp á landi og brotnaði annað þeirra. Ísinn skemmdi hornið á uppfyllingu Kaupfélags Eyfirðinga og fleiri skemmdir mun hann hafa unnið.
Vísir kvartar þann 24.undan frostum í Reykjavík:
Í gær var 12 stiga frost eða vel það og fraus víða vatn í pípum inni í húsum í nótt.
Hríðarveður gerði suðvestan- og vestanlands þann 27. og næstu daga. Morgunblaðið getur þess í framhjáhlaupi þann 29.:
Bifreiðar komast nú ekki lengra austur á bóginn en að Rauðavatni. Er þar skafl fyrir sem þær fá ekki klofið. Aftur á móti er færð til Hafnarfjarðar og suður með sjó.
Þann 30.janúar hófust snjódýptarmælingar í Reykjavík og hafa verið gerðar síðan, snjódýptin þennan morgun var 11 cm við Veðurstofuna á Skólavörðustíg.
Febrúar: Sífelldir umhleypingar og fremur óhagstæð tíð um vestanvert landið, en betra eystra. Hlýtt. Úrkoma mældist alla daga mánaðarins í Reykjavík. Talsvert var um sjóslys og drukknanir - ekki allt nefnt hér.
Þann 6. segir Morgunblaðið frá togarastrandi:
Síðastliðinn þriðjudag [1.] strandaði enskur togari, Croupier, á Blakknesi við Patreksfjörð. Vita menn ekki annað en öll skipshöfnin hafi farist. En ekki hafa borist nánari fregnir af slysinu.
Þann 14.birtir Morgunblaðið pistil vestan af Sandi sem ritaður er þann 4.:
Tíðarfarið hefir alltaf verið hér mjög stirt. Og fengu sjómennirnir sig fullkeypta á því í gær [3. febr.]. Reru þá héðan 7 bátar, með alls 63 mönnum á. Var þá vindur hægur á suðaustan, og reru því bátarnir allir austur á svokallaðar Brúnir", því þeir bjuggust við vindi úr þeirri átt. En þegar þeir voru nýbúnir að leggja lóðirnar, skall á svipstundu á ofsaveður með snjókomu og sjógangi af suðvestri, og var þá ógerningur að ná landi hingað, því sjór varð lítt fær á svipstundu. Urðu því sumir bátarnir að sigla strax frá lóðum sínum; aðrir sem byrjaðir voru að draga þær, skáru á við borð. Leit illa út með bátana um stund og höfðu þeir litlar vonir um að ná landi. Fyrir frábæran dugnað lánaðist einum að ná landi í Ólafsvík, voru á honum 9 menn. Annar, sá minnsti, náði Kletti í Fróðahreppi eftir mikið volk. En þremur af bátunum var bjargað af togaranum Belgaum", og voru á þeim 27 menn. Var togarinn á veiðum innar í flóanum. Hrakti fyrst einn bátinn, og var honum tekið með opnum önnum af skipshöfninni, og lét skipstjórinn strax hætta veiðum, og tók þegar að leita að hinum bátunum, og heppnaðist honum að finna tvo. Hinum tveimur bátunum var bjargað af enskum togara Jokohama", frá Grimsby. Er skipstjórinn íslenskur og ættaður úr Önundarfirði, Jóakim Guðbjartsson að nafni. Sýndi hann einnig frábæra lipurð og dugnað við að bjarga. Á þeim bátum voru 20 menn. Sennilegt er, að eitthvað af þessum bátum hefði farist, ef þessarar rösklegu bjargar hefði ekki notið við. - Lofa bátsmenn mjög viðtökur og nærgætni þá, er þeim var sýnd, meðan þeir dvöldu í togurunum, og munu þeir framvegis hugsa með þakklætishug til þessara skipa. Ætti vel við að landsstjórnin sæmdi skipstjóra þessa einhverjum heiðri fyrir að bjarga 47 mönnum úr sjávarháska.
Morgunblaðið segir frá sama veðri þann 4.:
Ofsarok var hér fyrri hluta dagsins í gær. Urðu töluverðar skemmdir af því, m.a. fuku þök af þremur skúrum, bílakúr Steindórs Einarssonar, skúr í Aðalstræti er Þórður Jónsson úrsmiður á og bifreiðaskúr Sigursveins Egilssonar inn við gasstöð. Ennfremur fuku um koll 6 símastaurar innarlega á Laugaveginum.
Þann 12. eru fleiri fréttir af sjóslysi - ekki ljóst hvernig veður kom við sögu - en éljahraglandi var þennan dag og trúlega þungur sjór:
Þann 9. þ.m. fórst vélbáturinn Haukur frá Vatnsleysuströnd. Voru 5 menn á honum og drukknuðu þeir allir. Ekki er blaðinu kunnugt um nöfn annarra á bátnum en formanns, hinn hét Einar Einarsson og var frá Flekkudal á Vatnsleysuströnd. Fór báturinn síðast frá Sandgerði til veiða, en þess er getið til, að formaðurinn hafi ætlað heim til sín en farið of nærri Keilisnesi og rekist þar á grunn, því þar fannst báturinn sokkinn, og stóðu siglutrén upp úr sjónum.
Þann 15. segir í veðurathuganabók í Reykjavík:
Esjan hefur síðustu daga verið auð, nema snjór í giljadrögum og klettaskorum. Í nótt hefir gráfennt niður í miðjar hlíðar. Á túnum hér virðist ekki frítt við litbrigði til gróðurs.
Þann 19. segir Morgunblaðið frá góðri tíð:
Einmunatíð er nú sögð um land alt, frostleysi og snjóleysi víða. Hefir þessi vetur verið sérlega mildur það sem af er og er það spádómur framsýnna og fróðra manna, að hann muni svo verða til loka.
Tíminn er sammála sama dag:
Óvenjuleg ætlar tíðin að verða á þessum vetri. Auð jörð er nú um alt land og klakalaus víða hér um slóðir, um Árnes og Rangárvallasýslur og vafalaust víðar. Grænt enn víða í túnum, þar eð haustgróður hefir ekki dáið.
Þann 26. segir Tíminn frá tveimur sjóslysum til viðbótar - í þetta sinn vestur á Fjörðum:
Tíðin hefir verið mjög umhleypingasöm undanfarið, hvassviðri mikil en frost lítil. Slys. Að kvöldi dags, 22. þ. m. var vélbátur á leið frá Hnífsdal til Ísafjarðar. Gerði aftakaveður og hvolfdi bátnum skammt frá Ísafirði. Þrír menn drukknuðu á bátnum. ... Tveir menn drukknuðu sama dag í Álftafirði vestra.
Tíð var góð nyrðra Dagur á Akureyri og Fram á Siglufirði lýsa:
[Dagur, 12.febrúar]: Tíðarfarið er hið ákjósanlegasta. Sunnan hlákur undanfarið og sauðjörð komin í sveitum. Veturinn einhver mildasti í manna minnum.
[Fram, 19.febrúar]: Einmuna góð tíð, stöðug blíðviðri og kvaddi þorri með hlýrri sumargolu
[Dagur 26.] Öndvegistíð hefir verið um land allt þar nær allan þorrann og góa heilsaði með sama svip. Sauðjarðir ágætar um allar sveitir. Aflabrögð góð sunnan lands. Árgæska er nú til lands og sjávar, en þó horfa menn hálfkvíðnir fram á veginn vegna kreppunnar í atvinnuvegunum.
[Fram 26.]: Sama góða tíðin, hér vesturundan, eru sveitir alrauðar sem um sumardag, hér í firðinum mjög snjólétt og næg jörð. Í dag er hér suðvestanvindur og rigning.
Morgunblaðið segir frá þann 13. undir fyrirsögninni Elding drepur skepnur:
Það bar til austur í Fljótshlíð fyrra föstudag (þ.4.?), að eldingu laust niður og varð hún að bana þremur hrossum og fjórum kindum. Stóðu hrossin undir útihúsvegg frá bænum Miðkoti, en kindurnar voru inni í húsinu. Eldingin tætti sundur nokkurn hluta af húsinu og steindrap allar skepnurnar. Hrossin voru frá næsta bæ, Bollakoti. Eru svona slys sjaldgæf, sem betur fer, og að því er oss minnir, hefir það ekki komið fyrir í mörg ár, að elding hafi orðið skepnum að bana hér á landi.
Mars: Umhleypingatíð með talsverðum snjóþyngslum suðvestan- og vestanlands, en skárri norðaustanlands. Fremur kalt.
Nokkur umskipti til kaldari tíðar urðu um mánaðamótin febrúar-mars, en umhleypingar héldu áfram.
Morgunblaðið segir þann 4. frá hríðarveðri í Reykjavík:
Mesti bylur, sem komið hefir á vetrinum hér í bænum, var í gær og fyrradag. Var fannkyngið svo mikið, að ófært var sumstaðar bifreiðum. Má heita að vetrarins hafi ekki orðið vart fyrir alvöru fyrr en nú á góunni. Hefir verið versta veður á öllu Suður- og Vesturlandi undanfarna daga.
Og veðrið var ekki aðeins slæmt sunnanlands og vestan. Fram segir þann 5.mars:
Harðari veðrátta þessa viku og stormasamt. Aðfaranótt fimmtudags [3.] og fram á þann dag afspyrnuveður, eitt með mestu austan-ofsarokum sem hér koma. Með veðrinu var fannkoma töluverð og frost. Hæst frost þessa viku 15 stig. Í morgun var frostið 10 stig og besta veður. Í austanrokinu á fimmtudagsmorguninn urðu hér dálitlar skemmdir. Nyrðri bryggja Söbstads brotnaði niður að mestu leyti, stendur aðeins bryggjuhausinn eftir. Nýhlaðinn og steyptur reykháfur við kirkjuna fauk um. Um fleiri skemmdir hefur eigi heyrst og enga skaða hér nærlendis, enda mun veðrið hafa verið einna mest hér í firðinum.
Og veðrið var líka slæmt fyrir vestan. Morgunblaðið segir frá skipsströndum í fréttum bæði þann 6. og 8.
[6.] Skip rekur á land. Í gærdag [5.] barst sú símfregn frá Þingeyri, að botnvörpungurinn Þórð Kakala, er lá á höfninni á Þingeyri, hafi rekið þar á land þann dag sem skeytið er sent, 3. þ.m. Gerði þá ofsa norðanbyl á Vestfjörðum, svo Sterling, sem var þá á leið frá Þingeyri til Ísafjarðar varð að hleypa til Önundarfjarðar. Enn hefur ekki frést, hvort Þórður Kakali er skemmdur, því þegar síðustu fregnir bárust, hafði ekki verið hægt að komast fram í skipið vegna brims.
[8.] Á laugardaginn var [5.] strandaði botnvörpungur frá Húll, Euripides" að nafni í Hænuvík við Patreksfjörð. - Voru skipverjar 15 talsins og drukknuðu 3 þeirra en hinir komust af við illan leik. Geir er farinn vestur til þess að reyna að bjarga skipinu. Í fyrradag strandaði annar enskur botnvörpungur, St. Emio" við Háfsósa í Þykkvabæ í Rangárvallasýslu. Er botnvörpungur þessi sömuleiðis frá Húll. Björguðust allir skipverjar.
Og aftur var bylur í Reykjavík þann 6. Morgunblaðið segir frá þann 8.:
Í ólátabylnum sem hér var í allan fyrradag [6.] skemmdist símakerfi bæjarins allmikið. Á Laufásvegi brotnaði símastaur og víða um bæinn slitnuðu þræðir, undan snjóþyngslum og roki. Símslit munu hafa orðið mjög víða um land í bylnum í gær. Norður á bóginn er ekki samband lengra en að Grafarholti, en þar fyrir ofan eru miklar skemmdir á símanum, brotnir staurar og slitnir þræðir. Austurlínan er óskemmd, samband alla leið til Víkur, en á hliðarlínunni til Vestmannaeyja er ekkert samband og þykir líklegt, að sæsíminn sé slitinn þangað, rétt einu sinni. Voru menn sendir héðan í gærmorgun upp að Grafarholti til þess að gera við símann þar.
Daginn áður [7.] segir Vísir frá sama byl:
Austan stórviðri var hér allan daginn í gær, fyrst með frosti og snjókomu, en undir kvöld þiðnaði og gerði krapahríð. Í morgun var uppstytt, en nær mannhæðarháir skaflar víðsvegar um bæinn.
Þann 12. skaddaðist vitinn á Stórhöfða í Vestmannaeyjum af eldingu og varð óstarfhæfur um hríð. Átt var austlæg eða norðaustlæg og ekki hvöss. Rosaljósa er getið á Vífilsstöðum og líklegt að bjarmi frá eldingum þrumuveðurs við suðurströndina hafi sést alla leið þangað.
Ekki urðu skemmdir í Reykjavík í illviðri þann 15. að sögn Vísis (16.):
Ofsarok af austri gerði hér í gær fyrir hádegi og stóð á aðra klukkustund. Engar skemmdir urðu af veðrinu, svo að kunnugt sé.
Á annan páskadag [29.mars] fórst maður í snjóflóði í Mýrdal. Morgunblaðið segir frá þann 5.apríl:
Á annan í páskum vildi það slys til á bænum Giljum í Mýrdal að unglingspiltur, 17 ára að aldri, fórst í snjóskafli er hrundi á hann og tók hann með sér ofan í gil nálægt bænum. Var pilturinn að bera hey til sauða, sem hafðir voru fyrir vestan bæinn.
Apríl: Mjög umhleypinga- og úrkomusamt um mestallt land. Hiti í meðallagi. En tíðin fékk samt góða dóma.
Vísir lýsir tíðinni í pistlum þann 4., 14. og 29.:
[4.] Kólnar í veðri. Frost var um alt land í morgun, meira en lengi hefir áður verið. [14.] Vetrarísinn var nær horfinn af Tjörninni fyrir síðasta kuldakast, en nú hefir hana lagt að nýju. [29.] Vætusamt hefir verið undanfarið hér sunnanlands, en nú er komið sumar og blíðviðri. Í símtali við Seyðisfjörð í morgun var oss sagt, að þar hefði verið alveg einstakt blíðviðri, veturinn hefði mátt heita snjólaus, enda sæist ekki meiri snjór í fjöllum en vant er að vera um hásumar.
Morgunblaðið lýsir tíð þann 15., 21. 23. og 30.:
[15.] Tjörnin var allögð ísi í gærmorgun. Var frostið hér í bænum 3 stig, en víðast hvar annarstaðar á landinu 5 - 6 stig.
[21.] Veturinn kvaddi í gær með éljaskúrum og sólskini. Var þó alltaf hlýtt veður. Mun þetta hafa verið með allra hlýjustu vetrum er komið hafa hér lengi. - Spá fróðir menn góðu vori og sumri. [Lítið varð úr því]
[23.] Akureyri. Blíðuveður er hér enn dag hvern. Má svo heita að allur snjór sé horfinn. Kom Island hér í gær og voru farþegar undrandi á umskiptum þeim að koma að sunnan og norður.
[30.] Blíðviðri var hér í gær í fyrsta skipti á þessu sumri. Má nú vænta þess, að tíðinni bregði til hins betra og að sumarið sé komið meira en að nafninu.
Hámarkshiti í Reykjavík þann 29.apríl var 14,6 stig - ekki langt frá því hæsta sem mælst hefur í apríl þar í bæ (15,2 stig 1942) - og aðeins 0,1 stigi lægra heldur en hæsti hiti sumarsins alls í Reykjavík. Hann mældist 14,7 stig þann 27.júlí. Á Vífilsstöðum mældist hámarkið 15,5 stig 29.apríl og varð hiti þar aldrei hærri en það þar allt sumarið. Norðaustanlands komst hiti hæst í 19,5 stig á Grímsstöðum á Fjöllum.
Maí: Fremur þurrt framan af, en síðan meiri votviðri. Kalt.
Alhvítt varð á Vífilsstöðum að kvöldi 15. og að morgni þann 16. Þá var jörð flekkótt á Stóra-Núpi. Jörð varð víða alhvít norðaustan- og austanlands eftir þann 20. og dag og dag út mánuðinn. Snjódýpt 15 cm á Þórshöfn þ.22. Alhvítt á Teigarhorni þann 29. og 30. Blöðin kvarta yfir tíðinni - sem vonlegt er. Við lítum á nokkur dæmi:
Dagur segir þann 7. fyrst frá aprílhlýindunum (hámarkið fór þá í 18,1 stig á Möðruvöllum):
Seinustu dagana í apríl var svo heitt að undrum sætti. Hitinn steig upp í 17 gr. í forsælu. Kuldakast gerði aftur um miðja þessa viku, en þó vona menn, að nú sé skammt til albata tíðar.
Fram segir frá þann 14., 21. og 28.:
[14.] Hlýnað aftur í veðri síðustu daga. Kuldatíð var í fyrri viku og fram yfir síðustu helgi um land allt og hætt við að jörð hafi kalið þar sem snjólaust var orðið með öllu á láglendi víða. Í Skagafirði og víðar upp til sveita, var um síðustu helgi 10 og 11 stiga frost um nætur.
[21.] Skammgóður vermir reyndust hlýindin um síðustu helgi. Hefur verið hríðarveður flesta daga vikunnar og fest töluvert af snjó.
[28.] Hríðarveður með töluverðu frosti var hér miðvikudag og fimmtudag, og meira og minna snjóað hvern dag vikunnar þar til í gær, er hér nú alhvít jörð sem um hávetur og kuldalegt um að litast. Auðvitað tekur snjó þennan upp mjög fljótt geti hlýnað í veðri og vonar maður að hver kuldadagur sé nú hinn síðasti, og vænta megi sólar og sumars úr þessu. Í dag er hér glaðasólskin en fremur kalt.
Morgunblaðið segir tíðindi úr Reykjavík þann 27.:
Kuldi var svo mikill í gær [26.], að þvottur fraus á snúrum og snjór féll á jörð. Eru menn farnir að halda að ís sé mjög nærri landi.
Austurland þann 28.:
Tíðarfar hefur verið mjög vont undanförnu. Snjór og kuldi dag hvern. Hefur snjóað svo í sumum sveitum að djúpfenni má kalla. Er það illt um sauðburðinn, og furðulegt að eigi skuli verða að stórtjóni. En fé er svo vel undan vetri nú, að lömbin lifa góðu lífi þrátt fyrir snjó og kulda. Höfum vér frétt að ær með lömbum hafi verið grafnar upp úr sköflum uppi á Jökuldal og flest fé verið alklakað er þá var smalað.
Vísir segir frá hafís þann 30.maí:
Hafíshroði einhver var við Skaga, milli Húnaflóa og Skagafjarðar, þegar Villemoes fór þar um, og hákarlaskip segja þéttan is skammt undan Norðurlandi.
Júní: Úrkomusamt á Suður- og Vesturlandi frameftir mánuði, en annars þurrviðrasamt. Oft bjartviðri norðaustanlands. Kalt sunnanlands.
Hafísspangir á Húnaflóa um miðjan mánuð, sást líka úr Grímsey - og þann 21. rak lítilsháttar hroða á fjörur við Raufarhöfn og ís sást af Langanesi.
Þann 1. kvartar Morgunblaðið um ryk í Reykjavík:
Rykið á götunum í gær var alveg óskaplegt. Einkum á Laugaveginum var bylurinn svo svartur á stundum, að eigi hefði veitt a£ að nota heygrímu. Ef þess væri nokkur kostur, ætti að væta göturnar þegar stormur er í þurrkum, því það er meira en lítil óhollusta af slíku sandroki.
Dagur segir frá skriðuföllum þann 11.júní:
Skriða féll nýlega i túnið i Fagrabæ i Svalbarðsströnd og eyddi 4/5 af því. Á bænum var fjögurra kúa tún, svo skaðinn er mjög tilfinnanlegur fyrir bóndann.
Fram segir frá tíð og hafís þann 11., 18. og 25.:
[11.] Hlý og indæl veðrátta með sunnanátt fram yfir miðja viku, og tók hér afskaplega mikið upp af gamla snjónum en svo kólnaði aftur og var í gærdag allan hráslagarigning og gekk vindur norður með kvöldinu, og snjóaði svo í nótt er leið [11.] að alhvítt var hér um alla jörð í morgun; er nú á öllu auðséð að sá hvíti er ekki langt undan. Hafísinn:. Fiskiskip sem komið hafa inn þessa viku segja öll ísfregnir, er ísinn skammt undan Horni, og austur fyrir miðjan Húnaflóa, hafa skip orðið að hörfa undan ísnum frá veiðum þar vestur frá.
[18.] Kalt og óstillt tíðarfar muna menn ekki jafnmikla umhleypinga og slæma veðráttu í júnímánuði, stafa auðvitað kuldarnir af ísnum sem alltaf er á næstu slóðum. Þessa viku hefir þvottar stokkfrosið á snúrum um nætur og er það sem betur fer sjaldgæft. Hafísinn. M.S. Haukur lagði á stað héðan í fyrradag og ætlaði vestur um land til Reykjavíkur, enn ekki komst hann lengra vestur en að Ingólfsfirði, þar var ísinn landfastur, og hafþök að sjá svo langt sem augað eygði, úr masturstoppum skipsins. Haukur kom hér inn í gær og sagði þessar fréttir, hélt samstundis á stað aftur austur fyrir land.
[25.] Mildari veðrátta aftur þessa viku þó aldrei verulega hlýtt í veðri, og óstillingar, mjög sjaldan logn, sem annars er mjög títt um þetta leyti hér í Siglufirði, grassprettu miðar litíð og lambahöld eru fremur slæm hér í firðinum. ... Hafísinn. Sirius sem kom hingað beina leið af Ísafirði varð hvergi var við ís nema hvað sást lítilsháttar hrafl út af Húnaflóa. Hefur austanáttin í þessari viku ýtt ísnum frá landi og vonandi snýr hann ekki við aftur að þessu sinni.
Júlí: Rigningatíð sunnanlands og vestan fram yfir 20. - á meðan var bærileg tíð nyrðra og eystra, en síðan brá til norðlægra átta með kuldum nyrðra. Hafíshröngl á Húnaflóa og ís sást úr Grímsey þann 27.
Fram segir þann 9.júlí um tíðina þar um slóðir: Tíðin góð og indæl. Sterkjuhitar og gróðrarskúrir enda var þess orðin þörf fyrir jörðina. Þann 16.: Alltaf sama blíðan, hitar og nokkur úrkoma á milli svo að grasið þýtur upp.
Vísir segir þann 25. frá sólskini í Reykjavík daginn áður:
Sólskin var hér í gær og notuðu bæjarmenn góðviðrið til að skemmta sér. Fór mesti fjöldi fólks út úr bænum, gangandi, ríðandi, í bifreiðum eða á hjólum. Auk þess fóru templarar skemmtiferð upp á Akranes á ES Þór", og skemmtu sér þar hið besta. Snjóað hefir á Norðurlandi undanfarna sólarhringa. Á Siglufirði var grátt í rót niður undir byggð í fyrrakvöld [23.].
Morgunblaðið greinir frá kulda þann 26.:
Kuldi óvenjumikill hefir verið á Norður- og Vesturlandi undanfarna daga. Viða hefir snjóað alveg niður i byggð. Í Borgarfirði efra var aðeins tveggja stiga hiti á sunnudaginn [24.].
Dagur segir frá þann 30.:
Eftir hinn ágæta tíðarkafla fyrir og eftir mánaðamótin síðustu, brá til norðanáttar, sem hélst nærri hálfan mánuð með afskaplegum kulda, svo snjóaði ofan í miðjar hlíðar. Þó voru úrkomurnar ekki mjög miklar. Á fimmtudagsmorgun [28.] birti upp með kuldastormi. Ís er alltaf á reki mjög nærri landi. Sirius, sem kom á þriðjudaginn, sigldi 7 klst meðfram og í gegnum ís við Horn. Þurrkar hafa verið á Suðurlandi.
Ágúst: Lengst af þurrviðrasamt á Suður- og Vesturlandi, en ótíð nyrðra. Miklar rigningar um tíma norðantil á Austfjörðum. Kalt.
Grátt var að morgni í Möðrudal þann 4., 5. og 6. og alhvítt þann 27.
Dagur segir frá illri tíð þann 6.:
Tíðarfarið er enn hið versta. Norðangarður látlaus með veðurofsa, úrfelli og kulda. Öll fjöll snævi þakin ofan í miðjar hlíðar. Heyskemmdir verða minni vegna kuldans, en illt er útlit um hirðingu heys. Síldarútgerðin stendur í stafni vegna ógæfta. Mörg hundruð síldarkvenna sitja nú aðgerðalausar á Siglufirði í verstu húsakynnum og hafa sex krónur á viku í kaup í aðgerðaleysinu. Er útlitið hörmulegt til lands og sjávar.
Austurland segir frá strandi og rigningum þann 6.ágúst:
Síðastliðið miðvikudagskvöld strandaði seglskipið Ellen Benzon" á Borgarfirði [eystra]. Rak það upp í ofsastormi og brimi og hafði þvínær lent á kletta, mjög hættulega, en skipsmenn gátu komið upp einhverju af seglum og komið inn á sand, þar sem líklegra var til bjargar. Enda varð full mannbjörg. Borgfirðingar voru viðbúnir að taka á móti skipshöfninni í brimgarðinum og höfðu áður mannað út bát með 9 mönnum, en orðið frá að hverfa vegna brimsins. Skipið var að fara með salt til Hinna sameinuðu íslenzku verzlana á Borgarfirði og hafði áður lagt salt upp hér hjá sömu verslunum á Vestdalseyri. ... Mun skipið vera óskemmt og saltið í því hafði lítið sem ekkert blotnað.
Illviðri mikil hafa verið undanförnu. Hefur hlaupið svo mikill vöxtur í læki og ár, að slíkt mega firn heita. Búðaráin hér í bænum hefur brotist úr farvegi sínum, skemmt tún, vegi og garða og gert annan slíkan usla. Er nú verið að bæta vegaskemmdirnar.
Trúlega eru rigningarnar sem minnst er á í frétt Austurlands þann 27. þær sömu og belgdu Búðará:
Í rigningunum miklu í sumar varð víða allmikið tjón. Í Skógum í Mjóafirði skemmdist mikið af túninu, er aurskriða hljóp á. Á Hrjót í Hjaltastaðaþinghá hrundu bæjarhús, og 30-40 hestar af þurru heyi skemmdust í hlöðu á Hreinsstöðum. Var sagt að hægt hefði verið að fara á bát á milli tveggja bæja í Hjaltastaðaþinghá. - Spretta í sveitum er með allra besta móti, en nýting eigi þar eftir.
Enn kvartar Dagur um stirða tíð þann 20.ágúst:
Tíðarfarið hefir allt að þessu verið mjög stirt. Sífelldar þurrkleysur og rigningar næstum daglega. Sunnanlands og vestan og norðan, alt austur að Eyjafjarðarsýslu, hafa verið ágætir þurrkar. Í Þingeyjarsýslu eru töður manna enn yfirleitt óhirtar.
Þurrara var sunnanlands, Tíminn segir þann 6.ágúst:
Afbragðsgóð heyskapartíð hefir verið hér um slóðir. Sumstaðar hefir þó norðanhvassviðrið verið allt of mikið. Kuldi mikill nyrðra og þokusúld.
Úr bréfi úr Skagafirði 17.ágúst (birtist í Morgunblaðinu þann 4.september): Tíðin köld og ofsafengin á norðan til skamms tíma, en nú hefur brugðið til betri veðráttu.
Ísafold birtir 8.september bréf úr Strandasýslu dagsett 25.ágúst:
Tíðin í vor var alltaf köld, og spratt jörð því seint, en i 12. viku sumars brá til hlýinda, og þá fóru túnin fyrst að spretta, og spruttu þá fljótt, svo að í 13. vikunni og 13 af voru þau orðin með besta móti sprottin og skyldi þá sláttur byrja, en þá kom inflúensan og lagði alla í rúmið, og þó nokkra i gröfina. Urðu margir æði mikið veikir, og tók veiki þessi mjög mikið úr heyvinnunni, víðast í 1/2-2 vikur og sumstaðar meira; menn eru lengi að ná sér eftir veiki þessa. Um sama leyti versnaði tíð, og frá því um og úr miðjum júlí hefir verið versta tíð, fyrst lengi norðangarður með illviðrum og kulda svo að oft snjóaði ofan i byggð, og svo síðustu viku hægviðri um nætur. Töður liggja víða óhirtar enn, en sumstaðar er búið að taka þær, en þó næsta illa þurrar.
Morgunblaðið greinir þann 28. frá þurrkum á Vestfjörðum:
Þurrkar ágætir hafa verið undanfarið viðast hvar í Vestfjörðum. Mun þar vera nær því alþurrkað mest af þeim saltfiski, sem þar er til.
Kvartað er undan vitlausum veðurspám í Tímanum þann 6.ágúst - lítum á það. Stöðin mun vera Veðurstofan:
Veðurathuganir. Stöðin hérna skýrir daglega frá veðri á nokkrum stöðum hér á landi, svo fylgir spádómur um veðrið sem væntanlegt sé. Spádómar þessir eru mjög lélegir oft, engu betri en hægt er að segja fyrir um veðurhorfur án þess að vera nokkur veðurfræðingur, og gagnið mun lítið. Í Vísi 21. júlí stendur þessi spádómur: Kyrrt veður fyrst um sinn, síðan suðlæg átt á Suðurlandi. Þann dag norðanrok á Suðurlandi. Norðanrok líka 22. júlí. 23. júlí stendur: Horfur: norðlæg átt. Kyrra veðrið sem spáð var 21. kom ekki hér og því síður hin spáða sunnanátt. Norðanáttin hefir haldist þar til 27. að hann varð austlægur. Hvergi var getið um það í Vísi 26. þar stóð: 26. snörp norðlæg átt. 28. var spáð hægri norðaustlægri átt. Þann dag rigndi hægt á, - suðaustan hér. Hvað skyldi mörgum þúsundum króna vera varið af almennings fé til þess að fóðra þessa veðurspámenn? Egill Gíslason.
September: Úrkomutíð síðari hlutann, en þurrviðrasamara fyrri hlutann. Kalt.
Á Möðruvöllum snjóaði þann 9., en festi líklega ekki, en þann 11. festi niður að sjó. Alhvítt á Vífilsstöðum þann 27. - en ekki á Veðurstofunni við Skólavörðustíg.
Dagur ræðir sumartíðina þann 10.september:
Sumarið hefir verið afar kalt og óþurrkasamt á Norðausturlandi. Flestir spáðu að batna mundi með höfuðdegi, en svo hefir ekki reynst. Enn eru umhleypingar með úrkomu við og við en þurrkflæsum á milli og veður hlýrri. Hefir tíðin verið umhleypingasöm um allt land síðustu vikurnar. Heyfengur manna verður í ár mjög misjafn á landinu. Spretta hefir verið í meðallagi og sumstaðar rúmlega það. En nýting hefir verið afar misjöfn. Á Suður- og Vesturlandi hefir heyskapur gengið afar vel svo sagt er að þar hafi heyjast óvanalega mikið. Á Norðurlandi alt austur að Eyjafjarðarsýslu hefir hann sömuleiðis gengið þolanlega, en þar austan við og á Austurlandi er óhætt að segja að heyskapur hafi gengið mjög erfiðlega. Töður sínar gátu menn ekki hirt á því svæði fyrr en seinast í ágúst. Vinnukraftar notuðust illa vegna óveðra og kulda. Inflúensan hefir líka tafið fyrir mönnum til og frá um allt land. Heyfengur yfirleitt á landinu verður þó líklega um eða yfir meðallag. Aftur eru slæmar horfur með kartöfluuppskeru norðanlands, vegna sífelldra kulda og næturfrosta.
Morgunblaðið segir 10.september: Snjóað hafði í fyrrinótt ofan i byrgð sumstaðar á Snæfellsnesi, að því er símað var frá Ólafsvík í gær, og daginn eftir segir: Siglufirði i gær. Undanfarna daga hefir verið mesta illveður. Hafa skipst á þokur, rigningar og éljagangur. Suma dagana hefir snjóað niður í byggð. Er töluverður snjór kominn á hæstu fjöll, en væntanlega tekur hann upp aftur fljótlega.
Vikan næst á eftir virðist hafa verið bærileg, en Vísir segir þó þann 15. að frost hafi verið í nótt og héluð jörð í morgun. Morgunblaðið segir svo þann 20.:
Í ofsaroki á Stokkseyri i fyrradag [18.] rákust tveir vélbátar á þar á legunni og sukku báðir. Ennfremur strandaði vélskip i Grindavík og skemmdist mjög.
Þann 28. og 29. gerði slæmt veður af norðri. Austurland segir þann 1.október:
Ofsaveður í var hér nóttina milli 28. og 29. [september]. Fauk þá allt lauslegt og meira að segja þök af geymslu- og skepnuhúsum. Var veðrið eitt með þeim mestu er hér koma.
Dagur segir frá sama veðri þann 1.október:
Ofsaveður á norðaustan gerði s.l. miðvikudagsnótt (28.). Heyrst hefir að það veður hafi orðið skipum að grandi víðar en í einum stað. Auk skips þess, sem strandaði hér við Eyjafjörð, ... er sagt á mótorskip að nafni Erlingur hafi strandað í Breiðuvík á Tjörnesi og hafi skipstjórinn farist, en sögum ber ekki saman um það með hverjum hætti það hafi orðið. Aðrir skipverjar komust af. Sömuleiðis hefir heyrst að mótorbátur hafi farist á Vestfjörðum.
Og Fram á Siglufirði líka þann 1.október (nokkuð stytt hér):
Hið versta tíðarfar. Kraparigningar og kuldi. Miðvikudagsnóttina mátti hér heita stórhríð, var um morguninn alhvítt niður í sjó og stórbrim, skaða gerði þó veðrið engan, hér í Siglufirði, enda var veðurhæðin ekkert afskapleg hér í firðinum. Í aftaka norðanveðri, stórhríð og stórbrimi sem hér gerði Norðanlands aðfaranótt síðastliðins miðvikudags, strönduðu 2 skip, hið fyrra sem til fréttist var mótorskonnortan Rigmor frá Nakskov í Danmörku Var hún á leið frá Bolungavik hingað til Siglufjarðar með salt ... Hraktist skipið undan veðrinu inn á Eyjafjörð og strandaði á Djúpuvík skammt frá Krossum. Menn björguðust allir. Sagt er að botninn muni að mestu úr skipinu og bæði skip og farmur gjörónýtt.
Síðara skipið sem tilfréttist að farist hefði þessa sömu nótt var vélskipið Erlingur héðan úr Siglufirði. Hafði hann verið í flutningum austur á land og var nú á heimleið, strandaði hann á Tjörnesinu norðanverðu þar sem heitir Breiðavík. Kastaði brimið Erlingi upp á þurrt land og er skipið víst talsvert brotið. Erlingur var vátryggður og bíða eigendurnir vonandi eigi stórtjón. Það slys vildi til að stýrimaðurinn Jón Guðmundsson héðan úr Siglufirði dó voveiflega. Rétt áður en skipið kastaðist á land, gekk Jón undir þiljur og heyrðu skipverjar í sama mund skoti hleypt af, og þegar að var komið var hann örendur með skot gegnum höfuðið, vita menn ógjörla hvernig slysið hefir viljað til, 10 mínútum síðar voru hinir skipverjar heilu og höldnu á landi. En ærið hroðaleg hefur sú stund verið meðan skipið kastaðist til og frá í brimgarðinum og hver maður hélt sér dauðahaldi þar til skipið festist svo að menn freistuðu að stökkva á land. Svo var veðrið og sjórótið mikið að menn þar eystra muna ekki slíkt síðan fyrir aldamót. Skipshöfnin er á Húsavík, og byrjuðu sjópróf í gærdag, að þeim loknum, verða mennirnir fluttir hingað við fyrstu hentugleika.
Tíminn segir þann 1. frá manntjóni í sama veðri vestra:
Um miðja síðastliðna viku fórst vélbátur frá Valþjófsdal í Önundarfirði. Fjórir menn voru á bátnum og fórust þeir allir.
Október: Sífelldar úrkomur á Suður- og Vesturlandi, en allgóð tíð norðaustanlands. Fremur kalt.
Morgunblaðið lýsir sæmilegri tíð í pistli þann 16.:
Tíðarfar helst enn sæmilegt í flestum landsfjórðungum, að því er til fréttist. Frost hafa ekki komið enn svo teljandi sé og snjólaust er allstaðar í byggðum.
En þann 20. greinir blaðið frá nokkrum símslitum úti um land dagana á undan og Austurland segir 5.nóvember frá bilunum á Seyðisfirði (sennilega um þetta leyti):
Í krapahríðinni í síðasta mánuði bilaði mjög mikið rafmagnskerfi bæjarins. Brotnuðu sjö staurar og var bærinn því lengi ljósalaus mun ólag meira eða minna hafa verið á rafmagnskerfinu á þriðju viku. Hefur mönnum mikið brugðið við og þykir kerta- og lampa-ljós lítils virði.
Fram segir frá þann 22.:
Síðan á sunnudagskvöld [16.] hafa verið hríðarveður öðruhvoru en frostvægt allt fram á fimmtudagskvöld [20.]. Sumarið kvaddi í gær með logni, hreinviðri og 5 st. frosti og tindrandi norðurljósum í gærkvöldi en veturinn heilsar i dag með hægviðri og vægu frosti. Annars hefir þetta liðna sumar verið óvenju kalt og hryssingslegt hér um slóðir og víðar um land, að því er frést hefir.
Tíminn segir þann 22.:
Úr Borgarfirði. Grasvöxtur varð sæmilegur á túnum í sumar en útjörð snögg með afbrigðum til fjalla. Nýting ágæt. Garðar víða stórskemmdir eftir norðanbálviðri.
Tíminn birti þann 10.desember bréf sem ritað er um veturnætur undir Eyjafjöllum - þar gekk heyskapur betur en fyrir norðan, en garðar brugðust:
Vorið var kalt, en jörð klakalaus undan vetrinum og spratt því furðuvel. Sumarið var líka kalt, misheppnuðust því matjurtagarðar, aðeins rófur, gróðursettar úr vermireit, spruttu vel. Heyskapartíð mjög hagstæð, svo jafnvel votheysbændur þurrkuðu öll sín hey. Hey með meira móti og mjög góð. Sauðfé reyndist allvel til slátrunar.
Óljósar fréttir bárust af eldgosi sem átti að hafa orðið um sumarið. Vísir segir þann 15.:
Þess var getið fyrir nokkru í Vísi, eftir kaupamanni, sem kom austan úr Biskupstungum, að þar hefði orðið vart við nokkurt öskufall einn dag í ágústmánuði og um líkt leyti
höfðu nokkrir menn séð eldbjarma í austri af Hafnarfjarðarveginum. Þóttust menn vita, að eldur mundi vera uppi einhvers staðar í óbyggðum, en enginn vissi hvar. En nú kemur sú fregn austan úr Skaftafellssýslum, að eldur hafi verið uppi á Skaftártungumannaafrétt. Heimildarmaður Vísis fyrir þeirri fregn er hr. Þorsteinn Einarsson, Skaftfellingur, sem heima á hér í bænum. Hann var á ferð eystra í sumar og var þá sagt, að sést hefði frá Skál á Síðu, mikill eldur uppi eina nótt þar norður á öræfunum. Var giskað á, að það væri á hinum sömu eldstöðvum, þar sem gosin miklu urðu 1783. Eldur þessi sást um mánaðamót júlí og ágústmánaða. Ekki varð eldsins lengi vart, og engin aska féll í Skaftafellssýslum. Ekki hafði Þorsteinn frétt, hvort leitarmenn hefðu orðið varir við vegsummerki eftir gosið; taldi hann óvíst, að þeir hefðu farið svo langt norður.
Nóvember: Mjög úrkomusamt um allt sunnan- og vestanvert landið, en góð tíð norðaustanlands. Hiti í meðallagi.
Talsvert illviðri gerði um mánaðamótin, síðdegis þann 31.október og 1.nóvember. Austurland segir svo frá veðrinu þann 5.nóvember:
Seinni hluta mánudags [31.] og aðfaranótt þriðjudags [1.] í þessari viku var hér á Austurlandi versta veður. Hér í firðinum sökk vélarbátur á Þórarinsstöðum, eign Sigurðar bónda þar. Sökk hann þar á legunni, en hafði rekið nokkuð. Var vélarskipið Gerpir" fengið til að reyna að bjarga bátnum, en eigi hefur björgunin tekist enn. Vélarbátur sökk einnig á Hafranesi í Reyðarfirði. Eigandi hans var Níels Finnsson. Á Sörlastöðum hér í firðinum hrundi úr fjárhúsi steyptur gafl og nokkuð af þakinu. Drap hrunið eina kind.
Í ofsaveðrinu á mánudaginn [31.október], vildi til það slys, að maður og 22 kindur fóru á sjó út í snjóflóði í Svínavík í Borgarfirði. Var svo mál með vexti, að bóndinn í Breiðuvík átti fé, er gekk úti í Svínavík þessari. Er veðrið versnaði, fór hann af stað með vinnupilti sínum, er Einar hét Einarsson, að leita fjárins, Fundu þeir það í þröngum bás við sjóinn og hugðust að reka það upp kleif eina. En er féð var komið upp í kleifina tók sig upp snjóflóð efst í fjallinu, er tók Einar og 22 kindur á sjó út. Nokkru síðar rak lík Einars. Í Njarðvík í Borgarfirði, hljóp einnig snjóflóð, er braut nokkra símastaura. Var brim í Njarðvík svo mikið, að út tók tvo báta, er taldir voru á alöruggum stað.
Fram á Siglufirði segir líka af veðrinu í pistli þann 5.:
Veturinn virðist fyrir alvöru vera genginn í garð og þykir mönnum hann fullsnemma á ferð. Sunnudag [30.október] og mánudag var hér norðanlands norðan-stórhríð, voru hér í Siglufirði mannhæðarháir skaflar á götunum þegar upp birti. Síðan sífeldar hríðar og stórhríð í dag.
Dagur á Akureyri segir annars konar óhappi þann 5.:
Skemmdir urðu á vélbátum Höfðhverfinga og Hríseyinga hér á höfninni síðastliðinn miðvikudag [31.október]. Bátarnir komu þann dag hingað inn eftir og hafði að minnsta kosti einn þeirra meðferðis um 20 skippund af saltfiski. Autt var við Oddeyrartangann, en fiskeigendum þótti langt að aka fiskinum þaðan á ákvörðunarstað og freistuðu að komast inn að Torfunefsbryggju, en Pollurinn var lagður nýrenndum ís. Lögðu bátarnir í ísinn og brutu sér leið upp að bryggju. En svo fóru leikar að göt skárust á tvo þeirra og sökk báturinn með fiskinum við bryggjuna. Þriðji báturinn skemmdist til muna. Skaðinn á fiskinum mun verða talsvert mikill.
Dagur birti þann 19. bréf úr Svarfaðardal þar sem lýst er tíðarfari sumarsins og heyskap:
Fyrir hér um bil 3 vikum síðan kvaddi sumarið okkur Svarfdælinga eins og aðra Frónbúa. Mátti sá tími heita kaldur og vossamur, er það dvaldi hér í byggð, að undanteknum nokkrum hluta júlímánaðar, spratt þá gras yfir vonir fram, svo grasspretta á túnum og harðvelli var hér í betra meðallagi, en mýrlendi miður. Óþurrkarnir voru með meira móti. Langsöm og þráiðin norðan- og norðaustanátt ollu þeim vandræðum, að illmögulegt var að þurrka hér heytuggu, sífeld þoka og rigning og krapaveður og upp í dalnum var ein sú hretviðrakviða svo löng, að naumast sá til sólar í hálfan mánuð samfleytt. Rann þá afréttarfénaður mjög til byggða og olli skemmdum á ógirtu landi. Hey voru yfirleitt linþurr í garð búin og fór það mjög að vonum í slíku tíðarfari. Það var eins og náttúran væri ákveðin í því, að virða að vettugi alla þá framsýni og viðleitni til bærilegrar heyverkunar er mennsk hyggja getur framleitt. Hitnuðu hey víða, einkum töður, úr hófi fram og er ekki enn séð hverjar afleiðingar það hefir. En það var ekki eitt sem þessi dauðans tíð hafði í för með sér. Þannig brást almennt uppskera matjurta hér í sveitinni, kartöflu- og gulrófnarækt hefir verið stunduð hér nálega á hverjum bæ um langt skeið, til matbætis og búdrýginda.
Betri tíð var nyrðra eftir fyrstu daga mánaðarins. Fram segir frá í stuttum pistlum:
[12.] Hreinviðri þessa vikuna og suma daga kyrrt og gott veður, frost lítil hér út við hafið. Bátar hafa róið með handfæri nokkrum sinnum og fengið reytings fisk. [19.] Besta tíð þessa vikuna, hægviðri og þíðviðri hvern dag. [26.] Sama blíða og góða tíðarfarið eins og síðastliðna viku.
Desember: Úrkomusöm tíð og víða talsverður snjór. Hiti í meðallagi.
Glitský sáust frá Nefbjarnarstöðum þann 13. Þann 9. fauk ofan af úrkomumæli á Stórhöfða í ofsaveðri.
Morgunblaðið segir þann 9. frá vandræðum í Reykjavíkurhöfn:
Árekstur og skemmdir nokkrar urðu á skipum í höfninni í ofsaveðrinu í fyrrinótt [7.]. Flutningaskipið Haukur, sem liggur bundið við Örfiriseyjargarðinn, rakst á botnvörpung Hauksfélagsins, Þorstein Ingólfsson, en það skip rakst aftur á Suðurlandið. Öll skipin skemmdust nokkuð.
Þann 14. segir Morgunblaðið frá því að vélbát hafi rekið á land á Kjalarnesi á sunnudagsnóttina var [11.desember].
Morgunblaðið segir frá því þann 6.janúar 1922 að maður hafi orðið úti í skafbyl á Hellisheiði þann 19.desember.
Vísir segir frá þann 27.:
Vegna snjóþyngsla komst járnbrautarlestin ekki af stað í morgun og stöðvaðist þess vegna vinna í svip við nýju hafnaruppfyllinguna. Rosaveður hefir verið um jólin. Áttin ýmist suðvestlæg eða austlæg. Miklum snjó hefir kyngt niður. Í dag er veður öllu stillilegra, en loftvog stendur óvenjulega lágt.
Snjódýpt við Veðurstofuna var þó ekki mjög mikil þessa daga, mest 17 cm þann 30.
Þann 28. segir Morgunblaðið frá jólaveðrinu:
Hríðarjól sannkölluð hafa þessi jól verið. Hefir kyngt niður miklu af snjó og lítur út fyrir rosatíð enn, því loftvog stendur illa. Símslit urðu allmikil í óveðrinu á aðfangadagsnótt. Slitnaði landsíminn á Kjalarnesi allur nema ein lína og á austursímunum urðu bilanir milli Lækjarbotna og Ölfusár. Tafðist afgreiðslan nokkuð við þetta en nú er allt komið í samt lag aftur.
Blaðið bætir því við þann 30. að norðanlands sé sögð sæmileg tíð.
Lýkur hér frásögn hungurdiska af árinu 1921. Hefði tíðarfar þess ekki vakið mikinn fögnuð nú á tímum.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 64
- Sl. sólarhring: 147
- Sl. viku: 1985
- Frá upphafi: 2412649
Annað
- Innlit í dag: 63
- Innlit sl. viku: 1737
- Gestir í dag: 60
- IP-tölur í dag: 57
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.