18.4.2018 | 21:37
Af árinu 1917
Ekki fyrir svo löngu var fjallað nokkuð um desember 1917 hér á hungurdiskum. Sömuleiðis fékk páskahretið mikla líka sérumfjöllun fyrir ári síðan (á 100 ára afmælinu). Í þessum pistlum er sitthvað til viðbótar því sem nefnt er hér að neðan.
En fleira gerðist í veðrinu á þessu ári. Köldu mánuðirnir voru fleiri en þeir hlýju, sérlega kalt var í apríl og október, mjög kalt í nóvember og desember og við verðum líka að telja maí, júní og september kalda. Hvað er þá eftir? Jú, það var hlýtt í júlí og hiti var einnig nokkuð yfir meðallagi í febrúar. Þeir þrír mánuðir sem eftir eru, janúar, mars og ágúst voru nærri meðallagi hvað hita varðar.
Hæstur mældist hitinn á árinu 26,3 stig. Það var á Akureyri 26. júlí og þann 21. fór hann í 25,2 stig á Möðruvöllum í Hörgárdal. Mjög hlýtt varð sunnanlands um stund í ágúst og mældist hiti á skeytastöðinni í Vestmannaeyjakaupstað 21,0 stig þann 13.
Frost voru óvenjuhörð í desember og fór mest í -34,5 stig í Möðrudal þann 9. Stendur það sem desembermet hér á landi. Þann 16. mældist -22,0 stiga frost á Akureyri, það mesta í desember þar í bæ.
Sextán kaldir dagar ársins veiðast í net ritstjóra hungurdiska í Reykjavík, einn í janúar, einn í febrúar, tveir í mars, þrír í apríl. Einn dagur fannst í júní og einn í september, aftur á móti 5 í október og tveir í nóvember. Það er 9. apríl sem var kaldastur þessara daga að tiltölu. Taka skal þó fram að gat er í mælingum í desember. Kaldir dagar þá örugglega allmargir - þeir reynast 5 í þeim mánuði í Stykkishólmi. En það er eins í Stykkishólmi að 9. apríl var kaldasti dagur ársins að tiltölu. Páskahretið mikla í hámarki.
Tvö mánaðarmet loftþrýstings standa enn. Þann 16. desember mældist þrýstingur í Stykkishólmi 1054,2 hPa og hefur aldrei mælst hærri í desember hér á landi. Á sama stað mældist þrýstingur 1034,5 hPa 3. júlí, það hæsta sem vitað er um í júlímánuði hér á landi.
Janúar var þurr á Norður- og Austurlandi og frekar þurrt var þar í júlí.
Sólskinsstundir voru óvenjumargar í ágúst suðvestanlands, en óvenjufáar í október. Ellefu óvenjusólríkir dagar fundust á Vífilsstöðum. Tveir í maí, þrír í júlí, fimm í ágúst og við verðum líka að telja 15. desember með - sól skein þá í 3 klukkustundir. Það hefur verið bjartur dagur. Lista yfir þessa daga er í viðhenginu.
Níu dagar lenda á stormdagalista ritstjóra hungurdiska, tveir í mars, þrír í apríl og fjórir í hinum afspyrnukalda og erfiða októbermánuði (sjá viðhengi).
Jóhann Kristjánsson ritar um tíðarfar í Skírni 1918:
Veðrátta frá nýári og fram að páskum var fremur mild og snjóalög lítil. Laugardaginn fyrir páska (7. apríl) gerði aftaka stórhríð með miklu frosti, og varð mikið tjón að því veðri víða um land. Menn urðu úti, fé hraktist og fórst. Á Austurlandi urðu skemmdir á húsum og undir Eyjafjöllum fuku skip. Vélbátar sukku á höfnum inni og símastaurar brotnuðu. Vorið var kalt og næðingasamt og spratt jörð seint. Sunnanlands var oftast snjólaust, en þó var fé gefið inni fram í miðjan maí og kúm til Jónsmessu, og svo var víða um Vesturland, en norðanlands og austan voraði öllu fyrr. Fénaðarhöld voru sæmileg um vorið um land allt.
Sunnanlands og vestan brá veðri til rigninga um miðjan júlí, og voru stöðugir óþurrkar fram til 9. ágúst, en þá brá til norðanáttar, og voru þurr og fremur köld veður fram að nóttum. Tún voru fremur illa sprottin, er sláttur byrjaði um 20. júlí, og hröktust töður þeirra, er ekki gerðu úr þeim vothey, en sú heyverkun fer í vöxt á Suðurlandi og á Snæfellsnesi, en er þó eigi orðin enn almenn. Aftur á móti varð útheyskapur góður yfirleitt á Suður- og Vesturlandi. Norðanlands gekk heyskapur vel fram að höfuðdegi, en eftir það hröktust hey viða og sumstaðar urðu hey úti til mikilla muna, einkum í Norður-Þingeyjarsýslu. Austanlands var góð tíð til 8. ágúst, en þá gerði þar miklar rigningar og snjóaði í fjöll. Heyfengur í Norður-Múlasýslu varð hvergi nær því í meðallagi, lenti þar og mikið hey undir snjó um miðjan september. Í Suður-Múlasýslu varð heyskapur víða í meðallagi.
Um miðjan september gerði ótíð mikla norðanlands og austan, og varð þá sumstaðar á Austfjörðum jarðlaust, og í októberbyrjun gerði aftakaveður um alt land. Fé fennti og víða urðu heyskaðar. Fórust þá og 2 skip með 13 mönnum. Eftir það voru hörð veður oftast fram að jólum, frost og jarðlaust, og kom allur fénaður óvenju snemma á gjöf. Um jólin gerði góða hláku, er náði um mestan hluta lands og var viðast komin jörð um áramót. Fjárheimtur um haustið voru með lakara móti, hamlaði veður fjallleitum og urðu afréttir aldrei smalaðir til fulls.
Janúar: Fremur hægviðrasöm og hagstæð tíð lengst af. Mjög þurrt víðast hvar. Hiti nærri meðallagi.
Haglítið var í upphafi árs víða á landinu eftir snjókomur eða áfreða desembermánaðar. Morgunblaðið segir t.d. frá þann 9. janúar: Harðindi mikil eru hér á Suðurlandi og hefir frést að til vandræða horfi með hey víða í Árnes- og Rangárvallasýslum. - Þetta er svo endurtekið viku síðar, þ.16.: Úr Rangárvallasýslu er oss skrifað 13. janúar, að þar séu eindæma harðindi og frosthörkur; menn almennt mjög heytæpir og sumir hafa skorið fénað af heyjum. Samanhangandi harðindi frá 20. nóv. og útlit mjög illt yfirleitt.
Síðan tók að hlána - fyrstu fréttir af þíðu birtust í Lögréttu 10. janúar:
Eftir frostakafla að undanförnu kom þíða i gær, og var bleytuhríð framan af degi og snjóaði töluvert. - Í sumum sveitum austanfjalls hefur tíðin verið erfið, einkum uppsveitunum, og hefur þar að sögn verið jarðlaust frá því í byrjun jólaföstu, þótt veður hafi verið góð. Þykjast menn því sjá fram á heyleysi, ef þessu fer fram, og hafa fækkað fé á nokkrum bæjum. Í Borgarfjarðarhéraði hefur snjóað töluvert, en úr Húnavatnssýslu var nýlega sagt, að þar væri lítill snjór, en yxi eftir því sem austar drægi norðan lands. Á Austfjörðum er mikill snjór, og á Fljótsdalshéraði öllu kvað hafa verið jarðlaust frá því fyrir jól.
Lögrétta segir frá viku síðar, 17. janúar: Veðrið hefur síðustu dagana verið hlýtt og gott, á sunnudaginn sunnanvindur og hláka og eins aftur í dag. Morgunblaðið svo þann 27.: Víða er nú forugt á götum höfuðstaðarins, en þó tekur út yfir allt, hvernig ástandið er i Vonarstræti. Þar veður fólk aurinn upp í ökkla.
Lögrétta birtir þann 24. frétt af endanlegum örlögum Goðafoss sem strandað hafði við Straumnes í lok nóvember 1916:
Rétt fyrir síðustu helgi kom hvassviðri og brim við Vesturland, sem fór svo með Goðafoss" að engin líkindi eru sögð til þess að hann náist framar út. Í þessu veðri sukku 3 vélbátar á Aðalvík, en 2 rak á land, og er það mikið tjón, er veiðar eru að byrja.
Það kom fram í Morgunblaðinu þann 8. febrúar að þetta hafi verið þann 15. Um mánaðamótin lofar Lögrétta góða tíð:
Tíðin hefur verið afbragðsgóð hér undanfarna viku, og svo hefur verið um alt land, eða líkt veður og hér. Menn, sem nýlega komu austan yfir Hellisheiði, sögðu hana að mestu auða yfir að sjá, aðeins fannir í lægðum, og fé Ölvesinga var á beit uppi undir Kambabrúnum.
Febrúar: Hægviðrasöm og hagstæð tíð lengst af. Fremur hlýtt.
Bátur frá Þorlákshöfn fórst í brimi við Stokkseyri þann 4. Þann 5. sagði Morgunblaðið að daginn áður hafi verið hið versta veður í Reykjavík, rokstormur og bleytuhríð fyrri hluta dags. Vísir segir frá því þann 7. að Hellisheiði hafi verið illfær í þrjá daga og margir bíði af sér veðrið á Kolviðarhóli. Þann 8. segir Morgunblaðið frá því að bifreiðaferðir milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar hafi lagst af vegna aurbleytu og þann 16. segir blaðið frá því að blíðviðri sé nú á degi hverjum um allt Suðurland.
Morgunblaðið segir þann 26. frá því að afskaplegur stormur hafi verið í Sandgerði daginn áður og þá hafi tvo báta rekið á land og einum til viðbótar hlekkst á.
Mars: Lengst af fremur hagstæð tíð, einkum suðvestanlands. Hiti nærri meðallagi.
Morgunblaðið birti þann 25. mars bréf frá Seyðisfirði dagsett 3. mars:
Gæðatíð hefir verið hér á Austurlandi síðan um áramót, nærri óslitin blíðviðri og stillingar. Þó hafa víða orðið lítil jarðarnot vegna þess að snjór er jafnfallinn og frosið hefir annan daginn þó hlánað hafi dálítið af og til. - Á Upp-Héraði, einkum í Fljótsdal, er nærri auð jörð í byggð, en aftur á móti ísalög mikil og jarðlítið á Út-Héraði. Á Fjörðunum, einkum þegar suðureftir dregur, er mjög litill snjór.
Þann 11. rak danska skútan Alliance upp á Reykjavíkurhöfn - og svo aftur þann 19. Þá rakst skipið á annað og skemmdi það nokkuð.
Austri segir frá tíð (aðallega góðri) í pistli þann 24.mars:
Um síðustu helgi gerði dálítið hret og var hinn síðasti dagur góu [19. mars] flestum hinum lakari. yngismannadagurinn [fyrsti dagur einmánaðar] var kaldur, svo að yngismenn munu ekki hafa haft hita aflögum þann daginn. En síðan hefir hver dagurinn verið öðrum blíðari. í fyrradag [22.] var 13 stiga hiti í forsælunni hér á Seyðisfirði og hefir hlánað svo mjög að götur bæjarins mega alauðar heita, og snjór yfirleitt óvenju lítill.
Þann 23. fór hiti reyndar í 14,3 stig á mæli dönsku veðurstofunnar á Seyðisfirði, en viku síðar [31.] segir Austri: Hríðar og mikil frost hafa verið alla vikuna. Ekta íslenskur vetur.
Þann 25. mars segir Morgunblaðið frá góðri tíð í Skagafirði:
Sauðárkróki i gær: Hér er alltaf einmunatíð, logn og blíðviðri á hverjum degi. Snjó hefir allan leyst og jörð orðin svo þíð, að farið er að vinna að jarðabótum. Er það líklega eins dæmi hér á Norðurlandi á þessum tíma árs.
Tíminn segir 31. mars frá hörmulegum fjársköðum:
Fé flæðir. Gunnsteinn bóndi i Skildinganesi [við Reykjavík] missti 20-30 kindur i flæði 24. þ. mán., og Ólafur bóndi Erlendsson á Jörva á Mýrum tapaði 150 fjár i sjóinn nýlega, kvað hann ekki eiga nema 20-30 kindur eftir.
Snarpt frost gerði síðustu daga marsmánaðar. Morgunblaðið segir frá því þann 31.:
Vegnu kuldans hlupu menn, sem annars komast varla úr sporunum, um göturnar i gær. Fátt er svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott. Vegna frostsins í fyrrinótt hafa vatnsæðar víða sprungið í húsum, aðallega í innbænum. Mátti víða sjá í gær að fólk var með vatnsfötur á götunni.
Vísir er nokkuð kaldhæðinn þann 29:
Hríð er um land allt í dag, nema hér í Beykjavík, og hörkufrost, 10-12 gráður, samkvæmt veðursímskeytum landssímans. Hér í Reykjavík er þó talið að eins 7 gráðu frost, en því trúir enginn.
Apríl: Óhagstæð tíð og stormasöm. Þurrviðrasamt og snjólétt á Suður- og Vesturlandi, en hríðar norðaustanlands. Mjög kalt.
Í bloggpistli hungurdiska 7. apríl 2017 var fjallað nokkuð ítarlega um páskahretið 1917, en það skall snögglega á laugardaginn fyrir páska. Í pistlinum voru þó ekki beinar tilvitnanir í blaðafréttir - þó helsta tjón væri rakið. Við hleypum blöðunum betur að hér - en vísum á fyrri pistil varðandi einkenni veðursins.
Fyrsta frétt af hretinu birtist í Morgunblaðinu þann 10. (þriðjudag eftir páska):
Afspyrnunorðanstormur hefir verið um páskana. Frost eitthvert hið mesta sem orðið hefir í vetur, um 10 stig í gær um hádegisbilið.
Næstu daga birti blaðið frekari fréttir:
[11.] Síðastliðinn laugardag varð kona nokkur frá Valbjarnarvöllum í Borgarhreppi, Sesselja Jónsdóttir, kona bóndans þar, Jóns Guðmundssonar, úti skammt frá bænum. Hafði hún gengið að næsta bæ um daginn í besta veðri, en var á heimleið þá er hríðin skall skyndilega á. Kom hún ekki heim og voru menn sendir að leita hennar, en hún fannst ekki fyrr en næsta dag, og var þá örend, rétt við túngarðinn. Afskaplegt veður hefir verið norðanlands þessa daga, og má því búast við því, að einhver fleiri slys hafi orðið, þó eigi séu fregnir komnar um það enn.
Hrakningar. Mótorbáturinn Jökull, sem veiði stundar frá Sandgerði, fór héðan á laugardaginn áleiðis þangað. Hér í Flóanum hreppti hann afskaplegan storm og stórsjó, og varð hann að liggja úti um nóttina. Á páskadaginn komst hann loks heilu og höldnu inn til Hafnarfjarðar.
[12.] Laugardagskvöldið fyrir páska breytti svo snögglega um veður að slíks eru fá dæmi. Var áður en varði komið ofsarok, með nokkurri fannkomu og grimmdarfrost svo ekki hefir orðið meira hér i bænum í vetur. Símslit hafa orðið víða um landið svo fréttir um skaða af völdum veðursins eru óljósar enn þá og alls engar sumstaðar af landinu. Talsamband hefir ekkert verið á norðurlínunni lengra en til Borðeyrar síðustu dagana og ritsímasamband ekki náðst við Seyðisfjörð nema annað slagið. Á Vestfjörðum eru einnig bilanir og milli Holts undir Eyjafjöllum og Víkur var síminn slitinn í gær. Viða á Suðurlandi hafa orðið miklar skemmdir, einkum þó undir Eyjafjöllum. Þar fuku fjögur útróðrarskip og ónýttust algerlega. Tvær hlöður fuku á sama bænum, Rauðafelli og heyskaðar urðu nokkuð víða. Heyrst hefir og að hlöður hafi fokið á Háeyri á Eyrarbakka og Votmúla í Flóa. Um mannskaða hefir ekki frést áreiðanlega nema um konuna í Borgarfirði sem getið var um í blaðinu í gær. En ekki munu öll kurl komin til grafar ennþá. Má búast við því, að skaðarnir hafi orðið miklu meiri en frést hefir, því veðrið er talið eitt hið skæðasta, sem komið hefir í síðustu 10 ár.
Seyðisfirði í gærkvöld. Fárviðri um allt Austurland um páskana. Bæjarsíminn gjöreyðilagður á rastarsvæði og enginn staur óbrotinn. Sagt er að ekkert efni sé til endurbóta. Bátar og bryggjur brotnuðu víða. Bifskútu Imslands rak á land og brotnaði hún. önnur skúta sögð horfin á Eskifjarðarhöfn og vélabátar sokknir þar. Fimm vélabátar brotnuðu eða sukku á Fáskrúðsfirði. Einn maður drukknaði þar og urðu allar björgunartilraunir árangurslausar, tveir fuku útbyrðis og björguðust nauðuglega. Liggja báðir veikir. Fjárskaðar urðu hér og hlaða fauk á Reyðarfirði. Ófrétt um tjón annarsstaðar.
[13.] Borðeyri í gær. Óveðrið skall hér á skyndilega á laugardagskvöldið. Afskaplegur stormur og blindhríð. Manntjón hefir ekkert orðið hér nyrðra, svo menn viti, en fjárskaðar hafa orðið víða. Á Sveðjustöðum hurfu 130 kindur. Hafa 90 þeirra fundist, en talið víst að hinar 40 séu dauðar. Frá Fornahvammi fórust um 35 kindur, en 80 náðust lifandi eftir hríðina. Frá Efri-Svertingsstöðum vantar 30 kindur.
Ísafirði í gær. Versta veður var hér á Vestfjörðum um páskana og er hætt við að það hafi valdið stórtjóni víða, þótt eigi hafi komið fregnir nema úr nokkrum stöðum. Að Borg, sem er innsti bær í Arnarfirði, urðu 40 kindur úti. Bóndinn þar, Jón Einarsson, fór að vitja þeirra þegar ofviðrið skall á, en varð úti. Á Mæðranesi í Dýrafirði hrakti 30 fjár í sjóinn.
Skip strandar. Í fyrrinótt [aðfaranótt 12.] strandaði vélskipið Valborg, eign Magnúsar Magnússonar o.fl., við Garðskaga. Menn allir björguðust, en skipið mun vera mikið skemmt, að sögn. Veður var mjög slæmt, en hinu er þó kennt um strandið, að skipið hafi eigi séð vitann. Hann á þó að loga til 1. maí samkvæmt fyrirmælum stjórnarráðsins.
[14.] Stykkishólmi í gær. Hér var gott veður á laugardaginn, en svo brast hann á með grenjandi byl um miðaftanskeið. Í Ólafsvík kom bylurinn nokkru fyrr og með furðu skjótri svipan. Sem betur fer munu þó engin óhöpp hafa viljað til hér nærlendis, nema hvað einn vélbátur brotnaði i Grundarfirði. ... Margir bátar úr Breiðafjarðareyjum voru hér á ferð og ætluðu heim á laugardaginn. Sumir urðu svo síðbúnir að stormurinn skall á þá skammt undan landi, og sneru þeir við það aftur. Aðrir komust heim rétt þegar ofviðrið hófst, og allir munu þeir hafa náð landi. Einn vélbátur varð þó að liggja úti í tvo sólarhringa, en hafði skjól af eyju. Hlóðst þó á hann svo mikill klaki að höggva varð utan af honum jafnharðan.
[15.] Seyðisfirði í gær. Mótorbátur, sem lá á Djúpavogi þegar ofviðrið um daginn skall á, brotnaði í spón. Menn á suðurfjörðunum segja að það hafi verið versta veður í manna minnum. Frost afskaplega mikið. Einn daginn var 20 stig celsius á Djúpavogi. Mótorbáturinn Skúli frá Berufirði fórst nýlega ásamt öllum skipverjum, sem voru 3 talsins. Brotnu símastaurarnir hér á Seyðisfirði hafa nú verið settir upp aftur. Eru þeir stuttir, en verða víst að duga til sumars eða lengur, þangað til nýir staurar fást fluttir.
[18.] Vík í Mýrdal 17. apríl: Hingað hafa borist óljósar fregnir af sköðum i ofviðrinu um páskana. Á Síðunni hrakti fé á þremur bæjum. Missti Loftur póstur Ólafsson yfir 20 sauði. Smávegis heyskemmdir urðu einnig. Í Fljótshverfi urðu víða fjárskaðar. Þar missti t.d. einn bóndinn allt fé sitt að kalla mátti, og á fjöldamörgum bæjum öðrum urðu tilfinnanlegir skaðar. Í Hornafirði sukku tveir vélbátar á legunni. Hefir heyrst að annar þeirra hafi farist með allri áhöfn. Þá hefir það einnig heyrst, að maður hafi fokið og rotast. Segja sumar fregnir að það hafi verið i Öræfunum en aðrar á Mýrum.
Önnur blöð birtu samstofna fréttir - Vestri getur þess til viðbótar þann 17. að í Hraundal í Nauteyrarhreppi hafi farist á milli 10 og 20 fjár og lítilfjörlegir fjárskaðar hafi orðið þar víðar.
Þann 5. júní birtust enn fréttir af páskahretinu í Morgunblaðinu:
Úr bréfi frá Öræfum. Á páskadaginn var hér afspyrnurok með hörkufrosti. Til merkis um það hvað veðrið var mikið, má geta þess, að á annan í páskum fann bóndinn á Tvískerjum á Breiðamerkursandi liðlega 40 svartbaka dauða. Hefir veðrið annaðhvort slegið þeim niður og rotað þá, eða þeir hafa króknað. - Svartbakavarp er mikið árlega austur undir Jökulsá, og hafast þeir þar við allt árið. En þar er bersvæði og ekkert skjól. Eru þess þó víst fá dæmi að þeir drepist á þennan hátt. Í sama veðri fórst maður í Hornafjarðarfljóti og fjárskaðar urðu víða. T. d. hrakti 30 sauði frá húsi hjá bóndanum í Flatey og drápust þeir allir. - Þá fauk og heyhlaða hjá Þórhalli kaupmanni Daníelssyni í Hornafirði og varð hann þar fyrir miklu tjóni.
Og 16. júní birti Tíminn enn fréttir af hretinu:
Hornafirði 24.maí. Hér gengu megnustu harðindi allan einmánuð og þar til 3 vikur af sumri. Yfir tók þó páskaveðrið. Á páskadaginn ofsa-norðanbylur með hörkufrosti og kafaldi miklu. Urðu mjög miklir skaðar í því veðri. Jarðir í Lóni og Mýrum skemmdust ákaflega mikið af sand- og grjótfoki, og fénaður fórst á Mýrum á þessum bæjum: Í Flatey nál. 40 sauðir, í Hólmi 13 sauðir, í Heinabergi nálega 30 fjár, í Hafnarnesi hér í Nesjum um 30 sauðir. Mótorbátar af Austfjörðum lágu þá á Hornafirði, og hvolfdi 2 af þeim, en náðust strax upp aftur, lítt skemmdir, eftir veðrið. Menn voru engir á þeim. Maður varð úti á Hornafjarðarfljótum á páskadaginn, Eiríkur Jónsson frá Haukafelli á Mýrum, ungur þrekmaður, var á leið heim til sín.
Sumarkoman varð heldur kaldranaleg. Sumardaginn fyrsta bar upp á þann 19. og segir Morgunblaðið þann dag:
Ósumarlegt er veðrið í meira lagi, alhvít jörð í gær og snjókoma mikil. Er erfitt að fagna sumri þegar svona stendur á og ekki unnt fyrir aðra en þá, sem ríkt ímyndunarafl hafa. Ímyndunaraflið hafa að minnsta kosti íþróttamennirnir, sem í dag ætla að fagna sumrinu með kapphlaupi. Er vonandi að þeir hlaupi sér til hita, þó ekki takist þeim að hlaupa hita í okkur hina, sem stöndum í loðkápum með skinnhúfuna niður fyrir eyru,- og horfum á. Þetta eru undarlegir tímar. Allt er öfugt við það sem ætti að vera.
Daginn eftir segir blaðið:
Sumardagurinn fyrsti rann upp hráslagalegur og úfinn á svip. Bleytusnjór hafði fallið daginn áður og krapelgur var því á öllum götum bæjarins. Loftið var drungalegt og grúfðu úrkomuský rétt yfir höfðum manna, en allstinn suðvestangola var og hélt hún úrfellinu uppi að mestu leyti. Þannig heilsaði þá sumarið ærið úlfúðlega og væri betur að það yrði eigi allt svo. En sumardagurinn fyrsti er þó, og verður alltaf uppáhaldsdagur okkar íslendinga.
Og 30. apríl er enn kuldatíð í bænum - Morgunblaðið segir frá:
Alhvít jörð var hér í gær. Fremur sjaldgæft er það hér í bænum um þetta leyti ársins. Spá margir því að nú komi góða veðrið á eftir.
Maí: Óhagstæð tíð og þurrviðrasöm, einkum framan af. Fremur kalt.
Ekki urðu stórtíðindi í veðri í maí svo við vitum - og í blöðunum komu fréttir af kulda, en líka því að gróður væri að lifna.
Þann 9. maí segir Morgunblaðið stuttlega: Frost eru hér á hverri nóttu og loftkuldi mikill um daga þótt sólar njóti. Þann 15. er eitthvað skárra: Tún eru byrjuð að grænka hér í Reykjavík og barr að þrútna á trjám.
Tíminn segir þann 19.:
Smá hlýnar og er jörð orðin klakalaus næst sjó um allt Suðurland en tún tekin að grænka. Úrkomulítið og sólskinslausir dagar, nema í gær og í dag, enda þetta hlýjustu dagarnir enn sem komið er.
En mánuðinum lauk heldur kuldalega. Morgunblaðið segir m.a.: Kuldi mikill gengur nú um allt land. ... Bylur víða norðanlands og sömuleiðis í Vík í Mýrdal. Er það óvænlegt býsna, ef slíku heldur lengi áfram.
Júní: Fremur óhagstæð tíð, einkum norðaustanlands. Kalt.
Morgunblaðið birtir þann 7. júní frétt undir fyrirsögninni: Kuldatíðin. Álit veðurfræðinga. Við skulum lesa þessa frétt (alltaf gaman að heyra af veðurfræðingum):
Þýskur veðurfræðingur, Julius Wilms, hyggur, að hin mikla kuldatíð, sem verið hefir í vetur og vor, sé að kenna hinum mörgu og miklu sólblettum, sem menn hafa orðið varir við á þessu ári. Hann segir að þessir sólblettir hafi fyrst farið að verða miklir upp úr nýári og þá jafnframt fór að kólna afskaplega í veðri. Og þessa ástæðu sina rökstyður hann með veðurfræðisathugunum, sem gerðar hafa verið áður og sýna það, að veðrátta á jörðinni kólnar jafnan þegar mikið ber á sólblettum. Þannig var það í maí og júnímánuði i fyrra, í febrúar og mars 1915 og sérstaklega þó í febrúar 1907. Fleiri veðurfræðingar hafa fallist á það, að sólblettirnir muni hafa áhrif á veðráttuna á jörðunni, sérstaklega þó í þá átt, að draga úr vetrarhörkum en auka vætutíð á sumrum. Menn hafa þó jafnframt tekið eftir því, sem merkilegt má þykja, að sólin sjálf er heitari en venjulega þegar margir blettir eru á henni, en gefur þó minni hita frá sér.
Það hafa komið fram margar ágiskanir um það, hvað sólblettirnir séu og hvernig þeir myndist. Þykir það þó fullsannað að þeir eigi ekkert skylt við það, að sólin sé að kólna. Hitt þykir sönnu nær að blettirnir komi fram til þess að koma í veg fyrir of mikið hitatap á sólinni og safni hún þá nýjum hita. Julius Wolms [Wilms] nefnir sólblettina hitagjafa jarðarinnar og þykir þar hafa mikið til síns máls.
En danskir veðurfræðingar vilja ekki viðurkenna það hjá honum að hin miklu frost í vetur hafi verið sólblettunum að kenna. Þeir segja að sólblettirnir hefðu átt að hafa þau áhrif, að veturinn hefði orðið mildur, en sumarið kalt og vætusamt. Kuldann í vetur kenna þeir loftþrýstingum á jörðunni og vindátt. Sólblettir þeir, sem nú eru, komu fyrst í ljós fyrir 5 árum og stjörnuspekingar hafa reiknað, að þeir muni eigi horfnir fyrr en 1922. Við eigum því enn eftir að búa undir áhrifum þeirra i fimm ár, hver sem þau eru.
Hér er rétt að benda á að veturinn 1916 til 1917 var ekki sérlega kaldur á Íslandi. Það kólnaði ekki að ráði fyrr en í marslok.
En vorið - og sumarið mjakaðist áfram þó hægt gengi - en óþolinmæði gætti - rétt eins og algengt er nú á tímum. Þann 16. sagði Tíminn að tíðin hefði verið eintaklega góð síðastliðna viku. Regnlítið fyrri partinn, en hiti alla dagana.
Við lítum á nokkra stutta pistla úr Morgunblaðinu. Fyrst 19. júní: Þjóðhátíðin 17. júní. Það var gróðrarveður i fyrradag, sólskin og logn, og gekk á með smáskúrum allan daginn eitthvert besta vorveður, sem hugsast getur. Norðanvindur og kuldi var í gær. Ósumarlegt í meira lagi. Daginn eftir, þann 20. segir blaðið: Kuldi mikill var alsstaðar á landinu í gær. Á Grímsstöðum stóð hitamælirinn á núlli. Snjóað hafði i fjöll á Norðurlandi - og yfirleitt mjög ósumarlegt. Og þann 21. segir blaðið: Sólstöður, lengstur dagur er í dag. Og þó er sumarið varla komið enn. Það er næstum eina og gróðurinn þurfi að beita valdi til þess að komast fram.
Vestri á Ísafirði segir þann 29.:
Tíðin er einatt köld, þótt sólskin hafi verið síðustu dagana. Gróður á útengi er afar lítill víðast hvar hér nærendis, og túnin afleitlega sprottin.
Og daginn eftir segir Tíminn:
Tíðin er köld, þótt nokkur dagamunur sé að, nóttina eftir Jónsmessu höfðu verið hrímaðir gluggar á Kolviðarhól en pollar lagðir austur í Flóa. Suma daga vikunnar hefir verið logn og sólskin, og þá notið hlýinda.
Júlí: Hagstæð tíð. Þó var nokkuð óþurrkasamt á Suður- og Vesturlandi síðasta þriðjunginn. Hlýtt.
Morgunblaðið sagði þann 4. að nú væri sumarið loksins komið og túnasláttur færi að byrja fyrir alvöru í Reykjavík.
Tíminn segir þann 14.: Tíðin hefir verið samnefnd sumarblíða alla vikuna. Gras vantar þó vætu til þess að því fari vel fram.
Þann 15. kom pistill úr Borgarfirði í Morgunblaðinu:
Vorið hefir verið í kaldara lagi, þó stórhretalaust. Grasleysi er því allmikið, þó eigi minna gras á túnum og úthögum en 1907. Tún eru eigi með allra lakasta móti nú orðið (12 vikur af), en nú fara flestir að slá eftir næstu helgi eða í þrettándu vikunni, þótt gras sé enn eigi fullsprottið, það sem það annars getur sprottið. Illa gengur laxveiðin. Heita má þar efra veiðilaust og mun sjaldan hafa komið annað eins laxleysisár í Hvítá.
Jákvæðar tíðarfréttir bárust líka að vestan. Morgunblaðið birti þann 27. bréf vestan úr Álftafirði við Djúp dagsett þann 18.júlí:
Tíðarfar ágætt undanfarnar vikur. Megn hiti marga daga. Grasvöxtur rýr. Sláttur þó byrjaður. Afli ágætur við Djúpið. Síldarvart hefir orðið, en tíminn varla kominn. Bagalegur olíuskortur fyrirsjáanlegur, svo að ekki sé djarflegar að orði komist. Nokkrir menn af Ísafirði hafa farið að brjóta surtarbrand og haft af því ágæta atvinnu, enda kostaði skippundið 15 kr. Menn hafa staðið hér í mógröfum undanfarna daga, og orðið drjúgum að höggva klakann. Svo leynist veturinn lengi í jörðinni þó að heitt sé ið efra.
Vestri segir líka af góðri tíð þann 21.:
Tíðin hefir verið afbragðs góð undanfarið. Sólskin fyrri hluta vikunnar, en síðan skýjað. Alltaf hlýtt i veðri hér inn til fjarðanna. Hafís segja sjómenn vera á reki hér undan Vestfjörðunum.
Þjóðólfur birti 3. ágúst bréf frá Laugarvatni:
Skýfall varð í svonefndu Snorrastaðafjalli í Laugardal síðastliðinn laugardag 28. f.m. kl. 1-2. Féll þá skýflóki niður á hér um bil 20 dagslátta svæði. Vatnsmegnið það mikið, að öll nærliggjandi gil fylltust út af öllum börmum, og eyðilagði flóðið og flutti burt alt sem fyrir varð. Fór ein skógartorfa af með öllu, að stærð 6-10 dagsláttur auk annars. Kunnugir fullyrða, að upp hafi rifist,yfir 100 hestburðir af skógi, sem flutu niður um engjar og út í Laugarvatnsvatn. Vatnsmegnið var svo mikið, að þeir sem ekki sáu, geta tæplega trúað. Heilir torfbunkar og fleira sem fyrir varð rennsli vatnsins fluttist í burtu út um allt. Gaddavírsgirðing sem var þvert fyrir, slitnaði á alt að 100 föðmum. Þetta dæmi sýnir það, að «ekki er víst að allar syndir séu mönnum að kenna, að því leyti, að þeir hafi eyðilagt hinar fögru skógarbrekkur með viðarhöggi sínu, heldur geti náttúruöflin hafa lagt sinn skerf þar til. 1. ágúst 1917. Böðvar Magnússon.
Ágúst: Fremur votviðrasamt í byrjun á Suður- og Vesturlandi, en síðan norðaustanlands og var þá þurrt lengst af sunnanlands og vestan. Hiti í meðallagi.
Í lok júlí og framan af ágúst rigndi nokkuð sunnanlands og höfðu sumir áhyggjur. Morgunblaðið segir fréttir þann 5.:
Steinum undir Eyjafjöllum í gær. Rokið hefir staðið í hálfan mánuð. Engar hirðingar nema súrhey. Mest af töðunum liggur fyrir eyðilegging á túnum. Nú síðustu dagana rignt
allmikið og rignir enn. Á einum bæ, Berjanesi, eru allar engjar undir vatni og er vatn þetta mestmegnis úr Svardælisá, er flóir þar yfir allar engjar og haga. Fólk, sem þar er við heyvinnu, liggur í tjöldum, en varð nú að flýja til bæja. Var vatnið þá svo mikið, að varla varð varist sundi á hestum, er til bæja var haldið. Allt laust hey, um 100 hestar, flotið og að fljóta burt. A engjum þessum töpuðust í fyrra 200-300 hestar af heyi vegna vatns og veðra.
Veðráttan og stríðið. Það er síst fyrir að synja að hinar ægilegu stórskotahríðar kunni að hafa áhrif á tíðarfarið - jafnvel hér á Íslandi. Margir menn hér i Reykjavík þykjast og hafa tekið eftir því, að það bregðist aldrei þegar stórorrustur geisa í Flandern eða vestanverðu Frakklandi að þá komi hér landsynningsrok með úrfellishryðjum, eins og var hór í fyrradag.
Þann 4. ágúst sáust fréttir að austan. Austri segir frá:
Tíðin hefir verið einmuna góð undanfarið, sífeldir hitar og bjartviðri. Grasspretta mun vera mjög misjöfn hér eystra í sumar, sumstaðar í rýrara meðallagi, segja bændur. Mun það vegna þess hve sumartíðin kom seint, og eins vegna þurrkanna, sem verið hafa undanfarið. Eins er sumstaðar hér ekki gott útlit með róugarða, vegna þurrksins. Aftur á móti er útlit fyrir að kartöfluuppskeran verði allgóð í haust.
Þann 8. kvartar Morgunblaðið enn og segir: Rigning var hér í gær. Hafa nú þurrkleysurnar staðið í nær þrjár vikur samfleytt. Töður bænda liggja undir skemmdum og lítið betur farnar heldur en í fyrra.
Og þann 9. birti Morgunblaðið enn fréttir af vatnavöxtum undir Eyjafjöllum:
Á sunnudagsnóttina [5.8.] hljóp Holtsá undir Eyjafjöllum, og braut varnargarð þann, er meðfram henni er, á hér um bil 30 faðma kafla. Flæddi hún fyrir austan Holt og báðum megin við landssjóðsjörðina Vallatún og yfir engjar þeirrar jarðar og niður í ós. Sópaði hún með sér lausu heyi af túni og engjum og ónýtti það sem óslegið var af engjunum.
Austri getur þess þann 11. að í Árnessýslu hafi hey líka flotið af engjum og út í Ölfusá.
Síðan skipti rækilega um tíð - stytti upp syðra og tók að kólna. Þann 12. og 13. skein sól linnulítið á Vífilsstöðum, samtals 28,6 klukkustundir dagana tvo. Mannfjöldi var þá í blíðunni á Þingvöllum að sögn Morgunblaðsins.
Um 20. tók að snjóa í fjöll nyrðra og birtust fréttir um það í blöðum, fyrst þann 21. Þann 24. kom frétt frá Akureyri í Morgunblaðinu:
Fréttaritari vor á Akureyri símaði oss í gær á þessa leið: Í nótt snjóaði í öll fjöll. Dálítið frost var og. Engin síld hefir veiðst enn þá. Hefir ekki verið hægt að stunda veiðar vegna norðanstorms. Nú er gott veður og öll skipin farin á veiðar.
Í sama blaði sagði einnig: Frost var hér [Reykjavík] í fyrrinótt en þó eigi svo mikið að það skemmdi kál í görðum. Vísir sagði daginn áður að jörð í Reykjavík hafi þá um morguninn verið héluð fram yfir fótaferðartíma.
Og daginn eftir var frétt um góðan heyskap á Hvanneyri:
Á einni viku, 12.-19. þ.m. hirti Halldór skólastjóri Vilhjálmsson á Hvanneyri 2800 hesta af töðu og útheyi. Voru 20 manns við heyvinnu alla vikuna, en vel hefir verið haldið áfram. Mun þetta vera langmesti heyskapur, sem sögur fara af hér á landi.
Tíminn segir einnig frá næturfrostum þann 25.:
Tíðin. Þurrkur hefir haldist alla þessa viku sunnanlands, en köld hefir norðanáttin verið og frost sumar nætur svo að visnað hefir kartöflugras í görðum.
Svo kom upp sinueldur í Svínahrauni. Morgunblaðið segir frá þann 27. ágúst:
Fólk, sem komið hefir ofan úr Mosfellssveit, segir frá því, að undanfarna daga hafi verið eldur uppi í Svínahrauni. Allur mosinn, sem var skraufþurr eftir langvarandi þurrk, var brunninn á 3-400 fermetra svæði og hafði mjög gripið um sig í fyrrakvöld. Líklegt þykir, að eldurinn hafi kviknað af mannavöldum.
Og þann 29. kom frétt í sama blaði um bláberjasprettu:
Bláber. Þau eru óvenju lítil í ár. Fólk, sem farið hefir í berjaheiði segir, að varla sjáist bláber í heiðunum og er kuldunum í vor kennt um.
September: Rysjótt og fremur köld tíð einkum fyrir norðan.
Kaldir dagar voru í byrjun mánaðar. Morgunblaðið segir þann 4. að haustlegt sé að verða. Frost hafa verið hér um nætur að undanförnu og hríðarél kom í fyrradag. Í kartöflugörðum eru grös sölnuð niður að rót víðast hvar.
Þann 9. var rok á Borgarfirði eystra. Morgunblaðið segir frá því þann 20. að þar hafi fokið 800-900 hestar af heyi.
Þrátt fyrir allt bar Tíminn sig þó vel í lok mánaðar, þann 29.:
Tíðin er góð, dálítið umhleypingssöm að vísu, heyskapur víðast hvar úti, og alstaðar verið að taka upp úr görðum, afli og gæftir sæmilegar hér sunnanlands, en heimtur hálfslæmar, hittist hálfilla á með veður í fyrstu fjallferðinni.
Október: Harðindatíð, einkum fyrir norðan. Mjög kalt og illviðrasamt. Talsverður snjór síðari hlutann.
Austri segir frá illri tíð í pistli þann 13. október. Fyrirferðarmestar eru fréttir af miklu illviðri dagana 3. til 5. október:
Tíðarfar hefir verið rosafengið um langt skeið. Varla verið gott veður einn einasta dag síðan í byrjun ágústmánaðar. Hefir þetta hamlað mjög öllu bjargræði bæði á sjó og landi. Síldveiði fyrir Norður- og Vesturlandi brugðist algerlega, svo að þeir, sem þá atvinnu stunda, eru meira en slyppir eftir. Svipað er um þorskaflann, þó sumstaðar hafi hann gengið allvel. Bændur hafa ekki náð inn heyjum, svo margir - bæði hér eystra og norðanlands - eiga nú undir snjó, jafnvel svo hundruðum hesta skiptir af útheyi og sumir óhirta töðu á túnum, og sumt er fokið.
Dagana 3.- 5. þ.m. geisaði ofviðri um allt land, varð af því tjón á skipum og öðrum eignum, og hélt við manntjóni víða. Fjórir mótorbátar ráku á land í Ólafsfirði og brotnuðu, tvo bar á land í Dalvík við Eyjafjörð. Tvö mótorskip fóru í land á Siglufirði. Strandferðabáturinn Stella slitnaði upp við Grímsey en komst til Eyjafjarðar. Mótorskipið Grótta, eign Ásgeirs Péturssonar á Akureyri ætlaði að taka kol á Tjörnesi en hrakti þaðan, komst við illan leik á Skagafjörð, rakst þar á sker, brotnaði allmikið, en náðist þó út aftur og var flutt til Akureyrar fullt af sjó. Á Bakkafirði tók út báta og hús. Mótorbátur á Mjóafirði brotnaði talsvert. Fé fennti víða í Þingeyjarsýslum, og meira og minna af heyjum fuku og eyðilögðust um alt Norður- og Austurland. Fleiri þúsund sláturfjár, sem átti að reka hingað til Seyðisfjarðar, tepptist fyrir ofan fjall og er verið að reka það hingað þessa daga.
Þrjú skip, sem ganga héðan frá Seyðisfirði, voru i hafi þegar veðrið skall á. Strandferðabáturinn Reginn var á leið norður að Skálum. Slapp hann inn á Vopnafjörð óskaddaður, og var þá brim svo mikið, að nærri braut þvert yfir fjörðinn. Þótti Vopnfirðingum sem varla hefðu skip farið um fjörðinn jafnillan. Mótorskipið Óðinn, eign Stefáns Jónssonar o.fl., lá við Tjörnes, og ætlaði að taka kol þar. Komst það við illan leik á Eyjafjörð. Höfðu seglin rifnað, vélin bilað og skipið laskast eitthvað ofan þilfars.
Hurricane, kuggur þeirra Wathnesbræðra og bræðranna Sveins og Jóns Árnasonar, sem er skipstjóri á skipinu, lét frá Siglufirði 17. september. Fékk óhagstæða veðráttu, fór til Hríseyjar og beið þar byrjar. Lagði út þaðan 25. f.m. Mætti Óðinn honum hjá Rauðagnúp 29., en síðan spurðist ekki til hans fyrr en að kvöldi 8. þ.m. Dró þá mótorbátur hann inn til Fáskrúðsfjarðar. Hafði hann hreppt ofviðrið nálægt 20 sjómílum austur af Glettinganesi. Brotnaði stórsiglan og kippti með sér öllum seglum af skipinu, sleit reiðann af skutsiglunni, braut skipsbátinn og allmikið annað ofan þilfars. Lét skipstjórinn höggva á alla strengi er héldu mastrinu og seglunum, til þess að bjarga skipinu.
Meðan skipið var seglalaust, braut mjög sjó yfir það, fylltist lyftingin, og allt sem losnað gat ofan þilfars tók út. Tóku þeir beitiásinn af skutsiglunni og settu upp sem mastur, styrktu skutsigluna með reipum og drógu upp segl, er skipið hafði með til vara. Höfðu þeir þau á rekinu, og sigldu skipinu til lands með þessum útbúnaði; tók hvorttveggja 6 daga. Náðu landi við Skrúð, hittu þar mótorbát, er dró skipið til Fáskrúðsfjarðar. Ljóskerin fóru með stórsiglunni; og lét skipstjóri gefa ljósbendingar á nóttum með því að brenna síldartunnum. Skipverjar voru orðnir matarlitlir, því ekki höfðu þeir getað aukið matarforða sinn í Hrísey, og sumt hafði skemmst af sjó.
Morgunblaðið getur þess þann 17. að talið sé að vélbátur úr Reykjavík hafi einnig farist í veðrinu eftir mánaðamótin. Hann fór frá Kálfshamarsvík þann 1. og ekkert til hans spurst síðan.
Vestri getur svo um enn eitt skipshvarfið í fregnum 8. nóvember - ekki ólíklegt að skipið hafi farist í þessu veðri:
Færeyskt vélskip, Beautiful Star (nú eign Þorsteins Jónssonar frá Seyðisfirði o.fl), hefir farist fyrir Norðurlandi í undangengnum veðrum. Á skipinu voru 4 skipverjar og einn farþegi af Austurlandi.
Einnig var kalt syðra. Morgunblaðið segir þann 8.:
Frostin, sem hafa verið hér að undanförnu hafa gert mikið tjón á sáðgörðum manna. Fæstir höfðu tekið upp rófur áður en þau komu og margir eiga eftir að taka upp kartöflur. Ef eigi þiðnar bráðlega má búast við því að sá garðaávöxtur, sem enn er úti, ónýtist að miklum mun eða alveg.
Vísir segir frá því þann 8. að hríðarbylur hafi verið á Hellisheiði og hún tæplega fær og þann 12. segir blaðið frá því að hált fari að verða á götum Reykjavíkur úr þessu því ekki sé útlit fyrir að þiðni í bráð. Ökumenn eru hvattir til að skaflajárna hesta sína.
Og ekki batnaði það. Þann 13. er pistill frá Akureyri í Morgunblaðinu:
Akureyri i gær. Afskaplegt veður var hér i gær blindhríð og stormur. Alófært sumstaðar hér nyrðra með sláturfé fyrir ófærð á heiðum og fjöllum. Margir bændur, einkum i Þingeyjarsýslu, eiga mikið hey úti enn. Á einum bæ eru áreiðanlega 250 hestar úti og líklega næst það aldrei inn, enda farið mikið að skemmast.
Morgunblaðið segir frá því þann 15. að ísinn á Tjörninni sé mannheldur. Það muni vera sjaldgæft svo snemma á vetri.
Þann 24. og næstu daga gerði hríðarkast um mikinn hluta landsins. Tíminn segir þann 27.:
Tíðin er hin kaldhranalegasta og leggst vetur óvenju snemma að. Á miðvikudagskvöld [24.] gerði norðan stórhríð og mun hún hafa geisað um alt land. Símasambandi varð eigi náð héðan lengra en til Borðeyrar á fimmtudag.
Þann 31. varð maður úti á Króardalsskarði milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar. (Morgunblaðið 6. nóvember).
Nóvember: Nokkuð umhleypingasamt og kalt.
Vestri segir frá þann 8. nóvember:
Rjúpnaveiði er nú svo mikil syðra, að óminnilegt er. Um 60 manns ganga daglega á rjúpnaveiðar úr Reykjavík, og er krökkt af rjúpum niður um Öskjuhlíð og víða í grennd við bæinn. Úti í Vestmannaeyjum hafa einnig verið veiddar rjúpur og víðar, þar sem þær hafa varla sést áður.
Nokkuð var um illviðri síðari hluta mánaðar. Morgunblaðið segir frá þann 20.:
Í fyrrinótt gerði ofsarok með regni og var svo hvasst að óstætt mátti kalla. Hélst veður þetta allt til morguns og fram á dag, en lygndi þó heldur er á daginn leið. Tvö skip slitnuðu upp hér á höfninni, botnvörpungurinn Jarlinn og þilskipið Ása eign Duus-verslunar. Rak þau upp að Örfiriseyjargarðinum og skemmdust þau þar eitthvað. Seglskip strandaði og í Hafnarfirði. Það heitir Sildholm. Lagði það á stað frá Hafnarfirði fyrra sunnudag og átti að fara til Spánar. En er það kom hér út í flóann kom að því leki allmikill og sneri það þá aftur inn til Hafnarfjarðar. Þegar veðrið var sem mest í gærmorgun tók skipið að reka og var komið upp undir kletta. Gáfu þá skipverjar neyðarmerki og var brugðið við í landi og þeim bjargað. Síðan rakskipið í land og brotnaði þegar mjög mikið. Var fiskinn úr því farið að reka í land í gærkvöldi. Geir var í þann veginn að fara suður eftir til að reyna að bjarga skipinu, en hætti við það er það fréttist hve illa það var komið.
Vélbátur sökk hér á höfninni í rokinu i fyrrinótt og annan rak upp að Örfiriseyjargarðinum og brotnaði hann talsvert. Í rokinu í fyrrinótt fauk þak af hlöðu hér í bænum.
Og þann 24. gerði ofsa í Vestmannaeyjum. Morgunblaðið segir frá þann 25.:
Fregnritari vor i Vestmannaeyjum símaði oss í gær á þá leið, að þar hefði geisað afskaplegur stormur af útsuðri i fyrrinótt. Símaþræðir slitnuðu um allt kauptúnið, rúður brotnuðu og bátar fuku. Skemmdir á bátum urðu þó engar.
Aðfaranótt 26. urðu mikil símslit vegna ísingar í Reykjavík og nágrenni. Bæjarsíminn slitnaði svo í Þingholtunum að sumar götur máttu heita ófærar fyrir símaflækju er niður hafði fallið. (Morgunblaðið 28. nóvember). Þræðir loftskeytastöðvarinnar á Melunum slitnuðu einnig (Morgunblaðið þann 30.). Þann 29. birti blaðið nánari fréttir:
Símslitin sem urðu aðfaranótt mánudags (þ.26.) eru hin langmestu sem nokkru sinni hafa orðið hér. Í nánd við Reykjavík brotnuðu að minnsta kosti 77 símastaurar, 28 milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, 38 milli Hafnarfjarðar og Auðna, 10 í Mosfellssveitinni og 11 Kjósinni. Í gær var blindhríð á öllu Norðurlandi og má því búast við enn meiri símslitum nyrðra. Það tekur marga daga að koma öllu í lag.
Desember: Óhagstæð tíð nema um jólaleytið. Mjög kalt.
Fjallað var um tíðina í desember 1917 á hungurdiskum í pistli 16.12. 2017. Þar má sjá ýmislegt til viðbótar því sem hér er sagt.
Óskhyggja nokkur ræður ríkjum í Austra þann 1. desember - í upphafi frostavetrarins mikla 1917-18:
Harðindi mikil eru nú um land allt. Undanfarna daga hefir verið 8-10 stiga frost hér á Seyðisfirði, og rok og bylur í tilbót. Er hætt við að mörgum endist lla kolaskammturinn ef svo gengur lengi, og margir kvarti um kulda. Vonandi verður síðari hluti vetrarins betri en það sem liðið er.
Það var ekki bara á aðventunni 1926 (samanber Aðventu Gunnars Gunnarssonar) að Mývetningar lentu í hrakningum í síðbúnum fjárleitum á fjöllum. Austri segir frá þann 15.:
Tveir menn úr Mývatnssveit fóru fyrir skömmu á öræfi að fjárleitum. Hrepptu veður ill og komust eftir 9 dægra útivist að Möðrudal, mjög harðlega leiknir.
En Fram á Siglufirði birti bréf úr Sléttuhlíð í Skagafirði þann 1. desember. Er þar litið yfir tíðarfar sumars.
Það er ekki oft sem við Slétthlíðingar sendum bréfstúfa til birtingar í blöðunum, en nú vildi ég biðja Fram fyrir nokkrar línur; vona að blaðið fái ekki gorkúlublindu þá, sem það segir að sumir séu haldnir af, þó ég líti á málin frá annarri hlið en það ef til vill gjörir, því ég vona að það vilji ræða þau frá öllum hliðum, en sé ekki málsgagn sérstakra stétta. Þá er að byrja á því að sumarið er liðið og veturinn genginn í garð. Sumarið sem heilsaði svo kalt og kvaddi í sama máta. Þó verður ekki sagt um það að það hafi verið vont, því tíðarfar þess var mjög hagstætt fyrir heyskap, eftir það að hlýindi komu sem ekki var þó fyrr en um 12 vikur af sumri, svo heyskapur manna í þessari sveit varð með besta móti, enda veitir ekki af því, þar nú er ekki um kornmat að ræða til skepnufóðurs ef heyin þrjóta.
Hafísfréttir bárust strax í byrjun mánaðar og segir Vestri þann 2. að hrafl hafi þá sést úr Bolungarvík og Súgandafirði, sömuleiðis hafi orðið vart við ís á Húnaflóa.
Vestri birti þann 31. pistil úr Súgandafirði og ræðir síðan um hafísinn:
Súgandafirði 14. desember. Útlitið. Óglæsilegt er það. Nóg var samt ástandið slæmt vegna óaldarinnar út í heimi, þótt eigi hefði.við bæst þessi harðneskja náttúrunnar, sem stöðugt hefir viðhaldist síðan október byrjaði. Óveður hafa bannað sjógæftir, sem því átakanlegra var, er sjómenn vissu af fiskinum á miðunum, en gátu svo ekki sótt hann. Hafísinn, sem er að flækjast hér úti fyrir skammt undan andar frá sér svölum anda. Um 20 stiga frost á celsius hefir verið suma morgnana. Er það æði kalsalegt um þetta leyti. Hugsa sér að fjörðurinn er lagður með samföstum ís innan frá Botni og út að Suðureyri, hvílíkt undur á jólaföstunni.
Hafísinn liggur fyrir öllum norðvesturkjálkanum. Hefir oftast, verið landfastur frá Horni og vestur undir Straumnes síðan um miðjan þennan mánuð. Nú i vikunni girti hann skyndilega fyrir Djúpið, svo bátar komust engir til fiskjar, fyllti Bolungarvík og nokkurt ísrek slæddist hingað inn á Skutilsfjörðinn í fyrri nótt. Lausafregn hefir borist um að Willimoes hafi orðið að snúa til baka við Langanes vegna íss.
Fram segir frá hafís þann 20. desember. Dalamenn sem nefndir eru eru væntanlega úr Hvanndölum:
Dalamenn, sem hingað komu til bæjarins í gær, segjast hafa séð tvær ísbreiður ekki mjög langt undan landi. Er hryggilegt til þess að hugsa, að hafísinn leggist að landi nú, ofan á öll önnur harðindi og bágindi þessa vetrar.
Lýkur hér að sinni frásögn hungurdiska af árinu 1917. Ýmsar tölur, meðalhita, úrkomu og fleira má finna í viðhengi.
Tenglar á eldri pistla:
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 39
- Sl. sólarhring: 105
- Sl. viku: 2486
- Frá upphafi: 2434596
Annað
- Innlit í dag: 34
- Innlit sl. viku: 2208
- Gestir í dag: 34
- IP-tölur í dag: 30
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.