Af árinu 1881

Reynum þá við hið fræga ár 1881. Ritstjóri hungurdiska hefur áður ritað langt mál um veðrið frostaveturinn mikla 1880 til 1881 og verður það ekki endurtekið hér að marki. Hins vegar verður fjallað um afgang ársins sem reyndar telst ekki hafa verið slæmur miðað við það sem á undan var gengið - og það sem á eftir kom. Vori og sumri 1881 er oft ruglað saman við 1882. Vonandi tekst að slá eitthvað á þann misskilning. 

Eins og venjulega fylgir yfirlit með tölum ársins í viðhengi þessa pistils. Í beinum tilvitnunum hér að neðan er stafsetningu oftast vikið við til nútímaháttar - en orðalagi ekki breytt. Fáein ókunnugleg orð sýna sig en eru flest auðskilin. 

Veturinn 1880 til 1881 er sá langkaldasti sem vitað er um frá upphafi samfelldra mælinga hér á landi. Í Stykkishólmi er desember 1880 kaldasti desember sem vitað er um, febrúar 1881 er kaldastur allra febrúarmánaða og mars langkaldastur allra marsmánaða. Janúar 1918 var kaldari en janúar 1881, en aðrir mánuðir vetrarins 1917 til 1918 eru ekki hálfdrættingar á við sömu mánuði 1880 til 1881. 

Við sjávarsíðuna suðvestanlands voru frostin ekki alveg jafnmikil og annars staðar. Í Reykjavík virðist t.d. hafa verið kaldara í febrúar og mars 1866 heldur en 1881 og fleiri febrúarmánuðir finnast sem voru kaldari í Reykjavík heldur en 1881. Sama má segja um Vestmannaeyjar. 

September var eini mánuður ársins sem má teljast hlýr, hiti í október og nóvember var í rétt rúmu meðallagi áranna 1931 til 2010 og apríl, maí og desember rétt undir. Aðrir mánuðir teljast kaldir. Reyndar var það svo að í apríl og maí var hiti nokkuð ofan meðallags suðvestanlands, en undir því um landið norðaustanvert. Hæsti hiti ársins mældist á Valþjófsstað í Fljótsdal, 21,5 stig þann 18. júní og um svipað leyti á Bergstöðum í Svartárdal í Húnavatnssýslu. Hiti komst einnig í 20 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þann 3. september. 

Mesta frost ársins mældist á Siglufirði þann 21. mars, -36,2 stig, það mesta sem vitað er um í marsmánuði hér á landi. Þann 1. apríl mældist frostið á sama stað -30,2 stig, það mesta sem mælst hefur á landinu í aprílmánuði. Eins og gengur eru ákveðin vafaatriði í kringum þessi Siglufjarðarmet - og sömuleiðis er það óþægilegt að engar mælingar voru gerðar í mars 1881 á stöðvum sem eiga flest lágmarkshitamet landsins. Formlegar mælingar ekki hafnar á Akureyri, og mælingar í mars vantar alveg innan úr Eyjafirði í þessum marsmánuði, voru gerðar til febrúarloka í Saurbæ og frá og með apríl á Hrísum. Athuganir á Grímsstöðum á Fjöllum hófust ekki fyrr en í ágúst og ekkert var opinberlega mælt í Þingeyjarsýslum - en óopinberar mælingar nefna -40 stig. Kvikasilfur frýs hins vegar við -39 þannig að erfitt er að samþykkja slíkar tölur þó réttar kunni að vera. 

Við látum hér fylgja brot úr gömlum skrifum ritstjóra hungurdiska um hitamæla á Siglufirði. 

Á Siglufirði var enginn lágmarksmælir, á venjulegum mæli fór hiti niður í -36,2°C kl. 9 og 22 þann 21. mars 1881 (-36,0°C lesnar, -0,2°C leiðrétting). Tveimur dögum áður hafði verið skipt um hitamæli. Eldri mælir var kvarðaður eftir Réaumur-stiga og í athugasemd sem fylgir 26. og 27. janúar sama ár kemur fram að hann nái ekki neðar en -27°R (-33,8°C) sem mældust á báðum athugunartímum báða þá daga. Er sú tala tilfærð í lista þó að athugunarmaður telji að frostið hafi verið 2°R meira eða -36,2°C („26. og 27. var Frost vistnok 2° mere end anfört, en Thermom. maaler ikke mere end 27°R“).

Tvær gráður eru auðvitað ágiskun, en föst leiðrétting °R-mælisins var -0,4°R og telst frostið því að minnsta kosti -34,3°C. Athugunarmaður lætur þess og getið þessa daga að frost hafi verið 32°R til 35°R inn til landsins („Samtidigt skal Frost have været lengere inde i Landet 32 á 35°R“), -32°R jafngilda -40°C og -35°R eru -43,8°C. Mælingar á Siglufirði stóðu aðeins skamma hríð í þetta sinn, eða frá ágúst 1880 til desember 1881, og er ekki alveg víst að skýli hafi verið notað þannig að tölurnar gætu verið heldur lágar af þeim sökum.

Sunnanlands fréttist lægst af -28,5 stigum sem séra Valdimar Briem las af mæli á Hrepphólum þann 22. Frostið fór mest í -23,0 stig í Reykjavík. 

Leit að hlýjum dögum ársins í Reykjavík og Stykkishólmi skilaði engu, en listi yfir kalda daga er auðvitað sérlega langur, á Reykjavíkurlistanum eru 25 dagar (8 í janúar, 1 í febrúar, 10 í mars, 2 í júní, 1 í júlí, 2 í ágúst og einn í október) og 22 sinnum var lágmarkshiti í Reykjavík -14 stig eða lægri. Í Stykkishólmi voru köldu dagarnir 51. 

Árið var mjög þurrt um landið norðan, vestan, og suðvestanvert - ársúrkoma í Stykkishólmi mældist ekki nema 380 mm, sú minnsta sem þar hefur mælst og fyrstu átta mánuðina ekki nema 135 mm samtals. Þurrkur af þessu tagi væri áhyggjuefni nú á tímum - af ýmsum ástæðum. Snjólétt var lengst af þrátt fyrir kuldana - vegna úrkomuleysis. Mikið hríðarveður gerði þó víða vestanlands í byrjun marsmánaðar með miklu aðfenni á bæjum. 

Eins og áður sagði má finna nánari veðurlýsingu fyrstu þrjá mánuðina í eldri grein ritstjóra hungurdiska. 

Janúar: Óvenjulegir kuldar, hláku brá þó fyrir fyrstu vikuna.

Verst varð veðrið undir lok mánaðarins, svokallaður Phönixbylur þegar póstskipið Phönix fórst undan Skógarnesi á Snæfellsnesi. Gríðarlegt tjón varð í veðrinu, mest á Vestfjörðum. Ný timburkirkja fauk á Núpi í Dýrafirði og kirkjan á Söndum færðist til. Tugir báta, stórir og smáir, fuku í naustum og hjallar og vindmyllur brotnuðu. Tuttugu og sex bátar brotnuðu við Ísafjarðardjúp. Víða komust menn ekki í peningshús í nokkra daga. Sand reif upp og grassvörður flettist af jörðu þar sem jörð stóð upp úr klaka. Túnið á Núpi varð fyrir miklu tjóni af möl og grjóti. Kona varð úti við Hrólfsstaði í Blönduhlíð. Skip frá Hnífsdal með sex mönnum fórst (dagsetning þess óviss). Stórtjón varð af sandfoki á Rangárvöllum.

Þetta veður sést illa í bandarísku endurgreiningunni - þið sem flettið í henni sjáið þar eitthvað allt annað en raunveruleikann. Það á reyndar við fleira þennan vetur - svo ekki sé talað um árin á undan. 

Febrúar: Óvenju kalt og þurrt lengst af. Þó hlánaði um stund um þ. 20. og gerði mikið flóð í Reykjavík svo ekki varð farið um hluta miðbæjarins nema á bátum. Bleytan fraus síðan illa. 

Við skulum líta á bréf úr Skaftafellssýslu dagsett 24. febrúar (við lok febrúarhlákukaflans) og birtist í Þjóðólfi þann 2. apríl:

Tíðarfar hefir verið síðan með jólaföstu mjög stórfengt, ýmist óminnilegir stormar af ýmsum áttum, eða þá óhóflegar frosthörkur. Snjókomur hafa aftur á móti verið fremur litlar, enda hefir þess lítið gætt, þótt snjó hafi drifið, því stormarnir hafa jafnharðan feykt honum, byljir því verið mjög tíðir og stundum dægrum saman.

Við sleppum þar til síðar fréttum af illviðri í desember, en síðan heldur bréfið áfram:

Annað veður kom hér, og sem einnig má heita óminnilegt, einkum að frosthörkunni, er því fylgdi, það var bylur af norðri hinn 28. og 29. janúar með miklum fannburði og frosti 16—18°R. Næstu daga á undan eða hinn 26. og 27. hafði verið hægt veður en frostið 19—22°R. Frostið er miðað við Álftaverið, sem er suðurundir sjó, svo nærri má geta, hve mikið það muni hafa orðið til fjalla. Yfir höfuð hafa frostin verið löng og hörð með litlu millibili allan desember og janúarmánuð, vikum saman 16—18° frost R. Þó tíðin hafi verið svo stórfelld, hafa þó oftar verið bærilegir hagar, ef þeir hefðu orðið notaðir veðursins vegna. Sumstaðar heldur lítið gefið, einkum í Fljótshverfi og á Síðu, aftur hefir verið gjaffelldara í Leiðvallahreppi.

Þessum miklu stormum hefir og að vonum fylgt sandfok mikið og skemmdir á jörðum; einkum eru brögð að því í Meðallandi og Álftaveri. Þess er tilgetið að lítið gagn muni verða í túnum og maturtagörðum á nokkrum bæjum í Út-Meðallandi, og hefir sandurinn safnast svo á túnin og kringum bæina af þeirri orsök, að Kúðafljót fór í hinum fyrstu frostum austur úr farvegi sínum og flóði yfir allt mýrlendi milli bæja, síðan hljóp allt í eina íshellu og ekkert stóð upp úr henni, nema bæirnir og túnbalarnir, þegar nú stormarnir komu og sandfokið, hafði sandur hvergi viðnám á ísunum og safnaðist því á túnin kringum bæina og undir garða. Sandfok þetta kom einkum með austanstormi, austan úr sandgára þeim, sem gengur á Meðallandið að austan og mestu spillir, og náði það nú út yfir allt Meðalland og Álftaver og tók þannig höndum saman við sandfokið að utan úr Bolhraunum og af Mýrdalssandi. Álftaverið fyrir sunnan Landbrotsá hefir tekið nokkrar skemmdir af þessum sandi. Með vorgróðri koma fyrst algjörlega í ljós þær skemmdir sem orðið hafa.

Hafís kom hér um mánaðamótin (janúar og febrúar), fyrst hrafl nokkurt, en síðan hella mikil, svo að ekki sást til sjávar út yfir af kampinum, hefir hún því eflaust náð út á 30—40 faðma dýpi. Hella þessi var hér aðeins rúma viku, og fór ísinn að heita allur í strauminn aðfaranótt hins 14. þ.m. Engin höpp komu hér með ís þessum, en sést hafa 2—3 bjarndýr (rauðkinnar) 1 í í Núpsstaðaskógi, 2. á svonefndum Brunasandi, austast á Síðunni, og hið 3. jafnvel í Landbroti milli Arnardranga og Gamlabæjar. Austan úr Suðursveit hefir sú fregn borist, að ísinn hafi flutt með sér tvo hvali (sléttbaka), hafi annar þeirra náðst og verið 90 ál., en hinn ekki nema að litlu leyti. Einnig er talað um bjarndýr fyrir austan sand. Nú hefir blíðu bati staðið rúma viku og jörð víðast uppkomin, þó hún sé ísug að vonum.

Mars: Kaldasti mánuður sem mældur hefur verið á Íslandi. Þrátt fyrir kuldana voru talsverðir umhleypingar og illviðri mikil. Eftirminnilegur hríðarbylur snemma í mánuðinum. 

Norðanfari birti þann 30. apríl fréttapistil af Suðurnesjum - þar er sitthvað fróðlegt um tíðina (hér lítillega stytt):

Árið byrjaði með hagstæðri hláku, og stóð svo framyfir þrettánda að útigangsfénaður hafði fjörubeit góða, og hresstist mikið en svo byrjuðu aftur frosthörkurnar þ. 11. janúar og fóru úr því vaxandi með miklum gaddi, hrímfalli og norðanveðri; þangað til hafði mikill afli fengist á lóðir af þorski. Þann 25, (á Pálsmessu) var mjög mikill gaddur þó tók frostgrimmdin yfir dagana 28.-29. og 30., voru þá lagðar allar víkur með sjónum, og allar fjörur þaktar ísjökum og íshrönnum, og af því að stórstreymt var, gjörði sunnudagsnóttina þ. 30. afar mikið sjávarflóð með mesta norðanveðri sem menn muna að komið hafi í langan tíma, gekk þá sjór uppá tún víða í Garði helst fyrir innan Skaga, og sumstaðar upp að bæjum, kastaði upp óvenjulega mikilli gengd af ufsa og karfa með íshroðanum; eru það fá dæmi, að þessi ufsi var tíndur á bæjum svo hundruðum og þúsundum skipti, uppá túnum og kring um bæi, og varð af þessu mikil björg, fór nú óðum að leggja sjóinn, með því líka að stórar íshellur bárust að landi, að ofan og innan, var nú gengið yfir Stakksfjörð (fyrir utan Keflavík) og inn að Keilisnesi á Vatnsleysuströnd, og hefi ég ekki lesið að slíkt hafi við borið síðan árið 1699. Sjófuglar fundust dauðir með sjónum og sumstaðar lifandi frosnir niður á ísnum. Hafði í þessu kasti verið riðið yfir Hvalfjörð, og líka úr Reykjavík gengið upp á Kjalnes, og þaðan upp á Akranes. Frost mun hafa stigið 18—20°.

Þann 14. febrúar gekk af norðanáttinni til útsuðurs með snjókomu. Þá leystist allur ís frá landi, allt frá Skaga inn að Hólmsbergi, og um morguninn sást enginn ísreki, heldur auður sjór, og þótti furðu gegna eftir slík hafþök sem orðin voru. Allt til þessa höfðu menn frá Keflavík og Njarðvíkum verið að ganga ísinn inn á Vatnsleysuströnd, þó að glæfraför væri. Á Kyndilmessudaginn [2. febrúar] lögðu 3 menn á stað frá Bergvík í Leiru og ætluðu til Reykjavíkur, stefndu þeir á Brunnastaðatanga, en þar hafði ís losnað frá landi og komust mennirnir í lífsháska, féll þá einn af þeim í sjó og drukknaði þegar, ...

Nóttina þess 7. [mars?] rak íshelluna með austanátt að landi hér svo hafþök urðu eins og áður, sem ekki sá út yfir, og er nú sem stendur bjargarlaust fyrir skepnur bæði með sjó og á landi og lítur eigi út fyrir annað en hér í hrepp verði mesti skepnufellir, ef ekki kemur bráður hati. Síðan ég reit yður seinast má segja að sömu hörkur hafi haldist við, þó ekki með sama gaddi eins og á þorranum, en meiri snjókoma og tíðara hríðarveður á öllum áttum; þess vegna hafa sjógæftir verið mjög stirðar. Fiskur verið nægur fyrir, nýlega varð vart við loðnuhlaup í Höfnum og fiskaðist þá mæta vel nokkra daga, ...

Hafís mikill hafði komið fyrir austurlandinu, svo ekki sást út yfir, og komst út undir Eyrarbakka, en stóð ekki lengi við. Á hafísnum eystra, höfðu komið á land 2 bjarndýr þau voru 6 unnin seinast þegar fréttist.

Þjóðólfur birti bréf úr Árnessýslu dagsett 23. apríl þann 4. júní. Þar segir frá bylnum 5. mars:

Fyrri hluta góunnar gjörði þíðu við og við, en í miðgóu harðnaði aftur, og það svo snögglega að upp úr blíðviðrishláku rak í ofsabyl með frostgrimmd og fjúkburði svo að segja svipstundu. Fénaður var í haga víðast, því þetta var um miðjan dag (5. mars) varð þá margur naumt fyrir að ná skepnum heim að húsum; hrakti fé víða og fengu margir stórskaða. Mest kvað að því um Biskupstungur og utanverðan Hrunamannahrepp, því þar var veðrið harðast. Frá einum bæ tapaðist um 100 fjár í Brúará. Frá öðrum bæ töpuðust 30 í sömu á. Frá einum bæ í Laugardal töpuðust 40 í ós nokkurn. Margir missa kringum 20 enn margir nokkuð minna. Í miðjan einmánuð kom bati og hefir síðan verið besta tíð; svo þó veturinn væri harður endaði hann vel.

Hér að neðan er kort (riss) úr ritgerð ritstjóra hungurdiska um frostaveturinn mikla. Sýnir það veðrið að morgni 5. mars. Lægðardragið snarpa sem liggur um landið hafði gert það í nokkra daga og eitthvað sveiflast fram og til baka - en norðaustanáttin smám saman styrkst að afli. Sunnan dragsins var hláka, en frostofsi norðan þess. Allt bendir til þess að suðvestanátt hafi verið í háloftunum. Síðdegis þann 5. hörfaði sunnanáttin loks alveg suður af landinu.

w-1881-03-05i

 

Apríl: Hagstætt tíðarfar. Fyrsti dagur mánaðarins var mjög kaldur, en síðan gerði hægar hlákur. Stakir kaldir dagar komu þó á hafíssvæðunum.

Fróði á Akureyri segir frá batnandi tíð þann 8. apríl - og svo enn þann 18.

Veðrátta er hér mildari þessa viku. Á sunnudaginn [3.] var þítt og seig snjórinn mikið; í gær var allgóð hláka. Mun nú þegar komin upp jörð hér í Eyjafirði og einnig í snjóléttari sveitum Þingeyjarsýslu.

[18.] Veðrátta var alla næstliðna viku hin blíðasta og hagstæðasta, og hefir snjóinn mjög tekið; ísinn hefir leyst sundur út í fjarðarmynninu og hafísinn er út: fyrir var rekið til hafs, en lagísinn situr enn á firðinum, enda var hann orðinn ákaflega þykkur.

Þann 18. maí birti Norðanfari bréf úr Axarfirði dagsett 12. apríl:

Frá 15. janúar þ.á. og til 23. s.m. voru hér fjarska frost, 25 til 30 stig, en nóttina hins 30. s.m. dyngdi hér niður ógrynni af fönn, svo ekki varð komist um jörðina, en daginn eftir hvessti og reif snjóinn svo að góð jörð kom hér upp. Dagana kringum góukomuna blotaði og kom upp góð jörð, en bráðum breyttist veðrið aftur í sömu brunana, en samt hélst snöpin til 5. mars, dreif þá enn niður mikla fönn, að því búnu blotaði dálítið en frysti bráðum aftur, svo öllu hleypti í gadd og jarðbönn til hins 6. apríl, en síðan hefir hver dagurinn verið öðrum blíðari og betri og hnjótum að skjóta af nýju upp svo að hér í firðinum er nú orðið hálfautt og margir sem ekkert gefa, enda var hér orðin mesta þröng af heyleysi. Ekkert rót er á hafísnum, sem legið hefir hér við land síðan á jólaföstu.

Þjóðólfur segir þann 9. maí fyrst frá aprílveðrinu í Reykjavík en síðan koma almennar fréttir víðar að:

Þegar með byrjun þessa mánaðar skipti algjörlega um veðráttufarið og má svo segja, að í þessum mánuði hafi verið óvenjulega hlý og hagstæð tíð bæði á sjó og landi. Næstum allan mánuðinn hefir vindur verið við austur-landnorður stundum með talsverðri rigningu. Oftast hefir verið logn eða hæg gola. Stöku sinnum hefir veður verið hvasst á landsunnan kafla úr degi t. a. m. 13., 28., nokkra daga hæg vestangola með nokkru brimi ... 

Innlendar fréttir og skipakoma. Síðan 23. f.m. hefir tíðin verið hin æskilegasta hér á Suðurlandi, tún eru farin að grænka. Fyrir norðan kom að sönnu batinn á sama tíma sem hér og vestra, en þar voru meiri snjóar, og þurfti því lengri tíma til að jörð kæmi upp, þó er það von manna, að ekki verði teljandi, hvað þar af skepnum, eftir því sem áhorfðist, þó mun Skagafjörðurinn ekki sleppa fyrir talsverðum skepnumissi, einkum hrossa. Sagt er að hafísinn liggi alveg frá Hornströndum vestra að Langanesi nyrðra, og talsvert ofan með Austfjörðum og svo mikill, að allir firðir eru fullir og sést ekki út yfir af háfjöllum. Fjöldi af bjarndýrum er sagt að fylgi ísnum, og hákarl er sumstaðar veiddur upp um hann, og var fyrir skemmstu farið með marga hesta út á 50 faðma djúp til að sækja hákarla, sem veiðst höfðu.

Maí: Fremur hagstæð tíð. Kuldakast gerði þó norðanlands um miðjan mánuð með nokkru frosti.

Nokkrir vatnavextir urðu í vorhlákunum. Fróði birti 30. júlí frétt úr Þórsnesþingi eftir bréfi í júní. Þar segir meðal annars:

Með aprílmánuði skipti um og gerði einn hinn hagstæðasta bata, sem hugsast kunni. Um páskana  [páskadagur var 17. apríl] komu kaupförin í Stykkishólm og var þá þannig bætt úr þörfinni fyrir menn og skepnur. Maímánuður varð mjög kaldur ... og tún kalin til skemmda. ... Þann 10. maí gjörði hér vestra stórflóð og féllu skriður og spilltu jörðum. Mest kvað að skriðu þeirri, sem féll að Fjarðarhorni í Helgafellssveit. Hún tók af heygarð og fjós, drap 2 nautgripi, tók með sér vegg undan baðstofunni og eyðilagði túnið að mestu. Við sjálft lá, að manntjón yrði, og það meira enn minna, því ferðamenn voru veðurfastir á bænum.

Júní: Köld, en ekki óhagstæð tíð.

Júlí: Áfallalítil tíð og fremur hagstæð. Nú kom í ljós að tún voru illa farin eftir bæði frost, kal og litla úrkomu. Fróði segir frá 28. júlí:

Grasspretta hefir á þessu sumri mjög brugðist hér norðanlands, einkum eru þurrlend tún afarilla sprottin, en tún þau, er vatni varð veitt á, og flæðiengi hefir sprottið sæmilega. Grasbresturinn er eðlileg afleiðing þess, að sumarið hefir allt að þessu verið mjög kalt; einnig mun grasmaðkur, sem venju fremur hefir borið mikið á, mjög hafa spillt grasvextinum.

Ágúst: Fremur hagstæð tíð en heldur köld, stundum mjög kalt við norðurströndina.

Ísafold lýsir tíð stuttaralega þann 25. ágúst:

Að norðan og austan fréttist, að af túnum hafi fengist frá þriðjungi til helmings töðu minna en í fyrra. ... Afli hér sunnanlands er lítill sem enginn, enda eru allir önnum kafnir við heyskap, sem sumstaðar reynist harla lítilfjörlegur, og heldur verri, en til sveita. Tíðarfar hefir verið þurrt yfir höfuð, en heldur kalt.

Þjóðólfur tekur í sama streng þann 7. september:

Ekki er um annað talað enn heyleysið, bæði nær og fjær, og engar nýlundur heyrðust nú með póstunum, sem eru nýkomnir að vestan og norðan, nema hvað vestanpóstur segir hafísinn nálægt ströndum vestra ekki lengra burtu en á 60 faðma dýpi, en nú brá til sunnanáttar með deyfu með höfuðdeginum og hefir hér verið hvassviðri nokkra daga, og mun það reka hann frá, enda eru hlýindi nú í veðrinu meiri enn hefir verið og tún eru að grænka sem óðast. — Nú er búið að selja hið stóra skip, sem rak á land í Höfnunum syðra, nálægt Þórshöfn; er það óefað hið stærsta skip sem sést hefir hér á landi; sagt er að það sé 47 faðma langt og 7 faðma breitt, þrímastrað og með þrem þilförum.

Takið sérstaklega eftir því að blaðið segir að tún séu að grænka - og það er 7. september. Engar úrkomumælingar voru gerðar í Reykjavík þetta sumar en vestur í Stykkishólmi var aðeins einn dagur samtals í júlí og ágúst þegar úrkoman mældist 1 mm eða meira. Einhverrar úrkomu varð þó vart í 19 daga í Stykkishólmi þessa mánuði, en ekki nema 7 í Reykjavík. Ástandið var ívið skárra á Eyrarbakka. Í fréttinni er einnig minnst á skipið mikla og mannlausa sem rak í Höfnum og frægt er. 

September: Hlýtt í veðri og tíð hagstæð, nokkuð úrkomusamt, einkum síðari hluta mánaðarins. Eins og áður sagði var september eini hlýi mánuður ársins. Föstudaginn 16. september gerði storm af landsuðri og var „afspyrnurok um nóttina“ eins og Þjóðólfur orðar það þann 18. Þá hlekktist skipi á á sundunum í Reykjavík og einnig varð óhapp í Borgarnesi:

Sömu nótt tók vöruskip kaupmanns Jón Johnsens í Borgarnesi að reka þar á höfninni, og lét skipherrann þá höggva möstrin úr skipinu, og rak það samt útaf höfninni og staðnæmdist á sandeyrum vestanvert við nesið; laskaðist skrokkur skipsins ekkert og vörurnar, sem í því voru, skemmdust ekki, en það var hálffermt af ýmsum vörum, því skipið var fyrir 4 dögum komið frá Bergen, hlaðið nauðsynjum. 

Norðanfari segir 26. október frá því að bátur úr Hrísey hafi farist á Eyjafirði aðfaranótt þess 29. september í suðvestanstórviðri og með honum 7 menn. Sömu nótt drukknaði norðmaður sem var við síldveiðar á svipuðum slóðum. 

En þó sprettan hafi verið rýr var heyskapartíð góð eins og segir í bréfi úr Þórsnesþingi á Snæfellsnesi 10. september og birt var í Fróða 15. október:

Heyskapartíðin, sem nú er að enda, hefir verið hér um sveitir ein hin hagstæðasta, þurrviðrasöm og hvassviðralítil; heilsufar manna hefir einnig verið hið besta og þessar tvær greinir hins „daglega brauðs“, „hagstæð veðrátt" og „góð heilsa“, hafa stutt mjög að því, að heyafli verður að jafnaðartali að útheyjum til nálægt meðallagi. Allstaðar þar, sem slægjur hafa orðið notaðar til fjalllenda, hefir heyjast vel; aftur á móti er heyafli þar mjög lítill, sem á valllendi og þurrlendar mýrar hefir orðið að ganga. Tún og engjar hafa hvarvetna brugðist, og af þeim fengist aðeins frá fjórða hluta til helmings við meðalár.

Í bréfi úr Eyjafirði sem birtist í Þjóðólfi 18. október og dagsett er 26. september segir:

Síðan um höfuðdag (29. ágúst) hefir hér norðanlands mátt heita öndvegistíð. Nýting hefir allstaðar verið hin besta hér nyrðra sem annarstaðar. Töður eru litlar; þó ætla ég að meðaltals muni töður eigi vera einum þriðjungi minni enn í meðalári. Allar harðbalajarðir, einkum í snjóléttum sveitum, eru hinar aumustu, og má svo kalla, sem á nokkrum bæjum, t.d. fremst í Eyjafirði og hingað og þangað hafi nálega enginn útheyskapur orðið í sumar, og allt harðvelli hefir brugðist meira eða minna. Maðkur og kal og þurrkur eru orsakirnar til þessa. Aftur hefir mýrlendi sprottið, sumt í meðallagi, sumt allvel, en flest í lakara meðallagi. Heiðarmýrlendi hefir á flestum stöðum verið í góðu lagi og sumstaðar ágætt. Alt þetta bendir til hins sama, að kuldi og þurrkur, auk maðksins og kalsins, eru tilefnin til grasbrestsins.

Október: Óróleg úrkomutíð vestanlands framan af, en síðan hægari tíð og hagstæð.

Enn eitt kaupskipið lenti í vandræðum aðfaranótt 1. október. Norðanfari segir frá því 26. október:

Aðfaranótt hins 1. október síðastliðinn sleit upp kaupskip í suðvestanveðri, er lá á Hofsóshöfn í Skagafirði og tilheyrði verslun kaupmanns L. Popps á Hofsós og Grafarósi; til allrar hamingju var búið að flytja úr því allar útlendu vörurnar en að eins komnar í það nokkrar tunnur af kjöti og töluvert af saltfiski 12. þ. m. var haldið uppboð á strandi þessu, skipskrokkurinn með möstrunum seldist fyrir 600 kr.

Í Norðanfara 12. janúar 1882 er bréf frá Patreksfirði dagsett 31. október:

Um höfuðdag skipti um tíðarfarið, komu þá sífeldar rigningar og stormar miklir af suðri, einkum er áleið haustið, og þá urðu rigningarnar einnig stórfelldari. Hálfum mánuði fyrir vetur féll hér um allt töluverður snjór, en hann tók upp viku siðar. Síðan hefir verið hið mesta blíðviðri, logn og hreinviðri, ýmist lítið eða ekkert frost og aftur talsverður hiti.

Nóvember: Nokkur norðanskot, en þau voru ekki mjög köld.

Tíðinni nyrðra er lýst í Fróða þann 19. nóvember:

Haustveðrátta var hér hin æskilegasta; snjór enn eigi fallið til muna, og frost sjaldan verið mikið eða langvarandi; sauðfé hefir því enn eigi verið gefið svo teljanda sé.

Og Þjóðólfur segir m.a. um nóvembertíðina í Reykjavík (24.12):

Veðuráttan í þessum mánuði hefir verið að miklum mun betri en í sama mánuði umliðið ár, en hefir þó eins og þá verið stormasöm og óstöðug (einkum síðari hlutinn). ... Snjór hefir svo að kalla enginn fallið hér í bænum. 

Desember: Fremur óróleg tíð, einkum eftir þ.10. Mikil úrkoma austanlands.

Fróði segir frá tíðinni fyrir norðan í pistli 10. janúar 1882:

Veturinn fram að nýári hefir mátt heita mildur hér um sveitir; frost veru eigi mikil og oftast hefir verið snjólítið í Eyjafirði; miklu meiri hefir snjórinn verið austur í Þingeyjarsýslu; en vestur í Skagafirði hefir hann verið minni enn hér.

Þann 23. febrúar birtist í Norðanfara bréf dagsett 10. janúar á Seyðisfirði, þar segir m.a.:

Allt fram að nýári var hér enginn eiginlegur vetur, jörð nálega alltaf marauð eða því sem næst, og mjög sjaldan frost að nokkrum mun. Hinsvegar hefir veðurátt stöðugt síðan í haust, verið ákaflega óstillt og umhleypingasöm. Heybirgðir almennings eftir sumarið urðu yfir höfuð með langminnsta móti; einkum var í haust og sumar almenn umkvörtun um allt Austurland um hörmulega lítinn töðuafla, enda var alveg óvanalega mörgum nautgripum víðsvegar að slátrað hér á Seyðisfirði. Vandræði með útheyskapinn voru ekki nærri því eins almenn. Verst gekk hann á Upphéraði og til fjarða, miklu betur á Úthéraði og í sumum norðurfjörðunum. Hefir merkilega vel viljað til, að svo einstaklega vægur vetur eins og þessi hefir verið fram að áramótum, skyldi koma eftir slíkt bágindasumar og þetta síðasta.

Í bréfi úr Eyjafirði sem birtist í Þjóðólfi 21. febrúar 1882 kemur líka fram að snjóþyngsli hafi verið norðaustanlands í desember: 

Hélst hin sama veðurblíða til 25. nóvember; en þá gerði hér mikla bleytuhríð á austan. Alla jólaföstuna hefir verið umhleypingasamt, ýmist snjóað eður blotað. Veðurstaðan hefir nálega einlægt verið austlæg, frá landnorðri til landsuðurs, sem oftast með fjúki, en sjaldan vestlæg, og þá oftast með þýðvindi. Með austlægri átt er snjókoma og annars öll úrkoma mikil í Þingeyjarþingi, minni í Eyjafirði, en þó talsverð í framfirðinum út að Hörgá, en mjög lítil eður engin í Skagafirði og Húnaþingi; aftur er þar verri vestlæga áttin en hér og þá einkum norðar. Hér í Eyjafirði varð því sumstaðar jarðlítið eður alveg jarðlaust 7 vikur af vetri, og fyrr í Þingeyjarþingi; en í vestursýslunum hefir einlægt verið hin besta tíð og nálega snjólaust enn þá. Heybjörg manna hér um sveitir ætla ég á víðast hvar í góðu lagi. Úthey reynast úrgangssöm, sem og von er, bæði sakir sinu og jarðskafa, því sneggjan var svo mikil í sumar.

Þjóðólfur segir frá því 16. janúar 1882 að síðustu tvo daga ársins hafi verið fagurt veður í Reykjavík og vindur hægur af austri. 

Í Fróða 27. janúar 1882 er fróðlegur og harlasvartsýnn pistill sem ber yfirskriftina „Eyðileggingin í Skaftafellssýslu“ og er úr „bréfi frá fræðimanni, er þar fór um næstliðið sumar“.

Illa líst mér á Skaftafellssýslu að flestu leyti, og það hygg ég, að engum mennskum krafti sé unnt að stemma stigu fyrir landrofi jökla og jökulvatna þar; að því myndi enda reka fyrir doktor Grími Thomsen, þótt hann sé ef til vill kraftaskáld, að landvættir þar eru enn rammar og ýfast við hinni nýju kynslóð. Síðan ég fór síðast um Skaptafellsýslu, fyrir rúmum 10 árum, hafa þessi landspjöll orðið: Fyrst Hafursáraurarnir í Vestur-Mýrdal; þeir ná nú alla leið frá Steigarhálsi að austan og nálega vestur til Péturseyjar, og frá fjalli til fjöru að kalla má; liggja þannig allir láglendisbæirnir við sjóinn fyrir ágangi árinnar, enda mun þess ekki langt að bíða, að eyrar hennar færist gjörsamlega að sjó fram, líkt og Sólheimasandur.

Þaðan frá austur eftir eru landrof eigi teljandi fyrri enn í Meðallandi, Landbroti og á Síðu; eyðist einkum suðaustur jaðarinn á sveitum þessum af grjóti og sandfoki á vetrum í suðaustanveðrum, sem þar koma mjög áköf. Ég sá grjótröst með fram öllu hrauninu, er runnið hefir fram austan megin Síðu, og sagði fylgdarmaðurinn mér, að röst þessi hefði öll komið í einu veðri, og er þó afarlangur vegur af söndunum upp að hrauninu; en svo víkur við, að allt grjótið rennur eftir ísum að sléttlendinu. Þar næst eru engjaspjöll í Öræfum allt austur fyrir Ingólfshöfða af völdum Skeiðarár, og ná þannig nú orðið saman Skeiðarársandur og Breiðumerkursandur rétt fyrir austan höfðann. Má þannig telja einn sand frá Höfðabrekku og austur undir Hornafjörð.

Í Suðursveit eru og mikil engjaspjöll, bæði á sléttlendinu austan fram við Breiðumerkursand, þar sem Fellshverfi var fyrir skemmstu, og svo á austanverðum Steinasandi, sem er í miðri sveit, og spillir hann einkum engjum Kálfafellsmanna, og er þær eru eyddar, þá Kálfafellstaðar. Hornafjarðarfljót, Heinabergsvötn og Kolgríma gera og mikinn usla og til ég víst er fram líða stundir, að allar Mýrar takist af, og verður þá engin sveit óskemmd í allri Skaftafellssýslu, nema Skaptártungur og Nes í Hornafirði.Mun þetta þykja ljót lýsing, en hún er því miður sönn.

Lýkur hér umfjöllun um veður og tíðarfar ársins 1881. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 16
  • Sl. sólarhring: 212
  • Sl. viku: 981
  • Frá upphafi: 2420865

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 862
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband