6.3.2018 | 23:24
Af árinu 1912
Við höldum áfram að hjakka í fortíðinni með aðstoð blaðafrétta og veðurathugana. Í viðhengi má finna ýmsar tölulegar upplýsingar fyrir nördin - ekki allar auðskiljanlegar.
Í þetta sinn verður litið á helstu veðuratburði ársins 1912. Á heildina litið eru það stöðug sjóslys og drukknanir sem umfram annað einkenna tjónalista ársins - við rekjum þau óhöpp ekki öll hér. Um mánaðamótin júlí/ágúst gerði mjög afgerandi kuldakast.
En byrjum á almennri tíðarfarslýsingu sem blaðið Lögrétta birti þann 15. janúar 1913:
Árið 1912. Til landsins hefur það verið þannig: Veturinn heldur góður; vorið ágætt, en þó nokkuð þurrviðrasamt. Grasvöxtur góður á harðvelli, lakari á mýrum. Sláttur byrjaði snemma. Sumarið kalt og um mánaðamótin júlí/ágúst gerði norðanhret með frosti og snjó, er stóð í viku, og muna menn ekki annað eins um þann tíma. Skemmdust í þeim kuldum kálgarðar norðanlands. Uppskera úr görðum hér syðra i fullkomnu meðallagi. Haustið hefur verið fremur illviðrasamt. Til sjávarins má telja árið meðalár.
Janúar: Nokkuð umhleypingasöm tíð, en víðast snjólétt. Fremur hlýtt.
Blaðið Ingólfur lýsir áramótaveðrinu syðra (þ.4):
Veður var hið besta um áramótin, heiðskírt veður og hægt, og tunglskin á kvöldin.
Og þann 24. lýsir blaðið góðri vetrartíð:
Veður hefir verið hið besta undanfarna daga. Allt fram yfir helgi var eins hlýtt eins og á sumardegi, og sumstaðar gægðust ung og græn grös upp úr jörðinni. - Þau hafa líklega haldið að vorið væri komið. En veturinn mun hafa hugsað sér, að hann skyldi kenna þeim að lesa betur á almanakið, og gerði síðan frost strax eftir helgina. Og nú hafa grösin mátt kenna á því, hvað þau voru græn, - nú eru þau öll dauð.
Sama dag birtir Vísir frétt úr Hrútafirði:
Sumarlegt var í Hrútafirði á þriðjudaginn var. Auð jörð að sjá er litið var til norðurs, þröstur í lofti en vepja á gangi í sjávarsandinum og vegfarendur urðu fyrir hverjum mýflugnahópnum á fætur öðrum. Sólin hafði vakið þær til þess að njóta góða veðursins.
Febrúar: Stormasamt og kalt. Snarpt norðanáhlaup með miklu frosti fyrsta þriðjunginn og aftur alveg í lokin. Tíð talin góð suðvestanlands. Þurrviðrasamt syðra og óvenju snjólétt þar.
Áttunda febrúar hafði skipt rækilega um frá gæðum janúarmánaðar - svo segir Ingólfur:
Veður hefir verið afarkalt alla undanfarna viku, alltaf kringum 10 stiga frost; og flesta dagana hefir verið hvasst á norðan. Það er í rauninni fyrst núna að hægt er að segja að veturinn byrji fyrir alvöru, því undanfarna mánuði hefir tíðin verið nærri því eins og á vordegi, svo að margur var orðinn hræddur um að veturinn myndi ekki byrja fyrr, en einhverntíma í sumar. En nú mun varla þurfa að óttast það lengur.
Aðfaranótt þess 8. urðu vandræði á Reykjavíkurhöfn í miklu norðanhvassviðri (hafnargarðar höfðu ekki verið byggðir). Breskur togari fór að reka á akkerum sínum og var nærri kominn á land þegar menn náðu að kynda upp vélina og forða skipinu. Nokkrir uppskipunarbátar munu hafa sokkið í veðrinu.
Vísir lýsir aðkomunni eftir norðangarðinn í pistli þann 13.:
Veðráttunni breytti aftur til hins betra á laugadaginn. Síðan blíðviðri. Eftir garðinn var einkennilegt um að litast við höfnina. Flutningsbátar allir í kafi, nema hnýflarnir jöklaðir upp úr. Skipin í hvítri klakabrynju. Fjaran samfrosin sullgarður, (sem Norðlendingar kalla) eða móður (á vestfirsku) frá efsta kambi niður fyrir hálffallið fjöruborð. Örfiriseyjargrandinn allur grár af íshrönnum. Sjógarðar og bryggjur og húsveggir næst sjónum snjóhvítir sem úr marmara væri. - Skerjafjörður var allur lagður.
Blaðið Suðurland greinir þ.10. frá hörmulegu slysi sem varð miðvikudaginn 7. febrúar, hér er Eyrarbakki:
Tíðarfaríð var lengi gott og lék við okkur, mátti heita að stöðugt væri sumarveður, þangað til þorrinn byrjaði. Hann hefir verið allharður i horn að taka, en snjólaus þó; frost mikil og stormar. - Á miðvikudaginn síðastliðinn var hér stormur mikill af norðri, mun þó hafa verið langt um hvassari annarsstaðar. Þá um daginn voru um 20 vermenn á suðurleið undan Eyjafjöllum. Fóru þeir frá Garðsauka á miðvikudag og ætluðu að Varmadal og komust þangað flestir um kvöldið meira og minna kalnir í andliti. Tveir bræður frá Grund undir Eyjafjöllum fóru nokkru á eftir hinum frá Garðsauka, komu þeir eigi að Varmadal um kvöldið. Þá nótt var einna hæst frost hér, um 17 gr. Á fimmtudag var þeirra leitað og fundust þeir helfrosnir skammt frá Varmadal. Bræður þessir hétu: Sveinbjörn og Brynjólfur, Guðmundssynir, Sveinbjarnarsonar prests í Holti.
Þjóðviljinn (þ.20.) bætir við þeim upplýsingum að sandstormur hafi verið mikill.
Fljótt linaði aftur og þann 15. skrifar Ingólfur:
Veðuráttan er nú mjög breytt aftur síðan á sunnudag [11.], og er nú komin hláka og blíðviðri aftur. Snjór liggur rétt efst á fjöllunum, einsog strausykurklessa á rauðgraut; en á götunum eru heil stöðuvötn af forarpollum, brúnum eins og vatnskókó. Og yfir öllu þessu hvelfist svo himininn grár og ólundarlegur einsog illa skafinn grautarpottur" á hvolfi.
Vísir segir þann 16. frá miklu illviðri í Evrópu í janúar:
Hörkufrost og fárviðri hefur gengið yfir England, Frakkland og Austurríki um miðjan fyrra mánuð. Svo mikið ofviðri var á Ermarsundi að alt símasamband milli Englands og Frakklands slitnaði og símskeyti milli landanna voru send um New York. Í Lundúnum sá ekki til sólar í 8 daga fyrir blindbyl og umferð á götum borgarinnar tepptist að mestu. Fé fennti mjög á Englandi og Skotlandi og fjöldi manna varð úti. Skaðar hafa og orðið miklir á Frakklandi sökum frosts. Fjöldi skipa fórst og við strendur Miðjarðarhafsins. Það er í frásögur fært að í Galisíu hafi á einum degi (19. f.m.) helfrosið 114 manns. [Veðrið á Englandi mun hafa verið hvað verst þann 17. og 18. janúar].
Mikið illviðri gerði af austri þann 23. febrúar. Þá fórst þilskipið Geir og fimm menn tók út af skipi á Selvogsbanka.
Á hlaupársdaginn féllu mikil snjóflóð í Mjóafirði, þá gekk mikið norðaustanveður yfir landið. Austri segir frá þann 2.mars:
Snjóflóð hljóp í Mjóafirði í fyrradag rétt fyrir innan Hesteyri, og náði yfir mikið svæði, svo það tók með sér 12 símastaura og þeytti þeim yfir fjörðinn yfir að Asknesi og skall sjórinn þar langt upp á land og sleit festi hvalveiðabáts, er 1á þar við bryggju. Annað snjóflóð hljóp milli Brekku og Hesteyrar og mun einnig þar hafa brotið símastaura.
Tveir menn fórust í snjóflóðum í febrúar (dagsetninga ekki getið í frétt Þjóðviljans 11. mars). Annar þeirra var á leið yfir Siglufjarðarskarð, en hinn að rjúpnaveiðum á Þorvaldsdal í Eyjafirði.
Mars: Fremur hægviðrasamt. Tíð talin góð víðast hvar. Hiti í meðallagi.
Mánaðamótaveðrið skilaði fleiri snjóflóðum. Þau mestu urðu á Seyðisfirði þann 3. Austri segir frá þann 9.
Snjóflóð hljóp hér úr Bjólfinum s.1. sunnudag árdegis, og kom niður hér efst á Fjarðaröldu og kollsteypti þar og mölbraut stórt vörugeymsluhús, er verslunin Framtíðin átti, voru þar bæði íslenskar vörur: kjöt, tólg og fiskur, og útlendar; ennfremur bátar og ýmis áhöld, er allt eyðilagðist eða skemmdist meira og minna. Tjónið talið 4-5 þús. kr. Ennfremur tók snjóflóðið fjárhús með 17 kindum í, og náðust af þeim aðeins 5 lifandi. Víða annarstaðar hér í firðinum hafa hlaupið snjóflóð, en eigi ollað verulegu tjóni.
Suðurland segir þann 23. mars af tjóni af völdum sandfoks - trúlega hefur það orðið í veðrunum í febrúar:
Skemmdir af sandfoki hafa orðið allmiklar í vetur á Rangárvöllum og Landi. Túnin á Reyðarvatni og Dagverðarnesi á Rangárvöllum sögð að mestu eyðilögð. Allmiklar skemmdir sagðar víða á Landinu.
Það er oft nokkur nútímabragur á veðurpistlum í fréttablaðinu Ingólfi - t.d. er kvartað undan viðsnúningi árstíða þann 21. mars:
Veðrið er enn með allrabesta móti; dálítill norðanvindur í dag, en frostlaust og hlýtt. Vorið kvað líka hafa byrjað í gær, segja þeir sem lesa almanakið; það geri ég bara aldrei, og það gera engir skynsamir menn. Til hvers er það líka, þegar ekkert er að marka það lengur: Það er sumar á veturna og vetur á sumrin. Ég kann illa við þessa óreglu; ég vil hafa ærlegt frost meðan veturinn er, og svo sólskin og blíðu á sumrin.
Apríl: Tíð talin hagstæð. Sunnanlands voru þó umhleypingar. Hiti í meðallagi. Mikið frost í Möðrudal þ.11.
Aðfaranótt 14. apríl gerði mikið illviðri sem olli sköðum á sjó, m.a. hörmulegum árekstri franskrar skonnertu og þilskipsins Svans, 12 mönnum af Svaninum var bjargað í franska skipið, en 14 fórust. Sömuleiðis brotnaði þilskip í Arnarfiðri og vélbátur í Hnífsdal. Bátur frá Vestmannaeyjum fórst einnig með sex mönnum á (sé að marka frétt í Vísi þann 15.)
Lítið var um hafís árið 1912, öfugt við það sem verið hafði árið áður. Þó segir Vestri frá því þann 20. apríl að hafís hafi um miðja vikuna verið á reki úti af Horni og Straumnesi.
Vestri segir frá tíðinni í pistli þann 27. apríl.
Þessa viku hefir verið einmuna blíðviðri, svo vart mun hafa frosið saman sumar og vetur, sem búmennirnir þó helst ákjósa.
Maí Hagstæð tíð. Fremur úrkomusamt á Suður- og Vesturlandi, en þurrviðrasamt norðaustanlands. Fremur hlýtt. Mjög hlýtt nyrðra um þ. 20.
Síðdegis þann 6. maí varð mikill jarðskjálfti austur undir Heklu, einn sá sterkasti sem mælst hefur á Íslandi. Mikið tjón varð í skjálftanum og hrundu fjölmargir bæir til grunna.
Þann 25. maí birtist bréf úr Borgarfirði, ritað 6. sama mánaðar - tíðarfar vetrarins er þar mjög lofað:
Veturinn nýliðni hefir verið hinn stilltasti er menn muna. Getur varla heitið að snjóföl hafi sést nema svo sem 4 sinnum, og hefir horfið jafnharðan aftur. Má því segja að snjór sæist ekki nema í öræfum og jöklum. Austan landnyrðings þyrringar, vindhægir hafa tíðast verið. Er það hér hin besta átt á flestum tímum árs, því þá er himininn heiður, svo sólar nýtur, og frost væg; enda hafa aldrei verið frost í vetur nema fyrst á þorra og nokkra daga á góu; en oft hlýindi sem sumar væri um daga, en frjósandi um nætur. Regn hefir varla komið nema lítilsháttar á jólaföstu viku tíma. Gengu þá morgun einn miklar þrumur og eldingar; hafði einni slegið niður í klöpp eina skammt fyrir ofan bæi í Skorradal og hitinn verið svo mikill að klöppin hafði rifnað stórkostlega. Eins og geta má nærri hafa hagar verið með afbrigðum. Eigi að síður hafa hey gefist alt að meðallagi, því þegar jörð er auð og þyrringar ganga, verður beitin létt, og þarf þá að bæta hana upp með þeim mun meiri heygjöf. Þegar á allt er litið verður það víst almannarómur, að þessi vetur hafi verið með þeim allra bestu, sem yfir landið hafa gengið. Sumarið ríður eigi síður vel í garð og gefur góðar vonir.
Ekki voru hornstrendingar alveg sammála, enda austan- og norðaustanáttin annars eðlis þar um slóðir heldur en í Borgarfirðinum - 8. júní birti Þjóðviljinn bréf þaðan sem dagsett er 26. maí:
Veturinn var hér mjög harður og snjóamikill, með feiknamikilli fannfergju og austan- og norðaustanstormum, frá febrúarbyrjun fram í apríl og mátti heita, að menn fengju aldrei bjartan dag. Um miðjan apríl skipti um veðráttu, og má heita, að síðan hafi verið öndvegistíð, enda jörðin farin að grænka.
Vélbátur úr Reykjavík fórst í austanroki aðfaranótt 31. maí og með honum fjórir menn. Vestri segir þann 1. júní frá vestanroki miklu, þó tjónlitlu, þá sömu nótt. Gæti hvort tveggja staðist hafi snörp lægð farið norður skammt vestur af landinu.
Júní Hagstæð tíð. Mjög þurrt víðast hvar. Fremur hlýtt. Vikan 6. til 12. var sérlega sólrík í Reykjavík.
Norðri og Suðurland segja frá góðri sprettu, en kvarta undan þurrkum:
Suðurland (22. júní): Veðráttan er óminnilega góð, þurrviðri og hlýviðri daglega; grasvöxtur óvanalega góður víðast, svo snemma sumars, einkum á túnum. Þó er framförin lítil á sprettunni nú uppá síðkastið; þurrkarnir of miklir, ekki síst fyrir áveitulausar mýrar í Flóa og á Skeiðum.
Norðri (23. júní): Bestu horfur eru sunnanlands með grassprettu. Norðan- og austanlands voru horfurnar góðar um fardagaleytið, en lítil framför síðan á harðlendi sakir þurrka, en raklend tún spretta vel. Miklir þurrkar hafa verið það sem af er þessum mánuði og varla komið dropi úr lofti.
Norðri segir síðan frá því 1. júlí að nokkuð hafi rignt síðustu daga mánaðarins og horfur á grassprettu séu því betri - og að farið sé að slá í Eyjafirði, fyrst í Kaupangi þann 19. júní.
Júlí Hagstæð tíð, þó sólarlítið vestanlands. Hiti í meðallagi. Kuldakast í lok mánaðar, mikil hlýindi nyrðra og eystra í byrjun hans. Nokkrir óþurrkar gengu framan af mánuði syðra og um vikutíma fyrir miðjan mánuð nyrðra.
Óvenjudjúp lægð sat við landið í kringum þann 10. Um 10 dögum síðar var þrýstingur orðinn sérlega hár. Bátar fórust vestra - trúlega átti illt veður og sjór þátt í því. Vetri segir þann 13. frá óþurrkum:
Tíðarfar hefir verið fremur stormasamt undanfarið og óþurrkar ærið miklir. Taða því hrakist töluvert hjá þeim sem byrjaðir eru á heyskap.
Undir lok júlímánaðar gerði óvenjulega kulda sem stóðu fram eftir ágústmánuði.
Ágúst Hagstæð tíð á Suður- og Vesturlandi, en úrkomusamt norðaustanlands, einkum eftir miðjan mánuð. Sums staðar snjóaði norðanlands og allt suður um mitt Vesturland í byrjun mánaðar. Kalt í veðri og norðaustanlands var óvenjukalt.
Austri birtir þann 10. ágúst frétt af ótíðinni:
Veðráttan hefir verið ömurleg hér á Seyðisfirði og um allt Austurland undanfarinn hálfan mánuð. Setti mikinn snjó niður á fjöllum uppi og niður í byggð. Á Fjarðarheiði varð svo mikill snjór að hann tók hestum á miðjar síður. Muna elstu menn ekki slíka fannkomu á þessum tíma árs. Bjarni Ketilsson póstur sagði oss að þegar hann var á Grímsst0ðum 3. þ.m. þá hefði fé orðið að krafsa sér til beitar kring um túnið á Grímsstöðum á Fjöllum. Hér í firðinum kom svo mikill snjór í fjöll að snjóflóð féll úr Vestdalsfjalli niður i miðjar hlíðar. Mun slíkt: einsdæmi í annálum landsins á þessum tíma árs.
Í Austra þann 24. komu ítarlegri fréttir úr fleiri landshlutum (takið eftir því að hér eru tiltekin nöfn á báðum norðlensku fjallaskögunum):
Óvanalegt norðanhret gekk yfir landið síðustu daga júlímánaðar og fyrstu daga ágústmánaðar. Fyrir sunnan snjóaði í Esjuna 2.- 3. ágúst, og var marga daga ryk mikið á Reykjavíkurg0tum; en einkum kvað mikið að snjókomu á Norðurlandi, svo að víða varð að hætta slætti um tíma (í Þingeyjarsýslum). Sumstaðar fennti fé hrönnum saman (t.d. á Flateyjardal), og fjallavegi gjörði ófæra um stundarsakir. Þórhallur kaupmaður Daníelsson frá Hornafirði var kominn með marga hesta upp á syðri brún Smjörvatnsheiðar, í ófærð mikilli, en varð að snúa par aftur fyrir snjóbyl með frosti, og fór síðan um Möðrudalsfjöll til Akureyrar, án þess að ófærð væri þar til fyrirstöðu nema helst á Vaðlaheiði. Snjórinn náði vestur til Skagafjarðar, og hafði jafnvel sett niður skafla í Blönduhlíð, sem annars er mjög hagsæl á vetrum, en einkum var snjór mikill á Látraskaganum milli Eyjafjarðar og Skjálfanda, og líklega einnig á Fljótaskaga, milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar. Sögðu menn í Norðurlandi, að slíkt áfelli muni eigi hafa komið þar um þetta leyti sumars síðan fyrir hér um bil hálfri öld, eða um 1860 -'70. Lítill snjór kom út við sjó á Langanesi og Melrakkasléttu.
Norðri segir þann 2. ágúst:
Veðrátta um síðustu helgi brá til norðaustan áttar með kulda og nokkurri úrkomu. Snjóaði þá ofan í mið fjöll, en nær því frost um nætur niður við sjó, um 7 stiga hiti á daginn. Nú í tvo sólarhringa hefir verið snjóhríð á fjöllum og til dala en krepjuhríð við sjó. Í nótt hvítnaði ofan í sjó. Í gær og dag ekki hægt að slá í Fnjóskadal fyrir fönn.
Og sunnanlands var einnig talað um óvenjulega kulda, Suðurland segir þann 3.:
Veðrátta s.l. viku hefir verið mjög köld og stöðugir norðanstormar. Snjóveður á Kolviðarhól í nótt og grátt niður undir Kamba.
Vísir trúir þessu varla (frétt 17. ágúst):
Svo kvað hafa snjóað mikið á Norðurlandi í hretinu um daginn, að eigi séu dæmi slíks um hásumar. í Eyjafirði hafði fé fennt talsvert og jafnvel verið grafið úr fönn sumstaðar. Í Skagafirði, Fljótunum og Stíflunni hafði kveðið svo mikið að snjónum, einkum á Stíflunni, að hest fennti, og sauðfé var ekið á sleða á jörð, gengið á skíðum milli bæja og búið að gefa kúm inni í hálfan mánuð. Maður sá, sem fregnir þessar eru hafðar eftir kveðst þó ekki geta ábyrgst áreiðanleika þeirra, en á ferð sinni austan og vestan hafi sér verið sagt þetta afdráttarlaust, sem sannleikur. Trúlega er þó orðum aukið um fannfergið.
Sólarleysið þótti eftirtektarvert - Suðurland segir þann 24. ágúst frá líklegri ástæðu:
Mistur það, sem hefir verið í lofti undanfarið er kennt eldgosum í Ameríku.
Ekki er þetta ólíkleg skýring - eldgosið mikla við Katmaifjall (Novarupta) sem hófst snemma í júní var eitt hið stærsta á allri 20. öld og er blákalt kennt um mikla kulda í Vestur-Evrópu síðari hluta þessa sumars. Ágústmánuður 1912 er í flokki þeirra köldustu sem vitað er um á Bretlandi og voru viðbrigðin frá hlýindunum sumarið áður sérlega mikil.
Suðurland segir í fréttum að utan þann 14. september:
Það hefir gengið á tvennum ósköpunum í sumar með veðráttuna sumstaðar hér í i álfunni. Í Berlín varð hitinn mönnum að bana, en aftur snjóaði á Suður-Frakklandi í ágústmánuði, og um það leyti hafa verið kuldar miklir víða um Norðurálfuna. Geta víðar komið kuldahret á sumri en hér á Íslandi, og höfum vér að þessu sinni eigi ástæðu til að kvarta öðrum fremur, því víða í nálægum löndum hefir kuldinn orðið að meini.
Hundrað árum áður, 1812 hafði gert ámóta kuldakast nyrðra og í stuttum pistli hungurdiska 1. ágúst 2012 eru hitamælingar úr þessum tveimur köstum á Akureyri bornar saman. Ritstjóri hungurdiska minnist þess að hafa séð mynd sem tekin er af þýsku skemmtiferðaskipi á Akureyrarpolli í byrjun ágústmánaðar 1912, óvenjulega fyrir þá sök að Vaðlaheiðin er nær alhvít niður í byggðir - en finnur myndina því miður ekki aftur. Þetta er líklega skipið Victoria Louise sem blöð segja hafa heimsótt landið þessa daga. Eitthvað þótti sumum landinn ágengur við ferðamennina og segir Vísir þetta m.a. í ádrepu þann 6. ágúst:
Sanngjörn viðskipti við ferðamenn laða þá að landinu, og það er oss gróðavegur, en smásmygli og ágengni um skör fram fælir þá frá landinu og gerir oss tjón, auk þess sem það kemur óorði á íslendinginn, og það ætti að vera þjóðmetnaður vor, að halda því nafni í heiðri.
September: Fremur hagstæð tíð. Úrkomusamt á Suður- og Vesturlandi. Fremur hlýtt. Næturfrost snemma í mánuðinum spilltu þó kartöfluuppskeru í Eyjafirði (Norðri 17. október).
En mánuðurinn byrjaði þó illa eystra. Austri segir þann 5.:
Veðráttan hefir verið ömurleg undanfarna viku, stormar og rigningar á degi hverjum og snjór fallið á fjöll og niður í miðjar hlíðir. Skriður hafa fallið allvíða í firðinum og gjört nokkur landsspjöll. Hey hafa og víða skemmst af rigningu og vatnsgangi.
Suðurland segir þann 28. september:
Veðráttan hér eystra [þ.e. austanfjalls] votviðrasöm, en þó oftast hægviðri og fremur hlýtt. Sumarið hefir yfir höfuð verið hér hið ákjósanlegasta. Heyfengur víðast ágætur. Kvartað er þó um grasleysi á áveitulausum mýrum, t.d. á Skeiðum. Þeir Skeiðamenn þurfa að geta beislað Þjórsá, það verk tæplega svo torvelt sem Talbitzer gaf i skyn. Um uppskeru úr görðum er lítið frétt, en hér í grennd er hún ágæt, nema í sandgörðum sumum vegna ofþurrka.
Október Ókyrrt veðurlag, talið óhagstætt suðvestanlands, en skárra norðaustanlands. Fremur hlýtt.
Fréttir blaða nefna votviðri, storma og rigningar stuttaralega - ekki tjón. Getið er mikils þrumuveðurs bæði 11. og 13. - en sumarveðráttu nyrðra.
Nóvember Fremur umhleypingasöm og óhagstæð tíð. Fremur kalt. Mjög hlýtt eystra þann 5. Mjög kalt í lok mánaðar.
Mjög illviðrasamt var dagana 6. til 11. Skaðar urðu víða. Þann 6. var mikið vestanveður, en þann 9. snerist vindátt til norðurs. Tungl var nýtt þann 9. og því stórstreymt í norðanveðrinu.
Vestri segir frá þann 9.:
Þrjá botnverpara rak í land á Önundarfirði i veðrinu 6. þ.m. Einn náði sér þegar fram og lagði til hafs. Annar náði sér einnig fram og hafði brotnað á honum öxullinn. Þann þriðja tók björgunarskipið Geir fram í gærkveldi og er hann allmikið brotinn. Er sagt að það muni fara með hann til Reykjavíkur. Ýmsar skemmdir urðu ofveðri þessu í Önundarfirði. Þak fauk af hlöðu hjá Kristjáni Jóhannessyni í Hjarðardal. Bær Þorvaldar Þorvaldssonar á Efstabóli brotnaði allur og skekktist, fjárhús fauk á Kirkjubóli og þakið fauk af fóðurforðabúrinu í Firðinum. Ofsaveður var hér í bænum [Ísafirði] og grenndinni 6. þ.m. og urðu nokkrar skemmdir á bátum o.fl. Mun veður þetta hafa náð yfir allt land. Yfir höfuð hefir tíðin verið stormasöm þessa viku.
Austri segir frá þann 16.:
Ofsaveður með fannkomu og nokkru frosti gjörði s.1. laugardagskvöld [9.] og hélst það að mestu þar til á mánudag. Skaðar urðu nokkrir af veðri þessu hér í bænum [Seyðisfirði]. Ljósmyndaskúr Brynjólfs Sigurðssonar á Búðareyrarvegi fauk af grunninum og brotnaði í spón, og ljósmyndaáhöld er inni voru eyðilögðust að mestu. Ennfremur fauk þak af íbúðarhúsi Karls Jóhannssonar ökumanns, og sími slitnaði á nokkrum stöðum. ... Frá Vopnafirði er oss símað, að maður, sem kom þangað norðan frá Þórshöfn í gær, hafi sagt, að óveðrið sem geisaði um s.1. helgi, hafi verið feykilega hart á Langanesi og Ströndum, og brim og stórflóð meira en elstu menn muna eftir. Skaðar urðu þar því miklir. Mestir urðu þeir á Læknisstöðum á Langanesi, þar braut brimið fjárhús, smiðju, hálfa heyhlöðu og fjós; i fjósinu voru 3 kýr, og náðist aðeins 1 þeirra lifandi. Hafa menn eigi sögur af að brim hafi áður gengið þar svo hátt á land. Í Þórshöfn brotnuðu 2 smábátar og 2 uppskipunarbátar. Í Gunnólfsvík fórst 20 fjár í sjóinn. A Lindarbrekku í Bakkafirði missti bóndinn þar, Jóbann Bjarnason, 20 kindur, i brimið, af 27, er hann átti alls. Á fleiri bæjum i Langanesi og Ströndum höfðu nokkrar kindur farist í sjóinn. Heyrst hafði ennfremur, að vitarnir á Rifstanga, og Langanesi hefðu skemmst í ofsaveðri þessu.
Norðri segir frá sama veðri þann 19. (við styttum frásögnina nokkuð til að forðast endurtekningar):
Norðan-stórveður geisaði yfir Norður- og Austurland um fyrri helgi. Var þá óvanalega mikið flóð, sem gerði skaða á einum bæ á Langanesi og ef til vill víðar. Í Krossanesbót hér fyrir norðan Oddeyrina lágu nokkur þilskip, sem áttu að liggja þar í vetur. Þrjú af þessum skipum fórust í veðrinu. 1. Þilskipið Lína, eign síldarbræðslufélagsins í Krossanesi. Skip þetta var stórt uppgjafahafskip, sem um nokkur ár hafði legið á Siglufirði og Eyjafirði og var notað til síldarsöltunar á sumrum. 2. Samson, stór fiskiveiðakúttari, eign Ásgeirs kaupmanns Péturssonar. hann rakst á annað skip og brotnaði svo að hann sökk. Samson var með stærri fiskiskipunum hér á Eyjafirði ... 3. skipið hét Fremad fiskiveiðakúttari sem Snorri kaupmaður Jónsson átti. Hafði það skip mest verið haft til flutninga síðustu ár. ... Sumstaðar höfðu orðið skaðar á bátum hér við fjörðinn. Gjallarhorn skýrir svo frá skemmdum á Siglufirði og Sauðárkrók: Þar gekk svo mikil flóðbylgja á land að kjallara fyllti undir mörgum húsum í báðum stöðum og urðu ýmsar skemmdir við það, matvæli eyðilögðust og eldiviður blotnaði og skemmdist ... Elstu menn á Langanesi segjast eigi muna annað eins veður áður eða slíkt brimrót. ... Á Austfjörðum varð veðrið fyrir sunnan Seyðisfjörð ekki eins ofsalegt og hér nyrðra, enda urðu þar engar teljandi skemmdir. Á Mjóafirði, Norðfirði, Eskifirði og Fáskrúðsfirði lágu flestir mótorbátar á höfnum í veðrinu því vertíð var þar eigi lokið, en þá sakaði ekki. Þeir liggja fyrir tveim festum og hafa góð legufæri enda eru flestir bátar þar óvátryggðir. Á Norðfirði lá í veðrinu norskur seglkúttari, ... Þegar veðrið var sem harðast missti skipið annað akkerið með festi og rak þá með einu akkeri upp undir fjöru og festist þar. Á því reki braut skipið borð á mótorbát Sigfúsar kaupmanns Sveinssonar. Á mánudagskvöldið [11.] fóru allir menn úr skipinu í land, mun hafa þótt ótryggilegt að hafast við í því um nóttina, því engu mátti muna að skipið tæki niðri ef það ræki nær landi, og legufæri þótt ótrygg. Það þótti sjógörpum Norðfirðinga lítilmannlegt að yfirgefa skipið og töldu það vonarpening þar sem það lá mannlaust hvassviðri fyrir einu akkeri upp við brimfjöru. Mönnuðu þeir því tvo mótorbáta og tóku skipið og lögðu því á góðan stað á höfninni við tvö akkeri (lánuðu því sjálfir annað). Á meðan þetta gerðist var skipstjóri í landi. Skipið afhendu þeir skipstjóra um morguninn en kröfðust að fá að minnsta kosti 1/7 af verði skips og farms fyrir handarvikið. Réttarpróf var haldið á Seyðisfirði út af þessu máli og mun að líkindum afgert í Noregi.
Þann 23. og 24. gerði hríðarveður. Þá segir Ingólfur (3. desember) að nærfellt 30 kindur hafi fari í fönn á flestum bæjum í Norðurárdal í Borgarfirði. Sömuleiðis segir að um sextíu sauðkindur hafi flætt út í vesturbænum í Reykjavík á dögunum og að flestar hafi rekið vestur á Mýrar. Þetta virðist hafa verið útsynningshryðja.
Desember: Þurrviðrasamt lengst af á Suður- og Vesturlandi, en snjókomur nyrðra. Sunnlendingar sluppu þó ekki við hríð. Hægviðrasamt var talið og fremur kalt var í veðri.
Þann 15. varð stórbruni á Akureyri. Tólf hús brunnu, þó aðeins ein íbúð. Þó blöðin segi flest húsanna hafa verið léleg og gömul dönsk verslunarhús er ljóst að mikill menningarskaði hefur hér orðið.
Suðurland segir frá snjókomu í pistli þann 21.:
Snjókoma mikil hefir verið hér undanfarið, er nú allt hér frá fjöru til fjallatinda hulið þykkri fannbreiðu. Mun nú allstaðar hér i sveitum haglaust með öllu. Frost hefir og verið allhart þessa viku.
Þann 23. desember birtir Ingólfur frétt af hríðarveðri á dögunum:
Í hríðinni á dögunum fennti fé víða kringum Hafnarfjörð og suður í Hraunum. Á Setbergi hafði fennt mestallt féð. Margt af því hefir fundist aftur lifandi í fönn, en margt vantar. Þessa dágana hafa menn enn verið að draga lifandi kindur úr fönn.
Ekki eru hér dagsetningar á þessum hríðum - en fyrst var útsynningur sem snerist upp í hvassa austanátt þ.19. og líklega hefur snjóað mjög í henni.
Þjóðviljinn segir þann 31. desember:
Stillviðri, og frost nokkur um jólin, og veðrið því eigi hvað síst mjög ákjósanlegt fyrir fólkið í sveitinni, er lyft hefir sér upp og farið til kirkjunnar.
Vestri segir frá sama dag:
Hvít jól og björt voru nú í ár. Alt af gott veður og tunglsljós svo glatt að næturnar voru næstum jafnbjartar og dagurinn. Á sjó hefir ekki verið farið síðan á þorláksmessu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 114
- Sl. sólarhring: 184
- Sl. viku: 2436
- Frá upphafi: 2413870
Annað
- Innlit í dag: 109
- Innlit sl. viku: 2250
- Gestir í dag: 102
- IP-tölur í dag: 101
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.