Meira af helgarkuldanum(?)

Reiknimiðstöðvar halda sig enn við helgarkulda og gefa lítið eftir. Laugardagurinn (25. apríl) á að verða kaldastur að sögn. - Það verður að teljast trúlegt - en við gefum samt ekki upp alla von með að spárnar reynist taka of djúpt í árinni. 

Það er ástandinu talsvert til málsbóta að vindur verður vonandi hóflegur - og sömuleiðis að sólin fái að sýna sig. Það munar verulega um hana. Sólarleysi er ávísun á frost allan sólarhringinn, líka á Suðurlandi - og það er of mikið af því góða á þessum árstíma. Það gerist þó endrum og sinnum í síðasta þriðjungi aprílmánaðar - en samt ekki síðan 1983 í Reykjavík, þá var hámarkshiti þess 22. aðeins -1,5 stig, enn „betur“ gerði 29. apríl 1975, þá fór hitinn ekki yfir -2,7 stig, og 23. apríl 1887 var hámarkshitinn -8,0 stig.

Þótt ekki sé beinlínis spáð hlýindum eftir laugardaginn - fer hiti þá samt upp á við - mesti kuldinn verður kominn hjá. 

En lítum á spákortin. Fyrst er það sjávarmálsspá evrópureiknimiðstöðvarinnar kl. 18 á laugardag (25. apríl).

w-blogg220415a

Lægð austur við Noreg og hæð yfir Grænlandi. Við vitum að það táknar norðanátt. Jafnþrýstilínur eru settar á fjórða hvert hPa. Munurinn yfir landið, frá Vestfjörðum til Suðausturlands er um 10 hPa - svo ekki verður vindur alls staðar hægur og þægur. 

Græn úrkomuslikja liggur yfir Norðurlandi öllu - ætli það séu ekki norðanélin hefðbundnu? Á kortinu eru einnig jafnhitalínur í 850 hPa - strikaðar. Það er -15 stiga línan sem liggur um landið sunnanvert. Við flettum upp -15 stigum í 850 hPa yfir Keflavíkurflugvelli síðasta þriðjung aprílmánaðar síðustu 64 ára og finnum 13 athuganir, 6 aðskilin tilvik - ekkert yngra en 21. apríl 1983, en 1982, 1979, 1975, 1969 og 1959. 

Lægsta talan er -17,9 stig, 28. apríl 1975 - einmitt dagurinn þegar hámarkshiti í Reykjavík var -2,7 stig (og minnst var á hér að ofan). Litlu munar að 22. apríl 1994 komist á listann, þá var frostið í 850 hPa yfir Keflavík -14,6 stig. 

Á kortinu hér að neðan er hita yfir Keflavíkurflugvelli spáð -15 stig á laugardaginn. Nú er minna gert af háloftaathugunum heldur en áður var og spurning hvort við missum af athugun á laugardaginn kemur. 

w-blogg220415b

Kortið gildir kl. 18 á laugardaginn - eins og það fyrra - en sýnir nú 850 hPa hitann í lit en jafnþykktarlínur eru heildregnar. Átján stiga frosti er spáð í 850 hPa yfir Vestfjörðum - og það er 4980 metra jafnþykktarlínan sem snertir Vestfirðina. Yfir miðju landi er þykktin á kortinu um 5030 metrar. 

Leit í endurgreiningarskrá að lægsta gildi sem finnst yfir miðju landi í síðasta þriðjungi aprílmánaðar gefur töluna 5065 metra - það var 21. apríl 1949 - sumardagurinn fyrsti það ár. Daginn áður lentu 2 til 3 hundruð manns í hrakningum í hríðarbyl á Hellisheiði. Þann 26. apríl 1919 var þykktin yfir miðju landi að sögn 5070 metrar - OG - þann 30. apríl 2013 var þykktin yfir miðju landi líka 5070 metrar - hverjir skyldu muna það?

Hungurdiskar fjölluðu auðvitað um atburðinn 30. apríl 2013 á sínum tíma. Þar má sjá þykktarspá fyrir þann dag og að kuldapollurinn nú er nokkru snarpari - en líka lengra í framtíðinni. Pollurinn 2013 féll svo „heppilega“ í mánaðamótin að landslágmarksmet maímánaðar féllu. Um það var líka fjallað á hungurdiskum.  

En látum gott heita að sinni með von um að kuldaspár bregðist - til þess er enn nægur tími. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Norska stöðin (yr.no) spáir eindregnum kuldakafla út mánuðinn. Trausti bendir á hér að ofan að slíkur kuldi á þessu árstíma hafi ekki komið síðan 1983 en hafi nokkrum sinnum komið fyrir á "litlu ísöldinni" (1965-1995) eða árin 1969, 1975, 1979, 1982 og 1983.
Það bendir til þess að við séum að upplifa nýtt kuldaskeið eins og Páll Bergþórsson hefur verið að spá undanfarið. A.m.k. hafa fjórir síðustu mánuðir (des.-mars) verið óvenju kaldir, reyndar fimm af síðustu sex.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 22.4.2015 kl. 08:02

2 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Torfi, Litla ísöldin var mun fyrr - oft er talað um árin 1450-1900.

Ég skil annars ekki hvernig þú getur eilíft talað um nýtt kuldaskeið þegar hitinn er enn hár og langt í frá farinn að nálgast kulda þeirra ára sem þú nefnir. Nýbirt frétt á heimasíðu Veðurstofunnar sýnir að hitinn hafi verið yfir meðallagi í vetur (þó aðeins undir meðaltali síðustu 10 ára á suður og vesturlandi). Á Akureyri hefur vetrarhitinn einungis einu sinni verið hærri síðastliðin tíu ár en í vetur, það var árið 2012 og síðasti vetur jarfnheitur og nú. Þannig að það þarf ansi góðan vilja til að telja sig trú um að það sé runnið upp eitthvað kuldaskeið. 

Ég veit að við erum að tala hérna um staðbundinn hita, þ.e. á Íslandi, en það er kannski rétt að benda þér á að hnattrænn hiti er í hæstu hæðum og því er ljóst að allar hitasveiflur niður á við, hér á landi (ef þær verða einhvern tíma) eru annað hvort staðbundnar sveiflur eða afleiðing af breyttum aðstæðum vegna hnattrænnar hlýnunnar - enda spá mörg loftslagslíkön því að áhrifin af hnattænnni hlýnun verði einna minnst hér á landi.

Höskuldur Búi Jónsson, 22.4.2015 kl. 13:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 31
  • Sl. sólarhring: 128
  • Sl. viku: 2478
  • Frá upphafi: 2434588

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 2202
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband