Af fáeinum keðjumeðaltölum hita (endurtekið efni)

Við skulum nú rifja upp nokkur keðjumeðaltöl hita. Fyrst eru það 12-mánaða meðaltöl Reykjavíkur og Akureyrar síðustu 15 árin rúm en líka 120- og 360-mánaða keðjumeðaltöl Reykjavíkurhitans. Allt er þetta endurtekið efni hér á hungurdiskum (nema allra nýjustu tölurnar). 

Byrjum á 12-mánaða keðjumeðaltölum áranna frá 1999 til septemberloka í ár. Fyrst Reykjavík.

w-blogg301014a 

Tólf meðaltöl reiknast á hverju ári, ártalið er merkt við enda ársins, meðalhita mánaðanna janúar til desember. Síðasta talan á við um október 2013 til september 2014. Hlýindin á árunum 2002 til 2004 vekja alltaf athygli þegar þessi mynd er sýnd.

Næsta mynd sýnir það sama fyrir Akureyri.

w-blogg301014b 

Hún er nærri því alveg eins og Reykjavíkurmyndin - nema hvað árið í ár er komið upp fyrir allt nema efsta toppinn 2003. 

En þetta er auðvitað aðeins bútur af heildarmynd mælitímabilsins. Næsta mynd sýnir 120-mánaða hitameðaltöl Reykjavíkur.

w-blogg301014c

Hér sjást hlýndi fyrstu ára 21. aldarinnar sérlega vel. Ekkert lát er enn á þeim. Við megum taka eftir því að hlýnunin frá neðsta 10-ára botninum um 1980 og upp á toppinn eru um 1,6 stig - á 30 árum. Ef svona heldur áfram myndi hitinn um næstu aldamót (2100) vera kominn upp fyrir 10 stig. Hverjir vilja taka mark á því? - Hlýnunin mikla á 3. áratug 20. aldar var orðin um 1,2 stig áður en sveigði til flatneskju - en sú flatneskja stóð í um 30 ár. Komi flatneskja nú - skyldi hún líka standa í 30 ár? - Og hvað svo?

Síðasta myndin sýnir 360-mánaða meðaltölin á sama hátt.

w-blogg301014d

Síðasta 30-ára lágmark var um 1990 (hitti vel í meðaltalið 1961 til 1990 - jafnvel og meðaltalið 1931 til 1960 hitti vel í næsta 30-ára hámark á undan). Hlýnunin síðan er um 0,6 stig (á 25 árum). Við skulum ekkert vera að framlengja hana hér - en gerið það gjarnan í huganum. 

Það hlýnar samfellt frá upphafi línuritsins fram undir 1960 - en greinilegur vendipunktur er samt um 1920 - þá bætir mjög í hlýnunarhraðann. Árin 25 frá 1920 til 1945 hlýnar um 0,8 stig eða svo - og síðan um 0,2 stig eftir það.

Hlýnunin frá upphafi fram til kalda lágmarksins 1990 er um 0,6 stig, á 100 árum. Er það hin undirliggjandi hlýnun?

Minnt er á fjölda eldri pistla á hungurdiskum um nákvæmlega sama efni - í þeim má finna frekari vangaveltur og þankaþanka. Sá nýjasti er líklega sá sem færður er á 1. júní.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Málið er auðvitað það að þarna byrjar þú á því að miða við mesta kuldatíma sögunnar, þ.e. litlu ísöldina sem var hvað verst um 1880. Það skekkir myndina mjög mikið að ekki sé hægt að byrja fyrr, en er skiljanlegt því veðurmælingar hófust ekki fyrr en þá. Vegna þessara annmarka færðu miklu meira stígandi kúrvu en er í raun. T.d. er almennt talað um hnattræna hlýnun upp á 0,9 stig á rúmum hundrað árum en þú færð töluna 1,6-1,8.

Kannski er réttasta grafið hjá þér þetta efsta en það sýnir aðeins 0,1 stiga hlýnun frá árinu 1999 til ársins í ár.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 30.10.2014 kl. 08:31

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Góðan dag Trausti.

Það er eftirtektarvert að á næst-neðstu myndinni er nánast sama hækkun hitastigs og sami hraði á hækkun ~ 1920-1930  og undanfarin ~20 ár. Ef eitthvað er þá hækkar hitinn hraðar á fyrra tímabilinu. Á neðstu 360 mánaða keðjumeðaltalsmyndinni er mesta hækkunin á tímabilinu ~1890-1960.

Bendir þetta ekki til þess að "hin undirliggjandi hlýnun" sem þú minnist á sé að mestu leyti af völdum náttúrunnar?  Heimurinn er (sem betur fer) að hlýna eftir hina svokölluðu Litlu ísöld sem lauk ekki fyrr en um það bil sem tveir neðstu ferlarnir byrja?

Með góðri kveðju,




Ágúst H Bjarnason, 30.10.2014 kl. 09:17

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Torfi. Mér dettur ekki til hugar í raun og veru að halda því fram að munurinn á upphafi og enda línuritananna sé hin „undirliggjandi“ hlýnun. Hins vegar hef ég oftast talið að munurinn frá kuldanum á 19. öld og yfir í kuldatímabilið á þeirri 20. sé nær því að vera það. Svo vill til að munurinn á hámörkum hlýskeiða 19. og 20. alda gefur svipaða hlýnun.

 Ágúst. Það má túlka myndir af þessu tagi á ýmsa vegu. Eins og fjallað er um í tilvitnuðum pistli 1. júní finnst mér eðlilegt að skýra viðvarandi langtímahlýnun síðustu 200 ára með breytingum á geislunareiginleikum lofthjúpsins - einföld skýring og snyrtileg - sú langeinfaldasta á boðstólum. Það eitt og sér bendir til þess að hún sé sú rétta. Sé hún rétt er næmi veðurfars fyrir breytingum af þessu tagi býsna mikið. Á þessum timakvarða er sömuleiðis hugsanlegt að breytingar á stuttbylgjuendurskinshlutfalli jarðar komi einnig við sögu. Stór hluti af breytingum á hitafari frá ári til árs er vegna minniháttar tilfærslna í bylgjumynstri vestanvindabeltisins. Áratugasveiflurnar eru hins vegar lítt skýrðar. Um það var líka fjallað í tilvitnuðum bloggpistli 1. júní og einnig í pistli frá 4. október.

http://trj.blog.is/blog/trj/entry/1374013/

Við getum aldrei gert kröfu til þess að eingilt samband sé frá ári til árs eða áratug til áratugar á milli aukinna gróðurhúsaáhrifa og hitafars, hvorki staðbundið né á heimsvísu. - Meginmálið er þó að við erum sífellt að bæta í einangrun „hússins“ - hún „batnar“ nú sem aldrei fyrr. Það þýðir að verði skyndileg kólnun í lofthjúpnum af einhverjum ótilgreindum ástæðum er slík kólnun mun fljótari að jafna sig heldur en væri án þeirrar auknu einangrunar sem mannkynið eitt hefur lagt til. - Nú, sumir segja að Litla Ísöld (sé eitthvað svoleiðis til) hafi orðið til í tveimur áföngum - m.a. af mannavöldum, vegna mannrænna breytinga á efnasamsetningu lofthjúpsins og hins vegar vegna mannrænna breytinga á endurskinshlutfalli. Ekki samþykkja allir þær hugmyndir - en séu þær réttar er ljóst að næmi hitafars lofthjúpsins gagnvart þessum breytingum er mjög mikið - óþægilega mikið. Hin mikla undirliggjandi hlýnun hér á landi síðustu 200 ár bendir líka til hins sama.

Í pistlinum frá 1. júní reiknast undirliggjandi hlýnun um 1,6 stig síðustu 200 ár, sé hún dregin frá hita hvers árs og áratugasveiflur reiknaðar á grundvelli leitnilausa hitans sést að spönn áratugssveiflna er um 1,5 stig - en 1,0 stig fyrir þrjátíu ára sveiflur. Þær eru sum sé álíka miklar og 200 ára leitni og geta því falið hana alveg tímabundið - jafnvel þótt hún haldi sínu striki sem fyrr. Á heimsvísu eru sveiflurnar auðvitað minni - býsna stórar samt - en þær eru samt fyrir hendi. Við þekkjum undirliggjandi hlýnun á heimsvísu ekki í full 200 ár - en líklega er hún um 1,2 stig. Mismunur hlýnunarinnar hér og þeirrar í heiminum gæti t.d. legið í minnkandi hafísútbreiðslu hér við land. Það er í tísku um þessar mundir að reyna að reikna næmnina niður - en sannleikurinn er sá að allir þeir reikningar notast við stutt tímabil - og/eða vafasama reikninga ofstilltra líkana.

Trausti Jónsson, 30.10.2014 kl. 13:27

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Torfi. Leitnilínan sem sést á efstu myndinni (strikalínan) er reiknuð út frá öllu tímabilinu (1870 til 2014) og sýnir um 1,5 stiga hlýnun frá 1870, rétt tæpt 0,1 stig á áratug. Leitni síðustu 15 ára var ekki reiknuð hér. Hún hefur verið reiknuð áður á hungurdiskum t.d.

http://trj.blog.is/blog/trj/entry/1279744/

Rétt er að minna lesendur á að athugasemdir við bloggfærslur hungurdiska eru aðeins leyfðar í sólarhring frá birtingu pistla. En öllum er frjálst að halda þeim áfram á fjasbókarsíðu hungurdiska - meðlimir hópsins geta meira að segja sett þar inn eigin pistla til rökstuðnings sínu máli (svo lengi sem þeir eru lausir við persónulegan dónaskap við aðra lesendur).

Sömuleiðis eru til á fjasbók hóparnir fimbulvetur og svækjusumar sem einnig taka við athugasemdum - þeir verða opnaðir öllum fljótlega - fylgist með. Fleiri hópar eru þar sömuleiðis - en án afskipta ritstjóra h. 

Trausti Jónsson, 30.10.2014 kl. 15:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg141124ii
  • w-blogg141124b
  • w-blogg141124b
  • w-blogg141124a
  • w-blogg141124i

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.11.): 228
  • Sl. sólarhring: 554
  • Sl. viku: 2590
  • Frá upphafi: 2410892

Annað

  • Innlit í dag: 192
  • Innlit sl. viku: 2275
  • Gestir í dag: 187
  • IP-tölur í dag: 182

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband