Hvasst í háloftunum

Nú er hvasst í háloftunum yfir landinu - miðað við árstíma. Tveir litlir, en snarpir kuldapollar eru að fara til austurs fyrir norðan land, sá fyrri í dag (föstudag 3.júní), en sá síðari á sunnudaginn. Öflugur hæðarhryggur er hins vegar fyrir sunnan land og virðist hann ætla að halda meginkuldanum frá landinu - að mestu. Hryggurinn kemur svo yfir landið á mánudaginn - en slaknar jafnframt. 

Á hádegi í dag mældist vindur í 500 hPa yfir Keflavíkurflugvelli 37 m/s - og verður e.t.v. heldur meiri þegar mælt verður í kvöld. Spá evrópureiknimiðstöðvarinnar gerir ráð fyrir að vindur í 500 hPa fari í um 50 m/s yfir Snæfellsnesi og Breiðafirði í kvöld. Þetta gefur tilefni til að gramsa í gögnum og spyrja hver sé mesti vindur sem mælst hefur yfir Keflavík í júní - og hvort vindur dagsins sé óvenjulegur. 

Í ljós kemur að við eigum tvö dæmi þess að vindur í 500 hPa hafi náð 60 m/s yfir Keflavík í júní. Langt er orðið síðan. Fyrra skiptið var 23. júní 1953, en þá var vindur af suðsuðaustri. Ekki fréttist af neinu tjóni á landinu, en gríðarmikið rigndi á Suðausturlandi. Síðara tilvikið var 13. júní 1959. Þá var vindur af vestsuðvestri, svipað og nú (og í öllum öðrum tilvikum sem hér er minnst á). Í því tilviki fylgdu veruleg leiðindi veðrinu - eins og bestupplýstu veðurnörd muna (auðvitað) - og stóðu í marga daga. 

Hæsta talan frá síðari árum er 49,9 m/s sem mældust í 500 hPa yfir Keflavík þann 8. júní árið 2015. Óttalega leiðinlegt veður (og minnst á það í stuttum pistli hungurdiska). Svipaður vindhraði (47,7 m/s) mældist yfir Keflavík 25.júní 2018 og veðrið þá daga fékk líka smáumfjöllun á vettvangi hungurdiska (bæði fyrir, og eftir). Næst á eftir, neðar á metalistanum eru svo tilvik frá 1992, 1962 og 1988, öll með vindhraða yfir 45 m/s í 500 hPa og öll tengd leiðindum af ýmsu tagi. - En við getum huggað okkur við að tilvikið nú er heldur vægara - og kuldapollarnir tveir ekki eins afgerandi kerfi og þau sem talin hafa verið upp. 

w-blogg030622a

Hér má sjá sunnudagskuldapollinn, kort evrópureiknimiðstöðvarinnar gildir kl.15 síðdegis á sunnudag fyrir 500 hPa-flötinn.. Hringur er utan um blett þar sem vindur er 50 m/s. Vindur yfir Keflavík er talsvert minni. Þó ekki sé gert ráð fyrir sérlega miklum vindi í mannheimum er samt fulla ástæða fyrir ferðalanga á landi og á sjó að gefa veðri og spám gaum um helgina. 

Viðbót: Að kvöldi 3. júní mældist vindhraði í 500 hPa 47,9 m/s yfir Keflavík. Það er það þriðjamesta sem vitað er um í júnímánuði yfir stöðinni (athuganir að mestu samfelldar frá 1952). 


Bloggfærslur 3. júní 2022

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 40
  • Sl. sólarhring: 62
  • Sl. viku: 1638
  • Frá upphafi: 2350915

Annað

  • Innlit í dag: 38
  • Innlit sl. viku: 1435
  • Gestir í dag: 38
  • IP-tölur í dag: 38

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband