Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Áramót (rétt einu sinni)

Við höfum mörg undanfarin ár alltaf byrjað nýtt ár hér á hungurdiskum með því að líta á ársmeðalhita í Stykkishólmi frá 1798 og áfram. Röðin er nú orðin 226 ára löng. Nokkur óvissa er að sjálfsögðu í tölunum fyrstu hálfa öldina - sérstaklega þó fyrir 1830. En við látum okkur hafa það. Línuritið er að sjálfsögðu mjög líkt línuritum undanfarinna ára.

w-blogg010124a 

Lárétti ásinn sýnir ártöl, en sá lóðrétti hita. Meðalhiti ársins 2023 er lengst til hægri. Reiknaðist 4,3 stig. Það er -0,4 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára og -0,1 stigi neðan við meðallag tímabilsins 1991 til 2020, +0,8 stigum ofan meðallags 1961 til 1990 og +0,2 stigum ofan meðallags 1931-1960, +0,5 stigum ofan við meðallag 20. aldar og +1,4 stig ofan meðallags 19. aldar.

Rauða línan sýnir 10-ára keðjumeðaltöl. Það stendur nú í 4,72 stigum, -0,01 stigi lægra en við síðustu áramót og -0,13 stigum lægra en það var fyrir 5 árum, en +0,30 stigum hærra en það var hæst á hlýskeiðinu fyrir miðja 20. öld.

Græna línan sýnir 30-ára keðjumeðaltal. Það stendur nú í 4,50 stigum og hefur aldrei verið hærra, +0.30 stigum hærra heldur en það varð hæst á hlýskeiðinu mikla á 20.öld - en nú eru rúm 60 ár síðan það reis (tölulega) hæst. Ekki er ólíklegt að 30-ára meðaltalið hækki enn frekar á næstu árum vegna þess að árið 1995 og þau næstu á eftir voru köld. Til að 30-ára meðaltalið hækki marktækt fram yfir 2030 og þar á eftir þarf hins vegar að bæta í hlýnunina - annað hlýnunarþrep þarf að bætast við til að svo megi verða.

Um slíkt vitum við auðvitað ekki, jafnvel þótt hlýnun haldi áfram á heimsvísu. Meðalhlýnunarleitni fyrir allt þetta tímabil er um +0,8°C á öld - en í smáatriðum hefur hún gengið afskaplega rykkjótt fyrir sig. Sé hlýnun reiknuð á milli toppa hlýskeiðanna tveggja (og séum við nú í toppi) fáum við út töluna +0,5°C á öld. Reiknum við hins vegar hlýnun síðustu 40 árin er hún miklu meiri. Um leitnisveiflur var fjallað nokkuð ítarlega í tveimur pistlum á hungurdiskum fyrir um 7 árum. [Hve mikið hefur hlýnað] og [Hve mikið hefur hlýnað - framhald] - þrátt fyrir árin 7 stendur sá texti í öllum aðalatriðum (en ritstjórinn ætti þó e.t.v. að endurnýja hann).

En ritstjóri hungurdiska óskar lesendum og landsmönnum öðrum árs og friðar á nýju ári. Hann heldur vonandi eitthvað áfram að fjalla um veður og veðurfar, þó aldur og þreyta færist óhjákvæmilega yfir (vonandi engar innsláttarvillur hér í tölum að ofan - en sjónin mætti vera betri - en verða leiðréttar hafi þær slæðst inn).


Illviðratíðni undir meðallagi (mestallt árið 2023)

Það sem segir af veðri ársins 2023 nú síðustu dagana verður allt að vera með ákveðnum fyrirvara. Alls konar villur og skekkjur bíða yfirferðar.

Tilfinningin er sú að árið 2023 hafi verið illviðralítið. Ritstjóri hungurdiska telur illviðrin á ýmsa vegu. Sú skilgreining sem hann hefur lengst notað (allt frá árinu 1969) telur þá daga þegar hámarksvindur á fjórðungi veðurstöðva í byggðum landsins hefur náð 20 m/s eða meira. Ekki alveg einhlít skilgreining, en hefur reynst nokkuð vel. Auk þessa má leggja saman hlutfallstölur þessar (og aðra daga) og leika sér með meðaltöl af ýmsu tagi. 

Illviðradagar ársins 2023 reynast vera tíu. Þetta er lítillega undir langtímameðaltali. Það vekur þó athygli á dagalistanum að átta af þessum dögum féllu á tímabilið 22.janúar til og með 13.febrúar - en aðeins tveir utan þess, annar í maí og hinn í október. Þetta rúmlega þriggja vikna tímabil á þorranum má því segja að hafi séð um illviðri ársins. Það versta á þessum mælikvarða gekk yfir þann 11. febrúar, stóð ekki lengi og það næstversta ekki heldur, þann 7.febrúar. Illviðrið slæma í maí gerði þann 23. (eyðilagði lauf og gróður á eftirminnilegan hátt) og það í október gerði þann 10. 

Reikna má einskonar stormdagasummu hvers mánaðar með því að leggja saman hlutfallstölur hvers dags - og reikna síðan mánaðameðaltöl. Kemur þá í ljós árstíðasveifla, stormar eru langalgengastir í desember, janúar og febrúar, ívið sjaldgæfari í mars og nóvember, ámóta algengir í september og apríl, en sjaldgæfastir í júlí, en síðan júní og ágúst. Tíðnin í maí er heldur meiri, en þó er sá mánuður að jafnaði ekki hálfdrættingur á við apríl. 

w-blogg301223a

Hér má sjá hvernig mánuðir ársins 2023 „stóðu sig“ miðað við meðaltal. Sé hlutfallstalan sama sem einn má svo skilja að mánuðurinn hafi verið í meðallagi. Maí sker sig mjög úr, illviðri voru meir en þrefalt tíðari heldur en í meðalári og raunar svipað og um meðaloktóber hafi verið að ræða. Tíðnin í febrúar var einnig talsvert ofan meðallags - en fyrst og fremst af því að fyrri hlutinn „stóð sig svo vel“. Í öllum öðrum mánuðum er stormatíðnin undir meðallagi, en þar sem meðallagið er ekki sérlega vel skilgreint segjum við að janúar, júní, júlí, september og október hafi verið í meðallagi. En fimm mánuðir, þar á meðal nóvember og desember voru sérlega rólegir - stormar aðeins helmingur þess sem vant er.

En þar sem hin stutta illviðrasyrpa skilaði 8 dögum er heildar stormdagatala ársins aðeins lítillega neðan meðallags. 

w-blogg301223b

Þessi mynd hefur sést oft á hungurdiskum áður - en er nú framlengd til dagsins í dag (30. desember 2023). Síðustu ár hafa verið nokkuð hvert á sinn veg. Árið 2022 mjög illviðrasamt, en 2021 sérlega illviðralítið. Enga marktæka langtímaleitni er að sjá, en óreglulega tímabilaskiptingu. 

Þess má geta - svona í framhjáhlaupi og án ábyrgðar - að hiti í byggðum landsins árið 2023 er nú í fjórðaneðsta sæti aldarinnar - það munar að vísu sáralitlu á sætum þarna um kring - 2015 var afgerandi kaldara. Bráðabirgðatölur einstakra spásvæða (enn meiri óvissa og enn ábyrgðarlausara) benda til þess að við Breiðafjörð og á Ströndum og Norðurlandi vestra sé þetta næstkaldasta árið, en við Faxaflóa, á Vestfjörðum, Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum og á Miðhálendinu sé árið í 8. kaldasta sæti - sum sé langt frá því kaldasta. Á flestum spásvæðum var kaldast 2015, en þó var það 2005 á Norðurlandi eystra og Austfjörðum. Hlýjast var ýmist 2003, 2014 eða 2016 - en 2014 á landinu í heild.

Miðað við síðustu tíu ár er kaldast á Torfum í Eyjafirði og á Nautabúi (-0,8 stig neðan meðallags áranna tíu), en hlýjast að tiltölu í Bláfjöllum (+0,3 stig ofan meðallags). Áréttum þó að um bráðabirgðatölur er að ræða.

Við megum líka hafa í huga að næstu 40 árin fyrir aldamót voru aðeins sex ár jafnhlý eða hlýrri en árið 2023 (36 kaldari). Næstu 40 ár þar á undan (1921 til 1960) voru 13 ár hlýrri en 2023 - en 27 kaldari og árin 1881 til 1920 var ekkert ár hlýrra en 2023. - Samkeppni nýja tímans er orðin býsna hörð.

Hugsanlega bætist eitthvað við þennan pistil - 


Enn af spáóróa (skemmtideildin með sýningu)

Nú í kvöld (miðvikudag 27.desember) býður skemmtideild evrópureiknimiðstöðvarinnar upp á atriði sem vonandi tekur ekki upp á því að raungerast - fjórir dagar eru enn í það. Annars hefur tölvuspám farið svo fram á síðustu tímum að maður veit svosem aldrei hvað er skemmtun og hvað er fúlasta alvara. 

Tvisvar á dag reiknar miðstöðin 51 spárunu frá sama athugunartíma, hringlar lítillega í greiningunni og athugar hvað kemur út. Ein spá er alveg hringllaus - sú sem við nær undantekningalaust notum hér á hungurdiskum. Að auki er reiknimiðstöðin þar að auki að fikta við gervigreindarspár sem eru reyndar byggðar á greiningu og eldri gögnum hennar. 

Lítum nú á úrkomuspá fyrir Reykjavík næstu tíu daga, frá hádegi í dag (27.desember) til 6.janúar. 

w-blogg271223a

Á efri hluta myndarinnar má sjá úrkomuspárit fyrir þessa daga. Sýnir úrkomu á 6 klst fresti, Kvarðinn lengst til vinstri sýnir magn í mm. Fyrir neðan er skýringarmynd. Á bakvið hverja súlu (strik) á lárétta ásnum eru 51 spá. Búinn er til listi yfir 6 klukkustunda úrkomu allra spánna á hverjum spátíma og raðað upp eftir magni. Síðan er talið ofan frá - mesta úrkoman fyrst, síðan koll af kolli, fimm úrkomumestu spárnar eru merktar sem strik. Magnið þegar sjötta spáin bætist við breytir strikinu úr svörtu í blátt, þegar svo 13 spár eru komnar inn á listann breikkar strikið og þegar helmingur spánna er kominn er sett strik í bláa litinn.

Svo vill til að flestar spárnar eru að spá lítilli úrkomu í þessu tilviki, helmingsstrikið rétt sést birtast í kringum 1 mm aðfaranótt gamlársdags - annars er úrkoma langoftast engin - nema í um 5 spám. 

Svo vill hins vegar til að „aðalspáin“ - sú óhringlaða - er í þessum úrkomugæfa flokki. Hún er sýnd sérstaklega með blárri línu sem reikar um myndina. Og það ótrúlega er að hún er að sýna samtals meir en 50 mm úrkomu í Reykjavík síðdegis á gamlaársdag og fram undir hádegi á nýársdag. Ef úr yrði myndi nær allt falla sem snjór. 

Kortið sýnir hvað um er að ræða. Örmjótt, nærri kyrrstætt úrkomubelti yfir Suðvesturlandi. Meir en 45 spár sýna hins vegar nær enga úrkomu - við vitum ekki hvort úrkomusvæðið er í þeim spám eða hvort það er þar - en lendir bara annars staðar. 

Þar sem þessi spá er með talsverðum ólíkindum er ákveðin tregða með að trúa henni - en hún er alla vega gott skemmtiatriði í fásinninu. 

Bandaríska spáin er sem stendur þurr í Reykjavík á gamlárskvöld - þótt lægðardrög séu þar á sveimi - eins og verið hefur í flestum spám undanfarna daga. . 


Háloftalægðardrögin bregða á leik

Það er auðvitað argasta öfugmæli að segja að nú sé sumarstaða í háloftunum - því það er ekki þannig. En að hitafari slepptu er styrkur háloftavinda og útlit háloftakerfa ekki ósvipað því sem gerist að sumarlagi. Kerfin eru fremur veik og ekki mjög fyrirferðarmikil. Að sumarlagi geta kerfi sem þessi valdið mikilli óvissu í úrkomuspám - úrkomugæf samvinna getur þá orðið milli úrstreymis í mið- og efri hluta veðrahvolfs og hlýrrar sólvermdar jarðar. Á þessum tíma árs er sólin algjörlega máttlaus hér á landi, en aftur á móti tekur sjórinn þátt í leiknum auk landslags og reyndar geta grunnstæðir kuldapollar landsins einnig komið lítillega við sögu. 

Þessi staða virðist eiga að einkenna veðurlag næstu daga (sé að marka reikninga). Fyrst strax í nótt, en síðan áfram allt þar til á laugardag, að alvöru vetrarlægð gæti komið upp að landinu og hreinsað til - en bandaríska veðurstofan vill bíða enn lengur með það. Ekki rétt að hugsa um slíkt í bili.

En Veðurstofan tekur kerfaleikinn nægilega alvarlega til þess að gefa út gula veðurviðvörun á Suðurlandi á morgun, annan í jólum, vegna ákafrar snjókomu. Rétt að taka mark á henni.

Við lítum á nokkur veðurkort úr safni evrópureiknimiðstöðvarinnar. 

w-blogg251223a

Fyrst verður fyrir valinu kort sem sýnir stöðuna kl.9 í fyrramálið (annan dag jóla). Heildregnar línu sýna sjávarmálþrýsting. Þær eru mjög gisnar þannig að vindur er hvergi mikill nema við Grænlandsströnd, norðvestur af Vestfjörðum. Grænu svæðin sýna úrkomu. Mikill bakki (en ekki fyrirferðarmikill) er yfir landinu suðvestanverðu. Þeir sem rýna í kortið (það skýrist við stækkun) geta greint að spáð er 5 til 10 mm úrkomu á 3 klukkustundum þar sem mest er yfir Hellisheiðarsvæðinu. Spár í hærri upplausn nefna jafnvel enn meiri ákefð, 10 mm á klukkustund. Slík ákefð er fljót að valda umferðarvandræðum. Hins vegar er óvissa mikil í þessum spám, bæði ákefð og staðsetningu hámarksúrkomunnar. 

w-blogg251223b

Þá förum við upp í 925 hPa-flötinn, hann er í um 700 metra hæð. Jafnhæðarlínur liggja mjög svipað og á sjávarmálskortinu, en til viðbótar greinist hitafar mjög vel (litir). Hlýtt loft úr suðri leitar til norðurs rétt við Suðvesturland. Í græna litnum er hiti meiri en -4°C. Það þýðir að niður undir sjávarmáli er hiti ekki fjarri frostmarki - en vel að merkja er trúlega kalt, grunnt lag í allra neðstu lögum. Til að losna við það þarf að hræra. En fleira kemur við sögu.

w-blogg251223c

Nú erum við komin upp í 500 hPa, í rúmlega 5 km hæð yfir sjávarmáli. Heldur er þar kuldalegt, en samt má greina aðstreymi af hlýrra lofti og mjög grenilegt lægðardrag fyrir vestan land (hæðarlínur og vindörvar). Lægðardragið hreyfist til austurs. Á flóknari kortum má sjá að talsvert úrstreymi er á svæðinu, það greiðir mjög fyrir uppstreymi í neðri hluta veðrahvolfs og auðveldar myndun úrkomubakka - og betri skipulagningu á klökkum sem gætu e.t.v. orðið til þegar kalt loft streymir yfir hlýjan sjó. 

w-blogg251223d

Þetta sést líka á 300 hPa-korti (í 8,5 km hæð). Hér sést að lægðardragið í vestri er nokkuð virkt. Hlýjast er vestantil í því - þar er niðurstreymi, en kaldast austan við. Séu nokkur kort skoðuð í röð (á 3 klst. fresti) má sjá að kuldinn austan lægðardragsins breiðist út og vex. Þetta má telja órækt merki bólgu í neðri lögum, loftið nærri veðrahvörfum þvingast upp og kólnar innrænt. Þetta gerist á miklu stærra svæði heldur en úrkomubakkinn á fyrsta kortinu nær yfir - hann er aðeins hluti af miklu stærri atburðarás. 

Hreyfingar bakkans eru harla óljósar, verði hann kyrrstæður getur snjóað mjög mikið, fari hann hratt norðvestur og síðar norður og norðaustur um snjóar víðar, en hvergi mjög mikið. Háloftalægðardragið heldur í fyrstu áfram austur, lægðirnar á Grænlandshafi fara norður fyrir land, en síðan er alldjúp lægð langt suðvestur í hafi sem hindar það að kerfið hreinsist frá landinu. 

Seint á miðvikudag er tillaga reiknimiðstöðvarinnar um 500 hPa-stöðuna þessi (viðbúið að hún verði ekki nákvæmlega svona).

w-blogg251223e

Mikil barátta stendur milli norðan- og sunnanátta yfir landinu miðju - ekki ljóst hvor hefur betur. Lægðin í suðri dælir hlýju lofti til vesturs fyrir sunnan land, en lægðardragið er enn að reyna að koma kaldri stroku suður yfir (en hiti milli kortanna tveggja hefur hækkað um 6 til 8 stig yfir Suðvesturlandi). 

w-blogg251223f

Við sjávarmál er staðan svona. Enn er mikil snjókoma í úrkomubakka yfir landinu (hann hefur endurnýjað sig á einum og hálfum sólarhring) - staða hans og styrkur þó óljós. Kemur hann svo vestur um eða leysist hann upp fram á fimmtudag?

Undanfarinn sólarhring (frá aðfangadegi fram á jóladagskvöld) hafs spár verið með fjölmargar tillögur á lofti um stöðu og styrk bakkans, allt frá smávegis snjókomu víða, upp í hátt í meterssnjó á mjög afmörkuðum svæðum. En bakkinn er þegar orðinn til.

w-blogg251223g

Hér er mynd tekin af veðursjá Veðurstofunnar á Miðnesheiði upp úr kl.22 í kvöld (jóladag). Greinlegur úrkomubakki er úti af Faxaflóa og þokast austur. Annar hluti er suðvestur af Reykjanesi. Geta lesendur auðveldlega fylgst með þróuninni á vef Veðurstofunnar. Ritstjóri hungurdiska hvetur þá áhugasömu til að gera það - og dást jafnframt að sjónarspili náttúrunnar. 


Staða dagsins

Þorkáksmessa hefur verið heldur kuldaleg í ár. Í tilefni af því má kannski rifja upp að fyrir nokkrum árum reiknaði ritstjóri hungurdiska út sér (og einhverjum lesendum) til gamans hversu mikið hver einstakur dagur ársins hefði hlýnað frá því að hitamælingar hófust í Stykkishólmi 1846. Langflestir dagar hafa hlýnað, örfáir kólnað - og Þorkáksmessa langmest. Sömuleiðis er merkilegt að undanfarna áratugi hafa dagarnir fyrir jól að meðaltali verið þeir köldustu á vetrinum (ekki er þó marktækur munur á þeim og fleiri dögum).

Vindur hefur í dag verið öllu meiri en undanfarna daga, þótt ekki sé beinlínis hægt að tala um illviðri. Skafrenningur hefur þó verið sums staðar á vegum og líkur virðast á að heldur herði á vindi og jafnvel úrkomu líka, einkum þó um landið norðvestanvert og er (skammvinn) appelsínugul viðvörun í gildið á Vestfjörðum í fyrramálið. Við skulum líta á stöðuna eins og hún kemur fram á kortum evrópureiknimiðstöðvarinnar nú í kvöld.

w-blogg231223a

Heildregnu línurnar sýna sjávarmálsþrýsting. Alldjúp lægð er á hraðri leið til austurs fyrir sunnan land, en skammt norðvestan við land er lægð eða lægðardrag á leið til vesturs og suðvesturs. Þrýstilínur eru nokkuð þéttar vestan við hana og gengur sá strengur suðvestur um Vestfirði þegar lægðin fer hjá. Hún mun þó að mestu gufa upp yfir landinu - en strengurinn lifir hana. Þegar hann fer hjá snýst vindur úr norðaustri meira í hánorður. Litirnir á myndinni sýna 3 klukkustunda þrýstibreytingar, þeir rauðu fall, en þeir bláu ris - og sýna jafnframt hreyfingar kerfanna. 

Uppi í miðju veðrahvolfi (500 hPa9 er staðan aðeins öðru vísi. Gildistími sá sami og á kortinu að ofan.

w-blogg231223b

Ísland (nokkuð óskýrt) á miðri mynd. Suðvestanátt er á landinu (vindörvar og lega jafnhæðarlína) - alveg öfug við það sem er á kortinu að ofan. Dálítil háloftalægð er við Vestfirði. Henni fylgir mikill kuldi, fjólublái liturinn byrjar hér við -42 stig. Lægðin er á leið til austsuðausturs. Þeir sem skynja veður vel hafa ábyggilega fundið að veðrið í dag hefur verið ólíkt því sem verið hefur undanfarna daga, alla vega um landið vestanvert. Snjó hafur slitið úr lofti við Faxaflóa - jafnvel þótt norðaustanátt sé - slíkt ástand er ekki alveg „eðlilegt“. 

Svo vill til að þetta kuldakerfi er ekki mjög fyrirferðarmikið og ekki sérlega illkynja - en samt á að gefa öllu slíku gaum. Ákveðin alvara á ferð. 

Svo virðist helst að kuldapollarnir stóru ætli enn að halda sig fjarri landinu - kannski senda okkur fáeina afleggjara eins og þann í dag á nokkurra daga fresti. Heimskautaröstin komst nokkuð nærri okkur fyrr í vikunni, en við sluppum samt alveg við öll illindi hennar - þau fór suðaustur á Norðursjó og allt suður í Alpa - og glitský sáust á Ítalíu, sem mun harla óvenjulegt. 

w-blogg231223c

Kortið sýnir stöðuna á norðurhveli eins og evrópureiknimiðstöðin telur hana verða síðdegis á jóladag. Aðeins einn fjólubláan lit er að sjá, dreifðan í línu frá Grænlandi, yfir norðurskautið og til Austur-Síberíu. Kuldapollarnir í veikbyggðara lagi og sá vestari, Stóri-Boli varla svipur hjá sjón. Þrátt fyrir þetta virðumst við samt eiga að vera áfram vetrarmegin í tilverunni, engin hlýindi í sjónmáli - heldur munu skiptast á vægir hæðarhryggir og köld lægðardrög. Rétt að sofna samt ekki á verðinum því hlutir geta gerst mjög hratt. 


Fyrstu 20 dagar desembermánaðar

Meðalhiti fyrstu 20 daga desembermánaðar er +0,2 stig í Reykjavík, -0,8 stigum neðan meðallags sömu daga 1991 til 2020 og -0,5 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Raðast meðalhitinn nú í 15.hlýjasta sæti aldarinnar. Hlýjastir voru þessir sömu dagar 2016, meðalhiti þá +5,6 stig, en kaldastir 2011, meðalhiti þá -2,8 stig. Á langa listanum raðast hiti nú í 78. hlýjasta sæti (af 150). Hlýjast var 2016, en kaldast 1886, meðalhiti þá -5,6 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti nú -3,6 stig það sem af er mánuði. Er það -3,2 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 og -2,8 stig neðan meðallags síðustu tíu ára. Athuga ber að fáeinar athuganir vantar á Akureyri.
 
Á Ströndum og Norðurlandi vestra, og á Norðausturlandi er þetta þriðjakaldasta desemberbyrjun á öldinni, en hlýjast að tiltölu hefur verið á Suðurlandi þar sem meðalhiti er í 14.hlýjasta sæti.
 
Á einstökum veðurstöðvum hefur verið hlýjast að tiltölu á Stórhöfða og í Surtsey, hiti þar +0,6 stig ofan meðallags síðustu tíu ára. Kaldast hefur verið á Sauðárkróksflugvelli og Gauksmýri þar sem hiti hefur verið -3,9 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.
 
Framan af mánuði var sérlega þurrt á Vesturlandi. Nú hefur úrkoman rétt sig af og hefur mælst 56,7 mm í Reykjavík og er það í meðallagi. Á Akureyri hefur enn verið fremur þurrt, þar hafa mælst 19,9 mm sem er innan við helmingur meðallags. Á Dalatanga hafa mælst 25,8 mm og er það innan við þriðjungur meðallags.
 
 
Síðustu 10 daga hefur verið alveg sólarlaust í Reykjavík þannig að sólskinstundir mánaðarins eru enn 22,1. Það er samt um 10 stundum umfram meðallags sömu daga.
 
Í öllum aðalatriðum er ekki annað hægt að segja en að vel hafi farið með veður það sem af er desember, nánast illviðralaust.

Staða dagsins - aðallega glitskýjatengd

Í því sem hér fer á eftir er aðallega fjallað um glitský (perlumóðurský), vetrarský í heiðhvolfinu. Tilefnið er mikil glitskýjasýning á dögunum - og líklega verða sýningarnar fleiri í vikunni (leyfi lægri ský). Skýin sjást best í ljósaskiptunum - en geta í raun verið á lofti allan sólarhringinn.

Árið 2008 skrifaði ritstjóri hungurdiska dálítinn pistil á vef Veðurstofunnar um árstíðasveiflu glitskýja (tíðni þeirra eftir árstímum). Flest af því getur staðið eins og það er - því ekki hefur hann lagt í að framlengja glitskýjadagatalið fram til nútímans - né heldur aftur í tímann (sem full ástæða væri til). Á vef Veðurstofunnar má sömuleiðis finna ágætan pistil Halldórs Björnssonar um glitský almennt (frá 2006). Við vísum til þessara pistla.

Undanfarna daga hefur frést af glitskýjum yfir Norðaustur- og Austurlandi, sömuleiðis yfir Skandinavíu og jafnvel suður á Eistland og England (sem er heldur sjaldgæfara). Eftirminnileg er glitskýjasyrpa í janúar á síðasta ári, þá líka suðvestanlands - þau ský voru svo óvenjuleg að ritstjórinn hikstaði aðeins - og kenndi eldgosinu mikla á Tongaeyjum (og enn heldur hann að sú skýring sé rétt). Hann hefur ekki betur séð en að útlit himins hafi loks jafnað sig nú fyrir fáeinum vikum - og óvíst hvort vatnsgufuauki sá sem gosið kom í heiðhvolfið er þar enn - flæktur í litasýningar (en samt ekki gott að segja). 

Glitský eru aðallega af tveimur gerðum (útlitslega), annars vegar sem bylgjur, en hins vegar breiður. Bylgjuformið er mun algengara, það er hins vegar orðið til á að minnsta kosti tvennan hátt, annars vegar á sama hátt og bylgjuský yfir fjöllum verða til (og eru reyndar vakin af fjallgörðum), en hins vegar þegar mikill ruðningur verður á lofti við veðrahvörf. Þá lyftist allt fyrir ofan mjög skyndilega og kólnar. Lesa má um slíkt tilvik og tilraun til skýringar í fornum pistli hungurdiska

Glitský geta vart orðið til nema hiti fari niður fyrir um -75 stig, helst enn lengra. Þetta getur gerst í kröppum fjallabylgjum niður í 13 til 16 km hæð, en oftast eru skýin ofar. Flestar heimildir nefna meir en 20 km. Þá er þrýstingur komin niður fyrir 50 hPa, aðeins tuttugasta hluta þess sem er við yfirborð. Við horfum hér aðallega á 30 hPa-flötinn í 22 til 23 km hæð. Nútímaháloftaathuganir ná oftast ekki ofar - gerðu það frekar þegar helíum var notað á belgina og sleppingar ekki sjálfvirkar eins og nú er. Nú eru athuganir í 20 hPa og þar fyrir ofan sárafár. Þó tókst að ná í nýtt lágmarkshitamet yfir Keflavíkurflugvelli [-92 stig í 20 hPa, 3.janúar 2020]. 

Stöku sinnum leggjast glitský í breiður (rétt eins og blika og gráblika). Þá er erfiðara að sjá þau - en gerðist þó í sýningunni óvenjulegu í janúar í fyrravetur (2023) og sömuleiðis í mikilli sýningu milli jóla og nýárs 1981. Til að mynda breiður þarf útbreitt, almennt uppstreymi - eða mjög hægan vind og hægfara margra daga kólnun (ekki hefur ritstjórinn slíkt í fingrunum). Einhverjar óformlegar hugmyndir eru uppi um það að slíkum breiðum muni fjölga í heiðhvolfinu þegar það kólnar frekar vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa (já, það hefur raunverulega kólnað). 

Í sjálfu sér ætti glitskýjabólstrum að geta brugðið fyrir í einhverjum ófyrirséðum undantekningartilvikum, en eru samt afskaplega ólíklegir - því loft er svo stöðugt í heiðhvolfinu - bólstrar eru einkennisský óstöðugs lofts. 

Lítum nú á stöðu (morgun-)dagsins:

w-blogg181223a

Spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar gildir um miðnætti á þriðjudagskvöld. Þá er gríðarleg hæð suður í hafi (1052 hPa, mjög óvenjuleg tala á þessum slóðum - erlendir tístarar nefna met). Lægð er við Suður-Grænland, hún myndaðist í Mexíkóflóa fyrir nokkrum dögum og hefur valdið mikilli óvissu í spám. Þegar þetta er skrifað (á mánudagskvöldi) er lægðin yfir Lárentsfljóti á landamærum Kanada og Bandaríkjanna og á miðvikudagskvöld (eftir tvo daga) á hún að vera norður af Færeyjum á leið til suðausturs, ört dýpkandi. Við sleppum bara vel - að því er virðist. 

w-blogg181223b

Þetta kort gildir á sama tíma og hið fyrra (þriðjudagskvöld). Það sýnir hæð veðrahvarfanna (í hPa - því lægri sem tala er því hærri eru veðrahvörfin). Hlýja loftið sem streymir til norðurs austan við hæðina miklu er mun fyrirferðarmeira heldur en loft af norrænum uppruna og lyftir því veðrahvörfunum þegar það ryðst til norðurs og síðan austurs. Veðrahvarfabrattinn er mestur rétt austan við Ísland (hér - á myndinni). Þar lyftist loft mög ört og líklega myndast glitský þar ofan við. Sömuleiðis eru glitský líkleg alls staðar þar sem lóðréttar bylgjur myndast inni á „bláa svæðinu“, t.d. í námunda við Suður-Grænland og þar austur af, sömuleiðis yfir Íslandi á miðvikudag. Þar fyrir ofan er mjög kalt (vegna uppstreymis) - eins og sjá má á næstu mynd.

w-blogg181223c

Hér má sjá hæð 30 hPa-flatarins - enn á þriðjudagskvöld (19.desember) - og sama svæði, Ísland rétt ofan við miðja mynd. Á fjólublái liturinn sýnir hita neðan -82 stiga og sá hvíti neðan -90 stiga, kaldast í bylgjum sem vakna við suðurodda Grænlands. Allt mjög ákjósanlegt fyrir glitský - kannski bæði bylgjur og breiður? Næstu daga er fjólubláa litnum spáð allt suður á Frakkland - þar eru glitský mjög óvenjuleg. 

Þegar norðanáttin tekur við á eftir þessu, lækka veðrahvörfin og draga heiðhvolfsloft niður með sér. Við að streyma niður hlýnar það - en langtímaspár eru auðvitað óvissar.

Hér á eftir kemur efni sem enn færri hafa áhuga á - og enginn þarf að lesa nema áhugasömustu nörd.

w-blogg181223ia

Hér má sjá súlurit sem sýnir fjölda athugana yfir Keflavík þegar hiti var lægri en -78°C í 30 hPa-fletinum á árunum 1973 til 2022. Slíkir dagar fara að detta inn í nóvember, en eru ekki algengir. Fjölgar snögglega í desember, sól er þá alveg horfin af heimskautasvæðinu og heiðhvolfið kólnar nokkuð ört og öflug heiðhvolfslægð myndast. Kringum hana blæs öflug röst, skammdegisröstin (sem við köllum - en á heimsveldismálinu kallast lægðin „stratospheric polar vortex“ - en röstin „polar night jet“ - ein höfuðrastanna þriggja). 

Frá 1. desember og fram í febrúar ríkir hávetur á norðurhveli. Þá renna kuldapollar um veðrahvolfið og hreyfist þeir stóru nægilega hratt yfir geta þeir togað og teygt veðrahvörfin á mjög stórum svæðum - þau trufla aftur heiðhvolfslægðina sem á það þá til að slitna í sundur og brotna. Getur þá orðið til stórkostlegur bylgjugangur með æðisgengnu niðurstreymi sem hitar loftið sem í því lendir. Er þá talað um snögghlýnun í heiðhvolfi. Slíkir stóratburðir í heiðhvolfi - sem veðrahvolfið veldur geta aftur haft áhrif niður í veðrahvolf. Mjög er í tísku þessi árin að fylgjast með þeim atburðum - einkum þó vegna kuldakasta sem stundum verða þá á meginlöndunum (og jafnvel hér á landi) í kjölfarið þegar heimskautaröstin (sem dvelur við veðrahvörfin) raskast og vestanáttin í háloftunum truflast. 

Tíðni glitskýja er í takt við tíðni kulda í heiðhvolfinu - eins og myndin að neðan sýnir (hún hefur ekki verið endurnýjuð nýlega).

w-blogg181223i

Tíðni glitskýja áberandi mest í desember og janúar, nokkur í febrúar, en lítil í nóvember og mars. Í mars er sólin líka farin að hita heiðhvolfið baki brotnu - þar er það einkum óson sem er móttækilegt fyrir geislum hennar. 

w-blogg181223ib

Hér má sjá ártíðasveiflu hitans í 30 hPa yfir Keflavík á árunum 1973 til 2022. Blái ferillinn sýnir meðaltalið. Það fellur ört á haustin, fer niður fyrir -70 stig seint í nóvember og aftur upp fyrir þá tölu snemma í janúar (snögghlýnunaratvik byrja þá að hafa áhrif á meðaltalið). Græni ferillinn sýnir lægsta hita sem mælst hefur hvern almanaksdag á þessu tímabili. Það er um 20. nóvember sem dagar þar sem hiti er undir -78 stigum fara að sjást - og þeir sjást allt fram í marsbyrjun (og hafa aðeins sést síðar í mars). Þetta er einmitt glitskýjatíminn. Rauði ferillinn sýnir hæsta hita hvers almanaksdags. Þar sjáum við að það hefur stöku sinnum gerst að snögghlýnunin hefur hitt á Ísland, hiti hefur komist upp í -20 stig í 30 hPa. Við sjáum að snögghlýnunin á sér eiginlega sérstakt skeið - frá því rétt eftir áramót þar til um mánaðamót febrúar/mars. En þarna er líka slatti af allhlýjum dögum - það eru þeir sem snögghlýnun í fjarska hefur búið til handa okkur - eða þá að við lendum undir syðra jaðri skammdegisrastarinnar þar sem er hlýrra heldur en nær lægðarmiðjunni sjálfri. 

w-blogg181223ic

Síðasta myndin er jafnframt sú flóknasta. Lórétti ásinn sýnir hæð frá sjávarmáli (í hPa). Neðst er þrýstingur í kringum 1000 hPa, er um 500 hPa í 5 km hæð, en efst á myndinni erum við í um 25 km hæð (20 hPa). Neðri lárétti ásinn á við bláu og rauðu strikaferlana. Blái ferillinn sýnir meðalhita í aðskiljanlegri hæð þá daga sem glitský hafa sést hér á landi (1973 til 2004), en sá rauði er meðaltal allra daga á sama tíma árs. Við sjáum að blái ferillinn er kaldari í heiðhvolfinu (ofan við 300 hPa) heldur en sá rauði. Glitskýjadagar eru þar kaldari en aðrir dagar. Neðan veðrahvarfa eru glitskýjadagarnir hins vegar hlýrri (nema alveg niður í 850 hPa-fletinum - þar sem munurinn er enginn). 

Græni ferillinn (efri lárétti kvarðinn) sýnir hitamuninn, sé hann neikvæður eru glitskýjadagar kaldari en aðrir. Við sjáum að það munar um 5 stigum þar sem mest er (í 50 hPa). Í veðrahvörfum er munurinn enginn, en í um 400 hPa (ofarlega í veðrahvolfi) eru glitskýjadagar að jafnaði um 3 stigum hlýrri en aðrir dagar. - Allt er þetta í samræmi við það sem er áður sagt. Hlýindabólga í veðrahvolfi lyftir heiðhvolfinu og það kólnar. 

Fleira kemur reyndar við sögu glitskýjamyndunar - bylgjuskýin þurfa á því að halda að vindátt sé svipuð í veðrahvolfi og heiðhvolfi og vindur hvass. Ekki er alveg víst að allar glitskýjabreiður falli vel að þessu meðaltali - trúlega ekki þær sem myndast vegna útgeislunarkólnunar. Um það ástand munu þó fá dæmi í háloftunum yfir Íslandi - frekar yfir norðurskautssvæðinu. Annars ætti ritstjórinn (fáfræði vegna) ekki að úttala sig allt of mikið um slíkt - en veit þó að ekki er allt sem sýnist í glitskýjagerð. 

Glitský eru mikið sjónarspil náttúrunnar. Ruglist ekki saman við silfurskýin sem helst sjást hér síðustu daga júlímánaðar og fyrri hluta ágúst, þegar rökkva tekur á kvöldin. 


Hálfur desember

Hálfur desember. Meðalhiti í Reykjavík fyrri hluta desember er +0,2 stig, -0,9 stigum undir meðallagi sömu daga 1991 til 2020 og -0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Hitinn raðast nú í 14. hlýjasta sæti aldarinnar (af 23). Á þeim tíma var fyrri hluti desember hlýjastur árið 2016, meðalhiti þá +6,3 stig, kaldastur var hann 2011, meðalhiti þá -3,4 stig. Á langa listanum er hiti nú í 82. sæti (af 150). Hlýjast var 2016, en kaldast 1893, meðalhiti þá -5,9 stig.

Á Akureyri er meðalhiti fyrri hluta desember -4,4 stig er það -4,2 stigum neðan meðallags áranna 1991 til 2020 og -3,3 stig neðan meðallags síðustu tíu ára. Við eigum daglegar hitamælingar á Akureyri aftur til 1936. Á þeim tíma hefur fyrri hluti desember aðeins þrisvar verið kaldari en nú. Það var 1950, 1936 og 2011.

Hita er nokkuð misskipt milli landshluta. Að tiltölu hefur verið hlýjast á Suðausturlandi. Þar raðast hitinn í 14.hlýjasta sæti aldarinnar, en á Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og á Miðhálendinu er fyrri hluti mánaðarins sá næstkaldasti á öldinni.

Miðað við síðustu tíu ár hefur verið hlýjast á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, hiti +0,9 stigum ofan meðallags, en kaldast hefur verið á Sauðárkróksflugvelli þar sem hiti hefur verið -4,8 stig undir tíuárameðaltalinu.

Úrkoma hefur nokkuð rétt úr kútnum um landið sunnanvert síðustu daga. Hún hefur nú mælst 33,4 mm í Reykjavík og er það um þrír-fjórðu hlutar meðallags. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 14,1 mm og er það um 40 prósent meðaltals. Á Dalatanga er úrkoman um þriðjungur meðallags.

Sólskinsstundir hafa mælst 22,1 í Reykjavík og er það um 15 stundum fleiri en í meðalári og það næstmesta frá upphafi mælinga (fleiri stundir mældust sömu daga í fyrra). Á Akureyri hafa stundirnar mælst 1,1 (sem er reyndar ofan meðallags), en alveg sólarlaust er við mælistöðina á Akureyri frá u.þ.b. 8. desember þar til um 4.janúar.

Langtímaveðurspár hafa verið sérlega óvissar undanfarna daga. Veðurkerfi þau sem eiga að ráða veðri hér í næstu viku hafa verið ýmist í ökkla eða eyra og hita- og vindafari hér á landi spáð út og suður. Enn óvissari hafa spár fyrir Skandinavíu verið. Lægðum jafnvel spáð metdjúpum - og sömuleiðis hafa metsterkar hæðir sést í þeim. Það sem líklega veldur allmiklum hluta þessarar óvissu er veðurkerfi sem nú er að verða til suður í Mexíkóflóa.

w-blogg161223a

Hér má sjá spá um stöðuna á hádegi í dag. Kerfið er að verða til. Eftir að það skilar sér úr Flóanum ættu spár að ná mun betri tökum á því og verða áreiðanlegri. Lægðin á að fara til norðausturs með austurströnd Norður-Ameríku og vera komin hingað seint á þriðjudag eða miðvikudag - en hreinast ekki alveg austur af fyrr en á fimmtudag eða föstudag. En enn er óvissa mikil eins og áður sagði. 

 


Hugleiðingar um meðalhita

Það má alltaf búa til einhverja spennu - t.d. um það hvoru megin við 5 stigin meðalhitinn í Reykjavík verður á árinu. Það er tímanna tákn að mörgum finnst talan sú ekki sérlega há, en þeim sömu má benda á að meðalhiti þroskaára jafnaldra ritstjóra hungurdiska (1961 til 1990) var aðeins 4,3 stig og á þeim tíma þóttu 5 stig alveg sérleg hlýindi, meðalhiti ársins náði aðeins þrisvar sinnum 5 stigum [1964, 1972 og 1987] - og fór alveg niður í 2,9 stig (1979). Eftir aldamót hafa hins vegar öll ár nema tvö verið yfir fimm stigunum (2013 og 2015). Stór hluti þjóðarinnar man ekki eftir öðru - og eitthvað innan við fimm stig telst því kalt (í þeirra huga). Þrátt fyrir greinilega hlýnun halda hitasveiflur milli ára auðvitað áfram - eins og ekkert sé. Við getum því hæglega fengið yfir okkur mun kaldari ár, tölulega eru meira að segja möguleikar á enn lægri ársmeðalhita heldur en 1979 - þrátt fyrir stöðugt vaxandi hnattræna hlýnun. 

Fyrir rúmum 7 árum (já, tíminn er ískyggilega fljótur að líða) setti ritstjórinn á blað hugleiðingar um hita á Íslandi og „heimshita“ - í tveimur pistlum: Heimshiti - hiti hér á landi og Heimshiti - hiti hér á landi - fleiri hugleiðingar. Kannski væri ástæða til að endurskrifa þessa pistla - en þeir segja samt ýmislegt sem ágætt er að hafa í huga. Meðal annars segir - vísað er í mynd (dreifirit í fyrri pistlinum):

„Sé fylgin reiknuð (og myndin rýnd) kemur fram marktæk neikvæð fylgni á milli árlegra heimshitabreytinga og hitabreytingar í Stykkishólmi. Með öðrum orðum að líkur eru til þess að hlýni snögglega milli ára á heimsvísu muni kólna milli ára í Stykkishólmi“. - [Sama á auðvitað við um Reykjavíkurhitann].

Í síðari pistlinum kemur í ljós að hlýnun í Stykkishólmi er um tvöföld miðað við heiminn í heild (í stigum) á aldarkvarða er margfeldistalan 1,9. Síðan segir:

„En er nokkur glóra í að halda að þessi hallamunur haldi sér? - Á næstu 30 árum koma mjög hlý ár inn í hinn enda aldarhitans í Stykkishólmi - eigi aldarhitaferillinn ekki að beygja af (í átt til heimshitans) verða næstu 30 ár (í framtíðinni) að verða mjög hlý (alveg sama hvað heimshitinn gerir) - hlýindin verða eiginlega að verða með ólíkindum eigi hallinn 1,9 að haldast.

Nú veit ritstjóri hungurdiska auðvitað nákvæmlega ekkert um framtíðina (frekar en aðrir) - en samt læðist sú skoðun að honum að 1,9 sé líklega of há tala þegar til lengdar lætur - myndirnar að ofan sem sýndu hlýnun milli kuldaskeiða annars vegar - og hlýskeiða hins vegar benda til lægri margföldunartölu - kannski hún sé 1,3 eða eitthvað svoleiðis?“

Þau sjö ár sem liðin eru síðan pistillinn var skrifaður hefur lítið breyst, hundraðárahitinn í Stykkishólmi æðir enn upp og heimshitinn líka. 

En þegar þetta er skrifað stendur meðalhiti ársins 2023 til þessa í Reykjavík í 5,3 stigum. Ef við hins vegar reiknum með að meðalhiti fyrri hluta desember haldist út mánuðinn lendum við niður í 5,1 stigi og ef við trúum spám reiknimiðstöðva um kuldatíð afgang mánaðarins fer ársmeðalhitinn niður fyrir 5 stig - í fyrsta sinn síðan 2015. Þótt svo fari hækkar hundraðárameðaltalið í Reykjavík (4,9 stig koma í stað 4,1 stigs árið 1923) og öll árin 1924 til 1927 var ársmeðalhiti vel undir 5 stigum í Reykjavík. Raunverulegt ströggl á hækkun hundraðárahitans byrjar fyrst árið 2028, en meðalhiti var 5,5 stig 1928. Næstu 20 ár þar á eftir var ársmeðalhitinn 9 sinnum ofan 5 stiga, en ekki „nema“ 9 sinnum (en hefur eins og áður sagði verið ofan þeirra 21 sinni á þessari öld). 


Fyrstu tíu dagar desembermánaðar

Fyrstu tíu dagar desembermánaðar hafa verið nokkuð óvenjulegir. Mjög kalt hefur verið inn til landsins, en hlýrra við sjávarsíðuna. Meðalhiti í Reykjavík er -0,5 stig og er það -1,5 stigum neðan meðallags sömu daga árin 1991 til 2020 og -1,0 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 17. hlýjasta sæti á öldinni. Kaldastir voru sömu dagar 2011, meðalhiti þá -4,8 stig, en hlýjastir voru þeir 2016, meðalhiti +7,1 stig. Á langa listanum raðast hitinn í hundraðasta hlýjasta sæti af 150. Hlýjastir á þessum tíma voru sömu dagar 2016, en kaldastir árið 1887, meðalhiti þá var -7,2 stig.

Nokkrar athuganir vantar frá Akureyri í mánuðinum, en þó er ljóst að hiti er um -5,4 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára og þetta er næstkaldasta eða þriðjakaldasta desemberbyrjun síðustu 88 ára, kaldara var 2011 og mjög svipað og nú 1951.

Þetta er næstkaldasta desemberbyrjun aldarinnar á Miðhálendinu, á Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðausturlandi og Austurlandi að Glettingi, en að tiltölu hefur verið hlýjast á Vestfjörðum og á Suðausturlandi þar sem hitinn raðast í 16. hlýjasta sætið (af 23).

Miðað við síðustu tíu ár hefur verið hlýjast á Stórhöfða. Þar er hiti +0,7 stig ofan meðallags síðustu tíu ára og +0,6 yfir í Surtsey. Kaldast hefur aftur á móti verið á Sauðárkróksflugvelli -8,1 stig neðan meðallags síðustu tíu ára - og meðalhiti þar er -10,2 stig. Á Blönduósi hefur hiti verið -7,4 stig neðan meðallags.

Úrkoma hefur verið sérlega lítil í Reykjavík, aðeins mælst 0,3 mm, sömu daga árið 1892 mældist hún 0,2 mm. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 4,3 mm og er það rétt innan við fimmtungur meðalúrkomu. Á Dalatanga hefur úrkoman mælst 19,6 mm og er það um 40 prósent meðallags.

Sólskinsstundir hafa mælst 22,1 í Reykjavík, 17 fleiri en í meðalári og hafa aðeins einu sinni mælst fleiri sömu daga, það var í fyrra þegar sólskinsstundirnar mældust 22,8 fyrstu tíu daga desembermánaðar. 

w-blogg11122023b

Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins síðustu tíu daga og vik hennar frá meðallagi. Mikil hæð hefur verið við Ísland og Grænland og haldið öllum lægðum fjarri. Fyrir austan land er norðanátt sem veitir kulda til Skandinavíu. Aftur á móti hafa verið mikil hlýindi vestan Grænlands. Þetta er svipuð staða og í nóvember - og reyndar frá því um 20.október (með smáundantekningum).

w-blogg11122023a

Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins í nóvember og vik hennar frá meðallagi (litir). Mikill hæðarhryggur hélt sig við Ísland mestallan mánuðinn. Jafnhæðarlínur við Ísland eru sérlega gisnar - lægðabrautir hafa legið langt suður í hafi. Nánasti „ættingi“ þessa nýliðna nóvember er nóvember 2019. Sérlega hægviðrasamur mánuður og þurr víðast hvar - en það entist ekki (eins og margir hljóta að muna). 

Nú á að verða veruleg breyting á stöðunni. Lægðabrautin á að færast að landinu, hvort það er tímabundin ráðstöfun máttarvaldanna eða „varanleg“ vitum við auðvitað ekki. Við þökkum BP fyrir kortagerðina. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 94
  • Sl. sólarhring: 101
  • Sl. viku: 1920
  • Frá upphafi: 2353122

Annað

  • Innlit í dag: 85
  • Innlit sl. viku: 1721
  • Gestir í dag: 80
  • IP-tölur í dag: 78

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband