Fyrstu 20 dagar janúarmánaðar

Meðalhiti fyrstu 20 daga janúarmánaðar í Reykjavík er +0,4 stig, -0,1 stigi neðan meðallags sömu daga árin 1991 til 2020 og -0,4 stig neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 10.hlýjasta sæti (af 21) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar árið 2002, meðalhiti þá +4,1 stig, en kaldastir voru þeir árið 2007, meðalhiti -2,6 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 55.sæti (af 146). Hlýjastir voru þessir dagar 1972, meðalhiti þá +4,7 stig, en kaldastir voru þeir 1918, meðalhiti -10,6 stig.

Meðalhiti á Akureyri er nú -0,7 stig, +0,1 stigi ofan meðallags 1991 til 2020, en -0,3 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.

Vik eru svipuð á spásvæðunum, kaldast þó á Suðausturlandi þar sem þau raðast í 16.hlýjasta sæti á öldinni.

Að tiltölu hefur verið hlýjast á Brúaröræfum, þar er vik miðað við síðustu tíu ár +0,2 stig. Kaldast að tiltölu hefur verið við Hágöngur, neikvætt vik er -1,6 stig, miðað við síðustu tíu ár.

Úrkoma hefur mælst 44,2 mm í Reykjavík, um þrír fjórðu hlutar meðalúrkomu. Úrkoma hefur mælst 28,3 mm á Akureyri, um tveir þriðju hlutar meðalúrkomu þar.

Sólskinsstundir hafa mælst 16,9 í Reykjavík og er það í ríflegu meðallagi.

Loftþrýstingur hefur verið í hærra lagi og er í 21.hæsta sæti síðustu 200 ára, þetta eru viðbrigði frá því í fyrra þegar hann var í 194.sæti (af 200).


Af stöðunni

Við lítum á nokkur veðurkort og mösum dálítið um þau og veðurstöðuna. Fyrsta kortið er hefðbundið sjávarmálskort frá evrópureiknimiðstöðinni og gildir á hádegi á morgun, fimmtudag 21.janúar.

w-blogg200121a

Myndarleg hæð er yfir Grænlandi og djúp og nokkuð kröpp lægði á Norðursjó. Á milli kerfanna tveggja er eindregin norðaustanátt. Veðurviðvaranir eru víða í gildi um Evrópu, sérstaklega við strendur. Hæðin yfir Grænlandi gefur lítið eftir á næstunni en lægðakerfið veikist og styrkist á víxl. Hvað okkur varðar er því búist við svipaðri stöðu næstu daga, alla vega hvað aðalatriði varðar. Þó veðrið sé harla vetrarlegt er það samt ekki mjög illkynja - að öðru leyti en því að drjúg - og viðvarandi - úrkoma norðanlands veldur snjósöfnun þar um slóðir og þar með snjóflóðahættu. 

Sé litið til háloftanna sést betur hvað veldur þessari frekar læstu stöðu. Kortið hér að neðan sýnir meðalhæð, meðalþykkt og þykktarvik næstu tíu daga - að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg200121b

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, þykkt er sýnd með daufum strikalínum, en þykktarvik eru í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Jákvæð þykktarvik sýna hvar hlýrra er heldur en venjulega (gult og rautt) - en á bláu svæðunum, sem sýna neikvæð vik, er kaldara heldur en venjulega á þessum tíma árs. Mjög mikið af hlýju lofti hefur „lokast inni“ vestan Grænlands, kemst hvorki lönd né strönd nema einhver önnur kerfi stuggi við því - og það þarf talsvert til. Austan við þetta hlýja loft er ákveðin norðanátt - hún kemur alveg norðan úr Íshafi og ber með sér kulda þaðan. En satt best að segja kemur samt á óvart að kuldinn skuli þó ekki vera meiri en raun ber vitni miðað við upprunann. Stafar það væntanlega af því að ís er minni austan Grænlands en venjulegt er - það þýðir aftur að aðgengi að raka er gott - og hluti hans skilar sér þegar norðanáttin rekst á fjöll Norðurlands - og það snjóar drjúgt þó engin hefðbundin lægðaskilakerfi séu nærri (svona í bili að minnsta kosti). 

Hlýju vikin vestan Grænlands eru óvenjuleg, enda hafa hlýindi á Baffinslandi verið í fréttum að undanförnu - þar var líka mjög hlýtt í desember. Þetta eru heimaslóðir annars af tveimur stóru kuldapollum norðurhvels, þess sem við hér á hungurdiskum höfum oft (óformlega) kallað Stóra-Bola, hann hefur varla borið sitt barr í vetur - afskaplega ólíkt því sem var á sama tíma í fyrra. Á þessu korti sem nær til meðaltals næstu tíu daga sprengja hlýindin litakvarðann - hvít skella er þar sem þau eru mest. Þar er hiti í neðri hluta veðrahvolfs um 14 stigum ofan meðallags. 

Svona mikil hlýindi haldast illa við á norðurslóðum - meðalkólnun veðrahvolfs vegna útgeislunar er um 1 stig á sólarhring. Þannig að það tæki á bilinu 10 til 20 daga að útrýma hitavikunum - ef ekki kæmi annað til. Ef við ímyndum okkur framhaldið einhvern veginn þannig - (friður sé fyrir kryppum heimskautarastarinnar) linnir norðanáttinni í háloftunum smám saman og að lokum tæki hin hefðbundna vestsuðvestanháloftaátt við hér á landi. 

Það er dálítið spennandi fyrir veðurnörd að fylgjast með þróuninni - það tekur að vísu nokkuð á því hlutirnir gerast mun hægar heldur en algengast er hér um slóðir. Upp úr stöðu sem þessari geta skapast allskonar leiðindi. En menn leggja víst mismunandi merkingu í „leiðindi“ í veðri. Á yngri árum ritstjórans fólust leiðindi stöðu sem þessarar aðallega í þeim möguleika að sleppa út úr henni án þess að nokkuð yrði að veðri sem heitið gæti. Nú er svo komið að hann vonar svo sannarlega að þannig fari nú þegar allt annað veðurlag er á bakvið „leiðindi“. 

En lítum líka á stöðuna á mestöllu norðurhveli. Myndin sýnir 500 hPa-hæðar- og þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir síðdegis á föstudag, 22.janúar.

w-blogg200121c

Við sjáum vel hæðarhrygginn hlýja vestan Grænlands, við sjáum líka að kuldinn sem streymir til okkar úr norðri er ættaður úr Íshafinu. Langt er í heimskautaröstina og fyrir utan hæðarhrygginn áðurnefnda eru hlykkir og sveigar ekki mjög miklir á henni. Við getum séð Stóra-Bola vestarlega í Kanada - en hann er vesæll að sjá - alla vega miðað við bróðurinn, Síberíu-Blesa, sem er mest áberandi kerfið á öllu kortinu. Breytingar eru hægar - jú, hæðarhryggurinn kólnar hægt og bítandi - og það er svosem hugsanlegt að Blesi skipti sér eitthvað og annað hvort styrki Bola - eða sendi meiri kulda í átt til okkar úr norðri - en slíkar breytingar taka óhjákvæmilega nokkra daga eða jafnvel meira en viku. 

Á meðan heldur norðan- og norðaustanáttin bara áfram og mjatlar niður snjó norðanlands. Ameríkumenn myndu sennilega fella þessa snjókomu undir það sem á ensku heitir „lake-effect“ - („vatnahrif“ væri hrá þýðing - en reynum einhvern tíma að finna betri - þær eru svo leiðinlegar þessar ensku nafnorðahráþýðingar). 

En hversu algeng er staða sem þessi? Nokkuð algeng, standi hún aðeins í fáeina daga, en það er ekki mjög oft sem hún nær að standa mánuðinn út. Sé leitað að janúarmánuðum þar sem þessi staða hefur einkennt veðurlagið (það er þó aldrei eins) þarf að fara aftur til janúar 1979 til að finna náinn ættingja - enn skyldari eru þó janúar 1977, 1959 og 1955 - sé farið enn lengra aftur má nefna 1945, 1941 og 1936 - sá síðastnefndi skyldastur af þeim þremur. 

Við getum gengið að þykktarvikakortum allra þessara mánaða - og síðasta myndin sýnir fjögur þau sem líkust eru vikakortinu að ofan. Höfum þó í huga að um heila mánuði er að ræða en ekki aðeins mánaðarþriðjung eins og fyrsta myndin sýndi. Myndin skýrist nokkuð sé hún stækkuð.

w-blogg200121d

Á öllum kortunum sjáum við mikil jákvæð þykktarvik vestan Grænlands. Óvissa varðandi útlit kortsins 1936 er meiri en í hinum tilvikunum - langflestar háloftaathuganir þess mánaðar eru algjör skáldskapur. Ritstjórinn man auðvitað vel eftir janúar 1977 - hinni þrálátu norðanátt og þeim óvenjugóðviðrasama febrúar sem fylgdi í kjölfarið. Sömuleiðis man hann að einhverju leyti eftir janúar 1959 og kuldanum þá - og auðvitað vel eftir skakviðrunum miklu í febrúar það ár. Ólíkt höfðust þessir tveir febrúarmánuðir að, 1977 og 1959 - þrátt fyrir sviplíkindi janúarmánaðanna. 

Janúar 1955 er rétt utan minnis ritstjórans - en sögur heyrði hann um þann mánuð - frost og mikið vatnsleysi á heimaslóðum - og síðan urðu fræg sjóslys seint í mánuðinum í norðaustanáhlaupi á Vestfjörðum. Janúar 1936 er hins vegar einhver hinn þurrasti sem vitað er um á Suður- og Vesturlandi - en snjóþungt var nyrðra. 

Á sínum tíma þótti ritstjóranum veðurlag vetrarins 1977 minna dálítið á veðurlagið 1966 og þá 1955 líka. Kannski var einhver 11-ára sveifla á ferðinni? En - því miður, það þurfti að teygja sig nokkuð langt til að finna svipuð líkindi 1988 og enn erfiðara 1999 - en svo gerðist það 2010 að ekki ósvipuð vetrarstaða kom upp - og kannski gerir hún það líka nú 11 árum síðar? En 1944, 1933 og 1922? Nei. Allir draumar um reglubundnar veðurlagssveiflur eru bara það - draumar. Ekki er skortur á slíkum hugmyndum - mannskepnan finnur mynstur þar sem hún leitar þess. Ritstjórinn hefur líka „séð“ 10-ára „sveiflur“, og 2, 3, 4-ára sveiflur, 13 til 14-mánaða sveiflu og 40-daga sveiflu. Þær hafa hins vegar allar runnið úr greipum hans eins og hver annar draumur. En draumar geta líka verið indælir og hughreystandi - gleymum því ekki. 


Af árinu 1835

Mikið hallærisár. Harður vetur, erfitt vor með miklum hafís - rigningar miklar syðra á slætti. Meðalhiti í Reykjavík var 3,5 stig og er áætlaður 2,7 stig í Stykkishólmi. Sérlega kalt var í janúar og sömuleiðis kalt í febrúar, mars og apríl. Hlýtt var í ágúst, en hlýindunum fylgdu rigningar sunnanlands. Júlí var einnig fremur hlýr sem og nóvember og desember.

ar_1835t

Sextán dagar voru mjög kaldir í Reykjavík, flestir í janúar, en 6.mars var kaldasti dagur ársins að tiltölu. Þann 23.júní fór lágmarkshiti niður í frostmark í Reykjavík. Frost fór þrisvar í -20 stig í Reykjavík, þann 18.janúar og 6. og 7.mars. Sveinn Pálsson mældi -18 stiga frost í Vík í Mýrdal þann 18.janúar. 

Árið var þurrt í Reykjavík, úrkoma mældist 560 mm - en nærri fjórðungur hennar (137 mm) féll í ágústmánuði. Má segja að hún hafi komið á versta tíma. Þurrt var flesta aðra mánuði, apríl og desember þó ekki fjarri meðallagi.  

Loftþrýstingur var óvenjulágur í september og einnig lágur febrúar, mars, maí, júní og ágúst, en fremur hár í janúar, apríl, nóvember og desember. Þrýstiórói var lítill í maí og óvenjulítill í október. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík þann 20.mars, 963,6 hPa, en hæstur þann 26.apríl, 1042,8 hPa. 

Hér að neðan eru helstu prentaðar heimildir um árið teknar saman, stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Fáeinar ágætar veðurdagbækur eru til sem lýsa veðri frá degi til dags, en mjög erfitt er að lesa þær. Árið þótti slysaminna en títt var. Sumum skrifurum finnst greinilega að umskipti hafi orðið eftir langvinna góða tíð. 

Fjölnir [II 1836] fer með eftirmæli ársins 1835 „eins og það var á Íslandi“:

Ár þetta má hjá oss telja meðal hinna bágu áranna. Velmegun landsins, sem i mörg undanfarin velti-ár tók heldur að fara vaxandi, hefir nú á einu ári drjúgum horfið, og væri ráð að búast svo við í tíma, sem það væri upphaf meiri tíðinda, en ennþá eru framkomin. Hin löngu tímabilin fara að nokkru leyti eftir sama lögmáli sem hin styttri: hvert ár er áþekkt svo sem einum degi eður stund í þeirri ævinni og áratölunni, sem hnöttunum er sett, og eins og veðráttufarinu bregður oft til þess sem gagnstætt er, þegar nokkra daga eða vikur hefir gengið á blíðu eða stríðu, staðviðrum eða umhleypingum, svo eru og eftir náttúrunnar eðli líkindi til, ef nokkur ár í senn hafa verið staklega góð, að önnur ómild leysi þau úr garði. Um nýárið 1834 tók aftur að óhægjast veðráttan hér á landi; en þó varð þetta síðasta ár, 1835, stórum mun erfiðara um allt land. Frá því um veturnáttaskeíð til árslokanna 1834 hafði á sunnanverðu landinu verið hretviðrasamt, en snjóa-lítið og frosta, af því oftast gekk á hafviðrum. Þá var landátt fyrir norðan, og stundum stormasöm, en löngum hreinviðri, og svo var þar blítt skammdegið, að margoft frysti ekki á nóttunni, og var jörð að mestu auð; mátti kalla að sá hluti vetrarins væri þar hinu ákjósanlegasti. Eftir nýárið 1835 féllu á harðindin jafnt yfir allt land; fór svo fram í 10 vikur, að kalla mátti tekið væri fyrir alla jörð syðra, mest vegna áfreða, en nyrðra var ásamt snjófergju í meira lagi, svo varla mátti komast bæja á milli; og á fjórum prestssetrum norður í Reykjadal varð ekki messað 9 sunnudaga samfleytt. Vindur var oftar við norðurátt eður útsuður; hríðir gjörði sjaldan feykilegar, en frostið varð syðra 16 eður 20 mælistig, þar sem það var mælt, og fyrir norðan, t.a.m. á Grenjaðarstað, 24 mælistig, og meira, þegar hæst komst. Þótti því öllum mál á þegar batinn kom í miðjum marsmánuði, 5 eða 6 vikum fyrir sumar; enda naut hans líka við allstaðar, og var hann víðast hægur og hagfeldur. Útigangspeningur náði upp frá því jafnaðarlega til jarðar; þó var vorið hart og kuldasamt og olli því hafísinn. Þessi gestur er og hefir jafnan verið önnur aðal-orsökin, af þeim orsökum er utan að koma, til óáranna og hallæra hér á landi; hin eru eldgosin. Er það reynt, að þó Ísland liggi utarlega á jarðarhvelinu, getur það þó með skynsamlegri fyrirhyggju bjargast af sjálfs síns rammleik meðan þetta tvennt verður ekki að meini, spillir loftinu og fyrirfer framkvæmdum vorum bæði á sjó og landi; hefir þetta bakað landi voru þær hörmungar, að við mættum nú loksins, þegar annaðhvort þeirra gjörir vart við sig, vera orðnir svo hyggnir, að hafa, áður en það verður um seinan, forsjálega búist við, að taka því, sem vant er af því að leiða. Ísinn staðnæmdist í þetta sinn þegar um miðjan vetur fyrir öllu Norðurlandi, síðan fyrir Hornströndum, og á Austfjörðum, og losnaði ekki með vorstraumunum, sem þó oft er vandi hans þegar hann kemur svo snemma. Af því leiddi, eins og jafnan, að vetrarhörkurnar héldust svo lengi, og veðráttan var hin harðasta og óviðfelldnasta meðan hann lá fyrir landi, svo jörð og fénaður náðu sér ekki, þó komið væri fram á sumar; sjávaraflinn tálmaðist; aðflutningum seinkaði til landsins, og bjargræðis-stofninn fór með þessu móti allur aflaga. Eftir sumarmál flæktist ísinn austan með landinu sunnanverðu vestur undir Reykjanes, og lá frá vertíðarlokum til fardaga í sundinu milli Vestmanneyja og meginlands, sem sjaldan að ber; þannig var landið allt ísi horfið, nema tveir flóarnir, Faxaflói og Breiðafjarðar, þar hann vegna straumanna aldrei hefir náð að staðnæmast — og ekki var hann algjörlega horfinn frá Norðurlandi fyrr en eftir miðsumar. [...]

En svo litlum framförum er búskapurinn ennþá búinn að taka hjá oss, að oftar sem best á að vera, skortir mikið á, að svo sé, eins og sýndi sig á Norðurlandi í þetta sinn; því þegar góubatann gjörði, voru þar á mörgum stöðum heilar sveitir komnar í standandi þrot, og mundu hafa kolfellt, ef batinn hefði lengur undandregist, en urðu ekki fyrir stórmissi af því svo heppilega réðist; þó munu heyfyrningar víða hafa orðið þar nauða-litlar um það úti var. Verri urðu afdrifin annarstaðar, einkanlega sunnanlands. Fá héruð fóru þar varhluta af fellinum, og létti honum ekki, vegna kuldans og umhleypinganna, fyrr enn komið var langt fram á sumar; misstist mikið af hrossum og sauðfénaði til og frá í Borgarfjarðarsýslu — og eins í Rangárvallasýslu; t.a.m. í Eyjafjallasveit voru þar, samkvæmt tíundar-skýrslunum, kýr orðnar 200-um færri eftir þetta vor, en vorinu áður; en sauðfénaði hafði fækkað um 1000. Enn þó tók yfir í Suðurmúlasýslu og báðum Skaftafellsýslum; ...

[40] Sögunni var komið fram á miðsumar 1835; mátti kalla, að grasbresturinn væri dæmalaus um allt land, því næturfrostin héldust við annað veifið fram undir slátt, og nyrðra kvað svo rammt að, að í upphafi júlímánaðar gjörði kafaldshríð svo dægrum skipti, snjóinn rak i skafla og sumstaðar fennti fé; naut því sumarsins mjög skamma stund og allt penings-gagn varð með langminnsta móti. Þó tók yfir, hversu báglega slátturinn féll; því undir eins í sláttarbyrjun brá til rigninga, og varð að því mikið mein víðast um landið — nema ef til vill í eystri hluta norðlendinga-fjórðungs og austanlands — enn mest í sunnlendinga-fjórðungi, svo varla mátti kalla, að þar blési af steini frá því sláttur var almennt byrjaður til þess 20 vikur voru af sumri (10. september); höfðu þá sumir ekki náð bagga í garð, en enginn þurru strái eða óhröktu, nema þeir sem fyrstir fóru að slá; og það, sem hafði verið hirt, brann eða fúnaði í görðum manna, og þótti því litlu betur komið, en hitt sem hjaðnaði um túnin 5 vikna gamalt og eldra. Verða má samt, að forsjónin láti þetta allt betur ráðast, en mannleg fyrirhyggja hafði tilstofnað; því þar sem heyskemmdirnar urðu mestar — um allt Suðurland — var haustið og veturinn fram til árslokanna frábærlega blíður; oftar hafátt og þíður, og það þurrviðri, sem sjaldan er vant að fara saman. Varð því í Rangárvalla-sýslu sumum að liði, allt fram undir jóla-föstu, að láta geldkýr sækja sér gjöf í annað mál; en allur útigangspeningur var við árslokin í haustholdum. Aftur fékk sýsla þessi töluvert áfall á jólaföstunni í norðanveðri, sem stóð nokkra daga, og fóru þar nokkur býli í tveimur efstu sveitunum, sem Heklu eru næstar, af sandfoki og vikurs, sem áður hafa þar um kring gjört mikinn skaða, þar sem landið var hvað fegurst og kostabest. Að norðan er haustið sagt harðara, og kom þar veturinn með fyrra móti. Sjávar-aflinn varð einnig í minna lagi þetta ár. Veturvertíðar-hlutir voru ámóta í flestum veiðistöðum.

[42] Í hausti var tókst svo illa til, að einn af þessum þiljubátum fórst í djúpinu suður af Vestmannaeyjum í ofsa-stormi. Annar bátur, er honum var samferða, komst klaklaust af, og gat það seinast frásagt, að ljósin á hinum hefðu horfið mjög skyndilega; síðan hefir ekki til hans spurst, og hafa menn fyrir satt, að stýris-lykkjan hafi bilað — því hún hafði verið ótraust, þá hann fór úr landi — og hafi þetta honum að meini orðið. Þar fórust 6 menn: 2 útlendir stýrimenn, beykir og trésmiður, og var að þeim öllum mikill söknuður. Að þessu frátöldu hafa fáir skiptapar orðið þetta ár. Um sláttarlokin og fram eftir haustinu var fyrir gnægð fiskjar með öllu Suðurlandi; en úr því haustvertíð byrjaði eftir veturnæturnar, bar minna á honum, svo haustvertíðar-hlutir urðu heldur litlir. Norðanlands tók ísinn fyrir alla selveiði og annan vorafla.

Sunnanpósturinn 1836-8 segir af árferði frá nýári til 20.júlí á bls.116:

Í fyrstu örk þessa tímarits var getið árferðis þess með fáum orðum, sem hafði verið á Íslandi nokkur undanfarin ár, og af því þau næstliðnu ár, þóttu hafa verið einka góð, svo var náttúrlegt, að þenkjandi menn gerðu ráð fyrir að umbreyting kynni verða, því það er hið venjulega. Þessi spá átti ekki langan aldur, því strax með byrjun ársins spilltist veðráttufar, og því meir sem lengra fram liðu tímar, þar til seint á góu. Snjókoma var töluverð; þó spilltu áfreðar einnig heldur jörðu, svo jarðbönn urðu mikil. Frostið varð óvenjulega mikið með köflum; það mældist syðra, þegar nokkuð dró frá sjó, yfir 20° en í Norður Sýslu [Þingeyjarsýslu] yfir 25°. Hafís kom nyrðra og vestra fyrir miðjan vetur og beygði sig austur fyrir land, hann komst í maímánuði suður með landi og út í Grindavík, fyllti hann sund það sem er á milli Eyjafjalla og Vestmanneyja svo, á fjórðu viku, að hvergi sá í auðan sjó. Ís þessi var 5. júlí ekki algjörlega farin frá Norðurlandi, þó svo lónaði frá um stund í júní og jafnvel í maí að kaupskip höfðu komist í höfn á Skagaströnd og í Hofsós. Sú gamla meining að ekki yrði mein að þeim ís sem kæmi fyrir miðjan vetur, ætlar því nú að veiklast. Vetrarfar varð hið sama um allt land meðan harðindin stóðu, nema hvað ætíð viðrar verr á sínum stöðum, eftir ýmislegu landslagi og afstöðu. Mesti fellir hefði orðið, ef bata hefði ei gjört seint á góu, en nokkur er hann þó orðin allvíða bæði af sauðfé og hrossum. Sumstaðar í Borgarfirði er mælt að fallið hafi sauðfé allt að helmingi; getur og verið að nokkuð af sauðfé hafi dáið úr þeirri bráðasótt eða sýkingu, sem nokkur undanfarin á hefur stungið sér niður hingað og þangað í Suðuramtinu helst í Rangárvalla- og Árnessýslum. Mest er gert samt af fellir í Suður-Múla-, Skaftafells- og Rangárvallasýslum; en í Norðurlandi og vestra er minnst af orðið. Þó bati kæmi á góunni, sem áður er getið, varð hann ei svo haganlegur sem þörf var á; veðráttufar gjörðist hretasamt. Kuldaköst komu aftur og aftur og seinast um Jónsmessu. Syðra snjóaði á fjöll, en sumstaðar nyrðra ogsvo í byggð um það leyti. Vorið varð því mjög gróðurlítið og lömb hrundu niður allvíða. Grasvöxtur þótti lítill í fyrra þó er hann enn minni nú og heyrist sú harmaklögun allstaðar að.

Þar sem ísar lágu við land var ei von til að afli gæfist af sjó töluverður, 6. maí er sagt að ís hafi legið á Ísafjarðardjúpi. Nokkrir hvalir, sem fundust í ís hingað og þangað, urðu til bjargar næstu sveitum. Á ís þessum er þess getið að nokkrir hvítabirnir hafi komið á land og að einn þeirra hafi hér nyrðra verið unninn. Syðra, hvar ís ekki hindraði fiskiveiðar, urðu þó hlutir á vetrar vertíðinni í minna lagi; fáir fengu yfir 2ja hundraða hlut, nokkrir náðu ei hundraðs hlut. Var nærri um hlutar upphæð í hverri veiðistöðu sunnanlands, þó mundu hlutir hafa orðið hvað mestir undir Vogastapa, nokkuð á fimmta hundrað. Vorhlutir urðu enn minni, helst vegna ógæfta. Varla mun hafa verið róið til fiskiveiða á Innnesjum oftar enn 6 sinnum á þeirri vertíð; þar á mót hafi bæði gæftir og nokkur afli gefist síðan á Jónsmessu hér sunnanlands.

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Skipti um tíð og byrjaðist harðæri. Eftir nýár hláka mikil. 9. jan. skipti um með landnyrðingshríð og hörkum á eftir. 17. jan. áhlaupsbylur og rak þá ís fast að landi. Kom þá allt fé á gjöf og hross allvíða. Í febrúar frostaminna og óstöðugt með vestanátt. Á hríslendishálsum brutu hross lengi niður mót vestri. Þrjá fyrstu góudaga milt og stillt. Fyrri part góu hörkur miklar, hríðar, en síðari ásamt blotar og köföld.

Úr bréfum sem rituð eru veturinn 1835:

Frederiksgave [Möðruvöllum í Hörgárdal] 15-2 1835 (Bjarni Thorarensen):

Í október mánaðar seinni parti [1834] komu frost og snjóar miklir, aftur voru nóvember og desember að öllu leyti italienskir, en síðan nýár mestu snjóar og frost, og þetta stundum yfir 20 grader. Hvítabirnir tveir hafa komið í land í Þingeyjarsýslu og urðu unnir. Fiskiafli allt til jóla hinn allrabesti hér norðanlands en selafli enginn því menn segja að selir haldi sér oftast útá ytri hafísbrún. (s220)

Frederiksgave 15-2 1835 (Bjarni Thorarensen):

Nyheder ikke andre end at den Grönlandske Driviis indslutter begge vore Amter i sine ikke varme Broderarme, og at to Polarbiorne have kommet i land i Norder-Sysslerne men bleven begge to dræbte. Siden Nyaar Vinteren meget stræng med Snee og Frost, dette undertiden over 20 Grader. (s118) -

Í lauslegri þýðingu: „Fréttir ekki aðrar en að grænlenski rekísinn lokar af bæði ömt vor í sínum ekki hlýju bróðurörmum og að tveir hvítabirnir hafa gengið á land í Þingeyjarsýslu, báðir felldir. Frá nýári hefur veturinn verið mjög harður með snjóum og frosti, jafnvel yfir 20 stigum“

Bessastöðum 5-3 1835 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s153) „Vetur er hinn strangasti, sem ég man“.

Brandsstaðaannáll [vor]:

Í góulok kom upp snöp og þó í apríl kæmu blotar og rigningar, lét illa að þíðu fyrir kalsa í veðri og hörkum á milli vegna hafíss, sem var nú mikill og lá fram yfir fardaga. Með sumri bati góður vikutíma, en fyrri part maí sífellt hörkur og þurrviðri. 23. maí kom fyrst heiðarleysing og gróður.

Sveinn Pálsson getur þess 12.maí að grænlandsís hafi þá komið að austan að Vík í Mýrdal um nóttina. Í dagbókinni er minnst á ís út mánuðinn og hans líka getið fyrstu daga júnímánaðar. Færslurnar eru ekki auðlesnar - en einhver hreyfing var á ísnum. Einnig er getið ísþoku og kulda sem honum fylgdi. 

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Í júní kalsamt, frost á hverri nótt, svo kýrgróður kom fyrst um sólstöður. Fráfærur urðu í júlí og lömb almennt rekin þann 10. vegna gróðurleysis á heiðum, svo aldrei spratt þar á víðir um hálendi eða hæðir. Um Jónsmessu hret og snjór í byggð 4 nætur. Grasvöxtur varð sá minnsti síðan 1802. Lestaferðir í miðjum júlí, gaf illa fyrir ófærð og hagleysi á heiðum. Í júlílok byrjaði sláttur. Skipti þá um til stórrigninga og gjörði það versta sumar, er menn höfðu lifað. Töður voru almennt hirtar um höfuðdag við hvassviðri. Sumir áttu þá ei til þurran blett á túni eða engi og jafnvel ei í landareign sinni til að þurrka á hey sitt. Þó náði ég og stöku menn töðu og útheyi óskemmdu, svo lítið lá úti viku lengur og varð taða hin besta og eins á Brandsstaðapartinum. Má hér af sjá, hvað haganleg þurrkun á heyi gjörir gagn, mót almennings vanafesti og íhugunarleysi, því aldrei er sú votviðratíð á Norðurlandi, að hey þurfi að ónýtast, þar mannafli og eftirvinna er til hlítar og engin flæðistund (eða stormur) er forsómuð. – Rigningar voru svo stórfelldar, að melar og vegir voru blautir, sem þá aurar eru á vordag. Ei fór klaki úr jörð á þessu sumri. Allt hey varð að flytja á hóla og bala, þá nýslegið var og víða slegið og dregið upp úr vatni, sem allt var tafsamt, en eftirtekjan sú minnsta, svo hægara var lítið að hirða. Einsýnn þerridagur kom enginn utan sunnudag 6. sept. um nóttina til náttmála, að þá rigndi. Stórrigningar mátti kalla í águst 2., 5., 9., 11., 12., 13., 16., 18., 22., 23.; í september 2., 4., 13. Var það síðasta rigningin.

Úr veðrabók Ólafs Eyjólfssonar á Uppsölum í Öngulstaðahreppi 1835:

21.júní: Norðan stormur og hríðarkrapi, birti áliðið með frosti og heljarkulda.
22.júní: Norðan hvass, einkum áliðið, með frosti miklum kulda og hríðaréljum, þykkur.
23.júní: Sami stormur, frostið og kuldinn meiri.
24.júní: Sama veður fram eftir, þá oftar sólskin ... kyrrari áliðið.
25.júní: Sólskin og hafgola, mjög köld, mikið frost um nóttina áður.
26.júní: Sunnan svalur, sólskin, næturfrost.

Úr bréfum sem fjalla um sumrið 1835: 

Saurbæ [Eyjafirði] 13-7 1835 [Einar Thorlacius] (s66) „... mikið vetrarríki, kalt vor, næstum gróðurlaust sumar ... Hafís nálega í kringum allt land“.

Frederiksgave 17-7 1835 (Bjarni Thorarensen):

Jeg fryser! der er Snee midt ned i Fieldene, Foraaret har været paa det allerværste, ved St. Hansdag Frost og Snee lige ned til Söen, kun et eneste Skib ... (s119)

Í lauslegri þýðingu: „Mér er kalt! Snjór niður í mið fjöll. Vorið hefur verið með allraversta móti, frost og snjór alveg niður að sjó á Jónsmessu, aðeins eitt skip ... “.

Frederiksgave 30-8 1835 (Bjarni Thorarensen):

Sumarveður hefir ekki komið hér fyrri en fyrir tveim dögum. Grasvöxtur í allraversta máta, og nýting þareftir í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum. Völlur var búinn hjá mér að slætti til þann 7da [ágúst] og þó er ég ekki (s124) enn búinn að fá fyrir fjósið. Frá Suðurlandi er sagt enn verra. (s125)

Bessastöðum 8-8 1835 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s156)

Hart er nú í ári, mesta grasleysi, vorið það versta sem ég man, fiskilítið í vor, því aldrei gaf veður til að róa. Þann 23. júlí var ekki hafísinn laus við Norðurland ...

Bessastöðum 23-8 1835 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s159)

... náttúran eftir sem nú sýnist ætlar að gjöra út af við oss. Það sáralitla gras er nú að hrekjast og fúna ofan í jörðina, og hallæri sýnist óumflýjanlegt. Rigningar rétt makalausar hafa gengið síðan sláttur byrjaði.

Bessastöðum 18-9 1835 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s161)

... náttúran orðin okkur vinsamlegri, því þann 10. þ.m. kom þó loksins þerrir, og þar við lagfærist nokkuð til sveitanna. En hjá oss er allt hey fordjarfað sem von er. ... Það má varla kalla að kál sjáist og því síður kartöflur eða rófur. ... Úr öllum landsfjórðungum eru nú harðindi að frétta. Hafísinn skildi við Norðurland þegar rigningar byrjuðu, því og svo þar voru óþurrkar.

24. ágúst 1835 (Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum - Andvari 98/1973):(bls 191)

Nú er neyðartíð hér í landi. Veturinn var einhver hinn harðari eða harðasti, með fádæma snjókyngjum og brunahörkum — hér í sveit mest -24°. Þó tóku yfir vorharðindin með sífellum þyrrkingskuldastormum og frosthörkum á hverri nóttu, og jafnvel um hádaga allt að sláttarbyrjun, en síðan hafa gengið hér nyrðra og eins vestra — þar ég hefi til frétt — sífelldar úrkomur og stórrigningar með iðulegum snjókomum í fjöllum allt ofanundir bæi, að víðast er ekkert strá enn nú fullþurrkað eða innkomið af töðu, því síður af útheyi. Annars er grasvöxtur yfir höfuð í sárbágasta lagi, svo flest er nú samfara — hvað landbúskapnum viðvíkur — til mestu örðugleika og vandræða útlits. Máski úrkomur þessar miklu séu afleiðingar þeirrar væntanlega sjáanlegu halastjörnu? [halastjarna Halley, Sveinn Pálsson fylgdist nokkuð með henni]. Fiskafli er hér í sýslu einhver hinn besti, þó fáir geti því sætt um þetta tímabil ársins.

Frederiksgave 30-8 1835 (Bjarni Thorarensen): „... og ei hefir hér sumarveður komið svo kalla megi fyrri en fyrir tveim dögum síðan“. (s222)

Breiðabólstað 6-9 1835 (Tómas Sæmundsson):

Árferðið í sumar er dæmalaust um allt land. Hafísinn fram að slætti, rosinn, síðan farið var að slá, svoddan fádæmi, að í 5-6 vikur varla hefir blásið af steini, svo að núna, hér um bil 20 vikur af sumri, varla nokkur hefur náð af túnum, og það, sem hirt hefir verið, fúnar eða brennur! Þar að auki var grasbresturinn frábær, svo allt lítur út fyrir, að guð ætli nú að fara að straffa okkur með hallærum, fyrst við í góðu árunum höfum farið að eins og gikkir. Það er verst, að svona hefir verið yfir allt land nema kannski á landnorðurströndinni.

Frederiksgave 14-9 1835 (Bjarni Thorarensen):

... det ser ilde ut deroppe, thi vi have havt en endnu uslere Græsvæxt end i forrige Aar, og det som er endnu værre, Sommeren har paa hele Sönder og Vesterlandet været saa regnfuld at man lige til 1te dennes (saavidt naae mine Efterretninger) ikke engang havde faaet Höet bierget af Hiemmemarkene, og næsten ligesaa – dog ikke fuldt saa – galt har det vært i Hunevands og Skagefiords Sysslene með Höibiergningen, taaleligt her, og ret got i Norder Syssel, men Græsvæxten har allevegne været saa ussel, af Folk over hele landet maa nedslagte det meste af sine Creature for ikke ved mueligen og sandsynligvis streng vinter at tabe dem alle. (s223)

Í lauslegri þýðingu: „ ... það lítur illa út þar um slóðir því grasvöxtur hefur verið enn rýrari en í fyrra og það sem verra er, sumarið hefur verið svo úrfellasamt á Suður- og Vesturlandi að menn höfðu, alveg til þess 1. þessa mánaðar (svo langt ná upplýsingar mínar) höfðu menn ekki einu sinni náð heyi af túnum - og nærri því - en ekki alveg svo slæmt hefur það verið með heyskapinn í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, þolanlegt hér og allgott í Þingeyjarsýslu, en graspretta hefur allstaðar verð svo rýr að almenningur hefur um land allt mátt slátra flestu fé sínu þannig að það tapist ekki allt líklega í hörðum vetri“.

Frederiksgave 30-9 1835 (Bjarni Thorarensen):

Nýting hefir verið bærileg hér og í Þingeyjarsýslu en í Húnavatnssýslu svo aum að gamli Björn á Þingeyrum var ekki búinn að hirða af túni sínu fyrri en þann 20ta september. (s126)

Laufási 24-9 1835 [Gunnar Gunnarsson] (s68)

Frá árferði hér eður veðráttufari í sumar er nú ekkert fagurt að skrifa, því það hefur komið eitt hríðarhretið eftir það annað, hvaraf leitt hefur víðast hvar stakt grasleysi, og ofan í kaupið hafa í mörgum plássum verið mestu óþurrkar, og nú þá allra minnst varði kom enn hér um sveitir mikið hríðar íhlaup, bæði í gær og í dag, svo varla verður áfram komist með hesta um alfara vegi. Heimflutt hey og votaband liggur þó víða úti, hey óþakin og óbúið um þau ...

Saurbæ 4-10 1835 [Einar Thorlacius] (s69)

Sumarið var hér sára kalt og gróðurlítið, svo varla muna elstu menn að svo iðulega hafi alsnjóað í byggð. Þó er betur heyjað í firðinum hérna heldur en í fyrra, og góð verkun á heysöfnum. Má heyskapur heita í Eyjafirði í góðu meðallagi. En í flestum öðrum sveitum norðanlands er það mikið miður ...

Brandsstaðaannáll [haust og vetur út árið]:

Eftir það [13.september] stöðug þurrviðri með næturfrostum, svo slá mátti á klaka fram í október, en ei var annað til en svartur sinuhroði, er sumir urðu að nýta, er það land höfðu, en ekki þiðnaði torf í flagi eftir 13. sept. Heyskapur varð sá minnsti og versti, en nú varð viðtekin gangnafærsla sú, að þær skyldi byrja á sunnudag i 22. viku sumars, en áður 21. viku. Varð almenning að því oftast góður hagnaður. Seinni part október lagði snjó á fjöll og varð mjög frostasamt. Í nóvember góðviðri og þíðusamt, svo fé þá haustbata. 25. sept. [nóvember] ofsaveður á landnorðan, lengst af um viku. Urðu víða skipskaðar, þar þeim var ei tryggilega fest. Jólafastan mikið góð til nýárs, snjólítið og þíðusamt.

Sunnanpósturinn 1836 segir af síðari hluta árs 1835 (1, bls.1):

Hann [Sunnanpósturinn] gat þess seinast, árferði viðvíkjandi, (bls.116 og 117) hversu hart vorið var næstliðið ár, og hvílíkur grasbrestur þar af orsakaðist yfir mestan hluta landsins; nú minnist hann þess, að ofaná þennan grasbrest bættist dæmafár óþerrir, sem og svo náði allt land að kalla. Töður lágu víða á túnum fram yfir höfuðdag og skemmdust sem nærri má geta. En þeir voru ei öllu betur farnir sem hirt höfðu nokkuð eða mest af túnum sínum fyrra part sláttar: því rigningarnar voru svo gífurlegar á sínum stöðum, að hey varð ei varið skemmdum í heygörðum. Í Norður Sýslu [Þingeyjarsýslu] einni er mælt að sumar væri allgott hvað þerrir áhrærir, en þar var þá líka grasbresturinn mestur. Í Eyjafirði var ei heldur mjög kvartað um óþerri; en allstaðar annarstaðar var hann hér um bil hinn sami. Í september aflétti þessum óþerri, nokkru fyrri norðan- en sunnanlands; varð veðráttu batinn að sönnu öllum til nokkurs gagns, en einkanlegast þeim sem áttu nokkuð land óslegið á þurru, því nú gátu þeir aflað fóðurs fyrir fullorðið sauðfé og hross. Kýr hafa fækkað að menn ætla um allan þriðjung á landinu og væri vel ef þær sem á hafa verið settar, kæmust nú vel af, en þess er trauðlega að vænta þegar fóður er óvíða óskemmt. Lömbum var lógað nær því allstaðar. Sú góða veðrátta sem byrjaði í september mánuði hefir haldist til þessa; oftar hefir verið stormasamt, en hvorki hefir komið snjór til muna, né frost, það af er vetri, nema um nokkurn tíma nyrðra og á Vestfjörðum hvar einatt er hörð veðrátta þegar Stranda- og Haffjarðarsýslur taka við. Af sjó hefur víða gefist góður afli á þessu hausti; og það á sumum stöðum hvar ei hefur áður fiskast, t.d. á Hrútafirði og Steingrímsfirði. Undir Eyjafjöllum skal einn bátur hafa fengið hundrað til hlutar í haust, er það mun vera sjaldgæft. Þannig sýnist forsjónin vilja bæta með björg af sjónum, það sem ábrestur til atvinnu af landinu. [...]

Sunnanpósturinn birti 1836 fréttir af skaðaveðrum á árinu 1835 (12 bls.190):

Skaðaveður mikið, af landnorðri, kom 24. nóvember 1835 austur í Rangárvallasýslu. Það stóð heila 7 daga með sama ofsa. Á Landinu og Rangárvöllum gjörði það mikinn skaða; eyðilagði haga, tún og skóga meir eða minna á 32 býlum; og er haldið að 12 jarðir á Landinu nái sér aldrei aftur; þar fækkaði og í næstu fardögum, 8 búendum. – Þetta sama veður kom og fyrir norðan; og feykti nýju timburhúsi í Siglufirði sem var í byggingu, en skekkti annað. Vestur í Dalasýslu feykti sama veður nokkrum skipum og heyjum, og skemmdi hús. – Veðrið varð skaðlegast á Landinu og Rangárvöllum vegna sandfoksins, sem víða svarf af alla grasrót og þak á húsum og lamdist svo inn í útifénað, að sauðfé gat varla borið sig fyrr en sandurinn var mulin úr ullinni. Malarsteinar sem veðrið feykti með sandinum vógu 6 lóð, og þar yfir. Annað skaðaveður kom vestra á Breiðafirði í júní [1835] af útsuðri með sjávargengd, sem skemmdi láglendar eyjar og sópaði af þeim hreiðrum æðarfuglsins til ekki lítils skaða eigendum. – Þannig er mér skrifað af Síra Gamlíel á Myrká, Stúdenti B. Benedictsen á Staðarfelli og hreppstjóra Guðmundi á Bræðratungu.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1835. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls. Fáeinar tölur má finna í viðhengi. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrri hluti janúarmánaðar

Meðalhiti fyrstu 15 daga janúarmánaðar er +0,4 stig í Reykjavík, -0,3 stigum neðan meðallags sömu daga 1991 til 2020 og -0,5 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára og í 13.hlýjasta sæti (af 21) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar árið 2002, meðalhiti þá +4,2 stig, en kaldastir voru þeir 2005, meðalhiti -2,1 stig. Á langa listanum er hiti nú í 60.sæti af 146. Hlýjastir voru dagarnir 15 árið 1972, meðalhiti +5,9 stig, en kaldastir voru þeir 1918, meðalhiti -9,5 stig.

Á Akureyri er meðalhiti daganna 15 -1,0 stig, -0,3 neðan meðallags 1991 til 2020, en -0,8 neðan meðallags sömu daga síðustu tíu ár.

Að tiltölu hefur verið kaldast á Austfjörðum, þar raðast hitinn í 18.hlýjasta sæti á öldinni, en hlýjast er við Faxaflóa og Breiðafjörð þar sem hiti er í 13.sætinu.

Á einstökum veðurstöðvum er jákvætt hitavik mest í Grundarfirði, +0,2 stig miðað við síðustu tíu ár, en neikvætt vik er stærst á Fáskrúðsfirði, -2,4 stig.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 24,5 mm, rúmur helmingur meðalúrkomu, en 8,4 mm á Akureyri, aðeins fjórðungur meðalúrkomu.

Sólskinsstundir hafa mælst 10,9 í Reykjavík, lítillega ofan meðallags.

Loftþrýstingur hefur verið í hærra lagi, að meðaltali 1014,5 hPa í Reykjavík, nærri 20 hPa yfir meðallagi, en hefur reyndar 23 sinnum verið jafnhár eða hærri síðustu 200 ár, hæstur 1963. Þetta eru mikil viðbrigði miðað við sömu daga í fyrra, þegar meðaltalið var um -20 hPa undir meðallagi, og aðeins þrisvar verið lægri sömu daga síðustu 200 ár.


Fyrstu tíu dagar janúarmánaðar

Meðalhiti fyrstu 10 daga janúarmánaðar 2021 er -0,1 stig í Reykjavík, -1,3 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára og -0,9 stigum neðan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Hitinn raðast í 13.hlýjasta sæti (af 21) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar árið 2019, meðalhiti þá 4,9 stig, en kaldastir voru þeir árið 2001, meðalhiti -4,7 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 65. sæti (af 146). Hlýjastir voru sömu dagar árið 1972, meðalhiti þá 6,7 stig, en kaldastir voru þeir 1903, meðalhiti -7,7 stig.

Á Akureyri er meðalhiti dagana tíu -0,8 stig, -1,1 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára, en -0,2 stigum neðan meðallags áranna 1991 til 2020.

Ekki er mikill munur á vikum spásvæðanna, hiti er víðast í 15. til 16.hlýjasta sæti á öldinni, en kaldast er þó á Suðausturlandi þar sem hiti er í 17.hlýjasta sæti (fjórðakaldasta).

Hiti er neðan meðallags síðustu tíu ára um land allt. Minnst á Gufuskálum þar sem neikvæða vikið er -0,3 stig, en mest við Lómagnúp, -3,7 stig.

Úrkoma hefur mælst 13 mm í Reykjavík og er það tæpur helmingur meðalúrkomu sömu daga. Á Akureyri hefur úrkoma mælst 7,9 mm og er það rúmur þriðjungur meðalúrkomu.

Sólskinsstundir hafa mælst 6,4 í Reykjavík það sem af er mánuði og er það nærri meðallagi.

Fáein stöðvavindhraðaársmet féllu í illviðrinu í gær (laugardag 9.janúar), þessi má telja: 10-mínútna vindhraði mældist 42,1 m/s í Papey, 36,7 m/s á Vattarnesi og 35,5 m/s á Möðrudalsöræfum.


Af árinu 1834

Árið 1834 var ekki talið jafnhagstætt og þau næstu á undan. Meðalhiti í Reykjavík var 4,0 stig en áætlaður 3,1 stig í Stykkishólmi, sem má heita í meðallagi næstu tíu ára á undan. Febrúar var fremur kaldur, og sömuleiðis voru mánuðirnir júní til og með október einnig kaldir, sérstaklega júní. Aftur á móti var desember með hlýjasta móti. 

ar_1834t

Óvenjukaldir dagar voru 15 í Reykjavík, þar af 7 í ágúst og fór hiti niður í frostmark þar aðfaranótt þess 24. og var hámarkshiti þann dag aðeins 3,1 stig. Óvenjuhlýir dagar voru þrír, 30. og 31.maí og svo 3.júní. Hiti fór í 20 stig þann 31.maí og 3.júní. Þessara hlýinda virðist hafa gætt víða um land, t.d. fór hiti í 20 stig alla síðustu 6 daga maímánaðar á Ketilsstöðum á Völlum. Mikil viðbrigði urðu í langvinnu kuldakasti sem hófst snemma í júní. Þá snjóaði víða - m.a. virðist hafa snjóað í Vík í Mýrdal aðfaranótt þess 18. og þá fór hiti þar rétt niður fyrir frostmark - og svo aftur niður í frostmark að morgni þess 20. [dagbók Sveins Pálssonar].  

Ársúrkoma mældist 714 mm í Reykjavík. Votast var í október og desember, en sumarið var fremur þurrt. Loftþrýstingur var óvenjuhár í apríl og mars virðist hafa verið órólegur mánuður. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík 5.mars, 944,7 hPa. Þann dag segir Sveinn Pálsson í Vík í Mýrdal frá óvenjuhárri sjávarstöðu og sjógangi. Hæstur mældist þrýstingurinn í Reykjavík 1038,2 hPa, það var 18.desember. 

Hér að neðan eru helstu prentaðar heimildir um árið teknar saman - þær eru ekki mjög miklar. Ágætar veðurdagbækur eru til, en mjög erfitt er að lesa þær. Annáll 19.aldar getur fjölmargra slysa sem ekki eru nema að litlu leyti tíunduð hér að neðan - enda langflest án dagsetninga og erfitt að tengja þau veðri.

Sunnanpósturinn (1.árgangur, 1835) segir af tíð næstu ár á undan - og einkum þó 1834. Byrjað er á að kvarta undan því að þrátt fyrir gæðatíð undangenginna ára sýni menn litla fyrirhyggju - eyði umframfé í innflutning á óþarfa (harla kunnuglegar kvartanir): 

Viti þeir það þá, sem vilja vita, að næstliðin átta ár, að því seinasta undanteknu, hafa verið mikið góð ár, máski svo góð, sem Ísland getur fengið eða vænst að fá. Vetrar frost; og snjór litlir allvíðast. Grasvöxtur nægilegur og stundum góður. Nýting víðast hvar góð og oftast allgóð. Afli hefir þessi sömu árin í fáum veiðistöðum brugðist; víða verið mikill, einkum 1831 í Hafnarfirði: þá voru nokkrir sem fengu meir en lestarhlut, ei sárfáir, sem ekki næðu 5 hundraða hlut. Aðflutningur á útlendum vörum, bæði þörfum og óþörfum, hefir verið töluverður, og þó sjaldan svo, að ekki hafi allt hið þarfa, og meir en skyldi, af sumu hinu óþarfa, útgengið. Höndlunin hefir og verið landsfólkinu ábatasöm, því ekki hafa fá skip siglt upp landið, og þegar margir vildu eignast þær vörur sem hér voru til, var ekki furða þótt á þeim yrði töluvert verð; hafa vörur og tíðast komið fyrir vörur, en ekki peningar, sem að eins og nú í þrjú næstliðin ár hafa verið innfluttir svo nokkru hefir numið.

Af eldgosum eða ísalögum hér við land, hefir á þessum árum ekki mein orðið, þó við og við hafi sést íshrakningur nyrðra og vestra. Þegar allt þetta er yfirvegað, ættu þess einhverjar menjar að sjást, að árferði hefur verið hér, ekki aðeins nú í átta ár, heldur að kalla má, síðan 1802 í betra lagi. Að fénaðartala sé nú á landinu töluverð, er ekki ólíklegt; en ekki þarf nema einn harðan vetur til að fækka fénaði; byggingar eru víða orðnar æði betri en að undanförnu, og megun, yfirhöfuð að tala, mun nokkuð hafa batnað, en þá minna heldur en líkindi væru til: er það víst því að kenna, að þegar efnin leyfa, þá er manninum það náttúrlegt, að líta ekki eins og sína þörf, heldur leita sér unaðssemdar, sé þess nokkur kostur að hún finnist; fer þá stundum svo, að afgangsleifarnar verða ei meiri fyrir það. þó mikið aflist, heldur enn þegar minna aflast, sé sparseminnar vandlega gætt.

[5] Það seinast liðna ár varð hið lakasta af þeim átta árum, sem vér nú lítum yfir. Vetur lagðist snemma að, bæði vestra og sumstaðar nyrðra, og varð langur eins og alvenja hefir verið. Jarðbönn voru allvíða lengi; samt varð engin, allra síst töluverður, penings fellir.

Vorið byrjaði allvel syðra, en varð því kaldara, sem á það leið, og undir sólstöðurnar með hretviðrum, svo kalt, að óvenju þótti gegna. Sumarið bætti ei um fyrir vorinu, varla gafst á því hlýr dagur. Upp til fjalla var iðuglega töluvert næturfrost, sem náði eftir sem það var sterkt, lengra eða skemmra niður eftir byggðinni; stundum var öllu til skila haldið að það þiðnaði á daginn sem fraus á nóttunni upp um sveitir. Eftir þessu veðráttufari var ekki að furða, þó grasvöxtur yrði lítill. Hann var og víða öllum þriðjungi minni en undanfarið ár. Samt heyjaðist vonum betur, er því má þakka, að veðráttan varð hagstæðari til heyafla, en hún hafði verið til gróðurs. Veturinn til þessa árs byrjunar [1835] hefir allstaðar, sem til hefir frést, verið góður; veðrátta storma- og vætusöm, en varla sést hér syðra snjór á jörðu. Frost kom töluvert um veturnæturnar, allt að 10 gráður, en það stóð ekki lengi. [Við sleppum hér pistli um kvefsótt].

[7] Hér að auki hafa orðið nokkrar slysfarir á þessu ári. Þrjú kaupskip hafa hér við land strandað á þessu ári, sem vér af vitum; af öllum varð mönnum bjargað þó skipin týndust, eitt af þessum rak á land í Grindavík, annað á Búðum, og hið þriðja varð undan ís að hleypa á land í Skagafjarðarsýslu; það var á ferð frá Reykjavík til Akureyrar í Eyjafirði. Í Vestmannaeyjum týndist við land tíært skip; fjórum mönnum af skipshöfninni varð bjargað, hinir 13 drukknuðu. Á Akranesi í Borgarfjarðarsýslu týndust í fiskiróðri á sjó 17 menn þann 26. apríl; en á Álftanesi í Gullbringusýslu 26, sama daginn. Stóð það norðanveður, sem þessu manntjóni olli, ekki mikið yfir fjóra tíma.

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Var sjöunda veltiárið víðast hvar. Í janúar mikil vetrartíð. Í febrúar óstöðugt og jarðlítið, utan á bestu útigangsjörðum. 13.-14. hláka og mikill vatnsgangur í lágsveitum. Á þorraþræl varð jarðbann, er hélst um 10 daga, seint á góu þíða og góðviðri.

Laufási 7-2 1834 [Gunnar Gunnarsson] [Aðallega er hér talað um haustið 1833] (s59) „Fjórir menn hafa orðið úti sinn í hverjum stað í áhlaupsbyljum ... og nú í næstliðinni viku fórst efnilegur ungur maður í snjóflóði á Látraströnd ... – Sérstaklega umhleypingasamt og óstöðugt hefur veðráttufarið verið síðan í haust til þessa, með sterkum stormum og áhlaupa hríðarbyljum, þó sérílagi keyrði fram úr öllu góðu hófi bæði með rigningu og þaráofan öskukafaldshríð þann 14. og 15. október n.l. [1833] þegar Herta fékk slysin – fékk þá svo margur sveitabóndi stórvægilegan skaða á skepnum sínum, sem hröktu í vötn og sjó og frusu. Þó urðu ekki mikil brögð að því hér í Norðursýslu, meiri í Eyja- og Skagafjarðar- en mest í Húnavatnssýslum. Jarðbönn hafa sumstaðar viðvarað síðan um veturnætur, svosem í Bárðardal og víðar fram til dala, sumstaðar síðan með jólaföstu, en almennust hafa þau verið til allra uppsveita, sérílagi síðan nú eftir nýárið, svovel yfir allar Eyjarfjarðar sem hér Norðursýslu og það heilt austur til Berufjarðar ... “.

Svo er að skilja af dagbók Jóns á Möðrufelli að veðrátta („að ofan“) hafi lengst af ekki verið slæm um veturinn, en jarðbönn mikil og sífelldir blotar spillt. 

Bessastöðum 5-3 1834 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s147) „Langt fyrir norðan og vestan er vetur sagður strangur. Hér er hann í verra meðallagi“.

Brandsstaðaannáll [vor]:

Í marslok snjóakafli um 10 daga, síðan góður bati, svo jörð kom upp til heiða og fjallabyggða. Hafði þar verið langvinnt jarðleysi. Í maí kuldasamt og greri seint og ei fyrr en í miðjum maí og kýrgróður ei fyrr en um fardaga. ... (s112) ... 26. apríl varð enn mannskaðabylur sunnanlands. Drukknuðu 26 menn á Álftanesi og 17 af Akranesi. ... Þilfarsbátur frá Höfðakaupstað sökk hér á flóanum, hefur líklega brotnað í íshrakning. (s113).

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Í júní (s111) þurrt og stillt. 28. júní fóru lestir suður. Íshrakningur var norðan landið fram í júlí. Sláttur hófst á miðju sumri. Lengst var þurrkasamt, þó um fráfærur vestanátt og rigningar. Varð því grasvöxtur í meðallagi, en þó lítill á harðlendi og brann af hólatúnum mót sólu. Eftir 10. ágúst hálfsmánaðar votviðri, annars besta nýting. Með september frost og kuldar, líka smáhret, þó ei þyrfti að valda heyhrakningi.

Í dagbókum úr Eyjafirði (Ólafur á Uppsölum og Jón á Möðrufelli) kemur fram að það snjóaði í júní, mest þann 10., en þá segir Ólafur: „Norðan hvass, oftast snjóburðarhríð, renningur um tíma; birti nokkuð og batnaði seinast“. 

Laufási 19-7 1834 [Gunnar Gunnarsson]: (s62) „Ekki bætti vorið stórt um vetrar veðráttufarið hérna, því allt fram yfir Jónsmessu mátti oftar heita fremur vetur en sumar, og um Jónsmessuleytið varð hér jarðlaust fyrir allar skepnur, og skömmu fyrir hana króknuðu tvær kýr hérna framarlega í Fnjóskadalnum, og í þeim mörgu hríðaríhlaupum misstu einir og aðrir nokkuð af kindum sínum ... “.

8. ágúst 1834 (Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum - Andvari 98/1973):(bls 190) 

[Y]fir höfuð var vetur mjög þungur víða vestan- og hvarvetna norðanlands, en vorið þó enn þungbærara með sífelldum kuldum og frostum og hafíshroða hrakningi fyrir landi, er hamlaði skipakomu á okkar höfn lengi sumars. Peningshöld urðu víða mjög bág, og gagnsmunir af málnytju í sumar í rýrara lagi. Þó ber minna á þessu á syðri hluta Vestfjarða, og líka fyrir norðan Yxnadalsheiði. Á Jónsmessu sjálfa skipti um veðráttu. Þá linnti kuldastormum og frostum, og hafa síðan gengið góðviðri. En jörð tók sig ekki eftir svo langsama kulda, er því grasvöxtur víðast mjög rýr, en nýting betri enn sem komið er.

Bjarni Thorarensen var um þessar mundir að gerast amtmaður á Möðruvöllum og flutti norður. Í bréfum hans kemur fram að hann átti flutning í skipinu sem brotnaði í ís við Skaga - húsgögn björguðust, en ýmislegt annað fór, þar með bækur og fleira úr Gufunesi (þar bjó hann áður). 

Reykjavík 25-8 1834 (Bjarni Thorarensen): „ ... fylgdist ég með honum [krónprinsi dana] hingað [frá Möðruvöllum til Reykjavíkur] og fengum við snjó og óveður á Sandi [væntanlega Stórasandi]. ... Hafísinn hygg ég sé nú fyrst að fara“. (s217)

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til ársloka]:

Haustið allgott, frosta og snjóa lítið með oftar stilltu veðri. 1. nóv. hlóð niður fannkyngju, er lá á hálfan mánuð til lágsveita, síðan blotar, en ei tók upp til fjallendis né heiða. Á jólaföstu blotar og frostalítið, en hláka um jólin. Hafði fénaður hrakast mjög í snjóaskorpunni, en fáir gáfu þá fé utan í innistöðum.

[Möðruvöllum] Frederiksgave 25-9 1834 (Bjarni Thorarensen): „Grasvöxtur hinn lélegasti, hey þessvegna lítil, engar fyrningar frá fyrri árum og því horfist illa á með flest ... “. (s218)

Frederiksgave 15-10 1834 (Bjarni Thorarensen): „Veturinn er farinn að sýna sig – sumarið bágt – grasvöxtur vesæll heybirgðir litlar“. (s219)

Bessastöðum 5-10 1834 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s152) „... veðuráttan er hin versta, sterkir stormar og eilífar rigningar“. 

Úr tíðavísum Jóns Hjaltalín 1834

Vetur liðinn veitti þjóð
veðra köstin hörð og óð
Snæg..ur fönn um byggðir bar
blotatamur, hagaspar.

Um Vestfjarða frón þó hét
frekast hefðu bylja hret
haga-bönn sem hjörðum bjó
hrakið fé í ár og sjó.

Vorið stóran vann ei prís
vitjaði fjarða Grænlands-ís
Kulda sá um hauðrið hratt,
hvar af grasið miður spratt.

Töðu-brestur víðast varð
væta haustsins gjörði skarð
heyskap engja einnig á,
úti sem í hríðum lá.

Margan þjáði mæðan fast
mikið gjörði snjóakast
Óþægilegt ullum brands
Einkanlega norðanlands.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1834. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls. Fáeinar tölur má finna í viðhengi.


Rifjast upp

Þegar þetta er skrifað (síðdegis á föstudegi, 8.janúar 2021) er spáð illviðri um landið austanvert, þar eru appelsínugular viðvaranir Veðurstofunnar í gildi. Kortið hér að neðan gildir kl.6 í fyrramálið - (úr fórum evrópureiknimiðstöðvarinnar).

w-blogg080121a

Heildregnar línur sýna sjávarmálsþrýsting, litafletir úrkomu, og strikalínur hita í 850 hPa-fletinum. Við sjáum snarpa lægð skammt fyrir norðaustan land. Vestan hennar er gríðarlegur vindstrengur úr norðri - fárviðri þar sem mest er. Spár gera ráð fyrir því að þessi strengur muni strjúkast við landið norðaustan- og austanvert. Rétt að fylgjast með spám Veðurstofunnar. 

Í huga ritstjóra hungurdiska rifjast af einhverjum (ósjálfráðum) ástæðum upp annað veður sem hann tók á þann 1.desember fyrir 40 árum, 1980. Það bar reyndar aðeins öðruvísi að - skammvinnt landsynningsveður gerði áður og skemmdir urðu í vatnavöxtum um landið sunnanvert - og framhaldið var líka annað heldur en verður nú. 

Til gamans skulum við líta á kort frá því kl.6 að morgni 1.desember 1980.

w-blogg080121b

Afskaplega svipað - næst Íslandi. Kort dagsins í dag er öllu kaldara (mánuði nær miðjum vetri). Það er líka mjög mikill svipur með háloftakortunum - en við látum þau eiga sig að sinni. 

Talsvert tjón varð í þessu veðri. Hér er færsla úr atburðaskrá ritstjóra hungurdiska (aðalheimild hér Veðráttan - tímarit Veðurstofunnar):

Talsverðar skemmdir urðu á mannvirkjum austanlands í hvassviðri, m.a. fauk lögregluvarðstofan á Seyðisfirði á haf út og söluskálar skemmdust. Einnig fuku timburskúrar, bílar og þakplötur. Tveir smábátar sukku í höfninni þar. Foktjón varð einnig í Neskaupstað, þak tók af hálfu fjölbýlishúsi ofarlega í bænum, rúta fauk um koll og gamall nótabátur fauk út á sjó og eyðilagðist, hús voru þakin aur og mold eftir veðrið, ljósastaurar lögðust á hliðina og brotnuðu. Þakplötur fuku á Eskifirði, þar á meðal margar af hraðfrystistöðinni, hlið gamallar skemmu lagðist inn. Tveir bátar sukku í Reyðarfjarðarhöfn og fólksbifreið eyðilagðist, margir bátar skemmdust, reykháfur síldarverksmiðjunnar féll og brotnaði, jeppabifreið fauk um koll og járnplötur tók af mörgum húsum, íbúðarhús í byggingu stórskemmdist og mikið tjón varð í Þurrkstöðinni þar sem mikið af timbri fauk á haf út. Meirihluti af þaki gamals frystihúss fauk á Djúpavogi og rúður brotnuðu í nokkrum húsum. Byggðalínan slitnaði er 18 staurar brotnuðu við Jökulsá á Fjöllum. 

w-blogg080121e

Hægt er að leita að fleiri náskyldum veðrum með hjálp endurgreininga. Finnast þar fljótt fáeinar ámóta stöður - ekki allar tjónvaldar. En þó er hér veður sem gerði 6.febrúar 1952 - lesum forsíðufrétt Tímans þann 8.febrúar. Þó ritstjóri hungurdiska sé farinn að gamlast man hann samt ekki eftir því - [í framhaldinu á síðu 7 segir þetta: „Á Reyðarfirði hvessti nokkru síðar og gerði fljótlega hið mesta illviðri með stormi og snjókomu. Raflínur fuku saman og varð mikill hluti kauptúnsins rafmagnslaus í fyrrinótt. Þak fauk af húsi og annað hús skemmdist mikið. Urðu fjölskyldur þessara húsa að flýja úr þeim meðan veðurofsinn var sem mestur“].

w-blogg080121f

Kort bandarísku endurgreiningarinnar lítur svipað út og kort dagsins - og kortið 1980 - líka í háloftunum. 

w-blogg080121g

Við skulum vona að veðrið nú verði öllu vægara - margir tilviljanakenndir þættir spila saman þegar kemur að tjóni - rétt eins og náskyldir og einsútlítandi eru í raun ólíkir. 


Smávegis af desember

Norðaustan- og austanáttir voru ríkjandi í mánuðinum. Það sést vel á þrýsti- og þrýstivikakorti evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg040121a

Jafnþrýstilínur eru heildregnar, en vik sýnd með litum. Bláir litir sýna neikvæð vik - mikil yfir Bretlandseyjum, en þau rauðbrúnu eru jákvæð, allmikil yfir Grænlandi, norðaustanáttin mun stríðari heldur en að jafnaði. Uppi í miðju veðrahvolfi var hins vegar hálfgerð áttleysa, vestanáttin „brást“. 

Þetta hafði í för með sér eindregin úrkomuvik líka.

w-blogg040121b

Hér má líka sjá meðalþrýstinginn (heildregnar línur - en gisnar dregnar en á fyrra korti). Litirnir sýna úrkomuvik, sett fram í prósentum. Á Austfjörðum segir líkanið hana hafa verið meir fimmfalt meðallag - ekkert óskaplega fjarri lagi. Mesta úrkoma í einum punkti í líkaninu var um 490 mm - nokkru minni en mest var á veðurstöð (um 800 mm á Seyðisfirði og rúmlega 600 í Neskaupstað og á Hánefsstöðum í Seyðisfirði). Trúlega giskar nákvæmara líkan heldur betur á heildarúrkomuna heldur en líkan reiknimiðstöðvarinnar. [Þó það sé grófara en hin eru ekki mörg ár síðan ritstjóra hungurdiska hefði þótt upplausn þess hárnákvæm - en svona eru framfarirnar]. 

Það má finna slatta af desembermánuðum með ámóta stríða norðaustanátt - þarf ekki að leita lengra til baka en eitt ár til að finna svipað. Að þessu sinni var þó styttra í suðlægu áttirnar í háloftunum fyrir austan land heldur en oftast áður. Er þar trúlega að leita skýringar á úrkomuákefðinni nú. 

Þakka Bolla P. að vanda fyrir kortagerðina. 


Meðalhiti í Stykkishólmi

Meðalhiti ársins 2020 var 4,5 stig í Stykkishólmi, 0,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára, en nákvæmlega í meðallagi áranna 1991 til 2020. 

w-blogg010121c

Grænu súlurnar á myndinni sýna vik mánaða ársins 2020 frá þessu nýja meðaltali. Sjá má að hiti var undir því fjóra mánuði ársins, í janúar (aðeins lítillega), í mars, júlí og í september. September varð því kaldasti mánuður ársins að tiltölu í Stykkishólmi. Október var aftur á móti hlýjastur. Í afgangi mánaðanna (sjö) var hiti lítillega ofan meðallags - en árið endaði í meðallagi.

Á myndinni má einnig sjá samanburð tímabila. Bláu súlurnar bera saman hita gamla meðaltalstímabilsins 1961 til 1990 og þess nýja, 1991 til 2020. Talsvert hefur hlýnað í öllum mánuðum, mest í janúar og september. Árið hefur síðustu 30 árin verið 1 stigi hlýrra heldur en næstu 30 ár á undan og munar um minna þegar svo langt tímabil er undir. 

Gulbrúnu súlurnar sýna bera hins vegar saman hita áranna 2011 til 2020 og næstu 30 ára þar á undan, 1981 til 2010. Síðustu 10 ár hafa verið um 0,7 stigum hlýrri en 30 ára tímabilið næst á undan. Einn mánuður, nóvember hefur verið kaldari síðustu tíu ár en næstu 30 nóvembermánuðir á undan - og litlu munar í ágúst. Aðrir mánuðir hafa verið hlýrri en áður, sumir umtalsvert hlýrri. 

w-blogg010121a

Hér má sjá ársmeðalhita síðustu 220 árin rúm í Stykkishólmi. Tíminn fyrir 1830 er nokkuð óviss. Við sjáum að tímabilið allt hefur hiti hækkað um 1,6 stig eða svo, gríðarleg breyting. Við sjáum vel að hlýindi þessarar aldar eru orðin talsvert veigameiri en þau sem næst voru á undan (1926 til 1964) - og bæði 10-ára (rautt) og 30-ára (grænt) meðaltöl hærri en nokkru sinni áður síðustu 220 árin.

Hiti hefur þó hækkað minna síðustu 10 árin en þau næstu á undan - þegar hlýnunin „fór fram úr sér“. Ekkert lát er þó að sjá á hlýindunum. Þrjátíu ára meðaltalið (græn lína) er enn á uppleið. Næsta ár, 2021 mun þrjátíuárameðaltalið þó mæta fremur hlýju ári (1991) - árið 2021 þarf að verða hlýrra en það til þess að 30 ára meðaltalið hafi enn hækkað um næstu áramót. - En þetta hlýja ár, 1991, var þó aðeins 0,1 stigi hlýrra en hið nýliðna, 2020, (sem sumir reyna að tala niður). Árin 1992 til 1995 voru hins vegar fremur köld, meðalhiti þeirra um 1 stigi lægri heldur en hitinn árið 2020. Auðvitað vitum við ekkert um hita næstu ára - en flestir myndu veðja á að meðalhiti þeirra verði samt hærri en 3,5 stig þannig að í lok árs 2025 hafi 30 ára meðaltalið enn hækkað. Til þess að það hækki enn eftir það þarf hins vegar að bæta í hlýnun frá því sem verið hefur. 

Við höfum stundum líka litið á það sem ritstjóri hungurdiska nefnir „leitnilausan hita“. Þá hefur hann numið langtímahlýnun á brott úr hitaröðinni.

w-blogg010121b

Gróflega má segja að hér afhjúpist hinar „náttúrulegu“ sveiflur. Við sjáum tvö mjög mislöng kuldaskeið og þrjú hlýskeið. Það fyrsta að vísu nokkuð götótt - inni í því eru fáein mjög köld ár. Af þessari mynd má glögglega sjá að talsvert mætti kólna hér á landi án þess að hægt væri að tala um að hnattræn hlýnun hafi „brugðist“ okkur að einhverju leyti. Það mætti kannski fara að nefna það falli 10-ára meðalhiti um 1,5 til 2 stig eða meira frá því sem nú er. Þar til slíkt gerist þýðir ekkert að ræða slíkt (haldi hiti á heimsvísu áfram að hækka á svipaðan hátt og hann hefur gert síðustu 40 árin). Áratugamisvægi milli hita hér á landi og „heimshita“ er oft umtalsvert. Um það var fjallað nokkuð ítarlega í pistlum á hungurdiskum um mánaðamótin apríl/maí 2016. Leitarorðið er „heimshiti“.

Við munum á næstunni rifja upp fleiri atriði varðandi veður á árinu 2020 - en ársyfirlit Veðurstofunnar mun auðvitað birtast um síðir. 

Ritstjóri hungurdiska óskar lesendum og öðrum velunnurum árs og friðar og þakkar góðar og vinsamlegar undirtektir á liðnum árum. Hann er orðinn nægilega gamall til að óska þess að nýhafið ár verði sem tíðindaminnst í veðri og allir hamfaraviðburðir haldist víðs fjarri. 


Tengt leirskriðunni í Noregi

Leirskriðan í Ask í Noregi rifjar upp að í íslenskum miðaldaannálum er getið um mikið slys sem varð í Þrændalögum haustið 1345.

Í Lögmannsannál segir í texta ársins 1346 (ég breyti stafsetningu nokkurn veginn til nútímahorfs, lesa má frumtextann í annálaútgáfum á netinu - sjá tilvitnun hér neðst):

Þau tíðindi gerðust um haustið áður (1345) að hálfur þriðji tugur bæja sökk niður í jörð í Gaulardal svo að enginn urmull sá eftir byggðarinnar, utan slétt jörð og aur eftir þar sem byggðin hafði staðið.

Ítarlegasta frásögnin er í Skálholtsannál í texta ársins 1345:

Í Gaulardal í Þrándheimi bar svo til að áin Gaul hvarf nokkra [daga] og stemmdi uppi ána Gaul svo að fjöldi manna drukknaði, en yfir flæddi bæina svo að allir voru í kafi og allur fénaður drukknaði. Síðan brast stíflan og hljóp ofan allt saman og áin og tók þá miklu fleiri bæi og fénað, tók þar alls af átta bæi hins fimmta tugar og sumir af þeim höfuðból og nokkrar kirkjur. Var svo til reiknað að nær hálft þriðja hundrað manna hafi þar látist, bændur og konur þeirra og börn og prestar nokkrir og margir klerkar og fjöldi gildis-fólks og margt vinnu manna. Enn menn hyggja að þar muni eigi færra látist hafa vegfarandi manna og fátækt fólk en hinir sem taldir voru. Bar þetta til krossmessudag um haustið. Fannst nokkuð af líkum en fáum einum mönnum varð borgið svo að lifað hafa, því jörðin svalg allt saman mennina og bæina. Eru þar nú síðan sandar og öræfi, en fyrst voru vötn og bleytur svo að eigi máttu menn fram komast. 

Fleiri annálar nefna atburðinn, en aðeins í mjög stuttu máli. Svo virðist sem íslensku heimildirnar séu þær einu sem geta hans beinlínis. Árið 1893 varð mikil leirskriða í Værdal í Norður-Þrændalögum þar sem að sögn fórust 112 manns, mannskæðustu náttúruhamfarir í Noregi á seinni öldum (fyrir utan sjóslysaveður). Tveimur árum síðar rituðu þeir Amund Helland og Helge Steen grein „Lerfaldet i Guldalen í 1345“. Birtist hún í ritinu „Archiv for mathematik og naturvidenskap, B, xvii, nr.6“ árið 1895, en einnig sem sérprent.

Finna má greinina á netinu, en þar er farið yfir frásagnir annálanna, staðhætti og jarðfræði og leiddar líkur að því hvað hafi gerst og hvar. Niðurstaðan er sú í grófum dráttum að frásögn Skálholtsannáls standist í öllum aðalatriðum. Leirskriða (sömu ættar og sú í Ask á dögunum) hafi stíflað ána Gaul (sem einnig er nefnd Gul). Vatn hafi safnast fyrir ofan stífluna sem að nokkrum dögum liðnum brast og flóð varð neðar í ánni. Tjónið hafi því verið þríþætt, bæir og land sukku og féllu með skriðunni sjálfri, bæir fóru á kaf ofan stíflunnar og tjón varð neðar í dalnum þegar stíflan brast. 

Kortið hér að neðan er úr greininni. Þar má sjá að þetta er ekki langt frá Þrándheimi. 

guldalen_kort_1

Vestari hluti kortsins - Þrándheimur lengst til vinstri. Hér má sjá endann á því svæði þar sem minjar finnast um flóðið neðarlega í dalnum.

guldalen_kort_2

Hér má sjá eystri hluta hamfærasvæðisins. Skriðusvæðið sjálft er á miðri mynd (aðeins dekkri brúnn litur), en svæðið sem fór í kaf ofan við er blálitað. 

Niðurstaða þeirra Helland og Steen er sú að leirefnið sem á hreyfingu var hafi verið um 55 milljón rúmmetrar (fimm til tífalt rúmmál skriðunnar miklu í Hítardal 2018, og hátt í þúsundfalt rúmmál stærstu skriðunnar á Seyðisfirði nú á dögunum). Lónið hafi verið rúmir 150 milljón rúmmetrar (rúmur þriðjungur Blöndulóns). 

Þegar rennt er yfir greinina kemur á óvart hversu algengir atburðir af þessu tagi eru í Noregi og hversu mörg stórslys hafa orðið. Hækkað hefur tímabundið í stórum stöðuvötnum og stíflur brostið, hús hafa sokkið eða hrunið og fólk farist í stórum stíl. En eins og vill verða um fleiri tegundir náttúruhamfara er ekki mikið um þetta rætt (nema meðal sérfræðinga). Margs konar hagsmunir koma við sögu auk ótta og óþæginda. 

Þó hamfarirnar 1345 hefi verið miklar voru þær samt algjörir smámunir miðað við það sem yfir Noreg féll aðeins fáum árum síðar. Þá kom svartidauði og drap að minnsta kosti þriðjung landsmanna - kannski meir. Það er því e.t.v. ekki óeðlilegt að skriða - þó stór hafi verið - hafi fallið nokkuð í skuggann og aðeins verið skráð á Íslandi.

Vitnað er lauslega í:

Islandske Annaler indtil 1578. Udgivne for det norske historiske Kildeskriftfond ved Dr. Gustav Storm, Christiania. Grøndahl & Søns Bogtrykkeri, 1888.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg170925b
  • w-blogg170925a
  • w-blogg130925-ak-a
  • w-blogg130925a
  • w-blogg130925b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.9.): 15
  • Sl. sólarhring: 349
  • Sl. viku: 1570
  • Frá upphafi: 2499172

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 1434
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband