Bloggfærslur mánaðarins, júní 2024
22.6.2024 | 22:17
Skemmtideildin með sýningu
Skemmtideild evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir nú (að kvöldi laugardags 22.júní) uppkast að veðri um næstu helgi. Það sýnir þetta kort hér að neðan:
Kortið gildir síðdegis sunnudaginn 30.júní. Veðurkortavanir sjá strax hvað þetta þýðir - 20 til 25 stiga hita í innsveitum um mestallt land. Aðrir reikningar hafa ekki sýnt áform sem þessi - kannski er reiknimiðstöðin bara í einhverjum kosningaham - líkur á að þetta komist til framkvæmda eru sjálfsagt ámóta litlar og ýmsar skýjaborgir stjórnmálamanna.
Gervigreind reiknimiðstöðvarinnar viðurkennir þetta ekki (spáir sunnanstrekkingi og mígandi rigningu um stóran hluta landsins þennan sunnudag framtíðarinnar) - og sama má segja um bandarísku veðurstofuna - ekkert svona þar heldur. Við búumst því við því að í fyrramálið komi í ljós að hætt hafi verið við -
En miði er möguleiki sagði einhvers staðar.
Viðbót - mánudaginn 24.júní. Það fór sem líklegast var - hætt var að spá þessum eðalhlýindum um leið og þau höfðu verið sýnd. Síðan eru tveir dagar. Nú ber svo við að aftur er lýst hlýindum þennan sama sunnudag (30.júní) - en það eru alls ekki þau sömu - bæði koma þau úr annarri átt, hægviðri ekki í boði - og þeim fylgir mígandi rigning sunnanlands (og þar með ekki teljandi hlýja). Aftur á móti er sagt að hlýindi heimsæki Norðaustur- og Austurland - örskamma stund - en svo um munar.
Þetta er allt önnur staða en spáð var fyrir tveimur dögum. Sterk sunnanátt í lofti - en mikil hlýindi í mjórri tungu sunnanloftsins, þykktin meiri en 5640 metrar yfir Austurlandi - kannski 26 stig þar (ef til vill háskýjað). - Minnir nokkuð á stöðuna 23.júlí 1952 þegar óvenjuhlýtt loft fauk hjá og sló mörg hitamet í háloftum yfir Keflavík (svo ótrúlega að varla getur verið rétt) - eða annan merkan dag 25.júní 1988 þegar hiti fór í 28,6 stig á Vopnafirði - þá fauk líka óvenjuhlýtt loft hjá - en var farið áður en maður hafði snúið sér við.
En þess virði að fylgjast aðeins með - þótt spárnar bregðist.
Ennviðbót miðvikudag 26.júní:
Við einblínum enn á sama sunnudag, 30.júní. Nýjasta spáin (gerð eftir hádegi miðvikudag 26. júní) sýnir í megindráttum svipaða stöðu og við sáum í fyrradag - en þó er munur:
Sterkasti sunnanstrengurinn - og mesta rigningin er heldur vestar en á fyrra korti og háloftahlýindin ekki alveg jafnmikil og var. Þetta þýðir að helgarveðrið lítur heldur betur út hér á Suður- og Vesturlandi en það gerði í spánni fyrir tveimur dögum - ekki fari að rigna fyrr en eftir hádegi á sunnudag, og ekki er alveg sömu hlýinda von á Norður- og Austurlandi og reiknað var með - en samt ekki alveg búið að afskrifa þau.
Loftið er þó mjög hlýtt. Þykkt yfir Suðvesturlandi er spáð 5610 m, sem er mikið - stundum er slík tala sú hæsta sem verður það árið. Hita í 850 hPa (um 1500 metra hæð) er spáð um +12 stig - það er líka mjög hátt - myndi ef vel hitti í háloftaathugun um það bil rétt nægja í topp fimm í júnímánuði, en þar sem þetta fýkur fljótt hjá er ekki víst að það hitti á athugun - þær eru aðeins gerðar tvisvar á sólarhring (þegar allt er í lagi).
En - eins og áður er sagt standa hitafleygar af þessu tagi stutt við og mjög tilviljanakennt er hvernig þeir skila sér í hita á veðurstöðvum - það þarf að draga margar réttar tölur í veðurlottóinu.
Vísindi og fræði | Breytt 26.6.2024 kl. 20:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.6.2024 | 19:29
Fyrstu 20 dagar júnímánaðar 2024
Fyrstu 20 dagar júnímánaðar hafa verið í svalara lagi á landinu. Meðalhiti í Reykjavík 8,2 stig, -1,3 stigum neðan meðallags áranna 1991-2020 og raðast í 21. hlýjasta sæti (af 24) sömu daga á þessari öld. Hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 2002, meðalhiti þá 11,5 stig. Kaldastir voru þeir hins vegar 2001, 7,8 stig. Á langa listanum raðast hiti nú í 113. sæti (af 152). Hlýjast var 2002, en kaldastir voru þessir almanaksdagar árið 1885, meðalhiti þá 6,6 stig.
Á Akureyri er meðalhiti nú 7,2 stig, -1,9 stigi neðan meðallags 1991 til 2020, í 76. sæti af 89 á lista sem nær aftur til 1936. Hlýjastir voru þessir dagar í fyrra, 2023, meðalhiti þá 12,4 stig, en kaldastir voru þeir 1952, meðalhiti aðeins 4,9 stig.
Að tiltölu hefur verið einna hlýjast á Suðausturlandi, hiti þar raðast í 18. hlýjasta sæti það sem af er öldinni, en kaldast að tiltölu hefur verið á Ströndum og Norðurlandi vestra, þar hafa sömu dagar aðeins einu sinni verið kaldari það sem af er öldinni.
Miðað við síðustu tíu ár er neikvæða hitavikið minnst við Miðfitjahól á Skarðsheiði, -0,4 stig (en við segjum þó að sú tala sé óstaðfest) og á stöð Vegagerðarinnar við Kvísker í Öræfum. Neikvæða vikið er mest á Grímsstöðum á Fjöllum, -3,7 stig.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 32,9 mm og er það rúm 10 prósent umfram meðallag. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 42,2 mm sem er ríflega þreföld meðalúrkoma (óstaðfest) og 52,2 mm á Dalatanga og er það í tæpu meðallagi.
Það kemur nokkuð á óvart (miðað við kvarttóninn) að sólskinsstundir hafa mælst 133,3 í Reykjavík og er það í rétt rúmu meðallagi sömu daga. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 120,6 og er það nærri meðallagi.
19.6.2024 | 22:44
Dauft
Veður er heldur grámyglulegt á landinu þessa dagana. Það gæti að vísu verið kaldara - en það er langt í frá hlýtt - og varla nokkur von um hlýindi sem talandi er um á næstunni.
Norðurhvelskortið hér að ofan sýnir ástæðurnar. Það gildir reyndar ekki fyrr en síðdegis föstudaginn 21. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, litir sýna þykktina. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Ísland er í daufasta græna litnum - sem er reyndar í meðallagi árstímans. Við viljum þó frekar vera inni í gulu og brúnu litunum.
Við Suður-Grænland er mjög stór háloftalægð - flatur kuldapollur. Hann hreyfist í átt til okkar og fátt virðist geta hreyft við honum. Flestar spár eru sammála - eina verulega ósamkomulagið er um það hversu djúpar sjávarmálslægðirnar sem honum fylgja verða. Þær ráða veðri hér um helgina - stórar, flatar og hægfara, fullar af svölu lofti. Sólin er þó upp á sitt besta fái hún eitthvað að sýna sig. Rétt að tala sem minnst um hitann - hann verður þó líklega einna hæstur norðaustan- og austanlands - en nær lengst af ekki tíu stigum hér syðra - nema svona upp úr hádeginu.
Við verðum víst að gefa þessu veðurlagi einhvern tíma - (það gæti verið verra).
16.6.2024 | 13:38
Fyrri hluti júnímánaðar 2024
12.6.2024 | 23:03
Ritstjórinn verður stundum hissa
Stundum verður ritstjóri hungurdiska ósköp hissa á spám. Í dag er það ákveðið smáatriði í úrkomuspám háupplausnarlíkana yfir Íslandi.
Hér að ofan eru tvær klippur úr Íslandskortum tveggja líkana - fleiri líkön sýna það sama. Reiknað er frá kl.18 í dag miðvikudaginn 12.júní 2024 - og 21 stund áfram - til kl.15 á morgun fimmtudag. Á kortinu eru fáeinir blettir þar sem úrkoma er mjög mikil - að því er virðist án tengsla við eitt eða neitt (?). Spáð er suðaustanátt og ekki kemur á óvart að mikil úrkoma eigi að falla við Snæfellsjökul (eða á Reykjanesfjallgarðinn - við jaðar klippanna). Nær engin úrkoma á að falla í Borgarnesi - en aftur á móti tugir mm vestur á Mýrum, ekki langt frá urðunarsvæðinu í Fíflholtum - eins er annar ámóta blettur norðvestur af Snæfellsnesi - og sá þriðji reyndar austarlega á Suðurlandsundirlendinu.
Í spám af þessu tagi má oft sjá ótrúlegar dembur sem dreifast óreglulega - en þær standa venjulega mjög stutt - eða færast úr stað. Hér á einfaldlega að rigna 3 til 7 mm á klukkustund jafnt og þétt - (hámarkið færist til um fáeina kílómetra á hverri klukkustund - en óreglulega nærri sama punktinum).
Á öðrum kortum sést að töluverðar flotbylgjur (fjallabylgjur) eru yfir svæðinu - en hér er eitthvað meira á ferð. Til að sjá hvað er á ferðinni þarf nánari athugun - ritstjórinn fer auðvitað létt með að giska - en það gisk gæti verið alveg út í bláinn - þannig að hann þegir um það hér.
Svo bíðum við eftir tölum úr sjálfvirka úrkomumælinum í Fíflholtum - skyldi eitthvað af þessu verða - eða er fyrirbrigðið aðeins til í líkanheimum? Þótt það ekki hitti á Fíflholt gæti það þó verið raunverulegt - við bíðum spennt.
Rétt er að geta þess að ekkert þessu líkt sést í hinum grófari líkönum reiknimiðstöðvanna stóru - enda varla við því að búast upplausn þeirra er of lítil - og úrkomuframleiðsluferlar ekki alveg þeir sömu.
11.6.2024 | 14:08
Fyrstu tíu dagar júnímánaðar
10.6.2024 | 16:25
Hugsað til ársins 1939
Árið 1939 var bæði mjög hlýtt og hagstætt. Í janúar var hagstæð tíð og oft bjartviðri á Suður- og Vesturlandi, en snjóasamt norðaustanlands. Í febrúar var fremur óhagstæð tíð með talsverðum snjó, nema helst suðaustanlands. Lítið var þó um stórviðri. Mars var hagstæður, en enn var mikill snjór um norðanvert landið. Í apríl var hagstæð tíð um nær allt land og vel voraði. Maí þótti einmuna góður til lands og sjávar. Mjög hlýtt var í veðri. Júní var einnig hagstæður og grasvöxtur var góður, hlýtt var í veðri. Í júlí var áfram hagstæð tíð nema helst við norðausturströndina. Þurrt var víðast hvar og hlýtt í veðri. Ágúst var nokkuð vætusamur suðvestanlands en annars var tíð hin besta. Mjög hlýtt var í veðri. September var fádæma hlýr og þótti óvenjuhagstæður, en nokkuð úrkomusamt var þó sunnanlands. Uppskera úr görðum óvenju mikil. Tíð var bæði hagstæð, stillt og hlý í október. Í nóvember var tíð hagstæð á Suður- og Vesturlandi, en norðaustanlands snjóaði talsvert. Sunnanlands var tíð hagstæð, en norðanlands gerði miklar snjókomur síðari hlutann, en veður voru hæglát.
Við förum yfir helstu veðurtíðindi ársins eins og þau komu fram í blöðum (timarit.is), hjá veðurathugunarmönnum og í Veðráttunni, tímariti Veðurstofunnar. Við leyfum okkur að færa stafsetningu til nútímahorfa (að mestu), sömuleiðis eru textarnir oft styttir. Vonandi sætta höfundar sig við það. Illviðri voru óvenjufá og árið það eina (frá 1912) án dags á stormdagalista ritstjóra hungurdiska. Höfum þó í huga að stöðvakerfið var nokkuð gisið - og listinn því ekki alveg jafnþéttur og síðar var. Helstu tíðindi ársins felast í góðri tíð - árið enda margrómað. Tvær (eða þrjár) merkar hitabylgjur gerði, methitabylgja í júní, önnur methitabylgja fyrstu dagana í september og sú þriðja í júlí. Morgunblaðið var einna vökulast í veðurfréttum þetta árið og er því langmest vitnað í það hér að neðan.
Við notumst að vanda við tíðarfarslýsingar margra veðurathugunarmanna - setjum þær í upphafi umfjöllunar um veður hvers mánaðar hér að neðan og hefjum leikinn á janúar. Þess má geta að þetta er sólríkasti janúar frá upphafi mælinga á Akureyri (en segir svosem ekki mikið - ætíð er sólarlítið þar í janúar).
Síðumúli (Ingibjörg Guðmundsdóttir): Veðráttan stillt, úrkomulítið og í einu orði sagt, fádæma góð. Hagar nógir fyrir hesta.
Lambavatn (Ólafur Sveinsson): Það hefir verið sama veðurblíðan þennan mánuð eins og það sem af er vetri. Mátt heita alautt nema eina viku, en kuldanæðingar framan af mánuðinum. Skepnum er gefið hér hér töluvert af því beit er hér ónýt og allra helst þegar jörð er alltaf auð.
Kvígindisdalur (Snæbjörn Thoroddsen): Allt fram til 17. var að vísu alhvít jörð, en snjódýptin samt ekki 1 cm. Mánuðurinn má heita mjög góður, úrfellalítill og frostmildur og að síðustu hálfauð jörð og fjögra stiga hiti. Svona gott tíðarfar er mjög fágætt í janúarmánuði.
Suðureyri (Kristján A. Kristjánsson): Fremur frostvægt - en snjóþungt og haglaust. Óvenjuhæglátir vindar og man hér enginn jafnmargar gæftir í janúar - 18 sjóferðir - góður afli. Úrkomulítið eftir 11. Hinn 8.janúar féll snjóflóð á Norðureyri, hljóp gilið. Drap 26 kindur.
Sandur (Heiðrekur Guðmundsson): Tíðarfar lengst af fremur kalt, en stillt. Fannalög mjög mikil og hagleysur. Gerði hjarn eftir hlákublotann þ.19. og 20.
Reykjahlíð (Pétur Jónsson): Hríðar fyrstu dagana, snjór mikill kominn um áramót. Óx ekki mikið úr því. Fremur hægviðrasamt allan mánuðinn nema fyrstu dagana. Frost oft allmikil. Laxá stíflaðist í áramótahríðunum og hækkaði yfirborð Mývatns þá allt að 50 cm. Var þá krap mikið og vont um að að fara. Eftir hlákuna 19.-20. kom gott hjarnfæri.
Fagridalur (Oddný S. Wiium): Harðindatíð norðaust- austlæg átt og snjókomur og víða algjör innistaða.
Nefbjarnarstaðir (Jón Jónsson): Fyrra hluta mánaðarins var mjög snjóasamt af norðri og norðaustri svo haglaust gjörði. Síðan snerist til suðvestan- og vestanáttar með frostleysu í tvo daga. Annars má mánuðurinn teljast í kaldara lagi.
Papey (Gísli Þorvarðsson): Hér varð fyrst alhvít jörð á vetrinum 4. þ.m. en alauð aftur þ.19. Ekki sést snjóblettur nema á háfjöllum, þá lítill snjór.
Sámsstaðir (Klemenz Kr. Kristjánsson): Mánuðurinn mjög bjartviðrasamur og snjóléttur með nokkru frosti.
Rauðalækur (Aðalsteinn Teitsson): Svo virðist sem einskonar kuldabelti hafi legið hér yfir mið- og vesturhluta Rangárvallasýslu því þá sjaldan ég hefi haft tækifæri til þess að hlusta á veðurfregnir undanfarna daga hefur víðast og stundum allstaðar á landinu verið hærra hitastig en hér, enda örsjaldan að hiti hafi komist yfir frostmark. Annars hefir tíðin verið óvenjustillt eftir því sem hér gerist á þessum tíma árs, eða svo hafa kunnugir tjáð mér.
Árinu 1938 lauk með hríðarveðri um landið norðanvert. Hríðin hélt áfram fram í janúar með ófærð og snjóflóð féllu. Einnig urðu talsverðar símabilanir. Morgunblaðið segir frá 3.janúar:
Norðan stórhríð hefir verið um allt Norðurland undanfarna daga og hefir hlaðið niður miklum snjó. Samgöngur hafa víða teppst alveg og sumstaðar hefir ferðafólk verið veðurteppt á bæjum í 3-4 daga. Fréttaritari Morgunblaðsins á Akureyri símar í gær, að allt sé á kafi í snjó og að varla sé hægt að komast út fyrir hússins dyr vegna hríðarinnar. Snjóskaflar eru meira en mannhæðar háir. Allir mjólkurflutningar hafa legið niðri úr nærsveitum Akureyrar síðan fyrir helgi. Í gær var leiðin um Eyjafjörð frá Akureyri könnuð, en ekki var komist lengra en að Hvammi, sem er rétt fyrir innan Gróðrarstöðina. Fund átti að halda í Sjálfstæðisfélagi Akureyrar í gærkvöldi, en hann fórst fyrir sökum þess að fólk komst ekki á fundinn fyrir ófærð.
Við Siglufjörð var ekki hægt að ná símasambandi í gær vegna bilana á línunni. Hafði línan lagst niður vegna ísingar skammt frá Dalvík. Fréttaritari vor á Blönduósi símar í gær, að þar hafi staðið yfir látlaus norðan stórhríð síðan á fimmtudag [29.desember 1938]. Norðanpóstur kom yfir Holtavörðuheiði á fimmtudag og hefir verið veðurtepptur á Sveinsstöðum síðan. Samgöngur hafa alveg lagst niður í Húnavatnssýslum. 18 manns fóru frá Blönduósi s.l. fimmtudag til þess að vera á dansleik, sem haldinn var í samkomuhúsinu við Auðkúlurétt. Er dansleiknum var lokið og fólkið ætlaði heimleiðis komst það ekki lengra en að Litla-Búrfelli. Næsta dag hélt hópurinn þaðan áleiðis til Blönduóss. En hríðin var hin sama og veðurhæð mikil. Þann dag komst það að Kagaðarhóli. En þá munaði litlu að 5 manns yrði úti, er varð viðskila við samferðafólkið. Hraktist það út af veginum og lenti út í móum, sem voru slæmir yfirferðar mjög. Það vildi fólkinu til láns, að einn af þessum 5 þekkti klettasnös skammt frá túninu á Kagaðarhóli og gat tekið stefnu þaðan í fjárhús eitt. Þannig komst fólkið í fjárhúsið, en var þá orðið svo máttfarið, að það komst ekki hjálparlaust þaðan heim til bæjar. Á gamlaársdag komst fólkið heim til Blönduóss.
Talsverð brögð hafa orðið að símabilunum á Norður- og Austurlandi: Á Holtavörðuheiði hafa slitnað og slegist saman símalínur. Sambandslaust er milli Akureyrar og Seyðisfjarðar og smábilanir hafa orðið á Austfjörðum. Suðurlandslínurnar eru allar í lagi. Sumstaðar hefir verið sambandslaust í tvo daga vegna þess að veður hefir verið svo slæmt, að ekki hefir verið hægt að senda út menn til að gera við línurnar. Á Holtavörðuleiði hefir verið svo slæmt veður, að ekki hefir verið hægt að senda viðgerðamenn fyrr en í gærmorgun. Þó var veðrið svo slæmt, að ekki var hægt að gera við allar bilanir.
Veðurstofan gaf Morgunblaðinu eftirfarandi upplýsingar um veðrið í gær: Síðan á fimmtudag hefir verið látlaus stórhríð um allt norðanvert Ísland. Lægði nokkuð á gamlársdag, en í gær [2.] hvessti á ný með blindhríð. Hríðin hefir náð til Norðausturlands og Vestfjarða nyrst. Frost hefir ekki verið mjög mikið. Í gær var mest 10 stiga frost á Síðumúla í Borgarfirði, en þar var heiðskírt. Á Jan Mayen var í gær norðaustan fárviðri, 12 vindstig. Á Bretlandi var norðan hvassviðri og hiti um frostmark. Útlit var fyrir að lægja myndi í nótt veðurofsann, sagði Veðurstofan, en norðanáttin mun samt haldast enn. Lágþrýstisvæði er yfir Norðursjónum, en óvenjulega há loftþrýsting á norðanverðu Grænlandi. Þar var í gær 20 stiga frost.
Alþýðublaðið segir svipaða sögu 3.janúar:
Svo að segja látlausar stórhríðar hafa gengið undanfarna 5 daga um Norður- og Austurland. Ferðafólk hefir víða orðið veðurteppt, símar hafa bilað og á Sauðárkróki skemmdist hafnargarðurinn í ofsabrimi. Á Akureyri hafa verið látlausar hríðar frá því á föstudag að undantekinni uppstyttu á nýjársdag. Á Akureyri og fram um allan Eyjafjörð er kominn geysimikill snjór og hafa teppst allir mjólkurflutningar til Akureyrar. Fundum, sem átti að halda í gærkveldi, varð að fresta sakir ofveðurs. Í Húnavatnssýslu hefir hlaðið niður miklum snjó. ... Í Skagafirði hefir verið versta veður undanfarna daga, öðru hvoru stórhríðar og hefir hlaðið niður snjó. Feikna brim hefir verið á Sauðárkróki og skemmdist hafnargarðurinn í ofsabrimi. Brotnaði tré undir steyptum palli, gliðnaði garðurinn og seig pallurinn niður um fet á parti. Í dag er bjart veður á Sauðárkróki, hríðarlaust, suðaustanstormur og dálítið frost. Símabilanir hafa verið talsverðar. Símalínur hafa slitnað á Holtavörðuheiði, ýmsar bilanir hafa verið á Austurlandi og sambandslaust milli Akureyrar og Seyðisfjarðar. Veðrið er heldur að ganga niður núna, en þó er ennþá hríð víða á Norðurlandi. Frost hefir verið frá 3-10 stig, en er heldur minnkandi.
Ofurlítil uppstytta var á nýársdag, en versnaði aftur í fyrrinótt. Seinnipartinn í gær dró úr frosti og í gærkveldi var hiti sumstaðar á Suðaustur og Austurlandi. Frost hefir ekki verið meira fyrir norðan en hér.
Alþýðublaðið segir af snjóflóði á Siglufirði á gamlárssag og veðurteppum 6.janúar:
Á gamlársdag féll snjóflóð mikið úr Hafnarfjalli við Siglufjörð stuttu sunnan við Höfn. Tók snjóflóðið svonefndan Goosbæ eign Snorra Stefánssonar í Hlíðarhúsi svo að eftir stóðu aðeins veggirnir, er voru út torfi. Enginn bjó í bænum. Snjóflóðið sópaði einnig í burtu öllum túngirðingum er fyrir urðu og allstórri heyfúlgu og sleit ljósaþræði. Flutningsbáturinn, sem gengur milli Siglufjarðar og Sauðárkróks kom til Siglufjarðar í fyrradag, eftir að hafa legið veðurtepptur úti fyrir Hofsósi frá því á miðvikudagskvöld [28.desember] til þriðjudagsmorguns [3.janúar]. Var þann tíma lengst af blindhríð og 29 klukkustundir samfleytt varð að hafa vél i fullum gangi, svo að eigi ræki bátinn í land, þrátt fyrir öflug legufæri. Farþegar komust i land á Hofsósi þegar á miðvikudagskvöld. Gekk allt slysalaust og vörur, er voru í bátnum, eru óskemmdar. Formaður bátsins er Skafti Stefánsson frá Nöf. Nú er komið ágætt skíðafæri á Siglufirði, og fara allir í skíðaferðir, sem hafa tök á. (Skv. fréttaritara Alþýðublaðsins og FÚ)
Morgunblaðið segir 10.janúar frá snjóflóðinu á Norðureyri og áður er getið:
Laust eftir hádegi á sunnudag [8.janúar] féll snjóflóð á Norðureyri við Súgandafjörð. Manntjón varð ekki, en 26 kindur fórust. Bárust sumar kindurnar fram á fjörð. Bóndinn á Norðureyri, Kristján Sigurðsson, hefir áður orðið fyrir þungum búsifjum af völdum snjóflóða. Hafa flóðin stundum sópað burtu bæjar- og peningshúsum. Mikil flóðalda barst suður yfir fjörðinn undan þessu síðasta snjóflóði, en ekki er vitað að það hafi valdið tjóni.
Morgunblaðið birti 15.janúar langloku þar sem kvartað var undan röngum veðurspám og nefnd dæmi. Við sleppum dæmunum en birtum enda greinarinnar. Henni var síðar svarað af Jóni Eyþórssyni - og endursvar birtist svo enn síðar (við sleppum þeim):
Eru íslenskar veðurfregnir ábyrgðalaust blaður? Þegar kvartað hefir verið yfir hinum óábyggilegu veðurfregnum, er svarið ætíð það sama, að svo erfitt sé að segja, fyrir eða sjá breytingar á hraða og hreyfingu lægðanna. Það má vel vera, að nokkuð sé hæft í þessu, en að staðaldri trúi ég seint að svo sé. Ég hefi tekið hér tvö dæmi að framan, þar sem þýskur veðurfræðingur spáir nákvæmar fyrir Ísland en sá íslenski. Þetta eru engin einsdæmi, heldur hefi ég og nokkrir starfsbræður mínir veitt því athygli, að það er margoft betri spáin fyrir ísland hjá þýsku veðurfræðingunum, sem hafa hana á hendi fyrir þýsk veiðiskip hér við land, heldur en sú íslenska. En af því yfirliti, sem þeir lesa upp, virðist, ekki að sjá, að þeir hafi neinar fregnir fram yfir þá íslensku. Það verður sennilega erfitt að komast að sannri niðurstöðu um í hverju þessi mismunur liggur, en ekki skal dylja, að sú skoðun er orðin nokkuð sterk, að hér sé um sleifarlag að ræða. Það er að minnsta kosti þjóðkunnugt mál (og illa séð af þeim, sem strangar kröfur gera til veðurfregnanna), að annar veðurfræðingurinn hefir í ýmsu öðru að snúast heldur en sérgrein sinni. Ég veit ekki hvort hinn er hlaðinn nokkrum aukastörfum. Ég er að minnsta kosti í hópi þeirra manna, sem treysta því að þessir menn geti gert betur en raun er á. Þeir munu báðir hafa margra ára reynslu að baki sér við þetta starf, og þrátt fyrir að þeir séu ekki alvitrir og almáttugir, virðist það lögmál, sem vindarnir lúta, ekki vera svo yfirnáttúrlegt, að sú þekking, sem þeir daglega viða að sér í starfinu, ætti að færa þá nær fullkomnum árangri. Óánægjan með skeikulleik veðurspánna er orðin svo mikil, að á þeim verður að gera bót, og sú krafa skal ekki þagna fyrr en orðin er einhver breyting til batnaðar, því líf og lán íslenskra sjómanna er dýrmætara en svo, að það megi vera háð tímabærum hentugleikum einstakra manna, þar sem vera á vísindaleg nákvæmni og alvara. Halldór Jónsson loftskeytamaður.
Tíminn segir af hrakningi haftyrðla og tíðarfari í Norðfirði 17.janúar:
Samkvæmt bréfi, sem blaðinu hefir borist frá Ingimundi Ásgeirssyni á Reykjum í Lundarreykjadal í Borgarfjarðarsýslu flæktust hópar af haftyrðli þar suður í dalina i norðanveðrinu mikla um áramótin. Flestir fuglanna hafa drepist og hafa hræ þeirra fundist við árnar í Lundarreykjadalnum, en þó öllu meira við Skorradalsvatn. Þetta er mjög fágætt, en hefir þó komið fyrir áður. Í gömlum heimildum er þess getið, að haftyrðla hrakti suður um Borgarfjörð og varð vart að Hvítárvöllum. Þó nokkrum sinnum hefir komið fyrir að fundist hefir hræ eins og eins. Samkvæmt frásögn Bjarna Sæmundssonar náttúrufræðings í riti sínu, Fuglunum, verpa haftyrðlar aðeins á tveim stöðum hérlendis, í Grímsey og Skorravíkurbjargi [Skoruvíkurbjargi].
Magnús Guðmundsson á Skálateigi í Norðfjarðarhreppi hefir skrifað Tímanum um tíðarfar þar um slóðir. Veðráttan var mild á Austfjörðum framan af vetri. Í lok nóvembermánaðar lagði mikinn snjó til fjalla og lá þá við að haglaust yrði i sumum sveitum, en annars voru hagar lengst af góðir. Voru lömb þá tekin í hús. Fullorðnu fé var lítið gefið yfir hátíðar. Í miðjum desembermánuði voru hlákur og alauð jörð, en á annan dag jóla brá til kaldari veðráttu og stormasamari en áður. Á gamlársdag var orðið haglaust. Síðan hefir verið sífelld snjókoma, þó ekki stórhríðar, en vindasamt. Enn er sæmilegt færi með sleða um byggðina.
Nokkur ís myndaðist á Pollinum á Akureyri. Alþýðublaðið segir 20.janúar:
Ísrek á Akureyrarhöfn braut í gær [19.janúar] bryggju Olíufélagsins Shell á Akureyri. Hafði undanfarna daga legið ís á allri Akureyrarhöfn, en í morgun var þíðviðri og sunnanátt og leysti ísinn skyndilega af höfninni. Ísinn hlóðst saman við Oddeyrartanga, en syðst á honum var bryggja, er olíufélagið Shell átti, og braut ísinn bryggjuna niður að mestu leyti. Bryggja þessi lá að olíugeymi Shellfélagsins. FÚ.
Vísir segir 20.janúar einnig fréttir frá Akureyri, m.a. litlu snjóflóði þar:
Akureyri í morgun. Þrír drengir urðu fyrir snjóflóði, tveir björguðust fljótlega, en þeim þriðja er var nærri kafnaður, var bjargað meðvitundarlausum. Í fyrradag [18.] féll snjóflóð úr brekkunni hak við húsið Aðalstræti 24, en þrír drengir voru þar að leika sér. Einn þeirra, Karl Björnsson Grímssonar verslunarmanns, 9 ára, varð undir, en hinir sluppu og sögðu frá. Snjódyngjan, er náði upp á mitt húsið, var óðar rofin. Drengurinn var þá nær kafnaður og orðinn meðvitundarlaus, en hresstist hrátt. Fjölmenni vinnur í dag að snjómokstri. Í fyrradag og í gær [19.] hraut ísinn af Pollinum. Ísspöng rakst á Shellbryggjuna, syðstu bryggjuna á Tanganum í fyrradag og braut 8 staura, í gærdag rakst önnur ísspöng á sömu bryggju og eyðilagði hana að mestu. Shellbryggjan er byggð fyrir þremur árum. Jakob.
Tíminn segir af spilliblota 24.janúar:
Fyrir nokkrum dögum gerði þíðviðri um land allt, en það varð þó spillibloti einn um nær allt norðanvert landið. Kom að vísu upp jörð sumstaðar, en víðast mjög lítið. Nú hefir gengið að með frost að nýju og sumstaðar snjókomu. Má telja að haglaust sé um allt Norðurland. Verður víða samfelld klakabrynja yfir allt. Í Skagafirði er haglaust í austanverðu héraðinu. Vestan Héraðsvatna eru sumstaðar dálitlar snapir, einkum er dregur fram í sveitina. Var þar éljaveður af vestri í gær og hætta á að fljótt taki fyrir alla haga ef mikill snjór bætist ofan á gamla frerann. Bændur austan Héraðsvatna hafa tekið flest sín hross á gjöf, sumir marga tugi. Eitthvað af útigönguhrossum hefir verið rekið vestur yfir vötnin til göngu þar meðan næst til jarðar. Mjólkurflutningum til Sauðárkróks hefir lengst af verið haldið uppi tvisvar í viku, þriðjudaga og föstudaga. Hefir þá snjónum verið mokað af aðalvegunum, eftir því sem þurft hefir. Sumir hafa þó flutt mjólk sína á sleðum og er sleðafæri gott sem stendur og verður ef ekki kyngir niður miklu af nýjum snjó.
Morgunblaðið segir af skíðaferðum í námunda við Reykjavík 26.janúar:
Skíðafærið og hið ágæta veður undanfarna daga hefir leitt til þess að skíðabönd, skíðastafir og skíðaskór er allt uppselt í verslunum. Góð skíði er heldur ekki hægt að fá nú sem stendur og skíðaverksmiðjurnar hafa svo mikið að gera að varla er hægt að fullnægja pöntunum. Þetta stafar bæði af mikilli eftirspurn, en aðallega vegna þess að ekki hefir fengist nægur innflutningur á skíðaútbúnaði. Hér á landi er ekki framleitt neitt af skíðaböndum að ráði og ekki er álitið að það borgi sig að framleiða skíðastafi. ... Fjöldi fólks fór á skíði í gær bæði hér í nágrenni bæjarins og lengra upp í fjöllin.
Tíminn segir almennar tíðarfréttir úr Skagafirði 2.febrúar:
Úr Skagafirði er blaðinu skrifað: Tíðarfar hefir verið með lakara móti í vetur. Haustið var úrfellasamt í mesta lagi. Snjólaust var þó til 20. nóvember. Þá gerði nokkurn snjó, og var sauðfé almennt tekið til hýsingar og gjafar um það leyti. Á jólaföstu gerði haglítið um mikinn hluta héraðsins fyrir sakir áfreða. Viku fyrir jól brá til sunnanáttar og gerði afbragðshláku, svo að jörð varð alauð jafnt til fjalla sem á láglendi. 29. desember gerði stórhríð af norðri, er stóð í 2 daga. Hríðaði þá og meira og minna upp undir viku. Kom þá óvenjumikill snjór, eftir því sem hér gerist, og varð haglítið víða, svo að taka varð þá þegar allmargt hinn yngri hrossa og óduglegri á gjöf.
Febrúar fékk sums staðar mjög laka dóma um landið vestanvert. Tíð var óstöðug, sérstaklega um miðjan mánuð. Víða voru jarðbönn. Veðurathugunarmenn segja frá:
Síðumúli: Veðrátta hefir verið nokkuð úrkomusöm og stundum dálítið rosaleg, en mild.
Hamraendar (Guðmundur Baldvinsson): Tíð hefur verið fremur slæm þennan mánuð, miklir rosar og óveður. Gamlir menn telja að þessi mánuður sé einhver sá versti sem þeir muna enda er nú alveg haglaust sem þó er mjög sjaldgæft um þetta leyti í Dölum.
Lambavatn: Það hefir verið sífelldir umhleypingar og stormar nema fyrstu vikuna. Allur snjór hlaupinn í svell og gadd og allstaðar jarðlítið og jarðlaust.
Kvígindisdalur: Fram að 7. hélst svipuð veðurblíða sem verið hafði yfir janúar, en þá skipti um til óstöðugrar og stórgerðrar tíðar oftast, suðaustan, austan og norðaustan hvassviðri. Í norðaustan átt, er alloft hægast hér um athugunartímann, en hvassari milli athugana.
Suðureyri: Frostvægt oftast, en úrkoma feikimikil, oftast snjór. Eru snjóþyngsli eins og mest hefur þekkst fyrrum og líkt því sem var 1920-21. Snjólag þungt og krapkennt. Gjörsamlega haglaust frá 8. til enda mánaðar. Sjógangur til hafsins og oft hvass útifyrir. Gæftafátt. Óhagstætt til lands og sjávar.
Skriðuland (Kolbeinn Kristinsson): Fram um þann 20. var mánuðurinn mjög umhleypingasamur og óstilltur. Þó voru fyrstu dagarnir kyrrir og stilltir.
Sandur: Tíðarfar fremur milt og úrkomulítið. Harðfenni allmikið og svellalög.
Nefbjarnarstaðir. Fremur óstöðug tíð, en hægviðri og sem oftast frostlítið. Má telja haglaust eða mjög litla haga mánuðinn út.
Íslendingur segir 10.febrúar frá miklu sjóslysi við Norðurland, 9 fórust.
Fullvíst er nú orðið, að vélbáturinn Þengill hafi farist úti fyrir Norðurlandi s.l. þriðjudagsnótt eða miðvikudagsmorgun [8.] með 9 mönnum. Báturinn var 7 smálestir að stærð, eign Karls Friðrikssonar útgerðarmanns hér í bæ og gekk til fiskiveiða frá Siglufirði. Um helgina síðustu fór hann í mjólkurflutningaferð vestur á Sauðárkrók og Hofsós í forföllum mjólkurbátsins á Siglufirði, sem þá var bilaður. Hið síðasta er menn vita um bátinn er það, að hann lagði frá Hofsós áleiðis til Siglufjarðar kl. 1 aðfaranótt þriðjudagsins. Um nóttina gerði versta veður af norðri með dimmviðri og snjókomu, og er báturinn kom ekkí fram. var hafin leit að honum- E/s Súðin var þá stödd á Siglufirði og leitaði hún vestur um Skagafjörð og um 8 mílur til hafs, án nokkurs árangurs. Á miðvikudag fóru bátar frá Siglufirði að leita, og þann dag var farið meðfram strandlengjunni frá Siglufirði og vestur um, og varð einskis vart. En síðdegis á miðvikudag tók að reka ýmislegt úr bátnum á Dalabæjarfjöru, sem er skammt vestan við Sauðanes. ... Þessi sviplegi atburður hefir valdið þungri sorg, ekki aðeins á heimilum þeirra, er fórust af bátnum, heldur og um allt land. Ægir lætur skammt milli stórra höggva. Þjóðin var enn ógróin þeirra sára, er togarinn Ólafur fórst með 21 manni í vetur, þegar annað sjóslysið varð, er tortímdi 9 mannslífum. Þannig hafa 30 manns farist á sjónum með skömmu millibili, og mun það óvenjulegt manntjón með þjóð vorri á svo stuttum tíma.
Símalínur lentu í ísingu, Tíminn segir frá 11.febrúar:
Dálítil snjókoma og allhvasst var við suðurströndina, og þó einkum suðvesturströndina, í fyrrinótt [10.], en hlánaði, þegar leið að morgni. Norðanlands var veður betra og úrkomulítið. Mun úrkoman lítið hafa náð norður fyrir Seyðisfjörð að austan og Patreksfjörð að vestan. Nokkrar smávegis símabilanir urðu. Suðurlandslínan slitnaði af völdum ísingar hjá Flögu í Skaftártungu og var sambandslaust þar fyrir austan í gærmorgun. Á Holtavörðuheiði slitnaði ritsímaþráður og á milli Kalastaðakots og Vogatungu urðu smávegis línubilanir. Viðgerðum á þessum bilunum var lokið um miðjan dag í gær.
Enn varð sjóslys, en mannbjörg í þetta sinn. Vísir 14.febrúar:
Togarinn Hannes ráðherra á heimleið frá Bretlandi strandaði laust eftir miðnætti síðastliðið á Músarnesi á Kjalarnesi. Var þoka og dimmviðri, en lygnt. Brim var talsvert. Er skerjótt þarna og brýtur tíðast á skerjum og er staðurinn hinn hættulegasti. Skipverjar náðu þegar talsambandi við loftskeytastöðina í Reykjavík, sem þegar gerði Slysavarnafélaginu aðvart. Var talið að skipið hefði strandað við Gróttu, en það var brátt leiðrétt, er skipsmenn höfðu áttað sig á, að skipið var strandað á Músarnesi. [Skipshöfninni var bjargað]
Lægðir gengur hratt hjá landinu um miðjan febrúar, hvassviðri voru þó ekki á landsvísu. Vísir segir af erfiðleikum á sjó 16.febrúar:
Síðdegis í gær [15.] hvessti á norðvestan og var hvassviðri mikið í gærkveldi og nótt og gekk á með kafaldshryðjum og gerði haugabrim. Vísir átti tal við Slysavarnafélagið í morgun. Sagði Jón E. Bergsveinsson erindreki að ekki mundi hafa verið róið úr neinum verstöðvum i gærkveldi. Þrír bátar lögðu af stað í gærkveldi héðan úr Reykjavík, en tveir þeirra sneru aftur. Sá þriðji hélt áfram. Var það Gunnar Hámundarson, sem björgunarskútan Sæbjörg dró hingað með brotið stýri. Var óttast um bátinn, en honum hlekktist ekkert á. Ætlaði Gunnar Hámundarson til Sandgerðis, en er þangað kom var ógerlegt að lenda og hélt þá báturinn til Keflavíkur, en náði ekki landi fyrr í morgun.
Morgunblaðið segir einnig frá vandræðum á sjó 17.febrúar:
Línuveiðaranum Fróða hlekktist á í fyrrinótt [aðfaranótt 16.], þar sem hann var staddur rétt við Reykjanes. Má það telja alveg einstakt, að skipið skyldi ná landi eins og það var á sig komið. Fróði fékk brotsjó á sig aftan til á bakborðshlið og sópaði sjórinn öllu lauslegu fyrir borð og stórskemmdi skipið. Fróði kom hingað klukkan um 7 í gærkvöldi. Þrátt fyrir þetta mikla áfall slasaðist enginn maður, sem á skipinu var. Þetta var það helsta, sem tók út af skipinu: Báða björgunarbátana á bátadekkinu. Afturmastur skipsins, sem um leið klauf eldavél skipsins, og allt lauslegt í eldhúsinu fór útbyrðis. Geymir, sem var festur með boltum, er gengu í gegnum bátadekkið. Matarkistu og björgunarbeltakistu, með varaljóskerum og 18 björgunarbeltum. Þakið af stjórnpallinum og brotnuðu allir gluggar í honum; við það skolaðist ýmislegt úr stjórnpalli, þar á meðal báðir áttavitar skipsins. Sjór gekk ofan í vélarrúm og hálffyllti káetuna og reif varnarseglin ofan af lestaropunum. Mörgu fleira smávegis skolaði út.
Morgunblaðið segir 19.febrúar enn af ísingu og símslitum:
Talsambandið til Norðurlands, Vestfjarða og til Keflavíkur var slitið í gær. Höfðu símalínur bilað vegna ísingar og hvassviðris. Í allan gærdag var unnið að því að gera við línurnar og verður símasamband komið á aftur í dag. Í Leirvogstungu voru 7 staurar brotnir í gærmorgun. Fyrir sunnan Hafnarfjörð var einn staur brotinn og mikið ólag á loftlínunni í Hafnarfirði. Austanfjalls var línan biluð milli Ölfusár og Miðeyjar. Allar línur voru heilar milli Hvalfjarðar og Borðeyrar. Frá Borðeyri var aftur á móti bilað í norður, vestur og austur.
Morgunblaðið segir af skíðaferðum 21.febrúar:
Þrátt fyrir fremur óhagstætt veður fóru um 500 manns á skíði um helgina [18. til 19.]. Snjór var nægur, en hríðarveður öðru hvoru allan daginn og hvassviðri.
Tíminn segir frá tíðarfari í Loðmundarfirði og í Öræfum 21.febrúar:
Baldvin Trausti Stefánsson bóndi á Sævarenda í Loðmundarfirði hefir skrifað Tímanum fréttabréf. Þar segir meðal annars: Hér hefir veturinn verið fremur góður. Hagar voru fyrir gripi fram undir áramót, en þá snöggskipti um. Nú eru aftur komnir töluverðir hagar, svo að hægt er að beita fénaði og spara hey á sumum bæjum. Annarsstaðar er orðin 38 daga innistaða. Fé er venju fremur holdgott og ekki ber á neinni teljandi óhreysti í því.
Páll Þorsteinsson á Hnappavöllum í Öræfum skrifar Tímanum meðal annars: Tíðarfar hefir verið mjög gott, það sem af er vetrinum. Jörð alltaf svo að segja snjólaus. Eigi að síður er fénaði gefið mikið á flestum bæjum. S.l. haust var öllu sölufé Öræfinga slátrað hér heima í sveitinni, eins og ávallt síðustu tíu árin. Framkvæma Öræfingar slátrunina að öllu leyti sjálfir. Að þessu sinni var tala sláturfjárins kringum hálft þrettánda hundrað. Ekki tókst að koma nema litlum hlut afurðanna héðan í haust. Bíður meginhluti þeirra hér til næsta vors.
Allmikið þrumuveður gerði aðfaranótt 21. og þann dag víða um landið suðvestanvert, og um kvöldið og næstu nótt á Suðausturlandi. Veðurathugunarmaður á Rauðalæk segir frá í athugasemd: 21. Á Rangárvöllum sló eldingu niður í 3 símastaura og splundraði þeim og flísaði úr fleirum. Á Hellu skemmdist talsímatæki og útvarpstæki á næsta bæ (Nesi). Þetta var aðfaranótt 21. Að kvöldi 21. sáust leiftur norður yfir heiðar. Þjóðviljinn segir frá 25.febrúar:
Síðastliðið þriðjudagskvöld [21.] og á miðvikudagsmorgun [22.] sáust frá Akureyri mikil leiftur í austurátt. Jóhann R. Snorrason skýrir fréttaritara vorum á Akureyri þannig frá: Um kl.22:15 síðastliðið þriðjudagskvöld sá ég að snöggum leiftrum brá upp i suðurátt og við nánari athugun sá ég, ásamt fleiri mönnum er ég hafði kallað á, að leiftrin voru mjög svipuð þeim, er sáust er Vatnajökull gaus árið 1935. Séð frá Menntaskólanum á Akureyri báru leiftur þessi austanvert í Garðsárdal, ennfremur sáum við mörg stór leiftur lengra í vestur og báru þau séð frá Menntaskólanum yfir Eyjafjarðarbotn. Leiftur þessi voru mjög stór og lýstu allt suðurloftið er þeim brá upp. Um kl. 23 voru öll leiftur horfin. Alls taldi ég tólf stór leiftur. Laust fyrir kl.4 á miðvikudagsmorguninn sáust einnig leiftur í suðurátt, en nokkru vestar en kvöldið áður. Hermann Stefánsson kennari kveðst hafa horft á leiftrin af hússvölum heima hjá sér á þriðjudagskvöld og segir þau hafa verið misjöfn að birtumagni sum mjög lítil en önnur blossandi björt. Telur hann stefnu þá sömu og Jóhann, en tekur fram, að sést hafi stórt leiftur er bar nokkru austar en yfir Garðsárdal. FÚ.
Morgunblaðið skýrir loks málið í pistli að austan 15.mars:
Í bréfi frá Snorra lækni Halldórssyni á Breiðabólsstað á Síðu sem hann hefir nýlega skrifað til manns hér í bænum er þess getið, að sama kveld, sem talið er, að sést hafi frá Akureyri glampi í suðri, hafi verið á Síðu mikill ljósagangur með þrumum. Voru þær um tíma svo þéttar, að ég get vel hugsað mér, segir læknirinn, að Akureyringar hafi tekið það fyrir eldgos. Glamparnir lýstu inn í stofur, þar sem sterk rafljós voru fyrir. Sáust ljósin við og við alla nóttina.
Morgunblaðið hefur enn áhuga á skíðaferðum 25.febrúar:
Rigningin sem var hér í bænum í gærdag, hefir ekki haft nein áhrif á skíðafærið hjá skíðaskálunum. Frá kl.6 í gærmorgun hlóð niður snjó á Hellisheiði svo vegurinn austur yfir Fjall varð ófær bílum. Snjórinn er svo mikill að jörð er alhvít, svo varla sést auður steinn eða strýta. Á föstudaginn var skíðafæri það besta, sem komið getur, glampandi sól og ágætt færi.
Morgunblaðið segir 1.mars af ófærð á Hellisheiði:
Snjóþungt er nú mjög á Hellisheiðinni. Komast bílar ekki nema austur í mitt Svínahraun. Þar verður snjóbíllinn að taka við pósti og farþegum og flytja þá yfir fjallið.
Tíminn segir 2.mars af tíð á Héraði:
Af Fljótsdalshéraði skrifar Pétur Jónsson bóndi á Egilsstöðum: Töluverður snjór er hér og mikil ísalög. Hafa að undanförnu verið blotar öðru hverju, en gert frost þess í milli. Lagarfljót er því sem næst allt ísi lagt og er töluverð umferð eftir því. Góð færð er á Héraði, þótt eigi sé hægt að koma við bifreiðum. Ferðast menn aðallega með hesta og sleða. Reiðfæri er alveg sérstaklega gott. Í Fljótsdal er snjólítið og hafa verið þar hagar í allan vetur, þegar fært hefir verið að beita sökum veðurs.
Tíminn segir 7.mars af tíð í Dölum:
Halldór Eggert Sigurðsson bóndi á Staðarfelli á Fellsströnd er gestkomandi hér í bænum um þessar mundir og hefir tíðindamaður Tímans hitt hann að máli. Tíðarfar var þar vestra gott til loka janúarmánaðar, en þá brá til óstilltrar veðráttu og var ýmist fannkoma eða blotar. Hafa hagar verið mjög slæmir lengst af síðan og beit ekki notast vegna umhleypinga og rosa, þótt eigi hafi verið jarðbönn með öllu. Hefir verið innistaða á sauðfé og á flestum bæjum eru einnig allir hestar á gjöf.
Mars var hagstæður, en veðurathugunarmönnum ber ekki alveg saman (sjá t.d. einkunn athugannamanna á Lambavatni og í Kvígindisdals, sitt hvor megin sömu fjalla), góðviðri flesta daga:
Síðumúli: Eins og veðurbókin sýnir, hefur marsmánuður verið ómunagóður. Það var aðeins 2 fyrstu dagana af einmánuði að veðrið var vont. Það er líka gamalt mál, að mars og einmánuði komi sjaldan vel saman, en í þetta sinn var það aðeins fyrsta kveðjan, sem var köld. Síðan hefir sambúð þeirra verið hin ástúðlegasta, svo að gamlir menn muna ekki slíka tíð. Jörðin er þíð og auð, þurr eins og komið væri fram í maí. Skaflar aðeins í giljum og lautum. Dugleg útigönguhross eru farin að braggast. Vorfuglarnir komnir. Veður daglega svo yndislegt og þurrviðrasamt. Glampandi sólskin og blíðalogn, eða hæg og hlý suðlæg átt.
Lambavatn: Það hefir mátt heita fremur hagstæð tíð. Framan af mánuðinum var jarðlítið víða. En nú seinni hluta mánaðarins hefir verið snjólétt og nú síðustu dagana blíðviðri og jörð alauð og allur ís að hverfa af tjörnum.
Kvígindisdalur: Tíðarfar hefir verið frekar stirt í þessum mánuði, en um þann 24. brá til hlýrra þeyvinda og góðrar og úrkomulítillar tíðar.
Suðureyri: Úrkomulítið. Óhemju snjóþyngsli sem sjatnar hægt, þrátt fyrir tiltölulega hlýja veðráttu. Vindasamt og óstöðugt til 24. en blíðviðri og góðar gæftir síðan. Haglaust með öllu þar til síðustu daga mánaðarins.
Sandur: Gott tíðarfar, milt og allgóður hagi, snjó leysir og klaki grotnar sundur.
Raufarhöfn (Rannveig Lund). Einmuna gott, milt og stillt tíðarfar. Snjókoma varla teljandi en eldri snjó leysti upp jafnt og þétt uns snjólaust mátti heita í byggð. Sást vel fyrir nýgræðingi í skjóli húsa.
Nefbjarnarstaðir: Mjög hæg veðrátta og mild. Haglítið fram um miðjan mánuð, síðan góðir hagar. Snjór ekki teljandi í lok mánaðarins á láglendi. Skefli töluvert.
Morgunblaðið segir frá illviðri á Snæfellsnesi í pistli 10.mars:
Í Ólafsvík skall á, laust eftir hádegi í gær [9.], ofsaveður af suðaustri með rigningu. Allir bátar voru á sjó, að einum undanteknum, sem notaður hafði verið sem dráttarbátur við afgreiðslu Súðarinnar, sem stödd var í Ólafsvík. Bátarnir náðu allir landi í Ólafsvík, nema tveir, en þeir komust til Sands og náðu landi þar. Annar þessara báta varð að fara frá öllum lóðum sínum ódregnum, vegna þess að línustúfur hafði flækst í skrúfu hans. Hinir bátarnir náðu lóðum sínum öllum eða mestöllum.
Morgunblaðið birti 11.mars fréttir af þurri vatnsmiðlun. Þurrkar áttu eftir að koma meira við sögu á árinu:
Ísafirði, föstudag. Á Ísafirði er nú rafmagn mjög af skornum skammti, sem stafar af því að miðlun Fossvatns er tæmd í bili.
Morgunblaðið segir af erfðu skíðamóti 14.mars:
Skíðakappgangan á Skíðamóti Reykjavíkur fór fram s.l. sunnudag í úrhellisrigningu og hvassviðri og var aðstaða öll hin versta. Færi var slæmt og sumstaðar urðu skíðagöngumenn að vaða vatn upp fyrir ökkla og á sumum stöðum var göngubrautin aðeins örmjór snjóstígur, sem hafði verið lagður vegna göngunnar.
Tveir bændur lofa tíðina í Tímanum 16.mars:
Steinþór Þórðarson bóndi í Hala í Borgarhafnarhreppi í Austur-Skaftafellssýslu skrifar Tímanum fréttir úr byggðarlagi sínu. Veturinn hefir verið einmuna góður það, sem af er, ómuna stillur frá jólum og allt fram undir þetta, oftast logn og heiður himinn og frostlítið. Fullorðið sauðfé og hross var tekið á gjöf um hátíðar, lömb viku af desember eða þar um bil.
Karl Þorláksson bóndi að Hrauni í Ölfusi skrifar blaðinu: Tíðarfarið hefir verið mjög gott í allan vetur, svo að snjó hefir sama og ekki fest í byggð. Á beitarjörðum hefir naumast þurft að hýsa fé. Muna elstu menn varla annan vetur jafn snjóléttan.
Morgunblaðið segir 17.mars af ferðum þýskra vísindamanna hingað til lands - í leit að landreki:
Khöfn í gær. FÚ. Dronning Alexandrine lagði af stað í gær frá Kaupmannahöfn til Íslands. Með skipinu eru nokkrir þýskir vísindamenn. Um för hinna þýsku vísindamanna segir, að þeir taki þátt í alþjóðlegum rannsóknum og muni leitast við að fá staðfestingu á kenningu Alfred Wegeners um það, að meginlöndin færist til og frá austri til vesturs.
Þann 20. gerði nokkuð snarpa vestan- og síðan norðvestanáttátt allra syðst á landinu, en daginn eftir fór djúp lægð til austurs fyrir sunnan land. Hún olli fyrst austanhvassviðri, en síðan snerist vindur til norðurs - en gekk fljótt niður.
Morgunblaðið segir frá tjóni Vestmannaeyjum 23.mars - athugum að hér er um sitthvort veðrið að ræða - sitthvora lægðina:
Frá fréttaritara vorum í Vestmannaeyjum. Vestamannaeyingar urðu fyrir einhverju stórkostlegasta veiðarfæratjóni síðari ára í suðvestan-hvassviðrinu aðfaranótt þriðjudagsins [21.]. Svo að segja hver einasti bátur í Eyjum hefir misst veiðarfæri að meira eða minna leyti. Allir, eða nærri allir bátar höfðu lagt net sín á 1530 faðma dýpi fyrir framan Sandana, á svæðinu frá Stokkseyri til Jökulsár. Nokkuð af netunum rak upp á Sandana. Mikið fór í hnúta og sukku sumir hnútarnir. Af því sem náðst hefir er sumt alveg riðilslaust og ekkert eftir nema teinarnir.
Frá fréttaritara vorum í Vestmannaeyjum. Á þriðjudagskvöld [21.] gerði austan stórviðri í Vestmannaeyjum og var brimsúgur mikill við Vestmannaeyjar. Flutningaskipið Keri frá Lithauen, sem nýlega er komið með saltfarm til Helga Benediktssonar kaupmanns, rak á land. Rak skipið upp í fjöru rétt austan við Básaskersbryggju. Keri rakst á vélbátinn Leo og braut hann töluvert. Munaði minnstu að skipið ræki á fleiri báta og stórskemmdi þá. Má eingöngu þakka það snarræði manna og dugnaði, að það tókst að bjarga bátunum.
Tíminn rifjar upp veðurlag sumars, hausts og vetrar - auk fyrri óþurrkasumra 25.mars:
Þorsteinn Helgason í Stóra-Holti, skrifar í áframhaldi af því, sem birtist í Tímanum á fimmtudaginn: Sunnanveðrátta er stundum misbrestasöm hér í Fljótum, og var sumarið 1926 það versta, sem ég man eftir, síðan ég flutti í byggðarlagið. Var hey þurrkað aðeins tvisvar á sumrinu, um miðjan ágúst og vikuna fyrir fyrstu réttir. Síðan hafa óþurrkasumur að ráði verið 1934, 1935 og 1937. Hafa stundum snjóþyngslavetur fylgt óþurrkasumrunum, t.d. 193536. Urðu þá margir að kaupa fóðurbæti og sumir bændur ráku fé sitt til sjávar um vorið, sem var gott. Urðu fénaðarhöld góð, og má það að nokkru þakka fóðurbætinum og að nokkru því, að þann vetur tóku bændur að nota ormalyf handa fénu, svo að heilsufar þess varð betra. Síðastliðið sumar var mjög kalt frá því vika var af sumri og fram í miðjan júlí. Var grasspretta lítil, einkum á mýrarlandi. Heyskapur byrjaði seint, en heyskapartíð varð farsæl og gerði aldrei úrfelli né hvassviðri, sem heyjum spillti, og urðu hey því í meðallagi að gæðum og vöxtum. Þegar leið á haustið, voru úrkomur tíðar, krapahríðar eða rigning næstum daglega og urðu sumstaðar skemmdir á heyjum. Í lok októbermánaðar gerði skyndilega hvassviðrishríð af norðvestri. Lá þá sauðfé úti og fennti nokkrar kindur á sumum bæjum, en fundust þó flestar. Hefir það eigi hent á annan áratug, að fé hafi fennt hér. Fé og hestar voru teknir á gjöf mánuð af vetri og hefir ekki verið hægt að beita síðan, vegna snjólaga og áfreða, og tíð oftast umhleypingasöm.
Morgunblaðið segir frá vertíðinni 2.apríl. Takið eftir skoðun manna á loðnunni:
Dymbilvikan fer í hönd [páskar voru 9.apríl]. Svo að segja á hverju ári um langt skeið hefir hún verið aflasælasta vika ársins. Margir togaranna eru enn ófarnir á veiðar. Stafar það af því, hve afli hefir undanfarið verið sáralítill eftir því sem vant er um þetta leyti árs. Í Jökuldjúpi hefir lítill afli verið. Á Eldeyjarbanka sömuleiðis. Þeir togarar íslenskir, sem eru á veiðum eru nú flestir eða allir á austanverðum Selvogsbanka við Hraunið. Þar hefir fram til þessa mestur aflinn verið ufsi. Línuveiðararnir hafa aflað mjög misjafnlega, Á vélbáta var góður afli í janúar. Framan af febrúar var gæftaleysi. Um þ.20. fór að bera á loðnu hér við Suðvesturland. Þá varð afli stopull og mjög lítill á bátana. Þorskur allur uppi í sjó. Segja sjómenn að bann hafi sést vaða í loðnutorfunum. Loðnan er oftast ekki nema 23 vikur í einu. En nú er hún búin að vera hér mikið á annan mánuð. Útaf Akranesi er sagt að nú sé fjöldinn allur af færeyskum skútum við handfæraveiðar. Og að þar sé góður afli á handfæri. En Akranesbátar með lóðir veiða sáralítið. Er nú von manna að loðnugangan sé brátt úti og þá fari þorskurinn að veiðast. Frakkar kenna það óvenjulegum sjávarhita hér við land hve lítil þorskveiði er hér.
Apríl var hagstæður - sístur þó norðaustanlands. Veðurathugunarmenn segja frá:
Síðumúli: Veðráttan hlý og mild og úrkomulítil. Túnin grænka og gróa svo að daglega sést framför á þeim.
Lambavatn: Það hefir verið mjög hagstætt. Nú síðustu viku hefir verið blíðviðri. Þoka og smárigning og er allt að grænka og klaki allstaðar farinn úr jörð.
Suðureyri: Fremur hlýtt. Úrkomulítið stillt. Stórrigning 27.-30. Víða skriðuföll úr hlíðum. Skemmdi nokkuð tún í Vatnadal. Margar gæftir.
Núpsdalstunga (Kjartan Ólafsson): Þessi mánuður hefur verið hlýr og lítið þurft að gefa. Um miðjan mánuðinn gerði snjó og svo aftur seinast.
Reykjahlíð: Apríl mildur, úrkomulítill, hægviðrasamur. Snjór hefir lítið farið og er því allmikil en og ís á Mývatni mest öllu enn.
Nefbjarnarstaðir: Tíðarfar hagstætt, en þó fremur kalt. Stillingar.
Sámsstaðir: Þurrviðrasamur fram að 10. og fremur svalt á nóttunum. Eftir 10. var úrfelli oftast, en sjaldnast mikið. Tíðarfarið milt og gott og sólfar töluvert.
Tíðindalítið var í apríl. Morgunblaðið gefur tíðinni þó gaum í leiðara 20.apríl:
Veðráttan hefir verið með mildasta móti nú um skeið, eftir því sem við er að búast á þessum tíma árs. En eins og allir vita, getum við átt von á því, að enn komi hret og kuldaköst áður en sumarið sigrar.
Morgunblaðið segir frá merkum leiðangri í frétt 26.apríl. Til landsins eru komnir þýskir vísindamenn til að gera nútímaháloftamælingar með loftbelgjum og háloftakönnum. Voru þeir hér á landi í nokkra mánuði og mældu. Þetta eru elstu háloftamælingar hérlendar sem við eigum. Afrit eru í vörslu Veðurstofunnar:
Þýskir veðurfræðingar komu hingað fyrir mánuði síðan til þess að gera athuganir á veðri í háloftinu. Foringi þeirra var dr. Bell. En hann er nú farinn héðan fyrir nokkru. Veðurathuganir þessar halda áfram. fram yfir næstu mánaðamót. Eru það dr.Junge og aðstoðarmaður hans Mentz sem annast þetta ásamt starfsmönnum Veðurstofunnar. Veðurathuganir þessar eru gerðar með þeim hætti að loftbelgir eru sendir í loft upp einu sinni á dag. Eru belgir þessir um 2 metra í þvermál. Við belgi þessa eru fest sjálfvirk senditæki er senda frá sér tákn um það, hvernig loftrakinn er, hitastig og loftþyngd, jafnframt því sem séð verður af skeytum þessum í hvaða hæð belgurinn er. Vindstöðu og vindhraða í loftlögum þeim, sem belgirnir fara um er aftur á móti ekki hægt að vita um, nema í svo heiðríku veðri að hægt sé að fylgja þeim á fluginu í mælingatæki. Loftbelgir þessir fara 1215 km í loft upp og er því hægt að fá veðurathuganir þær sem senditækin flytja alla leið upp í þessa hæð. En er svo hátt kemur springa belgirnir og falla til jarðar. Svo vel er búið um tækin, sem eru fest í belgina, að þan ónýtast ekki við fallið. Er því fest í þau skilaboð til manna, sem kynnu að finna þetta, að koma því til skila á Veðurstofuna.
Tiltölulega margir af belgjum þeim, sem sendir hafa verið upp héðan hafa fundist, allfjarri Reykjavík sumir, svo sem á Rangárvöllum, í Grímsnesi, í Borgarfirði og Keflavík, en aðrir hér á næstu grösum. Svo ólík getur vindstaðan verið uppi í loftinu og niður við jörð, að belgur sá, sem fannst austur á Rangárvöllum, var sendur upp í stinningshvassviðri á austan, en hefir lent í vestanvindi er ofar kom. Athuganamenn hafa bækistöð sína suður á Shellstöð við Skerjafjörð. Eru belgirnir sendir upp kl.6 að morgni, og er venjulega búið að ganga frá athugunum þeim, sem fengist hafa til útsendingar með veðurskeytum þeim sem héðan eru send til útlanda kl.9 f.h. Fyrir veðurspár eru slíkar athuganir í loftinu mjög mikilsvirði, enda kosta stórþjóðirnar slíkar athuganir að staðaldri. En þær eru of kostnaðarsamar til þess að hægt sé að leggja út í þær hér, nema með styrk annarsstaðar að. Alþjóðafélag jarðeðlisfræðinga hefir gengist fyrir athugunum slíkum víða um heim og styrkir þær fjárhagslega sumstaðar. Þessar þýsku athuganir eru gerðar á vegum þessa félagsskapar. En þær munu kostaðar af Þjóðverjum einum, nema hvað starfsmenn Veðurstofunnar hér eru til aðstoðar við athuganirnar. Um leið fá þeir reynslu og æfingu við notkun þessara áhalda og verða einfærir um að gera slíkar athuganir, ef til þess fæst nægilegt fé og nauðsynleg tæki.
Morgunblaðið segir frá hvarfi þorsksins 30.apríl - sennilega sé sjávarhiti orðinn of hár fyrir hann:
Hvar er þorskurinn? Sú kenning fiskifræðinga, að hér hafi verið góð klakár 19301932, hefir ekki verið hrakin. En fiskifræðingarnir eru ekki komnir eins langt í því og æskilegt væri að vita um eða reikna út þorskgöngurnar og hvað hefir áhrif á þær Og satt að segja trúðu menn því, hvað sem öðrum gögnum leið, að stefnumót" þorsksins úr Norður-Atlantshafi á Selvogsbanka, eins og prófessor Johs. Schmidt orðaði það eitt sinn, myndi ekki leggjast niður. Glöggir fiskimenn kenna því um, að sjórinn sé orðinn of heitur fyrir þorskinn. Þess vegna hafi hann flúið land. Guðmundur Jónsson skipstjóri á Reykjaborg, hefir lengi mælt sjávarhita á veiðiferðum sínum. Hann er, ásamt fleirum á þessari skoðun. Eftir þessum kokkabókum ætti það að vera óvenjulegur hiti sem kippir svona fótum undan helsta atvinnuvegi íslendinga. Það má segja. Líf okkar og tilvera er að verða óvenjulega full af öfugmælum. Hver skyldi hafa trúað því, að hiti yrði atvinnuvegum Íslendinga að grandi. Við Noregsstrendur hafa menn orðið varir við óvenjulegan sjávarhita, ekki síður en hér. Þar hefir sumarsíldarafli brugðist undanfarin ár. Þar kenna menn of miklum hita í sjónum um aflabrestinn. Og Norðmenn eru svo sannfærðir um það að hitinn fæli síldina frá ströndum þeirra að þeir eiga ekki vona á aflanum fyrri en þeir hafa fundið að sjórinn á miðunum er farinn að kólna aftur. Þeir þykjast hafa fundið stórar síldartorfur óvenjulega langt norður í höfum og halda að síldin haldi sig þar. Hér á landi hefir manni fundist að sjávarhiti við Norðurland sé upp á það kaldasta um síldveiðitímann, og þeim mun meira veiðist sem hlýrra er þar. En eftir er að vita hvort sú von rætist, að sjávarhitinn, sem fælt hefir þorskinn frá okkur í vor, hæni síldina að landinu í sumar.
Tíminn lofar tíð eystra 4.maí:
Veturinn, sem nú er liðinn, hefir verið hér eystra einn með þeim bestu, er aldraðir menn muna, síðan 187980. Sá vetur var með afbrigðum góður austanlands. Á eftir kom ísa- og frostaveturinn mikli 188081. Þá var hægt að aka á ís um alla Austfirði og sumstaðar út fyrir nesin milli fjarðanna. Þá komu og bjarndýr að landi. Í haust [1938] festi ekki snjó í byggð fyrr en 29. desember, en þá kom nokkur fönn með 9 stiga frosti mest. Með þorra hlánaði aftur og jörð kom upp og tók ekki fyrir útbeit eftir það, nema dag og dag sökum veðurs.
Tíðarfar í maí var sérlega hagstætt og margrómað áratugi á eftir. Þetta er næsthlýjasti maí í byggðum landsins og á Akureyri. Veðurathugunarmenn segja frá:
Síðumúli: Maímánuður hefir verið hlýr og yndislegur. Grasspretta svo góð, að menn muna ekki annað eins á þessum tíma.
Lambavatn: Það hefir verið óminnilegt blíðviðri allan mánuðinn og er allur gróður hálfum mánuði eða meir undan meðallagi.
Kvígindisdalur: Tíðarfar í þessum mánuði hefir verið hagstætt, þrátt fyrir nokkrar rigningar nú seinni hluta mánaðarins. Vorið má helta svo gott, að með ágætum má telja. Skepnuhöld eru almennt ágæt og sauðburður hefir gengið ágætlega. Almennt lítur mjög vel út með grasvöxt.
Suðureyri: Óvenjulega hlýtt og stillt. Hlýtt á nóttum. Hógleg úrkoma, góðar gæftir.
Skriðuland: Engin orð of sterk til að lofa veðurblíðu þessa mánaðar, því að elstu menn muna engir hans jafnoka.
Sandur: Ágætt tíðarfar. Þó helst til þurrksamt.
Nefbjarnarstaðir: Mjög hagstætt tíðarfar. Lítur vel út með grassprettu.
Sámsstaðir: Maí óvenjuhlýr og sólfar mikið.
Morgunblaðið segir af góðri færð á vegum 9.maí:
Akvegir verða greiðfærir fyrr í vor en venja er til vegna hins ágæta tíðarfars. Hér sunnanlands má segja að ekki hafi lakast vegur síðan í vetur, nema Þingvallavegurinn, sem nú hefir einnig verið opnaður til umferðar. Haldið hefir verið uppi föstum áætlunarferðum frá BSR austur í Vík í Mýrdal og Fljótshlíð. Hreppa- og Tungnabílarnir hafa gengið óhindrað og fært er að Gullfossi fyrir nokkru. Fyrir Hvalfjörð fór lítill bíll fyrir hálfum mánuði síðan og fastar ferðir í Dalasýslu hefjast í þessari viku frá BSÍ. Norðurleiðin er ekki fær að sunnan nema í Bólstaðarhlíð, en talið er að Vatnsskarð verði fært bílum í þessari viku, svo hægt verður að komast á bíl alla leið frá Reykjavík til Skagafjarðar. Öxnadalsheiðin er ennþá ófær. Ef sama veður helst verður þess ekki langt að bíða, að allar bílasamgönguleiðir opnast.
Morgunblaðið segir frá jarðskjálftum 11.maí og Veðráttan segir að líklega hafi upptök þeirra verið á Reykjanesi. Sá sterkasti fannst austan frá Rauðalæk og vestur í Hítardal:
Jarðskjálftamælarnir sýndu að jarðskjálftakippirnir í fyrrakvöld [9.} voru sex á tímabilinu frá kl.810, Fyrsti kippurinn var snarpastur. Er talið að jarðskjálftar þessir hafi átt upptök sín í 38 km fjarlægð frá Reykjavík, en ekki er vitað hvar.
Morgunblaðið segir 12.maí af viðtali um tíðarfarið við Jón Eyþórsson. Svo virðist af orðalagi að almenningur hafi búist við enn hærri hitatölum (vegna þess hve vel gróður var á veg kominn) og það þarf að afsaka - með hretafæð:
Veðráttan hefir verið sérstaklega hlý hér í Reykjavík nú um tíma. Er gróður kominn mun lengra en vant er á þessum tíma árs. Til þess að fá um þetta tölur veðurathugana til að styðjast við, sneri blaðið sér í gær til Jóns Eyþórssonar veðurfræðings. Hann skýrði svo frá: Meðalhiti í aprílmánuði hér í Reykjavík var að þessu sinni 5°. En meðalhiti þessa mánaðar frá því veðurathuganir hófust hér 1872, er 2,4°, svo í ár var apríl 2,6° heitari en meðallag. En 5° meðalhiti í apríl er ekkert einsdæmi hin síðari ár. fjögur síðustu árin hefir meðalhiti þessa mánaðar verið svipaður, 4,75°. En skammt er síðan hann var til muna kaldari. T.d. árið 1932. Þá var meðalhitinn í apríl 0,8°. Aftur var apríl jafnhlýr og nú árin 19281930. Hlýjasti apríl, sem sögur fara af hér í Reykjavík, var 1894, með meðalhita 6.4°. Vindátt var hér í apríl aðallega suðaustan og sunnan. Framan af var mánuðurinn ekki sérlega hlýr. En hlýindin notuðust betur af því áfelli voru engin að kalla og veðráttan hlýnaði eftir því sem lengra leið. En síðan maíbyrjun hefir veðráttan hér verið sem mild júníveðrátta. Og þannig hefir hún verið um allt suðvestanvert landið. Á Norðurlandi hefir verið mun kaldara. Meðalhiti á Akureyri í apríl var 2,5°. En meðaltalshiti þann mánuð ársins er þar 0.6°. Síðustu fregnir af sjávarhita, sem Veðurstofan hafði, voru þær, að yst á Halamiðum mældi togarinn Jón Ólafsson 6,5°. En á þeim slóðum er um þetta leyti venjulega sjávarhiti um 0°. Svona hár sjávarhiti þarna bendir til þess, að hafís sé þarna hvergi nálægur. En þegar hann er nærri fer sjávarhitinn jafnan a.m.k. með köflum niður að núlli. Hvergi hafa skip orðið vör við hafís fyrir landi í vor, enda hefir austanáttin stuðlað að því að fjarlægja ísröndina frá landinu.
Morgunblaðið hrósar tíð 21.maí:
Það má vel vera að menn séu nokkuð gleymnir á tíðarfarið. Að minnsta kosti er það algengt þegar harðindakaflar ganga yfir, að sagt sé að nú viðri verr en elstu menn muna. Hvað sem því líður, þá er víst óhætt að fullyrða, að veðráttan það sem af er þessu vori er einhver sú blíðasta, sem elstu menn muna. Í veðurfregnum útvarpsins var hvað eftir annað getið um 18 stiga hita um miðjan maí. Víða hér í Reykjavík er víða farið að slá bletti kringum hús. Garðar eru komnir í sumarskrúð. Allt útlit er á að heyskapur geti byrjað mörgum vikum fyrr en venja er til.
Vísir lofar einnig tíðina 23.maí:
Tíðarfar í vor hefir verið með besta móti í Borgarfjarðarhéraðinu sem viðar í vor. Ekkert páskahret engir vorkuldar yfirleitt góðviðri og fremur hlýtt og hin ágætasta sprettutíð. Nú er spretta komin svo vel á veg, að eins mikið gras er á vel ræktuðum túnum og venjulega um miðjan júní, enda fullyrða menn, að ef tíð haldist eins góð og hún hefir verið, gæti sláttur byrjað um Jónsmessuleytið jafnvel alt að því viku fyrr, þar sem best er sprottið. Það má því segja, að hvað tíðarfar snertir hafi alt leikið i lyndi að undanförnu þar efra.
Júní var einnig hlýr og hagstæður hvernig sem á var litið. Talsvert rigndi suðaustanlands, en víðast hvar var fremur þurrt. Óvenjulega hitabylgju gerði í mánuðinum og enn hefur ekki mælst hærri hiti hér á landi en þá var mældur. Fáeinir svalir dagar komu kringum þann 10. og varð þá næturfrost á fáeinum stöðvum og snjóaði niður í hlíðar. Talsvert kólnaði aftur undir lok mánaðarins.
Síðumúli: Júní hefir verið indæll, en síðustu vikuna hafa verið kaldar nætur og of litlar vætur fyrir jörð og garða. Jarðargróðri hefir því ekkert farið fram, grasspretta er samt talin í góðu lagi, sumstaðar ágæt. Sláttur er almennt byrjaður.
Lambavatn: Það hefir verið hagstætt og milt. Sláttur allstaðar byrjaður. Allt hey þornar jafnótt því alltaf er brakandi þurrkur á hverjum degi.
Suðureyri: Hlýtt, þurrt, milt. Ágæt gróðrartíð. Fremur sólskinslítið. Margar gæftir.
Núpsdalstunga: Mánuðurinn þessi hefur verið heldur hitasamur.
Sandur: Yfirleitt ágætt tíðarfar. [22. Ódæma þurrkur - hiti fór í 26,5°C]
Nefbjarnarstaðir: Tíð ágæt fram undir lok mánaðarins er brá til norðaustankalda. Grasspretta góð. [Þ.10.-11. fölnaði kartöflugras sem komið var upp].
Papey (Gísli Þorvarðsson). Þ.21. og þó einkum 22. var hér óvanalegur hiti. Kl.18 var hér 21,6°C, þá breytileg átt og misvinda.
Sámsstaðir: Mánuðurinn fremur svalur með litlu sólfari og allmikilli úrkomu fram að 15. Úr því dregur úr rigningu og var að mestu rigningalaust mánuðinn út. Eftir 15. hlýnar mikið í veðri, einkum var óvenjuhlýtt frá 20. til 26. og eins góður hiti mánuðinn á enda.
Morgunblaðið segir af Skeiðarárhlaupi 6.júní:
Skeiðará hefir verið í miklum vexti undanfarið. Er hún nú orðin svo vatnsmikil, að Öræfingar telja vatnið þrisvar sinnum meira. en mest er venjulega í sumarhitum. Oddur Magnússon bóndi á Skaftafelli skýrði Morgunblaðinu svo frá, að þessi vöxtur í Skeiðará um þetta leyti væri óeðlilegur og stafaði áreiðanlega af eldsumbrotum í jöklinum. Megna fýlu leggur upp úr ánni og frá jöklinum, og er það merki þess, að eldsumbrot séu í jöklinum. Einnig bera málmar þess greinileg merki, að eldur sé einhversstaðar. Ekki bjóst Oddur við því, að þessi mikli vöxtur í Skeiðará þýddi það, að virkilegt hlaup væri í vændum, enda er skammt iðið frá síðasta. Hlaup var í fyrrasumar. Ekki hafa Öræfingar orðið varir við öskufall. En vel geta verið einhver eldsumbrot undir jöklinum, sem orsaka vöxtinn í Skeiðará.
Morgunblaðið segir enn af góðri tíð 11.júní:
Eftir því sem fregnir herma, víðsvegar að af landinu, virðast engar sveitir landsins hafa orðið útundan að því er vorhlýindi snertir og óvenjulega snemmsprottna jörð. Þær fregnir sem borist hafa til Búnaðarfélags íslands benda til þess að spretta á túnum sé mjög víða á landinu orðin það góð, að sláttur ætti að byrja í næstu viku almennt, ef túnin ekki verða látin spretta úr sér. En ýmsar vorannir, sem ekki er hægt að komast hjá, hamla því víða að sláttur geti byrjað fyrir alvöru eins snemma og hentugast væri sprettunnar vegna. Einkennilegt er það, hversu veðurathuganir og útreikningar á meðalhita vormánuðina undanfarin ár sýna lítinn mismun á hlýindum í ár og ýmis önnur vor, og fyndist manni þó fljótt á litið að nákvæmar mælingar á hita og veðurathuganir ættu að gefa glögga vitneskju um það hvernig voraði. En hret og kuldaköst, sem hafa lítil áhrif á meðalútkomu hitastigsins, hafa vitanlega oft miklum mun meiri áhrif á nýgræðinginn. Það sem einkennir vorið í vor er, hve lítið hefir borið á vorhretunum víðast hvar. Og það er þetta, sem gerir, hve vel hefir vorað.
Morgunblaðið segir enn frá hlaupinu í Skeiðará 13.júní:
Sami vöxtur er áfram í Skeiðará og verður ekki vart, að hún fjari neitt ennþá. Á sunnudagsmorguninn hafði áin grafið svo vestur á sandinn, að hún tók símastaurana fyrir vestan aðalfarveginn og sleit símann. Ekki er viðlit að tengja saman símann aftur, meðan þessi mikli vöxtur er í ánni. Í gær fór pósturinn frá Núpstað i Fljótshverfi austur yfir Skeiðarársand. Fór hann yfir Skeiðará á jökli. Talsverður vöxtur er í Núpsvötnum, einnig eru nokkrar nýjar smákvíslar á sandinum.
Morgunblaðið segir af þrumuveðri í Þistilfirði í pistli 30.júní:
Austur á Þistilfirði hefir mönnum. verið tíðrætt um merkilegan náttúruviðburð, er þar átti sér stað þann 6. þ.m. Er það trú margra að þennan dag hafi loftsteinn fallið skammt frá bænum Hvammi. Þrumuveður og stórt haglél var þennan dag og m.a. barst rafstraumur frá þrumu eða eldingu í leiðslur rafstöðvarinnar á Hvammi, sem ekki var í gangi þennan dag svo að kviknaði á öllum rafmagnsperum. Karl Hjálmarsson kaupfélagsstjóri á Þórshöfn lýsir staðnum sem þessi náttúraundur urðu á, á þessa leið: Á viðlendri, sléttri og þurri svarðarmýri, um það bil 2 km frá Hvammi er hola 1 1/2 sinnum 2 m að stærð nokkuð hringmynduð en 1 m að dýpt. Jarðvegurinn hefir bylst að mestu út yfir harmana, en smáhnausar hafa kastast lengra og sumar tætlur allt að 20 m frá holunni. Sívöl göng liggja frá holunni til austurs og vesturs, Eru þau hér um bil 80 cm. fyrir neðan yfirborð jarðar. Þar sem þau ganga út frá holunni, er þvermál þeirra um 8 cm, en síðan smámjókka þau, þar til þau ganga í sjálf sig. Þau munu hafa legið í 14 m til vesturs, en 5 m til austurs í smábugðum að því er virðist. Maðurinn, sem rótaði holunni, hafði fundið þessi göng og stungið upp jörðina, til þess, að leita eftir steinum, sem hann taldi, að hefðu orsakað þau. Tapaði hann göngunum í þessari fjarlægð frá holunni. Vera má að fleiri göng liggi út frá þessari holu, en það hefir ekki verið rannsakað. Enginn vafi er á því, að þessi verksummerki hafa orðið umræddan dag, þegar þrumuveðrið gekk. Eftir fyrstu frásögn taldi ég, að ekki gæti leikið neinn vafi á því, að hér væri um loftstein að ræða. FÚ [Fréttastofa útvarpsins] hefir leitað umsagnar Pálma Hannessonar rektors um atburð þennan, og telur hann ekki unnt að leysa úr því, eftir þessari lýsingu, hvort jarðrask þetta stafi af eldingu, er þarna hafi slegið niður eða af vígahnetti. Kvað hann eldingar sjaldan valda slíku jarðraski, en vígahnettir væru hins vegar svo fágætir hér á landi, að af þeim væru fáar sögur til.
Dagana 20. til 23. gerði óvenjulega hitabylgju á landinu. Um mælingar í henni hefur áður verið fjallað hér á hungurdiskum í pistli um hæsta hita á Íslandi. Það verður ekki endurtekið hér - en skotið inn viðbótarupplýsingum. Kortið sýnir ágiskaða stöðu í háloftunum (500 hPa) að morgni þriðjudagsins 20.júní. Mikill strengur af hlýju lofti liggur langt sunnan úr höfum austan við lægð nærri Nýfundnalandi og allt til Íslands.
Daginn eftir var sérlega mikil hæð við Suðvesturland. Þrýstingur í Stykkishólmi fór í 1040,3 hPa, en það er mjög óvenjulegt í júnímánuði og var þar til nýlega landsmet mánaðarins. [Var rétt svo slegið þann 11. 2019 þegar þrýstingur fór í 1040,6 hPa á Reykjavíkurflugvelli].
Staðan í háloftunum var einnig afskaplega óvenjuleg. Hæð 500 hPa-flatarins fór yfir 5940 m, 40 m hærra heldur en nokkru sinni hefur mælst yfir Keflavíkurflugvelli (það var 25. ágúst 2003, 5900 m). Að þessi feiknahæð skuli ekki hafa fokið hjá ýtir mjög undir hitamet, ekki síst einmitt á sólstöðum þegar sól er hæst á lofti. En auðvitað varð hiti ekki mjög hár nema þar sem vindur stóð af landi - eða sjávarloftið ekki komst þangað. Yfir norðan- og austanverðu landinu var ákveðin vestanátt eins og vel sést á Íslandskortinu hér að neðan.
Íslandskort metdaginn 22. júní 1939. Ekki hefur varðveist nema eitt veðurkort á dag árið 1939, og þá að morgni. Hér má sjá vestanstrekking á Vestfjörðum og kl.14 fór vindur í vestan 9 vindstig á Suðureyri. Hiti er 15 stig á Hornbjargsvita - og 23 stig á Hæli í Hreppum - en Suðurlandsundirlendið naut ofanloftsins. Það gerði Reykjavík hins vegar ekki. Mun meira má lesa um hitann þennan dag í áðurnefndum pistli. [Athugasemdin neðan við kortið: Radiosonda [háloftakanni] kl.5:50. Fannst á Bíldsfelli í Grafningi. Hæð: 22 551 m]. Einnig má (ef vel er að gáð) sjá græna ör sem liggur frá Reykjavík til austurs. Við sjáum að vindátt í lofti var úr vestri. Eins og áður sagði sendu þjóðverjar upp kanna úr Reykjavík þetta vor og fram á sumar - hæðartalan sem nefnd er er væntanlega hámarkshæð kannans].
Blöðin sögðu frá hitanum, en fréttu ekki alveg strax af því að met hefði verið sett. Síðan gerði miklar leysingar á háfjöllum og jöklum væntanlega líka. Morgunblaðið segir frá 22.júní - metdaginn:
Hitabylgja hefir gengið yfir landið undanfarna daga. Á Norðurlandi hefir hitinn valdið miklum vexti í ám. Heitast var í gær á Kirkjubæjarklaustri, 28 stig í forsælunni. Á Akureyri var í gær 2526 stiga hiti í forsælu og 41 stig í sólinni. Í Reykjavík var í gær 19 stiga hiti.
Áætlunarbílarnir til Akureyrar komust ekki leiðar sinnar í gær vegna þess, að vegurinn tepptist af vatnavöxtum í Grjótá á Öxnadalsheiði. Var ekki séð í gærkvöldi, hvort leiðin yrði fær í dag. Bílarnir stöðvuðust klukkan 7 í gærkvöldi við Grjótá, Hafði áin þar breytt um farveg og rennur ekki lengur undir brúna. Einnig hafði fallið aurskriða úr hlíðinni á veginn. Áætlunarbílar Steindórs sneru við og fóru með farþegana til gistingar í Skagafirði. Bílar BSA voru enn á miðnætti vestanvert við ána. Hafði BSA fengið hesta á Bakkaseli að reyna að ferja farþegana yfir Grjótá og koma þeim síðan í bílum til Akureyrar. En ekki hafði það tekist á miðnætti í nótt. Bílstjóri einn, sem reyndi að fara á hesti yfir ána, rennblotnaði, svo ekki var þurr þráður á fötum hans. Þá hefir vegurinn teppst í Öxnadalnum hjá Gloppu og fyrir neðan Hóla í Öxnadal, hjá Miðlandi hefir fallið stór skriða alveg ofan úr Gili. Var ekki vitað í gærkvöldi, hve skemmdir eru miklar á þessari leið. Vegagerðarmenn gerðu strax í gærkvöldi ráðstafanir til þess að gera við veginn og fóru að sækja timbur niður á Sauðárkrók. Haldist sami hitinn áfram er óttast um frekari vatnavexti og skriður, því mikill snjór er í fjöllum nyrðra sagði Kristján Kristjánsson, eigandi BSA í gærkvöldi.
Tíminn segir einnig frá 22.júní:
Í gær var mjög heitt í veðri, því nær um allt land. Klukkan 6 í gærdag var 28 stiga hiti í skugganum að Kirkjubæjarklaustri á Síðu og 2025 stig austan lands og norðan, til dæmis 25 stig að Mælifelli í Skagafirði. Mun þetta heitasti dagur ársins. Í gær var langhlýjast á Íslandi af þeim löndum, sem veðurstofunni hér bárust skeyti frá. Í Bretlandi var hvergi yfir 19 stiga hiti og mest 20 stig austanfjalls í Noregi. Í morgun klukkan 9 var 23 stiga hiti að Kirkjubæjarklaustri, 22 stig á Akureyri og 20 stig að Mælifelli í Skagafirði og á Vattarnesi við Reyðarfjörð. Er leið að hádegi í dag var hitinn orðinn mun meiri, um 2527 stig á Akureyri. Hitar þessir hafa valdið vatnavöxtum og skriðuföllum norðan lands. Er bílvegurinn á Öxnadalsheiði og í Öxnadal ófær á 30 km kafla. Hjá Miðlandi í Öxnadal hefir fallið 100 metra breið skriða yfir veginn og fyrir framan Hóla hafa lækir valdið skemmdum. Grjótá á Öxnadalsheiði hefir brotið sér nýjan farveg vestan við brúna og komust hraðferðabílar ekki yfir ána í gær. Steindórs bifreiðar fluttu farþega sína út á Sauðárkrók í nótt, en farþegar með bifreiðum Bifreiðastöðvar Akureyrar voru fluttir ú hestum yfir Grjótá og komust til Akureyrar um hádegi í dag.
Morgunblaðið heldur áfram 23.júní. Djúpivogur er sem kunnugt er skammt frá Teigarhorni:
Óvenju mikill hiti var á Djúpavogi í gær, eða 46 stig á Celsíus móti sól og 31 stig í skugga. Ennþá er farartálmi á veginum til Norðurlands, svo bílar komast ekki alla leið. Búið var í gærkvöldi að veita Grjótá á Öxnadalsheiði aftur í sinn gamla farveg og komust bílar til Bakkasels. En nú stranda þeir hjá eyrunum vestan Öxnadalsárbrúarinnar. Er ekki hægt að segja, hvenær fært verður bílum þarna um, því allmikill vöxtur er enn í Öxnadalsá. Farþegar sem fara suður eða norður, komast þó leiðar sinnar því bílstöðvarnar, sem hafa áætlunarbíla í förum, hafa bíla til taks bæði vestan og austan árinnar, svo ekki er nema örstuttur spotti, sem þarf að ganga. Þriðji farartálminn á norðurleiðinni var skriðan, sem féll hjá Miðlandi í Öxnadal, en skriðan var mokuð í gær. Unnu um 30 manns að því í gær að moka skriðuna og gera veginn bílfæran. Þótt heldur sé nú kaldara í veðri norðanlands en undanfarna daga, var hitinn á Akureyri í gærkvöldi yfir 20 stig og ár hafa enn vaxið. Hjá Miðlandi féllu 6 skriður úr gilinu og fóru yfir veginn á um 120 metra svæði. Sumstaðar var skriðan allt að m á dýpt á veginum og innan um var stórgrýti, sem sprengja þurfti í sundur með dýnamíti. Bílskrjóður fór í gær frá Bakkaseli niður að Miðlandi, en festist á leiðinni að Bakkaseli í bakaleið. Vegagerðarmenn úr Skagafirði veittu í gær Grjótá í sinn gamla farveg undir brúna. Geir Zoega vegamálastjóri gaf Morgunblaðinu þessar upplýsingar í gærkvöldi.
Morgunblaðið heldur enn áfram 24.júní:
Áætlunarbílarnir milli Norður- og Suðurlands komust loks í gærkvöldi leiðar sinnar alla leið til Akureyrar. Komu bílarnir til Akureyrar um miðnætti í nótt og í dag hefjast reglulegar ferðir á ný á Norðurlandsveginum.
Frá fréttaritara vorum Akureyri í gær. Vöxtur hefir hlaupið í Eyjafjarðará, svo mikill, að þjóðvegurinn austur á Vaðlaheiði fór í kaf í nótt. Fjörðurinn er kolmórauður fram undir Svalbarðseyri vegna framburðar árinnar. Fréttaritari yðar fór í morgun fram í fjörðinn. Var vegurinn austur yfir fjörðinn þá kominn upp úr flóðinu, en eyrarnar á kafi. Er að líta á þær sem einn flóa, þar sem aðeins girðingastólpar standa upp úr. Hjá Kaupangi er hlaðan öll umflotin vatni. Feiknar vöxtur hefir líka komið í Glerá. Í nótt sópaði burtu trébrú, neðarlega á ánni, nokkuð fyrir neðan aðalbrúna, hjá Gefjunarverksmiðjunum. Vörður var við ána í nótt og í dag. Áin rennur um eyrar norðan við Oddeyrartangann og hefir verið hlaðinn þar varnargarður, svo að hún flæði ekki inn í bæinn í vöxtum. Í dag var komin norðlæg átt í Eyjafirði og hefir því ekki verið eins hlýtt og undanfarið. En veður er þó bjart. Er búist við að vatnavextir fari nú rénandi.
Fimm hundruð manns notuðu sjóinn og sólskinið í Skerjafirði í gær. Þegar flest var voru þar 250 manns í einu. Bæjarbúar eru nú í stórhópum farnir að nota sér sjóinn og sólskinið, og í gær var krökkt í Skerjafirði um miðjan daginn, er sól var hæst á lofti.
Þjóðviljinn segir af vatnavöxtum 25.júní:
Einkaskeyti til Þjóðviljans Dalvík í gær. Undanfarna þrjá sólarhringa hafa geisað hér óvenjumiklir vatnavextir, og hafa orðið ýmsar skemmdir af völdum vatnsflóðanna. Þjóðvegurinn austan Svarfaðardalsár fór í kaf undir vatni á l00 m svæði. Stóð vatnið rösklega hálfan metra upp fyrir veginn. Var vegurinn með öllu ófær bílum. Í gær kólnaði nokkuð í veðri og fór flóðið þá að minnka. Brýrnar á Holtsá og Brimnesá hafa raskast og eru nú ófærar bílum. Miklar skemmdir hafa orðið á engjum beggja megin við Svarfaðardalsá af leirframburði úr ánni.
Vísir metur vatnavexti 28.júní:
Rosknir menn í Eyjafirði telja vatnavextina 22.júní s.l. (er stöfuðu af hitabylgjunni, er gekk yfir Norðurland 21. og 22.júní) einhverja þá mestu, er þeir muna. Ef þriðji hitadagurinn hefði fylgt, er hætt við, að stórkostlegar skemmdir hefðu orðið á brúm, vegum og ræktuðu landi í Eyjafirði. En að kvöldi 22. júní kólnaði skyndilega og tóku vötn þegar að fjara á föstudagsmorgun. En svo langt er séð varð frá Akureyri út eftir firðinum, bar hann kolmórauðan lit, og inn til dalsins, fyrir botni fjarðarins, þar sem áður gaf að líta skrúðgræna hólmana, milli silfurtærra kvísla bergvatnsins, Eyjafjarðarár, sást nú aðeins kaffibrúnn flóinn, brekknanna á milli. En á laugardag var vatnið mjög fjarað út og litur þess tekinn að lýsast. Skemmdir urðu nokkrar í firðinum af völdum flóðsins. Við Leyning, sem er meðal inntu bæja í firðinum, féll skriða fram í Eyjafjarðará og hafði næstum stíflað hana. Skriða þessi fór yfir akveginn, svo að bílar komust ekki þar um. Á Melgerði gekk flóðið yfir tún og engjar, sem liggja þar mjög.lágt, og þar sem leirframburður árinnar var mjög mikill, er talið óvíst, að hægt verði að heyja þær engjaspildur í sumar, sem flóðið fór yfir. Á Kroppi gekk áin einnig yfir hluta af túninu. Skjóldalsá flæddi yfir veginn við annan brúarsporðinn, og var flaumurinn þar upp undir kvið á hesti, en við Finnastaðaá unnu menn við að flytja grjót í vegarkantana, því þar leitaði áin mjög á og skipti hún títt um farveg. Á þremur stöðum gekk Eyjafjarðará yfir veginn, sem liggur fram Eyjafjörð að vestan, og vegurinn, sem liggur austur yfir fjörðinn um hólmana rétt innan við Akureyri, var á löngum köflum í kafi. Skemmdist hann þó ekki verulega. Í Staðareyju, sem er hólmi í Eyjafjarðará undan Kaupangssveit, átti Stefán Jónasson útgerðarmaður á Knararbergi, kýr sínar og fjós fyrir þær. Gekk áin mjög yfir eyna, og fór Stefán þangað fram á báti að vitja þeirra. Voru þær þá í hnédjúpu vatni. Tókst honum að bjarga þeim þangað, sem hærra bar, og sakaði þær ekki. Bærinn Kaupangsbakki, er stendur á árbakkanum austanverðum, var allur umflotinn, og munu skemmdir hafa orðið þar á matjurtagörðum.
Júlí þótt mjög hagstæður á flesta eða alla lund. Þó gerði kuldakast í byrjun mánaðar. Þetta er enn (2024) sólríkasti júlímánuður í Reykjavík frá upphafi mælinga.
Síðumúli: Júlímánuður hefir verið ómunagóður, hlýr og óvanalega þurrviðrasamur. Heyskapurinn gengur því ágætlega. Allstaðar hér um slóðir er búið að hirða tún. Víða fyrir löngu síðan. Taðan er góð og mikil. Jörðin var orðin ákaflega þurr og þyrst og víða knappt um neysluvatn. En skúrirnir undanfarna daga hafa bætt úr því.
Lambavatn: Það hefir verið óslitið blíðviðri og þurrkur.
Suðureyri: Frábærlega stillt, heitt, þurrt og bjart. Alveg eins og sumartíð á að vera. 25. júlí heitasti dagur í mörg ár [23,2°C].
Skriðuland: Mánuðurinn sem heild óvenjulega þurr og stilltur. Gróðri miðaði hægt vegna þurrkanna.
Sandur: Ágætt tíðarfar nema fjóra fyrstu dagana. Hirtist hey svo að segja af ljánum.
Raufarhöfn: Veðrin yfirleitt mjög góð, en lítið um heyþurrk hér á Sléttu, seint gengið að hirða hey.
Fagridalur: Ágætasta tíð, stillt og hlý, en fremur þurrkdauf.
Nefbjarnarstaðir: Tíð fremur köld fyrri hluta þessa mánaðar. Síðan mild tíð og fremur hagstæð. Oftast norðaustanátt og austan en lítil úrfelli. [Þ.1.- 2. snjóaði í fjöll - sumstaðar nær ofan í byggð].
Berustaðir (Óskar Þorsteinsson): Tíðarfarið í mánuðinum var framúrskarandi gott, hlýtt kyrrt og þurrviðrasamt. Heyskapartíð svo góð að á betra varð ekki kosið.
Júlímánuður byrjaði með nokkuð snörpu kuldakasti, m.a. varð alhvítt að morgni þess 3. á Grímsstöðum á Fjöllum.
Háloftakortið sýnir stöðuna að morgni þess 2. Köld lægð fyrir austan land beinir svelju til landsins langt úr norðri. Næturfrost varð allvíða, mest -2,8 stig í Reykjahlíð aðfaranótt þess 5. - og stendur það enn [2024] sem dægurlágmarksmet þess dags.
Morgunblaðið segir af kulda á Þingvöllum í pistli 4.júlí:
[Úr frétt um vestmannadag á Þingvöllum 2.júlí]. Það var svalt á Þingvöllum þennan dag, norðanrok (8 vindstig) og óvært fyrir kulda, ef sólin hefði ekki skinið í heiði. Nefndin sem sá um undirbúning dagsins virðist hafa miðað ráðstafanir sínar við góðviðri og stillur, því að öðrum kosti myndi hún ekki hafa reist hásætispallinn móti norðri. Kaldur gusturinn lék um hinar tignu konur í hásæti og fór það að vonum, að þær urðu frá að hverfa áður en ávörpum og ræðum var lokið. Fyrir framan hásætin á hásætispallinum hafði verið komið fyrir ræðustól. Ræðumenn áttu Um tvo kosti að velja, að tala upp í vindinn og fá öll vit full af ryki, eða að snúa vanganum að áheyrendum, sem ekki fór eins vel. Sjálfur var hásætispallurinn fánum skreyttur og forsetastóll og ráðherrastólar höfðu verið fengnir að láni hjá Alþingi og notaðir sem hásæti.
Síðan tóku við mikil hlýindi. Hámark þeirra varð um miðjan mánuð á Norðurlandi (hæst 25,5 stig í Reykjahlíð þann 19.), en í kringum þann 25. um landið vestanvert. Þann 25. mældist hiti á Hvanneyri 25,6 stig og hiti fór þar í 20 stig eða meira í sex daga í röð. Það er mjög óvenjulegt. Að kvöldi 25. mældist hiti á Arnarstapa á Snæfellsnesi 21,3 stig - þar var enginn hámarksmælir. Hiti fór hæst í 21,0 stig í Stykkishólmi, ekki gerist það oft. Eitthvað ólag var á hámarkshitamælingum á Hamraendum í Miðdölum í þessum mánuði, en þann 25. skráir athugunarmaður 26,8 stig kl.14 (15) - lesið á hefðbundinn mæli. Á Lambavatni á Rauðasandi las athugunarmaður 29,0 stiga hámarkshita (varð að 28,8 eftir fasta mælisleiðréttingu í töflum Veðráttunnar). Þetta er í ótrúlegasta lagi - kannski einkum vegna þess að fleiri hámarkshitamælingar á stöðinni eru ótrúverðar á þessum árum, en hæsti hiti á athugunartíma er 21,6 stig. Athuganir voru gerðar á Svalvogum, en engar mælingar. Athugunarmaður setur þó töluna 28 í hitadálk síðdegis þann 25. - ótrúleg mæling - en gefur samt til kynna óvenjulegan hita þennan dag. Á Flateyri var ekki hámarkshitamælir, hæsta tala þar 20,0 stig, en 23,2 stig á trúverðugan mæli á Suðureyri við Súgandafjörð - afskaplega óvenjulegt. Norðanlands var heldur svalara þennan dag, en hiti gældi þó við 20 stigin inn til landsins.
Á Suðurlandi náðu hlýindin hámarki þann 24. Þá mældist hiti mest 24,6 stig á Hæli í Gnúpverjahreppi og fór í 26,0 á Hlíð í Hrunamannahreppi og 25,3 á Þingvöllum. Háloftakortið að ofan sýnir ágiskaða stöðu í 500 hPa þann dag. Algjör flatneskja er við landið - nánast áttleysa.
Morgunblaðið segir frá 25.júlí:
Eftir hina miklu hita í gær gerði óhemju úrkomu austanfjalls. Í Hveragerði varð blátt áfram skýfall. Fólk lá í sólbaði á víð og dreif, er ský fór að draga saman í fjallinu fyrir ofan. Skipti það engum togum að úrhellisrigningu gerði með þrumum og eldingum. Stóð rigningin í tæpa klukkustund og var vatnsflaumurinn svo mikill, að hann tók víða í mjóalegg. Fólkið þyrptist að tjöldunum, sem þarna eru allmörg, en þar var lítið skjól að fá. Margt fólk flýði hingað í bæinn og skýrir það svo frá, að ekki hafi verið neitt þurrt af því, sem það hafði í tjöldunum. Nokkur stormur fylgdi úrkomunni og feldi hann a.m.k. tvö tjöld. Á Þingvöllum gerði líka úrhellisrigningu síðdegis í gær.
Morgunblaðið kvartar undan þurrkum 28.júlí:
Bæjarverkfræðingur hefir auglýst í blöðunum aðvörun til fólks um að eyða ekki Gvendarbrunnavatni að óþörfu. Því ef vatnið er látið renna freklega, er hætt við að vatnsrennsli tregðist í vatnsveitunni. Blaðið átti í gær tal við bæjarverkfræðing um þetta. Hann skýrði svo frá: Hinir langvarandi og alveg óvenjulegu þurrkar hafa gert það að verkum, að uppsprettuvatn Gvendarbrunna hefir minnkað. Ef þurrkarnir halda áfram, og vatnsnotkun í bænum fer vaxandi, er hætt við að vatnsborðið í uppsprettulindunum lækki svo mikið, að vatnsborð komi í frárennslispípurnar frá brunnunum, svo þær flytji ekki fullt vatnsmagn til bæjarins. Fari svo, þá má búast við að hér verði tilfinnanleg vatnsþurrð, uns úrkomur byrja að nýju. Það hjálpaðist ýmislegt að til þess að vatnið í brunnunum" lækki, óvenjulega lítið aðstreymi til þeirra, óvenjulega mikil vatnsnotkun, og svo það, að uppistaðan í Elliðavatnsengjunum er með minnsta móti. En þegar lækkar í henni, þá er alltaf hættara við að líka lækki vatnið í Gvendarbrunnum. Meðan Reykvíkingar njóta sólskinsins verða þeir því að hafa hemil á vatnsnotkuninni, láta ekki vatn renna til garðvökvunar í óhófi, né til þvotta og þessháttar.
Seint í júlí varð hlaup úr Grænalóni. Þau voru allstór á þessum árum, en minnkuðu síðan og hættu loks. Morgunblaðið segir frá 30.júlí - og ræðir síðan blíðuna og daufar síldveiðar:
Núpsvötnin hafa verið í stöðugum vexti undanfarna viku. Þau byrjuðu að vaxa síðastliðinn sunnudag og kom vöxturinn úr Súlu, ánni, sem kemur úr Skeiðarárjökli og rennur í Núpsvötnin. Fyrstu dagana var vöxturinn hægfara og álitu menn þá, að hann stafaði eingöngu af hitunum. En síðustu daga vikunnar hafa Núpsvötn vaxið mjög ört og eru menn eystra nú ekki í vafa um, að hér er hlaup á ferðinni. Hannes Jónsson bóndi og póstur á Núpstað í Fljótshverfi skýrði Morgunblaðinu þannig frá í gær: Núpsvötnin eru nú orðin einn hafsjór yfir að líta. Þau flæða langt upp á undirlendið og er mikið af engjunum á Núpstað komið undir vatn. Hannes taldi líkur til þess, að flóð þetta stafaði af því, að Grænalón hafi hlaupið fram, en það er stórt stöðuvatn upp í jöklinum, vestan við Grænafjall. Hlaup þessi stafa af eldsumbrotum undir jöklinum. Venjulega hafa liðið mörg ár (um 30) á milli hlaupa úr Grænalóni. Seinasta hlaupið var 1935, svo að ef vatnsflóðið nú stafar af hlaupi úr Grænalóni, hefir liðið óvenju stuttur tími milli hlaupa að þessu sinni. Morgunblaðið spurði Hannes á Núpstað, hvort hlaup þessi stæðu venjulega lengi yfir. Sagði Hannes, að það kæmi allt undir því, hversu mörg útföllin væru úr jöklinum. Væru útföllin mörg, stæðu hlaupin venjulega stuttan tíma. En væri hinsvegar aðeins eitt útfall, eins og nú, gæti hlaupið staðið lengi yfir. Hinn mikli vatnsflaumur nú kemur allur úr Súlu.
Sumar og sól. Hér sunnanlands hefir þetta sumar verið sannkallað sólarsumar. Sólskinið er daglegt umræðuefni manna. Hver dagurinn hefir um langt skeið verið öðrum hlýrri og bjartari. Jafnvel þegar það kemur fyrir að dregur fyrir sól með skúraleiðingum, þá er hitinn allt upp í 20 stig. En oft hefir hann orðið talsvert hærri. Menn eru að velta því fyrir sér hér um slóðir, hvort þeir hafi nokkurn tíma lifað eins marga sólskinsdaga á einu sumri. Í því sambandi hefi ég heyrt minnst á sumarið 1876. Aðrir tala um 1881 fyrir frostaveturinn mikla [á að vera 1880 - frostaveturinn var 1880-81] og enn aðrir um jarðskjálftasumarið 1896. Þá á að hafa verið bjart og gott sumar hér sunnanlands, sumarið sem endaði með ógnum og skelfingum, þegar bæirnir hrundu flestir á Suðurlandsundirlendinu. Enn eru, menn að tala um jarðskjálfta í sambandi við alt góðviðrið, rétt eins og mannfólkið þurfi að fá einhverjar skelfingar ofan á meðlætið í veðráttunni.
En til eru fleiri tegundir hörmunga en jarðskjálftarnir. 0g þá hvarfla menn huganum til síldveiðanna. Ætla þær að bregðast í ár? Fari svo, þá verður það á við meðal jarðskjálfta. Og síldarleysisár eru miklu tíðari jarðskjálftarnir. Er orsakasamband milli hins óvenjulega hita og veiðitregðunnar? Menn vita það ekki. Menn vita ekki annað en síldargöngurnar haga sér eftir því hvar hin svonefnda rauðáta er í sjónum, hin örsmáu krabbadýr, sem nefnd eru því nafni. Mælt er að sjórinn við Norðurland sé í sumar 34 gráðum heitari en vanalega. Er það of heitt fyrir þessa smákrabba? Og hvar eru þessi kynstur af síld, sem hljóta að vera einhversstaðar í sjónum?
Morgunblaðið segir af Grænalóni 2.ágúst:
Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur kom inn á skrifstofu blaðsins í gær. Hann var á förum austur að Vatnajökli. Hann ætlar að athuga hlaupið í Núpsvötnin úr Grænalóni. Segir hann að eftir því sem hann best geti ímyndað sér að óséðu, þá sé hlaup þetta í engu sambandi við eldsumbrot, heldur stafi það af því einu, að stöðuvatnið Grænalón hafi fengið framrás. Vatnið er í jökulkrika, vestanvert við Skeiðarárjökul, og stíflar skriðjökullinn framrásina. Eftir því sem jökulröndin er þykkri, eftir því stíflast vatnið hærra. En sé hún tiltölulega þunn, þá lyftir vatnið henni fyrr og fær hún þannig framrás meðfram jöklinum. Sigurður hefir annars í sumar fengist við rannsóknir á öskulögum í jörðu. Hafa þeir valið sér það verkefni Hákon Bjarnason skógræktarstjóri og hann. Hefir Sigurður verið austur í Þjórsárdal nú um tíma og athugað öskulögin í uppgreftri fornfræðinganna. Hefir hann fengið af því allmikinn fróðleik. Hann sagði m.a.: Það eru hvítu vikurlögin tvö, sem við Hákon leggjum mesta áherslu á að vita hve gömul eru, og þó aðallega annað þeirra, sem við álítum að sé frá því um 1300. Það vikurlag teljum við að komið hafi frá Heklu, ellegar frá nágrenni Heklu. Það er ofan á rústunum í Þjórsárdal. Annars hefi ég hugsað mér segir Sigurður, að leggja næstu árin stund á mýrarannsóknir, athuga mýramyndunina, og þó einkum hvaða jurtaleifar eru í mýrunum. Ég ætla á þann hátt að fá vitneskju um hvernig loftslag hefir breyst hér á landi. Yfirleitt ætla ég að gera sem víðtækastar athuganir á því, hvaða breytingar hafa orðið hér síðan á landnámsöld á loftslagi, gróðri, hvar landið hefir sigið, hvar hækkað o.s.frv. Slíkar rannsóknir eiga að gefa miklar skýringar á allri sögu þjóðarinnar og lífi.
Morgunblaðið segir enn af Grænalóni 3.ágúst:
Flugvélin TF-SUX flaug í gær austur í Vatnajökul með Pálma Hannesson rektor, til að athuga Grænalón, sem hlaupin í Núpsvötnum stöfuðu frá. Flugmaður var Sigurður Jónsson. Flugmaðurinn fann mel skammt frá Grænalóni, þar sem sæmilegt var að lenda og dvöldu þeir Pálmi og Sigurður um 1 1/2 klst þar efra. Gerði Pálmi þar sínar athuganir. Grænalón er nú tómt og hlaupið í Núpsvötnum í rénun. Flugvélin kom hingað kl. 11 1/2 í gærkvöldi. Blaðamaður frá Morgunblaðinu náði sem snöggvast tali af Sigurði Jónssyni flugmanni í gærkvöldi- og sagðist honum svo frá um ferðalagið: Við flugum fyrst að Kirkjubæjarklaustri og þaðan að Grænalóni. Sveimuðum við þar yfir um stund, en héldum síðan til Hornafjarðar, því þessi ferð var um leið vikulegt póstflug. Við komum við á Fagurhólsmýri og frá Höfn í Hornafirði var haldið sömu leið til baka upp að Grænalóni, þar sem við lentum. Gengum við ca.3 km meðfram suðvesturkanti lónsins. Þarna gaf að líta hina furðulegustu sjón og hafði jafnvel Pálmi Hannesson ekki séð aðra eins. Ísinn var í hrönnum og gaf þar að líta hinar einkennilegustu myndanir. Var það engu líkara, en að skýjakljúfaborg hefði hrunið. Eftir því sem Pálmi sagði Sigurði hefir hlaupið komið úr suðausturhorni Grænalóns og brotist framundan jöklinum í Súlu. Mátti enn sjá op á jöklinum, þar sem vatn streymdi fram. Er Pálmi Hannesson hafði gert sínar athuganir við Grænalón var haldið að Kirkjubæjarklaustri og síðan til Reykjavíkur.
Ágúst varð öllu votviðrasamari á Suður- og Vesturlandi heldur en júlí, svo óróahljóð komst stundum í bændur. En allt fór þó vel. Veðurathugunarmenn segja frá.
Síðumúli: Ágúst hefir yfirleitt verið hlýr, en nokkuð úrkomusamur. Stundum var þá svo kalt um nætur, að hiti var hér aðeins 1 og 2 stig. Heyskapartíð hefir verið með köflum óhagstæð, en nýting þó orðin sæmileg. Tún, úthagi og garðar hafa sprottið ágætlega og er því háarfengur í allra mesta lagi, hér um slóðir.
Lambavatn: Það hefir verið fremur votviðrasamt, hlýindi og fremur stillt veður.
Suðureyri: Mikil og jöfn hlýindi. Yfirleitt stillt. Nokkur úrkoma. Mikil spretta á túnum og engjum. Snjóaði í fjöll 25.
Sandur: Ágætt tíðarfar, hlýindi og þurrkar nægir. Nýting heyja ágæt. Fjöll eru orðin óvenjusnjólítil. Votengjar óvenjuþurrar.
Nefbjarnarstaðir: Hlýindi og afar góð tíð mánuðinn út. Sunnan- og suðvestanátt tíðust með hægviðri.
Papey: Það hefir verið hlýtt og góð veður oftast nær, en aðeins 4 lélegir þurrkdagar hér í Papey þó ekki til enda. Síðan 23. hefir ekki slegið af steini. Hey því farin að stórskemmast. Jörð full af vatni síðustu daga.
Berustaðir í Ásum: Tíðarfarið í mánuðinum fremur votviðrasamt, sérstaklega seinni partinn, en oftast hlýtt og gott veður. Heyskapartíð góð fram undir miðjan mánuð en of vætusöm úr því. Þó hröktust ekki hey til muna, en hirtust fremur illa.
Júlíhlýindin héldu áfram framan af ágúst. Hiti fór í 27,1 stig á Sandi í Aðaldal þ.5. og daginn áður í 27,0 stig á Hallormsstað. Aðra hitabylgju gerði síðustu þrjá daga mánaðarins og stóð hún fram í september. Þann 11. las athugunarmaður í Vík í Mýrdal töluna 28,5 stig af hámarksmæli stöðvarinnar. Mesti hiti á athugunartíma var hins vegar ekki nema 19,4 stig. Þótt norðvestanátt hafi verið í lofti, hagstæð háum hámörkum í Vík er samt ástæða til að efast um þessa tölu. Kannski átti hún að vera 5 stigum lægri, 23,5 stig - sem er reyndar mjög óvenjulegt á þessum slóðum líka. En við látum þetta liggja á milli hluta hér.
Tíminn segir af þurrkum og vatnsskorti 3.ágúst:
Langvarandi þurrkar í mörgum héruðum landsins valda því, að víða er tekið mjög að bera á vatnsskorti. Lækjarfarvegir eru margir þurrir, þótt tæpast séu þess dæmi, að sumir þeirra hafi þornað áður, ár, sem venjulega eru allvatnsmiklar, má nú stikla og mýrlendi er víða skrælþurrt. Sumstaðar er allt vatn þorrið á stórum svæðum, bæði í byggðum og til fjalla á afréttum. Þar sem svo háttar til á beitilandi búpenings, eru skepnur mjög rásgjarnar og óstöðugar. Brunnar og vatnsból eru víða þrotin með öllu og sumstaðar verður að sækja neysluvatn langar leiðir og verður æ óhægara um vatnsöflunina sem þurrviðrin haldast lengur. Er tiltölulega lítil úrbót að því, þótt smáskúrir falli niður stöku sinnum, því að jörðin er orðin svo þurr, að stórrigningu þarf til þess að vatnslindir taki að seytla fram að nýju og vatn að síga í brunna. Afar erfitt er um kælingu á mjólk, því að það vatn, sem næst til, er víða sólvarmt. Munu af þessum sökum óvenjulega mikil brögð að súrnun í þeirri mjólk, sem berst til mjólkurbúanna og mjólkurstöðvanna. Garðar hafa víða beðið hnekki af vatnsskorti. Harðlend og mosagróin tún og vallendisjörð er mjög torslæg og hafa sumir bændur, sem slíku verða að hlíta, tekið það ráð að slá helst um nætur, þegar áfall er, auk þess sem þá er mun svalara við vinnuna en á daginn. Mýrlendi, sem ávallt hefir þurft að flytja heyið vott af, er nú víða veltiþurrt, svo að þar má sem best flekkja og þurrka heyið.
Úr Borgarfirði er blaðinu skrifað: Heyskapurinn gengur ágætlega. Varla hefir komið skúr úr lofti síðan um miðjan júnímánuð og sprettur harðvelli ekki sökum þurrka. Allt hey hirðist í hlöður hvanngrænt af ljánum. Ár eru orðnar vatnsminni heldur en elstu menn muna dæmi til. Hamlar það víða laxveiði. Hafa jafnvel sumar bestu árnar brugðist vegna vatnsleysis, en í sumum hinum stærri ám er mikið af lax og verða þær góðar til veiði, þegar rigningar koma. Hitinn hefir oft verið mikill í sumar i Borgarfjarðardölum og jafnvel til óþæginda við vinnu, alloft 2030 stig í forsælunni.
Um miðjan mánuð kom mikið hlaup í Tungufljót með upptök í Hagavatni. Morgunblaðið 15.ágúst:
Í gærmorgun um fótaferðartíma urðu Biskupstungnamenn þess varir, að mikill vöxtur var hlaupinn í Tungufljót. í gær óx fljótið enn og flæddi það talsvert á engjar og spillir slægjum. Eitthvað hefir og flætt af heyi. Um hádegi tók Ölfusá að vaxa og var töluverður vöxtur kominn í hana um miðaftan. Menn telja þetta jökulhlaup og ætla að það stafi frá Hagavatni. (FÚ)
Morgunblaðið segir nánar frá 16.ágúst:
Sigurður Greipsson íþróttakennari fór á mánudag upp að Hagavatni, til þess að athuga verksummerkin þar eftir hlaupið úr vatninu. Morgunblaðið átti í gær tal við Sigurð og spurði hvers hann hefði orðið vísari í förinni. Fer hér á eftir frásögn hans:
Við Hagavatn hefir orðið mikið umrót, sagði Sigurður. Yfirborð vatnsins hefir lækkað um fulla 8 metra. Ég fór með fram vatninu, að Leynifossi, sem myndaðist í síðasta hlaupi (1929). En nú var fossinn horfinn með öllu; þar var ekkert rennsli lengur. Ég fór svo að leita að frárennslinu nú og fann staðinn, fast við jökulinn, um 400 m frá gamla frárennslinu. Þarna hefir hlaupið ruðst fram með feikna krafti og ofurþunga. Hefir myndast þar risahvelfing undir jöklinum, þar sem hlaupið varð. Austan við Einisfell er smáfell og fast austan við það er frárennslið nú. Mikið vatnsrennsli er á öllu svæðinu milli Einisfells og Fagradalsfjalls. Hagavatn hefir mikið til tæmst. Eru eyrar víða upp úr vatninu og virtist mega komast gangandi langleiðina í Hagafell. Vatnið er nú talsvert farið að fjara í ánum eystra. Tungufljót hefir gert mikinn usla á engjum og talsvert tjón hlotist af. Flóðið hefir og rutt burtu uppfyllingunni beggja megin við efri brúna á Tungufljóti svo að þar er nú ófært yfirferðar.
Hagavatn er sunnan undir Langjökli. Að austanverðu takmarkast það af Fagradalsfjalli, en að vestan og sunnan af Lambahrauni. Austan við Fagradalsfjall er Fagridalur og nær hann inn að Langjökli. Innst í dalnum, upp við jökulinn, var áður afrennsli Hagavatns, lítil á, sem kölluð var Far. Rann hún niður breiðar eyrar og í Sandvatn. Hagavatn er 100 m hærra heldur en botn Fagradals. Í Jarðabók Árna Magnússonar, er þess getið, að hlaup komi stundum í Tungufljót og valdi skemmdum á engjum í Biskupstungum. Og í minni núlifandi manna hafa þrjú hlaup komið í Tungufljót af völdum Hagavatns fyrir utan þetta hlaup, 1882, 1902 og 1929. Af þessum hlaupum varð hið síðastnefnda langstórkostlegast. Milli hlaupanna hækkar Hagavatn ár frá ári, svo að sjá má greinilega mun á því. Er það vegna þess, að skriðjökull úr Langjökli skríður fyrir útrennslið og stíflar það. En þegar vatnsþunginn er orðinn nógu mikill, sprengir vatnið skriðjökulinn og nær sér framrás. Það eru nú rétt 10 ár síðan Hagavatn sprengdi sér framrás síðast. Um miðnætti föstudaginn 16. ágúst 1929 heyrðu menn á bæjunum við Geysi undirgang ógurlegan, brak og bresti inni í óbyggðum. Heyrðist þetta langan tíma og héldu menn það vera þrumuveður. En kl.5 um morguninn sáu menn Tungufljót ryðjast fram með gífurlegu vatnsmagni og jakaburði, flæða yfir alla bakka og sópa burt brúnni, sem var á því austur við Geysi. Þá vissu menn að Hagavatn hafði sprengt jökulstífluna. Um leið og vatnið leystist úr viðjum jökulsins, geystist það fram í tryllingi í 200 metra breiðum straumi, steyptist fram yfir fjallsöxlina og niður í dal inn í 100 metra háum fossi, sem gefið var nafnið Leynifoss. Svo ógurlegar voru hamfarir flóðsins, að það tætti upp bergið eins og fúaraft og skar sér djúpan farveg í gegnum það 50 metra langan, 15 feta breiðan og 7 metra djúpan. Var eins og klappirnar hefði verið skornar eftir línu, svo beint og hreinlega hafði hlaupið molað bergið upp. Eftir flóðið 1902 var skriðjökullinn 10 ár að fylla farveginn og stífla framrennsli vatnsins, en síðan var það 17 ár að hækka og var því orðið miklu meira í því 1929 heldur en nú. En við hlaupið 1929 var talið að yfirborð þess hefði lækkað - um 910 metra, og að vatnsmagnið, sem byltist þar fram muni hafa verið um 200 miljónir smálesta.
Morgunblaðið segir frá ferð að Hagavatni í pistli 22.ágúst:
Á sunnudaginn [20.] var fóru þeir Björn Ólafsson stórkaupmaður, Tryggvi Magnússon verslunarstjóri, Stefán Stefánsson fylgdarmaður og Helgi Jónasson frá Brennu upp að Hagavatni til þess að skoða þau verksummerki sem þar hafa orðið eftir nýja hlaupið. Frá Birni Ólafssyni hefir blaðið fengið eftirfarandi frásögn um það hvernig nú er umhorfs þarna:
16.ágúst 1929 hljóp Hagavatn síðast. Hafði vatnið þá sprengt vestasta hluta skriðjökulsins og ruðst fram yfir fjallsröndina og myndað Leynifoss. Síðan hefir taglið á skriðjöklinum, sem náði alveg að fossinum, bráðnað á stóru svæði og horfið með öllu og komist í línu við skriðjökulsbakkann frá Hagafelli. Við austurenda skriðjökulsbakkans hefir vatnið leitað útgöngu og grafið sig undir jökulröndina á nokkur hundruð metra breiðu svæði út í hamragil eitt mikið sem er í fjallsröndinni. Þar hefir vatnið fundið útgöngudyr þegar það hafði grafið sig gegnum jökulinn. Þetta nýja afrennsli er á að giska 500 metrum norðar en Leynifoss. Vatnsflaumurinn hefir síðan myndað sér djúpan farveg niður fjallið og fram eyrarnar, og skolað burtu öllu sem fyrir var, klöppum og melum. Þar sem vatnið kemur undan jöklinum myndast lón og síðan steypist vatnið í stórum fossi niður gljúfrin. Umbrotin eru ekki eins stórkostleg og 1929. Vatnið hefir breyst mikið og þornað á stóru svæði. Það er erfitt að reikna hversu vatnið hefir mikið lækkað, en eftir skriðjöklinum að dæma, gæti það verið um 812 metrar. Nú má ganga þurrum fótum um stór svæði af sandi og möl, sem voru undir vatni eftir hlaupið 1929. Vatnið virðist nú hafa fengið sína eðlilegu útrás og gljúfrin, þar sem Leynifoss var áður, munu að líkindum aldrei framar duna af hamförum jökulvatnsins.
Leiðindanorðankast gerði í kringum þann 24.ágúst, en stóð ekki lengi. Morgunblaðið segir frá 26.ágúst:
Í gær barst ekki nein síld til Siglufjarðar, því að öll herpinótaskipin lágu í höfn, ýmist þar eða annars staðar, og engir reknetabátar voru úti í fyrrinótt vegna veðurs. Var þá norðvestan stormur og mikill sjór fyrir Norðurlandi, og í gærmorgun voru fjöllin hjá Siglufirði hvít af snjó.
Veðráttan segir frá því að í hretinu þann 24. ágúst hafi skriðuföll og vatnavextir spillt engjum í Hornvík og að ófærð hafi verið á fjallvegum á Vestfjörðum.
September var fádæma hlýr. Þetta er hlýjasti september sem vitað er um í Reykjavík og sá næsthlýjasti á landinu í heild og á Akureyri (september 1941 var einnig fádæma hlýr). Nokkuð votviðrasamt var sunnanlands, en þó var ekki illa talað um tíðina nema á Suðausturlandi, þar voru óþurrkar til verulegs ama. Veðurathugunarmenn segja frá:
Síðumúli: September hefir verið hlýr og góður en nokkuð votviðrasamur með köflum, sérstaklega í Skaftafellssýslum.
Lambavatn: Það hefir verið óslitið blíðviðri og hiti allan mánuðinn. Jörð algræn eins og í ágúst og há á túnum að spretta til þessa. Heyskapur er allstaðar góður og víða ágætur. Spretta í görðum er alstaðar óvenjugóð og allur gróður óvenjugóður.
Suðueyri: Frábærlega stillt og hagstætt. Úrkomulítið nema 19.-20.
Sandur: Frábært tíðarfar, óvenjuleg hlýindi og þurrkar. Mýrar orðnar svo þurrar að með fádæmum má telja. Vatnsból þorna sumstaðar upp. Fjöll snjólausari en dæmi eru til. Fé með allra vænsta móti. Uppskera úr görðum óvenjumikil.
Nefbjarnarstaðir: Tíðarfar má telja afbragðsgott og hagstætt. Tíð mild og þurrviðrasöm allt fram undir mánaðarlok.
Berustaðir: Tíðarfarið mjög þerrilítið en þó ekki stórfelldar úrkomur. Mjög hlýtt. Fíflar og sóleyja sprungu út í túnum seinni part mánaðarins.
Fyrstu dagar septembermánaðar voru sérlega hlýir. Þá fór hiti í 20 stig í Reykjavík og hefur það ekki orðið síðan (né áður). Háloftakortið hér að ofan sýnir stöðuna - mjög dæmigerð fyrir mikil hlýindi um landið vestanvert. Á Hvanneyri mældist hiti 22,8 stig þann 3. Vestur á Lambavatni eru 25,0 stig skráð þann 3., en er grunsamlegt. Þar sýndi hámarksmælir 20 stig eða meira þ.1., 2., 3., 5. og 6. dag mánaðarins. Talsvert grunsamlegt. Á Sandi í Aðaldal fór hiti í 20 stig eða meira fyrstu 6 daga mánaðarins og líka síðustu þrjá daga ágústmánaðar. Mun trúlegra þar um slóðir heldur en á Lambavatni. Fyrsti dagur mánaðarins var yfirleitt sá hlýjasti fyrir norðan, en sá sjötti á Austurlandi. Hungurdiskar hafa nokkuð fjallað um þessa óvenjulegu hitabylgju í eldri pistli. [Áttatíu ára gamalt septembermet].
Morgunblaðið segir 10.september frá nánast fullkomnu sumri í Skagafirði:
Jón Sigurðsson frá Reynistað er nýkominn hingað til þess að sitja fund Mæðiveikisnefndar. Hitti blaðið hann að máli og spurði hann almæltra tíðinda úr Skagafirði. Gamlir menn í Skagafirði halda því fram, segir Jón, að annað eins sumar hafi þar ekki komið síðan 1880, að því er heyskapartíð snertir. Svo má heita, að þurrkar hafi verið svo góðir, að ekkert handtak hafi farið til ónýtis, og öll hey verkast vel, nema nú fyrir skömmu að hey sem flöt voru hröktust í nokkra daga, og þó miklum mun meira en venjulega miðað við það hve óþurrkarnir voru stuttir, því svo óvenjulega hlýtt var í veðri. Spretta var nokkuð misjöfn, en yfirleitt yfir meðallag, og uppsláttur víða óvenjulega mik111. Jafnvel að tún, sem slegin hafi verið tvisvar, eru komin með talsvert gras í þriðja sinn, enda hlýindi óvenjuleg. Þetta upp undir 20° hiti og komið fram í september. Miðað við þann mannafla, sem bændur hafa haft, verða hey óvenjulega mikil í haust.
Morgunblaðið segir af slætti og heyskap 21.september:
Slætti er nú lokið víðast hvar á landinu. Heyskapur hefir yfirleitt verið góður og víða með besta móti. Undantekning frá þessu er þó á nokkru svæði austan til á Suðurlandi, í Mýrdal (austurhluta), Álftaveri og Skaftártungu (í V.-Skaftafellssýslu.) og í Vestmannaeyjum. Á fyrrnefndu svæði í Vestur-Skaftafellssýslu hafa verið nálega samfeldir óþurrkar síðan um miðjan ágúst. Úthey bænda á þessum slóðum hafa því stórskemmst og víða ónýttust þau að mestu leyti. Í Vestmannaeyjum gekk einnig erfiðlega að þurrka seinni sláttinn. Þar hafa því hey skemmst talsvert.
Morgunblaðið lofar tíð 1.október:
Dag eftir dag hefir hér í Reykjavík nú undanfarið verið hið fegursta veður, hlýindasólskin og milt eins og um hásumar væri. Hinn víði fjallahringur blasir við augum manna í tæru haustloftinu með öll sín litatilbrigði og hreinleika, er gerir hverjum manni glatt í geði sem á þá fegurð horfir. Það má segja að þetta sumar gerir það ekki endasleppt með veðurblíðuna.
Október var hagstæður - eins og flestir mánuðir ársins 1939:
Síðumúli: Október hefir verið ómunagóður, svo hlýr og mildur, og oft yndislegt veður. Nú er jörðin alauð og þíð og þurr eins og á sumardaginn. En dagana 22. til 26. var jörðin frosin og flekkótt af snjó. Alla aðra daga mánaðarins hefir hún verið auð og þíð.
Suðureyri: Hlýtt, stillt og úrkomulítið nema íkast 21.-26.. Enginn man sumar sem byrjaði svo snemma, varð frábærlega gott á allan hátt og endaði svona seint.
Núpsdalstunga: Þessi mánuður hefur verið heldur góður. Sunnanátt hefur verið eingöngu að heita má nema þegar hefur verið logn. Snjó gerði eftir miðjan mánuð en hann tók strax upp aftur víðast hvar.
Sandur: Einmuna gott tíðarfar. Meiri hlýindi og þurrkar, stillur og bjartviðri heldu en dæmi eru til í októbermánuði. Snjó leysti enn úr fjöllum og hafa horfið fannir sem menn muna varla að tekið hafi upp áður. Sóleyjar og fíflar sprungu út í túnum fram undir miðjan mánuð og nýgræðingur þaut upp þar sem skógviðarköstur hafði verið látinn í hlaðvarpa; að sögn trúverðugs bónda.
Reykjahlíð: Elstu menn hér muna ekki jafngóðan októbermánuð og að þessu sinni. Mývatn lagði 23.-24. og var gengt með pörtum, en varð orðið alautt um mánaðamót.
Nefbjarnarstaðir: Óvenjugóð og hagstæð tíð. Helst til mikið þurrviðri, jafnvel svo að til vandræða horfir með vatn í mörgum stöðum og sauðfé og gripir líða fyrir þá sök.
Sámsstaðir: Mánuðurinn óvenju hlýr, en með geysiúrkomu fram að 9.
Þann 18. komust leifar af fellibyl norður í nánd við Suður-Grænland [fellibylur 5-1939 í skrám Fellibyljamiðstöðvarinnar í Miami]. Í kjölfar þeirra fór nokkuð öflug lægð til norðurs skammt vestan við land. Olli hvassviðri en ekki tjóni nema í Vestmannaeyjum. Morgunblaðið segir frá 24.október:
Aftakaveður var í Vestmannaeyjum. um helgina [21. og 22.] og aðfaranótt sunnudags rak upp af höfninni 6 vélbáta. Litlar skemmdir urðu á bátunum, nema einum, Erni, sem laskaðist allmikið. Suðvestan hvassviðri var um allt Suður- og Vesturland um helgina og komst veðurhæðin sumstaðar upp í 10 vindstig, eins og t.d. hér í Reykjavík, og Vestmannaeyjum. Ekki hefir frést af neinum skemmdum af völdum ofviðrisins annarsstaðar en í Vestmannaeyjum.
Morgunblaðið ræðir enn þurrka 27.október:
Fréttaritari vor á Akureyri símar, að vegna stöðugra þurrka við Eyjafjörð í haust, horfi nú til vandræða vegna vatnsskorts. Vatn í lækjum og vatnsbólum hefir víða gengið allmjög til þurrðar. Mun ástandið vera einna verst í Öngulstaðahreppi og Saurbæjarhreppi. Á sumum raflýstum bæjum hefir vatnsorkan minkað svo mikið, að hún nægir naumast til ljósa. Dæmi eru til þess frá nokkrum bæjum, að sækja hefir orðið neysluvatn langar leiðir á vögnum og einnig mun það hafa komið fyrir að nautgripi hefir þurft að leysa af básum og fara með þá niður að Eyjafjarðará til brynningar.
Morgunblaðið segir frá óvenjulegum sumarhita 31.október (frétt frá Veðurstofunni):
Meðalhitinn hér í Reykjavík mánuðina júní, júlí, ágúst og september í sumar var 12 stig. Jafnmikill meðalhiti hefir ekki verið mældur hér þessa sömu mánuði, síðan veðurathuganir byrjuðu hér. Mesti munurinn er á því, hve septembermánuður hefir verið heitari í ár en undanfarin ár. Munar það rúmlega 2,2 stigum. Aðra mánuði er munurinn innan við 2 stig.
Í nóvember fór loks að hausta. Hríðarveður gerði norðanlands undir miðjan mánuð og seint í mánuðinum einnig sunnanlands. Ófærð varð nokkur.
Síðumúli: Nóvember hefir verið mildur. En það einkenndi mest þennan mánuð hvað hann hefir verið þurrviðrasamur. Snjór hefir ekki fallið hér niðri í byggðum, nema lítilsháttar föl. Jörðin hefir oftast verið annaðhvort alauð, eða lítið eitt flekkótt af snjó og svellum. Alhvít, aðeins fáa daga í senn.
Lambavatn: Það hefir verið fremur hagstætt. Blíðviðri fyrstu vikuna en síðan frost en oftast snjólaust, meira föl eins á fjöllum sem í byggð.
Suðureyri: Sama milda og stillta veðrátta til 8.nóvember. Kom þá fyrsti snjór. Varð snjófall létt og góður hagi allan mánuðinn.
Sandur: Tíðin sneri við blaðinu viku á mánuðinum. Var síðan fremur hörð veðrátta til mánaðarloka. Rak í ár og vötn, en hagi var víða sæmilegur.
Nefbjarnarstaðir: Frá því 10. þ.m. hefir verið stirð og umhleypingasöm tíð með snjókomu og töluverðu frosti, en þó töluverðir hagar.
Morgunblaðið segir frá 12.nóvember:
Fyrsta kuldakast haustsins hefir gengið yfir undanfarna daga og er útlit fyrir að það haldist enn um stund. Í gær [11.] var rakin norðan- og norðaustan átt um allt land með 57 stiga frosti. Veðurhæð var sumstaðar frá 8 og upp í 11 vindstig. Stórhríð geisaði á Norðausturlandi með 710 vindstigum. Mest var veðurhæðin í Papey, 11 vindstig, en þar var úrkomulaust. Í Spitsbergen var 17 stiga frost í gær og í Mygbugten á Grænlandi var 31 stigs frost. Loftþrýstingur var óvenju mikill á Norðaustur-Grænlandi í gær, eða alt að 780 mm [1040 hPa]. Hér á Suðurlandi var all misvindasamt, eftir staðháttum; sumstaðar hæg norðanátt og á Norðvesturlandi var farið að lægja í gær. Á svæðinu frá Raufarhöfn suður að Dalatanga var stórhríð, með 710 vindstigum. Meðan háþrýstisvæði helst yfir Grænlandi, er útlit fyrir sama veðurfari hér á landi. Þrátt fyrir kuldana hér á landi er enn hlýtt á Suður-Grænlandi. T.d. var í gær suðaustan gola í Julianehaab og 4 stiga hiti.
Morgunblaðið segir af illviðri í pistli 15.nóvember:
Afspyrnuveður gerði á Siglufirði á mánudag [13.] og hélst það þriðjudagsnótt og þriðjudag [14.]. Á þriðjudagsnótt slitnaði vöruflutningaskip Kaupfélags Eyfirðinga, Snæfell frá bæjarbryggjunni, þar var skipið til þess að taka fisk til útflutnings. Voru ekki komin nema 3540 tonn í skipið. Rak það inn á Leirur. Á þriðjudagsmorgun losnaði skipið af Leirunum á flóðinu, og átti að koma því að bryggjunni eða út á fjörðinn. En við ekkert varð ráðið, vegna veðurs. Rak skipið aftur undan vindi og rakst nú á bryggjupalla þá sem settir hafa verið upp á innri höfninni og nefndir eru í daglegu tali Anleggið. Þar voru bryggjur og pallar að brotna undan skipinu er fréttaritari blaðsins skýrði frá atburði þessum í gær og vissu bæjarmenn ekki glögglega þá hverju fram yndi, því símasamband er ekki við Anleggið. Leki var ekki kominn að skipinu, og var skipshöfnin þar öll. Veðurhæð var hin sama í gærkvöldi og áður. Snæfell var áður norskt og hét Kongshaug. Rak það upp á Siglufirði og keypti þá Kaupfélag Eyfirðinga skipið á strandstaðnum, lét ná því út og skírði Snæfell.
Vöruflutningaskipið Katla kom inn á Siglufjörð á þriðjudagsmorgun, en gat ekki lagst við bryggju. Sigldi skipið hvað eftir annað móti veðri út á fjörð, varpaði akkerum og léet síðan reka inn fjörðinn, uns komið var svo nærri landi, að þörf var á að færa sig að nýju.
Morgunblaðið segir af krapa við Laxárvirkjun 16.nóvember:
Síðastliðið laugardagskvöld [12.] stöðvaðist aðrennslið að aflstöðinni við Laxá, svo straumur hvarf þaðan í Akureyrarrafveituna. Akureyringar hafa sína gömlu Glerárstöð til vara, og kom hún nú í góðar þarfir. En straumur frá Laxá kom ekki að nýju fyrri en um miðaftan á mánudag. Morgunblaðið átti í gær tal við Knut Otterstedt rafveitustjóra og fékk hjá honum eftirfarandi lýsing á því hvernig þetta vildi til. Þannig hagar til við stíflugarðinn, sem gerður er í Laxá alllangt ofan við aflstöðina, að áin fellur þar í tveimur kvíslum og er aðalvatnsmagnið í vestari kvíslinni. Þar er yfirfallið yfir stífluna, en opið á aflstöðvarpípunum er í eystri hluta stíflunnar gegnt eystri kvíslinni. Mikil snjókoma var föstudag og laugardag og hafði myndast krapstífla í Laxá nokkru ofan við stíflugarðinn. En er árin braut þá krapstíflu, ruddist feikna mikið krap niður eftir ánni, svo mikið að lónið ofan við eystri hluta stíflunnar, þar sem pípuopið er, fylltist alt af krapi, svo vatnsrennslið í pípurnar stöðvaðist. En alt vatnsmagn árinnar fór um vesturkvíslina og yfir yfirfall stíflunnar. Mannafli var ekki þarna eystra til þess að bæta úr þessu, og fór Otterstedt stöðvarstjóri með vinnulið austur á sunnudag. Gekk sú ferð stirðlega, því farið var í bíl, en fönn orðin mikil. Komust þeir ekki austur fyrri en dagur var kominn að kvöldi. Til þess að koma vatni að nýju í aðrennslispípurnar þurfti að gera skurð gegnum krapið frá pípuopinu og vestur í vestari kvísl. Var hann gerður 4 metra breiður. Gegnum hann fer nú aflvatnið. Og verður að halda þeim skurði' opnum meðan krapið er í lóninu. Eru varðmenn á staðnum til þess, enda má lítið út af bera að rennslið tálmist í rásinni sem gerð var í gegnum krapið. Til þess að koma í veg fyrir slíkar krapstíflur í framtíðinni verður að gera varnargarð í eystri kvísl árinnar, svo krap, sem áin flytur framvegis, fari framhjá þeirri kvísl og steypist yfir stífluna í vestari kvíslina. Verður ekki hægt að gera þann garð fyrri en að sumri. Hann kostar ekki tilfinnanlegt fé.
Morgunblaðið segir 18.nóvember frá jakaruðningi í Hverfisfljóti:
Fyrir nokkrum dögum ruddi Hverfisfljót sig með svo miklum jakaruðningi við brúna, að ísinn skall á brúnni og skekkti hana. Er þó 3 metra haf frá venjulegu vatnsborði í ánni og upp á brú. Er brúin 18 metra löng járnbrú, 25 ára gömul, eða um það bil, og hefir jakaruðningur aldrei komið henni að sök fyrri. Ísinn ýtti öðrum brúarsporðinum til um 1 1/2 metra, en þó ekki svo að brúin hafi slöppið fram af stöplinum, því hinn brúarsporðurinn hreyfðist ekki, nema hvað hornið á þeim brúarsporði, sem er straummegin, slapp fram af stöpulbrúninni. Brúin er hestfær, eins og hún er nú, en ekki vagnfær. Verður hægt að rétta hana til á stöplunum. Ísrekið var svo mikið að jakaruðningurinn náði 300 metra austur í hraun, að austanverðu við ána. Er talið að fljótið hafi rutt sig svona ofsalega vegna þess að jakastífla hafi myndast í því. Frost var á þegar þetta vildi til.
Morgunblaðið segir af þrumuveðri 21.nóvember:
Þrumuveður óvenjulega mikið skall hér yfir að aflíðandi hádegi í gær. Kom það greinilega frá suðvestri og leiddi rétt yfir bæinn. Fylgdu því mjög sterkar eldingar. Voru taldar 8 eldingar mjög stórar og nokkrar minni. Síðan kom haglél stutta stund og voru höglin sérlega stór. Ekki hefir frést um að eldingarnar hafi valdið nokkru tjóni.
Þann 25.dýpkaði lægð á Grænlandshafi, fór síðan austur fyrir sunnan land og varð að lokum gríðardjúp undan Vestur-Noregi [<950 hPa í miðju]. Hér á landi gerði snarpa austanátt með hríðarveðri suðvestanlands. Morgunblaðið segir frá þessu 26.nóvember:
Bílaleiðir út úr bænum tepptust allmikið í gær. Ferðir milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur trufluðust mjög, enda var meiri snjór í Hafnarfirði en hér. Suður á Suðurnes var ófært. Bílar komust ekki lengra en rétt upp fyrir Lögberg austur á bóginn. Bíll frá BSR tepptist í Vík í Mýrdal. Kjósarbíll sem átti að fara frá BSR var ekki sendur af stað og illfært var í Mosfellssveitina. Fréttaritari vor í Vestmannaeyjum símar í gær, að þar hafi verið aftakaveður og rokið svo mikið, að menn muni varla annað eins, og er þó oft stormasamt í Eyjum. Veðurhæðin var 11 vindstig um hádegi í Eyjum, og hvessti þó eftir það. Engar skemmdir né slys urðu í Eyjum að öðru leyti en því, að léttbáta rak á- land og illt var að halda skipi sem lá við bæjarbryggjuna inni á höfn. Milliferðaskip, sem voru í Vestmannaeyjum, lágu vestur undan Hamrinum.
Vísir segir af því sama 27.nóvember:
Síðastliðinn laugardag [25.] skall á austan hvassviðri með allmikilli fannkomu á Suðvesturlandi. Bílaferðir tepptust hér syðra og nokkrar símabilanir urðu. Tíðindamaður Vísis átti tal við Veðurstofuna í morgun og fékk eftirfarandi upplýsingar hjá Jóni Eyþórssyni veðurfræðingi: Veðurhæðin komst upp í 12 vindstig í Vestmannaeyjum seint á laugardag. Víða á suðvesturlandi var austan stórviðri (710 vindstig) með fannkomu, einkanlega suðvestanlands, en lítilli við Breiðafjörð og norðanlands. Undir miðnætti lygndi sunnan lands og vestan, en á Norðurlandi og Austurlandi hefir haldist hríðarveður til þessa. Orsök óveðursins var djúp lægð, sem kom vestan úr hafi og fór fyrir sunnan land, og beint til austurs inn yfir sunnanverðan Noreg, og er enn svo kröftug, að hún veldur hvassviðri (10 vindstig) á Jaðri, í Suður-Noregi, Skagerak og sennilega á Norðursjó. Um fannkomuna hér á landi má segja til viðbótar því, sem að framan greinir, að snjódýpt hefir hvergi mælst meiri en 15 cm, nema á þremur stöðum: Loftsölum (nálægt Dyrhólaey), Grímsstöðum á Fjöllum og í Grímsey.
Vísir átti tal við Ólaf Kvaran símastjóra í morgun og spurði hann, hvort nokkrar símabilanir hefði orðið í ofviðrinu. Kvað hann bilanir hvarvetna hafa verið smávægilegar, nema á einum stað, nálægt Skrauthólum á Kjalarnesi. Þar brotnuðu 10 staurar og slitnaði mikið af vírum. Var sambandslaust við Norðurland meðan unnið var að viðgerð, en í gærkveldi komst samband á aftur. Bílferðir tepptust í bili suður með sjó og austur yfir fjall, en eru nú byrjaðar aftur. BSR á einn bíl austur í Vík í Mýrdal og kemst hann þaðan ekki að svo stöddu. Er þar nú fannkynngi mikil.
Vitavörðurinn í Stórhöfða sem hefir veðurathuganir með höndum, lét svo um mælt, er hann gaf upp vindhraðann, að hann væri 12 stig, en ef 13. stigið væri til myndi hann gefa upp þá tölu. Þegar vindhviðurnar gengu yfir var ófært milli húsa þótt fullröskir menn ættu í hlut, og urðu þeir, sem úti voru staddir, að halda sér i það, sem hendi var næst til þess að hrekjast ekki undan veðrinu. Skemmdir urðu engar verulegar á húsum né mannvirkjum, en raftaugar slitnuðu mjög víða í bænum. Brim var svo mikið, að það gekk yfir Eiðið og upp fyrir dæluhúsið, sem þar stendur, en það er mjög óvenjulegt. Olli brimið allmiklum skemmdum og umróti á Eiðinu, sem eyðist meir og meir með hverju ári, sem líður. Er nú unnið af kappi að því að hlaða varnargarð á Eiðinu gegn briminu, með því að nái sjórinn að brjótast gegnum Eiðið, er höfnin orðin ónothæf.
Desember var tíðindalítill - og fáar fréttir af veðri í blöðunum. Eftir þann 20. varð snjóþungt víða norðanlands. Veðursathugunarmenn segja frá:
Síðumúli: Desember hefir verið óvenju mildur, en stundum dálítið umhleypingasamur fyrir útigönguhross. Engir minnisverðir atburðir af völdum veðurs.
Lambavatn: Framan af mánuðinum var ágæt tíð, en seinni hlutann hefir verið vetrartíð óstöðug en ekki mjög stórgerð. Nú hefir snjór minnkað, en allt hlaupið í svell og er því jarðlaust nema þar sem er fjara og regluleg útbeit.
Suðureyri: Óvenjuhlýtt. Oftast hæglátt og áberandi suðlæg og vestlæg átt. Úrkoma hógleg og hagi góður. Hagstætt til lands og sjávar.
Skriðuland: Mánuðurinn sem heild miður hagsæll og oft slæmt til beitar.
Sandur: Tíðarfar fremur stillt, en stundum nokkuð frosthart. Snjór ekki mikill, en jafnfallinn og haglaust víðast síðari hluta mánaðarins.
Reykjahlíð: Mikil hægviðri í mánuðinum og öll norðanátt þó sérstaklega kraftlaust við vana hér á þessum tíma. Mikill lognsnjór kom 21.-22. Uppfrá því haglaust fyrir snjódýpi þó snjór sé þurr.
Nefbjarnarstaðir: Tíð fremur umhleypingasöm og töluvert frosthart með snjókomu er kom fram yfir miðjan mánuð. Haglaust með öllu eftir þ.22.
Sámsstaðir: Mánuðurinn hægviðrasamur með allmiklu úrfelli fram til 23. Sólarlaust að kalla og alskýjað loft jafnan. Frost hafa lítil verið og þiðnaði því klaki sá sem kominn var í nóvember að miklu leyti. Snjóföl var annað veifið, en þó einkum sjö síðustu daga mánaðarins, þó aðeins að jörð varð hvít. Tíðin má teljast hagstæð fénaðarhaldi og flestum útiverkum.
Morgunblaðið segir af skautaiðkun 5.desember:
Gott skautasvell hefir verið á Tjörninni undanfarna daga og fjöldi manns notað tækifærið til að iðka þessa skemmtilegu og góðu íþrótt. Skautafélag Reykjavíkur hefir séð um að halda svellinu í eins góðu lagi og hægt er vegna veðurs, og hefir nú músík á hverju kvöldi,
Morgunblaðið segir 20.desember frá einkennilegum stormsveip sem gekk yfir Grímsey. Lægðardrag kom úr norðri yfir Norðurland og vindur snerist úr vestri til norðurs. Hvergi var þó mjög hvasst og veðurathugunarmaður í Grímsey getur vindsveipsins ekki:
Á mánudagsmorgun [18.] fór óvenjulega snöggur stormsveipur yfir Sandvík í Grímsey. Sjónarvottur, Jakob Helgason, skýrir þannig frá atburðinum: Um sjöleytið á mánudagsmorgun hvessti skyndilega. Var vindhraðinn með þeim fádæmum, að ekki varð við neitt ráðið. Á nýlegu timburhúsi féll inn hliðin og tók af þak allt. Við stafn þess stóð þó annað hærra ris og sakaði það ekki. Tveir bátar voru í fjörunni og tókst annar á loft, og hvolfdi honum yfir hinn. Rammgerður hjallur úr gildum viðum slitnaði upp, og kastaðist 20 metra. Þak tók af hlöðu og áburðargryfju og fleiri skemmdir urðu á þessum stað. Jakob telur, að bylurinn hafi komið af suðvestri og gengið yfir nokkurn hluta eyjarinnar, og staðið nálægt 30 sekúndur. Menn, sem voru sunnar og ofar á eynni, urðu bylsins lítt varir, og skemmdir urðu ekki annarsstaðar.
Lýkur hér samantekt hungurdiska um veður og veðurlag ársins 1939. Þakka Úrsúlu Sonnenfeld fyrir uppskrift lýsingar veðurathugunarmanna í Síðumúla og Kvígindisdal. Að vanda er þykk talnasúpa í viðhenginu. Þar má finna sitthvað sem ekki er minnst á í textanum hér að ofan.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2024 | 21:27
Brot frá árinu 1997 - hret í júníbyrjun
Við rifjum í stuttu máli upp hret sem gerði snemma í júní 1997. Sumir kenna það við smáþjóðaleikana sem haldnir voru um þær mundir. Eftirminnilegur dagur þegar sleit snjó úr lofti á Laugardalsvelli. Þótt þetta hret standist engan samjöfnuð við páskahretið mikla 1963 (enda nærri tveimur mánuðum síðar að vori) var aðdragandinn svipaður og þannig að hitabreyting milli daga varð óvenjumikil og víða metmikil.
Dagana 2. og 3. júní var hlýtt háþrýstisvæði nærri landinu og skammt sunnan við það. Vestan- og suðvestanátt var ríkjandi með mjög hlýju og björtu veðri á Norðurlandi. Aðfaranótt 4. ruddist kalt heimskautaloft suður með austurströnd Grænlands og suður til Íslands og hélst kuldinn í marga daga um land allt. Hitabreytingin frá 3. til 4. er með þeim mestu sem þekkist á milli daga hér á landi og varð sérlega áberandi vegna þess að hér hjálpuðust bæði ákveðin suðvestanátt og sólskin við að ná upp hámarkshitanum 3. júní og hitafallið varð óvenju hastarlegt vegna þess að kalda loftið kom að landinu um miðja nótt.
Fyrsta mynd pistilsins sýnir hitabreytingar á Möðruvöllum í Hörgárdal þessa daga. Dægursveiflan er mikil í hlýja loftinu, yfir 16°C á sólarhring 2. júní, greinilega er varmatap að nóttu mjög mikið, en sólin sér um að halda dagshitanum uppi. Ef nánar er að gáð, má sjá stökk í hitanum milli kl. 8 og 9 að morgni þess 3., hitinn hækkar þá um 6,6°C á einni klukkustund, samtímis jókst vindur niður dalinn og greinilegt að niðurstreymi hefur aukið hitann (loft í niðurstreymi hlýnar um 1°C á 100 m hæðarlækkun).
Hitinn náði hámarki milli kl 16 og 17 (24,1°C), en síðan féll hann að meðaltali um 1,1°C næstu 8 klukkustundirnar (fram til kl.1 þ.4). Þetta heldur minna en vænta má ef útgeislun réði ein ferðinni enda sjáum við talsvert hik í fallinu rétt fyrir miðnættið. Niðurstreymisloft hefur því enn verið á ferðinni. Eftir kl.1 snerist vindátt og hiti fór að falla verulega, 13,3°C frá kl.1 til kl.4 og þar af 6,1°C frá 3 til 4. Kalda loftið úr norðri ruddist yfir landið. Þá varð tímabundnum botni náð. Svipað átti sér stað á flestum veðurstöðvum um landið norðan- og austanvert. Á Suður- og Vesturlandi kólnaði líka, en þar hafði ekki verið nærri því eins hlýtt dagana áður.
Við tökum nú eftir því að þann 4. bælir aðstreymi með skýjum dægursveifluna niður í 2,4°C (sem þó er mun meiri en er á meðaldegi í Seley). Daginn eftir er dægursveiflan aftur hrokkin í lag þó kalt sé. Frá því kl.16 þann þriðja til kl.4 þann fjórða féll hiti um 22,4¨C. Mikil umskipti urðu í veðri, frá hásumri yfir í einskonar haust.
Við lítum nú á fáein veðurkort.
Hinn 3.júní var hlýjasti dagurinn fyrir norðan. Kortið sýnir mjög mikla háloftahæð fyrir suðvestan land. Henni fylgir mjög hlýtt loft, þykktin er vel yfir 5550 metrum. Mjög snarpt lægðardrag nálgast hins vegar óðfluga úr norðvestri. Það hvessir fyrst af vestri í háloftunum en aðeins fáeinum klukkustundum síðar snýst vindur til norðurs og mun kaldara loft (blár litur) rennur suður yfir landið.
Það má sjá á kortinu sem gildir síðdegis þann 4. Hæðin er komin til Vestur-Grænlands og kalt lægðardrag liggur suður um Ísland. Þykktin í ljósasta bláa litnum er á milli 5220 og 5280 metrar.
Tveimur dögum síðar, þann 6., má segja að hretið sé í hámarki. Enn kaldara loft hefur borist úr norðri, þykktin yfir miðju landi komin niður í 5160 metra, en það er með því lægsta sem sést í júní. En taka má eftir því að austan lægðardragsins er mjög hlý sunnanátt.
Þann 7. er háloftalægðin komin suður fyrir land og er um það bil að beina hlýrra lofti úr austri inn yfir landið. Broddurinn var úr hretinu. Þó hlýnaði ekki að neinu ráði, mikið vantaði upp á fyrri hlýindi.
Þetta er afskaplega svipuð atburðarás og var í páskahretinu mikla 1963. Þá skall norðanáttin á landinu um miðjan dag, en í þessu tilviki aftur á móti um miðja nótt. Mesta kuldanum 1963 lauk á sama hátt og hér - vindur snerist úr norðri í suðaustur í háloftunum. Úrkomusvæði fór vestur yfir landið.
Nú snjóaði víða um land - meira að segja á Suðurlandi. Alhvítt varð á Önnuparti í Þykkvabæ, á Hellu og Lækjarbakka að morgni 8. Jörð var hálfhulin snjó á Eyrarbakka. Þetta er ekki algengt í júní.
Sjávarmálskortið sem gildir að kvöldi laugardagsins 7. sýnir hlýrra loft úr austri þrengja að kalda loftinu.
Myndin sýnir breytingar á þrýstispönn yfir landið fyrstu þrjár vikur júnímánaðar 1997. Spönnin reiknast sem munur á hæsta og lægsta þrýstingi á landinu á hverjum athugunartíma (3 klst fresti). Rauði ferillinn sýnir lægsta þrýstinginn. Hæðin mikla réði ríkjum þann 1. og 2., en síðan féll þrýstingur talsvert þegar háloftalægðardragið kom úr norðvestri. Þá hvessti að mun og þann 4. fór þrýstispönnin upp í nærri 20 hPa, en það er mikið í norðanátt í júní. Þetta hvassviðri gekk fremur fljótt yfir, en spönnin jókst aftur þegar hlýja loftið nálgaðist úr austri og lægðin gróf um sig fyrir sunnan land. Náði hún aftur nærri 20 hPa þegar mest var, einmitt um það leyti sem sjávarmálskortið hér fyrir ofan sýnir. Þann 9. var komið skaplegt veður og hélst þannig næstu daga - þótt svalt væri áfram.
En kuldapollurinn var ekki dauður úr öllum æðum. Mikil furða hvað þannig fyrirbrigði geta verið þrálát ef ekkert er að þeim þrengt. Hann hringsólaði tiltölulega aflítill fyrir sunnan land en mjakaðist svo norður fyrir. Þann 15. var svo komið að hann krækti í meira kalt loft við austurströnd Grænlands og gat beint því til Íslands. Þrýstispönnin varð þá um 12 hPa þegar mest var - sem er ekki sérlega mikið en þó nægilegt til að menn finna fyrir því. Úrkoma varð talsverð um landið norðanvert og talsvert snjóaði inn til landsins. Alhvítt var í Möðrudal og í Svartárkoti þann 14. og þann 15. varð alhvítt í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, meira að segja á Blönduósi. Mest snjódýpt mældist í Litlu-Hlíð í Vesturdal í Skagafirði að morgni 15., 15 cm. Daginn eftir, þ.16. var enn alhvítt á allmörgum stöðvum og þann 18. varð alhvítt við Hvannstóð í Borgarfirði eystra.
Kortið sýnir þetta síðara hret - þegar snjókoman nyrðra var í hámarki. Nokkuð kröpp lægð er við Norðausturland og vefur úrkomusvæði utan um sig.
Við sjáum á hæðar- og þykktarkortinu sem gildir kl.6 að morgni 16.júní að pollurinn var þá enn öflugur, þykktin um eða innan við 5210 metrar í miðju - skýrir snjókomuna. Þetta er langkaldasta loftið á öllu kortinu.
Kuldakastið olli ekki mjög miklu tjóni eða vandræðum, en þó sá víða á gróðri. Ófærð var á heiðum og fé fennti, fuglar urðu illa úti. Tímabundinn hálkuvandi var einnig á fáeinum vegum á láglendi.
Kuldinn var mikill, fjölmörg met voru sett á veðurstöðvum. Ekki hefur mælst meira frost í Vestmannaeyjum í júní, en mælingar hófust þar 1877 (-1,4 stig). Hiti mældist 3,6 stig í Reykjavík kl.15 þann 7. Það er lægsti hiti á þeim tíma dags í júní í Reykjavík frá 1949 a.m.k. Jafnkalt var þó 9. júní 1986 kl.15. Kl.18 var hámarkshiti frá kl.9 í Reykjavík 4,1 stig. Það er það lægsta sem vitað er um í júní í Reykjavík. Landsdægurlágmarksmet lifa fjögur úr þessu hreti (5., 6., 7. og 8.). Þrjú þau fyrstu sett á Gagnheiði en það síðasta í Sandbúðum. Lægst er talan -9,4 stig á Gagnheiði þann 7. og er það næstlægsta lágmark í júní í safni Veðurstofunnar (utan hájökla). [Enn kaldara var í Nýabæ í hvítasunnuhretinu mikla 1973, -10,5 stig þann 11.júní].
Hugsanlegt er að fleiri upplýsingum verði bætt við þennan pistil síðar. Svo bíða fleiri hret umfjöllunar. Minnt er á að lítið vantar nú upp á að pistlar hungurdiska um öll árin 1801 til 1974 séu tilbúnir (örfá ár vantar). Þar má finna upplýsingar um helstu vorhret. Árin frá 1975 og áfram verða meðhöndluð með öðrum hætti - endist þrek ritstjórans.
3.6.2024 | 14:54
Smávegis af maí
Maímánuður var að sumu leyti óvenjulegur. Háloftavindar voru nokkru sterkari en að meðallagi, sérstaklega sunnanáttin. Við vitum aðeins um sterkari sunnanátt þrisvar í maí síðustu 80 árin. Það var 2018, 1978 og 1947. Maí 2018 er sérlega minnisstæður fyrir leiðindi um landið sunnan- og vestanvert. Hin tvö ártölin eru meira fallin í gleymsku og dá. Textahnotskurn hungurdiska segir um maí 1978: Fremur óhagstæð tíð. Úrkomusamt, einkum á Suður- og Vesturlandi. Hiti var yfir meðallagi og um maí 1947 er textinn öllu óræðari: Hlýtt og hagstætt í innsveitum, en svalara við sjóinn. Fremur úrkomusamt.
Tilfinningin er sú að skoðanir séu nokkuð skipar um nýliðinn maí, við sjáum til hvað Veðurstofan segir.
Hér má sjá hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) - af þeim ráðum við vindátt og styrk. Jafnþykktarlínur eru daufar og strikaðar, en þykktarvik eru sýnd í lit. Hlýindi eru sýnd í gulu, brúnu og rauðu, en blái liturinn sýnir svæði þar sem þykktin er undir meðallagi. Þar var mánuðurinn kaldur. Mikil hlýindi voru ríkjandi fyrir austan land en kalt var á Grænlandi. Ísland er þarna á milli.
Eins og áður sagði var vestanáttin líka nokkuð sterk í mánuðinum, vel inni í efsta fimmtungi síðustu 80 ára. Sé leitað að svipuðu finnast maí 2018 - sem áður var minnst á, en einnig maí 1992. Þótt staðan hér við Ísland hafi verið svipuð og nú - og hlýindin austan við sömuleiðis var kuldinn vestur af miklu stórgerðari í þessum fyrri mánuðum heldur en nú, þegar hann hélt sig aðeins við Grænland.
Kortið sýnir að í neðri hluta veðrahvolfs er munur á hitavikum vestan- og austanlands. Hlýrra er eftir því sem austar dregur - nær meginhlýindunum við Noreg. Þetta kemur vel fram í röðunarskránni hér að neðan.
Það eru 24 maímánuðir í röðinni. Hiti var í meðallagi við Faxaflóa - raðast í 9 sæti af 24. Hiti á öðrum spásvæðum lendir í efsta þriðjungi (8. sæti eða ofar) og á landinu austanverðu í efsta fimmtungi. Þetta var fjórðihlýjasti maímánuður aldarinnar (sem af er) á því svæði.
Þetta segir ekkert um sumarveðrið - það er frjálst og óháð.
Við þökkum BP að vanda fyrir kortið.
1.6.2024 | 21:28
Hret?
Kuldakast er nú komið inn í spár Veðurstofunnar. Við látum vaktina auðvitað sjá um hinar formlegu spár - enda fylgist ritstjórn hungurdiska ekki með stöðunni í þeim smáatriðum sem hún gerir. En spurt er um það hversu algeng norðanhret af þessu tagi eru eiginlega á þessum árstíma. Það er ekki alveg létt að svara því fyrirfram (spár geta brugðist). Við rifjum þó upp að mikið hret gerði 6. til 8. júní árið 2011 - var nokkuð ítarlega fjallað um það á hungurdiskum á sínum tíma. Snjó festi þá stutta stund í námunda við Selfoss.
Árið áður, 2010 gerði mikið hret með verulegri ófærð seint í maí. Árið 2002 gerði gríðarlegt norðaustanillviðri 17. og 18. júní - en það var talsvert ólíkt stöðunni nú. Svo er það hretið mikla snemma í júní 1997 - hungurdiskar hafa minnst á þessi hret 2002 og 1997 áður, en til stendur að gera þeim aðeins betri skil síðar (ef þrek endist). Jónsmessuhretið 1992 er nokkuð sér á parti. Einnig verður að nefna hretið mikla í kringum 10.júní 1983 - og stóru hretin 1975 og 1973 - það síðarnefnda fékk umfjöllun í pistli hungurdiska um það ár. Sömuleiðis mikið hret seint í júní 1968 og hretviðrin miklu í júní 1959. Sömuleiðis má nefna stórhretið síðast í maí 1952 og hið óvenjulega fannkyngi síðast í maí 1949. Fleira mætti telja.
En af þessari löngu upptalningu má sjá að hret eru ekki beinlínis sjaldgæf á þessum árstíma (síðustu dagana í maí og svo í júní). Í einum af pistlum hungurdiska um hretið 2011 segir að það sé eitthvað sem búast megi við um það bil einu sinni á áratug.
Það er ekki fyrr en eftirá sem við getum metið hlutfallslegan alvarleika þess hrets sem nú er í spánum - en við skulum taka mark á þeim.
Viðbót 5.júní:
Tvö landsvindhraðamet júnímánaðar hafa verið slegin á vegagerðarstöðvum. Engin landsmet hafa verið slegin á öðrum stöðvum.
Meðalvindur mældist 38,3 m/s á stöðinni á Öxi kl.17 þann 4.júní. Þetta er meiri meðalvindhraði en áður hefur mælst á vegagerðarstöð í júní. Næst koma 34,1 m/s sem mældust í Vatnsskarði eystra 19.júní 2001. Mælingar á Öxi hafa verið gerðar síðan 2006.
Mesta vindhviða mældist nú 56,9 m/s, í Hamarsfirði þann 4. kl.4. Gamla metið var sett á Hraunsmúla í Staðarsveit þann 18.júní 2002, 55,8 m/s. Byrjað var að mæla í Hamarsfirði 2010.
Meðalvindhraðamet júnímánaðar fyrir landið allt stendur, það er 41,9 m/s sem mældust á Skálafelli í hretinu mikla 4. júní 1997. Hviðan í Hamarsfirði er hins vegar meiri en mælst hefur hingað til á landinu í júní - sjá þó athugasemd hér að neðan:
Vindhraðamælingar á þeim stöðvum eru ekki alveg sambærilegar hefðbundnum stöðvum Veðurstofunnar. Sérstaklega á þetta við um hviðumælingar. Á hefðbundnum stöðvum eru hviður að sögn miðaðar við 3 sekúndur, en 1 sekúndu á vegagerðarstöðvunum. Ekki er fullljóst hverju munar í reynd á aðferðunum tveimur en alla vega eru þær ekki fullsambærilegar. Á báðum gerðum er meðalvindhraði miðaður við 10-mínútur, en að jafnaði eru möstur vegagerðarstöðvanna lægri heldur en hin hefðbundnu 10 metra möstur.
Vísindi og fræði | Breytt 5.6.2024 kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 12
- Sl. sólarhring: 183
- Sl. viku: 2459
- Frá upphafi: 2434569
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 2184
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010