Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2023

Vb-lægðir - upprifjun

Þegar ritstjóri hungurdiska horfir á myndir af flóðunum í Noregi rifjast upp veðurfræðikennslustund í Bergen fyrir nærri 50 árum. Þetta var í vinnuáfanga í kortagreiningu og veðurspám (allt upp á fornan máta). Rætt var um gömul fræði - og úrelt þá þegar, lægðabrautir, sem þó lifðu meðal elstu kennara. Ekki er í minninu hvaða kort var sýnt af þessum lægðabrautum. Þær voru númeraðar á rómverska vísu I, II og svo framvegis - og síðan bókstaf bætt við, a,b,c ... . Ein þessara lægðabrauta var nefnd sérstaklega, Vb (fimm-b) og talað um margvíslega hættu sem af slíkum lægðum stafaði - og dæmi tíunduð, flóð, hvassviðri og þrumuveður. 

Enn má finna upplýsingar um þessa lægðabraut á netinu, bæði í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Þýskalandi (og kannski víðar) - engin ósköp en nægilega mikið til að sýna að hugtakið er enn á lífi. Aðgengilegasta greinin (með skýringarmyndum) er á bloggsíðu sænsku veðurstofunnar:„Lågtrycksbanor över Europa“. 

Lægðir þessar koma langt að sunnan, jafnvel alveg frá Miðjarðarhafi. Með þeim kemur mjög hlýtt og rakt loft. Sumar þeirra sýna tilburði til að dýpka nokkuð skyndilega yfir Eystrasalti. Fyrr á tíð ollu þær því stundum óvæntum vestan- eða norðvestanstormi þar um slóðir - eða vestur við Danmörku. Þó að svona lægðir sýni sig á öllum árstímum þykja þær sérlega varasamar að sumarlagi, komandi nánast upp úr þurru, valdandi mikilli úrkomu á mjög stórum landsvæðum og hvassviðri sem óvenjuleg eru á þeim árstíma. Jafnvel talað um sumarmartröð veðurspámannsins. Svo er að heyra á fréttum að þrýstingur í miðju lægðarinnar nú hafi verið lægri en mælst hafi um áratugaskeið í Suður-Noregi að sumarlagi - innan við 980 hPa. [Vonandi heyrum við nánar þar um síðar]. 

Stærsti flóðaatburður sögunnar í Austur-Noregi varð í júní 1789 og nefnist „Storofsen“ - við getum auðveldlega ráðið í það nafn. Um hann má lesa í ágætum pistli á Wikipediu, Sjálfsagt verður minnst á þetta - og borið saman við Hans.  

Aðaldæmið sem nefnt var í kennslustundinni forðum finnur ritstjórinn hins vegar ekki neinar heimildir um - kannski er það bara til í misminni hans (en meira að segja það er farið að bregðast). Átti það að segja frá skyndilegri dýpkun yfir Eystrasalti og mannsköðum á sjó í kjölfarið. Kannski finnst þetta einhvern tíma síðar. 

Flóð í kjölfar víðtækra úrkomuatburða á stórum vatnasviðum eru marga daga að ganga yfir. Í stærstu fljótum jafnvel mánuði. Hér á landi eru vatnasvið minni og styttri tíma tekur að renna fram. Hér eru leysingaflóð á vetrum, gjarnan tengd ísstíflum venjulega þau stærstu (fyrir utan jökulhlaup). Vorleysingaflóð með rigningu í bland eru einnig skæð - þá er skriðuhætta veruleg. Flóð eftir að hálendisleysingu lýkur eru sjaldséðari, en geta samt stöku sinnum verið ofsafengin. Við skulum hafa í huga að það er tölfræðilega varasamt að bera tíðni ólíkra gerða flóða beint saman. Þegar rætt er um endurkomutíma flóða eins og þess sem nú gengur yfir Noreg þarf að hafa þetta í huga - það er ekki endilega sambærilegt við vorleysingaflóðin miklu sem við höfum alloft heyrt um þar á bæ. Þetta er öðruvísi atburður. 

Að lokum - þegar ritstjórinn var ungur maður var það gjarnan gefið í skyn (eða jafnvel fullyrt) að stórflóð fortíðarinnar (eins og Storofsen) tengdust einkum öfgakenndu og köldu veðurfari „litlu-ísaldar“ - nú fáum við að heyra hið gagnstæða - þau séu óhjákvæmilegur fylgifiskur hlýnandi veðurfars. Margt bendir nú til þess að hlýnandi veðurfari fylgi aukin úrkoma, jafnvel að tíðni aftakaatburða aukist. En það er samt varasamt að fullyrða að atburður eins og „Hans“ sé á einhvern hátt algjörlega afleiðing hlýnandi loftslags - án þess hefði atburðurinn ekki orðið. Það má frekar segja - með einhverjum rökum - að hlýnunin bæti heldur í styrk atburða af þessu tagi - en sé ekki eini - eða stærsti - orsakavaldurinn. 


Júlí kaldari heldur en júní

Meðalhiti í júlí er hærri heldur en í júní. Á landsvísu eru tölurnar þannig á árabilinu 1931-2020 að meðalhiti júnímánaðar er 8,4 stig, en 10,1 í júlí. Munar hér 1,7 stigum. Í Reykjavík er munurinn líka 1,7 stig, en 1,4 á Akureyri. 

Nýliðinn júní var mjög hlýr, sérstaklega um landið norðan- og austanvert þar sem hann var sums staðar sá hlýjasti sem vitað er um. Júlí var þar hins vegar heldur kaldur. Báðir mánuðir voru nær meðallagi um landið sunnan- og vestanvert. Þessi stóra sveifla á Norður- og Austurlandi varð til þess að landsmeðalhiti (í byggð) var lægri í júlí heldur en júní. Á þeim tíma sem sæmilega áreiðanleg landsmeðaltöl eru til (frá 1874) hefur júlí ekki verið kaldari en júní nema 5 sinnum áður (í sjötta sinn nú) - og það hefur ekki gerst síðan sumarið 1970. Munurinn núna var -0,4 stig, en var öllu meiri 1970, -1,1 stig. Hin tilvikin eru 1963 (-0,2 stig), 1909 (-0,6 stig), 1906 (-0,3 stig) og 1887 (-0,4 stig). 

Júlí í ár var +1,8 stigum hlýrri en júní í Reykjavík, svipað og er í meðalári. Það gerðist síðast 2002 að júlí var kaldari en júní í Reykjavík, munaði -0,3 stigum, en síðan þarf að fara aftur til 1898 til að finna ámóta. Á Akureyri var júlí mun kaldari heldur en júní, munaði -2,8 stigum. Sé flett upp í fortíðinni kemur í ljós að það er miklu algengara að júlí sé kaldari heldur en júní á Akureyri heldur en í Reykjavík, ekki þarf að leita lengra aftur en til 2020 til að finna næsta tilvik á undan, þá munaði -1,0 stigi og 5 tilvik til viðbótar eru á þessari öld. Mestur varð munurinn á Akureyri 1970, þá var júlí -3,0 stigum kaldari heldur en júní. 

En eins og fram kom í nýútkomnu yfirliti Veðurstofunnar var munurinn á hita mánaðanna tveggja enn meiri austanlands, á Egilsstöðum var munurinn -4,1 stig. Í framhaldi af því má spyrja hvort hann hafi jafnvel verið enn meiri á öðrum stöðvum. Jú, hann er sá sami eða sjónarmun meiri á sjálfvirku stöðinni á Þórudal, -4,1 (-4,14 reiknum við tvo aukastafi). Á vegagerðarstöðinni á Vatnsskarði eystra er hann -5,1 stig og -4,2 stig á Jökuldal (stöð Vegagerðarinnar) og sama á Vopnafjarðarheiði. 

Þetta eru býsna stórar tölur og við ítarlega leit kemur í ljós að þær hafa ekkert orðið stærri milli þessara tveggja mánaða. Næstir koma áðurnefndir júní og júlí 1970. Þá var júlí -4,0 stigum kaldari heldur en júní á Grímsstöðum á Fjöllum (og eins og áður sagði var kólnunin á landsvísu meiri þá heldur en nú). Tölurnar nú - fyrir einstakar veðurstöðvar - eru hins vegar met. Sama var uppi á teningnum milli nóvember og desembermánaða. Þá kólnaði mjög. Um það fjölluðu hungurdiskar í stuttum pistli í janúar - geta lesendur rifjað það upp.

Þetta má rifja upp fyrir okkur þá staðreynd að lítið samband er á milli hita (og veðurlags) einstakra mánaða hér á landi. Þeir eru harla frjálsir úr viðjum fortíðar - kannski ekki þó alveg. 

w-blogg030823a

Ásýnd töflunnar er mjög ólík þeirri sem júnítaflan sýndi okkur - hún var rauðleit (hlý), en þessi misblá. Landsmeðalhiti var nú 9,6 stig, -0,7 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 og -0,8 neðan meðallags síðustu tíu ára (en í meðallagi 1951-90). Hiti var í meðallagi við Faxaflóa og á Suðurlandi, en annars neðan við það. Á svæðinu frá Ströndum og Norðurlandi vestra austur um til Austfjarða var þetta næstkaldasti júlímánuður aldarinnar. Nokkru hlýrri þó heldur en sá kaldastir, 2015. 

Um ágúst vitum við lítið. Evrópureiknimiðstöðin telur að fyrri hluti hans verði kaldur, en vill lítið tjá sig um þann síðari. 

Eins og fram kom í yfirliti Veðurstofunnar var júlímánuður óvenjuþurr á Suður- og Vesturlandi. Einn hinn þurrasti sem við þekkjum. Gríðarlegur viðsnúningur varð á háloftakerfum, eftir stöðugar suðvestanáttir næstu tveggja mánaða á undan skipti algjörlega yfir, vindur varð norðlægur og norðaustlægur. Hæð fyrir vestan land kom í stað lægðar á þeim slóðum. Það skipti úr fádæma sólarleysi yfir í dæmafátt sólskin. Sumardagar í Reykjavík (samkvæmt skilgreiningu ritstjóra hungurdiska) eru orðnir 24 - farnir að nálgast meðaltal þessarar aldar (31) og sumareinkunnin á sæmilegu róli - góður ágúst gæti komið henni nærri meðallagi aldarinnar - þrátt fyrir sérlega slaka júníeinkunn. 


Hugsað til ársins 1933

Árið 1933 var mjög hlýtt. Á fáeinum stöðvum á Norður- og Austurlandi stendur það enn sem hlýjasta ár allra tíma, t.d. bæði á Akureyri og Seyðisfirði. Það er næsthlýjast á Grímsstöðum á Fjöllum. Á þessum stöðum munar ekki miklu á 1933 og 2014. Á landsvísu er það í fjórðahlýjasta sætinu, 9. í Reykjavík og 6. í Stykkishólmi. Hlýindin má þakka ríkjandi sunnanáttum.

Tíðarfar var lengst af hagstætt, en þó óstöðugt og úrkomusamt. Í janúar var tíð erfið á Suður- og Vesturlandi, þar var mjög umhleypinga- og stormasamt. Mun betra var um landið austanvert. Fyrri hluti febrúar var svipaður, tíð mjög rysjótt, en síðari hlutinn var hins vegar mun betri. Mars var nokkuð óstöðugur, snjóléttur og úrkomusamur. Gæftir erfiðar. Rysjótt tíð var í apríl, snjór með meira móti vestan- og norðanlands og gæftir stopular. Í maí var einmuna góð tíð til landsins, en erfiðari til sjávarins. Júní var vætusamur framan af og mjög hlýr, tíð var sérlega hagstæð norðaustanlands. Í júlí var heldur votviðrasamt á Suður- og Vesturlandi, en góð tíð norðanlands og austan, óvenju hlýtt. Ágúst var sérlega úrkomusamur suðvestanlands, en tíð almennt talin góð og hlý - ekki þó gallalaus. Í september var tíð rysjótt og úrkomusöm á Suður- og Vesturlandi, en mjög hagstæð norðaustanlands. Uppskera úr görðum var góð - en kartöflusýki ekki spillti. Hlýtt var í veðri. Í október var tíð talin hagstæð um landið sunnan- og austanvert, en óhagstæðari um landið vestan- og norðanvert. Nóvember var mjög hagstæður og hlýr. Desember sérlega hlýr og hagstæður en úrkomusamur. Víða um land hlýjasti desember sem um getur. Blóm sáust springa út í görðum. Gæftir voru stopular suðvestanlands.

Við rifjum hér upp fréttir ársins tengdar veðri. Ekki er sá listi tæmandi. Blaðatextar eru langflestir fengnir af vefnum timarit.is, oft styttir hér og stafsetning oftast færð til nútímahorfs (vonandi sætta höfundar sig við þá meðferð), villur í slíku eru ritstjórans. Mest er um texta úr Morgunblaðinu, en smávegis einnig úr fleiri blöðum. Heimildir eru að auki úr Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands, og töluleg gögn og fleira úr gagnagrunni og safni Veðurstofunnar. Talnasúpu má finna í viðhenginu. Gríðarmörg óhöpp, strönd og mannskaðar urðu á sjó. Mörg á einhvern hátt tengd veðri, hvassviðri, ölduróti, brimi eða slæmu skyggni. Ekki mun alls þessa getið í þessum pistli.

Veðurathugunarmenn lýsa veðri í janúar:

Lambavatn (Ólafur Sveinsson): Það hefir verið óstöðugt og stórgert (tíðarfar). Svo þó oftast hafi verið kuldalítið og snjólétt þá hefir hagi lítið notast vegna stórgerðrar úrkomu og hvassviðra. 12. gerði hér svo stórflóð að nú í mörg ár hefir ekki komið annað jafn stórt. Skemmdi það girðingar og tók einn bát í Keflavík.

Keflavík við Súgandafjörð (Þorbergur Þorbergsson): Þ.12. Sjávargangur óminnilega mikill.

Hraun í Fljótum (Guðmundur Davíðsson): Tíðarfar hefir verið mjög óstillt og umhleypingasamt, en mjög snjóalítið, ónæðissamt oftast á sjó og landi. Skepnur hafa gengið sjálfala að mestu leyti við sjávarsíðuna.

Sandur (Heiðrekur Guðmundsson): Tíðarfar hefir verið hagstætt til lands, en ekki til sjávar, því stormar hafa verið mjög tíðir. Jörð hefir verið að mestu auð, en nokkuð svelluð fyrri hluta mánaðarins. Hlýindi góð lengst af. Undarlegt vestanstórviðri geisaði hér - á tiltölulega litlu svæði - nóttina milli 24. og 25. janúar. Þegar óveðrið skall á féll stofuloftvogin um 5 mm. Og meðan veðrið stóð var loftvogarnálin mjög ókyrr, fór ýmist upp eða niður og nam það um 1,5 til 2,0 mm. [11 til 12 vindstig].

Höfn í Bakkafirði (Halldór Runólfsson): Veðráttan var góð, hlý en stormasöm, sérstaklega fyrripart mánaðarins. Jörð lengst af alauð eða því sem næst í byggð, en sumstaðar orðin mikið moldrokin og varð þess vegna að gefa með beit.

Nefbjarnarstaðir (Jón Jónsson): Tíðarfar yfirleitt hið besta. Sérstaklega mild tíð eftir þann 20. Nær alautt allan mánuðinn aðeins smá hjarnfannir í stöku dældum og svell nær engin. Merki um eldgos eða að eldur sé uppi hefir hér ekki orðið vart. En óvenjulegt er að hiti stigi jafnmikið um þetta leyti árs eins og átt hefir sér stað suma daga eftir þann 20.

Papey (Gísli Þorvarðsson): Fyrsta þessa mánaðar var ofsarok með fádæma stórsjó, svo að gekk 145 metra á land, upp frá stórstreymisháflóði vanalega, braut upp jörð og bar grjót og torf á land upp. Tók burt 170 til 180 metra gaddavírsgirðingu, einn trillubát og 3 árabáta úr nausti á Djúpavogi, braut þá suma í spón. Tíðin mild en mjög óstöðug allan mánuðinn.

Teigarhorn (Jón Kr. Lúðvíksson): Aðfaranótt 1. janúar gerði sjávarfyllir mikinn á Djúpavogi. Brotnuðu 3 bryggjur og tóku út 4 bátar og ein trilla.

Stórhöfði (Jónathan Jónsson): [Þann 12.] Regnmælir fauk í nótt.

Janúar byrjaði með rosum. Að kvöldi 2. kom ein dýpsta lægð sem vitað er um að landinu, en eftir nokkuð öfluga suðaustanátt á undan henni var veður nærri lægðarmiðjunni meinlaust - enda lægðin farin að grynnast. 

Slide1 

Bandaríska endurgreiningin (v3) nær þessari lægð býsna vel. Greiningin segir hana um 920 hPa í lægðarmiðju. Lægsti þrýstingur á landinu var um 923,9 hPa og mældist á Stórhöfða í Vestmannaeyjum aðfaranótt 3.janúar - e.t.v. hefur hann farið lítillega neðar. Ekki hefur þrýstingur mælst lægri hér á landi síðan. 

Morgunblaðið segir af lágþrýstingi í pistli 4.janúar:

Í nótt (aðfaranótt þriðjudags) [3.janúar] komst loftvog niður í 694.5 mm [925,9 hPa] og er það lægsta loftþrýsting, er hér hefir verið mæld í meira en 100 ár. Í aðeins eitt skipti síðan mælingar hófust í Reykjavík hefir loftvog komist lægra, 693,1 mm [924,1 hPa] þ. 4. febrúar 1824, en lægst hefir loftþrýsting mælst hér á landi 689.8 mm [919,7 hPa] í Vestmannaeyjum þ.2. desember 1929.

Morgunblaðið segir enn frá lægðinni í pistli 8.janúar:

Í byrjun vikunnar gekk yfir Ísland ein hin allra dýpsta lægð, sem dæmi eru til, síðan veðurathuganir hófust hér á landi. — Veður varð þó eigi eins slæmt og ætla mætti, því að rétt áður hafði önnur djúp lægð farið norður með landinu, og dró hún mjög úr áhrifum þeirrar síðari. Vindur varð þó um stundarsakir hvass á austan, veðurhæð allt að 10 vindstig, en síðan dvaldi lægðin um stund yfir landinu, og hélst veður kyrrt á meðan. Aðfaranótt miðvikudags [4.] komst hún norður fyrir land, og hvessti þá talsvert af suðvestri, með hryðjum og snjóéljum á Suður- og Vesturlandi, en lægði smám saman, uns aftur hvessti af suðaustri síðari hluta föstudags [6.] og nóttina eftir fyrir nýrri lægð, sem kom suðvestan af hafi og veldur nú aftur hvassri suðvestanátt um allt land.

Næstu daga var mikill kuldapollur við Grænland og teygði anga sína inn á Grænlandshaf. Honum fylgdi mikill og öflugur lægðagangur. Mesta furða hvað tjón og vandræði urðu þó lítil.

Slide2

Kortið sýnir reiknaða (ágiskaða) hæð 500 hPa-flatarins að morgni 15.janúar (bandaríska endurgreiningin). Ekki er víst að nákvæmlega rétt sé reiknað, en meginkuldapollur norðurhvels er á Grænlandshafi. Það er sárasjaldan sem 500 hPa-flöturinn liggur svona neðarlega við Ísland. 

Morgunblaðið segir frá 13.janúar:

Akureyri, 12. janúar. Í fárviðrinu í gær fauk skíðabraut Knattspyrnufélags Akureyrar og gereyðilagðist hún. Var hún byggð fyrir tveimur árum og hefir aldrei komið að notum vegna snjóleysis.

Morgunblaðið segir enn af illviðrum í fréttum 15.janúar:

Frá Vestmanneyjum símaði fréttaritari Morgunblaðsins í gœr: Sænskt saltskip slitnaði frá byggju í innri-höfninni í ofviðrinu í nótt [aðfaranótt 14.]. Rak það út á miðja höfn áður en akkerið fékk botnhald. Skipið rakst á fjóra vélbáta meðan það var á reki og sleit þá alla upp. Braut það stýrishús og siglutré á einum þeirra með akkerisfestinni. Hina bátana skemmdi það og eitthvað. Tveir bátarnir strönduðu, sinn á hvorum hafnargarði. en tveimur varð bjargað, áður en þeir strönduðu. Í símskeyti frá Vestmannaeyjum til F.B. [fréttastofu blaðamanna] í gærkvöldi segir að saltskipið heiti Örn. Með fjörunni standi það og sé inni í miðjum bátaflotanum og geti enn valdið miklum skemmdum.

Aðfaranótt fimmtudags [12.] gerði stórbrim á Akranesi, enda var þá aftakaveður. Brimið var með því mesta, sem þar hefir komið í manna minnum. Vélbátafloti Akurnesinga var í lægi á svonefndu Lambhússundi. Þar voru yfir 20 vélbátar og allþröngt um þá. Þegar stórflóð eru myndast mikill straumur á sundinu. En þar sem þröngt var um bátana í flóðinu á fimmtudagsmorgun rákust þeir hver á annan og varð mikið tjón af. Átta vélbátar brotnuðu mikið, þó aðallega ofan sjávar. Fleiri bátar skemmdust, en ekki stórvægilega. Vélbátarnir, sem þarna brotnuðu eru nú komnir hingað til Reykjavíkur til viðgerðar, og tekur það frá 4 dögum til þrem vikum að gera við þá. Þetta er mjög bagalegt, þar sem aðalvertíðin er að byrja eða byrjuð.

Síðustu viku hafa þrjár djúpar lægðir farið norður eftir Grænlandi og Grænlandshafi fyrir vestan Ísland og haft í för með með sér ýmist sunnan- og suðaustanátt með hláku og rigningu eða suðvestan- og vestanátt með hríðaréljum eða hryðjum á Vesturlandi og víða norðanlands. Vindur hefir jafnan verið hvass, veðurhæð stundum náð 10 og jafnvel 11 vindstigum, en frost hefir ekki orðið mikið fyrr en í dag laugardag [14.]. Síðasta lægðin fór fram hjá í nótt (aðfaranótt laugardags 14.), mjög nálægt Vesturlandi.

Morgunblaðið segir af togarastrandi við Sléttu í pistli 17.janúar:

Þorsteinn Þorsteinsson í Þórshamri fékk tilkynningu um það í gær, að enskur togari „Sicyion“ frá Grimsby hefði strandað við Melrakkasléttu, austanverða. Mun hann hafa strandað árdegis í gær [15.]. Skipverjar voru allir komnir á land, en talið vonlaust um; að takast mundi að bjarga skipinu. Það var mikið brotið og versta veður.

Á laugardag [14.] voru bílar 9 tíma héðan til Keflavíkur og komust þá ekki lengra suður. Á sunnudag komust bílar ekki til Hafnarfjarðar, en í gær voru mokaðir skaflar, sem voru á veginum suður, og opnaðist þá leiðin alla leið til Sandgerðis. Hellisheiði er nú ófær fyrir bíla, og í gær mun aðeins hafa verið fært að „Lögbergi". Snjóbílar annast flutninga yfir heiðina. Fyrir austan fjall mun færðin vera sæmileg, því að fokið hefir af vegum.

Morgunblaðið segir 18.janúar af símabilunum og eldingarskemmdum:

Símabilanir. Sambandslaust var við Stykkishólm í gær og einnig við Austfirði. Voru báðar línur þangað slitnar, sú nyrðri einhvers staðar fyrir austan Akureyri og sú syðri einhvers staðar fyrir austan Kirkjubæjarklaustur. Aðrar símabilanir, sem urðu í rokinu mikla á dögunum, hefir nú verið gert við.

Eldingu laust í gær niður í loftnetshúsið við útvarpsstöðina á Vatnsendahæð. Skemmdist straummælir og nokkur áhöld og tæki, sem voru í sambandi við hann; aðrar skemmdir urðu ekki. Vegna þessara bilana varð ekkert hádegisútvarp í gær, en allt var komið í samt lag fyrir kl.4 og þá var útvarpað frá stöðinni.

Morgunblaðið segir fréttir af eldbjarma 19.janúar - kannski var um eldingaveður að ræða:

Eldbjarma sáu menn á Akureyri í fyrrakvöld á lofti hvað eftir annað, og bar bjarmann frá Akureyri séð yfir Garðsárdalinn. Er sú stefna á Dyngjufjöll. — Bjarma sló upp á loftið hvað eftir annað á tímabilinu frá kl. 6 til kl. 10 1/2. Einn af þeim sem einna lengst gaf þessu gætur, var Ólafur Jónsson framkvæmdastjóri Ræktunarfjelagsins. Hann sagði hlaðinu í gær, að leiftur þessi hefði hann séð frá kl. 8—9 1/2 um kvöldið, og stundum með aðeins einnar mínútu millibili. Bjarminn var mismunandi mikill, stundum svo sterkur að ský urðu upp ljómuð sem voru yfir dalnum, en birtu sló í dalinn hlíðanna á milli. Geta menn þess til þar nyrðra, að eldur sé uppi í Dyngjufjöllum.

Morgunblaðið lýsir veðri vikunnar í pistli (Reykjavíkurbréfi) 22.janúar:

Vikan hófst með vestanátt um land allt og talsverðu frosti (2—7 stig) ásamt snjóéljum um vesturhluta landsins. Á þriðjudag [17.] gekk vindur í suðrið með þíðviðri, og hélst sunnan- eða suðvestanátt, oftast fremur hæg, fram á föstudag. Var veður frostlítið þennan tíma og úrkoma Öðru hvoru á Suður- og Vesturlandi. Á föstudag [20.] hvessti af suðaustri og suðri um allt land með mikilli rigningu á Suður- og Vesturlandi. Varð hiti 6—8 stig um allt, land um kvöldið og nóttina og náði jafnvel 10 stigum á Seyðisfirði. En það varð skammvinnur vermir, því að á laugardagsmorgun var vindur aftur genginn í suðvestur og hiti hafði lækkað niður í 1—4 stig. Á Suður- og Vesturlandi gekk þegar á með hvössum snjóéljum.

Morgunblaðið segir af bátstapa 24.janúar:

Eins og getið var í blaðinu á sunnudaginn, var á laugardag [21.] hafin leit að vélbátnum „Kveldúlfi“ frá Akranesi. Var leitað þann dag allan og eins um nóttina og á sunnudaginn. Tóku þátt í leitinni togararnir Kópur, Skallagrímur, Snorri goði, línuveiðarinn Ólafur Bjarnason og fleiri skip, en leitin bar engan árangur. Þegar seinast sást til bátsins á föstudagskvöld var hann að draga línuna, en hún slitnaði og lagði hann þá á stað og ætluðu menn að hann mundi ætla að taka duflið á hinum endanum og draga þaðan. En annaðhvort hefir hann ekki fundið duflið, eða ekki komist að því, því að leitarskipin fundu það og línuslitrið. Veður var hvasst um kvöldið, skafningsrok, en alveg sjólaust, svo að litlir bátar, sem úti voru og höfðu fullt þilfar af fiski, misstu enga bröndu út. Í gær var leitinni að bátnum enn haldið áfram og tóku þátt í henni þrír togarar og línuveiðaskip, en leitin bar engan árangur og er talið vonlaust að báturinn sé ofan sjávar. [6.menn fórust með bátnum].

Veðráttan segir frá því að í illviðrinu þann 21. janúar hafi tvær hlöður og fjárhús fokið á Karlsskála í Helgustaðahreppi í Suður-Múlasýslu. Íbúðarhúsið færðist til um 6 metra og stórskemmdist.

Morgunblaðið segir af vikuveðrinu í pistli 29.janúar:

Síðastliðna viku, sem var hin 14. á þessum vetri, hefir verið stöðug sunnan- og suðvestanátt og einmuna hlýindi um land allt. Framan af vikunni var vindur sunnanstæður, rigningar miklar og hvassviðri tíð en síðustu dagana hefir verið fremur hæg suðvestanátt og aðeins úrkoma öðru hvoru á Suðvesturlandi. Meira hefir rignt á Vestfjörðum, en austan lands hefir varla komið dropi úr lofti. Vestan lands hefir hiti oftast verið 6—7 stig, en austanlands 8—10. Nú eru skörp takmörk milli hlýrra suðrænna loftstrauma og kaldra, norðrænna loftstrauma, rétt fyrir norðan landið. Á Jan Mayen er 10 stiga frost og í Scoresby 17, er það fullum 20 stigum kaldara heldur en hér á landi. Jörð er nú að mestu auð, um allar sveitir landsins. Á Hellisheiði er snjódýptin nú 16 cm. en var 80 þegar vikan hófst.

Órói hélt áfram framan af febrúar, en þá skipti snögglega yfir í háþrýstiveðurlag og hægviðri. Veður varð sérstaklega slæmt í kringum þann 12., af útsuðri og vestri. 

Veðurathugunarmenn lýsa tíð:

Lambavatn: Það hefir verið mjög óstöðugt nema nú síðustu vikuna hefir verið stillt veður. Jörð er hér engin allt hulið svellhúð. Yfir mánuðinn hafa allar skepnur staðið inni nema hestum rennt út sér til skemmtunar. [12. vestanveður, með mestu veðrum sem hér koma af vesturátt].

Suðureyri (Kristján A. Kristjánsson): Lengst af óstöðugt og stormasamt og stórgert. Úrkomusamt og frosthart nokkuð. Hagleysur. Ís á reki úti fyrir um miðjan mánuð. Varð landfastur í Deild stutta stund [17.].

Keflavík (Þorbergur Þorbergsson): [14. Sést enginn ís. 16. Allþéttur íshroði að sjá inn í Rit og vestur undir Súgandafjörð, rekur hratt í suður til suðvesturs. 17. Ísinn landfastur í Deild og Öskubak. Þéttur hroði, kl.9 óskipgengt, greiðir ísinn til kl.12 með austurfallinu. 18. Ísinn að mestu horfinn, sundurlaus smáhroði rak til norðurs.

Sandur: Tíðarfar sæmilega gott. Nokkurt frost lengst af. Einkum 22.-26. Hægviðraamt nema 1., 11. og 12. dag mánaðarins. Einkum kvað að hvassviðri 2 síðasttöldu dagana. Hlákur hafa verið mjög fátíðar.

Fagridalur (Oddný S. Wiium): Tíðin hefir verið fremur köld, en framúrskarandi úrkomulítið og hagstætt.

Fagurhólsmýri (Ari Hálfdanarson): Yfirleitt gott veður og að mestu alauð jörð á sléttlendi.

Sámsstaðir (Klemenz Kr. Kristjánsson): Tíðin allhörð mestan hluta mánaðar.

Morgunblaðið segir frá 10.febrúar:

Mikill mannfjöldi var á Tjörninni í gærkvöldi, á skautum, skíðasleðum og allskonar tilfæringum. Gjallarhorni var komið fyrir í glugga í Tjarnargötu 20 og sett í samband við grammófón og hljómaði ágætlega út yfir skautasvellið, sem reyndist langsamlega of lítið fyrir mannfjöldann.

Slide3

Þann 12. gerði mikið veður af útsuðri. Kort bandarísku endurgreiningarinnar sýnir það vel. Veðráttan segir að þann 12. hafi fokið af peningshúsi á Hraunum í Fljótum og þak af forkirkjunni á Hólum í Hjaltadal. Eins hafi þak fokið af hlöðu í Heggsgerði í Suðursveit.

Morgunblaðið segir af tíð 12.febrúar:

Fyrri hluta vikunnar var austan og norðaustanátt um allt land, víða hvöss og hríðarveður einkum á Norður- og Austurlandi. Varð frost 5—10 stig um miðja vikuna. Á fimmtudag lægði og létti til, en síðari hluta föstudags [10.] og nóttina eftir gerði hvassa suðaustanátt og hláku, sem varaði þó aðeins fram eftir nóttunni eða fram á laugardagsmorgun. Gekk vindur þá aftur í suðvestur og vestur með hvössum hríðaréljum vestanlands.

Morgunblaðið segir nánar af illviðrinu þann 12. í pistli 14.febrúar, þá rak hafís úr meginbreiðunni á Grænlandssundi upp að Vestfjörðum norðanverðum:

Ofsaveður af útsuðri gerði hér um helgina, Vegna símslita víða um land var ekki unnt að fá fregnir utan af landi í gær. En frá nærliggjandi verstöðvum frétti blaðið, að stórfeld tjón hefði hlotist af veðrinu.

Tveir vélbátar sukku í höfninni í Sandgerði. Voru það hátarnir „Gunnar Hámundarson", eign Halldórs Þorsteinssonar í Vörum í Garði og „Freyr“, eign Árna Helgasonar á Eyrarbakka. Bátar þessir eru allmikið brotnir, en búist var við að þeir myndu nást upp. Á Sandgerðisvík rak nokkra báta saman og skemmdust sumir þeirra nokkuð. Komu þeir hingað í gær til viðgerðar. Bátar þessir voru: Óðinn frá Gerðum, Óðinn frá Reykjavík, Egill Skallagrímsson frá Sandgerði, Árni Árnason (áður Patrekur), Geir goði frá Sandgerði, Snorri frá Siglufirði og Muninn frá Siglufirði. Í Keflavík. Þar varð ekkert tjón af völdum veðursins, en þaðan ganga 22 vélbátar.

Í Vogum. Á sunnudagskvöld [12.] rak vélbátinn Muninn á land. Lenti hann á grjóturð sunnan við Tumakot í Vogum. Báturinn er talinn svo mikið brotinn að eigi borgi sig að gera við hann. Vélbáturinn Huginn skemmdist einnig nokkuð í þessu sama veðri. Var hann væntanlegur hingað í gærkvöldi til viðgerðar. Báðir þessir bátar eru eign Samvinnufélags Vatnsleysustrandar. Voru þeir nýir, 25 smálestir að stærð og einkar vandaðir.

Á Akranesi. Þar urðu ekki miklar skemmdir. Tveir vélbátar brotnuðu talsvert ofan sjávar og komu þeir hingað í gær til viðgerðar. Um meiri skemmdir á Akranesi hafði ekki heyrst. Frá togurunum: Loftskeytastöðin hér hafði í gær samband við alla togarana og var ekkert að hjá þeim.

Símabilanir voru miklar. Í gærmorgun var sambandslaust vestur og norður og austur náðist aðeins til Ölfusár. Seinna í gær náðist þó samband til Víkur í Mýrdal. Til Vestmannaeyja náðist ekkert samband vegna bilana á línunni í Landeyjum. — Ekkert ritsímasamband var við Seyðisfjörð í gærmorgun, en samband fékkst á Suðurlandslínunni eftir miðjan dag í gær. Stjórn landssímans hjóst við, að símasambandið mundi víðast hvar komast í lag í dag, því að bilanirnar eru aðallega fólgnar í því, að vírar hafa slegist saman, en staurar ekki hrotnir.

Tvo Austfjarðabáta vantar. Aðfaranótt föstudags fóru tveir vélbátar frá Norðfirði og ætluðu þeir, til Sandgerðis. Þeir ætluðu að koma við í Vestmannaeyjum. — Vegna óveðursins voru skip beðin að svipast eftir bátunum. Þór lagði af stað frá Vestmannaeyjum austur með söndum og komst hann austur í Meðallandsbukt en varð einskis vísari. Bátarnir heita Fylkir og Gyllir. Símfregn frá Vík í Mýrdal í gær hermdi, að laust eftir hádegi í gær hefði sést til báts þar, á vesturleið. Sennilega hefir þetta verið annar Austfjarðabáturinn.

Loftskeyti frá enskum togurum í gær, sem voru úti fyrir Vestfjörðum, hermir, að hafís sé þar nálægt landi. Sögðu þeir ís alla leið frá Kópanesi og norður að Riti og aðeins 10 mílum frá landi, þar sem næst var. Var ísinn á hraðri leið austur, að landinu. Hávarður ísfirðingur símaði, að ísbreiða væri frá Rit að Deildarhorni. Einnig væru jakar á siglingaleið við Ísafjarðardjúp.

Skipstjórinn á Dettifossi tilkynnir Veðurstofunni að töluverður hafíshroði sé á siglingaleið milli Kögurs og Straumness.

Morgunblaðið segir enn af veðurtjóni 15.febrúar:

Bilanir á raftaugum. Í óveðrinu á sunnudaginn [12.] urðu talsverðar bilanir á aðalraftaugum rafveitunnar, frá Elliðaánum og til bæjarins, og eins á taugunum að Kleppi og Vífilsstöðum. Bilanirnar urðu aðallega með þeim hætti, að salt og ryk settist á postulínseinangrarana, svo rafmagnið fékk útrás eftir einöngrurunum. En við það skemmdust þeir og urðu ónýtir margir. Hvað eftir annað undanfarna daga hafa rafmagnsmenn orðið að taka rafmagnið af, meðan á viðgerðum hefir staðið. Truflanir hafa orðið á bæjarsímanum, af sömu orsökum, einangrun bilað á símastaurum, og hafa mörg símanúmer haft slitrótt samband við miðstöð síðustu daga.

Landssíminn. Viðgerðir við símalínur landsins voru komnar það langt í gærkvöldi, að talsamband var komið á um mestallt símakerfi landsins, þó ekki til Ísafjarðar. Þangað var aðeins skeytasamband.

Morgunblaðið segir af ís 18.febrúar:

Ísfregnir. Frá Suðureyri er hafís sagður landfastur við Stigahlíð. En á Aðalvík hefir ísinn lónað heldur til norðausturs og er siglingaleið þar talin fær í björtu veðri.

Morgunblaðið segir frá veðri vikunnar 19.febrúar:

Veðrið í vikunni sem leið, er var hin 17. vetrarvikan, hefir verið umhleypingasamt. Um síðustu helgi var ofsaveður af vestri um allt land með stórhríð um allan vesturhluta landsins. Hélst veðrið fram á mánudag en gekk þá skyndilega í sunnahláku er aftur hreyttist í hæga vestanátt með nokkru fjúki á þriðjudagskvöld. Hélst svo fremur hæg vestan- og norðanátt með talsverðu frosti þangað til á laugardagsmorgun [18.] að aftur gekk til sunnanáttar með þíðviðri á Vesturlandi.

Enn varð óhapp á sjó. Morgunblaðið segir frá 22.febrúar:

Þýskt flutningaskip, „Brigitte Sturm“ og línuveiðarinn „Papey“ rekast á rétt utan við Engey, „Papey“ sekkur eftir 2—3 mínútur og níu skipverjar drukkna.

Morgunblaðið segir 3.mars af þremur erlendum togurum sem fórust við landið í febrúar:

Auk þýska togarans Meteor, sem sagt var frá í blaðinu í gær, er saknað tveggja útlendra togara, og óttast menn að þeir hafi farist undir Íslandi í febrúar. Annar var enskur, James Long frá Hull. Fór hann þaðan 29. janúar og er haldið að sést hafi til hans undir Látrabjargi snemma í febrúar. — Hinn togarinn var þýskur, Westbank frá Wesermünde. Hann sást seinast 2.febrúar og var þá á veiðum í Jökuldjúpinu. Aðfaranótt 13. febrúar rak hér suður með sjó, hjá Hvassahrauni, mikið af spýtnabrotum o.fl. úr skipi. Ennfremur komu þar á land bjarghringar tveir, annar hvítur hinn rauðbrúnn, merktir „Westbank Wesermunde". Laugardaginn 11. febrúar og þó sérstaklega sunnudaginn 12. febrúar var aftakaveður. Er líklegt að „Westbank“ hafi þá farist hér í flóanum. og sennilega hafa hin skipin farist í sama veðri.

Veðurathugunarmenn lýsa marstíðinni:

Lambavatn: Það hefir verið fremur stillt og oftast snjólaust eða snjólítið.

Þórustaðir (Hólmgeir Jensson): Veðráttan í þessum mánuði hefir verið allmjög úrfellasöm. Lengst af við aust- og norðaustlæga átt; oft breytileg veðrátta. Algjört jarðbann vegna fanndýpis.

Grænhóll (Níels Jónsson): Óstöðug veðrátta, snjóar litlir, löngum víða mógrá jörð og nægur hagi víðast. Frost voru mjög væg og úrkomur oftast litlar.

Sandur: Tíðarfar yfirleitt gott. Var þó norðanátt með fjúki og frosti frá 14. til 21. og aftur norðanátt frá 24. til mánaðarloka. Snjólétt hefir verið og orðið því nær alautt þ.24. Jafnvel í mýrum og ís þá farinn mjög að veikjast á vötnum.

Nefbjarnarstaðir: Tíðarfar fremur milt og stillingar, nema dálítið hryðjusamt um miðjan mánuðinn. Annars má tíðarfarið teljast gott.

Sámsstaðir: Fremur óhagstæð tíð fyrir fénaðarhöld og útiverk.

Í Morgunblaðinu 8.mars er dæmi um nauðsyn veðurskeyta af hafinu - ekkert annað að hafa um næstu lægð. 

Samkvæmt fregn frá norsku skipi sem er statt um 700 km. suður af Reykjanesi er sunnaátt í aðsigi. — Mun vestanáttin því þegar ganga niður í nótt en vindur fara vaxandi af suðri eða suðaustri á morgun.

Morgunblaðið segir 9.mars frá slysi í Grindavík:

Í gærmorgun átti Morgunblaðið tal við Einar Einarsson útgerðarmann í Garðhúsum í Grindavík, og sagði hann frá slysi því, er þar vildi til í fyrradag [7.]. Bátar í Grindavík voru flestir á sjó þann dag, enda þótt sjór væri hár og hvassviðri. Einn af bátum Einars, Óskabjörn, fékk á sig hnút er hann var að draga línuna, og hvolfdi bátnum. Bátverjar voru 5, og komust allir á kjöl. En nokkru síðar velti alda bátnum á kjöl aftur, og komust mennirnir upp í bátinn; allir, eftir því sem Einar best vissi. Nú maraði báturinn í kafi fullur af sjó, og urðu mennirnir innkulsa hver af öðrum eða drukknuðu þarna í bátnum. Síðar um daginn kom þangað annar bátur Einars, „Þorbjörn“, og er formaður hans Guðjón Klemensson. Þá var aðeins einn lifandi af bátverjum Óskabjörns, Vilmundur Stefánsson, frá Reyðarfirði, og varð honum bjargað.

Morgunblaðið segir frá veðri vikunnar 12.mars:

Vikan hófst með hvassri austanátt um allt land og mikilli úrkomu á austurlandi. A þriðjudag [7.]gekk vindur í vestur og varð hvass við suðurströndina. Á miðvikudag gerði allhvassa SA-átt með rigningu um allt land, en var orðinn hægur suðvestan daginn eftir. Varð mjög hlýtt um stund á Austurlandi og sumstaðar á Norðurlandi, allt að 8—9 stig og jafnvel þar yfir. Síðan hefir veður verið kyrrt en nokkur úrkoma. Alla vikuna var fremur milt. hiti fyrir ofan frostmark, nema síðustu dagana var dálítið frost vestanlands.

Morgunblaðið 19.mars:

Síðastliðna viku (sem var 17. vetrarvikan) hefir verið óslitin austan- og norðaustanveðrátta hér á landi. — Lægðir hafa farið austur fyrir sunnan land í stefnu á Bretlandseyjar, en hins vegar verið mikil loftþrýsting um N-Grænland. Fyrra helming vikunnar var austanáttin hlý og rigndi þá talsvert sunnan lands, en um miðja vikuna lögðust kaldir norðaustrænir loftstraumar frá íshafinu yfir landið og fylgdi þeim 4—8 stiga frost. Norðanlands hefir verið hríð síðustu tvo dagana og allmikill snjór kominn þar. Sunnanlands er snjólítið mjög á láglendi, en talsverður snjór til fjalla.

Morgunblaðið segir af sjóslysi vestra í pistli 31.mars:

Ísafirði, FB. 30. mars. Vélbáturinn Páll frá Hnífsdal hefir farist í fiskiróðri í fyrradag, gerði snarpa norðankviðu um kvöldið og var sjór á lóðamiðum. Fjórir vélbátar héðan leituðu hans í gær, en leitin bar engan árangur. Á bátnum voru fjórir menn. 

Morgunblaðið segir 1.apríl frá fannkomu á Siglufirði:

Siglufirði, FB. 31.mars. Fannkomuhríð. Þrjá síðustu dagana hefir sett niður mikinn snjó, svo illfært er um bæinn.

Morgunblaðið segir af veðri vikunnar 2.apríl:

Vikan hófst með hægviðri, en á aðfaranótt þriðjudagsins [28.mars] kom alldjúp lægð suðvestan að landinu, gekk norðaustur yfir landið sunnanvert og var komin austur fyrir land á miðvikudag. Henni var samfara mikil úrkoma, fyrst rigning með suðaustanátt sunnanlands, en síðan norðanhríð nyrðra og dálítið frost um allt land. Á fimmtudag [30.] var veður orðið bjart á Suður- og Vesturlandi, en á Norðurlandi lygndi aðfaranótt laugardags. Við suðvesturland er nú ný lægð, sem mun fara því sem næst í kjölfar hinnar síðustu.

Veðurathugunarmenn segja af apríltíð - en hún var nokkuð rysjótt:

Lambavatn: Það hefir verið kalt og oft vindasamt en úrkomulítið. Gróður er enginn fyrr en í gær (30.apríl) og dag. Sést litka kringum hús af því vætan kom.

Suðureyri: Stirt og stórgert fyrri hluta. Hagleysur og snjóþyngsli. Úrkomulítið seinnihlutann. Yfirleitt óhagstætt.

Sandur: Tíðarfar fremur slæmt í þessum mánuði. Allan fyrrihluta hans var því nær óslitin snjókoma með frosti og hvössum norðanáhlaupum. Þann 15. stillti til og hélst bjartviðri en fremur köld tíð til þess 21. Þá hlýnaði. En aftur brá til norðanáttar og kulda þ.26. Þ.30. var góð hláka. Snjór hefir verið allmikill sá mesti á vetrinum. Hagi fremur slæmur.

Nefbjarnarstaðir: Fremur umhleypingasöm og stirð tíð. Góðir hagar voru allt til 20. Þá gerði haglaust til loka mánaðarins. Tíðin yfirleitt heldur köld.

Fagurhólsmýri: Fremur óstöðugt, en oftast auð jörð nema 5 daga sem snjór lá um miðjan mánuðinn og varð mesti snjórinn sem kom hér á vetrinum [45 cm þ.14. og 15.]. Jörð var orðin klakalaus út úr miðjum mánuðinum.

Sámsstaðir: Tíðarfarið frekar milt og gott í þessum mánuði.

Reykjanesviti (Jón Á. Guðmundsson): Fyrstu vikuna var ágæt tíð. En gerði svo bylji og vond veður allt að því í tvær vikur. Fé fennti hrönnum saman í Höfnum. Vorgróður byrjaði hér seint, en sökum vætunnar greri jörð furðu fljótt.

Morgunblaðið segir enn af sjóslysi og ótíð 11.apríl

Þrettán menn drukkna. Öðrum skipverjum 24 bjargað í land á línu. Aðfaranótt mánudags laust eftir miðnætti strandaði togarinn Skúli fógeti skammt vestan við Staðarhverfi í Grindavík, rétt austan við vík þá, sem nefnd er Albogi. Veður var dimmt af hríð og suðaustan strekkingur. Skipið var á heimleið frá Selvogsbanka. Skipið fylltist brátt af sjó, seig niður að aftanverðu út af skerinu um 20 mínútum eftir að það strandaði. Þá voru 23 menn af skipshöfninni á hvalbaknum, 12 á stjórnpalli en tveir höfðu klifrað upp í fremri reiðann. Skömmu eftir að togarinn seig niður, fóru ólög yfir stjórnpallinn, svo þeir sem voru í fremri reiðanum sáu, að stýrishúsið fór við og við alveg í kaf. Þrír skipverja komust af stjórnpallinum fram á hvalbakinn. En sjór skolaði hinum brátt út. Slysavarnadeild Grindavíkur kom á strandstaðinn í dögun, eftir nokkra leit að skipinu. Þá voru 22 menn á hvalbaknum, en tveir í fremri reiðanum. Hafið úr flæðarmáli þá um 100 faðma. Með línubyssu tókst brátt að koma taug út á hvalhakinn. Og björgun tókst greiðlega úr því.

Siglufirði, FB., 10. apríl. Stórhríð í gær með brimi. Dronning Alexandrine kom hingað um hádegisbil. Hafði legið til allan daginn í gær og í nótt. Var í morgun komin norðaustur af Grímsey, er hríðinni tók að létta. Í gærmorgun fékk skipið sjó á sig, sem tók fyrsta stýrimann og háseta, sem voru á þilfari. Slasaðist stýrimaðurinn nokkuð á höfði og báðir mörðust, en hvorugur svo, að líf þeirra sé í hættu. Gluggi brotnaði einnig í reykskálanum og flóði þar allt í vatni — Stýrimaður verður sennilega lagður á sjúkrahús hér. Létu skipverjar hið versta af veðrinu.

Dagana 10. til 15. apríl urðu átök á milli framrásar kulda úr norðri og hlýrra loftstrauma úr suðri í námunda við landið. Vindur í háloftum hélst lengst af úr suðvestri, en á landinu var lengst af norðaustlæg átt. Við skilyrði sem þessi getur talsverð úrkoma (regn eða snjór) fallið á Suðurlandi, þótt norðanátt sé. 

Slide4

Kortið sýnir veðurlag á skírdag (13.apríl). Lægð nálgast landið sunnanvert. Norðan hennar er austanátt við jörð, en suðvestlæg átt ofar (sjá næsta kort)

Slide5

Veður þetta olli töluverðum vandræðum. Morgunblaðið segir frá 16.apríl:

Á skírdagskveld [13.apríl] gerði ofsaveður með snjókomu hér sunnan lands, og töfðust margir Vestmannaeyjabátar, svo menn urðu hræddir um þá. Var togurum á Selvogsbanka gert aðvart og þeir beðnir að svipast eftir bátunum. En allir komust þeir hjálparlaust til hafnar, nema báturinn „Frægur“. [Enskur togar bjargaði svo áhöfn Frægs].

Úr Skaftafellssýslu. Vegna símslita náðist ekki samband austur í Skaftafellssýslu í gær. En í gærkvöldi fékk Morgunblaðið símskeyti frá Vík í Mýrdal og segir þar að snjókoma og byljir hafi verið þar við og við síðan á pálmasunnudag [9.apríl] og feikileg ófærð komin víða í sýslunni. Ennfremur segir þar, að fénaður sé sumstaðar í voða; hann hafi verið sloppinn á heiðar í Skaftártungu og í austur Mýrdal.

Símabilanir urðu miklar hér á Suðurlandi í ofviðrinu á skírdag [13.] og aðfaranótt föstudagsins langa. Mestar urðu bilanirnar á Vestmannaeyjalínunni milli Miðeyjar og Hólma í Landeyjum; þar brotnuðu 47 staurar. Einnig brotnuðu staurar í Mýrdal og austar í Skaftafellssýslu en ókunnugt hve stórfeldar bilanir voru þar, því að sambandslaust hefir verið austan Skarðshlíðar undir Eyjafjöllum og vestan Fagurhólsmýrar í Öræfum. Samband komst á í gær til Vestmannaeyja.

Veðrið vikuna 9.—15. apríl. Í vikubyrjun var lægðarmiðja yfir landinu og vindstaða breytileg, en síðan færðist lægðin austur fyrir landið og gerði norðan hríðargarð um allt land. A Suðvesturlandi skall hríðin á aðfaranótt mánudagsins [10.]. Á þriðjudag batnaði veður til muna og á miðvikudag var hæg norðanátt og bjartviðri um allt land. Á fimmtudagskvöld [13.] gerði aftur hríðarbyl af norðaustri, vegna lægðar sem kom sunnan úr hafi upp að suðurströnd landsins- Áhlaup þetta stóð þó aðeins fram á föstudag og varð ekki mjög slæmt norðanlands. Nú er hæg norðaustanátt um allt land en fremur kalt í veðri, hiti um 0 st. syðra, en 1—2 st. frost nyrðra.

Morgunblaðið segir enn af hríðinni miklu í pistli 19.apríl:

Samtal við Gísla Sveinsson sýslumann [í Vík]. Upp úr pálmasunnudegi [9.] byrjaði að snjóa eystra. Næstu tvo daga var látlaus stórhríð, mest um miðbik sýslunnar, austurhluta Mýrdals, Mýrdalssandi, Skaftártungu og vesturhluta Síðu. Um miðja viku (á miðvikudag fyrir páska) var komið fádæma snjókyngi í sýslunni, svo að menn muna ekki annað eins um þenna tíma ár. Samgöngur allar tepptust gersamlega, aðeins fótgangandi menn gátu komist bæja á milli. Sem dæmi um fannkyngið hér í Austur-Mýrdal, sagði sýslumaður, má geta þess, að á miðvikudag var bíll á leiðinni hingað úr Reykjavík (bílstj. Brandur Stefánsson í Litla-Hvammi), með honum voru þeir Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri og Ásgeir L. Jónsson verkfræðingur, er ætluðu hingað til þess að athuga sandfok hér í þorpinu; þeim var snúið aftur undir Eyjafjöllum, en bíllinn hélt áfram austur. Hann komst að Pétursey. Þaðan fóru farþegar og bílstjóri á hestum að Skammadal; lengra komust þeir ekki á hestum, en héldu síðan gangandi til Víkur. Mýrdalssandur hefir að heita má verið ófær yfirferðar í viku. Þeir, sem farið hafa yfir sandinn hafa orðið að fara með sjó alla leið, fyrr en nú á mánudag s.l., að póstur braust yfir sandinn á syðri leiðinni (um Álftaver), gangandi, með hest í taumi. Póstleiðin liggur um Skaftártungu, en þangað gat póstur ekki komist, vegna ófærðar, varð að fara yfir Meðalland og Álftaver. Fénaður bænda í Austur-Mýrdal og Skaftártungu var fyrir bylinn kominn á heiðar, eins og venja er til um þetta leyti árs. Vegna látlausra bylja var ekki, unnt að komast til fjárins fyrr en á miðvikudag. Fannst þá margt fé aðframkomið, sumpart í fönn eða bjargarlaust á heiðum. En vegna ófærðar var ómögulegt að koma fénaðinum til húsa og ekki heldur hægt að koma fóðri til hans. Urðu menn að láta sér nægja, að draga það fé, sem fannst þangað sem snapir voru og skilja það þar eftir.

Menn hætt komnir. Almenn óánægja er hér yfir veðurspám Veðurstofunnar þessa viku, segir sýslumaður. Spádómarnir reyndust meira og minna rangir alla vikuna. En verst fór skírdagsspádómurinn með menn hér, enda munaði minnstu, að hann yrði tveim mönnum að bana. Á skírdag var spáð björtu veðri og hægviðri. Menn treystu þessu og bjuggu sig því til ferða til að leita að fénu. Fóru tveir menn úr Skaftártungu upp á heiði; var annar þeirra Valdimar Jónsson hreppstjóri í Hemru. Er þeir voru komnir langt upp á heiði, skall á þá stórhríð og aftaka veður. Ekki var viðlit að komast til byggða aftur. Þeir tóku því það ráð að grafa sig í hellisskúta og þar urðu þeir að híma næstu nótt. Næsta dag (föstudag) komust þeir við illan leik til byggða.

Enn verður ekkert sagt um það, hve mikið tjón hefir orðið á fénaði eystra. En menn fullyrða, að fjöldi fjár sé undir snjó. T.d. vantar Vigfús Gunnarsson, bónda í Flögu í Skaftártungu um helming af sínu fé. Á öðrum bæjum í Skaftártungu vantar einnig margt fé, og einnig í Austur-Mýrdal, einkum á Höfðabrekku. Telja menn víst, að mest af því fé, sem vantar, sé undir snjó og því hætt við, að það sé dautt. En menn eru einnig mjög hræddir um þann fénað, sem er berskjalda á heiðum, því hann er þar algerlega bjargarlaus, ef ekki batnar nú þegar. Yfirleitt er háskalegur voði búinn fénaði fjölda bænda í sýslunni, ef ekki koma hlýindi og hlákur hið bráðasta, segir sýslumaður að lokum.

Morgunblaðið segir 30.apríl af veðri vikunnar:

Fyrri hluta vikunnar var hlý austanátt hér á landi, nokkur úrkoma á Austur- og Suðurlandi, en þurrt að mestu vestan lands. Vindur var lengst af allhvass í Vestmannaeyjum og þar í grennd, en fremur hægur í öðrum landshlutum. Þessa dagana var kyrrstæð lægð yfir hafinu suður undan, en um miðja vikuna fór lægðin að þokast austur eftir og varð vindstaðan þá brátt norðaustan hér á landi og kaldir loftstraumar frá íshafinu, fengu framrás suður á bóginn. Á miðvikudagskvöld [26.] var vindur orðinn allhvass norðaustan með bleytuhríð norðan lands. Á fimmtudaginn var norðaustanhvassviðri um allt land og sums staðar stormur. Var þá hríðarveður á Norður- og Austurlandi og snjóaði talsvert austan lands á útkjálkum nyrðra, en náði lítt til innsveita eða dala. Á föstudag [29.] lægði veðrið víðast hvar og nú má heita logn og bjartviðri um allt land.

Veðráttan segir að þann 26. hafi bátur farist við síldveiðar í Hornafirði með fjórum mönnum. Tólf kindur hrakti í ár og læki í hvassviðri í Geithellnadal.

Veður batnaði mjög um mánaðamótin apríl/maí. Veðurathugunarmenn greina frá - ekki allir sammála:

Lambavatn: Það hefir verið sífelld stilla og blíðviðri. Heldur miklir þurrkar framanaf en nú seinni part mánaðarins af og til smá skúrir. Jörð er allstaðar orðin gróin eins og meðalgróður seint í júní. Og er það víst óvanalegt hér. Blettir í túnum eru að verða sláandi.

Sandur: Tíðarfar hefir verið mjög gott í þessum mánuði, einkum síðari hluta hans. Þó helst til þurrviðrasamt. Snjó leysti óvenju snemma til fjalla.

Papey: Köld tíð allan mánuðinn og lítill gróður en oftast hæg veður eða ekki stormar teljandi.

Fagurhólsmýri: Yfirleitt hefur tíðarfarið verið fremur kalt og gróðri því farið seint fram. Að öðru leyti fremur hægviðri.

Stórhöfði: Jörð sprettur illa sökum sífelldra austanstorma.

Morgunblaðið segir af veðri 7.maí:

Veðrið. (vikuna 30.apríl — 6.maí.) Fyrstu tvo daga vikunnar var hæg vestanátt og nokkur rigning vestan lands, einkum á sunnudag [30.apríl]. Síðan birti upp með hægri norðanátt og varð þá næturfrost sumstaðar á landinu. Um miðja vikuna gekk til austanáttar sem haldist hefir síðan. Hefir verið hvasst við Vestmannaeyjar en fremur stillt annars staðar á landinu. Úrkoma hefir verið lítil en loft skýjað og því frostlaust að næturlagi, að minnsta kosti sunnan lands.

Veturinn 1932 til 1933 voru miklar rannsóknir í gangi á norðurslóðum, kallað „annað heimskautaárið“ - hitt var 50 árum áður. Hér var sett upp veðurathugunarstöð á Jökulhálsi við Snæfellsjökul og að auki dvöldust hér hollenskir flugmenn og gerðu háloftaathuganir. Lesa má um heimskautaárið og verkefni þess hér á landi í grein Leó Kristjánssonar og ritstjóra hungurdiska í Jökli 1998: Alþjóða-heimskautaárin tvö og rannsóknastöðin við Snæfellsjökul 1932-33.

Morgunblaðið segir af flugmönnum 16.maí:

Frá því í haust hafa Reykvíkingar því nær daglega horft á flug hinna djörfu hollensku flugmanna, er þeir leggja upp af flugvellinum i Vatnsmýrinni til þess að fljúga upp í 5—6 þús. metra hæð til veðurathugana. Oft og mörgum sinnum hafa þeir farið í þetta athuganaflug sitt í hryssingsveðrum, svo menn hafa dáðst að áhuga þeirra og hugrekki.

Veðurrannsóknir þær er við gerum hér í háloftinu, eru þessar, sem kunnugt er: Hitastig er mælt, rakastig, vindhraði og vindátt. Hitastig og rakastig er rannsakað með því að fljúga upp í loftið. En vindhraði og vindátt er rannsökuð með því að senda loftbelgi upp í loftið. Er þeim fylgt eftir í kíki, svo lengi sem til þeirra sést, og er í sambandi við kíkinn mælitæki, er lesa má á, hver vindátt er og vindhraði þar sem loftbelgirnir fara. Eru belgirnir sendir upp í hvert skipti sem flogið er. Fer það eftir skýjafari og skyggni, hve lengi er hægt að fylgja þeim eftir. — Lengst hefir verið hægt að fylgja ferð loftbelgs í 12.400 metra hæð. Fram til 1. maí hafa þeir félagar farið 186 flug, og flogið samtals í 250 klukkustundir. Meðalkostnaður við hverja flugstund er talinn 70 gyllini. Í 67 daga síðan 2. september hefir ekki verið hægt að fljúga. Um 20 dagana hefir flug hindrast vegna þess að jarðvegurinn á flugvellinum hefir verið of gljúpur sakir rigninga, að hættulegt hefir verið að lenda þar. Í 170 skipti hafa flugmenn komist yfir 5000 metra hæð; 30 sinnum yfir 5500 metra og 10 sinnum yfir 6000 metra. 10 sinnum hafa þeir ekki komist nema 2—3000 metra í loft upp- Stafaði það í öll skiptin af ísingu, sem settist á vængina í 2—3000 metra hæð. Ísingin, sem er yfirleitt tíðari hér en annars staðar, er flugmönnum sérlega erfið og hættuleg vegna þess, að svellið sem á vængina kemur breytir lögun þeirra, Við það að lag þeirra breytist breytist það og, hvernig loftstraumurinn fellur á þá. En breytist það til muna, getur hæglega svo farið, að flugvélin láti ekki að stjórn stýrisútbúnaðar. Meðalflughæðin við rannsóknaflugin hér er yfir 5500 metra. Er sú flughæð mjög mikil í samanburði við flughæð annarra þjóða við veðurathuganir. Hafa Hollendingar yfirleitt flogið allra manna hæst við veðurrannsóknir í háloftin. Er meðalflughæð þeirra yfir 5000 metrar. Háflug, sem þessi hér, eru farin daglega víðsvegar um álfuna, til veðurrannsókna. Í Hollandi t.d. er flogið daglega i þessum erindum á tveim stöðum í landinu; í Þýskalandi á 6—7 stöðum. Í Finnlandi og Svíþjóð er slíku rannsóknaflugi haldið uppi í ár, eins og hér vegna pólrannsóknanna. Mesta frost fengu þeir hér í janúar 41,7°C, en minnst frost í 5000 metra hæð hefir verið 18°. Mesta vindhraða hafa þeir fundið hér í lofti um 150 km á klst. Fárviðri, 12 stig, er það talið, þegar vindur er 100 km á klst. Stundum hefir það komið fyrir að þeir hafa fundið vind blása úr öllum áttum á bilinu frá jörð og upp í 5000 metra hæð. Og venjulega er vindhraðinn mun meiri er upp í loftið kemur, en niður við jörð. Skeyti um veðurathuganir sínar senda þeir til London, að afloknu hverju rannsóknaflugi. Er þeim skeytum síðan dreift um veðurathuganastöðvar álfunnar.

Um hættur flugmanna við rannsóknaflug þessi, hér í Reykjavík, segir van Giessen m.a.: Þegar flugmenn hefja sig til flugs, og mótor stöðvast snögglega, er þeir aðeins hafa lyfst 30—50 m. frá jörð, geta þeir ekki snúið við á fluginu, hafa ekki svigrúm til þess. Flugvellir þurfa því helst að vera svo víðáttumiklir, að flugmenn hafi eigi borið út af völlunum fyrr en þeir eru komnir hærra í loft upp. Flugvöllurinn okkar hérna er svo lítill, að þessu er ekki til að dreifa. Ef mótor stöðvaðist rétt eftir að við höfðum hafið okkur til flugs, getum verið að við verðum að láta skeika að sköpuðu með það, hvar við komum niður. En slíkt hefir aldrei komið fyrir okkur enn, og vonandi að svo verði ekki. Mesti vandi okkar er það að rata rétt niður úr skýjunum, þegar loft er skýjað. Skýjaþykknið er oftast þetta í 1—2000 metra hæð. Sé kyrrt í lofti yfir skýjunum, er vandinn enginn, því þá getum við haldið okkur beint yfir Reykjavík. En ef vindur er t.d. af suðri niður við jörð, þá reiknum við út, hve mikið vindur ber okkur til í loftinu og reynum á þann hátt, að koma niður úr skýjunum á svipuðum slóðum og við fórum upp. En nú getur vel farið svo, að þó vindur sé t.d. norðlægur niður við jörð, þá sé hann suðlægur uppi í loftinu, og okkur beri því norður á bóginn þar uppi. Þannig vildi það til einu sinni í vetur, að ég hefði reiknað alveg skakkt út hvernig mig hefði rekið. Er ég loks kom niður úr skýjaþykkninu, var ég kominn niður í 400 metra hæð. Sá ég að ég var kominn niður í dal, sem ég kannaðist ekkert við. Flaug ég eftir dalnum og áttaði mig síðan er ég kom yfir Hvalfjörð. Ég hafði lent niður í Kjósinni. En eftir vindáttinni sem ég hafði búist við, átti ég von á að ég væri yfir Hafnarfirði. Hefði ég rennt mér niður örfáum kílómetrum sunnar, hefði ég lent á Esjunni, ekkert séð út úr augunum fyrr en ég skall niður á fjallið, og má búast við, að ég hefði eigi orðið til frásagnar um það ferðalag. Hér um daginn kom félagi minn niður úr skýjaþykkninu hjá Grindavik. Svo miklu getur skeikað, vegna storma uppi yfir skýjunum. Hann áttaði sig brátt á Reykjanesströndinni og komst klakklaust leiðar sinnar. Venjulega erum við 5 stundarfjórðunga á fluginu. Á þeim tíma getur okkur hrakið um 40 km leið.

Morgunblaðið lýsir veðri vikunnar 21.maí:

Veðrið (Vikuna 14.—20. maí). Austanátt, hefir verið því nær eindregin alla vikuna og óvenjuhlýtt í veðri um vestur- og norðurhluta landsins, en svalara miklu á Austurlandi. Rigningar hafa verið miklar suðaustan lands, einkum síðari hluta vikunnar, en þurrviðrasamt vestan lands og norðan.

Morgunblaðið segir fréttir af góðri tíð 28.maí:

Glöggur bóndi í Árnessýslu, segir gróður þar um slóðir svo góðan eftir árstíma, að hann muni ekki betri síðan 1909. Allvíða í lágsveitum hætt að gefa kúm.

Veðurathugunarmenn segja af júnítíðinni, hún var hlý, nema hvað allmikið hret gerði kringum þann 17.: 

Lambavatn: Það hefir verið fremur vætusamt. Grasvöxtur óvenjumikill í túnum svona snemma, en vegna votviðra hefir verið dregið að slá nema smáblett svo almennt er sláttur ekki byrjaður enn þótt löngu sé sprottið.

Suðureyri: Vel hlýtt oftast og hæg veður. Vætu- og óþurrkasamt. Snjóaði ofan undir sjó þann 17.

Sandur: Tíðarfar yfirleitt mjög gott í þessum mánuði. Lengst af þurrkur og hlýindi. Rekið óvenjusnemma á afrétt; enda eru fjöll orðin svo snjólítil að slíkt er fágætt á þessum tíma.

Grímsstaðir (gengið frá skýrslu 14.júlí): Nú um miðjan júlí hefir Herðubreið aldrei verið eins snjólaus.

Höfn í Bakkafirði (Halldór Runólfsson): Veðráttan hefur verið hlý og góð. Um nóttina þann 8 gekk í vestan stórviðri. Í því veðri slitnaði upp mótorbátur frá Vestmannaeyjum sem lá hér á höfninni og rak hann upp á sker, en vitaskipið Hermóður var hér statt og náði það honum út. Þann 18. gerði stórfellt úrfelli hér. Áköfust var rigningin kl.2 um daginn til 8 um kvöldið. Í því veðri féll skriða á túnið í Böðvarsdal í Vopnafirði og eyðilagði sirka 3 dagsláttur.

Papey: Framan af þessum mánuði óhagstæð tíð fyrir varp og fleira, allt of miklar rigningar svo dúnn stórskemmdist eða eyðilegðist með öllu. Lambadauði mikill vegna kalsarigninga.

Fagurhólsmýri: Tíðarfar ágætt og hagstætt. Tún og jörð mjög vel sprottin. Útlit mjög gott.

Reykjanesviti: Tíðin yfirleitt fremur köld. Þó hafa komið nokkrir vel hlýir dagar. Sólskin var fremur sjaldan.

Morgunblaðið segir af öndvegistíð 8.júní:

Siglufirði, FB. 6.júní. Öndvegistíð hefir verið hér slík frá sumarbyrjun, að elstu menn muna ekki aðra eins.

Alþýðublaðið segir af þrumuveðri 23.júní:

Þrumuveður með miklu regni gerði á Siglufirði í fyrrakvöld [21.] á meðan  knattspyrnukappleikur stóð yfir.

Um miðjan mánuð gerði skammvinnt norðanáhlaup - eins og kom fram í frásögn veðurathugunarmanna. Morgunblaðið segir af því og fleiru 25.júní:

Veðrið (vikuna 18.—24. júní). Í lok síðustu viku gerði norðangarð hér á landi og snjóaði allt niður að fjöruborði nyrst á Vestfjörðum. Aðfaranótt sunnudags [18.] gekk norðangarðurinn niður og hefir síðan yfirleitt verið hæg norðanátt á Norðurlandi og þokusamt, en suðvestan lands hefir verið tvíátta og skúrasælt. Þó hafa komið nokkrir góðir þurrkdagar. Nú sem stendur er hægviðri og bjartviðri um allt land.

Morgunblaðið segir af veðri í pistli 2.júlí:

Veðrið. Vikan sem leið, sem var 10.sumarvikan, hófst með bjartviðri um allt land og góðum þurrki. — Stóð svo til mánudagskvölds [26.] en gekk þá í suðvestanátt með þykkvíðri og smárigningu eða skúrum og hefir það veðurlag haldist síðan á Vesturlandi; en austan lands hafa verið því nær óslitnir þurrkar og sama gildir um mikinn hluta af Norðurlandi. Loftþrýsting er lág yfir Grænlandi en hærri um Bretlandseyjar og hafið hér suður undan. Er vestanátt á öllu svæðinu milli Bretlandseyja og Íslands, enda veður dumbungslegt og rigningasamt.

Veðurathugunarmenn segja af tíð í júlí:

Lambavatn: Það hefir verið hlýtt og votviðrasamt. Nú síðustu viku mánaðarins hefir verið stillt og þurrt veður svo hey hafa allstaðar komist inn.

Grænhóll (Níels Jónsson): Óvenjuleg blíðviðri, þurrkur, graspretta, hlýindi, ládeyða. Elstu menn muna ekki vor og sumar þessu líkt.

Sandur: Tíðarfarið ágætt. Sífelld hægviðri, þurrkar og hlýindi. Nýting heyja frábærlega góð. Fjöll eru svo snjólaus orðin að „elstu menn muna vart þvílíkt“.

Reykjanesviti: Yfirleitt góðviðri en rigningasamt. Hlýindi oftast nær.

Morgunblaðið segir af veðri 9.júlí:

Veðuryfirlit. Fyrri hluta vikunnar var stöðug suðvestanátt hér á landi, stundum allhvasst, og vætusamt, einkum um vesturhluta landsins. Á fimmtudag [6.] brá til austanáttar við suðurströndina en gerði annars kyrrt veður og hlýtt, sem síðan hefir haldist um land allt. Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri er nýkominn heim úr ferðalagi um Norðurland. Hefir hann sagt blaðinu að hann muni ekki eftir annarri eins sprettu og á þessu sumri. Er svo um allar sveitir.

Morgunblaðið 16.júlí:

Veðuryfirlit. Hægviðrasamt hefir verið hér á landi alla síðustu viku. Stundum hefir rignt allmikið á Suður- og Vesturlandi, og þokur hafa verið tíðar á Norður- og Austurlandi. Í Reykjavík varð hiti mestur á þriðjudag [11.].

Morgunblaðið 23.júlí:

Veðrið. Veður hefur verið hlýtt og hægviðrasamt, en þurrkar litlir þótt úrkomur hafi ekki verið stórfelldar.

Morgunblaðið segir 27.júlí enn frá veðurrannsóknum hollendinga hér á landi: 

Yfirmaður hollensku loftrannsóknastöðvarinnar í Reykjavík dr.Cannegieter, hefir dvalið hér í borginni síðan 17.júlí. Hefir hann nú með höndum rannsóknir á hitafari og loftþrýstingu í háloftinu hér uppi yfir, enn þá hærra en flugvélarnar geta náð til. Eru þessar rannsóknir á háloftinu í heimskautalöndunum einn liður í pólarársrannsóknum þeim er nú standa yfir. Áhöldin sem prófessor Cannegieter notar eru vísindaleg nýjung og kennd við rússneskan prófessor Moltchinoff. Í hverju áhaldi er ofurlítil sjálfvirk loftskeytastöð, er sendir út reglubundin merki, sem heyrast í venjulegu viðtæki og gefa til kynna hitafar og  loftþrýstingu í loftinu. Könnunartækið er borið upp í loftið af stórum togleðursbelg, sem fylltur er með vetni og stígur með jöfnum hraða, líkt og loftbelgir þeir, sem Veðurstofan hefir stundum sent upp, til þess að mæla loftstraumana hátt í lofti. Belgurinn verður nærri 2 m í þvermál, þegar búið er að blása hann upp með vetni, og getur hann þá borið með sér 3,5—4 kg þunga. Eftir því sem hærra dregur frá jörðu og loftþrýstingin minnkar, þenst belgurinn meira og meira út, þar til hann er orðinn hér um bil 4 metrar í þvermál. Þá springur belgurinn og áhaldið fellur til jarðar. Venjulega skeður þetta í 18—20 km. hæð yfir jörð. Ef vindstaðan er þannig, að belgurinn berist til hafs, er áhaldið vitanlega þar með úr sögunni. Sé hinsvegar vindur af hafi svo belgurinn berist inn yfir land, má vel vera að áhaldið finnist. Þess vegna er lítil fallhlíf fest neðan á belginn til þess að varna því að áhaldið falli með of miklum hraða og brotni, þegar það skellur til jarðar. Skilvís finnandi getur þá bjargað áhaldinu og sent það aftur til eigandans. Síðustu dagana hefir dr. Cannegieter sent slík áhöld upp í loftið daglega og mun halda því áfram því nær óslitið til 10. ágúst. Þeir sem kynnu að finna þessi könnunartæki, eru vinsamlega beðnir að fara varlega með þau. Við hvert áhald er fest bréf (á íslensku), sem gefur leiðbeiningar um hvernig með þau skuli farið og hvert þau skuli send. Á fyrstu 6—10 km. yfir jörð, fer hitinn venjulega sífellt minnkandi, en úr því verður hann nokkurn veginn jafn. Samkvæmt rannsóknum dr. Canhegieters, hefir það komið í ljós, að undanfarna daga hefir hitinn farið síminnkandi hér yfir bænum upp í 9 km hæð og er frostið þá orðið milli 42 og 48 stig, en úr því hefir það haldist óbreytt, eða jafnvel heldur dregið úr því. Þessi takmörk eru þekkt um allan heim, en hæð þeirra getur verið nokkuð breytileg bæði eftir hnattstöðu og árstíðum. (Til dæmis eru þau aldrei lægri en 10 km í Hollandi og allt upp í 12 km. og frostið þá 50—60 stig). Lægri hluti lofthjúpsins, þar sem hitinn breytist hröðum skrefum, nefnist á erlendu máli „trópó-loftið“, en eftir að hitinn verður því nær stöðugur „stratoloftið“. Sumir halda því fram að í háloftinu sé framtíðarflugleið um lofthafið. Þar er loftmótstaðan orðin hverfandi, hitabreytingar engar er heitið geti, ský og úrkoma heldur ekki. Ef til vill þarf einnig svo hátt frá jörðu til þess að finna ráðningu á ýmsum gátum, sem veðurfræðin á enn óleystar. Jón Eyþórsson.

Dagur á Akureyri segir frá 27.júlí: 

Skriðuhlaup. Á sunnudaginn var [23.júlí] hljóp stórfelld skriða úr fjallinu fyrir ofan bæinn Jökul í Hólasókn [innst í Eyjafirði] og breiddist yfir tún og engjar jarðarinnar og eyðilagði hvorttveggja að mestu. Einnig lagði skriðan sumt af bæjarhúsunum á Jökli við jörðu, en skekkti þau, sem uppi standa. Á Jökli hafa búið roskin hjón, Þorsteinn Magnússon og Sesselja Sigurðardóttir og eitt barn mun hafa verið á vegum þeirra. Fleira var heimilisfólkið ekki, og var það ekki heima er skriðan féll, og ekkert manntjón hlaust af. Jörðin er óbyggileg eins og stendur, og er fólkið flutt burt þaðan. [Veðráttan bætir við: Aftaka skúr, innan við klukkustundarlöng, olli skriðuföllum á takmörkuðu svæði] .

Veðurathugunarmenn segja af ágústtíðinni:

Lambavatn: Það hefir verið votviðrasamt, en fremur hlýtt og stillt oftast. Heyþurrkur hefur verið fremur slæmur, en samt hafa hey lítið skemmst því góðir þurrkdagar hafa komið á milli. [27. Aftakaveður af austri og svo suðaustri um nóttina og stórrigning].

Sandur: Tíðarfar gott í þessum mánuði, að undanskildum illviðrakafla frá 14. til 21. Rigndi þá afarmikið og fóru engjar sumstaðar undir vatn. Gras sölnar með fyrra móti. Fannir eru flestar horfnar úr fjöllum - „frá mínum bæjardyrum skoðað“ - sjást aðeins sex að tölu.

Nefbjarnarstaðir: Tíðarfar milt, en tíðar úrkomu og óþurrkar eftir þ.14. Hey hafa hrakist töluvert, einkum há á túnum.

Fagurhólsmýri: Góð veður, daufir þurrkar.

Vík í Mýrdal (Ólafur J. Halldórsson): [Þann 26. að kveldinu gerði aftaka suðaustan rok og fölnaði allur gróður, garðar skemmdust, blöð á trjám og kartöflugrös skrælnuðu en engar skemmdir af rokinu aðrar.

Sámsstaðir: [26. Mesta rok sem hefur komið hér á þessum tíma árs].

Morgunblaðið 6.ágúst:

Veðuryfirlit. Síðustu viku hefir tíð verið votviðrasöm um allt land. Fyrstu 2 daga vikunnar var hægviðri og lítil úrkoma. Síðan hafa tvær lægðir komið sunnan eða suðvestan að landinu og gengið norður eftir Grænlandshafi fyrir vestan land. Hefir af þeim stafað suðlæg átt, ýmist suðaustan eða suðvestan, og nokkur rigning um land allt, einkum þó sunnanlands. Glöggt yfirlit er ekki fáanlegt enn um heyskap í sveitum landsins, en hvaðanæva að heyrist um óvenjulega góða sprettu. Norðanlands hefir farið saman mikil spretta og góðir þurrkar, svo með köflum hefir þornað af ljánum. Sunnanlands horfði til stórvandræða með heyþurrk, því mikið var úti af heyi í byrjun fyrri viku, en þá kom þurrkakafli, svo bændur gátu hirt að mestu það sem þá var laust.

Óþurrkarnir hér sunnanlands hafa tafið svo fiskverkunina, að segja má að til stórvandræða horfi ef ekki breytist til batnaðar í ágúst.

Morgunblaðið 13.ágúst:

Veðuryfirlit. Tíð hefir verið votviðrasöm síðustu viku, einkum á Suðurlandi. Á mánudag [7.ágúst] gekk lœgð austur fyrir sunnan land, en næstu þrjá daga hélst grunn lægð yfir landinu samfara hægviðri um land allt. Síðasta daginn var veður þurrt og víða bjart nema um miðbik Suðurlands. Á föstudag [11.ágúst] kom ný lægð suðvestan af hafi og olli þá rigningu á Vesturlandi, en á Austurlandi hélst veður þurrt fram á laugardag.

Morgunblaðið 20.ágúst:

Veðrið vikuna 13.—19. ágúst. Í vikubyrjun var lægð yfir Grænlandshafi, er olli suðvestanátt hér á landi og regni sunnan lands og vestan, en hlýtt og þurrt veður var þá norðaustanlands. Um miðja vikuna komst lægðin austur fyrir landið og birti þá upp með norðanátt sunnanlands, en talsvert rigndi þá norðanlands og austan. Á fimmtudag [17.] kom alldjúp lægð úr suðvestri upp að suðausturströnd Íslands og hefir haldist þar síðan. Hefir hún valdið norðanátt og regni um allt land, þangað til í dag, að yfirleitt hefir verið þurrt veður sunnan lands. Vindur hefir víða verið hvass síðustu tvo dagana, einkum þó vestan lands.

Alþýðublaðið segir 21.ágúst frá skriðu á Siglufirði:

Siglufirði, FB., 19. ágúst. Kl.1 í dag féll aurskriða sunnan við Búðarhólmana hér í bænum og fram í sjó. Bar hún aur og möl umhverfis allmörg hús og rann inn í kjallara á tveimur stöðum og í eitt sjóhúsanna neðan við bakkann, en olli engum stórskemmdum. Fiskur allmikill var þarna í húsunum, en skriðan og vatnsflaumurinn komst þar ekki inn.

Austfirðingur segir af norðankastinu í pistli 26. ágúst:

Af Héraði er Austfirðingi skrifað 20. þ.m.: Tíðin hefir verið rosa- og vætusöm síðustu viku, og aldrei visnað úr heyi. Stingur það mjög í stúf við þurrkana, sem verið hafa. Þeir voru orðnir fullmiklir fyrir hána á hólatúnunum og sendna garða. Spretta í görðum er orðin mjög góð, svipuð því, sem er á haustin í meðal árum. Heyskapur hefir gengið ágætlega hingað til, og nýtingin þó verið sérstaklega einmuna góð.

Aðfaranótt 27. ágúst gerði óvenjumikið hvassviðri miðað við árstíma um landið sunnan- og vestanvert. Margvíslegt tjón varð í veðrinu.

Slide6

Hér er endurgreiningin ekki alveg með á nótunum. Sjálfsagt er rétt að meginlægð hafi verið suðvestur í hafi, en lægðardragið norðaustan við hana hins vegar talsver krappara heldur en kortið sýnir. Morgunblaðið segir frá veðrinu 29.ágúst:

Á sunnudagsnótt [27.] gerði aftakaveður hér sunnan- og vestanlands. Skall það á um miðnætti og stóð fram undir morgun. Fylgdi því dynjandi rigning. Víða olli veður þetta tjóni, feykti heyjum og þökum af húsum. Morgunblaðið átti tal við ýmsar símstöðvar í gær og spurði frétta af ofviðrinu. Fer hér á eftir hið helsta sem fréttist.

Garðsauka. Ýmsar skemmdir urðu hér í grennd af ofviðrinu sem er hið mesta er menn muna á þessum tíma árs. Fjárhús og hlaða fauk í Dufþaksholti. Þak fauk af hlöðu í Vindási og þak af hlöðu á Móeiðarhvoli. Víða urðu miklir skaðar á heyjum. Hefir til dæmis frést að fokið hafi 70 hesta lön á Oddhól, og 40 hestar af heyi á Breiðabólstað í Fljótshlíð. Öll tjöld brúargerðarmanna hjá Dímon fuku og allt sem í þeim var fór út í veður og vind. Fundust föt verkamanna og brot úr rúmum þeirra uppi á háfjallinu. En hjá tjöldunum hjá brúnni fuku ekki nema tvö, enda voru þar fleiri menn til að gæta tjaldanna og ekki jafn miklir sviptivindar og hjá Dímon.

Miðey, Landeyjum. Hér um slóðir varð ekki tjón af veðrinu svo vitað sé, og ekki heldur undir Eyjafjöllum. Allir verkfærir menn voru á ferli alla nóttina til að bjarga heyjum og tókst það svo að ekki fauk af þeim svo teljandi sé.

Ölfusárbrú. Hér fauk algjörlega hálft þakkið af gistihúsinu Tryggvaskála en aðrar skemmdir hafa ekki orðið svo teljandi sé. Heyhlaðan mikla var hætt komin og störfuðum menn alla nóttina við að bera sig á hana og tókst það á þann hátt að bjarga henni og skemmdist hún ekki neitt.

Ásgarði í Grímsnesi. Á Syðri-Brú fauk stór heyhlaða (um 600 hesta) sem var í smíðum. Var komið þak á hana en þiljur ekki. Stormurinn fleygði þakinu af henni og yfir bæinn og út á tún og lá það þar brotið og skemmt. Um leið og þakið tókst á loft sleit það símalínurnar til Þingvalla og Villingavatns, því þær lágu yfir hlöðuna. Í hlöðunni voru 2-300 hestar af heyi, en stormurinn náði ekki að feykja því. Hér í Ásgarði fauk þak af lítilli hlöðu (um 40 hesta). Þak fauk af hlöðu sem var í smíðum í Mýrarkoti, en í hvorugri þessari hlöðu var hey svo hátt að stormurinn næði að feykja því. Það er talið að veður þetta hafi verið nær því jafn mikið og mikla veðri sem kom í nóvember og olli mestu skemmdum í Grímsnesinu.

Borgarnesi. Hér fauk talsvert af heyjum, bæði í Borgarnesi og Einarsnesi, en um meiri heyskaða hefir ekki spurst. Þak fauk af viðbótarbyggingu sem var í smíðum og þeytti stormurinn því út fyrir kletta og út í sjó. Nokkrir skúrar fuku líka. Bát tók upp í Rauðanesi og brotnaði hann talsvert. Hjá Svignaskarði fauk lítil refagirðing. Þá fauk og danspallur hjá Hreðavatni.

Þjórsárbrú. Hér um kring urðu víða töluverðar skemmdir af ofviðrinu. Fjárhús fauk og hlaða við Sandhólaferju en lítið misstist af heyi. Að Efri-Gröf í Flóa fauk þak af baðstofu. Einnig fauk þak af baðstofu á Langsstöðum í Hraungerðishreppi. Skemma fauk í Vælugerðiskoti. Var þar geymd matvara og skemmdist hún mikið af regni um nóttina. Fjós fauk á Syðri-Rauðalæk. Hlaða fauk í Meiri-Tungu. Víða fuku auk þess þakplötur af húsum. Vagn fauk í Þykkvabæ og brotnaði í mél. Viða fauk meira og minna af heyjum sem komin voru í garð en voru óþakin.

Tjöld vegagerðarmanna hjá Álftavatni í Grímsnesi féllu niður. Tjöld vegagerðarmanna hjá Kolviðarhóli sviptust upp. Eins fuku eða féllu niður tjöld vegagerðarmanna austur undir Eyjafjöllum.

Heyskapur. Í Árnessýslu og Rangárvallasýslu er talið að bændur muni nú búnir að afla jafnmikilla heyja, eins og þeir fengu alls í fyrra, en heyin nú munu yfirleitt lakari að gæðum en þá.

Morgunblaðið segir enn af sama veðri 30.ágúst:

Holti undir Eyjafjöllum 29.ágúst. FB. Veður á aðfaranótt sunnudags var afar mikið hér eystra, en tjón af völdum þess varð ekki mikið á mannvirkjum. Heyfok ekki mjög mikið, þar eð úrkoma á undan versta storminum var afar mikil og gegndreypti heyin.

Vík í Mýrdal, 29.ágúst. FB. Ofviðrið á aðfaranótt sunnudags náði aðeins austur að Mýrdalssandi. Austan sandsins var að vísu vont veður, en engin aftök. Í Mýrdal varð ekkert stórtjón af völdum veðursins, en nokkrar skemmdir á húsum og heyfok.

Morgunblaðið segir af bátstapa 1.september:

Gufubáturinn „Gunnar“ frá Ísafirði fór frá Hrísey síðastliðinn laugardag [26.ágúst], áleiðis til Ísafjarðar, en er ekki kominn fram ennþá. Rekald, sennilega frá bátnum, sást á sunnudag út af Horni, svo telja má víst að báturinn hafi farist með allri áhöfn í ofviðrinu á sunnudagsnótt.

Veðurathugunarmenn segja frá tíð í september. Þá voru óvenjulegar rigningar:

Lambavatn: Það hefir verið óslitin rigningatíð, aðeins komið stund og stund sem hefir verið þurrkur. Hey hafa verið að velkjast þar til nú síðustu daga að þau hafa komist inn.

Grænhóll: Tíðarfarið telja allir gott að undanskildum nokkrum rosadögum. 7. september og 9. var hér rokveður. Fuku þá hey á nokkrum bæjum, en hvergi mikil. Jörð er enn óvenjuþurr. Óvenjulítil alda hefur verið í þessum mánuði.

Sandur: Tíðarfar ágætt. Því nær óslitin sunnan- og suðvestanátt með miklum hlýindum og þurrkum. Nóttina milli 7. og 8. var hér vestanrok og fauk hey sumstaðar. Hér á Sandi fuku 20-30 hestar og þak fauk af hlöðu. Tókst á loft í einu lagi og kom fjarri niður. Næturfrost kom aldrei í þessum mánuði og stendur kartöflugras enn grænt í görðum.

Nefbjarnarstaðir: Ágætis tíð. Óvenju hlýtt og stillingar en fremur vætusamt.

Eiðar (Erlendur Þorsteinsson): Ég ætla að geta þess að snjór eða fannir hafa horfið úr fjöllum sem elstu menn muna ekki slíkt.

Sámsstaðir: Tíðarfarið hefir verið óhemju óhagstætt fyrir allar framkvæmdir vegna veðra og hóflausra rigninga.

Reykjanesviti: Afar rosa- og úrkomusamt, svo að jafnvel hér í hrauninu í kring stóðu pollar hér og hvar, sem er mjög fátítt meðan auð er jörð.

Alþýðublaðið segir 2.september af illviðri í Reykjavík þann 1.september:

Ofsaveður gerði hér í gær síðdegis af suðaustri. Gekk sjór yfir hafnargarða og „Fáfnir", línuveiðarinn, sem bundinn hefir verið við norðurgarð hafnarinnar, sleit landfestar og hékk að eins fastur á akkerisfestum,. Mjög uggðu menn um báta, sem vera kynnu á sjó, en ekki hefir frést um neitt slys. Af Akranesi vantaði tvo báta í gærkveldi, en þeir komu að undir miðnætti.

Morgunblaðið segir af sama veðri 3.september:

Það var búist við miklu manntjóni af völdum austanroksins, sem skall svo skyndilega á í fyrradag [1.september], því að þá voru margir bátar á sjó. En sem betur fer mun það ekki hafa orðið.

Óvenjumiklar rigningar gerði um landið sunnan- og vestanvert dagana 6. til 11. september. Bæði rigndi ákaft og lengi. Sólarhringsúrkoma í Vík í Mýrdal mældist mest 150,3 mm og var það á sínum tíma það mesta sem mælst hafði hér á landi á „réttum“ sólarhringsmælitíma (frá 9 til 9) - meiri úrkoma hafði áður mælst á einum sólarhring - en dreifðist á tvo mælidaga. Þetta met stóð allt til 1968. Margvíslegir skaðar urðu af vatnavöxtum - fyrstu fréttir voru af Vesturlandi, en síðar af Suðurlandi. 

Við þetta má bæta að á Hvanneyri í Borgarfirði mældist úrkoma dagana 4. til 9. september 185,8 mm, meiri en 20 mm á sólarhring hvern einasta dag og mest 59,0 mm að morgni 8. Í Hveradölum mældust 317,0 mm sömu daga og 235,2 mm á Hrepphólum. Í Fagradal í Vopnafirði mældist engin úrkoma þessa daga og 0,1 mm á Húsavík. 

Endurgreiningar sýna veðrið sæmilega, en ástæða væri til að kanna þetta veður betur en þar er gert. Ekki er ljóst af kortunum einum og sér hvernig stóð á hinni gríðarmiklu úrkomu. Úrkomumælistöðvar voru mjög fáar og næsta víst að úrkoma hefur staðbundið orðið miklu meiri en mælt var.  

Morgunblaðið segir frá 8.september:

Í fyrrinótt [7.] gerði stórrigningu hér á Suðvesturlandi og hélst hún látlaust í allan gærdag. Feikna vöxtur kom í allar ár og flæddu þær víða langt út yfir farvegi og ollu miklu tjóni, einkum í Borgarfirði. Síðdegis í gær var flóðið í Norðurá orðið svo mikið, að Norðurárdalur líktist hafsjó. Flæddi áin langt út yfir farveg sinn, yfir engjar og sópaði heyjum, fénaði og öðru, sem fyrir var, burtu. Telja kunnugir menn, að þetta hafi verið langmesta flóð, sem komið hefir þarna að sumarlagi í manna minnum. Um kl. 4—5 síðdegis í gær var flóðið orðið svo mikið, að það flæddi yfir tvær brýr, sem voru á kvíslum úr Bjarnadalsá, undan Dalsmynni. Brýrnar fóru í kaf og sáu menn síðast, að önnur hafði sópast burtu, en hin hékk á öðrum endanum. Þetta voru steypubrýr, byggðar 1927. Við þetta tepptist öll umferð á Norðurlandsveginum og eins á veginum vestur i Dali. Bílar, sem koma norðan yfir Holtavörðuheiði teppast í Fornahvammi og bílar að sunnan komast ekki norður. Vegurinn í Norðurárdal fór mjög víða í kaf og er því hætt við, að skemmdir verði allmiklar á honum. Um allan Norðurárdal voru hey úti, sem fór í flóðið. Flatt hey sópaðist þegar burtu, en sæti stóð upp úr eins og smáeyjar hér og þar. Full vitneskja var ekki fengin um það, hve mikið tjón hefir orðið á heyjum bænda, en hætt er við að það hafi orðið stórkostlegt. Einnig búast menn við, að eitthvað af fénaði hafi lent í flóðinu. Í gærmorgun var margt fé á eyrum og hólmum til og frá, og var það að smátínast burtu þegar vöxturinn kom í ána. Hætt er við að féð hafi ekki getað synt til lands og hafi það því farist í flóðinu. Þetta var fé, sem var að koma af afrétti. Desey beitir smábýli í Norðurárdal og stendur það lágt. Flæddi allt í kring um það, svo bæjarhúsin stóðu eins og eyjar upp úr flóðinu.

Morgunblaðið segir enn af vatnavöxtum og flóðum 9.september:

Morgunblaðið átti í gær tal við ýmsar símastöðvar í Borgarfjarðarhéraði um hið dæmalausa flóð sem þar varð. Fer hér á eftir frásögn þeirra um flóðið og tjón það, sem af því hefir hlotist. Fornahvammi: Í vatnavöxtunum miklu hafa, brotnað fjórar brýr, sem menn vita um, tvær á Bjarnadalsá, ein rétt fyrir ofan Hvamm í Norðurárdal á Litlaá og ein lítil brú á farveg skammt fyrir ofan Fornahvamm. Munu þó bílar geta komist þar yfir. 

Geitabergi: Hér voru 4 bílar í nótt, tveir á norðurleið og tveir á suðurleið. Eru þeir tepptir, því að ekki er hægt að komast lengra en að Hraunsnefi norður á bóginn og vegurinn fyrir Hvalfjörð er ófær vegna þess að skriða hefir hlaupið á hann.

Dalsmynni: Flóðið hér í Borgarfirði stafar aðallega frá Norðurá, og hefir ekki komið annað eins flóð um þetta leyti árs í manna minnum. Allar smáár og lækir belgdust líka upp, og komu fossandi straumföll í giljum, sem vanalega eru þurr. Svo var flóðið mikið að dalurinn var allur eins og hafsjór. Skriða hljóp yfir bílveginn hér skammt fyrir framan, og sér nú ekki örla á hann á löngum kafla hér á milli og Hvamms. Í morgun kom hingað maður ríðandi frá Hvammi. Þræddi hann veginn af því að hann vissi hvar hann lá, en svo var aurinn víða mikill, að hann hélt að hesturinn ætlaði ekki að hafa sig fram úr honum, var sums staðar kviðhlaup þar sem áður var glerharður og rennsléttur vegur. Um tjón af vatnaflóðinu vita menn ekki svo gjörla enn. Heytjón hefir orðið mikið víða, t.d. skolaði flóðið burt 300 hestum af heyi á Hreðavatni og öðrum 300 hestum á Hraunsnefi. Eitthvað af fé hefir farist í flóðinu og voru menn þó í allan gærdag önnum kafnir við það að bjarga fé úr Norðurá. En í dag er farið að reka dautt fé upp úr ánni. Flóðið fór að minnka í morgun og hefir sjatnað mikið í dag. Um þessar mundir (kl.3) komu hingað 3 bílar að norðan. Höfðu þeir verið 11 saman, en 9 urðu að staðnæmast hér skammt fram í dalnum. Festist einn þeirra í aurnum og komst hvergi, og áræddu þá hinir ekki að halda lengra. Þessir þrír bílar, sem hingað eru komnir, snúa nú undir eins aftur, til þess að sækja ferðafólkið úr hinum bílunum.

Svignaskarði: Talið er, að um 3000 hesta af heyi hafi flóðið tekið eða jafnvel meira. Mestu heyskaðarnir eru í Munaðarnesi, Hlöðutúni, Arnarholti (um 500 hestar sem voru í sæti og flekkjum), Stafholti, Svarfhóli, Melkoti, Flóðatanga, Svignaskarði, Fróðhúsum, Sólheimatungu, Galtarholti, Eskiholti, Ferjukoti og Ferjubakka. Úr Norðurárdal hefir frést, að þar muni hafa orðið talsverðir fjárskaðar. Einn maður sá flóðið hrífa 17 kindur í einu. Aldrei í manna minnum hefir komið hér annað eins flóð um þetta leyti árs. Er það líkast flóðinu mikla, sem gerði um jólaleytið 1926. Í morgun byrjaði það þó að fjara, og er nú farið að örla á hæstu hóla á engjum, en annars var allt láglendi sem úthaf, alla leið frá Dalsmynni og að ármótum Norðurár, Gljúfurár og Hvítár. Flóðið hefir eigi aðeins valdið þeim skemmdum, að sópa burtu heyi bænda, heldur hefir það einnig eyðilagt engjar og bithaga, því að þar sem áður var mikill gróður, er nú aðeins aur og sandur, sem flóðið hefir borið fram yfir tún.

Stóra-Kroppi: Miklir vatnavextir hafa orðið hér, meiri en nokkur dæmi eru til áður. Urðu allar ár ófærar, en flóð urðu ekki svo að tjón hlytist af. Skriða hljóp á túnið á Gullberastöðum í Lundarreykjadal og mun hafa tekið af því sem svarar 10 dagsláttum.

Brúarfossi: Hér var aftakarigning í gær og kom gríðarvöxtur í allar ár og læki, en ekki hefir orðið af því tjón, svo að kunnugt sé. Vegir eru hér óskemmdir af vatninu, og hafa bílar verið á ferð fram og aftur í allan dag og ekki hindrast neitt. T.d. hafa vegamenn, sem voru áður hér fyrir vestan, verið að flytja tjaldbúðir sínar í dag hér suður fyrir, að Fíflholtum. Hafa þeir farið tvær ferðir, og segja að vegurinn sé ágætur.

Harrastaðir: Hér um slóðir hafa orðið afskaplegir vatnavextir, eins langt og spyrst, en samgöngur hafa verið litlar í dag, sennilega vegna þess að ár og lækir eru ófærir, og má því vera að ekki hafi enn frést um allt það tjón, sem af vatnavöxtunum hefir stafað. Þessir vatnavextir eru hinir mestu sem menn muna, og hafa víða eyðilagt engjar með aurframburði. Heyskaðar hafa orðið miklir víða, og er þó enn ekki vitað hve miklir þeir eru. Mestir hafa þeir orðið hér á Harrastöðum, Stóraskógi, Sauðafelli. Kvennabrekku, Kirkjuskógi, Kringlu og Snóksdal.

Til þess að fá sem gleggst yfirlit yfir tjón það, á brúm og vegum, sem vatnsflóðið olli, sneri Morgunblaðið sér til skrifstofu vegamálastjóra og fékk þar ýmsar upplýsingar um ástandið á vegunum út á landi. Vegamálastjóri er sjálfur í ferðalagi um Norðurland, en fulltrúi hans, Ásgeir Ásgeirsson frá Fróðá, lét blaðinu í té eftirfarandi upplýsingar:

Alvarlegastar skemmdir urðu á veginum í Norðurárdal í Borgarfirði. Þar fóru sem fyrr var frá sagt tvær steinbrýr, á kvíslum á Bjarnadalsá, undan Dalsmynni. Nálægt 20 metra vegarkafli, beggja megin brúnna sópaðist burtu í flóðinu. Einnig flæddi yfir þjóðveginn á ýmsum stöðum í Norðurárdal, sópaði flóðið burt slitlagi af veginum og vegköntum; einnig féllu skriður yfir veginn á köflum. Til marks um það, hvernig umhorfs var þarna, má geta þess, að önnur brúin á Bjarnadalsárkvíslinni var horfin með öllu og sáust hvergi leifar af henni. Af hinni brúnni sást aðeins annar stöpullinn. Þá sópaðist burtu brú af Litlaá hjá Hvammi í Norðurárdal. Hafði vatnið tekið brúna (steinsteypubrú) og svipt henni til hliðar fulla lengd sína og auk þess brotið stórt skarð í veginn. Á Hvítárbrautinni rann vatn yfir veginn vestan við brúna á Ferjukotssíki, og skolaði burtu ofaníburði og braut niður vegbrúnir. Þá hafði flóðið rofið nokkuð úr veginum hjá Hvítárvöllum á rúmlega 100 metra kafla. En efnið mun þó að mestu nothæft aftur, og er þegar byrjað að endurbæta veginn þarna. Á veginum inn fyrir Hvalfjörð urðu miklar skemmdir, einkum hjá Hvammi, innan við Reynivallaháls. Þar féllu tvö stór skriðuhlaup á veginn á löngum kafla, svo umferð tepptist algerlega. Einnig má búast við, að skriður hafi fallið úr Þyrilshlíðinni, og teppt veginn þar. Engar skemmdir urðu á brúnum á Brynjudals- eða Botnsá. Flokkur manna er nú kominn á vettvang til þess að ryðja skriðunum burt af veginum, svo leiðin geti opnast sem fyrst aftur.

Við Markarfljót. Þar var allt umflotið í vatni, og miklir erfiðleikar á að halda efni fyrir, úr vatnsflóðinu, svo sem timbri og öðru, sem nota þarf við mannvirkin þar eystra. En ekki hafði í gær orðið neitt verulegt tjón á mannvirkjum, hvorki á brúnni né varnargarði. Þó hafði byrjað að grafa frá einum stauraokanum undan Markarfljótbrúnni, en ekki virtist útlitið þannig, að óttast þyrfti frekari skemmdir.

Brúin á Klifanda í Mýrdal var fullgerð fyrir viku, en verið var að ganga frá uppfyllingu og vegi beggja megin brúarinnar. Í fyrrinótt kom feikna vöxtur í ána. Flæddi hún yfir alla aura og líktist hafsjó. Flóðið svipti burtu einum stauraokanum undir brúnni á ánni, og var brúin farin að síga um miðjan dag í gær, en þó ekki talið, að alvarleg hætta væri á ferðum. Einnig urðu skemmdir á uppfyllingunni austan brúarinnar. Hafursá í Mýrdal olli einnig nokkru tjóni á bráðabirgðabrúm þeim, sem á henni eru. En þetta eru smábrýr og tjónið smávægilegt.

Eftir símtali við Vík. Um klukkan 10 í gærkvöldi féll stórkostlegt skriðuhlaup úr brekkunni ofan við kauptúnið í Vík í Mýrdal. Féll skriðan yfir heyhlöður og gripahús og keyrði allt á kaf. Sum íbúðarhús voru í hættu, en sakaði þó ekki og ekkert manntjón varð. Tvær kýr voru í fjósi einu, sem skriðan hljóp yfir og tókst að grafa aðra lifandi upp úr hlaupinu; hún stóð fast inn við gaflað og hafði það hlíft henni. Hin kýrin var dauð þegar hún náðist. Steinsteypubrú er verið að byggja á Deildará í Mýrdal; en vatnsflóð var svo mikið í ánni í gær, að talið var að brúin væri í alvarlegri hættu. Stór skriða hljóp á nýja veginn hjá Fagradal í austur Mýrdal og tók af veginn á kafla.

Ellefu bílar, með nær 80 farþega komu suður yfir Holtavörðuheiði í gærmorgun. Bílarnir héldu allir áfram frá Fornahvammi, þrátt fyrir flóðið í Norðurá, og ætluðu að halda eins langt niður eftir Norðurárdalnum og þeir kæmust. Þrír bílarnir komust alla leið að Dalsmynni, en hinir urðu að snúa við og festust sumir í torfærum um 5 km. frá Dalsmynni. En bílarnir, sem komust yfir torfærurnar, selfluttu alt fólkið að Dalsmynni. Frá Dalsmynni varð fólkið svo að fara á hestum að Hraunsnefi. Var þeim selflutningi lokið um kl. 7 1/2 í gærkvöldi. Bílar úr Borgarnesi fluttu síðan fólkið niður í Borgarnes og þangað kom það um kl.9 í gærkvöldi. Suðurland var í Borgarnesi í gær og beið þar í nótt, en ætlaði að leggja á stað hingað kl.7 árdegis í dag.

Alþýðublaðið segir einnig af rigningum og flóðum 9.september:

Undanfarna daga hefir rignt hér sunnan og vestan lands meir en dæmi eru til í langan tíma. Vatnsmagnið sem úr loftinu hefir komið er alveg yfirgengilegt. Frá því kl.8 í gærmorgun rigndi t.d. í Vík í Mýrdal 150 mm, en það samsvarar 150 lítrum á hvern fermeter, eða 150 þúsund tonn af vatni á hvern ferkílómeter. Það eru nokkrir skipsfarmar á einum sólarhring og von að eitthvað verði undan að láta slíku vatnsmagni. Á Sámsstöðum í Fljótshlíð rigndi síðastliðinn sólarhring 76 mm, á Hæli í Eystri-hrepp 65 mm og í Hveradölum 49. Síðan í byrjun september hefir rignt 154 mm á Sámsstöðum, en 150 mm allan september í fyrra. Rigning hefir verið lítil á Norðurlandi, mest við Húnaflóa, en engin rigning á Austurlandi, en hiti og blíða dag hvern, og þannig hefir verið í allt sumar.

Morgunblaðið segir enn af flóðum 10.september:

Morgunblaðið átti í gær tal við Gísla Sveinsson sýslumann í Vík og fékk hjá honum nánari upplýsingar um skemmdir af vatnagangi í Mýrdal. Eins og frá var skýrt í blaðinu í gær, kom skriðuhlaup mikið úr brekkunni fyrir ofan Víkurkauptún. Hlaupið fór yfir tvær heyhlöður, fjós og 2 hesthús. Hlöðurnar voru fullar af heyi, sem ýmsir þorpsbúar í Vík áttu, og er það meira eða minna eyðilagt af vatni. Víða urðu skemmdir á brúm og vegum í Mýrdal. Smábrú tók af Suðurkeldu, sem er skammt frá Vík. Einnig tók brú af Fosslæk (á sýsluvegi suður í Reynishverfi). Víkurá braust skarð í veginn rétt hjá brúnni við Víkurkauptúnið. Einnig brotnaði stykki úr veginum á Gatnabrún. Á nývirkjum, vegum og brúm, í Mýrdal urðu allmiklar skemmdir. Á nýja veginum inn úr brekkunni austari við Fagradal, sem var mikið mannvirki, urðu miklar skemmdir. Braut þar stórt stykki úr veginum á 20 metra kafla, en vegkanturinn var þarna 6-7 metra hár. Rafmagnsstöðin í Fagradal var hætt komin í hlaupinu, en hana sakaði þó ekki. Nokkuð innar í Fagradalsbrekkum urðu einnig skemmdir á nýja veginum, því að Kerlingardalsá flæddi þar upp á veginn og tók stykki úr honum á ca. 20 metra löngum kafla. Heldur áin áfram að brjóta þarna úr veginum. Nýlega var byrjað á uppfyllingu við fyrirhugað brúarstæði á Kerlingardalsá, vestur af Kerlingardal. Áin tók um 10 m stykki af þeim garði og sópaði burtu. Við Deildarárbrúna sem er í smíðum, urðu talsverðar skemmdir. Var búið að steypa stöpla beggja megin og lokið að ganga frá steypumótum yfir. En áin braust fram fyrir vestan og skekkti nokkuð vestari brúarstöpulinn. Miklar skemmdir urðu á hinum nýju mannvirkjum hjá Hafursá og Klifanda. Garðurinn mikli hjá Stórhöfða, sem á að veita Hafursá vestur í Klifanda var ekki fullgerður. En áin hljóp á garðinn og braut af honum 10—12 metra stykki. Garður þessi er þegar orðinn um 800 metrar á lengd, svo tjón þetta er ekki stórvægilegt enn þá. Tvær bráðabirgðabrýr eru á Hafursá á þjóðveginum. Áin sópaði burtu annarri brúnni, en hin marar í kafi. Við brúna á Klifanda urðu allmiklar skemmdir, bæði á brúnni sjálfri og uppfyllingum við brúna. Einn stauraokinn undir brúnni (sá næst vestasti) sópaðist burtu og einnig gróf frá, tveim næstu undirstöðunum. Brúin hefir sligast talsvert og riðar öll þegar farið er yfir hana. (Þessi brú er byggð úr gegndreyptu timbri og er 100 metrar á lengd). Einnig urðu talsverðar skemmdir á görðum eða uppfyllingum beggja megin brúarinnar. Áin braut skarð í garðinn vestan við brúna. Var stórum björgum hlaðið þar á garðinn, en áin sópaði þeim burtu og eru þau horfin. Til marks um flóðið í Klifanda og þeim ám sem í hana renna, Holtsá og Lambá, má geta þess, að á föstudag braust aðalvatnið úr Klifanda fram vestan við Pétursey, og var einn hafsjór alla leið frá Pétursey vestur að Sólheimanesi. Maður fór þarna yfir þennan dag og skall vatnið yfir hest hans. Þrátt fyrir þetta var vatnið austan megin (í Klifandafarvegi) svo mikið, að farvegurinn undir brúnni fylltist og meira en það, því að áin braut skarð í garðinn vestan við brúna. Er af þessu sýnilegt, að brúin á Klifanda þarf að vera lengri en hún nú er, og væri best að lengja hana nú þegar. Skriður og jarðhlaup urðu víða í Mýrdal og ollu talsverðu tjóni á túnum, girðingum og beitarhögum. Austan Mýrdalssands mun ekki hafa orðið neitt tjón af vatnsflóðum, svo vitað sé. 

Ölfusárbrú í gær: Morgunblaðið átti tal við fréttaritara sinn hjá Ölfusárbrú í gær og sagðist honum svo frá: Mikill vöxtur hefir hlaupið í Ölfusá og Hvítá, og er Ölfusá allt vatnsmikil, að hún lá með löndum hér, var í fossandi streng við neðri brúarstöpulinn og náði upp að túnjaðri við klettana hjá Selfossi. Símon á Selfossi, sem búið hefir þar lengi, segir að í sínu minni hafi aldrei komið annað eins hlaup í ána á þessum tíma árs, og gamlir menn, sem hann hafi talað við í æsku, hafi alls ekki getið um svo mikið hlaup. Það liggur nú við að áin fari að flæða upp á bakkana hérna. Gistihúsið Tryggvaskáli stendur einna lægst allra húsa í þorpinu og næst ánni. Í gærkvöldi var áin orðin svo mikil að Guðlaugur Þórðarson veitingamaður bjóst við því að hún mundi ná húsinu áður en varði. Þorði hann því ekki að ganga til rekkju í nótt og hafði flutningabíl viðbúinn þar hjá húsinu alla nóttina til að bjarga innanstokksmunum og fólki ef á lægi. Í gær um hádegi var kominn svo mikill vöxtur í Hvítá að hún var farin að flæða yfir Skeiðin. Varð flóðið mest í fyrstu hjá Útverkum, og sá Bjarni bóndi þann kost vænstan að flýja heimilið með fólk sitt allt, og fara upp að Fjalli. — Kúnni vildi hann bjarga, en flóðið var orðið svo mikið, að hann varð að gera brú til þess að koma henni frá bænum, og var það með naumindum að það tókst að koma kúnni lifandi að Fjalli. Engar fréttir hafa borist ofan af Skeiðum í dag, en þegar seinast fréttist var Hvítá enn að vaxa og búist við því, að hún mundi hlaupa þar víða yfir, og valda tjóni á heyjum. Talið var víst, að öllu því heyi, sem Bjarni í Útverkum átti úti, mundi hún hafa sópað burtu. Maður, sem skrapp austur í Ölfus í gærmorgun, hermir svo frá að Ölfusá hafi flætt þar svo yfir, að af Kambabrún sé hún tilsýndar eins og úthaf. Hún hefir flætt allt um kring Arnarbæli, svo að það er eins og eyja í útsæ, og verða menn að fara þaðan á bátum til þess að komast til næstu bæja. Bíl, sem kom ofan af Skeiðum hitti maðurinn, og sagðist ferðafólkinu í bílnum svo frá, að þegar það lagði á stað, hefði Hvítá verið að hlaupa yfir alt láglendið og bændur verið önnum kafnir við að bjarga fé sínu, á þann hátt, að þeir ráku það af láglendinu upp á hóla og hæðir.

Í gær var fenginn bátur til þess að flytja efni í bráðabirgðabrýr árnar í Norðurárdalnum, í stað þeirra er flóðið tók. Verður hraðað sem mest að koma brúm á árnar og er búist við, að því verði lokið á þriðjudag eða miðvikudag. Unnið hefir verið af kappi að því, að moka skriðum af Hvalfjarðarveginum, og er búist við að Hvalfjarðarvegurinn verði fær í dag. En í fyrrinótt kom ný hindrun á þessari leið. Andakílsá braust úr farvegi sínum og rauf skarð í veginn sunnan við brúna og þar rann hún fram. Varð þar alófært fyrir bíla. Í gær var byrjað að teppa í skarð þetta. Í Norðtungu misstust 30—40 hestar af heyi í flóðinu mikla.

Frá Dalsmynni var blaðinu símað í gær, að ár hefðu þar fjarað allmikið, en ekki þó svo, að bílar kæmust yfir Bjarnadalsá (kvíslarnar). Við Markarfljót varð ekkert verulegt tjón af vatnaflóðinu, aðalvatnið var í Álunum og rann mikið utan við brýrnar, svo að ófært var fyrir bíla.

Morgunblaðið segir enn af flóðatjóni 12. september:

Það er nú komið á daginn, að tjónið í Mýrdal af völdum vatnsflóðsins hefir orðið enn stórkostlegra en menn vissu um í fyrstu, því að jökulhlaup hefir komið í Jökulsá á Sólheimasandi og valdið þar miklu tjóni. Blaðið átti í gær tal við Gísla Sveinsson sýslumann í Vík, og fékk hjá honum eftirfarandi upplýsingar um hlaupið í Jökulsá: Eigi verður sagt um það með vissu hvenær þetta hlaup í Jökulsá hefir komið, en sennilega hefir það verið á föstudag [8.] eða laugardag, eða aðfaranótt laugardags. Enginn var á ferð á þessu svæði þessa dagana, vegna þess að samgöngur voru tepptar bæði austur í Mýrdal og einnig undir Eyjafjöllum. Það var Brandur Stefánsson bílstjóri frá Litla-Hvammi, sem kom fyrstur að Jökulsá eftir hlaupið. Hann var að koma í bíl vestan frá Seljalandi undir Eyjafjöllum. Þetta var á laugardag. Var hann mest allan daginn að brjótast austur með Eyjafjöllum; allar sprænur voru fullar og gekk því erfiðlega að komast yfir þær. Bakkakotsá hafði til dæmis brotið skarð í uppfyllinguna vestan við brúna. Um dimmumótin á laugardagskvöld komst Brandur loks að Jökulsá á Sólheimasandi. En þegar þangað kemur verður fyrir honum stórt vatn, vestan við brúna. Hann fer að kanna vatn þetta, veður út í það, en það er óvætt. Snýr hann þá við á bílnum og fer heim að Eystri Skógum. Næsta morgun (sunnudag) fer Brandur aftur austur að Jökulsá og með honum Vigfús bóndi Ólafsson í Skógum, sem er allra manna kunnugastur Jökulsá. Þegar þeir koma að ánni, sjá þeir að stórkostlegt hlaup hafði komið í Jökulsá. Hafði áin flætt yfir allar eyrar, aldanna á milli og voru jakahrannir til og frá, alla leið frá jökli og fram í sjó. Af verksummerkjum þeim, sem þarna voru, var Vigfús bóndi í Skógum þess fullviss, að þetta muni hafa verið eitt hið mesta hlaup sem komið hefir í Jökulsá í manna minnum. Stór áll úr Jökulsá rann fyrir vestan brúna; var hann riðinn á sunnudag og skall á bóghnútu. Í hlaupinu hefir áin brotið uppfyllinguna við brúarstöpulinn að vestan á ca. 8 metra löngum kafla. Þar var þó orðið þurrt á sunnudag. Þá hafði einnig í hlaupinu grafið undan einum brúarstöplinum — þeim þriðja að austan — og hafði stöpullinn við það sigið um ca. 1/2 meter og brúin svignað á kafla að sama skapi. Samgöngur teppast nú algerlega yfir Jökulsá, því að þar er alófært yfirferðar fyrir bíla. Og hætt er við að állinn fyrir vestan brúna, verði erfiður viðureignar, því að hann er mikið niður grafinn. — Takist ekki að teppa ál þenna og veita honum undir brúna, getur hann algerlega stöðvað samgöngur þarna, og verður þá að setja bráðabirgðabrú yfir hann. Jökulsárbrúin var byggð árið 1920, og er mikið og rammgert mannvirki. Stöplar allir eru úr steinsteypu, en brúin sjálf úr járni. Brúin er 210 metrar á lengd og kostaði um 1/4 milljón króna, enda var hún byggð þegar dýrtíðin var mest hér. Oft hafa komið hlaup með jakaframburði í Jökulsá síðan brúin var byggð, en aldrei sakað brúna fyrr en nú.

Frá Þjórsárbrú er símað til FB.: Í öllum ám og lækjum er óvenjulega mikið, en nú er þurrt veður og minnkar vatnsmagn því víðast óðum. Flestir eru hættir slætti fyrir viku, eða þar um bil, vegna ótíðar, en margir eiga mikil hey úti, og er hætt við, að mest af því verði lítils nýtt, eða jafnvel ónýtt.

Morgunblaðið segir smáfrétt frá Siglufirði 13. september - og enn af Jökulsá á Sólheimasandi:

Siglufirði, FB. 12. sept. Tíð hefir verið ágæt, en er nú að kólna og snjóaði dálítið í fjöll í nótt. Krapaél gerði í morgun. Heyfengur hefir verið með besta móti.

Jökulsárbrúin á Sólheimasandi er talin fær, þó ekki bílum, vegna þess að vegurinn að henni að vestan var rofinn og þarf að gera trébrú þar yfir. Kvíslin, sem myndaðist þar fyrir vestan, er nú orðin vatnsminni en hún hefir verið.

Morgunblaðið 15.september:

Stórrigningu gerði hér í fyrrakvöld [13.] og helst hún alla nóttina. Oft hefir nú þótt rigna sæmilega hér í Reykjavík á þessu sumri, en þessi rigning var langmest. Stórir pollar voru víða um bæinn í gærmorgun, og hækkað hafði gífurlega vatnið í Tjörninni. [Úrkoman að morgni þess 14. mældist 27,0 mm og að morgni þess 15. 16,6 mm til viðbótar]. 

Morgunblaðið segir af óþurrkum 17.september:

Óþurrkarnir hér um slóðir hafa verið mikið áhyggjuefni manna í sumar. Yfirlit um tjón á heyafla manna, vegna þeirra er ekki fáanlegt. Meiri verðmæti eru í húfi þar sem fiskurinn er. En þar horfir að því leyti öðru vísi við, en með heyin, að fiskurinn saltaður verst skemmdum í húsi, þó dragist að fá á hann þurrk. Skemmdir á fiskgæðum af völdum úrkomu því þær einar orðið, þegar úrfelli hafa komið á þurrkdögum, og „komið ofaní“ fiskinn. Þetta mun hafa, átt sér stað einum tvisvar sinnum í allstórum stíl hér í Reykjavík og nágrenni. Fyrir rúmlega mánuði síðan átti blaðið tal við Jón Magnússon yfirfiskimatsmann um fiskþurrkinn. Þá voru horfurnar þessar: Hægt var að þurrka þann fisk sem hér var óþurrkaður á 14 þurrkdögum, og gætu þurrkhúsin þurrkað afganginn frá hausti og fram til áramóta. Síðan hafa komið 6—7 þurrkdagar. Er þá eftir að fá viku þurrk til þess að þurrkhúsin geti tekið það sem eftir er.

Í sumar birti blaðið ummæli Árna G. Eylands um nokkrar búnaðarframfarir síðustu ára, þar sem hann minnist á, hve notkun heyvinnuvéla hafi farið í vöxt upp á síðkastið. Ákaflega verður heyskapur bænda viða um land mikið ódýrari og framleiðsla þeirra þar sem hægt er að koma vélum við við heyskapinn. Væri mjög fróðlegt að safna um það skýrslum frá bændum sjálfum, þar sem þeir tilgreindu hver fyrir sig hve mikinn heyafla þeir hafa fengið eftir heyskaparfólk sitt, vélar og hesta. Hér áður var það talin meðal eftirtekja er 200 hestar fengust að meðaltali eftir karl og konu, er við heyskap voru. Nú tvöfalda og þrefalda ýmsir bændur þetta gamla meðaltal, og meira til, þar sem best er.

Morgunblaðið segir af Hvalfjarðarveginum 19.september - og síðan tjóni á vegum og brúm:

Þá er Hvalfjarðarvegurinn. Við erum horfnir frá því, segir vegamálastjóri, að hugsa um ferju á Hvalfjörð. Einlægara er að gera veginn alla leið. Vegalengdin frá brautarendanum hjá Eyri, og allt að Þyrli, eru 29 km. Nú er þetta tveggja tíma ferð í bíl. Á góðum vegi yrði þetta aðeins þriggja stundarfjórðunga akstur. Versti kaflinn er brekkan hjá Hálsi. Talið er, að vegagerðin frá Eyri og inn að Hvammsvík kosti um 90 þús. kr. og er þá komið yfir versta kaflann. Áætlun um vegagerðina inn fyrir fjörðinn er ekki gerð enn. Að þessum tveim vegarköflum frátöldum, er lakastur vegur á vestanverðu Vatnsskarði, frá Bólstaðarhlíð, og austur í mitt skarðið. Öxnadalsheiðin verður frekar látin bíða. Vegurinn á henni er sæmilegur, enda ekki eins mikil umferð um Norðurlandsveginn þegar svo langt er komið.

Samkvæmt lauslegu yfirliti, er gert hefir verið, á tjóni því, sem varð á vegum og brúm í flóðunum um daginn, er talið, að tjónið hafi alls numið 50—60 þús. kr. á mannvirkjum þessum, segir vegamálastjóri. Hefir hann skýrt blaðinu frá ýmsum ráðstöfunum, er gerðar hafa verið og gerðar verða vegna skemmdanna. Á Norðurlandsveginum kvað mest að brúarskemmdunum á Bjarnadalsá. Brýr voru þar tvær, sem kunnugt er. Önnur brúin sveiflaðist af stöplunum, og sentist á hvolfi 15—20 metra niður eftir ánni, og grófst þar í aur, en stöplarnir steyptust niður í hyl, sem áin gróf á brúarstæðinu. Hin brúin lafir á öðrum stöplinum. Verður hægt að lyfta þeim enda, er niður féll, og gera nýjan stöpul undir þann endann. En viðbúið er, að lengja þurfi brúna um leið. Á Litluá hjá Hvammi þarf að gera nýja brú nokkru lengri en brúin, var, sem tók af í flóðinu. Er óvíst enn hvort ráðist verður í þessar brúarsmíðar í haust. Ef því verður frestað til vors, þarf að styrkja þær bráðabirgðabrýr, er gerðar hafa verið á ám. Jökulsá á Sólheimasandi gerði talsverðan usla, eins og kunnugt er. Fór kvísl úr henni vestur úr farveginum fyrir ofan brúna, og fyrir endann á fyrirstöðugarði þeim, sem þar er gerður. Rann kvísl þessi innan við garðinn og gróf sig gegnum veginn, sem liggur upp á brúna, rétt vestan við brúarsporðinn. Auk þess seig einn brúarstöpullinn nokkuð. Að athuguðu máli, verður auðvelt og kostnaðarlítið, að lyfta brúnni, þar sem hún seig með stöplinum, hækka stöpulinn, og koma brúnni þannig í samt lag. Pall er nú verið að setja yfir skarðið í veginn við brúarsporðinn, og önnur bráðabirgðabrú verður sett á kvísl, sem enn rennur vestur úr þessari útbrotakvísl úr ánni. Síðan verður hlaðið í þessa kvísl, svo áin falli öll í sinn gamla farveg. Verða aðgerðir þessar ekki sérlega kostnaðarsamar. Vegna reynslu þeirrar, sem nú fékkst, um vatnavexti í Klifanda, verður Klifandabrúin lengd. Hún var því nær fullgerð, er hlaupið kom um daginn. Hún átti að verða 100 metrar á lengd. Brúaropið fylltist nær alveg, og þó rann helmingur árinnar vestan Péturseyjar, meðan á flóðinu stóð, en eyrarnar allar austan Péturseyjar voru einn vatnsflaumur austur undir Steigarháls. Hafursá á að veita í Klifanda. Skemmdi sú á talsvert aðstöðuna til fyrirhleðslunnar, gerði hana kostnaðarsamari. Þó verður haldið við fyrra áform í því efni. Klifandabrúin hangir uppi, þó einn stauraokinn færi undan brúnni í flóðinu. Okann rak á land, skammt neðan við brúna. Hann verður settur í samt lag á sinn stað aftur. Bakkakotsáin undir Eyjafjöllum gróf sig nokkuð inn í veginn vestan brúarinnar, og er sennilegt að horfið verði að því að lengja brúna nokkuð, 10—20 metra, en hún er nú um 30 metrar á lengd. Í flóði þessu breyttust farvegir á Mýrdalssandi þannig, að alt jökulvatnið hefir nú aftur lagst í Múlakvísl, en horfið úr Leirá, og Þverkvíslum, en þær ár hafa frá því snemma í sumar teppt alla bílaumferð um austurhluta Mýrdalssands.

Morgunblaðið segir enn af Jökulsá á Sólheimasandi 27.september:

Samgönguteppan við Jökulsá. Eins og skýrt hefir verið frá hér í blaðinu tepptust samgöngur við Jökulsá á Sólheimasandi í hlaupinu sem kom í ána á dögunum. Var þegar hafist handa til að gera hér bráðabirgðabót á, svo að bílar kæmust yfir. Bráðabirgðabrú var sett á ál þann, sem braust fram vestan aðalbrúarinnar. En í rigningakastinu á mánudaginn [25.] var og þriðjudagsnótt kom enn mikill vöxtur í Jökulsá og sópaðist þá bráðabirgðabrúin burtu, að því er fregn frá Vík í gær hermir. Nákvæmar fregnir voru ekki komnar í gær af þessu, þar eð bílstjóri sá, sem ætlaði vestur yfir Jökulsá var ókominn til Víkur. Verður nú sennilega reynt að setja traustari bráðabirgðabrú yfir álinn, en annars er ætlunin að hlaða fyrir álinn og veita honum undir aðalbrúna.

Vesturland (Ísafirði) segir 27. september af ferð yfir Ófeigsfjarðarheiði:

Fimmtánda f.m. [ágúst] fóru þeir bræðurnir Þórður Kristjánsson húsm. hér og Ólafur Kristjánsson húsm. á Fæti við Seyðisfjörð frá Hraundal í Nauteyrarhreppi til Ófeigsfjarðar í Strandasýslu, yfir Ófeigsfjarðarheiði. Vegurinn liggur yfir suðursporð Drangajökuls, eins og hann var áður. En nú er enginn snjór á leið þessari, nema í laut einni vestan til á fjallgarðinum; var þar skaflbrot lítið ummáls, um 1 1/2 m á hæð í þykkri röndina. Hjá skaflinum lágu leifar af hrossskrokk og sást greinilegur háralitur á sumum tætlunum. Þegar þeir bræður komu til Ófeigsfjarðar höfðu þeir orð á fundi sínum við Pétur bónda þar. Sagði hann að vera myndu um 30 ár síðan hestur þessi hefði farist í jökulsprungu, eftir lýsingu þeirra bræðra á lit hestsins að dæma. Sannaðist að þetta var rétt, því síðar komu þeir bræður í Reykjarfjörð í Strandasýslu og kannaðist Ólafur Thorarensen bóndi þar strax við, að hafa misst hestinn í jökulsprungu fyrir réttum 30 árum. Var Ólafur þá ásamt fleira fólki á leið frá Ármúla á Langadalsströnd til Reykjarfjarðar. Sprakk þá jökullinn svo, að fólkið varð statt eins og á eyju og bjargaðist með naumindum yfir sprungurnar, en 3 hestarnir féllu í jökulsprungur. Varð 2 bjargað, en ómögulegt reyndist að bjarga þeim þriðja, þrátt fyrir ítarlegar tilraunir, því sprungan var þröng og svo djúp, að langt á 4. mannhæð var niður að hestinum, sem karlmennirnir, er í förinni voru, líflétu með svæfingu. Þeir bræður sáu hvergi snjó á vesturhluta fjallgarðsins annan en skaflbrot þetta og var þó skyggni gott. Jóni Eyþórssyni veðurfræðingi hefir verið send skýrsla um hrossfundinn, sem er merkilegt sönnunargagn um það, hve jökullinn hefir bráðnað mikið á þessum slóðum síðustu áratugina. Eru alltaf að koma ný fell og hæðir upp úr aðaljöklinum og undirjökullinn í Kaldalóni og Leirufirði hefir eyðst stórlega. (Frásögnin um atburð þennan ei tekin eftir Þórði Kristjánssyni).

Morgunblaðið segir af heyskap og fleira 3.október:

Heyskapur í sveitum Vestanlands varð í sumar mikill og nýting ágæt. Töðufengur varð víða um 20 hestar af dagsláttu í einum slætti, sums staðar meiri. Seinni sláttur varð nærri jafngóður á sumum bæjum. Víðast var slegið lítið á engjum.

Siglufirði 2. okt. FB. Tíð var mjög hagstæð hér nyrðra í september. Hlýindi óvanaleg síðari hluta mánaðarins. Oft 15 stiga hiti. Nú nokkru kaldara. Talsvert frost í nótt-

Áin Klifandi í Mýrdal hefir nú gerlega yfirgefið sinn fyrri farveg; brýst hún nú fram fyrir vestan Pétursey og flæðir þar til og frá, ýmist austur við Pétursey eða vestur með Sólheimanesi. Gerir áin hin mesta usla þarna, og hindrar bílasamgöngur þegar vöxtur er í henni. Að því er elstu menn í Mýrdal herma mun Klifandi ekki í síðustu 70—80 ár hafa runnið fyrir vestan Pétursey. Verður nú reynt að veita ánni austur fyrir aftur, því þar var hún brúuð í sumar. Mun illmögulegt eða ókleift að brúa hana fyrir vestan Pétursey, því að þar hefir hún engan ákveðinn farveg.

Veðurathugunarmenn segja af októbertíð: 

Lambavatn: Það hefir verið fremur votviðrasamt en kuldalítið. Enginn snjór komið enn teljandi sé, fjöll eru nú fremur grá en hvít.

Suðureyri: Óstöðugt og órólegt. Kuldakast með snjókomu um miðjan mánuðinn. Gæftafátt. Óhagstætt.

Sandur: Tíðarfar í meðallagi. Norðanátt var fremur tíð, en sjaldan grimm. Þann 15. gerði stórhríð með töluverðri snjókomu og fennti þá sumstaðar fé í Þingeyjarsýslu, en náðist aftur lifandi eftir hlákuna þ.18. og 20. Sett hefir niður allmikinn snjó til fjalla.

Nefbjarnarstaðir: Tíðin góð fram um miðjan mánuð, eftir það fremur kalt og umhleypingasamt. Snjókoma lítil.

Sámsstaðir: Tíðarfarið mjög óstöðugt svo að segja allan mánuðinn. Úrkoma með allra mesta móti og frekar köld tíð, þó átt væri oftast suðlæg.

Reykjanesviti: Yfirleitt góðviðri miðað við árstíð. Oft milt og kyrrt veður. Rigningasamt nokkuð, en sennilega lítið meira en meðallag.

Morgunblaðið segir af veðri 8.október:

Vikan hófst með kyrru og björtu veðri um allt land. En þegar á mánudag [2.] gekk vindur til suðurs með mikilli rigningu á Suður- og Vesturlandi, en varð svo vestlægur næstu tvo daga. Á fimmtudag [5.] og aðfaranótt föstudags náði norðanátt sér um allt land með nokkurri úrkomu nyrðra, rigningu eða slyddu og sumstaðar snjókomu, enda var víða dálítið frost aðfaranótt laugardags.

Morgunblaðið segir af aftakaveðri á Siglufirði 10.október:

Siglufirði, mánudag. Fréttaritari Morgunblaðsins símar á þessa leið: Aftakaveður af norðaustri gerði hér seinni hluta sunnudags [8.]. Stóð það látlaust alla nóttina og fram á dag, en er nú heldur farið að lægja. Bátar höfðu allir róið í gærmorgun, því að afli er góður, en flestir þeirra náðu landi áður en veðrið var upp á hið versta, Um háttatíma vantaði þó tvo báta, en þeir náðu landi heilu og höldnu, annar um tólfleytið og hinn um eittleytið. Bátarnir höfðu veitt vel. Tiltölulega litlar skemmdir hafa orðið af veðrinu. Þó fauk þak af nýlegri trésmíðavinnustofu og ýmsar minni skemmdir urðu á húsum. Vélbát sleit frá bryggju og rak bann inn á Leiru, en náðist óskemmdur í dag. Uppmokstursskipið „Ida“ slitnaði upp og rak það inn á Leiru. Er það komið þar hátt upp og liggur á hliðinni. Talið er að það muni óbrotið og takast muni að koma því aftur á flot. Dettifoss kom hingað í gærkvöldi og varð að leggjast við festar úti í firði og komst ekki að bryggju fyrr en í dag. Flutningaskipið Bro lá við hafnarbryggjuna og sakaði það ekki, en einhverjar lítilsháttar skemmdir mun það hafa gert á bryggjunni.

Morgunblaðið segir af óstilltri tíð 17.október:

Veðrátta hefir verið mjög óstillt og illviðrasöm. Á sunnudaginn [8.] var austanrok við suðurströndina, en gekk síðan í norðaustanátt er helst fram á miðvikudag [11.]. Snjóaði þá dálítið norðan lands. Á fimmtudag var hægviðri, en á föstudag [13.] gekk á ný í norðanhvassviðri vegna lægðar, sem fór austur yfir landið. norðanáttin stóð þá aðeins skamma stund og gekk á ný í austanhvassviðri í gær með regni suðvestan lands en bleytuhríð nyrðra.

Morgunblaðið segir af fannkomu 18.október:

Í sunnudagshríðinni [15.] kyngdi niður miklum snjó fyrir norðan. Í Þingeyjarsýslu fennti fé og margt er ófundið. Bíll, sem kom að norðan í gær, segir mikla ófærð á Öxnadalsheiði og Holtavörðuheiði.

Morgunblaðið segir af veðri vikunnar í pistli 22.október:

Á sunnudaginn [15.] var gerði norðanhvassviðri um allt land. Var stórhríð á Norðurlandi um kvöldið með 2—3 st. frosti, en lygndi og birti upp þegar á mánudag. Á þriðjudagsmorgun var aftur komið suðaustanrok á Suðvesturlandi og var austanhríðarveður norðanlands, þegar leið á daginn. Á miðvikudag [18.] gerði þíðviðri á Suður- og Austurlandi, en á Norðvesturlandi hélst norðaustan hríðarveður fram á fimmtudag, en lygndi þá. Á föstudagsmorgun gerði sunnanátt með mikilli rigningu og 8-10 stiga hita um allt land. Á laugardag gekk til vestanáttar og kólnaði niður undir 0 stig á Vestfjörðum og Norðurlandi.

Morgunblaðið ræðir sumartíðina 26.október:

Á veturnóttum. Tíðarfar og grasnytjar. Sumarið, sem nú er að enda, hefir verið okkur mjög hagstætt með veðráttufar. Mátti heita óslitin veðurblíða frá því rétt um sumarbyrjun og fram yfir höfuðdag. Reyndar mátti heita fremur votviðrasamt og varð grasvöxtur óvenjumikill, einkum á harðlendi. Mun slík grasspretta og hér var almenn á túnum og sáðsléttum vera alveg einstök. T.d. var mælt gras á sáðsléttu í Holti í Önundarfirði 20. júlí síðastliðinn og reyndist það 125 cm. hátt. Þrátt fyrir votviðrin varð nýting heyja almennt góð, því á milli votviðriskaflanna komu góðir þurrkdagar, svo flestir náðu heyjum sínum óskemmdum eða lítt skemmdum. Garðávextir hafa sprottið með allra besta móti og garðyrkjan aukist mikið síðari árin, einkum kartöflurækt. 20. ágúst s.l. var ein kartafla tekin upp úr garði Sigurjóns Pjeturssonar á Þingeyri, er vóg 375 gr.

Morgunblaðið segir af veðri vikunnar 29.október:

Vikan sem leið var fyrsta vetrarvikan að þessu sinni og má yfirleitt segja að hún hafi verið stilltari og þurrviðrasamari heldur en undanfarnar sumarvikur. Fyrstu þrjá dagana var hœg norðanveðrátta. — Snjóaði lítils háttar norðan lands. Á miðvikudag [25.] kom lægð vestan yfir Norður-Grænland og gerði hún allhvassa vestanhláku hér á landi. Síðan færðist lægðin suðaustur eftir og olli norðangarði hér austanlands og alla leið suður um England og Frakkland. Vestan lands varð lítið úr norðangarðinum og hefir verið þurrt og bjart veður síðan á fimmtudag [26.].

Veðráttan segir að þann 14. október hafi bát slitið upp á Patreksfirði. Rak hann yfir  fjörðinn og brotnaði. Þann 18. fórst vélbátur úr Bjarnareyjum á Breiðafirði og með honum þrír menn.

Veðurathugunarmenn segja af tíð í nóvember:

Lambavatn: Það hefir verið óslitin frostleysa og snjólaust jafnt á fjöllum sem í byggð. Nú sést hvergi snjór hér í fjöllum fremur en um hásumar. Hvergi farið að hýsa fé eða taka inn lömb. Heiðlóur eru enn að flækjast hér og er það víst óvanalegt um þennan tíma árs. Rigningar hafa verið miklar og breytileg tíð.

Suðureyri: Óvenjuhlýtt. Lengst af autt upp á fjallatinda og heiðar reiðfærar. Mjög óstöðugt. Votviðrasamt nokkuð.

Grænhóll (Níels Jónsson): Rok 3. nóvember síðdegis. Bylhnútur ruddi til 5 tonna nótarbát og setti hann á árabát og braut hann. Einnig brotnuðu þá rúður í húsum og fleiri smáskemmdir. Rok 17. nóvember. Þá fuku 2 smábátar hér og brotnuðu lítilsháttar báðir, einnig braut þá víða rúður í húsum og lá við meiri skemmdum. ... Sóleyjar og fíflar voru óteljandi á hlýjum stöðum fyrri part mánaðarins og stöku sóley sást nú um mánaðamótin. Fjöll voru að verða alauð um mánaðamótin.

Sandur: Tíðarfar mjög gott, hlákur og hlýindi. Jörð auð lengst af. Leysti ís af ám og vötnum í lok mánaðarins. Fjöll með snjóminnsta móti.

Nefbjarnarstaðir: Tíðin fremur mild og úrkomulítil og má því teljast hin hagfelldasta að öllu leyti.

Papey: Þann 4. mistur mikið svo ekkert sást til lands, enda þá hárok með köflum. Ekki varð ég var við ösku. Hygg að mistrið hafi verið ryk af þurrjörð, oftast alþíð jörð allan mánuðinn út.

Teigarhorn: Fjórða þessa mánaðar gerði norðvestan rok og öskumistur svo mikið að ekki varð skyggnið meir en svo að ekki sást lengra en tveggja kílómetra fjarlægð. Settur var út diskur kl.5-8 en settist lítið öskulag á hann, þó ekki svo mikið að hægt væri að mæla. Askan ljósbrún.

Reykjanesviti: Veðráttan sérstaklega mild og yfirleitt góðviðrasöm, þó nokkuð hefi verið mikið um rigningar. Fremur sjaldan hefur sést til sólar.

Í bæði nóvember og desember voru stöðugar fregnir af því að sést hefði til eldgosa norðaustanlands, oftast átti þetta að vera í Ódáðahrauni. Ekkert fannst, sumir töldu að ekkert hefði verið um að vera, en aðrir að gos hefði orðið í Vatnajökli. Það er fróðlegt að rifja þessar fregnir upp - þó óáreiðanlegar séu. - Og minna má á að allmikið eldgos varð svo í Grímsvötnum síðla vetrar (1934). 

Morgunblaðið segir frá 8.nóvember:

Morgunblaðið átti tal við Veðurstofuna í gærmorgun og spurði hvað hún hefði heyrt af öskufallinu á Austurlandi sem sagt var frá í blaðinu í gær. Sagði Veðurstofan að tilkynning hefði komið um það frá Hólum í Hornafirði í fyrradag, að talsvert öskufall hefði verið í Fáskrúðsfirði á sunnudaginn [5.], en alls ekki orðið vart við það í Hornafirði.

Fáskrúðsfirði, þriðjudag [7.]. Blaðið átti því næst tal við Fáskrúðsfjörð, og sagði heimildarmaður, að mikið mistur eða öskufall hefði verið þar í tvo daga, laugardag og sunnudag. Á laugardaginn var norðvestan stormur á Austurlandi, alla leið frá Suðurfjörðunum til Seyðisfjarðar. Var þá þegar um morguninn svo dimmt yfir í Fáskrúðsfirði af mistri að það var eins og dimmasta þoka. Var varla út komandi, því að mistrið fyllti augu og nef manna, og ef það kom í munn, var það eins og sandur. Sögðust sumir finna að því brennisteinskeim, en aðrir þóttust ekki geta fundið það. Bar mönnum því ekki saman um það af hverju þetta myrkur stafaði, sumir sögðu að það mundi stafa frá eldgosi inn á norðuröræfum, en aðrir héldu að hér væri aðeins að ræða um ryk, sem þyrlast hefði upp á öræfunum í rokinu. Á sunnudaginn var hið sama myrkur í Fáskrúðsfirði og hafði þá fallið svo mikið ryk á göturnar þar, að vel var sporrækt. Á sunnudaginn tók veður að lygna og á mánudagsnótt gekk í austanátt og gerði rigningu mikla. Hélst hún allan mánudaginn, í fyrrinótt og fram á dag í gær, og hafði þá þvegið burtu allar minjar öskufallsins, svo að ekki var hægt að taka sýnishorn af öskunni til rannsóknar. Mun engum heldur hafa komið til hugar að gera það á sunnudaginn. Askan var ljósleit, eða grá á litinn.

Breiðdalsvík, þriðjudag. Á laugardagskvöldið kom hér mistur mikið og hélst það til sunnudagskvölds. Öskufall var talsvert og vel sporrækt. Á laugardagskvöldið, eftir sólarlag, sást héðan töluvert rof og bjarmi á vesturloftinu og virtist mönnum að sá bjarmi væri í stefnuna á Dyngju og giskuðu sumir á, að þar mundi eldur uppi, því að birtu af sól gat ekki verið til að dreifa. En svo langt, sem frést hefir héðan, hefir ekki orðið vart við nein eldsumbrot. Askan, sem féll, var gráleit, en enginn mun hafa tekið sýnishorn af henni, og um kl. 10 á sunnudagskvöldið fór að rigna, og hefir rigningin þvegið öskuna af. Breiðdalsvík sagði hið sama og Fáskrúðsfjörður, að úti hefði verið illverandi meðan rykið var sem mest.

Frá Svartárkoti í Bárðardal, innsta bænum og næst Ódáðahrauni var sagt í gær, að þar hefði hvorki orðið vart við öskufall né eldgos.

Skútustöðum, þriðjudag. Frá Skútustöðum var blaðinu símað í gær, að þar hefði ekki orðið vart við neitt öskufall. Skyggni dágott þar í gær. Frá Grímsstöðum á Hólsfjöllum var sama sagan. Þar hafði ekkert öskufall sést. En þess var getið, að seint í september hafi orðið vart við talsvert öskufall í Möðrudal.

Morgunblaðið segir af veðri 12.nóvember:

Veðrið hefir verið umhleypingasamt. Fyrstu dagana allt til miðvikudagskvölds [8.] var hlý suðvestanveðrátta og rigningar miklar vestan lands og sunnan. Á fimmtudag birti upp með norðanátt á Suðurlandi, en norðanlands varð þá nokkur snjókoma. Á föstudag gekk aftur í suðaustanátt með regni, en snerist í norðaustanátt í gær. Létti þá til á Suðvesturlandi, en norðan lands og austan er hríðarveður.

Þann 12.nóvember varð rjúpnaveiðimaður úti krapabyl í Selvogi.

Morgunblaðið segir af tíð í Skagafirði 16.nóvember:

[Úr fréttabréfi úr Skagafirði]. Tíðarfarið mjög hagstætt frá sláttarbyrjun til höfuðdags þurrkur og hægviðri. Eftir höfuðdag brá til storma og votviðra, sem tafði mjög heyskapinn síðustu viku sláttarins. Grasspretta með besta móti, einkum á valllendi. Heyafli bænda líklega meiri en nokkru sinni áður miðað við mannafla. Heyfengur mun hafa orðið mestur á Reynistað hjá Jóni alþingismanni Sigurðssyni, á fjórða þúsund hestar og á skólabúinu á Hólum um þrjú þúsund hestar. Heyin yfirleitt vel verkuð en líklega létt til fóðurs. Kartöflu- og rófnauppskera meiri en nokkru sinni áður, er það ekki síst að þakka Búnaðarsambandi Skagfirðinga, er hefir beitt sér af alefli fyrir þessari ræktun.

Bátsskaði enn, Morgunblaðið 18.nóvember:

Frá Ísafirði vantar bát með 4 mönnum og hefir hans verið leitað síðan í gærmorgun. Frá Siglufirði vantar sex stóra báta, en menn eru ekki hræddir um þá. Ísafirði, föstudagskvöld. Í dag hefir verið versta veður, vestan stórviðri og enginn bátur róið.

Siglufirði, föstudagskvöld. Margir bátar reru héðan í morgun og var þá blíðviðri. En um miðjan dag gerði hlákustorm af suðvestri. Var þá símað frá Hraunum í Fljótum, að trillubátur sæist þaðan á reki með bilaða vél. Var þá þegar brugðið við og vélskipið „Snorri“ sent bátnum til hjálpar. Hefir það skip og fleiri stórir bátar unnið að því í dag að draga inn opnu vélbátana og árabátana Opinn vélbát, sem „Ragnar“ heitir, rak í land á Siglunesi. Menn björguðust, en sennilegt er að báturinn hafi brotnað eitthvað.

Morgunblaðið segir af góðri færð 19.nóvember:

Undanfarna viku hafa bílar farið yfir Holtavörðuheiði og Vatnsskarð. M.ö.o. bílfært hefir verið frá Borgarnesi og norður í Skagafjörð. Er það hið óvenjulega tíðarfar, sem gerir færðina svo góða. Hingað til hafa menn talið það víst, að bílferðir um fjallvegi norðanlands yrðu útilokaðar á vetrum, t.d. yfir Holtavörðuheiði. En vel getur þetta farið á annan veg í reyndinni. Bílstjóri kunnugur Norðurlandsvegi hefir sagt þeim er þetta ritar, að þegar hinn nýi akvegur verði kominn yfir Holtavörðuheiði, þá muni sá fjallvegur sennilega fær jafn langan tíma á árinu eins og Hellisheiðarvegurinn.

Alþýðublaðið segir frá 21.nóvember:

Eitt hið mesta aftakaveður varð í Ólafsvík og þar í grennd síðari hluta laugardags. Skemmdir urðu nokkrar. Þak fauk af hlöðu hjá séra Magnúsi Guðmundssyni, og hey fauk, en ekki til stórtjóns. Þak fauk einnig af ísgeymsluhúsi Finnboga Lárussonar, og nokkrir hjallar skemmdust. Veður þetta var af suðaustri og byrjaði um klukkan 5 og stóð um fjórar stundir. Hvassast var á áttunda tímanum. FÚ (fréttastofa útvarpsins).

Morgunblaðið segir 25.nóvember frá auknum áhuga á veðurathugunum - vegna sjósóknar:

Sjávarútvegsnefnd neðrideildar flytur svohljóðandi þingsályktunartillögu: „Neðri deild Alþingis ályktar að skora á ríkisstjórnina að gera ráðstafanir til þess, að veðurathuganir fari fram á annesjum og öðrum þeim stöðum á landinu, sem best liggja við slíkum athugunum með tilliti til Veðurspár“.

Veðráttan segir frá skemmdum í ofviðri þann 3. nóvember. Skemmdir urðu á húsum á Siglufirði og bátar þar og víðar brotnuðu, vélbátur frá Dalvík fórst og með honum fjórir menn.

Þann 17. voru óvenjuleg hlýindi austanlands, hiti mældist 17,8 stig í Fagradal í  Vopnafirði. 

Slide7

Desember var sá hlýjasti sem við vitum um á landinu í heild og hlýjastur á fjölmörgum veðurstöðvum. Í Reykjavík er hann sá næsthlýjasti, rétt á eftir desember 2002. Kortið sýnir reiknaða hæð 500 hPa-flatarins, þykkt og þykktarvik (lituð) í mánuðinum. Kalt var vestan Grænlands og suður á Spáni. Veðurathugunarmenn segja af tíðinni, sammála að mestu: 

Hvanneyri (Hjörtur Jónsson): [23. sást lóuhópur].

Lambavatn: Það hefir verið hausttíð en ekki vetur. Fyrri hluta mánaðarins var allt að lifna í kringum hús og bæi. Og allar skepnur gengið sjálfala þar til nú síðan um jólin að hér á heyja- eða gjafajörðum er farið að hýsa fé og hesta og tekin lömb. Heiðlóuhópar hafa verið hér allt að þessu, síðast heyrði ég í þeim 28. Það hefir verið jafnautt á fjöllum og í byggð, hvergi sést snjóblettur eða orðið vart við svell á polli. Nú [1. janúar] er alhvítt yfir allt og lítur út fyrir að geti snjóað töluvert.

Grænhóll: Óminnilega góð tíð til landsins, eyður og þíð jörð var allan mánuðinn, úrkomur tíðar og oft breytilegir vindar og veðurfar. Rok 1. og 20. allmikil. 1. desember var rok árdegis, urðu þá smáskemmdir. Bátur fauk hér á Gjögri, yfir tún og graslendi og brotnaði í spón. Rúður braut allmargar í þremur húsum. Rok þetta kom mjög misjafnt á.

Hraun í Fljótum (Guðmundur Davíðsson): Í einu orði: Einmunatíð. Muna ekki elstu menn slíka veðurblíðu um þetta leyti árs.

Sandur: Einstök veðurblíða. Jörð alauð, ár og vötn sömuleiðis, fjöll því næst snjólaus, tún grænka. Og það telja gamlir menn að þetta sé sá hlýjasti og blíðasti desembermánuður sem þeir muna eftir.

Húsavík (Benedikt Jónsson): Veðráttan svo blíð að enginn man slíka. Blóm sprungu mörg út í görðum, bellis, fjóla o.fl. og gras greri. Móðir ein lét ungbarn sitt sofa hádegisdúrinn sinn í vöggunni úti mestallan mánuðinn. ... Ég hygg að hér í Þingeyjarsýslu hafi ekki komið slík árgæska sem í ár síðan 1856. Þá var ég 10 ára og man óglöggt, en þó svo að ég tel 1933 líkast því ári. Sjór mun vera óvanalega hlýr norðan við land.

Nefbjarnarstaðir: Hægviðri og afar mild tíð. Jörð alauð allan mánuðinn nema þrjá síðustu daga mánaðarins - þá aðeins grátt í rót. Og allt til 29. mátti heita alautt upp á efstu fjallatinda. Menn mun ekki hér um slóðir jafn góða tíð í desember.

Papey: Á aðfangadag jóla sá ég ekki snjóblett í háfjöllum austan Berufjarðar. Sama dag sást ekki snjóblettur héðan á Lónsheiði; litlar rendur vestan í Búlandstindi.

Stórhöfði: Óvanaleg hlýindi. Jörð hefur grænkað. Kindur úti frameftir mánuðinum og hross úti allan mánuðinn. Samt hefur verið stormasamt og umhleypingar, sjaldan komist á sjó.

Sámsstaðir: Svipaði veðráttunni meir til vor- en vetrarveðráttu.

Morgunblaðið er enn með fregnir af eldsumbrotum 2.desember - í þetta sinn úr Bárðardal:

(Eftir símtali við Víðiker). Í ljósaskiptunum á fimmtudagskvöldið [30.nóvember] sáu menn frá Víðikeri í Bárðardal eina 5 gosstróka suður á öræfum, í stefnu á Trölladyngju. Engar fundust þar jarðhræringar á undan gosinu. Bendir það til þess, að eigi sé þar um mikil eldsumbrot að ræða. Gosstrókarnir voru með litlu millibili. Geta sjónarvottar þess til, að hér sé um sprungugos að ræða. Á föstudag sáust frá Víðikeri um stund tveir gosstrókar. Tryggvi bóndi í Víðikeri gerði Steinþór magister Sigurðssyni kennara á Akureyri aðvart, er hann varð var við eldsumbrotin. Steinþór lagði af stað i gærmorgun frá Akureyri á leið til eldstöðvanna, og kom að Víðikeri í bíl um miðaftansleytið í gær. Hann ætlar að leggja suður á fjöll snemma í dag, og fá fylgdarmann einn eða tvo í Víðiker. Að Trölladyngju eru tvær dagleiðir frá Víðikeri. Hefir Steinþór öll nauðsynleg rannsóknaráhöld með sér, nema kvikmyndavél hefir hann því miður ekki. Ólíklegt telur Pálmi Hannesson að gos sé í Trölladyngju sjálfri, því hún sé gamalt eldfjall, líkt og Skjaldbreið. En verið getur að gos þetta sé í sprungu í nágrenni Trölladyngju.

Símtal við Steinþór Sigurðsson. Morgunblaðið hafði í gærkvöldi tal af Steinþóri Sigurðssyni, eftir að hann kom í Víðiker. Hann sagði m.a. að hann fengi tvo fylgdarmenn með sér suður á fjöllin, þá Egil og Hörð Tryggvasyni. Hann bjóst við að komast í dag suður í Öxnadal, en á morgun að eldstöðvunum. Ekkert hafði hann sjálfur séð til eldsumbrotanna í gær, og ekki vissi hann til þess, að þau hefðu sést annars staðar að, en 4—5 daga bjóst hann við að verða í fjallaferðinni, uns hann kemur aftur að Víðikeri. Af stefnunni sem sést hafði úr Víðikeri á gosin taldi hann líklegast að gosið væri úr sprungu á gígasvæði milli Trölladyngju og Dyngjufjalla.

Vísir segir 2.desember frá miklu illviðri um mánaðamótin:

Ofviðri mikið gekk yfir Ísland sunnan og vestanvert aðfaranótt föstudags [1.desember]. Á miðnætti var veðurhæðin 10 stig í Vestmannaeyjum og að morgni var svipuð veðurhæð viða vestanlands. Hér í bænum var hvassast seinni part nætur kl. 2—5 og mun veðurhæðin hafa orðið 11—12 stig. Vindur var á suðaustan, en gekk síðan meira í suður. Tjón varð nokkurt af ofviðrinu, aðallega i Vestmannaeyjum og vísast til skeytis þaðan, sem birt er á öðrum stað i blaðinu. Á Stokkseyri rak upp vélbát frá Vestmannaeyjum og upp að sjógarðinum, trillubátar slitnuðu upp, og urðu skemmdir, meiri og minni á öllum bátunum. Í Þorlákshöfn sópaðist burtu pakkhús og liðaðist það sundur i brimrótinu. Var flóðhæðin mikil og brim. Braut sjógarðinn og flæddi sjór langt upp fyrir bann. Vélbáturinn Soffi lagði af stað frá Súgandafirði á fimmtudagsmorgun, áleiðis til Sandgerðis, og mun hafa verið kominn suður á Breiðaflóa, en sneri aftur og leitaði lægis á Patreksfirði og var þar í gærkveldi. Í Hnífsdal sleit upp vélbátinn Svan, 15 smálestir, og rak hann á sjó út, og hafði ekki fundist er siðast fréttist, þrátt fyrir leit. Einnig urðu skemmdir á húsum þar í þorpinu. — Í Grindavik, bæði i Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðahverfi, varð tjón af völdum flóðs. Urðu þar skemmdir á húsum og bryggjum. — Vélbátur, 8 smálestir, sem Ægir var með í eftirdragi, sökk á Húnaflóa í fyrrinótt. Hafði varðskipið tekið hann til flutnings frá Akureyri til Ísafjarðar. — Á Akranesi skemmdist trébryggja og nokkrar skemmdir urðu þar á húsum. Á Bíldudal fauk þak af íveruhúsi og nokkrir símastaurar brotnuðu. — Manntjón hefir hvergi orðið af völdum ofveðurs þessa, svo vitað sé.

Vestmannaeyjum, FB. 1. des. Afspyrnurok af suðaustri geisaði hér í nótt með flóðhæð svo mikilli, að menn muna vart annað eins. Saltskipið Kongshaug sem lauk við að losa saltfarm hér í gær slitnaði frá stórskipabryggjunni og rak norður á Eiði. Fjórir vélbátar, Ester, Guðrún, Sæbjörg og Sleipnir, slitnuðu upp á bátalegunni, og tveir vélbátar, Auður og Blakkur, slitu sig frá bæjarbryggjunni. Ennfremur losnuðu úr hrófum trillubátur og margir skjöktbátar. Allir þessir bátar lentu sömuleiðis upp á Eiðinu, þar sem sumstaðar er allmikil blágrýtisurð. Eigi er enn kunnugt um skemmdir á saltskipinu og bátunum, sem rak upp, né á bátum á bátalegunni. Talið er ólíklegt að Kongshaug náist út á flóðinu. Skemmdir urðu á olíugeymum Shell og mótorvélum, sem nýkomnar voru erlendis frá og enn voru á bæjarbryggjunni, sópaði sjór fram af henni. Manntjón varð hér ekkert svo vitanlegt sé.

Nýja dagblaðið segir af veðrinu í pisli 2.dsember:

Í Hnífsdal fuku þök af hlöðum, og einnig fuku hey og hjallar. Þak barnaskólans skemmdist allmikið, og rúður brotnuðu. Hnífsdælingar segja að slíkt veður hafi ekki komið síðan 1902. Vélskipið Svan rak burt af Hnífsdalsvík, þar sem það lá mannlaust fyrir akkeri. Á Rafnseyri var fárviðri fram á morgun. Í Stapadal fauk þak af hlöðu, og 50—60 hestar af töðu. Á Bíldudal fauk þak af íbúðarhúsi Jóns  Jóhannssonar. Einnig brotnuðu þar sex símastaurar. Á Akranesi var aftaka hvassviðri. Trébryggja í Steinsvör skemmdist mikið, þak skemmdist á húsinu Brautarholt, og þak reif af heyhlöðu á Jaðri, og nokkrir hestar af heyi fuku. Tvo báta rak af bátalegunni, en þeir urðu ekki fyrir skemmdum. Sjór gekk í saltgeymsluhús og skemmdist þar salt. Á Sandi var einnig ofsaveður og fimm vélbátar sukku á Krossavík. Þeir náðust þó allir í dag lítið skemmdir og ekki er vitanlegt að annað tjón hafi þar orðið. Í Keflavík urðu nokkrar skemmdir á hafskipabryggjunni, en ekki er vitað hversu miklu tjónið nemur. Þá flæddi átta kindur fyrir innan Vatnsnes, er átti Magnús Jónsson í Keflavík.

Morgunblaðið segir einnig fréttir af sama veðri 3.desember:

(Eftir símtali við Siglufjörð á laugardagskvöld [2.desember]). Á Norðurlandi, einkum á Skagafirði gerði ofsarok fyrripart laugardags, og hélst rokið fram undir miðaftan, en þá tók veðrinu að slota. Margir bátar reru frá Siglufirði og frá verstöðvunum við Skagafjörð, trillubátar og stærri bátar. Er Siglfirðinga fór að lengja eftir nokkrum trillubátum er út fóru í róður, voru mannaðir tveir stórir bátar til að svipast eftir þeim. Trillubátar Siglfirðinga voru allir komnir að landi í gærkvöldi, ýmist hjálparlaust eða með aðstoð annarra, nema einn. Formaður á honum Þorleifur Þorleifsson frá Staðarhóli. Bát hans vantaði í gærkvöldi, og óttuðust menn um hann. Tveir trillubátar reru frá Bæjarklettum á Höfðaströnd. Af öðrum þeirra var ófrétt í gærkvöldi til Siglufjarðar, en talið mögulegt, að hann hefði getað tekið land einhversstaðar í Sléttuhlíðinni. Formaður á þeim bát Jóhannes Jóhannesson frá Vatnsenda. En hinn báturinn frá Bæjarklettum var mjög hætt kominn. Báturinn Erlingur, sem fór út til að svipast eftir siglfirsku bátunum hitti þann bát 3 sjómílur norður af „Strákum“. Var bátur þessi þar með bilaða vél, hafði orðið að hleypa út af Skagafirði undan veðrinu. Fékk hann aðstoð Erlings til að komast til Siglufjarðar. Hafði sá bátur misst einn mann, Jóhann Jónsson frá Glæsibæ á Höfðaströnd. Formaður á bátnum er Stefán Jóhannesson, reyndur sjómaður. Kvaðst Stefán varla hafa komið á sjó í öðru eins veðri og var á Skagafirði í þetta sinn. Ætlaði hann að halda til Málmeyjar. En þegar hann átti eftir svo sem 200 faðma að landi, þá bilaði vélin og var honum nauðugur sá kostur, að hleypa undan veðrinu. Áfall fékk báturinn nokkru síðar og tók Jóhann þá út. Mjög óttaðist Stefán, að hinn báturinn frá Bæjarklettum hefði farist. Þeir voru að veiðum á svipuðum slóðum er veðrið skall á.

Veðrið. Vikan hófst með hægviðri hér á landi; síðari hluta mánudags [27.] hvessti af suðaustri sunnanlands og síðan hefir vindur haldist suðlægur með hlýindum um allt land og rigningum og stormum. einkum á Suður- og Vesturlandi.

London, 2. des. F.Ú. [Fréttastofa útvarpsins] Ungverskur stjörnufræðingur nokkur, sem heldur því fram að unnt sé að segja fyrir um veðrið svo tugum ára skiptir, af göngu himintunglanna, hefir komið fram með veðurspádóm sem nær alt til ársins 2000. Hann byrjar með því að segja að þangað til í miðjum þessum mánuði verði veður í Evrópu með mildasta móti en upp úr því kólni. Næsta sumar á að vera hitasumar, en sumarið 1935 aftur á móti mjög kalt. Árið 1943 á að ganga ógurleg hitabylgja yfir alla jörðina. Frá árinu 1945 á að fara stöðugt kólnandi í veðri, ár frá ári, þar til árið 2000, að veðráttan á jörðinni verður orðin ógurlega köld, miðað við það, sem við eigum að venjast.

Morgunblaðið segir frekar af mannsköðum - og leit að eldgosi 3.desember:

Siglufirði í gær. Á sunnudaginn leituðu fimm bátar af Siglufirði að trillubátum þeim sem vöntuðu á laugardaginn. Vélbáturinn Haraldur fann bát þann sem vantaði frá Siglufirði austur í Eyjafjarðarál. Var báturinn marandi í kafi og mannlaus. ... Af bátnum frá Bæjarklettum fann vélbáturinn Gunnar brot úr vélarskýli, bensíndunk og línukrók. [7 menn fórust]

Um hádegi í gær kom Steinþór Sigurðsson að Víðikeri úr öræfaferð sinni. Hann segir svo af ferð sinni: Við héldum á laugardag upp í Öxnadal, eins og við ætluðum okkur. Var vindur hvass af suðri þann lag á öræfunum en skyggni dágott. Ekkert sáum við til jarðelda þann dag, nema hvað við eitt sinn sáum bregða fyrir bjarma í suðri, er getur hafa stafað frá gosi. Á sunnudaginn var hið besta veður og skyggni ágætt. Gengum við þá upp á fell eitt í vestanverðu Ódáðahrauni. Sáum við þaðan greinilega um öræfin alla leið suður í Hágöngur. Af þeirri yfirsýn get ég fullyrt, að engin eldsumbrot eru norðan Vatnajökuls, nema ef vera skyldi í austanverðum Dyngjuhálsi, því á það svæði skyggði Trölladyngja. En allar líkur eru til þess, að eldsumbrotin séu í Vatnajökli. Frá Mýri í Bárðardal sást eldur á sunnudaginn [3.desember], þrír eldstólpar eins og frá Víðikeri um daginn. En þeir sem á öræfunum voru, Steinþór og félagar hans urðu einskis varir þann dag, sem fyrr segir. Alauð jörð var á öræfunum þar sem þeir fóra um. Steindór Steindórsson kennari á Akureyri gekk á Súlur aðfaranótt mánudags, til þess að svipast eftir hvort þaðan sæist nokkuð af gosinu. Fór hann við níunda mann. Sáu þeir af Súlutindi eitt sinn um nóttina bjarma í suðri er getur hafa stafað af eldsumbrotum og mökk er bar í bjarmann, og hækkaði hann og lækkaði meðan hann sást við bjarmann. Sáu þeir sýn þessa um 10 mínútur. En sakir náttmyrkurs og þykkni i lofti var ekki hægt að taka mið á eldsvæðið.

Morgunblaðið segir enn af „eldgosi“ 6.desember - en notar nú gæsalappir:

Það síðasta, sem fréttist um „eldgosið“ var það, að Fréttastofan fékk í gær skeyti um það, að sést hafi eldgos frá Gunnólfsvík. Morgunblaðið hafði í gær tal af Gunnólfsvík. Maðurinn sem sá sýn þá, er um getur í skeyti F.B. heitir Valdimar Jónatansson. Hann segir blaðinu svo frá: Það var kl. 7 á þriðjudagsmorgun, að ég sá greinilega eldgos. Það var rúmlega klst. fyrir dögun. Ég var staddur úti við og horfði á þetta í 10 mínútur, fór síðan og ætlaði að vekja fólk til að sjá þetta, en þá hvarf það alveg. — Í hvaða átt sáuð þér til eldsins? Í norðvestri, svaraði Valdimar. Þá fer að vandast málið að ákveða eldstöðvarnar, ef þær eru í stefnu á Trölladyngju frá Víðikeri í Bárðardal, og i norðvestur frá Gunnólfsvík.

Í gærkvöldi hafði Morgunblaðið tal af Steinþóri Sigurðssyni magister, og spurði hann hvað hann hefði nýjast að segja af gosinu. Ég hefi eiginlega ekkert um gos fregnirnar að segja, sagði hann, annað en það, að í fjallaferð minni sannfærðist ég um, að ekkert hraun hefir runnið þessa daga norðan Vatnajökuls. Hafi verið um gos að ræða í Vatnajökli, ætti það að vera nokkuð sunnarlega. En þá hefði það átt að sjást frá Suðurlandi. Ég er mjög smeykur um, að sumt af þeim loftsýnum, sem fólk hefir sett í samband við eldgos, sé ekki annað en sólarbjarmi. Það er eftirtektarvert, að menn hafa séð þetta á morgnana. Mistur er óvenjulega mikið á fjöllunum vegna þess hve snjólaust er. En þegar sólargangur er lágur, en birtir til muna fyrr sunnan lands en norðan, er ekki ólíklegt, að sólroðin ský, t.d. yfir Vatnajökli séu mjög áberandi í ljósaskiptunum. En að ég lagði upp í fjallaferðina, stafaði af frásögn Tryggva bónda í Víðikeri. Sýn hans var svo skýr, og um bjartan dag. En Tryggvi er glöggur maður. Annars er hætt við missýningum og misskilningi í þessum efnum hér nyrðra, því fólk vill nú einu sinni sjá eldgos.

Í rokinu um daginn [væntanlega þann 1.desember] urðu skemmdir allvíða á húsum í Borgarfirði. Á Svignaskarði reif þak af haughúsi. Á Svarfhóli tók glugga úr baðstofu og reif nokkuð af þakinu á íbúðarhúsinu. Á Fróðhúsum reif þak af skúr, sem er áfastur við heyhlöðu, en hlaðan sjálf skemmdist ekki. Hjá Albert Jónssyni á Ölvaldsstöðum reif þak af íbúðarhúsinu. Á Hurðarbaki reif þak af haughúsi.

Morgunblaðið segir af hlýindum 7.desember, einnig eru gosfréttir:

Haustgróður. Í varpeyjum í Mýrasýslu, þar sem gróska er mikil, hefir gróðri að sögn farið fram nú um tíma. Svo mikil og stöðug hafa hlýindin verið. Af Norðurlandi berast fregnir um það, að menn hafi fundið nýútsprungnar sóleyjar í túnum.

Kirkja valt. Á Brettingsstöðum í Flateyjardal valt, kirkjan um koll í ofviðrinu á laugardaginn var [2.desember].

Gosfregnir. Á þriðjudaginn var, um kl.5 síðdegis urðu menn á Skútustöðum í Mývatnssveit varir við bjarma í suðri, er þeir hiklaust töldu stafa af gosi. Var stefnan frá Skútustoðum í bjarmann rétt vestan við Sellandafjall.

Alþýðublaðið segir af tjóni í illviðrinu þann 1. í pistli þann 8.:

Síðastliðinn laugardag [2.] var eitt hið mesta aftakaveður sem komið getur á Flateyjardal. Brettingsstaðakirkja var njörvuð niður við stóran stein, sem vegur 500 kg. Þegar hún fór, dró hún steininn um 12 álnir í loft upp, því að kirkjan snerist við, og kom niður á turninn, en þá losnaði bjargið og datt niður hinum megin við hana. Nýtt járnþak fauk af hlöðu í Flatey og ónýttist. Heyskaði allmikill varð þennan dag á nokkrum stöðum á Tjörnesi.

Morgunblaðið leitar enn að eldgosi 8.desember:

Í gær átti Morgunblaðið símal við Lárus Helgason bónda á Kirkjubæjarklaustri, og spurði hvort hann eða aðrir þar eystra hefði orðið varir við nokkuð það, er benti til þess, að eldur væri uppi í Vatnajökli. Sagðist honum svo frá, að útsýn frá sér væri ekki góð til athugana á þessu, því að hæðir og fjöll byrgði útsýni til Vonarskarðs og Vatnajökuls, og þyrfti að fara langar leiðir til þess að komast upp á þær hæðir er best útsýn væri af norður yfir og þangað hefði enginn farið. En Helgi bóndi í Seglbúðum hefði undanfarið haft gætur á því um kvöld, nætur og morgna hvort nokkuð sæist þaðan til eldgosa. Væri þaðan miklu betri og víðari útsýn til Vatnajökuls hálendisins. En Helgi hafði einskis eldgoss orðið var í gærkvöldi. Sagði hann þá, að eftir athugunum sínum að dæma gæti ekki verið eldur uppi fyrir norðan, nema því aðeins að.hann væri þá norðarlega í Vatnajökli, og gosin væri mjög lág.

Morgunblaðið 9.desember:

Frá Ölfusá var blaðinu símað í gær: Aðfaranótt föstudags [8.] sá Jón bóndi Oddsson í Lúnansholti á Landi greinilegan eldbjarma, er hlaut að stafa frá gosi. Var þetta kl.1 um nóttina. Með Jóni var Haraldur bóndi í Næfurholti, er var þarna nætursakir. Hafði Jón orðið var við bjarma um kvöldið, er hann taldi, að stafað gæti frá gosi. Fóru þeir því Jón og Haraldur út um nóttina til þess að athuga hvort þeir yrði nokkurs vísari. Sáu þeir greinilega, að eldbjarminn eða strókarnir hækkuðu og lækkuðu, meðan þeir horfðu á þetta. Tóku þeir stefnu á eldinn, og var stefnan frá þeim milli Valafells og Valahnúks. Bjartviðri var um nóttina. Á föstudagsmorgun urðu þeir og varir við bjarma, er gat stafað frá gosi. Á Norðurlandi hafa menn séð gosbjarma undanfarna daga. Frá Húsavík berast þær fregnir, að sést hafi þaðan bjarmi í suðri, er hækkaði og lækkaði, sem gos væri. Stefnan frá Húsavík var eilítið vestar en í hásuður. Þá veitti Ólafur Jónsson framkvæmdastjóri Ræktunarfjelagsins því eftirtekt, að bjarmi kom upp í suðaustri hvað eftir annað á fimmtudagskvöldið, er bar yfir Garðsárdalinn.

Eru gosstöðvamar nálægt Trölladyngju? Morgunblaðið hafði í gærkvöldi tal af Pálma Hannessyni rektor. Hann hafði tekið mið frá þeim þrem athugastöðum, sem að ofan getur og markað á Íslandsuppdrátt. Eftir þeim upplýsingum,sem nú liggja fyrir, telur hann líklegast, að gosið sé norðan Vatnajökuls, sunnan Trölladyngju. Mjög væri æskilegt, ef takast mætti, að finna gosstöðvarnar sem fyrst. Frá náttúrufræðilegu sjónarmiði er það ekki vansalaust að eigi sé gengið úr skugga um, hvar gosið er. En vegna þess, að líklegt er, að hér sé um hraungos að ræða, en hraungos eiga sér hvergi stað nema á Íslandi og vísindamenn hafa engir enn í dag haft tækifæri til að sjá hraungos, svo vísindaleg lýsing á slíku gosi er hvergi til á prenti, er margföld ástæða til þess að athuga gos þetta, sem fyrst, segir Pálmi Hannesson.

Morgunblaðið reifar enn eldgos 10.desember og fer síðan yfir veður vikunnar:

Í gær ræddu þeir um það í síma, Pálmi Hannesson rektor og Steinþór Sigurðsson magister, hvað gerlegast væri, til þess að komast að því, hvar eldstöðvaranar eru. Hafði komið til mála, að Steinþór legði upp í aðra öræfaferð nú þegar. En það varð að ráði, að hann gerði það ekki, að svo stöddu máli. Því eftir þeim upplýsingum, sem fyrir hendi eru, getur verið, að gosið sé ekki norðan við Vatnajökul heldur í jöklinum. En að leggja upp í jökulferð á þessum tíma árs, er ógerningur og glannaskapur, nema menn hafi fullkominn pólferðaútbúnað. Steinþór segir, að af felli því er hann kleif í Ódáðahrauni um daginn, hafi hann séð um öll öræfin, norðan Vatnajökuls, að undanskildri spildu sem er um 10 km á hlið, eða 100 ferkílómetrar. En Steinþór er allra manna kunnugastur þarna, því hann hefir unnið að mælingu og uppdrætti öræfa þessara. Miðunin af Landi getur bent til þess, að gosið sé suður í Vatnajökli. Við nánari athugun á Íslandsuppdrætti, og stefnunni á gosið frá Lúnansholti, hefir Pálmi Hannesson komist að þeirri niðurstöðu, að stefna sú lendir suður í Vatnajökli. Er því að svo komnu minni ástæða fyrir Steinþór að leggja upp á fjöll að nýju.

Veðrátta vikuna sem leið var hin besta sem orðið hefir hér á landi, það sem af er vetrinum. Veður hefir yfirleitt verið stillt, rakt og úrkomulítið. Lægðir hafa farið norður yfir Grænland, en háþrýstisvæði það sem áður var yfir Noregi og Bretlandseyjum breiddist hingað vestur eftir.

Fréttir hafa borist um það, að vatnavextir hafi að nýju komið í Jökulsá á Sólheimasandi og Klifanda í Mýrdal og valdið þar skemmdum. En ekki munu þær eins miklar og fyrst fréttist, eftir því sem Geir G.Zoega vegamálastjóri sagði Morgunblaðinu í gærkvöldi. Það mun hafa verið um seinustu helgi [3.], sagði hann, að jökulhlaup kom í Jökulsá, og um leið kom hlaup í Klifanda, og virðist eitthvert samband þar á milli, en þó hafa þessir vatnavextir víst áreiðanlega ekki stafað frá eldsumbrotum. Menn vissu til þess áður, að vatn hafði vaxið mikið í lóni inni í Mýrdalsjökli og voru þess vegna við því búnir, að hlaup mundi þá og þegar koma í Jökulsá. Hlaup þessi hafa ekki gert neitt verulegt tjón. — Jökulsá hljóp upp að garðinum, sem hún braut í sundur í sumar, myndaði þar ál, en nú er hún öll komin í einn stokk í sinn fyrra farveg og hefir hlaðið eyri fyrir framan garðinn, svo að honum er óhætt fyrst um sinn. Klifandi braut dálítið skarð í veginn frá brúnni, en þær skemmdir voru ekki meiri en það, að nú hefir verið gert við þær til fulls með litlum tilkostnaði.

Morgunblaðið segir enn af togarastrandi 13.desember:

Enskur togari strandaði aðfaranótt þriðjudags austur hjá Öræfum. Menn björguðust allir. Í gær kom þýskur togari að strandstaðnum og ætlaði að reyna að ná skipinu út. Við það missti hann frá sér bát með sex mönnum. Bátinn rak í land og hvolfdi þar í brimi. Þrír menn fórust.

Morgunblaðið segir af veðri í pistli 17.desember:

Veðrátta hefir verið fremur stillt þessa viku. Vikan hófst með sunnanátt og þíðviðri um alt land. — Á mánudag [11.] gekk vindur til vesturs og kólnaði í veðri með snjóéljum vestanlands, en síðan var veður kyrrt og bjart fram á miðvikudag. Þá dró aftur til sunnaáttar vestanlands en gekk svo í vestur aðfaranótt föstudags. Nú er komin sunnan- eða suðvestanátt með þíðviðri um allt land. Eindæma veðurblíða hefir enn haldist undanfarna viku um land allt, snjólaust um byggðir og jafnvel öræfi, nema háfjöll. Bílferðir hafa verið farnar þessa viku á þjóðvegum alt frá miðri Vestur-Skaftafellssýslu og vestur og norður um land til Möðrudals. Hefði slíkt þótt ótrúlegt frásagnar fyrir nokkrum árum. Enn merkilegri eru þessi veðurtíðindi frásagnar, þegar um leið berast daglega fregnir um íslög, stórhríðar og mannskaðaveður suður um alla Evrópu, svo elstu menn muna þar ekki aðrar eins hörkur.

Morgunblaðið segir 19.desember af þrumuveðri og öflugum vindsveip í Grindavík:

Grindavík, mánudag. Miklar skruggur voru hér í gærdag [17.], og fóru sumar þeirra mjög nærri þorpinu. — Eldingu laust niður á talsímaþráð á einum stað og sleit hann, en á öðrum stað sleit elding útvarpsloftnet. — Um kl.4 kom snarpur hvirfilbylur. Tók hann upp skip, sem var hjá fjárhúsi og heyhlöðu, fór með það á háaloft og sneri því við, svo að það kom öfugt niður. Síðan tókst það á loft aftur og mölbrotnaði, er það kom niður. Hafði bylurinn þá borið það 30—40 metra frá þeim stað, er það var á fyrst. Húsið og hlaðan lyftust líka upp í bylnum, en fuku þó ekki. Skekktust þó svo, að þau hafa færst til á grunni um 10—12 þumlunga og hallast nú mikið. Það mun hafa bjargað, að þau fuku ekki, að hey var í hlöðunni.

Morgunblaðið er enn með gosfréttir 23.desember:

Eldgos? Frá Mýri í Bárðardal sá margt fólk eldbjarma kl. að ganga 9 í fyrrakvöld, í stefnu á norðanverð Dyngjufjöll. Eitt sinn virtist fólkinu að reykjarmökkur sæist. Nánari fregnir ókomnar í gærkvöldi. Sé hér um eldgos að ræða er það í engu sambandi við eld þann sem sást um daginn, er var mikið sunnar eða vestar.

Og enn strandaði erlendur togari. Morgunblaðið 28.desember:

Um klukkan 2, aðfaranótt aðfangadags strandaði belgískur togari „Jan Valders“ frá Ostende, á Reykjanesi. Hafði hann farið héðan frá Reykjavík daginn áður. Dimmviðri var. Óðinn bjargar mönnunum, en skipið fer í spón.

Vesturland segir af blíðu 30.desember:

Veðurblíðan sama og verið hefir, má kalla að haldist óslitin enn. Var að þessu sinni eitt hið dásamlegasta jólaveður, er orðið getur og líkara vori en vetri. Á Hrafnseyri í Arnarfirði fannst útsprunginn fífill í skjóli við garðsvegg rétt fyrir jólin og presturinn þar, sr. Böðvar Bjarnason, skreytti jólaborðið með lifandi „bellisum" úr garði sínum. Síðustu dagana hefir verið hér austanátt og nokkru kaldara en undanfarið.

Veðráttan segir af miklu ofviðri (illdagsettu) á Borgarfirði eystra, þak fauk af hlöðu og hús urðu fyrir skemmdum, hey fuku. Einnig getur Veðráttan þess að þann 31. hafi fiskhús og þak af skúr fokið í Grindavík.

Lýkur hér samantekt hungurdiska um árið 1933. Í viðhenginu má finna ýmsar tölulegar upplýsingar. Hita, úrkomu, útgildi og sitthvað fleira.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband