Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2023
31.8.2023 | 22:13
Sumardagafjöldi 2023
Þá er enn komið að árlegri sumardagatalningu hungurdiska (þó sumarið sé ekki alveg búið). Skilgreiningu á hungurdiskasumardegi má finna í pistli [20.júní 2013] - (nokkuð frjálslegt - ekki satt - enda er þetta bara leikur).
Sumarið var óvenjulega tvískipt. Í Reykjavík voru aðeins 6 sumardagar í júní - en 17 á Akureyri. Síðan skipti um og voru 17 sumardagar í júlí í Reykjavík, en aðeins 8 á Akureyri. Ágúst var jafnari, þá teljum við 16 sumardaga á báðum stöðum.
Heildarfjöldi er 39 í Reykjavík, að meðaltali bætist einn við í september, en hafa flestir orðið 11 í þeim mánuði (1958). Meðaltal síðustu tíu ára er 26. Fjöldinn í ár var því talsvert yfir meðallagi og á þeim 75 árum sem línuritið nær til eru aðeins 6 sumur þegar sumardagarnir hafa verið fleiri en nú, síðast 2019. Flestir voru dagarnir árið 2010, 51 og 50 árið 2012. Enn er tæknilega hugsanlegt að ná þeim tölum - en harla ólíklegt eins og spáin er þessa dagana. Við megum taka eftir því að á árunum 1961 til 1990 voru sumardagarnir að meðaltali 13 á ári í Reykjavík, en 28 á árunum 1991 til 2020. Þetta er mikil breyting og við sem eldri erum tökum harla vel eftir henni.
Ritstjórinn notar sömu skilgreiningu fyrir Akureyri líka. Það er e.t.v. vafasamt, en allt í lagi - hér er aðeins um leik að ræða. Gallinn er helst sá að þar finnst einn sumardagur í desember og einn í mars - heldur vafasamt. En það spillir samt ekki heildartölum að ráði.
Hér tökum við eftir því að ekki er jafn mikill munur á meðaltölunum tveimur og í Reykjavík, fjölgar um níu milli þeirra, úr 36 í 45. Það sem virðist hafa gerst er að rýrum sumrum hefur fækkað, en bestu sumrin eru svipuð, þar til 2021. Það sumar nánast sprengdi kvarðann sem hér er notaður, 80 sumardagar, 16 fleiri en flestir höfðu orðið áður.
Eins og áður sagði eru sumardagar á Akureyri í ár orðnir orðnir 51 þegar þetta er skrifað (31. ágúst), 6 fleiri en að meðaltali 1991 til 2020 og þremur fleiri en að meðaltali síðustu tíu ár. Þrír sumardagar voru í apríl og sjö í maí. Munum líka að að meðaltali eru 5 sumardagar ókomnir á Akureyri 1. september. Því er ekki ótrúlegt að einhverjir bætist við. Flestir urðu sumardagarnir í september á Akureyri árið 1996, 16 talsins - og 14 í september 1958 þegar þeir urðu flestir í Reykjavík. Sumarið á því enn möguleika á að komast upp í topp fimm á Akureyri - rétt eins og í Reykjavík.
Síðan er sumareinkunn hungurdiska - ritstjórinn reiknar hana eftir að Veðurstofan hefur reiknað meðalhita, úrkomusummu og talið úrkomudaga og sólskinsstundir bæði í Reykjavík og á Akureyri. Ekki er fullvíst að hún segi nákvæmlega sömu sögu (en það kemur í ljós).
31.8.2023 | 22:08
Alþjóðasumarið 2023
Við lítum hér líka á meðalhita í byggðum landsins mánuðina júní til ágúst 2023, það er sumartímabil Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar. Veðurstofan telur september hins vegar með sumrinu. Meðalhiti er 10,1 stig. Það er 0,3 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára og 0,4 stigum ofan meðallags 1991 til 2020.
Á línuritinu má sjá meðalhita aftur til 1823, en við tökum lítið mark á fyrstu 50 árunum. Þó er ábyggilega rétt að heldur hlýrra var fyrir 1860 heldur en næstu áratugi þar á eftir. Súlurnar á myndinni sýna hita einstakra alþjóðasumra, en breiðari línur eru 10-ára keðjumeðaltöl. Eftir sumarkuldana á síðari hluta 19. aldar hlýnaði talsvert um 1890 og svo aftur og meira um og eftir 1925. Sumarhlýindi náðu hámarki á fjórða áratugnum en síðan fór kólnandi, sérstaklega kalt var fram yfir 1985, en þá fór að hlýna. Fyrst hægt en síðan meira. Hámarki náðu hlýindin nýju fyrir um 15 árum.
Sumarið nú sker sig ekki sérstaklega úr, það er þó greinilega í hópi hlýrra sumra, ekkert sumar á öllu tímabilinu frá 1954 til 2002 var jafnhlýtt eða hlýrra í byggðum landsins, í nærri því hálfa öld. Við sjáum því ekkert lát á sumarhlýindum - þó ekkert hafi bætt í þau undanfarin 20 ár - þrepið upp úr aldamótum var mjög afgerandi. Þótt slatti af hlýjum sumrum hafi gengið yfir á hlýindaskeiðinu 1933 til 1953 voru köld sumur þá miklu algengari heldur en við höfum séð á þessari öld. Aðeins eitt sumar (2015) má segja að falli í þann flokk.
En september er eftir af hinu formlega veðurstofusumri og sá mánuður hefur alls ekki alltaf verið í takti við hina.
28.8.2023 | 15:01
Afmæli hungurdiska - og smáhugleiðing
Um þessar mundir er blogg hungurdiska 13 ára. Nú hafa birst 3130 færslur og pistlar - mismerkilegt auðvitað, sumt algjört hrat, en annað mun efnismeira og hugsanlega gagnlegra. Fyrsta færslan birtist 19. ágúst árið 2010, sú fyrsta efnislega birtist fjórum dögum síðar, þann 23. Bar hún fyrirsögnina Íslensk veðurfræðirit: Fyrsta íslenska veðurbókin. Þar er fjallað um rúmlega 70 blaðsíðna samantekt Magnúsar Stephensen Um Meteora, eða veðráttufar, loftsjónir og aðra náttúrulega tilburði á sjó og landi sem birtist í þriðja árgangi rita Lærdómslistafélagsins (1782).
Magnús var greinilega mikill veðuráhugamaður og ritaði ýmislegt furðuskarplegt þar um. Gallinn er hins vegar sá að varðveisla á gögnum hans virðist hafa verið nokkuð tilviljanakennd og margt af þeim er annað hvort illa týnt eða alveg glatað. Hann virðist t.d. hafa haft hitamæli, en ekki er þó víst að hann hafi nokkurn tíma gert reglulegar mælingar. Vel má það þó vera. Um aldamótin 1800 stóð hann fyrir útgáfu fréttarits sem hét Minnisverð tíðindi (aðgengileg á timarit.is). Þar má finna ýmsar mjög gagnlegar fréttir af veðri þeirra ára. Einnig ritaði Magnús Eftirmæli 18. aldar og gaf út, bæði sérstaklega sem og sem eins konar viðhengi við Minnisverð tíðindi. Afskaplega merkilegt rit, bæði efnislega sem og í ritstíl. Eykonan Ísland er í fyrstu persónu og segir frá, öldin 18. sem og aðrar aldir eru einnig kvengerðar. Verður af þessu stundum sérkennilegt bragð - en skemmtilegt hafi maður smekk fyrir því. Bólu-Hjálmar notaði sama bragð (og jafnvel sama orðalag) í frægu Íslandskvæði 1874.
Eftir nokkuð margorðan inngang víkur Magnús að árferði 18. aldarinnar. Þar segir hann (við breytum stafsetningu að mestu til nútímahorfs):
Árferðið, er þú leiddir yfir mig, vil eg, yfir höfuð reiknað, ekki svo umkvarta; eldri systur þínar hafa ollað lakara. Þó fátt verði talið af veltiárum til lands, sem sérlega milda vetra höfðu í fylgd sinni á þínum fyrra helmingi, svo að þeir ekki legðust með ýmsu móti þungt í bein mín og illa í nokkra útlimi mína, má yfir höfuð segja, all-sæmilegt heita frá 1702 til 1736, bærilegt til 1750, en fyrstu illúðlegu kveðju þína 1701 undanskil eg, því það er gamall óvandi ykkar systra að heilsa mér illa; eins má eg ekki mjög um árferðis óveðráttu kvarta frá 1758 til þess 1777, eða síðan 1785, þegar eg undanskil bágu árin 1791 og 1792, man eg það líka, að veðraspök og blíð voru árin 1765-66 um veturinn, 1781 um sumarið og 1782-83 til vordaganna, 1785-86 og -87 til vors, 1789, 1797 frá þorra og seinasta ár þitt 1799 til 1800, sönn velti-ár að mildi og gæðum. En - vegna afleiðinganna fyrir mig og börn mín, verða mér samt, minnis-stæð hallærin.
Segjast verður að þessi lýsing hlýtur að koma á óvart miðað við allt það kvein sem oftast heyrist um veðurfar 18. aldar - litlu ísöld og alla þá dellu. En síðan víkur Magnús að hallærum, sem hann telur mörg, og alls konar volæði sem yfir þjóðina gekk. Allt saman satt og rétt. Ritstjóri hungurdiska þykist hins vegar sjá að Magnús er að reyna að greina á milli veður og veðurfars annars vegar - og hins vegar þess sem fyrir því verður hins vegar. Þetta er raunar mjög nútímalegt viðhorf. Þjóð og land þola veður og náttúruhamfarir mjög illa, erfitt stjórnarfar, fáfræði og verslunarhöft margfalda vandann. Eldgos og sóttir - hvort tveggja algjörlega óháð veðri valda miklum erfiðleikum og mannfalli, en gera viðnámsþrótt gagnvart veðurfari mun minni en nauðsynlegt væri. - Nú, í lok aldarinnar stefni allt í framfarir, konungsvaldið sé vinsamlegt (og hafi raunar lengst af verið það - þó umboðsmenn þess hafi það ekki) og aukið verslunarfrelsi, vísindi og þekking stefni öllu í rétta átt. Þjóðin verði þess vegna betur í stakk búin til að verjast hinum venjulegu áföllum veðurfars og náttúru.
Segja má að Magnús hafi haft rétt fyrir sér. Fólki fór fjölgandi á 19. öld, búnaðarhættir breyttust til hins betra með aukinni þekkingu, verslun og stjórnarfar batnaði og mannfall varð mun minna í hallærum og náttúruhamförum, fleiri kostir voru opnir til lausna.
En eftirbragðið er þetta: Áföll 18. aldar voru margskonar, mörg þeirra tengdust flóknu samspili veðurs og búnaðarhátta, önnur voru alveg ótengd veðri, en minnkuðu viðnámsþrótt þjóðarinnar gagnvart ágangi þess, stundum verulega. Við getum þó ekki fullyrt að veðurlag 18. aldar hafi endilega verið stöðugt kalt og illt. Reynum að losna undan þannig ranghugmyndum.
25.8.2023 | 20:42
Hlýr dagur
Vísindi og fræði | Breytt 26.8.2023 kl. 02:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2023 | 22:17
Hugsað til ársins 1970
Tíð var talin fremur óhagstæð árið 1970. Talsverður vorís var við land, en þó mun minni en 1968 og 1969. Janúar var óhagstæður framan af, en síðan var milt og hagstætt til landsins. Gæftir voru stopular. Í febrúar var sæmilega hagstæð tíð á Suður- og Vesturlandi, en annars óhagstæð. Færð var slæm og gæftir stirðar. Mars var almennt óhagstæður og víðast var haglaust. Færð var erfið með köflum. Í apríl var tíð stillt og hagstæð nema norðaustanlands, þar var mikill snjór. Maí var talinn óhagstæður, nema austan- og suðaustanlands. Mjög úrkomusamt á Suður- og Vesturlandi. Tíð var hagstæð í júní, en mjög þurrt var þó norðaustan- og austanlands og talsvert kal í túnum. Júlí var kaldur, en talinn nokkuð hagstæður syðra, en annars óhagstæður. Ágúst var í meðallagi, votviðrasamt var með köflum, en þurrkar komu einnig svo heyskapur gekk bærilega. Tíð var sæmilega hagstæð í september nema á Austur- og Suðausturlandi. Uppskera úr görðum var víðast rýr. Október var hagstæður í heild. Tíð var hagstæð sunnanlands og vestan í nóvember, en annars óhagstæðari. Umhleypingasamt var í desember, en þó var lengst af hagstæð tíð og færð góð.
Við rifjum hér upp fréttir ársins tengdar veðri. Ýmislegt er þar minnisstætt og ástæða til að rifja upp. Ekki er sá listi tæmandi. Blaðatextar eru langflestir fengnir af vefnum timarit.is, oft styttir hér og stafsetning oftast færð til nútímahorfs (vonandi sætta höfundar sig við þá meðferð), villur í slíku eru ritstjórans. Að þessu sinni er mest um texta úr Tímanum, en einnig úr fleiri blöðum. Heimildir eru að auki úr Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands, og töluleg gögn og fleira úr gagnagrunni og safni Veðurstofunnar. Talnasúpu má finna í viðhenginu. Margskonar slysfara er ekki getið í þessum pistli - eitthvað af því sem ekki er getið kann að hafa tengst veðri.
Ingibjörg Andrésdóttir í Síðumúla fer mildum orðum um fyrstu tvo mánuði ársins (stytt):
[Janúar] Þessi góða tíð í janúar og seinnipart desember hefur veitt bændum mikla hjálp, því að beit hefur verið mikil og góð þennan tíma. [Febrúar]. Má þessi mánuður í heild teljast mjög góður hér í uppsveitum, bæði jarðsæll og veðragóður.
Sem vonlegt var höfðu menn nokkrar áhyggjur af hafísnum. Minnisstæð þrjú mikil hafísár, 1965, 1968 og 1969. Hafís var mun minni vorið 1970, en þó hefði okkur nú þótt hann mikill. Borgþór H. Jónsson veðurfræðingur veltir vöngum yfir hafíshorfum og ískönnun í langri grein sem birtist í Morgunblaðinu 8. janúar (aðeins brot hér):
Líkurnar fyrir hafþökum á útmánuðum '70 frekar litlar. Það mun óhætt að fullyrða, að árin 1965, 1968 og 1969 hafi verið mikil hafísár hér við land, miðað við meðallag undanfarna áratugi. Árið 1967 var einnig mikið hafísár, ef á það er litið, að hafísbreiðan lá skammt norður af landinu allt vorið. Ísaveturinn 1968 var þó þeirra mest eins og kunnugt er. Þessar hafískomur hafa vakið menn til umhugsunar um það, hvað valdi slíku, og sýnist sitt hverjum eins og oft vill verða. Óhjákvæmilega hlýtur eitthvað óvenjulegt að gerast, þegar hafísbreiðan teygist svo langt suður á bóginn, að hún nær óslitið frá heimsskautinu suður að Hornafirði, eins og raun varð á árið 1968. Það er því engin furða þótt athyglin beinist að uppsprettu hafíssins, norðurskautssvæðinu. Í því sambandi má þá ef til vill spyrja, hvort nokkuð óvenjulegt hafi gerst þar síðasta áratuginn. Megnið af hafísnum, sem rekur suður Svalbarðasund meðfram Austur-Grænlandi kemur frá Síberíuströndum. ...
Lokaorð: Það er ekki úr vegi að athuga líkurnar fyrir hafís hér við land á útmánuðum 1970 með hliðsjón af þeirri reynslu, sem fengist hefur með notkun veðurtungla síðan í apríl 1967. Líkurnar fyrir hafís (hafþökum) eru frekar litlar. Hafísbreiðan nær ekki eins langt í austur frá Grænlandi og undanfarin ár. Það þarf því mjög langvarandi og óhagstæða vinda til þess, að hafís verði meiri hér en í meðalári. Verði hafís hér við land fram yfir meðallag er hans helst að vænta á Halamiðum, við Vestfirði og Húnaflóa.
Gott veður var fyrstu daga ársins, en síðan snerist til snarprar og kaldrar norðanáttar. Háloftalægðardrag kom suðaustur yfir norðanvert Grænland og lægð myndaðist fyrir norðaustan land. Þá hvessti af norðri og norðvestri, sérstaklega um landið austanvert.
Kortið sýnir krappa lægð fyrir norðaustan land seint að kvöldi þess 6. Lægðin grynntist síðan, en háloftalægðin sem fylgdi henni hélt áfram suður og þar myndaðist síðan ný lægð sem tengdist lægðinni stóru syðst á þessu korti, dró hlýrra loft að sunnan upp að landinu úr austri. Úr varð annað illviðri sem gekk yfir landið þann 11. og olli vandræðum (eins og fram kemur í fréttum):
Morgunblaðið segir þann 8. janúar frá sjaldgæfu ofsaveðri á Egilsstöðum og á Héraði (fyrri lægðin):
Egilsstöðum, 7. janúar. Ofsaveður af norðvestri gerði hér í gærkvöldi [6.janúar]. Var veðurofsinn slíkur er leið á kvöldið, að ekki sá á milli húsa í Egilsstaðakauptúni. Fólk, sem var á ferð, lenti í erfiðleikum, því vegir tepptust á örskammri stundu. Var því víða gestkvæmt á bæjum við þjóðveginn, t.d. voru 7 næturgestir í Skóghlíð í Tunguhreppi. Allir komust þó til bæja áður en veðrið náði hámarki. Jökuldælingar, sem voru að flytja börn sín til Eiðaskóla, tepptust á Egilsstöðum og urðu að gista þar s.l. nótt. Var á sumum bæjum á Jökuldal ekki nema húsmóðirin og smábörn eftir heima. Lögðu bændur þó af stað í dag, er veðrið fór að ganga niður, en bjuggust við að þurfa að skilja bílana eftir og ganga mikinn hluta leiðarinnar. Talsverðar skemmdir urðu á mannvirkjum á Héraði. Á Egilsstöðum fuku járnplötur af einu húsi og í nýbyggingu skógerðarinnar fauk plast, sem haft var í gluggum meðan beðið er eftir gleri. Komst nokkuð af snjó í vinnusal, en engar verulegar skemmdir munu hafa orðið. Á nýbýlinu Sellandi í Hlíðarhreppi fauk járn af hálfu þaki íbúðarhúss, sem er í byggingu. Á Skipalæk í Fellum fauk hluti þaks af nýrri hlöðu, einnig fauk stór hurð, sem var í stafni hlöðunnar á símastaur og þverkubbaði hann en fauk síðan út á Lagarfljót. Fjárflutningavagn tókst á loft og lenti á dráttarvél, en skemmdi hana lítið sem ekkert, fauk síðan á girðingar og eru þær brotnar og stórskemmdar. H.A.
Tíminn segir 8.janúar frá þrepahlaupi í Þjórsá. Slík hlaup höfðu valdið mönnum áhyggjum þegar virkjað var við Búrfell, en fyrsta virkjunin þar var formlega gangsett um vorið.
KJReykjavík, miðvikudag. Þrepahlaup varð í Þjórsá í dag, en ekki urðu neinar truflanir á raforkuframleiðslu í Búrfellsvirkjun, enda voru starfsmenn virkjunarinnar upp með ánni, og sáu þá hvað var á ferðinni og ráðstafanir voru gerðar við inntaksmannvirkin. Í vetur hafa nokkrum sinnum komið þrepahlaup í ána, en aldrei hafa orðið truflanir á raforkuframleiðslunni, að því er Gísli Júlíusson stöðvarstjóri Búrfellsvirkjunar tjáði Tímanum í dag.
Kuldapollurinn var nú kominn suður fyrir land og mikill kuldi ríkti á landinu. Morgunblaðið segir frá 9.janúar:
Akureyri 8.janúar. Veður hefur verið bjart og fagurt í dag, en frost geysihart. Á lögreglustöðinni þar sem veðurathuganir Veðurstofu Íslands fara fram, mældist frostið -21 stig kl.18, fór mest í -21,6 stig á sólarhringnum og var um -19 stig lengst af í dag. Á Akureyrarflugvelli mældist hins vegar -27,5 stiga frost um nónbilið í dag, en hefur yfirleitt staðið í -26 stigum. Varla hefur sést skýskaf á lofti í dag og hægur sunnanandvari hefur bitið kinnar manna. Akureyrarpollur hefur verið hulinn frostþoku og einnig innanverður Eyjafjörður.
Tíminn segir líka hríðar - og kuldafréttir 9.janúar:
SB-Reykjavík, fimmtudag. Mjög kalt er nú fyrir norðan og þar að auki gekk þar yfir aftakaveður, hvassviðri og snjókoma í gær og í fyrrinótt [7.]. Símasamband bilaði við Raufarhöfn, en er nú komið i lag aftur. Sjónvarpsloftnet löskuðust og brotnuðu víða. ... Fréttaritari blaðsins á Raufarhöfn, Hreinn Helgason, sagði að í fyrrinótt hefði brostið þar á stórhríð, ein af þeim verstu. Einhvers staðar á Melrakkasléttu varð bilun á símalínunni, en hún komst í lag seinnipartinn í dag. Talsvert af sjónvarpsloftnetum skekktust og jafnvel brotnuðu í óveðrinu. Óli Gunnarsson á Þórshöfn sagði, að þetta væri eitt versta veður, sem þar hefði komið í ein tvö ár. Vindhraðinn var um 10 stig, frostið -13 stig og heilmikil snjókoma í ofanálag. Vegir eru orðnir ófærir og ekkert hefur verið flogið síðustu dagana. Sjónvarpsloftnet brotnuðu, og er það slæmt, því lítið er við að vera núna, nema horfa á sjónvarpið. Pálmi Jóhannsson á Dalvík sagði, að þar væri nú -18 stiga frost úti, en inni við væri hins vegar hiti, þar sem mjög margir liggja nú í inflúensu. Síðdegis í dag var komið -24 stiga frost á Sauðárkróki og -20 á Hvammstanga. Einar Kristjánsson á Laugafelli, tjáði blaðinu, að mikill ís væri kominn á Hvammsfjörðinn, en væri þó ekki samfrosta ennþá, meðan ekki lægði. Lítill snjór er þar í byggð, en í dag var kaldasti dagur ársins með 20 stiga frosti.
Tíminn segir fregnir úr Þingvallasveit 10.janúar:
KJ-Reykjavík, föstudag. Guðbjörn Einarsson á Kárastöðum í Þingvallasveit, sagði Tímanum í dag, að Þingvallavatn væri nýlagt, og þar eystra væru mikil svellalög. Sagði Guðbjörn að vegurinn yfir Mosfellsheiði væri einn svellbunki, og umferðin um hann lítil. Það er helst að sjáist einn og einn bíll hér um helgar, þegar vel viðrar. Það væri betra að hafa það minna og jafnara, og átti þá auðvitað við hina miklu helgarumferð stundum á sumrin.
Nú var kuldapollurinn búinn að ná í hlýrra loft að sunnan og versnaði veður þá aftur. Morgunblaðið segir frá 11.janúar:
Norðanrok var í Reykjavík í gærmorgun [10.] og komst vindhraðinn mest upp í 8 vindstig. Á flóði var um tíma ófært bifreiðum um Skúlagötuna vegna þess hve ágjöfin var mikil yfir götuna. Allt flug norður lá niðri, en hins vegar var fært til Eyja og Hornafjarðar. Ekki var þó hægt að fljúga þangað fyrr en um hádegi vegna þess að ekki var hægt að ná flugvélum FÍ út úr flugskýlum vegna veðurofsans.
Morgunblaðið segir enn hríðarfréttir 12.janúar:
Hellnum, 12. janúar. Í gær skall hér á mikið norðanveður með blindhríð. Stóð þetta veður allan daginn en lægði snögglega með kvöldinu og var komið ágætis veður um miðnætti. Í þessu veðri laskaðist kirkjan á Hellnum, en hún er úr timbri, 25 ára gömul. Færðist hún til á grunninum og er greinilega mikið skemmd. Miklar truflanir hafa orðið á samgöngum vegna veðurhamsins og menn lent í erfiðleikum með að komast áfram á bílum sínum. Ekki er þó vitað um annað tjón eða slys. Kristinn
Tíminn segir ófærðar- og hríðarfréttir 13.janúar:
SBReykjavík, mánudag. Allir vegir út frá Akureyri voru ófærir í morgun eftir snjókomuna um helgina, en í dag hefur verið unnið við að hreinsa þá. Í Svarfaðardalnum er ekkert hægt að komast nema á stórum bílum og voru mjólkurbílar úr dalnum um 15 tíma að koma mjólkinni niður á Dalvík, en nú hefur snjóblásari komið til aðstoðar. Allramest snjóaði þó á Sauðárkróki og það svo mikið, að elstu menn muna ekki annað eins. ... Snjókoman varð langmest á Sauðárkróki, en þar snjóaði látlaust á laugardag [10.] og aðfaranótt sunnudagsins og um nóttina var hvasst og skóf snjóinn í gríðarlega skafla. Mest snjóaði í bænum, en minna uppi í sveitunum. Í gærmorgun var ekki bílfært innanbæjar, Aðalgatan var rudd í gær og síðan flugvöllurinn. Ekki spilltist færð stórkostlega um héraðið og var bílfært víðast. Nú er komið logn á Sauðárkróki og orðið frostlítið.
Tíminn birti 16.janúar fréttir af skipsskaða:
Skipulegri leit að Sæfara BA143 frá Tálknafirði er nú hætt og er báturinn og sex manna áhöfn talin af. Skipverjar voru allir ungir menn, 18 til 35 ára að aldri. Síðast heyrðist til Sæfara kl.2:30 aðfaranótt laugardagsins 10. janúar. Þá var báturinn að draga línu sína 28 sjómílur norðvestur af Kópanesi. Norðaustan stormur var á þessum slóðum.
Tíminn segir enn af óhappi við sjó 18.janúar - en í þetta sinn fór betur:
OÓ-Reykjavík, laugardag. Vélbáturinn Þerney KE-33 strandaði í Keflavíkurhöfn kl.12:40 í nótt. Suðaustan stormur var þegar báturinn strandaði og var skipshöfninni, sex manns bjargað á land í björgunarstóli. Á hádegi í dag, laugardag. var báturinn enn í fjörunni og mun hann vera talsvert skemmdur.
Nú gerði nokkra daga ákafar sunnan- og suðaustanáttir. Veðráttan segir frá því að Hólmsá við Reykjavík hafi rutt sig, brotið göngubrú og skemmt girðingar. Tíminn segir 20.janúar af hvassviðri í Grundarfirði og síðan hörmulegu slysi á Stokkseyri:
SJ-Reykjavák, mánudag. Geysilegt hvassviðri varð í Grundarfirði á Snæfellsnesi á laugardag [17.]. Í versta veðrinu varð eldsvoði að Skerðingsstöðum í Eyrarsveit, 78 km. frá kauptúninu í Grundarfirði, og brann íbúðarhúsið til grunna á skammri stundu.
KJ-Reykjavík, mánudag. Það hvíldi þungur skuggi yfir Stokkseyri á sunnudaginn [18.], er fréttist að þrír vaskir sjómenn þaðan úr þorpinu, hefðu farist á innsiglingarsundinu er þeir voru að hagræða innsiglingardufli. Einn þeirra komst af við illan leik, og var honum bjargað mjög þrekuðum. Á svipuðum slóðum og þetta hörmulega slys varð á sunnudaginn, fórust sjö sjómenn frá Stokkseyri 17. apríl 1922, er vélbáturinn Atli fórst í lendingu.
Tíminn segir 22.janúar frá vatnavöxtum austur á Héraði:
JK-miðvikudag. Í nótt [aðfaranótt 21.] var suðaustan stormur með mikilli rigningu hér. Nokkrir vatnavextir urðu m.a. í Grímsá og ollu þeir allmiklum skemmdum á virkjunarmannvirkjum. Hljóp áin yfir stíflugarðinn og braut handrið og ljósastaura. Virkjunin stöðvaðist þó ekki af þessum sökum en raforkuvinnsla er minni en ella. Viðgerð er ekki hafin- Viðgerðarmenn rafmagnsveitnanna vinna nú að viðgerð háspennulínunnar til Borgarfjarðar eystri á Sandaskörðum, en mjög mikið hefur verið um bilanir á þeirri línu í vetur. Vegir eru mjög blautir hér eystra og skemmdir hafa víða orðið vegna úrrennslis. Vegurinn yfir Fagradal til Reyðarfjarðar er ófær, en mjög mikið hefur runnið úr honum. Einnig er vegurinn frá Egilsstöðum inn Velli mjög skemmdur, og víðar munu skemmdir hafa orðið.
Tíminn greinir frá Skaftárhlaupi 27., 29. og 30. janúar:
[27.] OÓ-Reykjavák, mánudag. Jökulhlaup er nú í Skaftá og er áin vatnsmeiri en menn muna til að hún hafi verið áður. Fer vatnið vaxandi. Varnargarður við brúna hjá Skaftárdal er horfinn í vatnsflauminn og vegir víða skemmdir. Þrír bæir eru einangraðir vegna flóðsins. Í dag var megn fýla af vatninu í ánni og fannst lyktin allt norður í Trékyllisvík.
[29.] OOReykjavík, miðvikudag. Flóðið í Skaftá sjatnaði talsvert í gær en síðan hefur síður en svo minnkað í ánni. Er þó ekki jökulhlaupinu um að kenna, heldur fór að rigna mikið fyrir austan í gær og hefur rignt látlaust síðan og er beljandi vatnsflaumur i ánni. Eru þrjár stórbrýr enn í hættu og flæðir vatnið víða yfir vegi. Býlin í Skaftárdal og Búland eru enn einangruð vegna flóðanna og er ekki hægt að komast á neinu farartæki að brúnum.
[30.] OÓ-Reykjavík, fimmtudag. Ekki er vitað til að verulegar skemmdir hafi orðið á brúm á Skaftá vegna jökulhlaupsins, en vegaskemmdir eru aftur á móti miklar og hleðslur við brýrnar eru víðast horfnar. Er um þrjár brýr áð ræða sem vatnið flóði allt umhverfis. Sú neðsta og nýjasta er á Suðurlandsveginum. Engar skemmdir urðu þar við sjálfa brúna en Suðurlandsvegurinn varð fyrir áföllum á löngum kafla. Er búið að lagfæra skemmdirnar þar. En Meðallandsvegurinn, sem liggur að Suðurlandsvegi rétt á bakka árinnar að austanverðu, lenti í ána rétt neðan við brúna. Áin braut mikið af hrauninu þarna skammt neðan við brúna og hvarf vegurinn á nokkrum kafla. Er búið að leggja bráðabirgðaveg fram hjá þessu svæði. Næsta brú er á gamla Suðurlandsveginum. Þar skolaði vegfyllingum á brott en talið er að brýrnar séu óskemmdar. Við brýrnar í Skaftárdal sópuðust varnargarður og vegfyllingar burtu og er þar ófært en unnið er að viðgerð. Enn hefur ekki minnkað verulega í Skaftá síðan í fyrradag, því látlaus rigning er fyrir austan og gerir það viðgerðarvinnu alla erfiðari. Ekki hefur verið gengið úr skugga um hvort skemmdir hafa orðið á brúnum.
Nokkur slæm illviðri gerði í febrúar. Tíminn segir frá þann 3.:
SB-Reykjavík, mánudag [2.]. Hvöss norðanátt með mikilli snjókomu hefur verið norðanlands síðan í gær. Vegir eru víðast orðnir ófærir og kennsla féll niður í mörgum barnaskólum í dag vegna óveðurs. Lögreglunni á Akureyri var kunnugt um 4 umferðaróhöpp þar í bæ í dag. Snjóbílar voru í fólksflutningum yfir Vaðlaheiði í nótt.
Veðráttan segir frá línuskemmdum í þessu veðri bæði á Vestfjörðum og í Öræfum.
Tíminn 6.febrúar:
JAHólmavík, fimmtudag [5.]. Ofsaveður skall á hér á Ströndum s.l. laugardag [31.janúar]. Þegar ofsinn dundi yfir var Vermundur Jónsson, bóndi í Sunnudal, að beita út og týndust 56 kindur út í veðrið. Ekki var hægt að leita að fénu fyrr en í gær og fundust þá 41 kind lifandi og 8 dauðar. Í dag var enn leitað að þeim kindum sem á vantar. Kindurnar fundust á við og dreif um Bjarnarfjarðarháls og voru þær sem lifðu orðnar mjög hraktar. Litið snjóaði um helgina en rokið var óskaplegt. Jörð var svellbólgin og gat féð ekki fótað sig í rokinu, en fauk á svellinu. Svo virðist sem kindurnar hafi rotast þegar þær fuku á ísnum. Hinar kindurnar komust í skjól. [Veðrið virðist hafa verið verst sunnudaginn 1. og var af norðaustri].
SBReykjavík, fimmtudag. Þessa vikuna hefur Ísland skolfið allmikið. Í morgun fundust tveir kippir á Húsavík, í gærmorgun skalf Suðvesturlandið og á mánudagskvöldið urðu Reykvíkingar varir við tvo kippi, sem áttu upptök sín á Reykjanesi.
Merkilegt veður gerði dagana 6. og 7. febrúar. Gríðarlega öflugt þrýstikerfi kom að Grænlandi. Frumlægðin fór norður um Baffinsland, innan við 950 hPa í miðju og er það óvenjulegt svo norðarlega (sjá kortið hér að ofan). Lægðardrag fór síðan yfir Grænlandsjökul og ný lægð dýpkaði ofsalega á vestanverðu Grænlandshafi. Hún olli fyrst skammvinnu sunnanveðri, eftirminnileg og óvenjuleg sunnanhríð varð á Norðurlandi sem barði snjó í harðfenni á svipstundu. Síðan gerði þar hið besta veður. Suðvestanlands gerði þá óvenjulegt sjávarflóð í hvassviðri af útsuðri. Um tíma var útlit fyrir að ofsalegt norðanveður fylgdi í kjölfarið - veðurspáin hin ískyggilegasta, en ekkert varð úr því. Norðanáttin kom ekki og veður varð furðuspakt og bjart. Lægðin staðnaði og grynntist fyrir vestan og suðvestan land. Handan lægðarinnar, á austurströnd Grænlands, gerði hins vegar eitt versta veður sem menn þar muna. Gríðarlegar skemmdir urðu í Ammasalikk og nágrenni. Allt þetta er afskaplega eftirminnilegt veðurnördum.
Kortið sýnir lægðina við Vestfirði síðdegis þann 6.febrúar. Þá er enn mjög slæmt veður vestanlands, en mun betra í öðrum landshlutum. Spáin sem lesin var snemma að morgni þann 6.febrúar var svo sannarlega ískyggileg:
Gert er ráð fyrir roki eða fárviðri víða um vestanvert landið og mikilli ísingu. Ritstjórinn var staddur á Akureyri um þær mundir og fyrir Norðurland sagði spáin: Suðvestan stormur eða rok og snjókoma fram eftir degi, en vestanrok í kvöld, gengur í norðanfárviðri með snjókomu í nótt. Þegar spáin var lesin í morgunsárið var næturhríðin óvenjulega hins vegar gengin niður - og síðan var besta veður allan daginn og næstu nótt - ekkert varð meira úr þessu veðri. En það olli samt verulegu tjóni í byrjun eins og fram kemur í fréttum hér að neðan. Tíminn segir frá fyrstu áhrifum veðursins í pistli 7.febrúar:
SB-Reykjavík, föstudag. Vonskuveður var norðanlands i nótt og snemma í morgun, en þá birti upp. Skólar á Akureyri hafa verið lokaðir síðan í morgun, nema menntaskólinn. Trilla sökk í höfninni á Húsavík og tafir hafa víða orðið á mjólkurflutningum. Fréttaritari blaðsins á Húsavík kvað hafa verið þar í nótt og morgun suðvestanátt með allmikilli snjókomu, en nú væri komið blíðuveður. Mardís ÞH 33 sem er 3 lesta trillubátur, slitnaði upp af legunni og sökk í höfninni á Húsavík. Reynt verður að ná henni upp, en hætt er við að hún hafi eyðilagst, því að þarna er mjög grýttur botn. Þegar blaðið hafði samband við Húsavík laust eftir hádegi, var þar sólskin og blíðuveður. Á Akureyri var komið besta veður, logn og sólskin fyrir hádegi. Það var suðvestan rok og snjókoma fram til 10 í morgun og var öllum skólum lokað, nema Menntaskólanum. Fréttaritari blaðsins kvað menn þar í bæ ganga um götur í logni og sól og gera góðlátlegt grín að því að skólarnir væru lokaðir vegna óveðurs. Þess ber þó að gæta, að í fyrravetur voru margir skólanemendur hætt komnir í óveðri þar og fengu á sig harða gagnrýni fyrir að loka ekki. Um tvöleytið var komið blíðuveður á Akureyri, sólskin og hiti yfir frostmarki.
Daginn eftir voru fréttir af sjávarflóðinu. Tíminn 8.febrúar:
Ofsaveður gekk yfir suðvesturhluta landsins í fyrrinótt, og orsakaði víða flóð og gífurlegar skemmdir. Þannig flæddi inn í afurðasölu SÍS og geymsluskála Eimskipafélags Íslands Faxaskála og Skúlaskála. Sumar götur meðfram sjó í Reykjavík urðu ófærar vegna sjógangs og grjótruðnings. Mikil flóð urðu einnig á ýmsum stöðum frá Sandgerði upp að Akranesi, og mikið tjón varð á Grund á Álftanesi, þar sem hundruð hænsna drukknuðu. Víða á Suðurnesjum varð þetta eitt mesta veður í manna minnum.
OÓ-Reykjavík, laugardag. Sjór flæddi á land í Reykjavík á háflæði milli kl. sjö og átta í gærkvöldi. Urðu víða miklar skemmdir vegna sjávargangsins. Gífurlegt hvassviðri var og á háflóðinu gengu holskeflurnar yfir Skúlagötu og götur þær sem næst liggja við ströndina í Laugarnesi. Víða flæddi sjórinn inn í hús. Urðu miklar skemmdir í Afurðasölu SÍS í Laugarnesi og sjór flæddi inn í Faxaskála, sem er stærsta vörugeymsla Eimskips við höfnina og einnig flæddi inn í Skúlaskála, sem er við Skúlagötu. Í Faxaskála var einn verkstjóri þegar flóðbylgjan skall yfir. Voru aðrir starfsmenn farnir heim og var verkstjórinn að bíða eftir næturverðinum, þegar allt fylltist af vatni á svipstundu. Stóð flóðið ekki yfir nema í rúmlega 12 mínútur. Gekk sjórinn upp á Skúlagötu og rann þaðan yfir Kalkofnsveg og þaðan inn í vörugeymsluna. Var nokkurra sentímetra vatnsborð á öllu gólfi á neðri hæð Faxaskála. Langmestur hluti varningsins sem þarna var geymdur var á pöllum og komst því ekki vatn í hann, en á gólfi voru gólfdúkar, eitthvað af gólfteppum og milli 500 og 600 rúllur af pappír sem Kassagerð Reykjavikur á. Einnig voru rúllur af blaðapappír á gólfinu. Flóðið var svo mikið að holræsi höfðu hvergi nærri undan og þang komst alla leið inn á gólf vörugeymslunnar. Portið bak við Faxaskála var hálffullt af vatni. Er þar til dæmis sérstök geymsla fyrir kolsýrukúta og þar var vatnshæðin tveir metrar frá gólfi. Ekki er fullkannað hve miklar skemmdir urðu þarna á vörum. Slökkviliðsmenn unnu að því að dæla vatninu út í alla nótt. Í Skúlaskála var geymt talsvert magn af korni á gólfinu. Þar komst sjór í og fleiri vörutegundir sem þarna voru geymdar. Öldurótið var svo mikið að skarð brotnaði í varnarvegginn við Skúlagötu og er gangstéttin hrunin á kafla. Stór björg rótuðust á land neðan við Kirkjusand. Í morgun var unnið með jarðýtum þar til hægt var af komast um göturnar. Á neðri hæð Afurðasölu SÍS á Kirkjusandi var vatnsyfirborðið 60 cm frá gólfi þegar verst lét upp úr kl. sjö í gærkvöldi. Kjallari fór nær alveg í kaf og portið við bygginguna fylltist, vatnsyfirborð þar var 150 cm. Kom flóðbylgjan svo snögglega, að ekki var við neitt ráðið. Urðu þarna miklar skemmdir, aðallega á tækjum, mótorar fóru í kaf og einnig skemmdist lyfta. Sjór flæddi inn í þrjá frystiklefa, sem eru á neðri hæðinni. Ekki varð vatnsyfirborðið jafn hátt þar því hurðirnar eru þéttar og héldu á móti. Ókannað er hvort vatn hefur komist í einangrun frystiklefanna. Vatn komst ekki í sal þann sem frystivélarnar eru í. Slökkviliðsmenn komu þegar í gærkvöldi með dælur til að koma vatninu út og var dlt í alla nótt. Í morgun var háflæði aftur kl.sjö og flæddi þá aftur inn í húsið, en þá var veðrið gengið niður og var flóðbylgjan ekki eins mikil og í gærkvöldi. Í fyrramálið er stærsti straumur og verða þá gerðar ráðstafanir til að sjór komist ekki í húsið, og verður hlaðið sandpokum í porthliðið, en þar flæddi sjórinn inn. Afurðasalan hefur nú verið starfrækt á þessum stað í 18 ár og hefur aldrei á þeim tíma komið fyrir að sjór flæddi inn í húsið, og kom þessi flóðbylgja mönnum algjörlega á óvart. Verkamaður, sem hefur unnið við höfnina í áratugi, sagði við Faxaskála í morgun, að hann myndi ekki eftir að annað eins flóð hafi gengið yfir á því svæði, og kveðst hann ekki hafa heyrt áður að sjór flddi inn í Skúlaskála.
Vestur á Grandagarði og Örfirisey gekk sjávarrótið yfir og varð Grandavegur alveg ófær í gærkvöldi. Smábátar sem stóðu á landi fuku og urðu þarna talsverðar skemmdir. Hins vegar munu litlar eða engar skemmdir hafa orðið á bátum í Reykjavíkurhöfn. Við Ánanaust rótaðist stórgrýti alveg upp að húsum og skörð brotnuðu í götuna og er gatan þarna og allt út á Seltjarnarnes algjörlega ófær allri umferð.
Hamfarir á Álftanesi. SBReykjavík, laugardag. Hundruð skepna drukknuðu í morgun, er sjórinn braut varnargarða og flæddi inn í gripahúsin að Grund á Álftanesi. Níu kúm varð bjargað illa á sig komnum, en bóndinn, Sveinn Erlendsson, hreppstjóri taldi, að það fé, sem drukknaði, skipti tugum og hænsnin hundruðum. Öll útihús á Grund eru umflotin vatni og jakar og grjót er eins og hráviði út um allt tún. Sjórinn náði þó ekki að flæða inn í íbúðarhúsið, sem stendur á hæð. Ekkert af því, sem þarna fór forgörðum var tryggt nema gegn bruna, svo tjónið mun skipta tugum þúsunda. Þetta er óskaplegt, sagði sagði Sveinn í morgun, þegar við náðum tali af honum. Erfitt er að gera sér grein fyrir skemmdunum, þar sem allt er enn á kafi í sjó. Ég hef ekki enn getað kastað tölu á þær kindur, sem drápust og ég geri ráð fyrir, að lítið af hænsnunum hafi komist á prik. Í hlöðunni var mittisdjúpur sjór og í hné í bílskúrnum. Ég þori ekki að nefna tölur, en tjónið er geysilegt, þar sem allt var ótryggt gagnvart svona áfalli. Blaðamaður og ljósmyndari Tímans komust eftir talsverða hrakninga út að Grund, laust eftir hádegi. Vegurinn heim að bænum er alveg horfinn síðustu 600-700 metrana, og þar er bara stórgrýti. Aðkoman var vægast sagt ófögur, þótt vatnið væri mikið farið að sjatna síðan í morgun. Tjörn er þarna við og var hún á ís, en sjórinn braut ísinn og dreifði jökunum um allt. Eftir nokkra erfiðleika, komumst við að hænsnahúsinu. Sveinn og María dóttir hans voru að hreinsa hræ dauðu hænsnanna út, en vatnið þar inni var vel í kálfa. Síðan ösluðum við inn í fjárhús og þar inni var ein ær, sem Sveinn sagði okkur, að hefði ekki með nokkru móti fengist til að fara út með hinum, heldur hefði hún komið sér fyrir uppi í garðanum. Eina dauða kind var að sjá, en hinar höfðu verið fjarlægðar. Inn af fjárhúsinu, er hlaðan og þar stóðu kýrnar í vatni upp fyrir klaufir, með furðusvip, líklega yfir því að fá að ganga lausar innan um allt heyið. Úti á túninu stóðu eftirlifandi kindurnar í einum hnapp í snjónum og hundurinn var alveg ruglaður yfir öllum þessum ósköpum. Lítið var eftir af varnargarðinum og Sveinn lét í ljós kvíða þegar minnst var á daginn á morgun. Ég veit ekki hvernig þetta fer, ef eins veður verður í nótt, sagði hann. Það er alveg ólhætt að segja, að hér hafi ekki gerst annað eins og þetta, a.m.k. ekki síðustu hundruð árin, sagði hann að endingu.
Íbúðarhús á Seltjarnarnesi fylltist af sjó. SJ-Reykjavík, laugardag. Sjór gekk víða á land á Seltjarnarnesi í gærkvöldi og fram undir morgun í nótt. Vatnið flæddi inn í kjallara margra húsa og veginn á Eiðisgranda tók af á kafla. Þari og grjót barst viða á land, og voru vegheflar notaðir til að lagfæra vegi í morgun. Kjallaraíbúð í húsinu Marbakka á mótum Reykjavíkur og Seltjarnarness að suðvestanverðu hálffylltist af sjó og urðu fjölskyldumar sem í húsinu bjuggu, að flýja þaðan í nótt. Slökkviliðið í Reykjavik gat enga aðstoð veitt þar sem nóg var að starfa í borginni sjálfri. Næstu hús við Marbakka voru alveg umflotin sjó á löngu svæði allt inn að Lambastaðahverfi, en ekki fór vatnið inn í íbúðir annars staðar. Kjallarinn á Marbakka hálffylltist og húsið allt varð ljós- og hitalaust. Fróðir menn telja veðurofsann í nótt minna einna helst á Básendaveðrið 1799, er eyddi heilt þorp á Stafnnesi, en þá gekk einnig sjór yfir Seltjarnarnes, m.a. með þeim afleiðingum að kirkjan að Nesi fauk í heilu lagi.
OÓReykjavík, laugardag. Í Sandgerði og Stafnnesi gekk sjór á land í gærkvöldi. Á Stafnnesi er eins og haf yfir að líta og er sjór ekki runninn af landinu enn. Á þessum slóðum var Básendaflóðið mikla í lok 18. aldar, en þá braut sjórinn niður öll hús og lagðist staðurinn í eyði. Vélbátinn Keili, sem lá í Sandgerðishöfn, sleit upp og rak á land. Trillubát, sem var á bryggjunni, skolaði út og lenti þar á öðrum báti og urðu einhverjar skemmdir á þeim báðum. Holskefla skilaði trillunni aftur upp á bryggju skömmu eftir að hún fór í sjóinn. Á Akranesi gekk grjót og drasl úr fjörunni yfir götur og tún. Ekki er vitað til að þar hafi orðið alvarlegt tjón. Flutningaskipið Marco, sem lá í Akraneshöfn, sleit frá bryggju, en skipverjum tókst að forða því frá áföllum og koma skipinu aftur áð bryggjunni.
SPVogum. Mikið óveður gekk hér yfir í gærdag og nótt með miklu hafróti. Á flóðinu í morgun gekk sjór hér óvenjuhátt á land, svo menn muna ekki annað eins. Hér í Vogum urðu þó ekki miklar skemmdir, en sjór flæddi hér hátt upp um öll tún. Gekk sjór inn upp að Valfelli, sem er nyrsta húsið við götuna Vogagerði. Var mikið af Hafnargötunni í kafi, svo að rétt varð komist á bílum að frystihúsinu. Voru húsin umflotin eins og eyjar í sjónum og sjór á alla vegu. Ekki munu þó hafa orðið neinar teljandi skemmdir þar, þótt sjór hafi rifið upp grjót og fært ýmislegt lauslegt úr skorðum. Í Brunnastaðahverfi urðu miklar skemmdir á sjóvarnærgörðum og girðingum. Sjór braut niður og reif upp tún og færði þau á kaf með grjóti og sandi. Verst mun þó túnið í Halakoti hafa orðið úti af þessum sökum. Er það mjög mikið skemmt og stóru stykki af því skolað burt. Ekki munu þó hafa orðið neinar skemmdir á húsum í hverfinu. Sjór gekk inn í eitt íbúðarhús, svo að fólk varð að flytja sig af neðri hæðinni.
Og enn frekari flóðafréttir - og síðan atburðum í Ammasalikk. Tíminn 10.febrúar:
ÓEHöfnum, mánudag. Í stórbrimi, sem gerði hér fyrir helgi, gekk sjór á land bæði á flóðinu milli 7 og 8 á föstudagskvöld og eins á morgunflóðinu á laugardag [7.]. Sjórinn tók með sér sjóvarnargarða inn á túnin. Gekk sjór yfir sjávarkambinn, sem lá að hafnargarðinum, og braut einnig ca. 4050 metra skarð í veginn sem liggur upp á hafnargarðinn. Stór björg, sem lágu utan á hafnargarðinum við land, köstuðust yfir hafnargarðinn í briminu og sum lentu uppi á honum. Hafnargarðurinn sjálfur stóðst þessi átök, en framlenging á vinkli hafnargarðsins, sem vísar inn í höfnina en sú framlenging er 12 metrar á lengd skemmdist verulega. Byrjað var á þessari framlengingu síðastliðið sumar, en þá tókst ekki að ljúka við hana, svo að steypt var bráðabirgðaplata ofan á hana fyrir veturinn. Þessi plata brotnaði, og uppfyllingin skolaðist burt að einhverju leyti og fór inn í höfnina. Vegurinn að Reykjanesi sunnan Kalmanstjarnar fór í sundur, en sjór braut um 200 metra skarð í hann. Vegagerðin lét gera við þessar skemmdir strax. Sandur hlóðst upp í Sandvíkunum fyrir sunnan Hafnir og standa símastaurarnir þar sums staðar aðeins um tvo metra upp úr sandinum. Fiskur skolaðist þar einnig á land. Talið er einsdæmi, að tvö stór flóð komi hér hvort á eftir öðru eins og nú gerðist. Tjón mun hafa orðið talsvert. Þannig er mikil vinna að hreinsa túnin, því ekki er hægt að koma þar við stórvirkum vinnuvélum. Sjávarkamburinn vestan megin við hafnargarðinn minnkaði verulega og því nauðsynlegt að aka stórgrýti í hana, enda eru sjávarkambar eina brjóstvörn landsins gegn brimöldunni. Þá er einnig mikið verk að gera við framlengingu hafnargarðsins.
Gífurlegt fárviðri gekk yfir bæinn Angmagssalik á Austur-Grænlandi á föstudag [6.]. Talið er að vindhraðinn hafi komist upp í 175 hnúta. Áður en ofviðrið skall á af fullum krafti mældist vindhraðinn yfir 130 hnútar í Angmagssalik, sem er helmingi meira hvassviðri en 12 vindstig, og hefur svo mikill vindhraði ekki áður mælst á Grænlandi. Angmagssalik er nú að miklu leyti í rústum og er tjónið talið nema a.m.k. 15 milljónum danskra króna (180 milljónir íslenskra) Alvarleg slys urðu ekki á mönnum, en 400500 íbúar eru í bænum. Hundruð hunda hengdust í tjóðrum sínum, er ofviðrið hélt þeim á lofti eins og flugdrekum. Hún fuku í heilu lagi og eru tíu gerónýt og allar aðrar byggingar í bænum meira eða minna skemmdar. Margir íbúanna eru nú heimilislausir. 11 stiga frost; dreifðist á stóru svæði. Hrjáir kuldi nú íbúana. Margir verða að hafast við í kjöllurum húsa sinna, sem að öðru leyti eru eyðilögð, eða hjá nágrönnum, þar sem meira stendur uppi af húsakynnum. Ekki er vitað um slys á mönnum, en mörg börn fengu taugaáfall.
Um miðjan mánuð [aðfaranótt 16.] gerði eftirminnilegt hríðarveður í Reykjavík. Ritsjórinn var annars staðar, en eru fréttir af þessu samt minnisstæðar - og næstu ár var mikið um þetta veður talað - en það virðist að mestu gleymt nú. Tíminn segir frá 17.febrúar:
OÓ-Reykjavík, mánudag. Ofsaveður gekk yfir á Suðurlandi og Suðvesturlandi í nótt. Vegna mikillar snjókomu og skafrennings stöðvaðist öll umferð og eru vegir og götur í bænum víða tepptir enn. Fólk dvaldi í nótt í bílum, aðallega stórum farþegabílum á Sandskeiði og Reykjanesbraut. Um götur Reykjavíkur og bæja í nágrenni var með öllu ófært í nótt og morgun. Voru notaðir stórir og kraftmiklir bílar til að aðstoða fólk sem varð að komast milli staða og koma þeim í húsaskjól sem voru á ferðinni. Í Reykjavík komu farartæki flugbjörgunarsveitarinnar, Slysavarnadeildarinnar Ingólfs og Hjálparsveitar skáta að góðum notum og fengnir voru bilar frá Guðmundi Jónassyni til aðstoðar nauðstöddu fólki. Öll kennsla í skólum í Reykjavík og nágrenni féll niður. Unnið var að því í allan dag að ryðja vegi og aðstoða langferðabíla, sem voru á leið til borgarinnar, en áttu í erfiðleikum vegna ófærðar. Í nótt og dag unnu 35 moksturstæki við að ryðja göturnar. Björgunarsveitin í Kópavogi lagði lögreglunni lið í morgun við að flytja sjúklinga, en þar, eins og annars staðar, komust lögreglubílar ekki um göturnar fremur en önnur farartæki, sem ekki eru sérstaklega búin til aksturs um vegleysur og ófærð.
Í gær kom hingað lægð að suðvestri á allmikilli ferð, sagði Jónas Jakobsson, veðurfræðingur í dag. Þegar hún nálgaðist fór að hvessa og jafnframt snjóaði um miðnættið við suðvesturströndina og hélt snjókoman áfram í alla nótt, aðallega við vesturströndina og suðvesturströndina. Fyrir utan hvað snjóaði skóf geysilega þá fönn, sem fyrir var, svo að setti í mjög þétta skafla. Úrkoman, sem veðurstofan mældi var ekki meiri en níu mm, en ekki er vel að marka mælingar þegar svona viðrar. Þegar skilin fóru yfir í morgun lægði skyndilega og kl.9 fóru lægðarskilin yfir Reykjavík og hægði um allt suðvesturlandið í dag, en víða er allhvasst á Norðurlandi og Austurlandi og snjóar þar nær alls staðar og þar er frost 1 til 5 stig. Í nótt og á morgun. er gert ráð fyrir lítils háttar éljum, en ekki verður mjög hvasst, svo að líklega skefur ekki mikið og ætti því færð ekki að spillast mikið frá því sem nú er. Hiti verður nálægt frostmarki fram á morgundaginn. Er spáð allgóðu veðri á Suður- og Vesturlandi á morgun, en á Norður- og Austurlandi snjókomu. Vegheflar og ýtur vinna við snjóruðning til kl. 9 í kvöld, og byrja síðan aftur kl. 3 í nótt, og vilja menn vera við öllu búnir ef aftur fer að snjóa og skafa.
Lögreglan í Reykjavík hefur ekki nema fjóra bíla til afnota að næturlagi, þar af einn jeppa. Í nótt urðu hinir bílarnir óvirkir, svo að ekki var um nema jeppann að ræða til að komast áfram í ófærðinni. Varð mikið öngþveiti í borginni í nótt vegna skafrennings. Fjölmargir bílar festust og dvöldu margir í lengri eða skemmri tíma í bílunum. Lögreglan reyndi eftir bestu getu að koma fólkinu í húsaskjól. Guðmundur Jónasson bílstjóri, var fenginn til að aka fólki heim úr samkomuhúsum. Í morgun kl.6 var algjört umferðaröngþveiti. Fjallabílar voru einu farartækin sem komust áleiðis. Voru þeir mikið í flutningum með lækna og annað starfsfólk sjúkrahúsa, og einnig voru þeir notaðir til að aka fólki, sem leitaði ásjár til lögreglu, vegna vinnu sinnar eða brýnna erinda. Lögreglubílarnir, sem notaðir voru fram eftir nóttu, brotnuðu flestir og eru nú á verkstæði.
Önnur lægð, dýpri nálgaðist landið þann 18. febrúar. Tíminn segir frá þann 19.:
OÓ-Reykjavík, miðvikudag. Talsverðar rafmagnstruflanir urðu í morgun, er línur slitnuðu ofan við Reykjavík. Ekki var þó rafmagnslaust í höfuðstaðnum, en aftur á móti í Hafnarfirði og víðar. Rafmagnslínurnar slitnuðu vegna ísingar og hvassviðris.
OÓReykjavík, miðvikudag. Vegir austur og vestur frá Reykjavík lokuðust allir í nótt vegna snjókomu og skafrennings. Í borginni var mjög þungfært í morgun og er enn unnið að snjóruðningi á mörgum götum. Í morgun og fram yfir hádegi var unnið að ruðningi vega út frá höfuðborginni og opnuðust leiðirnar stórum bílum síðari hluta dagsins, en í kvöld var talsverður skafrenningur og allt útlit fyrir að vegirnir lokuðust aftur. Reykjanesvegur lokaðist ekki. Við ströndina var slydda í nótt en strax og komið var nokkra kílómetra inn í landið var frost og hríðarveður. Í nótt er spáð strekkingi og hríðarbyljum svo að enn má búast við miklum umferðartruflunum. Allir vegir á Vestfjörðum eru ófærir og færð er mjög þung eða ófær á Austfjörðum. Skást er ástandið á Norðurlandi, þar hefur snjóað hvað minnst síðustu daga. Síðari hluta dags var orðið fært stórum bílum milli Reykjavíkur og Selfoss og fært var um flesta aðalvegi í Árnessýslu og gekk allvel að ná mjólk af bæjum. Er nú að heita má, fært austur til Víkur í Mýrdal fyrir stóra bíla. Í dag var reynt að opna leiðina milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs. Eftir að Kollafjörður og Hvalfjörður opnuðust upp úr hádegi var fært allt til Akureyrar. Starfsmenn Vegagerðarinnar fóru af stað frá Reykjavík kl.6 í morgun til að ryðja austurleiðina. Þeir komust í fyrstu ekki nema upp að Geithálsi. Stórviðri var og dimmt. Biðu mennirnir átekta þar til slotaði. Menn frá Vegagerðinni voru í nótt ásamt tækjum uppi í Svínahrauni. Um kl.9 gekk veðrið niður og var hafist handa um að ryðja vegina þótt talsverður skafrenningur væri. Djúp göng eru nú eftir snjóruðningana og hefst varla undan að ryðja sköflunum frá svo að ekki skafi yfir. Má segja að samfelld göng séu frá Reykjavík og austur úr. Í Reykjavík var færðin slæm í morgun. Var unnið með öllum tiltækum tækjum við að halda akbrautum opnum. Lögreglan aðvaraði ökumenn á litlum bílum að reyna ekki að aka um göturnar. Á sama tíma voru akbrautir ruddar svo að sem flestir bílar kæmust út í umferðina, en snjónum var hrúgað af stórvirkum vélum yfir gangstéttir svo að víðast hvar um bæinn var alls ekki hægt að komast leiðar sinmar gangandi, þrátt fyrir veðurblíðuna fram eftir degi. Áttu Reykvíkingar því ekki margra kosta völ til að komast leiðar sinnar. Flestir fóru náttúrlega á bílum sínum, en aðrir með strætisvögnum sem yfirleitt héldu hvergi áætlun.
Í síðari lægðinni snjóaði vestur á Nesi. Tíminn 23.febrúar:
AS-Ólafsvík, þriðjadag. Hér í bænum er allt á kafi í fönn, enda hefur snjóað óstjórnlega síðustu daga. Allar leiðir eru þó orðnar færar, þ.á.m. Fróðárheiði.
Um mánaðamótin dýpkaði lægð mjög á leið norðaustur Grænlandssund. Hún olli töluverðu illviðri á landinu, sérstaklega norðvestanlands. Morgunblaðið segir frá 1. mars:
Akureyri, 28. febrúar. Eftir einmuna veðurblíðu, hreinviðri og hægviðri með dúnmjúkri mjallarbreiðu á jörð snerist veðráttan skyndilega á mjög óhagstæða hlið í gærkvöld, a.m.k. frá sjónarmiði þeirra, sem annast undirbúning vetraríþróttahátíðarinnar á Akureyri. Í nótt var mikill veðurofsi af suðvestri með rigningu og slyddu og olli þetta veður rafmagnsleysi í 3 til 4 klukkustundir og þar að auki fuku nokkrar plötur af húsþökum og vatn rann inn í nokkrar íbúðir, einkum á Oddeyri. Silkifærið, sem skíðamenn hafa notið að undanförnu breyttist í þungfæran og blautan snjó. flaggstengur á íþróttasvæðinu fuku og brotnuðu og snjómyndir, sem laghentir og listhneigðir Akureyringar höfðu mótað, voru horfnar með öllu í morgun. Þó gat dómnefnd ákveðið verðlaunamyndirnar og verðlaunahafana, áður en myndirnar urðu regninu að bráð.
Tíminn segir frá sama veðri 3.mars:
GP Bæ, Árneshreppi, mánudag. Gífurlegt hvassviðri gerði hér í Árneshreppi á Ströndum á föstudagskvöld [27.febrúar] og aðfaranótt laugardagsins. Þök fuku af fjórum húsum, auk þess sem timburhlaða fauk í heilu lagi á sjó út. Hjá Sveinbirni Valgeirssyni í Norðurfirði fauk allt járnið af annarri þakhlið íbúðarhússins og einnig fauk í Norðurfirði þak af nýlega byggðu dieselrafstöðvarhúsi. Í Munaðarnesi fauk timburhlaða með járnþaki í heilu lagi út á sjó, og fauk nokkuð af heyinu, sem í hlöðunni var. Í Stóru-Ávík fauk þak af fjósi og sambyggðri hlöðu, og stóðu kýrnar eftir í tóftinni undir beru lofti. Á Krossnesi tók þak af húsi sem er við sundlaugina þar, en húsið er notað til íbúðar og fyrir búningsklefa, þegar sundlaugin er starfrækt. Vindur stóð af vestan og suðvestan, og er það afleit átt hér um slóðir. Miklir sviptivindar eru þá niður á milli fjallanna. Tjón hjá þeim, þar sem skemmdir urðu á húsum, er tilfinnanlegt, því engir munu hafa verið tryggðir fyrir slíkum tjónum. Er unnið að því í dag að gera við, það sem hægt er að gera við strax. Snjór er lítill hér um slóðir, því í byrjun roksins gerði asahláku og leysti mikið upp, en síðan gerði frost, og eru nú mikil svellalög yfir allt. Sjúkraflugvél sótti í dag tvær konur hingað, og flutti þær til Reykjavíkur. Veður er nokkuð gott í dag í Árneshreppi, vindur hægur, en smáél öðru hverju.
Veðráttan getur þess að einnig hafi orðið skemmdir á húsum í Eyjafirði og að járnplötustafli hafi fokið á haf út á Reyðará.
Tíminn segir 3.mars frá vatnavöxtum undir Eyjafjöllum:
Reykjavík, mánudag. Það var ljót aðkoman hjá Sigurði bónda Sigurjónssyni á Ytri-Skógum undir Austur-Eyjafjöllum, þegar hann fór í fjárhúsin á laugardagsmorguninn [28.febrúar]. Bæjarlækurinn sem annars er friðsöm spræna, hafði gert sér lítið fyrir um nóttina, ruðst gegn um hlöðuna, inn í fjárhúsið og drekkt þar 47 kindum og skemmt fóðurmjölsbirgðir. Í húsinu voru 120 kindur. Sigurður sagði í viðtali við Tímann í dag, að í gærkvöldi hefði byrjað að rigna allmikið. Ekki var þó annað vitað um háttatíma, en bæjarlækurinn væri í farvegi sínum, enda á hann ekki vanda til þess, að fara neitt afvega. Mikill ís var á læknum og snjór yfir og var því lækurinn sjálfur aldrei sjáanlegur, þar sem hann rann skammt frá hlöðuveggnum. Þegar Sigurður opnaði fjárhúsdyrnar um morguninn streymdi vatnið á móti honum. Við athugun kom í ljós, að lækurinn hafði farið niður með bárujárnsklæddum hlöðuveggnum og grafið sig þar inn í hlöðuna. Ekki urðu verulegar skemmdir á heyinu, en lækurinn hélt áfram inn í fjárhúsin. Í því húsinu, sem hann gerði mestan uslann, voru 120 kindur. Þegar Sigurður kom að, um hálf níuleytið um morguninn, voru 46 kindur dauðar, og voru þær á kafi í vatninu. Tvær voru mjög máttfarnar og drapst önnur þeirra fljótlega. Hinar stóðu strax upp og eru nú búnar að ná sér eftir volkið. Þrjú tonn að fóðurmjöli höfðu komið á föstudagskvöldið og mun lækurinn hafa stórskemmt að minnsta kosti 800 kg. af því. Tjónið er tilfinnanlegt, því ekkert af þessu, var tryggt gegn skaða af þessu tagi. Sigurður gat þess til dæmis, að af þessum 47 kindum, sem drukknuðu, hefðu 32 verið tvílembdar í fyrra.
Ingibjörg í Síðumúla talar líka vel um mars og apríl (stytt):
Marsmánuður var frekar kaldur en snjóléttur. Snjórinn hvarf að mestu eftir þ. 16. Ár og lækir fossuðu fram eins og í mestu vorleysingum. Þ.17. frysti aftur og var frost til mánaðarloka, nema þ. 23., þá rigndi einn sólarhring. Aprílmánuður var góðviðrasamur og úrkomulítill og því áfallalaus, en enginn gróður. Jörð er auð á láglendi, en fjöll að mestu hvít.
Mikla hláku og vatnavexti gerði um miðjan mars. Skemmdir urðu mestar í Skagafirði, en Veðráttan getur einnig skemmda norðan til á Snæfellsnesi og við Þverá á Rangárvöllum. Tíminn segir frá 17.mars:
OÓ-Reykjavík,mánudag. Mesta vatnsflóð sem menn muna eftir í Héraðsvötnum hefur verið kringum Vallarhólma síðan fyrir helgi [laugardagur 14.mars]. Liggur vegurinn undir vatni á stórum kafla og er vatnsyfirborðið sums staðar 70 sentimetra yfir veginum. Mikið krap og jakaruðningur er í vatninu og er líklegt talið að vegurinn sé mikið skemmdur, en engir bílar komast þarna yfir. Vatnið flæddi þarna yfir veginn s.l. föstudag [13.] og síðan hefur öll umlferð um hann legið niðri. Fimm bæir eru einangraðir vegna vatnsins. Í dag var vatnið farið að sjatna og verður reynt að opna veginn á morgun. Vegagerðamenn munu fylla upp í skörðin með grjóti og möl. Ekki lokaðist þó leiðin norður, því hægt var að komast á Sauðárkrók og veginn út fyrir, og fram veginn í Bólstaðahlíð. Mikil vatnsflóð eru einnig í Blönduhlíðinni fyrir neðan Akra, en þar hafa flóðin minnkað mjög. Veður fer nú kólnandi aftur fyrir norðan, komin hríð og skafrenningur, svo að ekki lítur vel út með að halda leiðum opnum. Á Suður- og Vesturlandi hefur vatnselgur aukist mjög á vegum í dag. Mest er vatnsmagnið á Rangárvöllum í Landeyjum og Hvolshreppi. Austan við Hvolsvöll hefur legið talsvert vatn á veginum, Færð vestur um land er sæmileg, en Holtavörðuheiði lokaðist vegna hríðar.
OÓ-Reykjavík, mánudag. Stór steinn féll ofan á bíl undir Múlafjalli i Hvalfirði s.l. laugardag [14.]. Var höggið svo mikið að bíllinn kastaðist út af veginum og niður í fjöru, um 10 metra fall. Í bílnum voru maður og kona, bæði útlendingar. Maðurinn meiddist alvarlega, og er m.a. höfuðkúpubrotinn. Konan meiddist minna.
Nú voru komin jafndægur á vori. Ritstjóranum er minnisstætt að lítil lægð nálgaðist Grænland úr vestri. Veðurfræðingur sjónvarpsins nefndi hana vorlægð. Hún reyndist þó mun skæðari, olli margra daga illviðri, fyrst af útsuðri, en síðan af útnorðri. Varð þetta veður einna harðast um landið austanvert. Mikið frost fylgdi, enda töluverður hafís við Norðurland.
Háloftakort síðdegis sunnudaginn 22. mars. Gríðarlega öflugur kuldapollur vestan við Grænland. Hann tók sig upp og fór austur fyrir næstu daga. Gerði þá mikið illviðri hér á landi.
Mánudaginn 23. var vaxandi suðvestanátt og hláka. Lægðin fór norðaustur um Grænlandssund og dýpkaði verulega.
Síðdegis á þriðjudag var vestanstórviðri á landinu. Éljagangur vestanlands, en mun bjartara veður eystra.
Þann 25. var kuldapollurinn mikli loks kominn alveg yfir Grænland - vindur fór að snúast til norðvesturs um landið austanvert, en að ganga niður vestanlands. Tíminn segir frá 26.mars (á skírdag):
SBReykjavík, miðvikudag. Illviðri hefur verið víða um landið í nótt og morgun og hafa orðið af því rafmagnstruflanir. Innanlandsflug hefur verið mjög stopult og ekki útlit fyrir betra alveg á næstunni. Vegir norðanlands eru illfærir eða ófærir ef ekki vegna snjóa, þá veðurs. Lítill snjór hefur sest á vegina sunnanlands og er víðast vel fært. Frá Akureyri fengum við þær fréttir, að þar væri mjög slæmt veður og hefði verið síðan í gær. Vegagerðamenn á Öxnadals- og Holtavörðuheiði hættu að moka veginn og sneru sér að því að hjálpa fólki á litlum bílum, sem þar festust í hrönnum. Margir bílar sitja þar enn, en fólkið er allt komið til byggða. Vegir út frá Akureyri eru flestir færir ennþá, hvað snjóþyngsli snertir, en veðrið er þannig, að illt er að keyra þá. Ef ekki breytist veður þar í dag, munu sennilega flestir vegir lokast þar nyrðra. Áætlunarbíll úr Reykjavík í gær, komst til Akureyrar um 8 leytið í morgun og annar bíður í Varmahlíð með kvennaskólastúlkur úr Borgarfirði, eftir að komast yfir Öxnadalsheiðina. Þótt hvasst væri og skafrenningur sunnanlands í nótt, hefur ekki sest mikill snjór á vegi og er víðast fært, nema um Hellisheiði. Versta veður gekk yfir Siglufjörð í gærkvöldi og slitnaði við það háspennulína frá Skeiðfossi í Skarðsdal.
OÓ-Reykjavík, miðvikudag. Rafmagnslaust varð í Reykjavik, Kópavogi, Hafnarfirði og um öll Suðurnes i hálftíma í nótt. Fór rafmagnið af kl. 2:49 en var komið á aftur á mestöllu svæðinu hálftíma síðar. Fór rafmagnið af rafleiðslunum bæði frá Írafossvirkjun og Búrfellsvirkjun. Rafmagnsleysið stafaði af því að eldingarvari skemmdist á spennir við Írafoss. Eyðilagðist spennirinn af seltu og snjófjúki. Spennirinn sem bilaði tengir Búrfellslínuna við stöðvarnar við Sog. Varð skammhlaup og gekk það út á eðlilegan hátt. Var strax hafist handa um viðgerð á spenninum og eftir hálftíma var rafmagnið komið á aftur á mestöllu svæðinu en nokkuð lengri tíma tók að koma rafmagni á einstök svæði. Ekki er vitað til að, rafmagnsleysið hafi valdið skemmdum eða truflunum svo neinu næmi. Þá varð rafmagnslaust í Borgarnesi í 11 tíma. Fór rafmagnið af um hálf eitt í nótt, og var ekki búið að gera við bilunina fyrr en um hálf tólf á hádegi í dag.
Íslandskort kl.18 þríðjudaginn 24.mars. Þá var mjög slæmt veður um landið vestan- og norðanvert - og á hálendinu. Óvenjumikið frost í þessari vindátt.
Að morgni skírdags var vindur orðinn norðvestlægur. Þá ver veðrið langverst á Norðausturlandi og suður eftir Austfjörðum - en vindur orðinn hægur í heiðríkju vestanlands og sunnan. Mikið frost var á landinu, enda hafís fyrir mestöllu Norðurlandi.
Morgunblaðið segir af illviðrinu um páskana í frétt 1.apríl. Eystra er það skírdagsveðrið, en vesturlandsfréttin af öðru veðri sem gerði á laugardag fyrir páska [28.]. Þá kom lægðardrag úr vestri inn á Grænlandshaf og fór austur um. Lægð myndaðist í þessu lægðardragi og dýpkaði talsvert við Suðurland og olli norðaustanhríð.
Rækilegt páskahret gekk yfir landið og fengu allir landshlutar að kenna á því i einhverjum mæli. Austfirðingar fengu forskot með ákaflega hörðu veðri á miðvikudagskvöld og fimmtudag. Olli það skemmdum á Seyðisfirði, þar sem þök fuku og rúður brotnuðu og maður fékk glerbrot í auga. Á laugardag fór veður svo vaxandi og var kominn norðaustanstormur um miðnætti víðast hvar á Vestfjörðum og miðum norðanlands. Á páskadag voru 78 vindstig og upp í 9 vindstig hér og þar um landið, og hríðarveður um norðan- og austanvert landið. Töluvert frost fylgdi veðrinu, upp í 11 stig á Hveravöllum. En á páskadag fór að draga úr. þetta olli víða erfiðleikum í umferð. Morgunblaðið hefur leitað frétta frá nokkrum fréttariturum í ýmsum landshlutum og fara fréttir þeirra hér á eftir. Landið er nú alhvítt, að því er Páll Bergþórsson, veðurfræðingur, tjáði okkur, rétt sést skuggi á Rangárvöllum á loftmyndum.
Seyðisfirði Norðanstormur gekk hér yfir á miðvikudag fyrir páska og skírdag og fylgdi 13 stiga frost. Í óveðrinu fauk rúða í íbúðarhúsi einu inn og lentu brotin í auga Hilmars Eyjólfssonar, sem hafði setið þar við borð. Var það svo slæmt að hann var fluttur suður í sjúkrahús, eftir að gert hafði verið að meiðslum hans til bráðabirgða. Mun ekki verða útséð fyrr en eftir nokkurn tíma hvort hann heldur sjón á auganu. Mikill skaði varð á bænum Hánefsstöðum. Þar fauk allt þakið af hlöðunni og hluti af áföstu fjósþaki. Í íbúðarhúsinu brotnuðu 9 rúður. Sviptivindar voru svo miklir, að rúðurnar brotnuðu sitt á hvað á þremur hliðum hússins. Járnplötur fuku af fleiri húsum á Hánefsstöðum, en engin meiðsli urðu á mönnum eða skepnum. Í veðrinu fauk bíll á hliðina. Voru menn farnir úr honum, því hann hafði lent út úr slóðinni og hallaðist svolítið. En vindilviða skellti honum á hliðina. Skíðamót var um helgina. Dagskrá raskaðist, en að öðru leyti gekk það vel. Talsverður snjór er hér og mikið vetrarríki, því ekki hefur komið almennileg hláka síðan í janúar. Sveinn.
Neskaupstað. Hér var slæmt veður alla páskadagana, ákaflega hart á skírdag og aðfaranótt skírdags. Var þetta með verstu veðrum, sem hér koma. Eitthvað brotnaði af rúðum, og þótti það vel sloppið. Dísarfellið kom á föstudag, hafði seinkað um tvo sólarhringa frá Danmörku og sagði skipstjórinn þetta hafa verið með verstu veðrum, sem hann hefði lent í og ofsalegur sjór. Norskt björgunarskip, Salvador, kom hér í dag. Kom það með selveiðiskipið Veiding, sem hafði verið með bilaða vél í ísnum. Fer viðgerð fram og síðan halda skipin norður aftur. Ásgeir
Húsavík. Versta veður var um páskahelgina, svo ófært varð. Á páskadag var stórhríð. Hér sjást ísjakar á stangli um flóann. Í björtu má þræða á milli, en ekki er hægt að sigla í myrkri. Óttast menn að ísinn kunni að skemma grásleppunetin. Fréttaritari.
Stykkishólmi Ákaflega slæmt veður var hér um páskana og snjóaði mikið. Komu hæstu skaflar vetrarins í þessu páskahreti. Bílar festust á mörgum leiðum og gisti fólk hingað og þangað. T.d. gistu um 20 manns á einum bænum. Fimm unglingar, sem höfðu farið úr Reykjavík á laugardag, fundust fastir í skafli í Eyjahreppi. Var farið á móti þeim frá Þverá og fólkinu bjargað þar heim á bæ. Ólafsvíkurrútan, sem átti að koma seinni hluta laugardags, lenti í basli og kom ekki fyrr en um nóttina. En nú er umferðin að komast í samt lag. Bátar hafa ekki komist á sjó í 45 daga, reyndu á laugardag án þess að geta athafnað sig. En nú eru þeir farnir út. Fréttaritari.
Að auki getur Veðráttan þess að járnplötur hafi fokið og rúður brotnað í Flatey á Breiðafirði. Það mun hafa verið í fyrra veðrinu og að þann 28. hafi þrír bílar fokið út af veginum við Ferstiklu í Hvalfirði (í norðanstormi).
Tíminn segir af ís við Raufarhöfn 3.apríl:
[Raufarhöfn] HHfimmtudag. Samgöngur við umheiminn eru fremur erfiðar um þessar mundir. Hér er mikill snjór og allir vegir í kring, ófærir. Flug hefur líka verið stopult, en á föstudaginn langa [27.mars] kom Tryggvi Helgason hingað og í morgun [2.apríl] kom svo vél frá Akureyri, en þegar hún var komin yfir völlinn, gerði mikla hríð, svo vélin sneri til Akureyrar aftur. Á laugardaginn fyrir páska [29.] rak hafísinn hérna inn á höfnina og hann er enn hérna fyrir utan, við sjáum hann, þegar birtir upp.
Tíminn segir 18.apríl enn af ís á Raufarhöfn:
HHRaufarhöfn, SBReykjavík, föstudag. Þegar Raufarhafnarbúar fóru á stjá í morgun, urðu þeir þess varir, að bryggjum staðarins hafði fækkað um eina. Ísjaki hafði brotið niður eina af bryggjum söltunarstöðvarinnar Borga. Enginn mun hafa séð þetta vilja til. Söltunarplanið er yfirbyggt og þar var tunnustafli, sem hrundi, svo og undirstöður færibanda. Tjónið mun vera allmikið. Talsvert ísrek hefur verið á höfninni undanfarið og allstór jaki hefur flotið undir bryggjuna einhvern tíma í nótt og brotið bryggjustólpana einn af öðrum. Það eina, sem sjáanlegt er af bryggjunni, er fremsta brúnin.
Í Tímanum 23.apríl er rætt við Magnús Óskarsson á Hvanneyri, hann segir m.a.:
Við, sem störfum við landbúnað, óskum að sjálfsögðu eftir hagstæðu veðurfari í vor og sumar, eins og ætíð um sumarmát. Nú virðist útilit fyrir gróðurinn vera betra en síðast liðin tvö ár. Hafísinn ógnar ekki eins fyrir norðan, og það er töluvert minni klaki i jörðu.
Maí var nokkuð umhleypinga- og úrkomusamur um landið sunnanvert, en mun betri norðanlands. Ingibjörg í Síðumúla segir frá maímánuði:
Maímánuður var ekki hlýr, en ekki heldur kaldur, t.d. voru aðeins 2 frostnætur. Mikinn hluta mánaðarins voru fjöll flekkótt af snjó, en nú nokkra daga hafa þau verið fannhvít. Í byrjun mánaðarins fóru tún að grænka og eru nú algræn og fyrir löngu nægur gróður fyrir sauðfé, en hér um slóðir er enn ekki farið að láta út kýr. Að kvöldi þ. 5. byrjaði Hekla að gjósa. Barst þá aska frá henni á fremstu bæi í Hvítársíðu, sem varð til þess að sauðfé hefur orðið að vera þar mikið á gjöf vegna eitrunar. Sauðburðartíð með afbrigðum slæm og hefir því margt lambið króknað.
Hekla fór að gjósa að kvöldi 5.maí, ein af mörgum algjörlega óvæntu fregnum ársins. Næsta Heklugos á undan hófst 1947, eftir rétt rúmlega aldarhlé. Búið var að ákveða að gos í henni væri ekki væntanlegt það sem eftir lifði aldar - og sennilega þyrfti að bíða þess enn lengur. Tíminn segir frá 6.maí:
SBEJKJReykjavík, þriðjudag. Hekla byrjaði að gjósa um kl.21 í kvöld, og virðist gosið mjög svipað og árið 1947, þegar Hekla gaus síðast, að sögn sjónarvotta. Gýs úr Heklu á þremur stöðum, og stendur geysimikil eldsúla upp gegnum reykmökkinn, sem er 16 kílómetrar á hæð og 16 kílómetrar á breidd. Vindur var í kvöld austlægur, og bar reyk og ösku því inn yfir Hreppa og Biskupstungur. Grjót féll yfir Búrfellsvirkjunarsvæðið og var allt fólk, annað en nauðsynlegustu gæslumenn, flutt af virkjunarsvæðinu í kvöld. Er loftið allt orðið svart af ösku og reyk. Barst askan allt norður á Hvammstanga og Blönduós. Það var klukkan 21:45, að Ágúst Sveinsson, bóndi á Ásum í Gnúpverjahreppi hafði samband við Veðurstofu Íslands og tilkynnti, að hann sæi reyk leggja upp úr Heklu, finndi hann jafnframt smá jarðskjálftakippi og brennisteinsfýlu legði af eldfjallinu. Þar með var talið víst, að Hekla væri að gjósa, og þótti að vonum mikil tíðindi. Skömmu síðar tilkynntu ýmsir sjónarvottar um mikinn reykjarmökk og eldglæringar úr Heklu, og loks um mikið eldgos. Kom eldgosið mjög óvænt. Sjónarvottar sáu skyndilega mikla reykjarsúlu rísa upp úr fjallinu, og skömmu síðar sáust fyrstu eldglæringarnar. Við athugun á jarðskjálftamæli Veðurstofunnar kom í ljós, að fyrsti jarðskjálftakippurinn í kvöld mældist þegar klukkuna vantaði tvær mínútur i 9, og síðan urðu kippirnir fleiri og fleiri og sterkari, og mældust loks um 4 stig á Richterskala.
Tíminn segir af öskufalli 13.maí:
GS-Ísafirði, þriðjudag. Kvöldið sem Hekla byrjaði að gjósa [5.maí], var vélskipið Mímir að veiðum norður af Vestfjörðum. Um kl.1:45 var skipið statt um 20 mílur norðaustur af Horni. Var þá svo mikið öskufall þarna, að hafísjakar, sem sjáanlegir voru, urðu fljótlega grásvartir og heldur óyndislegir á litinn. Einnig kvörtuðu skipverjar um sviða í augum.
Hræðilegt slys varð á Fimmvörðuhálsi um hvítasunnuna. Tíminn segir af því 20.maí;
KJReykjavík, þriðjudag. Ellefu manns lögðu upp frá Skógum undir Eyjafjöllum áleiðis yfir Fimmvörðuháls um klukkan sjö á laugardagskvöldið [16.maí], en aðeins átta þeirra komust á leiðarenda hin þrjú létust af kulda og vosbúð eftir að komið var upp á hálsinn, og munaði minnstu að fleiri úr hópnum hlytu sömu örlög. Ellefumenningarnir lögðu af stað frá Skógum um sjö, og héldu sem leið liggur upp með Skógá. Var veður sæmilegt í byrjun, en þegar fólkið var búið að ganga í 34 tíma, fór að hvessa mikið og jafnframt að rigna mikið. Eftir u.þ.b. klukkutíma, en allar tímaákvarðanir eru óljósar, breyttist rigningin í snjó, og jafnframt fór að frjósa. Var fólkið þá orðið gegnblautt, og færðin slæm þarna í snjónum. Áfram hélt hópurinn, og fór fram hjá sæluhúsinu á Fimmvörðuhálsi í 200300 metna fjarlægð, að því er fararstjórinn telur, en hann segir það hafa verið nær ógjörningur að komast í það, nema þá skríða þangað, vegna hvassviðrisins. Þá segir fararstjórinn, að hann hafi oft komið að sæluhúsinu, og hafi venjulega verið klaki fyrir dyrum, og húsið stundum fullt af snjó. Var því haldið áfram framhjá sæluhúsinu, hægt og bítandi.
Í ljós kom að aska úr Heklu olli vanhöldum á sauðfé - flúoreitrun kennt um. Þessa gætti einnig (í minna mæli þó) í næsta gosi á eftir, sumarið 1980. Síðari gos úr fjallinu hafa orðið að vetrarlagi. Tíminn segir frá 21.maí:
FBReykjavík, miðvikudag. Fréttir hafa nú borist af því, að fé sé farið að drepast vegna flúoreitrunar í Húnavatnssýslum. Hafa þegar drepist milli tíu og tuttugu kindur í vestursýslunni, en talið er, að ástandið á þessum slóðum sé jafnvel alvarlegra heldur en hér sunnan lands. Við ræddum stuttlega við Svein Hallgrímsson ráðunaut hjá Búnaðarfélagi Íslands í dag, og sagði hann, að flúoreitrunin næði líklega yfir svæði, sem á eru milli 70 og 80 þúsund fjár. Er þá ekki talin með Strandasýslan, en ekki er vitað enn um veikindi í fé þar af völdum öskufallsins, þótt öskufall hafi verið þar nokkuð. Sveinn sagði, að vitað væri að milli 10 og 20 kindur hefðu þegar drepist í Vestur-Húnavatnssýslu.
Óvæntur snúningur varð við Heklu þann 20. Tíminn segir frá 22.:
KJReykjavík, fimmtudag. Í gær urðu menn varir við nýjar gosstöðvar á Heklusvæðinu og við athugun kom i ljós, að opnast hefur stór og mikil gossprunga, sem er allt upp undir einn kílómetri á lengd. og gígar í henni eru einhvers staðar á milli 15 og 20 talsins.
Veðráttan segir frá því að þann 12. maí hafi Selá í Vopnafirði rutt sig og skemmt veginn og þann 27. varð tjón í varpi sjófugla og á grasi í særoki í Vestmannaeyjum. Morgunblaðið segir 27. maí af tjóni á útvarpsloftneti í þessu síðarnefnda veðri [26.maí]:
Langbylgja Ríkisútvarpsins á Vatnsenda bilaði í gær rétt eftir hádegið. Loftnet skemmdist í stormi og var eigi unnt að gera við bilunina fram eftir degi vegna veðurs. Því þagði langbylgjan í allan gærdag og fram á kvöld. Hins vegar gátu hlustendur, sem hafa FM-bylgju notið útsendingar útvarpsins. Á þeirri bylgju varð engin bilun.
Ingibjörg í Síðumúla lýsir júnímánuði:
Júnímánuður var þurrviðrasamur og veðragóður og hefur gróður jarðar tekið miklum framförum, en enginn heyrist enn tala um að hefja slátt. Sólarleysi, mistur og móða í lofti hafa einkennt veðurfarið, svo gott sem það þó var. Það var aðeins einn og einn dagur í einu, sem var sólríkur og fagur. Kýr voru óvanalega seint látnar út, sérstaklega fremst í Hvítársíðu, þar sem öskufalls gætti, t.d. í Fljótstungu var byrjað að beita þeim þ. 26. en neðantil í sveitinni höfðu þær verið látnar út upp úr 10.
Tíminn birti 7.júní frétt úr Þykkvabæ:
5JReykjavík, fimmtudag. Kartöfluniðursetningu er ekki enn lokið í Þykkvabænum, þeim mikla kartöfluræktarhreppi, og er orsökin sú, að illfært hefur verið yfir suma garðana vegna bleytu.
Tíminn segir af hita norðaustanlands 13.júní - og einnig af vanhöldum á sauðfé:
KJReykjavík, föstudag. Hitabylgja var á Norðurlandi í dag [12.júní] og mældist mestur hiti á landinu á Grímsstöðum á Fjöllum, eða 23 stig á Celsius, en Grímsstaðir hafa hingað til verið frægari fyrir mikið frost, en mikinn hita. Á Mánárbakka á Tjörnesi var 19 stiga hiti klukkan sex í kvöld og sama hitastig í miðju Ísafjarðardjúpi, eða í Æðey. Þá var 18 stiga hiti á Staðarhóli í Aðaldal.
FB-Reykjavík, föstudag. Geysimikil vanhöld hafa orðið á fénaði á öskufallssvæðunum, bæði sunnanlands og norðan, og sér í lagi nú i sambandi við sauðburðinn. Annars hefur sauðburðartíð verið erfið um allt land, og viðast hvar hefur verið bæði rigningasamt og kalt. Sauðburði er nú almennt lokið.
Tíminn segir af Heiðmörk 19.júní:
SJReykjavík, fimmtudag. Óvenjulega mikill snjór var í Heiðmörk í vetur og hafa nokkrar skemmdir orðið á trjám af völdum hans. Greinar hafa slitnað af trjám og nokkur hafa brotnað alveg, einkum furutré. Skemmdir þessar eru þó ekki alvarlegar og eftir 23 ár má búast við að engin merki sjáist eftir þær.
Mikið kal var í túnum, alvarleg staða víða. Tíminn 21., 24. og 26.júní:
[21.] SBReykjavík, laugardag. Kal á túnum í Suður-Þingeyjarsýslu er nú meira en nokkru sinni fyrr, en þó misjafnt eftir sveitum. Gróðri fer lítið fram um þessar mundir þrátt fyrir hlýindin þar sem ekki hefur komið dropi úr lofti þar nyrðra svo vikum skiptir. Ekki eru líkur fyrir að sláttur geti hafist fyrr en langt er liðið á sumarið.
[24.] SB-Reykjavík, þriðjudag. Tún á Norður- og Norðausturlandi eru víða mjög illa kalin og eru menn sammála um, að ástandið sé verra en nokkru sinni fyrr. Verst munu tún þó líta út í Þingeyjarsýslum, og er þar fyrst og fremst um nýtt kal að ræða. Í Svarfaðardalnum er meira og minna kal á hverju túni, en þar lá svell yfir öllu, mánuðum saman í vetur. Í Fljótum er víða mikið kal, en annars staðar í Skagafirði er ástandið skárra.
[26.] EJ-Reykjavík, miðvikudag. Gnúpverjaafréttur slapp að mestu við öskufall af völdum Heklugossins og eiga bændur því ekki í erfiðleikum af þeim sökum, nema á einstöku bæjum, svo sem í Laxárdal að sögn Guðjóns Ólafssonar bónda á Stóra-Hofi. ... Hins vegar sagði Guðjón að nú væri óvenjumikið kal í túnum hjá bændum í hreppnum.
Sagt frá sláttarbyrjun. Tíminn 28.júní:
SBReykjavík, laugardag. Fáeinir bændur undir Eyjafjöllum og í Eyjafirði, eru byrjaðir að slá. Er það með seinna móti nyrðra, en á svipuðum tíma og venjulega fyrir sunnan. Ekki er þó búist við að sláttur hefjist almennt fyrr en eftir mánaðamótin.
Júlímánuður var óvenjukaldur, sérstaklega um landið norðan- og austanvert. Hríðarveður gerði á heiðum oftar en einu sinni. Hungurdiskar fjölluðu sérstaklega um eitt þessara veðra í sérstökum pistli. Veðrið hörmulega þegar forsætisráðherra, kona hans og barnabarn brunnu inni á Þingvöllum.
Ingibjörg í Síðumúla lýsir veðri í júlí og ágúst:
Júlímánuður var kaldur, en þurrviðrasamur. Sláttur hófst ekki fyrr en um og eftir miðjan mánuð, því að viða var grasspretta svo rýr, að beðið var eftir rekju, sem þó ekki kom. Ágústmánuður var kaldur og úrkomusamur, og því ekki góð heyskapartíð. Þó voru margir dagar hlýir og góðir, t.d. frá 21.-24. Heyskapur er allstaðar langt kominn og sumstaðar alveg búinn, yfirleitt er heyforði mikið minni en venjulega, en nýting sæmileg.
Tíminn segir af hríðarveðri 10.júlí:
OÓReykjavík, fimmtudag. Hríðarveður gerði á Norðausturlandi s.l. nótt [aðfaranótt 9.] og lokuðust fjallvegir. Frost var í nótt á Hveravöllum og á Grímsstöðum á Fjöllum var þriggja stiga frost. 72 manna ferðamannahópur, sem var í þrem bílum frá ferðaskrifstofu Úlfars Jacobsens, lögðu af stað í morgun frá sæluhúsi Ferðafélagsins við Tungnafellsjökul, og átti að reyna að komast niður í Bárðardal í kvöld. Í morgun var stórhríð og 10 metra skyggni á þessum slóðum, en færð ekki tiltakanlega slæm. Víða snjóaði í fjöll norðanlands í nótt, eða allt niður í 200 metra hæð. Starfsmenn Vegagerðarinnar unnu að snjóruðningi á heiðavegum í dag, og segjast aldrei hafa stundað þá iðju um þetta leyti árs áður.
Nokkrir fjallvegir urðu ófærir vegna snjókomunnar í nótt, og voru þeir ruddir í dag. Hellisheiði eystri, sem er milli Vopnafjarðar og Héraðs varð ófær öllum bílum. Í nótt var einn bíll á ferð yfir Vopnafjarðarheiði, og var búinn að vera níu klukkustundir á leiðinni, þegar hann komst til byggða, en þarna er aðeins klukkustundar akstur við venju leg skilyrði. Jökuldalsheiði varð ófær öllum minni bílum. Voru þessir fjallvegir ruddir í dag. Víðar snjóaði á vegi, en þó ekki meira en svo að umferð stöðvaðist ekki.
Tíminn segir enn af hríð og illviðri 11.júlí og af brunanum á Þingvöllum:
EB-OÓ-Reykjavík, föstudag. Fjallvegir á Norðausturlandi eru ennþá illfærir, eftir hríðarveðrið í fyrrinótt. Vopnafjarðarheiðin var rudd í dag og er hún því fær nú. Hins vegar er Hellisheiðin eystri ófær enn og Jökuldalsheiðin er torfær. Þá er Sprengisandsvegur nær ófær, og ekki æskilegt að fólk fari hann sem stendur á bifreiðum sínum né aðrar öræfaleiðir. Kjalvegur er fær að sunnan að Kerlingarfjöllum, en Auðkúluheiðin er ófær. Hins vegar eru Möðrudalsöræfin sæmilega fær. Í nótt snjóaði aftur á Norðausturlandi og alls staðar á landinu var norðanátt og heldur kalt. Mest var úrkoman á Þingvöllum, en þar rigndi frá því kl.6 í gærdag til kl. 9 í morgun. Var úrkoman svo mikil að það magn sem til jarðar féll, var helmingur af því sem gerist venjulega hálfan júlímánuð, eða 36 mm, en meðalúrkoman í júlímánuði er 72 mm. Á hálendinu var slydda eða snjókoma og var þar hvít jörð í morgun. Á Hveravöllum fór hitastigið niður fyrir frostmark í nótt og á Grímsstoðum á Fjöllum var eins stigs hiti á hádegi, en þar var ekki frost s.l. nótt. Sagði Kristján Sigurðsson bóndi þar, að mjög kalt hafi verið þar undanfarna daga og í gærmorgun var jörð þar alhvít og slydduél í gær. Var veghefill sendur í gær frá Reyðarfirði upp á Möðrudalsöræfin til lagfæringar á illfærum vegarkafla þar. Í dag er norðaustan stormur hérna og rigning, allur snjór er horfinn af láglendi en fjöllin eru alhvít, sagði Kristján. Veðurstofan spáir áframhaldandi norðanátt austan til á landinu og úrkomu, en lygnandi og hlýnandi veðri vestan til.
KJFBReykjavík, föstudag. Dr. Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, frú Sigríður Björnsdóttir, kona hans, og dóttursonur þeirra, Benedikt Vilmundarson, létust þegar eldur kom upp í ráðherrabústaðnum á Þingvöllum og hann brann til kaldra kola síðastliðna nótt. Voru jarðneskar leifar þeirra fluttar til Reykjavíkur í morgun.
Morgunblaðið segir af erfiðleikum á svifflugmóti á Hellu í pistli 17.júlí:
Ekki blés hann byrlega hjá svifflugmönnum á Hellu þessa dagana. Vindasamt hefur verið þar síðan mótið hófst, og skilyrði til svifflugs ekki góð, en þó hafa fengist tveir gildir keppnisdagar af þeim fimm, sem mótið hefur staðið. Í gær var veðrið slæmt, rok og rigning, og áttu menn í erfiðleikum með tjöld sín. Nokkur tjöld fuku eða rifnuðu. Hins vegar höfðu engar skemmdir orðið á svifflugunum, enda hafa menn gætt þeirra vandlega.
Tíminn segir enn af kali 18.júlí, en fjallar einnig um veðurhorfur:
OÓ-Reykjavík, föstudag. Óskaplega mikið kal er í túnum á Vestfjörðum. Aðalkalsvæðið nær allt frá Dýrafirði norður um Djúpið, og svo meira og minna annars staðar. Víða er klaki enn í jörðu og tíð hefur verið köld og spretta lítil. Í byrjun þessa mánaðar mátti álykta að tún í hreppunum við Djúpið væru kalin allt að 90%.
EB_Reykjavjk, föstudag. Á morgun, laugardag ætla veðurguðirnir sér að vera hliðhollir Austfirðingum. Sunnlendingum og Vestfirðingum. en að því er Veðurstofan tjáði blaðinu í kvöld. á að vera bjart og hlýtt veður fyrir þá þann daginn. Hins vegar bjóst Veðurstofan við kalsarigningu á Norðurlandi og jafnvel snjókomu á hálendinu. Aðra nótt er hins vegar útlit fyrir að þykkni upp hér sunnanlands og gangi í austanátt með einhverri úrkomu en gert er ráð fyrir að úrkomulaust verði annars staðar á landinu á sunnudaginn. Vegir eru nú komnir i samt lag aftur eftir kuldakastið fyrir síðustu helgi og eru nú þegar á heildina er litið. eins og algengast er á þessum tíma árs.
Í gærkvöldi og nótt geisaði illviðri á Þingeyri og nálægum byggðum. Breiðadalsheiði tepptist og ryðja varð snjó af henni svo fært yrði fyrir bíla. Snjó festi niður fyrir miðjar hlíðar á Þingeyri.
Fyrirsögn í Vísi 21.júlí: Ekki hægt að telja hreindýr vegna snjóa. Guðrún Tómasdóttir veðurathugunarmaður í Skógum segir: Þann 21. fauk mikið hey og þak af tveim hlöðum (Hvammi og Efri-Hól undir V-Eyjafjöllum. Veðráttan segir að kartöflugras hafi skemmst mjög í Þykkvabæ, Landeyjum og víðar þennan dag.
Tíminn segir af kuldunum 22.júlí:
OÓReykjavík, þriðjudag. Meðalhitinn það sem af er júlímánuði er 1 til 2 stigum fyrir neðan meðallag. Síðustu sólarhringa hefur verið þráfelld norðanátt á landinu og oft rok. Í Reykjavík voru til dæmis 9 vindstig um hádegi í dag [21.]. Horfur eru á svipuðu veðri næstu dægrin. Á Austfjörðum var talsverð rigning í dag, og sums staðar á Suðurlandi fór að rigna um miðjan dag. Á Norður- og Austurlandi er hitinn ekki nema 46 stig á láglendi. Á hálendinu hefur verið frostlaust í dag, en s.l. nótt var eins stigs frost á Grímsstöðum á Fjöllum og á Hveravöllum. Nokkuð hefur fölvað á hálendinu, en úrkoma hefur verið lítil síðustu sólarhringa. Á Austfjörðum hefur hrímað í fjöll, en snjókoma er ekki mikil. Í dag fór að snjóa víða á hálendinu og urðu nokkrir fjallvegir illfærir og jafnvel ófærir. Var snjórinn mjög bleytublandinn og því hálkan geysileg og gerði það alla umferð örðuga, þótt snjókoman væri ekki mikil.
Tíminn segir af slæmum heyskaparhorfum 25.júlí:
SBReykjavík, föstudag. Heyskaparútlitið er nú verra, en nokkur síðustu harðindaára, þegar á landið í heild er litið. Spretta er léleg víðast hvar á landinu og ræður þar mestu um, hve kalt er nú i júlí og einnig, hve mikið er um kalskemmdir, bæði nýjar og eldri. Þeir bændur, sem eitthvert gras hafa að slá, eru byrjaðir á því. Skást er ástandið í Suður-Múlasýslu og Skaftafells sýslum, en verst í Þingeyjarsýslum. Þessar lítt uppörvandi fréttir komu fram í viðtali við Halldór Pálsson, búnáðarmálastjóra í dag. Þetta er einn kaldasti júlímánuður og hitastigið er langt fyrir neðan það, að gras geti sprottið, að minnsta kosti á nóttunni og sums staðar allan sólarhringinn, sagði Halldór. Menn vonast til að hlýni og geri góða sprettu héðan af, en ef ekki fer fljótlega að bregða til hlýinda, er augljóst, að heyskaparmöguleikar verða óvenjulega rýrir. Er þetta svona slæmt um allt land? Því nær allt landið. Segja má að sprettan sé sæmileg á Suð-austurhorni landsins. Langverst er ástandið á kalsvæðunum Norðanlands, í Köldukinn. Reykjahverfi og Vesturfljótum í Skagafirði. Í innanverðum Skagafirði er sprettan hins vegar betri. Víða í Suður-Þingeyjarsýslu eru mjög miklar skemmdir og í 3-5 hreppum á Héraði. Þá eru Vestfirðirnir illa farnir, einkum við Ísafjarðardjúp og sums staðar í Vestursýslunni, nokkuð í Barðastrandarsýslu og norðan til í Strandasýslu. Í Dölunum eru dálitlar kalskemmdir. Ég hef ekki farið um Suðurlandið, en þar er nokkuð um nýjar kalskemmdir.
Sama dag [25.júlí] og daginn eftir [26.] er í Tímanum alllangur þýddur pistill um heimskautarannsóknir og kólnandi veðurfar. Hér eru fáein brot úr pistlinum:
Rússar og Bandaríkjamenn eru að hefja mjög umfangsmiklar rannsóknir til þess að komast að raun um, hvað valdi kólnandi loftslagi umhverfis norðurheimskautið, hvers vegna ísinn á Norður-íshafinu hafi þykknað jafn mikið að undanförnu og raun ber vitni, og hvort aukning íssins sé að einhverju leyti orsök ísalda. Rannsóknunum verður hraðað eins og kostur er. meðal annars vegna mikilla auðlinda sem fundist hafa í heimskautalöndum Sovétríkjanna og Norður-Ameríku. Notaðir verða kjarnorkuknúnir kafbátar, gervihnettir og flugvélar. Komið verður upp fjölmörgum athuganastöðvum á rekísnum, bæði mönnuðum og ómönnuðum. Meðal auðlindanna, sem fundist hafa, má nefna gull og fleiri málma, sem fundist hafa á Tamir-skaga nyrst í Síberíu, og ákaflega auðugar olíulindir norður af Alaska. Ís hefur aukist afar mikið að undanförnu norður af Sovétríkjunum, en gert er ráð fyrir stórlega aukinni flutningaþörf á sjó á því svæði. Af þessum sökum er sovéska skipasmiðaráðuneytið að gera áætlanir um smíði margra nýrra ísbrjóta. Gert er ráð fyrir að ísbrjótar þessir hafi hálft annað eða tvöfalt vélarafl á við ísbrjótinn Lenin, sem nú er meðal öflugasta ísbrjóta. Hann er knúinn kjarnorku og eru vélar hans 40 þús. hestöfl. Ekki er gert þar ráð fyrir að nýju ísbrjótarnir verði knúnir kjarnorku. Washington-háskóli hefur undirbúið rannsóknir Bandaríkjamanna og notið til þess aðstoðar Vísindastofnunar Bandaríkjanna (National Science Foundation), en athuganirnar ganga undir nafninu AIDJEX, sem er skammstöfun heitisins Artic Ice Dynamics Joint Experiment. Kanna á nákvæmlega 300 mílna rekíssvæði. Áætlun Sovétmanna ganga undir nafninu NEI meðal enskumælandi manna. en það er skammstöfun heitisins Natural Experiment of Interactions. Markmið rannsóknanna er að komast að raun um, hvaða öfl stjórna því, hve mikil orka berst til heimskautasvæðisins með vindum, hafstraumum og sólarljósi. og hve mikið af henni fer forgörðum út í geiminn. Rússar ætla að koma upp fjórum rannsóknastöðvum á rekísnum og 24 ómönnuðum stöðvum.
[26.júlí] Meðal þeirra kenninga, sem ætlunin er að sanna eða afsanna, er kenningin um, að ísöld verði þegar rekísinn þverr á Norður-íshafinu. Vindar, sem standa af rekísnum flytja þurrt loft og valda lítilli snjókomu í norðlægum löndum, en samkvæmt kenningunni ætti snjókoma að aukast afar mikið ef vindarnir blésu yfir auðan sjó og jöklar tækju þá fljótt að myndast. Kenning þessi gerir ráð fyrir, að sjó, sem eitt sinn er orðinn auður, leggi mjög seint aftur. Meðan snævi þakinn ís liggur yfir hafinu endurkastar hvítt yfirborð hans miklu af sólarorkunni út í geiminn. Áhangendur kenningarinnar halda fram, að þetta gerðist ekki, ef sjórinn væri auður, heldur hlyti hann að hitna nægilega mikið til þess að koma í veg fyrir að hann legði að nýju. Aðrir vísindamenn hafa haldið fram, að unnt ætti að vera að bræða hafísinn með því að dreifa á hann kolasalla eða gera aðrar svipaðar ráðstafanir. Þannig mætti gera siglingar mögulegar um íshafið og milda loftslag á norðurslóðum.
Miklar umræður hafa lengi staðið um þá fyrirætlun Rússa að stífla ár sem renna norður og beina þeim suður, veita þannig á þurrt og hrjóstrugt land og koma í veg fyrir stöðuga lækkun Kaspíahafsins. Ár þessar bera ferskt og tiltölulega hlýtt vatn út í Norður-íshafið og óttast margir að veruleg skerðing þess kynni að valda nýrri ísöld. Dr. Treshnikov sagði blaðamönnum að ekki yrði gert ráð fyrir breytingu á rennsli neinna stórfljóta í næstu fimmáraáætlun Sovétmanna en athugun á þessu væri eigi að síður haldið áfram. Hann bætti við, að hvað sem þessu liði bentu undirbúningsathuganir til þess, að fjórðungs skerðing á vatnsmagni hefði varla veruleg áhrif, þar sem eðlilegar vatnsmunar frá ári til árs næmi um tveimur fimmtu hlutum án þess að loftslagsbreytinga yrði vart.
Erfitt þykir að gera sér grein fyrir hvernig á því standi, að loftslagsbreytingar á síðustu öld hafa orðið miklu meiri á heimskautasvæðinu en í suðlægari löndum. Á þeirri hálfu öld, sem lauk um 1940, hlýnaði loftslag í heiminum nokkuð, en áhrifanna gætti mest í nyrstu löndum eins og Spitsbergen. Síðan um 1940 hefir loftslag kólnað jafnt og þétt, og þess hefir mest gætt nyrst. Dr. Treshnikov sagði til dæmis, að ísalög fyrir norðurströnd Sovétríkjanna hefðu verið miklu meiri síðustu árin en nokkru sinni síðan á þriðja og fjórða tug aldarinnar.
Þann 26. júlí segir Tíminn af góðviðri:
Síðustu daga hefur veður verið mjög gott og fagurt og er veðurblíðan öllum kærkomin, enda hlýir sólardagar ekki verið margir fram til þessa. Fleiri erlendir ferðamenn munu heimsækja landið á þessu sumri en nokkru sinni fyrr, og virðast þeir flestir ánægðir með dvölina hér, þótt ýmsir þeirra hafi reyndar lent í köldu og rysjóttu veðri. Enginn vafi er á því, að Ísland á mikla framtíð fyrir sér sem ferðamannaland og móttaka ferðamanna og fjölþætt þjónustu starfsemi sem henni eru samfara munu verða gildir þættir í þjóðartekjum okkar á næstu áratugum, ef rétt verður á málum haldið.
Ágúst var ekki óhagstæður, en þó var enn hretasamt. Tíminn segir frá 12. ágúst:
OÓReykjavík, miðvikudag. S.l. nótt snjóaði í fjöll á Norður- og Austurlandi. Fjallvegir lokuðust ekki vegna snjókomunnar, en urðu sums staðar illfærir vegna hálku. Verst var ástandið í morgun á veginum um Oddsskarð, en þar gerði slydduhríð í nótt og í morgun var hitastigið neðan við frostmark. Þegar leið á daginn hlýnaði í veðri og hvarf hálkan. Fjallvegir á Norðurlandi voru allir akfærir í morgun, en þar var víða hríðarél í fjöllum í nótt og fjöll hvít niður í miðjar hlíðar í morgun.
Að morgni 12. var alhvít jörð á Mýri í Bárðardal.
Vísir segir 13.ágúst af lökum horfum í grænmetisræktun:
Svo virðist sem grænmetisuppskeran komi til með að verða með allra lélegasta móti í sumar, annað árið í röð. Var ekki hægt að setja almennt niður, fyrr en um mánaðamöt maí og júní, sem er um hálfum mánuði til þrem vikum seinna en venja er til og stafaði það af því, hve vorið var kalt og þurrt lengi framan af. Einnig fauk talsvert mikið af fræjum upp, eftir niðursetninguna. Þá eru þeir, sem sinna kartöfluræktinni, sérlega uggandi, þar eð lítillega fraus fyrir þrem nóttum og svo aftur í fyrrinótt, bæði hér fyrir sunnan og eins fyrir norðan, t.d. fór frost við jörð niður fyrir 5 stig í Aðaldal.
Tíminn segir enn af kalmálum 16. og 19. ágúst:
[16.] Harðærisnefnd hefur að undanförnu ferðast um Vestfirði, Strandasýslu, Snæfellsness- og Hnappadalssýslu, Dalasýslu, Húnavatnssýslur, Skagafjörð, Eyjafjörð og Suður-Þingeyjarsýslu til að kynna sér heyskaparhorfur, en þær hafa verið slæmar vegna mikilla nýrra og eldri kalskemmda í túnum og vegna kulda, auk þess sem sumir bændur báru of seint á vegna þess, hve seint þeir gátu fengið áburð. Verði hlýviðri það sem eftir er sumars og sæmileg heyskapartíð, getur ástandið batnað nokkuð og grænfóður komið að meiri notum en nú lítur út fyrir. Samt sem áður er augljóst að geigvænlegur heyskortur verði fyrir hendi í mörgum hreppum allt frá Hvammsfirði vestur og norður um land að Héraðsflóa.
[19.] GVBæ, mánudag. Í vor komu tún hér [Hrútafirði] dauðkalin undan margra metra svellhjúpi og í sumar hefur veðrátta verið óvenju köld hér, sem annars staðar. Þá hefur mjög lítið verið um úrkomu. Segja má, að í sumar hafi aldrei komið hlýindadagar hér, að undanteknum tveim s.l. dögum. Þar af leiðandi fer sprettu mjög lítið fram, á þeim túnblettum, þar sem kal er ekki. Útlit fyrir heyfeng hefur því aldrei verið verra í sveitinni og vofir nú enn yfir fækkun á búpeningi, ef ekki verður úr bætt með aðkeyptu fóðri. Bændur hér drógu lengi vel að hefja sláttinn í von um að hlýnaði í veðri og árangurinn yrði betri, en eru nú allir byrjaðir að slá þar sem eitthvað gras er fyrir hendi. Það sem einkum fæst af túnum, er arfi og annað illgresi. Þá er einnig augljóst, að grænfóður það, sem sáð var hér í vor, mun enga uppskeru gefa.
Tíminn segir 26.ágúst af mikilli úrkomu:
KJReykjavik, þriðjudag. Gífurleg úrkoma hefur verið sunnanlands s.l. sólarhring og sem dæmi um það má nefna að á þessum eina sólarhring hefur úrkoman verið meira en helmingur af meðalúrkomu ágústmánaðar. Mest rigndi á Loftsölum og Kirkjubæjarklaustri eða 80 mm frá sex í gærdag, til sex í dag. Í Vestmannaeyjum var úrkoman 60 mm, en meðalúrkoma ágústmánaðar þar er 108 millimetrar. Á Kirkjubæjarklaustri mældist úrkoman 80 millimetrar en meðalúrkoma mánaðarins þar er 156 millimetrar. Á Þingvöllum rigndi 45 millimetra á þessum sólarhring en meðalúrkoman þar er 95 mm. Á Hæli í Gnúpverjahreppi mældist úrkoman 28 mm. en meðalúrkoman er 92 mm. og á Eyrarbakka mældist úrkoman 33 mm alls þennan sólarhring.
September byrjaði heldur kuldalega, en síðan varð veður almennt bærilegt. Ingibjörg í Síðumúla lýsir september- og októbertíðinni:
September var ágætur að veðurfari. Allir hafa hlotið að geta hirt sín hey óskemmd. Og af því tíð var svo góð, fóru sumir að slá á engjum með orfi og ljá, til að drýgja sinn rýra heyfeng. Í göngum fengu menn fágæta veðurblíðu og gott skyggni, sérstaklega í fyrstu leit. Kýr hafa legið úti um nætur að þessu. Kartöfluuppskeran var mjög misjöfn. Víða mjög rýr, en sumstaðar sæmileg. Berjaspretta óvanalega lítil hér um slóðir. Í október var veðrátta sæmilega góð, þegar litið er á heildina, en mjög var tíðin misjöfn. Það var talsvert úrkomusamt, þó ekki rigndi daglega, t.d. voru síðustu dagarnir þurrir og sjö fyrstu dagarnir voru líka sama sem vætulausir, en þar á milli rigndi oft og stundum stórrigndi. Urðu af því talsverð vegaspjöll víða í héraðinu. Þ.18. snjóaði að nóttu, varð jörð þá alhvít, en snjórinn hvarf smám saman næstu 2 daga.
Tíminn segir af hríðarbyl í pistli 2. september:
EBReykjavík, þriðjudag. Síðastliðna nótt [aðfaranótt 1.] snjóaði niður í byggð á stóru svæði á Vestfjörðum og urðu nokkrir fjallvegir þar illfærir eða ófærir með öllu. Í dag hefur verið áframhaldandi snjókoma á hálendi þar vestra, en rignt niður í byggð. Veðurstofan spáir áframhaldandi norðanátt á öllu landinu, úrkomu á Vestfjörðum, Norðurlandi, og Norðausturlandi, en þurru og fremur björtu veðri í öðrum landshlutum. Guðmundur Sveinsson fréttaritari blaðsins á Ísafirði, sagði að í nótt hefði snjóað þar nær niður í byggð og hefði Breiðadalsheiði orðið ófær með öllu í morgun. Vegavinnumenn sem unnu að vegaframkvæmdum í norðanverðri heiðinni hefðu af þeim sökum þurft að leggja niður vinnu þar í morgun, en þeir aðstoðuðu í morgun áætlunarbifreið frá Vesturleið yfir heiðina, og var það síðasta bifreiðin sem fór yfir hana áður en heiðin varð með öllu ófær. Stefán Eggertsson fréttaritari á Þingeyri sagði að áætlunarbíllinn frá Ísafirði til Reykjavíkur hefði tafist um tvo tíma á Breiðdalsheiði í morgun, eins og áður segir, og síðan hafði hann farið út af veginum á Hrafnseyrarheiði. Það gerðist um hádegisbilið, og sat hann enn fastur síðdegis í dag. Ekkert slys varð á mönnum en erfiðlega gekk að ná bílnum upp á veginn aftur. Í dag hefur verið úrkoma þar vestra, rignt í byggð en snjókoma niður í miðjar hlíðar. Hjá Vegagerðinni fékk blaðið þær upplýsingar, að eins og útlitið væri í dag væri ekki hægt að fullyrða neitt um það, hvenær hafist yrði handa um að ryðja fjallvegina á Vestfjörðum sem nú eru ill- eða ófærir. Tröllatunguheiði er ófær og Þorskafjarðarheiði er nú aðeins keðjufær og í þann veginn að verða ófær vegna snjókomu þar í dag. Hins vegar hefur ekki snjóað á Dynjandisheiði. Um fjallvegi á Norðurlandi var allt gott að frétta, aðeins gránað á þeim og þeir því vel færir öllum bifreiðum.
Tíminn segir enn af færð 3.september:
EBReykjavík, miðvikudag. Í dag voru Breiðadalsheiði og Þorskafjarðarheiði ruddar og munu þær nú vera færar öllum bílum. Nú er hálka á heiðunum og því æskilegt að leggja á þær með varfærni. Hefur í dag birt til á Vestfjörðum og útlit fyrir þurrt veður þar á næstunni. Á Norðurlandi og talsvert suður eftir Austfjörðum hefur hins vegar verið úrkoma í dag, rigning á láglendi en snjókoma til fjalla. Fjallvegir í þessum landshlutum, hafa því spillst verulega síðasta sólarhringinn og sumir hverjir voru að lokast síðdegis í dag. Á Öxnadalsheiði var í dag mikil hálka og einnig á Vaðlaheiði. Lágheiði varð í dag ófær öllum bifreiðum og Öxarfjarðarheiði þungfær. Þá var vegurinn um Hellisheiði eystri orðin ófær minni bifreiðum um miðjan daginn, og vegurinn um Jökuldalsheiði var að lokast síðdegis í dag. Á Fjarðarheiði og í Oddsskarði var komin mikil hálka. Sunnar á Austfjörðum var ekki um úrkomu að ræða. Hjá Veðurstofunni aflaði Tíminn sér þeirra upplýsinga að heldur sé nú farið að draga úr norðanáttinni, en samt útlit fyrir að hún verði ríkjandi enn um sinn. Þá gerði Veðurstofan ráð fyrir því, að næsta sólarhringinn mundi birta til norðan- og austanlands. Trausti Friðbertsson fréttaritari á Flateyri, sagði blaðinu að nú væri að birta til og því hætta á frosti. Snjór er niður í byggð við Önundarfjörð.
Tíminn segir 10.september af heyfeng:
Blaðið hafði í dag samband við tvo bændur, annan í Borgarfjarðarhéraði og hinn í Rangárvallasýslu. Bar þeim báðum saman um það, að heyfengur bænda í heimahéruðum þeirra væri undir meðallagi einkum í Borgarfirði, en undanfarið hefur heyskapartíð verið með sæmilegu móti á þessum tveim stöðum. Þá bar bændum saman um, að það hey sem komið er í hlöður sé mun betra fóður, en það hey er náðist í fyrra.
Tíminn fjallar 11.september um tjón af völdum kals í túnum:
OÓReykjavík, fimmtudag. Síðastliðin þrjú ár mun tjón af völdum kals i túnum samtals 720 millj. kr., eða 240 millj. kr. á ári. Þetta kemur fram í bæklingi eftir Sturlu Friðriksson, sem nefnist Kal og búskaparhættir. Sturla segir að tjón af völdum kalsins 1951 mætti áætla að næmi um 100 millj. kr, og var það nokkru minna en árið eftir. Þegar mest kól austan lands árið 1965, styrkti Bjargráðasjóður heyflutninga um rúmar 14 millj. kr., sem var lítið brot af raunverulegu uppskerutjóni. 1968 voru heyflutningar til Norðurlands styrktir um 18 millj. kr. Bendir Sturla á að þetta sé ekki nema brot af því tjóni, því á síðastliðnum kalárum hefur árleg uppskera á hektara orðið átta heyhestum minni en meðaluppskera fyrri 25 ára. Af um 100 þús. hekturum nemur þetta tjón 800 þús. heyhestum árlega. sem lætur nærri að meta megi 240 millj. kr.
Þann 19. september hófst eldgos á Jan Mayen - kom það nokkuð á óvart. Tíminn segir frá 22.september:
OÓReykjavík, mánudag. Talið var að Bjarnarfjall á Jan Mayen hafi verið útdautt eldfjall þar til á laugardag að fór að gjósa úr fjallinu. Í dag náði gosmökkurinn í um 5 km hæð, en heldur mun vera að draga úr gosinu. Hraun rennur úr nokkrum sprungum, en ekki mun þetta mikið gos sé miðað við þegar íslensk eldfjöll fara af stað.
Tíminn segir 7.október frá hvassviðri og tjóni:
SBReykjavík, þriðjudag [6.]. Mjög hvöss norðanátt var víða á landinu í nótt og mun hafa orðið einna hvassast sunnanlands. Í veðrinu tók þak af hlöðu á bænum Þóroddsstöðum í Ölfusi og rafmagnsstaurar brotnuðu víða austanfjalls. Ekki var rafmagnið allsstaðar komið á aftur, fyrr en síðdegis í dag. Húsfreyjan á Þóroddsstöðum sagði blaðinu í dag, að hún myndi ekki eftir öðru eins norðanveðri þarna og væri hún þó búin að vera þarna í 40 ár. Þakið fór af hlöðunni einhvern tíma í nótt. Það lá úti í garði í morgun í tvennu lagi. Svo er rafmagnslaust hjá okkur núna, en það er verið að gera við. Það brotnaði staur hérna rétt við bæinn. Hey var í hlöðunni á Þóroddsstöðum, en það var kyrrt á sínum stað, þótt þakið fyki. Ekki tókst að fá áreiðanlegar upplýsingar um hve viðtæk rafmagnsbilunin varð af völdum veðursins, en rafmagnið mun víðast hafa verið komið á aftur síðari hluta dagsins. Á nokkrum stöðum munu hafa brotnað háspennulínustaurar. Ekki er vitað til, að skemmdir hafi orðið á húsum á fleiri stöðum. Þá var afar hvasst í Vestmannaeyjum í nótt, en þar er er ekki vitað. að neitt hafi fokið eða skemmst.
Veðráttan segir að í þessu sama veðri hafi þakplötur fokið af frystihúsi á Selfossi og að þann 9. hafi rafmagnslínur slitnað og járnplötur fokið af geymsluhúsi á Meðalfelli í Kjós.
Tíminn segir af úrhelli 18.október:
OÓReykjavík, laugardag. Lögreglunni var í gærkvöldi tilkynnt að bíll væri í hættu undir nýju Elliðaárbrúnni á Rafstöðvarvegi. Lenti bíllinn í djúpu vatni, en áin rann yfir veginn. Mikill vöxtur var í Elliðaánum vegna rigninganna og var vatnið svo djúpt á Rafstöðvarveginum sem liggur undir brúna að bíllinn stöðvaðist. Bílstjórinn óð á þurrt og lögreglan var beðin um aðstoð. Tókst fljótlega að ná bílnum. Þessi vegarspotti er enn ekki fullgerður og á sjálfsagt eftir að hækka, svo að ekki verði hætta á að flæði yfir hann þegar vöxtur er í ánum.
KJReykjavík, laugardag. Þrátt fyrir hina miklu úrkomu á Suður- og Vesturlandi, var Vegamálaskrifstofunni ekki kunnugt um neinar alvarlegar vegaskemmdir er Tíminn spurðist fyrir um það í morgun. Geldingadragi varð að vísu ófær litlum bílum, vegna vatnsmagns í ánni á Geldingadraga. Var ekki farið að sjatna í ánni í morgun, og ef heldur áfram að rigna um helgina, má búast við að Draginn verði ófær öllum litlum bílum. Vatnsflóð varð við bæinn Eyri í Kjós, en skaðaði ekki veginn. Aftur á móti fór flóðið yfir túnið á Eyri, og bar með sér leir og möl.
Tíminn segir nánar frá skriðuföllum á Eyri í Kjós í pistli þann 20.október:
OÓReykjavík, mánudag. Mikið tjón varð á bænum Eyri í Kjós, er skriða féll yfir hluta af túninu og allt umhverfis íbúðar- og útihús s.l. föstudagskvöld [16.október]. Mikið úrhelli var búið að vera í tvo sólarhringa er skriðan féll ofan úr Eyrarfjalli. Skriður féllu á fleiri stöðum, en voru minni og ollu ekki eins miklu tjóni. Hjörtur Þorsteinsson, bóndi á Eyri, sagði í dag, að ómögulegt væri að segja um hve miklum skaða hann hafi orðið fyrir vegna skriðurnar. Þegar hefur fundist ein dauð kind í aurnum, en þær gætu verið miklu fleiri, sagði Hjörtur. Skurðirnir eru fullir af aur og skriðan var svo óskapleg að það getur meira en verið að kindur liggi eftir í farveginum, en annars vonar maður, að fleira fé hafi ekki orðið undir skriðunni. Oft er fé í giljunum i miklum rigningum, en það vildi til að þótt mikið rigndi var lygnt, svo ég vona að féð hafi ekki verið í giljunum sem skriðan hljóp um. Þrátt fyrir þessi ósköp sem á gengu var það svo merkilegt að húsin sluppu. Aur og grjót féll allt í kringum húsin og stór björg þeyttust fram hjá þeim, en skriðan fór milli allra húsa. Fjárhúsin standa nokkru ofar og má segja að það sé hreinasta kraftaverk að þau skuli ekki hafa skemmst. En þannig var, að þótt björgin færu alla þessa leið höfnuðu flest þeirra á bungunni efst í túninu, en það er komin urð niður undir íbúðarhús og lengra. og alla skurði fyllti. Mikill hluti af túninu er undir leir og malarleðju. Eru alla vega þrír til fjórir hektarar af túninu undir skriðunni og mikill hluti þess er búinn að vera, því þetta verður einn urðarbálkur. Ég er nú að láta stórvirka ýtu ryðja frá húsunum því ekki er hægt að koma skepnum í hús fyrr en búíð er að ýta frá, Skriðan féll öll í einu og fylltist hér allt á svipstundu af aur og grjóti. Myndaðist stórt gljúfur alla leiðina, hátt í tvö þúsund metra vegalengd, og fór skriðan þó í olnboga. Féll skriðan efst úr fjallinu, tók vinkilbeygju og virðist hafa haldið saman alla leiðina. Ekki veit ég til þess að tryggt sé fyrir tjóni sem þessu, eða að minnsta kosti er ótryggt hjá mér. Maður átti eiginlega von á öllu öðru en þessum andskota. Hér hafa ekki verið skriðuföll áður í manna minnum og er hvergi um slíkt í annálum, enda sér maður engin merki þess að skriðuföll hafi orðið hér um aldaraðir. Það var orðið dimmt þegar skriðan féll og vorum við að mjólka. Við vorum þrjú í fjósinu, konan mín og sonur og ég. Ég held manni hafi þótt heldur ískyggilegt hefði maður horft á þetta, en við heyrðum niðinn og áttuðum okkur í fyrstu ekkert á þessu. Bærinn stendur rétt við veginn og við erum vön að heyra þaðan alls kyns hávaða. Okkur þótti þetta samt eitthvað óeðlilegt og þegar við komum út, var flóðbylgjan að skella sitt hvoru megin við húsið. Okkur gekk vel að komast milli fjóss og íbúðarhúss, því hlaðið slapp. Skriðan var að mestu vatn og leir þegar komið var niður undir íbúðarhúsið að þar fyrir neðan, en þar fylltust allir skurðir. Lækur sem hér rennur venjulega fyrir austan húsin breytti far veginum og fór vestur fyrir, og var svo þar til búið var að ryðja upp úr farveginum. Rann aurinn áfram yfir veginn og niður gilrás. Vegurinn var fljótlega hreinsaður og eins vegaskurðir.
Veðráttan bætir við að skriða hafi einnig fallið á Tindstöðum á Kjalarnesi, tekið þar vatnsleiðslu, fyll vatnsból og eyðilagt skrautgarð. Veðráttan getur þess að þann 18. hafi þakplötur og fleira fokið af útihúsum á Seyðisfirði.
Í lok október getur getur Sigurður Eiríksson veðurathugunarmaður í Sandhaugum í Bárðardal þess að sumrið hafi verið hið versta sem þar hafi komið um áratugaskeið.
Nóvember og desember voru ekki óhagstæðir, helst kvartað norðaustanlands í nóvember. Ingibjörg í Síðumúla lýsir tíð í þessum mánuðum:
Í nóvembermánuði var ágæt tíð, vægt frost, þurrviðrasamt og snjólítið. Stundum var nokkuð stormasamt, en ekkert tjón varð af því hér. Desembermánuður var mildur og fágætlega snjóléttur. Meira en þriðjung hans var alveg frostlaust og talsverður hiti. Engin minnisverð tíðindi gerðust af völdum veðurs, nema þegar mest rigndi, urðu vegir seinfarnir, en engin slys.
Tíminn segir 7.nóvember af jarðskjálftum:
FBReykjavík, föstudag. Margir snarpir jarðskjálftakippir hafa fundist og mælst á jarðskjálftamæla Veðurstafunnar í dag. Hafa jarðskjálftarnir fundist á Reykjanesvita, í Höfnum, á Snæfellsnesi og austur í Flóa. Kippirnir mældust fyrst um kl.20 í gærkvöldi, en flestir kippir mældust á tímabilinu milli kl. 7 og 8 í morgun og aftur milli 10 og 12. Snarpasti kippurinn mældist kl.11:25 og reyndist hann 4,5 stig á Richterkvarða. Upptökin mældust hafa verið um 70 km. frá Reykjavík, í vestur eða norðvestur.
Tíminn segir 12.nóvember af góðri tíð á Hornströndum:
SJReykjavík, miðvikudag. Haustið, sem nú er á enda, mun vera hið besta í manna minnum á Hornströndum, að sögn vitavarðarfjölskyldunnar á Hornbjargi. Fjögur börn vitavarðarhjónanna hafa getað leikið sér úti alla daga þangað til í gær, þriðjudag, en nú er komin norðaustan stórhríð á bjarginu og 78 vindstig. Um miðjan október komst hitinn upp í 12 stig og fyrir kom að fjölskyldan borðaði grillaðar pylsur úti og kveikti varðelda á kvöldin, sem þykir gott á norðvesturkjálkanum um það leyti árs. Það hefur verið yndislegt veður dag eftir dag fram til þessa, sagði húsmóðirin að Hornbjargi í síma í dag.
Tíminn segir 13. og 14. nóvember af rafmagnstruflunum:
[13.] SBReykjavík, fimmtudag. Nokkrar rafmagnstruflanir hafa verið á Akureyri í dag vegna veðurs, en þar er nú norðan snjókoma en lítið frost, þannig að snjórinn hleðst á línumar. Rafmagnið hefur farið fjórum sinnum af öllum Akureyrarbæ í dag, hálftíma lengst. Mun það vera vegna samsláttar á línunum austan frá Laxárvirkjun, en þær eru orðnar slakar vegna þungans af krapinu, sem á þær hefur hlaðist í dag. Talsverður snjór er kominn á Akureyri og eru götur allar mjög hálar.
[14.] SBReykjavík, föstudag. Miklar rafmagnstruflanir urðu við Eyjafjörð og á Akureyri í gær og nótt vegna ísingar sem settist á rafmagnslínur. Um hádegi í dag var slit, sem er á vegum Rafmagnsveitu Akureyrar komið í lag aftur, en enn voru menn frá Rafmagnsveitum ríkisins að gera við norðan til við Eyjafjörð að vestan. Rafmagn fór þrisvar í gær af Akureyrarbæ, tæpa klukkustund lengst, og voru þá truflanir á útvarpssendingum, þar sem rafmagn fór einnig af endurvarpsstöðinni í Skjaldarvík. Einna verst varð ástandið austan Eyjafjarðar, en þar var rafmagnslaust í alls tólf klukkustundir og kom rafmagnið ekki á aftur fyrr en í nótt. Veðurhæð var allmikil í gær og norðan krapahríð, sem settist á rafmagnslínurnar og olli þessum bilunum. Seinni partinn í dag var enn verið að vinna að viðgerðum við norðanverðan Eyjafjörð, en búist var við, að þeim lyki von bráðar.
Mikið austanhvassviðri gerði 14. til 16. Tjón varð nokkuð. Tíminn segir af Búrfellslínu 17.nóvember:
KJReykjavík, mánudag. Einn af 297 stálgrindaturnunum, sem bera uppi raflínuna frá Búrfelli, lagðist á hliðina um tvöleytið á sunnudaginn, og við það urðu miklar truflanir á orkuveitusvæði því, sem Landsvirkjun sér fyrir rafmagni. Turn þessi er um 35 metra hár, eða álíka hár og tíu hæða hús, og er sennilegast talið að stálið í neðsta hluta turnsins hafi gefið sig, af einhverjum ástæðum, en stálið í turnana var keypt frá Ítalíu. Fréttamaður Tímans fór austur að ónýta stálturninum í dag, en turn þessi er 38. turn frá Búrfellsvirkjun, og áttundi turninn frá Þjórsá, þar sem Búrfellslína fer öðru sinni yfir ána. Turninn var norðaustur við Skarðsfjall í Landssveit, á móts við bæinn Haga í Gnúpverjahreppi, sem er handan við Þjórsá. Bóndi fann bilunina. Á viðgerðarstaðnum var Tryggvi Sigurbjarnarson verkfræðingur hjá Landsvirkjun, en 14 manna vinnuflokkur á vegum verktakafyrirtækisins Turn h.f. vann að því að gera við til bráðabirgða. Tryggvi sagði fréttamanni, að slegið hefði út í Búrfellsstöð um kl.2 á sunnudaginn, og var í fyrstu ekki vitað hvað olli útslættinum. Um kl.4 á sunnudaginn var búið að finna út, að bilunin á línunni væri á kaflanum frá Búrfelli að Írafossi. Var þá hafist handa um að kanna línuna, og gerðir út menn til að kanna ákveðna hluta hennar. M.a. fór maður frá Hvammi í Landssveit, og átti hann að kanna þann hluta línunnar, þar sem hún liggur í sveitinni meðfram Þjórsá. Um klukkan sjö kom maðurinn frá Hvammi svo að stálgrindaturninum, þar sem hann lá á hliðinni og hafði fallið í vesturátt.
Gerðar voru ráðstafanir til að gera bráðabirgðaviðgerð þarna, og nóttin notuð til að safna saman mannskap og efni til viðgerðarinnar, og síðan var byrjað eldsnemma í morgun. Þarna í hrauninu norðaustan við Skarðsfjall er 400 metra haf á milli stálgrindaturnanna. Ógerningur er að ætla sér að reisa turninn þarna á stuttum tíma að nýju, svo brugðið var á það ráð að setja upp tvö tréstauravirki til bráðabirgða, úr 19 metra löngum staurum. Verða 200 metrar á milli tréstauravirkjanna, og þrjú hundruð metrar í næstu stálgrindarturna. Var byrjað á að sprengja holur fyrir staurum og stögum, og dundu dynamitsprengingarnar við, meðan fréttamaður stóð við á staðnum. Síðan voru tveir og tveir 19 metra háspennustaurar festir saman með þverstaurum, þar sem háspennulínurnar þrjár verða síðan hengdar í. Starfsmenn Turns h.f. unnu þarna kappsamlega að viðgerð undir stjórn þeirra Jóns Aðils og Guðmundar Bjarnasonar, sem eru meðal eigenda fyrirtækisins, en Turn h.f sér um allt viðhald á línunni frá Búrfelli, strekkingar o.þ.h. Var búist við að þessari bráðabirgðaviðgerð lyki einhvern tíma undir morgun. Línurnar þrjár eru álíka sverar og meðal skófluskaft, margtvinnaðar saman, og höfðu ystu víraraðirnar skaddast á nokkrum stöðum, þegar stálgrindaturninn féll til jarðar. Engin ísing var á línunum þegar þetta gerðist, og línurnar eru úr styrktum álvír, og því ekki tiltakanlega þungar. Stálgrindaturnarnir standa á fjórum steinsteyptum sökklum, og höfðu tvær undirstöðurnar sem eru nær Reykjavík brotnað, en hinar tvær sem eru nær Búrfelli höfðu bognað, og brotið sökklana. Sjálfir sökklarnir virðast ekkert hafa gefið sig, og því er næst að halda að undirstöðujárnin í turninum séu eitthvað ekki eins og þau eiga að vera. Franskt verktakafyrirtæki sá um uppsetningu línunnar, og útvegaði stálið í turnana frá Ítalíu. Turnarnir hafa hingað til þolað íslenskt veðurlag, frá því línan var sett upp sumarið 1969, og ekki hefur heldur neitt komið fyrir línuna á þeim tíma. Ónýti turninn mun verða rann sakaður lið fyrir lið, ef komast mætti að orsök óhappsins, og eins til að slíkt endurtaki sig ekki.
Landsvirkjun á gasaflstöðina við álverið í Straumsvík, en hún framleiðir allt að 35 megawött, en Búrfellsvirkjun rúmlega 105 megawött. Gasaflstöðin er knúin með olíu, og notar hún 360 g á kwst. Þegar þarf að keyra hana um langan tíma, eins og núna í nærri tvo sólarhringa, er olíueyðslan mjög mikil, en Landsvirkjun rekur stöðina.
FBReykjavík, mánudag. Mikið hvassviðri gekk yfir sunnan og suðvestanvert landið. Mestur varð vindhraðinn að vanda á Stórhöfða í Vestmannaeyjum og mældust þar mest 12 vindstig. Víða annars staðar mældist vindhraðinn 10 til 11 stig annað slagið, að sögn veðurfræðinga. Í Reykjavík varð vindhraðinn mestur 8 til 9 vindstig. Veðrið fór að versna á sunnudagsmorgun og hélst hvassviðrið þar til í dag, þótt verst væri það síðdegis í gærdag. Helstar skemmdir urðu í Grindavík, af völdum hvassviðrisins. Hætti fólk sér varla út úr húsi, þar um slóðir, vegna fjúkandi járnplata, sem víða losnuðu af húsþökum. Járnplötur komu fljúgandi inn um glugga á tveimur húsum í Grindavík, en ekki varð slys á mönnum. Í Grindavik var björgunarsveit kölluð út til þess að safna saman járnplötum, svo ekki hlytust slys á mönnum vegna þeirra. Allmiklar skemmdir urðu á einni bifreið, sem plötur fuku á í Grindavík. Innsiglingin inn í Vestmannaeyjahöfn var ófær um tíma, en ekki hlutust þó önnur vandræði af þar í Eyjum. Járnplötur munu einnig hafa losnað af húsum í Keflavík og Hafnarfirði, og hér í Reykjavík losnuðu plötur utan af girðingunni um Melavöllinn.
Tíminn segir fréttir að vestan 22.nóvember:
GSÍsafirðilaugardag. Á Ísafirði hefur verið vonskuveður í átta daga, og hefur aldrei verið hægt að fljúga hingað frá Reykjavík. Í dag er ekkert útlit fyrir að flogið verði, þar sem aðeins rétt sést yfir á flugvöllinn úr kaupstaðnum. Níu enskir togarar hafa legið inni á Ísafirði undanfarna daga, auk þess sem olíuskipið Kyndill og Tungufoss hafa legið á Ísafjarðarhöfn í nokkra daga. Tungufoss var á leið norður og austur, en sneri við fyrir norðan, þegar skipið náði ekki nema einnar mílu ferð. Þá mun eitthvað hafa komið fyrir stýrisvél skipsins, en skipverjar gerðu sjálfir við bilunina eftir afii1 skipið var komið inn á Ísafjarðarhöfn. Í gær villtist enskur togari nærri inn til Bolungarvíkur, en skipstjórnarmenn munu hafa haldið að þeir væri komnir inn til Ísafjarðar. Bolvíkingum tókst að koma skilaboðum til skipsins í gegn um talstöð, og gátu bent honum á rétta leið inn til Ísafjarðar. Þá hefur ekkert verið róið í viku frá verstöðvum við Ísafjarðardjúp vegna veðurofsans, en heiftarlegt veður hefur verið út af Vestfjörðum þessa viku.
Og enn eru illviðrafréttir að vestan í Tímanum 24.nóvember;
Krjúl-Bolungavík, mánudag. Hér gerði norðan- og norðaustan storm fyrir rúmri viku og hefur ekki gefið á sjó fyrr en í dag. Storminum fylgdi stórsjór og urðu allir stóru bátarnir að leita til hafnar á Ísafirði. Hinir i smærri héngu hér í festum, en færðu sig inn að innri höfninni og þá kom greinilega í ljós, að það var til stórra óþæginda að engar festingar eru þar fyrir báta. Að öðru leyti fór sæmilega um bátana fyrir innan nýja grjótgarðinn. Annað gerði líka bölvun og það var það, að í sumar var fyllt upp í brimbrjótsvörnina og var mun órólegra við brjótinn. Frákastið er miklu meira og órólegra eftir að fyllt var upp í vörina. Hins vegar er það, að smærri dagróðrarbátarnir hefðu getað haldið sig fyrir innan, ef þeim hefði verið búin þar þau skilyrði, að hægt hefði verið að festa þar bát. Nokkrar skemmdir urðu fremst á lengri grjótgarðinum, þannig að grjótið hrundi inn fyrir. Heimamenn fá engu ráðið um hvernig hafnargerðin er framkvæmd. Það er nú svo að þótt sérfræðingarnir séu ágætir með sín tilraunaglös og reiknistokka á skrifstofum í Reykjavík, þá þekkja þeir ekki eins vel til sjóanna, sem koma hér á vetrum, eins og heimamenn, Og mætti hafa þá með í ráðum þegar ráðist er í hafnarframkvæmdir. Hér horfa menn með kvíða fram á veturinn, ef eftir á koma meira brim en þetta. Veðrinu hefur nú slotað og eru allir bátar á sjó. Er það í fyrsta sinn í 12 daga, sem þeir róa allir.
Tíminn segir af miklum hlýindum í pistli 27.nóvember - og frá tímamótum í útvarpi veðurfregna:
KJ-Reykjavík, fimmtudag. Það er óhætt að segja að hitabylgja sé á Norður- og Austurlandi í kvöld, því í Neskaupstað var 16 stiga hiti nú í lok nóvember, og einhverjum hefði þótt 16 stiga frost trúlegra. Páll Bergþórsson veðurfræðingur sagði að þetta gæti vel verið, því klukkan níu í kvöld var 13 stiga hiti á Dalatanga. Sagði Páll að Austfirðingar kölluðu þetta vestanmara. Þá sagði Páll að tíu stiga hiti hefði vérið á Horni klukkan níu og 13 stig á Reyðará við Siglufjörð. Þar var líka mikið hvassviðri af suðvestri, og var veðurhæðin 810 vindstig víða á Norðurlandi.
FBReykjavík, fimmtudag. Síðastliðna nótt hófst útsending frá aðalstrandstöðvum Landsímans á veðurlýsingu og veðurspá Veðurstofunnar. Næturútsendingar á veðurfregnum, þ.e. kl.1 og kl. 04:30 hafa oft heyrst illa eða ekki og verður því mikil bót að þessum útsendingum frá Ísafirði, Siglufirði og Neskaupstað. Er þetta liður í bættu öryggi bátaflotans við Vestfirði, en óskir þar að lútandi hafa borist frá ýmsum aðilum.
Tíminn segir 28.nóvember af hörmulegu slysi nærri Sauðanesvita:
JÞ-Siglufirði, föstudag. Jón Gunnar Þórðarson, símaverkstjóri, Hverfisgötu 34, Siglufirði, lést af slysförum í gær. Jón Gunnar var að koma frá Sauðanesvita er bíll hans fauk út af veginum, er liggur frá vitanum upp á Siglufjarðarveg, skammt vestan Strákagangnanna. Fór bíllinn um 100 metra niður bratta brekku og alla leið niður í fjöru. Var Jón Gunnar látinn er að var komið. Annar bíll var skammt á eftir og sá bílstjóri hans er slysið varð. Veðurhæðin var um þessar mundir níu til tíu vindstig á Siglunesi og hiti 12 stig. Vegurinn var alauður en miklir sviptibyljir meðfram fjöllunum. Bílstjórinn, sem ók á eftir Jóni Gunnari sá er bíllinn tókst á loft í hryðjunni og endasentist niður í fjöru. Jón Gunnar Þórðarson var 35 ára að aldri. Lætur hann eftir sig konu og þrjú börn.
Veðráttan segir frá því að í hríðinni þann 12. nóvember hafi orðið fjárskaðar í Hrútafirði og einnig að kindur hafi fennt og skemmdir orðið í Öræfum í illviðrinu þann 16. Sömuleiðis að þann 20. hafi síma- og raflínustaurar brotnað í ísingu á Snæfjallaströnd.
Tíminn birti 2.desember hafísspá Páls Bergþórssonar fyrir árið 1971 - má segja að vel hafi tekist til að þessu sinni - hafís þó heldur meiri en spáin benti til:
EJReykjavík, þriðjudag. Páll Bergþórsson, veðurfræðingur, hefur gert spá um hafíshorfur á árinu 1971, eins og fyrir nokkur undanfarin ár, og spáir hann því, að lítið verði um hafís fram á næsta haust. Íss verður sennilega ekki vart fleiri daga en svo fram á næsta haust, að nemi meira en 0-1 mánuði. Er þá átt við alla daga, þegar einhver ísfregn berst frá ströndum landsins eða landhelgi. En svo skammvinnur hafís veldur sjaldan nokkrum teljandi töfum á siglingum kringum landi», segir Páll. Um hafíshorfurnar 1971 hefur Páll þetta að segja til viðbótar: Lofthitinn á Jan Mayen á síðasta sumri og hausti bendir til þess, að í fyrsta skipti síðan 1966 verði nú lítill hafís við landið að vetri og vori. Á annesjum norðan lands og austan verður þá sennilega mildara en undanfarin ár, einkum vorið og síðari hluti vetrar, en þar er lofthiti mjög háður hafískomu. Um tölfræðileg og veðurfræðileg rök fyrir því, að kuldi á Jan Mayen að sumri og hausti boði hafís við Ísland á næsta ári, vísast til greinar minnar og umræðna frá hafísráðstefnunni 1969, en þær voru birtar í Hafísnum, bók Almenna bókafélagsins. Við það má bæta, hvaða reynsla hefur síðan fengist af þessari spáaðferð. Fyrir árið 1969 voru horfur á miklum ís, 36 mánuðum. Reyndin varð um 140 dagar, tæpir 5 mánuðir. Fyrir 1970 vora horfurnar 13 mánuðir, og að árið yrði fjórða mesta ísár síðan fyrir 1920. Það reyndist svo, og ísdagarnir urðu um 70. Þrátt fyrir þetta er rétt að leggja áherslu á, að yfirleitt er ekki hægt að ætlast til, að ísspárnar rætist svona nákvæmlega, og a.m.k. á nokkurra ára fresti má búast við, að þær bregðist að verulegu leyti. Þess vegna er ekki hægt að ráða mönnum frá því að vera viðbúnir hafís. En horfurnar eru betri en áður.
Rúma viku af desember gerði mikið sunnanveður með óvenjulegu úrhelli og leysingu um landið vestanvert. Tíminn segir fyrst frá 9.desember:
KJ-Reykjavík, SB-Akureyri, þriðjudag. Mikið suðvestanhvassviðri gekk yfir Akureyri og Eyjafjörð í gærkvöldi, í nótt og í morgun. Urðu nokkrar skemmdir á mannvirkjum Akureyri og miklar rafmagnstruflanir urðu á veitusvæði Laxárvirkjunar í Eyjafirði. Suðvestanáttin er slæm á Akureyri, því þá leggur vindinn niður á milli fjallanna, og verða af miklir sviptivindar. Lögreglan á Akureyri, sem sér um veðurathuganir þar, sagði Tímanum, að veðurhæðin hefði komist í 10 vindstig að meðaltali á tíu mínútum, og þarf því engan að furða að eitthvað hafi orðið undan að láta. Við Matthíasarkirkju á Akureyri var komið upp myndalegt ljósum prýtt jólatré. Það varð að láta í minni pokann fyrir suðvestan hvassviðrinu og lagðist niður á stallana fyrir neðan kirkjuna. Í morgun voru menn að reyna að bjarga jólatrénu, og var þá enn mikið hvassviðri. Einn mannanna var með bankabók í jakkavasanum og í henni voru 30 þús. krónur, í þúsund króna seðlum. Í einni vindkviðunni sviptist jakkinn frá manninum og bankabókin og seðlarnir fuku út í veður og vind, Maðurinn leitaði, ásamt öðrum að 30 þúsund krónunum, og hafði fjóra þúsund króna seðla upp úr krafsinu, og heiðarlegir borgarar á Akureyri skiluðu þrem seðlum á lögreglustöðina. Auk þessa fann maðurinn bankabókina, en vantar enn 23 þúsund af peningunum, sem fuku út í loftið. Á nokkrum stöðum fuku járnplötur af húsum, og einna flestar af húsi í eigu Slippstöðvarinnar. Járnplata fauk a.m.k. á einn bíl svo vitað sé. Þá mun barn hafa fokið á steinvegg, og varð að flytja það á Fjórðungssjúkrahúsið. Jólaskreytingin á kirkjutröppunum varð líka fyrir barðinu á rokinu, og eflaust eitthvað fleira. Rafmagnslaust varð á Akureyri í gærkvöldi, en í dag var rafmagnið komið í lag. Mun línum hafa slegið saman og slitnað í rokinu, og voru starfsmenn Laxárvirkjunar og Rafmagnsveitnanna önnum kafnir við viðgerðir á línum.
Myndin sýnir stöðuna í háloftunum 10.desember. Hvöss, hlý og rök suðvestanátt er yfir Íslandi.
Tíminn segir af miklum flóðum í pistli 11.desember:
KJ-Reykjavík, fimmtudag. Gífurleg flóð voru í ám í Borgarfirði í dag, og einna mest í Norðurá og þverám hennar. Sögðu sjónarvottar, að Norðurárdalur væri eins og fjörður yfir að líta, og þar sem áin er nú breiðust, er giskað á að hún sé 23 kílómetrar, í stað nokkurra tuga metra, undir venjulegum kringumstæðum. Samgöngur á landi hafa lamast vegna flóðanna, og bíða stórir vöruflutningabílar á leið norður eða suður, eftir að vatnið í ánum réni, svo fært verði um vegina. Gífurleg rigning, samfara hita og þíðu, hefur orsakað þessi flóð, og má búast við að vegir hafi skemmst vegna vatnavaxtanna.
Að því er Hjörleifur Ólafsson hjá Vegagerðinni sagði Tímanum í dag, þá hefur víða runnið úr vegum í dag, einkum á Vestfjörðum. Grafíð hefur frá brúm, og ræsi hafa víða farið í vatnsflaumnum, sem verið hefur niður fjallshlíðarnar. Frá brúnni við Fossá í Arnarfirði rann jarðvegurinn í burtu, og í Dýrafirði fór vegurinn í sundur. Þá var Flateyrarvegur illa farinn og vegurinn í Óshlíðinni milli Hnífsdals og Bolungarvíkur var skemmdur. Víða annars staðar hafa orðið minni vegaskemmdir. T.d. hrundu steinar niður á veginn í Hvalfirðinum og á Rangárvöllum rann úr veginum við ræsi í morgun. Á Suðurlandsvegi í Ölfusi þar sem unnið er að hraðbrautarframkvæmdum, hefur orðið að leggja bráðabirgðavegarspotta utan aðalvegarins, og urðu tafir á umferð þar í dag, vegna skemmda í bráðabirgðaveginum.
Kristján Fjeldsted bóndi í Ferjukoti í Borgarfirði sagði Tímanum, að á háflæði um klukkan sex í dag hefði farið að flæða inn í kjallarann í Ferjukoti, en ekki alvarlega þó. Kristján sagði að töluvert djúpt vatn væri á veginum sunnan við Hvítárbrú, og sömuleiðis væri farið að renna yfir veginn milli síkisbrúnna hjá Ferjukoti. Sagði Kristján að eiginlega hefði alveg verið ófært um veginn sunnan við brúna, en einhverjir væru þó að fara þar yfir. Á sjötta tímanum var farið að lygna í Ferjukoti, og sagðist Kristján vonast til að flóð færi að sjatna með kvöldinu, jafnframt því að fjaraði út. Sigurður Hreiðar kennari í Bifröst, sagði að þar efra hefði rignt einhver ósköp, og gífurlegt flóð væri í Norðurárdal ofan frá Hvammi og niður undir Brekku. Sem dæmi um vatnshæðina sagði hann að vatnið hefði náð næstum upp að umferðarskilti á beygju á veginum skammt frá Brekku í Norðurárdal, en skiltin eru á um tveggja metra háum stólpum. Við Hreðavatnsskála biðu fjórir stórir vöruflutningabílar, tveir frá Akureyri, einn frá Hólmavík og Emmess-ísbíll úr Reykjavík. Um hádegið í dag brast ræsi við heimreiðina að Sveinatungu í Norðurárdal, undan vöruflutningabíl frá Hofsósi. Vatn hafi grafið frá ræsinu, og lenti bíllinn með framhjólin niður um ræsið, og sat þar enn í kvöld, þar sem enginn bíll hafði komist honum til aðstoðar. Á Hreinsstöðum voru tveir bílar stopp, og vera má, að bílar hafi orðið að halda kyrru fyrir á fleiri stöðum í dalnum vegna vatnavaxta á vegunum.
Guðmundur Sverrisson bóndi í Hvammi í Norðurárdal, sagði að dalurinn væri alveg eins og fjörður yfir að líta. Sagði hann að flóð hefði komið í allar ár og læki í dalnum í nótt, og væri þetta mesta flóð sem orðið hefði þar frá því 9. september 1933, en þá rigndi mikið, og flæddi Norðurá mikið yfir bakka sína. Guðmundur í Hvammi sagði að vegurinn væri víða undir vatni, en ekki væri vitað nákvæmlega um skemmdir á veginum af völdum vatnavaxtanna. Þó sagði hann að vegurinn hefði skemmst hjá Litlá, þar sem runnið hefði úr honum. Í kvöld var flóðið í rénun, en það var í hámarki eftir hádegi og fram undir kaffi. Í Hvammi var hætt að rigna um hálf sjö.
Tíminn segir enn af flóðunum 12.desember:
KJReykjavík, föstudag. Fyrstu bílarnir brutust um veginn í Norðurárdal í gærkvöldi um miðnættið, en almenn umferð hófst ekki um veginn að ráði fyrr en síðari hluta dags í dag, því að ræsi hjá Búrfellsá neðan við Fornahvamm brotnaði niður í morgun, og var viðgerð ekki lokið fyrr en um kl.6. Varð Norðurleiðaráætlunarbíllinn, því að bíða um sex tíma í Norðurárdalnum, áður en hann gat haldið leið sinni norður í land.
Flóðin í Norðurá og Hvítá nú, eru talin þau mestu frá því í september 1933, en þá gerði gífurlega úrkomu og flæddu árnar yfir bakka sína. Það er ekki óalgengt að Hvítá flæði yfir veginn hjá Hvítárvöllum, og kippa Borgfirðingar sér vart upp við það nú orðið. En flóðið núna hefur þó orðið til þess að menn sjá að brýn nauðsyn er að brú verði sett á Borgarfjörð hið fyrsta. Mælingar og athuganir á hugsanlegu brúarstæði yfir fjörðinn á móts við Seleyri, hafa farið fram á undanförnum árum, og í ár var veitt tæpri milljón til rannsókna á brúarstæði yfir Borgarfjörð og þar í líka kostnaður við rannsóknir vegna samgöngumála í Hvalfirði. Í Fornahvammi fara fram úrkomumælingar, og mælt einu sinni á dag, á morgnana. Í morgun mldist sólahringsúrkoman 53 mm, en í gærmorgun (fimmtudagsmorgun) mældist úrkoman 82 mm eftir sólarhringinn. Sagði veitingamaðurinn í Fornahvammi að Hvassá sem rennur fyrir neðan Fornahvamm, hefði farið upp á túnið í Fornahvammi og töluvert jakahröngl hefði borist með, en bæði Norðurá og Hvassá ruddu sig í þessum miklu leysingum. Veitingamaður inn sagði að jörð væri nú alauð þar efra, og ekki snjór nema í efstu tindum. Ræsið yfir Búrfellsá neðan við Fornahvamm datt niður í morgun, og tafðist því umferð um Norðurárdal í allan dag.
Viðgerðarflokkur var kominn á staðinn um hádegi, og var bráðabirgðaviðgerð lokið um klukkan sex. Norðurleiðaáætlunarbíllinn kom í Hreðavatnsskála um hádegisbilið, og kom hann ekki í Fornahvamm fyrr en um sex.
Skarð kom í veginn milli Síkisbrúnna við Ferjukot í Borgarfirði, og var unnið að viðgerð á hinum mjóa og stöðugt sígandi vegi þar í dag. Vatnið fór yfir veginn á tímabili, en hægt var að komast yfir Norðurá hjá Haugum, og stöðvaðist því umferð í Borgarnes og út á Snæfellsnes því ekki algjörlega. Litlir jakar hafa víða borist á land meðfram Norðurá, og allar lægðir eru fullar af vatni vegna leysinganna.
Vatnsborð hækkaði líka í Ölfusá. Vatnsborðið í Ölfusá og Hvítá í Árnessýslu hækkaði líka núna í leysingunum, og rofnaði vegasambandið við bæi. Þegar vatnavextir eru miklir í Hvítá í Árnessýslu rofnar venjulega vegasamband við Auðsholtshverfið, og svo var einnig að þessu sinni. Þá á Hvítá það til að flæða yfir bakka sína hjá Oddgeirshólum og Brúnastöðum í Flóa, og jafnvel að flæða yfir Skeiðin og umkringja Ólafsvallahverfið.
KJReykjavík, föstudag. Í fyrrinótt varð Arnór Kristjánsson bóndi á Eiði í Eyrarsveit fyrir tilfinnanlegu tjóni, er 30 ær frá honum flæddi á flæðiskeri skammt frá bænum. Arnór Kristjánsson sagði Tímanum í dag, að mjög vont veður hefði verið í fyrrakvöld og fyrrinótt á Snæfellsnesi, og hefðu þessar þrjátíu ær ekki fundist um kvöldið. Flæðiskerið er um 300 400 metra frá landi í Kolgrafarfirði, og um einn kílómetra frá bænum, en hann er Kolgrafarfjarðamegin í Eyrarsveit. Arnór sagði að fé sækti stíft út í flæðiskerið, og þyrfti hann bókstaflaga að hafa gát á því allt árið um kring, bæði vegna sín eigin fjár og annarra. Flæðiskerið er nokkuð stórt, og sækir féð í sjávargróðurinn á því. Á sumrin kemur það fyrir að fé syndir í land úr skerinu, en skerið fer alveg í kaf á flóði. Eina og eina kind hefur flætt þarna áður, en aldrei svona margar í einu sagði Arnór. Þegar bændur missa fé í náttúruhamförum eða af öðrum ástæðum, verða þeir að bera tjón sitt sjálfir, og er það oft tilfinnanlegt, eins og í þessu tilfelli, þar sem Arnór missir einn fimmta af ánum sínum, og í dag var frétt um það í Tímanum að alifuglabóndi hefði misst 500 kjúklinga norður í Eyjafirði. Talið er að góð lífær kosti um 2.500 krónur, svo þarna hefur Arnór á Eiði orðið fyrir um 75 þúsund króna beinu fjárhagslegu tjóni, en á vorin eru góðar ær að sjálfsögðu miklu meira virði, eða 35004000 króna virði að talið er í dag.
EJReykjavík, föstudag. Umhleypingarnir undanfarið hafa gert allt innanlandsflug mjög erfitt, og má segja, að síðastliðinn hálfan mánuð hafi orðið jafn mikil röskun á innanlandsflugi Flugfélagsins og venjulega á heilum vetri, að því er Sveinn Sæmundsson, blaðafulltrúi, tjáði blaðinu í dag. Flugið komst að verulegu leyti í samt lag í dag, nema hvað ekki var hægt að fljúga til Vestfjarða eða Eyja. Hins vegar var flogið til Akureyrar, Húsavíkur, Sauðárkróks, Hornafjarðar og Egilsstaða. Sveinn sagði blaðinu, að hinir miklu umhleypingar undanfarnar tvær vikur hefðu mjög truflað innanlandsflugið. Hefði bæði orðið að aflýsa alveg flugferðum, eða þá að vélarnar urðu að snúa við þegar á áfangastað var komið vegna hvassviðris. Veðrið hefur verið mjög breytilegt eins og kunnugt er og oft mjög hvasst, svo ekki hefur verið hægt að lenda.
En flóðin sjötnuðu. Tíminn 13.desember:
OÓRcykjavík, laugardag. Flóðin í Borgarfirði eru nú sjötnuð og allir vegir færir bæði þar og annars staðar á landinu, nema Vestfjörðum, en þar er stórhríð og varla fært milli húsa. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðar ríkisins voru skemmdir á vegum ekki miklar miðað við það sem búast mátti við eftir allan vatnselginn undanfarna daga. Viðgerð á vegunum hófst í gær og gekk vel. Nú má fyrst búast við að vegirnir fari að skemmast. Þeir eru mjög blautir, og farið er að aka á þeim. Í gær lokaðist vegurinn í Steingrímsfirði og var hann lagaður í dag. Ófært var um Vaðlaheiði i gær, en þar er nú fært öllum bílum. Engin hríð er á Norðurlandi, þótt snjó, kyngi niður á Vestfjörðum.
Í Morgunblaðinu 13.desember eru tvær fréttir frá Hólmavík:
Hólmavík, 12. desember. Í ofsaroki sem gerði fyrir skömmu [líklega 7.], fauk þakið af íbúðarhúsinu á Tindi í Miðdal í heilu lagi og sást ekki meir. Íbúðarhúsið á Tindi er gamalt timburhús. Fréttaritari.
Hólmavík, 12. desember. Geysilegt úrfelli gerði hér í fyrradag [10.] og nóttina á undan og urðu þá stórskemmdir á lóð sjúkrahússins og nýgerðri götu í þorpinu. Sjúkrahúsið stendur í talsverðum halla og höfðu verið hlaðnir stallar utan í hann en í vatnsflaumnum skolaðist stór spilda úr lóðinni og sópaðist upp á glugga á neðri hæð íbúðarhúss undir hallanum. Engar skemmdir urðu á húsinu en í dag hefur verið ekið frá því 14 bílhlössum og er enn töluvert eftir. Í haust var lagður nýr vegur hér í þorpinu og má heita, að hann sé nú horfinn fyrir vatni. Fréttaritari.
Tíminn ræðir jólaveðurhorfur 24.desember:
OÓReykjavík, miðvikudag. Góðar horfur eru á að veður verði milt um jólin. Verða rauð jól alls staðar í byggð, og eru ekki líkur á að veðráttan breytist mikið næstu daga frá því sem nú er. ... Fyrir vestan landið er mikill hlýr loftstraumur, norður um Grænland og vestur um. Þarf talsvert mikið til að breyta veðrinu, eins og nú er, samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar. Búast má við einhverri úrkomu sunnanlands og vestan, en þó tæpast neinu úrfelli. Veðrið er sérstaklega kyrrt, og heiðskírt er að verulegu leyti norðan lands og austan og allt vestur um Vestmannaeyjar. Skýjað er aðeins á suðvesturhorni landsins. Á Suðvesturlandi er sólskin og fyrir norðan skín jólasólin á tinda, en meira sést ekki af henni þar á þessum árstíma.
Vísir segir 28.desember frá minniháttar foktjóni í Breiðholti:
Járnplötur rifnuðu upp og fuku af þaki húss við Víkurbakka í nótt, þegar skyndilega hvessti mjög um kl.3. Þaut vindhraðinn á tæpri klukkustund upp úr 45 vindstigum í 1011 vindstig. Fæstir urðu þessa varir, enda í fastasvefni, en á þessum eina stað í Reykjavík fuku járnplöturnar af þaki nýlegs húss. Reyndar fuku járnplöturnar á bifreið, sem stóð skammt frá húsinu og ollu nokkrum skemmdum á henni. Hvassviðrið stóð aðeins stutta stund, um klukkutíma, gekk þá strax niður fyrir 7 vindstig.
Lýkur hér upprifjun hungurdiska á veðuratburðum ársins 1970. Mikið magn af tölulegum upplýsingum má finna í viðhenginu.
22.8.2023 | 00:46
Hlýindi á Grænlandi?
Öfgahlýindi hafa í sumar að mestu forðast Ísland en hafa alloft dansað nærri landinu. Þannig er það líka þessa dagana. Sérlega hlýtt loft er vestan við okkur, yfir Grænlandi. Hvort eða hvernig það nýtist þarlendum er hins vegar óljóst - alla vega eru veðurstöðvar sárafáar á Grænlandi og illt að staðfesta hita þar í dölum og fjörðum. Helst að vart verði við hann í Syðra-Straumfirði og Nassarsúak. Við lítum nú á spá danska igb-reiknilíkansins um hita á Norðaustur-Grænlandi sem gildir á miðvikudag 23. ágúst kl.16.
Við tökum fyrst eftir 26 stigum sem spáð er í Kangerlussuaq-firði. Við munum víst aldrei fá að vita hvort hitinn verður svona hár í raun og veru. [Það er merkilegt að grænlenska nafnið á Syðri-Straumfirði er líka Kangerlussuaq - ekki veit ritstjórinn hvort eða hvernig þarlendir greina á milli í daglegu tali - en þetta er sitthvor staðurinn]. Í öðru lagi er hita spáð yfir 20 stig á stórum landsvæðum norðan við Scoresbysund (sem reyndar er ekki kennt við Scoresby sjálfan, heldur föður hans, sem líka hét Scoresby). Við munum varla fá að vita heldur hvort rétt er spáð þarna. Mælt er í þorpinu Ittoqqortoormiit (maður öðlast ákveðinn skilning á erfiðleikum útlendinga við íslensk nöfn við að horfa á þetta). Trúlega er líka mælt á flugvelli þeirra - Constable Pynt.
Langflestar veðurathugunarstöðvar á Grænlandi eru á útskögum, ekki ósvipað og var hér á landi á árum áður - hitafar í innsveitum lítt þekkt. Við vitum því lítið um tíðni atburða af þessu tagi. Vel má vera að þeir séu allalgengir, en hitaútgildavísir evrópureiknimiðstöðvarinnar er í hæstu hæðum á þessum slóðum þessa dagana. Aðrir hitavísar eru líka í hæstu hæðum. Hita í 850 hPa er spáð í 17 stig, mættishiti er yfir 30 stig í þeim fleti, þykkt er spáð 5680 m á sömu slóðum, en síðdegis á fimmtudag - og hita í 500 hPa nærri metum.
Hvort þetta svo rætist veit enginn - líkön giska auðvitað á eitthvað og við trúum þeim að vissu marki - þegar þar að kemur.
Góðum hlýindum er spáð á Suðurlandi næstu daga - yfir 20 stigum - en raunveruleg öfgahlýindi virðast ætla að halda áfram að forðast okkur. Kannski við þökkum bara fyrir það.
Viðbót um hádegi miðvikudag 23.ágúst: Í gær (22.) fór hiti í 20,4 stig í Nassarsuaq og 20,2 á Constable Pynt-flugvelli,
Vísindi og fræði | Breytt 23.8.2023 kl. 13:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.8.2023 | 14:05
Fyrstu 20 dagar ágústmánaðar - tuttugu stig í Reykjavík
Meðalhiti fyrstu 20 daga ágústmánaðar er +12,5 stig í Reykjavík. Það er +1,2 stigum ofan meðallags sömu daga árin 1991 til 2020 og +1,5 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í sjöttahlýjasta sæti aldarinnar (af 23). Hlýjastir voru þessir dagar árið 2004, meðalhiti 13,5 stig, en kaldastir voru þeir í fyrra, 2022, meðalhiti þá 10,0 stig. Á langa listanum er hiti nú í 8. hlýjasta sæti (af 151), hlýjast var 2004, en kaldast 1912, meðalhiti þá 7,6 stig.
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu 20 daga ágústmánaðar 11,7 stig. Það er +0,5 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og +1,0 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
Hita er enn misskipt milli landshluta. Hlýjast að tiltölu hefur verið á Suðurlandi. Þar er hitinn í fimmtahlýjasta sæti aldarinnar og því sjöttahlýjasta við Faxaflóa og á Vestfjörðum. Aftur á móti er hann í 17.hlýjasta sæti á Austfjörðum og hiti undir meðallagi.
Miðað við síðustu 10 ár hefur að tiltölu verið hlýjast á Þverfjalli, hiti þar +2,2 stig ofan meðallags og +2,1 stig ofan þess á Skálafelli. Kaldast að tiltölu hefur verið á Fonti á Langanesi. Þar er hiti -0,8 stig neðan meðallags, og -0,7 stig neðan þess á Vattarnesi.
Úrkoma hefur víða verið lítil. Hún hefur þó mælst 26,5 mm í Reykjavik - og er það um 75 prósent meðalúrkomu. Á Akureyri hafa aðeins mælst 0,6 mm (en sömu daga 2012 aðeins 0,1 mm).
Sólskinsstundir hafa mælst 129,3 í Reykjavík, um 15 stundum umfram meðallag. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 117,8, rúmlega 20 umfram meðallag.
Enn lifir þriðjungur mánaðarins.
Hitinn í Reykjavík marði loks 20 stig í gær (sunnudag 20.ágúst) - í fyrsta sinn á þessu sumri - og í fyrsta sinn í tvö ár. Hámarkið á Veðurstofutúni var 20,6 stig. [Rétt að rifja upp að einu sinni liðu 16 ár án þess að hiti næði 20 stigum í Reykjavík]. Líkur á 20 stiga hita eru almennt litlar í Reykjavík og minnka ört eftir miðjan ágúst. Þó komst hiti í 20 stig 25. ágúst 2015 - þá í fyrsta skipti á sumrinu (og það eina). Aðeins er vitað um eitt ár með 20 stiga hita í Reykjavík síðar á sumrinu. Það var 1939, þá fór hiti í 20 stig bæði 31. ágúst og 3. september. Árið 1837 fór hiti í 20 stig þann 20. ágúst - eins og nú og líka þann 24. og þ.20., 21. og 22. og 23. árið 1829. Þessar eldri mælingar eru þó ekki alveg samanburðarhæfar við nútímann vegna þess að mælarnir voru nær jörðu - og ekki í skýli. Við notum þær því ekki í metingi - en gott að vita af þeim samt.
Á undanförnum árum hefur mælingum fjölgað mjög á höfuðborgarsvæðinu. Í gær (20.ágúst) fór hiti í 20 stig á flestum stöðvunum, hæst 22,3 stig í Urriðaholti. Þær stöðvar sem ekki náðu 20 stigum voru þessar: Hljómskálagarður (19,3 stig), Seltjarnarnes (15,8 stig), Reykjavíkurflugvöllur (19,9 stig), Hólmsheiði (19,6 stig), Arnarnesvegur (19,6 stig). Mæling barst ekki frá kvikasilfursmæli í skýli (kemur e.t.v. síðar).
Síðustu 103 ár hefur hiti mælst 20 stig eða meira 80 sinnum í Reykjavík (tími samfelldra hámarkshitamælinga). Af þessum árum hefur hiti ekki komist í 20 stig 67 ár. Fimmtán ár í röð (1961-1975) voru tuttugustigalaus (16 ár milli tuttugustiga). Sumarið 1939 komst hiti 7 daga í 20 stig, 6 daga 2004 og 7 daga 2008. Á þessari öld hefur hiti 39 sinnum komist í 20 stig í Reykjavík, á 17 árum. Öldin á því nærri því helming tilvika - og nær helming ára, þrátt fyrir að vera aðeins fjórðungur heildarárafjöldans. Freistandi er því að segja að tuttugustigadögum hafi fjölgað - en um framtíðina vitum við ekki.
Á 103 árum hefur hiti einu sinni farið í 20 stig í maí og september, 10 sinnum í júní, 51 sinni í júlí og 16 sinnum í ágúst. Líkur á 20 stiga hita eru því langmestar í júlí.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2023 | 14:58
Fyrri hluti ágústmánaðar
Meðalhiti fyrri hluta ágústmánaðar í Reykjavík er 12,3 stig. Það er +0,8 stigum ofan meðallags sömu daga 1991 til 2020 og +1,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 6. hlýjasta sæti aldarinnar (23 ár). Hlýjastir voru þessir dagar 2004, meðalhiti þá 14,0 stig, en kaldastir voru þeir í fyrra, 2022, meðalhiti 10,0 stig. Á langa listanum raðast hitinn í 16. hlýjasta sæti (af 151). Hlýjast var 2004, en kaldast 1912, meðalhiti þá aðeins 7,4 stig.
Á Akureyri er meðalhiti nú 11,1 stig, -0,3 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, en +0,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
Hita á landinu er enn misskipt. Langkaldast, að tiltölu, hefur verið á Austfjörðum. Þar er þetta þriðjakaldasta ágústbyrjun aldarinnar. Við Faxaflóa og á Suðurlandi er hún hins vegar sú sjöttahlýjasta.
Miðað við síðustu tíu ár hefur verið hlýjast á Þverfjalli, hiti +2,4 stigum ofan meðallags, en kaldast hefur verið á Fonti á Langanesi, hiti þar -1,4 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára, meðalhiti 7,0 stig.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 22,2 mm og er það um 20 prósent minna en í meðalári. Á Akureyri hefur úrkoman mælst aðeins 0,5 mm, 0,2 mm í Stykkishólmi, 1,2 á Dalatanga og 0,1 á Höfn í Hornafirði. Allt óvenjulágar tölur. Á Akureyri mældist engin úrkoma fyrstu 15 daga ágústmánaðar árið 2012 og árið 1951 var staðan svipuð og nú, aðeins höfðu mælst 0,7 mm í miðjum mánuði. Í Stykkishólmi mældist engin úrkoma fyrri hluta ágúst 1952 og 1888 mældust aðeins 0,2 mm, eins og nú. Í fáeinum tilvikum til viðbótar hefur úrkoma á sama tíma mælst 1 mm eða minni. Á Dalatanga mældust aðeins 0,3 mm fyrri hluta ágúst 1968 og 0,8 mm 1957. Árið 1976 var úrkoma þar fyrri hluta ágúst sú sama og nú, 1,2 mm. Á Höfn í Hornafirði mældistu úrkoma fyrri hluta ágúst 2019 aðeins 0,1 mm, rétt eins og nú og 0,4 mm sömu daga 1967.
Ljóst er að undanfarnar 6 vikur hafa verið sérlega þurrar víða á landinu. Umskiptin miklu milli júní og júlí þýða þó að heildarúrkomutölur sumarsins eru viðast hvar enn varla farnar að teljast með því óvenjulegasta. Höfum þó í huga að snjór var óvenjulítill síðastliðinn vetur og fannir í fjöllum hafa verið fljótar að hverfa, stórfannir jafnvel orðnar rýrar. Því má búast við því að víða sé orðið þurrt í lækjum og jafnvel ám, en mjög þó misjafnt eftir því hversu rennslið er háð úrkomu lengri eða skemmri tíma - og leysingu vetrarsnævar.
Sólskinsstundir eru 105,5 í Reykjavík, 24,1 fleiri en í meðalári. Á Akureyri hafa mælst 100,2 sólskinsstundir, 30 fleiri en í meðalári.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2023 | 21:49
Smávegis af júlí síðastliðnum
Við lítum nú á stöðuna í háloftunum við Norður-Atlantshaf í júlí.
Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, jafnþykktarlínur (daufar) strikaðar, en þykktarvik sýnd með litum. Gulir og brúnir litir sýna jákvæð vik (hlýtt), en blá neikvæð (kalt). Lægð var viðloðandi í háloftunum austan við land mestallan mánuðinn og olli þrálátri norðanátt hér á landi. Gríðarleg hlýindi voru suðvestan við Grænland, en sérlega kalt á Bretlandseyjum, í Danmörku og þar um slóðir. Hlýtt suður við Miðjarðarhaf og nyrst í Noregi.
Við sjáum af legu jafnhæðarlínanna að áttin var úr hánorðri í miðju veðrahvolfi. Ef trúa má endurgreiningum er þetta einhver þrálátasti norðanáttarjúlí síðustu 100 ára. Nánasti háloftaættingi hans er júlí 2012, en þá var áttin öllu vestlægari í háloftunum heldur en nú - nægilega mikið til að þá náði verulegt sólskin til Norðurlands. Sumarið 2012 fékk almennt góða dóma hér á landi - en endaði með töluverðu brothljóði - eins og margir muna e.t.v. Eftir óvenjulanga syrpu með 20 stiga hita á landinu sem náði fram að 20. ágúst kólnaði mjög og við tóku afleit næturfrost og síðan auðvitað septemberhríðin mikla á Norðausturlandi - allt heldur öfugsnúið eftir gott sumar.
Fyrir utan þessi líkindi júlímánaðanna tveggja eru sumrin 2012 og 2023 hins vegar harla ólík - hvað sem svo síðar verður. Fjölbreytt efni var á hungurdiskum sumarið 2012 - og auðvelt fyrir áhugasama að rifja það upp með því að smella á mánaðalistann hér neðar og til vinstri hliðar. Við þökkum BP fyrir kortið.
11.8.2023 | 14:03
Fyrstu tíu dagar ágústmánaðar
Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 10 daga ágústmánaðar er 11,8 stig, +0,3 stigum ofan meðallags sömu daga 1991 til 2020 og +0,6 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Raðast hitinn í 12. hlýjasta sæti aldarinnar (af 23). Hlýjastir voru þessir dagar 2003, meðalhiti þá 13,5 stig, en kaldastir í fyrra, 2022, 10,2 stig. Á langa listanum er hiti nú í 41.hlýjasta sæti (af 151). Hlýjast var 2003, en kaldast 1912, aðeins 6,4 stig. Hæsti hiti ársins til þessa í Reykjavík mældist í gær (10.ágúst) 18,8 stig.
Á Akureyri er meðalhiti nú 11,1 stig, -0,3 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, en +0,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
Hita á spásvæðunum er nokkuð misskipt. Langkaldast, að tiltölu, hefur verið á Austfjörðum. Þar eru þessir dagar þeir næstköldustu á öldinni, Um norðanvert landið raðast hitinn í 15. til 17. hlýjasta sæti, og hlýjast að tiltölu hefur verið við Faxaflóa, þar raðast hitinn í 9. hlýjasta sæti og það 10. hlýjasta á Vestfjörðum.
Á einstökum veðurstöðvum hefur verið hlýjast að tiltölu á Þverfjalli þar sem hiti er +2,3 stig ofan meðallags síðustu tíu ára. Kaldast að tiltölu hefur verið í Neskaupstað, -1,4 stig neðan meðallags.
Úrkoma hefur mælst 21,5 mm í Reykjavík, um 20 prósent umfram meðallag. Á Akureyri hafa aðeins mælst 0,4 mm, 3 prósent meðallags - en hefur reyndar nokkrum sinnum verið engin þessa sömu daga.
Mælst hafa 60,8 sólskinsstundir í Reykjavík, það er nærri meðallagi. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 66,2 og er það um 20 stundir umfram meðallag.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 120
- Sl. sólarhring: 144
- Sl. viku: 955
- Frá upphafi: 2420770
Annað
- Innlit í dag: 111
- Innlit sl. viku: 843
- Gestir í dag: 106
- IP-tölur í dag: 105
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010