Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2022

Til þess að gera svalur júlí

Meðalhiti á landsvísu í júlí virðist ætla að enda rétt við 10,0 stig. Það er um -0,5 stigum neðan meðaltals síðustu tíu ára og -0,4  neðan meðallags 1991 til 2020. Þetta eru auðvitað nokkur viðbrigði frá hlýindunum í júlí í fyrra (2021) þegar landsmeðalhitinn var um 11,7 stig. Það var næsthlýjasti júlí sem við vitum um. Sjónarmun hlýrra var í júlí 1933. 

w-blogg310722a

Myndin sýnir landsmeðalhita í júlí aftur í tímann. Við tökum þó rétt hóflegt mark á árunum fyrir 1874, notum þær tölur aðallega til að sjá hvaða júlímánuðir voru kaldir og hverjir hlýir á þeim tíma. Græni ferillinn sýnir 10-ára keðjumeðaltöl. Hlýindin hafa almennt verið ívið meiri síðustu árin heldur en var á hlýskeiðinu á fjórða áratug 20. aldar. Ekki hefur komið nema einn júlímánuður sem við getum kallað kaldan. Það var 2015, þá var talsvert kaldara en nú. Við megum líka taka eftir því að júlíhitinn nú er hærri en hann var nærri því alla júlímánuði á árunum 1961 til 1990 - sem eru að sumu leyti hinir „eðlilegu“ hjá okkur gömlu mönnunum. Yngra fólk man þá tíð auðvitað ekki. 

Reynslan segir okkur að það er oft erfitt að komast út úr veðurfestum á miðju sumri. Til þess þarf annað hvort árásir öflugra kuldapolla úr norðri eða mikil hlýindi sunnan úr höfum. Líkur á slíkum atburðum aukast þegar kemur fram yfir miðjan ágústmánuð. Afl vestanvindabeltisins á norðurhveli er að jafnaði í lágmarki fyrstu 2 vikur ágústmánaðar, en síðan fer að bæta í styrk þess. Er sitt á hvað hvort það veldur umbótum í veðurlagi eða það skiptir hreinlega í einhvers konar haustgír. Ekkert vitum við enn um það hvað verður að þessu sinni. 


Sumum þykir kalt

Mörgum þykir heldur svalt á landinu þessa dagana. Eins og fjallað var um hér á hungurdiskum í gær er réttilega bent á að nokkur skortur hefur í sumar verið á verulega hlýjum dögum.  Meðalhámarkshiti júlímánaðar á sjálfvirku stöðinni á Veðurstofutúni er í lægra lagi, stendur nú í 13,4 stigum. Þetta er meðal þess lægsta í júlí á þessari öld, var þó lægra 2002 og nærri því að sama 2001, 2018 og 2020. Meðallágmarkið sker sig síður úr. Sömuleiðis eru veðurspár fyrir næstu daga ekkert sérlega hlýlegar. 

Þrátt fyrir þetta er varla (enn) hægt að tala um kulda á landsvísu). Daglegur landsmeðalhiti hefur verið að sveiflast í kringum meðallag síðustu tíu ára - hefur þó oftar verið lítillega neðan þess heldur en ofan við. Ritstjóri hungurdiska leitar á hverjum degi að hæsta hámarkshita á landinu. Hann hefur nú í júlí oftast verið á bilinu 18 til 20 stig (það er í lægra lagi - en ekki svo). Einn dagur sker sig dálítið úr fyrir lélegan árangur. Það var sá 3., þá var hæsti hiti á landinu aðeins 15,9 stig. Það telst lágt, samt eru allmargir júlídagar á öldinni enn lakari - en fækkar eftir því sem við nálgumst 15 stigin. Við getum farið að tala um óvenjukaldan dag nái hæsti hiti á landinu ekki 15 stigum í síðustu viku júlímánaðar. Á öldinni vitum við aðeins um einn slíkan, hinn illræmda 24.júlí 2009. Þá var hæsti hiti landsins aðeins 14,7 stig. 

Við getum farið í leit að lægsta landshámarkshita hvers dags aftur til 1961, hafa verður þó í huga að mannaða og sjálfvirka kerfið eru ekki alveg sambærileg. Mun fleiri stöðvar mæla nú hámarkshita en það gerðu á árum áður og líkur á hærri landshámörkum eru því meiri nú en var. Við leit í mannaða kerfinu finnum við aðeins fáeina daga með hæsta landshámarki neðan við 14 stig síðustu viku júlímánaðar, lægstur er sá 29. árið 1970 þegar hæsta hámark landsins var aðeins 13,5 stig (líklega gerðist það líka þann 27. júlí 1958). 

Það er óvenjulegt á þessari öld ef sólarhringsmeðalhiti í Reykjavík í síðustu viku júlímánaðar nær ekki 10 stigum. Kaldast var 24. júlí 2009, meðalhiti aðeins 8,1 stig. Sé farið lengra aftur finnum við 23. júlí 1963. Þá var meðalhiti í Reykjavík aðeins 5,8 stig. Við erum nú ekki mörg sem munum þann dag (ritstjórinn man hann af tilviljun einni saman). En það er e.t.v. ástæða til að kvarta sérstaklega fari sólarhringsmeðalhitinn niður fyrir 9 stig í Reykjavík.  

Á Akureyri var sólarhringmeðalhiti þann 23. júlí 2009 ekki nema 6,5 stig - og 23. júlí 1963 ekki nema 4,3 stig. 

Við getum líka metið kulda með því að líta á þykktina - hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Lægsta þykkt sem við þekkjum í síðustu viku júlí var einmitt 24. júlí 2009, 5290 metrar. Daginn kalda 1963 var hún 5320 metrar (en 5300 yfir Keflavíkurflugvelli). Minni þykkt en 5370 metrar er óvenjuleg í síðustu viku júlímánaðar. Á laugardaginn (30.júlí) á þykktin yfir landinu að fara niður í 5350 metra. 

Þó ritstjóranum hafi ekki enn þótt tiltakanlega kalt - og vart ástæða til að kvarta (enda man hann júlítímana tvenna) - verður hann samt að viðurkenna að enn er möguleiki á að ástæða verði til þess - helgarspárnar geta alla vega ekki kallast hlýlegar. 


Hámarkshiti það sem af er sumri

Snemma í ágúst árið 2014 birtist hér á hungurdiskum smápistill um hámarkshita sumarsins fram að þeim tíma. Þar var talað um að hæsti hiti sumarsins þá hefði verið í lægra lagi - þrátt fyrir að alls ekki hafi verið um neina kuldatíð að ræða. Hæsti hiti sem mælst hafði á landinu var 23,3 stig (mældust á Húsavík 23. júlí - 2014). Það varð reyndar hæsti hiti sumarsins alls.

Í ár (2022) er hæsti hiti sumarsins til þessa 24,4 stig - og mældist 19.júní á Hallormsstað og Egilsstaðaflugvelli. Þann 6. águst 2014 hafði hiti náð 20 stigum á aðeins þriðjungi veðurstöðva (hálendi og útskagar taldir með). Nú er staðan jafnvel enn lakari, 20 stigum hefur verið náð á tæplega fjórðungi stöðvanna. 

Mjög lausleg (og eftir því ónákvæm) skyndikönnun gefur til kynna að almennar líkur á að hæsti hiti á árinu falli á ágúst (eða síðar) séu ekki nema um 30% að meðaltali á stöðvunum.

Listi yfir hámarkshita ársins (það sem af er) á öllum sjálfvirkum stöðvum er í viðhengi og geta nördin velt sér upp úr honum. 

Þar má m.a. sjá lægsta hæsta hita ársins, 12,9 stig á Þverfjalli. Ekki sérlega óvæntur staður. Þessi hæsti hiti á Þverfjalli mældist hins vegar 29.maí, varla komið sumar. Reyndar eiga 29. og 30. maí hæsta hita ársins til þessa á allmörgum stöðvum - eins og sjá má í listanum. Af láglendisstöðvum er lægsti hámarkshitinn á árinu á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, 13,5 stig, mældist 29.júní. 

Sjálfvirka stöðin í búrinu á Veðurstofutúninu hefur hæst komist í 17,5 stig, en hin sjálfvirka stöðin á sama stað í 17,9 stig (hinn opinberi Reykjavíkurhiti). 

Í viðhenginu má einnig finna lista um meðaltal hæsta hita ársins til og með 31.júlí. Aðeins eru teknar með stöðvar sem hafa mælt í 15 ár eða meira. Að meðaltali er hæsti hiti landsins fram til júlíloka 25,8 stig - (en 24,4 stig nú). Í Reykjavík er meðaltalið 20,2 stig (en 17,9 nú). Á Akureyri (Krossanesbraut) er meðaltalið 22,0 stig (en er 20,4 stig nú). Flestar hámarkshitatölur eru lægri í ár heldur en að meðaltali. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Miðsumar

Við höfum hér áður minnst á „miðsumar“. Miðsumar nefnist fyrsti dagur „heyanna“ en sá er fjórði mánuður íslenska sumarsins að fornu tali, hefst ætíð sunnudag í 14. viku sumars sem að þessu sinni var 24. júlí. Á undan heyönnum eru fjórar „aukanætur“ - fjórir dagar sem standa utan við íslensku mánuðina tólf. 

Við lítum nú á einfalt línurit sem sýnir meðalhita í Reykjavík frá og með sumardeginum fyrsta hvert ár til miðsumars.

w-blogg250722a

Lóðrétti ásinn sýnir meðalhitann. Í ár er hann 9,0 stig, 0,6 stig ofan meðallags tímabilsins alls. Reyndar er leitni yfir tímabilið ekki sérlega áberandi, aðeins +0,4 stig. Hiti hefur verið mjög breytilegur, allt frá 5,7 stigum árið 1979 og upp í 10,2 stig árið 2019. Áratugasveiflur eru einnig miklar. Kaldastur var áratugurinn 1975-1984, meðalhiti þá 7,6 stig. Hlýjastur var áratugurinn 2002-2011 (og 2003-2012), meðalhiti þá 9,2 stig. 

Meðalhiti til miðsumars á Akureyri er nú 8,7 stig, var 9,0 í fyrra. Þar var hlýjast 2014, 10,2 stig, en kaldast 1979, meðalhiti 4,8 stig. 

Ekkert vitum við um framtíðina - nema það að hún mun koma á óvart á einhvern hátt. 


Fyrstu 20 dagar júlímánaðar

Meðalhiti fyrstu 20 daga júlímánaðar er 10,6 stig í Reykjavík. Það er -0,8 stigum neðan meðallags sömu daga áranna 1991-2020 og -0,6 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 19. hlýjasta sæti aldarinnar (af 22) - eða fjórðalægsta kjósi menn fremur að orða það þannig. Hlýjastir voru þessir sömu dagar 2009, meðalhiti þá 13,5 stig, en kaldastir 2018, meðalhiti 9,9 stig. Á langa listanum er hiti nú í 91. sæti (af 150). Hlýjast var 2009, en kaldast 1885, meðalhiti þá 8,2 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu 20 júlídagana 11,2 stig, er það +0,4 stigum ofan meðallags 1991 til 2020, en -0,1 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára.
 
Sem fyrr er að tiltölu kaldast við Faxaflóa. Þar raðast hitinn í 16. sæti aldarinnar. Hlýjast er sem fyrr á Suðausturlandi, þar er hiti í 6. hlýjasta sæti.
 
Á einstökum stöðvum er neikvæða vikið mest í Bláfjallaskála, -1,3 stig, en jákvætt vik er mest í Kvískerjum +0,7 stig.
 
Úrkoma hefur mælst 26,8 mm í Reykjavík og er það um 20 prósent minna en að meðallagi sömu almanaksdaga. Á Akureyri hefur úrkoma mælst 42,4 mm, hátt í tvöfalt meðallag.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 108,4 í Reykjavík, 11,6 stundum færri en í meðalári. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 114,1 og er það 17 stundum umfram meðallag.

Fyrri hluti júlímánaðar

Fyrstu 15 dagar júlímánuðir hafa verið í kaldara lagi í Reykjavík. Meðalhiti þeirra er 10,4 stig, -0,8 stigum neðan meðallags sömu daga 1991 til 2020 og -0,7 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 19. hlýjasta sæti (af 22 á öldinni) - eða fjórðakaldasta vilji menn heldur telja úr þeirri áttinni. Þessir sömu dagar voru hlýjastir árið 2007, meðalhiti þá 13,3 stig, en kaldastir voru þeir 2013, meðalhiti 9,6 stig. Á langa listanum lendir hitinn nú í 100. sæti (af 149). Hlýjastir voru þessir dagar 1991, meðalhiti 13,5 stig, en kaldastir voru þeir 1874, meðalhiti 7,7 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti fyrri hluta júlí nú 11,2 stig, +0,3 stigum ofan meðallags 1991 til 2020, og +0,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára.
 
Hita hefur verið talsvert misskipt á landinu. Við Faxaflóa raðast hitinn í 19.sæti aldarinnar, en á Suðausturlandi er hann í fjórðahlýjasta sæti.
 
Jákvæð vik, miðað við síðustu tíu ár eru mest í Kvískerjum og á Gjögurflugvelli, +1,0 stig. Að tiltölu hefur verið kaldast í Bláfjallaskála, vikið þar er -1,3 stig, en -1,0 stig á Fonti, Raufarhöfn og í Möðrudal.
 
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 20 mm og er það um 20 prósent minna en í meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 22 mm og er það um 25 prósent umfram meðallag.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 79,0 í Reykjavík, 6 stundum færri en í meðalári. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 84,9, 9 stundum fleiri en í meðalári.
 
Að mestu hefur farið afskaplega vel með veður í mánuðinum, þótt nokkur skortur hafi verið á mjög hlýjum dögum.

Sviptingar á norðurslóðum

Þessa dagana eru töluverðar sviptingar í veðri, ekki síst á norðurslóðum. Við verðum ekki mikið vör við þetta hér á landi - alla vega ekki í bili.

Sérlega hlýtt loft hefur eða er að komast norður á 70. breiddarstig norðan Kanada.

w-blogg140722a

Hér má sjá klippu úr spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina á miðnætti í kvöld (fimmtudag 14.júlí). Þar sem þykktin er mest er hún meiri en 5640 metrar (skipt er um lit á 60 metra bili). Undanfarna daga hafa hitamet verið að falla nyrst á meginlandinu sjálfu, hiti farið vel yfir 30 stig. Ritstjórinn hefur enn ekki séð staðfestar tölur frá eyjunum. Veðurstöðvar eru þar fáar - og flestar nærri ströndinni þar sem hafís bráðnar - og heldur hita niðri. Í reiknuðum spám fyrir svæðið sést vel yfir 20 stiga hiti á bæði Devon- og Ellesmereeyju - slíkt er harla óvenjulegt. 

Við norðurskautið er hins vegar ógurlegur kuldapollur. Þar er nærri því vetrarástand. Ruðningur hlýja loftsins sækir að pollinum og virðist ætla að stugga honum til Alaska eða austasta hluta Síberíu.

w-blogg140722b

En hlýtt loft leitar líka til norðurs yfir Svalbarða. Þessi spá hér að ofan gildir að vísu ekki fyrr en á sunnudag. Þar má sjá þykkt meiri en 5640 metra ná alveg norður á 80. breiddarstig - en fjöll og vind þarf til að ná hlýindunum til jarðar. Verði aðstæður þannig hagstæðar gæti hiti farið yfir 20 stig á Svalbarða. Ekki er þetta algengt. Svona mikil þykkt er heldur sjaldséð hér við land - þó við séum miklu sunnar á jarðkringlunni. 

w-blogg140722c

Hér má hins vegar sjá kuldapollinn - með augum evrópureiknimiðstöðvarinnar - á mánudaginn kemur. Ekki víst að hann líti svona út þá, en þykktin í miðju hans er ekki nema 5170 metrar. Svo neðarlega fer hún aldrei í júlí hér á landi, 5250 væri hugsanlegt. Til allrar hamingju þurfum við ekki að hafa áhyggjur af þessu kerfi um sinn. Spár eru þó ekki sammála um hver framtíð þess verður.

Svo er óvenjulegur hiti líka í Frakklandi og Englandi - gangi spár eftir.

w-blogg140722d

Spáin gildir á mánudag og sýnir meir en 5760 metra þykkt yfir Suður-Englandi. Þetta er með því allra mesta sem sést á þeim slóðum. Ritstjórann minnir að Englandsmetið sé um 5760 metrar - en fyrirgefst vonandi misminni. En enn eru fjórir dagar í þennan tíma og ýmislegt getur farið úrskeiðis í spánum.

Á meðan sitjum við í til þess að gera meinlítilli stöðu. 


Hitaröðun - meðaltöl og talningar

Nokkuð nördalegur texti sem hér fylgir. Við lítum á mánaðarmeðalhita, og röðum honum. Hlýjasti janúar fær töluna 1, sá næsthlýjasti 2 og svo koll af kolli. Sama er gert við febrúar og aðra mánuði - og árið líka. Við eigum á lager sæmilega áreiðanleg meðaltöl fyrir Reykjavík í 150 ár, en 140 ár á Akureyri. 

w-blogg130722a

Hér má sjá raðtölur ársins 2021 fyrir Reykjavík og Akureyri. Á Akureyri voru júlí og ágúst þeir hlýjustu á öllu tímabilinu, og 5 mánuðir ársins aðrir voru einnig hlýir. Hlýjasti þriðjungur mánaðanna telst hlýr, þriðjungur kaldur. Sé mánuður meðal fimmtungs þeirra hlýjustu teljum við hann mjög hlýjan, júlí og ágúst voru að sjálfsögðu í þeim flokki á Akureyri 2021. Einn mánuður ársins 2021 telst kaldur á Akureyri, en rétt á mörkunum að teljast það. Þetta var maí. Í Reykjavík var ágúst sá næsthlýjasti í allri röðinni, 5 mánuðir til viðbótar voru mjög hlýir (meðal 30 hlýjustu), 1 að auki hlýr (meðal 50 hlýjustu), en tveir kaldir (meðal 50 köldustu).

Árið var það 12.hlýjasta á Akureyri, en 23. hlýjasta í Reykjavík. Til gamans reiknum við líka ársmeðaltal röðunarinnar. Það er 47 á Akureyri, en 50 í Reykjavík. Nú - þetta er bara eitt ár. 

w-blogg130722b

Hér teljum við fjölda kaldra mánaða á hverju ári í Reykjavík aftur til 1872. Allir mánuðir ársins 1892 voru kaldir, en það er eina árið sem þannig var ástatt með. Á síðari árum á 1979 flesta kalda mánuði, níu. Á kuldaskeiðinu fyrir 1925 voru kaldir mánuðir að jafnaði tæplega 6 á ári, en 7 á níunda áratugi 19. aldar. Eitt ár hlýskeiðsins gamla, 1928, var alveg laust við kaldan mánuð, en þeir voru þá yfirleitt 1 til 3 á ári. Um 1980 voru að jafnaði 4 til 5 mánuðir ársins kaldir, en frá því um aldamótin síðustu er að jafnaði aðeins 1 kaldur mánuður á ári - og mjög kaldir mánuðir (græna línan) nærri því alveg horfnir (en líklega skila sér samt einhverjir á næstu árum). 

w-blogg130722c

Myndin sem sýnir hlýju mánuðina er nánast spegilmynd af þeirri fyrri. Á kuldaskeiðinu fyrir 1925 voru hlýir mánuðir að jafnaði tveir á ári. Þeim fjölgaði á hlýskeiðinu upp í 5 til 6 og í þremur árum urðu þeir 10 (1939, 1941 og 1960). Á kuldaskeiðinu síðasta fækkaði hlýjum mánuðum niður í um 2 til 4 á ári, og niður í 2 um tíma upp úr 1980 (svipað og á 19.öld). Frá 1995 hefur ekkert ár komið í Reykjavík þegar enginn mánuður var hlýr. Á þessari öld hafa hlýir mánuðir oftast verið 7 til 8 á ári, flestir 10 árið 2014. Að jafnaði hefur hlýjum mánuðum á ári fjölgað um 1 miðað við hlýskeiðið fyrra - svipað má segja um mjög hlýja mánuði. 

Að sjálfsögðu er álitamál hvaða tímabil á að nota til grundvallar talninga af þessu tagi. Margir kostir koma þar til greina. Hér er sá sem liggur beinast við valinn. 

Í höfuðdráttum lítur mynstrið eins út fyrir aðrar stöðvar sem og landið allt, en munur er á árangri einstakra ára. Eins og hér hefur verið rætt áður má skipta kuldaskeiðinu 1965 til 1998 í þrennt, þrjú styttri kuldaskeið með örlitið betri árum á milli. Fyrsta þessara þriggja „örkuldaskeiða“ var hlýrra í Reykjavík heldur en annars staðar á landinu. Það voru „hafísárin“ svonefndu. Síðari tvö voru aftur á móti einna köldust á Suðvesturlandi - má sjá þennan mun á talningum fyrir Reykjavík og stöðvar í öðrum landshlutum - og landið allt. 


Snjóflóðahrinan 19. til 20. desember 1974

Tímaritið Veðráttan segir frá í örstuttu máli í desember 1974: „Þ. 20. féllu tvö snjóflóð innarlega í Neskaupstað og sópuðust öll mannvirki þar í burtu. 12 manns fórust“.

Hér verða lauslega rifjaðar upp veðuraðstæður þær sem leiddu til þessara snjóflóða. Hér verður slysinu sem slíku þó ekki lýst, né heldur flóðunum - enda hafa aðrir fjallað ítarlega um það - mun betur heldur en ritstjóri hungurdiska getur nokkru sinni gert. Flóðin urðu síðari hluta dags í snjókomu en í hægu veðri í bænum. Önnur snjóflóð, annars staðar, féllu nokkuð í skugga þeirra í Neskaupstað og verður á þau minnst. 

Veðurlag var mjög óhagstætt og illviðrasamt í desember 1974, og fór versnandi eftir því sem á leið. Snjóþungt var um landið norðan- og austanvert. Meira má lesa um veðurlag ársins 1974 í hungurdiskapistli (sem birtist vonandi fljótlega). 

w-1974-12-20a-sponn

Línuritið sýnir mun á hæsta og lægsta þrýstingi á landinu (þrýstispönn) á þriggja klukkustunda fresti síðari hluta desember 1974 (súlur) og lægsta þrýsting á landinu á hverjum tíma. Af spönninni má ráða í vindhraða. Hún vex og minnkar á víxl þegar veðurkerfi fara hjá, hér eru þrjú mikil spannarhámörk áberandi dagana 16. til 24. desember, öll eru þau tengd djúpum lægðum í námunda við landið. Þessar þrjár lægðir fóru allar fyrir suðaustan land með hríðarveðri, mest um landið norðan- og austanvert. Lægð fór sömuleiðis hjá þann 28. Olli sú mjög mikilli snjókomu austanlands, en ekki varð eins hvasst á landsvísu samfara henni. Síðasta lægð mánaðarins fór síðan til norðausturs milli Vestfjarða og Grænlands þann 30. Varð þá mjög hvasst um nær allt land og foktjón um landið norðanvert. Jóhann Pétursson vitavörður á Hornbjargsvita skrifaði skemmtilegan pistil um þetta síðasta veður ársins í tímaritið Veðrið 1975.

Þó sagan segi okkur að mjög stór snjóflóð geti fallið í Neskaupstað er samt ekki hægt að segja að þau séu algeng. Óhætt er að segja að hamfarirnar 1974 hafi komið flestum á óvart.

Mikillar úrkomu austanlands er helst að vænta þegar vindur blæs af austri í öllu veðrahvolfinu. Gjarnan minnkar afl austanáttarinnar þó með hæð. Norðantil á Austfjörðum og á Norðausturlandi á það sama við um norðaustanáttina. Úrkoma er sömuleiðis mest á þessum slóðum þegar loftþrýstingur er lágur, þá er norðaustanáttin í grunninn ekki af mjög norðlægum uppruna, sunnanátt er austan við lægðarmiðju, en sveigir í kringum hana og ber rakt loft úr norðaustri inn á land. Sumir hafa kallað þetta „bakflæði“. Úrkoman er langmest við fjöll. Veðuraðstæður sem þessar skapa bæði skriðu-, krapa- og snjóflóðahættu á norðanverðum Austfjörðum, en vegna þess að loftið er oftast tiltölulega hlýtt eru líkur á þurrum, stórum snjóflóðum e.t.v. minni en vænta mætti. Krapaflóð og skriður þess líklegri.

Veðurlag í flóðunum 1974 var með nokkuð öðrum hætti. Við lítum fyrst á kort sem sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykktina tveimur dögum fyrir flóðin í Neskaupstað.

Slide2

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, af þeim ráðum við vindátt og vindstyrk í miðju veðrahvolfi. Þykktin er sýnd í litum, hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Gríðarlegur kuldi er við Grænland. Greiningin ýkir trúlega kuldann yfir jöklinum lítillega. Af legu jafnhæðarlínanna sjáum við að hæg suðvestanátt er í um 5 km hæð yfir landinu. Suðvestur í hafi er mjög hlýtt loft á leið til norðausturs. Sumarhlýindi eru í þessu lofti, væntanlega er það þrungið raka. Uppstreymi verður á stóru svæði á jaðri kalda og hlýja loftsins og dreifir úr sér, lægð dýpkar. Við skilyrði sem þessi myndast úrkoma óháð fjöllum - og þau hafa mun minni áhrif á dreifingu hennar en að öðru jöfnu.  

Slide3

Daginn eftir er lægðin fyrir sunnan land. Klukkan 18 var hríð um menginhluta landsins og víðast hvar er allmikið frost, t.d. -4,5 stig í hafátt og hríðarbyl austur á Kambanesi og -5 stiga frost, skafrenningur og 600 metra skyggni á Kirkjubæjarklaustri, 

Slide4

Hér má sjá gervihnattamynd (innrauða) sem tekin er að morgni þess 19. desember. Lægðarmiðjan var þá nærri 60 gráðum norður og 20 gráðum vestur, beint suður af landinu. Mikill skýjamökkur teygir sig upp í vestanáttina og þekur allt landið. Sjá má útlínur Grænlands lengst til vinstri (vestast) á myndinni). Myndir sem þessar voru ákaflega mikilvægar veðurspám á þessum tíma, mikilvægari heldur en þær ófullkomnu tölvuspár sem aðgengilegar voru. [Hér er afriti nappað úr þýskri myndaútgáfu, „Das Europäische Wetterbild 1974“].

Slide5

Um hádegi þennan dag, þann 19. dró til tíðinda á Siglufirði, eins og fréttin hér að ofan sýnir. Svo giftusamlega tókst til að ekki varð manntjón. Eins og eðlilegt er féllu fréttir af Siglufjarðarflóðinu mjög í skuggann af atburðum í Neskaupstað. Þó er ljóst að hér var um býsna alvarlegan atburð að ræða, einnig kemur vel fram að áhyggjur manna voru samt furðulitlar. Hús voru byggð í þekktum snjóflóðafarvegum án þess að sérstakar áhyggjur bæri að hafa af því. Flóð höfðu sömuleiðis tekið barnadagheimili á þessum slóðum. Í lok þessa pistils eru ítarlegri fréttir af snjóflóðinu á Siglufirði og snjóflóði í Seyðisfirði að morgni þess 20. 

Slide7

Sjávarmálskortið gildir á miðnætti að kvöldi þess 19. Hvassviðrið í hámarki á landinu og er lægðin komin austur fyrir land. En úrkoman hélt áfram. Enn var suðvestanátt í háloftunum.

Slide6

Kortið sýnir stöðuna að morgni föstudagsins 20.desember, flóðadaginn eystra. Ritstjóra hungurdiska er þessi morgunn nokkuð minnisstæður. Jú, það kemur fyrir að hríðarveður gerir í norðaustanátt í Borgarfirði, en samt hafði hann búist við því að það hefði hreinsað þar til  og birt upp eftir norðaustanhvassviðri dagsins áður - eins og spáð hafði verið kvöldið áður. En svo var ekki, þetta er óvenjulegt hugsaði hann í hríðinni á leið til tannlæknisins (nýkominn frá Noregi). Veðurfréttunum kl.10:10 missti hann af, en sér á kortinu hér að neðan að í Síðumúla var 400 metra skyggni í snjókomu og -7,5 stiga frosti. Á Þingvöllum var skyggnið 100 metrar í hríðinni. 

Slide8

Ekki snjóaði syðst á landinu, á Reykjanesi og á vestustu annesjum, en annars var hríð um land allt. Hér að neðan er listi sem sýnir veður á Dalatanga þessa tvo daga, 19. og 20. desember (læsilegri sé myndin stækkuð). 

Slide9

Snjókoman var áköfust á Dalatanga frá því kl.9 um morguninn og fram til kl.15. Ekki kom mikið í mælinn - og ekki bættist heldur mikið við snjódýptina. 

Af háloftaathugunum í Keflavík má ráða að „áttaskipti“ voru þessa daga í um 3 km hæð. Neðan þeirrar hæðar ríktu norðlægar áttir, en vestlægar ofan við. Þegar á heildina er litið má segja að veðurspár hafi ekki brugðist, hríðarveðri var spáð og stormi á öllum miðum fyrir norðan og austan land. Sú „aukaúrkoma“ sem kuldapollurinn mikli gaf af sér var vegar óviðráðanleg í spám á þessum tíma. Í huga ritstjóra hungurdiska er vafalaust að þessi aukaþáttur olli því að talsvert meira snjóaði heldur en búast mátti við af leið lægðarinnar, það snjóaði lengur og dreifing úrkomunnar var trúlega óvenjuleg líka. Flóðin í Neskaupstað og á Seyðisfirði voru því afleiðing óvenjulegra aðstæðna. Snjór safnaðist fyrir af meiri ákefð en vant er á óvenjulegum stöðum. Kannski á svipað við um  Siglufjarðarflóðið líka. Það er líklegt að finna megi fleiri ámóta dæmi í fortíðinni, sé leitað. 

Æskilegt er að litið verði nánar á þetta tilvik í háupplausnarreiknilíkani. 

Vegna þess að Siglufjarðar- og Seyðisfjarðarflóðin hafa að nokkru gleymst í umfjöllun um flóðin í Neskaupsstað skulum við hér rifja upp blaðafréttir af þeim. Staðsetning Siglufjarðarflóðsins var ekki óvenjuleg. Viðhorf það til snjóflóðahættu sem fram kemur í fréttinni er hins vegar athyglisverð. Svo er að skilja á fréttinni af Seyðisfjarðarflóðinu að það hafi komið á óvenjulegum stað, norðan fjarðarins. Ekki veit ritstjóri hungurdiska hvort hér er rétt eftir haft. 

Dagblaðið Tíminn segir af Siglufjarðarflóðinu í frétt 20.desember (sama dag og flóðin féllu í Neskaupstað):

FB-Reykjavik. Skömmu fyrir klukkan eitt í gærdag [19.desember] féll snjóflóð á tvö hús við Suðurgötu á Siglufirði. Voru það húsin númer 76 og 78. Í öðru húsinu var fimm manns, en fjórir i hinu, og björguðust allir út ómeiddir. Þá lenti bíll með konu og tveimur sonum hennar i snjóflóðinu og barst með því eina hundrað metra. Fólkið komst við illan leik úr bílnum, ómeitt. Snjóflóðið lenti á tveimur rafmagnsstaurum, sem eru i raflinunni til bæjarins. Brotnaði annar og hinn hékk tæpast uppi eftir flóðið. Síðdegis i gær var búið að lagfæra línuna, svo ekki var rafmagnslaust á Siglufirði af þessum sökum. Fyrir nákvæmlega einu ári féll snjóflóð á barnaheimili og hænsnabú þarna örskammt frá, og fyrir 10 árum féll snjóflóð á bæði þessi hús, sem nú urðu fyrir flóðinu. Í húsinu númer 78 bjó Sigþór Erlendsson kennari með konu sinni og þremur börnum, en i húsinu nr. 76 bjó Haraldur Arnason með tveimur börnum og eiginkonu. Tíminn náði sambandi við Skúla Jóhannesson formann Slysavarnarsveitarinnar á Siglufirði, og bað hann að segja frá snjóflóðinu. Snjóflóðið féll á tvö hús, númer 76 og 78 við Suðurgötu, sagði Skúli. Ég vil telja húsið númer 76 nær ónýtt, en sem betur fer urðu ekki slys á mönnum, þótt það sé hreinasta tilviljun. Rétt i þann mund, sem snjóflóðið féll, ók bíll þarna fram hjá, og lenti hann einnig i snjóflóðinu og þeyttist niður á tún þarna fyrir neðan. Í bitnum var þrennt. Bíllinn hafnaði á hvolfi, og ég tel það mikla mildi, að fólkið skyldi komast þarna út, en bíllinn grófst ekki niður i snjóinn, og hefur það e.t.v. bjargað farþegunum. Það er búið að vera ofstopaveður hér i dag, og mjög varasamt hér viða fram úr giljunum..Við báðum Skúla að lýsa staðháttum þar sem snjóflóðið féll, og sagði hann þá: — Húsin tvö eru nokkuð sunnarlega í bænum, og þarna féll einmitt snjóflóð á þessi sömu hús fyrir um það bil 10 árum. Þá skemmdust þau mjög mikið. Á þessum sama degi i fyrra, 19. desember, féll snjóflóð þarna nokkrum hundruð metrum sunnar, og þá tök flóðið barnadagheimili og hænsnabú, en við höfum í öll þessi skipti verið svo heppnir, að verða ekki fyrir manntjóni. Annars er það& alveg sérstakt, að ekki skyldi verða manntjón þarna í dag. Þetta gerðist rétt fyrir klukkan eitt. Annar eiginmaðurinn var farinn i vinnuna, en konurnar i eldhúsunum, og börnin voru að leika sér i svefnherbergjunum, sem einmitt eru í þeirri álmu húsanna, sem alltaf hafa sloppið. Hefðu þau verið inni í stofunum hefði ekki þurft að spyrja að, hvernig farið hefði. Í húsinu númer 76 fór allur vesturveggurinn inn á gólf, og þó er þetta steinsteyptur og járnbentur veggur. Loftið hangir þó uppi enn.

Snjóflóðið tekur rúmlega þessi tvö hús. Það nær rétt norður fyrir og rétt suður fyrir þau, en skammt þarna fyrir sunnan syðra húsið er hús, sem slapp naumlega núna. Hvaðan kom snjóflóðið? Við sáum það ekki fyrir sortanum í dag, hvaðan flóðið kom nákvæmlega það er ansi mikið gil þarna fyrir ofan. Við gátum ekki séð, hvort snjórinn hefur komið ofan úr hæstu gnípunum. en björgunarsveitin hér setti þarna upp girðingu fyrir nokkuð mörgum árum, eða rétt eftir að flóðið kom fyrir 10 árum, og það hefur ekki komið flóð þaðan aftur, nema þá núna, en það gátum við sem sagt ekki séð fyrir veðrinu. Annars sest snjórinn stundum í hvilft þarna neðan við sjálft fjallið, og hleypur stundum smáskriða þar fram, en varla svona mikil. Við höfum grun um, að þetta hafi komið úr gilinu. Þessi girðing okkar var aðeins tilraunagirðing, og það var ætlunin, að lengja hana bæði upp og niður, því hún sýndi þann árangur, að hún færði hengjuna úr sjálfu gilinu. Annars er þetta varasamur staður, og þarna hafa oft fallið skriður á undanförnum árum, misjafnlega stórar. Það átti aldrei að byggja á þessu svæði, en fyrir um það bil 15 árum var sótt mjög hart að fá að byggja þarna, og þetta eru tvö mjög snotur einbýlishús, sem hafa verið byggð þarna. Það eru a& vísu hús miklu sunnar með götunni, en það er mest hættan þarna niður af þessum giljum. Er mjög mikill snjór I fjallinu? Nei.það er ekki mikill snjór, en það hefur verið mikil veðurhæð, og í vissri átt vill setja mikið í hengjur i þessum giljum. Það er alls ekki mikill snjór i fjallinu, því að það eru auðir rindar á milli. En veðurhæðin hefur verið ofboðsleg,og þar við bætist að jörðin er frosin undir, svo snjórinn stöðvast ekkert. Hvað er búið að gera til björgunar? Það er búið að moka út úr húsunum. Í húsinu nr.76 er innbúið allt ónýtt, má segja, og ég tel mjög vafasamt, að það hús verði byggt upp aftur. Við hreinsuðum þó alveg út úr því, eftir því sem hægt var og loku&um því. Síðan slógum við fyrir gluggana á hinu húsinu, eftir að hafa mokað út úr því. Þar fóru aðeins gluggarnir inn, en ekki veggir. Þó sprungu inn veggir og annað mjög mikið. Þá ræddum við við eiganda hússins nr 78 við Suðurgötu: Húsið er hér um bil alveg ónýtt hjá okkur, sagði Sigþór Erlendsson. — Við erum fimm i fjölskyldunni, hjónin með þrjú börn, 10 ára, sex ára og átta mánaða. Við vorum að borða i eldhúsinu, sem er á besta stað i húsinu, en þetta gerðist rétt fyrir klukkan eitt í gær. Ég hélt á minnsta barninu. Þegar snjóflóðið skall yfir gekk það alla leið inn i eldhúsið og fór sex ára sonur minn á kaf, en mér tókst að ná í annan fótinn á honum og draga hann upp úr. Snjóflóðið skall á vestanvert húsið, en eldhúsið er að austan. Í hinu húsinu var húsbóndinn nýfarinn að heiman úr matnum, en kona hans var a& þvo upp og börnin tvö að leika sér í öðru herbergi. Sigþór sagði, að búið væri að moka snjónum út úr húsinu, þegar Tíminn hafði samband við hann um klukkan fjögur i gær. Hann sagði að innbúið væri mest allt brotið, og segja mætti að allt væri ónýtt, sem verið hefði í húsinu nr.76. Þetta er i annað sinn, sem snjóflóð lendir á húsunum nr. 76-78 við Suðurgötu, en Sigþór sagði, að í fyrra skiptið hefðu skemmdirnar ekki orðið neitt í líkingu við það sem nú var. Reyndar lyftist þakið af húsinu nr.76 í það skiptið og veggir skemmdust, en nú eru skemmdirnar margfalt meiri. Sigþóri tókst að skríða út um eldhúsdyrnar upp undir lofti og komast þannig út úr húsi sinu, en húsfreyjan í hinu húsinu komst út undan einum eldhúsveggnum, sem brotnaði og lyftist upp. Stór  olíutankur stóð  annað húsið. Færðist hann meðfram einum húsveggnum gekk síðan inn í húsið og kom út aftur fyrir framan það, og má m.a. af því marka kraftinn í snjóflóðinu. Aðspurður sagði Sigþór, að hann teldi sig vera tryggðan fyrir því tjóni, sem hann hefði orðið fyrir. Hann sagði, að tryggingar væru til gegn snjóflóði, og hann teldi sig hafa tryggt fullkomlega fyrir því, sem nú hefur gerst. Sigþór sagði ennfremur, að bíll hefði verið á leið í bæinn, er snjóflóðið féll. og hefði hann orðið fyrir því. Eigandi bilsins er Benedikt Sigurðsson kennari, en i bílnum var kona Benedikts og tveir synir þeirra hjóna. Færðist bíllinn eina hundrað metra niður eftir hallanum. en fólkinu tókst að lokum að komast út úr bílnum við illan leik, en þó ómeitt.

Tíminn segir af Seyðisfjarðarflóðinu í pistli þann 21. desember:

Snjóflóð fellur á fjárhús á Selstöðum í Seyðisfirði. Allmargt fé týndi lífi í flóðinu, en engin meiðsli urðu á mönnum. Á fimmtudagskvöld [19.desember] kyngdi miklum snjór niður í logni niðri í byggð við Seyðisfjörð, en líklegt er talið að í fjallinu fyrir ofan Selstaði hafi verið austan kaldi, og þá myndast hengjur í svokölluðu Halli, sem er efsta brún fjallsins. Hengjan hefur síðan farið af stað og sópað öllum lausum snjó á undan sér á leiðinni niður, og að lokum hafnað á fjárhúsunum á Selstað. Á Selstað bjó í hálfa öld Jón Jónsson bóndi, sem lést í fyrra, og var aldrei vitað til þess alla hans búskapartíð, að þarna hefði komið snjóflóð. Bóndinn á Selstöðum núna er Kristján Eyjólfsson. En það voru synir hans, Ómar B. Kristjánsson 9 ára og Eyjólfur Kristjánsson 23 ára, sem fóru út að fjárhúsunum í morgun [20.desember] skömmu áður en snjóflóðið féll. Þegar piltarnir komu að fjárhúsunum hafði fennt þar fyrir allar dyr, svo Eyjólfur stakk bróður sinum inn um glugga, og átti hann að sækja reku til þess að hægt væri að moka frá dyrum fjárhússins. Rétt í því, að sá minni er kominn inn í fjárhúsin heyrir Eyjólfur hvar snjóskriðan kemur, og tekst honum að komast undan. Ómar náðist út fljótlega, heill á húfi. Um fimmleytið í gær var búið að ná út 83 ám lifandi, en 17 voru dauðar og 2 slasaðar. Voru bændurnir búnir að koma þeim lifandi fyrir i fjárhúsum á Kollsstöðum, en þar eru önnur fjárhús Selsstaðabóndans. Strax eftir að snjóflóðið féll í morgun fór fólk frá Seyðisfirði til hjálpar á tveimur bátum. Var í allan gærdag unnið við að bjarga fénu út úr fjárhúsunum og flytja það á öruggan stað.

Um kvöldmatarleytið í gærkvöldi [20. desember] náðum við sambandi við Kristján Eyjólfsson bónda á Selstöðum við Seyðisfjörð, þar sem snjóflóðið féll á fjárhúsin. Hann sagði, að búið væri að grafa alt féð út úr fjárhúsinu. Níutíu kindur björguðust lifandi, en 40 eru dauðar. Fjárhúsin eru algjörlega ónýt, að því er Kristján sagði, en hlaðan, sem stóð við fjárhúsin, hefur ekki skemmst eins mikið, þótt þakið sé farið af henni. Í hlöðunni var nokkurt hey, og bjóst Kristján við, að það væri ekkert skemmt.

Lýkur hér frásögn hungurdiska af þessum voðaviðburðum. Næsta mánuðinn allan voru gríðarleg snjóþyngsli á Norður- og Austurlandi og ollu þau margskonar vandræðum.   


Fyrstu 10 dagar júlímánaðar

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 10 daga júlímánaðar er 10,6 stig. Það er -0,6 stigum neðan meðallags áranna 1991-2020 og -0,4 stigum neðan meðaltals sömu daga síðustu tíu árin. Raðast hitinn í 18.hlýjasta sæti (af 22) á öldinni. Hlýjastir voru þessir dagar árið 2009, meðalhiti þá 13,4 stig, en kaldastir voru þeir 2018, meðalhiti 9,1 stig. Á langa listanum er hiti nú í 86. sæti (af 150). Hlýjast var 1991, meðalhiti +14,0 stig, en kaldast 1874, meðalhiti 7.6 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti nú 11,1 stig, +0,3 stigum ofan meðallags bæði 1991 til 2020 og síðustu tíu ára.
 
Nokkur munur er á hitastöðunni eftir landshlutum. Að tiltölu hefur verið kaldast við Faxaflóa, þar raðast hitinn í 15. hlýjasta sæti á öldinni, en á Suðausturlandi hefur aðeins tvisvar verið hlýrra sömu daga frá aldamótum.
 
Miðað við síðustu tíu ár er neikvætt vik mest í Bláfjallaskála og á Fonti á Langanesi, -0,9 stig, en jákvætt vik er mest í Kvískerjum í Öræfum, +1,4 stig.
 
Úrkoma hefur mælst 17,7 mm í Reykjavík. Það er um 20 prósent umfram meðallag. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 18,0 mm, um 70 prósent umfram meðallag.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 43,6 í Reykjavík. Það er um 15 stundum minna en í meðalári. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 67,1, um 15 stundum fleiri en í meðalári.

Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 12
  • Sl. sólarhring: 183
  • Sl. viku: 2459
  • Frá upphafi: 2434569

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 2184
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband