Margt að gerast

Nú er margt að gerast í veðrinu eins og oftast á þessum tíma árs. Öflug veðurkerfi ganga yfir okkur úr suðvestri og þeir sem eitthvað eiga undir fylgjast með veðri og veðurspám - já, ekki aðeins spám heldur veðrinu líka. 

w-blogg020218a

Norðurhvelskortið sem gildir síðdegis á laugardag sýnir stöðuna vel. Þá er illviðrið sem nú er að ganga yfir landið horfið úr sögunni - það má segja að það hafi brotnað í þrjá hluta - einn fór norður í íshaf (og sést varla) annar til suðausturs um Bretlandseyjar - er á þessu kortið á Biskæjaflóa og mun ásamt öðru kuldakerfi valda leiðindum á Spáni - og jafnvel suður í Afríku næstu daga. Þriðji hlutinn byggði svo upp hæðarhrygginn sem sjá má á kortinu milli Íslands og Noregs. 

En næsta lægð steðjar að okkur og veldur okkur ama á sunnudag og mánudag. Gróflega má segja að þetta sé í boði Stóra-Bola, kuldapollsins mikla yfir Norður-Kanada, en hann er nú með öflugra móti - þó á réttum stað sé. Þykktin er niðri undir 4700 metrum, og 500 hPa hæðin að komast niður í 4600 metra og er það með lægsta móti - sérstaklega í jafnstóru kerfi og hér um ræðir. 

Hæðin mikla ríkir enn yfir Austur-Síberíu en er heldur að gefa sig. Þar kom mikil „hitabylgja“ á stöku stað og fréttist af því að lágmarkshiti sólarhrings hafi verið ofan frostmarks - en slíkt mun óvenjulegt á þeim slóðum - og trúlega ekki til bóta fyrir jörð. 

Sunnanstrokan sem yfir okkur fer á sunnudag (rauð ör á kortinu) á að fara alveg norður í Íshaf - þar breytist hún í háloftahæð. Spár eru ekki alveg sammála um hvað gerist með þá hæð - hún gæti lent austan megin - þ.e. norðan Rússlands - en líka farið í að styrkja hæðina gömlu yfir Austur-Síberíu. Það kemur víst í ljós. 

Hlýjar hæðir sem slitna alveg norður úr heimskautaröstinni eru oft ótrúlega þaulsetnar á norðurslóðum - jafnvel þó þær séu ekki endilega sérlega öflugar geta þær haft mikil áhrif á hringrásina og samskipti kuldapollanna stóru. 

Þessi mikla sókn úr suðri inn á norðurslóðir mun trúlega raska eitthvað rásinni í heiðhvolfinu - en samband hennar við veður á jörðu niðri er harla óljóst - sumir segja það mikið - en aðrir gera lítið úr. Trúlega er sannleikurinn einhvers staðar þar á milli. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Trausti og takk fyrir allan fróðleik sem þú hefur miðlað okkur landsmönnum.
Datt í hug að spyrja af því mér hefur skilist að aðal starfsvettvangur þinn séu veðurfarsrannsóknir og skrásetning veðurfars, hvar sé hægt að afla sér fróðleiks um hafískomur við strendur Íslands á tuttugustu öldinni?  Nú er það þannig með mig eins og svo marga af minni kynslóð (fæddur 1941) að okkur er mjög ofarlega í minni hafísárin svokölluðu frá 1965 til og með a.m.k. 1970 og þær afleiðingar sem þau veðurfarstilbrigði sem af þeim leiddi höfðu.
Það, sem mig fýsir að vita, er hvaða ár, hvað langan tíma og hversu þéttur hafís var við landið þessi ár og önnur, sem hafís var við land, þótt ég nefni þau ekki hér. Fróðlegt sumsé að fá að vita þetta beint hér eða vísun á upplýsingar um þetta.
Með góðum kveðjum.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 2.2.2018 kl. 12:28

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Fróðleikur um hafískomur við Ísland frá hafísárunum og næstu áratugina þar á eftir er mestur í skýrslum Veðurstofunnar Hafís við strendur Íslands sem ná til tímabilsins frá október 1968 til og með september 1996. Síðan þá hefur hafís lítið sést í magni, helst þó 1997 og 2005. Á seinni árum er talsvert af upplýsingum um ís á vef Veðurstofunnar fyrir árin 1998 til okkar daga - og sömuleiðis eru þar tenglar á kort sem birtust í bókinni Hafísinn sem út kom 1969 og bók eftir Lauge Koch þar sem eru kort sem ná aftur fyrir 1880. Hafísskýrslurnar eru  því miður ekki aðgengilegar enn á netinu, en fáanlegar á Veðurstofunni án endurgjalds séu þær sóttar. Hafðu samband við bókavörð og láttu taka skýrslurnar til fyrir þig - þá getur þú sótt þær ef þú átt leið um.

Tengill á hafísupplýsingar fyrir 1968 http://www.vedur.is/hafis/frodleikur/nr/3321

Kort 1877 til 1968: http://www.vedur.is/media/hafis/frodleikur/is_koch_hlynur_1877-1968.pdf

Frá 1998 til 2011: http://www.vedur.is/hafis/manadayfirlit/

2011 til okkar daga: http://www.vedur.is/hafis/tilkynningar/

Bestu kveðjur

Trausti Jónsson, 2.2.2018 kl. 14:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 496
  • Sl. viku: 2244
  • Frá upphafi: 2348471

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 1965
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband