Bloggfærslur mánaðarins, mars 2016
5.3.2016 | 23:24
Um sjávarhita í Grímsey (að undanförnu og áður)
Áður fyrr á árunum mældi Veðurstofan reglulega sjávarhita á nokkrum stöðvum í kringum landið. Danska veðurstofan (DMI) hafði einnig látið gera það á sinni tíð. Ýmislegt - þar á meðal einhvers konar sparnaður - varð til þess að þessar mælingar hættu og er svo komið að upplýsingar frá aðeins einni stöð berast nú til Veðurstofunnar með reglubundnum hætti. - Eitthvað mun Hafrannsóknastofnun hafa sinnt strandmælingum á síðari árum og heldur vonandi utan um þær.
Fyrir allmörgum árum var sjávarhitamælir tengdur veðurstöðinni í Grímsey og er byggt á þeim í því sem hér fer á eftir - sem og eldri mælingum frá staðnum.
Byrjað var að mæla sjávarhita í Grímsey 1874 og voru fyrstu tveir athugunarmennirnir þar ástundunarsamir. En frá 1933 flosnuðu mælingarnar upp að nokkru og mikið vantar í mæliröðina - þó eru sprettir. Um sögu sjávarhitamælinga Veðurstofunnar og DMI á Íslandi má lesa í ritgerð ritstjóra hungurdiska sem Veðurstofan gaf út 2003.
En mælingar eru nú gerðar í Grímsey og rétt að minna á tilveru þeirra. Við lítum á mánaðameðalhita þar á árunum 2014 og 2015/16.
Janúar og febrúar 2015 eru reyndar ekki með á myndinni. Hún ætti að skýra sig sjálf. Vetrarhitinn fór niður í um 2 stig í báðum tilvikum, en en töluverður munur er á sumarhita áranna tveggja. Í ágúst 2014 fór hann yfir 9 stig, en ekki nema um 7,5 stig það sem hæst var árið eftir (2015). Öll götin mæliröðinni gera samanburð við hefðbundin mælitímabil erfið, en við skulum þó reyna eitthvað.
Í öllum tilvikum er tímabilið frá mars 2015 til og með febrúar í ár, 2016, lagt til grundvallar. - Fyrst eru það síðustu tíu árin á undan (2005 til 2014).
Súlan lengst til hægri sýnir árið, en hinar einstaka mánuði. Sjávarhiti vetrarins liggur í meðaltali síðustu tíu ára, síðastliðið haust var lítillega hlýrra en meðaltalið, en vor og sumar kaldara, sérstaklega sumarið. Á kalda tímabilinu voru lofthitavikin reyndar enn stærri, lofthiti í júlí var t.d. -2,6 stigum undir meðallagi, en -1,8 undir því í sjónum.
En hvernig lítur þetta út miðað við fyrri tíma? - Nú verðum við að hafa í huga að óvissa er talsverð í mælingunum og ekki rétt að vera allt of ályktanafús.
Sýndur er samanburður við fjögur tímabil og er hann settur upp á sama hátt og á myndinni hér að ofan. - Myndin batnar og skýrist sé hún stækkuð.
Efst til vinstri er hiti síðastliðins árs borinn saman við hita áranna 1926 til 1932, en þá var sjór sérlega hlýr við Grímsey. Vikin minna á samanburðinn við síðustu tíu ár. Sjávarhiti er nú hærri en hann var að meðaltali bæði haust og vetur samanburðarárin, en sumar- og vorhiti lægri - mjög ámóta og fyrri myndin sýndi.
Þar fyrir neðan - neðst til vinstri er borið saman við sjö köld hafísár á 19. öld, 1882 til 1888. Síðastliðið ár var mun hlýrra í öllum mánuðum heldur en var á kuldatímanum.
Efst til hægri er borið saman við hafísárin svokölluðu, 1965 til 1971. Síðastliðnir 12 mánuðir hafa verið hlýrri en öll meðaltöl þeirra ára, sáralitlu munar þó í júlí og ágúst. Fara þarf aftur til júlí 2002 til að finna jafnkaldan júlímánuð og 2015 og aftur til 1998 til að finna jafnkaldan ágúst.
Síðasta myndin sýnir einmitt samanburð við síðustu sjö árin áður en sjávarhlýindin miklu hófust. Allir mánuðir síðastliðins árs hafa verið hlýrri í sjó í Grímsey heldur en meðaltal áranna 1991 til 1998, nema júlí og ágúst.
Við bíðum auðvitað spennt eftir sumrinu 2016 - en tökum aftur eftir því að nýliðnir janúar og febrúar voru í meðallagi síðustu tíu ára - og hlýrri en sömu mánuðir á öllum þeim tímabilum sem hér voru undir.
3.3.2016 | 23:10
Af stöðu 10-ára hitameðaltala
Á dögunum var á þessum vettvangi fjallað um stöðu 30-ára hitameðaltala einstakra mánaða. Niðurstaðan var sú að meðalhiti síðustu 30-ára hefði að undanförnu orðið hærri en vitað er um áður í 5 af 12 mánuðum ársins.
Nú er komið að ámóta samanburði fyrir 10-ára meðaltöl mánaðanna. Allar tölur úr mælingum í Stykkishólmi.
Lestur þessa pistils krefst sennilega nokkurrar athygli og jafnvel hugsunar - ekki víst að allir nenni að standa í slíku - ritstjórinn skilur það viðhorf - en þeir sem vilja lesa eru boðnir velkomnir.
Jákvæð gildi tákna að nýi tíminn hefur staðið sig betur hvað hlýindi varðar heldur en sá gamli. Ársmeðalhiti tíu ára (lengst til hægri) hefur orðið 0,4 stigum hærri nú en hann var hæstur áður. Átta mánuðir hafa toppað gamla tímann, en fjórir sitja enn eftir. Merkilegt er að það skuli vera haust og vor. Ekki munar miklu í september - en miklu í október - og ekki hefur maí staðið sig sem skyldi.
Fjórir mánuðir, mars, apríl, júlí og ágúst áttu sín hæstu tíu ár 2003 til 2012 - og árið sömuleiðis, janúar var hlýjastur á árabilinu 2006 til 2015, febrúar 2005 til 2014 og desember 2001 til 2010. Maí var hins vegar hlýjastur á árunum 1927 til 1936 (býsna langt síðan), september á árunum 1930 til 1939, október 1956 til 1965 og nóvember 1952 til 1961.
Lítillega hefur sem sagt kólnað síðan 2012 - sé miðað við 10-ára meðaltöl. En hversu mikið? Næsta mynd sýnir það.
Af myndinni sjáum við reyndar strax að september, október og nóvember hafa aldrei verið hlýrri á nýja hlýskeiðinu en einmitt síðustu tíu árin (munurinn á stöðunni nú og þeirri hlýjustu er núll). Þeir hafa því hlýnað á síðustu árum. Mest hefur kólnað í desember - enda toppaði hann á undan hinum mánuðunum.
Síðasta mynd pistilsins sýnir síðan muninn á stöðunni nú og hæstu stöðu gamla tímans.
Þrátt fyrir lítilsháttar kólnun eru fimm mánuðir (og árið allt líka) enn hlýrri en hlýjast varð á fyrra hlýskeiði.
Ekkert segir þetta okkur um framtíðina - hún er óráðin sem fyrr.
1.3.2016 | 23:06
Meir af febrúar 2016
Ritstjóri hungurdiska reiknar alltaf út það sem hann kallar landsmeðalhita í byggð. Febrúar 2016 fær þar töluna -1,54 stig (-1,5), -0,7 stigum neðan meðallags áranna 1961 til 1990 en -1.9 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
Þetta reynist vera kaldasti febrúar á landsvísu síðan 2002, en þá var meðalhitinn -4,02 stig, miklu lægri en nú. Það kemur nokkuð á óvart að í febrúar 2009 var hitinn aðeins sjónarmun hærri en nú (-1,45 stig) og ekki mikið hærri 2010 (-1,30 stig). Þessar tölur sýna að vafasamt er gera mikið úr kulda nú.
En lítum á nokkur meðal- og vikakort mánaðarins - fyrst það sem sýnir loftþrýstinginn og vik frá meðallagi áranna 1981 til 2010.
Heildregnu línurnar sýna meðalþrýsting við sjávarmál, en vik eru sýnd í lit. Hæðin yfir Grænlandi var ívið öflugri en að meðallagi, en viðvarandi lágþrýstingur yfir Skandinavíu. Saman bættu þessi kerfi í norðaustanáttina umfram það sem venjulegt er.
Næsta kort sýnir meðalhæð 500 hPa hæðar og þykktar.
Jafnhæðarlínur eru heildregnar - þykkt í lit. Hér má sjá að veikur háloftahryggur hefur stjórnað veðrinu í mánuðinum. Við vorum norðan meginrasta vestanvindabeltisins - þær beindu flestum lægðum til austurs langt fyrir sunnan land. Enda var þetta fremur veðrahægur mánuður - svona miðað við ólætin í fyrra alla vega - og ritstjóranum finnst mesta furða hvað vel rættist úr með allan þennan snjó á jörð. - En hæðarhryggir gerast ekki öllu vægari en þetta - og ekki tókst alveg að halda óhroðanum í skefjum og mánuðurinn var síður en svo illviðralaus.
En á næsta korti sjást afbrigðin vel. Hér eru heildregnu línurnar þær sömu og áður - hæð 500 hPa-flatarins - en hæðarvik eru sýnd í lit.
Mikil neikvæð vik eru yfir Bretlandseyjum - en jákvæð yfir Grænlandi. Norðaustanáttarauki er mikill. En jafnframt sjáum við vel að allur þessi auki fór frekar í að drepa niður hina venjubundnu suðvestanátt febrúarmánaðar heldur en að búa til háloftanorðanátt - enn stærri vik hefði þurft til þess.
Næsta kort sýnir enn jafnhæðarlínur - þær sömu - en litirnir sýna nú þykktarvikin. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs.
Neikvæð þykktarvik eru yfir Íslandi - en ekki svo mjög stór. Af kvarðanum má sjá að mörkin milli daufustu bláu litanna eru við -20 metra, markalínan liggur um það bil yfir Reykjavík og Akureyri. Þetta þýðir að hiti í neðri hluta veðrahvolfs hefur verið í kring um -1 stig undir meðallagi áranna 1981 til 1990. Í Reykjavík var hann í raun -0,5 stigum undir meðalhita þess tímabils, en á Akureyri var hann um -2,0 stigum undir. Hægviðri, bjart veður og snjór á jörð hafa greinilega ýkt kuldann fyrir norðan. Sama var reyndar víða á Suðurlandsundirlendinu - þar var kaldara en veðrahvolfshitinn hélt það væri.
Við skulum líka líta á vikin í 850 hPa-fletinum, hæstu fjöll landsins ná upp fyrir hann.
Hér sjáum við að kaldast að tiltölu hefur verið í Færeyjum - og líka vestur af Írlandi. Yfir Íslandi eru vik og vikamynstur svipuð því sem var á þykktarkortinu. En ósköp hefur verið hlýtt á Grænlandi. Við getum líka tekið eftir því að neikvæðu vikin teygja sig lengra vestur eftir Atlantshafinu á þessu korti miðað við það fyrra. - Kaldur sjórinn á sjálfsagt sinn þátt í því.
Síðasta kortið sýnir sjávarhitavikin í febrúar miðað við 1981 til 2010.
Heildregnu línurnar sýna þrýstisviðið, en litir vikin. Hafís er sýndur í bleiku og gráu. Ekki skulum við taka mikið mark á sjávarhitavikum í námunda við hafísbrúnina. Hér má sjá að enn er kalt suður í hafi, stóru vikin suður af Nýfundnalandi stafa af tilviljanakenndum sveigjum Golfstraumsins - en stóra bláa svæðið er í alvöru. Þar er vikið mest um -2,0 stig. Lítið er þar til bjargar, því sennilegast er að kuldinn sé ekki aðeins í yfirborðinu - og það tekur því væntanlega tíma að losna við neikvæðnina.
En - við skulum þó hafa í huga að töluverður hitabratti er á þessu svæði - ekki þarf miklar hliðranir til að breyta myndinni - t.d. er spurning hvað gerðist ef það kæmu einn til tveir mánuðir með mun minni vestanátt en venjulega (ólíklegt já, en ekki óhugsandi). Með hækkandi sól aukast líka líkur á hlýnandi sjó - en þar sem orkubúskapur yfirborðs sjávar er í reynd býsna flókinn skulum við alveg láta vera að bulla um það.
Látum hér þessu kortafylleríi lokið - bestu þakkir að venju til Bolla korta- og líkanmeistara á Veðurstofunni.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 20
- Sl. sólarhring: 214
- Sl. viku: 985
- Frá upphafi: 2420869
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 864
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010