Miklar staðbundnar hitasveiflur

Í dag (föstudaginn 2. janúar) hagaði þannig til að éljaloft var úti fyrir ströndum landsins en víða bjart veður inni á landi. Í heiðríkju sem þessari mynduðust víða svæsin hitahvörf - þunnt lag af mjög köldu lofti sem svo streymir í átt til sjávar. Þar sem brattlent verða hitahvörfin óljósari - þyngdaraflið sér um að koma loftinu á skrið niður í móti og við það vill kuldinn blandast hlýrra lofti ofan við. 

Þar sem sléttur eru í landi og kalt loft yfir þeim er á leið til sjávar verður oft furðukalt - alveg niður að sjó. Þetta þekkja menn víða við suðurströndina, t.d. á Eyrarbakka, í Þykkvabæ og austur í Álftaveri, svo einhverjir staðir séu nefndir.

Um leið og þetta kalda loft kemur út yfir til þess að gera hlýjan sjó blandast loft neðan hitahvarfanna greiðlega upp og þau eyðast. Þegar þrýstifari er þannig hagað að þrýstivindur liggur nokkuð samsíða ströndinni geta minniháttar sveiflur í vindátt og styrk valdið miklum sveiflum í hita - stöðin er þá ýmist inni í sjávar- eða landlofti. 

Nokkuð bar á þessu vestanlands og sunnan í dag. Dæmi um þetta má sjá í viðhenginu - en það sýnir hita á Eyrarbakka á 10-mínútna fresti frá áramótum. Áhugasamir ættu að fara í gegnum það - fyrir utan hitann má gaumgæfa rakastigið - frekar óvænt gæti virst að rakastigið er hærra í kalda landloftinu heldur en því hlýja frá sjónum. 

Stöðug skipti milli 1 til 2 stiga hita og 6 til 8 stiga frosts eins og á Eyrarbakka í kvöld eru skemmtileg - en aðeins að vissu marki - því aldrei er að vita hvernig hálkan þróast við þessi skilyrði - og ísing á bílrúðum. Já, margt þarf að varast á vetri. 

Hitamyndin hér að neðan er af vef Veðurstofunnar. Það sem kaldast er (háreistir éljaklakkar) eru hvítastir en hlýjast er bútur af Nýja-Holuhrauni - kolsvartur. 

w-vefur-150102_2139

Miklar hitasveiflur urðu viðar en á Eyrarbakka - með þeim má fylgjast á vef Veðurstofunnar - bæði í tölum og á línuritum

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég upplifði á skemmtilegan hátt þetta, sem þú lýsir,í dag. Hef beðið færis á að gangsetja Subaru fornbíl, sem ég er með á Selfossi, og fór ekki í gang fyrir 3 vikum þegar snjó hafði skafið inn í vélarrrúmið, síðan komið mikill raki og skollið á hörkufrost.

Leist ekkert á úrkomuspána fyrir næstu daga og sá rétt fyrir hádegi, að það var 2ja stiga hiti á Eyrarbakka en spáð 4ra stiga frosti klukkan 18:00 og augljóst að kalt loft úr uppsveitunum var á leið niður að sjó.

Fór í kapp við þetta og tapaði, - það var komið fimm stiga frost á Selfossi þegar ég kom austur klukkan tvö. Bíllinn hrökk samt i gang á fyrsta snúningi og ferðin bar árangur eftir allt.  

Á leiðinni til baka var athyglisvert að sjá hve mun kaldara var í austustu byggðum Reykjavíkur en vestar í bænum. 

Ómar Ragnarsson, 3.1.2015 kl. 21:28

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka þér fyrir Ómar - hollt að heyra reynslusögur úr veðrinu.

Trausti Jónsson, 4.1.2015 kl. 01:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

 • w-blogg230424
 • Slide10
 • Slide8
 • Slide6
 • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (24.4.): 301
 • Sl. sólarhring: 449
 • Sl. viku: 1617
 • Frá upphafi: 2350086

Annað

 • Innlit í dag: 270
 • Innlit sl. viku: 1473
 • Gestir í dag: 267
 • IP-tölur í dag: 257

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband