Sunnudagslægðasúpa

Eftir nokkra rólega daga virðist stefna aftur í ólguna. Nú (seint á laugardagskvöldi, 3. janúar) nálgast ný lægð - eða öllu heldur lægðasúpa sem ganga mun yfir landið á sunnudag og mánudag. Lægðin er mjög samsett - og telst eiginlega til tíðinda ráði reiknilíkönin alveg við hana. Enda hafa þau verið mjög flöktandi undanfarna daga. 

Við skulum hafa gervihnattamynd til hliðsjónar. Hitamynd sem tekin er kl.23:00 á laugardagskvöldi.

w-blogg040115a

Á hitamyndum eru köldustu svæði hvítust og sýna háský. Hér má sjá nokkrar hvítar skýjaræmur - sem marka miklar vindrastir í háloftunum. Þær sem merktar eru með tölustafnum 4 virðast vera víkjandi - aðalröstin liggur langt sunnan úr höfum nærri því beint í norður - en beygir snögglega til austurs fyrir sunnan land. Beygjan er á ákveðinni hreyfingu til norðurs. 

Nálægt tölustafnum 3 má sjá rof í háskýjahulunni - þetta er „þurra rifan“ svokallaða. Nærri miðju hennar er hvítleitur þríhyrningur. Sunnan við og í kring er niðurstreymi. Þessi form einkenna ört dýpkandi lægðir. 

Þarna sunnan við er skýjaflóki - ör sem merkt er með tölustafnum 1 bendir á hann. Tölvuspár og greiningar segja okkur að þarna sé að myndast lægðabylgja sem á að yfirtaka fyrri lægðina - það á víst að verða til þess að landsynningshvassviðrið sem kemur til landsins í nótt eða snemma í fyrramálið missir taktinn - hvenær, hvort og hvernig er ekki ljóst. Veðurfræðingar munu fylgjast rækilega með þróuninni á þessum slóðum næstu klukkustundirnar.   

Þegar þetta er skrifað - á að verða hlé á milli lægða einhvern tíma sunnudagsins - síðan skelli veður nýju lægðarinnar á undir kvöld. Eins og venjulega spá hungurdiskar engu um það - en hvetur til skoðunar á nýjustu fréttum af spám á vef Veðurstofunnar.

Nú - svo fer þessi lægð hjá - fer sem fer - en ekki alveg allt búið enn því í kringum þar sem talan 2 er á myndinni er mjög flókin skýjasúpa - samkvæmt nýjustu spám á kröpp lægð - orðin til úr henni að fara hér hjá á mánudag - nýjustu spár segja að aðalveðrið sem fylgir henni fari að mestu fyrir sunnan land - vonandi er það rétt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide11
  • w-1945v
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.5.): 191
  • Sl. sólarhring: 403
  • Sl. viku: 1881
  • Frá upphafi: 2355953

Annað

  • Innlit í dag: 177
  • Innlit sl. viku: 1751
  • Gestir í dag: 174
  • IP-tölur í dag: 169

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband