Í leit að haustinu

Eitthvað ósamkomulag er í gangi með það hvenær sumri lýkur og haustið taki við. Hugmynd ritstjórans er að velta þessu fyrir sér á lausblöðum hungurdiska á næstunni. Hvort það upplýsir málið eitthvað verður bara að koma í ljós. 

Í dag lítum við eingöngu á landsmeðalhita - reynum að finna haustinu stað í árstíðasveiflu hans. Grunnurinn er byggðarlandsmeðalhiti sem ritstjórinn hefur reiknað og nær til tímabilsins 1949 til 2013. Menn ráða því hvort þeir taka mark á tölunum. 

Við lítum á nokkrar myndir (nærri því eins).

w-blogg040914-haustleit-1

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lóðrétti kvarðinn sýnir hita - en sá lárétti árstímann og er hann látinn ná yfir eitt og hálft ár. Það er til þess að við getum séð allar árstíðir í samfellu á sömu mynd. 

Árslandsmeðalhitinn er 3,6 stig. Dökku fletirnir ofan til á myndinni sýna þann tíma ársins þegar hiti er yfir meðallagi þess og þeir neðan við sýna kaldari tímann.

Eitt megineinkenni íslensks veðurfars er sú hversu lítill munur er á meðalhita einstakra mánaða á vetrum. Hitinn er næstum sá sami frá því um miðjan desember og fram til marsloka. Tilsvarandi sumarflatneskja stendur mun styttri tíma - og víkur meir frá ársmeðaltalinu. Þetta hefur þær afleiðingar að hiti er ekki ofan meðallags nema 163 daga ársins - en er aftur á móti undir því 202 daga. Gleðilegt - eða sorglegt - það fer væntanlega eftir lundarfari hvort mönnum þykir. 

Það er 6. maí sem hitinn á vorin fer upp fyrir ársmeðaltalið - en 16. október dettur hann niður fyrir að að nýju. Við gætum skipt árinu í sumar og vetrarhelming eftir þessu og er það mjög nærri því sem forfeður okkar gerðu - ef við tökum fáeina daga af vetrinum til beggja handa og bættum við sumarið erum við býsna nærri fyrsta sumardegi gamla tímatalsins að vori og fyrsta vetrardegi að hausti. 

En í þessari skiptingu er ekkert haust og ekkert vor. Vilji menn hafa árstíðirnar fleiri en tvær verður að skipta einhvern veginn öðru vísi.

Eitt af því sem kæmi til greina væri að nota „vendipunkta“ á línuritinu - það er dagsetningar þar sem halli ferilsins breytist. Að minnsta kosti fjórir eru mjög greinilegir. Fyrst er til að taka á mörkum vetrar og vors, vetrarflatneskjunni lýkur greinilega um mánaðamótin mars/apríl, kannski 3. apríl - eftir það hækkar hiti óðfluga. Í kringum 15. júlí hættir hitinn að hækka, nær þá 10 stigum - og hin stutta sumarflatneskja tekur við. Staðbundið hámark er 8. ágúst og frá og með þeim 14. er hitinn aftur kominn niður í 10 stig. Kannski byrjar haustið þá? En þá verðum við eiginlega að kyngja því að sumarið sé ekki nema mánaðarlangt. 

Hitafall haustsins stendur síðan linnulaust þar til næsta vendipunkti er náð - 15. desember. Þá tekur hin langa vetrarflatneskja við. Við höfum hér fengið út árstíðaskiptinguna: Vetur 15. desember til 3. apríl, vor 3. apríl til 15. júlí, sumar 15. júlí til 14. ágúst, haust 14. ágúst til 15. desember. Þetta hljómar ekki mjög vel - en er þó í stíl við almannaróm sumarloka og haustlægða.

Sé vel að gáð má sjá tvo vendipunkta til víðbótar - en erfitt er að negla þá niður á ákveðnar dagsetningar. Sá fyrri er um það bil 25. maí - þá hægir aðeins á hlýnuninni. Sá síðari er í kringum 15. nóvember - þá hægir á kólnun haustsins. 

Við gætum svosem byrjað veturinn 15. nóvember og sumarið 25. maí, fundið hitann þessa daga og leitað að svipuðum hita vor og haust til að nota til að draga tímamörk á móti. Byrji sumarið 25. maí ætti það að hætta þegar svipuðum hita er náð í september. Sú dagsetning er 20. september.

Þessi nýja skipan yrði því svo: Vetur 15. desember til 3. apríl, vor 3. apríl til 25. maí, sumar 25. maí til 20. september, haust 20. september til 15. desember. 

Vendipunktaárstíðir gætum við kallað náttúrulegar - einhver umskipti eiga sér stað í náttúrunni á reglubundinn hátt.  

Við höldum leitinni að haustinu áfram síðar.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Veðrið er að því leiti yndislegt að það er nattúrulega sjálfstætt,enginn hatar það,en margir flýja það. Svo merkilegt að einn góðan sólardag sjá menn íslenska drauminn og fara hvergi.

Helga Kristjánsdóttir, 4.9.2014 kl. 01:04

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Í mínum huga er sumarið júní, júlí og ágúst. Vorið apríl og maí, haustið sept-okt og veturinn nóv-apr.

Gunnar Th. Gunnarsson, 4.9.2014 kl. 08:50

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Líst vel á að sumarið sé talið byrja um 25. maí og endi um 20. september. Það er svipað því sem ég upplifi sjálfur sem Reykjavíkurbúi og er nærri því þegar hámarkshiti þar nær tíu stigum að staðaldri eftir langtíma meðaltali. Þá finnst mér vera sumar.

Sigurður Þór Guðjónsson, 4.9.2014 kl. 10:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 229
  • Sl. sólarhring: 236
  • Sl. viku: 2054
  • Frá upphafi: 2350790

Annað

  • Innlit í dag: 210
  • Innlit sl. viku: 1838
  • Gestir í dag: 204
  • IP-tölur í dag: 203

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband