Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014
7.1.2014 | 01:31
Ætli hann fari ekki að ganga niður?
Nú lítur loksins út fyrir að norðaustanþráviðrið sem nú hefur staðið í meir en hálfan mánuð fari að ganga niður. Hvassviðrið hefur þó ekki verið mikið á landsvísu nema jóladagana og síðan aftur á föstudaginn var (þann 3.). En stórir hlutar af landinu vestanverðu hafa þó legið í illviðri og umtalsverðum leiðindum flesta daga. Síðan er hin mikla úrkoma sem fylgt hefur veðrinu bæði norðan til á Vestfjörðum og víða um landið norðaustan- og austanvert.
Engin langtímavindhraðamet hafa þó fallið en það kom þó á óvart að hvassara skyldi verða á sjálfvirku stöðinni á Hjarðarlandi í Biskupstungum heldur en hefur þar áður mælst. Þar fór 10-mínútna meðalvindur í 26,7 m/s kl. 6 að morgni föstudagsins (3.). Stöðin hefur verið starfrækt í níu ár. Sömuleiðis kom á óvart að vindhraðamet skyldi slegið á Flateyri síðastliðna nótt (kl. 1 aðfaranótt þess 6.), 10-mínútna vindur fór þar í 27,8 m/s sem er það mesta í 15 ára sögu stöðvarinnar. Í báðum þessum tilvikum var vindur af norðaustri.
Eins og fjallað var um í pistli í gær má fara að gefa úrkomumagni norðaustanlands gaum. Taflan (frumstæða) hér að neðan sýnir samanburð heildarúrkomunnar það sem af er mánuðinum við það sem mest hefur orðið sömu sex daga áður á stöðvunum (þrjár stöðvanna hafa ekki skilað nema fimm dögum í gagnasafnið).
stöð | ár | mán | til dags | úrk | eldra ár | eldri tala | frá | nafn | |
231 | 2014 | 1 | 6 | 85,7 | 2002 | 65,5 | 1959 | Mjólkárvirkjun | |
252 | 2014 | 1 | 6 | 66,0 | 1998 | 62,7 | 1994 | Bolungarvík | |
400 | 2014 | 1 | 6 | 51,2 | 1999 | 29,0 | 1990 | Sauðanesviti | |
425 | 2014 | 1 | 6 | 26,5 | 1998 | 15,2 | 2000 | Torfur | |
427 | 2014 | 1 | 5 | 26,8 | 2009 | 17,5 | 1997 | Gullbrekka | |
437 | 2014 | 1 | 5 | 88,9 | 1998 | 51,3 | 1997 | Þverá í Dalsmynni | |
479 | 2014 | 1 | 6 | 32,3 | 1991 | 31,4 | 1956 | Mánárbakki | |
515 | 2014 | 1 | 6 | 35,6 | 2013 | 10,2 | 1999 | Miðfjarðarnes | |
527 | 2014 | 1 | 6 | 233,4 | 1999 | 206,4 | 1994 | Skjaldþingsstaðir | |
565 | 2014 | 1 | 5 | 107,0 | 1999 | 62,3 | 1991 | Svínafell | |
608 | 2014 | 1 | 6 | 109,5 | 1999 | 90,0 | 1998 | Desjarmýri | |
616 | 2014 | 1 | 6 | 100,5 | 2007 | 53,4 | 2002 | Hánefsstaðir | |
626 | 2014 | 1 | 5 | 108,5 | 2005 | 86,6 | 2002 | Neskaupstaður |
Fyrri úrkomudálkurinn sýnir úrkomusummuna nú, en sá síðari það sem mest hefur orðið áður á stöðinni sömu daga. Aftasti ártaladálkurinn sýnir hvenær stöðin byrjaði. Mánárbakki og Mjólkárvirkjun hafa athugað lengst þannig að heildarúrkoman á þeim stöðvum verður að teljast óvenjulegust. Svo er spurningin hvort þetta heldur til lengdar - auðvitað er það ólíklegt en samt þess virði fyrir veðurnördin að fylgjast með. Þurrkurinn hér suðvestanlands verður líka smám saman óvenjulegri - en ekki þarf nema einn úrkomudag til að hnika við því.
Sagt er að norðaustanáttin gangi niður á miðvikudaginn - en hætt er við því að vindaásókn næstu lægðar byrji í norðaustri - síðan gengur í austur og jafnvel suðaustur. Þessi næsta lægð er nokkuð snúin og ekki gott að segja hvað verður úr henni. Svona lægðir geta valdið töluverðri snjókomu suðvestanlands - fylgist með spám Veðurstofunnar.
6.1.2014 | 01:53
Linnulítil úrkoma
Í norðaustanáttinni að undanförnu hefur úrkoma verið mjög mikil sums staðar á norðan- og austanverðu landinu. Úrkomumagninu hefur þó verið mjög misskipt. Fyrstu fimm dagana (fram til kl.18 á skeytastöðvum og til kl. 9 á úrkomustöðvum) hefur úrkoman verið mest á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði - rúmlega 200 millimetrar.
Úrkoman er komin yfir 100 mm á nokkrum stöðvum á Austfjörðum, Desjarmýri á Borgarfirði eystra, á Hánefsstöðum í Seyðisfirði, í Neskaupstað og á Gilsá í Breiðdal.
Þess má líka geta að meðalhiti fyrstu 5 daga mánaðarins er 2,4 stigum ofan meðallags síðustu 10 ára í Reykjavík og 2,5 á Akureyri. Kaldara hefur verið á Vestfjörðum en í Bolungarvík hefur hiti verið 0,6 stigum undir meðaltali sama tíma. Þessi hlýindi er óvenjulegust fyrir þær sakir að norðaustanátt hefur verið ríkjandi, norðanáttin meira að segja sterkari heldur en austanáttin.
5.1.2014 | 01:51
Af heiðhvolfinu í byrjun árs
Það er best að lauma inn einni færslu með fréttum úr heiðhvolfinu - svo lítið beri á. Eigendafélagið segir að fáir hafi áhuga á slíku og það sé því ekki bloggefni.
Heiðhvolfið hefur komið oft við sögu á hungurdiskum (sennilega um 20 sinnum alls), má þar t.d. nefna pistil frá 2. janúar í fyrra. Eins og margir vita er lofthjúpnum skipt í hvolf - eftir því hversu hiti breytist hratt með hæð. Veðrahvolfið er neðst - ofan á því liggja veðrahvörf en heiðhvolfið er þar ofan á. Veðrahvörfin liggja mishátt - hæst í hitabeltinu. Þar eru 16 til 18 kílómetrar upp í þau. Yfir heimskautaslóðum liggja þau lágt - oft í 8 til 10 km hæð en stundum neðar.
Við lítum á tvö kort sem sýna hita í 30 hPa-fletinum og hæð hans. Annars vegar er spákort sem gildir síðdegis á mánudaginn (6.1. 2014) en hins vegar kort frá sama degi í fyrra. Fyrst nýja kortið.
Gríðarmikil lægðarmiðja er yfir Norður-Grænlandi og nær hringrás lægðarinnar um mestallt norðurhvel. Jafnhæðarlínur eru heildregnar og sýna hæð flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Lægðarmiðjan er í 21900 metra hæð - en hæðin við Aljúteyjar er nær upp í 24000 metra (24 km). Hiti í lægðarmiðjunni er um -85°C en hæstur yfir Austur-Síberíu sunnanverðri. Þar er ekki nema -32 stiga frost. Mjög hlýtt er yfir Miðjarðarhafi.
Kortið frá í fyrra er allt öðru vísi.
Á þrettándanum í fyrra (6.1.) skiptist heiðhvolfslægðin snögglega í tvennt - og hvarf nærri því um tíma um mánuði síðar. Hér á landi fengum við fyrst einhverja hlýjustu janúar og febrúarmánuði allra tíma - og síðan varð meðalloftþrýstingur í mars sá hæsti um áratugaskeið. Miklir kuldar ríktu um stund í Vestur-Evrópu og einnig var kalt í Ameríku.
Afgang ársins var mikið rætt um tengsl þessa veðurlags við atburðinn í heiðhvolfinu. Sá orðrómur er á kreiki að meira hafi verið um röskun á heiðhvolfshringrásinni síðustu 4 til 5 árin en verið hefur lengi. Tilhneiging er til að tengja allar stórar uppákomur breyttu veðurlagi vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa af manna völdum - og stórir heiðhvolfsatburðir eru ekki undanskildir. En skyldi vera eitthvað til í því?
Í dag (laugardaginn 4. janúar) er allt með felldu í heiðhvolfinu - eða hvað? Ritstjórinn gefur heiðhvolfinu auga á næstu vikum (eins gott).
4.1.2014 | 01:22
Norðaustanáttin endalausa
Enn herjar norðaustanáttin á landið, hlýnar og kólnar lítillega á víxl. Verður samt að teljast í hlýrra lagi miðað við árstíma, hámarkshitinn á landinu liggur í +7 til 9 stigum dag eftir dag - og fyrstu þrjá daga nýja ársins hefur verið kaldast á Þverfjalli fyrir vestan - í 700 metra hæð. Dægurlágmarkið þar var í dag (föstudag) -5,7 stig og í byggð var kaldast í Svartárkoti, -3,7 stig.
Leit er að mjög köldu lofti á stóru svæði nema í örmjórri röst suður með Norðaustur-Grænlandi - og þar nær það ekki nema upp í 1 til 2 kílómetra ofan við sjávarmál - en nægir til að halda við illindum hér á landi.
Við lítum á 500 hPa hæðar- og þykktarkort sem sýnir stöðuna. Það er að þessu sinni klippt út úr hefðbundnu norðurhvelskorti og sýnir svæðið frá Grænlandi austur um til Rússlands og suður um Miðjarðarhaf.
Við sjáum risalægðina lengst til vinstri. Hún dælir hlýju lofti til norðurs og austurs - eins og fyrirrennarar hennar hafa verið að gera að undanförnu. Þrátt fyrir alla þessa dælingu hefur ekki enn tekist að byggja upp stóra fyrirstöðu á svæðinu. Fyrir utan röstina við lægðina er vindur mjög hægur í 500 hPa (langt á milli jafnhæðarlína) alls staðar á kortinu.
Kalda loftið er langt í burtu - yfir Síberíu og nokkuð snarpur kuldapollur við Norðvestur-Grænland. Við Norðaustur-Grænland má sjá stutt strik (gulbrúnt). Þar má sjá að litir liggja þétt - þykktarsviðið er bratt. Það eru 60 metrar á milli litanna og þeir eru rúmlega þrir undir strikinu. Það eru 180 metrar - gefa efni í 22 hPa þrýstibratta - þarna undir ólmast norðan- og norðaustanstrengurinn og hefur ekkert að fara nema til suðvesturs um Grænlandssund, stundum Vestfirði, hálft eða heilt Ísland.
Næsta risalægð er í undirbúningi yfir Ameríku - spurning er hvort henni tekst að búa til fyrirstöðuna - nú eða þá brjótast austur um - eða kannski gera ekki neitt. Komi fyrirstaða hjá okkur eða norðaustan við - gæti Síberíukuldinn farið að hugsa til Evrópu.
En við skulum líka gjóa augum til Vesturheims og líta á samskonar kort sem sýnir bróðurpart Norður-Ameríku. Þar er ólíkt ástand.
Hér er gríðarlegur kuldapollur, miðja hans er við landamæri Kanada og Bandaríkjanna - þar má sjá þrjá fjólubláa liti. Sá dekksti sýnir þykkt minni en 4800 metra. Við sjáum líka að kuldinn er á hreyfingu til suðausturs. En það er aldrei langt í hlýja loftið í suðaustanverðum Bandaríkjunum - á milli er heimskautaröstin - mjög þéttar jafnhæðarlínur og jafnþykktarlínurnar eru líka þéttar, þær liggja mikið til samsíða vindinum undir röstinni og jafna hana út - vindur er því ekki mikill þegar hér er komið sögu. En kuldapollurinn mun raska þessu - það verður bara að koma í ljós.
3.1.2014 | 01:35
Enn ein risalægðin á Atlantshafi
Risalæðaskeiðinu virðist ekki enn lokið á Atlantshafi. Ritstjórinn man vel eftir fyrstu risalægðinni sem hann sá á vaktinni. Það var 8. febrúar 1982. Lægðin var um 930 hPa djúp þegar hún var upp á sitt besta og hér á landi fór þrýstingurinn niður í 937 hPa, það læsta sem þá hafði sést á mælum í 40 ár. Þótt ekki hafi liðið svo langur tími á milli 930 hPa lægða á Atlantshafinu í heild minntist ritstjórinn þess ekki (1982) að hafa séð 935 hPa jafnþrýstilínuna nema einu sinni áður frá því hann fór að liggja í veðurkortum 20 árum áður. Veðurkort voru ekki eins auðfengin og nú - og ábyggilega hafa einhverjar 930 hPa lægðir farið hjá á þessum tíma - án þess að fara yfir Ísland.
En frá og með þessari lægð 1982 var eins og nýir tímar væru gengnir í garð. Auðvitað var ekki hægt að segja að 930 hPa lægðir yrðu algengar - en þær fóru að sjást við og við. En undanfarinn mánuð hefur hins vegar keyrt um þverbak - og enn er lægð spáð niður í 930 hPa.
Evrópureiknimiðstöðin segir 927 hPa kl. 06 á sunnudag 5. janúar á kortinu hér að neðan.
Við sleppum við versta veðið - en samt sér lægðin til þess að veðurlag helst svipað áfram og verið hefur. Hlýtt loft gengur yfir landið úr suðaustri - þrengir að kaldara lofti fyrir norðan og úr getur orðið leiðinda norðaustanbryðja.
Annað mál:
Lesandi sem reiknað hefur út að meðalhiti ársins 1995 í Reykjavík er 4,95 stig spyr hvort hann heiti 4,9 eða 5,0 með einum aukastaf.
Því er til að svara að í þessu tilviki verður meðalhitinn að heita 4,9 stig því ekki er hægt að hækka upp tvisvar. Sé reiknað með fjórum aukastöfum er útkoman 4,9458 stig - það dugar ekki í 5,0.
En hér er rétt að gefa reiknireglum gaum. Það er nefnilega þannig að ársmeðalhiti er skilgreindur sem meðaltal hita mánaðanna tólf - án tillits til lengdar þeirra. Við getum því fengið aðra útkomu ef við reiknum meðalhita ársins með því að reikna alla daga jafna. Í ár kemur þetta þannig út að ársmeðalhiti í Reykjavík er 4,9559 stig - það dugar í 5,0 stig. Sé gengið enn lengra og meðaltal allra athugana (á 3 stunda fresti) reiknað verður útkoman 4,9516 stig - nægir líka í 5,0 stig.
Hvað sem mönnum finnst er meðalhitinn 2014 í Reykjavík 4,9 stig samkvæmt reglum Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar - og þeim er fylgt. Það er oftar þannig að reglan lækkar meðaltalið lítillega - febrúar hefur aðeins of mikið vægi - hann er kaldur. En langt er síðan ritstjórinn hefur reiknað muninn kerfisbundið. Það má gera síðar.
1.1.2014 | 02:40
Gleðilegt nýtt ár
Ritstjóri hungurdiska og almennir starfsmenn (Fídelíó, Fídel og Fídó) óska lesendum og öðrum landsmönnum árs og friðar. Hætt er við að útgáfan grisjist eitthvað á árinu miðað við það sem verið hefur - er þar ósamkomulagi (ónefnanlegra) eigenda um ritstjórnarstefnu um að kenna - (eða varðandi eitthvað - alla vega). Kannski ritstjórinn verði einfaldlega rekinn eða settur út í horn.
En það verður varla veðurlaust á landinu á árinu 2014. Langt er síðan það bar síðast við. Kann þó að vera að annálaritarar hafi um það þagað.
Vísindi og fræði | Breytt 5.1.2014 kl. 00:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.4.): 0
- Sl. sólarhring: 76
- Sl. viku: 1028
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 903
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010