Bloggfærslur mánaðarins, september 2013
8.9.2013 | 01:13
Veðurkort - lóðréttar hreyfingar loftsins
Í tilefni af sunnanillviðrinu sem gengur nú yfir landið lítum við á þrjú veðurkort - og eitt veðurþversnið. Allt er fengið úr harmonie-spálíkaninu sem Veðurstofa Íslands rekur. Þetta er mikil langloka og aðeins fyrir þrautseigustu lesendur. Aðrir eru enn beðnir forláts.
Lofthjúpurinn flýtur í sjálfum sér - rétt eins og fiskar fljóta í vatni. Flotmeira loft liggur ofan á því flotminna. Aukist flotið hreyfist loftið upp þar til jafnflotmikið loft er fundið. En stundum þvingar vindur loft yfir hindranir svo sem fjöll. Þvingað uppstreymið þrýstir þá flotminna lofti upp undir það flotmeira - þá er eins og gormur sé spenntur, um leið og hindrunin er hjá stekkur loftið aftur niður í átt að réttu floti. Niðurstreymið getur orðið það mikið að loftið fari niður fyrir sitt fyrra og eðlilega jafnvægi - þá mætir það öðrum gormi sem þrýstir því upp aftur - flotbylgja verður til - sé hindrunin fjall er hún kölluð fjallabylgja - sem alloft er getið í veðurhjali.
Lóðréttar hreyfingar lofts eru venjulega ekki nema 1/100 til 1/20 hluti af þeim láréttu. Sé láréttur vindur um 10 m/s má að jafnaði búast við því að sá lóðrétti sé innan við hundraðasti hluti, eða < 0,1 m/s. Upp- eða niðurstreymi sem er ákafara en 0,5 m/s telst því mikið.
Fyrsta kortið sýnir lóðréttan vind eins og líkanið reiknar hann í 850 hPa-fletinum. Í kvöld var hann í um 1300 metra hæð yfir Vesturlandi. Öll kortin hér að neðan gilda kl. 01 aðfaranótt sunnudagsins 9. september.
Grænir og bláir litir sýna niðurstreymi, en þeir brúnu og rauðu uppstreymi. Hefðbundnar vindörvar sýna eins og venjulaga láréttan vind. Flestallir fjallgarðar landsins búa til fjallabylgjur, þvert á lárétta vindstefnu. Þær eru einna öflugastar við Snæfellsnes. Ólafsvík og Grundarfjörður og fleiri á Snæfellsnesi máttu finna fyrir niðurstreyminu - það dró hvassan vind ofan fjalla niður undir sjávarmál og vindhraði var á bilinu 25 til 31 m/s - en allt að 40 m/s í hviðum.
Hér yfirgnæfa fjallabylgjurnar allt annað lóðrétt streymi. Þó má sjá einkennilegt brúnt strik liggja frá Reykjavík til norðnorðvesturs um Faxaflóa til Snæfellsnes. Hér virðast skil lægðarinnar sem vindinum veldur liggja þegar kortið gildir.
Annað kort sýnir fyrirbrigði sem á ensku heitir turbulent kinetic energyeða TKE. Íslensk þýðing væri kvikuhreyfiorka eða bara kvikuorka.
Vindörvarnar sýna vindátt og styrk í 850 hPa eins og á fyrra kortinu en lituðu svæðin summu kvikuorkunnar lóðrétt upp í gegnum alla fleti líkansins. Tölurnar eru ábendi um kviku í lofthjúpnum því stærri - því meiri líkur á kviku. Kvika getur átt uppruna sinn á ýmsan hátt. Við skulum í þetta sinn ekki velta vöngum yfir því en þó er óhætt að segja að á þessu korti tengist hún fjallabylgjunum - trúlega sér líkanið þær eitthvað brotna - eða hreyfast hratt fram og til baka með sveiflum í vindhraðanum.
Vegna mistaka ritstjórans hefur kvarðinn nær alveg þurrkast út en kvikuorkan er mæld í einingunni m2/s2 - einkennileg eining hverfiþungabreytingar á sekúndu (veltum ekki vöngum yfir því hvað það er). Þótt kortið sýni summu kvikuorkunnar má gera ráð fyrir því að á þessu korti sé einhvers konar samband á milli afls vindhviða við fjöll og litanna á myndinni. Við lítum vonandi betur á svona kort síðar - þá með kvarða og tölum.
Næsta kort sýnir enn annað veðurfræðilegt fyrirbrigði sem tengist lóðréttum hreyfingum lofts - en er þó mun erfiðara í túlkun en þau hér að ofan. Það nefnist divergence á ensku. Orðið hefur óþægilega fjölbreytta notkun á því máli og almenn þýðing (athugið orðabók) hentar okkur illa. Því hefur verið gripið til þess ráðs að kalla það úrstreymi á íslensku.
Úrstreymi á sér t.d. stað í baðherbergjum með loftræstingu. Ef allt er eins og það á að vera streymir loft út úr baðherberginu. Þegar opnað er fyrir loftræstinguna og þrýstingur fellur - verður úrstreymi í herberginu. Úrstreymið nær nærri því strax jafnvægi fyrir tilverknað lofts sem streymir inn í herbergið í stað þess sem út fór. Hafi baðherbergið verið lokað gæti farið svo eitt andartak að meira loft kæmi inn í það heldur en fór út um loftræstinguna. Ef það gerist hefur herbergið orðið fyrir ístreymi. Úr- og ístreymi - munum þau ágætu orð.
En síðan kortið - það er ekki létt.
Rauði liturinn sýnir úrstreymi en sá blái ístreymi. Kortið gildir í 1000 hPa-fletinum - nærri jörð. Við sjáum hér strikið yfir Reykjavík og Faxaflóa (skilin) mun betur en á fyrstu myndinni. Það nær lengra til beggja átta heldur en það gerði. Mikill blár flekkur er við Suðurströndina - þetta eru áhrif stíflu sem verður til þegar loft af hafi (þar sem núningur er lítill) nálgast land, þar sem núningur er meiri og/eða fyrirstaða vegna fjalla. Smáhik verður á straumnum - meira loft kemur inn á svæðið heldur en fer út. Ætli þar verði ekki að myndast uppstreymi til að allt fari nú ekki á hliðina? Við sjáum reyndar uppstreymið á fyrstu myndinni sem stórt gulbrúnt svæði við Suðurströndina. Þar með er komin skýring á því.
Rauðu flekkirnir undan Norður- og Austurlandi sýna úrstreymi þar sem loft eykur hraða á leið sinni. Þar verður þá til niðurstreymi. Við sjáum það líka á fyrsta kortinu - en ekki vel.
Síðasta myndin er þversnið. Þau voru nokkuð ítarlega kynnt á þessum vettvangi fyrir rúmum mánuði. Þeir sem nenna geta rifjað það upp. Texti dagsins er þegar orðinn alltof langur en við skulum samt líta á sniðið - og fjallabylgjur sem má sjá þar.
Legu þversniðsins má sjá á litlu Íslandskorti í efra hægra horni myndarinnar (hún þolir stækkun). Litirnir sýna vindhraða (sjá kvarðann) en heildregnar línur sýna mættishita. Miklar sveigjur eru á mættishitalínunum yfir Snæfellsnesi (grátt svæði neðst um miðja mynd). Þar sjáum við fjallabylgjuna. Mættishiti vex upp á við. Það þýðir að þar sem línurnar sveigjast niður á við er niðurstreymi - en uppstreymi þar sem þær sveigjast upp.
Mikill bylgjugangur er yfir Breiðafirði og Vestfjörðum - en hvergi þó eins og yfir Snæfellsnesi. Við hliðina á litla Íslandskortinu má sjá í veðrahvörfin - þar eru mættishitalínurnar miklu þéttari heldur en neðar. Þeir sem rýna vilja í kortið ættu að taka eftir því að vinstra megin á myndinni er sami mættishiti (engin lína) frá sjávarmáli og upp í um 900 hPa (um 900 metra hæð). Þarna er loft vel blandað (óstöðugt) eins og títt er með loft sem fylgir á eftir kuldaskilum (eða hvað við viljum kalla þau).
Nú verður að taka fram að öll þessi frábæru kort eru úr smiðju Bolla Pálmasonar kortagerðarmeistara á Veðurstofunni.
6.9.2013 | 01:10
Algjör nördun (aðrir ættu varla að lesa textann)
Stundum liggur ritstjóri hungurdiska út á jaðar þess áhugaverða. Svo er að þessu sinni og eru hinir almennu lesendur beðnir velvirðingar - þeir geta bara sleppt því að lesa meira.
Spurningin sem velt er upp er þessi: Í hversu mörg ár samfellt hefur ársmeðalhiti í Reykjavík hækkað - árið í ár verið hlýrra heldur en það í fyrra? Svarið er: Fjögur. Frá upphafi samfelldra mælinga hefur það gerst tvisvar sinnum að ársmeðalhitinn hefur hækkað í fjögur ár í röð. Það hefur gerst sjö sinnum að hann hefur hækkað þrjú ár í röð. Oftast skiptast á eitt til tvö ár í senn með hærri eða lægri hita heldur en í fyrra.
Við lítum á mynd sem sýnir fjögurra ára tímabil í keðju. Fjöldi formerkja á hverju tímabili er talinn. Mínusmerkin (kaldara en í fyrra) geta mest orðið fjögur - og plúsarnir líka mest fjórir. Oftast er fjöldinn núll eða tveir.
Tilvik þegar hiti hækkaði fjögur ár í röð eru eins og áður sagði tvö. Hið fyrra var þegar hitinn hoppaði upp úr versta 19. aldarástandinu á árunum 1887 til 1890. Hið síðara þegar við stukkum úr langvinnum kulda á árunum 2000 til 2003. Tvisvar hefur hitinn lækkað fjögur ár í röð, annars vegar 1916 til 1919 en hins vegar 1934 til 1937.
Við getum því heiðarlega sagt að það sé mjög óvenjulegt að hiti hækki fjögur ár í röð - og einstakt hækki hann (eða lækki) fimm ár í röð - við bíðum enn eftir því.
Hér er ekkert sagt um hversu mikil hækkun eða lækkun er. Í nítjándualdarhlýnuninni hækkaði hiti um 1,85 stig á fjórum árum, en í aldamótahlýnuninni okkar hækkaði hann um 1,59 stig á sama tíma.
Frá aldamótum síðustu (frá og með 2001 til 2012) hefur hiti hækkað um 1,02 stig (plúsasumman er 1,02 stig).
5.9.2013 | 01:13
Nördamoli
Þessi er reyndar aðeins fyrir allra hörðustu nördin - í tilefni af hægum vindi á landinu í dag (miðvikudaginn 4. september). Ekki var vindurinn þó neitt nálægt hægviðrismeti - en skemmtilegt samt að sjá hversu hægur meðalvindhraði á landinu getur orðið. Auðvelt var að fletta upp tölum frá þessari öld. Hér er taflan - hægustu dagar hvers mánaðar, vindhraði í metrum á sekúndu.
Taflan er unnin út frá meðaltali sjálfvirkra stöðva - en sérstakur dálkur sýnir meðalvindhraða sömu daga á mönnuðu stöðvunum. Svo má sjá muninn - hann er oftast ekki mikill.
ár | mán | dagur | sjálfv | mannaðar | mism |
2001 | 1 | 8 | 2,42 | 2,93 | 0,51 |
2005 | 2 | 24 | 1,88 | 1,82 | -0,06 |
2013 | 3 | 13 | 2,28 | 2,03 | -0,25 |
2005 | 4 | 22 | 1,74 | 1,91 | 0,17 |
2008 | 5 | 13 | 2,02 | 1,89 | -0,13 |
2007 | 6 | 10 | 2,36 | 2,55 | 0,19 |
2006 | 7 | 25 | 2,03 | 2,20 | 0,17 |
2009 | 8 | 10 | 2,09 | 2,33 | 0,24 |
2001 | 9 | 26 | 2,02 | 1,67 | -0,35 |
2001 | 10 | 19 | 1,83 | 1,36 | -0,47 |
2003 | 11 | 15 | 2,08 | 1,76 | -0,32 |
2009 | 12 | 14 | 2,41 | 1,71 | -0,70 |
Af töflunni virðist mega ráða að allra hægustu dagana sé að vænta vor og haust. Hafgolan hefur sín áhrif til hækkunar meðaltala að sumarlagi. Hægasti dagurinn á sjálfvirku stöðvunum er 22. apríl 2005, föstudagur eftir sumardaginn fyrsta. Á mönnuðu stöðvunum gerir 19. október 2001 aðeins betur.
Sé litið á tímabilið frá og með 1949 til okkar dags kemur í ljós að methægviðrið er allt á fyrstu 15 árum þess tímabils. Meðalvindhraði var þó svipaður og á síðari árum. Vindhraðamælar voru á fáum stöðvum og var logn mjög gjarnan oftalið - það kom í ljós þegar vindhraðamælar tóku völdin. Almennt var þó vindur ekki vanmetinn - nema þegar hann var mjög hægur. Þegar keppt er í flokknum hægustu dagar allra tíma munar lítilega um það hvort vindhraði er núll eða t.d. 1 m/s á stórum hluta stöðva í landinu. Af metatöflunni hér að neðan má ráða að e.t.v. munar um 0,5 m/s.
Taflan sýnir fimm hægustu daga tímabilsins 1949 til 2013 - á mönnuðum stöðvum, tölurnar eru í m/s.
ár | mán | dagur | meðalvindur |
1962 | 3 | 23 | 0,92 |
1962 | 3 | 22 | 0,95 |
1950 | 8 | 2 | 0,99 |
1961 | 10 | 20 | 1,10 |
1961 | 12 | 23 | 1,13 |
Aldrei að vita nema einhverjir muni þessa daga, ritstjórinn man ábyggilega marsdagana 1962, en er síður viss um þorláksmessu 1961 og 20. október sama ár. - Reyndar var hann þetta haust handrukkari fyrir Samvinnutryggingar og man vel eftir rukkunarstörfum á einu sérlega glæsilegu norðurljósakvöldi í október 1961 - kannski það hafi verið einmitt þennan dag. Hafi það verið þriðjudagur var verið að missa af framhaldsleikriti útvarpsins - sem margir muna.
4.9.2013 | 00:55
Af tuttugu stigum sumarsins og hæsta hita ársins til þessa
Nú er kominn september og líkur á tuttugu stiga hita falla með hverjum deginum sem líður. Þó er það þannig að hiti hefur náð 20 stigum einhverstaðar á landinu í 16 af síðustu 20 septembermánuðum. Þó hvorki í fyrra né hitteðfyrra. Miðað við gildandi spár næstu vikuna er líklegt að núlíðandi september fylgi meirihlutanum því þykktinni er spáð vel yfir 5500 metra um helgina. Fimm til sjö daga spár um háa þykkt hafa þó oftar en ekki farið í vaskinn í sumar.
Í viðhenginu er langur listi sem sýnir hæsta hita ársins á veðurstöðvum landsins fram til þessa og hvaða dag (og klukkustund) hann mældist. Við fylgdumst nokkuð grannt með slíkum listum í júlí - en síðan hafa aðeins fáeinar stöðvar lifað sína hlýjustu stund. En lengi er þó von - hæsti hiti ársins til þessa á Siglunesi mældist ekki fyrr en 23. ágúst, 20,3 stig og sama dag mældist hæsti hiti ársins á Lambavatni, 18.6 stig. Fáeinar stöðvar mældu hæsta hita sinn í júnímánuði.
Nördin horfa væntanlega skörpum augum sínum á listann þar sem finna má almennar sjálfvirkar stöðvar, vegagerðarstöðvar og mannaðar. Við skulum teygja okkur í hæstu og lægstu gildin í almenna flokknum.
ár | mán | dagur | klst | tx | nafn | |
2013 | 7 | 21 | 14 | 26,4 | Ásbyrgi | |
2013 | 7 | 10 | 15 | 26,1 | Egilsstaðaflugvöllur | |
2013 | 7 | 10 | 17 | 26,0 | Hallormsstaður | |
2013 | 7 | 21 | 15 | 26,0 | Skjaldþingsstaðir | |
2013 | 7 | 24 | 15 | 25,9 | Veiðivatnahraun | |
2013 | 8 | 3 | 15 | 16,4 | Kambanes | |
2013 | 7 | 17 | 9 | 16,2 | Seley | |
2013 | 7 | 23 | 14 | 16,0 | Garðskagaviti | |
2013 | 8 | 4 | 12 | 15,9 | Stórhöfði | |
2013 | 7 | 21 | 11 | 13,0 | Brúarjökull B10 |
Útnes og jöklar eru á botni listans, en þekktir hlýindastaðir norðaustan- og austanlands sitja á toppnum. - Og auðvitað mettalan í Veiðivatnahrauni.
Í hinu viðhenginu er listi sem sýnir hversu margar klukkustundir hámarkshiti hefur náð 20 stigum á árinu á hverri stöð. Þessi listi nær aðeins til almennu stöðvanna - og allar stöðvar sem ekki náðu markinu vantar að sjálfsögðu. Hverjar þær eru má sjá í árshámarkslistanum. Efstar á blaði eru eftirtaldar stöðvar:
stöð | ár | fjöldi | nafn | |
4060 | 2013 | 83 | Hallormsstaður | |
4323 | 2013 | 82 | Grímsstaðir á Fjöllum | |
5940 | 2013 | 81 | Brú á Jökuldal | |
4271 | 2013 | 78 | Egilsstaðaflugvöllur | |
4614 | 2013 | 76 | Ásbyrgi |
Hallormsstaður er í toppsætinu, þar hefur hiti náð 20 stigum í 83 klukkustundir samtals. Grímsstaðir á Fjöllum fylgja strax á eftir og síðan Brú á Jökuldal. Innsveitirnar verjast sjávarloftinu. Hjarðarland er efst stöðva sunnan heiða með 38 klukkustundir í 20. til 21. sæti.
3.9.2013 | 00:16
en Akureyrarsumarið í því ...
Í síðasta pistli var ekki alveg lokið við sumarmetinginn, sumarið nyrðra varð að mestu leyti útundan (svo ekki sé talað um eystra). Við göngum nú frá tölunum fyrir Akureyri.
Sumarið byrjaði sérlega vel norðanlands og austan, júnímánuður með 15 stig af 20 mögulegum á Akureyri enda var bæði óvenjusólríkt og hlýtt - toppskor (5 stig) í báðum tilvikum. Úrkoma og úrkomudagafjöldi náði samtals 5 stigum - af tíu mögulegum. Júlí gaf hins vegar aðeins 6 stig og ágúst 9. Undanfarin sumur hafa verið miklu blandaðri á Akureyri heldur en í Reykjavík og bæði góðir og vondir mánuðir gengið hjá. Reykjavíkursumur síðustu ára hafa hins vegar nær eingöngu verið góð - og þá langflestir mánaðanna líka.
Gæðasumma mánaðanna þriggja á Akureyri er 30 stig (af 60 mögulegum). Frá 1928 hefur þó ekkert sumar náð meira en 40 stigum. Það var 2012 - í fyrra. Stigin 30 gefa akureyrarsumrinu 2013 22. sæti af 86. Meðaltal áranna 1961 til 1990 er 23 stig og meðaltal síðustu 10 ára 29 stig. Greinilega vel heppnað sumar á Norðurlandi austanverðu.
Í pistlinum í gær kom fram að sumardagafjöldinn til þessa á Akureyri væri 39. September á að meðaltali þrjá sumardaga nyrðra og október einn (1961 til 1990). Enn getur því bætt í fjöldann.
Enn verður að taka fram að einkunnagjöf þessi er leikur þó hann byggi á mælingum. Vísindagildi er ekkert. Þeir sem láta að því liggja eru á villigötum - megi þeir finna rétta veginn sem fyrst.
2.9.2013 | 00:04
Og Reykjavíkursumarið lenti í ...
Í júnímánuði fjallaði ritstjóri hungurdiska um meting um sumargæði - eða sumarhrak. Þar voru í skemmtunarskyni notaðar tvær mismunandi aðferðir til röðunar. Önnur aðferðin var kynnt í pistli þann 20. júní og kennd við sumardagatalningu. Hin birtist viku síðar og byggði á mánaðarmeðaltölum hita, fjölda úrkomudaga, mánaðarúrkomu og mánaðarsólskinsstundafjölda. Út frá þessu var gæðaeinkunn sumarsins reiknuð. Sumardagatalningin náði reyndar til ársins alls en gæðakvarðinn aðeins til mánaðanna júní, júlí og ágúst.
Hér verður ekkert fjallað um skilgreiningar - aðeins vísað í fyrri pistla og sterklega mælt með því að lesendur kynni sér leikinn frá grunni.
En hvernig kemur sumarið 2013 þá út í Reykjavík? Skemmst er frá því að segja að það var harla dauft og fær aðeins 9 stig í gæðaeinkunn. Til samanburðar má geta þess að meðaltal síðustu 10 áranna næst á undan er 33.stig Meðaltalið 1961 til 1990 er 20 stig. Þetta mat nær aftur til 1923, versta sumar alls tímabilsins fékk núll stig, það var 1983 en 2009 fékk flest, 41 stig.
Sumarið 2013 er í fimmta til sjötta neðsta sæti frá og með 1923. Lægri eru aðeins áðurnefnt 1983 og auk þess 1984 og 1925 (með 6 í einkunn) og 1976 (8 í einkunn), 1923 er með 9 stig eins og sumarið í ár. Með 10 stig eru 1989, 1975 og 1955, ómarktækt lægri en sumarið sem við nú höfum upplifað.
Sé litið á einstaka mánuði fékk júní 3 stig (af mest 20) og hafa ekki verið jafnfá í þeim mánuði síðan 1999, júní 2006 var með 4 stig. Júlímánuður var með 4 stig, það lægsta síðan 2001 - en sá júlí fékk þrjú stig. Ágústmánuður var lakastur allra með aðeins 2 stig og þarf að fara allt aftur til 1995 til að finna annan jafnslakan.
En hvernig kemur þá sumardagatalningin út? Hafa verður í huga að hún var býsna hörkuleg og allmargir sannarlegir góðviðrisdagar í Reykjavík 2013 náðu ekki inn á listann. Það var yfirleitt vegna þess að hiti var ekki nægilega hár. Rifjum upp að sumardagarnir töldust 50 í fyrrasumar, 2012, og meðaltal síðustu 10 ára (2003 til 2012) er 39 dagar.
Fjöldinn í ár er 13. Auðvitað er aðeins hugsanlegt að einhverjir bætist við í september en þegar haft er í huga að meðaltalið fyrir september 1961 til 1990 er 0,4 er ólíklegt að um það geti munað. Spár fyrir næstu viku gera líka ráð fyrir áframhaldandi garganda.
En þótt 13 sé aumingjaleg tala er hún þó jöfn meðaltalinu 1961 til 1990. Það þýðir að finna má haug af árum þegar sumardagarnir voru færri en nú. Fæstir voru þeir 1983, aðeins einn sumardagur skráði sig það árið. En sumardagar (samkvæmt skilgreiningu hungurdiska) hafa ekki orðið færri en nú síðan 1996 - þá voru þeir 10.
Á Akureyri urðu sumardagarnir í ár 39 (þar eru hins vegar að meðaltali þrír sumardagar eftir við lok ágústmánaðar. Meðalfjöldi sumardaga á Akureyri 1961 til 1990 er 36 (september þá innifalinn). Sumarið 2013 er sum sé yfir því meðaltali. Sumardagar voru færri á Akureyri sumarið 2011 heldur en nú.
Munið að hér er um leik að ræða en ekki mat á hnattrænum umhverfisbreytingum af mannavöldum eða af öðrum ástæðum. Sömuleiðis er hér nær eingöngu átt við ástandið í Reykjavík en lítið um aðra landshluta - og nákvæmlega ekkert um Austurland.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (31.3.): 106
- Sl. sólarhring: 320
- Sl. viku: 1638
- Frá upphafi: 2457193
Annað
- Innlit í dag: 87
- Innlit sl. viku: 1491
- Gestir í dag: 80
- IP-tölur í dag: 78
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010