Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2013
31.8.2013 | 01:17
Hraðferð
Þegar þetta er skrifað (seint að kvöldi föstudagsins 30. ágúst) er illviðrislægðin enn að dýpka fyrir norðan land - en síðan grynnist hún ört og gengur austur til Noregs. Svo er að sjá að þaðan fari hún suður til Svartahafs og síðan Mið-Asíu (ótrúlegt - en svona lætur spáin). Næsta lægð er svo komin til okkar strax á sunnudag. Henni fylgir skyndiferð í gegnum hlýjan geira sem sést vel á kortinu hér að neðan.
Jafnþykktarlínur eru heildregnar. Þykktin er mælikvarði á hita neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Litafletirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum en hann er oftast í 1300 til 1500 metra hæð. Hlýja loftið er hér á mikilli hraðferð til austurs og kaldara loft úr vestri bíður færis. Hver skyldi hitinn verða austanlands á sunnudag? Færir útsynningskuldinn eftir helgi okkur snemmbær slydduél?
Illviðrislægðin sem nú er að fara hjá skilaði mikilli úrkomu, sólarhringsmet ágústmánaðar virðist hafa fallið á nokkrum veðurstöðvum um landið vestanvert - en tímahrak ritstjórans kemur í veg fyrir frekari umfjöllun að þessu sinni.
Sumar að hætti Veðurstofunnar nær alveg til loka september en að alþjóðahætti lýkur sumri laugardagskvöldið 31. ágúst. Fyrr í sumar fóru hungurdiskar í sumrameting og gáfu Reykjavíkursumrum síðustu 90 ára eða svo einkunn. Svo virðist sem það núlíðandi lendi afskaplega neðarlega á listanum þrátt fyrir sæmilega spretti. Eftir nokkra daga getum við litið á stigagjöfina og bíðum spennt þangað til umslagið verður opnað - og sumarið 2013 lenti í ...
30.8.2013 | 00:47
Enn um stefnumót föstudagsins
Í dag hefur enn verið talsvert hringl á illviðrisspánum - evrópureiknimiðstöðin dró talsvert úr veðrinu í miðnæturrunu sinni - en gekk síðan aftur til svipaðs ástands og spáð var í gær þegar kom að hádegisrununni. Af þessu má auðvitað sjá að þeir veðurfræðingar sem gefa út alvöruspár geta ekkert hætt því að fylgjast mjög náið með alveg þar til tími illviðrisins er liðinn hjá. Ritstjóri hungurdiska getur hins vegar leyft sér að fylgjast með úr fjarlægð - og getur litið undan þegar honum svo sýnist. Til allrar hamingju gerir hann engar spár - masar aðeins um þær.
En lítum fyrst á mynd sem sýnir samanburð sjávarmálsspár evrópureiknimiðstöðvarinnar á hádegi í dag (fimmtudag 29. ágúst) og hádegisspárinnar í gær. Kortið gildir kl. 24 á föstudagskvöld.
Heildregnu línurnar sýna nýrri spána en punktalínurnar spána frá í gær. Lituðu svæðin sýna svo mismuninn, þau rauðu þekja svæði þar sem þrýstingur spárinnar í dag er meira en 2,5 hPa lægri heldur en spáin í gær sýndi en þau bláu þar sem spáin i dag sýnir hærri þrýsting en í gær.
Lægðin er greinilega ámóta djúp - örlítið vestar heldur en spáð var í gær, en þrýstingi er nú spáð heldur lægri vestur undan heldur en í gær.
Næsta kort ber saman spána frá miðnætti og hádegisspána á sama hátt.
Hér er málið annað og vel sést hversu linari miðnæturspáin var heldur en bæði spáin frá hádegi í gær og sú nýjasta - frá hádegi í dag. Með lagni má sjá tölu í dökkrauða svæðinu. Hún sýnir 7,2 hPa. Það er umtalsvert fyrir spá sem nær innan við tvo sólarhringa fram í tímann. Eftir að hafa linast á spánni síðastliðna nótt herðir aftur á þannig að niðurstaðan verður svipuð og í gær.
En - það er reyndar fleira sem hefur breyst. Í gær var ekki reiknað með að lægðin næði að mynda það sem við köllum venjulega snúð eða lægðasnúð. Inni í slíkum eru oftast öflugar lægðarmiðjur, þrýstilínur þéttar og vindur mikill. Við ættum kannski að fjalla nánar um þetta fyrirbrigði síðar og hugsanlegar aðrar nafngiftir, en hér nægir að nefna tvö mikilvæg einkenni þess.
Það fyrra er eins konar hnútur mjög lágra veðrahvarfa, hola í veðrahvarfafletinum - hið síðara að í neðri hluta veðrahvolfs er hlýrra loft heldur en umhverfis. Sumir segja að loft úr hlýja geira lægðarinnar hafi lokast þar inni - við skulum þykjast trúa því - hér er ekki vettvangur trúarbragðadeilna. En alla vega - það er hlýrra loft inni í snúðnum heldur en utan við hann. Þetta er frábrugðið venjulegu ástandi þar sem loft er mjög kalt undir lágum veðrahvörfum.
En lítum fyrst á veðrahvarfaspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 6 að morgni laugardags.
Kortið nær yfir sama svæði og þau að ofan og sýnir þrýstihæð veðrahvarfanna - það er að segja hver þrýstingurinn er í þeim. Bláu svæðin sýna mjög há veðrahvörf. Tölur og litir standa fyrir hPa. Kortið batnar við stækkun. Hér sést veðrahvarfaholan rétt norðan við land - í lægðarmiðjunni. Þar má sjá töluna 729 hPa og hvítfjólubláan blett. Veðrahvörfin sýnast hér ganga niður fyrir 3 km hæð. Þetta segir út af fyrir sig ekkert um vind eða þrýstifar við sjávarmál - veðrahvarfaholur án hvassviðra eru mjög algengar.
En - til að áhrif þrýstibrattans í kringum holuna gæti við sjávarmál verður að vera hlýrra undir henni heldur en utan við - eða að minnsta kosti mjög flatt þykktarsvið (hitasvið). Veðrahvörfin liggja hér miklu lægra heldur en spáð var í gær. Það þýðir að einhver aðili stefnumótsins (sem munar um) hefur mætt óvænt á svæðið. Við getum því miður ekki velt vöngum yfir því hér - pistillinn þegar orðinn allt of langur. En höfum í huga að holan er mikið smáatriði í stórum heimi - eitt þeirra sem getur vel horfið milli einstakra spáruna líkana - eða glatast í einu líkani en dúkkað upp í öðru.
Næsta kort sýnir hita og vind í 925 hPa-fletinum á sama tíma og veðrahvarfakortið gildir.
Jafnhæðarlínur eru heildregnar, vindur er sýndur með hefðbundnum vindörvum en hiti með litum. Hér sést að hlýjast er í lægðarmiðjunni - eins og vera ber í snúðum. Mjög hvasst er sunnan við - 30 m/s í innan við 500 m hæð. Vinds af þessu tagi getur hæglega gætt á fjöllum og við horn í landslagi þótt hann sé almennt minni niður við sjávarmál. Þarna er veðrið farið að ganga niður á Vestfjörðum.
Við lítum að lokum á snjókomuspá harmonielíkansins sem sýnir ákomuna frá kl. 18 á föstudag til kl. 06 á laugardag - 12 klukkustundir liggja undir.
Gráu svæðin sýna hvar sýndarsnjór hefur fallið, mínustölur sýna hvar snjór sem fyrir var hefur bráðnað. Við sjáum að sýndarsnjór hylur stóran hluta hálendisins. Langmestur er hann þó á austanverðum Tröllaskaga. Þar eru tölur á bilinu 40 til 75 kg á fermetra. Í lausamjöll jafngildir það 40 til 75 cm dýpt. Þetta eru þó einstök hámörk - gildin á kortinu eru yfirleitt talsvert lægri.
Þar sem þessi snjór fellur víðast hvar á auða jörð bráðnar mikið nærri því um leið auk þess sem hann verður krapkenndur - eðlismassi er þá talsvert hærri heldur en í lausamjöllinni og snjódýptin þar af leiðandi minni en hráar tölur kortsins gefa til kynna.
Ef menn skoða smáatriðin kemur í ljós að 2 kg á fermetra hafa bráðnað úr Esjunni, sá snjór féll í líkaninu fyrir kl. 18 á föstudag - skyldi Esjan grána í kollinn í þessu hreti?
Enn er minnt á að hungurdiskar gefa ekki út spár - öll túlkun lesenda í þá veru er á eigin ábyrgð. Þeir eru hins vegar hvattir til að fylgjast með spám Veðurstofunnar - þar er símannað allan sólarhringinn og fylgst er með veðri og tölvuspám frá mínútu til mínútu.
Lýkur hér þessum allt of langa pistli um átök og örlög í sýndarheimum.
29.8.2013 | 00:16
Stefnumótsfréttir
Hér verður haldið áfram að fylgjast með veðurstefnumóti föstudagsins. Evrópureiknimiðstöðin hefur heldur linast á snerpu þess - en bandaríska veðurstofan heldur grautnum heitum.
Ekki það að reiknimiðstöðin hafi skipt yfir í einhverja blíðu - síður en svo - en samt er útlitið heldur skárra en það sem hún veifaði í gær. Við lítum fyrst á kort sem gildir á sama tíma og kortið sem fjallað var um í gær.
Lægðirnar þrjár eru merktar eins og í gær. Svörtu heildregnu línurnar sýna sjávarmálsþrýsting eins og reiknimiðstöðin spáir að hann verði um hádegi á fimmtudag. Hér þarf að taka sérstaklega fram að kortið er úr hádegisspárunu reiknimiðstöðvarinnar - byggir á greiningu frá hádegi í dag miðvikudag. Strikalínurnar sýna hins vegar spá gærdagsins, það er að segja þá þrýstispá sem byggði á hádegisgreiningu þriðjudagsins.
Við sjáum að strikalínur og heildregnar falla ekki alveg saman - það munar lítillega á spánum tveimur. Litafletirnir sýna svæði þar sem munurinn er meiri en 2,5 hPa. Á rauðleitu svæðunum sýnir spáin í dag lægri þrýsting heldur en sú í gær, en á þeim bláleitu er þrýstingi spáð hærra heldur en var gert í gær.
Í spá dagsins í dag eru lægðirnar tvær suður í hafi um 100 km austar heldur en þeim var spáð í gær. Þetta kann að virðast lítið en ef þessi óvissa væri færð yfir á vindstreng yfir Íslandi ættu menn að átta sig á því að hér getur skilið á milli illviðris og mun skárra veðurs. Svona óvissa veldur því að staðsetning óveðurslægðarinnar sjálfrar er að hnikast enn meira til (óvissan magnast fram í tímann) auk þess sem dýpt hennar og snerpa hoppar til frá einni spárunu til annarrar.
Spákortin tvö sem víð lítum á hér að neðan eru sem sagt talsvert óviss þegar kemur að smáatriðum - en mismunandi staðsetning smáatriða verður að aðalatriði þegar raunverulegt veður gengur yfir.
Næsta kort sýnir veðrið eins og reiknimiðstöðin spáir því í hádegisrununni í dag klukkan 21 að kvöldi föstudags. Þá er lægðin nálægt fullri dýpt skammt fyrir norðan land.
Kortið verður greinilegra sé það stækkað. Jafnþrýstilínur eru heildregnar, vindur er sýndur með hefðbundnum vindörvum og 3 klukkustunda úrkoma með grænum og bláum litum. Mörkin milli grænna og blárra lita er við 5 mm/3 klst. Séu úrkomusvæðin skoðuð nánar má sjá þar litla þríhyrninga og litla krossa. Krossarnir tákna snjókomu.
Úrkomusvæðið sem liggur frá Vestfjörðum og til suðausturs inn á mitt land er þakið krossum. Þar er snjókoma - sem vonandi bráðnar í lágsveitum. Vindurinn í úrkomubeltinu er víðast um 15 til 20 m/s. Ætli það verði ekki algengur vindhraði á svæðinu. Sjálfsagt verður hvassara í vindstrengjum - það sést ef við förum upp í 925 hPa-fötinn en hann er í um 500 metra hæð yfir Vestfjörðum þegar spáin gildir.
Hér eru jafnhæðarlínur heildregnar, vindur er sýndur með hefðbundnum vindörvum og hiti er sýndur með litum. Á græna svæðinu yfir Vestfjörðum er hann undir frostmarki - frost er sem sagt í 500 metra hæð yfir sjávarmáli. Vindur er hér meiri heldur en á yfirborðskortinu að ofan, hann er um 25 m/s á allstóru svæði. Sömuleiðis eru stór svæði suður og austur í hafi þar sem vindur er 25 m/s eða meiri.
Norðankuldastrengurinn er mjög mjór og talsvert hlýrra loft er austan við hann - það er svona með herkjum að kalda loftið sleppi suður fyrir Scoresbysund á Grænlandi - til að angra okkur.
Eins og sagði í upphafi þessa pistils reiknar bandaríska veðurstofan lægðina nú um 5 hPa dýpri en sýnt er á kortunum. Það er ekki gott að segja af hverju þessi munur stafar en í spá reiknimiðstöðvarinnar sleppur slatti af hlýja, raka loftinu austur og út úr lægð eitt á kortinu að ofan - mætir sum sé ekki á stefnumótið - það gæti munað því.
Þessi illviðrislægð er skyld þeirri sem kennd hefur verið við Súðavíkursnjóflóðið. Sú var reyndar miklu verri - sannkallað gjörningaveður. Lægðirnar eiga það sameiginlegt að verða til úr flóknum samruna margra veðurkerfa sem eiga stefnumót yfir landinu sjálfu og springa þar út og dýpka á örskömmum tíma.
Það er erfitt fyrir vind að blása af norðvestri um vestanvert landið, venjulega fer hann frekar í vestur eða norðnorðvestur - eða þá nærri logn - svikalogn er þá algengt.
Það gerist ekki nema um það bil sjöunda hvert ár að jafnaði að þrýstingur í ágúst fer niður yfir 978 hPa á íslenskri veðurstöð og einu sinni á tuttugu árum undir 970 hPa. Lægsti þrýstingur sem mælst hefur í ágúst hér á landi er 960,9 hPa það var í miklu norðaustanillviðri 1927. Þá rigndi gríðarlega á Norður- og Austurlandi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2013 | 00:05
Stefnumót á föstudag
Flest illviðri verða til við stefnumót lofts eða veðurkerfa af mismunandi uppruna. Svo er einnig með illviðrið sem virðist vera í pípunum þegar þetta er skrifað (þriðjudagskvöldið 27. ágúst). Ólíkt því sem gerist í nútímamannheimum geta veðurkerfin ekki notað símann til að ná sambandi ef stefnumótið misferst. Ef þannig fer er það bara búið - eitthvað allt annað verður úr en það sem einhvern tíma stóð til.
Sjálfsagt má lengi telja þá aðila (þau kerfi) sem taka þátt í myndun illviðrisins og greinendur (veðurfræðingar) ekkert endilega sammála um mikilvægi þeirra. En hér verður minnst á sex - það er býsnastór hópur. Reiknimiðstöðvar þurfa að henda reiður á öllu og spá fyrir um ferðir þátttakenda. Til upptalningarinnar er valið spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á fimmtudag. Tíminn er valinn vegna þess að þá eru kerfin öll komin vel inn á Atlantshafskortið og ekki mjög langt á milli þeirra.
Stefnumótið sjálft á að sögn að verða um hádegi á föstudag. Þá mætast fjögur kerfi af sex, það fimmta bætist við á aðfaranótt laugardags en það sjötta virðist nú ætla að missa af mótinu - við skulum bara segja eins og er - til allrar hamingju. En lítum á myndina:
Eins og nefnt var að ofan gildir kortið á hádegi fimmtudaginn 29. ágúst - sólarhring fyrir stefnumótið. Jafnþrýstilínur eru svartar og heildregnar. Sjá má að þær afmarka þrjár lægðir sem merktar eru með tölustöfunum 1, 2 og 3. Þeir sem sjá vel geta með því að stækka kortið séð daufgerðar strikaðar og fjólubláar jafnþykktarlínur. Hefðbundnar vindörvar sýna vindhraða og stefnu í 700 hPa-fletinum en hann er í tæplega 3 km hæð frá jörð. Litafletir sýna þykktarbreytingu síðustu 6 klukkustundir. Svæði þar sem þykktin hefur hríðfallið eru blá, en gulir litir afmarka þykktarris.
Öll kerfin stefna í átt til landsins. Lægð eitt er komin langt suðvestan úr hafi og inniheldur mikið af röku lofti, þrungnu dulvarma sem bíður eftir því að losna og belgja út efri hluta veðrahvolfsins. Það greiðir enn frekar fyrir uppstreymi, meiri dulvarmalosun og þrýstifalli við sjávarmál.
Lægð tvö hefur orðið til við jaðar mikillar kuldaframrásar - þetta eru aðalkuldaskil stefnumótsins. Þar sem þau ryðjast fram lyftist loft við skilin - en lág veðrahvörf fylgja í kjölfarið. Þegar þessum lágu veðrahvörfum slær saman við rakalosun lægðar eitt - verður til aukaþrýstifall og stefnumótalægðin dýpkar mjög mikið á stuttum tíma.
Langalgengast er að lægðir eins og þessar tvær farist á mis á hraðferð sinni til norðausturs. Í þessu tilviki á lægð þrjú að koma í veg fyrir það. Hún er hringrásarmest þessara lægða, margar heilar jafnþrýstilínur eru í kringum lægðarmiðjuna. Hringrásin nær að grípa minni lægðirnar og síðan halar hún þær inn í sameiginlegt hringrásarból, jafnframt því að hreyfast til suðausturs. Gerist þetta á samtímis stefnumóti hinna lægðanna bætir enn í kraft stefnumótalægðarinnar.
Hér má taka fram að stundum ná stærri lægðirnar í stöðu sem þessari ekki að sameinast þeim fyrri. Þá gerist það gjarnan að úr verður stór og flatbotna lægð með illviðri úti við jaðrana en besta veðri næst flókinni lægðasamsuðunni. Gerist þetta nú verður ekkert að marki úr illviðri stefnumótsins og öll þessi lýsing hér þar með komin í einhvern þokukenndan kannskiheim.
En þetta voru fyrstu þrjú kerfin eða þættirnir af sex. Númer fjögur er kalda loftið við Grænlandsstrendur - það bíður sífellt tækifæra til að herja á okkur. Það lætur sig varla vanta að þessu sinni - en sést varla á þessu korti. Við gætum litið nánar á það síðar.
Númer fimm er hlýr háloftahryggur sem fylgir í kjölfar lægðar tvö. Hryggurinn þrengir að lægðakerfinu og ýtir því til austurs. Ef hann mætir ekki verður veðrið norðaustlægara og trúlega vægara en ella. Kerfi númer sex missir af stefnumótinu. Það er veðrahvarfahes eða fingur sem fer beint austur til Bretlandseyja - eða svo er nú að sjá.
Í gær (þriðjudagskvöld) virtist hins vegar sem fingurinn næði að læsast í bakhlutann á lægð tvö og dýpka hana umtalsvert. Ólíklegt er að spár fari að hringla með þetta enn á ný - en það er svosem aldrei að vita. Örlagastund stefnumóts fingurs og lægðar tvö er klukkan 6 á föstudagsmorgni. Nái hann taki dýpkar lægðin sennilega um 6 til 8 hPa - og munar um minna.
Lesendur eru eins og venjulega beðnir um að varast að láta þvöglusímalanda ritstjórans yfirgnæfa rödd alvöruspárinnar - þeirrar sem Veðurstofan gefur út. Hún byggir á nýjustu og bestu upplýsingum á hverjum tíma.
14.8.2013 | 00:07
Sumri fer að halla í heiðhvolfinu
Að vanda fara veðurkerfi að halla sér til hausts þegar kemur fram í miðjan ágúst. Á hverjum stað er þó mjög misjafnt hversu lengi sumarið heldur velli. Hér á landi er ágúst alloft hlýjasti sumarmánuðurinn, í Reykjavík er því þannig varið um það bil þriðja hvert ár. Aftur á móti er september örsjaldan hlýjastur og hefur það ekki gerst í höfuðborginni síðan 1877 og þá var munurinn á honum og júlí svo lítill að algjörlega ómarktækt er. En við gerum eins og í íþróttunum, látum gullið ráðast á sjónarmun.
Í kringum miðjan ágúst fer lofthjúpurinn að hefja umstöflun fyrir veturinn. Á sumrin er austanátt ríkjandi ofan við 20 km hæð við Ísland - en vestanátt á vetrum. Snúningurinn frá vestri til austurs á vorin er oftast eindregnari heldur en frá austri til vesturs á haustin. En við 30 hPa-flötinn verða umskiptin á tímabilinu 15. ágúst til 15. september hér við land.
Kortið hér að neðan er úr safni bandarísku veðurstofunnar (gfs-líkanið) og sýnir hæð og hita í 30 hPa kl. 18 síðdegis á þriðjudag (13. júlí). Jafnhæðarlínur eru heildregnar en hiti er sýndur með litum (litakvarðinn skýrist mjög sé kortið stækkað). Flöturinn er í rúmlega 24 km hæð frá jörðu.
Sunnan við 55°N eru jafnhæðarlínurnar nokkurn veginn hringlaga, samsíða breiddarbaugunum, vindur blæs úr austri. Norðar er flatneskja ríkjandi, svæðið skiptist á milli hæðar og mjög grunnrar lægðar. Austanáttin helst lengst frameftir syðst á kortinu en mjög eindregna vestanátt gerir í kringum lægð sem dýpkar og dýpkar jafnt og þétt allt haustið.
Enn er áberandi hlýjast í kringum norðurskautið en næstu mánuði kólnar langmest þar. Um leið og vestanáttin nær sér á strik geta heiðhvolf og veðrahvolf farið að talast við.
Það er líka um miðjan ágúst sem fer að kólna á norðurslóðum. Þá kólnar að jafnaði meira nyrst heldur en sunnar og hitamunur (þykktarbratti) vex hröðum skrefum og tíðni illviðra tekur stökk upp á við. Þeir lesendur sem nenna geta rifjað upp pistil á hungurdiskum sem skrifaður var um þetta leyti í fyrra (2012). Þar er bent á 13. ágúst sem snúningsdaginn mikla þegar gangan til hausts hefst (en það má auðvitað ekki taka of bókstaflega).
13.8.2013 | 00:19
Vindur og ísrek
Fyrir nokkrum dögum urðu dálítil orðaskipti um ísrek í suðurhöfum í athugasemdadálki hungurdiska. Þar sem svör ritstjórans voru heldur stuttaraleg er rétt að birta hér heldur lengri skýringartexta - en hann telst þó líka stuttur. Einfaldanir eru svo miklar að smámunasömum ofbýður - en hvað um það.
Mælingar hafa sýnt að vindur hefur mikil áhrif á ísrek - svo mikil að nefnt hefur verið að hann skýri allt að 70% ísreks í Norðuríshafinu. Talað er um að ísinn reki í stefnu um allt að 45 gráður hægra megin vindstefnunnar. Sé þetta tekið bókstaflega á vindur sem blæs úr vestsuðvestri (um 240 gráður) að veita ísreki úr stefnunni 280 gráður - rétt norðan vesturs, það er að segja Í stefnu rétt sunnan við austur.
Á suðurhveli jarðar snýst þetta við, vindur þar ber ís í stefnu um 45 gráður vinstra megin vindstefnunnar. Þetta sýnum við á einfaldri mynd, norður er upp. Á henni er hornið reyndar ekki nema 30° - við leyfum okkur að láta hafstraum taka þátt í hreyfingunni til austurs.
Norðurhvelsmyndin gæti t.d. vísað til Grænlandssunds, suðvestanátt á þeim slóðum ber um síðir ís til Íslands standi hún nógu lengi.
Næsta mynd er öllu flóknari. Hún á að sýna einfaldaða stöðu í Norðuríshafi. Hvað gerist ef lægð situr yfir norðurskautinu með sinni andsælishringrás.
Hér ímyndum við okkur að bláleiti hringurinn sé Norðuríshafið þakið hafís. Vindurinn hrekur ísinn út til jaðarstranda hafsvæðisins. Komi þessi staða upp snemma sumars rekur ís sífellt frá miðju svæðisins út til jaðrana. Vakir eru dreifðar og litlar. Megnið af sólarorkunni endurkastast af ísnum og nýtist illa til bráðnunar.
Næsta mynd sýnir aðra stöðu síðla sumars. Þá hafa vindar (t.d. háþrýstisvæði) stuðlað að því að halda ísnum við skautið saman framan af sumri. Þá gefst færi til myndunar stærri vaka sem taka mun betur við sólarorkunni heldur en ísi þöktu svæðin.
Í raunveruleikanum má telja útlokað að nákvæmlega þessi staða komi upp á næstunni, en aftur á móti önnur náskyld, það er að segja að mestallur ísinn safnist saman á annarri hlið hringsins og stórt autt svæði myndist hinum megin. Öflug lægð sem kemur inn yfir ísþekju sem liggur á þennan hátt getur nú dreift mjög úr ísnum og nú út á svæði sem fengið hefur að hlýna í friði í sólinni.
Gróflega má segja að efri myndin sýni stöðu núlíðandi sumars. Ísþekjan er meiri en undanfarin ár - hún hefur gisnað í sumar - en stór íslaus svæði hafa látið á sér standa og eru þar með að missa af sumarsólinni. Bráðnun gæti þó staðið í fáeinar vikur til viðbótar.
Þótt þetta sé gróflega einfaldað er huglíkanið vonandi gagnlegt. En lítum líka til suðurhvels jarðar. Þar er staðan mjög ólík þeirri á norðurhveli. Land umlykur suðurskautið og í kringum það er opið haf allan hringinn. Á norðurhveli umlykur land haf í kringum skautið.
Suðurskautslandið er neðst á myndinni - ljósblátt. Norðan við það er vindur af austri og leitast við að ýta ís upp að ströndinni. Þar þjappast hann saman. Úti fyrir ríkir vestanáttin. Vindáttir eru því andhverfar og leitast við að flytja ís sín til hvorrar áttarinnar, austanáttin næst landi þjappar - en vestanáttin dreifir úr. Við Suðurskautslandið austanvert er þjöppunarsvæðið mjótt en breiðara við vesturhlutann.
Á sumrin bráðnar nær allur hafísinn - síst þó þar sem þjöppunarsvæðið er breiðast á vesturhelmingi strandarinnar. Þegar haustar byrjar ís að myndast næst landi en síðan úti við straumamótin. Ís sem þar myndast flyst hratt til norðurs og nýjar vakir myndast stöðugt. Þær frjósa þannig koll af kolli. Yfir háveturinn er ísmyndunin það mikil að hún gengur langt norður fyrir straumamótin, en nær aldrei norður í meginkjarna vestanstraumsins mikla sem hringar sig um jörðina, knúinn af æðisgengnum vestanvindi. En ísinn bráðnar og verður að köldu vatni sem vindurinn dregur einnig til norðurs.
Þegar komið er svo langt norður að draga tekur úr vestanáttinni kemur að því að norðurdrátturinn minnkar. Þar verða því til samstreymisskil í sjónum sem hindra frekari útbreiðslu norður á bóginn.
Öll er þessi mynd sem dregin er upp hér einfölduð mjög og einungis ætluð til að auðvelda mönnum fyrstu áttun í umræðunni.
Landaskipan heldur mjög að ísreki á norðurslóðum - ísinn gengur ekkert upp á láglendi Síberíu. Berings- og Okhotskhöf eru innhöf úr Kyrrahafinu, lítill ís myndast utan þeirra í Kyrrahafinu. Hafsvæðin við Nýfundnaland, Ísland og sunnan Svalbarða eru opnari - þar nær ísinn að litlum hluta inn í vestanvindabeltið nyrðra. Norðurjaðar suðurhafsíssins hefur ekkert aðhald frá landi, útbreiðsla hans ræðst af flóknu samspili vinds og sjávarstrauma.
12.8.2013 | 00:59
Eitt stykki hraðfara hæðarhryggur - síðan löööng lægð
Vesturloftið, frá Reykjavík séð, hreinsaðist alveg niður að sjóndeildarhring undir kvöld (sunnudags 11. ágúst). Nú er hraðfara hæðarhryggur að fara yfir og má sjá hann á korti hirlam-líkansins hér að neðan en það gildir kl. 18 á mánudag.
Jafnþrýstilínur eru svartar og heildregnar, litaðar strikalínur sýna hita í 850 hPa (í um 1500 metra hæð) og lituðu svæðin sýna úrkomumagn næstliðnar 6 klukkustundir. Hér er miðja hryggjarins yfir landinu og farið að anda af suðvestri vestanlands. Með suðvestanáttinni dregur fljótt upp súldarbakka inn á landið. Alvöruúrkomusvæði fer síðan yfir á aðfaranótt þriðjudags.
Lægðin suðvestan við Grænland hreyfist hins vegar hægt til austurs - hún er hluti af nokkuð langri háloftabylgju sem á að ráða veðri hér á landi í nokkra daga - með veðurdeyfð mikilli um landið sunnan- og vestanvert. Ekki gott að segja hvenær léttir aftur almennilega til því lægðarbeygja verður ríkjandi í háloftunum yfir landinu eins langt og spár sjá - að slepptum mánudeginum. Munum þó að spám skeikar oft svo um munar. Nyrðra og eystra verða þurru kaflarnir snöggtum lengri.
11.8.2013 | 01:59
Yfirborðshiti
Öll frambærileg veðurspálíkön þurfa að vita eitthvað um yfirborðshita lands og sjávar. Gervihnettir geta gefið grunnupplýsingar um þessi atriði - svona þegar viðrar til slíkra athugana. Líkönin reikna síðan varmaskipti lofts og yfirborðs og hitanum eftir því hvernig varmaskipti ganga fyrir sig. Sjávarhitinn breytist ekki mikið frá degi til dags en öðru máli gegnir um þurrlendi.
Upplýsingar um yfirborðsgerð, raka eða gróðurfar skipta því meira máli sem líkönin ná til smærri og smærri svæða. Allsherjarheimslíkön geta leyft sér heldur grófari mynd. Nýlega minnkaði evrópureiknimiðstöðin Vatnajökul verulega og þá bötnuðu spár þeirra um hita í kringum hann verulega.
Við lítum á spá reiknimiðstöðvarinnar um yfirborðshita lands og sjávar síðdegis á sunnudag (11. ágúst).
Sjávarhiti er á bilinu 10 til 15 stig á öllu hafsvæðinu sunnan Íslands. Þetta svæði nær einnig til vesturstrandarinnar, en við Austurland liggur að venju köld tunga Austuríslandsstraumsins. Þar sýnist hitabilið 6 til 8 stig ná alveg upp að Austfjörðum sunnanverðum.
Þrátt fyrir þessa hitadreifingu (hlýtt vestan við - kalt austan við) er meðalstaðan samt þannig í neðri hluta veðrahvolfs að hlýrra er fyrir austan land heldur en vestan. Það þýðir að hiti fellur hraðar með hæð undan Vesturlandi heldur en undan Austurlandi. Loftið er óstöðugra vesturundan heldur en eystra. Þetta á við meðalástand - einstaka daga bregður mjög út af.
Við sjáum að stóru jöklarnir fjórir koma vel fram á kortinu. Blár blettur er í þeim öllum en blái liturinn sýnir hita á bilinu frá frostmarki niður í -2 stiga frost. Eins og minnst var á að ofan var jöklamynd reiknimiðstöðvarinnar mjög grófgerð þar til að bætt var úr í júnílok nú í sumar. Reyndist breytingin ekki hafa áhrif á veðurspár í öðrum löndum (já - það var athugað).
Sá yfirborðshiti lands sem sýndur er á kortinu á reyndar að vera meðalhiti frá yfirborði niður á 7 cm dýpi. Það er til þess að það landið sé ekki alveg minnislaust - við það yrðu hitasveiflur mjög stórar. Sá minnislausi yfirborðshiti er reyndar tíundaður sérstaklega í líkaninu. Á ensku heitir hann skin temperature - við getum kallað hann annað hvort himnuhita eða geislunarjafnvægishita.
Á kortinu að ofan er yfirborðshiti hæstur við Dýrafjörð - 17,6 stig. Þar á að vera glampandi sól á gildistíma spárinnar.
9.8.2013 | 00:24
Hitar víða um lönd (eins og oftast á þessum árstíma)
Sumarið er enn í full fjöri á norðurhveli jarðar og víða að fréttist af hitum. Þeir eru sums staðar óvenjumiklir - en samt ekkert út úr kortinu eða þannig. Kínahiti hefur verið í fréttum að undanförnu og nú í dag mun nýtt landshitamet hafa verið sett í Austurríki. Hiti hefur mælst meiri en áður er vitað á fjölmörgum stöðvum á þeim slóðum. Um ný hitamet má að venju lesa á síðu Maximilliano Herreira og hungurdiskar hafa oft vitnað í áður.
Óvenjuhlýtt er núna yfir heimskautahéruðum Kanada vestanverðum, en meiriháttar kuldakast á þónokkuð stóru svæði sunnar í landinu. Þetta sést allt vel á hæðar- og þykktarkortum dagsins.
Fyrra kortið sýnir Evrópu, allt frá Íslandi í norðvestri og suður til miðausturlanda. Mikill hæðarhryggur er yfir álfunni austanverðri og í honum er þónokkuð svæði þar sem þykktin er meiri en 5760 metrar. Svona mikil þykkt gefur tilefni til hámarkshita í kringum 40 stig - eins og mældist á svæðinu í dag. En það er eins þar og hér að há þykkt gerir háan hita mögulegan en þar með er ekki sagt að hann eigi sér stað - kalt loft í allra neðstu lögum eða blaut jörð geta komið í veg fyrir met og gera það oft.
Þessi hlýi hryggur er á leið austur að sögn evrópureiknimiðstöðvarinnar og þar með kólnar - trúlega með þrumum og látum.
Hitt kortið er miðjað á norðanvert Kanada. Þar eru litir ljósari enda erum við langt norðan 5760 metra jafnþykktarlínunnar.
Ísland er hér í efra horni til hægri. Mikil hæð er við mörk meginlandsins og þykktin þar vel yfir 5640 metrum. Það er mjög mikið norður við 70. breiddarstig og hiti yfir 25 stigum þar sem sjávarloft nær ekki til. Kuldapollur er suðvestan við Hudsonflóa - ekki stór. Síðan er það kuldapollurinn mikli við norðurskautið. Hann fer enn í hringi í kringum sjálfan sig - en reiknimiðstöðvar segja hann eiga að halla sér heldur á Kanadísku hliðina í næstu viku eftir að sleikja Svalbarða um helgina. Við vonum að rétt sé farið með.
8.8.2013 | 01:14
Af sólmánuði
Eftir nokkra bið er hér komið að þriðja íslenska sumarmánuðinum í umfjöllun hungurdiska. Það er sólmánuður - alltaf réttnefni að því leyti að sól er þá enn hátt á lofti, en síður réttnefni á sólarlitlu sumri. Á þessu ári (2013) byrjaði sólmánuður 24. júní og lauk 23. júlí og greip þannig um það bil daufasta kafla sumarsins.
Við víkjum fyrst að morgunhitanum í Stykkishólmi - eins og hann hefur verið á sólmánuði allt frá 1846 þar til í ár.
Lóðrétti ásinn sýnir hita, sá lárétti árin. Súlurnar sýna þá meðalhita sólmánaðar einstök ár tímabilsins. Hér má glöggt sjá hversu kalt tímabilið 1961 til 2000 er miðað við heildina. Köldustu mánuðirnir eru þó sem fyrr á 19. öld. Hlýjastur var sólmánuður 1936, svipaður hiti var 1880 og 2009. Kaldast var 1862 og 1892, 1979 er fremstur meðal jafningja á síðari áratugum.
Við sjáum (illa) að meðalhiti sólmánaðar 2013 (lengst til hægri) er rétt um 10 stig, um 1 stigi ofan við meðaltalið 1961 til 1990. Svo vill til (okkur til sérstakrar skemmtunar) að þetta er kaldasta 30-ára tímabilið (á sólmánuði) sem hægt er að finna á myndinni. Hitinn á sólmánuði nú er hins vegar um 0,5 stig undir meðaltali síðustu 10 ára.
Hlýjasti sólmánuður í Reykjavík frá og með 1949 var 2009, 2010 í öðru sæti og 1991 í því þriðja. Kaldast var í Reykjavík á sólmánuði 1979 og næstkaldast 1983.
Sólmánuður var sólarlítill í Reykjavík í ár eins og sést á myndinni hér að neðan, sá lakasti síðan 1983, en nokkrir mánuðir eru þó skammt undan þeirri deyfð.
Lóðrétti ásinn sýnir sólskinsstundafjöldann en sá lárétti vísar í árin. Hér má sjá að sólmánuðir áranna 2007 til 2012 voru allir sérlega sólríkir, en 1939 slær þeim þó öllum við. Myndin sýnir áberandi sólarleysi á árabilinu frá 1975 til og með 1989.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 11
- Sl. sólarhring: 183
- Sl. viku: 2458
- Frá upphafi: 2434568
Annað
- Innlit í dag: 9
- Innlit sl. viku: 2183
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010