Af hlýju lofti (hve hlýju?)

Eins og gefið hefur verið í skyn í veðurspám er líklegt að hiti fari í meir en 20 stig á landinu á morgun (mánudag) og þriðjudag. Áherslu verður þó að leggja á að enn (á sunnudagskvöldi) er um spá að ræða. Lítum fyrst á gervihnattarmynd frá því kl. 22 á sunnudagskvöld.

w-blogg030613a

Útlínur landa eru sýndar með grænum lit. Myndarleg lægð er suðvestur í hafi, um 979 hPa í miðju. Hún þokast norður á bóginn en á að grynnast í nánast ekkert áður en hingað til lands er komið á fimmtudag. Öflug hæð er á norðurleið yfir Bretlandseyjum. Sumar spár segja hana ná 1038 hPa úti af Norður-Noregi á þriðjudag - það væri frekar óvenjulegt.

En milli lægðar og hæðar er öflug sunnanátt og verður víða allhvasst eða hvasst hér á landi þegar hún nær til landsins. Aðalspurningin fellst í því hvort eða hvenær kuldaskil fara yfir landið. Yfirleitt þegar vindur snýst úr austri í suðaustur og síðan suðurs heldur snúningurinn áfram yfir í suðvestur eða vestur. Loftþrýstingurinn fellur þá mest í suðaustanáttinni, hægir síðan á í sunnanáttinni, en stígur síðan í suðvestanáttinni.

Að þessu sinni gæti verið að þegar vindurinn er kominn í suður snúist hann ekki í suðvestur heldur leiti aftur í suðaustur og þá með hækkandi þrýstingi. Vestanloftið lætur standa á sér - tefst um sólarhring eða svo. Það er ágætt - en hlýjasta loftið þýtur áfram til Norður-Noregs.

Það er heldur leiðinlegt að hæsti mættishitinn fer hjá landinu um miðja nótt. Það sést á spákortinu hér að neðan. Það er reiknað af evrópureiknimiðstöðinni.

w-blogg030613b

Þetta er kl. 3 á aðfaranótt þriðjudags. Mættishitinn (litafletir) er meiri en 20 stig yfir öllu landinu norðan- og austanverðu. Hæsta talan sem sést er 24,8 stig. Ef ekki er því hvassara er þetta sýnd veiði en ekki gefin. Kl. 3 að nóttu aðstoðar sólin nákvæmlega ekki neitt. Það má sjá á skynvarmaspánni hér að neðan.

w-blogg030613c

Hér er allt í mínus. Landið kælir allt loft sem yfir það streymir. En mjög hlýtt loft verður yfir landinu lengur og þegar sól hækkar á lofti hitar hún landið og það fer að hita loftið og verði léttskýjað á þriðjudaginn gæti hiti farið vel yfir 20 stig, kannski á miðvikudaginn líka - kannski líka víðar á landinu. Það má alla vega vona. En svo kemur vestanloft að sögn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Jæja nú er sennilega komið að þyrnirósasvefni næstu mánuðina hjá "Hilmari Þór Hafsteinssyni", þar sem hiti á landinu nái 22 stigum í dag á Raufarhöfn.

Pálmi Freyr Óskarsson, 3.6.2013 kl. 21:54

2 identicon

Nú gengur fyrsta haustlægðin yfir með roki og rigningu.  Og það verður að segjast eins og er að veðrið núna er ósköp haustlegt og hefur verið svo undanfarnar vikur, amk. um s/v landið. 
Það er því fátt sem minnir á að nú sé komið fram í byrjun júní Það er óþarfi að minnast á það að svona hafi þetta verið oft áður, eða að segja að veðrið núna sé nálægt meðaltali áranna 1960-1990, því veðrið núna er afskaplega leiðinlegt og lítið sumarlegt, svalt, blautt, hvasst og nær sólarlaust.
Ég er ansi hræddur um að þetta sumar verði eitt af þessum rigningarsumrum, eins og voru svo algengt hérna í den, og að við fáum þar að leiðandi þessa þrjá "standard" sólardaga sem þá koma þ.e. ein í júní og tvo í júli, og að því tilefni verði lokað vegna veðurs hjá ýmsum fyrirtækjum eins og var svo algengt þá. Við virðumst vera komin í svokallað "pattern", þ.e. mynstur sem varir lengi, amk. nokkra mánuði, þar sem við fáum sama veður í marga mánuði.  Amk. benda langtímaspár til þess að veðrið muni ekki batna á næstunni. 
Reyndar var veðrið hér á landi tiltölulega betra í vetur heldur en núna þessa stundina.  Þá var minna vindasamt, úrkoma var oft minni, auk þessa þá var oft tiltölulega hlýrra en nú.  T.d var 9 stiga hiti og rignin föstudaginn, 7. des. 2012, 7 stiga hiti föstudaginn 21. des. 2012, 8 stiga hiti og skýjað laugardaginn 22. des. 2012, og 6 stiga hiti, skýjað og austan vindur laugardaginn 16. feb. 2013. 
Við skulum sjá hvort að þessi hitamet verði slegin næstu daga, en hitinn undanfarið hefur verið nokkuð lægri og í besta falli svipaður og þá, þó svo að heita eig að sé komið sumar.


Reyndar hafa komið ýmsar vísbendingar þess efnis að hlýnun sú sem ríkti hér á árunum 2002-2010, sé á undanhaldi, (þó svo að loftlagsdómsdagsspámenn vonist? til að svo sé ekki).  Bent hefur verið á það að hlýnunin hafi náð hámarki 2007/2008, og að nú sé hafinn kólnunarfasi.
Þessu til stuðnings er bent á að vetur hafi verið kaldir í Evrópu undanfari, auk þess að sumur þar hafi verið svöl og sólarlítil.  Að auki hefur verið kalt í Alaska í allt vor, auk þess að svalt hefur verið við vesturströnd Bandaríkjanna.  Þetta er að gerast á sama tíma og engin stórkostleg eldgos hafa átt sér stað undanfarin ár, sem gætu hafa orsakað tímabundna kólnun í veðri lík og eldgosin í Mt. St. Helens eða Mt. Pinatubo orsökuðu.
Kannast þú við þetta Trausti? - hefur þú heyrt eitthvað af þessu og hvað heldur þú?
 

Björn J. (IP-tala skráð) 3.6.2013 kl. 22:50

3 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Björn J.: Hérna í Vestmannaeyjum er loksins komið vorveður með súld og þoku, enn ekki haustveður. Vonandi verður þetta stutt vor og fari að koma sumar hér.

Pálmi Freyr Óskarsson, 3.6.2013 kl. 23:44

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Björn, þakka langan pistil. Menn klóra sér dálítið í hausnum yfir vetrarkulda í Evrópu og Ameríku undanfarin ár - en á sömu stöðum hafa líka komið langir kaflar með óvenjulegum hitum að undanförnu. Sumir telja að fréttir af þessu tagi þurfi að leiðrétta fyrir þéttni fréttamanna og bloggskrifara. Ekki skal ég fullyrða um það - en ég fylgist með fréttum af atburðum og umfjöllun um þær meðal fræðimanna. Kínverskir eru þar mjög áberandi - ég held nærri því að þeir skrifi jafnmikið og allir aðrir til samans.

Trausti Jónsson, 4.6.2013 kl. 00:37

5 identicon

Ég læt sem ég sofi en samt mun ég vaka, PFÓ. :)

Kolefnisklerkurinn Trausti Jónsson klórar sér dálítið í hausnum yfir vetrarkulda í Evrópu og Ameríku undanfarin ár. Skelfilega óðahlýnunin hans heldur samt áfram, alla vega í sérvöldum spálíkönum Veðurstofunnar, sem hæstvirtur forseti Íslands notar svo til að ráðleggja Bandaríkjamönnum hvar þeir eigi að reisa nýjar stórskipahafnir!

Þrátt fyrir að Trausti veigri sér við að nota "villta tengla" kemur hér einn af vandaðri gerðinni um hina undarlegu stöðvun óðahlýnunar í heiminum:

http://www.thegwpf.org/content/uploads/2013/03/Whitehouse-GT_Standstill.pdf

Birti hér niðurlag ítarlegrar samantektar sérstaklega fyrir Trausta:

"Jochem Marotzke, director of the Max Plank Institute for Meteorology adds:

We really do not know why this stagnation is taking place at the moment. I hardly

know a colleague who would deny that it has not got warmer in recent years.

Quite a turnaround for an idea that was dismissed just a few years ago as ‘wrong,

completely wrong’.

Á meðan erlendir vísindamenn virðast loksins viðurkenna þá staðreynd að "óðahlýnunin" skelfilega hefur látið á sér standa sl. 15 ár þá klóra íslenskir kolefnisklerkar sér bara dálítið í hausnum!

Svona til að auka á klórið hjá íslenskum kolefnistrúfélögum verð ég að bæta við glænýrri frétt um vísindarannsóknir sem virðast endanlega sanna að CO2 átti engan þátt í hlýindaskeiðinu fyrir aldamót, sem tók við af kuldaskeiðinu frá 1960 - 1980:

http://phys.org/news/2013-05-global-chlorofluorocarbons-carbon-dioxide.html

Jú, ég veit... Þetta er enn einn villtur tengill fyrir Trausta - en jafn góður fyrir því. ;)

Svo að niðurstöðunni sé haldið til haga þá sýnir ný rannsókn Háskólans í Waterloo, sem birt var í International Journal of Modern Physics B nýverið, fram á að hlýskeiðið frá 1980 sé raunverulega Chlorofluorocarbons- efnasambandinu (CFC) að kenna.

Skyldi það nú vera að Al Gore og kolefnisriddarar hans bíði sögulegan ósigur við Waterloo?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 4.6.2013 kl. 13:05

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég fagna nú bara þessari heiðarlegu sunnaátt með hlýindum fyrir norðan. Finnst þetta alveg ekta sumarveður.

Sigurður Þór Guðjónsson, 4.6.2013 kl. 14:33

7 Smámynd: Trausti Jónsson

Já Hilmar, ég vona að aðrir lesendur falli fyrir tenglunum.

Trausti Jónsson, 5.6.2013 kl. 00:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 65
  • Sl. sólarhring: 74
  • Sl. viku: 1663
  • Frá upphafi: 2350940

Annað

  • Innlit í dag: 58
  • Innlit sl. viku: 1455
  • Gestir í dag: 51
  • IP-tölur í dag: 51

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband