Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012
8.2.2012 | 00:05
Fylgst með kuldapollum norðurhvels
Við lítum nú sem oftar á 500 hPa spákort en það gildir um hádegi á fimmtudag (9. febrúar) og sýnir meginhluta hringrásarinnar á norðurhveli.
Að þessu sinni er Kyrrahafið að mestu útundan en að öðru leyti ætti kortið að vera kunnuglegt. Höfin eru blá, löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en þynnri rauðar línur eru við 5820 metra og 5100 metra hæð. Almennt má segja að því lægri sem flöturinn er því kaldara er veðrahvolfið.
Aldrei þessu vant sjáum við nú í fjórðu rauðu línuna, hún kemur fram sem lítill hringur í kringum miðju kuldapollsins mikla við Norður-Labrador og markar 4740 metra hæð flatarins. Oftast nær sést lítið til þessarar línu nema rétt þegar veturinn er í hámarki á norðurhveli. Mikil hlýindi hafa verið í heimskautalöndum Kanada að undanförnu en nú hafa orðið þar mikil umskipti til þess venjulega.
Austanhafs er hins vegar allt með harla óvenjulegum hætti. Við sjáum að enn liggur mikið lægðardrag til vesturs frá sléttum Asíu og vestur um allt Miðjarðarhaf en hæðarhryggur er aftur á móti þar fyrir norðan eins og nú hefur verið um hríð. Breytingar á þessu eru ekki miklar, kuldapollurinn yfir Póllandi fer suður til Miðjarðarhafs og endurnýjar þann sem nú er yfir Alsír. Mjög kalt verður því enn við Miðjarðarhafið og á Balkanskaga - en gríðarlegar rigningar í Grikklandi og víðar. Þar snjóar auðvitað langt niður eftir fjallshlíðum.
Kuldapollurinn norður af Svartahafi á ekki að ógna Vestur-Evrópu að sinni - virðist einna helst stefna til Moskvu næstu daga með ofurlágri þykkt, um 4900 metrum í miðju. Ekki sér enn í lok Evrópukuldans - því hugsanlegt er að næsti kuldapollur komi beint úr norðri og fari suður um. Þótt ekki sé Síberíukuldi þar á ferð er allt sem kaldara er heldur en 5200 metrar algjört eitur í Frakklandi og á öllu svæðinu þar sunnan við. Pólland og innsveitir Balkanskaga eru vanari að bregðast við svo lágri þykkt eða lítið eitt lægri.
En umskipti hafa sem sagt orðið vestanhafs þegar þetta kort gildir. Kuldapollurinn yfir Labrador er gríðarlega öflugur. Því er spáð að 4740 metra jafnþykktarlínan birtist við miðju hans á föstudag eða svo, en hungurdiskar hafa áður kennt hana við ísöldina. Ísaldarlínan sést af og til á kortum um miðjan vetur.
Kuldapollurinn mikli (í fyrra var ámóta pollur kallaður Stóri-Boli hér á hungurdiskum) er á fimmtudaginn orðinn tiltölulega hringlaga og hreyfist ekki mikið meðan svo er. Þó má sjá smáhorn standa út úr honum til vesturs - eitthvað lægðardrag er þar á ferðinni. Meðan Boli hefur hægt um sig ógnar hann okkur ekki - en er í ógnandi stöðu fyrir austurhéruð Kanada og jafnvel norðausturríki Bandaríkjanna. En við skulum ekki velta vöngum yfir því - í bili að minnsta kosti.
Ísland er enn í lægðabraut og fara nú bylgjur yfir landið nánast á hverjum degi. Við lítum nánar á þau mál gefist tilefni til.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2012 | 00:40
Vika krappra smálægða
Nú rennur hver smálægðin á fætur annarri eftir heimskautaröstinni - ýmist yfir Ísland, fyrir vestan það eða austan. Eins og gefur að skilja veldur þetta talsverðri óvissu í veðurspám og að auki er óþægilegt að sumar þessara smálægða verða nokkuð krappar þegar þær fara hjá. Hungurdiskar taka enga afstöðu til spánna - og bendir þeim sem eitthvað eiga undir veðri að fylgjast með spá Veðurstofunnar eða annarra þeirra sem fylgjast náið með lægðunum og hegðun þeirra. En við getum litið á hitamynd sem numin var kl. 23 á mánudagskvöldi 6. febrúar og birtist (stærri) á vef Veðurstofunnar.
Hér má sjá tvo þroskaða lægðasveipi. Annar þeirra er í hlutverki gömlu lægðarinnar, þeirrar sem færði okkur hlýindi og úrkomu mánudagsins. Miðja þess sveips er rétt vestan við Hvarf á Grænlandi. Hiti komst í 13 stig bæði fyrir norðan og austan í dag.
Annar lægðarsveipur er fyrir sunnan land, merktur sem L1 á kortinu. Við sjáum að hann er mjög lítill um sig. Sveigurinn í kringum hann er varla mikið stærri en Ísland. Smáatriði framhjágöngu hans skipta því miklu máli. Það er að sjá að mjög hvasst sé í sveipnum sunnan- og suðaustanverðum - e.t.v. hvassast um það bil þar sem tölustafurinn einn nærri lægðarmiðunni.
Óþægilega stutt er í næsta lægðarkerfi fyrir sunnan (L2). Það liggur við að það valti yfir L1. Mjög hlýtt loft ryðst fram á undan því eins og vel má sjá af furðuheillegu en örmjóu skýjabandi næstum alveg ofan í bakhlutanum á L1. Þriðja smálægðin er síðan að myndast við Nýfundnaland (L3). Þetta er óþægilega þröng staða fyrir lægðavöxt sem helst vill geta dregið loft af stóru svæði inn i lægðarhringrás í mótun.
En L1 hefur þegar náð hringsnúningi og líklegt er að hann haldist alla leiðina framhjá vesturströnd Íslands á morgun. En það skiptir mjög miklu fyrir veðrið vestast á landinu, á Reykjanesi, Snæfellsnesi og í Faxaflóa nákvæmlega hvar lægðarmiðjan fer um. Mikill munur er t.d. á vindi hvort leiðin liggur 100 eða 200 km vestur af Reykjanesi - því illa hvasst er aðeins á tiltölulega litlu svæði.
Reynslan hnígur þó að því að þetta gerist allt mjög fljótt, suðaustanhvassviðrið á undan kerfinu (ef eitthvað er) verður varla skollið á þegar suðvestanveðrið tekur við. Undir þessum kringumstæðum fylgjast veðurnörd mjög náið með loftvogum sínum (jafnvel þeim ómerkilegustu). Séu þær af gömlu gerðinni berja menn létt með fingri á glerið sjá nálina hrökkva til og færa síðan viðmiðunarnálina ofan í stöðuna. Þá er auðvelt að sjá hver breytingin er þegar næst er barið. Í venjulegu veðri er nóg að lesa af voginni á 3 klst fresti. Ef fylgjast á með því hvort hraði breytingarinnar vex þarf að lesa af oftar oft á klukkustund - og helst skrá á einhvern hátt - annað hvort með því að skrifa aflesturinn á blað/tölvu eða með því að færa inn á gamaldags millimetrapappír (ef einhver veit hvað það er).
Þeir sem ekki hafa yfir eigin loftvog að ráða geta fylgst með þrýstibreytingum á vef Veðurstofunnar - en þar endurnýjast tölur því miður ekki nema á klukkustundar fresti. Fyrir þessa ákveðnu lægð er gott að fylgjast með ástandinu á Keflavíkurflugvelli á vefsíðu hans. Nú (eftir kl. 24 aðfaranótt þriðjudags) er þrýstingur þar þegar farinn að falla, síðustu klukkustund úr 1015,1 niður í 1014,8. Þetta er svo lítil breyting að hennar gætir lítt á dósarloftvogun. Í nótt og á morgun ætti þrýstingur að falla niður í um 986 hPa og honum er spáð lægstum upp úr hádeginu. Þetta er ekkert sérlega mikið fall (29 hPa alls) - en gæti orðið meira eða minna. En við sjáum að fallið er að meðaltali rúm 2 hPa á klukkustund, verður e.t.v. 3 til 4 þegar mest er - ef það fer að verða meira - er ljóst að eitthvað hefur farið úrskeiðis og rétt að búast við vondu.
Fyrir tíma tölvuspáa og netsins var enn meira gaman að fylgjast með heimaloftvoginni - og reyna að ráða í þróunina upp á eigin spýtur.
6.2.2012 | 00:07
Þurrt loft frá Grænlandi svífur yfir landið
Í dag (sunnudag) fór mjög þurrt loft ofan af Grænlandi yfir landið. Málið er þó ef til vill ekki alveg svo einfalt - hugsanlega var þurrkurinn líka tengdur bröttum hæðarhrygg sem fór hjá í háloftunum. En við látum það liggja á milli hluta. En lítum á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um rakastig í 925 hPa-fletinum kl. 18 í dag, en flötur sá er oft í um 600 metra hæð yfir sjó - snertir því fjalllendi Íslands.
Áður en við förum í rakann verðum við að afgreiða í stuttu máli það sem er mest áberandi á myndinni - lituðu svæðin. Þau sýna dulvarmaskipti við yfirborð jarðar (aðallega sjávar reyndar). Þar sýna rauði og bleiki liturinn svæði þar sem raki (og þar með dulvarmi) berst úr sjó til lofts en sá græni sýnir hið gagnstæða. loft skilar dulvarma til yfirborðs (ekki er ólíklegt að þar sé í þessu tilviki þoka eða súld).
Tölurnar eru í wöttum á fermetra, býsna stórar eins og vill verða á þessum árstíma - en geta þó orðið mun hærri. Á þessu korti má sjá smásvæði með meira en 200 W á fermetra. Trúlegt er að einhvern tíma fyrir vorið fáum við að sjá talsvert hærri tölur. En á kortinu má einnig sjá örvar sem sýna vindstefnu.
Þar eru einnig svartar, heildregnar línur. Þær ystu afmarka svæði þar sem rakastig er innan við 60%, síðan eru dregnar jafnrakalínur fyrir hver 10% þar neðan við. Svo ótrúlegt sem það er sjáum við línur allt niður í 10%. Á kortið hafa verið settir fjórir gulir blettir sem benda eiga á rakalágmörk (þau eru fleiri). Athugið að undan norðausturlandi er allstórt svæði þar sem rakastigið er yfir 60% umkringt af lægri jafnrakalínum.
En rakastig breytist mjög með hæð frá jörðu og er gjarnan hærra neðst þar sem loftið er i snertingu við raka jörð (eða haf) heldur en aðeins ofar. Þess er því varla að vænta að rakastig á veðurstöðvunum fari jafnlangt niður og hér er sýnt.
En þó var það þannig í dag (sunnudag) að rakastig datt niður um tíma á allflestum veðurstöðvum landsins. Mismikið, en austanlands (þar sem niðurstreymi hjálpar til) fór að víða vel niður fyrir 30%. Sem dæmi um það getum við litið á rakastigið í dag á Fáskrúðsfirði (línurit af vef Veðurstofunnar).
Þar var lægsta rakastig dagsins rétt rúm 20%. Rakaspá reiknimiðstöðvarinnar reyndist furðugóð.
5.2.2012 | 01:58
Loftþrýstingur í febrúar
Sá sem þetta skrifar hefur nú fylgst náið með veðri í rúm 50 ár. Einhvern veginn varð fljótt til eins konar tilfinning um það hvernig veðrið ætti að vera - hvað væri eðlilegt. En allan þennan tíma hefur gengið á með óvæntum uppákomum. Ein sú óvæntasta var þegar febrúar fór út af sporinu fyrir rúmum 20 árum. Reyndar má segja að aðkenningar hafi þegar orðið vart í febrúar 1982. En lítum á stuðningsmynd.
Hún sýnir meðalloftþrýsting í febrúar í nærri 200 ár. Aðaleinkenni myndarinnar er mikið suð - gildin sveiflast út og suður frá ári til árs og ekki mikla reglu að sjá. Um 1960 er þó áberandi klasi af háum gildum, það langhæsta 1965. En þessi háþrýstiklasi er það sem sá sem þetta skrifar ólst upp við ef svo má segja - febrúarmánuðir hlutu að vera svona í eðli sínu. Ef frekar er rýnt í þetta má sjá að háþrýstiklasinn hafði reyndar staðið meira eða minna frá því 1932.
EF við höldum í hina áttina, nær okkur í tíma, sést að á árunum 1971 til 1974 slaknaði á háþrýstingnum og reyndar líka 1967. Enda lentu þessir mánuðir á reynslujaðri, ósjálfrátt taldir lágþrýstimánuðir - febrúar gat varla farið mikið niður fyrir þetta. Að auki náðu töflur Veðráttunnar (tímarits Veðurstofunnar) ekki nema aftur til 1924 og fátt um samanburð fyrir þann tíma.
Svo gerðist það snemma í febrúar 1982 að allt í einu birtist lægð sem fór niður fyrir 930 hPa skammt fyrir sunnan land. Dýpt lægðarinnar þóttu tíðindi út af fyrir sig en að það skyldi gerast í febrúar var enn ólíklegra. Næsta árið rak á hvern stóra lágþrýstiatburðinn af öðrum (ekki þó í febrúar). Um svipað leyti bárust fréttir af því að árið 1981 hefði mælst það hlýjasta sem vitað var um á norðurhveli frá upphafi mælinga. Voru hér einhver tengsl á milli?
Meðalþrýstingur í febrúar 1982 var sá lægsti í þeim mánuði síðan 1922. Var þetta þá 50 ára lágþrýstimánuðurinn? Febrúar árið eftir, 1983 féll hins vegar nær gamla farinu og það virtist staðfestast næstu árin. Í febrúar 1986 var þrýstingur aftur mjög hár, sá langhæsti síðan 1965.
En 1989 birtist allt í einu annar lágþrýstifebrúar - sjónarmun lægri heldur en 1982. Síðan komu stóru tíðindin, 1990 datt út úr kortinu. Meðalloftþrýstingur var þá 10 hPa undir 1982. Þegar upp var staðið kom í ljós að þetta var nýtt met - ekki aðeins fyrir febrúar heldur fyrir alla mánuði ársins. Mjög lágur mánaðarþrýstingur hafði fram að þessu verið talinn mun líklegri í desember eða janúar. Varla nokkur bjóst við því að febrúar stæði í þessu enda er meðalþrýstingur þá ívið hærri heldur í hinum mánuðunum.
En talnaglöggir lesendur munu væntanlega átta sig á því að hér nýtur febrúar smáforskots á hina mánuðina tvo - hann er þremur dögum styttri og þar með aðeins líklegri til útgildameta (að öðru jöfnu).
Síðustu tíu árin eða svo virðist febrúar hafa jafnað sig en það segir auðvitað ekki neitt um framtíðina. En það er samt einkennilegt hvernig há- og lágþrýstingur leggst í væga klasa í tíma.
Eitt atriði enn. Þegar rætt er um þrýsting er NAO-fyrirbrigðið ekki langt undan. Þar sem helsta vísitala þess ræðst að miklu leyti af þrýstingi við Ísland vill það líka leggjast í væga klasa. NAO-vísitalan var þannig mjög lág á meðan háþrýstiskeiðið stóð og mjög há í lágþrýstiklasanum. Í öllum þeim skrifum sem fjallað hafa um NAO virðast sárafáir hafa veitt því eftirtekt að það var einkum febrúar sem var afbrigðilegur meðan á í lágþrýsiklasanum stóð - lágþrýstiskeið vetrarins við N-Atlantshaf lengdist í afturendann - framendinn, í desember, breyttist lítið.
4.2.2012 | 01:53
Nokkur orð um Reykjavíkurhitasóttina illræmdu
Vonandi fjalla hungurdiskar á næstu mánuðum um Reykjavíkurhitasóttina svokölluðu - hún er e.t.v. ekki af alveg sama stofni og hænsnaveikin sem var alveg áreiðanleg - en einkennin eru svipuð. Einkennum þeirrar fyrrnefndu er best lýst í langri grein sem Ernest Hovmöller, veðurfræðingurinn heimskunni, ritaði 1960 og þróunaraðstoð Sameinuðu þjóðanna gaf út - íslenska ríkið ... (jæja). Hænsnaveikinni er sem kunnugt er lýst í sögu H.C. Andersen.
Svo virðist sem áhugamenn um eðli sóttarinnar beri það ekki við að lesa Hovmöller - það er alveg áreiðanlegt. Auðvitað er hún afspyrnuleiðinleg fyrir óinnvígða - þótt skýr og vel skrifuð sé. Þess í stað keppast menn við að éta upp erlendar flugufréttir - sem magnast í hverri umferð eins og sagan um hænsnadauðann í sögunni góðu. Að vísu fuku í raun og veru nokkrar fjaðrir á erlendu stórbúi - en að öll egg frá búinu séu þar með orðin eitruð er orðum aukið - svo ekki sé meira sagt.
En - lýsing heilkenna sóttarinnar er bæði löng og leiðinleg. Reynslan sýnir að allir nema þeir þrekmestu gefast upp á þulunni strax í upphafi. Hungurdiskar munu því vægja lesendum við smáatriðum. En - því miður eru þessi smáatriði aðalatriði málsins.
Hvað er þá til ráða? Lesendur verða að virða ritstjóranum það til betri vegar að geta ekki hrist skýringar fram í svo stuttu máli að læsilegt verði í einni bloggsetu. Hann ætlar t.d. helst ekki að endurskrifa hina ágætu grein Hovmöllers. Hún fjallar m.a. um það vandamál að skilgreina meðalhita og hvernig subbuskapur í umgengni við slíkar skilgreiningar getur, ef ekki er varlega farið, endað á versta veg - eins og við höfum orðið vitni að.
En hungurdiskar hafa stofnað útibú á fatlaensku (icelandweather blog) til að sýna fram á leiðindi málsins í raun. Þar er hins vegar aðeins einn erfiður pistill sem stendur og þýðir ekkert að búast við nýjum nema rétt af og til. En þeir sem eru innvígðir í æstu bræðrareglu veðurnörda kunna bakvið enskufroðuna að sjá glitta í hinn hreina platónska meðaltalsreikning (ja hérna vitleysan). Já, hér er ekki tengill á bræðrabloggið - hungurdiskar kannast ekki enn við króann. Kannski að Gúggli þekki hann?
3.2.2012 | 00:39
Febrúar aftur orðinn kaldastur
Hver er merking fyrirsagnarinnar? Merkileg tíðindi? Kaldastur miðað við hvað? Hvað er átt við með febrúar? Er það febrúar á þessu ári eða hefur einhver reikniskekkja verið leiðrétt fyrir einhverja febrúarmánuði fortíðarinnar? Sé svo, þá hvar og hvenær?
En lítum á mynd til skýringar á því hvað hér er átt við. Myndin getur verið skemmtiefni fréttasjúkra veðurnörda - eins og ritstjóra hungurdiska - en óvíst hvort aðrir telja sig einhverju nær.
Myndin sýnir 30-ára keðjumeðaltöl hita í Stykkishólmi fyrir mánuðina janúar (blár), febrúar (rauður) og mars (grænn). Fyrsta 30-ára tímabilið er 1823 til 1852, en það síðasta er 1982 til 2011. Ártölin á kvarðanum eiga við síðasta ár hvers 30-ára tímabils.
Það sést nú ekki sérlega vel á myndinni, en febrúar hefur síðustu þrjú þrjátíu ára tímabilin verið kaldastur mánaðanna þriggja. Þetta er hin merka frétt fyrirsagnarinnar. Hann hefur verið það oft áður en ekki síðustu áratugina. Svo hittist á að á tímabili því sem nú er notað til viðmiðunar, 1961 til 1990 var hann hlýjastur - mjög óvenjulegt í langtímasamhengi. Munurinn á mánuðunum þremur er líka óvenjulítill um þessar mundir. Það sést vonandi vel á myndinni að ekki er sérlega auðvelt að velja eitt ákveðið 30-ára tímabil öðrum fremur sem Meðaltalið með stórum staf og greini.
Það er merkilegt að hiti í febrúar hefur haldist lítið breyttur allt frá því á tímabilinu 1921 til 1950 þar til nú. Áður hlýnaði hann mjög hratt - rétt eins og hinir mánuðirnir tveir sem báðir skutu yfir markið í hlýindunum sem náðu hámarki á árunum 1935 til 1964.
Janúar og mars tóku miklar dýfur á skeiðinu frá 1965 fram undir síðustu aldamót. Janúar hefur að mestu jafnað sig á dýfunni - en mars ekki. Hann á talsvert í það að ná fyrri hlýindum. Dýfan á síðari hluta 19. aldar var langmest í mars, á stuttu skeiði varð hann meira að segja kaldastur mánaðanna þriggja. Það var 1859 til 1888. Telja má víst að hafísmagn við landið hafi mest áhrif á hitann í mars - meiri heldur en í febrúar og janúar.
Síðan háloftaathuganir hófust fyrir 1950 hefur sunnanátt í háloftunum náð hámarki ársins í febrúar. Ekki er enn ljóst hvort svo hefur líka verið á 19. öld, hafi svo verið hefur sú sunnanátt að jafnaði komið meira úr vestri (við lægri þrýsting) heldur en verið hefur síðustu áratugina. Svo má auðvitað vera að ís hafi einfaldlega verið fyrr á ferð hér við land heldur en var síðar á hafísárum 20. aldarinnar og þar með merkt febrúar líka.
Myndin geymir einnig smá leitnileik, sjá þunnar hallandi strikalínur. Leitin reiknast mest í febrúar, 1,7 stig á 100 árum, síðan kemur mars með 1,2 stig og janúar með 1,0 stig. Það er skemmtilegt að munur á 19. aldar hitahámarki marsmánaðar og 20. aldar hámarkinu um 100 árum síðar er um 0,7 stig.
En eins og venjulega má ekkert mark taka á reiknaðri leitni þegar litið er til framtíðar.
2.2.2012 | 01:10
Órólegar spár
Fyrirsögnin hefur eiginlega tvöfalda merkingu. Annars vegar er spáð órólegu veðri næstu daga - en hins vegar eru tölvuspárnar mjög órólegar sem slíkar, þær breytast ört frá einum reiknitíma til annars. Í augnablikinu segir evrópureíknimiðstöðin að fimm lægðakerfi muni renna hjá næstu sjö daga en bandaríska veðurstofan segir kerfin muni verða sex á þessum sama tíma. Þetta gæti allt breyst á næsta reiknitíma - þannig að ekki er nokkur leið fyrir hungurdiska að fylgja því eftir.
Spárnar eru þó að mestu leyti sammála um morgundaginn (fimmtudag 2. febrúar), suðaustanslagviðrisrigningu á Suður- og Vesturlandi stóran hluta dagsins. En spár um smáatriði þess má finna á vef Veðurstofunnar og jafnvel víðar. Rétt er fyrir þá sem fara um fjallvegi eða langar leiðir að líta á alvöruspár.
En við horfum hins vegar á tvö óvenjuleg veðurkort - aðallega í uppeldisskyni. Kortin gilda bæði kl. 18 fimmtudaginn 2. febrúar og eru úr faðmi evrópureiknimiðstöðvarinnar (ecmwf). Viðkvæmir lesendur eru varaðir við textanum hér á eftir - hann er ansi tyrfinn.
Hér er eitt atriði kunnuglegt öllum kortalæsum. Svörtu heildregnu línurnar sýna loftþrýsting við sjávarmál, dregin er fjórða hver jafnþrýstilína og sýnir innsti hringurinn við lægðarmiðjuna 980 hPa þrýsting. Ekki svo djúp lægð, en þrýstilínur eru þéttar yfir vestanverðu Íslandi. Þar er því hvass vindur, í nokkurri hæð fylgir vindur þrýstilínunum í stórum dráttum (með hærri þrýsting á hægri hönd snúi menn baki í vindinn). Við jörð veldur núningur því að vindurinn blæs heldur í átt að lægri þrýstingi. Þrýstivindur er af suðsuðaustri í strengnum en er af suðaustri eða austsuðaustri við jörð. Landslag flækir málið svo enn frekar.
Þetta er allt kunnuglegt. Sé rýnt í kortið má sjá daufar punktalínur. Þær sýna hita í 850 hPa-fletinum og er á kortinu ekki gert hátt undir höfði, dregnar með 5°C millibili. Einni er þó látin vera áberandi, breiðari fjólublá punktalína sem sýnir -5°C.
En það eru skærir litaðir fletir sem mest ber á og kvarðinn til hægri lýsir. Þetta er mættishiti í 850 hPa-fletinum. Hvað er mættishiti? Við gætum kallað hann þrýstileiðréttan hita, það er sá hiti sem loftið fengi væri það togað niður í 1000 hPa þrýsting. Nú hlýnar loft sem togað er niður um 1°C á hverjum 100 metrum sem hæðin lækkar.
Það sést nú ekkert allt of vel á þessu afriti myndarinnar að rauði liturinn yfir landinu sýnir að mættishiti er þar meiri en +10°C. Við Vestfirði má greina staðbundið hámark þar sem 11,1 stig er merkt með tölustöfum. Svo illa vill til að hitt staðbundna hámarkið yfir landinu lendir ofan í þrýstitölu og sést því illa, en lesendur verða að trúa því að þar stendur talan 14,2 stig.
Loftið sem er í 850 hPa hæð (um 1440 metrum yfir Norðausturlandi) yrði sem sagt 14 stiga hlýtt ef það næðist niður í 1000 hPa. Þrýstingur við sjávarmál er þarna um 1016 hPa - það þýðir að 1000 hPa þrýsting er að finna í um 130 metra hæð, til sjávarmáls er því um eitt stig til viðbótar.
Ef við nú næðum lofti niður úr 850 hPa á litlu svæði - yrði það óhjákvæmilega hlýrra en loftið umhverfis (sem ekki er komið beint að ofan) og lyftist því strax aftur. Ef það flæðir niður þar sem snævi þakin háslétta er undir kælir snjóbráðnun loftið og hlýindanna nýtur síður. Á þessum árstíma eru líkur á því að sé loftinu dælt niður norðan Vatnajökuls kólni það á leið til byggða. Mestar líkur á hlýviðri að ofan eru því við brött fjöll þar sem niðurstreymi getur átt sér stað - eða þá að hlýja loftið geti að minnsta kosti blandast niður á við. Þetta er á þessum árstíma helst við utanverðan Tröllaskaga, í Vopnafirði og austur á fjörðum (sjálfsagt einnig norður í Fjörðum - en þar er engin veðurstöð).
Kort sem þetta eru stundum notuð til að giska á hæsta hámarkshita þar sem skilyrði til niðurstreymis geta verið til staðar. Stigin 14 gætu þá verið ágiskun um hámarkshita norðaustanlands síðdegis á fimmtudag. En vel að merkja - þykktin á ekki að fara í meir en um 5360 metra og það dugir varla í 14 stig.
En fróðleiksfúsir lesendur eru ekki alveg sloppnir því við lítum líka á kort sem sýnir svokallaðan jafngildismættishita. Þetta er ekki sérlega aðlaðandi orð - verður þó að duga þar til betra sýnir sig. Jafngildismættishiti er sá sem verður til þegar að loftið er togað niður til 1000 hPa en þar að auki er dulvarminn sem í því þýr leystur úr læðingi. Vatnsgufa ber í sér mikla orku sem losnar þegar hún þéttist. En lítum á kortið.
Þetta er sama kort og að ofan, jafnþrýstilínur við sjávarmál og jafnhitalínur í 850 eru þær sömu og áður, þar með talin fjólubláa punktalínan. Litafletirnir sýna hins vegar umræddan jafngildismættishita (æ). Til að koma í veg fyrir rugling við mættishitann hefur hér verið valið að nota Kelvinstiga í stað hins hefðbundna frá Andrési Celcíus. Þar eru 273K = 0°C (eða nærri því). Hæsta talan 298,2K er vestur af landinu er því = 25°C.
Nú er það svo að talsvert af dulvarmanum losnar, bæði við lóðréttar hreyfingar í lægðakerfinu sjálfu sem og í uppstreymi áveðurs við fjöll. En mestallt loftið sem hlýnar (eitthvað blandast) lyftist. Það er óhætt að upplýsa að mjög stór hluti vatnsgufunnar að sunnan þéttist um síðir - og fellur út sem úrkoma en það loft sem hlýnar kemst ekki niður - síður en svo - heldur leitar það upp. Hluti rigningarinnar sem fellur niður úr þéttingarhæðinni kælir hins vegar það loft sem hún fellur niður í (gufar upp og það kostar varma).
Þetta kerfi fer fljótt hjá og næsta lægð komin að landinu með sinn háa mættishita og raka rúmum sólarhring síðar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2012 | 00:47
Janúarlok
Þrátt fyrir töluverða ófærð og almennan óróa í veðri er liðinn janúarmánuður samt hlýrri en í meðallagi um land allt. Úrkoma á Suður- og Vesturlandi var langt umfram meðallag. Vonandi má lesa um það á vef Veðurstofunnar von bráðar.
Meðalloftþrýstingur hefur verið lágur í janúar en þó hafa eftirtektarsöm veðurnörd trúlega gefið því gaum að þessa dagana er loftþrýstingur ekki sérlega siginn þrátt fyrir fjörugan lægðagang. Margar lægðir eiga að fara hjá næstu vikuna - býsna krappar og vindasamar en ekkert sérlega djúpar miðað við árstíma. Lægðirnar eru þó það nærgöngular að mestu hlýindin fara ýmist hjá landinu eða standa afskaplega stutt við.
Þar sem reglan um að hollusta fylgi háloftakortum er í hávegum höfð á hungurdiskum skulum við nú líta á eitt slíkt. Það er í kunnuglegu gervi hirlam 500-hPa og þykktarspár sem gildir kl. 18 þriðjudaginn 1. febrúar.
Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar, jafnþykktarlínurnar eru rauðar strikaðar. Hvoru tveggja er mælt´í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem jafnhæðarlínurnar eru því meiri er vindurinn í veðrahvolfinu miðju og því meiri sem þykktin er því hlýrri er neðri hluti veðrahvolfs. Vindurinn dregur þykktarlínurnar til rétt eins og um spunninn þráð sé að ræða (jæja, kannski ekki alveg). Þar sem þær bera hærri þykkt með sér er sagt að hlýtt aðstreymi ríki (t.d. við rauðu örina á myndinni) en þar sem lægri þykkt sækir á er aðstreymið kalt (t.d við bláu örina austan Nýfundnalands.
Ef við förum í saumana á kortinu má sjá að það er 5340 metra jafnhæðarlínan sem liggur um Ísland, þetta er um 100 metrum yfir meðaltali árstímans. Það er 5160 metra jafnþykktarlínan sem sveigist inn á norðvestanvert landið. Þykktin sú er heldur undir meðallagi árstímans en stendur stutt við. Yfir landinu er frekar skarpt lægðardrag og má gera ráð fyrir að það sé á töluverðri ferð til norðausturs - samkvæmt þeirri þumalfingurreglu að stutt skörp lægðardrög fari hraðar yfir en löng. En við skulum þó aldrei ofgera þumlinum - munum það.
Það sem er athyglisverðast á þessu korti í augum sem gera lítið annað en að stara á veðurkort er að þykktin skuli varla komast undir 5040 metra á öllu svæðinu vestan og suðvestan Grænlands. Þar ríkir ein allsherjar þykktarflatneskja. Það liggur við að hægt sé að líta undan - en við skulum samt ekki vanmeta þann þykktarbratta sem er í kringum heimskautaröstina - en hana er að finna á þeim slóðum þar sem jafnhæðarlínurnar eru þéttastar. Þar er í sjálfu sér nægt fóður í illviðri.
En austur í Evrópu bendir blá og þykk ör á 4920 metra jafnþykktarlínuna sem rétt gægist inn á kortið og dregur að sér athygli veðurnörda - þótt þau ættu að vera að fylgjast með allt öðru og jafnvel þótt línan sú komist ekki lengra vestur.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 56
- Sl. sólarhring: 111
- Sl. viku: 2503
- Frá upphafi: 2434613
Annað
- Innlit í dag: 50
- Innlit sl. viku: 2224
- Gestir í dag: 50
- IP-tölur í dag: 44
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010