Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012
31.12.2012 | 01:35
Illviðrametingur ársins 2012 (í flokki útbreiðslu)
Hér er metist um mesta illviðri ársins. Í upphafi leiksins verður að vera á hreinu að hér er aðeins um eina tegund metings að ræða - útfrá meðalvindhraða og talningu hvassviðra á sjálfvirkum veðurstöðvum. Ekkert er miðað við tjón - hvort sem það fellst í beinu tjóni vegna foks eða þá í óbeinu t.d. vegna fjárskaða, samgöngu- eða rafmagnstruflana - snjóflóða o.s.frv.
En lítum fyrst á mælikvarða sem fenginn er þannig að talið er klukkustund eftir klukkustund hversu hátt hlutfall allra sjálfvirkra stöðva mælir mesta 10-mínútna vindhraða klukkustundarinnar meiri en 17 m/s - ekki svo flókið - er það? Hér er mynd.
Myndin er dálítið subbuleg - enda er henni kastað upp í skyndi. Lárétti ásinn byrjar 1. janúar 2012 og endar síðdegis þann 30. desember. Daufar tölur sýna klukkustundir frá áramótum og merki sett á 740 klukkustunda fresti. Þessi merking hittir ekki nákvæmlega á mánaðamót - en nægilega vel. Þarna má til hægðarauka einnig sjá upphafsstafi mánaðanna.
Lóðrétti ásinn sýnir hlutfallið: 100X[Fjöldi sjálfvirkra stöðva sem mælt hafa meira en 17 m/s]/[heildarfjöldi stöðva]. Útkoman er í prósentum. Því útbreiddara sem illviðri er því hærra nær það á kvarðanum.
Myndin sýnir að hlutfallið var iðulega yfir 20 prósent í janúar og fram í miðjan mars en síðan er 20% súla í maí, mjög hár toppur í september og hæsti toppur ársins um mánaðamótin október/nóvember. Að þessu tali er illviðrið fyrstu dagana í nóvember það langversta á árinu hvað vind varðar. Fáeinar aðrar dagsetningar eru settar á myndina.
Sama má gera fyrir meðalvindhraða klukkustunda, eins má telja hver heildarsumma hvers dags er. Verst var veðrið á landinu 2. nóvember kl. 11 en þá var hvassviðri á landinu á tæplega 63% stöðva. Meðalvindhraðinn var mestur klukkustund fyrr, eða kl. 10, 17,7 m/s.
Annar nóvember var einnig hvassasti dagur ársins, meðalvindhraði var 16,1 m/s, næsthvassastur var 10. janúar með 14,1 m/s. Ef við leggjum saman prósentur hverrar klukkustundar yfir heilan dag gætum við mest fengið út 2400 stig (24X100). Annar nóvember er þar líka með langhæstu tölu ársins, 1250 stig og janúar er í öðru sæti með 913 stig. Fyrsti nóvember er síðan í þriðja sæti meðalvindhraða og stiga. Það er svo 10. september sem mer fjórða sætið - það er mjög hátt miðað við árstíma.
En dagurinn í gær - er hann ekki með? Jú, hann er með en nær ekkert sérstaklega hátt - enda var illviðrið tiltölulega bundið við ákveðinn landshluta. En það veður mun skora mjög hátt þegar snjóflóðamenn búa til sína lista - ábyggilega það versta í allmörg ár. Þar fór saman eitruð blanda mikils vindhraða og óvenjumikils snævar. Sömuleiðis lendir það hátt á rafmagns- og símatruflanamælingum.
Illviðrametingur er því langt í frá einhlítur.
Í framhjáhlaupi var einnig litið á hinn enda vindhraðarófsins. Hægasta klukkustund ársins var kl. 6 að morgni 26. júní (meðalvindhraði 1,4 m/s) og hægasti dagurinn var 18. júlí (meðalvindhraði 2,5 m/s).
Nú líður að áramótum og komið að þökkum til áhugasamra lesenda og annarra þeirra sem eytt hafa tíma á hungurdiskum á liðnu ári. Eitthvað verður nuddað áfram á nýju ári. Gleðilegt nýtt ár.
30.12.2012 | 01:42
Kort til að leggja í minnið
Hér verður ekki lagt í nein samanburðarfræði á illviðrum - í bili að minnsta kosti. Full ástæða er þó til þess. En við látum duga að bera fram þrjú kort á fati sem áhugasamir mættu gjarnan leggja á minnið - eða frekar í minnið (látin fljóta í minninu frekar en íþyngja því).
Það fyrsta er vindgreining evrópureiknimiðstöðvarinnar frá því á hádegi í dag, laugardaginn 30. desember 2012. Hér er miðað við 100 metra hæð yfir sjávarmáli.
Lituðu fletirnir sýna vindhraða (10-mín meðaltal) en örvarnar vindstefnu auk styrksins. Litakvarðann má sjá með því að stækka kortið. Dekksti rauði liturinn sýnir fárviðrisstyrk (>32 m/s) og leggst hann upp að Vestfjörðum. Landslagið tekur við þessum vindi og mótar hann, núningur dregur úr vindhraða en annars staðar styrkist hann eða veikist eftir atvikum. Þessi rauði litur sést alloft á kortum eins og þessu - sérstaklega á smáum svæðum í námunda við fjöll. Öllu sjaldséðari er hann úti á hafi - en þó á hann trúlega eftir að sjást aftur síðar í vetur - jafnvel fljótlega.
Það sem er sérstaklega óvenjulegt á þessu korti eru stóru brúnu flekkirnir þar sem vindur er meiri en 36 m/s. Þeir sjást sjaldan yfir jafnstóru svæði og hér er. En við bíðum eftir næsta tilviki og munum þetta þangað til.
Hin kortin tvö eru einkum ætluð til uppeldis veðurnördasveitarinnar. Aðrir sjá ekki margt á þeim. Annað kortið ætti að vera orðið kunningi fastra lesenda hungurdiska - það sýnir skynvarmaflæði eins og reiknimiðstöðin segir það hafa verið kl. 15 í dag (laugardag). Varmaflæði úr sjó í loft er talið með jákvæðu formerki. Stærð þess ræðst af hitamun lofts og sjávar og vindhraða.
Litafletir sýna skynvarmaflæðið - stækkið kortið til að sjá kvarðann. Á rauðum svæðum er flæðið frá sjó til lofts, en gult og grænt sýnir þau svæði þar sem loftið hitar hafið (eða land). Svörtu línurnar sýna mismun sjávarhita og hita í 600 metra hæð.
Dekksti rauði liturinn sýnir svæði þar sem skynvarmaflæðið er meira en 500 Wött á fermetra og þar sem vindhraðinn er mestur (sjá fyrsta kortið) stendur talan 1013 Wött á fermetra - slagar upp í gamlan hraðsuðuketil. Reikniglöðum er látið eftir að reikna kílówattstundirnar.
En þetta er ekki allt, því fyrir utan skynvarmaflæðið er líka umtalsvert dulvarmaflæði úr sjó í loft. Það sjáum við á næsta korti.
Dulvarmi mælist ekki á hitamæli heldur segir kortið til um það hversu miklum varma yfirborðið er að tapa við uppgufun. Vatnsgufan geymir þennan varma sem síðan losnar aftur þegar hún þéttist og myndar úrkomu. Dekksta rauða svæðið með meira en 500 Wöttum á fermetra er ívið minna á þessu korti en því fyrra - og hæsta talan er 622 Wött á fermetra.
Samtals eru 500 til 1400 Wött af varma að streyma úr hafi í loft á mjög stóru svæði, eins gott að sólin hitaði sjóinn vel upp í sumar. Það var í fréttum síðast fyrir nokkrum dögum að stórir varmaflæðiatburðir af þessu tagi geti haft áhrif á stöðugleika sjávar og þar með hitt og þetta sem getur valdið æsingi í skrímslaheimi loftslagsumræðunnar. Menn geta flett þeim fréttum upp sjálfir.
Nú verður ritstjórinn að játa að hann þekkir ekki smáatriði reiknilíkansins, t.d. hvernig uppgufun í særoki er talin. Hópar veðurfræðinga temja sér þá iðju að fljúga rétt ofan sjávarmáls í ofsaveðrum til mælinga á einmitt því atriði. Hér má vísa í gamla frétt á mbl.is í því sambandi og trúlegt að tölur dagsins hafi notið góðs af leiðangrinum sem þar er getið.
Víðast hvar á kortinu er dulvarma- heldur meira en skynvarmatap sjávar.
Nú - öll uppgufunin skilar sér um síðir sem úrkoma - hvar það verður er ekki gott að segja. En úrkoman mikla sem féll á höfuðborgarsvæðinu í gær - föstudag - er afleiðing dulvarmanáms loftsins. Þessir stóru kuldapollar á norðurslóðum búa þannig óbeint til mikla úrkomu - enda fylgja þeim oftast illviðri og vandræði önnur þegar þeir lenda yfir hlýjum sjó.
Skynvarminn hitar loftið að neðan, spillir stöðugleika þess og býr til skilyrði til dulvarmalosunar sem færir fjöll og byggðir á kaf í snjó og svo framvegis.
29.12.2012 | 01:32
Óvenjuleg úrkomugusa
Í dag (föstudaginn 28. desember) var kyrrstætt úrkomusvæði yfir landinu suðvestanverðu. Þar fleygaðist hóflega kalt loft undir heldur hlýrra loft austan við. Ekki löngu fyrir hádegi fór að haugrigna á höfuðborgarsvæðinu og mældist úrkoma við Veðurstofuna á bilinu 2 til 4 mm í tíu klukkustundir. Þegar haft er í huga að sólarhringsúrkoma mælist ekki oft meiri en 30 mm í Reykjavík og sárasjaldan yfir 40 mm ætti að sjást hversu óvenjulegt þetta er. Austar á svæðinu var úrkoma enn meiri.
Þegar mikið rignir í hægum vindi, hiti er ekki nema 2 til 3 stig og rakastig ekki 100% lækkar hitinn smám saman vegna þess að mikil varmaorka fer í að bræða snjó - en næstum því öll úrkoma hér á landi byrjar ævi sína í föstu formi. Rigningin breytist því fyrst í slyddu og síðan fer að snjóa. Snjórinn er blautur og úr verður afskaplega leiðinlegur krapi.
Þegar ritstjórinn yfirgaf Veðurstofuna um kl. 18 var þar kominn þónokkur snjór og þykkt lag af þungum krapa lá á bílastæði og bílum. Ekki létt í lélegum skófatnaði. Leiðin lá síðan austur í bæ og upp að Korpúlfsstöðum. Þar var þá mun minni snjór en krapaelgur. Mælingar sýna þó að þar var úrkoma enn meiri heldur en á Veðurstofunni. Trúlega hefur vindur í lofti með hjálp Úlfarsfells og annarra nálægra fella náð að blanda slyddulagið betur þannig að frostmarkið hefur þar upphaflega verið ofar. En það eru auðvitað bara fljótheitavangaveltur.
Nú gekk á með slyddu og snjó allt þar til komið var upp á Kjalarnes, skammt norður af Grundarhverfi hafði nær ekkert snjóað og úrkoma var miklu minni. Slydduslitringur var þó inn með Akrafjalli að sunnan, en áður en kom að Grundartanga var orðið vel frostlaust og úrkoman sem var miklu minni heldur en syðra var eingöngu rigning.
Hitasamanburður sýnir að 3 til 5 stiga hiti var alls staðar austan úrkomusvæðisins og undir miðnætti mátti reyndar heita frostlaust á láglendi um land allt - einna kaldast var á Reykjanesskaganum.
Allur textinn hér að ofan hlýtur að verka sem hálfgerð öfugmæli miðað við það að á sama tíma er spáð einu versta snjóflóðaveðri um árabil um landið vestan- og norðanvert. Svo er þó auðvitað ekki. Snjókoman á Suðvesturlandi er nánast tilviljunarkennt aukaatriði í miklu víðtækari stöðu.
Til að skýra það nánar lítum við á kort sem sýnir gerð evrópureiknimiðstöðvarinnar af hita og vindi í 925 hPa-fletinum yfir landinu og nágrenni þess núna á miðnætti (föstudagskvölds).
Heildregnu línurnar sýna hæð 925 hPa-flatarins. Hann liggur mjög neðarlega í dag, það er 280 metra jafnhæðarlínan sem liggur rétt austan við Reykjavík á kortinu. Litafletirnir sýna hitann í fletinum. Frostlaust er yfir landinu öllu í flatarhæð nema allra nyrst á Vestfjörðum og við Reykjanes. Bláa örin bendir á daufblágræna bletti við Suðvesturland. Þar er bráðnandi úrkoma að kæla loftið.
Austan við land er gríðarstórt svæði með mjög hlýju lofti og var fjallað um það í pistli hungurdiska í gær. Hiti fór í 10 stig í Skaftafelli í dag - vafasamt er að hann fari hærra úr þessu því hlýjasta loftið fer til norðausturs austur af landinu.
Milli Vestfjarða og Grænlands er hins vegar jökulkaldur norðaustanstrengur, fárviðri er á stóru svæði í flatarhæðinni. Fjólublái liturinn byrjar við -16 stiga frost. Hlýja loftið hefur hingað til þrengt að - en nú fer dæmið að snúast við. Kalda loftið með sínum 20 til 35 m/s fer að falla til suðurs yfir landið vestanvert. Þegar úr aðhaldinu dregur dreifist úr kuldanum og þar með dregur úr vindi. En við látum Veðurstofuna og aðra um spárnar. Fylgist með þeim.
Viðbót kl. 15:30 laugardaginn 29. desember.
Eftir að pistillinn var skrifaður hélt úrkoma áfram í Reykjavík og kl. 9 í morgun kom í ljós við mælingu að úrkoman hafði alls orðið 70,4 mm á einum sólarhring. Þetta er miklu meira en mest hefur mælst þar áður og rétt að bíða í nokkra daga með endanlega staðfestingu á metinu. Talan 70,4 er tæplega 9 prósent meðalársúrkomu í Reykjavík. Almennt er sjaldgæft að sólarhringsúrkoma á veðurstöð fari yfir 6 prósent meðalársúrkomunnar á staðnum. Fleira má sjá um úrkomu síðasta sólarhrings á bloggsíðu nimbusar og einnig er fjallað um eldra met í Reykjavík í fróðleikspistli á vef Veðurstofunnar, gamla Reykjavíkurmetið fær þar umfjöllun þegar nokkuð er liðið á pistilinn.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.12.2012 | 01:12
Á hlýindahlið lægðarinnar djúpu
Nú er spáð illviðri víða um land samfara því að mjög djúp lægð kemur upp að landinu úr suðri. Þrátt fyrir að aðeins sé tæpur sólarhringur í það að lægðarinnar fari að gæta eru tölvuspár ekki enn sammála um braut lægðarinnar né það hversu djúp hún verður þegar best (verst) lætur.
Evrópureiknimiðstöðin nefnir töluna 942 hPa en dönsk og bandarísk líkön segja miðjuþrýstinginn fara niður fyrir 940 hPa. Það má minna á að loftþrýstingur virðist ekki hafa farið svo neðarlega á veðurstöð hér á landi síðan í miklu norðaustanillviðri dagana 15. til 16. janúar 1999. Ámóta djúpar lægðir hafa þó verið á ferð nærri landinu - en þrýstingur á landi hefur ekki náð niður í 940 hPa.
Mikið tjón varð í janúarveðrinu 1999, mest í sunnan- og austanlands. Norðanlands gerði hins vegar fræga og illskeytta snjóflóðahrinu.
Að þessu sinni er veðri spáð einna verstu á Vestfjörðum og þegar þetta er skrifað (seint á fimmtudagskvöldi) er snjóflóðaóvissuástand í gildi á nokkrum stöðum þar um slóðir. E.t.v. verður hætta á ferðum víðar. Stórstreymt er að morgni laugardags og gerir þá trúlega mikið brim viða nyrðra og fari þrýstingur jafn neðarlega og spáð er verður sjávarstaða einnig há víða um land.
Lægðin er líka merkileg fyrir það að gríðarhlýtt er í lægðarmiðju og austan hennar. Þykktin yfir Austfjörðum á að fara upp í 5420 metra á aðfaranótt laugardags og upp fyrir 5280 yfir Vestfjörðum. Undir venjulegum kringumstæðum ætti þetta að tryggja hláku á láglendi um land allt - en munum að þegar þykktarbratti er mjög mikill stingur kalda loftið sér langt undir það hlýja fyrir ofan. Því er snjókomu spáð á Vestfjörðum og á Norðurlandi líka. Eystra nær hlýja loftið lengra niður, alla vega niður fyrir 1000 metra hæð þar sem 3 stiga hita er spáð í 850 hPa. En við skulum til gamans og fræðslu einnig líta á skemmtilega mættishitaspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl 6 að morgni laugardags.
Litafletirnir sýna mættishitann, heildregnar línur sjávarmálsþrýsting og strikalínur hita í 850 hPa. Þrýstikortið sýnir lægð sem er teygð og toguð, margar lægðarmiðjur að berjast um forystusætið - þar er vandinn og reiknimiðstöðvar gera veg þeirra mjög misjafnan. Það er raunar með hálfum huga að ritstjórinn sýnir þetta kort - en það er of freistandi til að láta það sleppa í gegn ósýnt. Þeim sem eru lítið fyrir beiskt bragð er eindregið ráðlagt að sleppa næstu málsgrein.
Við sjáum þarna töluna 16,3 stig rétt úti af norðanverðum Austfjörðum, ansi há tala í snjóflóðabyl. Þetta er sá hiti sem loftið fengi væri það dregið niður í 1000 hPa. En - gáum nú að - það eru engin 1000 hPa þarna undir - og munar meira að segja miklu. Á kortinu er sjávarmálsþrýstingurinn nærri 950 hPa, 1000 hPa flöturinn er strangt tekið um 400 metra neðan sjávarmáls, svipað og yfirborð Dauðahafsins í Miðausturlöndum. Til að finna mættishita miðað við eðlilegt sjávarmál þurfum við því að draga 4 stig frá stigunum 16 og fá út töluna 12. Það væri hitinn við sjávarmál ef loft í 850 hPa næðist niður. Þetta er auðvitað býsna gott í janúar.
Í spá úr sömu syrpu fyrir föstudagskvöld mátti sjá meir 20 stiga mættishita yfir Skotlandi og ekki nema -15 stiga frost í 500 hPa. Dægurhitamet á þessum tíma árs á Stóra-Bretlandi eru á bilinu 16 til 17 stig, en desemberhitamet Bretlandseyja er 18,3 stig (nema að það hafi verið slegið nýlega). Varla falla met þó að þessu sinni - alla vega er ekki svo að sjá í spám bresku veðurstofunnar. Við verðum að taka mark á þeim.
Svo er að fylgjast með spám Veðurstofunnar og annarra til þess bærra aðila.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.12.2012 | 00:50
Vel sloppið - tvö eða þrjú sjúkk í sömu vikunni?
Af ástæðum sem reynt var að skýra út í pistli sem merktur er aðfangadegi skall kuldinn aldrei af fullum þunga suður yfir landið, hurð skall þó nærri hælum (sjúkk - á nútímamáli). Við skulum samt líta á þykktarspá sem gildir um það leyti sem þessi pistill er skrifaður - um miðnætti að kvöldi annars jóladags.
Jafnþykktarlínur eru svartar, en litafletir sýna hita í 850 hPa-fletinum. Þykktin í miðjum kuldapollinum er ekki nema 4830 metrar, en 5060 metra línan sker Melrakkasléttu og Langanes - svo sannarlega vel sloppið. Hlýrra loft er á leið til landsins.
Á aðfangadag gáfu fleiri en ein spá til kynna að kyngja myndi niður snjó um nær allt vestanvert landið á þriðja í jólum. Evrópureiknimiðstöðin og bandaríska veðurstofan voru nokkuð sammála um að snjódýptin gæti orðið meiri en 40 cm í Reykjavík. Ekki þarf að orðlengja að slíkt hefði valdið umferðaröngþveiti eða algjörri teppu. Það er reyndar vissara að tala varlega því fimmtudagur er rétt að hefjast þegar þetta er skrifað - og það er farið að snjóa. Við sem búum suðvestanlands bíðum því með að sjúkka okkur í sólarhring eða svo. Öll snjódýpt undir 25 cm er þó sjúkktilefni - miðað við sentimetrana 40. Snæfellsnes og Vestfirðir sleppa trúlega ekki eins vel.
Þetta kort gildir kl. 6 að morgni fimmtudags. Mjög öflugt úrkomusvæði er vestur af Vestfjörðum - það hefur í kvöld valdið allmikilli snjókomu bæði á Snæfellsnesi og á Vestfjörðum. Þetta svæði er búið að vera í kortunum í nokkra daga, en fyrst þegar það kom fram átti aðalúrkoman að vera á Suðvestur- og Vesturlandi. Spárnar hafa síðan flutt það vestar og vestar eftir því sem nær myndun þess hefur dregið.
En úrkoman er mikil, sé vel að gáð (stækka má kortið) má sjá lítinn dökkbláan blett í svæðinu. Það táknar að úrkoman sé þar um 15 til 20 mm á þremur klukkustundum og þar með yfir 5 cm ákomu snævar á klukkustund. Fjólublá strikalína sem liggur þarna nærri sýnir mínus fimm stiga hita í 850 hPa, það er oft talin markalína á milli snjókomu og rigningar. Þegar úrkoma er mjög mikil getur snjór fallið úr enn hlýrra lofti.
Lægðin syðst á kortinu er á leið norður. Hún er nokkuð öflug og henni fylgja talsverðir úrkomubakkar - og er Suðvesturland í leið þeirra síðdegis á fimmtudag og síðar. Hvort það verður snjókoma, slydda eða rigning verður ósagt látið. En þetta þýðir að þeir sem eru á ferð milli landshluta verða að fylgjast vel með veðurspám Veðurstofunnar og annarra til þess bærra aðila - og muna að rausið á hungurdiskum jafngildir ekki alvöruspá.
Þriðja hugsanlegt sjúkk vikunnar er enn vafasamara - en gríðardjúpri lægð er spáð austur af landinu á laugardag. Þriðja kort dagsins er spá um þrýstifar um miðnætti á föstudagskvöld, þess 28.
Jafnþrýstilínur eru svartar, þykkt er sýnd með daufum strikalínum, en litir sýna þrýstibreytingu síðustu þrjár klukkustundir næstar spátímanum. Greina má fjórar lægðarmiðjur, sú sem er næst Suðausturlandi er mest. Nú er býsna opið hvað gerist í framhaldinu. Undanfarna daga hefur miklu norðanveðri verið spáð á laugardag - og er enn. Í spá reiknimiðstöðvarinnar frá hádegi ber hins vegar svo við að lægðin krappa norðvestur af Skotlandi á að kippa meginlægðinni til austurs og koma í veg fyrir að hún verði hér upp í landsteinum eins og spáð hefur verið undanfarna daga.
Fari svo ná vindstrengurinn milli Grænlands og Íslands og norðanstrengur vestan við lægðina ekki saman og landið norðaustan-, austan- og sunnanvert sleppa mun betur en ella. Við sjáum líka (stækkið kortið) að þykktin yfir Austurlandi er meiri en 5400 metrar - það ætti að tryggja að rigning verður á láglendi en ekki snjókoma. Landið er allt undir meiri þykkt heldur en 5280 metrum - það er nærri mörkum rigningar og snjókomu við sjávarmál. Hversu margir landsmenn geta sjúkkað sig á sunnudag verður bara að sýna sig - aðrir fá hurðina í hælana.
En enn og aftur verður að tyggja að veðurspár eru ekki gerðar á hungurdiskum - hér er aðeins malað um möguleika.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.12.2012 | 01:45
Jólakuldinn (enn þusað um háloftin)
Jú, jólin verða köld, en samt sleppum við betur en á horfðist um tíma. Fyrir því eru að minnsta kosti tvær ástæður. Önnur er sú að spárnar virðast almennt vanmeta hlýnun heimskautalofts yfir sjó eða gisnum hafís að vetrarlagi sé spáð fimm daga eða meir fram í tímann. Spárnar hafa því heldur mildast eftir því sem nær hefur dregið jólum.
En við fjöllum um hina ástæðuna í pistlinum hér að neðan. Til skýringar fylgir kort - ekki alveg auðvelt ásýndar - og eru þeir lesendur sem sjaldan líta inn á hungurdiskum beðnir velvirðingar. Kortið er úr líkani evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir kl. 18 á jóladag.
Hér má sjá hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), þykktina (rauðar strikalínur) og iðu (bleikgrá svæði - en við skulum ekki gefa henni gaum að sinni). Auk þess eru nokkrar örvar og tölur á kortinu - við skýrum þær hér að neðan. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfsins, því meiri sem hún er - því hlýrra er loftið.
Fimmhundruð hPa-flöturinn er um það bil miðju veðrahvolfinu. Jafnhæðarlínurnar (svartar) eru dregnar á 6 dekametra bili, það er 510 dam línan sem sker Norðausturland og 516 dam jafnhæðarlínan liggur rétt suðvestan við land. Þykktin er einnig mæld í dekametrum, 510 dekametra línan þverar landið, en 504 snertir norðanverða Vestfirði.
Kuldapollurinn við Austur-Grænland er allsvakalegur, við sjáum 4860 metra jafnþykktarlínuna hringa sig utan um hann. Ekki er vitað til þess að þykktin hafi nokkru sinni orðið svo lág á Íslandi.
Örvarnar sýna hvernig þykktarlínurnar færast til. Þær bláu sýna aðstreymi af köldu lofti, en þær rauðu hlýtt aðstreymi. Við sjáum að kuldaaðstreymið er meira til austurs heldur en til suðurs. Kalda aðstreymið er ekki sérlega mikið yfir Íslandi og ekki er langt í hlýtt aðstreymi yfir Grænlandshafi.
Það sem virðist ætla að bjarga okkur frá beittasta kuldanum er lægðin yfir Vestur-Grænlandi. Hún sést ekki á kortinu sem við litum á í pistli gærdagsins - enda myndast hún ekki fyrr en á jólanótt, í norðanstrengnum frá norðurpólnum. Hún kippir öflugasta strengnum til vesturs fyrir sig og byrjar að dæla hlýrra lofti norður á Grænlandshaf (rauðu örvarnar). Þar með stíflast kuldaaðstreymið að norðan.
En kalda loftið fer svosem ekki neitt - það fylgir lægðinni ekki í gegnum Grænland þótt eitthvað sleppi yfir. En það mun smám saman hlýna, jafnvel þar sem það er. Sjálfsagt er hörkugangur í hafísmyndun á svæðinu.
En rætist þessi spá reiknimiðstöðvarinnar fylgir hlýja aðstreyminu háskýjabakki á Grænlandshafi, blika eða cirrostratus (Ci). Hann ætti að vera sjáanlegur strax á jóladag og ef menn rýna í hann má sjá skýin berast til austurs í háloftavestanáttinni. Skömmu síðar eiga að verða til tvær litlar lægðir með allmiklum éljabökkum sem síðan bíða þess að háloftalægðin snúi til baka eftir að hafa tekið langa lykkju til suðurs. Ferðin sú er merkt með gráum örvum og dagsetningum.
Hér greinir síðan á um framhaldið - reiknimiðstöðin er mjög krassandi - lægð um 950 hPa við Suðausturland á föstudaginn. Bandaríska veðurstofan er ekki eins afgerandi. Lítið er að marka þessar framtíðarspár, en þegar gerðarlegum kuldapolli úr norðri er sleppt út yfir hlýtt Atlantshafið er vissara að hafa augu á ástandinu.
Ég óska lesendum hungurdiska gleðilegra jóla. Pistlagerð er óljós jóladagana.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.12.2012 | 01:42
Jólakuldi?
Þegar þetta er skrifað (að kvöldi laugardags 22. desember) er enn hlýtt á landinu, frostlaust í byggð og hiti víða á bilinu 5 til 8 stig um landið sunnanvert. En nú fer hægt kólnandi. Það verður þó að segjast að tölvuspár í dag eru ekki alveg jafngrimmar með frostið eins og þær voru í gær. Kortið að neðan sýnir hæð 500 hPa og þykktina eins og evrópureiknimiðstöðin segir hana verða kl. 18 á aðfangadagskvöld.
Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru svartar en þykktin er sýnd með rauðum strikalínum. Allar tölur eru dekametrar (1 dam = 10 metrar). Bláu örvarnar sýna framrás kalda loftsins. Við sjáum að fyrir vestan land (og sennilega yfir landinu líka) stefnir kuldinn til suðausturs en fyrir norðan er framrásin meira til austurs heldur en í átt til okkar.
Það er 5160 metra jafnþykktarlínan sem þverar landið. Spár fyrir helgi nefndu þann möguleika að 4920 metra jafnþykktarlínan næði upp undir landsteina. Svo lítil þykkt telst mjög óvenjuleg á landsvísu - sérstaklega ef hún nær allt suður í háloftaathugun á Keflavíkurflugvelli. Í hádegisspánni í dag nær 5000 metra línan rétt að snerta Melrakkasléttu á annan jóladag. Í sömu spá leggur kuldakastið upp laupana strax að kvöldi sama dags um leið og lægð með suðaustanátt er mætt á svæðið.
Hvort þessi mynd evrópureiknimiðstöðvarinnar er rétt vitum við ekki - en ætli við göngum samt ekki út frá því að býsna kalt verði jóladagana.
Ef trúa má bandarísku endurgreiningunni hefur þykkt yfir Keflavíkurflugvelli aðeins fimm sinnum farið niður fyrir 5000 metra í desember á síðustu 90 árum. Lægst í kuldakastinu skammvinna og skemmtilega (?) milli jóla og nýjárs 1961, þá fór hún niður í 4920 metra yfir Keflavík og í sama kasti fór hún niður í 4883 metra við norðausturströndina.
Eins og áður hefur komið fram hér á hungurdiskum er þetta ákveðna kuldakast ritstjóranum sérlega minnisstætt vegna þess að þá sá hann hungurdiska í fyrsta skipti og sömuleiðis frostreyk. Jók það mjög áhuga hans á veðurfræði. Sömuleiðis frétti hann af því í fyrsta sinn - og sannreyndi - að rosabaugur um tungl í hörðu frosti að vetri boðaði hláku. Spekin sú er kannski ekki gegnheil eða fullmarktæk og aldrei er gildistími spárinnar nefndur. En fyrir tíma evrópureiknimiðstöðvarinnar varð að grípa þau spámerki sem gáfust og nýta varð þau til fullnustu.
Tungl er fullt um jólin og má leita rosabauga í háskýjabreiðum sem reiknimiðstöðin segir að fara muni hjá.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.12.2012 | 01:53
Hlýtt í tvo daga enn? - Hvað svo?
Allir reikningar (sem frést hefur af) gera ráð fyrir kólnandi veðri næstu daga. Laugardagur verður þó hlýr og sunnudagurinn að mestu leyti. Gærdagurinn (fimmtudagur) var nógu hlýr til þess að dægurhitamet voru sett á nokkrum stöðvum sem mælt hafa lengi, þar á meðal á Keflavíkurflugvelli. Rætist kuldaspáin falla trúlega dægurmet í hinn endann - en það kemur bara í ljós.
Sé að marka spár er aðdragandi kuldans frekar rólegur að þessu sinni - hann herðir tökin sígandi. Við lítum nánar á mánudagsstöðuna hér neðar en lítum fyrst - í fræðsluskyni - á spár um skynvarmaflæði í nágrenni okkar um hádegi á laugardag og svo aftur á sunnudagskvöld (Þorláksmessukvöld).
Bíðum við - skynvarmaflæði - hvað er það? Við gætum líka kallað það skynvarmaskipti eða skynvarmastreymi. Ef við stingum hendi niður í ísvatn streymir varmi úr hendinni út í vatnið. Við skynjum kuldann og um síðir fellur hiti handarinnar. Ef við stingum hendinni í heitt vatn (harla óþægilegt sé hitinn 40 til 50 stig), streymir varmi úr vatninu inn í höndina og við skynjum hann eða jafnvel sársauka.
Mælieining varmastreymis er Wött á fermetra. Á kortunum er sjónarhóll loftsins valinn þannig að ef yfirborðið hitar loftið er varmastreymið talið pósitíft, en kæli það loftið er streymið negatíft.
Skynvarmaflæðið er sýnt með litum. Kortið gildir um hádegi á laugardag 22. desember. Græni liturinn sýnir þau svæði þar sem loftið er að hita yfirborð lands og sjávar - loftið er hlýrra en yfirborðið. Rauðu svæðin sýna aftur á móti þau svæði þar sem sjórinn hitar loftið (og glatar við það varma). Rauð rönd liggur meðfram allri austurströnd Grænlands. Þar streymir kalt loft suður með landi. Sé kortið stækkað (þar er hægt) má þar sjá töluna 160 ekki langt austan við Kulusuk. Sömuleiðis er áberandi rauður blettur austast á kortinu. Þar streymir kalt loft af meginlandinu út yfir hlýjan Norðuratlantshafsstrauminn.
Á kortinu eru einnig dregnar svartar línur - þær afmarka svæði þar sem munur á yfirborðshita sjávar og hita í 925 hPa-fletinum (um 600 metra hæð) er meiri en 8 stig. Svona lítur skynvarmaflæðið út þegar vetrarhlýindi ríkja á Íslandi.
Á næsta korti er annað uppi - aðeins 36 klukkustundum síðar eða um miðnætti á Þorláksmessukvöld.
Svo má heita að allt kortið utan landa sé hulið rauðum lit. Kalt loft úr norðri hefur haldið innreið sína. Varmastreymið er orðið nærri 400 Wött á fermetra suðaustur af Scoresbysundi. Ef við teljum svörtu línurnar (þær byrja við 8 stig og eru síðan á 2 stiga bili) finnum við að hámarkið undan Norðaustur-Grælandi er 20 stig. Munur á sjávarhita og hita í 600 metra hæð er 20 stig. Loftið hlýnar því mjög mikið að neðan á leið til Íslands og allra versti broddurinn fer úr kuldakastinu. Það er umhugsunarvert að væri sjórinn þakinn hafís á leið loftsins til Íslands hlýnaði það mun minna.
Hlýnunin sem á sér stað á leið til landsins er ekki eingöngu háð hitamun lofts og sjávar heldur einnig vindhraðanum. Mikill vindur auðveldar að vísu hlýnun en eftir að einhverjum mörkum er náð skiptir meira máli að loftið er mun skemmri tíma yfir opnu hafi sé vindur mikill heldur en ef hann er lítill.
Ef koma á mjög köldu lofti norðan úr Íshafi suður til Íslands verður leið þess að liggja sem mestan hluta leiðarinnar yfir ís - og þar að auki að vera á hraðri ferð.
En lítum á norðurhvelskort reiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á aðfangadag jóla.
Vísað er í pistil gærdagsins varðandi skýringar á táknmáli kortsins. En Ísland er rétt ofan við miðja mynd. Við sjáum að fyrirstöðuhæðin sem minnst var á í gær hefur nú myndað vegg á móti kaldasta loftinu á kortinu (það fjólubláa). Hversu langt kemst það suður?
Þetta virðist heldur ískyggilegt, en munum þó að lítill hafís er á leiðinni til Íslands og ekki er heldur spáð miklum vindi - við getum því vonað það besta.
21.12.2012 | 01:40
Ættum við að fara að trúa jólaspánni?
Hér verður fram haldið hringluleiknum frá í gær, við berum saman spár með sama gildistíma, en mun á byrjunartíma. Talsvert minni munur er nú á jólaveðrinu frá einum spátíma til annars heldur en undanfarna daga. Þrátt fyrir það getur mjög margt enn farið úrskeiðis.
En lítum fyrst á samanburð spárinnar frá hádegi og spárinnar frá hádegi í gær, þá sem við skoðuðum þá. Hér er táknmál það sama og áður. Jafnþrýstilínur eru svartar og heildregnar og munur á spátímunum tveimur er dreginn fram með litaflötum. Þar sem liturinn er rauður er þrýstingi í dag spáð lægri heldur en í gær en hærri sé liturinn blár. Á þessu korti má einnig sjá þrýstilínur úr spánni í gær merktar með strikalínum. Allt sést betur sé kortið stækkað.
Hádegisspáin í dag er nánast eins hvað Ísland varðar og var í gær (landið er litlaust), en við sjáum að lægðinni er nú spáð nokkru austar en er í dag. Tölurnar nærri lægðarmiðjunni eru enn nokkuð háar. Sömuleiðis er talsverð breyting fyrir norðan land, á bilinu 5 til 10 hPa.
Næsta kort sýnir nákvæmlega sömu jafnþrýstilínur og hið fyrra, en nú er miðað við spána frá miðnætti í samanburðinum.
Enn betri samsvörun er þarna á ferð í námunda við Ísland, lægðin hikast til norðausturs og er ótrúlega miklu minni heldur en hún var í spám fyrir sama tíma fyrir nokkrum dögum.
Ítrekum að alls ekki er víst að veðrið verði svona. Á kortinu eru 4 hPa á milli jafnþrýstilína og spáð er um það bil 3 hPa munur á þrýstingi í Reykjavík og á Snæfellsnesi utanverðu. Það reiknast sem um það bil 15 m/s þrýstivindur. Venjulegt er að reikna með að vindur í 10 m hæð yfir sjávarfleti sé um 70% af þrýstivindi. Hér er því spáð um 11 m/s af norðaustri á Faxaflóa, en minna yfir landi. Hvassara er í spánni við Suðausturland.
Lítum að lokum á stöðuna á norðurhveli eins og evrópureiknimiðstöðin segir hana verða um hádegi á laugardag (22. desember) - kortið í gær sýndi föstudagsspána.
Ísland er rétt neðan við miðja mynd en hún nær um meginhluta norðurhvels jarðar norðan við 30°N. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Þykktin er sýnd í litakvarða (hann sést skýrt sé myndin stækkuð), þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin á milli blárra og grænna lita er við 5280 hPa. Ísland er á myndinni vel inni á grænu (og tiltölulega hlýju) svæði.
Fyrirstöðuhæðin fyrir norðaustan og norðan land verndar enn á laugardegi. Aðalkuldinn er norður í Íshafi og yfir Síberíu (fjólublár litur). Svarta örin ofarlega til vinstri bendir á mikla fyrirstöðuhæð norður af Alaska. Þessi hæð er að stugga við norðurslóðakuldanum og ekki ljóst hvað úr verður.
Það er almenn reynsluregla að kuldinn sé heldur hreyfanlegri í spám, sem ná lengra fram í tímann en fjóra sólarhringa, heldur en í raunveruleikanum. Sé tekið mark á þeirri varúðarreglu verður útrás kuldans ekki spáð af teljandi öryggi fyrr en á morgun (föstudag 21. desember).
Þá upplýsist e.t.v. líka um hvers konar kuldakast yrði að ræða.
20.12.2012 | 00:56
Enn er óvissa um jólaveðrið
Í pistli í fyrradag var fjallað um óvissu í margra daga veðurspám, þá var vika til jóla og spár rokkandi til og frá með mjög djúpa (eða ekki svo djúpa) lægð fyrir sunnan og suðaustan land. Og enn hafa spárnar ekki náð ákveðinni festu. Til að sjá þetta skulum við líta á breytingu spár evrópureiknimiðstöðvarinnar um veður á aðfangadagskvöld milli tveggja síðustu spátíma. Kortið sýnir jafnþrýstilínur við sjávarmál úr spánni frá hádegi á fimmtudag, en litafletir mismun þeirrar spár og næstu á undan - frá miðnætti sama dags.
Kortið sýnir norðanvert Atlantshaf - Ísland er rétt ofan við miðja mynd, Spánn neðst til hægri - en Baffinsland efst til vinstri. Kortið batnar sé það stækkað og þá má sjá tölu við suðurströnd Íslands, 20,6 hPa, inni í stórum bláum flekki. Hér er þrýstingurinn á þessum stað 1004 hPa, en var 983 hPa í næstu spá á undan. Hér er gert ráð fyrir norðaustanstrekkingi, en hvassara verður úti fyrir Suðausturlandi.
Í heild má sjá að þrýstikerfið sem ríkir frá Grænlandi austur til Mið-Evrópu er mun austar í þessari spá heldur en þeirri næstu á undan. Nú verðum við að hafa í huga að vel má vera að næsta spá hér á eftir (reiknuð frá miðnætti aðfaranótt fimmtudags) bakki aftur með kerfið - en þó er varla hægt að segja að einhverjum stöðugleika sé náð fyrr en tvær til þrjár spár í röð hætti með tuga hPa hringl frá einum spátíma til annars.
En hvað veldur þessum gríðarmikla breytileika? Um það er ekkert hægt að fullyrða nema þetta venjulega - bylgjustaða á norðurhveli er mjög laus í rásinni. Kortið að neðan sýnir stöðuna um hádegi á föstudag (21. desember).
Hér er Ísland rétt neðan við miðja mynd en hún nær um meginhluta norðurhvels jarðar norðan við 30°N. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Þykktin er sýnd í litakvarða (hann sést skýrt sé myndin stækkuð), þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin á milli blárra og grænna lita er við 5280 hPa. Ísland er á myndinni vel inni á grænu (og tiltölulega hlýju) svæði.
Hér er landið enn undir vernd fyrirstöðuhæðar fyrir norðan og norðaustan land, kuldapollur er yfir Eystrasalti. Aðalkuldinn er norður í Íshafi og yfir Síberíu fjólublár litur). Svarta örin ofarlega til vinstri bendir á mikinn hrygg norður og vestur af Alaska. Sé hann skoðaður nánar sést að þar skerast jafnhæðar- og jafnþykktarlínur mjög. Vestan við hrygginn streymir mjög hlýtt loft norður fyrir 70. breiddarstig og myndar allmikla fyrirstöðuhæð sem næstu daga á að hreyfast í átt til Baffinslands.
Rúmmál kuldans yfir norðurslóðum breytist lítið frá degi til dags - ef stuggað er við honum á einum stað verður hann að hörfa eitthvað annað. Það mun nýja fyrirstaðan einmitt gera - hvert fer kuldinn þá? Einn möguleiki er að hann ryðjist í átt til okkar - en það er ekki víst. En hann gæti breytt stöðunni hér við land og það er einmitt það sem jólaspárnar hafa ekki gert upp við sig.
Framrás á köldu lofti hefur mikil áhrif á lægðaþróun. Nýjasta spáin gerir helst ráð fyrir því að framherjar kuldans verði aðeins á undan lægðinni - þannig að hún hörfi til austurs frá því sem áður var spáð. En munið að hungurdiskar spá engu um jólaveðrið - en ræða spár á frjálslegan hátt.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 120
- Sl. sólarhring: 148
- Sl. viku: 955
- Frá upphafi: 2420770
Annað
- Innlit í dag: 111
- Innlit sl. viku: 843
- Gestir í dag: 106
- IP-tölur í dag: 105
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010