Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Úrkomumet í september

Mesta sólarhringsúrkoma á mannaðri stöð á landinu í september mældist við virkjunina á Nesjavöllum 17. september 2008. Ef ekki er annað tekið sérstaklega fram er sólarhringsúrkoma miðuð við næstliðinn sólarhring á undan mælitímanum sem er klukkan 9 að morgni.

Flestar mannaðar stöðvar Veðurstofunnar senda daglega eða oftar skeyti til hennar um úrkomumagn. Stöðin á Nesjavöllum er ein fárra (um 10 talsins) sem gera það ekki, þaðan koma athuganir aðeins einu sinni í mánuði. Því fréttist ekki af metinu fyrr en í október og mælingarinnar ekki getið í sérstökum fróðleikspistli sem skrifaður var um veðrið nokkrum dögum síðar og birtist á vef Veðurstofunnar.

Þar kom reyndar fram að enn meiri úrkoma mældist þennan dag á Ölkelduhálsi, ekki svo langt frá Nesjavöllum, 201 mm, munar aðeins 4 mm. Stöðin sú stöð er sjálfvirk og telst talan met fyrir sjálfvirkar stöðvar.

Þetta veður var í einhverjum skilningi tengt leifum fellibylsins Ike sem hafði valdið miklu tjóni á Kúbu og í Texas nokkrum dögum áður. Fjallað er um leiðir loftsins til Íslands í fróðleikspistlinum sem tengillinn að ofan vísar í.

Heildarúrkoma á Nesjavöllum í september 2008 varð einnig met: 665,9 mm, mesta mánaðarúrkoma í september á landinu.


Nýútkomin grein

Í dag kom út grein í Vikuriti bandaríska jarðeðlisfræðifélagsins þar sem ég er meðhöfundur. Greinin nefnist á ensku: Air temperature variations on the Atlantic-Arctic boundary since 1802 eða Hitabreytileiki á mörkum Atlantshafs og n-heimsskautssvæðisins síðan 1802. Fjallað er um þróun hitafars á svæðinu frá V-Grænlandi í vestri austu til Hvítahafs i Rússlandi.

Ég mun síðar fjalla nánar um þennan breytileika, en helstu niðurstöður eru þær að erfitt eða ómögulegt sé að sjá að reglubundnar hitasveiflur hafi átt sér stað á svæðinu. Hins vegar eru miklar óreglulegar náttúrulegar sveiflur áberandi. Mest þeirra er hlýskeiðið á árunum 1925 til 1965. Sömuleiðis kemur í ljós að góð fylgni er með hitafari sjávar norðarlega í Atlantshafi og sjávarhita miklu sunnar, í námunda við Golfstrauminn austan við Bandaríkin.

Greinin er því miður ekki enn aðgengileg í heild á netinu (nema greitt sé fyrir), en vonandi verður bætt úr því síðar. Minn hlutur í greininni er vinna við framlengingu hitaraðarinnar úr Stykkishólmi á tímabilinu 1798 til 1845 sem ég hef unnið að í rúm 20 ár. Léttir er nú að hægt sé fyrir mig að benda á tilvitnanlega grein hvað þetta verk varðar. 

 

 

 


September, haustið og tvímánuður

Sem kunnugt er september talinn með sumrinu í árstíðauppgjöri Veðurstofunnar. Af hverju það stafar er ekki gott að segja. Víst er að á upphafsárum Veðurstofunnar var ekkert sérlega hlýtt í september, meðalhiti í Reykjavík 6,8 stig (1920 til 1929). Meðalhitinn í ágúst á þessum árum var svosem ekkert sérstakur heldur, 10,0 stig. Milli mánaðanna kólnaði því um 3,2 stig að meðallagi.

Ég hef ekki séð nein plögg sem gefa til kynna nákvæmlega hvenær ákvörðun um árstíðir var tekin, en það var búið að því þegar ársyfirlit Veðráttunnar fyrir 1925 kom út. Þá var líka ljóst að Veðurstofan taldi veturinn ná yfir tímann desember til mars. Það geta væntanlega flestir sætt sig við. Fyrst veturinn var 4 mánuðir, varð þá ekki líka að telja sumarið jafnlangt. Vor og haust urðu því tveir mánuðir hvort um sig.

Ákvörðunin um september fékk góða staðfestingu næstu 10 árin, frá og með 1930. Meðalhitinn í Reykjavík í september var allt í einu kominn upp í 9,1 stig og ágúst í 11,0 stig. Þá kólnaði aðeins um 1,9 stig milli mánaðanna. Síðan höfum við margan september sopið. Á tímabili töldum við hann tvímælalaust heyra til haustsins, t.d. 1974 til 1983, þá var hann aftur kominn niður í 6,8 stigin.

Meðaltal 20. aldarinnar allrar var 7,8 stig, og síðustu 10 árin er hann 8,7 stig og hækkar vonandi við það að september 2010 bætist við og telst þá væntanlega til sumarsins.

Hvort er hann svo í raun og veru, haust eða sumar? Tvímánuður hefst eftir gamla íslenska misseristímatalinu á þriðjudegi í 18. viku sumars og lýkur á miðvikudegi síðast í 22. viku sumars. Að venjulegu almanaki eru þessir dagar í kringum 26. ágúst og 25. september. Mér þykir harla ólíklegt að nafnið vísi til þess tvíeðlis mánaðarins sem hér er til umræðu (sumar eða haust?). En þetta torræða nafn er einna minnst notað af gömlu mánaðanöfnunum öllum en fær með þessum vangaveltum mína alþýðuskýringu sem á vel við.

Kannski hafa forfeður okkar vitað að haustið gæti stundum byrjað 24. ágúst en stundum gæti það dregist til 23. september, þá væri haustið hins vegar nær örugglega komið.


Af septemberástandinu

Nú eru liðnir 9 dagar af september 2010 og óhætt að líta til beggja átta. Metahrinan á dögunum stóð í 5 daga, met voru sett á 73 sjálfvirkum stöðvum (vegagerðarstöðvar taldar með). Síðasta metahrina í september var árið 2002 þannig að hálfgert ómark er að telja með stöðvar sem byrjuðu eftir það. En 26 eldri sjálfvirkar stöðvar slógu sín gömlu met.

Flest metin voru slegin þann 4. en met féllu einhvers staðar alla dagana 1. til 5. september. Flest merkari metin eru vel tíunduð á bloggi Sigurðar Þórs Guðjónssonar þannig að ég sleppi því hér.

Tíu mannaðar stöðvar slógu met. Merkast var fall Akureyrarmetsins frá 1939 og 1941 (22,0 stig) - nýja metið var 23,6 stig og 24,0 mældust á sjálfvirku stöðinni við Krossanesbrautina.

Í vissum skilningi heldur metið á Akureyri frá 19. september 1941 sér, nú sem hæsti hiti á Akureyri svo seint á sumri (já, já, það er líka met).

Lauslega að stöðunni í Reykjavík. - Meðalhitinn það sem af er er 13,9 stig. Það er talsvert fyrir ofan það sem hæst hefur verið sömu daga síðustu 60 árin rúm, en nánast það sama og í september 1939. Það ár er ásamt 1941 aðalkeppinauturinn um nýtt meðalhitamet í september. Síðara árið tók gríðarlegan sprett eftir miðjan mánuð (samanber 22 stigin á Akureyri) og verður erfitt við að eiga þó að fyrstu 10 dagarnir þá hafi verið nærri 2 stigum kaldari en sömu dagar nú.

En hvernig eru svo framtíðarhorfurnar? Um þær má segja að þær séu einkennilegar.

Sem stendur er nefnilega spáð norðanáhlaupi fyrri hluta næstu viku. Þar sem nú nálgast miður september mætti helst reikna með slydduhreti og frostmarkskulda af þeirri átt. Svo bregður hins vegar við að hitinn í „hretinu“ minnir frekar á júlíkast heldur en eitthvað sem kemur þegar dregur að jafndægrum. En séu spár teknar bókstaflega fer hiti niður í meðallag hér í Reykjavík um miðja vikuna. Þó norðanáttin sé hlý slær hún samt mjög á möguleika mánaðarins í metaslagnum. En enn lengri spár gera aftur ráð fyrir hita yfir meðallagi - hvað svosem er að marka þær.

 


Slóði mælakvarðana

Eftirlitsmenn með veðurstöðvum eru nú á leið um hálendið til að sannreyna kvörðun mælitækja. Eitt af því sem þeir gera er að hita mæla upp í um 20 stig og kæla niður í um 20 stiga frost um leið og samanburður er gerður við tæki sem þeir hafa með sér. Stöðvar sem þeir heimsækja taka allar þessa sveiflu og senda hana frá sér í gagnagrunn Veðurstofunnar. Þar eru þær hreinsaðar út en ekki samstundis. Tölurnar komast því gjarnan inn á hámarks- og lágmarkslista á vefnum um tíma. Vanir notendur ættu í flestum tilvikum að geta greint villur af þessu tagi frá raunverulegum athugunum. Kvörðun af þessu tagi er mjög mikilvæg í rekstri stöðvanna.

Önnur villa er algeng í þessum listum. Óskiljanlegur galli í sjálfvirku veðurstöðinni á Stórhöfða í Vestmannaeyjum veldur því að hitinn hrekkur stundum fyrirvaralaust í tölurnar 19 stig og 1 stig. Þessar tölur lenda gjarnan inni á útgildalistanum en á misáberandi hátt. Sé hámarks- eða lágmarkshiti á stöðinni annað hvort 19 eða 1 stig á að hafa varann á.

Fleiri stöðvar eru erfiðar, en þeim er haldið utan við listana.


Veðurbók frá Álandseyjum

Álandseyjasafnið (Ålands museum) minntist aldamótanna strax árið 2001 og gaf út bókina Ålands väder under 1900-talet eftir Göran Stenlid prófessor í plöntulífeðlisfræði við sænska landbúnaðarháskólann í Uppsölum. Stenlid á rætur að rekja til Álandseyja, sonur þekkts baráttumanns fyrir réttindum eyjaskeggja, Nandor Stenlid (sjá).

Þetta er ekki löng bók en fróðleg engu að síður. Hún rekur árstíðasveiflu veðurlags á eyjunum og helstu áhrifaþætti hennar, rifjar upp helstu veðuratburði aldarinnar og tíundar auðvitað helstu met. Þótt höfundurinn telji veðurfarsbreytingar af manna völdum ekki ólíklegar man hann sjálfur hlýindin á fjórða áratugnum og sömuleiðis hina ísaldarkenndu vetur á stríðsárunum, 1940, 1941 og 1942. Hann minnir á að þrátt fyrir hlýindi kunni vetur af þessu tagi að liggja í leyni á þessari öld líkt og hinum fyrri.

Hér á landi varð ekkert vart við stríðsáraharðindin úti í Skandinavíu, Rússlandi og víðar um Evrópu. Þessir vetur voru hér mildir eða jafnvel hlýir. Stundum gustaði þó um landann á þessum tíma.

Metatöflur Stenlid eru miðaðar við höfuðborg Álandseyja, Mariehamn. Hæsti hiti sem þar mældist á 20. öld var 31,3 stig, 23. júlí 1951, en mesti kuldi -32,9 stig 15. febrúar 1979. Meðalhiti ársins er 5,2 stig, það er svipað og hefur verið hér í Reykjavík síðustu 10 árin. Árstíðaspönn hitans (hlýjasti - kaldasti mánuður) er 19,1 stig. Mörkin milli meginlands- og úthafsloftslags eru gjarnan talin vera um 20 stig. Álandseyjar eru því á mörkunum, í Reykjavík er árstíðaspönnin síðustu 10 árin aðeins 11,4 stig og nær hér á landi mest 14,3 stigum á Grímsstöðum á Fjöllum.

Af þessu má ráða að mun hlýrra er á Álandseyjum á sumrin heldur en hér á landi, en kalt er þar á vetrum. Breytileiki milli ára er geysimikill á Álandseyjum, sérstaklega að vetrarlagi.


Tyggjum enn fleiri septembermet

Veðurþættir eru fleiri en hiti. Þar á meðal eru loftþrýstingur, úrkoma, snjóhula o.s.frv. Allir veðurþættir eiga sín met en stundum er erfitt að leita þau uppi eða þá að mikil óvissa er með mælingar.

Daglegar loftþrýstimælingar eru aðgengilegar hér á landi aftur til 1.mars 1822. Talsvert er einnig til af eldri mælingum en kvörðun þeirra er óvissari. Ein mæling á dag er ekki líkleg til að veiða lágþrýstimet því djúpar lægðir eru oft krappar og berast hratt yfir. Loftþrýstimælingar eru ætíð miðaðar við sjávarmál.

Lægsti loftþrýstingur sem mælst hefur í september hér á landi er 952,9 hPa. Það var í ofboðslegu illviðri sem gekk yfir þann 20. september aldamótaárið 1900. Lægðin var að uppruna gamall hitabeltisstormur eða fellibylur sunnan úr höfum. Þetta var fyrir tíma nafngifta á hitabeltisstormum. Bandaríska fellibyljastofnunin National Hurricane Center er sífellt að bæta gagnagrunn með upplýsingum um staðsetningu fellibylja og nær grunnurinn aftur til 1851. Þar má sjá að þessi ákveðni fellibylur var númer 2 það árið, við skulum kalla hann einhverju B-nafni, t.d. Boða. Um svipað leyti jafnaði flóðbylgja annars fellibyls borgina Galveston í Texas í rúst og þúsundir manna drukknuðu. Er það mesta manntjón í fellibyl í Bandaríkjunum.

Það síðasta sem skrá fellibyljamiðstöðvarinnar segir af Boða er að hann var staddur á 41,5°N, 49,8°V, kl. 6 að morgni 19. september. Trúlega hefur hann verið kominn lengra en það er reyndar vafasamt að tala um hreyfingar fellibylsmiðjunnar sjálfrar í þessu sambandi heldur fremur hlýloftsins sem fylgir honum. Þannig má vel vera að sjálf miðjan hafi setið eftir meðan hlýja loftið var skorið ofan af og því stolið í lægðina Boða sem fór til Íslands.

Ég fjallaði nokkuð um þennan fellibyl í grein sem birtist í tímaritinu Veðrinu 1977 (sjá tilvitnun neðst í blogginu). Ég hef nú raunar skipt um skoðun á sumu sem þar stendur. Þar að auki eru þrýstitölur á Íslandskortunum í greininni ekki alveg réttar vegna þess að unglingurinn gleymdi í ákafa sínum að leiðrétta fyrir þyngdaraflinu. Tölurnar á kortunum eru því aðeins of lágar. Greinin er aðgengileg á timarit.is.

Lágmarksþrýstingurinn sem nefndur var hér að ofan, 952,9 hPa er morgunathugunin í Stykkishólmi. Næsta öruggt er að þrýstingur hefur verið lægri en þetta á sunnanverðum Vestfjörðum á sama tíma. Ég mun ef til vill tíunda eitthvað af sköðunum síðar á þessum vettvangi.

Þetta gamla met var næstum því slegið 1. september 2002 þegar fádæma djúp lægð, miðað við árstíma, gekk yfir landið. Þýstingur var á þeim tíma mældur ótt og títt víða um land. Ekki er vitað til þess að um hitabeltisstorm hafi verið að ræða, en talsverðir skaðar urðu í veðrinu. Ekkert þó í líkingu við það sem gerðist rúmum eitt hundrað árum áður.

Hæsti þrýstingur sem mælst hefur í september hér á landi er 1038,3 hPa og mældist á Akureyri þann 28. september 1983. September var talinn hagstæður það árið eftir eitt versta sumar sem um getur á Suður- og Vesturlandi. Meðalhiti í september þetta ár var 6,6 stig í Reykjavík.

Tilvísun:

 Trausti Jónsson (1977): Fárviðrislægðin 20. sept. aldamótaárið 1900. Veðrið, 20. árgangur bls.39-42.


Hrúga af veðurvitnum

Á undanförnum árum hefur birst fjöldi greina um veðurfar síðustu eitt til tvö þúsund árin á Íslandi eða hér í grennd. Réttara er þó að segja að um ágiskanir um veðurfar sé að ræða því beinar hita-, úrkomu- og þrýstimælingar ná varla nema um 200 ár aftur í tímann, síðan verður að byggja á svonefndum veðurvitnum (e. proxy data). Eru það mikil fræði og oft heldur ógagnsæ, það svo að erfitt reynist nema fyrir vana að sjá skóginn fyrir trjám. Flest er þó merkilegt, annað stórmerkilegt. Vel má vera að ég reyni að geta einhverra þessara Íslandssögurannsókna hér á blogginu í framtíðinni - ef þrek leyfir. Gallinn er sá að erfitt er að gera þessum hlutum skil án þess að úr verði hræðilegar langlokur sem ekki hæfa vel þeim miðli sem bloggið er.

Hér langar mig aðeins að benda á grein sem fyrir nokkrum dögum birtist í virtu sænsku tímariti, Geografiske Annaler og sumir kannast við. Höfundurinn heitir Fredrik Charpentier Ljungqvist og er titlaður ritari miðaldastofnunar Stokkhólmsháskóla. Í greininni er gerð tilraun (ein af mörgum) til að kreista hitafarssögu norðurhvels út úr veðurvitnaröðum - þetta má heita fjölvitnarannsókn. Tímaritið er aðgengilegt hér á landi í gegnum gáttina hvar.is sem flestir ættu að þekkja. Ég ætla þess vegna ekki að fjalla um niðurstöðurnar hér að öðru leyti en því að hann sér það sem flestir sjá, hlýnun á 20. öld, litlu ísöld, hlýskeið á mið-miðöldum, kuldaskeið fyrstu aldir miðalda og að lokum hlýindi á tímum rómaveldis. Leitað er að þjálum íslenskum nöfnum fyrir þessi skeið.

Lestur þessarar nýju greinar minnti mig á aðra grein sama höfundar í sama tímariti, en það í fyrra (2009). Tilvitnunin er í lok þessa bloggs. Þar tínir hann saman 71 vitnaröð víða frá norðurhveli, sýnir þær allar á myndum og ekki nóg með það heldur eru næstum allar raðirnar aðgengilegar í töfluformi á síðu bandarísku veðurstofunnar. Gúglið: Ljungqvist Temperature Proxy Records, töflurnar eru þá ekki langt undan.

Varla á ég von á því að einhver elti þetta uppi, en mönnum gæti létt við það að sjá að allar (eða nærri allar) raðirnar 71 eru aðgengilegar, þær lengstu frá ári 1 (reyndar núll þótt það sé ekki til) og eins langt og komist verður, lengst til ársins 2000.

Þess má einnig geta að í sama nýja hefti Geografiske Annaler er athyglisverð grein um hitabeltisstorma á Kanaríeyjum, en þar fór slíkur yfir fellibyljaárið mikla 2005. Rýnt er í ámóta atburði á 19. öld.

Tilvitnunin er:

Geografiska Annaler: Series A, Volume 91, Issue 1, pages 11–29, March 2009

nýja greinin:

Geografiska Annaler: Series A, Volume 92, Issue 3, pages 339–351, September 2010


Kíkjum á septembermet 4

Hlý austanáttin á enn nokkra daga eftir (skrifað að kvöldi þess 5. september). Því ekki alveg útséð með hitamet á einstökum veðurstöðvum - en líkurnar minnka eftir því sem líður á vikuna. En þá er spurningin hvort september 2010 hafi ekki aðeins snerpu heldur líka úthald. En hér eru nokkur úthaldsmet:

ár - mánuður (alltaf september)   tala (hér alltaf °C)

1941 hlýjasti mánuður á landinu10,57
1941 hlýjasti mánuður norðaustanlands10,19
1939 hlýjasti mánuður suðvestanlands11,10
 

Hér hefur verið slegið á hvaða septembermánuðir eru þeir hlýjustu og köldustu á landinu í heild og auk þess norðaustan- og suðvestanlands. September 1941 er talinn hlýjastur á landinu og einnig hlýjastur norðaustanlands. Suðvestanlands er það september 1939. Hitar voru þó ekki öllum efstir í huga. Ingibjörg Guðmundsdóttir í Síðumúla skrifaði t.d. um september 1941 að hann hafi ekki verið kaldur. Viðloðandi votviðri voru henni ofar í huga en afspyrnuhlýtt tíðarfar.

Hæsta meðalhitatala sem sést hefur í Veðráttunni (tímariti Veðurstofunnar) í september er 11,9 stig - það var meðalhiti við Rafstöðina við Elliðaár í Reykjavík 1958.

Tiltölulega stutt er síðan sjálfvirkar stöðvar voru settar upp þannig að þær mældu ekki þessa gömlu hlýju septembermánuði (1939, 1941 og 1958). Hæsti meðalhiti á sjálfvirkri stöð í september til þessa mældist á Hallormsstað 1996, þá kom óvenjulega hlýr september á Norður- og Austurlandi, en varð ekki alveg jafn glæsilegur á Suðurlandi. Meðalhitinn á Hallormsstað var 11,3 stig. Stöðvar Vegagerðarinnar mæla einnig hita, en þær eru ekki eins og stöðvar Veðurstofunnar og verður að halda þeim sér. Hæst er meðaltal september 2006 á Steinum undir Eyjafjöllum, 11,5 stig.

Þegar þriðjungur mánaðarins er liðinn verður hægt að fara að fylgjast með hvernig hann stendur sig miðað við aðra septembermánuði. Áhugasömum bendi ég sérstaklega á blogg Sigurðar Þórs Guðjónssonar þar sem hann fylgist með hitapúlsinum.

 


Er hitametahrinan liðin hjá?

Metahrinu dagsins hafa verið gerð ágæt skil á bloggi Sigurðar Þórs Guðjónssonar og verður það sem þar stendur ekki endurtekið hér. Yfirlit kemur vonandi á vef Veðurstofunnar þegar hrinan er örugglega liðin hjá.

En er hún liðin hjá nú þegar? Hið fádæma hlýja loft sem verið hefur yfir landinu undanfarna þrjá daga eða svo er að komast norður af og við tekur loft sem er um það bil 5 stigum kaldara. Það eitt og sér gerir að ný met eru ólíkleg á morgun - sunnudag. Síðan hlýnar heldur aftur - en ekki verður um alveg jafn hlýtt loft að ræða og ríkt hefur undanfarna daga.

En við rétt skilyrði geta met þó enn fallið um vestan- og suðvestanvert landið. Septemberhitametið í Reykjavík er ekki nema rétt rúm 20 stig. Loftið um helgina kom hitanum norðanlands i nærri því 25 stig. Tveggja til fimm stigum kaldara loft getur þannig kreist hitann í Reykjavík upp í stigin 20, ef skilyrði eru hagstæð að öðru leyti.

Hver eru svo þau hagstæðu skilyrði? (a) Það verður að vera þurrt þegar hámarkið kemur. (b) Það verður helst að vera sólskin. (c) Áttin verður að vera nærri austri - helst aðeins norðan við það - þá nýtur niðurstreymis Esjunnar að einhverju leyti. (d) Það verður helst að vera almennt niðurstreymi yfir svæðinu - það tekst helst liggi þrýstilínur í hæðarbeygju.

Hvort þessum skilyrðum verði fullnægt næstu daga er erfitt um að spá. Þurrkur fylgir almennu niðurstreymi og því fylgir einatt sól og liðir (a), (b) og (d) eru því ekki alveg tölfræðilega óháðir. Það þrengir metagluggann að ekkert sólskin er að nóttu. Rétta vindáttin - verður hún til staðar ef hin atriðin verða það?

Þótt líkur á nýju Reykjavíkurmeti séu minni en fyrir nokkrum dögum eru þær ekki núll - e.t.v. sambærilegar við það að íslenska landsliðið í knattspyrnu vinni stórþjóð. Þar eru líkurnar ekki núll fyrr en leiknum er lokið. Þessum leik lýkur sennilega í bili um eða eftir miðja viku.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 140
  • Sl. sólarhring: 268
  • Sl. viku: 1714
  • Frá upphafi: 2350341

Annað

  • Innlit í dag: 79
  • Innlit sl. viku: 1528
  • Gestir í dag: 76
  • IP-tölur í dag: 75

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband