Hálfur desember

Hálfur desember. Meðalhiti í Reykjavík fyrri hluta desember er +0,2 stig, -0,9 stigum undir meðallagi sömu daga 1991 til 2020 og -0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Hitinn raðast nú í 14. hlýjasta sæti aldarinnar (af 23). Á þeim tíma var fyrri hluti desember hlýjastur árið 2016, meðalhiti þá +6,3 stig, kaldastur var hann 2011, meðalhiti þá -3,4 stig. Á langa listanum er hiti nú í 82. sæti (af 150). Hlýjast var 2016, en kaldast 1893, meðalhiti þá -5,9 stig.

Á Akureyri er meðalhiti fyrri hluta desember -4,4 stig er það -4,2 stigum neðan meðallags áranna 1991 til 2020 og -3,3 stig neðan meðallags síðustu tíu ára. Við eigum daglegar hitamælingar á Akureyri aftur til 1936. Á þeim tíma hefur fyrri hluti desember aðeins þrisvar verið kaldari en nú. Það var 1950, 1936 og 2011.

Hita er nokkuð misskipt milli landshluta. Að tiltölu hefur verið hlýjast á Suðausturlandi. Þar raðast hitinn í 14.hlýjasta sæti aldarinnar, en á Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og á Miðhálendinu er fyrri hluti mánaðarins sá næstkaldasti á öldinni.

Miðað við síðustu tíu ár hefur verið hlýjast á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, hiti +0,9 stigum ofan meðallags, en kaldast hefur verið á Sauðárkróksflugvelli þar sem hiti hefur verið -4,8 stig undir tíuárameðaltalinu.

Úrkoma hefur nokkuð rétt úr kútnum um landið sunnanvert síðustu daga. Hún hefur nú mælst 33,4 mm í Reykjavík og er það um þrír-fjórðu hlutar meðallags. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 14,1 mm og er það um 40 prósent meðaltals. Á Dalatanga er úrkoman um þriðjungur meðallags.

Sólskinsstundir hafa mælst 22,1 í Reykjavík og er það um 15 stundum fleiri en í meðalári og það næstmesta frá upphafi mælinga (fleiri stundir mældust sömu daga í fyrra). Á Akureyri hafa stundirnar mælst 1,1 (sem er reyndar ofan meðallags), en alveg sólarlaust er við mælistöðina á Akureyri frá u.þ.b. 8. desember þar til um 4.janúar.

Langtímaveðurspár hafa verið sérlega óvissar undanfarna daga. Veðurkerfi þau sem eiga að ráða veðri hér í næstu viku hafa verið ýmist í ökkla eða eyra og hita- og vindafari hér á landi spáð út og suður. Enn óvissari hafa spár fyrir Skandinavíu verið. Lægðum jafnvel spáð metdjúpum - og sömuleiðis hafa metsterkar hæðir sést í þeim. Það sem líklega veldur allmiklum hluta þessarar óvissu er veðurkerfi sem nú er að verða til suður í Mexíkóflóa.

w-blogg161223a

Hér má sjá spá um stöðuna á hádegi í dag. Kerfið er að verða til. Eftir að það skilar sér úr Flóanum ættu spár að ná mun betri tökum á því og verða áreiðanlegri. Lægðin á að fara til norðausturs með austurströnd Norður-Ameríku og vera komin hingað seint á þriðjudag eða miðvikudag - en hreinast ekki alveg austur af fyrr en á fimmtudag eða föstudag. En enn er óvissa mikil eins og áður sagði. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

 • w-blogg230424
 • Slide10
 • Slide8
 • Slide6
 • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (24.4.): 263
 • Sl. sólarhring: 416
 • Sl. viku: 1579
 • Frá upphafi: 2350048

Annað

 • Innlit í dag: 234
 • Innlit sl. viku: 1437
 • Gestir í dag: 231
 • IP-tölur í dag: 223

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband