Fyrir 200 árum

Við skulum nú okkur til hugarhægðar líta 200 ár aftur í tímann. Hvernig var veðrið þá um miðjan maí? Sumarið 1820 hóf Jón Þorsteinsson að athuga veður og mæla í Reykjavík á vegum vísindafélagsins danska. Skömmu síðar flutti hann út á Seltjarnarnes og athugaði í Nesstofu (sem enn stendur). Árið 1833 flutti hann aftur inn til Reykjavíkur og settist að við Ránargötu - þar sem kallað var doktorshús - en það mun nú horfið. 

Árið 1839 kom út í Kaupmannahöfn bók með veðurathugunum Jóns og úrvinnslu úr þeim. Bókin nær til tímabilsins 1.mars 1823 til júlíloka 1837 og er hún fáanleg á netinu. Við flettum upp athugunum síðari hluta maímánaðar 1823 (frá og með 13.) og er myndin hér að neðan klippa úr ritinu (myndin verður læsilegri sé hún stækkuð með smellum):

jon-thorst-1823-05-13-utg-danska-visindafjel-1839

Hér þarf trúlega nokkurra skýringa við. Mælt var einu sinni á dag, hér kl.8 að morgni (væntanlega um kl. 9:30 eftir okkar klukku). Lesið er af þremur mælum, kvikasilfursloftvog, hitamæli á lofvoginni og útihitamæli. Loftvogin var kvörðuð í frönskum tommum (27,07 mm) og línum. Hver lína 1/12 hluti tommu. Hægt var að lesa brot úr línu. Hitamælar voru með Reaumur-kvarða (°R). Suðumark vatns er við 80°R og hvert stig því 1,25°C. Vindátt og vindhraði voru athuguð og sömuleiðis veður og skýjahula. 

Upphaflegar bækur Jóns eru á Landsbókasafninu og þar sjáum við að athuganir á vindi og skýjum eru lítillega einfaldaðar í prentuðu útgáfunni. En lítum nú á dálkana - fyrirsagnir eru á latínu (eins og reyndar öll bókin):

1. Dagsetning (í maí 1823).

2. Aflestur af loftvog (franskar tommur og línur (PL)).

3. Hiti á loftvog (°R). Leiðrétta þarf fyrir hita loftvogarinnar - kvikasilfrið þenst út við aukinn hita. Samkomulag er um að telja loftvogir „réttar“ við frostmark (0° á bæði R og C-kvörðum). 

4. Loftvog leiðrétt til 0°R (franskar tommur og línur). Þessa tölu reiknaði Jón ekki - heldur útgefendur bókarinnar (eða þrælar þeirra). Ekki er hér leiðrétt fyrir hæð yfir sjó og ekki heldur til samræmds þyngdarafls (45°N). Ef einhver lesandi reiknar (sér til gamans) yfir í hPa þarf að bæta 3-4 hPa við. 

4. Hitamælir á staur norðan Nesstofu, um það bil fet frá jörðu. Hér þarf að athuga sérstaklega að formerki er einungis sett þegar það breytist. Fyrsta talan sem nefnd er er -2, tölur næstu daga, 3, 3 og 4 eru einnig mínustölur, það er frost alla þessa daga. Þessi háttur var algengur í veðurathugunum langt fram eftir 19. öld (og jafnvel lengur) og veldur oft vandkvæðum við tölvuskráningu þessara mælinga - mikillar aðgæslu er þörf. Við vitum ekki nákvæmlega hvers konar mælir það var sem Jón notaði, en líklega var hann eins og flestir mælar þessa tíma, stærri en gengur og gerist nú á tímum. Það er því ekki víst að Jón hafi þurft að beygja sig mjög við aflestur. Mælirinn var ekki í skýli. Þó Jón hafi gætt þess að sól skini ekki á mælinn nærri aflestrartíma er samt hætt við að fyrirkomulagið (stutt til jarðar og skýlisleysi) valdi því að hiti verður nokkuð ýktari heldur en í nútímaskýlum eða hólkum. Þetta á sérstaklega við í björtu veðri (bæði að degi og að nóttu). Sömuleiðis er óæskilegt að mælirinn blotni mjög - það vill lækka hita (vegna gufunarvarma sem „stolið“ er af mælinum. 

5. Vindátt er hér skammstafaður upp á latínu (sept=norður, oc=vestur, or=austur, mer=suður),  norðaustur verður þá sept or.

Vindstyrks er ekki getið nema hann sé nokkur og þá með tölu, 2 = blástur, 3 = stormur). Við sjáum að norðanstormur er þann 16. og gaddfrost, daginn eftir er norðvestanstormur (sept oc) og þá snjóaði og rigndi (nix & pl.).

6. Síðasti dálkurinn er ásýnd himins, sömuleiðis í latneskum skammstöfunum. Jón notar enga latínu, bara dönsku og gerir greinarmun á snjó og snjóéljum - sem útgefendur gera ekki í listunum, (nix = (snjór, slydda, snjóél), pluvia (eða pl) = (rigning, súld), seren = (heiðskírt eða bjart veður), nubes (skýjað), obd (alskýjað/þykkvíðri)).

Við sjáum að mjög kalt var dagana 13. til 18., frost hafði verið alveg frá þeim 8. og hélt áfram til 16. Þann 19. hlýnaði og var mjög hlýtt til mánaðamóta. Hiti var hæstur þann 27. 15°R = 19°C. Besta veður í raun alla dagana 21. til 27. - en síðan rigndi. 

Þessa slæma maíhrets gætti um land allt. Það kom ofan í til þess að gera hlýjan vetur. Um veðurlag ársins og helstu tíðindi má auðvitað lesa í pistli hungurdiska: Af árinu 1823.

Þeir sem vilja rifja upp veðurlag ársins 1923 geta gert það líka með því að fletta pistli hungurdiska um árið 1923 eða íslenskri veðurfarsbók (timarit.is). Þá gerði líka mjög slæmt hret í maí - með mannsköðum á sjó og ýmsum vandræðum á landi. M.a. varð alhvítt í Reykjavík. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svo skal böl bæta að benda á eitthvað verra. 1823 ríkti litla ísöld, kaldasta skeið síðustu 10.000 ára (Holocene) á Íslandi. 2023 ríkir meint óðahlýnun á Íslandi, samkvæmt trúarritum Veðurstofunnar og íslenskra stjórnmálamanna. Loftslag er sínuslaga, ekki línulaga.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 17.5.2023 kl. 17:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband